EfniTitill

Tillaga um að skólasálfræðingar hafi aðsetur í skólum og heyri undir skólastjórnendur

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar skólaþjónustu hafi aðsetur í þeim skólum sem þeir sinna.

Einnig er lagt til að skólasálfræðingar heyri undir skólastjórnendur sem ákvarði í samráði við nemendaverndarráð verkefnalista sálfræðings án miðlægra afskipta.

Fjarlægð skólasálfræðinga frá skólunum dregur úr skilvirkni. Biðlisti til skólasálfræðinga er í sögulegu hámarki. Nú í janúar 2021 bíða 837 börn ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu. Barn bíður mánuðum saman eftir að hitta skólasálfræðing og foreldrar hafa upp til hópa ekki hugmynd um hver sálfræðingur skólans er.

Með því að færa aðsetur sálfræðinga til skólanna væru þeir í daglegri tengingu við börnin og kennara og yrðu hluti af skólasamfélaginu. Skilvirkni yrði meiri og þjónusta við börnin betri. Þverfaglegt samstarf sálfræðinga á þjónustumiðstöð gæti haldið áfram engu að síður, nú t.a.m. einnig í gegnum fjarfundabúnað.

Lagt er jafnframt til að yfirboðarar skólasálfræðinga verði skólastjórnendur en ekki þjónustumiðstöðvar. Enda þótt nemendaverndarráð hafi áhrif á verkefnalista sálfræðingsins, er nærtækast að skólastjórnendur og nemendaverndarráð stýri beiðnum til skólasálfræðingsins. Fram hefur komið hjá einstaka skólastjórnendum að þeir upplifi að þeir fái litlu ráðið um forgang mála til sálfræðings, jafnvel í brýnum málum.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í upphafi kjörtímabils tillögu um að aðsetur skólasálfræðinga færðist út í skólana og hefur margrætt þetta allar götur síðan. Umræðan hefur engu skilað. Skólasálfræðingar koma ekki oftar út í skólanna til að vera hluti af skólasamfélaginu. Nær öll snerting skóla við skólasálfræðinga er í gegnum Þjónustumiðstöðina.

Skólasálfræðingarnir þurfa að komast í mun betri tengsl við börnin bæði í tíma og rúmi og einnig þurfa samskipti þeirra og tengsl við skólastjórnendur og skólasamfélagið að verða nánara. Allt of langt er á milli skólastjórnenda og kennara og skólasálfræðinga. Alls konar flækjustig er í gangi. Ef skólastjóri er sem dæmi ósáttur, kvartar hann við sinn yfirmann sem ræðir við yfirmann skólasálfræðings o.s.frv. Þetta skapar óþarfa hindrun og lengir samskiptaleiðir sem bitnar fyrst og síðast niður á börnunum. Með því að fá skólasálfræðingana inn á gólf er flestum svona hindrunum rutt í burt. Sáfræðiþjónusta skóla getur aldrei verið almennilega með puttann á púlsinum á meðan fyrirkomulagið er með þessum hætti.

Börnin og foreldrar þekkja ekki skólasálfræðinginn. Dæmi eru um að foreldrar og börn hafi aldrei séð skólasálfræðinginn. Dæmi er einnig um að foreldrar vissu ekki að sálfræðingar væru í leik- og grunnskólum borgarinnar. Til að sinna verkefnum koma þeir í flugumynd og ná þar af leiðandi ekki að vera sýnilegir börnum og foreldrum. Halda mætti allt eins að það væri markmið skóla- og frístundasviðs og þjónustumiðstöðva að fela skólasálfræðinga, kannski til að hlífa þeim við frekara áreiti sem er sannarlega mikið í ljósi þess að 800 börn eru á biðlista. Ef upp koma brýn mál þar sem óskað er eftir því að skólasálfræðingur sitji fundi með foreldrum með skömmum fyrirvara er það oft einfaldlega ekki hægt.

Í þessari tillögu leggur fulltrúi Flokks fólksins jafnframt til að skólinn sjálfur (skólastjórnendur og nemendaverndarráð) haldi utan um verkefnalistann og stýri alfarið röðun tilvísana. Framkvæmdin nú er þannig að umsjónarkennari/foreldra vísa máli barns til nemendaverndaráða telji þeir að barn þurfi sérstaka aðstoð vegna fötlunar, sjúkdóms eða námslegra, félagslegra eða tilfinningalegra erfiðleika. Það er því nærtækast að nemendaverndarráð stýri sjálft beiðnum til sálfræðinga eða annarra fagfólks sem sinnir viðkomandi skóla en ekki utanaðkomandi aðili.

 

Lang eðlilegasta fyrirkomulagið er að skólarnir forgangsraði sjálfir málum sínum til fagaðila skólanna frekar en það sé gert á þjónustumiðstöðvum eða miðlægt. Enginn þekkir betur barnið, líðan þess og atferli en foreldrar og kennarar, sem og starfsfólk skólans. Skóli á ekki að þurfa að eiga það við einhverja utan skólans ef barn þarf að komast strax til skólasálfræðings. Miðlægt vald getur aldrei áttað sig eins vel á þróun mála barns en skólinn sjálfur sem er í beinu og milliliðalausu sambandi við foreldra.

Fjölga þarf sálfræðingum í skólum

Til að taka á biðlistavandanum fyrir alvöru þarf stöðugildum sálfræðinga skóla að fjölga. Öðruvísi verður ekki tekið á mörg hundruð barna biðlista. Tilvísunum hefur fjölgað með tilkomu COVID-19. Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum skólasálfræðinga um þrjú og einnig talmeinafræðinga um tvö, var AFTUR felld í desember s.l. Fyrir skóla með meira en 400 nemendur er þörf fyrir allt að 100% sálfræðingi.

Hlutverk skólasálfræðinga er fjölþætt þótt þeir stundi ekki hefðbundna meðferð. Þeir annast skimanir og  greiningar sem  kennari, skólasálfræðingur og foreldrar telja nauðsynlegt að framkvæma til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvaða og hvernig náms- og félagslegt úrræði barnið þarf í hverju tilviki. Önnur verkefni, ekki síður mikilvæg sem þeim ber að sinna, er stuðningur og ráðgjöf til barna, kennara og foreldra auk fræðslu eftir ósk skólans. Í núverandi fyrirkomulagi virðist sem skólasálfræðingar sinni aðeins greiningarþættinum. Börnum er vísað annað í viðtöl og þá tekur aftur við bið. Hluti af starfi skólasálfræðings á að vera að sinna viðtölum bæði fyrir og eftir greiningar í þeim tilfellum sem greininga er þörf. Það eru engin meðferðarúrræði eins og t.d. viðtöl af hálfu þjónustumiðstöðvar, eingöngu skilafundur eftir greiningar.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu árið 2019 um að skólasálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundarsvið til að komast í betri tengingu við skólasamfélagið, börnin og kennarana. Eðlilegast væri því að skólasálfræðingar skólanna heyrðu undir undir skóla- og frístundaráð en ekki velferðarráð/svið sem hún er í dag. Með því að skólasálfræðingar heyri undir skóla- og frístundaráð/svið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt enda stuðningur við börn og ungmenni í skólastarfi og allt utan um hald þá undir sama þaki ef svo má segja.

Tillagan var felld.

Meirihlutinn í borgarstjórn, velferðarráði og skóla- og frístundaráði hunsar ákall skólastjórnenda sem kom skýrt fram í  skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019. Þar segir að skólastjórnendur upp til hópa vilja að  sálfræðingar komi meira inn í skólanna til að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að stytta biðlista. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna.

Nokkrir hagnýtir þættir

Pláss:
Í einhverjum skólum þar sem húsnæði er sprungið gæti reynst erfitt að finna skólasálfræðingnum aðstöðu. En það er vandamál sem vel er hægt að leysa ef allir leggjast á eitt. Skólasálfræðingur þarf stól og borð og dæmi eru um að sálfræðingur noti aðstöðu hjúkrunarfræðings þegar hann er ekki í skólanum.

Samstarf við heilsugæslu:
Sálfræðingar eru vissulega á heilsugæslustöðvum en þar er margra mánaða bið. Í flestum skólum eru því miður mjög takmörkuð samskipti við heilsugæsluna þrátt fyrir að hjúkrunarfræðingur af heilsugæslustöð sé um leið skólahjúkrunarfræðingur.

Í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu, eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma, ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Foreldrar sem gefist hafa upp á að fá aðstoð fyrir barn sitt hjá skólasálfræðingi hafa stundum þurft að kaupa sálfræðiþjónustu, þar með talda greiningu frá sálfræðingi úti í bæ. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt, og því sitja börnin ekki við sama borð hvað kemur að tækifærum til að fá þá þjónustu sem þau þarfnast.

Vandinn er þess utan mismikill eftir hverfum sem þýðir að það fer eftir því í hvaða hverfi þú býrð hvort barnið þitt komist til skólasálfræðings eftir mánuð eða eftir eitt ár. Með þessu er verið að mismuna börnum eftir því hvar þau búa. Er komið að því að foreldrar þurfi að huga að hvort þessi þjónusta sé til staðar fyrir barnið þeirra þegar ákveða skal hvar í borginni fjölskyldan vill búa ? Aðgengi að sálfræðiþjónusta barna á hvorki að vera háð efnahag eða búsetu.

 

Borgarstjórn 19. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 11. janúar 2021 um stofnun Aðgengissjóðs Reykjavíkur:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst það hið besta mál að Reykjavíkurborg sé með framlag í stofnun aðgengissjóðs. Víða er pottur brotinn í þessum efnum í borginni. Hins vegar finnst fulltrúa Flokks fólksins ekki vera mikið samræmi í ákvörðunum meirihlutans sem lúta að því auka og bæta aðgengi hreyfihamlaðra í borginni. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 13. janúar var tillögu Flokks fólksins um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum þeirra sem notast við hjólastóla og göngugrindur felld. Slík úttekt er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Reykjavíkurborg hefur ekki staðið sig vel í þessum efnum. Nærtækast er að horfa til almenningssamgangna. Á flestum biðstöðvum strætó er aðgengi og yfirborð ófært fólki í hjólastólum. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir meiri samkvæmni hjá meirihlutanum í þessum málum. Borgaryfirvöld þurfa að vinna þéttar með fyrirtækjum og verslunum til að bæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 11. janúar 2021, þar sem erindisbréf starfshóps um hröð orkuskipti Reykjavíkurborgar og fyrirtækja hennar er sent borgarráði til kynningar:

Lögð eru fram erindisbréf starfshóps um Evrópusamstarf um kolefnishlutlausa og snjalla Reykjavík 2030, starfshóps um græn innkaup, starfshóps um hringrásarhagkerfið í Reykjavík og starfshóps um hröð orkuskipti Reykjavíkurborgar. Í öllum þessum erindisbréfum kemur fram að hóparnir megi kaupa ráðgjöf. Það vekur upp spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins þegar strax í upphafi, í erindisbréfum, sé það talið mikilvægt að nefna að heimilt sé að kaupa utanaðkomandi ráðgjöf. Sporin hræða og hér vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að það þarf að sýna aðhald. Verið er að sýsla með fé borgarbúa. Ráðgjöf utanaðkomandi verktaka t.d. við endurbyggingu braggans kostaði mikið en skilaði litlu. Um slíkt eru fjölmörg dæmi hjá þessum meirihluta. Hér er almennt verið að vinna tímabær verkefni, og ekki er amast við því, en það vekur spurningar hvers vegna strax í upphafi þarf að nefna það að kaupa megi utanaðkomandi ráðgjöf. Er ekki hægt að byggja upp þekkingu á svona mikilvægum málaflokknum innan borgarkerfisins?

 

Bókun Flokks fóksins við skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, ódags., um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1.

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur sem nauðsynlegt er að draga lærdóm af og gera nauðsynlegar breytingar í stjórnkerfinu til að hægt sé að fyrirbyggja að svona gerist aftur og til að stjórnvöld og embættismenn geti gripið inn sé grunur um að öryggi sé ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til áður að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að fá ríkari heimildir, þar með talið til að gera átak gegn hættulegu húsnæði með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið verði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist þá ekki eiga frumkvæði að því að fá auknar lagaheimildir. Ekki hafa fengist nákvæm svör við því enn.

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, sbr. 23. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hvernig innleiðing eineltisstefnu og verklags, samþykkt 2019 hefur gengið, afrakstur stýrihóps sem fulltrúi Flokks fólksins leiddi. Sjá má á svari að innleiðing er í gangi en hefur gengið hægt. Til stóð að búa til myndband til kynningar en ekki fékkst til þess fjármagn. Fram kemur að verkefnið er strandað hjá starfshópi um fræðslu og starfsþróun m.a. vegna þess að í mars 2020 komu ábendingar frá Vinnueftirliti um að uppfæra þyrfti verkferilinn með breytingum sem lúta að „óformlegri meðhöndlun máls“. Má skilja þetta svo að Vinnueftirlitið hafi viljað hafa hinn óformlega verkferil aðskilinn frá hinum formlega og ef svo er hverjar eru ástæður þess? Þetta er fremur óskýrt að mati fulltrúa Flokks fólksins en til glöggvunar fyrir lesendur, þá er óformlegur verkferill sem dæmi þegar þolandi velur að ræða við meintan geranda milliliðalaust; þegar þolandi leitar óformlegra ráða hjá yfirmanni, trúnaðarmanni, mannauðsþjónustu eða fulltrúa eineltis- og áreitniteymis eða þegar hlutverk stjórnanda/mannauðsráðgjafa/fulltrúa eineltis- og áreitniteymis kannar hvort hægt sé að miðla málum án þess að málið fari í formlegt feril. Út af stendur þegar svarið er lesið að innleiðing nýrrar stefnu og verklags gengur hægt og hefur mætt ýmsum hindrunum.

 

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfisssviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og nýtingarhlutfall, sbr. 22. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. nóvember 2020.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að vita um nýtingarhlutfall á gjafamiða í Borgarleikhúsið sem var jólagjöf frá borginni 2019. Nýting 2019 var 70%. Segir að ánægja hafi ríkt með jólagjöfina. Eðlilegt er að ánægja sé með gjöfina meðal starfsfólks. Þetta er jólagjöf. En einmitt þess vegna hefði fulltrúi Flokks fólksins haldið að nýting hefði verið meiri. Heil 30% nýttu ekki gjöfina þrátt fyrir mikla ánægju með hana.

 

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og Tjarnarbíó:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um jólagjöf Reykjavíkurborgar til starfsmanna 2018 og 2019 og Tjarnarbíó. Jólagjöfin til starfsmanna borgarinnar síðustu ár hefur verið gjafabréf í Borgarleikhúsið einungis. Nýting 2019 var 70%. Þessi tvö leikhús, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó eru bæði styrkt af borginni. Segir í svari að það sé flókin framkvæmd að bjóða upp á val á milli Borgarleikhúss og Tjarnarbíós þar sem um er að ræða tvo mismunandi rekstraraðila. Það finnst fulltrúa Flokks fólksins frekar ótrúlegt. Minnsta mál hefði verið að bjóða upp á val og myndu aðilar síðan senda reikning til borgarinnar. Tjarnarbíó er gamalt og rótgróið menningarhús með fjölbreyttar leiksýningar við allra hæfi eins og Borgarleikhúsið þannig að engin ástæða er til að gera upp á milli þessara tveggja staða.

Bókun Flokks fóksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 11. janúar 2021, við fyrirspurn um áætlaðan kostnað borgarinnar við styttingu vinnuvikunnar árið 2021, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. nóvember 2020.

Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni. Forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki erað breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verði óbreyttur.Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk. Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnun þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Að óbreyttu mun stytting vinnuskyldu vaktavinnufólks, úr 40 í 36 virkar stundir, hafa veruleg áhrif á starfsemi margra starfsstaða og svokallað mönnunargat myndast. Til að bregðast við því á kostnaður vegna yfirvinnu að lækka og mæta á mönnunargatinu á dagvinnutíma samkvæmt svari sem lagt er hér fram.

 

Bókun Flokks fólksins við við svari fyrirspurna Flokks fólksins er varðar lausra/tómar íbúður Félagsbústaða:

Spurt var um: Hversu margar íbúðir losnuðu hjá Félagsbúðstöðum á þessu og síðasta ári, ástæður þess að þær losna, hve margar íbúðir voru lausar í september 2020 og hvað hafa þær verið lausar lengi. Einnig var spurt um hvenær fara íbúðir sem eru lausar núna í útleigu og hversu langur tími líður frá því að íbúð losnar og þar til að hún er leigð út aftur. Að lokum var spurt af hverju standa íbúðir Félagsbústaða lausar svo mánuðum skiptir. Það sem er sérstakt í svörum er að mun fleirum íbúðum var skilað 2020 en 2019. Ástæður eru margar og eru þær svipaðar milli ára utan einnar, „flutningur á hjúkrunarheimili“, sem var 20% 2019 en 11% 2020. Ekki eru frekari skýringar birtar um þetta atriði. Í janúar eru 61 íbúð laus og þar af eru 41 í standsetningu. Segir í svari að stefnan er að ekki meira en einn mánuður líði frá standsetningu og þar til hún er leigð út. Fulltrúi Flokks fólksins vill að það komi fram hér að þetta svar samræmist ekki því sem ítrekað hefur verið tekið eftir og það er að íbúðir standa stundum lausar í heilt ár. Á þessu vantar skýringar.

 

Bókun Flokks fóksins við við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 13. janúar 2021. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13.-17. lið:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem berast umhverfis- og skipulagssviði og mikilvægt að skoða hvað veldur. Kvartað er yfir að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Nefna má dæmi úr Úlfarsárdal sem er nýlegt hverfi. Þar hefur fjöldi manns fjárfest og ekki rennt í grun að eiga eftir að upplifa það að skipulagi muni verða breytt eftir á.  Í sakleysi sínu flytur fólk inn og því verið sagt að ef byggt verði við hliðina á eða fyrir framan þá verði hús ekki hærra en X. En það næsta sem skeður er að hús er byggt sem er hærra en ákveðið hafði verið í skipulagi. Einnig eru kvartanir vegna synjana án sýnilegra raka t.d. stækkun glugga, framkvæmd sem engin hefur mótmælt og hefur ekki áhrif á umhverfið. Einnig kvartanir vegna synjana á framkvæmd sem fordæmi eru fyrir í götunni.

 

Bókun Flokks fóksins við fundargerðir stjórnar SORPU bs. frá 12. og 20. nóvember og 8., 16. og 30. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið:

Fundargerðir SORPU eru nú aðeins ítarlegri en áður var. Loksins hefur eitthvað verið hlustað, en fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bókað um rýrar fundargerðir SORPU. Það er miður hvað mikið þarf til, til að farið er að lagfæra það sem betur má fara. Er það ekki umhugsunarefni fyrir stjórn SORPU?

Bókun Flokks fólksins við lið 3 í yfirliti um embættisafgreiðslur:

Erindi Vegagerðarinnar um Arnarnesveg er ákveðið áfall. Það er miður að sjá að fara eigi í verkútboð áður en heildarmynd þessa verks er skoðuð og áhrifin sem framkvæmdin mun hafa. Vegagerðin biður um framkvæmdaleyfi. Um leið og framkvæmdir eru hafnar er ekki aftur snúið. Margsinnis hefur verið beðið um nýtt umhverfismat á Vatnsendahvarfinu. Án þess að niðurstaða fáist í það, á engu að síður að byrja á verkinu. Í aðalskipulagi er stefna um einstök gatnamót eða nýjar samgönguframkvæmdir oft sett fram með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats (og þá frumhönnunar mannvirkja). Eftir því sem næst er komist gæti það átt við um þessi gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Þ.e. ef niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fara þurfi fram nýtt umhverfismat, þýðir það að setja þarf fram skýran fyrirvara við umrædda hönnun vegarins (þ.e. ef nýtt umhverfismat getur leitt í ljós aðra útfærslu og þá leitt til nýrrar breytingar á aðalskipulaginu). Ef hins vegar það verður niðurstaðan að ekki þurfi nýtt umhverfismat, er hægt að setja fram umrædda tillögu  um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar án fyrirvara, skv. upplýsingum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað. Í bréfi Vegagerðarinnar er ekki minnst á neina fyrirvara, greinilega í trausti þess að eldra umhverfismatið gildi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu til að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði könnun á hvort og þá hvaða áhrif stytting vinnuvikunnar hefur á börnin, starfsmenn og starfið í leikskólum. Þetta er lagt til í ljósi þess að forsenda Reykjavíkurborgar á styttingu vinnuviku hjá dagvinnufólki er að breyting á skipulagi vinnutíma megi ekki leiða til breytinga á launum starfsfólks eða launakostnaði starfsstaða þrátt fyrir að opnunartími verður óbreyttur. Það er sérkennilegt að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem að með styttingunni eykst álag á starfsfólk vegna undirmönnunar sem stytting vinnuviku leiðir til. Þetta er í andstöðu við boðun meirihlutans sem er að halda vel utan um starfsfólk. Þar sem engin viðbót verður á starfsfólki og starfsemin ekki styrkt með aukamönnum þarf hver og einn að hlaupa hraðar til að fá að fara einu sinni í viku fyrr heim. Góð þjónusta við börn byggir m.a. á að fjöldi stöðugilda sé í samræmi við fjölda barna og kröfur sem starfsemin gerir til starfsfólksins. Álag á starfsfólk kemur niður á því sjálfu, börnunum og utanumhaldi starfseminnar. Stytting vinnuvikunnar er frábær kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð og að fólk finni sig undir allt of miklu álagi þá tíma sem það er í vinnunni.

Greinargerð

Til að tryggja trúverðugleika er mikilvægt að könnun sem þessi verði gerð af óháðum aðilum. Meta þarf áhrif styttingar vinnuvikunnar (bæði kosti og galla) á börnin, starfsmenn og starfið á hlutlausan og faglegan hátt.
Þeir sem tekið hafa þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar hafa lýst ánægju sinni með verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði þessu verkefni og batt ávallt vonir við að það myndi verða til framtíðar. Engar upplýsingar hafa þó borist um að styttingin hafi haft einhver áhrif á faglegt starf, öryggi og gæði og því ber að fagna. Eðli málsins samkvæmt leiðir stytting vinnuviku til þess að fleiri börn eru á starfsmann sem þýðir minni tími er til að sinna hverju barni fyrir sig og þá sérstaklega þeim börnum sem höllum fæti standa.  Vel kann að vera að þetta jafnist út, að einhverjir  foreldrar sæki einfaldlega börnin sín fyrr t.d. þeir sem vinna sjálfir “styttri vinnuviku”. En það eru margir foreldrar sem eru ekki með styttingu vinnuvikunnar og ef svo er þá er útfærslan oft ólík milli stétta. Því er ekki hægt að stóla á að slík aðlögun/jöfnun verði. Í ljósi alls ofangreinds leggur fulltrúi Flokks fólksins til að skoðað verði með markvissum hætti hvaða áhrif þessi breyting hefur á starfsfólk, starfið og börnin.

Þegar horft er til leikskólanna skiptir stoðþjónustan miklu máli sérstaklega gagnvart börnum sem standa höllum fæti. Stytting vinnuvikunnar hefur í för með sér að hálfan daginn er algjör lágmarksmönnun í leikskólum borgarinnar, mun minni mönnun en barngildin sem borgin venjulega miðar við.  Vissulega er hægt með útsjónarsemi og góðum vilja að halda uppi þokkalegu starfi og þau börn sem standa vel reiðir ágætlega af, þau ná innlögnum og sögustund í stærri hóp og læra eðlileg samskipti í leik. Meira reynir á þegar sinna þarf börnum sem standa höllum fæti; að hafa minni hópa í sögustund, að hafa 3-4 börn í leikfærniþjálfun, að vera með íhlutun fyrir barn með hegðunarvanda, að hafa litla hópa í málörvun eða sinna tilfinningalegum þörfum barnsins sem býr við vanrækslu eða ofbeldi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum um félagslega þætti, svo sem félagslegar íbúðir og menningarstarfsemi, menningarhátíðir, tónlistarhús og leikhússtarfsemi:

Tillaga Flokks fólksins að stofnuð verði útgáfa af byggðasamlögum um félagslega þætti, svo sem félagslegar íbúðir og menningarstarfsemi, menningarhátíðir, tónlistarhús og leikhússtarfsemi. Í ljósi þess hversu meirihlutinn í borgarstjórn er hrifinn af bs. stjórnkerfi, þ.e. byggðasamlögum, leggur Flokkur fólksins til að slíkt kerfi verði allt eins nýtt í kringum félagslegt kerfi eins og félagslegar íbúðir og menningarþætti enda fer fólk gjarnan milli sveitarfélaga til að þiggja þjónustu á þessum sviðum. Bs.-kerfi sem nú eru við lýði hafa virkað illa sem stjórnkerfi við sum stór og kostnaðarsöm verkefni eins sorpúrvinnslu og almenningssamgöngur. Ástæðan er sú að hlutur Reykjavíkur er rýr í stjórnun en ríkur í fjárhagslegri ábyrgð. En skoða mætti að nota slíkt stjórnkerfi til að jafna kostnaðarhlutdeild allra íbúa höfuðborgarsvæðisins við önnur verkefni s.s. menningarverkefni og þess háttar. Reykjavík hefur upp á margt að bjóða sem nágrannasveitarfélög hafa ekki sinnt í sama mæli en geta nýtt að vild án þess að taka nokkra ábyrgð á rekstri. R21010172

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skoðað verði að gera breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að gera breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Í nágrannasveitarfélögum er fyrirkomulagið í þessum efnum bæði betra og sanngjarnara,  þá helst gagnvart einstæðum foreldrum, láglaunafólki og þeim sem mælast undir viðmiði velferðarráðuneytis, einstæðir eður ei. Lagt er til að foreldrar eða forráðamenn barna geti sótt um viðbótarniðurgreiðslu af almennu vistunargjaldi í samræmi við tekjuviðmið sem Reykjavík setur. Niðurgreiðslur gætu annars vegar verið 20% af almennu gjaldi og hins vegar 40%. Í tillögunni felst að til að öðlast rétt til viðbótarniðurgreiðslu sé horft til tekna foreldra, bæði einstaklinga og foreldra í sambúð, sem grundvallast á staðfestu staðgreiðsluyfirliti frá Ríkisskattstjóra síðustu þriggja mánaða. Tekjuviðmið eru reiknuð út frá launavísitölu. Einnig er lagt til að foreldrar með fleiri en eitt barn á sínu framfæri geti sótt um undanþágu frá tekjuviðmiðum ef ráðstöfunartekjur eru rétt fyrir ofan tekjumörk og félagslegar aðstæður viðkomandi eru þannig að rétt sé að meta þörf fyrir undanþágu. Þá skal horfa til fjölda barna í fjölskyldu og greiðslubyrði forsjáraðila vegna þessa. Niðurgreiðslukerfi vegna þjónustu dagforeldra hjá Reykjavíkurborg er lakara en hjá öðrum sveitarfélögum og er tímabært að skoða það með ofangreinda þætti í huga. R21010174

Frestað.

Borgarráð 10. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við Lýðræðisverkefnið Hverfið mitt:

Þetta verkefni er jákvætt en ferlið er býsna flókið, er á mörgum stigum og felur í sér störf fjölda sérfræðinga. Tímaramminn enn of langur. Gott er að vita að ekki er lengur neinn lágmarkskostnaður til að hugmynd komist í kosningu. Áður þurfti verkefni að kosta a.m.k. 1 milljón til þess að fara í kosningu. Viðhaldsverkefni eru ekki lengur „inni“ enn finna þarf skotheldan farveg fyrir þau verkefni. Svo eru allar hugmyndir sem eru ekki tækar. Þær geta  verið mjög áhugaverðar og skemmtilegt að skoða, líka grín hugmyndirnar. Sumir vita ekki að hægt er að sjá allar hugmyndir sem eru ekki tækar á vef borgarinnar. Það svæði er kannski ekki nógu sýnilegt?  Þeir sem eiga ekki tölvur þurfa að fá upplýsingar um að hægt er að senda inn hugmynd með því að hringja.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu mannréttindastjóra dags. 8. janúar 2021:

Mannréttindaskrifstofa leggur til að stofnaður verði samráðsvettvangur Reykjavíkurborgar og trú- og lífsskoðunarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki vera verkefni borgarkerfisins. Leiðtogar trú- og lífsskoðunarfélaga geta hist að vild eins og allir aðrir. Ekki er séð af hverju Reykjavíkurborg ætti að hafa milligöngu um að skapa farveg fyrir trúfélög til að hittast frekar en ýmsa aðra?Hvar á að draga mörkin? Þótt borgin sem slík sé ekki í því hlutverki að skapa einhvern formlegan samráðsvettvang fyrir trú- og lífsskoðunarfélög þá er ekki þar með sagt að borgin eigi ekki að vera í góðu samtali við alla þá hópa sem vilja vera í samtali við Reykjavíkurborg.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu skýrslu húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um eldsvoða að Bræðraborgarstíg 1, 101 Reykjavík – 25. júní

Eldsvoðinn á Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur sem nauðsynlegt er að draga lærdóm af og gera nauðsynlegar breytingar í stjórnkerfinu til að hægt sé að fyrirbyggja að svona gerist aftur og til að stjórnvöld og embættismenn geta gripið inn sé grunur um að öryggi sé ábótavant. Fulltrúi Flokks fólksins telur, í ljósi skýrslunnar, að mikilvægt sé að borgin afli frekari heimilda til inngripa ef ábendingar hafa borist eða rökstuddur grunur liggur fyrir að brunavörnum sé ábótavant. Þar með talið er nauðsynlegt að byggingarfulltrúi, sem hefur sérþekkingu og skriflegar upplýsingar um  aðstæður, fái heimild til að fara inn í hús og sannreyna upplýsingar sem lúta að öryggismálum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til áður að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að því að fá ríkari heimildir þar með talið til að gera átak gegn hættulegu húsnæði með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið verði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist þá ekki eiga frumkvæði að því að fá auknar lagaheimildir? Ekki hefur fengist nákvæm svör við spurningunni.

 

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um úrbætur á merkingum fyrir hreyfihamlaða á göngugötum, sbr. 5. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 10. desember:

Mannréttinda, nýsköpunar- og lýðræðisráð harmar að fatlað fólk hafi orðið fyrir aðkasti gangandi vegfaranda á göngugötum miðborgarinnar er það ekur um á P merktum ökutækjum, sem það hefur fullan rétt til. Ekki má ætla að háttprúðir göngugarpar sem um þessar nýlokuðu göngugötur fara séu það ófyrirleitnir að þeir líði ekki fötluðu fólki að fara um þær. Heldur eru allar líkur á að um upplýsingaskort sé að ræða. Vel útfærð skilti segja til um bann við almennum akstri um göngugötur, en ekkert sést um þá undanþágu sem fatlað fólk á svo sannanlega að njóta. Það mætti ætla að gerð skiltis þar sem vegfarendum er gert ljóst að umferð P merktra ökutækja um göngugöturnar sé heimil sé jafn einföld og kostnaðarlítil og gerð bannskiltisins. Því leggur ráðið til að Mannréttindaskrifstofa Reykjavíkurborgar kanni hvers vegna skilti sem bæði upplýsi og heimili akstur P merktra ökutækja um göngugötur miðborgarinnar hafi ekki verið sett upp um leið og bannskiltin. Óskað er eftir flýtimeðferð þar sem greinilegt er að verið er að brjóta á mannréttindum fatlaðra.

Breytingartillagan er samþykkt samhljóða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillagan fái að eiga líf með ákveðinni breytingu enda er það alvarlegt mál ef fólk verður fyrir aðkasti þegar það er að gera hluti sem það hefur heimild til í lögum. Fullvíst má telja að ástæðan sé sú að fólk hreinlega veit ekki um þessa heimild í lögunum. Nýlega sendi Öryrkjabandalag Íslands bréf til aðgengisnefndarinnar og fór þess á leita að bætt verði úr merkingum við göngugötur í miðbænum þannig að skýrt sé að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi rétt til að aka um umræddar götur. Ganga þarf strax í að merkja þetta með fullnægjandi hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við svar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 17. desember 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þátttöku borgarbúa á fundum íbúaráða, sem vísað var til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum um hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða? Í svari kemur fram að fundir íbúaráða hafa verið í fjarfundarformi og þeim streymt á Facebook-síðu og að jafnaði hafa um 20-50 verið inni á streymi funda íbúaráða hverju sinni. Ef þessar tölur eru bornar saman við fjölda íbúa sem mættu þegar íbúaráðin funduðu með hefðbundnum hætti, þá fylgjast töluvert fleiri með streymi. Þetta finnst fulltrúa Flokks fólksins  ánægjulegt að vita. Ljóst er að fb og netið er að virka vel í þessu sambandi. Vonandi eru íbúaráðin komin til að vera enda hafa þau mikilvægu hlutverki að gegna.

 

 

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi

Farið er yfir viðbrögð við athugasemdir á Aðalskipulagi Reykjavíkur. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna Úlfarsárdal, tillöguna M 22. Fulltrúi Flokks fólksins setur sig alfarið upp á móti því að umræddur reitur verði aðeins atvinnuhúsnæði. Þarna er mikilvægt að byggð verði blönduð. Aðalskipulag á að gilda og er þess vænst að horfið verði frá frekari hugmyndum um að hafa einungis verkstæðisstarfsemi á umræddum reit.

Fulltrúi Flokks fólksins vill hér nefna Arnarnesveginn og ítreka mikilvægi þess að fengið verði nýtt umhverfismat í stað þess að byggt verði á 18 ára gömlu mati. Eðlilegast væri að staða umhverfismats hefði áhrif á tillöguna um 3. áfangann. Meirihlutinn er ekki sammála í þessu máli. Fyrir utan Viðreisn taka fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir, utan fulltrúa Viðreisnar, eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat.

Athugasemdir hafa borist vegna hæð húsa. Þétting byggðar gengur of langt þegar byggt er svo hátt að lokað er fyrir víðsýni víða yfir borgina bæði fyrir vegfarendur og íbúa húsa sem fyrir eru. Kvartanir um þetta eru víða i borginni. Í Mjódd, Glæsibæ og í Úlfarsárdal.

Bókun Flokks fólksins við Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að kvartanir sem hér eru birtar eiga rétt á sér. Þétting byggðar hefur leitt til mikilla þrengsla víða og er áætlað að auka byggingarmagn talsvert. Ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Málið er ekki nýtt og hefur áður komið fyrir skipulagsráð. Nú þegar er skortur á bílastæðum. Reynt hefur verið að ná eyrum skipulagsyfirvalda og snúast áhyggjur fólks einnig að grunnt sé niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Almenn er þröngt um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Það eru ekki allir sem geta nýtt sér bíllausan lífstíl og verða skipulagsyfirvöld að fara að sætta sig við það. Gengið er of langt í fyrirhyggjusemi skipulagsyfirvalda að vilja stýra með hvaða hætti fólk fer milli staða í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins við Brekkustígur 9, Stækkun húss og breyting lóðar og Öldugata 44, Stækkun húss – mhl.1 og mhl.2:

Fulltrúi Flokks fólksins skilur vel óánægju og áhyggjur íbúanna og styður sjónarmið þeirra að hafna skuli því að breyta lóðarmörkum milli lóða Öldugötu 44 og Brekkustígs 9 til að byggja viðbyggingu og nýbyggingu. Fjölmargar athugasemdir hafa borist. Þessu mun fylgja mikil bílaaukningi. Fyrst má nefna að nú eru þarna talsverð þrengsl fyrir. Vandinn er ekki nýr. Þeir sem þurfa að finna bílum sínum stað við hús sín lenda í stökustu vandræðum. Eins og myndir sýna eru göturnar fullar af bílum. Þess utan fellur þetta nýja hús illa að götumyndinni. Þau hús sem fyrir eru, eru lágreist enda um að ræða gamla byggð. Mikilvægt er að hlusta á sjónarmið íbúa.

Bókun Flokks fólksins við Úlfarsbraut 6-8, kæra 139/2020:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem borist hafa úr Úlfarsárdal. Kvartað er yfir að verið sé að breyta gildandi skipulagi eftir á, t.d. minnka bil á milli húsa og byggja ofan á hús sem ekki stóð til að yrðu hærri og þar með skerða útsýni frá næstu húsum. Við skoðun á sumum kærum í gegnum tíðina sem tengjast þessu svæði finnst fulltrúa Flokks fólksins eins og komið hafi verið aftan að fólki í sumum þessara mála. Fólk sem fjárfest hefur í fasteignum í hverfinu hefur ekki rennt í grun að eiga eftir að upplifa það að skipulagi muni verða breytt eftir á. Í sakleysi sínu flytur fólk inn og því verið sagt að ef byggt verði við hliðina á eða fyrir framan þá verði hús ekki hærra en X. En það næsta sem skeður er að hús er byggt sem er hærra en ákveðið hafði verið í skipulagi.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um reglur varðandi rafskutlur, umsögn – USK2020110095

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Sviðið vinnur þegar með aðilunum að því að stuðla að góðri umgengni í kringum tækin. Ákvæði um þetta er að finna í samningum við leigurnar og margar vinna að þessu t.d. með því að láta notendur taka myndir þegar þeir skila þeim. Samstarfið gengur vel og er ekki talin þörf á að gera breytingar á því.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að skipulagssvið borgarinnar útfærði leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Tillögunni er vísað frá og segir að ákvæði um þetta se að finna í samningum við leigurnar. Fulltrúi Flokks fólksins telur að breyta þurfi reglum á þann hátt að skýrt verði hvar megi setja rafskutlur eftir notkun. Bæta þarf einnig innviðina. Víða vantar standa t.d. fyrir utan verslunarmiðstöðvar og skóla. Með bættum innviðum má ætla að umgengni verði betri. Tillagan á því fullt erindi og hefði átt að vera samþykkt. Málið á sér margar hliðar, hjólum fer fjölgandi og líklegt að fleiri verði skilin eftir á víðavangi. Hér þarf að sýna fyrirhyggju. Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að gott samstarf við leigurnar er afar mikilvægt.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um mön við Reykjanesbraut/Blesugróf, umsögn –

Fulltrú Flokks fólksins spurði fyrir íbúa eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig mál standa. Íbúum fannst þeir ekki hafa náð til skipulagsyfirvalda. Í svari segir að forhönnun á umræddri hljóðmön sé nú lokið og kostnaðaráætlun vegna framkvæmda liggi fyrir en ekki liggi fyrir hvenær hægt verði að ráðast í framkvæmdir. Mörgu er því enn ósvarað svo sem hvenær hægt verður að ráðast í framkvæmdir og hver sé ábyrgur fyrir því að koma verkinu af stað.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastólar og göngugrindur:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrindna. Tillagan hefur verið felld. Segir í bókun að hún sé ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.

Þetta þykir fulltrúi Flokks fólksins vera fyrirsláttur. Úttekt af þessu tagi er nauðsynleg og myndi nýtast öllum. Víða er pottur brotinn í þessum efnum. Þeir sem þurfa að styðjast við hjálpartæki eins og hjólastóla og göngugrindur komast sums staðar ekki leiðar sinnar. Betrumbætur ganga of hægt. Segja má sem dæmi að almenningssamgöngur hafa ekki staðið þeim til boða sem notast við hjólastóla. Á biðstöðvum strætó er staðan slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki.

Nýjasta hindrunin er að rafskutlur liggja stundum á miðri gangstétt og er útilokað fyrir fólk með göngugrind eða í hjólastól að komast fram hjá. Það hefði gagnast öllum ef gerð hefði verið úttekt á þessum málum svo hægt væri að sjá hver heildarstaðan er.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er ekki vel afmörkuð og þótt hugmyndin sé fín er erfitt er að ráðast í verkefni á borð við þetta án þess að gera sér grein fyrir umfangi þess.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um EasyPark

Mál nr. US200439

Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur?

Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun?

Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og Bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ráðningu sérfræðinga hjá borginni:

Mál nr. US200440

Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

Spurt er:

Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað?

Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga- magnafslætti?

Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, vegna sameiningar grunnskóla í norðanverðum Grafarvogi

Mál nr. US210006

Fulltrúi Flokks fólksins spyr um hver er staðan á þeim framkvæmdum sem lofað var í framhaldi af lokun Korpuskóla sem áttu að auka öryggi gangandi vegfaranda og nemenda sem þurfa að sækja skóla utan hverfisins?
Gangbrautir eru enn óupplýstar og umferðarhraði er enn of mikill.

Eins vill fulltrúi Flokks fólksins spyrja um hvort það sé ekki óheimilt að nota húsnæði í annað en því var ætlað nema til komi breyting á aðalskipulagi? Ef húsnæði er skipulagt sem skólahúsnæði að þá sé óheimilt að vera með aðra starfsemi í húsinu en skólastarf? Af sama skapi ef húsnæði er skipulagt sem verslunarhúsnæði þá má ekki nota það sem íbúðir nema til komi breyting á skipulagi. Óskað er staðfestingar á þetta sé rétt skilið hjá fulltrúanum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um Hafnartorg

Mál nr. US210007

Hafnartorgið er í hjarta bæjarins. Nú eru þar miklar byggingar og er svæðið kalt ásýndum í ýmsum merkingum. Þarna er vindasamt. Einkaaðilar hafa fengið mikil völd í þessu tilfelli en Reginn er eigandi alls verslunarsvæðisins. Þótt þeir ráði hverjir fái leyfi til rekstur á götum við Hafnartorgi hefur Reykjavíkurborg engu að síður mikið um það að segja hvernig umhverfi Hafnartorgs lítur út. Borgararnir eiga líka rétt á að sjónarmið þeirra um borgina fái að koma fram.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld borgarinnar ætli beita sér til að gera þetta svæði meira aðlaðandi, veðursælla og lygnari stað?

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður talað um líkantilraunir í vindgöngum.

Umræða um vindstrengi í og við Hafnartorg gefa tilefni til að endurtaka þá umræðu enda virðist ekki þörf á. Í líkantilraunum er hægt að mæla hvernig form húsa og staðsetning hafa áhrif á vindstrengi. Sumt byggingarlag ,svo sem þegar hús mjókka upp ( t.d Hallgrímskirkju) lyfta vindinum en kassalaga hús (t.d. Höfðatorg) beina vindi jafnt upp og niður með tilheyrandi vindstrengjum niður við jörð. Tilraunir í vindgöngum geta svarað öllum slíkum spurningum. Lagt er því til að skipulagsyfirvöld í borginni taki upp þess háttar vinnubrögð. Það gæti fyrirbyggt mörg skipulagsslysin.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að lækka hámarkshraða við Korpúlfsstaðaveg

Mál nr. US210008

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að lækkaður verði hámarkshraði við Korpúlfsstaðaveg og að farið verði í að skoða hraðann við stoppistöð milli Brúnastaða og Bakkastaða. Þar er lýsing nánast engin, hraðinn mikill, merkingar nánast engar og þarna er stærsti hópurinn af yngsta stigi að taka skólarútuna á hverjum morgni og koma svo aftur seinni partinn heim. Báðar tímasetningar eru á háanna tíma og þegar umferðin er sem mest og birtan sem minnst. Mælingar sem borgin gerði sl haust til þess að skoða eðli umferðarinnar á veginum voru villandi að mati íbúa. Mælingarnar voru gerða milli Brúnastaða og Garðsstaða þar sem hraðahindranir eru fyrir og merktar gangbrautir.

Skoða þarf þessi mál betur og endurtaka mælingar sem og mæla á fleiri stöðum. Skoða þarf eðli umferðarinnar þegar strætó og eða skólarúta stoppar þarna. Framúrakstur er algengur þrátt fyrir litla „eyju“ milli akreina sem eykur enn hættuna.

Frestað.

 

Skipulagsráð 13. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við erindum sviðsstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, vegna reksturs Laugardalsvallar; vegna  samnings við Skáksamband Íslands; vegna samningsvið Stelpur rokka; vegna tillögu um styrkveitingar ráðsins árið 2021:

Lagðar eru fram í borgarráði tillögur um fjárframlög og samstarfssamninga við félagasamtök að beiðni íþrótta- og tómstundasviðs til samþykktar. Það er allt gott og vel en ekki er hægt annað en að leiða hugann að gegnsæi, samræmingarþáttum, skilvirkum reglum, jafnræði, jafnrétti og mannréttindum þegar teknar eru ákvarðanir um styrki og samstarfssamninga. Það eru til reglur um alla þessa hluti og er því velt upp hvort þær reglur taki á ábyrgðarhlutverki aðila er varðar skil styrkþega á greinargerðum um hvernig styrkfé hefur verið varið líkt og kveðið er á um í reglum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt um þetta áður. Eftirlitshlutverk þarf að vera skýrt t.d. gagnvart fjármálaskrifstofu hvað varðar skil á greinargerðum. Hvernig er fjárhagslegu innra eftirliti háttað með samstarfs- og þjónustusamningum? Eru til skriflegir verkferlar um eftirlitsaðgerðir og skilgreindar aðgerðir við brotum á samningum? Styrkir hafa vaxið og má spyrja hvort samræmi sé milli sviða. Er skýrt t.d. hvað á að teljast til styrkja en ekki fjárhagsaðstoðar? Enda þótt reglum sé fylgt þá útfæra sviðin þær hvert á sinn hátt og þá má velta fyrir sér hvort útfærsla sé mjög mismunandi. Fulltrúi Flokks fólksins mun samhliða þessari bókun leggja fram ofangreindar fyrirspurnir formlega.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 21. desember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 16. desember 2020 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar stefnu um íbúðabyggð:

Ein af breytingartillögum í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 – stefna um íbúðabyggð, sem hér er lögð fram, snýr að Arnarbakkanum. Stækka á núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit fyrir íbúðarbyggð. Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur fram hjá skóla og er þröngur. Í því standi sem hann er nú ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla- og hjólaumferð tengjast áformunum. Staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum. Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess. Bent er á að hjólastígar eiga að fylgja hæðarlínum eins og unnt er. Allt of oft eru þeir lagðir upp og niður brekku og stundum þannig að kröpp beygja er við enda brekku, sem er afleitt fyrir hjólreiðafólk.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á átaksverkefninu sumarborgin 2020:

Kynningin birtir mat og ímynd sem ákveðinn hópur vill koma á framfæri. Fullyrt er að miðborgin sé allra en það hafa rannsóknir ekki sýnt. Fólk í úthverfum og landsbyggðarfólk kemur sjaldnar og sjaldan í bæinn. Fulltrúi Flokks fólksins viðurkennir að hafa ekki verið daglega í miðbænum í sumar til að sjá allt það líf og fjör sem þar er sagt að hafi verið. Aðrir segja að bærinn hafi verið ansi tómur nema kannski þegar smá sólarglæta braust í gegn. Tíðrætt er um gott samstarf en staðreyndin er sú að hópur hagaðila tóku ekki þátt í verkefnunum af óánægju og vonbrigðum yfir hvernig skipulagsyfirvöld komu fram við þá. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ef umræðan á að vera trúverðug þarf hún að tengjast raunveruleikanum. Umræðan er gengisfelld með því að ofurfegra allt og sífellt tala um blóm og bekki eins og það sé aðalmálið. Viðhorfið sem birtist í könnun Maskínu endurspeglar ekki þann raunveruleika sem birst hefur t.d. í fjölmiðlum. Rætt var m.a. við rekstraraðila Máls og menningar og fjölmarga aðra sem sögðu að reksturinn hafi verið orðinn þungur fyrir COVID því sölutölurnar fylgdu lokunum gatna. Fulltrúa Flokks fólksins fannst niðurstöður Maskínu túlkaðar með einkennilegum hætti og ekki tókst að fá skýringar hjá Maskínu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. janúar 2021, þar sem áætlun um útgáfu skuldabréfa fyrir fyrri hluta ársins 2021 er send borgarráði til samþykktar:

Staðan í fjármálum borgarinnar hefur versnað mikið eðli málsins samkvæmt vegna COVID. Skuldaaukning verður nú enn meiri til að mæta þessu óvænta áfalli og var hún slæm fyrir. Jafnvel þótt útsvar sé í hæstu hæðum og hafi verið lengi þá eru skuldir borgarinnar það líka. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af biðlistum barna eftir fagþjónustu. Viðhaldi skólabygginga er ábótavant og biðlistar eru eftir sértæku húsnæði svo fátt sé nefnt. Vel má spyrja hvort Reykjavík sé að fylgja sveitarstjórnarlögum þegar horft er á hversu illa gengur að veita grunnþjónustu. Skóla- og velferðarþjónusta er vaxandi þáttur vegna COVID og eru sviðin nú þegar komin langt fram úr áætlun. Árum saman hefur ríkt ákveðið bruðl og hefur almannafé verið sóað. Nefna má ferðir erlendis og háar upphæðir hafa farið í alls konar önnur verkefni sem margir hafa kallað gæluverkefni. Á meðan bíða hundruð barna eftir nauðsynlegri þjónustu sem borgin á að veita! Vissulega þarf að taka einhver lán til framkvæmda og nú skiptir öllu að skapa atvinnutækifæri. En lántaka er lántaka. Ávallt kemur að skuldadögum. Fyrsta skrefið hlýtur að vera að meirihlutinn gæti hófs í fjármálum borgarinnar og leggi áherslu á þjónustu við fólkið fyrst og fremst. Út á það gengur „samfélag“.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar Flokks fólksins um afstöðu íbúaráða við tillögu um að íbúaráðin finni leiðir til að auka samvinnu við stofnanir í hverfum þeirra, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að íbúaráðin fyndu leiðir til að auka samvinnu við stofnanir í hverfum þeirra. Tillagan var send til allra íbúaráða og óskaði fulltrúi Flokks fólksins eftir afstöðu íbúaráðanna til tillögunnar eftir að um hana var fjallað á fundum ráðanna. Í svari er ekki að finna neitt beinlínis um afstöðu ráðanna til tillögunnar annað en að efni hennar sé eitt af skilgreindum hlutverkum íbúaráða og að tillagan hafi fyrir einhverja virkað sem hvatning um að gera betur. Því ber vissulega að fagna. Eftir stendur að ekki liggur fyrir hvort eða með hvaða hætti samvinna íbúaráðanna við stofnanir í hverfum þeirra er háttað í þeim tilfellum þar sem um einhverja samvinnu er að ræða þ.e.a.s. Sem dæmi væri forvitilegt að vita hvernig samvinnu og samstarfi íbúaráðs Breiðholts er háttað við stofnanir og fyrirtæki í Breiðholti og hversu mikil sú samvinna er.

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar um plast sem sent hefur verið til endurvinnslu erlendis, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020.

Ekki er hægt að gera athugasemdir við að plast sé brennt þegar bruninn er orkugjafi í t.d. hitaveitum. Fram kemur í svari við spurningu 3 að SORPA samanstandi af 6 sveitarfélögum sem öll hafa sína stefnu í úrgangsmálum. Svar SORPU vekur upp spurningar um hvernig sorpsöfnun er háttað. Ef öll sveitarfélögin safna með mismunandi hætti, ætti að kanna með rannsókn hvaða söfnunaraðferð er best. Eða hver er annars ástæðan fyrir mismunandi aðferðum?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 21. desember 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á ýmis málefni sem betur megi fara í Úlfarsárdal. Íbúar hafa ekki náð eyrum borgaryfirvalda um nokkur mikilvæg atriði. Kvartað hefur verið yfir hættulegum aðstæðum á byggingarsvæðum og rusli. Umferðaröryggi hefur verið ábótavant. Gangbrautarmerkingar og fullnægjandi lýsingu hefur vantað og eru börnin sem sækja Dalskóla talin vera í hættu vegna skorts á lýsingu við gangbrautir. Einnig kemur fram hjá íbúum að það þurfi að bæta við gangbrautum. Bent hefur verið á hringtorg sem er fyrir framan skólann skapi slysahættu því erfitt er fyrir þá sem koma akandi að átta sig á hvort um raunverulegt hringtorg er að ræða. Nauðsynlegt er að ljúka gerð göngustíga og lýsingu þeirra þar sem þess er þörf, t.d. þeirra sem liggja úr hverfinu niður að Dalskóla og liggja yfir Lofnarbrunn og Úlfarsbraut. Fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum að það sé veghaldara að ákveða hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúa. Eiga gagnbrautir að vera gangbrautir aðeins ef veghaldari segir svo, annars bara gönguþverun? Og ef það er gönguþverun þarf þá ekki að vera skilti? Auðvitað eiga íbúar að hafa um þetta að segja. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að hlusta á sjónarmið íbúanna.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Miðborgar og Hlíða frá 9. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið 2:

Lagt er fram erindi eins íbúa í hverfinu, dags. 25. nóvember 2020, um áskorun um afnám bílastæðagjaldsvæðis á svæði A til J. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tekin eru til umræðu og athugunar erindi frá íbúum enda ætti það að vera eitt helsta hlutverk íbúaráða. Fyrirspurnir þessa íbúa sem hér um ræðir eru vel þess virði að skoða og sjálfsagt að setja þær í farveg. Í þessu sambandi mætti skoða að leyfa íbúa að hafa frían aðgang að bílastæðahúsum en sum hver eru langt því frá að vera fullnýtt t.d. að nóttu. Bílastæðahús ættu að vera opin allan sólarhringinn. Almennt séð ættu staðaríbúar að hafa einhverja sérstöðu með aðgang að bílastæðahúsum. Staðreyndin er sú að ekki allir eru hjólandi og ávallt verða einhverjir sem velja og þurfa vegna aðstæðna að ferðast um á einkabíl. Einhver staðar þarf það fólk að leggja bíl sínum þegar heim er komið. Betra er að leggja bílnum í bílastæðahús en í götustæði.

 

Bókun Flokks fólksins við fundagerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 16. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið 2:

Sá harmleikur sem átti sér stað þegar efri hluti hússins á Bræðraborgarstíg 1 brann rennur fólki sennilega aldrei úr minni. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun í lið 4 í fundargerð íbúaráðsins: „að á svo viðkvæmum stað ættu hagkvæmnissjónarmið og söluágóði ekki að leiða til aukins nýtingarhlutfalls á lóðinni og að nágrannar eiga sinn rétt á að haldið sé í hið friðaða umhverfi sem þeir keyptu eign sína í og hafa ötullega tekið þátt í að viðhalda.“ Mest um vert er að borgaryfirvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að sporna við að viðlíka atburður endurtaki sig. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til í júlí að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið yrði eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillagan var felld með þeim rökum að borgina skorti lagaheimildir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur spurt hvort meirihlutinn hyggist ekki fara fram á auknar lagaheimildir til að gera átak gegn hættulegu húsnæði en hefur ekki fengið nein viðbrögð við því, enn.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 16. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið 3:

Fjölmargir sætta sig ekki við hvernig áætlað er að leggja 3. áfanga Arnarnesvegar en styðjast á við 18 ára gamalt umhverfismat. Framkvæmdin mun hafa áhrif á umhverfið og framtíðarmöguleika svæðisins. Þörf er á endurgerð umhverfismatsins. Allar forsendur hafa breyst og á skipulagi er Vetrargarður þar sem er vinsæl skíðabrekka ofan Jafnasels. Nú liggur fyrir að meirihlutinn utan Viðreisnar styður og hefur tekið undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem gagnrýndur er skortur á upplýsingum svo hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Í bókuninni þeirra segir: Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum til að hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar. Fulltrúarnir eru auk þess sameinaðir í þeirri skoðun að farsælast væri að framkvæma nýtt umhverfismat (https://reykjavik.is/fundargerdir/fundur-nr-44-3). Ljóst má þykja að meirihlutinn í borgarstjórn er klofinn í máli þessu og sætir það tíðindum. Ef ekki verður gert nýtt umhverfismat fer fulltrúi Flokks fólksins fram á að rökstutt verði með gildum rökum hvað réttlæti þessa framkvæmd. Ekki dugir endalaust að fela sig bak við þau rök að ekki megi spyrja um afstöðu borgarfulltrúa til málsins eins og borgarfulltrúar Viðreisnar hafa gert hingað til.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 7. desember 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:

Ofbeldi gegn öldruðum er alvarlegt mál og því miður berast fregnir af slíkum tilfellum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar bæklingnum enda mikilvægt að safna gögnum með reglulegu millibili um svo viðkvæmt og alvarlegt mál. Hér á landi er ekki til ákveðin stefna um málefni aldraðra þegar kemur að ofbeldi og vanrækslu. Yfir öldruðum og öðrum viðkvæmum hópum er mikilvægt að stjórnvöld og samfélagið allt standi saman vaktina. Ef horft er til rannsókna má sjá að 2-10% aldraðra eru þolendur ofbeldis. Ofbeldi gegn öldruðum getur verið andlegt og líkamlegt og stundum er það í formi vanrækslu. Fulltrúi Flokks fólksins styður tillögur s.s. að útbúið verði upplýsingaefni fyrir aldraða um heimilisofbeldi. Samstarf heilsugæslu, þjónustumiðstöðva og Landspítala er brýnt til þess að freista þess að flest mál komi fram í dagsljósið og hægt verði að fylgja þeim eftir með fullnægjandi hætti. Ofbeldi/heimilisofbeldi er falinn vandi. Eldri borgarar sem beittir eru ofbeldi kunna að upplifa skömm og vanmátt og kjósa því að leyna því ofbeldi sem þeir verða fyrir. Á þeirra uppvaxtarárum var ofbeldi almennt ekki mikið rætt og fræðsla afar takmörkuð. Sumir eldri borgarar gera sér jafnvel ekki grein fyrir að verið er að beita þá ofbeldi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlangingu á yfirliti yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 22 mál. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið:

Þann 1. desember sl. samþykkti Velferðarvaktin að beina því til stjórnvalda, bæði ríkis og sveitarfélaga, að hafa ákveðnar áherslur að leiðarljósi í þeim mótvægisaðgerðum sem fram undan eru vegna COVID-19. Lagðar voru fram allmargar tillögur og tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þær allar og þá sérstaklega tillögu um að sveitarfélög og ríki vinni stefnumótun og aðgerðaáætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.a. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Einnig er sérstaklega tekið undir eftirfarandi tillögur: Að aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu verði bætt. Að niðurgreiðslur vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna sem búa við fjárhagsþrengingar verði auknar. Að börnum sem búa við fjárhagsþrengingar verði tryggðar ókeypis skólamáltíðir. Að biðlistum eftir þjónustu fyrir börn til sálfræðinga, talmeinafræðinga og eftir geðrænni þjónustu verði útrýmt. Að unnið verði markvisst að því að draga úr brotthvarfi úr námi, m.a. með auknu aðgengi að skólaheilsugæslu, geðheilbrigðisþjónustu og félagsráðgjöf. Að börn sem eiga foreldra með geðrænan vanda, fíknivanda og eða langvinna líkamlega sjúkdóma fái aukinn stuðning við hæfi frá nærsamfélaginu. Að unnið verði að því með sérstökum aðgerðum að sporna gegn félagslegri einangrun og einmanaleika aldraðra sem orðið hafa vegna COVID-19.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda dómsmála frá árinu 2018 sem Reykjavíkurborg hefur höfðað og fjölda dómsmála frá árinu 2018 sem Reykjavík á aðild að sem stefndi:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir fjölda dómsmála frá árinu 2018 sem Reykjavíkurborg hefur höfðað og fjölda dómsmála frá árinu 2018 sem Reykjavík á aðild að sem stefndi. Óskað er eftir sundurliðun á málum eftir niðurstöðu þeirra. Einnig er óskað eftir sundurliðun á málum eftir efni þeirra og tegund, svo sem hvort um er að ræða bótamál, innheimtumál, mál þar sem deilt er um lögmæti stjórnvaldsákvarðana o.s.frv. Einnig er óskað svara við eftirfarandi spurningum: Hver er heildarfjárhæð krafna sem Reykjavíkurborg hefur verið dæmd til að greiða og hver er heildarfjárhæð þeirra krafna sem Reykjavíkurborg hefur krafist viðurkenningar á og dómstólar hafa fallist á? Hve mörg dómsmálanna eru barnaverndarmál og lögræðismál (flýtimeðferðarmál)?

Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um jafnræði og mannréttindi sem og ábyrg þegar kemur að ákvörðun um styrkveitingar:

Lagðar eru fram í borgarráði tillögur um fjárframlög og samstarfssamningar við félagasamtök af ÍTR til samþykktar. Óskað er svara við eftirfarandi spurningum: Hvernig er séð til þess að gætt sé að samræmingarþáttum milla sviða/greina, hvort reglur séu skilvirkar, hvort gætt sé jafnræðis, jafnréttis og mannréttinda við ákvörðun styrkja og samstarfssamninga? Taka reglur um styrkveitingar og samstarfssamninga t.d. á ábyrgðarhlutverki aðila er varðar skil styrkþega á greinargerðum um hvernig styrkfé hefur verið varið líkt og kveðið er á um í reglum? Er eftirlitshlutverk skýrt t.d. gagnvart fjármálaskrifstofu hvað varðar skil á greinargerðum? Hvernig er fjárhagslegu innra eftirliti háttað með samstarfs- og þjónustusamningum? Eru til skriflegir verkferlar um eftirlitsaðgerðir og skilgreindar aðgerðir við brotum á samningum? Er skýrt t.d. hvað á að teljast til styrkja en ekki fjárhagsaðstoðar? Enda þótt reglum sé fylgt þá útfæra sviðin þær á sinn hátt og þá má spyrja hvort útfærsla sé mismunandi.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að núverandi meirihluti endurskoði áherslur sínar í ljósi þess að stór hluti útsvars fer í eitthvað allt annað en beina þjónustu við borgarbúa

Flokkur fólksins í borgarstjórn leggur til að núverandi meirihluti endurskoði áherslur sínar í ljósi þess að stór hluti útsvars fer í eitthvað allt annað en beina þjónustu við borgarbúa. Útsvar Reykjavíkurborgar er eins hátt og lög leyfa. Engu að síður er þjónusta við borgarbúa víða ábótavant. Við búum í samfélagi þar sem samneysla er grunnurinn. Við borgum útsvar til að halda uppi grunnþjónustu, lögbundinni þjónustu og annarri sem við teljum nauðsynlega til að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Skóla- og velferðarþjónusta er stærsti þátturinn í þjónustu borgarinnar enda útilokað að lifa áhyggjulausu lífi ef grunnþættir velferðar og menntunar eru ekki til staðar. Jafnvel þó útsvar sé í hæstu hæðum þá eru skuldir borgarinnar það líka. Á sama tíma bíða um 800 börn eftir þjónustu fagfólks skóla, helmingur þeirra eftir fyrstu þjónustu. Viðhaldi skólabygginga er ábótavant. Umræða um heilsuspillandi skemmdir í Fossvogsskóla er reglubundin og verður æ áleitnari. Fram að COVID mátti víða sjá bruðl og sóun á almannafé í algeran óþarfa t.d. ferðir erlendis, borgarstjóri, hans fylgdarsveinn og sægur embættismanna og kostaði þetta tugi milljóna króna. Háar upphæðir fóru í alls konar önnur verkefni sem margir hafa kallað gæluverkefni. Á meðan bíða hundruð barna eftir nauðsynlegri þjónustu sem borgin á að veita!

Greinargerð

Nú er seinni hluti þessa kjörtímabils hafinn og margir hafa áhyggjur af því hvernig meirihlutinn mun skilja við að kjörtímabilinu loknu. Sumar ákvarðanir meirihlutans hafa verið teknar á ófullnægjandi grundvelli en eru óafturkræfar og því verður ekki hægt að laga mistökin þegar næsta borgarstjórn tekur við. Skipulagsmál hafa sætt mikilli gagnrýni af borgarbúum. Sjá má t.d. Hafnartorg, sem þykir kalt og óaðlaðandi. Þarna samþykkti meirihlutinn skipulag sem felur í sér að á torginu myndast vindgöng sem fæla í burtu vegfarendur. Þá var hellulögn á torginu gölluð en það tók marga mánuði að bæta úr ástandinu.
Lántaka er lántaka. Ávallt kemur að skuldadögum. Jafnvel þótt lán séu hagstæð nú er ekki víst að svo verði áfram. Þessi og síðasti meirihluti hefur ekki gætt hófs og ekki sýnt fjármálum borgarinnar tilhlýðandi virðingu. Það mátti sjá skýrt í skýrslu innri endurskoðunar um Braggann í Nauthólsvík og endurgerð hans.

Þessi meirihluti hefði einnig geta gert mikið meira til að flýta fyrir orkuskiptum, hvatt íbúa og stutt við bakið á þeim að skipta yfir í vistvæn farartæki. Tillögur Flokks fólksins í þeim efnum hafa mætt daufum eyrum. Vel mætti skoða að þeir sem aka raf-, metan og tvískiptum bílum greiði ekki stöðugjald í bílastæðahúsum í miðbænum. Bæði yrði það hvatning að skipta yfir í vistvænt farartæki og einnig að reyna að laða landann til að koma miðsvæðis og þar með styðja við þær verslanir sem þar eru eftir og veitingastaði sem eru að reyna að þrauka Covid. Meiri hluti borgarstjórnar þarf að víkka áherslur sínar þegar kemur að grænum lausnum og taka tillit til ólíkra sjónarmiða.

Skipulagsstefna meirihlutans hefur einkennst af því að þrengja og þétta íbúabyggð. Afleiðingarnar eru víða slæmar. Ákveðinn hluti borgarinnar t.d. niður við Nýlendugötu og Skúlagötu er dimmur og óaðlaðandi. Útsýni úr blokkum þar nær aðeins inn í  stofu eða herbergi hjá næsta nágranna. Smáar íbúðir eru auk þess á þessu svæði svo dýrar að aðeins þeir betur settu fjárhagslega hafa efni á þeim. Hvar eru allar hagkvæmu íbúðirnar sem átti að byggja? Þétting byggðar er ekkert annað en tilraun til að afla peninga á sem skemmstum tíma. Enda þótt þétta megi víða byggð þarf að gæta hófs í því sem öðru og í því verður einnig að vera einhver skynsemi. Það verður áhugavert að sjá hverjar afleiðingarnar verða af því að byggja blokkir ofan í hver aðra á sem minnstu flatarmáli. Við vitum vel hvaða áhrif það hafði á félagsmál í Breiðholti þegar blokkir voru byggðar ofan í hver aðra til þess að þjappa sem flestu fólki á sama stað. Svo þröng byggð dregur úr samfélagsmyndun og eykur félagslega einangrun eins og gerst hefur í einu hverfi í Breiðholti. Þá eykst einnig álag á samfélagslega innviði, allt frá skólum niður á veitukerfi.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021 og fimm ára áætlun borgarinnar var afgreidd á fundi borgarstjórnar 15. desember sl. Í áætlununum birtist forgangsröðun borgaryfirvalda við úthlutun fjármagns í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og er tillaga um endurskoðun hennar, nú hálfum mánuði síðar, ekki tæk til afgreiðslu. Henni er því vísað frá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna frávísunar tillögunnar:

Tillögu Flokks fólksins þar sem lagt er til að núverandi meirihluti endurskoði áherslur sínar í ljósi þess að stór hluti útsvars fer í eitthvað allt annað en beina þjónustu við borgarbúa, hefur verið vísað frá. Rökin eru þau að fjárhagsáætlun sé ákvörðuð og engu er hægt að breyta. Þetta er miður ef horft er til þess að ekki er verið að sinna þörfum barna með viðunandi hætti. Ekki er vilji hjá þessum meirihluta að gera neitt fyrir þau börn sem eru á biðlista, hundruð barna. Er þetta það samfélag sem meirihlutinn í borgarstjórn vill sjá? Þörfum okkar viðkvæmustu barna er ekki sinnt með viðunandi hætti, börn með andlega vanlíðan eru látin bíða eftir aðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins telur að vel kunni að vera að hér sé verið að brjóta lög, sveitarstjórnarlög. Ekki er verið að fylgja Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Enda þótt nýlega sé búið að samþykkja fjárhagsáætlun þá var hún samþykkt með eins manns meirihluta. Allar tillögur er lutu að aðstoð við börn, t.d. fjölgun á stöðugildum sálfræðinga voru felldar eða vísað frá. Auðvitað er alltaf hægt að endurskoða mál, laga það sem verður að laga.

Borgarráð 7. janúar 2021

Bókun Flokks fólksins við kynningu um  tillögur starfshóps um Virknihús og verkefnastjórn virkniúrræða ásamt fylgigögnum:

Talað er um „hús“, virknihús, sem er villandi ef þetta er hvorki „hús“ né deild eða eining. Þetta er samt meira en teymi? Ef þessar tillögur draga úr flækjustigi kerfisins, hagræða, einfalda og flýta fyrir afgreiðslu þá er það gott. Eins og þetta er kynnt virkar þetta ekki mjög skýrt. Gott væri að með fylgdi dæmi um t.d. hvernig þessi útfærsla snýr að einstaklingnum. Ráða á teymisstjóra og fleiri í kjölfarið. Fulltrúi Flokks fólksins óttast kostnað vegna yfirbyggingar sem oft á það til að ofvaxa.

Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort komið sé enn eitt kerfið,  við hlið Keðjunnar? Hvernig á þetta að spila saman því ekki á „virknihúsið“ að heyra undir Keðjuna heldur skrifstofu ráðgjafarþjónustu alla vega í fyrstu en ekki er ljóst í framhaldinu hvað það verður í skipuriti.  Hefði ekki verið einfaldara að fela einhverjum tveimur starfsmönnum velferðarsviðs að sinna þessari samþættingu frekar en að setja á laggirnar enn eina nýja yfirbyggingu? En það er fulltrúa Flokks fólksins að meinalausu að styðja þessa tillögu í þeirri von að hún leiði til gagns og einföldunar fyrir notendur.

Bókun Flokks fólksins við kynning á greiningarvinnu um skólaþjónustu.

Ekkert er út á tölfræðina að setja en hún má þó ekki verða þannig að ekki sé hægt að sjá skóginn fyrir trjám. Hinn langi biðlisti barna er ólíðandi. Samkvæmt nýjum vef sem sýna lykiltölur eru tæp 800 börn á bið, um helmingur eftir fyrstu þjónustu. Tvennt sem slær utan langs biðlista er hversu mikill munur er eftir hverfum. Það kæmi ekki á óvart að foreldrar leiti sér að húsnæði þar sem staðan er góð í skóla hverfsins hvað varðar aðgengi að skólasálfræðingi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynslu úr starfi hvað felst í svokallaðri fyrstu þjónustu. Oft er það aðeins eitt stutt viðtal og svo fer barn aftur á langan biðlista eftir „meiri“ þjónustu. Málum er forgangsraðað eftir alvarleika. Mál sem eru ekki flokkuð sem bráðamál getur orðið það á sekúndubroti sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Flestar tilvísanir eru vegna málþroskavanda og einbeitingarvanda sem er vísbending um ADHD. Það sárvantar fleiri fagaðila til að mæta þessum kúfi. Tillögur um fjölgun stöðugilda fagaðila hefur verið felld. Bíða á eftir frumvarpi sem á að samþætta þjónustuna. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 15. lið fundargerðar velferðarráðs þann 2. desember 2020, um að brúa bilið milli kynslóða með reglulegum og markvissum hætti:

Tillagan hljóðaði svona:
Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að brúa bilið milli kynslóða, eldri borgara og barna. Við getum lært svo mikið hvert af öðru,  fullorðnir af börnum og börn af fullorðnum. Hægt er að finna alls konar flöt á samskiptum og samveru eldri og yngri kynslóðarinnar. Tala saman, fara eitthvað saman eða gera eitthvað saman. Lagt er til að leitað verði leiða til að auka samskipti yngri og eldri, barna og eldri borgara til að efla gagnkvæman skilning og virðingu og umfram allt eiga ánægjulegar stundir. Nota má leik- og grunnskólana og félagsmiðstöðvarnar í þessum tilgangi.

Vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá.

Bókunin:
Tillaga Flokks fólksins um að brúa bil milli kynslóða með reglulegum og markvissum hætti hefur verið vísað frá með þeim rökum að þetta sé verið að gera. En það liggur einfaldlega ekki ljóst fyrir. Það er ein setning um þetta í  Stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022 svohljóðandi „starf á félagsmiðstöðvum stuðli að tengingu milli kynslóða“ .  Fulltrúi Flokks fólksins langar að sjá nánar hvernig þetta er að virka í reynd. Í framhaldinu mun fulltrúi Flokks fólksins fram spurningar um hvað margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðla að tengingu milli kynslóða og í hverju felst það starf nákvæmlega?

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 24. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um svör þjónustumiðstöðva við erindum borgarbúa.

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvað er velferðarsvið að gera til að tryggja að þjónustumiðstöðvar svari erindum borgarbúa? Ástæða spurningarinnar var að borist hafði ábending frá þjónustuþega sem ítrekað hefur reynt að ná til einnar þjónustumiðstöðvar vegna mála er varðar heimaþjónustu og heimahjúkrun. Fólk á auðvitað ekki í neyð sinni að þurfa að hafa samband við borgarfulltrúa til að fá áheyrn velferðarkerfis borgarinnar. Í svari kemur fram að ýmsar leiðir séu til, til að ná eyrum þjónustumiðstöðva. Skiljanlega þykja stjórnendum ekki skemmtilegt að frétta að fólki er ekki sinnt sem skyldi og erindum ekki svarað. Það mál sem vísað er í hér að ofan er enn óleyst þrátt fyrir frekari ítrekun. Það er að mati fulltrúa Flokks fólksins komin rík ástæða fyrir stjórnendur velferðarsviðs að heimsækja allar þjónustumiðstöðvar og fara yfir þjónustuleiðir og umfram allt ítreka að afgreiða á erindi svo fljótt sem unnt er og ef tafir verða að upplýsa notandann með gildum rökum.

Bókun Flokks fólksins við  svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 16. desember, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um biðlista í heimaþjónustu:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um biðlista í heimaþjónustu sökum manneklu í ljósi þess að atvinnuleysi er nú 10% og fer vaxandi vegna í COVID. Vegna stöðu á atvinnumarkaði eru umsækjendur um hvert starf mun fleiri nú en áður og auðveldara hefur verið að manna laus störf á velferðarsviði samanborið við síðustu ár.

Veirufaraldurinn hefur gjörbreytt mörgu í lífi okkar, flest í neikvæðum skilningi en einstaka þættir fá nú meiri andrými. Vegna atvinnuleysis er nú frekar hægt að manna stöður. Það kemur því ekki á óvart að færri eru á biðlista en ella. Talað er um 22 sem er þó tuttugu og tveimur of mikið.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags 16. desember, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um sundurliðun á málum (tilvísunum):

Svar hefur loksins borist við fyrirspurn Flokks fólksins um sundurliðun á málum sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Af 1.562 börnum er þjónustu aðeins lokið hjá 327 börnum. Ekki fylgja neinar upplýsingar um hversu lengi börnin bíða og hvað biðu þau börn lengi sem nú hafa fengið einhverjar þjónustu. Flokkur fólksins óskaði eftir að fá einfalda sundurliðun á þeim hundruð tilvísana í þrjá einfalda flokka. 1. þyngri mál, 2. mál sem skólinn getur greint og leyst og 3. tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf og stuðningi. Í svari segir að mál séu ekki flokkuð með þessum hætti heldur er þeim forgangsraðað eftir alvarleika.

Athuga þarf að mál sem ekki er flokkað sem bráðamál getur orðið það á sekúndubroti sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Börn með væga erfiðleika er raðað aftast á listann og eru þar kannski föst fleiri mánuði.

Flestar tilvísanir eru vegna málþroskavanda og einbeitingarvanda. Það þarf að fá fleiri sálfræðinga til að mæta þessum kúfi. Tillaga Flokks fólksins um fjölgun stöðugilda sálfræðinga um þrjá og talmeinafræðinga um tvo var felld á fundi borgarstjórnar 15.12 og þykir fulltrúa Flokks fólksins það mjög miður. Með því að grípa ekki til aðgerða hér er verið að leika sér að eldi.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum til að tilkynna ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum. Hnappurinn er á vef Reykjavíkurborgar.

Tillaga Flokks fólksins um að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum til að tilkynna ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum. Hnappurinn er á vef Reykjavíkurborgar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarsvið og Reykjavíkurborg fari í sérstakt átak við að auglýsa tilkynningarhnappinn ætlaðan börnum sem er á vef Reykjavíkurborgar. Átakið feli í sér fjölbreyttar aðferðir til að ná til sem flestra barna. Tilkynningum um aukið ofbeldi gagnvart börnum hefur fjölgað með komu COVID-19. Um er að ræða aukningu tilkynninga þar sem börn eru vitni að eða sjálf beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu. Börnin sjálf eru oft ekki að ræða um þessi erfiðu mál út á við. Það er mikilvægt að hnappurinn sem ætlaður er fyrir börn til að tilkynna mál höfði til þeirra og sé á nokkrum tungumálum. Umfram allt þurfa börn að vita af tilkynningarhnappnum.

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra?

Í Stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum eldri borgara 2018-2022 er ein setning sem segir „starf á félagsmiðstöðvum stuðli að tengingu milli kynslóða.“ Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um hversu margar félagsmiðstöðvar eru með starf sem stuðlar að tengingu milli kynslóða, hvernig er því starfi háttað og í hverju felst það?

Hvað margar félagsmiðstöðvar hafa skipulega samveru eldri borgara og barna, eldri borgara og hunda/gæludýra?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort fundin sé lausn á ef aðstoð við baðdaga lendir á rauðum degi.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur viðhaft fyrirspurnir m.a. óundirbúna fyrirspurn til borgarstjóra vegna fyrirkomulags ef baðdagar eldri borgara í heimahúsi lenda á rauðum degi. Fram til þessa hefur þessi þjónusta ekki verið veitt á svokölluðum rauðum dögum.  Í svari borgarstjóra var nánast lofað að fundin verði lausn á þessu vandamáli þannig að fólk fái aðstoð við böðun á „sínum“ dögum. Nú líður að jólum og hafa þeir sem eru í þessari stöðu áhyggjur hvort þeir fari án baðs inn í jólin. Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort ekki hafi verið fundin lending á þessu máli þegar vika er til jóla? Fulltrúanum er kunnugt um tilfelli þar sem enn hafa ekki borist viðbrögð frá þjónustumiðstöð við erindi eldri borgara vegna máls af þessu tagi. Hér er um mál að ræða sem velferðarsvið verður að skoða hjá öllum þjónustumiðstöðvum. Þetta mál er ekki aðeins mikilvægt á jólum eða páskum heldur verður að leysa þessi mál með varanlegum hætti.

Fyrirspurninni svarað munnlega á fundinum.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna þjónustu við böðun er svarað á sama fundi og hún er lögð fram. Sagt er að á rauðum dögum eru færri að vinna. Samt er reynt að fjölga fólki. Sagt er að allt sé gert til að hægt sé að aðstoða líka á rauðum dögum. Í byrjun desember er reynt að finna þessa einstaklinga sem svo hittir á en ekki er hægt að koma á móts við alla. En það er undantekning.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og vonast til að tryggt sé að allir eldri borgarar í heimahúsi fái þessa og aðra mikilvæga þjónustu fyrir jólin sem ávallt.

 

 

 

Velferðarráð 16. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð 2040, breyting á aðalskipulagi:

Margar athugasemdir eru gerðar við lagningu Arnarnesvegar í deiliskipulagi og hafa Vinir Vatnsendahvarfs sent inn athugasemdir. Þeir eru ósammála úrskurði í umhverfismati, sem var unnið fyrir Vegagerðina árið 2003, um að lagning 3. kafla Arnarnesvegar muni hafa óveruleg áhrif á umhverfi, útivist og hljóðvist. Þeir telja að framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi og útivist á svæðinu.

Vegurinn eins og hann er skipulagður í dag er óafturkræf skipulagsmistök. Þörf er á endurgerð umhverfismatsins, sem er nær tveggja áratuga gamalt. Mikið hefur breyst varðandi áherslur í umhverfismálum og samgöngumálum á þessum áratugum sem nauðsynlegt er að taka með inn í myndina. Bent er á þau neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin hefur í för með sér, m.a. vegna nálægðar við Vetrargarðinn og einnig lýst yfir áhyggjum af áhrifum hinna nýju gatnamóta á umferðarflæði á Breiðholtsbraut. Með framkvæmdinni eru framtíðarmöguleikar Vetrargarðsins settar skorður. Ef Vetrargarðurinn verður vinsæll þarf hann einhverja möguleika á þróun, stækkun, útisvæði, gönguleiðir o.fl.

Vatnsendahvarfið er sérstakt vegna þess að þetta er hæsti punktur borgarinnar. Þarna má setja upp lágan útsýnispall sem hefur afþreyingargildi. Þessi vegagerð hindrar allt annað sem hefði mun meira jákvætt í för með sér , en að fólk úr austurhluta Kópavogs geti ekið hratt frá Kópavoginum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, reitir:

Ein af breytingartillögum sem hér er lögð fram snýr að Arnarbakkanum. Stækka á núverandi hverfiskjarna og skilgreina reit fyrir íbúðarbyggð. Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur fram hjá skóla og er þröngur. Í því standi sem hann er nú ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum.

Staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum.

Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess.

Bent er á að hjólastígar eiga að fylgja hæðarlínum eins og unnt er. Allt of oft þeir lagðir upp og niður brekku og stundum þannig að kröpp beygja er við enda brekku, sem er afleitt fyrir hjólreiðafólk.


Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hlaupahjólastandar við grunnskóla í Reykjavík:

Fulltrúi Flokks fólksins telur afar mikilvægt að koma upp stöndum fyrir hlaupahjól og hjól af öllu tagi. Hjólastanda vanta víða t.d. fyrir utan leiksvæði barna og verslunarkjarna. Sjá má hjól stundum skilin eftir á óheppilegum stöðum sem skapar slysahættu. Hjólum sem lögð eru á gangstétt eru slysagildra eða hindrun fyrir fatlaðan einstakling t.d. þann sem er í hjólastól eða er sjónskertur/blindur. Það vantar skýrar umgengisreglur um hvernig megi og eigi að skilja við hjólin og þá þarf vissulega að vera aðstæður (hjólastandar) til að leggja hjólunum. Gríðarleg fjölgun hefur orðið á notkun hlaupahjóla sem og rafskútna og rafhlaupahjóla á stuttum tíma. Enn skortir mikið á að innviðir í borgarlandinu geti tekið við þessari miklu fjölgun.


Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu beiðni Landspítala um gjaldskyldu á almennum bílastæðum, á lóð Landspítalans við Eiríksgötu 5:

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu beiðni Landspítala um gjaldskyldu á almennum bílastæðum, á lóð Landspítalans við Eiríksgötu 5:

Á fundinum er lögð fram beiðni Landspítala að setja á gjaldskyldu á merkt bílastæði á Eiríksgötu 5 þar sem nýtt göngudeildarhús opnar eftir áramót. Segir í beiðni að tryggja þurfi að sjúklingar og aðstandendur komist sem næst inngangi. Það er vissulega mikilvægt en fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur vegna erfiðleika fólks að glíma við gjaldmæla. Appið EasyPark er þess utan flókið og treysta ekki allir sér til að nota það. Þeir sem aka rafbílum hafa bílstæðaklukku í 90 mín. en eftir það þarf fara út og setja í mæli eða nota app. Eldra fólk kvartar yfir slæmu aðgengi og treystir æ meira á að finna einhvern til að aka sér á staðinn.

Áhersla er lögð á að koma hjólastöndum upp víða sem er vel. Eldri borgarar ferðast minna um á hjólum og gagnast hjólastandar þeim því ekki svo mjög.
Allt of oft eru teknar ákvarðanir í skipulags- og samgönguráði sem gera ákveðnum hópi í samfélaginu (öryrkjum og eldri borgurum) erfiðara um vik að komast leiðar sinnar í borginni. Til að bæta þetta mætti nota frekar bifreiðaklukku í stað gjaldmæla  en það kerfi er mun einfaldara en stöðumælar eða app, alla vega að mati einhverra. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja til að notaðar verða bifreiðaklukkur t.d. á merkt stæði á Eiríksgötu 5.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins, um innleiðingu LEAN aðferðarfræðinnar, umsögn

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um kostnað við innleiðingu LEAN aðferðarfræðinnar og hvar innleiðingin er stödd? Í svari kemur fram að LEAN hefur ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og ekki hefur verið tekin ákvörðun um slíkt en að verið sé að vinna í því að innleiða LEAN á nokkrum starfsstöðvum. Kostnaður við verkefnið árin 2019 og 2020 var 3,8 m.kr. Áætlaður kostnaður fyrir næstu skref gæti orðið um 2-3 m.kr.

Mikilvægt er að innleiða ekkert af þessu tagi nema það sé fullvíst að það muni nýtast, passi á þá starfsstöð sem um ræðir. Allt of oft er stokkið á innleiðingu á einhverjum nýjungum, tískufyrirbrigðum jafnvel án þess að skoða hvort nálgunin/aðferðarfræðin henti stofnuninni/deildinni.

Aðgerðir/aðferðarfræði sem ekki skapa virði, heldur jafnvel frekar aukið flækjustig eru skilgreind sem sóun og bruðl. LEAN getur verið sóun og bruðl ef það er innleitt þar sem það passar ekki og skilar ekki tilætluðum árangri. En þá er oft búið að kosta miklu til og ekki síst eyða háum fjárhæðum í innleiðinguna og sóa tíma starfsmanna.

 

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar:

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu um að breyta mætti bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar. Tillagan er felld með þeim rökum að vinna sé í gangi á vegum Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna við uppsetningu rafhleðslustöðva í borginni og stuðning við uppsetningu rafleðslustöðva á lóðum húsfélaga. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að sums staðar er verið að leggja af bílastæði fyrir stóra bíla. Við það gefst tækifæri á að fjölga hleðslustöðvum með ódýrum hætti og hvetja einnig til orkuskipta. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að Orkuveita Reykjavíkur og Veitur gætu vel nýtt sér þegar góðar hugmyndir koma fram og í stað þess að fella þessa tillögu hefði verið nær að senda hana til Veitna og OR til skoðunar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að nota frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að nota ætti frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir. Tillaga er felld og segir að aðstæður séu misjafnar. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sóun er að láta afrennslisvatn renna í skólpkerfin frekar en nýta það í að hita upp gangstéttir í nærumhverfinu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að innleiða bifreiðastæðaklukkur í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla.

Lagt er til að Reykjavíkurborg ræði við Landspítala að notast við bifreiðaklukkur í merkt stæði í kringum deildir Landspítala frekar en gjaldmæla. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eru víða notaðar í öðrum sveitarfélögum. Bifreiðaklukka gæti einnig komið að gagni í miðbænum og í kringum háskóla.

Framrúðuskífa hentar sérlega vel fyrir borgir af þessari stærðargráðu. Misjafnt yrði eftir stæðum hversu lengi má leggja. Leyfilegur tími verður tilgreindur á skiltum. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er, er lagt á stöðugjald. Bifreiðaklukkur henta sér vel þar sem fólk þarf að skjótast inn í 1-2 tíma.

Easy park appið hefur reynst mörgum þyrnir í augum. Greitt er bæði til Bílastæðasjóðs og EasyPark, en EasyPark leggur á aukaþóknun fyrir hverja notkun. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond tíðindi og veltir fyrir sér hvort bílaeigendur sem leggja bíl sínum séu meðvitaðir um að þeir eru að greiða gjöld til beggja aðila? Flokkur fólksins mælir með bifreiðastæðaklukkum á sem flestum stöðum þar sem það er hægt.

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram eftirfarandi fyrirspurn sem forseti neitaði að taka inn í fundargerð:

Nú liggur fyrir að fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna (ekki Viðreisn)  sameinast í þeirri skoðun að gera eigi nýtt umhverfismat sbr. lið 4 í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs 9. desember?  Fram kemur í bókun að þeir taka undir umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem gagnrýnir skort á upplýsingum svo hægt sé að taka afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar 3. áfanga Arnarnesvegar sem byggja á á 18 ára gömlu umhverfismati (sjá bókun hér https://reykjavik.is/fundargerdir/fundur-nr-44-3)

Ef ekki verður gert nýtt umhverfismat óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að sett verði fram gild rök annarra í meirihluta borgarstjórnar/umhverfis- og skipulagsráðs hvað réttlæti þessa framkvæmd?

Hið 18 ára gamla umhverfismat er úrelt og nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun beiðni um nýtt mat. Allar forsendur hafa breyst, svo sem gróðurfar og fuglalíf og á skipulagi er Vetrargarður þar sem nú er vinsæl skíðabrekka ofan Jafnasels, notuð bæði af Reykvíkingum og Kópavogsbúum. Fyrirhugaður 3. áfangi Arnarnesvegur mun ógna framtíðarmöguleikum og hindra t.d. þróunarmöguleika fyrirhugaða Vetrargarðs. Þá vekur furðu að sprengja á fyrir fjórum akreinum á 1.3 km. kafla í Vatnsendahvarfi þótt aðeins hafi verið sprengt fyrir tveim akreinum í Hnoðraholti og tvær akreinar eru í 1. og 2. áföngum Arnarnesvegar. Kostnaður er áætlaður miklu hærri en reiknað var með með hliðsjón af hinu 18 ára gamla umhverfismati.

Skipulags- og samgönguráð 16. desember 2020

Framlagðar tillögur Flokks fólksins

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, afnám hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Tillaga um að afnema hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að afnema hagræðingarkröfu 0.50% á  skóla- og frístundarsvið og velferðarsvið árið 2021 vegna slæmra afkomu þessara sviða á tímum COVID-19.

Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 235.196 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 142.385 þ.kr. Samanlagt felur tillagan í sér aukin útgjöld sem nemur 377.581 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Tillaga um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 43.800 þ.kr. sem felur í sér að úthlutað verði sem nemur 130 þ.kr. vegna barna sem falla undir rautt og gult viðmið skv. Milli mála málkönnunarprófi. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu. Báðir hópar eru illa staddir. Börn með gula niðurstöðu geta fengið rauða ári seinna.
Árið 2018 tóku málkönnunarprófið  2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997 og  gula  327. Niðurstöður fyrir 2020 liggja ekki fyrir. Um  45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu 2018 eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum. Ef tekin eru með börnin sem fengu gula niðurstöðu er líklegt að milli 50 og 60% barnanna séu fædd á Íslandi.

Greinargerð

Tillaga sú sem hér er lögð fram gengur lengra en tillagan sem Flokkur fólksins lagði til í  borgarstjórn 3. nóvember. Þá var lagt til hækkun úthlutunar í 130 þús. kr. fyrir hvert barn með rauða niðurstöðu og að börn með gula niðurstöður fengju  hlutfall þeirrar fjárhæðar eins og skóla- og frístundasvið hafði sjálft lagt til 2019.

Sú tillaga sem hér er lögð fram gengur út frá því að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi. Báðir þessir hópar, börn með rauða og gula niðurstöðu er illa sett í íslensku jafnvel þótt meira en helmingur þeirra sem þreyttu málkönnunarprófið séu fædd á Íslandi. Segja má að þau standa á krossgötum. Tryggja þarf með vissu að þeim fari fram en staðni ekki eða fari aftur.

Reykjavíkurborg fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði jöfnunarframlag vegna nemenda sem hafa íslensku sem annað tungumál. Ástæður eru flókin deila ríkis og borgar. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í málið þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir deilumál milli ríkis og borgar. Hér er því um að ræða fjármagn sem verður að koma úr borgarsjóði.

Fram kom í svari borgarstjóra við óundirbúinni fyrirspurn um málið á fundi borgarstjórna 3. nóvember að til standi að undirbúa nýtt úthlutunarlíkan fyrir grunnskóla. Hér er augsýnilega um einhverja framtíðarmúsík að ræða sem skilar sér varla til barnanna næstu mánuði eða misseri. Hver dagur er dýrmætur þegar kemur að því að tileinka sér tungumálið.

Ef litið er enn lengra til baka eða til ársins 2017- 2018 var 190,7 m.kr. úthlutað til þessa verkefnis og því skipt milli skóla. Nokkur þúsund króna hækkun varð á framlagi til sérhvers barna  2018-2019 sem náði þó ekki 10 þús. krónu. Þetta er einfaldlega ekki nóg til að hægt sé að koma þessum börnum til hjálpar með íslenskuna.

Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Börn af erlendu bergi brotin eiga oft erfitt uppdráttar á Íslandi. Þau kunna íslenskuna ekki nógu vel og þurfa meiri aðstoð við námið heldur en íslenskir bekkjarfélagar þeirra en fá jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans.

Börnin sem hér um ræðir eru bæði börn kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta eru börn sem hafa oftast upplifað erfiða hluti í heimalandinu og leggja síðan í erfitt ferðalag til framandi lands. Það er að mörgu leyti haldið vel utan um þessi börn fyrsta árið. Þau fá þjónustu sálfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna sem kostuð er af ríkissjóði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá stuðning greiddan af ríkinu þann tíma þar til mál þeirra hafa verið afgreidd, en kvótaflóttamenn hafa fengið greiddan stuðning fyrsta árið eftir komu. Eftir það falla þau í sama flokk og önnur börn af erlendu bergi brotin í skólunum. Úthlutað er fjármagni úr potti vegna nemenda af erlendum uppruna.

Staðreyndin er sú að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskorts árum saman eins og sjá má í skýrslu Innri endurskoðunar 2019.
Það eru allir sammála um að gera þarf betur í móttöku barna af erlendum uppruna og í leik- og grunnskólastarfi. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi.  Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

 

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um afnám tekjutengingar við húsnæðisstuðning

Tillaga Flokks fólksins um afnám tekjutengingar húsnæðisstuðnings

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg setji inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning þess efnis að tekjur vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingalífeyrisþega í desember 2020, desemberuppbótar TR til örorku- og ellilífeyrisþega og desemberuppbótar Vinnumálastofnunar til atvinnulausra leiði ekki til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Launafólk fær greidda desemberuppbót og sú greiðsla er endanleg og hjálpar fólki að halda jólin án þess að hafa áhyggjur af auknum útgjöldum. Seinna meir kemur þetta síðan í “hausinn” á fólki. Þegar framtöl liggja fyrir á næsta ári þá klípur borgin þetta af fólki.  Lífeyrisþegar og atvinnulausir fá einnig greidda desemberuppbót. Það sem skilur að er að lífeyrisþegar og atvinnulausir þurfa ekki aðeins að greiða skatta af sinni uppbót heldur getur hún einnig leitt til skerðinga á réttindum. Þeir sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg og jafnframt rétt á desemberuppbót mega því búast við því að sú eingreiðsla leiði til þess að Reykjavíkurborg skerði sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra síðar á næsta ári.

Þetta fengu margir að upplifa þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um málið 2019 og síðar tillögu um að Reykjavíkurborg aðlagaði viðmið sín til þess að leiga hækkaði ekki hjá Félagsbústöðum. Það var mörgum leigjendum Félagsbústaða áfall þegar velferðarráð brást ekki við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar. Tillögu Flokks fólksins var hafnað og var leiga hjá rúmlega 1.100 manns hækkuð umtalsvert. Þá kom ekki til greina að endurskoða reglurnar. Stærstu áhyggjur velferðarráðs er að breytingar á reglunum séu útfærðar þannig að þær komi þeim til góða sem á þarf að halda en opni ekki fyrir nýja hópa. Þar sem ekki hefur verið vilji til að ráðast í reglugerðarbreytingar þá halda þeir sem verst eru settir áfram að líða fyrir þessa ósanngjörnu reglu.

Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilaði örorkulífeyrisþegum þurrkuðust út hjá þessum hópi. Það hefði aðeins kostað Reykjavíkurborg 18 milljónir að horfa fram hjá þessu, varla dropi í hafið, en mikil búbót hjá yfir 1.100 manns. Þetta hefði Reykjavíkurborg ekki þurft að gera enda aðeins bundin af lágmarkskröfum laganna og leiðbeiningum ráðuneytisins varðandi það hvernig reglur Reykjavíkur um sérstakan húsnæðisstuðning eigi að vera. Þær reglur og þær leiðbeiningar koma ekki í veg fyrir að Reykjavík gangi lengra en almennt gerist og kveði á um að desemberuppbót lífeyrisþega skuli ekki leiða til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Það ætti því ekki að þurfa að breyta lögum til þess að tillaga verði samþykkt um að breyta reglugerðinni þannig að desemberuppbót skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Nú er þetta að gerast aftur þegar öryrkjar fá smávægilega uppbót í desember. Þá á að skerða húsaleigubætur þeirra. Við verðum að koma í veg fyrir slíkar víxlverkanir í kerfinu.  Það er verkefni Alþingis að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki lífeyrisgreiðslur, atvinnuleysisbætur eða húsnæðisbætur. Það er verkefni Reykjavíkur að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem gagnast mest þeim sem fátækastir eru. Þessi tillaga felur í sér tiltölulega lítinn kostnað en myndi skila margföldum ábata til þeirra íbúa Reykjavíkurborgar sem þurfa mest á aðstoð að halda. Ef þetta er réttlæti þessa meirihluta, hvernig er þá ranglætið!

Bókun við afgreiðslu meirihlutans á ofangreindum tillögum:

Flokkur fólksins lagði til breytingatillögur sem hafa verið felldar, þær eru: Að afnema skuli hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021. Sviðin eru nú þegar að sligast fjárhagslega. Kostn.: 377.581 þ.kr. Að sett verði inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning til að sporna við að eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega leiði ekki til skerðingar á sérstökum húsnæðisstuðningi og þar með hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum. Kost: 15.000 þ.kr. Að vannýttar fjárhæðir Frístundakortsins vegna COVID færist yfir á næsta ár, 2021, vegna niðurfellingar/skerðingar frístundastarfs. Kostn. 16.000 þ.kr. milljónir. Að stöðugildum talmeinafræðinga hjá borginni verði fjölgað um tvö en 210 börn eru á biðlista eftir þjónustu þeirra. Kostn.: 28.100 þ.kr. Að stöðugildum sálfræðinga hjá borginni verði fjölgað um þrjú en um 800 börn eru á biðlista eftir skólaþjónustu, flest sálfræðiþjónustu. Kostn.: 42.000 þ.kr. Að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15% en dagforeldrar berjast fyrir lífi stéttar sinnar. Kostn.: 61,4 m.kr. Að hækka skuli úthlutun fjárhæðar í 130 þ.kr. á barn af erlendum uppruna, en yfir 2000 grunnskólabörn af erlendum uppruna fædd á Íslandi eru afar illa stödd í íslensku samkvæmt mælingum. Kostn.: 43.800 þ.kr. Tillagan felld en samskonar tillaga lögð fram af meirihlutanum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu frumvarps að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna sem fá þjónustu á vegum borgarinnar t.d. hjá talmeinafræðingum  eða sálfræðingunum. Biðlistar eru í sögulegu hámarki og hafa lengst í tengslum við COVID. Samfylkingin sem segist jafnaðarflokkur hefur stjórnað  borginni í mörg ár. Formaður Samfylkingarinnar sýndi það í auglýsingu  þegar hann fer inn úr kuldanum og fær sér heitan drykk að hann hefur áttað sig á því að slíkur munaður stendur ekki öllum til boða. Engu að síður, á vakt Samfylkingarinnar, eru um 5000 börn sem búa við fátækt í Reykjavík og sum við sára fátækt. Foreldrar þeirra eiga ekki fyrir mat. Borgarstjóri er í Samfylkingunni en hann studdi ekki tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir í leik-og grunnskólum Reykjavíkur og var einnig gegn tekjutengingu gjalda vegna skólamáltíða og frístundaheimila. Endurskoða á viðmiðunarfjárhæðir í reglum fjárhagsaðstoðar og er það gott. Hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar er hins vegar skammarlega lág. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Til dæmis hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu vegna barna í 16 gr. a úr 16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Hér má gera betur ef vilji væri til.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að græna planinu – sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu græna plansins af þeirri einföldu ástæðu að borgarstjórnarmeirihlutinn notar hugtakið „grænt“ of frjálslega. Orð og athæfi fara ekki saman. Sagt er að standa eigi vörð um störf en á sama tíma er fólk rekið úr störfum. Það samræmist ekki hinni svokölluðu „samfélagslegu vídd græna plansins“. Sagt er að útvista eigi verkum í hagræðingarskyni. Það fær varla staðist. Verktakakaup borgarinnar eru löngu komin út yfir eðlileg mörk sem er alvarlegt mál og efni í aðra bókun. Fulltrúar borgarmeirihlutans segjast vera náttúruunnendur en hafa engu að síður samþykkt að leggja þriðja áfanga Arnarnesvegar þannig að vegurinn mun kljúfa Vatnsendahvarfið eftir endilöngu og takmarka framtíðarmöguleika væntanlegs Vetrargarðs. Ekki liggur fyrir hvernig mengunarmál verða leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik- og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum. Miklir möguleikar eru á að byggja þarna upp gott útivistarsvæði enda hæsti punktur borgarinnar. Fleira mætti telja til sem ekki er í neinu samræmi við græna planið sem er í grunninn hin ágætasta hugmynd. Ef grænt plan á að vera trúverðugt og sannfærandi nálgun þurfa að felast í því samkvæmni og heilindi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu að fjármála- og fjárfestingastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Óvenjulegar aðstæður ríkja nú. Áhersla borgarstjórnar ætti að vera á að fólkið komi fyrst. Ef fólk heldur ekki heilsu, líkamlegri og andlegri, getur það ekki stundað vinnu eða notið lífsins að neinu leyti. Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram er talað um endurreisn og græna planið. Atvinnuleysi er meira en 10% í Reykjavík og fer vaxandi. Nú ríður á að taka skynsamleg skref, tryggja fullnægjandi grunnþjónustu og leggja alla áherslu á að sinna þeim verst settu svo fólk geti komið út úr veirukreppunni með von í hjarta. Tryggja þarf störf við skynsamlegar fjárfestingar. Ekki allir eiga heilt og gott heimili sem er hvorki heilsuspillandi né óleyfishúsnæði. Byggja þarf fleiri hagkvæmar íbúðir, hjúkrunarheimili, húsnæði fyrir fatlað fólk og gera átak í viðhaldi á rakaskemmdu húsnæði borgarinnar, ekki síst skólabyggingum. Fleira spilar inn í sem gera málin flóknari. Ávöxtunarkrafa á nýjum grænum skuldabréfaflokki borgarinnar er 4,5%. Þetta eru verri kjör en borgin fékk í útboði í maí en þá var tilboð að nafnvirði 2.6 milljarðar króna með ávöxtunarkröfunni 2,99%. Álag á skuldir borgarinnar hefur því hækkað á þessu ári og vaxtakjör versnað um meira en 50%. Fjármögnun hins svokallaða græna plans á næsta ári er orðin dýr.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi SORPU bs., dags. 27. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarstjórn veiti samþykki fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar 2021-2025

Erindi frá SORPU hefur borist þar sem óskað er samþykkis fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar samlagsins fram til 2025. SORPA er það byggðasamlag sem farið hefur verst með Reykjavík af öllum byggðasamlögum. Gjaldskrá SORPU hækkar nú um 24% að jafnaði og grundvallast á þeirri reglu að sá sem afhendir SORPU úrgang greiðir fyrir meðhöndlun hans. Loksins er einhver hreyfing á metansölu sem þakka má öflugum markaðsstjóra. Aldrei datt stjórn áður í hug að reyna að gera eitthvað í markaðssetningu metans. Nú á að framlengja yfirdráttarheimild að upphæð 1.100 m.kr. og jafnframt að fá nýtt lán allt að 300 m.kr. til 10 ára. Bs. kerfið er í eðli sínu stórgallað kerfi og það ætti að stefna að því að leggja slíkt kerfi niður. Til að bæta það þarf að auka áhrif kjósenda og minnihlutaflokka, ekki aðeins með því að bjóða þeim meiri aðkomu, það þurfa að vera alvöru áhrif. Leiðir sem mætti skoða eru: Fulltrúafjöldi í samræmi við íbúafjölda í þeim sveitarfélögum sem eiga félagið. Fulltrúar í samræmi við styrk flokka í sveitarstjórnum. Í stað byggðasamlagskerfis gætu komið samningar um einstök verkefni, ef það er hagkvæmt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðarinnar frá 3. desember og 10. lið fundargerðarinnar frá 10. desember:

Fulltrúi Flokks fólksins styður viðauka sem lúta að aukinni og bættri þjónustu við borgarbúa og vegna COVID. Ekki er hægt að samþykkja deiliskipulag Elliðaárdalsins enda sumt fyrirkomulag þar ekki í nógu mikilli almennri sátt. Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. Skort hefur á samráð við borgarbúa varðandi deiliskipulagið. Það hefði verið hægt að vinna þessa borgarperlu miklu meira með fólkinu, með notendum dalsins og aðdáendum hans.

 

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið og 10. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Umsögn vegna Arnarnesvegar: Þessi umsögn tekur ekki á einum mikilvægasta þættinum í tengslum við lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Með framkvæmdinni er lokað fyrir frekari nýtingu svæðisins, lokað fyrir framtíðarmöguleika! Þegar er komin hugmynd um Vetrargarð, en hægt er að gera miklu meira í kringum hann ef rými er til staðar. Þetta er hæsti punktur borgarinnar. Þarna má setja upp lágan útsýnispall sem hefur afþreyingargildi. Ef Vetrargarðurinn verður vinsæll þarf hann einhverja möguleika á þróun, stækkun, útisvæði, gönguleiðir o.fl. Vegagerð þarna mun hindra annað sem hefði mun meira jákvætt í för með sér, en að fólk úr austurhluta Kópavogs geti ekið hratt frá Kópavoginum.

Bókun við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs:
Listi yfir samþykkt hundaleyfi: Það er afar undarlegt að sjá svona lista lagðan fram í ljósi tillögu stýrihóps um endurskoðun gæludýrareglna að fella niður hundaleyfisskyldu. Ef leggja á niður hundaleyfisskyldu er ekkert sem réttlætir lengur hundaeftirlitsgjald. Samt á að halda áfram að innheimta eftirlitsgjald þ.e. af þeim  sem láta skrá hunda sína hjá Reykjavíkurborg sem eru í mesta lagi eigendur 2.000 hunda af áætluðum 9.000 hundum í borginni. Loksins voru vinnuskýrslur birtar sem staðfesta að hundaeftirlitið hafði nánast ekkert að gera. Allt árið í fyrra voru málin aðeins 21 fyrir utan desember, þetta er ein eftirlitsferð á viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann.

Borgarstjórn 15. desember seinni umræða fjárhagsáætlunar

Kynningarfundur um stjórnsýslu byggðasamlaga. 

Byggðasamlög, hugleiðingar frá Kolbrúnu oddvita Flokks fólksins, lagðar fram á fundinum. Helsti vandi bs kerfa er halli milli kjósenda- íbúa eftir því hvar þeir búa. Reykjavík er í mínus. Halli milli flokka. Aðeins meirihlutaflokkar komast að. Minnihlutaflokkar eru í mínus, þar af leiðir að stjórnin BS kerfa eru í litlum tengslum við kjósendur og verða fljótt „ríki í ríkinu“.
Þetta er eðli kerfisins frekar en vilji stjórnarmanna.

Athugasemd 2

BS kerfið er í eðli síu stórgallað kerfi og það ætti að stefna að því að leggja slíkt kerfi niður. Til að bæta það þarf að auka áhrif kjósenda og minnihlutaflokka ekki aðeins með því að bjóða þeim meiri aðkomu, það þurfa að vera alvöru áhrif.

Leiðir:

 1. Fulltrúafjöldi í samræmi við íbúafjölda
 2. Fulltrúar í samræmi vð styrk flokka í sveitarstjórnum
 3. Í stað BS kerfið gætu komið samningar um einstök verkefni, ef það er hagkvæmt

Punktar frá Strategíu

Sveitarfélögin sjálf ákveða baklandið.
Ef sveitarfélög eiga sjálf að ráða hvernig baklandið er, þá getur bakland orðið mismunandi eftir sveitarfélagi? Eitt sveitarfálga gæti ákveðið að minnihlutaflokkar hafi vægi en annað sveitarfélag að útiloka minnihlutann.

Færa stefnumörkun til kjörinna fulltrúa, eitthvað sem sveitarfélag ákveður.

Hlutfallslegt stefnuráð gæti gengið

Eigendavaldið strúkterað í sveitarfélaginu

Fyrri bókun vegna vinnu Strategíu í borgarráði 7. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á úttekt og tillögum Strategíu á stjórnskipulagi byggðasamlaga í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar Strategíu fyrir þá tvo fundi sem haldnir voru um afmarkaða þætti byggðasamlaga og kynningu á ólíkum sviðsmyndum. Hvað sem öllum sviðsmyndum líður er staðreyndin sú að byggðasamlagskerfið sjálft er ekki nógu lýðræðislegt? Niðurstaðan er skýr, verkefnið bs er ekki að virka, eigendur eru langt frá ákvörðunum og virkni eigenda því engin. Vald kjörinna fulltrúa er framselt til bs. Reynslan fyrir Reykjavík af byggðasamlögum er ekki góð og er SORPA skýrasta nýlega dæmið. Bs. hugmyndin sem slík er ólýðræðisleg. Ef þörf er á byggðasamlögum er miklu einfaldara að sameina sveitarfélögin. Byggðasamlög tefja þá þróun. Við þetta framsal ræður meirihlutinn í sveitarfélagi alfarið en minnihlutinn hefur litla aðkomu nema að tjá sig. Eitt er að fá að tjá sig en annað er að hafa bein áhrif. Tímabært er að huga að því hvernig hægt sé að losna við þetta kerfi, frekar en að reyna að bæta það. En þar sem sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins vilja ekki sameinast er spurning hvaða aðrar leiðir koma til greina til að draga úr lýðræðishalla í þessu bs. kerfi. Ein leiðin er að fjölga stjórnarmönnum frá stærsta sveitarfélaginu þannig að fjöldi fulltrúa sé í takt við fjölda kjósenda. Þá er mikilvægt að minnihluti sérhvers sveitarfélags eigi fulltrúa í stjórn.

 

Kynningafundur um stjórnsýslu byggðasamlaga

Bókun Flokks fólksins við umræðu undir yfirskriftinni; Göngum í takt – samtal við verkalýðsforystuna:

Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka forystu verkalýðsfélaganna fyrir komuna á fund borgarráðs. Samtalið var áhugavert og nýtti borgarfulltrúi Flokks fólksins tækifærið og ræddi ýmsa þætti sem snúa beint að fólkinu í borginni. Borgarfulltrúinn kallar eftir meira gegnsæi með m.a. launaupplýsingar í rauntíma frá borginni og að Reykjavíkurborg vinni að því að uppfylla loforð sín um gegnsæi stjórnsýslunnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur haft áhyggjur af óleyfisbúsetu í borginni og telur að borgaryfirvöld verði að taka af skarið og sækja sér þær lagaheimildir sem þarf til að fara í nauðsynlegt átak í þeim efnum. Það eru uppi áhyggjur um erfiðleika í mönnun en viðunandi mönnun í störf verða aðeins þegar laun verða mannsæmandi og vinnufyrirkomulag betra. Of lítil skref hafa verið tekin í gegnum árin í þessa átt þótt eitthvað mjakist. Stytting vinnuvikunnar er vissulega bónusinn í þessu öllu. Borgin er í niðurskurði þótt hann sé kannski ekki blóðugur og í því sambandi má nefna hagræðingakröfu á fagsvið sem nú þegar eru komin langt fram úr fjárhagsáætlun. Búið er að segja upp fólki. Útvistun er ekki hagkvæmari leið fyrir borgina sem lofar að standa vörð um störf á sama tíma

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 3. desember 2020, á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Frakkastíg-Skúlagötu vegna fyrirhugaðrar nýbyggingar við Frakkastíg 1:

Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá að skipulagsyfirvöld borgarinnar hefðu ljáð íbúasamtökunum Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur eyra sem hafa rökstutt ágætlega af hverju þessi bygging ætti ekki að rísa. Þarna á að rísa 7 hæða bygging en á horni samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði. Þetta er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar. Það er óþarfi að stoppa í hvert gat og bil í borginni þrátt fyrir metnaðarfull markmið meirihlutans að þétta byggð. Hér er um ákveðna ítroðslu byggingar að ræða í smá bil sem hefði auðvitað bara mátt halda sér. Svona hlutir eiga að vera gerðir í meira samráði við hagsmunaaðila og nágranna.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 7. desember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir við að ljúka gerð landfyllinga vegna stækkunar Bryggjuhverfis:

Skipulagsyfirvöld óska eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að ljúka landfyllingu vegna stækkunar Bryggjuhverfis. Alltaf verða einhverjar breytingar vegna landfyllingar, sem dæmi breytist umhverfi enda breytast mörk hafs og lands. Neikvæð áhrif verða t.d. á dýralíf, fiskstofna. En hversu mikilvægt er landið sem fer undir landfyllinguna? Óvissa er um umhverfisáhrif landfyllingar á þessu svæði. Í sérfræðiskýrslum er bent á að stór búsvæði muni skerðast með þessari framkvæmd, aðallega leira sem orðið hefur til á síðustu árum í tengslum við malarvinnslu Björgunar og setmyndunar því tengdu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu að gerð verði viljayfirlýsing við áhugasama fjárfesta sem hyggjast endurnýja, byggja upp og mæta þörfum fjölbreyttra jaðaríþrótta, ásamt fleiru, með innréttingu og andlitslyftingu á Toppstöðinni í Elliðaárdal:

Borgarstjóri leggur til að gerð verði viljayfirlýsing við áhugasama fjárfesta sem vilja endurnýja, byggja upp og mæta þörfum fjölbreyttra jaðaríþrótta, ásamt fleiru, með innréttingu og andlitslyftingu á Toppstöðinni í Elliðaárdal. Um er að ræða hús, stálgrindarhús sem auðvelt er að rífa. Þarna er auk þess mikið asbest. Á þessu húsi er þess utan enginn arkitektúr að mati einhverra alla vega. Þetta verkefni mun kosta mikið fjármagn. Nær væri að rífa þetta hús og byggja annað. Frábært er þó að fá aðstöðu undir jaðaríþróttir. Ekki liggur fyrir hvort einhver kostnaður falli á borgina þótt viljayfirlýsing áhugasamra fjárfesta sem vilja endurnýja og byggja upp verði að veruleika og leiði til samnings.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu velferðarrráðs um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar:

Sú hækkun grunnfjárhæðar fjárhagsaðstoðar um 2.4% sem hér er lögð til nær skammt enda þótt vissulega muni um hverja krónu hjá þeim sem verst eru settir. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækka t.d. vegna barna í 16 gr. A aðeins úr 16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Nú eru þess utan allar gjaldskrár að hækka, gjöld á frístundaheimili, gjöld fyrir skólamat, ýmis gjöld fyrir þjónustu á velferðarsviði. Segja má því að þessi hækkun hafi þá þegar verið þurrkuð út. Velferðarráð þarf að skoða hvort grunnfjárhæðin eigi ekki frekar að tengjast við launaþróun frekar en verðlagsþróun. Það væri bæði eðlilegra og sanngjarnara

 

Bókun Flokks fólksins við svari um ferðakostnað árið 2020 samanborið við árið 2019, sbr. 37. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020:

Allt of mikið fjármagn á flest öllum sviðum borgarinnar hefur farið í ferðir erlendis undanfarin ár. Með COVID lækkar þessi kostnaður eðli málsins samkvæmt nánast niður í ekki neitt. Í svari við fyrirspurn kemur fram að ferðakostnaður fyrstu níu mánuði ársins 2020 er 77,5% lægri en á sama tímabili ársins 2019 fyrir A-hluta eða sem nemur 78.642.840 m.kr. Lækkun ferðakostnaðar milli ára vegna B-hluta er um 73% eða sem nemur 53.804.220 m.kr. Nú má vænta þess að með reynslu fjarfundatækni þá sé ekki lengur nauðsynlegt fyrir borgarstjóra, borgarafulltrúa eða embættismenn að ferðast erlendis. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning enda hægt að eiga öll samskipti í gegnum fjarfundabúnað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um kostnað við Óðinstorg og nærliggjandi gatna:

Spurt var um kostnað vegna framkvæmda á Óðinstorgi. Kostnaður borgarinnar við Óðinstorg eru rúmar 60 milljónir. Heildar framkvæmdarkostnaður við Óðinstorg og nærliggjandi götur eru um 470 milljónir. Eftir því er tekið að aðeins hönnunin ein eru tæpar 59 milljónir. Það er yfir 10% af kostnaðinum sem Reykjavík varð fyrir. Velt er upp þeirri spurningu hvort þetta sé eðlilegt hlutfall. Hér er um risastórt verkefni að ræða sem hefði mátt bíða betri tíma, alla vega hluti þess. Þetta er einfaldlega spurning um hvernig við óskum að deila út fjármagninu og forgangsraða. Tvö svið, skóla- og frístundasvið og velferðarsvið sem bera uppi lögbundna þjónustu og aðra grunnþjónustu eru að sligast og eru komin langt fram úr fjárhagsáætlun. Þær götur og torg sem hér um ræðir eru meira og minna mannlausar um þessar mundir ekki síst vegna COVID nema um svæðið fara vissulega búendur sem njóta góðs af fínheitunum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Vesturbæjar frá 30. nóvember 2020, lið 2.

Kynning fór fram á minnisblaði mannréttinda og lýðræðisskrifstofu um eftirlit með íbúðarhúsnæði í Reykjavík með tilliti til brunavarna. Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann vegna skorts á lagaheimildum en eftirlitskerfi borgarinnar er máttlaust. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra og ófullnægjandi húsnæði borgarinnar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir til að gera átak í hættulegu húsnæði í borginni?

 

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál, lið 4:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir og skilur vel vonbrigði og óánægju ábúenda og landeigenda í Kollafirði/Kjalarnesi vegna málefna sem tengjast skotsvæðinu og framkomu heilbrigðiseftirlitsins í því sambandi. Þetta er óþolandi ástand, að skotsvæði sé við fjöru og á „rólegum stað“. Þarna er bæði hávaðamengun, blýmengun og vanvirðing við náttúru og mannlíf.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að borgarráð samþykki að beina því til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks leggi áherslu á að sinna betur fötluðu fólki en gert hefur verið hingað til þegar kemur að aðgengismálum:

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að beina því til mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks leggi áherslu á að sinna betur fötluðu fólki en gert hefur verið hingað til þegar kemur að aðgengismálum. Ganga þarf strax í að merkja með fullnægjandi hætti að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Nýlega sendi Öryrkjabandalag Íslands bréf til aðgengisnefndarinnar og fór þess á leita að bætt verði úr merkingum við göngugötur í miðbænum þannig að skýrt sé að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða hafi rétt til að aka um umræddar götur. Fatlað fólk sem ekið hefur göngugötur eins og heimild í lögum kveður á um hafa orðið fyrir aðkasti frá vegfarendum. Merkingar eru ófullnægjandi. Hvergi er minnst á undanþáguheimild handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða sem þó væri sannarlega til staðar. Mannréttindaráð og aðgengisnefndin hafa sofið á verðinum þegar kemur að því að gæta hagsmuna fatlaðs fólks í aðgengismálum. Hjólastólaaðgengi er víða ábótavant og þurfa borgaryfirvöld að vinna þéttar með fyrirtækjum og verslunum að bæta úr því.

Greinargerð.

Fulltrúi Flokks fólksins sendi inn fyrirspurnir fyrir skemmstu til mannréttinda og lýðræðisskrifstofu um hvernig aðgengis- og samráðsnefndin hafi beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum?
Í svari segir að nefndin hafi sent ábendingar um merkingar P-stæða þar sem vitað hefur verið til að þeim sé ábótavant en það hafi aðeins átt við einstök svæði. Ekkert er minnst á í svari þann þátt sem snýr að skiltum og merkingum við göngugötur. Er verið að segja með þessu að nefndin hafi eingöngu sent inn ábendingar um merkingu sjálfra bílastæðanna á göngugötunum en ekki beitt sér neitt fyrir að skilti og merkingar við göngugötur séu samkvæmt lögum? Hér þarf að gera betrumbætur svo um munar.  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nefndin hafi ekki staðið sig nógu vel í baráttu fatlaðra fyrir bætt aðgengi. Hér þarf Grettistak ef eitthvað á að gerast.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að borgarráð samþykki að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda:

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að hvetja borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda. Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir. Svifryk frá flugeldum er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir einnig lífsgæði margra. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið.

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Borgarráð 10. desember 2020

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 18. nóvember 2020 um niðurstöður stærðfræðiskimunar í 3. bekk 2019 og skýrslan Stærðfræðiskimun, 3 bekkur í nóvember 2019.

Í niðurstöðum segir að um 111 nemendur árið 2019 þurfi á sérstökum stuðningi að halda. Vissulega liggur stærðfræði misvel fyrir börnum og ekki er efast um að kennarar kenni af metnaði og fagmennsku. Kennarar munu án efa nýta þessar niðurstöður til að gera áætlun um stærðfræðikennslu út frá stöðu hvers nemanda ásamt því að nýta þær til að breyta þeim áherslum í kennslu sem þeir telja vera mikilvægt að gera. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einmitt mikla áherslu á einstaklinginn og að bæði kennsluefni og aðferðir taki beint mið af sértækum þörfum hvers og eins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins sem var á fundi borgarráðs 10. október 2019 vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundaráðs, dags. 3. nóvember 2020, um tillöguna:

Flokkur fólksins leggur til að farið verði í sérstakt átak til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og beiti til þess öllum þeim úrræðum sem borgin hefur upp á að bjóða. Byrja þarf á að skilgreina nánar þann stofnstyrk sem nýjum dagforeldrum hefur verið lofað, hvernig hann er útfærður og hvenær hann verður greiddur út. Nefndur hefur einnig verið aðstöðustyrkur til að hjálpa þeim dagforeldrum sem að ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Lagt er til að skoðað verði að fleiri styrkir verði veittir til dagforeldra þegar verst árar. Skoða mætti t.d. leigustyrk til þeirra sem að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar eins og nefnt hefur verið. Skoða þarf hvort hægt sé að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta. Þetta er brot af hugmyndum sem nefndar hafa verið til að tryggja starfsöryggi dagforelda á meðan verið er að brúa bilið. Þetta haust hefur verið einstaklega slæmt. Ekki hafa fengist börn í vistun sem þýðir að einhverjir dagforeldrar hætta störfum. Í vor mun hins vegar verða vöntun á dagforeldrum. Hvernig á að bregðast við þeim aðstæðum sem þá myndast, þegar stór hópur af börnum fær ekki vistun og foreldrar komast ekki til vinnu?

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í kjölfar skýrslu starfshóps um endurskoðun, þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu í Reykjavík voru á haustmánuðum 2018 samþykktar til innleiðingar 9 tilögur af 11. Þeirra á meðal var veruleg hækkun á niðurgreiðslu til dagforeldra, tillaga um öryggishnapp og tillaga um stofnstyrk. Dagforeldraþjónustan hefur um árabil verið mikilvægur tengiliður milli fæðingarorlofs og leikskóla og mikilvægur valkostur fyrir foreldra yngstu barnanna. Það sem stendur nú helst fyrir þrifum er endurskoðun á skráningu og upplýsingagjöf um biðlista og laus pláss hjá dagforeldrum, svo foreldrar fái betri upplýsingar um þau pláss sem í boði eru.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna afgreiðslu tillögunnar:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að farið yrði í að gera átak til að tryggja starfsöryggi dagforeldra og beitt verði greiðslu stofnstyrk og/eða aðstöðustyrks til að hjálpa þeim sem ekki ná að fylla í plássin sín. Tillögunni er vísað frá. Dagforeldrar eru um þessar mundir að finna fyrir nokkurri uppgjöf því svo virðist sem allt sé fellt sem þeir biðja um. Ekkert hefur í raun breyst annað en það að allt í einu eru fleiri pláss á leikskólunum í byrjun árs. Þegar talað er um niðurgreiðslu þá skal á það minnt að hækkun niðurgreiðslu er ekki bara fyrir dagforeldra heldur einnig foreldra barnanna svo ekki hækki þeirra greiðsla. Fulltrúi Flokks fólksins vill halda áfram að leggja til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Aðstöðustyrkur myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín. Einnig mætti skoða að lengja bilið á milli þess sem heilbrigðiseftirlitið heimsækir þá sem starfa tveir saman með tilheyrandi kostnaði (ca. 60 þúsund hver heimsókn) eða lækka þau gjöld í þessu millibilsástandi.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það skal ítrekað að niðurgreiðsla til dagforeldra var hækkuð um 15% árið 2018, ásamt því að tekinn var upp stofnstyrkur og fleiri breytingar innleiddar til að styðja við það mikilvæga starf. Ekki fer vel á því að halda fram rangfærslum um svo mikilvægt mál. Því má að auki bæta við að engum tillögum frá dagforeldrum hefur verið hafnað í ráðinu á undanförnum árum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun: 

Fulltrúi Flokks fólksins hefur rætt við dagforeldra og finnst þeim sem margt vanti upp á til að tryggja betur starfsöryggi þeirra. Eftir að Brúum bilið hófst hafa komið tímar sem ekki hefur tekist að fylla pláss og foreldrar fá oft pláss á leikskóla með stuttum fyrirvara. Á öðrum tíma eru öll pláss full og sumir foreldrar í stökustu vandræðum. Spyrja má hvort meirihlutinn hafi sinnt þessari stétts nægjanlega vel á þessum umbyltingartímum.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu til að bilið milli heimsókna heilbrigðiseftirlitsins til dagforeldra sem starfa tveir saman verði annað hvort lengt eða að kostnaður við heimsóknir sem eru um 60 þúsund krónur verði annað hvort felldur niður eða lækkaður umtalsvert í því millibilsástandi sem nú ríkir:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að bilið milli heimsókna heilbrigðiseftirlitsins til dagforeldra sem starfa tveir saman verði annað hvort lengt eða að kostnaður við heimsóknir sem eru um 60 þúsund krónur verði annað hvort felldur niður eða lækkaður umtalsvert í því millibilsástandi sem nú ríkir. Dagforeldrar berjast í bökkum um þessar mundir. Starfsöryggi þeirra er í uppnámi og ekki hefur verið komið nægjanlega á móts við stéttina á meðan verkefnið Brúum bilið er í vinnslu og nú þegar COVID er í algleymingi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur viljað sjá átak gert til að styrkja stéttina t.d. með því að veita stofnstyrki og/eða aðstöðustyrki. Taka þarf betur utan um þessa stétt. Ekkert okkar vill vera án dagforeldra. Dagforeldrar eru um þessar mundir að finna fyrir nokkurri uppgjöf því svo virðist sem allt sé fellt sem þeir biðja um.

Frestað.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn hvort það séu dæmi um það að börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna þess að foreldrar hafi ekki haft efni á að greiða gjöldin og af einhverjum ástæðum ekki fengið aðstoð með greiðslur? Ef svo er hvað eru þau börn mörg:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það séu dæmi um það að börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna þess að foreldrar hafi ekki haft efni á að greiða gjöldin og af einhverjum ástæðum ekki fengið aðstoð með greiðslur? Ef svo er hvað eru þau börn mörg?

Einnig er spurt hvort það séu dæmi þess að foreldrar hafi valið að láta barn sitt hætta á frístundaheimili vegna skuldar frekar en að láta frístundakort barnsins ganga upp í skuld frístundaheimilis? Fulltrúi Flokks fólksins spyr að þessu þar sem hann telur að það ætti að vera hægt að sjá hvort fólk hafi ekki fengið áframhaldandi vist fyrir börn vegna skuldar og það ætti að vera hægt að nálgast upplýsingar um hvort sömu börn hafi haft aðgang að ónýttu frístundakorti.

 

 

Skóla- og frístundaráð 8. desember

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. nóvember 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal:

Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekkert verður að gert. Útsýni niðri í dalnum verður þá takmarkað við næstu metra. Mikil umræða hefur verið um lónið. Um það vilja margir standa vörð. Stíflan er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rýfur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn – farveginn – í tvennt sjónrænt séð. Tilgangi þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 26. nóvember 2020, sbr. samþykkt umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 25. nóvember 2020 á endurskoðuðum reglum um styrki vegna hleðslubúnaðar fyrir rafbíla við fjöleignarhús

Lagðar eru fram til afgreiðslu endurskoðaðar úthlutunarreglur styrktarsjóðs fyrir fjöleignarhús til uppsetningar á hleðslubúnaði fyrir rafbíla, dags. 20. nóvember 2020. Það er sumt sem kemur á óvart í þessum reglum, t.d. hvers vegna er styrkurinn bundinn við að alla vega séu fimm íbúðir í fjölbýlishúsi? Þá er styrkurinn allt að 67% af kostnaði að hámarki 1,5 milljónir. Ekkert fæst ef bara fjórar íbúðir eru í fjölbýlishúsinu. Hér er um mismunun að ræða að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 25. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 24. nóvember 2020 á tillögu um inntöku ungbarna í leikskóla frá 12 mánaða aldri:

Skóla- og frístundaráð leggur til að sett verði á fót þróunarverkefni um inntöku ungbarna í leikskóla borgarinnar. Þróunarverkefni? Er ekki verið að flækja málið óþarflega hér og tefja að hægt sé að fara að taka 12 mánaða börn inn í leikskóla? Það hefur orðið alveg nógu mikil töf á brúum bilið verkefninu. Þetta hefur dregist von úr viti. Athuga skal að sigið er á seinni hluta kjörtímabilsins og þetta loforð var sett fram í meirihlutasáttmálanum. Ekki kom fram að það ætti að líta dagsins ljós á lokametrum kjörtímabilsins. Þetta á „komandi árum“ sem segir í greinargerð með tillögunni „að Brúum bilið feli í sér að opna 700 leikskólarými á komandi árum“ er ekki mjög uppbyggjandi. Er verið að tala um 10 ár eða 20 ár? Staðan er slæm nú. Alls voru 73 börn, 18 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólaplássi í Reykjavík í byrjun mánaðar. Alls eru 510 börn, tólf mánaða og eldri, á biðlista eftir leikskólaplássi. Loforð hafa verið svikin.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð fjölmenningarráðs frá 23. nóvember 2020:

Nýlega var samþykktur viðauki um að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Aðgerðirnar felast í því að hækka frístundakortið úr 50.000 í 80.000 kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér ætti ekki að vera um neitt tilraunaverkefni að ræða heldur ætti þetta verkefni að vera varanlegt og ná til allra hverfa. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum. Enda þótt mesta fátæktin sé vissulega í hverfi 111 eru líka fátæk börn í öðrum hverfum og það eru líka börn af erlendum uppruna í öðrum hverfum. Þess utan þarf enn að liðka um reglur frístundakortsins. Því miður gengu tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts of skammt. Skilyrðin fyrir lengd námskeiðs fór úr 10 vikum í 8 vikur. Þarna hefði átt að ganga lengra. T.d. hefði mátt miða við 4 vikur og opna síðan fyrir notkun frístundakortsins fyrir sumarnámskeið. Það eru ekki öll börn sem komast á sumarnámskeið vegna þess að foreldrar hafa einfaldlega ekki efni á að greiða gjaldið sérstaklega ef um er að ræða systkini. Vikan á sumarnámskeið á vegum Reykjavíkurborgar kostar um 20.000 kr.

 

Bókun Flokks fólksins Lögð fram fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 19. nóvember 2020, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi Íþróttabandalags Reykjavíkur sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins mun leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara á hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir til að stunda sjálfskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 2. desember, undir 7. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna Íbúasamtök Miðborgar sem standa gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt rissteikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn Íbúasamtaka Miðborgar leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og „hugsanlegri dagvistun“. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar „öndunaropi“ en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að íþrótta- og tómstundasvið standi fyrir námskeiði fyrir íþróttaþjálfara í kjölfar útgáfu bæklings Íþróttabandalags Reykjavíkur um kynferðisofbeldi í íþróttum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að íþrótta- og tómstundasvið standi fyrir námskeiði fyrir íþróttaþjálfara í kjölfar útgáfu bæklings Íþróttabandalags Reykjavíkur um kynferðisofbeldi í íþróttum. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu krefjandi starf íþróttaþjálfarans er skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli og þjálfun í samskiptum. Fræðsla er besta forvörnin. Það er mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Ekki dugar að hafa góðar leiðbeiningar aðeins á blaði heldur er mikilvægt að þjálfarar fái tækifæri til að ræða og fræðast um þessi mál með leiðbeinanda. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvaða teljast óviðeigandi. Hvar liggja mörkin þegar kemur að íþróttum sem kalla á nálægð og snertingu? Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. R20120011

Visað til meðferðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

 

Borgarráð 3. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð ásamt minnisblaði og fylgigögnum:

Í drögum er ýmsar ágætar breytingar. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að komið verði á móts við bágstadda foreldra með sértækum aðgerðum til að aðstoða með greiðslur á frístundaheimili, gjöld skólamáltíða eða dvöl á leikskóla án þess að grípa til frístundakortsins. Til stendur að mæta þessu með ákveðnum þjónustugjöldum fyrir börn notenda fjárhagsaðstoðar. Þegar fulltrúi Flokks fólksins lagði til að afnema skilyrðið um að nýta frístundakort barnsins til að fá  fjárhagsaðstoð vegna barns  brást meirihlutinn ekkert vel við. Í kjölfar þess að fulltrúi sagði frá tillögu sinni á Bylgjunni var starfsmaður sendur út af örkinni til að snúa út úr orðum fulltrúa Ff með því að segja að frístundakortið tengist ekki fjárhagsaðstoð. Rétt er að  það tengist ekki  almennri fjárhagsaðstoð heldur fjárhagsaðstoð vegna barna. Sumt í drögunum er frekar harkalegt sbr. lokamálsgrein 8. gr. Benda má einnig á 19. gr. Styrkur vegna húsbúnaðar. Hér má athuga samvinnu við Góða hirðinn. Flokkur fólksins lagði til 2019 að borgin  kæmi upp aðstöðu þar sem húsgögn/húsbúnaður fengist gefins. Tillagan var felld, sögð ógna þeim dreifiaðilum sem fyrir eru. Svona vettvangur er ekki til. Til er aðstaða sem  selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Tillagan gekk út á að fá húsgögn gefins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar:

Sú hækkun sem hér er lögð til er lág. Þótt muni um hverja krónu hjá þeim bágstöddu þá er þetta varla fyrir einni máltíð handa meðalstórri fjölskyldu. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu hækka t.d. vegna barna í 16 gr. a úr  16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Nú eru þess utan allar gjaldskrár að hækka, gjöld á frístundaheimili, gjöld fyrir skólamat, ýmis gjöld fyrir þjónustu á velferðarsviði. Segja má því að þessi hækkun hafi þá þegar verið þurrkuð út.

 

Bókun Flokks fólksins við skýrslu starfshóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra – til samþykktar:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að enn meira hefði mátt gera í þessari aðgerðaráætlun gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra. Útrýma á allri fátækt og hefur borgin alla burði til þess ef vel er haldið á spilunum.  Það er ekki nóg að ætla bara að kortleggja og greina. Það verður enginn saddur af því. Það er ánægjulegt að tillaga Flokks fólksins um  að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16.a sé nú orðin að veruleika. Einnig ber að fagna að reyna á að ná fram sjónarmiðum barna sem eiga foreldra sem hafa þurft á fjárhagsaðstoð til framfærslu. Fátækt meðal barna á Íslandi er staðreynd. Þeir sem búa við sárafátækt eru oft börn einstæðra foreldra og foreldra sem hafa lægstu launin eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra.  Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti tekna fátækra og láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80% . Til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum hefur Flokkur fólksins ítrekað lagt fram tillögu um að börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir en þær eru felldar jafnharðan.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra, dags. 2. desember 2020, um þjónustusamning við Útlendingastofnun vegna móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd

Á þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíðar var stofnað teymi starfsmanna sem koma að vinnslu mála Umsækjenda um alþjóðlega vernd (UAV teymi). UAV teymið er þverfaglegt teymi og segir í gögnum að það samanstandi af  starfsmönnum með fjölþætta menntun og mismunandi bakgrunn og reynslu.  Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort í teyminu sé fulltrúi notenda (umsækjenda) sjálfra?
Það er mjög mikilvægt að hafa fulltrúa þeirra hópa sem teymið sinnir með í hópnum bæði þegar verið er að skipuleggja aðstoðina og veita hana. Það er erfiðara fyrir teymi að skynja og skilja þá fjölbreyttu flóru sem umlykur notendur þjónustunnar ef fulltrúi hennar er ekki í skipulaginu sama hversu þverfaglegt teymið er og fjölþætta menntun starfsmenn hafa eða eru með mismunandi bakgrunn og reynslu.

 

Bókun Flokks fólksins við  kynning á drögum að samningi um heimahjúkrun og viðauka við samningsdrög um heimahjúkrun.

Samningur um heimahjúkrun, drög eru kynnt. Hér er um vel skilgreint og afmarkað verkefni sem heilbrigðisstarfsfólk hefur með höndum. Allt spilar þetta saman, heimahjúkrun og félagsleg heimaþjónusta til að gefa fólki kost á að vera sem lengst heima. Sennilega er heimahjúkrunin í góðu lagi en ýmislegt vantar upp á félagslegu heimaþjónustuna til að fólk geti verið heima sem allra lengst.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um biðlista í námskeið og til talmeinafræðings:

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um biðlista í úrræði og þjónustu á vegum borgarinnar kemur fram að 210 börn bíða eftir talmeinafræðingi. Það er einnig bið í námskeið sem dæmi bíða 41 barn eftir að komast í námskeiðið Klókir litlir krakkar.
Af hverju eru þessir biðlistar eftir þjónustu svo langir? Af hverju hafa þeir nánast fengið að festa sig í sessi sem væru þeir eitthvað lögmál?
Biðlistar koma fyrst og fremst til vegna þess að ekki er nægt fjármagn og ekki tekst að ráða fólk vegna lágrar launa. Biðin er slæm fyrir öll börn og sérstaklega geta verið alvarlegar afleiðingar ef börn með málþroskaröskun fá ekki nauðsynlega sérfræðiþjónustu. Rannsóknir hafa sýnt að börn og unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í félagslegum aðstæðum og eru þau einnig berskjaldaðri fyrir tilfinningalegum erfiðleikum. Á unglingsárunum eykst þörf einstaklinga fyrir nánum félagslegum samskiptum við jafningja. Slök máltjáning og slakur orðaforði er ein aðalástæða þess að unglingar með málþroskaröskun eru líklegri til að upplifa erfiðleika í tengslamyndun við félaga sína. Tímabil unglingsára er talið eitt það mest krefjandi tímabil í lífi fólks þar sem á þeim árum eiga miklar breytingar sér stað, bæði líffræði-, vitsmuna-, félags- og tilfinningalegar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að brúa bilið milli kynslóða:

Flokkur fólksins leggur til að fundnar verði leiðir til að brúa bilið milli kynslóða, eldri borgara og barna. Við getum lært svo mikið hvert af öðru,  fullorðnir af börnum og börn af fullorðnum. Hægt er að finna alls konar flöt á samskiptum og samveru eldri og yngri kynslóðarinnar. Tala saman, fara eitthvað saman eða gera eitthvað saman. Lagt er til að leitað verði leiða til að auka samskipti yngri og eldri, barna og eldri borgara til að efla gagnkvæman skilning og virðingu og umfram allt eiga ánægjulegar stundir. Nota má leik- og grunnskólana og félagsmiðstöðvarnar í þessum tilgangi.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um leigu og viðhald Félagsbústaða:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar fyrirspurnir um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum. Nokkrir leigjendur hafa verið að koma með ábendingar sem ekki hefur verið brugðist við af Félagsbústöðum t.d. að loftræstitúður spúi ryki og að ekki hafi verið brugðist við glugga sem ekki var hægt að loka vegna myglu og raka. Eins er leiga að hækka jafnt og þétt og er spurt hvort eitthvað annað en leigan sé að hækka. Í fyrirspurn Flokks fólksins fyrir skemmstu um hækkun leigu kom fram að aðeins sé um að ræða vísitölubundna hækkun og ekkert annað.

Ef reikningar eru skoðaðir þá má sjá að verið er að rukka um húsgjald, eitthvað þjónustugjald og eitthvað greiðslugjald.
Hvað er þetta eiginlega? Og eru þessar upphæðir að hækka jafnt og þétt?

Nú í COVID aðstæðunum er enginn að koma frá Félagsbústöðum til að sinna viðhaldi að sögn nokkurra leigjenda. Benda má á í því sambandi að vel er hægt er að sinna viðhaldi í þessum aðstæðum sé gætt að reglum um sóttvarnir.

 

 

Velferðarráð 2. desember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðarljósastýringar á höfuðborgarsvæðinu, niðurstöður úttektar, kynning:

Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Ef gluggað er í niðurstöður úttektarinnar þá virðist Reykjavík aftarlega á merinni miðað við þær borgir sem fjallað er um í skýrslunni. Hinn 3. júní bókaði Flokkur fólksins við yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík eftirfarandi:

Á 100 stöðum er enn gömul útfærsla á umferðarljósum en á 113 stöðum nýrri. Þetta er langt því frá að vera viðunandi Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæðið slakt? Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða raðir bíla eftir grænu ljósi og leiðin samt löngu orðin greið. Gamaldags umferðar ljósastýringarkerfi er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut lengi eftir að viðkomandi hefur þverað gangbrautin er ekki til að bæta útblástursvandann.

 

Bókun Flokks fólksins við Umferðaröryggisaðgerðir 2020, hluti 2

Umferðaröryggi í Úlfarsárdal hefur verið ábótavant. 7. október bókaði fulltrúi Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að gert verði átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfarsárdal. Tillögunni var vísað frá.

Minnt er á að málið var á dagskrá íbúaráðs Úlfarsárdals fyrir skemmstu en þar var bókað að nokkuð sé ábótavant við merkingar og einnig við umferðaskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að vinna að umferðaröryggisaðgerðum s.s. merkingu og lýsingu gangbrauta í Úlfarsárdal. Miklar tafir hafa verið á verkinu sem búið var að lofa fyrir ákveðinn tíma. Fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum að það sé veghaldara að ákveða hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúa. Það er miður ekki síst í allri umræðunni um samráð við íbúa. Auðvitað eiga íbúar að hafa um þetta að segja. Eiga gagnbrautir að vera gangbrautir aðeins ef veghaldari segir svo, annars bara gönguþverun? Og ef það er gönguþverun þarf þá ekki að vera skilti?! Hér er gott tilefni til að hafa samráð við íbúa sem vilja kannski hafa eitthvað um það að segja hvar gangbrautir eigi að vera í hverfinu þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við Frakkastígur – Skúlagata, breyting á deiliskipulagi

Fulltrúi Flokks fólksins finnst ástæða til að styðja skoðun íbúasamtakanna ÍMR sem stendur gegn því að þessi bygging rísi. Samkvæmt riss –teikningu skemmir þessi bygging útsýni. Ályktum Íbúasamtaka Miðborgar (ÍMR) um deiliskipulagsbreytingu vegna nýbyggingar á Frakkastíg 1 á rétt á sér en stjórn ÍMR leggst gegn því að reist verði sjö hæða bygging á horni Frakkastígs og Skúlagötu þar sem nú, samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 1986 er gert ráð fyrir opnu svæði og “hugsanlegri dagvistun”. Stjórnin telur að halda eigi opna svæðinu við norðurenda Frakkastígs sem einskonar “öndunaropi” en þar er eini staðurinn í röð hárra bygginga við Skúlagötu þar sem enn eru tengsl milli eldri byggðar og sjávar.

Það er auðvitað óþarfi að ganga með “þéttingu byggðar” út í slíkar öfgar að stoppa þurfi í hvert gat/bil með byggingu. Ef heldur sem horfir mun hvergi sjást til sjávar úr borginni áður en yfir lýkur. Fyrir augum verður aðeins steypa hvert sem litið er.

 

Bókun Flokks fólksins við við liðinum Uppgjör umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið janúar til september 2020.

Athygli vekur að undir liðnum Viðhald fasteigna má sjá að viðhaldskostnaður er undir áætlun. Þarf ekki einmitt að sinna viðhaldi vel ? “Viðhald fasteigna var 481 m.kr. undir fjárheimildum tímabilsins, helstu frávik eru sem hér segir; viðhald grunnskóla 166 m.kr., viðhald íþróttamannvirkja 66 m.kr., viðhald leikskóla 111 m.kr. og viðhald ýmissa fasteigna 50 m.kr.” Það er sérkennilegt að ekki hver króna sem er í áætlun sé nýtt í viðhald!

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umhverfis- og skipulagssvið, yfirlit yfir innkaup yfir 1 m.kr.

Fulltrúi Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins mun leggja fram spurningar um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um greiðslur í gegnum app EasyPark sem áður var Leggja.is:

Það er talsvert áfall að heyra að bílaeigendur sem nota EasyPark eru að greiða bæði bílastæðasjóði og EasyPark gjöld/þóknun. Segir i svari við fyrirspurn að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta vond tíðindi og veltir fyrir sér hvort bílaeigendur sem leggja bíl sínum séu meðvitaðir um að þeir eru að greiða gjöld til beggja aðila. Seilst er ansi langt að mati fulltrúa Flokks fólksins í að hafa fé af þeim sem koma á bíl sínum á gjaldskylt svæði í Reykjavík

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um SWECO fyrirtækið og tengsl þess við skipulagsyfirvöld

Kynntar eru niðurstöður úttektar SWECO á umferðarljósastýringum í Reykjavík. Reykjavík fær þar frekar slæma útreið og er aftarlega á merinni ef samanborin við aðrar borgir sem Reykjavík er borin saman við.

Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig það kom til að Reykjavík er þátttakandi í þessari úttekt og hvað er verið að greiða fyrir að vera aðili að þessari úttekt?

Hvaða fyrirtæki er þetta SWECO og hver eru tengsl þess við skipulagsyfirvöld í borginni? Óskað er eftir að umhverfis- og skipulagssvið finni út hver kostnaður er ef hann liggur ekki fyrir nú.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum hjólastóla og göngugrindum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ráðist verði í úttekt á aðgengismálum í Reykjavík af hálfu umhverfis- og skipulagssviðs hvað varðar hjólastólaaðgengi og göngugrindur. Það er á ábyrgð stjórnvalda að tryggja það að allir hafi jafnt aðgengi að verslunum og þjónustu í landinu. Þetta er kveðið á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lög um mannvirki leggja þá skyldu á sveitarfélög að hafa eftirlit með aðgengismálum. Ítrekað hefur verið bent á það að reglur um aðgengi séu ekki virtar. Fólk er orðið langþreytt á því að þurfa í sífellu að vekja athygli á því hve langt er í land í þessum málum þrátt fyrir það að lög og reglugerður séu til staðar sem kveði á um aðgengiskröfur. Þörf er á því að greina betur vandann og efla eftirlit og ráðgjöf til verslana og og þjónustuveitenda til að tryggja það að allir komist greitt sinna leiða. Því er lagt til að umhverfis- og skipulagssvið framkvæmi úttekt á málaflokknum og greini hvaða leiðir séu færar til úrbóta til að tryggja það að verslanir og þjónustuveitendur geti haft aðgengiskröfur í samræmi við lög, reglugerðir og alþjóðasamninga.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla fyrir hleðslustöðvar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði hvort ekki er hægt að breyta bílastæðum fyrir stóra bíla, sem ekki fá að nota þau lengur samkvæmt hverfisskipulagi Breiðholts, í hleðslustæði ?

Nú ríður á að liðka fyrir orkuskiptum og skipulagsyfirvöld geta beitt sér mun meira og betur í að komið verði hratt upp hleðslustöðum bæði fyrir rafmagn og metan.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að nota frárennsli húsa í meiri mæli til að hita almennar gangstéttir

Flokkur fólksins leggur til frárennsli frá húsum verði í meira mæli nýtt til að hita almennar gangstéttir. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring. Þar sem ekki tekst að hita gangstéttir þarf að sinna snjómokstri og salta þegar hálka myndast. Saltkassar eiga einnig að vera aðgengilegir við göngustíga.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu, um að sinna snjómokstri enn betur, salta gangstéttir og hafa saltkassa aðgengilega

Flokkur fólksins leggur til að skipulags- og umhverfissvið standi sig betur í snjómokstri og söltun gangstétta og að saltkassar verði aðgengilegir við göngustíga í borginni. Borist hafa kvartanir yfir hversu illa er hreinsað t.d. í kringum skóla í Breiðholti og víðar á göngustígum í Breiðholti sem og ýmsum öðrum hverfum. Nú sem fyrr er mikil hálka og víða stórhættulegt að ganga um í borginni. Hálkuvarnir eru hagkvæm framkvæmd sem fækkar beinbrotum og bætir lýðheilsu, því að á öruggum gangstéttum má ganga allan ársins hring.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um gjaldheimtu bílastæðasjóðs og EasyPark

Svar hefur borist við fyrirspurn um hvert tekjurnar sem mest notaða bílastæðaapp í Evrópu, sem nú er komið til Íslands fara vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur?

Í svari segir að EasyPark keypti Leggja.is árið 2019. Greiðslur fyrir stæði sem greiddar eru með greiðslulausninni renna óskertar til Bílastæðasjóðs. EasyPark leggur aukalega á þóknun fyrir hverja notkun og rennur sú þóknun til þeirra.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta skrýtið svar frá bílastæðasjóði en er hér verið að segja að bæði bílastæðasjóður fái gjald og svo fari einnig sérstök greiðsla til EasyPark? Eru bílaeigendur að greiða gjald til beggja í hvert skipti sem þeir leggja? Eru bílaeigendur meðvitaðir um það og hafa þá gjöldin ekki hækkað sérstaklega þar sem EasyPark leggur aukalega þóknun á fyrir hverja notkun?

Óskað er upplýsinga um samninga sem liggja til grundvallar samstarfs bílastæðasjóðs og EasyPark og hvernig fyrirkomulagið allt er í því sambandi?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,

Fulltrúa Flokks fólksins óar við öllum þessum innkaupum Umhverfis- og skipulagssviðs sem birt eru í yfirlit í ljósi þess að á sviðinu starfa ótal sérfræðingar. Nýlega var verið að ráða enn fleiri sérfræðinga. Samt sem áður eru nánast flest verkefni keypt út í bæ. Milljarðar streyma úr borgarsjóði í aðkeypta sérfræðivinnu sem skipulagsyfirvöld kaupa af sjálfstætt starfandi fyrirtækjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvernig samskiptum umhverfis- og skipulagssviðs (USK) er háttað við verkfræði-arkitektastofur.

Spurt er:

Hvernig er samskiptum við verkfræði-arkitektastofur háttað?

Óskað er eftir upplýsingum um tilboð- fasta samninga- magnafslætti?

Verið er að greiða verk- og arkitektastofum gríðarlegar upphæðir. Er ekki hægt að vinna nein þessara verkefna af sérfræðingum sviðsins?

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 2. desember 2020

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021 vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í leik- og grunnskólum.

Tillaga nr. 1
Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)

Flokkur fólksins leggur hér fram í annað sinn tillögu um að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 1.870 m.kr. vegna tekjulækkunar. Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.870 m.kr. á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséð ræður ekki við útgjaldaaukningu af þessari stærðargráðu þarf að leita að fjármagni á öðrum sviðum.

Greinargerð

Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að leitað verði leiða til að spara í rekstri til að koma á móts við útgjöld sem fríar skólamáltíðir kalla á. Sem dæmi verði leitað leiða til að minnka matarsóun og þar með lækka kostnað mötuneyta. Í ljós hefur komið í rannsóknum að  mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Með átaki gegn matarsóun er hægt að draga kostnað við máltíðir skóla niður á sama tíma og hugað er að umhverfismálum. Einn liður í að draga úr matarsóun er að leyfa börnum, um leið  og þau hafa aldur og þroska til, að skammta sér sjálf á diskinn og einnig að börnin skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa.

Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir fríum skólamáltíðum eða lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, frestun gjaldskrárhækkana um eitt ár.

Tillaga um að fresta gjaldskrárhækkunum um eitt ár

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fresta skuli gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár vegna aðstæðna sem nú ríkja vegna COVID-19.

Flokkur fólksins leggur til að fjárheimildir skóla og frístundasviðs verði hækkaðar um 75.244 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar  um 18.113 þ.kr. Samanlagt lækki tekjur um 93.357 þ.kr. vegna þessa, sem verði fjármagnað af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð:

Tillagan felur í sér að fresta gjaldskrárhækkunum á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði sem snúa beint að gjöldum vegna þjónustu við fólk um eitt ár eða til 1.1. 2021 vegna ástands sem ríkir núna í samfélaginu í kjölfar kórónuveirunnar. Tillagan bætir hag barnafjölskyldna, aldraðra og fatlaðra sem njóta þjónustu borgarinnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum.

Tillaga um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Tillagan felur í sér að fjárheimildir umhverfis- og skipulagssviðs verði hækkaðar um 33.300 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Samkvæmt stýrihópi sem nýlega lagði fram tillögur að breytingu á þjónustu borgarinnar við gæludýraeigendur er gert ráð fyrir að hundar verði áfram skráningarskyldir og að áfram verði innheimt eftirlitsgjald af hundaeigendum. Það er engin sanngirni í því að hundaeigendur haldi einir uppi allri þjónustu við gæludýraeigendur í borginni.  Í sameiginlegri umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um skýrslu stýrihóps um þjónustu við dýraeigendur kemur fram að um 9000 heimili halda hunda í borginni en um 2000 hundar eru skráðir sem þýðir að um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu. Í skýrslu stýrihópsins er líka tekið fram að gjöldin „…séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“ Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald. Hlýtur gjaldtakan því að vera skattheimta sem verður að byggja á lögum. Samkvæmt því er gjaldið ólögmætt.

Greinargerð

Í lögum er það alveg skýrt að þjónustugjald má ekki innheimta umfram kostnað við þjónustuna en sá áskilnaður krefst ákveðins gegnsæis. Því miður hefur borgin ekki sinnt þeirri skyldu að veita upplýsingar um kostnað á bak við gjaldið þegar eftir því hefur verið leitað.

Skráning á gæludýrum er mikilvæg sem og örmerkjaskráning sem er lögbundin skylda.   Ef skráningargjald verður afnumið  mun skráðum dýrum fjölga. Ef innheimta á skráningargjöld mun einfaldlega færri hundaeigendur skrá hunda sín. Gjaldtakan hefur fælingarmátt. Það ætti að vera markmiðið að sem flestir hundaeigendur skrái hunda sína. Hundaeftirlitsgjaldið er barn síns tíma og hefur aðeins verið innheimt af hundaeigendum. Sum önnur sveitarfélög hafa engin gjöld af þessu tagi. Gjaldið hefur ekki lækkað þrátt fyrir að verkefnum hundaeftirlitsmanna hafi snarfækkað.

Í sameiginlegri skýrslu Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands gagnrýna félögin tillögur stýrihóps borgarinnar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án virks eftirlits er mögulega ólögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að meginverkefni  hundaeftirlitsins síðustu ár hefur verið að að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“  Nú á að leggja hundaeftirlitið niður en halda áfram með sama fyrirkomulagi á nýjum vettvangi dýraþjónustu. Þessu er mótmælt enda eiga skráningar sem þessar ekkert  skylt við eftirlit. Ekki er eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína? Eigendur skráðra hunda greiða skráningargjald og árlegt eftirlitsgjald og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði hjá dýralækni sem fólk þarf að greiða fyrir.

Tillögurnar voru felldar

Hér er bókun Flokks fólksins við afgreiðslu þeirra:

Bókun Flokks fólksins vegna atkvæðagreiðslu tillagna Flokks fólksins og annarra flokka.
Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögur sem voru felldar.

Þær voru:

Gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum

Frestun gjaldskrárhækkana á sviði skóla- og velferðarsviði um eitt ár

Að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum

Allar þessar tillögur eru réttlætistillögur. Fríar skólamáltíðir er eina leiðin til að tryggja að ekkert barn verði svangt í skólanum.
Engin sanngirni felst í því að innheimta skráningar og eftirlitsgjald aðeins af hundaeigendum (þ.e. þeim sem skrá hunda sína) og nota það til að halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Þetta er skattur en ekki gjald, mál sem þyrfti nauðsynlega að útkljá fyrir dómstólum.
Frestun gjaldskrárhækkana á svið sem eru nú þegar að sligast er sjálfsagt mál í ljósi ástandsins enda aðeins verið að tala um í eitt ár.
Fulltrúinn sat hjá í atkvæðagreiðslu tillögu meirihlutans um gjaldskrárhækkanir þar sem undir þeim lið var einnig hækkun launagjaldskrár til stuðningsforeldra. Einnig sat fulltrúinn hjá við afgreiðslu samstarfs- og styrktarsamnings við RÚV vegna þess að rétt hefði verið að líta einnig til  annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva eins og Hringbrautar eða SÝN. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega því að heyra raddir barna sem oftast.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu frumvarps að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2021, ásamt greinargerð og starfsáætlunum, sbr. 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Borgarstjórn sameinaðist um fyrstu viðbrögð við efnahagslegu áfalli eftir kórónuveiruna 26. mars sl. Samstaða náðist um þrettán aðgerðir, m.a. að létta undir með fólki almennt, þeim sem missa lífsviðurværi sitt og þeim sem voru illa staddir fyrir faraldurinn. Þeir eru því miður allt of margir. Fátækt hefur ríkt lengi í Reykjavík hjá dágóðum hópi. Of mikið púður hefur farið í prjál, skreyta götur og torg í stað þess að sinna grunnþjónustu vel og huga að þeim verst settu. Biðtími eftir alls kyns þjónustu er í hæstu hæðum. Skuldir borgarinnar fyrir COVID voru miklar. Enda þótt hægt sé að fá hagstæð lán verður að vera einhver skynsemi í fjármálastjórninni. Fulltrúi Flokks fólksins hvetur til aðgerða sem eru sértækar og beinast að þeim verst settu. Um leið og lækkanir bjóðast öllum, ríkum jafnt sem fátækum, viðhelst ójöfnuður. Meirihlutinn lofaði að mæta ekki tekjufalli með niðurskurði en gerir það samt. Allar gjaldskrár á grunnþjónustu verða nú hækkaðar og krafist er hagræðingar hjá sviðum sem mæðir mest á. Það hlýtur að þurfa að forgangsraða meira í þágu fólksins. Enn bíða 1000 manns eftir félagslegu húsnæði og enn er talsvert af íbúðum Félagsbústaða og skólar sem eru að grotna niður vegna myglu og raka.

 

Bókun Flokks fólksins við frumvarp að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, ásamt greinargerð, sbr. 3. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember sl.

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna í þjónustu á vegum borgarinnar. Biðlistatölur eru að hækka í kjölfar COVID og von er á enn fleiri tilvísunum þar sem foreldrar margra barna hafa nú misst atvinnu sína og geta ekki leitað eftir sálfræðiþjónustu eða annarri þjónustu hjá sjálfstætt starfandi fagfólki. Nú reynir enn meira á þjónustukerfi borgarinnar í skóla- og velferðarmálum. Eins er gengið allt of skammt næstu árin í byggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk. Nú bíða um 137 manns með fötlun eftir sértæku húsnæði. Minnt er á nýlegan úrskurð í úrskurðarnefnd velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Enn er mikill húsnæðisvandi í Reykjavík. Þúsund manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Vitað er að margar fjölskyldur búa í óleyfishúsnæði vegna þess að þær hafa ekki efni á að koma yfir sig betra og öruggara skjóli. Því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku og efnalitlu fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði þar sem brunavörnum er oft ábótavant.

 

Bókun Flokks fólksins við  tillögu um Græna planið:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem meirihlutinn hafi gengisfellt hugtakið „grænn eða grænt“. Hamrað er á græna planinu en allt þar er ekki grænt í almennum skilningi þess orðs. Er almennt það að byggja hús grænt? Betra væri að vísa til þessa plans sem röndótts frekar en græns. Grænt vísar til sjálfbærni og þess sem er kolefnislaust og sem er umhverfisvænt. Komið er inn á velferðarmálin í græna planinu. Hvernig getur mörg hundruð barna biðlisti í skólaþjónustu flokkast undir grænt plan meirihlutans í borginni? Eða á annað hundrað manna biðlisti eftir sértæku húsnæði? Eða lagning 3. áfanga Arnarnesvegar sem veldur óafturkræfu tjóni á náttúru og dýralífi? Eða fjörufyllingar sem eyðileggja náttúrulegar fjörur sem ekki eru of margar í Reykjavík? Hversu grænn er vandi 34% drengja og 19% stúlkna sem ekki geta lesið sér til gagns eftir grunnskóla? Eða grunnskólabörnin af erlendum uppruna sem eru illa stödd í íslensku þótt þau hafi fæðst hér á landi? Fjölmargt er gott í græna planinu en stór hluti af þeim raunveruleika sem nú ríkir og borgarbúar búa við nú og næstu árin á ekkert skylt við „grænt“. Þetta eru falleg orð á blaði en fallegar hugmyndir ná skammt ef framkvæmdin fylgir ekki með.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að fjármála- og fjárfestingarstefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. nóvember 2020.

Flokkur fólksins lagði fram breytingartillögur sem voru felldar. Þær voru: gjaldfrjálsar skólamáltíðir í leik- og grunnskólum, frestun gjaldskrárhækkana á skóla- og velferðarsviði um eitt ár, og að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjalds af hundaeigendum. Allar þessar tillögur eru réttlætistillögur. Fríar skólamáltíðir er eina leiðin til að tryggja að ekkert barn verði svangt í skólanum. Afnám hagræðingarkröfu á fagsviðum sem nú þegar eru að sligast er skynsamlegt í ljósi óvenjulegs ástands. Engin sanngirni felst í því að innheimta skráningar og eftirlitsgjald aðeins af hundaeigendum (þ.e. þeim sem skrá hunda sína) og nota það til að halda uppi allri dýraþjónustu borgarinnar. Þetta er skattur en ekki gjald, mál sem þyrfti nauðsynlega að útkljá fyrir dómstólum. Hvað varðar gjaldskrárhækkanir er fulltrúi Flokks fólksins á móti hækkunum sem snerta beina þjónustu við fólk. Fulltrúinn sat hjá í atkvæðagreiðslu þar sem undir þeim lið var einnig hækkun launagjaldskrár til stuðningsforeldra. Einnig sat fulltrúinn hjá við afgreiðslu samstarfs- og styrktarsamnings við RÚV vegna þess að rétt hefði verið að líta einnig til annarra útvarps- og sjónvarpsstöðva eins og Hringbrautar eða SÝN. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar vissulega því að heyra raddir barna sem oftast.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar nýjum bæklingi ÍBR sem ber heitið Kynferðislegt ofbeldi og kynferðisleg áreitni í íþróttum. Fyrir var til bæklingur um sama efni sem ber heitið „Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum“, gefinn út af ÍSÍ fyrir nokkrum árum. Sá bæklingur hefur staðist vel tímans tönn. Fræðsla er alltaf besta forvörnin. Það er afar mikilvægt að íþróttafélag eigi góðar siðareglur og verklagsreglur ef upp koma mál/kvörtun um kynferðislegt ofbeldi. Flokkur fólksins myndi vilja leggja til að útgáfu leiðbeiningarritsins verði fylgt eftir með námskeiði um þessi mál. Mikilvægt er að auka meðvitund íþróttaþjálfara um hvaða samskipti teljast viðeigandi og hvað telst óviðeigandi. Hvar mörkin liggja þegar kemur að íþróttum sem kallar á nálægð og snertingu. Börn upplifa samskipti með ólíkum hætti. Sú umræða er einkum mikilvæg sökum þess að börn og unglingar hafa ekki alltaf náð þeim tilfinninga- og félagsþroska sem þarf til að leggja raunhæft mat á atferli og aðstæður. Þeim er þar af leiðandi hættara við að misskilja tjáningu í samanburði við fullþroska einstaklinga. Íþróttaþjálfarar sem sótt hafa fræðslunámskeið í samskiptum á vettvangi íþróttanna eru betur í stakk búnir að stunda sjálfsskoðun og greina aðstæður. Vegna þess hversu starf íþróttaþjálfarans er krefjandi skipta skýrar og raunhæfar reglur höfuðmáli.

Borgarstjórn 1. desember 2020

Fyrirspurn Flokks fólksins um af hverju íbúðir á vegum Félagsbústaða standa lausar svo mánuðum skiptir. Spurt er einnig um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum.

Fulltrúa Flokks fólksins hefur borist til eyrna að íbúðir Félagsbústaða standa sumar lausar í allt að 4-5 mánuði. Þetta þykir afar sérkennilegt þegar tæp þúsund manns/fjölskyldur bíða eftir húsnæði. Spurt er: a) Hversu margar íbúðir losnuðu hjá Félagsbúðstöðum á þessu og síðasta ári?
b) Hver er ástæðan fyrir því að þær losna.
c) Hve margar íbúðir eru lausar núna (september/nóvember) hjá Félagsbústöðum og hvað hafa þær verið lausar lengi?
d) Hvenær fara þær íbúðir sem eru lausar núna í útleigu?
e) Hversu langur tími líður að meðaltali frá því að íbúð losnar og þar til að hún er leigð út aftur? Og loks af hverju standa íbúðir Félagsbústaða lausar svo mánuðum skiptir, stundum tvær í sama stigagangi? R20110344

Vísað til umsagnar stjórnar Félagsbústaða.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins um framgang innleiðingar á endurskoðaðri stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum ásamt verklagi með stefnunni :

Á fundi borgarstjórnar 19. mars 2019 var samþykkt endurskoðuð stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum ásamt verklagi með stefnunni. Endurskoðun var í höndum þverpólitísks stýrihóps undir forystu borgarfulltrúa Flokks fólksins. Innleiðing stefnunnar er á ábyrgð mannauðsdeildar Ráðhúss Reykjavíkur sem annast innleiðingarferlið á öllum stofnunum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvernig innleiðing hefur gengið, hvar innleiðingarferlið er statt og hvernig hefur því verið háttað. R20110345

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins að fá rökstuðning fyrri uppsögnum starfsmanna:

Nýverið var nokkrum starfsmönnum á þjónustu- og nýsköpunarsviði sagt upp og verkefnum þeirra útvistað. Sú útskýring var gefin að þetta væri gert í hagræðingarskyni. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um og rökstuðning fyrir þessum aðgerðum. Hver er kostnaðarmunurinn á að hafa fastráðið starfsfólk annars vegar og að útvista verkefnunum hins vegar? Þegar fréttir bárust af uppsögnunum var greint frá því að af sviði þjónustu- og nýsköpunar hafa 23 manns ýmist verið sagt upp eða látið af störfum vegna starfsaldurs síðastliðinn 8 ár og á þessu ári hefur sjö starfsmönnum sviðsins verið sagt upp. Það vekur eðlilega spurningar hjá fulltrúum borgarbúa þegar starfsmannavelta á tilteknu sviði borgarinnar er svo mikil. R20110346

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021 vegna gjaldfrjálsra skólamáltíða í leik- og grunnskólum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, frestun gjaldskrárhækkana um eitt ár.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, afnám hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um að hætt verði að innheimta skráningar- og eftirlitsgjald af hundaeigendum.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um afnám tekjutengingar við húsnæðisstuðning

Greinargerð fylgir tillögunni. R20010203

Vísað til borgarstjórnar.

Borgarráð 27. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins undir umræðunni og yfirskriftinni; Göngum í takt – samtal við atvinnulífið.

Gestum er þakkað fyrir komuna. Það slær fulltrúa Flokks fólksins að eitt af því sem bent er á í samtölum við forsvarsfólk atvinnulífsins er hversu flókið og óþjált ferli borgarkerfisins er þegar kemur að leyfisveitingum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur í tvígang lagt fram tillögu um að farið verði með markvissum hætti í að einfalda umsóknir um leyfisveitingar og allt regluverk í sambandi við það hvort sem það er byggingaregluverk eða annað til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik. Þetta ætti ekki að flækjast mikið fyrir borgarmeirihlutanum, hvað þá taka tíma. Einnig vill fulltrúi Flokks fólksins rifja upp aðgerðir í efnahagsmálum sem allir borgarfulltrúar samþykktu á fundi 26. mars. Þar á meðal var frestun gjalda og niðurfelling gjalda og að fyrirtækjum verði gefinn kostur á að fresta gjalddögum. Þessar aðgerðir mætti útvíkka enn meira þannig að fleiri geti notið þeirra. Vinna þarf hraðar nú og framkvæma strax það sem hægt er að framkvæma, t.d. það sem krefst ekki mikils tilkostnaðar. Borgarmeirihlutinn þarf spark. Orð eru til alls fyrst en ekki dugir að eiga aðeins samtöl ef engar eða litlar eru framkvæmdirnar.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr.

Bjóða á út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætóbiðstöðva vegna aðgengismála. Það er löngu tímabært. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum bæði hvað varðar aðgengi og yfirborð. Eiginlega er, samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, aðgengi hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað. Aðgengi og yfirborðsvandi stétta við strætóbiðstöðvar hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki, sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma sem það tekur að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.

 

Bókun Flokks fólksins  við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 11. nóvember 2020, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 10. nóvember 2020 á samstarfs- og styrktarsamningi sviðsins við Ríkisútvarpið:

Fulltrúi Flokks fólksins er afar ánægður með að raddir barna og ungmenna heyrast sem víðast enda hafa börn mikið að segja og mörgu af því getum við fullorðna fólkið lært af. En hvað með aðrar stöðvar? Hefði ekki verið eðlilegt að tala við þær líka, t.d. Sýn, Hringbraut eða aðra fjölmiðla? Þá vekur athygli að hér er ekki um þjónustukaup að ræða heldur er skóla- og frístundaráð að styrkja RÚV ohf. RÚV ber að gera ákveðna hluti samkvæmt þjónustusamning RÚV og menntamálaráðuneytisins, þ.m.t. að sinna fræðsluhlutverki og auka framleiðslu á íslensku efni fyrir börn. Hér hefði verið eðlilegt að fara í útboð eða gera verðfyrirspurn til að kanna áhuga annarra sjónvarpsstöðva á verkefni sem þessu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 17. nóvember 2020, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um mótun á virkniaðgerðum í samræmi við græna planið vegna stöðu á vinnumarkaði í kjölfar COVID-19 

Borgarstjóri fjallar almennt um ástandið á vinnumarkaði og að borgin flýti nokkrum verkefnum til að minnka atvinnuleysi. Lagt er fram erindisbréf, að starfshópur um mótun á vinnu- og virkniaðgerðum verði settur á laggirnar. Hópurinn er skipaður embættismönnum einungis. Er það rétt stefna? Eftir því er tekið í bréfi borgarstjóra að hann segir að „ein helsta áhersla græna plans Reykjavíkurborgar í samfélagslegu víddinni er að enginn verði skilinn eftir“. Hvað er átt við? Að enginn verði skilinn eftir vinnulega séð? Fjölmargir hafa verið skildir eftir árum saman í samfélagslegri vídd. Það þarf ekki að horfa lengra en til allra þeirra sem treysta á hjálparsamtök til að fá að borða, er það ekki samfélagleg vídd?. Má ekki segja að það fólk hafi verið skilið eftir? Reykjavíkurborg sjálf hefur verið að segja upp fólki. Fjórum tæknimönnum var sagt upp störfum fyrir fáeinum dögum frá þjónustu- og nýsköpunarsviði og verkefnum þeirra útvistað. Er þetta í anda græna plansins?

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs endurskoðunarnefndar til borgarstjórnar um starfsárið 2019-2020, ásamt starfsskýrslu endurskoðunarnefndar 2019-2020, dags. 2. nóvember 2020:

Eitt mikilvægasta verkefni endurskoðunarnefndar snýr að eftirlitshlutverkinu að mati fulltrúa Flokks fólksins, fylgjast með vinnuferli við gerð fjárhagsáætlunar og afla sér upplýsinga um mikilvægar forsendur til grundvallar áætluninni. Stundum er eins og endurskoðunarnefndin horfi að mestu til hvort rétt sé lagt saman eða dregið frá en minni áhersla sé á hvað liggi að baki, þ.e. eftirlitshlutann. Endurskoðendur árita jú alltaf reikninga með ákveðnum fyrirvara. Þeir afla nægjanlegrar vissu um að reikningur sé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka. Ekki er um neina fullvissu. Það er því ekki tryggt að endurskoðun sem framkvæmd er í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla hafi uppgötvað allar verulegar skekkjur séu þær til staðar, hvort sem þær eru vegna mistaka eða sviksemi eins og segir í stöðluðum texta með áritun endurskoðenda. Hvað með áhættumat Reykjavíkurborgar? Hvað með þegar hugsanlega eitthvað ólögmætt er í gangi sem eftirlitsaðilar segjast ekki sjá ástæðu að skoða þrátt fyrir háværar raddir borgarbúa? Svo er það spurning um að vera nægjanlega óháður og óvilhallur svo hægt sé að sporna við meðvirkni. Um leið og auka á samskipti við stjórnendur t.d. með fjölda funda getur það haft áhrif á hversu vel eða illa tekst að halda nauðsynlegri persónulegri fjarlægð.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, dags. 7. október 2020, varðandi beiðni um niðurfellingu á fasteignagjöldum:

Erindi Samtaka ferðaþjónustunnar og Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu um niðurfellingu á fasteignagjöldum er lagt fram í borgarráði. Óskað er niðurfellingar fasteignagjalda. Fulltrúi Flokks fólksins telur að niðurfelling sé of kostnaðarsöm enda ekki hægt samkvæmt núgildandi lögum. Sanngjarnt og eðlilegt er hins vegar að fresta greiðslu fasteignagjalda í ljósi þess ástands sem ríkt hefur og mun ríkja um nokkurn tíma enn. Vonandi sér fyrir endann á COVID nú þegar glittir í bóluefni og samfélagið kemst í sitt eðlilega horf.

Bókun Flokks fólksins við minnisblað borgarlögmanns, dags. 18. nóvember 2020, varðandi lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts:

Minnisblað um lagaleg atriði í tengslum við hugsanlega úttekt á starfsemi Arnarholts er lagt fyrir borgarráð. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að í ljósi frétta af illri meðferð á fólki á Arnarholti sé nauðsynlegt að koma á laggirnar nefnd til að gera úttekt á starfsemi vistheimilisins Arnarholts. Úttektin ætti fyrst og fremst að beinast að því hvernig meðferð einstaklingar fengu, hvernig henni var háttað, hvernig starfsemin var og hvert hið opinbera eftirlit með henni var. Mikilvægt er að skoða hvort ekki sé ástæða til að skoða aðbúnað á fleiri vistheimilum sem rekin voru á sama tíma.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um átak til að hvetja öll börn til að nýta frístundakortið, sbr. 36. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember 2020.

Tillagan er felld.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að gert yrði átak til að hvetja öll börn til að nota rétt sinn til frístundakorts. Áhrifaríkast yrði að nota aðferðina „maður á mann samtal“ og ekki hætta fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum. Slök nýting frístundakortsins í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Það er borgaryfirvalda að gera eitthvað til að auka nýtingu. Það er ekki gert með því að nota frístundakortið sem gjaldmiðil í nauðsynjar. Það er beinlínis staðfest í skýrslu stýrihóps sem endurskoðaði reglur kortsins að ástæðan fyrir að borgarmeirihlutinn vill að foreldrar geti nýtt kortið í frístundaheimili er að þá þurfa ekki að koma til aðrir sérstakir styrkir. Í það minnsta verða aðrir styrkir lægri þegar rétturinn til nýtingar kortsins er tekinn upp í. En þar með er barnið ekki að nota frístundakortið til að stunda tómstund að eigin vali. Eins og segir í skýrslu stýrihópsins: “kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og því ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.” Það er rangt að skerða möguleika barns að nota kortið með þessum hætti að mati Flokks fólksins.

 

Bókun fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs:

Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerðri náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar. Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, hann er frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En þar voru líf-fæðuauðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir. Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Það kemur fulltrúa Flokks fólksins nokkuð á óvart að senda á tillögu Flokks fólksins um að kvikmyndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd í grunnskólum til skóla- og frístundasviðs til meðferðar. Talið hefði verið eðlilegra að hún yrði send til menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur. Hugsunin er að myndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg. Útfærslan og framkvæmd hlýtur því að vera í höndum menningar- og ferðamálaráðs/-sviðs Reykjavíkur og Kvikmyndasafnsins. Gera þarf samkomulag við Kvikmyndasafnið sem á sýningarréttinn.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um hvort einhver hækkun verði á niðurgreiðslu til „foreldra“ vegna barna hjá dagforeldrum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður spurt um málefni dagmæðra m.a. í gegnum COVID. Hjá þeim hefur ekki orðið breyting. Eitthvað hefur verið um brottfall úr stéttinni. Einhverjir náðu að fylla pláss sín í haust en aðrir hafa átt erfitt með það og það vegna þess að leikskólar eru að taka inn á öllum tímum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort einhver hækkun verði á niðurgreiðslu til „foreldra“ vegna barna hjá dagforeldrum.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort vinna við Þjóðarleikvang í fótbolta verði ekki samtvinnuð vinnu við Þóðarleikvang í frjálsum íþróttum:

Lögð er fram í borgarráði tillaga meirihlutans um tilnefning í starfshóp vegna Þjóðarleikvangs fyrir frjálsar íþróttir. Hér er um að ræða ósk frá menntamálaráðuneyti um að borgin tilnefni í nefnd sem á að fjalla um fyrirhugaðan Þjóðarleikvang í frjálsum íþróttum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að spyrja hvort þetta verður ekki samtvinnað knattspyrnuvelli sem einnig á að byggja.

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort við framkvæmd á siglilngarstöðu í Fossvogi verði áfram gengið á náttúrulegar fjörur:

Á fundi borgarráðs 19. nóvember er lagt til að teknar verði upp viðræður við Brokey og sett fram framtíðarsýn um siglingaraðstöðu í Fossvogi og nýrri byggð í Skerjafirði. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér og spyr hvort það þýði landfyllingar og þá hversu mikið. Á enn að ganga á náttúrulegar fjörur?
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort biðlisti sé í sérskólaúrræði á vegum borgarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita um hver sé biðlisti nú í sérskólaúrræði á vegum borgarinnar.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarráð 19. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu að undirbúa samráðsfund um geðheilbrigðismál í byrjun janúar:

Sjálfsagt er að skoða hlut borgarinnar í að gera  úttekt á stöðu geðheilbrigðismála til að sjá hvað þarf að gera betur eða öðruvísi. Mestar áhyggjur eru af þeim sem eru veikir fyrir, andlega og líkamlega og þá sem hafa tapað lífsviðurværi sínu. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, vera skyndilega komin á bætur?
Mörg börn eru einnig kvíðin og huga þarf að þeim sérstaklega.
Fulltrúi Flokks fólksins vill líka að velferðarráð og svið sendi frá sér jákvæð skilaboð og hvatningu til fólksins. Það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga  munum við ná yfirhöndinni og að það kemur bóluefni.  Sem stjórnvald ber okkur að blása von í fólk á öllum tímum, sama hvað gengur á.  Rafrænar lausnir bjarga miklu þótt þær komi ekki í staðinn fyrir nærveru. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki skerst að fullu. Hvetjum fólk til að halda í vonina og hika ekki við að leita hjálpar. Þeir sem leita hjálpar, ráðgjafar mega alls ekki finna að erfitt er að ná í gegn, síma ekki svarað, erindum ekki svarað o.s.frv. Það mun verða aukin þörf á ráðgjöf og stuðningi vegna vaxandi atvinnuleysis.

Bókun Flokks fólksins við kynningu  um stöðuna vegna Covid-19 og næstu skref. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra um stöðuna á velferðarsviði vegna Covid-19 og áskoranir í þriðju bylgju, ásamt fylgigögnum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur að börnum sem eru í vanlíðan sem rekja má beint eða óbeint til COVID ástandsins. Hvernig erum við að finna þessi börn? Hvaða aðferðir eru notaðar. Sum börn leyna vanlíðan sinni.  Hér er ekki endilega verið að tala um alvarlegustu málin, barnaverndarmál heldur börnin sem af einhverjum ástæðum vilja ekki eða eru hrædd við að bera áhyggjur sínar á borð. Fulltrúi flokks fólksins ítrekar enn og aftur mikilvægi þess að fagfólk sé út í skólunum, þar sem þeir eru til staðar fyrir börnin. Það þarf einmitt að vera meiri vinna á vettvangi og tryggt samstarf við heilsugæslu og aðra aðila sem sinna sambærilegum málum. Sálfræðingar verða að fara að hafa vinnuaðstæður sínar alfarið í skólunum þar sem þeir eru aðgengilegir börnum, foreldrum og kennurum og geta sinnt handleiðslu og fræðslu eftir þörfum. Eins og vitað er eru biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga langir í Reykjavík. Um 800 börn bíða eftir þjónustu. Það er því ekki á það bætandi að sálfræðingar skulu ekki hafa aðsetur í skólum heldur á þjónustumiðstöðvum. Þessu hefði átt að vera búið að breyta fyrir löngu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu erindis borgarstjóra, dags. 30. október 2020, um neyslurými:

Fulltrúi Flokks fólksins bókaði um þessa tillögu meirihlutans í borgarstjórn ekki síst vegna undrunar þar sem þessi sama tillaga var lögð fram í borgarstjórn 20. nóvember 2018 sem meirihlutinn felldi þá. Þá var ekki mikill vottur af stuðningi við þetta mál og tók steinninn úr í bókun þeirra þar sem borgin hafnar alfarið að taka ábyrgð á málinu með orðunum „að það sé verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu væri að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning“.

Fulltrúi Flokks fólksins harmar hversu illa var tekið í þessa tillögu Flokks fólksins árið 2018.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu í tillögu sinni árið 2018  að mjög brýnt væri að opna rými í Reykjavík þar sem vímuefnanotendur geta komið í hreint og öruggt athvarf, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt fengið faglega aðhlynningu. Þá hefði verið lag og upplagt að Reykjavíkurborg hefði frumkvæði að viðræðum við ríkið umm málið.
 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020, ásamt umsögn Velferðarsviðs, dags. 18. nóvember 2020, um úthringingar til eldri borgara:

Sú tillaga sem hér er til afgreiðslu og er vísað frá var lögð fram 24. júní þegar fyrri bylgju COVID hafði létt. Þetta er auðvitað forkastanleg vinnubrögð. Tillagan hefur verið í kerfinu í fimm mánuði og er svo bara vísað frá loksins þegar hún kemur aftur á dagskrá. Eigi verkefnið að verða viðvarandi er sjálfsagt að samþykkja tillöguna, ekki satt!
Tillagan var að úthringingarverkefni sem gengið hafði vel myndi halda áfram og það útvíkkað enn frekar og þróað frekar. Í svari virðist sem því hafi verið hætt en síðan byrjað aftur í þriðju bylgju. Það sem fulltrúi Flokks fólksins er að segja með þessu öllu er að þetta verkefni byrji ekki og hætti í takt við COVID bylgjur heldur verði gert að viðvarandi verkefni, það útvíkkað og þróa áfram. Þeir sem ekki  vilja símavin nú gætu viljað hann seinna o.s.frv.  Hugsa má einnig um þá sem eru ekki á málaskrá borgarinnar og svo mætti lengi telja. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst mikill lærdómur. Þetta verkefni bíður upp á fjölmarga spennandi möguleika.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði ásamt umsögn velferðarsviðs.

Tillögu um gjaldfrjálsar matarheimsendingar eru vísað frá. Með tilkomu laga um félagslegan  viðbótarstuðning segir að þeir 54 einstaklingar sem eru undir  framfærsluviðmiði Tryggingastofnunar  og fengu fjárhagsaðstoð þurfi ekki lengur fjárhagsaðstoð hjá velferðarsviði. Það vita það allir að bætur eru lágar. Það  er sorglegt að fólk þurfi að hafa fjárhagsáhyggjur síðustu árin sín. Það er ein setning í svari sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og það er eftirfarandi:  “ Það væri æskilegt að hvetja þá sem ekki geta eldað sjálfir að fara út af heimilinu í hádeginu frekar en að fá matinn sendan heim því það getur komið í veg fyrir félagslega einangrun”. Er hér verið að tala niður til eldri borgara? Er með þessum orðum verið að reyna að hafa “vit” fyrir eldri borgurum, eins og þeir viti ekki hvað þeim er fyrir bestu? Og hver á að greiða þá ferð, leigubílinn? Að bóka sig í mat á félagsmiðstöð getur verið  streituvaldur fyrir fólk t.d. ef það verður veikt og kemst ekki út. Hver kemur þá með matinn til þeirra. Varðandi sjúkraþjálfunina þá getur verið erfitt að finna sjúkraþálfara t.d. ef sjúkraþjálfari fer í fæðingarorlof. Það er alvarlegt ef fullorðið fólk fær ekki þá þjálfun sem það þarf til að draga úr stirðnun.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að starfsfólk sem sinnir þjónustu við eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna þjónustunni:

Tillaga Flokks fólksins er um aukið svigrúm starfsfólks að sinna eldri borgurum í heimahúsi.  Í þessari umsögn segir að áður en þjónustan hefst er gert mat á þjónustuþörf. Ekki er talað um þörfina á endurmati á skjólstæðingum reglulega. Eldra fólki hrakar oft hratt og því nauðsynlegt að sú þjónusta við viðkomandi sé metin með reglulegu millibili og að heimahjúkrunin geti lesið úr aðstæðum. Fólkið er oft ekki sjálft að biðja um endurmat. Nauðsynlegt er að iðjuþjálfar komi líka að málum til að meta hvort hjálpartæki standist kröfur. Það skortir meira fjármagn í þennan þátt og umfram allt að starfsfólk fái nægt rými, svigrúm og sveigjanleika til að geta sinnt sinni vinnu með fullnægjandi hætti. Fólk sem þjónustar eldri borgara sem búa einir heima er oft einu aðilar sem þeir hitta stundum í nokkra daga. Það er til mikils að vinna til að fólk þurfi ekki að fara á stofnun heldur getur verið heima. Þjónustustörf sem þessi eru erfið störf, krefjandi og launin hafa ávallt lág, og í engum takti við kröfur sem starfið gerir.

Samþykkt að vísa inn í  starfshóp velferðarsviðs um endurskoðun reglna um stuðningsþjónustu í Reykjavík.


Bókun Flokks fólksins við tillögu
öldungaráðs um könnun á máltíðum fyrir eldri borgara, ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 18. nóvember 2020.

Á fundi öldungaráðs þann 5. október 2020 var lögð fram tillaga fulltrúa Félags eldri borgara í Reykjavík  um að óviðkomandi, óvilhallur  aðili og til þess bær  geri könnun á máltíðum. Þetta er góð tillaga en engu að síður var henni breytt þannig að þetta með „óháður aðili“ var tekinn út og þess í stað sett að Reykjavíkurborg láti gera úttekt á máltíðum fyrir eldri borgara. Þessi breyting vekur upp margar spurningar. Af hverju má ekki leyfa óviðkomandi aðila að gera þessa úttekt. Hvernig á Reykjavíkurborg sífellt að gera könnun á sjálfri sér?. Síkar niðurstöður eru varla eins trúverðugar og væri það óháður, óvilhallur aðili. Vandi hefur verið í þessum geira ella væru ekki allar þessar gagnrýnisraddir sem ekki hefur verið nægjanlega hlustað á. Tillögum fulltrúa Flokks fólksins unnar með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var öllum hafnað. Lagt var m.a. til að farið yrði í endurskoðun á ýmsum þáttum, samsetningu, framleiðslu, afhendingu og möguleika á matarvali.

Bókun Flokks fólksins um samþykkt reglna velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrk fyrir börn á tekjulágum heimilum:

Tillaga er lögð fram í borgarráði að regluverki velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, sbr. tilmæli félagsmálaráðuneytisins. Tilmæli frá ríkinu eru að ekki skuli nota þennan styrk til að greiða frístundaheimili eins og gert er með Frístundakort Reykjavíkur. Þetta ættu að vera skýr skilaboð til borgaryfirvalda að hætta að taka réttinn af börnum til að nota Kortið til frístunda eingöngu eins og Frístundakortið var upphaflega hugsað. Frístundakortið er réttur barnsins og borgaryfirvöld eiga ekkert með að hrifsa þann rétt frá því. Að taka réttinn af barni til notkunar Frístundakorts til að borga nauðsynjar eins og frístundaheimili er óafsakanlegt. Rök meirihlutans eru: “Kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að Frístundakortinu að svo stöddu.”
Af þessu má sjá að allt er þetta spurning um kostnað og hér eru börnin ekki ofarlega á forgangslista víst þau fá ekki að hafa Frístundakortið sitt í friði. Slök nýting í sumum hverfum er ábyrgð meirihlutans. Stefna ætti að því að Kortið verði fullnýtt í öllum hverfum.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. september, um reglur um böðun í skammtímavistun:

Ástæða fyrirspurnar Flokks fólksins um böðun í skammtímavistun var að nýlega var starfsmaður dæmdur fyrir að brjóta kynferðislega á konu í skammtímavistun á vegum Reykjavíkurborgar þar sem hann misnotaði aðstöðu sína. Fulltrúa Flokks fólksins hrís hugur við þá tilhugsun að kona á ábyrgð borgarinnar sé sett í þær aðstæður að einstaklingur af öðru kyni skuli eiga að aðstoða hana við böðun. Ekki er víst að sú kona geti sagt “nei ég vil ekki” og fyrir því geta verið fjölmargar  ástæður eins og við vitum. Fulltrúi Flokks fólksins vill að engin kona verði sett í þessar aðstæður. Segir í svari að „ef upp koma aðstæður sem þessar gildi sú regla að biðja þarf starfsmann um að kíkja inn með reglulegu millibili“. Þessi regla tryggir ekki að aðstæður séu öruggar. Hér dugir fátt annað en afgerandi regla. Ekki er verið að tortryggja alla starfsmenn en því miður veldur tilvik sem þetta því að ekki er hægt að vera rólegur nema reglur séu skýrar, að aðstoð við böðun skuli aðeins veitt af aðila af sama kyni.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu manneklu nú þegar mikið atvinnuleysi ríkir:

Í heimaþjónustu sem dæmi er  biðlisti sökum manneklu. En nú þegar atvinnuleysi er mikið og þar af leiðandi ekki skortur á  mannafli mætti ætla að hægt væri að manna heimaþjónustu sem og aðra velferðarþjónustu að fullu. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta tækifæri hafi verið nýtt og hvort biðlistar hafi þá ekki styðst verulega í velferðarkerfinu?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort ekki sé hægt að finna leiðir til mæta þörfum þeirra eldri borgara sem þarfnast hár- og hand/fótsnyrtingar en sem ekki komast út vegna slappleika eða fötlunar:

Fram kom í bókun velferðaryfirvalda við fyrri tillögu Flokks fólksins að  bæta við nýjum þjónustuþætti eins og hár- og naglasnyrtingu fyrir eldri borgara sem búa heima, að það stríddi gegn samkeppnissjónarmiði. Að hafna tillögunni á grundvelli samkeppnissjónamiða eru ekki haldbær rök  þar sem allir snyrtifræðingar og hársnyrtar geta átt kost á að þjónusta fólk í heimahúsi.

Fulltrúi flokks fólksins spyr hvort ekki sé hægt að finna leiðir til mæta þörfum þeirra eldri borgara sem þarfnast hár- og hand/fótsnyrtingar en sem ekki komast út vegna slappleika eða fötlunar?

Hér er um lýðheilsumál að ræða og sjálfsögð mannréttindi.

Spurt er jafnframt eftirfarandi:

Í hvað miklum mæli er boðið upp á fyrrnefnda þjónustu í þjónustu- og félagsmálahúsnæði Reykjavíkurborgar sem ætlað er eldri borgurum og öryrkjum?

Hvernig er val á þjónustuveitendum háttað, umsóknarferlið?

Hver ber ábyrgð á þeirri þjónustu sem hér um ræðir, hver annast eftirlit?

Eru hárgreiðslu- og snyrtiaðstaða þar sem þær eru til staðar á  félagsmálamiðstöðum fyrir aldraða allar í notkun?

Á Reykjavíkurborg húsnæði allra félagsmiðstöða fyrir eldri borgara?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn sundurliðun á málum (tilvísunum) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu:  

Flokkur fólksins óskar eftir að fá sundurliðun á málum (tilvísunum) sem vísað hefur verið til skólaþjónustu. Óskað er sundurliðun mála í þrjá flokka: Í fyrsta flokki væru þyngri mál sem krefjast yfirgripsmikillar greiningar á vitsmunaþroska WISC (Wechsler vitsmunaþroskapróf) ADHD greiningar, skimunar á  Asperger-heilkenni, einhverfu og kvíða- og þunglyndiseinkennum. Hér er um að ræða mál sem fagfólk og foreldrar eru sammála um að nauðsynleg sé að framkvæma til að aðstoða barnið. Þetta er sá hópur sem séð er fyrir að þurfi jafnvel enn ítarlegri greiningu og meðferð á  Þroska- og hegðunarstöð, Greiningarstöð ríkisins eða Barna og unglingageðdeild.

Í öðrum flokki væri um að ræða mál sem eru þess eðlis að hægt er að leysa þau innan skólans með fagfólki. Hluti þeirra gætu þó þurft aðkomu barnalæknis til að hægt sé að setja þau í viðeigandi farveg. Gera þarf skimun með því að leggja fyrir kvarða og próf ( Kiddie-Sads, ADIS kvíðagreiningarviðtalið, ADHD skimunarlista).

Í þriðja flokki væru tilvísanir þar sem óskað er eftir ráðgjöf sálfræðinga (PMT) og stuðningi við kennara. Hér er um að ræða sálfræðivinnu sem unnin er í samráði við kennara og foreldra. Í þessum flokki er einnig beiðni um námskeið, hópavinnu og fræðslu.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara sem fá heimsendan mat nú þegar cóvið aðstæður hafa staðið vikum saman og fólk ekki að geta farið út eins og það er kannski vant:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara sem fá heimsendan mat nú þegar cóvið aðstæður hafa staðið vikum saman og fólk ekki að geta farið út eins og það er kannski vant. Í umræðunni hefur verið hvort heimsendur matur til eldri borgara sé nógu næringarríkur. Dæmi eru um að eldri borgari sem fær heimsendan mat hefur þurft að fara á sjúkrahús vegna næringarskortar. Skoða þarf bæði samsetningu matarins og framleiðslu hans í þessu sambandi.  Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val, t.d. á fólk að hafa val um hvort það vill meira eða minna grænmeti. Nú hefur ríkt einstakt ástand og eru jafnvel enn meiri líkur á að eldri borgarar þurfi sérstaklega mikinn og næringarríkan mat vegna færri ferða út úr húsi til að forðast COVID smit.


Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um svörun erinda en fólk kvartar yfir að fá ekki viðbrögð:

Fulltrúi Flokks fólksins fékk skeyti frá einstaklingi sem hefur þrisvar reynt að ná til einnar þjónustumiðstöðvar vegna mála er varðar heimaþjónustu og heimahjúkrun. Spurt er hvað er velferðarsvið að gera til að tryggja að þjónustumiðstöðvar svari erindum borgarbúa?

Þessi einstaklingur hefur ekki fengið nein viðbrögð og engin svör. Fulltrúi Flokks fólksins vill ítreka tillögu sína til velferðarsviðs um að svara erindum borgarbúa eða í það minnsta láta vita að skeyti er móttekið og málið í skoðun og að svarað verði innan skamms. Fólk á ekki í neyð sinni að þurfa að hafa samband við borgarfulltrúa til að fá áheyrn velferðarkerfis borgarinnar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað ætla velferðaryfirvöld að gera fyrir þennan dreng til að bæta honum upp biðina og bæta fjölskyldunni þann skaða sem biðin eftir valdið þeim:

Nýlega féll úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns em beðið hefur árum saman á biðlista eftir húsnæði. Þetta er alvarlegt mál, ekki enn er tilbúið húsnæði fyrir þennan aðila og verður ekki á næstunni. Fram kemur hjá aðstandanda við borgarfulltrúa Flokks fólksin að upplýsingum frá borginni ber ekki alltaf saman og stundum er sagt að umsóknin hafi ekki tekið gildi fyrr en drengurinn  varð 18.

Spurt er hvað ætla velferðaryfirvöld að gera fyrir þennan dreng til að bæta honum upp biðina og bæta fjölskyldunni þann skaða sem biðin eftir valdið þeim?

Aðstandandi vill koma þeim skilaboðum til velferðarráðs að nnars konar þjónusta hefur ekki dugað fyrir þennan unga mann. Hann var  15 ára þegar honum var lofuð búseta í Skerjafirði ásamt 5 börnum úr Öskjuhlíðar/Klettaskóla. Þar stóð til að byggja samkvæmt óskum foreldra. Þáverandi skrifstofustjóri Skrifstofu eigna og atvinnuþróunnar fékk í  hendur bók með teikningum og texta þar sem foreldrar lýstum hugmyndum sínum. Fjöldi funda voru haldnir, símtöl og  póstsamskipti gengu á milli. En síðan ekki söguna meir. Kvíði drengsins hefur versnað móðir hans er veik og hennar veikindi hafa orðið æ alvarlegri.

 

Velferðarráð 18. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Svæðisbundin náttúruvernd í Reykjavík, kynning:

Þessi kynning gefur góða mynd af því sem er að gerast á sviði umhverfismála með tilliti til skipulags. Galli er þó að lítill munur er gerður á ,,manngerði náttúru” og þeirri sem hefur að mestu þróast á sínum hraða án mikilla afskipta mannsins. Alveg ósnortin náttúra er varla til í borginni eða í umhverfi hennar.

Elliðaárdalurinn telst varla náttúrulegt svæði, heldur er hann frekar garður þar sem framandi og stórvöxnum trjám hefur verið plantað. Tala ætti frekar um hann sem mikið raskað svæði frekar en náttúrulegt svæði. Gildi hans er þó vissulega mikið engu að síður. Náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað.

Það sama gildir að verulegu leyti um önnur svokölluð náttúruleg svæði í borginni. Meira að segja hefur flestum fjörum verið spillt. Áberandi dæmi er Geirsnef. Þar hefði verið hægt að halda í lítt snortna náttúru. En það voru líf-fæðu-auðugar leirur eyðilagðar með landfyllingu. Fuglar sem þar höfðust við eru horfnir.

Við framtíðarskipulag ætti því áfram að hugsa um svæðin í borginni sem ,,borgargarða” sem þarf að sinna og þá fer best á því að miða við þarfir borgarbúa. Hætta ætti að tala um ósnortna náttúru og líffræðilega fjölbreytni. Það á ekki við.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Elliðaárdalur, deiliskipulag:

Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. En náttúruleg þróun hans mun taka mið af þeim gróðri sem þar hefur verið plantað. Furur og greni munu sá sér út og barrskógur verður líklega ríkjandi ef ekki verður að gert. Útsýni verður þá takmarkað við næstu metra. Kvartað hefur verið yfir ýmsu í ferlinu t.d. að áform voru ekki öll kynnt í vor þegar deiliskipulag í dalnum var kynnt. Mikil umræða hefur verið um lónið sem er greinilega mörgum kært. Um það vilja margir standa vörð. Tappann skal taka úr vegna þess að ein stofnun sagði að það væri gott fyrir lífríkið. En fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um stífluna sem er friðlýst og ekki verður átt við hana án leyfis. Stíflan rífur sjónlínu milli efri og neðri hluta dalsins. Hún liggur yfir ána, bakka á milli og klýfur dalinn- farveginn- í tvennt sjónrænt séð. Tilgangur þessa mannvirkis er lokið. Með því að rífa hana er farið í átt að upprunalegu ástandi Elliðaárdals sem hlýtur að vera jákvætt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðarskipulag Kvosarinnar, tillaga

Um er að ræða Kvosina sem einkennist af þrengslum. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á rétt allra til að hafa aðgengi. Þá er átt við þá sem ýmist koma akandi, gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum og fatlað fólk og þeir sem losa vörur. Stór hluti svæðisins er nú þegar göngugötur eða vistgötur. Fyrst á að gera vistgötur og svo göngugötur? Stæðum mun fækka verulega.

Væri ekki nær að leyfa vistgötum að vera áfram vistgötur og veður þá vissulega að merkja stæði íbúum og gestastæði auk stæða fyrir P merkta bíla? Best væri ef vistgötur væru fleiri og göngugötur færri þar sem gildandi umferðarlög setja veghaldara þröngar skorður um hvaða umferð er heimil á göngugötum. Með vistgötum helst þó aðgengi íbúa óbreytt frá því sem er í dag svo fremi sem stæði séu merkt þeim. Ekki liggur fyrir með hvaða hætti hægt er að tryggja íbúum innan göngugötusvæða áfram aðgengi að eignum sínum noti þeir bíl.

Óttast er að þessi óvissa fæli fólk frá að vilja fjárfesta á þessu svæði og rekstraraðila að opna verslanir þar. Stæðum fyrir hreyfihamlaða á að fjölga sem er gott. Skipulagsyfirvöld sendu minnisblað til Alþingis og vildu ráða hvaða göngugötur P merktir bílar megi aka um. Svar hefur ekki borist og mun sennilega ekki gera.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir er varða Arnarnesveg.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum

 1. Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild?
 2. Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða?
 3. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum?
 4. Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir?
 5. Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því?
 6. Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðismann um að fara skuli í heildarendurskoðun skipulags í Mjódd.:

Hinn 23 júlí lagði Flokkur fólksins fram tillögur er lúta að Mjódd og voru þær felldar. Lagt var til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd og endurgerð bílastæða í Mjódd. Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur var þá fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Ekki er vitað til þess hvort hann hafi verið endurnýjaður nú. Jafnframt var lagt til að horft yrði til þess að gera svæðið nútímalegra umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Aðgengi er erfitt og oft er á bílastæðinu eitt kraðak, bílar að komast inn og út og reyna að sæta lagi til að komast út á götuna. Öryggi er ábótavant. Lagt var einnig til að snyrta grænu svæðin í kringum Mjódd með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Ekkert af þessum tillögum náðu eyrum skipulagsyfirvalda.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skaðabætur til rekstraraðila sem fóru illa út lokun umferðar á Laugavegi og nágrenni:

Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið.

Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.

Fyrirspurninni er vísað frá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurnum er ætla að afla svara við spurningum um hluti sem varða stjórnkerfið en ekki um áform kjörinna fulltrúa. Spurningum um meinta skáðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn, auk þess sem reynsla annarra borga gefur til kynna að þær framkvæmdir sem átt hafa sér stað í miðbænum verði virðisaukandi fyrir svæðið í heild.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort skipulagsyfirvöld muni bæta þeim rekstraraðilum skaðann sem urðu fyrir tjóni vegna lokunar bílaumferðar á Laugavegssvæðinu hefur verið vísað frá. Rökin eru m.a. þau „að spurningum um meinta skaðabótaábyrgð er ekki hægt að svara í skriflegri fyrirspurn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld hefðu verið maður að meiri að viðurkenna mistök í máli Laugavegs/göngugötur gagnvart rekstraraðilum. Hinn 27. október 2015 leituðu Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir málsmeðferð Reykjavíkurborgar við ákvörðun um svokallaðar „Sumargötur 2015“. Í áliti hans er kveðið á um að tryggja skuli samráð við almenning við gerð skipulagsáætlana og að tryggja eigi að skoðanir og sjónarmið þeirra komi fram þannig að þau liggi ljós fyrir áður en sveitarfélög samþykkja viðkomandi skipulagsáætlun. Áhersla er lögð á að auka aðkomu almennings að gerð skipulags og að samráðsaðilar komi að skipulagsferlinu eins snemma og unnt er. Með því er ætlunin að vanda gerð skipulags og tryggja að hagsmunaaðilar hafi tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri við sveitarfélögin þannig að þau geti tekið upplýsta ákvörðun um skipulagsáætlun.“ (Alþt. 2009-2010, 138. löggj.þ., þskj. 742.) “Álit Umboðsmanns Alþingis er áfellisdómur fyrir skipulagsyfirvöld borgarinnar.

Skipulags- og samgönguráð 18. nóvember 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fyrirkomulag neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að fyrirkomulag neyðarstjórnar verði endurskoðað þannig að kjörnir fulltrúar fái að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnar. Við vissar aðstæður er kostur að mynda neyðarstjórn sem hefur þá heimildir til að taka ákvörðun með hraði. Slíkt fyrirkomulag er þekkt einkum þegar vá er fyrir höndum.

Fulltrúi Flokks fólksins telur að við slíkar aðstæður þurfi þó að tryggja lýðræðislega kjörnum fulltrúum yfirsýn yfir störf neyðarstjórnar svo að þeir geti sinnt eftirlitsskyldum sínum. Ef borgarfulltrúar fá að sitja fundi neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fá jafnframt aðgang að þeim gögnum og upplýsingum sem neyðarstjórn byggir ákvarðanatöku sína á þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort neyðarstjórn starfi eftir lögum og reglum. Núverandi neyðarstjórn hefur haldið yfir 60 fundi án þess að fundargerðir hafi borist minnihlutanum. Leynd hvílir yfir neyðarstjórninni, leynd gagnvart borgarráði, kjörnum fulltrúum og almenningi. Á neyðartímum er fátt verra en leynd og að halda upplýsingum frá þeim sem kosnir eru til ábyrgðar. Tímabært er að endurskoða þessa skipan og skoða trygga aðkomu kjörinna fulltrúa að neyðarstjórninni.

Greinargerð

Núverandi fyrirkomulag hefur annmarka. Neyðarstjórn var sett á laggirnar með samþykkt borgarráðs 16. ágúst 2018 á grundvelli erindisbréfs þar sem hlutverk hennar var skilgreint. Í skilgreiningu segir m.a.:
Neyðarstjórn hefur heimild til að taka ákvarðanir og stofna til útgjalda umfram það sem segir í fjárhagsáætlun í neyðartilfellum enda sé um slík tilfelli að ræða að afgreiðsla þeirra þoli enga bið. Borgarráð veitir aðrar nauðsynlegar heimildir vegna sérstakra fjárútláta og er á neyðarstigi í viðbragðsstöðu þar sem nauðsynlegt getur verið að kalla til aukafundar.
Starfsmaður hópsins ber ábyrgð á fundarboðun, undirbúningi funda, fundarritun og úrvinnslu í samráði við borgarstjóra.“

Eins og staðan er núna er upplýsingaflæði frá Neyðarstjórn svo lítið að erfitt er fyrir minnihlutafulltrúa að meta aðgerðir Neyðarstjórnarinnar og hvort nauðsynlegt sé að taka ákvarðanir án þess að leggja þær í lýðræðislegan farveg. Ef kjörnir fulltrúar fá aðgang að fundum og gögnum Neyðarstjórnar þá geta þeir gengið úr skugga um það hvort aðgerðir og ákvarðanir Neyðarstjórnar séu nauðsynlegar eða hvort þær gangi of langt.

Slíkt fyrirkomulag myndi ekki draga úr skilvirkni Neyðarstjórnar, enda myndi áheyrn ekki trufla fundi. Þá þarf ekki að óttast það að trúnaðargögn fari í dreifingu, enda hafa kjörnir fulltrúar þegar aðgang að ýmsum trúnaðargögnum og bera sömu ábyrgð og aðrir við meðferð á trúnaðargögnum.

Tillagan er felld með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga Flokks fólksins um endurskoðun á fyrirkomulagi neyðarstjórnar hefur verið felld. Rök borgarstjóra fyrir því að vilja ekki minnihlutafulltrúa í neyðarstjórn sem áheyrnarfulltrúa standast engan skoðun. Borgarstjóri segir að tillagan sé misskilningur á hlutverki neyðarstjórnunar. Misskilningur hvers? Sú tillaga sem hér var felld var nú ekki róttækari en svo að borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði aðeins til að í endurskoðun fælist að kjörnir fulltrúar sætu á fundum neyðarstjórnar sem áheyrnarfulltrúar og fái aðgang að upplýsingum og gögnum neyðarstjórnarinnar. Neyðarstjórnin gegnir mikilvægu hlutverki og þar er unnið ómetanlegt starf. Um það er ekki deilt. Fulltrúum minnihlutans hefur verið haldið utan við ákvarðanir og fá stundum upplýsingar fyrst úr fjölmiðlum. Á það er minnt að kjörnir fulltrúar hafa ríka eftirlitsskyldu og bera ábyrgð enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til áhrifa og ábyrgðar en ekki til að vera settir til hliðar og það á neyðartímum. Neyðarstjórnin er aðeins skipuð embættismönnum og borgarstjóra. Embættismenn eru ekki í umboði borgarbúa. Neyðarstjórn með kjörnum fulltrúum er í umboði borgarbúa og gæti hún verið í góðum tengslum ef hún væri skipuð í samræmi við kjörfylgi. Þá hefðu meirihluti sem og minnihluti aðild að neyðarstjórninni. Sama gildir um viðbragðsáætlun, að henni hafa minnihlutafulltrúar heldur enga aðkomu.

Óundirbúnar fyrirspurnir Flokks fólksins lýtur að þjónustunni aðstoð við böðun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál. R20080128:

Sveitarafélög reka hjúkrunarheimilin. Í umræðunni nú er rætt um þörf fyrir  mismunandi útfærslur á „hjúkrunar“ –umönnunaraðstæðum Staðfest er að fjöldi hjúkrunarheimila eru í húsnæði sem ekki standast nútímakröfur Eftir plássi er samt löng bið.  Þeir eru ófáir sem kvíða að fara  á hjúkrunarheimili og fara ekki nema tilneyddir. Það er draumur lang flestra að þurfa ekki að eyða ævikvöldinu á stofnun heldur geta verið heima hjá sér. Til að fólk geti verið heima sem lengst þarf að bæta þjónustuna til muna og bæta við nýjum þjónustuþáttum. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur og lengi á heimili sínu.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum tillögunum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs og væru því ekki á  ábyrgð velferðarráðs.

Ein af tillögunum var að gera breytingar  á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa þá aðstoð. Ýmislegt er ábótavant t.d. að að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi.

Nú líður að jólum. Ákveðinn hópur eldri borgara sem búa heima eru orðnir áhyggjufullir þar sem baðdagur þeirra lendir á  rauðum degi og óttast þeir að fara inn í jólin án baðs. Á þessu þarf að finna lausn, það eru jú mannréttindi að komast í bað.

Hyggst borgarstjóra beita sér fyrir að finna lausn á þessu ákveðna máli?

Í beinu framhaldi vill ég einnig spyrja borgarstjóra hvort hann muni beita sér fyrir því að bæta þjónustu við eldri borgara sem búa heima og fjölga þjónustuþáttum til að gera þeim mögulegt að búa heima hjá sér sem allra lengst?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um aðgerðir til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID-19 ásamt aðgerðartillögum í stafliðum A-E:

Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að flestar þessara tillagna eru of almennar. Kallað er eftir sértækari tillögum sem miðast að því að hjálpa þeim sem eru verst settir en ekki veita peningum til þeirra sem eiga nóg af þeim. Sjálfsagt er að fresta gjalddögum og bjóða upp á greiðsludreifingar. Um borgargjöfina. Hvað hefur efnað fólk að gera með 3000 kr. gjöf úr borgarsjóði. Nær væri að skoða sértækar aðgerðir hér og aðeins þeir verst settu fengju slíka gjöf, einnig liður í að verja störf. Mörg þessara fyrirtækja sem Sjálfstæðisflokkur leggur til að fái ívilnanir eru ekki á vonarvöl og sem hafa tekið inn mikinn hagnað fram að COVID. Þeir sem byggja rað-, par-, tvíbýlis og/eða keðjuhús eru almennt verktakafyrirtæki sem mörg standa vel. Ráðgjöf: Í byrjun COVID lagði Flokkur fólksins fram tillögu um aukna ráðgjöf enda var þörf á því en var sagt að ráðgjafarmál væru í góðum farvegi. Hugmynd að netspjalli er góð en hún er nú þegar kannski komin í gagnið? Hvað varðar matarþjónustu á tímum COVID. Ekkert barn á að þurfa að vera svangt í skólanum. Til að tryggja það eiga skólamáltíðir að vera fríar eins og Flokkur fólksins hefur lagt til en ekki hlotið áheyrn meirihlutans.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að  fela menningar-, íþrótta og tómstundaráði og íþrótta- og tómstundasviði að útfæra breyttar reglur um frístundakort í samræmi við tillögur starfshóps um endurskoðun á regluverki um frístundakort frá október 2020.

Tillögur stýrihóps um endurskoðun frístundakorts ganga allt of skammt. Krafa er um að námskeið verði að vera 8 vikur til að nota kortið. Lengd námskeiða er flöskuháls, lengri námskeið eru dýrari og meiri mismunur sem foreldrar greiða. Áfram á að taka réttinn til notkunar kortsins af barninu í þeim tilfellum sem foreldrar vegna fátæktar verða að nota það til að greiða gjald frístundaheimilis í stað þess að styðja foreldra sérstaklega með það. Megintilgangur kortsins er þar með fyrir bí. Segir í skýrslu stýrihópsins þessu til skýringar „að ef heimild til að borga fyrir frístundaheimili með frístundakortinu yrði afnumin er hætta á að foreldrar hefðu börnin sín eftirlitslaus heima“. Ekki er nú mikil trú meirihlutans á foreldrum. Ekki skárri eru þau rök að „það sé ekkert tryggt að allir foreldrar/forráðamenn myndu nýta styrkinn í annað frístundastarf ef ekki væri hægt að nýta á frístundaheimili.“. Að taka réttinn af barni til notkunar frístundakorts til að borga nauðsynjar eins og frístundaheimili er óafsakanlegt. Rök meirihlutans eru: „Kostnaður við gjaldfrjálst frístundaheimili er mikill og ekki lagt til að fella niður aðild þeirra að frístundakortinu að svo stöddu.“ Slök nýting í sumum hverfum er á ábyrgð meirihlutans. Stefna ætti að því að kortið verði fullnýtt í öllum hverfum.

 

Bókun Flokks fólksins undir 2. lið fundargerðar borgarráðs frá 12. nóvember er varðar græna plan meirihlutans í skugga fyrirhugaðs lagningar Arnarnesvegar:

Græna planið lítur vel út á blaði. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og fleirum varðandi þetta græna plan er skortur á samkvæmni. Samkvæmnin er ekki meiri en svo að það á að byggja hraðbraut við væntanlegan Vetrargarð. Skipulagning hraðbrautar á þessum stað er stórfelld landníðsla, óafturkræf og getur því varla flokkast undir grænt plan. Hraðbraut sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild. Borgarmeirihlutafulltrúar segjast vera náttúruunnendur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi þegar við blasir önnur betri leið sem er að láta veginn liggja um Tónahvarf í Kópavogi. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum þegar umhverfismatið var gert. Virði svæðisins er meira nú. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig skyldi hinn græni meirihluta ætla að standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?

Bókun Flokks fólksins undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 29. október er varða athugasemdir við tillögur stýrihóps um reglur um þjónustu við dýraeigendur:

Í sameiginlegri skýrslu Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands gagnrýna félögin tillögur stýrihóps borgarinnar. Innheimta árlegra eftirlitsgjalda, án virks eftirlits er mögulega ólögmætt. Eftirlitsgjald er þjónustugjald sem óheimilt er að innheimta án þess að sinna þjónustunni. Fram kemur í skýrslu stýrihópsins að meginverkefni  hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“  Þetta á ekkert  skylt við eftirlit. Ekki er eðlilegt að þeir sem borga skráningargjöld af hundum sínum standi undir kostnaði við eftirlit á því hvort aðrir skrái hunda sína? Heimildir til eftirlits eru ekki ótakmarkaðar sbr. lög um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999. Af ca. 9000 hundum í Reykjavík eru 2000 skráðir. Eigendur skráðra hunda greiða skráningargjald og árlegt eftirlitsgjald og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði hjá dýralækni sem fólk þarf að greiða fyrir. Um 20% af hundaeigendum borga 100% af eftirlitinu og er gjaldið líka hugsað til að  að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur. Þarna er viðurkennt að innheimta gjaldsins er ekki þjónustugjald heldur skattheimta. Hundaeigendur eru einu dýraeigendurnir í borginni sem greiða skráningar- og eftirlitsgjöld. Hér er hvorki gætt meðalhófs né jafnræðis.

Borgarstjórn 17. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á græna plani Reykjavíkurborgar:

Græna planið lítur vel út á blaði. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins og fleirum varðandi þetta græna plan er skortur á samkvæmni. Að byggja hraðbraut við væntanlegan Vetrargarð, skipulagning vegar sem er stórfelld landníðsla, óafturkræf getur varla flokkast undir grænt plan. Borgaryfiryfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi þegar við blasir önnur betri leið, að láta veginn liggja um Tónahvarf í Kópavogi. Þessi framkvæmd mun skerða framtíðarmöguleika þessa svæðis sem er einn besti útsýnisstaður í borginni enda einn sá hæsti. Ekkert hefur verið fjallað um þá þætti, hvorki í matsskýrslu né í umræðu. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins. Allt tal um grænt hljómar afar sérkennilega þegar horft er til þessa máls. Hvað varðar grænan viðskiptahraðal vita fáir hvað það er. Það væri kannski lag að útskýra og kynna það nánar áður en farið er í að semja hástemmdar bókanir.

 

Bókun Flokks fólksins við  framlagningu bréfs bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. nóvember 2020,vegna lóðarinnar nr. 21-23 við Mýrargötu ásamt fylgiskjölum:

Um er að ræða Mýrargötu 21 og 23, breytingu á deiliskipulagi sem m.a. felst í því að minnka umfang og hæð kirkjunnar ásamt því að kirkjuturnar eru lækkaðir. Fulltrúa Flokks fólksins þykir kannski sem málið sé ekki fullunnið. Turnum kirkjunnar fækkar úr 5 í 2, hámarkshæð hærri turns minnkar úr 22 í 18 metra. Kirkjan sjálf er ekki sátt við skipulagið eftir að lagt er til að kirkjan verði minnkuð verulega og margir aðrir eru einnig ósáttir, sbr. innsendar athugasemdir. Málið hefur verið í vinnslu frá 2008 og ennþá eru áhöld um hvernig kirkjan á að vera og bílastæðin sem eru aðeins þrjú.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 5. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki kaup á fasteign við Kleppsveg 150-152:

Fulltrúi Flokks fólksins vonar að tryggt verði að þetta húsnæði sem nota á fyrir nýjan leikskóla að Kleppsvegi 150-152 sé laust við myglu og raka. Umhverfis- og skipulagsvið hefur unnið greiningu og frumathuganir varðandi breytingar og er gert ráð fyrir að kostnaður við breytingar verði um 600 m.kr. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að nýr leikskóli skuli koma í Laugardal og Vogum enda mikil þörf á. Vanda þarf til verka og vissa þarf að ríkja um að þetta húsnæði sé gott og heilt, laust við myglu og raka.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra um reglur velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum dags. 10. nóvember 2020:

Tillaga er lögð fram í borgarráði að regluverki velferðarsviðs um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, sbr. tilmæli félagsmálaráðuneytisins. Áætlaður kostnaður nemur 214.838.000 kr. á árinu 2020-2021 og er að fullu fjármagnaður með framlagi ríkisins. Eftir því er tekið í reglunum að styrkurinn er ekki ætlaður til greiðslu frístundaheimila. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér af hverju frístundaheimilin eru ekki undanskilin í regluverki um frístundakort. Erfitt er að skilja þetta en þegar ríkið stendur straum af kostnaði er ekki heimilt að nota styrk barna í frístundaheimili en þegar borgin stendur straum af kostnaði þá er klipið af styrknum í alls kyns aðra hluti svo sem greiðslur fyrir frístundaheimili og móðurmálskennslu og fleira. Talandi um „tilmæli“ þá eru það skýr tilmæli frá fulltrúa Flokks fólksins að frístundakortið sé ekki notað til að greiða með frístundaheimili heldur fái foreldrar sem þess þurfa sérstakan stuðning fyrir það. Frístundakortið er réttur barnsins og borgaryfirvöld eiga ekkert með að hrifsa þann rétt frá þeim.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 9. nóvember 2020, sbr. samþykkt stýrihóps um innleiðingu íbúaráða á tillögu um framlengingu á tilraunaverkefni um ný íbúaráð til 1. júlí 2021:

Tillaga um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð er lögð fram í borgarráði. Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúaráðin hljóti að vera komin til að vera. Þau hafa mikilvægu hlutverki að gegna og ekki síst að vera tengiliður borgarbúa og stjórnkerfis. Kynna þarf rækilega að fundir íbúaráða eiga að vera opnir borgarbúum, um leið og COVID ástandinu lýkur. Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsagnar borgarlögmanns um frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar vegna framkvæmda við Nauthólsveg 100:

Umsögn um frumkvæðisathugun Borgarskjalasafns Reykjavíkur á skjalavörslu skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í tengslum við braggann, Nauthólsvegi 100, er lögð fram. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem þessi umsögn snúist frekar um það að draga niður frumkvæðisathugun borgarskjalavarðar sem komist hefur að þeirri niðurstöðu að lög voru brotin í endurgerðarferlinu. Borgarskjalavörður fékk bágt fyrir að vera fagaðili, nákvæmur og athugull, og tók ákvörðun um að gera frumkvæðisathugun í óþökk meirihlutans. Borgarlögmaður getur ekki komist að sömu niðurstöðu og borgarskjalavörður sem er sérkennilegt, túlkar bara lögin með allt öðrum hætti, sér bara allt aðra hluti en borgarskjalavörður. Í raun lyktar málið allt af meðvirkni. Heilbrigt hefði verið að láta þar til bær yfirvöld kanna málið strax til hlítar og það hefði átt að vera gert að frumkvæði borgarmeirihlutans ef allt væri eðlilegt. Þeir sem tóku að sér að vísa málinu til þar til bærra yfirvalda að lokum voru oddvitar Miðflokks og Flokks fólksins. Enn er beðið eftir viðbrögðum þaðan.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 1. október 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá að sjá reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur en rætt var um þessa reikninga á fundi endurskoðunarnefndar. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að reikningum sem þessum á ekki að þurfa að kalla eftir heldur eigi þeir að vera með sem fylgiskjöl fundargerða og birtir jafnhraðan og þeir eru gefnir út á vef borgarinnar. Hér er verið að kaupa vinnu frá óháðum aðilum sem buðu lægst í verkið. En hver hefur eftirlit með eftirlitinu? Fulltrúi Flokks fólksins er með fyrirspurn sinni um reikninga að leggja áherslu á gegnsæi en hefur engar forsendur til að véfengja þessa reikninga sem slíka. Sennilega er aðalatriðið, að heildarupphæðin sé í samræmi við samningana, sem vitnað er í á bls. 2 um þóknun ytri endurskoðenda.  Ef frávik eru þar frá, „skulu aðilar semja sérstaklega…“ o.s.frv. eins og þar segir. Í bréfinu kemur fram að gengið hafi verið til samninga við Grant Thornton og aðalatriðið er að þeir samningar séu virtir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars  við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um gögn vegna funda nr. 14 og 15 hjá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði sbr. 47. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. október 2020:

 

Á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs 13. febrúar fór fram trúnaðarmerkt kynning á niðurstöðum greiningar Capacent á rekstri upplýsingatækniþjónustu Reykjavíkurborgar. Bókanir undir liðnum voru færðar í trúnaðarbók. Gögnin sem hér um ræðir eiga að sjálfsögðu ekki að vera trúnaðarmerkt. Hér er verið að fela slæmt ástand á sviði upplýsingatækniþjónustu, gögn sem eru óþægileg fyrir stjórnendur. Fulltrúi Flokks fólksins hlustaði á þessa kynningu og eru hvorki í þeim persónugreinanlegar upplýsingar eða annað viðkvæmt. Um er að ræða lýsingu á slæmu ástandi á upplýsingasviði borgarinnar. Að leyna  þessari greiningu Capacent vekur upp enn meiri tortryggni nú þegar búið er að reka nokkra tölvunarfræðinga og útvista verkefnum s.s. aðstoð við tölvuvinnu og viðhald tölvumála í borginni sem engin ástæða er að úthýsa. Þess er óskað að umrædd greining Capacent komi upp á borð.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Reykjavíkurborg er á ákveðinni vegferð þegar kemur að því að stórbæta upplýsingatækniumhverfi borgarinnar. Í því samhengi hefur röð kynninga ratað á borð mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs sem þjónustu- og nýsköpunarsvið heyrir undir. Um er að ræða rekstrargreiningu sem á engan hátt er óþægileg fyrir stjórnendur, þvert á móti. Greiningin var framkvæmd af frumkvæði stjórnenda með það fyrir augum að ná djúpum skilningi á þeim þáttum í rekstrinum sem unnt væri breyta með það fyrir augum að nýta fjármagn það sem notað er til reksturs upplýsingatækni á hagkvæmari hátt. Hér er því dæmi um aðgerð sem miðar að því að fara betur með fjármagn borgarinnar og draga úr sóun. Hér er á engan hátt verið að fela slæmt ástand heldur draga upp nauðsynlega heildarmynd af upplýsingatæknirekstri borgarinnar en Reykjavíkurborg rekur sem kunnugt er eitt stærsta, ef ekki stærsta, upplýsingatækniumhverfi landsins. Það er nákvæmlega ekkert athugavert eða tortryggilegt við að rekstur og fyrirkomulag við utanumhald þessara kerfa, verkaskiptingu og fleira sé stöðugt rýnt til gagns eins og hér er gert. Viðkomandi gögn eru trúnaðarmerkt þar sem þau innihalda viðkvæmar upplýsingar um upplýsingatækniinnviði Reykjavíkur sem varða öryggismál en eru einnig viðskiptalegs eðlis og geta haft áhrif á niðurstöður útboða vegna upplýsingatæknireksturs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að fá öll gögn upp á borð. Allur feluleikur vekur tortryggni. Nú er verið að reka fólk af þjónustu- og nýsköpunarsviði og útvista verkefnum. Engar skýringar eru á þessu. Það er mikilvægt að fá greiningu Capacent fram í dagsljósið og þar með bókun Flokks fólksins sem verið hefur mánuðum saman í trúnaðarbók. Eiga þessi gögn aldrei að líta dagsins ljós?

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarráðsfulltrúar hafa aðgang að þessum gögnum sem þeir hafa beðið um í sérstöku gagnaherbergi.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Óskað er eftir að þau gögn sem hér um ræðir séu lögð fram fyrir augu almennings enda á almenningur rétt á því. Minnt er á gegnsæi sem meirihlutinn lofaði við upphaf kjörtímabils

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir neyðarstjórnar Reykjavíkur frá 6. og 9. nóvember 2020 ásamt trúnaðarmerktum fundarpunktum neyðarstjórnar frá 31. október og 2. og 4. nóvember:

Ekki er svo sem mikið sem fram kemur í þessum fundargerðum. Best væri ef kjörnir fulltrúar sætu í neyðarstjórn, sætu fundina og fengu aðgang að upplýsingum og gögnum sem neyðarstjórn hefur og grundvallar ákvarðanir sínar á.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 11. nóvember 2020, liðir er varða göngugötur:

Á fundi skipulags- og samgönguráðs þann 11. nóvember sl. var lagt fram til lokaafgreiðslu deiliskipulag Laugavegar og nærliggjandi gatna sem var samþykkt af meirihlutanum í borgarstjórn 20. október sl. Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að bóka við málin í skipulags- og samgönguráði en var neitað um það með þeim rökum að ekki væri hefð að bóka við lokaafgreiðslu. Fyrir því eru mýmörg fordæmi. Vegna þess að mér var meinað að bóka við þessa liði í skipulags- og samgönguráði er það gert hér við framlagningu fundargerðarinnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins greiddi atkvæði gegn þessu deiliskipulagi í borgarstjórn. Ástæðan var hin neikvæða aðferðafræði skipulagsyfirvalda sem notuð var til að keyra áfram máli þrátt fyrir  mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf með hagaðilum um hugmyndir um göngugötur og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Svikið var loforð um að opna aftur fyrir umferð eftir sumarlokun. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum  má rekja til COVID-19.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða:

Fulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita hversu mikil þátttaka borgarbúa er á fundum/streymi funda íbúaráða. Tillaga um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð er lögð fram í borgarráði, Fulltrúi Flokks fólksins telur að íbúaráðin hljóti að vera komin til að vera. Þau hafa mikilvægu hlutverki að gegna og ekki síst að vera tengiliður borgarbúa og stjórnkerfis. Kynna þarf rækilega að fundir íbúaráða eiga að vera opnir borgarbúum, um leið og COVID ástandinu lýkur. Óskað er eftir upplýsingum um hversu mikinn áhuga borgarbúar hafa á fundum íbúaráðanna.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

Tillaga Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að myndin Síðasti bærinn í dalnum verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg:

Síðasti bærinn í dalnum er fyrsta leikna kvikmynd Óskars Gíslasonar. Hún var tekin upp á Tannastöðum í Ölfusi, í Kershelli og í Kjósinni og var frumsýnd árið 1950. Jórunn Viðar samdi tónlistina við myndina og var það fyrsta kvikmyndatónlist sem samin var á Íslandi við mynd í fullri lengd. Fyrir fáum árum var myndin endurgerð með stafrænum hætti svo nú er hún til þannig. Fulltrúi Flokks fólksins leggur það til að myndin verði sýnd grunnskólabörnum sem menningarinnlegg. Útfærslan og framkvæmd leggur fulltrúi Flokks fólksins til að sé í höndum menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur og Kvikmyndasafnsins. Gera þarf samkomulag við Kvikmyndasafnið sem á sýningaréttinn. Þetta er merkileg mynd fyrir margar sakir og söguleg og ástæða er að kynna leikstjórann og höfund myndarinnar um leið og sýning myndarinnar yrði.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um brottrekstur tölvunarfræðinga hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur frétt að búið sé að segja upp nokkrum tölvunarfræðingum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði Reykjavíkurborgar. Frést hefur að útvista eigi verkefnum. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað er meint með því að útvista þessum verkefnum. Áhyggjur eru af þessu sviði og hvernig farið er með starfsmenn þess. Á velferðarráðsfundi frá því í sumar voru birtar niðurstöður könnunar um einelti. Samkvæmt henni hefur vanlíðan í starfi farið vaxandi. Lagðar voru fram niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna á fundi velferðarráðs 25. maí 2020. Spurt var um hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutala þess þáttar hafði hækkað og verst komu niðurstöður út hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður. Kominn er e.t.v. tími til að innri endurskoðun taki út sviðið. Uppsagnir og útvistun verkefna er merki þess að ekki er allt með felldu. Með hverri útvistun tapast sérþekking hjá borginni. Með útvistun missir borgin bæði yfirsýn og stjórnkerfið missir mátt. Í borginni voru starfandi sérfræðingar á sviðinu sem hægt var að leita til, en nú hefur mörgum verið sagt upp og verkum útvistað.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort aðilum frá hagsmunasamtökum, t.d. Félagi ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands, verði boðið sæti í starfshóp sem útfæra á tillögur stýrihóps um þjónustu við gæludýraeigendur:

Nýlega kom út skýrsla stýrihóps um þjónustu við gæludýraeigendur. Í skýrslunni kemur fram að samþykkt er að stofna starfshóp sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun Dýraþjónustu Reykjavíkur, DÝR, og skila nákvæmum tillögum að verkaskiptingu ásamt innleiðingaráætlun, sem byggir á skýrslu stýrihóps um þjónustu borgarinnar við gæludýr og þeim tillögum sem þar er að finna. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita hvort aðilum frá hagsmunasamtökum, t.d. Félagi ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands, verði boðið sæti í hópnum. Í sameiginlegri umsögn Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um skýrslu stýrihópsins er ítarlega farið yfir hvaða þættir eru jákvæðir í tillögunum og hvaða tillögur eru gagnrýnisverðar, óréttmætar og jafnvel ólöglegar. Í ljósi þess að ábendingar Félags ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélags Íslands um hvað betur megi fara er afar mikilvægt að aðili frá samtökunum sitji í starfshópnum. Í gegnum tíðina hafa Félag ábyrgra hundaeigenda og Hundaræktarfélag Íslands haldið uppi gagnrýni á núverandi fyrirkomulag hundamálefna hjá Reykjavíkurborg. Gagnrýnin hefur beinst ekki síst að innheimtu árlegra eftirlitsgjalda, án þess að slíkt eftirlit væri virkt. Dregið er í efa að innheimta gjaldsins sé lögmæt. Skoða þarf vandlega þessa hluti og einnig  hvort teljist réttlætanlegt að innheimta skráningargjald aðeins af hundaeigendum þannig að hundaeigendur einir haldi uppi öllum kostnaði við DÝR (gæludýraeftirlit).

Tillaga Flokks fólksins um að farið verði í átak að hvetja til þess að hvert einasta barn sem á rétt á frístundakorti finni sér íþrótt/tómstund til að nýta kortið. Notuð verði aðferðin „maður á mann samtal“ og ekki hætt fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í átak að hvetja til þess að hvert einasta barn sem á rétt á frístundakorti finni sér íþrótt/tómstund til að nýta kortið. Notuð verði aðferðin „maður á mann samtal“ og ekki hætt fyrr en nýting verði allt að 100% í öllum hverfum. Aðlaga þarf reglur um nýtingu samhliða þannig að losað verði um þær hindranir sem leitt hafa til slakrar nýtingar. Slök nýting frístundakortsins er á ábyrgð borgaryfirvalda og því er þeirra að sjá til þess að hún verði aukin svo fullnægjandi sé. Starfshópur hefur nýlega skilað af sér tillögum sem því miður ganga allt of skammt. Enn á að heimila að frístundakortið sé tekið upp í gjald frístundaheimilis sem efnaminni foreldrar eru oft tilneyddir til að gera í stað þess að fá sérstakan hjálparstyrk til að greiða frístundaheimili. Flest öll börn eru í frístundadvöl af nauðsyn. Markmið með frístundakorti ætti að vera að öll börn finni eitthvað við hæfi til að nýta þennan styrk. Áhyggjuefni er að þátttakan er minnst í 16-18 ára aldurshópnum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn eftirlit með því hvort kennslan og þjálfun atvinnubílstjóra sé samkvæmt námsskrá:

Í svari frá stjórn Strætó við fyrirspurn Flokks fólksins um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma kom fram að þeir sjá sjálfir um lögboðin námskeið atvinnubílstjóra fyrir sína starfsmenn. Hver hefur eftirlit með því að kennslan sé samkvæmt námsskrá? Er námsskrá þessara endurmenntunarnámskeiða yfirfarin af löggildum aðilum? Eru þessi námskeið í samræmi við það hvernig námsskrá og kröfur Evrópusambandsins eru um námskeið fyrir atvinnubílstjóra?

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

Borgarráð 12. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Strætóstoppistöðvar í Reykjavík – úttekt að aðgengi fyrir alla, kynning og tillaga um aðgerðaráætlun:

Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík

Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki.

Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum við liðnum Suður Mjódd, breyting á deiliskipulag:

Tillaga sem lögð er fram á deiliskipulagi Suður Mjóddar er varðar lóðina Álfabakka 4 sem felst í að skipta henni í tvær lóðir, Álfabakka 4 og 6 er jákvæð en breytingin er tilkomin vegna vilyrðis um lóðarúthlutun fyrir starfsemi Garðheima. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögur um endurnýjun Mjóddarinnar, endurskoðun og endurgerð, lífga upp á verslunarkjarnann og stórbæta aðgengi og aðkomu. Færa þarf Mjóddina í nútímalegra horf sem hentar hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að endurgerð heildarmyndar Mjóddar dragist ekki von úr viti.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni, umsagnir – Mál nr. US200234

Lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ásamt minnisblaði, dags. 5. október 2020 og umsögn fjölmenningarráðs, dags. 15. október 2020.

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá:

Bókun Flokks fólksins

Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði.

Tillögunni hefur verið vísað frá.  Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti til að borgin geti farð í slíkt átak. Það er mjög alvarlegt.

Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann og húseiganda, en eftirlitskerfi borgarinnar er sagt máttlaust.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra húsnæði borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um stefnu Strætó hvað viðkemur lausagangi strætisvagna á biðtíma. Svarið við fyrirspurninni vekur nokkrar áhyggjur en í því kemur fram að það sé í raun í hendi bílstjórans, hans ákvörðun, hvort hann drepi á vélinni á biðtíma þ.e. í kyrrstöðu. Kjósi bílstjóri að drepa ekki á vélinni á biðtíma, þá hvað? Bílar í gangi menga mjög mikið. Vissulega er gott að vita að nýjustu vagnar Strætó eru umhverfisvænir raf- og metanvagnar. Oft er ekki drepið á vögnunum á biðtíma. Vagnar eru samkvæmt sjónarvottum oft í gangi t.d. á skiptistöðvum eins og Spöng og Mjódd og 5 mínútur í lausagangi er verulega langur tími.

En gott er að vita að Strætó hefur stefnu m.a. sem kveður á um reglur í þessu sambandi en það þarf kannski að fylgja henni betur eftir, hreinlega að gera athuganir á þessu reglulega. Strætó hefur lagt í kostnað vegna breytinga á Euro 6 vögnum þannig að vél bílsins stöðvast sjálfkrafa eftir 5 mínútna lausagang. Þarf ekki að ganga lengra í slíkum aðgerðum? Strætó á því miður langt í land hvað varðar eldsneytissparnað og mengunarvarnir. Það er einnig nokkuð ljóst að það megi ná fram verulegum sparnaði í eldsneytisnotkun með betri og markvissari akstri.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um gæðaeftirlit með strætisvögnum, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað. Í svari frá Strætó er ekki betur séð en gott gæðaeftirlit sé með strætisvögnum, í það minnsta eru skýrar reglur um hvernig eftirliti skuli háttað. Það er ábyrgð vagnstjóra að skoða sinn vagn innan og utan og skrá það sem þarf að laga. En hver hefur eftirlit með vagnstjórunum, að þeir sinni þessu hlutverki sínu vel og vandlega? Sennilega má ætla að almennt séð séu strætisvögnum vel við haldið. Nokkrar ábendingar berast þó af og til um að betra viðhalds sé þörf, sem dæmi um að einstaka vagnar aki stundum um eineygðir.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kenntölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir

Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona:

Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)?

Eftirfarandi svar barst:

Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu.

Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi? Íbúar hafa verið að reyna að ná til skipulagsyfirvalda/sviðs til að fá þessar upplýsingar en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá er talsverður hávaði í hverfinu vegna umferðar á Reykjanesbraut og Stekkjarbakka. Eftir því sem næst er komist átti þetta verkefni að vera í forgangi.

Spurt er um stöðu verkefnisins og samhliða hvetur fulltrúi Flokks fólksins skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála, skipulags- og samgöngustjóra að fara yfir póstinn sinn og svara fyrirspurnum og erindum frá borgarbúum sem kunna að hafa gleymst.

Því betri viðbrögð og svör sem borgarbúar fá við fyrirspurnum því sjaldnar er þörf á að leita til borgarfulltrúa eftir hjálp við að fá svör. Það eru jú embættismennirnir og starfsfólkið sem hafa svörin en ekki borgarfulltrúar minnihlutans. Minnt er einnig í þessu sambandi á tillögu Flokks fólksins um að bæta vinnubrögð almennt séð við svörun erinda frá borgarbúum

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Hjólunum er stundum illa lagt, t. d. á miðja gangstétt þannig að fatlaður einstaklingur í hjólastól eða sjónskertur vegfarandi ýmist kemst ekki fram hjá eða gengur á hjólið. Fólk með barnakerrur lendir einnig í vandræðum með að komast ferðar sinnar.

Um 1.100 rafskutlur standa borgarbúum til leigu frá fjórum fyrirtækjum. Fjölga á skutlunum enn meir. Sá ferðamáti sem hér um ræðir hefur rutt sér til rúms í borginni á stuttum tíma. Þetta er góður ferðamáti en enn vantar augljóslega reglur um umgengni. Fylgja þarf lögum í þessu sambandi. Í lögum er skýrt tekið fram að ekki má skilja við hjól þar sem það getur valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra í umferðinni.

Skýrir rammar þurfa að liggja að baki þessum samgöngutækjum sem öðrum. Hætta er á slysum ef ekkert er að gert og fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagssvið til að bíða ekki eftir þeim áður en tekið er til hendinni við að leysa þetta vandamál.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um fyrirhugaðan Arnarnesveg og áhrif hans á Vetrargarð sem byggja á við Jafnasel:

Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum:

 1. Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild?
 2. Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða?
 3. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum?
 4. Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir?
 5. Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því?
 6. Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu?

Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið.

Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.

 

Skipulags- og samgönguráð 11. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðu mála vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar allar kynningar og færir öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg í baráttunni við vágestinn COVID-19 kærustu þakkir. Neyðarstjórnin, eðli hennar og ekki síst valdheimildir, hafa verið til umræðu á fundinum. Neyðarstjórnin gegnir mikilvægu hlutverki og þar er unnið ómetanlegt starf. Um það er ekki deilt. Það sem fer fyrir brjóstið á fulltrúa Flokks fólksins er að kjörnum fulltrúum minnihlutans er haldið utan við allar ákvarðanir og fá stundum upplýsingar fyrst úr fjölmiðlum. Á það er minnt að kjörnir fulltrúar hafa ríka eftirlitsskyldu og bera ábyrgð enda er borgarstjórn fjölskipað stjórnvald. Kjörnir fulltrúar eru kosnir til áhrifa og ábyrgðar en ekki til að vera settir til hliðar og það á neyðartímum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu erindisbréfs neyðarstjórnunar Reykjavíkurborgar:

Á fundi borgarráðs er erindisbréf neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar og valdheimildir neyðarstjórnar lagt fram til afgreiðslu. Í hópnum sitja embættismenn og borgarstjóri. Að skipa neyðarstjórn embættismanna er ein leið en það mætti líka fara þá leið að skipa stjórn sem er skipuð kjörnum fulltrúum. Slík stjórn væri í góðum tengslum við borgarbúa ef hún væri skipuð í samræmi við kjörfylgi. Þá hefðu meirihluti sem og minnihluti aðild að neyðarstjórninni. Fordæmi er fyrir slíku þegar þing mynda þjóðstjórnir, oftast þegar vá er fyrir höndum. Hefur aldrei verið hugað að slíku í Reykjavík?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu viðbragðsáætlun neyðarstjórnar Reykjavíkurborgar:

Þetta er án efa hin metnaðarfyllsta viðbragðsáætlun. Þegar verið er að setja saman plagg sem þetta er mikilvægt að allir sem kosnir eru hafa verið til ábyrgðar í borginni hafi að því aðkomu. Það hefði verið lag að bjóða oddvitum allra minnihlutaflokkanna að taka þátt í gerð viðbragðsáætlunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu á dögum að svari borgarlögmanns, ódags., til ríkislögmanns vegna kröfu Reykjavíkurborgar um greiðslu framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga:

Segja má að Jöfnunarsjóður sveitarfélaganna sé í raun til þess að flytja fé frá Reykjavík til minni sveitarfélaga. Í bréfi ríkislögmanns er miklu púðri eytt í að það sé m.a. réttlætanlegt vegna þess að í Reykjavík sé fasteignaverð hærra og þar af leiðandi hærri fasteignagjöld en annars staðar. En það eru Reykvíkingar sjálfir sem greiða þessi fasteignagjöld. Fleira er í þeim dúr. Íbúar eru ekki bara auðlind sem sækja má fé til. Þeir eru einnig hluti af samfélaginu og greiða til þess og njóta þess. Þessi fjárflutningur frá Reykjavík til minni sveitarfélaga er pólitísk ákvörðun og þessu þarf að breyta á pólitískum vettvangi. Mætti t.d. ekki kvarta yfir mismunandi vægi atkvæða á milli kjördæma í alþingiskosningum? En slíkt misvægi stuðlar að mismunum í fjárveitingum. Flokkur fólksins styður að sjálfsögðu baráttu Reykjavíkur við ríkisvaldið um málefni Jöfnunarsjóðs en þykir miður að málin þurfi að vinna eingöngu með lagalegum rökum, þar sem Reykjavík hefur reyndar mikið til síns máls. Halda mætti að sanngirni ætti að duga. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í þetta mál þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir deilumál sem þetta.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar vegna Urðarbrunnar:

Málefni vegna götunnar Urðarbrunns eru ítrekað að koma inn á borðið hjá umhverfis- og skipulagssviði vegna deilna sem tengjast deiliskipulagi Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagssvið geti ekki reynt að skoða þau atriði sem íbúar svæðisins eru svo ósáttir við og finna á þeim lendingu áður en málin eru samþykkt í ráðinu.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum:

Tillaga um að gerð verði könnun meðal barna á upplifun þeirra á grímunotkun í skólanum. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundasvið standi fyrir könnun á hvernig börn sem nú eru skyldug til að nota grímur í skólanum upplifi það og hver áhrif grímunotkunar er á líðan þeirra og félagsleg samskipti. Börn fædd 2011 og fyrr þurfa að bera grímu, samkvæmt breytingu á reglugerð um takmörkun á samkomum sem heilbrigðsráðherra hefur staðfest. Þetta eru gríðarmikil viðbrigði fyrir börn og algjör óvissa ríkir um hversu lengi börnin þurfa að nota grímur, hvort það eru dagar eða vikur, jafnvel mánuðir. Það er mikilvægt að skóla- og frístundasvið fylgist með áhrifum sem þetta hefur á börnin dagsdaglega, til skemmri og til lengri tíma. Með því að gera kannanir/rannsóknir fást upplýsingar um hvort áhrif og afleiðingar grímunotkunar barna kalli á sérstakt inngrip sviðsins, framlagningu mótvægisaðgerða eða annað sem mildað gætu neikvæð áhrif grímunotkunar á andlega líðan og félagsleg samskipti. R20110105

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvernig jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019 var nýtt en hún var gjafakort á sýningar í Borgarleikhúsinu?:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019 var nýtt en hún var gjafakort á sýningar í Borgarleikhúsinu? Hjá Reykjavíkurborg vinna um 10.000 einstaklingar og hefur Reykjavíkurborg gefið starfsmönnum sínum jólagjafir undanfarin þrjú ár. Gjöfin hefur verið gjafakort í Borgarleikhúsið. Ekki liggja fyrir nýtingartölur gjafakortsins og fýsir borgarfulltrúa Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um þær fyrir síðustu tvö ár. R20110109

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverju Tjarnarbíó kom ekki til greina sem jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019?:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar einnig eftir að fá að vita af hverju Tjarnarbíó kom ekki til greina sem jólagjöf til starfsmanna jólin 2018 og 2019? Jólagjöfin til starfsmanna borgarinnar síðustu ár hefur verið gjafabréf í Borgarleikhúsið einungis. Þessi tvö leikhús, Borgarleikhúsið og Tjarnarbíó, eru bæði styrkt af borginni. Spurt er hvort ekki hefði þótt viðeigandi og eðlilegt þegar ákveðið var að gefa starfsfólki gjafabréf í Borgarleikhúsið að hafa Tjarnarbíó einnig með t.d. sem valmöguleika? Bjóða hefði mtt starfsmönnum upp á að velja sér sýningu í Borgarleikhúsi eða sýningu í Tjarnarbíó. R20110109

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort nýtt reiknilíkan vegna úthlutunar fjárhagsramma sé komið í notkun:

Í skýrslu innri endurskoðunar frá 2019, úthlutun fjárhagsramma og rekstur í grunnskólum Reykjavíkur, kom fram að við úthlutun fjárheimilda fyrir grunnskóla sé notast við ákveðið úthlutunarlíkan sem sett er fram í Excelvinnuskjali. Þetta líkan hefur verið notað í nær tuttugu ár til að áætla fjármagnsþörf skólanna. Fram kom að líkanið væri orðið mjög „plástrað“ og raunar úrelt því mikið hefur breyst í umhverfi skólanna á þessu tímabili. Í skýrslunni segir einnig að skipaður hafi verið starfshópur til að rýna aðferðafræði og reiknilíkan fyrir úthlutun á fjárheimildum fyrir grunnskóla Reykjavíkurborgar og koma áætlunargerðinni inn í áætlunarkerfi borgarinnar. Starfshópnum var ætlað að ljúka störfum fyrir lok ársins 2019. Nú er árinu 2020 að ljúka og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um hvort þessi vinna sem starfshópnum var ætlað að ljúka fyrir lok ársins 2019 er lokið. Er nýtt reiknilíkan komið í gagnið og ef svo er hvernig reynist það? R20110107

Borgarráð 5. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Mýrargata 21 og 23, breyting á deiliskipulagi:

Um er að ræða Mýrargata 21 og 23, breyting á deiliskipulagi sem m.a. felst í því að minnka umfang og hæð kirkjunnar ásamt því að kirkjuturnar eru lækkaðir. Fulltrúi Flokks fólksins þykir sem málið sé einfaldlega kannski ekki fullunnið. Turnunum kirkjunnar fækkar úr 5 í 2, hámarkshæð hærri turns minnkar úr 22 í 18 metra. Kirkjan er ekki sátt við skipulagið eftir að lagt er til að kirkjan verði minnkuð verulega og margir aðrir eru einnig ósáttir, sbr. innsendar athugasemdir. Málið hefur verið í vinnslu frá 2008 og enn virðist ekki lending í sjónmáli þótt takist hafi vissulega að sætta einhver sjónarmið.

Bókun Flokks fólksins við Urðarbrunnur:

Borgarfulltrúar þar með talið fulltrúi Flokks fólksins hafa verið að fá skeyti frá íbúum við Urðarbrunn vegna mála sem tengjast Urðarbrunni sem segjast hafa verið í tölvupóstsamskiptum við Skrifstofu byggingafulltrúa í Reykjavík. Gerðar eru athugasemdir af ýmsu tagi við Urðarbrunn. Fulltrúi Flokks fólksins telur að það sé skylda yfirvalds að setjast niður með fólki sem sendir inn yfirgripsmiklar athugasemdir og ábendingar og skoða þau atriði sem íbúar svæðisins eru ósáttir við. Skoða þarf gaumgæfilega hvort ekki er hægt að freista þess að ná í þessum málum lendingu áður en málið hlýtur samþykki ráðsins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi? Íbúar hafa verið að reyna að ná til skipulagsyfirvalda/sviðs til að fá þessar upplýsingar en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá er talsverður hávaði í hverfinu vegna umferðar á Reykjanesbraut og Stekkjarbakka. Eftir því sem næst er komist átti þetta verkefni að vera í forgangi.

Spurt er um stöðu verkefnisins og samhliða hvetur fulltrúi Flokks fólksins skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála, skipulags- og samgöngustjóra að fara yfir póstinn sinn og svara fyrirspurnum og erindum frá borgarbúum sem kunna að hafa gleymst.

Því betri viðbrögð og svör sem borgarbúar fá við fyrirspurnum því sjaldnar er þörf á að leita til borgarfulltrúa eftir hjálp við að fá svör. Það eru jú embættismennirnir og starfsfólkið sem hafa svörin en ekki borgarfulltrúar minnihlutans. Minnt er einnig í þessu sambandi á tillögu Flokks fólksins um að bæta vinnubrögð almennt séð við svörun erinda frá borgarbúum

Frestað

 

Tillaga Flokks fólksins  að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Hjólunum er stundum illa lagt, t. d. á miðja gangstétt þannig að fatlaður einstaklingur í hjólastól eða sjónskertur vegfarandi ýmist kemst ekki fram hjá eða gengur á hjólið. Fólk með barnakerrur lendir einnig í vandræðum með að komast ferðar sinnar.

Um 1.100 rafskutlur standa borgarbúum til leigu frá fjórum fyrirtækjum. Fjölga á skutlunum enn meir. Sá ferðamáti sem hér um ræðir hefur rutt sér til rúms í borginni á stuttum tíma. Þetta er góður ferðamáti en enn vantar augljóslega reglur um umgengni. Fylgja þarf lögum í þessu sambandi. Í lögum er skýrt tekið fram að ekki má skilja við hjól þar sem það getur valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra í umferðinni.

Skýrir rammar þurfa að liggja að baki þessum samgöngutækjum sem öðrum. Hætta er á slysum ef ekkert er að gert og fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagssvið til að bíða ekki eftir þeim áður en tekið er til hendinni við að leysa þetta vandamál.

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 4. nóvember 2020

Tillaga um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi eins og skóla- og frístundaráð hefur lagt til. Í skýrslu Innri endurskoðunar (2019) um ÚTHLUTUN FJÁRHAGSRAMMA OG REKSTUR kemur fram að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð.

Á árinu 2018-2019 var úthlutun 107.600 kr. á hvern nemanda sem fékk rauða niðurstöðu og 36.000 kr. á nemanda sem fékk gula. Í fjárhagsáætlun 2019 var aukning um 10.544 kr. hækkun á hvert barn, sé miðað við þann fjölda nemenda sem þreytti slík próf á árinu 2018, óháð niðurstöðu prófa. Ljóst er að úthlutun í þennan málaflokk er vel innan við 130 þús.kr. fyrir hvern nemanda sem er á rauðu.

Greinargerð

Í niðurstöðum Milli mála málkönnunarprófinu og úthlutun fjármagns á vor- og haustönn 2018 sem birt er í skýrslu Innri endurskoðunar 2019 má sjá fjölda barna sem tóku prófið og hvernig skipting þeirra var milli flokka. Alls tóku prófið 2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997. Gula niðurstöðu fengu 327 og græna niðurstöðu fengu 170. Þess má geta að 45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum þannig að börnin hafa alist upp hér á landi en eru þrátt fyrir það svona illa stödd með íslenska tungu.

Börn af erlendu bergi brotin eiga oft erfitt uppdráttar á Íslandi. Þau kunna íslenskuna ekki nógu vel og þurfa meiri aðstoð við námið heldur en íslenskir bekkjarfélagar þeirra en fá jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans. Börnin sem hér um ræðir eru bæði börn kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta eru börn sem hafa oftast upplifað erfiða hluti í heimalandinu og leggja síðan í erfitt ferðalag til framandi lands. Það er að mörgu leyti haldið vel utan um þessi börn fyrsta árið. Þau fá þjónustu sálfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna sem kostuð er af ríkissjóði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá stuðning greiddan af ríkinu þann tíma þar til mál þeirra hafa verið afgreidd, en kvótaflóttamenn hafa fengið greiddan stuðning fyrsta árið eftir komu. Eftir það falla þau í sama flokk og önnur börn af erlendu bergi brotin í skólunum. Úthlutað er fjármagni úr potti vegna nemenda af erlendum uppruna.

Ef litið er til baka til ársins 2017- 2018 var 190,7 m.kr. úthlutað til þessa verkefnis og því skipt milli skóla.
Nemendur á rauðu fengu það árið úthlutað 98.600 kr. og nemendur á gulu 32.650 kr. á hvern nemanda. En árið en 2018-2019 var úthlutun hækkuð lítillega, 107.600 kr. á hvern nemanda á rauðu og 36.000 kr. á hvern nemanda á gulu eins og að ofan greinir. Ljóst er að sú hækkun sem samþykkt var í fjárhagsáætlun 2019 til þessa verkefnis nær ekki þeirri upphæð sem skóla- og frístundasvið leggur til sem er 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða niðurstöðu. Börnin með gula niðurstöðu myndu samkvæmt tillögu skóla- og frístundasviðs fá hlutfall af þeirri fjárhæð og myndi þessi útfærsla koma í stað þeirra rúmu 190 m.kr. sem skipt er á milli skóla.

Það eru allir sammála um að gera þarf betur í móttöku barna af erlendum uppruna og í leik- og grunnskólastarfi. Borgaryfirvöld eru ekki að standa sig nægjanlega vel gagnvart börnum sem eiga foreldra af erlendum uppruna. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi.  Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

Það liggur fyrir að til að læra mál þarf að heyra það sem oftast og mest. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til í borgarstjórn að fundnar verði fjölbreyttar leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslenskt mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi s.s. íþrótta- og tómstundastarfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun v. afgreiðslu málsins:

Tillagan um hækkun á úthlutun fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna í samræmi við tillögu skóla- og frístundasviðs frá 2019. Tillögunni er vísað til skóla- og frístundaráðs til meðferðar. Fulltrúi Flokks fólksins mun halda áfram að vinna að þessari tillögu og vonandi í góðri samvinnu við skóla- og frístundasvið. Á það verður að horfa að yfirvöld borgarinnar á sviði skóla hafa ekki staðið sig nógu vel gagnvart börnum af erlendum uppruna þegar kemur að íslenskukennslu. Ekki er nóg  að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi. Tæpur helmings barna sem eru verst sett eru fædd hér á landi. Heldur dugir ekki að kvarta yfir að ekki fáist úthlutun úr Jöfnunarsjóði eins og borgarstjóri hefur gert. Fyrir því liggja ástæður. Reykjavík er ríkt sveitarfélag sem hefur einfaldlega ekki sett börn í nægilegan forgang í það minnsta ekki á þessu sviði nákvæmlega. Það hlýtur að vera markmið okkar allra að þessi börn standi ekki hallari fæti en önnur börn. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu uppfærðrar húsnæðisáætlunar Reykjavíkurborgar:

Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Byggja á 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þjóðin er að eldast og þessi rými stytta biðlistann aðeins að hluta til. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir sértæku húsnæði en á áætlun er að byggja um 100 íbúðir. Nýlega féll  úrskurður í Úrskurðarnefnd Velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista. Í úrskurðinum segir að borgin skuli hraða afgreiðslu málsins og taka ákvörðun um úthlutun viðeigandi húsnæðis svo fljótt sem auðið er. Ekki hafa allir borgarbúar öruggt húsnæði. Biðlisti í félagslega íbúðakerfið eru tæp 600, með börnum talið þá um 1000 manns. Það er skortur á almennu hagkvæmu húsnæði sem eykur líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Verið er að byggja agnarsmáar íbúðir sem deila má um hversu hagkvæmar þær eru þegar litið er til smæðar þeirra. Gengið er langt í þéttingu byggðar þegar tekið er upp á að fylla fjörur til að fá byggingarland eins og í Skerjafirði. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík en atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum lítið sem ekkert.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu Sjálfstæðisflokksins:

Það er mikilvægt að borgin geri úttekt á stöðu geðheilbrigðismála til að sjá hvað þarf að gera betur eða öðruvísi. Aðstæður eru með ólíkindum. Hver átti von á að upplifa aðstæður þar sem banvæn veira skekur heiminn allan? Svona aðstæður kalla á æðruleysi og samvinnu. Enginn er beinlínis sökudólgurinn og enginn er óhultur. Ekki er í boði að leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva óteljandi skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka. Minna þarf á að það er vissa í óvissunni. Vissan er sú að ef við fylgjum leiðbeiningum sérfræðinga okkar munum við ná yfirhöndinni og að það kemur bóluefni. Halda þarf utan um þá sem eru veikir fyrir, andlega og líkamlega og þá sem hafa tapað lífsviðurværi sínu. Hvað tekur meira á andlegu hliðina en að missa vinnuna, vera skyndilega komin á bætur? Mörg börn eru einnig kvíðin.  Sem stjórnvald ber okkur líka að benda á það sem þó er jákvætt. Rafrænar lausnir bjarga miklu þótt þær komi ekki í staðinn fyrir nærveru. Tækifæri til hreyfingar hefur takmarkast en ekki skerst að fullu. Hægt er að fara í göngu-, hjóla og hlauptúra sem sannarlega bjarga geðheilsu margra. Hvetjum fólk til að halda í vonina og hika ekki við að leita hjálpar.

Bókun Flokks fólksins við 6. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 28. október:

Tillögur stýrihóps um þjónustu við gæludýr eru til bóta og  ganga  út frá því að breyta eftirliti með gæludýrum úr refsikerfi yfir í leiðbeininga- og eftirlitskerfi með hagsmuni dýra að leiðarljósi. Í þessum tillögum eru hins vegar nokkrir ágallar.  Fulltrúi Flokks fólksins telur að skráning gæludýra  hjá borginni eigi að vera gjaldfrjáls. Rafræn skráning er ekki kostnaðarsöm. Kettir  hundar og kanínur eru þegar skráð í miðlægan örmerkjagagnagrunn hjá Matvælastofnun.  Fulltrúi Flokks fólksins  undrast viðhorf stýrihópsins að telja að kattaeigendur muni ekki skrá ketti sína þótt það væri skylda. Í þessum tillögum er því að finna talsverða fordóma þar sem misjafnt er  lagt til eftir því  hvaða gæludýr fólk heldur. Hundaeigendur hafa greitt hátt skráningargjald og eftirlitsgjöld árum saman en aðrir ekki. Eiga hundaeigendur að  greiða fyrir allt dýraeftirlit í borginni? Ábyrgðatryggingin frá borginni er of dýr og er þessi trygging gegnum borgina lítið nýtt.  Afar fátítt er að hundar valdi tjóni á umhverfi eða náttúru og langflestir hundar eru í taumi utandyra. Kettir valda hins vegar ákveðnu tjóni t.d.  á fuglalífi. Kettir fara sínar ferðir en ábyrgir kattaeigendur setja bjöllur á ketti sína. Kettir valda einnig tjóni með því að dreifa sníkjudýrum í sandkassa.

 

Fundargerð borgarráð, liður 6 Endurgerð kvennabaða Sundhallarinnar:

Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur.  Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og samhliða væntir hann þess að  konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin.

Viðaukinn við fjárhagsáætlun, styrkir til íþróttafélagaÞ

Fulltrúi Flokks fólksins styður alla styrki/viðauka til grunnþjónustu og til að tryggja heilbrigði og tómstundir.  Vissulega átti engin von á slíkri vá sem veiran er og áhrif hennar. Fjölmarga viðauka þarf að samþykkja næstu vikur, tillögur um breytingu á rekstri vegna COVID sem lækka mun handbært fé. Á sama tíma og þörf fólks eykst fyrir aðstoð eru gjaldskrár hækkaðar og krafa gerð um hagræðingu hjá sviðum sem veita grunnaðstoð. Fulltrúi Flokks fólksins vill að beðið sé með allar gjaldskrárhækkanir þar til rofar til í aðstæðum vegna COVID. Hópurinn sem þarfnast aðstoðar stækkar. Fólk sem var í fastri vinnu er nú skyndilega atvinnulaust. Fyrirvarinn var enginn Huga þarf að skóla- og frístund- og velferðarsviði enda reynir mest á þessi svið. Í umræðunni er sjaldnast minnst á stöðu borgarinnar fyrir COVID. Fyrir faraldurinn var nærri stöðug skuldaaukning.

 

Borgarstjórn 3. nóvember 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum:

Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að fara í útboð vegna kaupa á nýjum LED lömpum vegna áætlaðra framkvæmda á árinu 2021. Þetta er löngu tímabært, þótt fyrr hefði verið. Lýsing og ljósaskilti hafa almennt séð mikil áhrif á útlit borga. Það er löngu tímabært að móta stefnu um þessi mál þar sem LED-lýsingar munu verða ríkjandi á næstu árum og þar með verða breytingar á skiltum. Með LED-tækninni opnast nýir möguleikar. Mikilvægt er að settar verði skýrar og almennar reglur um lýsingu t.d. sem snýr að skiltum á stofnvegum en einnig þar sem verslunarkjarnar eru inn í íbúðahverfum. Sterk lýsing ljósaskilta verslana getur auðveldlega teygt sig inn í stofu hjá fólki með tilheyrandi ama. Sem betur fer er sveigjanleiki LED-lýsinga mikill og með þeirri tækni er færi á að fegra umhverfið, en ekki spilla því. Þetta er sannarlega pólitískt borgarmál, en ekki mál sérhvers söluaðila, hagsmunasamtaka eða verslunareigenda.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 23. október 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur:

Nú á að hefja framkvæmdir við endurgerð á kvennaböðum í eldri byggingu Sundhallar Reykjavíkur. Því ber að fagna og samhliða er þess vænst að konur fái aftur að nota að fullu kvennaaðstöðuna í eldri byggingunni um leið og hún er tilbúin. Til upprifjunar þá var konum úthýst úr kvennaklefa Sundhallarinnar og settar í klefa nýbyggingar þar sem þær þurfa að ganga í blautum sundfötum langa leið utandyra frá klefa í laug. Karlar héldu sínum. Hér er um lýðheilsumál að ræða. Að jafnrétti kynja var ekki gætt við hönnun og eru þessar breytingar varla í samræmi við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum. Mannréttindastjóri hefur hafnað því og segir að „áður hafi konur ekki notið sömu þjónustu og karlar og fatlaðir ekki sömu þjónustu og ófatlaðir en nú uppfylli Sundhöllin mannréttindastefnu borgarinnar“.Fátt af þessu stenst reyndar. Hver var t.d. sú þjónusta sem karlar nutu í Sundhöllinni umfram konur? Að hvaða leyti var aðstaða fyrir konur lélegri en karla og er hún betri núna, og þá hvernig? Staðan er bagaleg nú fyrir konur ekki síst á vetrum því leiðin frá kvennaklefum í nýbyggingu og inn í Sundhöll er löng og köld fyrir konur, ungar sem aldnar, verandi í blautum sundbolum í alls konar veðrum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu við viðaukum við fjárhagsáætlun 2020, ásamt fylgiskjölum:

Fjárhagsleg staða borgarinnar er slæm og aðeins að hluta til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru COVID-19. Áður en veiran kom voru tekjur af sölu byggingarréttar langt undir áætlun. Á sama tíma og notendum þjónustu fjölgar og mun fleiri þurfa nú fjárhagsaðstoð er sviðum sem sinna grunnþjónustu gert að hagræða og gjaldskrár eru hækkaðar. Stefna borgarinnar í peningamálum er stundum í þversögn. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að meirihlutinn nýti sér COVID-19 sem skjól. Fjárhagsstaða borgarinnar fyrir COVID fellur í skuggann á stöðunni sem komin er vegna COVID. Eðli málsins samkvæmt eru minni umsvif í efnahagslífinu. Fyrir faraldurinn var skuldaaukning mikil og nú er þörf á enn frekari lántökum til að fjármagna fjárfestingar. Huga þarf að velferðarsviðinu sérstaklega, þar er þungur rekstur sem ætti ekki að koma á óvart nú. Engu að síður er gerð krafa um hagræðingu. Hópurinn sem þarf fjárhagsaðstoð hefur stækkað og er nú einnig breiðari. Hann mun halda áfram að stækka enn meira með auknu atvinnuleysi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. október 2020, þar sem lögð er fram endurskoðuð tímaáætlun fyrir frágang, kynningu og afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2021-2025:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af þessari tímaáætlun og breytingum á fundadagatali aðallega vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið annar ekki að kostnaðarmeta breytingartillögur fulltrúa minnihlutans sem hyggjast leggja slíkar tillögur fram. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til 28. maí 2020 að skilgreint yrði ákveðið starfshlutfall t.d. eins starfsmanns fjármálaskrifstofu til að reikna út þær tillögur sem minnihlutafulltrúar óskuðu eftir að yrðu kostnaðarmetnar og einfaldlega sinna betur minnihlutafulltrúum. Tillögunni var vísað frá. Í þau skipti sem fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir kostnaðarmati og látið jafnvel fylgja að gróft mat dugi, líður oft langur tími áður en nokkuð svar berst. Þetta segir vissulega ekkert annað en það að það er mikið álag á starfsmönnum fjármálasviðsins. En kannski má einnig álykta að tillögur og breytingatillögur minnihlutafulltrúa eru ekki settar í neinn sérstakan forgang nema síður sé. Að hafa hugmynd um kostnað tillögunnar getur skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld eins og oftast gerist. Ef stjórnkerfi borgarinnar á að vera heilbrigt og eðlilegt þarf að gera á þessu bragarbót. Almennt er hvatt til þess að mál minnihlutafulltrúa séu móttekin með jákvæðari hætti af meirihlutanum, í það minnsta að þau fengju oftar skoðun.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 26. október 2020, þar sem uppfærð húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar er send borgarráði til kynningar:

Húsnæðisáætlun uppfærð er lögð fram. Það hafa ekki allir borgarbúar öruggt húsnæði eins stefnan kveður á um. Ekki er nægjanlega mikið af almennu sannarlega hagkvæmu húsnæði. Sé skortur á hagkvæmu húsnæði aukast líkur þess að efnalítið fólk finni sér skjól í hættulegu, ósamþykktu húsnæði. Skortur er á þjónustuíbúðum aldraðra og hjúkrunarrýmum. Á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými taka varla biðlistann sem nú er. Bið eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk er enn of löng. Nú bíða á annað hundrað manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins rétt rúmlega 100 íbúðir. Þétting er víða ansi mikil. Að stafla eins mörgum á eins lítinn blett og hægt er er varla fýsilegt. Fylla á fjörur til að koma enn fleirum fyrir eins og t.d. í Skerjafirði. Enn eru þeir til sem óska eftir lóðum til að byggja sitt eigið hús eða óska eftir einbýlum í nýjum hverfum eins og í Úlfarsárdal. Ekki er mikið framboð af slíku. Einnig er erfitt að fá iðnaðarhúsnæði í sumum hverfum í Reykjavík og atvinnutækifæri eru afar misgóð eftir hverfum, í sumum hverfum bara lítið sem ekkert.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra um nýtt þróunarverkefni um grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar dags. 26. október 2020:

Grænt íbúðarhúsnæði framtíðarinnar. Þetta hljómar vel nema hugmyndin um aukna byggð í Skerjafirði og það á kostnað fjara. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Væri ekki nær að bíða eftir því að flugvöllurinn fari? Í þessu er því mikil þversögn því með þessu græna íbúðarhúsnæðissvæði á að horfa til að íbúar geti notið nábýlis grænna svæða og útivistarsvæða. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis bókað um af hverju þessi meirihluti getur ekki látið fjörur í friði. Það vantar ekki land. Haldið er áfram að troða á kostnað bæði grænna svæða og útivistarsvæða. Einnig á að fylla fjörur í Ártúnshöfða þar sem byggja á 900 íbúðir. Svo mikið fyrir hina „grænu áherslu“ meirihlutans!

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars Strætó við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nýja fargjaldastefnu Strætó:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Segir í svari að vinnan við mótun nýrrar fargjaldastefnu sé enn í gangi. Í því sambandi má undirstrika að stakt fargjald með strætó er einfaldlega allt of hátt. Svo hátt að það fælir þá frá sem myndu vilja nýta sér strætó endrum og sinnum. Stök ferð kostar tæpar 500 krónur. Það væri mikil bót í máli ef hægt væri að kaupa sem dæmi strætókort sem hefur ótakmarkaðan gildistíma. Það hentar vel fólki sem þarf og vill nota strætó en ekki með reglubundnum hætti. Þessari hugmynd Flokks fólksins og fleiri var vísað til stjórnar Strætó. Margt er hægt að gera til að laða fólk að frekari notkun strætisvagna t.d. með því að bjóða upp á ódýr kynningarkort til að fólk kynnist kerfinu. Það þurfa að vera fleiri möguleikar í fargjöldum, jafnvel fríar ferðir utan álagstíma. Finna ætti fjölbreyttar leiðir til að bæta ímyndina og virkja þjónustustefnu betur. Einnig myndi það laða að ef hundar væru ávallt velkomnir um borð í vagnana.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 5. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks varðandi göngugötur og akstursþjónustu:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. hvort nefndin hafi beitt sér varðandi 10. gr. laga frá 1. janúar 2020 sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði. Í svari kemur fram að nefndin fékk ekki umferðarlögin til umsagnar, en átti umræðu um málið á einum af fundi sínum. En hvað kom út úr þeirri umræðu kemur ekki fram og hver er þá afstaða nefndarinnar til 10. greinarinnar. Eins og vitað er hafa skipulagsyfirvöld fundið þessari heimild allt til foráttu og til að fá Alþingi til að endurskoða hana var sent minnisblað frá skipulagsyfirvöldum borgarinnar 3. apríl sl. til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Óskað var eftir að fá orðalagi 10. gr. breytt svo skipulagsyfirvöld borgarinnar geti afmáð heimildina. Enn er beðið viðbragða þingsins við minnisblaðinu. En lögin eru skýr. Handhafar stæðiskorta mega aka um göngugötu. Hér er um áralanga baráttu handhafa stæðiskorta að ræða sem loksins skilaði árangri og þetta vill borgarmeirihlutinn eyðilegga fyrir þeim. Þegar um er að ræða mannmarga stórviðburði í miðbænum segir það sig sjálft að vélknúið ökutæki ekur ekki göngugötu nema í neyðartilvikum. Á göngugötu má auk þess aldrei aka hraðar en 10 km á klst.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 1. og 13. október 2020:

Í lið 5 eru lögð fram drög mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð aðgengis- og samráðsnefndar á málum sem snúa m.a. að göngugötum í Reykjavík og akstursþjónustu fatlaðs fólks. Ein af spurningum Flokks fólksins var: hvernig hefur aðgengis- og samráðsnefndin beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Í svari segir að nefndin hafi sent ábendingar um merkingar P-stæða þar sem vitað hefur verið til að þeim sé ábótavant en það hafi aðeins átt við einstök svæði. Ekkert er minnst á í svari þann þátt sem snýr að skiltum og merkingum við göngugötur. Er verið að segja með þessu að nefndin hafi eingöngu sent inn ábendingar um merkingu sjálfra bílastæðanna á göngugötunum en ekki beitt sér neitt fyrir að skilti og merkingar við göngugötur séu samkvæmt lögum?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 9. október 2020:

Fundargerðir SORPU eru að verða æ rýrari í samanburði við aðrar fundargerðir svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er sífellt að verða knappari. Hér er dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins er ætlað að vita eftir þennan fund. Þetta er ekki nógu gott. Minnumst þess að SORPA hefur verið í verulegum rekstrarlegum vandræðum tilkomnum m.a. vegna alvarlegra mistaka í fjármálum. Ráðgjafarfyrirtækið Strategía var ráðið í vinnu til að skoða leiðir til að bjóða eigendum og minnihlutafulltrúum ríkari aðkomu að fyrirtækinu m.a. með bættri upplýsingagjöf. Sú vinna kostaði 28 milljónir. Lítið virðist hafa skilað sér til stjórnar SORPU. Eigendum og minnihlutafulltrúum er haldið út í kuldanum alla vega þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir eru einmitt tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, einhver viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um reglur og viðmið fundargerða:

Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir hvort ekki séu til einhverjar reglur um fundargerðir, viðmið sem fyrirtækjum í eigum borgarinnar er ætlað að fylgja þegar kemur að fundargerðum. Fundargerðir SORPU eru að vera æ rýrari svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Stikkorðastíllinn er að verða knappari. Dæmi um fundargerð sem lögð er fram í borgarráði 29. október 2020 er: Liður 1: Staða og horfur í rekstri. Liður 2: Áætlun 2021. Liður 3: Önnur mál. Liður 4: Næsti fundur. Fundi slitið. Þetta er nú allt og sumt sem öðrum, þ.m.t. eigendum fyrirtækisins og minnihlutafulltrúum er ætlað að vita eftir þennan fund. Fundargerðir eru tæki til að miðla upplýsingum, því ekki að nota það tæki betur? Miklu fé var varið í ráðgjafarfyrirtækið Strategíu sem átti að vinna leiðir til að auka aðkomu eigenda að byggðasamlagsfyrirtækjum. Lítið af þeirra ráðleggingum virðist hafa skilað sér inn í stjórn SORPU. R20100401
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skráningar yfir kvartanir vegna hunda:

Fyrirspurnir um eftirlitsferðir hundaeftirlits og skráningu yfir kvartanir vegna hunda. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að sjá frumgögn sem liggja að baki hundaeftirlitsferðum og kvörtunum vegna hunda fram til 1. október 2020. Einnig hvað felst í eftirlitsferðum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá að sjá skráningar yfir kvartanir. Óskað er eftir að fá þessar upplýsingar um eftirlitsferðir og skráningar kvartana án persónugreinanlegra upplýsinga þeim tengdum. R20010132.
Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Borgarráð 29. október 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu skýrslu um Lesskimun 2019:

Lesskimun sýnir að árið 2019 er marktækt síðra en síðasta ár. Tæp 61% nemenda les sér til gagns en rúm 39% geta það ekki.  Árið 2018 gátu 65% stúlkna lesið sér til gagns og 64% drengja og munar um 4 prósentustigum milli ára. Hlutfallið 2019 er það næstlægsta í sögu skimunar.  Fram kemur að allir skólar noti hljóðaaðferðina. Aðrar aðferðir eru notaðar með í bland og allar sagðar gagnreyndar? Það er fullyrt af sumum fræðingum að Byrjendalæsi sem slík eigi sér ekki stoð í ritrýndum rannsóknum. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina nákvæmlega þessa þróun. Um 2-4% barna eiga í vandamálum með lestur út frá lífeðlisfræðilegum ástæðum. Um 20-30% af börnum fá ekki hjálp heima og verða því að fá hjálp í skólanum. Styðja þarf skólanna og styrkja til að sinna þessu hlutverki í meiri mæli. Ekki er hægt að sætta sig við neitt minna en 80-90% barna séu læs eftir 2 ár í skóla. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og betri yfirsýn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt til að Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um breytta aðferðafræði við ráðningu kennara:

Tillaga Flokks fólksins um að skoða breytta og þá fjölbreyttari aðferðarfræði við ráðningu kennara hefur verið vísað frá en hún er einmitt lögð fram til að  hvetja skóla- og frístundasvið í samvinnu við skólanna til að hugsa málið upp á nýtt. Róðurinn er þyngstur í leikskólum og vandinn er til staðar á hverju hausti. Hvað er það sem er mögulega er að fæla frá annað en lág laun og álag? Hugmyndin um afleysingastofu er mjög góð en ekki liggur fyrir hver árangur hennar er. Þrír hópar skoðuðu starfsumhverfi kennara og settu fram tillögur til úrbóta. Sumar eru komnar í framkvæmd aðrar ekki. Ekki liggur fyrir mælanlegur árangur af þeim aðgerðum enn. Nú er atvinnuleysi mikið og vaxandi svo gera má ráð fyrir að mannekluvandi  ætti að vera  úr sögunni. Ef það verður ekki raunin næsta haust þá má ætla að einhverjar aðrar skýringar séu þarna að baki, óþekktar eða í það minsta sem ekki liggja ljósar fyrir.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að skóla- og frístundarráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna leiðir til að draga úr matarsóun:

Tillagan var um að skóla- og frístundaráð setjist niður með skólastjórnendum og matráðum skóla í því skyni að finna fleiri leiðir til að draga úr matarsóun. Matarsóun er málaflokkur sem varðar okkur öll. Ef marka má kannanir eru matarsóun meira vandamál hér en í nágrannalöndum. Það er vont til þess að vita. Hvað myndi maður sjá ef skoðað yrði í stampana eftir hádegismat í skólum? Er verið að mæla það sem er leift? Er verið að leyfa börnunum að taka þátt í að sporna við matarsóun sem spennandi verkefni? Hvar er Grænfánahugmyndafræðin stödd í skólum Reykjavíkur?

Tillaga Flokks fólksins um að hvetja alla skóla til að vera Grænfánaskóla og styrkja þá til þess var felld í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins vil ítreka enn og aftur að það skiptir máli að börn skammti sér sjálf og vigti og skrái síðan það sem þau leifa. Einnig þarf maturinn að vera fjölbreyttur og af góðum gæðum.  Það dregur úr matarsóun eins og rannsóknir hafa sýnt. Ekki gengur að bjóða börnum upp á það sem þau ekki vilja. Það fer bara lóðbeint í ruslið. Tillögunni er vísað í vinnuhóp og fagnar fulltrúi Flokks fólksins því.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurnum Flokks fólksins um m.a. um í hversu miklum mæli gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri eru notaðar í skólum Reykjavíkur:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði m.a. um í hversu miklum mæli gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri og í hversu miklum  mæli og hvaða aðgerðir eru í gangi til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?

Enda þótt ekki sé verið að miðstýra aðferðum er varla í boði að nota aðrar aðferði en sannreyndar. Byrjendalæsi er ekki gagnreynd aðferð að sama skapi og hljóðaaðferðin enda svo sem ólíkar aðferðarfræðilegar nálganir. Engu að síður nota sumir skólar Byrjendalæsi meira en hljóðaaðferðina sem aðal lestrarkennsluaðferð.  Segir í svari að fjöldi skóla sem nota Byrjendalæsi sveiflast vegna þess „að stjórnendur senda ekki alltaf nýja kennara í þjálfun heldur treysta á að þeir sem fyrir eru taki að sér þjálfunina“. Þetta er nokkuð sérkennilegt. Enda þótt þetta sé ekki spurning um annað hvort eða þá er ekki hægt að horfa fram hjá versnandi árangri barna í lestri. Enginn efast um að kennarar séu ekki að nýta þekkingu sína. Ábyrgðin er hjá borgaryfirvöldum og menntamálaráðherra. Rannsóknir sýna að börn innflytjenda eru að koma verr út á Íslandi en nágrannalöndum sem er mikið áhyggjuefni. Kallað er eftir sérstöku og sértæku átaki fyrir þann hóp, börn sem eru fædd hér og einnig börnin sem koma stálpaðri til landsins.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um lestrarkennsluaðferðir í grunnskólum:

Í svari kemur aftur fram að allur gangur er á hvaða lestrarkennsluaðferðir eru notaðar. Fulltrúi Flokks fólksins styður heilshugar sjálfstæði skólanna í þessum efnum en pólitíkin þarf að hafa yfirsýn og hennar er ábyrgðin. Vinnubrögð eru markviss og sama þarf að gilda um notkun aðferða, hún þarf einnig að vera markviss. Hin svokallaða hljóðaðferð er best rannsökuð af lestrarkennsluaðferðum og er sögð notuð í öllum skólum kannski í mismiklum mæli. Börn með lesblindu eru oft sterk í sjónrænni úrvinnslu og læra því betur með sjónrænum kennsluaðferðum. Hvað sem öllu líður er árangur barna í lestri versnandi. Hvað nákvæmlega veldur því er ekki vitað. Vitað er að heilmikil áhersla er á hraðamælingar í lestri. Hraðamælingar í lestri koma illa við sum börn sér í lagi þau sem eru hæglæs eða með lesblindu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur velt upp þeirri spurningu hvort áherslan á leshraða hefur verið á kostnað lesskilnings? Áherslan hlýtur að þurfa vera á lesskilning númer eitt um leið og lestrartækninni er náð. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er dapurt því á Íslandi státum við af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins  um mæliaðferðir til að meta lesskilning barna:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda?

Í svari kemur fram að  áhersla á fjölbreyttar lesskilningsaðferðir hafa aukist og er það mjög jákvætt. En til að vita hvort við erum á réttri leið í þessum málum þarf að mæla árangur. Markmiðið hlýtur að vera að  80-90% af börnum séu fulllæs eftir 2 bekk. Þegar talað er um mælingar má ætla að mæla eigi í 1-2 bekk stöðu barna í bókstafa-hljóðaprófi, kanna hvort börnin hafi brotið lestrarkóðann. Síðan eru það mælingar með lesskilningsprófum fyrir þá sem hafa brotið lestrarkóðann. Þetta er sennilega allt í gangi í flestum skólum.
Þegar talað er um aðferðir við mælingar, innan skóla og milli skóla þá hlýtur að vera spurt um samanburðarhæfi þ.m.t. aðferðarfræðilega séð.
Fulltrúa Flokks fólksins finnst sumt óljóst sem Menntamálastofnun gerir. Flokkur fólksins spurði um mælingar sem hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda. Í því sambandi má spyrja hvort ekki hafi staðið til að þýða fleiri lesskilningsprófin hjá Menntamálastofnun? En gott er að vita að nóg er af námskeiðum um lestrarkennslu á vegum Miðju máls og læsis. Vonandi skilar þetta sér síðan í betri niðurstöðum í næstu PISA könnun.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það skal tekið fram að samkvæmt PISA fer árangur barna í Reykjavík batnandi í öllum greinum milli 2015 og 2018.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið að ræða um árangur barna í lestri og lesskilningi en ekki í öðrum fögum/greinum. Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af síðustu niðustöðum PISA könnunar og Lesskimun síðustu ára. Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna.
Ef litið er lengra til baka þá hefur frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA  ekki breyst marktækt frá  könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitinar spurningar hafa þess vegna vaknað um hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum?

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort þurft hefur að loka á áskriftir að skólamáltíðum veturinn 2019-2020 vegna ógreiddra reikninga:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort þurft hefur að loka á áskriftir að skólamáltíðum veturinn 2019-2020 vegna ógreiddra reikninga?

Ef svo er hvað eru þær margar?

Einnig er spurt hvað margar fjölskyldur hafa ekki getað greitt reikninga vegna áskrifta að skólamáltíðum á þessum tíma og hvað margar að þeim fjölskyldum eru komnar með reikninga í vanskil eða eru á leið með þá í vanskil?

Hvað margar fjölskyldur hafa sótt um sérstakan styrk hjá Reykjavíkurborg til að greiða reikninga fyrir skólamáltíðir barna sinna?

Hvað margar fjölskyldur hafa fengið slíkan styrk í vetur?

Hvað eru margir nemendur í áskrift að skólamáltíðum í Reykjavík?

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um árangur af ráðningu Afleysingastofu:

Afleysingastofa er verkefni á vegum Reykjavíkurborgar þar sem einstaklingum gefst tækifæri til þess að skilgreina sjálfir sinn vinnutíma og vinna á þeim tíma sem þeir óska eftir. Í fyrsta fasa verkefnisins var um störf á leikskólum Reykjavíkurborgar að ræða en nú hefur fleiri starfsstöðum verið bætt við á skóla- og frístundarsviði og á velferðarsviði. Afleysingastofa er nýjung hjá Reykjavíkurborg en byggir á erlendri fyrirmynd og er fyrirkomulagið til dæmis þekkt í Skandinavíu. Hver hefur árangur verið af þessu verkefni þegar kemur að mönnun starfa í skóla- og frístundastarfi? Hvað margir hafa verið ráðnir til starfa í gegnum Afleysingastofuna?

 

Skóla- og frístundaráð 27. október 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á aðgerðaáætlun stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra:

Mörg hundruð fjölskyldur búa við fátækt og þar á meðal eru mörg hundruð börn. Skýrslan er fín en koma þarf öllum tillögum í gagnið sem fyrst. Mjög líklegt er að þessi hópur fátækra stækki enn meir vegna aukins atvinnuleysis. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar mörgu sem þarna er og þá ekki hvað síst tillögu 3 í skýrslunni sem er tillaga Flokks fólksins um að  „Reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A né þjónustugreiðslum“. Þessi tillaga var lögð fram 1. okt. 2019 og var þá reyndar felld. En nú virðist hún ætla að verða að veruleika, sbr. aðgerðaráætlun um aðgerðir gegn sárafátækt.

Það er með ólíkindum að í  reglum um fjárhagsaðstoð skuli það hafa verið sett sem skilyrði að það þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildargreiðslum skv. gr. 16. A eða þjónustugreiðslum og þannig er það búið að vera í langan tíma.

Enn er langt í land að frístundakortið fái sinn upprunalega tilgang þ.e. að jafna stöðu barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Tilraunaverkefni sem er í gangi, hækkun frístundastyrks á aðeins við um eitt hverfi borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um aukna fjárheimild til fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að fjárheimildir fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs verði hækkuð um 655.3 m.kr. árinu 2020. Þetta er mjög nauðsynlegt enda mun staðan eiga eftir að versna eða þar til  bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru einnig of ströng. Þau þarf að endurskoða og endurmeta í ljósi nýs veruleika. Velferðarsvið/ráð verður að taka á ástandinu fulla ábyrgð. Ljóst er að stefnt er í U sviðsmynd í fjárhagsaðstoðinni, slík er fjölgun atvinnulausra.  Hópur þeirra sem þarfnast aðstoðar nú hefur breyst samhliða auknu atvinnuleysi. Samsetning hópsins er allt önnur nú. Allir geta í raun fundið sig í þessum sporum nú á þessum sérkennilegu og erfiðu tímum. Ekkert skiptir máli meira að tryggja aðstæður fólks svo það geti haldið heilsu og þreki. Í langan tíma hefur þessi málaflokkur hvergi nær fengið næga athygli meirihlutans. Reglur um fjárhagsaðstoð hafa verið hlaðnar skilyrðum og almennt séð ekki verið nógu sveigjanlegar. Ástandið var slæmt fyrir COVID.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um breytingu á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis:

Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði. Tillaga sviðsstjóra um breytingu á uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða er þannig að lagt er til að breyting verði gerð á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis þannig að íbúðakjarni fyrir geðfatlaða verði gerður að íbúðakjarna fyrir einstaklinga með þroskahömlun. Breytingin kostar 41 m.kr. Rökin eru að þörf eftir húsnæði er mun ríkari hjá einstaklingum með þroskahömlun en hjá geðfötluðum. Þetta eru náttúrulega ekki ný tíðindi. þ.e. að meiri hreyfing sé á búsetu geðfatlaðra heldur en þroskahamlaðra? Breytingar á húsnæði eru dýrar. Skiljanlega þarf að bregðast við óvæntum sveiflum.

Fulltrúi Flokks fólksins vill nota þessa bókun líka til að orða þau vonbrigði sem langur biðlisti árum saman hefur valdið fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra. Árið 2019 biðu 162 fatlaðir einstaklingar eftir húsnæði  og munar aðeins um 10 frá árinu þar áður. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur sé kominn langt á fertugsaldur þegar hann fær loksins húsnæði. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru til um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu.

 

Bókun Flokks fólksins við drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2020. Bókun færð í trúnaðarbók.

Bókun Flokks fólksins við  framlagningu draga að gjaldskrám velferðarsviðs 2020 fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Trúnaðarmál.

 1. Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði
 2. Gjaldskrá í félagsstarfi
 3. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra
 4. Gjaldskrá í heimaþjónustu
 5. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ
 6. Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum
 7. Gjaldskrá um akstursþjónustu eldri borgara
 8. Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna
 9. Gjaldskrá vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

Bókun Flokks fólksins við  við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020 um vinnureglu starfsmanna ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. okt. 2020.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að sett yrði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn fari ekki heim í lok dags fyrr en þeir eru búnir að svara innkomnum erindum með einum eða öðrum hætti. Tillagan er felld.
Reyndar er það sérkennilegt að fella tillögu sem þessa sem er svona meira í formi tilmæla. Með því að fella er eins og það sé ekki vilji velferðarráðs að póstum starfsmanna sé sinnt samdægurs?

Í umsögn sviðsstjóra er talað um að þegar skeyti er sent þá berist sjálfvirkt svar um að erindið sé móttekið.  Sjálfvirkt svar er ekki það sama og að svara. Allir vita það sem fá sjálfvirkt svar um leið og póstur er sendur að það gefur  ekki til kynna að móttakandi lesi endilega póstinn þann daginn eða þá næstu ef því er að skipta. Sjálfvirkni almennt séð er einfaldlega oft mjög ópersónuleg svörun. Kannski þarf að ætla starfsmönnum meiri tíma í að skoða póstinn sinn í lok dags og bregðast við. Margir starfsmenn eru undir miklu álagi. Það er á ábyrgð stjórnanda að skipuleggja þessa hluti með starfsmönnum sínum.

Samkvæmt svari velferðarsviðs má þó ætla að reynt hafi verið að bæta svörun og skilvirkni almennt séð í þeim efnum.
 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 16. september 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 30. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. ágúst 2020 um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar:

Segir í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ástandið á vinnumarkaði í Reykjavík að vel hafi gengið að manna stöður og einungis 11 séu ómannaðar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta þýði að nú sé hægt að veita fulla þjónustu alls staðar sem ekki var áður hægt vegna manneklu? Eru allir sem þurfa, að fá t.d. heimaþjónustu?

Fulltrúi Flokks fólksins vildi vita hvað borgin væri sjálf að gera ein og sér í þessum málum. Talað er um að skapa störf og er þá reiknað með að það þýði að verið sé að búa til störf sem voru ekki áður til staðar. Samkvæmt svari ætti alla vega að vera hægt að manna allar stöður sem fyrir voru og mannekla að vera þar með úr sögunni. Það ætti að eyða biðlistum sem eru ekki síst tilkomnir vegna þess að ekki hefur tekist að  manna stöður.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. fundargerð borgarráðs þann 5. október, um fjölda greininga á þjónustumiðstöðvum árið 2019.

Spurt var um hver væri biðlistinn eftir greiningu og sundurliðun eftir þjónustumiðstöðvum. Fjöldi tilvísana alls eru 2.165 og þar af hafa um 1000 börn fengið þjónustu. Flestar tilvísanir koma frá Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum og Breiðholti. Rúmlega þúsund eru á bið. Flestir bíða eftir sálfræðiþjónustu, greiningum og eða viðtölum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alvarlegar áhyggjur af þeim sem eru á biðlista. Á  meðan barn bíður heldur vandinn oft áfram að vaxa og hafa neikvæð áhrif. Fulltrúi Flokks fólksins var að vonast til að staðan væri betri en þetta. Foreldrar sem hafa til þess ráð fara margir með börn sín til sjálfstætt starfandi sálfræðinga. En svo heppnar eru ekki allar fjölskyldur. Margir foreldrar hafa stigið fram og lýst baráttunni við kerfið í Reykjavík þegar kemur að aðgengi til skólasálfræðinga. Fátækar og efnaminni fjölskyldur sem eiga börn sem bíða aðstoðar sökkva mörg hver æ dýpra í vanlíðan og fá ekki rönd við reist.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu biðlista í ýmis úrræði á vegum borgarinnar:

Hér að neðan má sjá samantekt á þeim úrræðum/þjónustu sem er ekki sameiginleg öllum þjónustumiðstöðvunum eða Barnavernd Reykjavíkur.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hverjir eru biðlistar í eftirfarandi úrræði:

„Mér finnst ég ekki lengur ein“

„Lesum saman“ (Lestrarátaksverkefni)

„Hjólakraftur“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs)

„Lotta“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega).

„Klókir litlir krakkar“ (Kvíðameðferðarnámskeið fyrir forráðamenn barna yngri en 8 ára)

„Fjörkálfar“ (Námskeið fyrir börn á aldrinum 8−12 ára með reiðivanda)

Frístund plús: samstarf við Frístundamiðstöðina Miðberg til að styðja frístundastarf í hverfinu fyrir þau börn sem þurfa auka stuðning á frístundaheimilunum

„TINNA“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega)

Talmeinafræðingar

Verkefni þar sem unnið er að því að taka á mætingarvanda barna í 5. og 9. bekk

Heimanámsaðstoð

Samstarf við Gufunesbæ — styrkja félagslega einangruð ungmenni í 9. bekk

ÁTAK (Tímabundin þjónusta við börn og foreldra þar sem mætingarvandi er til staðar).

ÁFRAM (Sértæk þjónusta við nemendur sem eru að ljúka grunnskóla og þurfa stuðning í framhaldsskólanum).

Núvitundarnámskeið fyrir börn, unglinga og forráðamenn

„Gaman saman“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs)

„HAM“-námskeið (Hugræn athyglismeðferð í anda námskeiðsins: „Mér líður eins og ég hugsa“)

Sálfræðiþjónusta fyrir börn hjá SÁÁ

 

 

Velferðarráð 21. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Sjómannaskólareitur, breyting á deiliskipulagi

Fulltrúi Flokks fólksins áttar sig ekki alveg á hvar þetta mál er statt í hugum íbúa og þeirra sem vilja standa vörð um þetta fallega svæði í borgarlandinu. Sú breyting sem hér er gerð hljómar kannski vel en eru íbúar í nágrenninu sáttir? Fulltrúi Flokks fólksins vill fá álit íbúa/borgarbúa á henni. Margar kærur bárust og bakkað var með ákveðna þætti en aðra ekki. Talað erum um ívilnandi ákvarðanir að minnka byggingarmagnið og er það vissulega gott. Málið er enn óljóst í huga fulltrúa Flokks fólksins. Eitt er vitað fyrir víst að þessi reitur hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga enda einn fallegasti reitur borgarinnar. Er búið að leysa úr öðrum málum, mögulegs skuggavarps sem deiliskipulagið mun leiða af sér og útsýnisskerðingar yfir Háteigsveg, Hallgrímskirkju? Það er ósk Flokks fólksins að málinu verði frestað þar til að búið er að kynna þessar breytingar fyrir íbúum í nágrenninu og öðrum sem vilja láta sig málið varða.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hverfisgata 19 (Þjóðleikhúsið), óleyfisframkvæmd:

Ekki er betur séð en að vel virðist hafa verið staðið að breytingum á Þjóðleikhúsinu. Verkið var unnið í samráði við Minjastofnun og reynt er að fylgja þeim tíðaranda sem var þegar húsið var byggt. Tími sem gafst þegar hlé var á sýningarhald vegna COVID var nýtt til þessara endurbóta. Breytingar eru afturkræfar. En það láðist að fá leyfi hjá byggingarfulltrúa. Miðað við aðstæður er hægt að fyrirgefa það. Það geta vissulega allir gert mistök sem slík og þar sem allar breytingar eru afturkræfar og Minjastofnun er sátt sér fulltrúi Flokks fólksins ekki ástæðu til að dvelja við þetta mál. Vissulega þurfa öll öryggismál s.s. brunamál að vera í lagi.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu LEAN hugmyndafræði:

Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN. Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum.

Einnig er spurt:

Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild?

Ástæða fyrirspurnanna.

Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hleðslustöðvar metans:

Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10. Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu umhverfisgæða.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar

Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti.

Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.
Tillagan er felld.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs í hagræðingarskyni. Tillagan hefur verið felld. Skoða mætti að mati fulltrúa Flokks fólksins að setja embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Ekki er verið að tala um að leggja embættin niður enda lögbundin.

Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Með einfaldara skipulagi minnkar flækjustig og þjónusta verður betri. Nauðsynlegt er að einfalda kerfið sem mest ekki bara á þessu sviði heldur fleirum. Báknið í borginni hefur þanist út síðustu 20 ár. Nýlega kom svar um hvað margir stjórnendur eru í borgarkerfinu. Skrifstofustjórar eru sem dæmi 35 talsins.

Tillaga Flokks fólksins um að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kenntölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir.

Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar.

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona:

Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)?

Eftirfarandi svar barst:

Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu.

Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur.

Frestað.

 

Skipulags- og umhverfisráð 21. október 2020

Tillaga Flokks fólksins um að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík.

Stór hópur reykvískra barna eru í sérkennslu, sum í fáeina tíma á viku en önnur eru í sérkennslu alla grunnskólagönguna. Óljóst er hvort nokkuð sem tengist sérkennslu í reykvískum skólum sé samræmt; greiningar á námsgetu, sérkennslan sjálf eða mat á árangri.

Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkv. Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort sérkennslan skili tilætluðum árangri. Í úttektinni felst að skoða hvort:

 1. Nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra
 2. Greiningar sem liggja til grundvallar sérkennslu séu unnar af fagaðilum skólaþjónustu og séu samræmdar milli skóla
 3. Til staðar sé samræmt eftirlit með sérkennslunni og eftirfylgni
 4. Að fjármagninu sé varið í þeim tilgangi sem því er ætlað.

 

Greinargerð

Um 5 ma.kr. er veitt árlega í sérkennslu en engar samræmdar, heildstæðar árangursmælingar eru gerðar. Því er ekki þekkt hvort sérkennslan er að nýtast nemendum eins og lagt er upp með hana. Ástæðan fyrir beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um að innri endurskoðun taki út þennan málaflokk er að óljóst er hvort og þá hvernig sérkennsla nýtist börnunum.
Frekari rök fyrir tillögunni:

 1. a)           Engin  heildstæð stefna er til í  sérkennslumálum
 2. b)           Árangur sérkennslu er ekki mældur á einstaklingsgrunni eða milli skóla.
 3. c)           Fjármagn sérkennslu til skóla er ekki byggt á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.).
 4. d)           Sérkennslan er ekki  skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur sé á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja (hversu margir nemendur eru í hvorum hópi, hvað er á bak við hvern hóp t.d. greiningar, skimanir o.s.frv.)

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir um þennan málaflokk sem skóla- og frístundaráð/svið hafa reynt að svara. Eftirfarandi hefur m.a. komið fram í svörum skóla- og frístundasviðs við fyrirspurnum Flokks fólksins um greiningar og sérkennsluþörf:

 1. Að engin rannsókn eða heildarúttekt hafi verið gerð á framkvæmd sérkennslu í skólum borgarinnar og því sé ekki hægt að vita hvort sérkennslan sé að nýtast börnunum
 2. Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga er um 5 ma.kr. á ári
 3. Um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.
 4. Ekki er sótt um sérkennslu fyrir börn nema sterkar líkur séu á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar, oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum
 5. Skimun, samræmd próf og námsmat er lagt til grundvallar við skipulag almennrar sérkennslu í skólum.
 6. Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.
 7. Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.Af þessu að dæma liggur fyrir að margt er í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum koma fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu.

Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hversu nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru. Gera má þó ráð fyrir að upplýsingar séu til um fjölda barna sem eru í sérkennsluveri og/eða inni í bekkjum. Stór munur getur verið á því hvort nemandi er að koma í sérkennslu:

 1. Einu sinni í viku í eina klukkustund
 2. Einu sinni í viku í t.d. fjórar klukkustundir
 3. Eru í sérkennslu 10 tíma á viku kannski allt skólaárið og jafnvel með aðstoð inn í bekk að auki
 4. Nemendur sem eru í sérkennslu 2-4 kennslustundir í viku í afmarkaðan tíma, kannski í tvo mánuði eða skemur.

Sé ekki gerður greinarmunur á þessu má ætla að hlutfall grunnskólanema sem eru skráðir í „sérkennslu“ sé hærra en raun ber vitni.

Hópur þeirra barna sem þarfnast aðstoðar með nám eða sérkennslu er fjölbreyttur. Sumum nemendum nægir að vinna í smærri hóp með leiðsögn þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu. Aðrir nemendur hafa verið greindir með sértæka námserfiðleika eða annan námslegan vanda sem kallar á sérefni og einstaklingsmiðaða námsáætlun.

Ekki liggur fyrir nein kortlagning á aðstæðum tengdum sérkennslu í reykvískum leik- og grunnskólum.
Margir nemendur sem eru í sérkennslu eru þess utan með stuðningsfulltrúa inn í bekk. Það getur verið erfitt fyrir sérkennara að vera með nemendahóp á breiðu getustigi. Við slíkar aðstæður má einnig velta vöngum yfir hvort börnin séu að fá námslegum þörfum sínum fullnægt á sínum forsendum. Stundum er staðan þannig í skólum að erfitt er að skipta upp hópum vegna plássleysis.

Allt ofangreint hlýtur að koma til skoðunar þegar rætt er um árangur sérkennslu. Til að mæla árangur þurfa að liggja fyrir samræmdar grunnmælingar á námslegri getu og hver sé hinn námslegi vandi sem rökstyður þörf á sérkennslu. Til að kortleggja hvar námserfiðleikarnir liggja nægir ekki að gera eingöngu skimanir. Leggja þarf fyrir viðurkennd sálfræðileg próf sem mæla vitsmunaþroska barns og viðurkennda kvarða og prófanir sem greina lesvanda/les- og talnablindu. Einnig þarf að leggja fyrir kvarða og prófanir sem meta þætti eins og ADHD og aðrar raskanir sem hafa áhrif á einbeitingu og nám. Upplýsingar af þessu tagi þurfa að liggja fyrir áður en sérkennsla hefst enda byggir sérkennslan (efni og aðferðir) á upplýsingum um námsstöðu barnsins og þörfum þess til að geta stundað nám á eigin forsendum. Sérkennsla sem ekki byggir á sterkum upplýsingagrunni um námsstöðu barns skilar varla miklum árangri.

Að ákveðnum tíma liðnum í sérkennslu þarf að endurtaka mælingar til að skoða hvort sérkennslan sé að skila þeim árangri sem lagt var upp með. Endurmat á sérkennsluþörf og á innihaldi sérkennslunnar er síðan byggt á niðurstöðum sem reglubundnar mælingar sýna.

Til að hægt sé að gera samanburð milli skóla þarf sérkennsla og allt sem henni tengist að vera samræmt milli skóla. Hér er annars vegar verið að ræða um einstaklingsmælingar en ekki síður er mikilvægt að bera saman skóla í þessu sambandi. Til að það sé hægt þarf sérkennsluferlið allt að vera samræmt.

Eins og staðan er nú þá er hver skóli með sínar aðferðir hvað varðar sérkennslu. Á meðan hver skóli hefur sinn háttinn á má gera því skóna að börnin sitja ekki við sama borð heldur fer þjónustan og jafnvel aðferðarfræðin eftir því í hvaða hverfi þau búa og í hvaða skóla þau ganga.

Fjöltyngd börn/börn með erlendan bakgrunn 

Í upplýsingum frá skóla- og frístundasviði kom farm að í kringum 17% barna í grunnskólum í Reykjavík eru fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Stór hluti þessara barna fær stuðning í íslensku sem öðru máli. Það tengist ekki sérkennslu.

Stuðningur til barna með sérþarfir er bæði sérstakur stuðningur á grunni greininga vegna fötlunar og alvarlegra raskana og svo er almennur stuðningur. Um það bil 5% barna fá sértæka stuðninginn en ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hversu hátt hlutfall þeirra er af erlendum uppruna.

Hvað leikskóla Reykjavíkur varðar eru um 26% barna fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Fjöldinn allur af börnum fær kennslu í íslensku í leikskólum borgarinnar og er það ekki flokkað sem sérkennsla.

Við fyrirspurn Flokks fólksins um hlutfall tvítyngdra barna/barna af erlendum uppruna í sérkennslu var sagt að þær upplýsingar lægju ekki fyrir.

Afgreiðsla

Lögð var fram málsmeðferðartillaga af hálfu meirihlutans að vísa tillögunni í vinnuhóp sem skoðar þessi mál.
Samþykkt

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslunni:

Fulltrúi Flokks fólksins telur það farsælast að innri endurskoðun fái það verkefni að gera úttekt á sérkennslumálum í Reykjavík eins og lagt er til. Fjöldi raka hníga að úttekt af þessu tagi. Hér er um viðkvæman hóp að ræða og staða barna í lestri og lesskilningi fer versnandi eins og sjá má af niðustöðum PISA könnunar og Lesskimun síðustu ára.
Málsmeðferðartillaga meirihlutans er að vísa tillögunni inn í  vinnuhóp sem  er að rýna þessi mál. Borgarfulltrúi telur málið brýnt og að ekki dugi að skoða það einungis af vinnuhópi. Hlutfall barna sem er í sérkennslu hefur  haldið áfram að hækka, var 26 prósent árið 2011 og er um 30% 2020. Síðust 20 árin eða svo hefur skóla- og frístundasvið misst  yfirsýn og utanumhald sérkennslumála í Reykjavík.

Tímabært er að fá heildstæða úttekt/rannsókn á málaflokknum af óháðum aðila svo byggja megi á henni tillögur að heildstæðir stefnu um sérkennslumál borgarinnar.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins vonar að Innri endurskoðandi taki ákvörðun um að gera úttekt/rannsókn á sérkennslumálum enda þótt meirihluti skóla- og frístundaráðs telji það ekki vera verkefni á hans borð. Innri endurskoðun hefur faglegt sjálfstæði í störfum gagnvart allri stjórnsýslu borgarinnar eins og segir í starfsreglum Innri endurskoðunar.

Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um velferðarmál.

Óundirbúnar fyrirspurnir Flokks fólksins eru eftirfarandi:

Ætlar borgarstjóri og velferðaryfirvöld að halda áfram að treysta á að hjálparsamtök hlaupi í skarðið til að aðstoða fólk í neyð?

Veit borgarstjóri hvernig fólki sem stendur í biðröð eftir mat líður?

Er ekki kominn tími til að setja fátækt fólk í forgang og sjá til þess að það geti lifað sómasamlegu lífi í Reykjavík?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu ferðamálastefnu Reykjavíkur 2020-2025

Hvort tímabært sé að leggja þessa stefnu fram núna er spurning.   Þegar ferðamenn fara að streyma inn í landið gæti margt verið breytt og endurskoða þarf þá marga þætti og setja ný markmið. Flokkur fólksins   telur að Reykjavík verði aftur vinsæl ferðamannaborg þegar bólusett verður fyrir COVID. Þegar  ferðamannabylgjan skall á fyrir um 8 árum tókst að hýsa alla ferðamenn   ekki síst vegna þess að almennir borgarar opnuðu hús sín og leigðu þau út. Fulltrúi Flokks fólksins telur að borgaryfirvöld eigi að stuðla að því að það kerfi gangi áfram, í það minnsta að ekki verði lagðar neinar hindranir á skammtímaútleigu   íbúða í eigu almennings. Stefnumótun í ferðamálum sem öðru   hlýtur að þurfa að fela í sér skilgreiningu á aðgerðum og mælikvörðum til framtíðar í hinum nýja veruleika sem við blasir. Núna sem dæmi er erfitt að átta sig á hvað muni styrkja stöðu Reykjavíkur sem ráðstefnu- og viðburðaborgar og auka aðdráttarafl borgarinnar fyrir ráðstefnu-, hvata- og viðburðagesti. Vegna COVID-19 er ólíklegt að mikið verði um ráðstefnur í Reykjavík næstu mánuði. Allt byggist þetta á að bóluefni við veirunni finnist. Samningur við Íslandsstofu verður   til bóta. Hvernig borgin muni byggja upp atvinnulíf   tengt ferðaþjónustu er spurning sem bíður svars.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að gerð verði úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í grunn- og leikskólum borgarinnar:

Breytingar á skólastarfi eiga að hagnast öllum nemendum. Börn hagnast mest ef öllum líður vel í skólanum. Kynjamunur á námsárangri í Reykjavík er mestur í lestri og kemur fram í lesskimunum í 2. bekk grunnskóla og er viðvarandi til loka grunnskólans. Árið 2018 lásu 34% drengja 14-15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Slæm staða drengja í lestri á sér rót sem skólayfirvöldum í Reykjavík hefur ekki tekist að greina. Mörg börn eru með lesblindu. Til eru tugir afbrigða. Skoða þarf hvernig sérkennslan er að skila sér til nemenda því allt hangir þetta saman. Börn með lesblindu lesa ekki hratt. Mikil áhersla er á hraðlestrarpróf um þessar mundir og þau geta auðveldlega brotið börn niður sem eru með lesblindu eða eru hæglæs. Það sem mæla þarf er hvort barn hafi náð að brjóta lestrarkóðann og hvar þau eru stödd í lesskilningi í lok 2. bekkjar. Sérstök styrking á lestrarhæfni drengja sem verst eru staddir gæti dregið úr þessum kynjamun en aðrir áhrifavaldar eru margir. Kennsluhættir geta skipt máli til að bæta stöðu drengja, en um leið stöðu stúlkna. Staða drengja er ekki verri en stúlkna í öllum þáttum. Stúlkur á unglingastigi sem dæmi sýna meiri kvíðaeinkenni, verða fyrir meira einelti og hafa minna sjálfsálit en drengir samkvæmt rannsóknum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um að ganga til viðræðna við Heilbrigðisráðuneytið að opna neyslurými:

Auðvitað styður borgarfulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu enda er þetta tillaga sem Flokkur fólksins lagði fyrir borgarstjórn 20. nóvember 2018 sem meirihlutinn felldi þá. Hún hljóðaði svo: Lagt er til að velferðarsviði verði falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. En þá var öldin önnur hjá meirihlutanum því tillögunni var hent út eins og hverju öðru úrkasti með þeim orðum að „Það hafi verið skýr afstaða borgarinnar frá upphafi að um heilbrigðisþjónustu sé að ræða sem er á ábyrgð ríkisins en Reykjavíkurborg veitir notendum þjónustunnar félagslega þjónustu og ýmsan stuðning“. Nú er afstaða þeirra breytt eins og hendi sé veifað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu í tillögu sinni árið 2018 á að mjög brýnt væri að opna rými í Reykjavík til að þjónusta þennan afar viðkvæma hóp, þar sem vímuefnanotendur geta komið í hreint og öruggt athvarf, haft aðgang að heilbrigðisþjónustu og jafnframt fengið aðra aðhlynningu sem þeir þarfnast með skaðaminnkun og mannúð að leiðarljósi. Sama ár, þann 10. ágúst, lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu í velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar. Sú tillaga varð hins vegar að veruleika og því ber að fagna.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Öldin var ekki önnur, lögin voru önnur. Árið 2018 var ekki lagaheimild til að opna neyslurými.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Meirihlutinn/velferðaryfirvöld geta ekki breitt yfir þá afstöðu sem með svo skýrum hætti er birt í bókun þeirra 2018 þegar tillaga Flokks fólksins um neyslurými var felld með því að vísa í lög. Tillagan var um að velferðarsviði væri falið að ganga til viðræðna við heilbrigðisráðuneytið um sameiginlegan rekstur á neyslurými í Reykjavík. Afstaða þeirra var kýrskýr það að „neyslurými sé heilbrigðisþjónusta sem er á ábyrgð ríkisins“. Það hljóta allir að sjá að nú skýtur skökku við að meirihlutinn komi nú sjálfur með þessa sömu tillögu og gjörbreytta afstöðu. Hvernig á að túlka þetta? Var þessi tillaga ekki nógu góð af því að hún kom frá borgarfulltrúa Flokks fólksins? Eða er einhver hentugleikastefna í gangi núna hjá velferðaryfirvöldum, eitthvað „show off“? Fulltrúi Flokks fólks hvetur þennan meirihluta til að mæta ekki öllum málum minnihlutans með endalausri neikvæðni og hafa manndóm í sér að sjá þegar minnihlutinn leggur fram góð mál í þágu fólksins í borginni. Auðvitað fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins þessu frumkvæði en það hefði mátt hafa fyrr og fljótlega í kjölfar framlagningar tillögunnar 2018. Um er að ræða mjög þarft mál. Þetta er okkar viðkvæmasti hópur sem þarfnast að komast í öruggt athvarf þar sem hægt er að fá aðhlynningu.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðum 9, 8-11 og 13 í fundargerð borgarráðs frá 1. október og lið 2 í fundargerð borgarráðs frá 15. október:

Deiliskipulag Laugavegar og nágrennis;
Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki stutt deiliskipulag Laugavegar og nágrannareita vegna þeirrar aðferðafræði sem meirihlutinn í borginni hefur notað og ekki síst vegna vanvirðingar sem hagaðilum svæðisins hefur verið sýnd í gegnum allt skipulagsferlið. Margsinnis var beðið um að ekki verði lokað alfarið fyrir umferð, a.m.k. að ákveðnir götubútar yrðu opnaðir aftur eftir sumarlokun eins og lofað var. Eins og göngugötur geta verið skemmtilegar, ríki um þær sátt, þá umlykur þessar skuggi vonbrigða og reiði. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma sem ekki er hægt að kenna COVID alfarið um.

Viðauki við fjárhagsáætlun 2020;

Lagt til að fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Verkefnið ætti auðvitað að ná til allra hverfa og vera varanlegt ef ekki á að mismuna börnum. Það eru fátæk börn í öllum hverfum. Skilyrði fyrir að námskeið þurfi að vara í 10 vikur til að nota frístundakort er ósanngjarnt.

Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030;
Leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Hægt er að þyrma hæðinni með því að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf-götuna en á það er ekki hlustað.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 8. október og 11. lið fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. október:

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð;
Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti sem er alvarlegt. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði.

Skóla- og frístundaráð
;
Stofnun framtíðarhóps í menntamálum sem fjalla á um m.a. álitamál og umbótaverkefni í skóla- og frístundastarfi er án efa hið mesta þarfaþing gefið að eitthvað komið út úr slíkri hópvinnu annað en orð á blaði. Stutt er í næstu PISA könnun. Bregðast verður við versnandi árangri barna í lestri. Aðeins tæp 61% lesa sér til gagns 2019 en 65% 2018 samkvæmt lesskimunarprófi sem notað hefur verið í áratug. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Í sérkennslumálin vantar heildstæða stefnu og hefur Flokkur fólksins lagt til að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum. Á vakt þessa og síðasta meirihluta hefur ekki tekist að greina rót vandans.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs og 26. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Skóla- og frístundaráð;
Með ákvörðun um breytingu á viðmiðunarstundaskrá er verið að bregðast við versnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Lesskimun 2019 sýnir að aðeins 61% nemenda lesa sér til gagns en 2018 gátu 65% lesið sér til gagns. Hringlandaháttur er með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd en árangur hinnar, byrjendalæsis, er dreginn í efa af ýmsum fræðingum. Skóla- og frístundaráði/-sviði hefur ekki tekist að ná markmiðum sínum í lestrarkennslu.

Umhverfis- og heilbrigðisráð;
Í umsögn er vísað í útboð sem átti að fara fram í september 2020 og ljúka fyrir varp fugla næsta vor. Samkvæmt útboði á verktaki að gera tjarnir og loka skurðum, en ekki er sagt hvernig móta á landið. Það er ekki sama hvernig tjarnir eru gerðar, t.d. skiptir máli hvort hólmi er í tjörninni og hvort hún sé nógu stór til að veita fuglum vernd. Þá er erfitt að tegundagreina votlendisplöntur um hávetur og þar af leiðandi er ekki hægt að taka tillit til mikilvægra tegunda. Skynsamlegra væri að fresta verkinu og að unnin verði í vetur áætlun um endanlegt útlit og þá metið að hvaða gagni framkvæmdin verði með tilliti til verndar lífríkis. Verkið mætti síðan vinna með sóma veturinn 2021-2022.

 

 

Borgarstjórn 20. október 2020

Flokkur fólksins leggur til að  sama fyrirkomulag verði haft á fundi borgarstjórnar 20. október nk. er varðar sóttvarnir og fjöldatakmarkanir og búið var að leggja upp með fyrir fund borgarstjórnar 6. október áður en ákveðið var að hafa þann fund aðeins fjarfund

Tillaga Flokks fólksins um fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að forsætisnefnd samþykki að sama fyrirkomulag verði haft á fundi borgarstjórnar 20. október nk. er varðar sóttvarnir og fjöldatakmarkanir og búið var að leggja upp með fyrir fund borgarstjórnar 6. október áður en ákveðið var að hafa þann fund aðeins fjarfund. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar taki sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Oddvitar borgarstjórnarflokka, fulltrúar í forsætisnefnd og tillöguflytjendur skulu hafa forgang. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020: „Tillaga um fyrirkomulag á fundi borgarstjórnar 6. október vegna takmarkana í samkomubanni“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta. R20010186

Tillagan er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Viðreisnar og Samfylkingar gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hafnar tillögu forseta um að fundur borgarstjórnar verði fjarfundur heldur skuli fordæmi Alþingis frekar fylgt. Þó verði mæting í sal ávallt persónulegt val hvers og eins. Fjarfundur er engan veginn tryggur fundur og tæknilegir örðugleikar oft miklir. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að fyrirkomulag borgarstjórnarfundar á meðan neyðarstig vegna COVID varir verði með sama fyrirkomulagi og til stóð að hafa fundinn 6. október áður en ákveðið var að gera þann fund að fjarfundi. Búið var að leggja mikla vinnu í það skipulag. Tillagan var felld af meirihluta forsætisnefndar. Í megindráttum var búið að ákveða að í fundarsal borgarstjórnar tækju sæti ellefu kjörnir fulltrúar, fimm fulltrúar meirihluta og fimm fulltrúar minnihluta, auk forseta borgarstjórnar. Sjá nánar um fyrirkomulagið í skeyti skrifstofustjóra borgarstjórnar til forsætisnefndar dags. 5. október 2020. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sjálfsagt sé að borgarstjórn fylgi fundafyrirkomulagi Alþingis í þessum efnum en umfram allt að sóttvarnarreglum verði fylgt eins og þær eru lagðar upp hverju sinni, til hins ítrasta.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 8. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um skrifstofustjóra hjá Reykjavíkurborg:

Báknið hefur þanist út síðustu ár. Skrifstofustjórar eru 35. Það er sannarlega tímabært að fara að taka á þessu, minnka báknið til muna. Hér má sameina hlutverk og verkefni og með því hagræða stórlega.

 

 

Forsætisnefnd 15. október 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu sóttvarnarlæknis á stöðu COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins vill þakka embættum sóttvarnalæknis, ríkislögreglustjóra og landlæknis, þríeykinu, fyrir yfirgripsmikla umfjöllun um COVID-19 faraldurinn. Góð upplýsingagjöf skiptir sköpum þegar kemur að trausti almennings á viðbrögðum stjórnvalda. Embættin hafa öll staðið í ströngu á árinu og útlit er fyrir að svo verði áfram.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu á drögum að tillögum að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð og blandaða byggð:

Eitt stærsta málið er að leggja á hraðbraut þvert yfir Vatnsendahvarf sem eyðileggja mun eitt helsta náttúrulífs- og útsýnissvæði Reykjavíkur. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 en þar segir „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og/eða útivistargildi“. Búið er að kynna fyrir skipulagsyfirvöldum að önnur leið er mun betri og það er sú leið að tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/ Vatnsendahvarf-götuna. Þar með yrði Vatnsendahvarfinu og hæðinni þyrmt. Í þessa útfærslu treysta skipulagsyfirvöld sér ekki því Vegagerðin og bæjarstjórn Kópavogs segja „nei“. Að öðru, áhyggjur eru af fækkun bílastæða í miðborginni. Borgarlína er enn talsvert inni í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt verði þétt í kringum hana. Með því að fækka bílastæðum svo mikið er sýnilega verið að þrýsta fólki í borgarlínu. Bílastæðin verða farin löngu áður en borgarlína kemur og ekki er séð annað en það muni valda vandræðum. Skipulagsyfirvöld virðast ekki hafa mikinn áhuga á að flýta orkuskiptum. Ekki er minnst á vistvænan, innlendan orkugjafa, metan, sem gnótt er af, svo mikið að honum þarf að brenna. Síðast en ekki síst þarf að fjölga atvinnutækifærum til muna í öllum hverfum.

 

Bókun Flokks fólksins við  tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46:

Málefni Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hafa verið til umræðu lengi ekki síst vegna athugasemda og gagnrýni íbúa svæðisins. Kvartað hefur verið undan málsmeðferð en skipulagsyfirvöld taka ekki undir það. Andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eigendur fengu aukafrest til að skila athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld telji að vel hafi verið tekið í ábendingar og athugasemdir íbúa hverfisins og hvort þeim hafi verið mætt eins og framast er unnt. En vonandi hefur náðst aðeins meiri sátt í málinu með þeim breytingum sem gerðar verða frá upphaflegu skipulagi/tillögum.

 

Bókun Flokks fólksins við nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík er send borgarráði til staðfestingar:

Lögð er fram tillaga meirihlutans að nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. Sumt í henni er nokkuð undarlegt. Sem dæmi, hvaða máli skiptir hvernig bíll snýr þegar honum hefur verið lagt og er því kyrrstæður? Og einnig, af hverju að sekta fyrir að leggja eigin bíl fyrir framan eigin innkeyrslu? Ekki ætti að sekta fyrir slíkt enda hvorki um óhagræði eða tjón að ræða. Ef þetta er bannað verður bíleigandinn að leggja í almennt götustæði (á lóð borgarinnar). Skiljanlegt er að tryggja aðkeyrslu að sérafnotastæðum. En það er samt sem engin ástæða til að vera með of stífar reglur í svona málum, heilbrigð skynsemi dugar. Fulltrúi Flokks fólksins telur jafnframt að vel mætti skoða að gefa ríflegri afslætti ef sektin er greidd t.d. innan sólarhrings. Með því er verið að hvetja þá sem fá sekt til að ganga strax í málið og greiða hana. Sjálfsagt er að gefa þeim sem brjóta umferðarlög kost á að lækka upphæð sektarinnar með þessum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum það sem af er ársins 2020 vegna COVID-19:

Lagt er til af meirihlutanum að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum út árið, vegna COVID-19, að uppfylltum skilyrðum ef leigutakar sýni fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019. Fulltrúi Flokks fólksins telur að ef horft er til þess fjölda sem nýtti sér sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní“. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma til móts við fleiri. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekkert. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Þetta eru of harðar kröfur.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 12. október 2020, um erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug, ásamt fylgiskjölum:

Erindi borgarstjóra til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug hefur verið svarað af ráðuneytinu. Ekkert er nýtt. Í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir að það sé skýr sameiginlegur vilji aðila að stefna að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan völl í Hvassahrauni, reynist það vænlegur kostur, þ.m.t. það æfinga-, kennslu- og einkaflug sem þar fer fram í dag. Því er ljóst að ráðuneytið stefnir að flutningi æfinga-, kennslu- og einkaflugs af Reykjavíkurflugvelli í Hvassahraun, sbr. framan skráð. Þetta er alltaf sama spurningin, reynist Hvassahraun vænlegur kostur? Eða ekki? Ef Hvassahraun reynist ekki vænlegur kostur segist ráðuneytið munu kanna aðra möguleika. Þurfti einhver bréfaskipti til að fá þessa niðurstöðu? Málið er að það er ekki vitað hvort Hvassahraun reynist vænlegur kostur og það verður ekki vitað í bráð. Komi til að það verði að leita að öðrum stað bætast við önnur 20 ár sem flugvöllurinn verður í Vatnsmýrinni. Margir munu fagna því en aðrir ekki. Þetta er staðan og hún verður svona um langan tíma.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um tímabundin stuðning félagsmálaráðuneytisins vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Fyrirspurnin laut að heimilislausu fólki almennt séð, barnafjölskyldum, öryrkjum og eldri borgurum sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Lengi vel var þessu fólki ekki vel sinnt og öll þekkjum við dæmi þess að fólk var nánast á götunni og sérstaklega þeir sem glíma við veikindi af ýmsum toga, karlar jafnt sem konur. Það sem er leitt í öllu þessu er hvað margir hafa þurft að búa við óvissu um eina af helstu grunnþörfum sínum, það að eiga heimili, og allt er þetta á vakt þessa meirihluta sem nú ríkir. Margt stendur vissulega til bóta og það ekki síst vegna aukinnar aðkomu ríkisins að þessum málum. Það sem er kannski mest sláandi er að ef kórónuveiran hafi ekki bankað upp á þá væru þessi mál sennilega enn í miklum ólestri hjá þessum meirihluta. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi málaflokkur og fólk yfir höfuð ekki hafa verið í miklum forgangi hjá Samfylkingu og VG í borgarstjórn sem þó gefa sig út fyrir að vera flokkar sem leggja áherslu á jöfnuð. En fortíðinni verður ekki breytt, en vonandi bætir meirihlutinn sig í þjónustu við fólkið það sem af er þessu kjörtímabili.

Bókun Flokks fólksins við svari skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 13. október 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um ráðgjafafyrirtækið Strategíu:

Ráðgjafafyrirtækið Strategía hefur fengið rúmar 28 milljónir fyrir vinnu við endurskoðun og innleiðingu á skipuriti Reykjavíkurborgar og til að skoða mögulegar breytingar á almennri eigendastefnu Reykjavíkurborgar m.a. í ljósi þess að eigendur hafa litla sem enga aðkomu að ákvörðunum og virkni eigenda því engin. Byggðasamlög eru ólýðræðisleg. Haldnir voru þrír fundir og tók fulltrúi Flokks fólksins þátt í þeim öllum. Meðal hugmynda sem fulltrúi Flokks fólksins lagði til var að fjölga fulltrúum í stjórn í hlutfalli við kjósendur og veita fulltrúa frá minnihlutum í sveitarstjórnum aðkomu að stjórn sem hefðu atkvæðarétt. Í lok ferilsins voru lagðar á borðið sviðsmyndir sem Reykjavíkurborg hefur ekki tekið afstöðu til. Sameining sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins virðist ekki á döfinni í náinni framtíð og því er brýnt að skoða aðrar leiðir til að draga úr lýðræðishalla byggðasamlaga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig Reykjavíkurborg gagnaðist því þessi vinna. Hún er alla vega ekki að skila sér í neinar alvöru breytingar. Til hvers að kaupa dýra sérfræðivinnu ef ekki á síðan að nýta hana til alvöru breytinga?

 

Bókun Flokks fólksins við 5. lið fundargerðar fjölmenningarráðs:

Tillaga Flokks fólksins um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni er lögð fram í fjölmenningarráði. Það sem snýr ekki síst að borginni er sá veruleiki, vitneskja og meðvitund að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er í Reykjavík og illa aðgengilegur þeim sem eru fátækir því frekar aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu og þá oft hættulegu húsnæði. Fram kemur í fundargerð fjölmenningarráðs að umsögn hafi verið lögð fram en hún fylgir ekki með og hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki getað fundið hana. Ætla má að um sé að ræða svipaða umsögn og lögð var fram í mannréttindaráði. Í niðurlagi þeirrar umsagnar segir: „Í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi er lagt til að komið verði á skráningarskyldu um leigusamninga og leiguverð til að hafa eftirlit með markaðinum og í ljósi þess er ekki fyrirséð að átak á vettvangi Reykjavíkurborgar myndi duga til að bæta aðstæður þar sem vandinn er að miklu leyti vöntun á lagalegum heimildum.“ Fulltrúa Flokks fólksins finnst leitt að sjá að eftirlitsheimildir eru ekki nægar, en jákvætt að sjá að vinna er í gangi sem m.a. felur í sér endurskoðun á núverandi verkferlum og regluverki.

Bókun Flokks fólksins við 6. lið fundargerðar íbúaráðs Breiðholts:

Undir lið 6 í fundargerð íbúaráðs Breiðholts fer fram umræða um málefni hverfisins. Fulltrúi Flokks fólksins minnir á mál Arnarnesvegar. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli á því í íbúaráði Breiðholts en ekki tekist. Fulltrúi Flokks fólksins vill gera alvarlega athugasemd við ummæli formanns íbúaráðs Breiðholts á samfélagsmiðlum þar sem hún tjáir sig, sem formaður ráðsins, og segir að komin sé „lending í Arnarnesveginn“. Það er miður að formaður álykti með þessum hætti um háalvarlegt og viðkvæmt mál án þess að það hafi verið rætt í íbúaráðinu. Sú leið sem skipulagsyfirvöld kynntu á fundi 14. október er fyrir fjölda manns með öllu óásættanlegt, enda framkvæmd sem mun skemma afar dýrmætt grænt svæði. Hraðbraut sem koma skal verður þétt við fyrirhugaðan Vetrargarð og mun gjörbreyta umhverfinu. Umferð 15.000-20.000 bifreiða, sem að mestu verða frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Það er miður ef íbúaráð undir forystu formannsins sem er kosinn af meirihlutanum sé fátt annað en framlenging yfirvalda og álykti án umræðu og samtals við aðra í ráðinu. Óskað hefur verið eftir að ráðið ræði þetta mál, alla fleti þess, af fagmennsku enda hér um að ræða ásýnd og notagildi eins besta útsýnisstaðar borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við 8. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 7. október og 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 14. október:

 1. okt.
  Viðhorfið sem birtist í könnun Maskínu endurspeglar greinilega ekki viðhorf fólks sem er miður. Kynningin gefur þá mynd að allir séu í raun glaðir yfir ástandinu í bænum. Það vita það allir sem vilja hvernig komið er fyrir Laugavegi. Nú nýlega steig rekstraraðili Máls og menningar fram og sagði reksturinn erfiðan áður en COVID skall á. Sölutölurnar fylgdu lokunum gatna. Fulltrúi Flokks fólksins verður að vera hreinskilin í þessu sambandi og segja að í ljósi alls þessa eru niðurstöður ekki trúverðugar eða í það minnsta gefur kynningin ranga mynd.
 2. okt.
  Skipulagsyfirvöld hafa setið á kynningarglærum um lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið eins og ormur á gulli. Teikningar sýna takmarkað hvernig þetta mun líta út.  Ljóst er samt að vegurinn mun gjörbreyta umhverfinu og verða ofan í skíðabrekkunni. Umferð 15.000 – 20.000 bifreiða, að mestu frá austurhluta Kópavogs mun bætast inn á Breiðholtsbrautina um þessa leið. Ekki eru upplýsingar um hinar tvær leiðirnar sem kynntar voru í fyrstu. Vinir Vatnsendahvarfs hafa reynt að vekja athygli Íbúaráðs Breiðholts á málinu en ekki tekist. Engu að síður hefur formaður Íbúaráðsins fullyrt á samfélagsmiðlum að komin sé “lending  í  Arnarnesveginn”. Það er bagalegt þegar ráðið hefur ekki enn rætt málið.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 25. september 2020:

Fram kemur í fundargerð að málum Flokks fólksins sem vísað hefur verið til stjórnar Strætó bs voru sett undir önnur mál. Um er að ræða fyrirspurn varðandi gæðaeftirlit. Segir í fundargerð að stjórn hafi falið framkvæmdastjóra að svara fyrirspurninni. Nokkrum málum Flokks fólksins hefur verið vísað til stjórnar Strætó bs. í gegnum tíðina og sum hafa hreinlega dagað þar uppi. Þetta er afar hvimleitt, ekki síst þegar ekki hefur frést af málinu t.d. í meira en ár. Einnig er þetta slæmt því það er fólk sem bíður eftir viðbrögðum og auðvitað afgreiðslu þessara mála. Sem dæmi, árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að biðsalur Strætó bs. í Mjódd verði opinn eins lengi og vagnar ganga og að betur verði búið að biðsalnum þar sem margir nota hann daglega. Hvað varðar tillöguna um biðsalinn hafa allmargir haft samband og beðið um að reynt verði að ná þessum breytingum fram og hefur þetta fólk nú beðið eftir svörum í eitt ár því ekkert heyrist frá stjórn Strætó bs. Fulltrúi Flokks fólksins kallar hér með eftir hraðari vinnslu. Að leyfa málum að stranda á borði stjórnar mánuðum saman er ákveðin vanvirðing við þjónustuþega Strætó bs.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 5. október 2020:

Hin ágætasta tillaga var lögð fram í öldungaráði fyrir skemmstu af eldri borgara um að „öldungaráð Reykjavíkurborgar feli velferðarsviði að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar“. Sjá má nú í fundargerð öldungaráðsins að ráðið hefur gert á þessari tillögu breytingu og felst breytingin í því að búið er að taka út úr tillögunni „láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila“. Þetta vekur athygli enda fylgja þessu engar skýringar. Fulltrúi Flokks fólksins telur það mjög mikilvægt að þegar meirihlutinn í ráði eða nefnd samþykkir breytingartillögu þarf að fylgja með hver séu rökin fyrir breytingunni.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan.

 

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að gerð verði úttekt á starfi aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkurborgar, hvernig hún er raunverulega tengd í stjórnkerfinu, hvaða mál berast henni til afgreiðslu og hvaðan. Einnig hvernig mál eru afgreidd í nefndinni, hvert og hvaða áhrif þau hafi á áætlanir í borgarkerfinu. R20100130

Vísað til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks.

 

 

Borgarráð 15. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Arnarnesvegur, undirbúningur, kynning

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík hafa skipulagsvaldið og geta farið fram á aðra útfærslu með lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Flokkur fólksins og Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að tengja má veg frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf. Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi. Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs. Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Fulltrúi Flokks fólksins vill varðandi fyrirhugaða eyðileggingu Vatnsendahvarfs með hraðbraut höfða til betri vitundar og minna formann skipulagsráð á stefnu Pírata í umhverfismálum. Það er ekki langt síðan birtar voru yfirlýsingar Pírata sem hljóðuðu svona:„Við erum með bestu loftslagsstefnuna. Við höfum lagt fram öflugan Grænan sáttmála. Við höfum unnið mikla vinnu í átt að sjálfbærni í Reykjavíkurborg.“

Hvernig samræmist fyrirhuguð lagningu Arnarnesvegar gegnum Vatnsendahvarfið, sem leiða mun til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru, hugmyndafræði Pírata og formanns skipulags- og samgönguráðs? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum að ætla að leggja hraðbraut nánast ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð og spengja fyrir hraðbraut þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Vetrargarður í Breiðholti, kynning:

Hugmynd um Vetrargarð er í uppnámi vegna fyrirhugaðrar lagningar hraðbrautar þvert yfir Vatnsendahvarf. Byggt er á úreltu umhverfismati. Er það siðferðislega verjandi fyrir svona „græna“ borgarstjórn að fara ekki fram á nýtt umhverfismat, sérstaklega í ljósi þessara nýju áætlana með Vetrargarðinn? Það eru engin rök að segja að ekki sé „venja“ að fá nýtt umhverfismat þegar verk er hafið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skipulagsyfirvöld varpa allri ábyrgð ýmist á Vegagerðina, bæjarstjórn Kópavogs eða Samgöngusáttmála Allar forsendur hafa breyst. Þarna á að fórna dýrmætu grænu svæði, sem er varplendi ýmissa farfuglategunda fyrir úreltar áætlanir og allar áhyggjur íbúa hafa hingað til verið hunsaðar. Íbúar í Fellahverfinu hafa t.d. miklar áhyggjur af því að fá mislæg gatnamót ofan í garðana hjá sér og að þessar aðgerðir muni koma til með að lækka húsnæðisverð á svæðinu. Komi þessu vegur þar sem honum er ætlað mun það verða stórfellt umhverfisslys sem mun auka umferð og mengun í nálægð við íbúahverfi og eyðileggja dýrmætt grænt svæði.

Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að fá í hendur öll gögn um þetta mál, nýjustu uppdrætti svo sem varðandi tengingar við Breiðholtsbraut, nábýli við Vetrargarð, breidd geilarinnar sem sprengt er fyrir (40-50 m?), afvötnun upp af Jóruseli og göngu/reiðhjólabrú.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Kjalarnes, Nesvík, deiliskipulag:

Nú á að afgreiða tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi, sem felst í uppbyggingu á ferðaþjónustu á jörðinni. Fram hafa komið athugasemdir og kvartanir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður bókað um þetta mál þar sem lögð er áhersla á að vinna með íbúum. Það var ekki gert á fyrstu stigum. Segja má að komið hafi verið aftan að íbúunum. Þau rök sem skipulagsyfirvöld setja fram “að aðalskipulagið gerði ráð fyrir byggingum” halda ekki. Ekkert aðalskipulag er heilagt og stundum koma upp aðstæður sem krefjast breytinga.

Það sættir sig enginn við að fá aðeins tilkynningu um hvað skuli gert á svæði eða reit. Með samtali þar sem íbúar eru þátttakendur frá byrjun hefði mátt draga úr að óánægja skapist síðar. Enn og aftur hafa skipulagsyfirvöld gengið of langt í yfirgangi. Hvað þetta svæði varðar vill fulltrúi Flokks fólksins benda á að þarna er verið að nema nýtt land og spyrja á hvort það sé vilji íbúa og annarra hagsmunaaðila hvort það sé vilji til að fórna þessu svæði undir hótel. Svona svæði eru takmörkuð auðlind. Sjávarlóðir sem snúa móti suðvestri eru ekki óendanlegar. Á öllum slíkum svæðum hefur einhvern tíma verið byggð og iðulega má þar rekja mannvistarþróun.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Erindi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, reglur Bílastæðasjóðs:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með stjórn Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur en ábendingar hafa borist vegna stífra reglna Bílastæðasjóðs um úthlutun Íbúakorta. Kvartað er yfir því að ekki sé hægt að fá íbúakort nema eiga bifreið og þeir sem eru með bílaleigubíla á langtímaleigu eða um stundarsakir t.d. vegna sérstakra aðstæðna eða viðgerða á eigin bifreið fái neitun við slíkum erindum. Nú reynir á að sýna lipurð og leysa mál af þessu tagi. Bærinn er gjörbreyttur og gera þarf nauðsynlegar aðlaganir. Það er bráðnauðsynlegt að gera reglur Bílastæðasjóðs nútímalegri og sveigjanlegri og horfa á þær út frá sjónarhorni þjónustuþegans og þörfum hans fyrst og fremst.

Bókun Flokks fólksins við við frávísun fyrirspurnar Flokks fólksins, er varðar Arnarnesveg

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar fyrirhugaðan Arnarnesveg og hvernig sú framkvæmd samræmist grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda hefur verið vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitíska afstöðu ráðsmanna til málsins. Spurningin varðar skipulagsmál borgarinna og er mikið í húfi. Fyrirhuguð hraðbraut sem verður klesst ofan í Vetrargarðinn mun gjörbreyta þessu umhverfi enda örstutt á milli fyrirhugaðs Vetrargarðs og hraðbrautarinnar. Skipulagsyfirvöld hafa gefið sig út fyrir að vera náttúruunnendur og með grænar áherslur en ætla engu að síður að sprengja fyrir hraðbraut á grænu svæði með fjölbreyttri náttúru og fuglalífi. Það er sérkennilegt ef skipulagsyfirvöld treysta sér ekki til að standa fyrir svörum í svo umfangsmiklu máli sem hafa mun áhrif á fjöldann allan, bæði þá sem búa á svæðinu og aðra sem kjósa að njóta útivistar og útsýnis Vatnsendahvarfsins.

Vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, fulltrúa Viðreisnar og fulltrúa Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur mun ekki skerða uppbyggingu Vetrargarðsins í Breiðholti. Formlegar fyrirspurnir eru til af afla gagna fyrir kjörna fulltrúa en ekki til að krefja aðra kjörna fulltrúa um pólitíska afstöðu til einstakra mála. Fyrirspurninni er því vísað frá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu aðferðarfræðinnar LEAN:

Árið 2018 var ákveðið að innleiða LEAN.
Flokkur fólksins óskar að fá upplýsingar um hvar innleiðing LEAN aðferðarfræðinnar er stödd hjá sviðinu (USK), hvað hún hefur kostað nú þegar og hver verður endanlegur kostnaður hennar? Óskað er eftir sundurliðun á aðferðarfræðinni innan sviðsins eftir verkefnum.
Einnig er spurt:

Hefur LEAN verið innleitt formlega hjá borginni í heild?

Ástæða fyrirspurnanna.

Flokkur fólksins hefur áður spurt um LEAN og kom þá fram í svari að LEAN hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. LEAN var um tíma mikið tískudæmi en fljótlega kom í ljós að aðferðarfræðin hentar ekki öllum starfsstöðvum auk þess sem hún er mjög dýr. Svo virtist a.m.k. um tíma sem borgin ætlaði að gleypa LEAN hrátt og því var og er enn ástæða til að spyrjast nú fyrir um stöðu málsins.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort fjölga eigi metanstöðvum í Reykjavík

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort fjölga eigi metanstöðvum í Reykjavík. Í dag er hægt að fá metan afgreitt á fjórum stöðum á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Dælur eru alls 10.

Í áætlun er að byggja upp innviði til hleðslu rafbíla. Fjölga á stöðum um 20 á næsta ári. Stendur til að fjölga metanafgreiðslustöðum næsta ár og ef svo er hvað mörgum?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar

 

Tillaga um að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að breytingar verði gerðar á skipuriti Umhverfis- og skipulagssviðs þannig að embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa heyri undir Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar. Breytingin mun leiða til betra skipulags og hagræðingar. Eins og fyrirkomulagið er í dag eru þessar þrjár skrifstofur allar samhliða í skipuriti.

Ljóst er að Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar er mikilvægasta skrifstofan og undir hana ættu embætti skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa að heyra. Sumir embættistitlar eru lögbundnir en aðrir tilbúnir af borginni. Hægt er að hagræða og spara með því að fækka yfirmönnum og þar með einfalda kerfið, minnka flækjustig. Líklegt er að með þessari breytingu verði þjónusta við borgarbúa skilvirkari. Skrifstofa samgöngustjóra og borgarhönnunar hefur undir höndum samgönguskipulag, framfylgir stefnumörkun, borgarhönnun, samgöngum og breytingum á samgöngumannvirkjum með öllu tilheyrandi.

Frestað.

 

Skipulagsráð 14. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staða mála á velferðarsviði vegna COVID-19:

Nú er hart í ári vegna COVID. Mörg þúsund manns þarfnast aðstoðar og þörfin eykst með hverri viku. Staðan var þegar slæm fyrir COVID og má því segja að borgin hafi ekki verið nógu vel undirbúin fyrir áfall af þessu tagi. Forgangsröðun hefur verið skökk að mati Flokks fólksins, fólk ekki sett í forgang. Talið er að um 500 börn búi við sára fátækt.  Staðan mun versna eða þar til bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð hafa verið  of ströng sem rekið hefur stóran hóp til að leita á náðir hjálparsamtaka.  Velferðaryfirvöld hafa árum saman treyst of mikið á hjálparsamtök. Fleiri þurfa nú aðstoð en nokkurn tímann áður. Hópurinn er breiðari en áður. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna vegna efnahagslegra áhrifa COVID. Margir eru að ljúka uppsagnarfresti og mun því atvinnuleysi aukast enn frekar. Ef allt væri eðlilegt væri velferðarkerfi Reykjavíkur að sjá betur um grunnþarfirnar. Hjálparsamtök væru eftir sem áður að dreifa lagerum sem birgjar gefa. Sjálfsagt hefur verið að styrkja þau til að reka yfirbyggingu í þeim tilgangi að dreifa gjöfum frá birgjum til fólks. Síðasta ár fengu 1700 umsækjendur efnislega aðstoð frá einum hjálparsamtökum í Reykjavík. Annar eins fjöldi, ef ekki meiri, hefur fengið aðstoð frá öðrum hjálparsamtökum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu formanns velferðarráðs, dags. 7. október 2020, um úthlutun styrkja velferðarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Hjálparsamtök hafa sögulega séð verið kerfi sem dreifir mat og fatnaði til fólks sem birgjar vilja gefa. Hjálparsamtök þurfa mögulega aðstoð við að reka einhvers konar yfirbyggingu, húsnæði til að þau geti tekið við lagerum frá birgjum og dreift. Þetta er góð leið til að tryggja að það sem birgjar vilja gefa, mat, fatnað eða aðrar nauðsynjar komist til þeirra sem þarfnast.

Öllum öðrum málum var frestað vegna COVID-19 ástandsins

 

Velferðarráð 7. október 2020

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, íbúðarbyggð og blönduð byggð:

Hér er verið að kynna stórt mál. Nokkrir punktar standa upp úr svona í fyrstu atrennu. Bílastæðum á að fækka og eru nokkrar áhyggjur af því. Bílum mun fjölga án efa en vonandi aðeins raf- og metanbílum. Aðgengi á vissa staði borgarinnar er erfitt og má nefna miðborgina. Þrátt fyrir þéttingu byggðar er borgin talsvert dreifð. Fólk þarf að geta komist um innan borgarinnar. Borgarlína er enn talsvert inn í framtíðinni og óvíst með almenna notkun hennar jafnvel þótt byggt sé þétt í kringum hana. Hvað varðar mannfjöldaspá hefur Hagstofan tekið inn nýja spá til ársins 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands en þær forsendur eru úreltar. Atvinnutækifærum á að fjölga. Það þurfa að vera atvinnutækifærum í öllum hverfum.
Fram kemur að varðveita eigi græn svæði. Til stendur engu að síður til að eyðileggja eina fallegustu náttúruperlu Reykjavíkur, Vatnsendahvarfið með lagningu Arnarnesvegar sem skera mun hæðina. Þetta stríðir gegn einu af leiðarljósum sem kynnt eru „að ekki verði gengið á svæði sem hafa hátt náttúru- og eða útivistargildi“. Hægt er að fara aðrar leiðir og hafa þær verið lagðar fram. Vel má tengja Arnarnesveginn inn á Tónahvarf og gera hringtorg við Breiðholtsbrautina/Vatnsendahvarf.

 

Bókun Flokks fólksins Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi, deiliskipulag:

Málefni Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga hefur verið til umræðu lengi ekki síst vegna athugasemda og gagnrýni íbúa svæðisins. Kvartað hefur verið undan málsmeðferð en taka skipulagsyfirvöld ekki undir það.

Andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Eigendur fengu aukafrest til að skila athugasemdum. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld telji að vel hafi verið tekið í ábendingar og athugasemdir íbúa hverfisins og hvort þeim hafi verið mætt eins og framast er unnt? Vonandi hefur náðst meiri sátt í málinu með þeim breytingum sem gerðar verða frá upphaflegu skipulagi/tillögum.

 

Bókun Flokks fólksins Göngugötur – viðhorf Reykvíkinga 2020, kynning:

Viðhorfið sem birtist í könnuninni endurspeglar greinilega ekki viðhorf fólks sem er miður því maður vill gjarnan geta stuðst við kannanir að einhverju leyti. Kynningin gefur þá mynd að allir séu í raun húrrandi glaðir yfir ástandinu í bænum. Ef fulltrúi Flokks fólksins væri spurður hvað honum þætti almennt um göngugötur væri svarið að þær væru frábærar þar sem þær ættu við og þjónuðu sínum tilgangi. Ef horft er til göngugatna í miðbænum sem leiddu til lokunar umferðar hafa margir stigið fram og lýst óánægju sinni. Ekki síst hagaðilar sem hættu að fá til sín kúnna í sama mæli og áður. Fólk sem kom á svæðið er hætt að koma. Það vita það allir sem vilja hvernig komið er fyrir Laugavegi. Nú nýlega steig eigandi Máls og menningar fram og sagði að reksturinn hefði verið orðinn erfiður fyrir COVID. Sölutölurnar ljúga ekki og fylgja sölutölurnar lokunum gatna. Fólk sem ekki býr í nágrenninu kemur eðlilega minna þegar engar verslanir eru lengur á staðnum og aðgengi erfitt. Fulltrúi Flokks fólksins verður bara að vera heiðarlegur í þessu sambandi og segja að þessi könnun, niðurstöður hennar eru í ljósi alls þessa ekki trúverðugar eða í það minnsta gefur kynningin ranga mynd.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Áheyrnarfulltrúar í skipulags- og samgönguráði gagnrýna skoðanakönnun fyrir að stemma ekki við þeirra eigin upplifun af veruleikanum. Það breytir ekki niðurstöðum könnunarinnar sem er unnin á faglegan hátt og með viðurkenndum aðferðum.

 

Bókun Flokks fólksins við Hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025, megináherslur vinnu, kynning

Kynnt er hjólreiðaáætlun Reykjavíkur 2021-2025. Fulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á að ef nota á hjól sem samgöngutæki þarf að leggja stíga eftir hæðarlínum eins og hægt er.

 

Bókun Flokks fólksins við Ný gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík, tillaga:

Lögð er fram tillaga að nýrri gjaldskrá vegna stöðvunarbrota í Reykjavík. Hækka á sektir umtalsvert. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að vel mætti skoða að gefa ríflegri afslætti ef sektin er greidd t.d. innan sólarhrings. Þá mætti lækka sektina um helming. Með því er verið að hvetja þá sem fá sekt að ganga strax í málið og greiða hana. Sjálfsagt er að gefa þeim sem brjóta umferðarlög kost á að lækka upphæð sektarinnar með þessum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um að gert verði átak til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í Úlfársárdal:

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Flokkur fólksins lagði til að átak yrði gert í Úlfarsárdal til að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Skrifstofa samgöngustjóra vill að tillögunni sé vísað frá og því er hlýtt. Minnt er á að málið var á dagskrá íbúaráðs Úlfarsárdals fyrir skemmstu en þar var bókað að nokkuð sé ábótavant við merkingar og einnig við umferðaskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal.
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að verið sé að vinna að merkingu og lýsingu gangbrauta í Úlfarsárdal. Miklar tafir hafa greinilega verið á verki sem búið var að lofa fyrir ákveðinn tíma og svar samgöngustjóra ber það með sér, en þakka ber að nú virðist eiga að taka við sér og ganga til verka.
Sagt er í svarinu að veghaldarinn ákveði hvar gangbrautir yfir vegi eigi að liggja en ekki íbúar og að gagnbrautir séu bara gangbrautir ef veghaldari segir svo, annars er það gönguþverun. Og ef það er gönguþverun þarf ekki að vera skilti?! Hér er gott tilefni til að hafa samráð við íbúa sem vilja kannski hafa eitthvað að segja hvar gangbraut eigi að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við Bókun Flokks fólksins við svari við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði og sleppistæði við leik- og grunnskóla

Í svörum við fyrirspurnum og framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um stæði og sleppistæði við leik- og grunnskóla liggur fyrir að verið er hægt og bítandi að fækka stæðum sem foreldrar nota þegar þau fara með börn sín í leik- og grunnskóla. Segir í svari að reglum sé fylgt. Auðvitað er reglum fylgt. Um er að ræða reglur sem skipulagsyfirvöld setja einhliða og án nokkurs samráðs við þá sem fylgja á reglunum. Til að gera fólki enn erfiðara fyrir er sett á gjaldskylda á nánast öll stæði sem skipulagsyfirvöld vita að fólk þarf nauðsynlega að nota.

Í svari segir að ekki sé hægt að útiloka að gjaldskylda verði nærri leikskólum og grunnskólum. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að þessi meirihluti skipulagsmála borgarinnar vilji setja eins háan verðmiða á nauðsynlegar þarfir fólks og þau mögulega komast upp með. Þetta hefur sést víðar og áður. Alls staðar þar sem er álag eða aukið álag er rukkað og rukkað meira, þá er gjaldskyldum bílastæðum fjölgað og gjaldið hækkað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um vistgötur:

Vistgötur eru stórfínar ef fólkið við götuna er sammála breytingunni. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur fyrirkomulagið þá er þetta alfarið ákvörðun örfárra sem starfa á skipulagssviði. Afar erfitt er að sjá að einhver öryggissjónarmið liggja að baki alla vega í sumum tilfella þar sem breytt er yfir í vistgötu. Það er mjög auðvelt að útskýra alla mögulega hluti út frá öryggissjónarmiði og nota skipulagsyfirvöld það óspart. Vel kann að vera að mikil sátt ríki um Norðurstíginn og þar hafi öryggissjónarmið legið sterklega til grundvallar. Samkvæmt svari þá er fyrirkomulagið þannig að ef breyta á götu í vistgötu er íbúum einungis send tilkynning um fyrirhugaðar framkvæmdir. Þeir er aldrei boðið upp á neitt samtal hvað þá samráð eða er yfir höfuð eitthvað hlustað á sjónarmið íbúanna? Ef marka má svarið þá er það bara tilkynningarformið sem gildir, að svona skuli þetta vera.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu fulltrúa Flokks fólksins, um notkun hraðavaraskilta:

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Flokkur fólksins lagði til að skoðað verði hvar hentar betur blikkljós og radarskilti sem mæla hraða og vara við ef hraði er mikill í stað hraðahindrunar. Tillögunni er vísað frá. Í svari er vísað í skýrslu frá 2006 sem er úrelt enda þessi tækni þá ekki komin að neinu marki. Í svari kemur fram að minnst sé tekið mark á blikkljósum. Reyndar eru ekki mörg blikkljós og radarskilti í Reykjavík og ekki vitað um að könnun hafi verið gerð á hversu mikið er tekið mark á þeim. Notkun þeirra hefur aukist mjög í löndunum í kringum okkur frá 2006 með góðum árangri, ásamt því að nágranasveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þessa tækni í notkun. Ef valið er frekar hraðahindranir en leiðbeinandi hraðahindranaskilti þá þarf að koma á betra skipulagi. Setja þarf upp staðla fyrir hindranir. Uppsetning hraðahindrana er tilviljanakennd. Þegar ekið er eftir 50 km götu þá getur hún verið krappari heldur en á 30 km götu. Hafa ber í huga það tjón sem rangar og ómarkvissar hraðahindranir í götum hafa á ökutæki, þar sem hönnun bíla hefur breyst mjög á undanförnum árum. Þá er tjón á vögnum Strætó, snjóruðningstækjum og öðrum þjónustubílum borgarinnar verulegt vegna þessa eins og fram hefur komið.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um væntanlega legu Sundabrautar:

Flokkur fólksins spurði um væntanlega legu Sundabrautar. Í umsögn kemur fram að það er ekkert að frétta. Engar ákvarðanir liggja fyrir enn um hvar Sundabraut mun liggja. Áréttað er að það skiptir miklu máli fyrir aðrar framkvæmdir að legan verði þekkt sem fyrst.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um greiðslur sem skipulags- og samgöngusvið hefur greitt sjálfsstætt starfandi arkitekta-/verkfræðistofum svo og einyrkjum s.l. 2 ár?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hversu margir arkitektar starfa hjá skipulags- og samgöngusviði?

Ef einhverjir, er ekki hægt að nota sérfræðiþekkingu þeirra, sem arkitekta til að sinna einhverjum af þeim verkefnum sem skipulags- og samgöngusvið kaupir af sjálfstætt starfandi verkfræðistofum svo sem ráðgjöf, teikningar, utanumhald, hönnunarsamkeppni og hönnun bygginga?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir um Arnarnesveg:

Fyrirhugað er að leggja Arnarnesveg og skal hann liggja þvert yfir Vatnsendahvarfið og kljúfa Vatnsendahæðina í tvennt. Þetta mun leiða til stórfelldrar eyðileggingar á náttúru og fallegs útsýnisstaðar þar sem byggja á Vetrargarð? Hvernig samræmist það grænum sjónarmiðum skipulagsyfirvalda að ætla að sprengja fyrir hraðbraut ofan í fyrirhugaðan Vetrargarð þvert yfir grænt svæði með fjölbreyttri náttúru?

Frestað.

 

Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi í tengslum við flutning skólahalds.

Fulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvernig gengur með lagfæringar á samgöngum í Norðanverðum Grafarvogi í tengslum við flutning skólahalds. Foreldrum var lofað þegar Korpuskóla var lokað að öryggi barna þeirra yrði að fullu tryggt. Það loforð hefur ekki verið efnt. Enn er vandamál með aðstæður við biðstöðina við Brúnastaði. Þarna er stærsti hópurinn á hverjum degi að bíða í einum hnapp. Börn á aldrinum 6-10 ára. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þetta enn og aftur og það áður en að slys verður. Eftir því sem upplýsingar berast er ekki verið að hægja á umferð á þessum stað, fyrir utan hvað skýlið stendur nærri götunni. Umferðin og hraðinn þarna er stórhættulegur og vekur furðu að ekki sé búið að ganga í betrumbætur.

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 7. október 2020

Tillaga Flokks fólksins um að innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn fari þess á leit við innri endurskoðun að hún geri úttekt á sérkennslu leik- og grunnskóla í Reykjavík.

Stór hópur reykvískra barna eru í sérkennslu, sum í fáeina tíma á viku en önnur eru í sérkennslu alla grunnskólagönguna. Óljóst er hvort nokkuð sem tengist sérkennslu í reykvískum skólum sé samræmt; greiningar á námsgetu, sérkennslan sjálf eða mat á árangri.

Fjölmörg rök hníga að gerð heildstæðrar úttektar á sérkennslu í skólum Reykjavíkur. Fullnægjandi upplýsingar um sérkennslumál skortir. Íslensk börn standa verr að vígi í lestri og lesskilningi samanborið við nágrannalönd. Samkv. PISA 2018 lesa um 34% drengja 14/15 ára sér ekki til gagns og 19% stúlkna. Samkv. Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% barna í Reykjavík sér til gagns eftir 2. bekk. Mikilvægt er að fá úr því skorið hvort sérkennslan skili tilætluðum árangri. Í úttektinni felst að skoða hvort:

 1. Nemendur í sérkennslu séu að fá einstaklingsmiðaða sérkennslu byggða á faglegu mati sérfræðinga skólaþjónustu og í samræmi við skilgreindar þarfir þeirra
 2. Greiningar sem liggja til grundvallar sérkennslu séu unnar af fagaðilum skólaþjónustu og séu samræmdar milli skóla
 3. Til staðar sé samræmt eftirlit með sérkennslunni og eftirfylgni
 4. Að fjármagninu sé varið í þeim tilgangi sem því er ætlað.

Greinargerð

Um 5 ma.kr. er veitt árlega í sérkennslu en engar samræmdar, heildstæðar árangursmælingar eru gerðar. Því er ekki þekkt hvort sérkennslan er að nýtast nemendum eins og lagt er upp með hana. Ástæðan fyrir beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um að innri endurskoðun taki út þennan málaflokk er að óljóst er hvort og þá hvernig sérkennsla nýtist börnunum.
Frekari rök fyrir tillögunni:

 1. a)           Engin  heildstæð stefna er til í  sérkennslumálum
 2. b)           Árangur sérkennslu er ekki mældur á einstaklingsgrunni eða milli skóla.
 3. c)           Fjármagn sérkennslu til skóla er ekki byggt á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.).
 4. d)           Sérkennslan er ekki  skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur sé á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja (hversu margir nemendur eru í hvorum hópi, hvað er á bak við hvern hóp t.d. greiningar, skimanir o.s.frv.)

Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með fjölmargar fyrirspurnir um þennan málaflokk sem skóla- og frístundaráð/svið hafa reynt að svara. Eftirfarandi hefur m.a. komið fram í svörum skóla- og frístundasviðs við fyrirspurnum Flokks fólksins um greiningar og sérkennsluþörf:

 1. Að engin rannsókn eða heildarúttekt hafi verið gerð á framkvæmd sérkennslu í skólum borgarinnar og því sé ekki hægt að vita hvort sérkennslan sé að nýtast börnunum
 2. Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga er um 5 ma.kr. á ári
 3. Um 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.
 4. Ekki er sótt um sérkennslu fyrir börn nema sterkar líkur séu á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar, oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum
 5. Skimun, samræmd próf og námsmat er lagt til grundvallar við skipulag almennrar sérkennslu í skólum.
 6. Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.
 7. Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.Af þessu að dæma liggur fyrir að margt er í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum koma fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu.

Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hversu nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru. Gera má þó ráð fyrir að upplýsingar séu til um fjölda barna sem eru í sérkennsluveri og/eða inni í bekkjum. Stór munur getur verið á því hvort nemandi er að koma í sérkennslu:

 1. Einu sinni í viku í eina klukkustund
 2. Einu sinni í viku í t.d. fjórar klukkustundir
 3. Eru í sérkennslu 10 tíma á viku kannski allt skólaárið og jafnvel með aðstoð inn í bekk að auki
 4. Nemendur sem eru í sérkennslu 2-4 kennslustundir í viku í afmarkaðan tíma, kannski í tvo mánuði eða skemur.

Sé ekki gerður greinarmunur á þessu má ætla að hlutfall grunnskólanema sem eru skráðir í „sérkennslu“ sé hærra en raun ber vitni.

Hópur þeirra barna sem þarfnast aðstoðar með nám eða sérkennslu er fjölbreyttur. Sumum nemendum nægir að vinna í smærri hóp með leiðsögn þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu. Aðrir nemendur hafa verið greindir með sértæka námserfiðleika eða annan námslegan vanda sem kallar á sérefni og einstaklingsmiðaða námsáætlun.

Ekki liggur fyrir nein kortlagning á aðstæðum tengdum sérkennslu í reykvískum leik- og grunnskólum.
Margir nemendur sem eru í sérkennslu eru þess utan með stuðningsfulltrúa inn í bekk. Það getur verið erfitt fyrir sérkennara að vera með nemendahóp á breiðu getustigi. Við slíkar aðstæður má einnig velta vöngum yfir hvort börnin séu að fá námslegum þörfum sínum fullnægt á sínum forsendum. Stundum er staðan þannig í skólum að erfitt er að skipta upp hópum vegna plássleysis.

Allt ofangreint hlýtur að koma til skoðunar þegar rætt er um árangur sérkennslu. Til að mæla árangur þurfa að liggja fyrir samræmdar grunnmælingar á námslegri getu og hver sé hinn námslegi vandi sem rökstyður þörf á sérkennslu. Til að kortleggja hvar námserfiðleikarnir liggja nægir ekki að gera eingöngu skimanir. Leggja þarf fyrir viðurkennd sálfræðileg próf sem mæla vitsmunaþroska barns og viðurkennda kvarða og prófanir sem greina lesvanda/les- og talnablindu. Einnig þarf að leggja fyrir kvarða og prófanir sem meta þætti eins og ADHD og aðrar raskanir sem hafa áhrif á einbeitingu og nám. Upplýsingar af þessu tagi þurfa að liggja fyrir áður en sérkennsla hefst enda byggir sérkennslan (efni og aðferðir) á upplýsingum um námsstöðu barnsins og þörfum þess til að geta stundað nám á eigin forsendum. Sérkennsla sem ekki byggir á sterkum upplýsingagrunni um námsstöðu barns skilar varla miklum árangri.

Að ákveðnum tíma liðnum í sérkennslu þarf að endurtaka mælingar til að skoða hvort sérkennslan sé að skila þeim árangri sem lagt var upp með. Endurmat á sérkennsluþörf og á innihaldi sérkennslunnar er síðan byggt á niðurstöðum sem reglubundnar mælingar sýna.

Til að hægt sé að gera samanburð milli skóla þarf sérkennsla og allt sem henni tengist að vera samræmt milli skóla. Hér er annars vegar verið að ræða um einstaklingsmælingar en ekki síður er mikilvægt að bera saman skóla í þessu sambandi. Til að það sé hægt þarf sérkennsluferlið allt að vera samræmt.

Eins og staðan er nú þá er hver skóli með sínar aðferðir hvað varðar sérkennslu. Á meðan hver skóli hefur sinn háttinn á má gera því skóna að börnin sitja ekki við sama borð heldur fer þjónustan og jafnvel aðferðarfræðin eftir því í hvaða hverfi þau búa og í hvaða skóla þau ganga.

Fjöltyngd börn/börn með erlendan bakgrunn 

Í upplýsingum frá skóla- og frístundasviði kom farm að í kringum 17% barna í grunnskólum í Reykjavík eru fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Stór hluti þessara barna fær stuðning í íslensku sem öðru máli. Það tengist ekki sérkennslu.

Stuðningur til barna með sérþarfir er bæði sérstakur stuðningur á grunni greininga vegna fötlunar og alvarlegra raskana og svo er almennur stuðningur. Um það bil 5% barna fá sértæka stuðninginn en ekki eru fyrirliggjandi upplýsingar um hversu hátt hlutfall þeirra er af erlendum uppruna.

 

Hvað leikskóla Reykjavíkur varðar eru um 26% barna fjöltyngd/með erlendan bakgrunn, þá er miðað við að annað eða báðir foreldrar séu af erlendum uppruna. Fjöldinn allur af börnum fær kennslu í íslensku í leikskólum borgarinnar og er það ekki flokkað sem sérkennsla.

Við fyrirspurn Flokks fólksins um hlutfall tvítyngdra barna/barna af erlendum uppruna í sérkennslu var sagt að þær upplýsingar lægju ekki fyrir.

 

Borgarstjórn 6. október 2020
Forsætisnefnd 2. október 2020

Fram fer kynning á sviðsmyndagreiningu vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2020 og fimm ára áætlunar ásamt fjárhagslegri greiningu á áhrifum COVID-19. Einnig fer fram kynning á greiningu Kviku á viðbrögðum sveitarfélaga vegna COVID-19.

Nú er hart í ári vegna COVID. Mörg þúsund manns þarfnast aðstoðar og eykst þörfin með hverri viku. Staðan var slæm áður og má því segja að borgin var illa undirbúin fyrir COVID. Sumarið 2019 voru mörg þúsund manns matarlausir því hjálparsamtök þurftu að loka. Á góðæristíma voru um 500 börn sem bjuggu við sárafátækt. Staðan mun versna um ókominn tíma eða þar til bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru of ströng. Öll viðmið verður að endurskoða í ljósi nýs veruleika. Velferðaryfirvöld treysta of mikið á hjálparsamtök. Um fátækt fólk hefur lengi ríkt þögn og þöggun. Nú hefur hópurinn breyst, hann er breiðari en áður sem sækir aðstoð. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna og útlendingar sem hafa verið búsettir hér og eru nú atvinnulausir. Margir eru að ljúka uppsagnarfresti og mun því atvinnuleysi aukast enn frekar. Í raun má segja að hjálparsamtök séu að bjarga lífi fólks en ekki velferðaryfirvöld borgarinnar nema að hluta til. Síðasta ár fengu 1700 umsækjendur efnislega aðstoð frá einum af hjálparsamtökunum í Reykjavík. Ætla borgarstjóri og velferðaryfirvöld að halda áfram að treysta á hjálparsamtök með að aðstoða fólk í neyð? Er ekki kominn tími til að setja fátækt fólk í forgang?

Borgarráð 1. október 2020 Sviðsmyndagreining

Bókun Flokks fólksins við samþykki á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir 2. áfanga Laugavegar sem göngugötu:

Eins mikið og göngugötur eru skemmtilegar, sér í lagi þær sem aðgengi að er gott og allir geta komist á þær án tillits til hreyfifærni, þá eru þessar gerðar í óþökk meirihluta fólks. Ekkert af rökum, ábendingum eða tillögum m.a. Flokks fólksins og hagsmunaðila sem hjálpað gætu miðbænum að halda lífi hafa náð til skipulagsyfirvalda. Sérstakur kafli er um samráð í meðfylgjandi gögnum þar sem segir að víðtækt samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Segir: „Víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað. Nú þegar hefur verið rætt við samtök kaupmanna (Miðborgin okkar og Miðbæjarfélagið) og Öryrkjabandalið (ÖBÍ) og mun sú vinna halda áfram í gegnum allt hönnunarferlið“. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst kannast ekki allir þeir sem eru nefndir við að það hafi verið talað nokkuð við þá. Þetta er því merkilegt ekki síst út frá sálfræðilegu sjónarmiði. Skipulagsyfirvöld fullyrða að rætt hafi verið við fólk sem kannast ekki við að rætt hafi verið við það! Hvernig má þetta vera?

 

Bókun Flokks fólksins við auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi: Brynjureitur, Frakkastígsreitur og Laugavegsreit vegna færslu á lóðarmörkum:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur mikla samúð með rekstraraðilum á þessum reitum. Margir hafa hrakist á brott, nokkrir undirbúa nú brottför og enn eru einhverjir að bíða með von um að „kraftaverk“ gerist. Framlagning þessara mála, deiliskipulag (færsla á lóðarmörkum) við reitina Laugavegur, Brynjureitur og Frakkastígur er sérstök vegna skýrslu fyrirtækisins Landslags sem birt er í gögnum. Í skýrslunni eru ósannindi. Þar stendur „Mikið líf hefur skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði.“ Þetta er hvorki satt né rétt. Öll vitum við að lítið líf er á Laugavegi og verslanir sem þar eru róa lífróður. Farið var í breytinguna án samtals við fjölmarga rekstraraðila sem vöruðu við lokun á alla umferð. Þetta voru mistök. Skipulagsyfirvöld áttu aldrei að ganga fram með svo miklu offorsi. Ótti hagsmunaaðila reyndist á rökum reistur og hefur verslun hrunið. Á þetta áttu skipulagsyfirvöld að hlusta. Með COVID-19 fóru ferðamenn sem gerði illt vera. Hrun verslunar var byrjað löngu áður og á því ber skipulagsráð ábyrgð. Þetta er ekki pólitík heldur staðreynd.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun 2020 er varðar tilraunaverkefni um frístundir:

í Viðauka er lagt  til að  fjárheimildir velferðarsviðs hækki um 20.300 þ.kr. vegna tilraunaverkefnis um frístundir í Breiðholti. Aðgerðirnar felst í því að hækka frístundakortið úr 50.000 í 80.000 kr. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér ætti ekki að  vera um neitt tilraunaverkefni að ræða heldur ætti þetta verkefni að vera varanlegt og ná til allra hverfa. Að öðrum kosti er verið að mismuna börnum. Enda þótt mesta fátæktin sé vissulega í hverfi 111 eru líka fátæk börn í öðrum hverfum og það eru líka börn af erlendum uppruna í öðrum hverfum.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist lengi fyrir að frístundakortið verði notað samkvæmt sínu upphaflega tilgangi en ekki til að greiða með frístundaheimili eða setja upp í skuld foreldra sem þarfnast fjárhagsaðstoðar fyrir börn sín. Upphæð hefur verið allt of lág  ekki síst þar sem krafist er að námskeið vari í 10 vikur til að hægt sé að nota frístundakortið. Enn hefur stýrihópur sá sem er að endurskoða reglur um frístundakortið engu skilað.

Bókun Flokks fólksins við svar borgarstjóra, dags. 29. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afgreiðslu á kvörtun vegna ummæla fyrrum borgarritara, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020.

Fram kemur í svari borgarstjóra að kvörtunin hafi verið afgreidd í bréfi dags. 2. september. Það er rétt. Kvörtunin sneri að neikvæðri og meiðandi skrifum fyrrverandi borgarritara á samfélagsmiðlinum Workplace en hann sagði m.a. að minnihlutafulltrúar væru tuddar og að þeir minnihlutafulltrúar sem myndu bregðast við þessum ummælum hans væru þeir seku. Þessi ummæli sagði hann að væru sögð í umboði borgarstjóra. Engu að síður vill fulltrúi Flokks fólksins koma því á framfæri að sú hegðun sem fyrrverandi borgarritari sýndi minnihlutafulltrúum var með öllum óásættanleg og skaðaði bæði þá og fjölskyldur þeirra. Undir óhróður hans á Workplace tóku um 80 starfsmenn, þar af margir í æðstu stöðum borgarinnar. Fyrir minnihlutafulltrúa, nýlega kjörna var þetta sérkennileg og erfið reynsla. Ef vísað er til afgreiðslubréfs borgarstjóra kemur fram að honum finnist að það hafi verið rétt og eðlilegt að borgarritari tjáði sig með þessum hætti enda hafi allir tjáningarfrelsi. Þá er spurt hvort minnihlutafulltrúar hafi ekki líka tjáningarfrelsi? Eða gilda um þá aðrar reglur? Fulltrúi Flokks fólksins telur sig ekki vera neinn tudda en taldi sig engu að síður knúinn til að tjá sig um ummæli borgarritara fyrir þær sakir að þær voru óviðeigandi og meiðandi. Tjáningin per se gerir engan kerfisbundið að neinu, hvað þá sekan eða saklausan.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdal 24. september 2020:

Svo virðist samkvæmt fundargerð að nokkuð sé ábótavant með merkingar bílastæða, einnig með umferðarskipulag svo sem hringtorg í Grafarholti og Úlfarsárdal. Þetta eru atriði sem þarf að laga og gera það í fullu samráði við íbúa.

Fram kemur að óánægja er meðal íbúa með skort á merkingum og mistúlkun á legu bílastæða í Úlfarsárdal. Má þar helst nefna Freyjubrunn og Sjafnarbrunn. Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals leggur til að bílastæði í borgarlandi sem liggja samhliða akbrautum verði merkt með málningu. Hvað stendur í vegi hjá skipulagsyfirvöldum að ganga í að lagfæra og fullklára þessi verk? Með þau óleyst skapast hætta á slysum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðr íbúaráðs Grafarvogs 21. september 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með íbúaráðinu í lið 2 þar sem fjallað er um skólamál í norðanverðum Grafarvogi. Þau mál voru ekki leyst nægjanlega vel. Sameining skólanna var of hröð og ekki séð nægjanlega til þess að allt væri verklega í lagi þegar sameinað var. Of lítið var um alvöru samráð. Til dæmis var foreldrum lofað þegar Korpuskóla var lokað að öryggi barna þeirra yrði að fullu tryggt. Það loforð hefur ekki verið efnt að fullu.  Ennþá er t.d. vandamál með aðstæður við biðstöðina við Brúnastaði. Þarna er stærsti hópurinn á hverjum degi að bíða í einum hnapp. Börn á aldrinum 6-10 ára. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á þetta enn og aftur og það áður en að slys verður. Eftir því sem upplýsingar berast er ekki verið að hægja á umferð á þessum stað, fyrir utan hvað skýlið stendur nærri götunni. Umferðin og hraðinn þarna er stórhættulegur og vekur furðu að ekki sé búið að ganga í betrumbætur.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 28. ágúst 2020:

Undir 5. lið í fundargerð SORPU er talað um að rætt hafi verið um markaðsþróun vegna metans og moltu. Ekki er sagt frá stöðu sölu metans og ráðstöfun moltu. Enn og aftur er aðeins sagt frá hvað er rætt á fundi SORPU en ekki út á hvað umræðan gekk, niðurstöður? Erfitt er að sjá hver staðan er. Hvernig standa sem dæmi markaðsmál metans? Einnig má ætla að tafir við GAJU hafi kostað eitthvað, en hversu mikið ? Til að fundargerð gagnist fyrir aðra en þá sem sækja fundi þarf þetta að vera bitastæðara, innihaldsmeira. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður rætt þetta vandamál með fundargerðir SORPU. Minnt er á umræðuna m.a. á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga og niðurstöður Strategíu eftir langa og ítarlega vinnu með kjörnum fulltrúum og aðkomu þeirra að bs.-fyrirtækjum. Niðurstaðan var m.a. að bætta þyrfti aðgengi kjörinna fulltrúa að rekstri og áherslum byggðasamlaga. Eigendur og minnihlutafulltrúar eiga rétt á að fá upplýsingar um hvað fer fram í byggðasamlögum. Snautleg fundargerð eins og SORPU er ekki liður í átt að ríkari aðkomu neins, hvað þá meira gegnsæis.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, liðr 2 og 3 er varða gjaldskrárhækkanir og viðmiðunarstundaskrá:

Liður 2
Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir í lið 3 í fundargerð stjórnar Samband íslenskra sveitarfélaga þar sem fram kemur árétting afstöðu stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga að  ótímabært og óskynsamlegt sé að hækka  gjöld á íbúa að nauðsynjalausu við núverandi efnahagsástand.  Því miður hefur Reykjavíkurborg hundsað þessi tilmæli. Nýlega var ákveðið að hækka fjölmargar gjaldskrár umtalsvert

Liður 3
Meirihluti skóla- og frístundaráðs hefur gagnrýnt drög menntamálaráðuneytis að breytingu á viðmiðunarstundaskrá í aðalnámskrá grunnskóla og þá sérstaklega  niðurskurð á vali nemenda til að hægt sé að leggja meiri áherslu á m.a. íslensku og lestur. Hér er verið að reyna að bregðast við hríðversnandi  árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur.  Lesskimun 2019 sýnir enn verri árangur. Tæp 61% nemenda les sér til gagns en rúm 39% geta það ekki.   Þetta er verri útkoma en árið 2018 en þá gátu 65% stúlkna lesið sér til gagns og 64% drengja. Munar um 4 prósentustigum milli ára. Hlutfallið  2019 er það næstlægsta í sögu skimunar.  Hringlandaháttur hefur verið með lestraraðferðir. Önnur, hljóðaaðferðin, er gagnreynd  en árangur hinnar, Byrjendalæsis, er dregin í efa af ýmsum sérfræðingum vegna skorts á ritrýndum rannsóknum. Það er því ljóst að skóla- og frístundaráð/svið hefur ekki tekist að ná markmiðum sínum í lestrarkennslu

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda greininga sem voru gerðar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar árið 2019:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fjölda greininga sem voru gerðar á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar árið 2019. Óskað er sundurliðunar eftir þjónustumiðstöðvum. Óskað er upplýsinga um fjölda tilvísana, viðtalsbeiðna og bráðamála árið 2019 skipt eftir þjónustumiðstöðvum. R20100005

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda:

Enda þótt nemendur kunni að vera ágætir í lesfimi (hraða og lestrarlagi) eru þeir ekki alltaf eða endilega með góðan lesskilning. Reykjavíkurborg nýtir sér aðferðir stefnumiðaðs árangursmats til að meta lesfimi og hafa það að markmiði að nemendur geti lesið sér til gagns við lok 2. bekkjar. Án þess að skilja eða meðtaka það sem lesið er, gagnast lestur lítið jafnvel þótt hægt sé að lesa hratt og fumlaust. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvaða sérstöku aðferðir/mælingar hafa verið notaðar til að mæla lesskilning nemenda. R20100006

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingar um hvað margir skólar nota gagnreynda lestrarkennsluaðferð:

Í ljósi versnandi árangurs barna í lestri sbr. lesskimun 2017, 2018 og 2019 óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margir skólar nota gagnreynda lestrarkennsluaðferð. Miklar áhyggjur eru af hríðversnandi árangri barna í lestri í grunnskólum Reykjavíkur. Deilt hefur verið um tvær aðferðir við lestrarkennslu síðustu árin. Önnur (hljóðaaðferðin) er rótgróin aðferð, byggð á sannreyndum gögnum. Hin (byrjendalæsi) á rætur að rekja til ársins 2004 og hefur árangur hennar verið dregin í efa af ýmsum sérfræðingum Menntamálastofnunar. Engar ritrýndar, óháðar rannsóknir eru á bak við aðferðina. Skólastjórnendum er í sjálfsvald sett hvaða aðferð er notuð við kennsluna. Árið 2017 notaði helmingur skóla byrjendalæsi. Fulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita hver staðan er nú. Reykjavíkurborg á ekki til gögn sem sýna samanburð á milli lesþróunar barna í skólum eftir námsaðferð. Nú liggur fyrir að ekki hefur tekist að kenna 33-39% barna að lesa sér til gagns eftir 2. bekk á tímabilinu 2002 til 2019, (67% gátu lesið sér til gagns 2002 og 61% árið 2019). R20100007

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvað margir læsisfræðingar starfa í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Læsisfræðingar eru þeir sem hafa lokið meistaragráðu í læsisfræðum við innlendan eða erlenda háskóla og eru því sérfræðingar á sviði náms og kennslu í læsi. Hlutverk læsisfræðinga er fjölbreytt. Læsisfræðingar eru án efa góð viðbót við flóru starfsfólks skóla. Þeir þekkja vel til á sviði rannsókna og vita hvaða kennsluaðferðir eru raunprófaðar og hafa sýnt árangur. Störf þeirra geta snúið að beinni kennslu nemenda í læsi, greiningum á lestrarvanda, eftirfylgni barna, ráðgjöf og stuðningi við kennara og foreldra auk aðkomu að stefnumótun varðandi læsiskennslu.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fá að sjá þessa reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarverk við OR:

Í lið 7 í fundargerð endurskoðunarnefndar segir að rætt hafi verið um reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarþjónustu við Orkuveitu Reykjavíkur. Endurskoðunarnefnd lagði fram bókun um að samþykkja skuli að fela formanni að ganga frá þessum málum í samræmi við umræður á fundinum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá að sjá þessa reikninga Grant Thornton fyrir endurskoðunarverk við OR og spyr hvar þá er hægt að finna. R20010018

Borgarráð 1. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Óviðeigandi framganga oddivita Pírata í borgarstjórnarsal:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar hvernig oddviti Pírata sem er einnig fyrrverandi forseti borgarstjórnar og ætti því að gerþekkja fundarsköp og sem er auk þess formaður mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs hefur misnotað aðstöðu sína sem borgarfulltrúi og svert borgarstjórn með því að draga inn persónuleg málefni annarra borgarfulltrúa.
Þetta hefur gerst nokkrum sinnum og hefur forseti borgarstjórnar gefið viðkomandi borgarfulltrúa frítt spil til að lesa skrifaða persónulega hatursræðu um borgarfulltrúa minnihlutans.  Gengið hefur verið út fyrir velsæmismörk þar sem dylgjað er um persónuleg málefni sem ekki tengjast engan vegin borgarmálunum.  Siðareglur sem viðkomandi borgarfulltrúi stóð sjálf  að því að semja hafa verið þverbrotnar.  Þar sem um ítrekað brot er að ræða væri eðlilegast að viðkomandi borgarfulltrúi leitaði sér aðstoðar til að ná betri yfirvegun í  vinnu sinni í borgarstjórn. Einnig er komið tilefni til að borgarfulltrúinn íhugi að stíga til hliðar sem formaður mannréttindaráðs enda samræmist hegðun hennar ekki því ábyrgðarhlutverki sem formennska ráðsins krefst.

Forsætisnefnd aukafundur 25. september 2020

Bókun Flokks fólksins tillögu borgarstjóra, dags. 21. september 2020, um stofnun starfshóps og uppfærslu á stefnu um málefni miðborgar:

Það er sérstakt að lesa það sem fram kemur í gögnum þegar rætt er um framtíðarsýn borgarinnar í ljósi alls þess sem gengið hefur á þar s.l. 2 ár. Talað er um að miðborgin sé allra og þar eigi að ríkja jafnræði og að heyrast eigi rödd allra. Eiginlega kaldhæðnislegt er að lesa að hagaðilar eigi að hafa áhrif  á mótun miðborgarinnar, taka virkan þátt og bera ábyrgð á að rækta og móta miðborgina.

Samskipti skipulagsyfirvalda við hagaðila í miðborginni hafa verið til skammar. Fullyrt hefur verið að gott samráð og samtal hafi t.d. átt sér stað við aðila sem ekkert kannast við að við þá hafi verið rætt.  Þetta er hörmungarsaga og mestur ágreiningurinn hefur snúið að götulokunum. Það hefði mátt forðast öll þessi leiðindi ef skipulagsyfirvöld hefðu látið af yfirgangi eins og skipulagsyfirvöld ætti Reykjavík ein. Tillaga Flokks fólks um „Akureyraleiðina“ sem lögð var fram í maí hefði átt að samþykkja enda hefur sú leið gengið vel. Hún hljóðaði þannig að gera ætti tilraun um að rekstraraðilar stýri sjálfir hvort götu sé lokað fyrir umferð eður ei. Þá myndu þeir ráða sjálfir, koma sér saman um hvort götu sé lokað fyrir umferð þennan daginn eða hinn. Þetta hefði getað orðið farsæl lausn.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Strætó bs. vegna strætisvagna:

Í svarinu frá Strætó kemur fram að aðeins eru tveir metanvagnar hjá Strætó. Þetta lýsir vel algjöru áhugaleysi á að nýta metan, sem eins og fulltrúi Flokks fólksins hefur margoft vakið athygli á í borgarstjórn, er alveg verðlaust á söfnunarstað þar sem því er brennt á báli. Og reyndar í stórum stíl. Eins og líka hefur komið fram þá mun SORPA stórauka söfnun á metani á næstunni. Reykjavík á meirihluta bæði SORPU og Strætó eins og allir vita. Er í rauninni enginn möguleiki á að þessi tvö byggðasamlög geti unnið saman að því að nýta það metan sem er safnað til að minnka sóun á orku, bæta kolefnisfótspor og neikvæð umhverfisáhrif? Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað nefnt að þetta má gera m.a. með því að nýta metan á strætisvagna. Það þýðir ekki endalaust að koma með einhverjar vangaveltur um einhverja ókosti við að nýta metan, útreiknaða eða huglæga. Við eigum að huga að umhverfismálum. Er það ekki svo?

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs undir liðnum Fyrirspurnir um Arnarnesveg:

Formaður skipulags- og samgönguráðs hefur tvívegis neitað að taka inn á fund skipulagsráðs eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er pólitísk afstaða skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði? Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi? Rökin eru að kjörnir fulltrúar geti ekki krafið aðra kjörna fulltrúa um þeirra afstöðu í formlegum fyrirspurnum fagráða. Í öðru svari kemur fram að „ekki sé hægt að beina fyrirspurnum til fagráða.“ En hér er verið að spyrja skipulagsyfirvöld pólitískra spurninga en ekki persónur. Það er skylda stjórnvalds að svara fyrirspurnum sem kjörinn fulltrúi sendir inn með formlegum hætti. Fyrirspurnin kemur frá breiðum hópi sem óttast mjög að hinn græni meirihluti skipulags- og samgöngusviðs ætli að láta nágrannasveitarfélagið Kópavog þrýsta sér út í að gera stórmistök, valda skipulagsslysi sem eyðilegging Vatnsendahvarfs er með því að setja hraðbraut þvert yfir hæðina.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hver sé staðan í grunnskólum um aðgerðir sem lýst er í skýrslunum:
Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi og
Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi.

Í apríl 2018 kom út skýrsla með niðurstöðum starfshóps sem bar heitið Aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum á Íslandi. Ári síðar kom út önnur skýrsla: Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi. Báðar fela í sér metnaðarfullar aðgerðir sem ýmist eru á ábyrgð ríkis, sveitarfélags eða samstarf beggja en sveitarfélögin fara m.a. með stjórnun leik- og grunnskóla, félagsþjónustu og sérfræðiþjónustu skóla.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver staða ofangreindra aðgerða er, þeirra sem snúa að grunnskólum í Reykjavík.

Hver er almennt staðan á innleiðingu tillagna sem settar eru fram í skýrslunum?
1. Hver er staðan á innleiðingu þrepaskipts stuðnings í skólastarfi (e. multi-tiered systems of support) sem hluta af menntastefnu um skóla án aðgreiningar?
2. Hver er staða nýrrar Þekkingar- og þróunarmiðstöð áfalla-, ofbeldis- og sjálfsvígsforvarna?
3. Hver er staðan á tillögunni um að gera úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar? 4. Hver er staða á tillögunni um að þróa og innleiða markvissar aðgerðir til að draga úr brotthvarfi úr námi í ljósi þess að brýnt er að skólakerfið sé byggt upp með þeim hætti að markvisst sé unnið frá upphafi skólagöngu að því að hindra brotthvarf úr námi? R20090196

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurnir um samræmdar kennsluaðferðir í lestri, þjálfun og eftirfylgni:
Í hversu miklum mæli eru skólar að nota gagnreyndar kennsluaðferðir í lestri s.s. bókstafa-hljóða-aðferðina sem sérfræðingar eru sammála um að sé sú leið sem hafi gefið bestan árangur?

Eru skólar að huga sérstaklega að þeim börnum þar sem hefðbundnar aðferðir henta ekki, heldur t.d. frekar sjónrænar kennsluaðferðir?
Eru gerðar einstaklingsmiðaðar námsáætlanir um leið og kemur í ljós að barn hefur sérþarfir af einhverjum toga? Eru fyrir hendi samræmd árangursmarkmið í skólunum um að börn séu orðin læs eftir 2. bekk og að áherslan sé á þjálfun lesskilnings? Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla sem snúa að þjálfun sem eykur lesskilning, viðeigandi áskorunum og eftirfylgni?

Rannsóknir hafa sýnt að börn innflytjenda eru að koma verr út en í nágrannalöndum. Í

Í hversu miklum mæli eru samræmdar aðgerðir milli skóla í Reykjavík til að þjálfa tvítyngd börn í lestri, málkunnáttu og lesskilningi?

Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskir nemendur standa sig marktækt verr í lestri og eru slakari í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað lagt fram mál í borgarstjórn þar sem hvatt er til að nota ávallt gagnreynda lestraraðferð, að lögð sé áhersla á að lesskilningur sé þjálfaður frá byrjun og mikilvægi eftirfylgni enda er lestur og lesskilningur lykillinn að námi, þekkingarleit og þekkingarþróun.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarráð 24. september 2020

Fyrirspurn Flokk fólksins varðandi heildstæða stefnu í aðgerðarmálum fatlaðra. 24.9.2020. Spurt er um samráð við hagsmunafélög

Í borgarráði 10. september 2020 var lögð fram til samþykktar tillaga meirihlutans að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi m.a. hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum. Það er vissulega jákvætt að verið sé að mynda heilstæða stefnu í aðgengismálum, en fulltrúi Flokks fólksins spyr: Hvernig á samráðið að fara fram við hagsmunafélög fatlaðra?

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins telur að það verði að liggja fyrir skýrt og skorinort hvernig samráði skuli háttað. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður  bókað um að  aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík er í lausu lofti innan kerfisins. Það er fátt afgreitt úr nefndinni, eftirfylgni með þeim málum er nánast engin og ákvarðanir sem varða fatlað fólk eru teknar annars staðar án vitneskju og aðkomu nefndarinnar. Sá hópur sem nýlega var settur á laggirnar verður að vinna náið með aðgengis- og samráðsnefndinni og hafa einnig raunverulegt samráð við ÖBÍ og önnur hagsmunafélög. Það sem hagsmunasamtök hafa sett fram, áherslur sínar og óskir verða að liggja til grundvallar öllum ákvörðunum sem stýrihópurinn tekur. Það eru sjálfsögð mannréttindi fatlaðra að fá að vera samofinn hluti þess hóps sem tekur ákvarðanir um hagsmunamál fatlaðs fólks. Aldrei ætti að  móta stefnu um áherslur og þarfir hagsmunahópa nema hafa fulltrúa þeirra með frá upphafi vinnunnar. Minnt er á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Vísað til umsagnar stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum

Mannréttindaráð 24. september 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Aukin gjaldskylda á bílastæðum á lóð Landspítalans í Fossvogi:

Skipulagsyfirvöld leggja til, að beiðni Landspítala, að fjölga gjaldskyldum bílastæðum vegna aukins álags á spítalann. Það eru sérkennileg rök að tengja aukið álag við mikilvægi þess að fjölga gjaldskyldum bílastæðum. Er það gert til að draga úr álagi, fæla fólk frá því að koma þegar það þarf af nauðsyn að leita aðstoðar á sjúkrastofnun? Fólk leitar ekki á spítala af gamni sínu og álagið er vegna þess að margir þurfa þjónustu af brýnni nauðsyn. Aðgengi og aðkoma að Landspítala er erfið starfsfólki og sjúklingum bæði við Hringbraut og Fossvog. Í þessu sambandi er vert að minnast á tillögu Flokks fólksins frá 5.3 2019 er varðar bílastæði í kringum Landspítala fyrir þá sem heimsækja spítalann. Það eru ófá dæmin þar sem fólk lendir í stökustu vandræðum með að finna stæði þar í kring. Ekki er ástandið betra við Fossvog. Verst er þegar fólk er kallað til í neyðartilvikum og getur hvergi fundið bílnum sínum stæði. Lagt var til í þessari tillögu Flokks fólksins að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar. Hugmyndin var að borgin myndi leita eftir samstarfi við Landspítalann um innleiðingu bifreiðastæðaklukku í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Sérmerkt bílastæði fyrir sendiráð Kanada á Íslandi:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort það sé ekki barn síns tíma að sendiherra þjóðríkis fái sérmerkt bílastæði í borgarlandi? Reyndar er hér verið að úthluta stæði vegna flutnings. Nýlega var lögð til breyting á reglum um úthlutun slíkra bílastæða af hálfu samgöngustjóra Reykjavíkur. Sú breyting var lögð til frá gildandi reglum, að felld verði á brott heimild sendiráða til að óska eftir fleiri en tveimur sérmerktum bílastæðum í borgarlandi. Auk þess mætti ekki úthluta bílastæðum innan miðborgarinnar. Ekki er betur séð en hér sé verið að úthluta stæði innan miðborgar.

https://fundur.reykjavik.is/sites/default/files/agenda-items/uthlutun_sermerktra_bilastaeda_fyrir_sendirad.pdf.
Spyrja má hvort ekki sé orðið tímabært að endurskoða samninga í þessu sambandi?

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag:

Ekkert af rökum, ábendingum eða tillögum sem hjálpað getur miðbænum að halda lífi hefur náð til skipulagsyfirvalda. Þegar nýr meirihluti tekur við má ætla að flestum þeim aðgerðum sem ekki eru óafturkræfar verði snúið við. En enn eru tvö ár í það. Eins mikið og göngugötur eru skemmtilegar, sér í lagi þær sem aðgengi að er gott og allir geti komist á þær án tillits til hreyfifærni þá eru þessar gerðar í óþökk meirihluta fólks. Sérstakur kafli er um Samráð í meðfylgjandi göngum þar sem segir að víðtækt samráð hafi verið haft við hagsmunaaðila. Sagt er: “Víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað. Nú þegar hefur verið rætt við samtök kaupmanna (miðborgin okkar og Miðbæjarfélagið) og Öryrkjabandalið (ÖBÍ) og mun sú vinna halda áfram í gegnum allt hönnunarferlið”. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst kannast ekki allir þeir sem eru nefndir við að það hafi verið talað nokkuð við þá. Þetta eru því merkilegt ekki síst út frá sálfræðilegu sjónarmiði. Skipulagsyfirvöld fullyrða að rætt hafi verið við fólk sem kannast ekki við að rætt hafi verið við það!

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Reitur 1.172.1 Frakkastígsreitur, breyting á deiliskipulagi; Reitur 1.172.0 Brynjureitur, breyting á deiliskipulagi; Reitur 1.172.2, breyting á deiliskipulagi:

Tillaga umhverfis- og skipulagssviðs er að færa lóðarmörk  á þremur reitum við Laugaveg frá miðri götu að lóðarmörkum við Laugaveg. Meðfylgjandi er greinargerð frá Landslagi sem í eru ósannindi. Þar segir m.a. að “Laugavegurinn er helsta verslunargata Reykjavíkur frá fornu fari og hefur vegna sögu og starfsemi mikið aðdráttarafl fyrir gesti og gangandi bæði innlenda og erlenda.” Þetta er hárrétt. Síðan stendur “ Mikið líf hefur skapast á Laugaveginum síðustu misseri þar sem takmarkanir á bílaumferð hafa gert gangandi og hjólandi umferð hærra undir höfði.” Þetta er hins vegar ekki rétt. Nú er lítið líf á Laugavegi og verslanir sem þar eru róa lífróður. Farið var í breytinguna án samtals við fjölmarga rekstraraðila sem vöruðu við lokun á alla umferð. Ótti þeirra reyndist á rökum reistur og hefur verslun hrunið. Með COVID fóru ferðamenn. Þetta er ekki pólitík heldur staðreynd. Hugur fulltrúa Flokks fólksins er hjá þeim sem hrakist hafa í burtu, hjá þeim sem undirbúa brottför og hjá þeim sem vilja reyna áfram í von um „kraftaverk“. Eina von sumra er að með nýjum meirihluta verði breytingar, að hlustað verði meira á fólkið. Í greinargerð Landslags segir réttilega að helstu neikvæðu

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málskots  P ARK teiknistofu dags. 4. september 2020 vegna neikvæðrar afgreiðslu skipulagsfulltrúa frá 5. júní 2020 um að setja bílastæði á lóð nr. 38 við Tjarnargötu:

Fulltrúi Flokks fólksins sér ekki að fyrir liggi gild rök fyrir að synja þessari heimild um að staðsetja bílastæði á lóð nr. 38 við Tjarnargötu. Sótt var um að bæta við innkeyrslu og bílastæði á lóðinni sunnan við húsið þar sem koma mætti fyrir hleðslustöð fyrir rafmagnsbíl innst á svæðinu. Engin innkeyrsla er á lóðinni í dag. Þó nokkur dæmi eru um innkeyrslur á nágrannalóðum og nokkur húsana við Tjarnargötu eru einnig með bílskúr á lóðinni svo ekki skortir fordæmi. Rök umsækjanda í málinu er góð og gild og mun þessi framkvæmd minnka bílastæðavandann í borginni.
Ekkert bílastæði fylgir húsinu eins og mörgum húsum við götuna. Engin bílastæði eru á götunni framan við húsið og því ekki verið að fjarlægja bílastæði við þessa framkvæmd. Stæðin hinu megin við götuna eru fyrir almenning. Rök skipulagsyfirvalda í þessu máli eru veik að mati fulltrúa Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi nýtt hverfisskipulag Breiðholts:

Fulltrúi Flokks fólksins bað um upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið í tengslum við kynningu nýs hverfisskipulags Breiðholts. Einnig var óskað upplýsinga um fjölda ábendinga sem hafa borist og að þær verði flokkaðar eftir innihaldi og aldursdreifingu gesta. Í svari koma fram skráningar en ekki náðist að skrá alveg alla sem komu í viðveru. Hlaupa þessar tölur á einhverjum hundruðum en ef allt er talið nær fjöldi kannski að vera um þúsund manns. Í Breiðholti búa yfir 20. þúsund manns. Segja má að þessi viðvera hafi því skilað kynningu/ upplýsingum til lítils brots af íbúum. Hér er um að ræða gríðarlegar breytingar sem gera á í Breiðholti, sumar sannarlega tímabærar en aðrar afar umdeildar og róttækar. Þá ber helst að nefna að fólk sem notar einkabíl mun eiga erfitt um vik að búa í Breiðholti þar sem fjölga á íbúðum um 3000 en ekki bílastæðum í neinu samræmi við það heldur byggja íbúðir á fyrirliggjandi bílastæðum. Það er mat Flokks fólksins að fara þarf hægt hér svo sömu mistökin sem urðu á Laugavegi verði ekki endurtekin. Halda þarf íbúafundi. En það er ekki hægt um þessar mundir. Spurt var um aldursdreifingu þeirra sem mættu til kynningar en ekki er til skráning um það.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi nýtt hverfisskipulag Breiðholts:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá það sundurliðað hvaða hugmyndir sem birtar eru í vinnutillögum nýs hverfisskipulags Breiðholts komu frá íbúum sjálfum og hvaða tillögur komu frá borgar- og skipulagsyfirvöldum eða öðrum? Var það t.d. ósk íbúa Breiðholts að svo mikil þétting byggðar yrði? Í svari segir að vinnutillögur byggi á samráði sem fór fram á árunum 2015-2017. Ítarlega er gerð grein fyrir þessu samráði í skýrslunni Borgarhluti 6, Breiðholt. Það sætir furðu hvað allt þetta „samráð“, boð um samráð hafi farið fram hjá mörgum í Breiðholti. Ótal margir hafa stigið fram og segjast ekkert kannast við að hafa fengið upplýsingar um fundi eða beðnir að bregðast við hugmyndum hvað þá senda inn hugmyndir. Það búa yfir 20 þúsund mans í Breiðholti. Hér er ekki um ræða lítið hverfi. Fólk man sem dæmi ekki eftir að hafa verið sendur neinn póstur um allt þetta samráð. Rýnihópar? Hvað margir af þeim 20 þúsund sem búa í Breiðholti höfðu aðgang að þeim? Segir í svari að mæting hafi verið ágæt eða frá 8 til 11 í hverjum hópi eða um 50 manns. Hverjir voru þessir fulltrúar borgarinnar og ráðgjafar sem setja áttu sig í spor íbúa. Ef hugmynd er óvinsæl hjá mörgum er sagt að hún hafi komið frá íbúa?

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi uppbyggingu í Skerjafirði:

Ástæða fyrir spurningu fulltrúa Flokks fólksins var að í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Í svari segir að „við vinnslu deiliskipulagstillögunnar nýju var ákveðið að minnka miðsvæði á þróunarreit nr. 5 á kostnað íbúðarbyggðar og þar með minnka umfang atvinnuhúsnæðis.“ Auk þess má reikna með að byggingarmagn atvinnuhúsnæðis minnki all nokkuð frá gildandi skipulagi en á skilgreindum miðsvæðum meðfram umferðarleiðum er miðað við að íbúðir verði að jafnaði á efri hæðum eins og segir í svari. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort það sé pólitísk ákvörðun að minnka atvinnustarfssemi í Skerjafirði og almennt í hverfum borgarinnar nema þeim sem eru miðsvæðis. Fulltrúi Flokks fólksins hefur haldið að það sé vilji meirihlutans að fólk þurfi sem minnst að hreyfa sig út úr hverfi enda samgönguæðar sprungnar og ekki hægt að stóla á borgarlínu eða Fossvogsbrú næstu árin. Stærstu áhyggjurnar eru hvernig fólk á að komast í og úr hverfi. Skerjafjörður má ekki lokast af, verða einhver afkimi þar sem aðgengi verður erfitt. Slíkt mun rýra gildi fasteigna sem þarna verða.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra vegna Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi:

Mistök hafa leitt til þess að þessi lóð fer nú aftur í auglýsingu. Ferlið hefst að nýju og fær íbúaráðið tækifæri til að fjalla um málið en aðilar ráðsins hafa lýst yfir áhyggjum. Enn og aftur snúast áhyggjur íbúa mest um skort á bílastæðum en á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða. Og enn og aftur er kvartað yfir samráðsleysi og að óskir íbúa séu hundsaðar. Meðal athugasemda frá íbúum var að grunnt væri niður á klöpp á svæðinu og mikið þarf að sprengja með tilheyrandi hættu á skaða. Í byggingaráætlunum er fyrirséð að húsnæði mun ekki uppfylla hljóðvistarkröfur. Þröngt er um húsnæði á svæðinu og lítið pláss fyrir gangstéttir. Því verður þröngt um byggingar þarna. Nú er tækifæri til að ljá íbúum eyru og vonar fulltrúi Flokks fólksins til að betur verði hlustað á íbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið búi til íslenskar leiðbeiningar um hraðahindranir:

Tillögunni hefur verið hafnað sem er sérstakt. Rökin eru aðeins þau að við gerð hraðahindrana hafa norrænar leiðbeiningar og staðlar um hraðahindranir reynst vel við íslenskar aðstæður.
Fulltrúi Flokks fólksins er að leggja til að gerðar verði íslenskar leiðbeiningar en ekki sé verið að taka „allt“ upp eftir Norðmönnum. Það virðist gleymast stundum að Reykjavík er ekki Osló. Sjálfsagt er að stunda nám í erlendum borgum, sjá hvernig þær haga sínum málum og koma heim til starfa með vissa þekkingu og grunn. Enn það er ekki hægt að flytja allar aðferðir/reglur og leiðbeiningar frá Noregi eða Danmörku og smella því inn í Reykvískar aðstæður. Hraðahindranir eru í of mörgum útfærslum hér og merkingar ábótavant. Það væri til bóta að merkingar um hraðahindrum sýni það sem framundan er, einstefna.. hvernig bunga o.s.frv. Mikilvægt er að halda utan um frávik, öðruvísi er erfitt að læra af reynslu. Allt sem er óreiðukennt skilar oftast litlum eða slökum árangri og skapar fólki erfiðleika.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun fyrirspurna Flokks fólksins um  fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegs:

Fyrirspurnum hefur verið vísað frá. Í bókun segir meirihlutinn að ekki sé hægt að beina fyrirspurnum til fagráða. Hvað er átt við? Lagðar eru fram fjöldi fyrirspurna í hverri viku til allra fagráða borgarinnar. Það er skylda stjórnvalds að svara fyrirspurnum sem kjörinn fulltrúi sendir inn með formlegum hætti. Fyrirspurnir þessar koma frá breiðum hópi sem óttast mjög að hinn græni meirihluti skipulags- og samgöngusviðs ætlar að láta nágrannasveitarfélagið Kópavog þrýsta sér út í að gera stórmistök, skipulagsslys sem eyðilegging Vatnsendahvarfs er þegar sprengja á hraðbraut þvert yfir hæðina. Borgarbúar eiga rétt á svörum.

Spurt er: Hver er pólitísk afstaða Skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði?
Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi? Fyrirspurnirnar verða aftur senda inn meðformlegum hætti og þess er krafist að svör berist

 

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut:

Tillaga Flokks fólksins um að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut hefur verið felld. Rökin eru að ekki standi til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á samgöngusáttmála.
Aðrar vænlegri leiðir eru í boði sem ekki munu eyðileggja verðmæt græn svæði. Fulltrúi Flokks fólksins, Breiðhyltingar og Vinir Vatnsendahvarfs eiga rétt á því að fá rök fyrir af hverju skipulagsyfirvöld sem leggja alla áherslu á vernd grænna svæða, bíllausan lífsstíl og minnka losun ætlar að leggja veg sem sker í sundur hæð sem skartar fjölbreyttum gróðri og fallegu útsýni yfir borgina og þar sem auk þess á að koma Vetrargarður með tilheyrandi afþreyingu fyrir breiðan aldurshóp. Hugmynd um huggulegan Vetrargarð er lítils virði ef hraðbraut á að liggja nálægt honum. Aðrar færar leiðir blasa við. Þess í stað kjósa borgaryfirvöld sem kenna sig við grænar áherslu að notast við 18 ára gamalt umhverfismat þegar kemur að þessari framkvæmd, og hvaða fordæmi eru fyrir því í borginni að svona gamalt umhverfismat hafi verið látið standa? Vinir Vatnsendahvarfs hafa bent á að fjöldi fólks nýtir sér hæðina daglega til göngu og hjólaferða, sem og til að njóta útsýnisins.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Ekki stendur til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á umræddum sáttmála.

 

Bókun Flokks fólksins við fellingu tillögu Flokks fólksins um að  endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi:

Tillaga um að endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi og að gert verði nýtt umhverfismat hefur verið felld. Einu rökin eru þau að Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Vatnsendahvarf er gróðursælt útivistarsvæði. Af hverju vill meirihluti sem leggur áherslu á græn svæði og minnkun losunar ekki gera nýtt umhverfismat en þess í stað að sprengja fyrir hraðbraut sem byggt er á 18 ára gömlu umhverfismati? Margt hefur breyst á 18 árum. Forsendur eru allt aðrar. Þessi fyrirhugaða vegagerð er ekki nauðsynleg. Bent hefur verið á aðra kosti svo sem að tengja veginn inn á gatnakerfið við Tónahvarf. Hugmynd um huggulegan Vetrargarð er lítils virði ef hraðbraut á að liggja nálægt honum, útivistarsvæði er eyðilagt, komið verður í veg fyrir mögulega útivistaruppbyggingu með t.d. útsýnissvæði ofarlega á hæðinni. Þess vegna er áríðandi að gera nýtt umhverfismat. Þessi aðgerð er ekki einkamál borgar- og skipulagsyfirvalda. Ótrúlegt er að formaður sem talar sífellt um verndun grænna svæða, og hvetur til bíllauss lífsstíls vill taka ábyrgð á slíkri náttúrueyðileggingu í þágu bílaumferðar og þetta á að eiga sér stað á hennar vakt? Þessi eyðilegging mun verða það verk sem henni verði hvað mest minnst.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Arnarnesvegur er hluti af Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og samvinnuverkefni Reykjavíkur, Kópavogs og Vegagerðar. Ekki stendur til að taka einhliða ákvarðanir sem myndu fela í sér brot á umræddum sáttmála.

 

Tillaga Flokks fólksins að að farið verði með markvissum hætti í að einfalda byggingar-regluverkið til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði með markvissum hætti í að einfalda byggingar-regluverkið til að gera umsækjendum um breytingar eða viðbætur á húsnæði léttar um vik.

Flokkur fólksins lagði fram sömu tillögu árið 2018 en lítið virðist hafi verið gert hjá Skrifstofu umhverfis og skipulagssviði til að liðka fyrir fólki og létta á regluverkinu sem er þungt og flókið. Það eru margir sem tala um hversu regluverk borgarinnar er stirt og ósveigjanlegt þegar kemur að umsóknum um breytingar, smáar sem stórar á húsum. Talað eru um að oft sé erfitt að eiga við Skrifstofu byggingarfulltrúa og að það taki fleiri mánuði að fá byggingarleyfi. Skortur sé á að veittar séu fullnægjandi leiðbeiningar. Sífellt séu að koma fleiri athugasemdir og óþarfa smámunasemi ríki jafnvel í vinnubrögðum. Fólki finnst jafnvel stundum sem verið sé að reyna að hindra frekar en aðstoða. Verki fólks er sífellt að seinka með tilheyrandi kostnaði og öðrum erfiðleikum. Kröfurnar eru líka sagðar fullmiklar t.d. sé krafist utanhústeikninga þrátt fyrir að aðeins sé verið að gera innanhúsbreytingar. Skrifstofa byggingarfulltrúa virðist ekki átta sig á að tíminn er peningar.
Ferlið þarf að vera skýrara og skilvirkara og leiðbeiningar þurfa að vera betri. Tímamörk verða að vera skýr og skrifstofa byggingarfulltrúa lipur, sanngjörn og hjálpsöm.

 

Skipulags- og samgönguráð 23. september 2020

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um breytingu á opnunartíma leikskóla Reykjavíkurborgar vegna COVID-19:

Búið er að taka ákvörðun um að skerða þjónustu leikskóla með því að stytta opnunartíma. Ástæðan er sögð vera vegna sóttvarnaráðstafana. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að engin ástæða sé til að stytta opnunartíma vegna þessa. Vel er hægt að finna aðrar leiðir, sem ekki koma niður á þjónustunni. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Ekki er hjá því komist í þessu sambandi að minnast á nýlegt jafnréttismat sem sýnir neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna.  Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 7. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um mat á starfsumhverfi starfsfólks sem kemur fyrir borgarráð, sbr. 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst 2020.

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að sú aðferðafræði sem Líf og sál notar til að framkvæma mat á starfsumhverfi sé á gráu svæði. Reynt er að gera ýmiskonar ráðstafanir til að halda aðferðafræðinni og ferlinu innan ramma persónuverndarlöggjafarinnar. Álitaefni má strax sjá í skilyrðunum sem þátttakendum könnunarinnar er gert að skrifa undir.  Einnig liggur ekki fyrir hvort  fullnægjandi fræðsla sé veitt til þeirra sem veita persónuupplýsingar og til þeirra sem upplýsingarnar varðar. Vandi er einnig með áreiðanleika persónuupplýsinga sem eru veittar við aðstæður sem þessar og hvort  rétt sé að heita þeim sem veita upplýsingar trúnaði. Við þessar aðstæður er hægt að ausa úr sér hatri og óhróðri um manneskju og allt í trúnaði en á umælunum á síðan að byggja niðurstöður. Hvað er mannauðsdeildin og borgarmeirihlutinn að fá fyrir þessar tvær milljónir sem þetta kostar? Mat fulltrúa Flokks fólksins er að hér sé verið að henda fé í tóma vitleysu. Í ljósi uppákomu á fundi borgarstjórnar 15. september þar sem fulltrúi Pírata fór langt yfir velsæmismörk í samskiptum við annan fulltrúa um efni sem á ekki heima í sal borgarstjórnar þarf fyrst og fremst að siða fólk til, láta það t.d. fylgja sínum eigin siðareglum. Það kostar engar 2 milljónir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um mat á hvað flokkast undir trúaðarmál:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mat á hvaða mál flokkast sem trúnaðarmál hefur verið vísað frá . Flokkur fólksins lagði til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Engin regla virðist vera um þessi mál eftir því sem fram kemur í svari. Í svari eru reifuð hin ýmsu lög sem hægt er að túlka eftir behag. Sem dæmi, ef ég væri borgarfulltrúi í meirihluta að leggja fram mál sem myndi varpa ljósi á neikvæða hluti í borginni þá óska ég bara eftir trúnaði. Í svari segir að ábyrgðin um hvort sé trúnaður eður ei liggi hjá þeim aðila sem leggur málið fram og gerir grein fyrir hvort erindið eða gögn sé trúnaður. Hann ákveður það sem sagt sjálfur. Þetta hefur ítrekað komið í ljós, kynningar sem koma illa út fyrir borgina eru stimplaðar trúnaður og sumar koma aldrei fyrir augu borgarbúa. Trúnaður er settur á jafnvel þótt í gögnum séu hvergi neinar persónugreinanlegar upplýsingar s.s. sem varðar skulda, lána eða viðskiptamál einstaklings eða önnur persónugreinanleg gögn. Þetta er geðþóttákvörðun sem alltaf virðist vera hægt að finna stað í lögunum eftir því hvernig Reykjavíkurborg kýs að túlka þau. Svo mikið fyrir gegnsæi!

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks undir 9. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu öldungaráðs, að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar. Loksins er eitthvað að hreyfast í þessum málum en mikið hefur þurft til. Það er alveg ljóst að sá matur sem eldri borgurum hefur oft verið boðið upp á er ekki boðlegur. Annars hefðu allar þessar  gagnrýnisraddir ekki heyrst. Á gagnrýnisraddir hefur ekki verið nægjanlega hlustað. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einhverjir hafi viljað berja niður umræðuna. Það sýnir sig best í því að tillögum Flokks fólksins sem unnar voru með eldri borgurum og aðstandendum sem snúa að þessum málum var hafnað. Skoða þarf bæði samsetningu matarins og framleiðslu hans sem og hvenær hann er sendur út. Fram kemur að maturinn er oft afhentur til neyslu tveimum dögum eftir framleiðslu. Það er ekki viðunandi. Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val, t.d. á fólk að hafa val um hvort það vill meira eða minna grænmeti.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningur bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Grafarlæks, Stekkjamóa og Djúpadal:

Lögð fram umsókn T.ark Arkitekta ehf., dags. 15. júní 2020, varðandi breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar – Stekkjarmóa – Djúpadals. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit e3 í suðurátt til að rúma verkstæði og vélageymslu ásamt aukningu á byggingarmagni. Umsóknin er um mjög aukið byggingamagn. Áhrif á umhverfi verða talsverð. Tyrfa skal jaðra verkstæðis og vélageymslu með lyngþökum eða sambærilegum  þökum í samræmi við núverandi gróður í næsta nágrenni til að hús falli betur inn í landslagið og sé minna sýnilegt frá golfvelli. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að talsvert mikil bjartsýni er að halda því fram að lyngþökur séu lausn á útlitsumhverfisvandamáli. Slíkur gróður þarf mikla umönnun ef hann á að haldast. Varla er hægt að réttlæta mikið byggingarmagn með þessum rökum einum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 10. september 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 9. september 2020 á tillögu um að framlengja tímabundnar göngugötur í miðborginni.

Afleiðingar aðgerða meirihlutans blasa nú við og áfram skal haldið gegn straumnum. Hópurinn sem mótmælir fer stækkandi. Samþykkja á nú 2. áfanga Laugavegarins til afgreiðslu. Fulltrúi Flokks fólksins finnur sárt til með þeim verslunum sem þarna eru og róa nú lífróður. Engum rann í grun að ástandið yrði svona slæmt enda átti enginn von á COVID sem gerði vissulega útslagið. Ef vel hefði verið haldið á spilunum væru Íslendingar í bænum mun meira en raun ber vitni. En með lokun fyrir umferð og með því að framlengja tímabundnar göngugötur er fátt um þá þarna. Þeir sem búa á svæðinu og í nágrenni þess eru vissulega í bænum en er þá upptalið utan þá sem sækja skemmtanalíf. Engir ferðamenn eru og verða ekki um ókominn tíma. Að framlengja tímabundnar göngugötur eru mistök og gerir bara illt verra. Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með líflausum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð? Þetta mun fara endanlega með suma rekstraraðila,  þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnist í haust og að landinn myndi heimsækja bæinn meira.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. september 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal, ásamt fylgiskjölum. Kostnaðaráætlun 2 er 30 m.kr.:

Borgarráð vill heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við endurheimt votlendis og mótun lands í Úlfarsárdal. Um er að ræða 2. áfanga verkefnisins. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ekki sé  tímabært að bjóða verkið út. Undirbúningsvinnu er áfátt. Verktaki sem fær verkið hefur ólíklega sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður seint að hausti eða um hávetur. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaka er ætlað að loka skurðum og búa til einhverjar tjarnir á víð og dreif. Þetta þarf að forvinna miklu betur. Andfuglar sem nýta tjarnir þurfa að hafa tjarnir með skjóli, t.d. hólma. Að öðrum kosti fá fuglarnir ekki frið til að verpa og koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna og m.a. gera ráð fyrir tjörnum með hólmum. Skoða þarf gróðurfar og kanna sérstaklega hvort hlúa þurfi að einstökum plöntutegundum (dæmi gulstör, síkjamari, lófótur). Eftir slíka vinnu er fyrst tímabært að bjóða verkið út.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að auka votlendi í Úlfarsárdal. Það er vel, en þar vantar mikið upp á undirbúningsvinnu, lagt er því til að fresta útboðinu.

Áætlað er að auka votlendi í Úlfarsárdal. Það er vel, en þar vantar mikið upp á undirbúningsvinnu. Samkvæmt verkefninu „endurheimt votlendis – Úlfarsárdalur“ á að bjóða verkefnið út núna en það er  að hirða rusl o.fl. og fylla upp í þverskurði.  Reiknað er með að varðveita votlendisgróður. Verkið á að hefjast í september og ljúki áður en varp fugla hefjist á næsta ári. Flokkur fólksins leggur til að þessu útboði verði frestað því að svona vinnubrögð ganga ekki. Verktaki sem fær verkið hefur líklega ekki sérfræðinga á sínum snærum sem geta greint gróður  seint að hausti eða um hávetur og allra síst votlendisplöntur sem eru komnar í vetrarham. Þess vegna eru kröfur um að varðveita einhverjar plöntutegundir marklausar, því að ekki verður unnt að fara eftir því. Ekkert verður hægt að segja um hvort líffræðileg fjölbreytni aukist eða minnki. Verktaki á að loka skurðum en búa til einhverjar tjarnir. Andfuglar nýta tjarnir og í stórum tjörnum er hægt að gera hólma. Þá fá andfuglar frið frá t.d. heimilisköttum til koma ungum á legg. Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna. Eftir slíka vinnu er tímabært að bjóða verkið út.

Greinargerð.

Fullkomin endurreisn lífríkis  verður aldrei í borgarumhverfi en það má ganga þannig um óbyggð svæði að þau líkist því sem er í ósnortinni náttúru. En til að það sé hægt þarf alla vega að skoða hvernig ósnortin svæði nýtast þeim lífverum sem við viljum halda í

Áberandi er við borgarmörkin að skortur er á griðarstöðum fyrir margar fuglategundir. T.d. ef gerð er tjörn, koma andfuglar á hana eftir fáeina daga (tjarnir vantar),  svo sem sjá þá þegar settjarnir voru gerðar meðfram Elliðaám.  Augljóst er  öllum að andfuglar nýta tjarnir, en þær tjarnir hafa meira virði ef þær eru það stórar að hægt sé að gera hólma í þeim. Þá fá andfuglar frið frá t.d. heimilsköttum til koma ungum á legg.

Teikna þarf upp hvernig verkið skal vinna og leggja áherslu á að gera tjarnir með hólmum.
Skoða þarf gróðurfar og kanna sérstaklega hvort hlúa þurfi að einstökum plöntutegundum. (dæmi. gulstör, síkjamari, lófótur)
Eftir slíka vinnu er tímabært að bjóða verðið út.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ráðningarmál í skólum:

Hver er staða ráðningarmála í leik- og grunnskólum Reykjavíkurborgar? Á hverju hausti hefur verið vandi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður í leik- og grunnskólum sem og frístundaheimilum. Á þessu hausti var óráðið í all margar stöður. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver staðan sé nú þegar september er rúmlega hálfnaður.

Vísað til umsagnar mannauðs- og starfsumhverfissviðs.

Borgarráð 17. september 2020

Fyrirspurn um reglur sem gilda almennt um baðaðstæður og hverjir aðstoði þá sem þurfa böðun:

Nýlega var starfsmaður Reykjavíkurborgar dæmdur fyrir brjóta kynferðislega á konu í skammtímavistun á vegum Reykjavíkurborgar. Í dóminum segir að maðurinn hafi misnotað aðstöðu sína. Í framhaldi hófst umræða um hvað reglur gilda almennt um baðaðstæður og hverjir aðstoði þá sem þess þurfa við böðun. Fram kom að reglur hafi verið yfirfarnar.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um hvernig þessum reglum sé háttað og hvort það sé í reglum nú að aðeins fólk að sama kyni aðstoðar við böðun nema fyrir liggi samþykki um annað?

Bókun Flokks fólksins við áætlun og kaup á félagslegu leiguhúsnæði 2015-2034:

Biðlisti eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði er enn allt of langur og auðvitað þarf að bregðast við því með öllum tiltækum ráðum. Áætlun var sennilega  eitthvað of knöpp og allt of seint var farið af stað. Nú er kjörtímabilið hálfnað og enn bíða rúmlega 600 umsækjendur. Af þeim eru 132 umsækjendur sem eiga barn/börn sem eru annað hvort í umgengni hjá umsækjanda eða hafa lögheimili hjá honum. Það á eftir að taka nokkur ár að vinda ofan af því ófremdarástandi sem komið var í félagslegu húsnæðismálin. Mörg þessara barna búa við ótryggar og/eða óviðunandi húsnæðisaðstæður og hafa gert lengi. Þetta er auðvitað óviðunandi. Fjöldi barna hafa liðið fyrir seinagang að koma húsnæðismálum þeirra sem minnst mega sín í viðunandi horf. Ábyrgðin er ekki síst hjá síðasta meirihluta.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á matarstefnu og framleiðslueldhúsi:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar tillögu öldungaráðs, að láta gera könnun utanaðkomandi, óvilhallra og til þess bærra aðila, á máltíðum sem velferðarsviðið býður eldri borgurum upp á úr eldhúsi borgarinnar.
Loksins er eitthvað að hreyfast í þessum málum en mikið hefur þurfti til.
Það er alveg ljóst að sá matur sem eldri borgurum hefur oft verið boðið upp á er ekki boðlegur. Annars hefði allar þessar  gagnrýnisraddir heyrst. Á gagnrýnisraddir hefur ekki verið nægjanlega hlustað. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að einhverjir hafi viljað berja niður umræðuna. Það sýnir sig best í því að tillögum Flokks fólksins sem unnar voru með eldri borgurum og aðstandednum sem snúa að þessum málum var hafnað.  Það er heldur ekki nóg að maturinn sé rétt samsettur fyrir eldri borgara. Huga þarf að framleiðslu hans og hvenær hann er sendur út. Fram kemur að hann sé oft afhentur til neyslu tveimum dögum eftir framleiðslu. Það er ekki viðunandi.  Einnig ætti að vera sjálfsagt að bjóða upp á næringardrykki með matnum og umfram allt á að vera val t.d. val um meira eða minna grænmeti.

 

Fyrirspurnir frá Flokki fólksins um aðgengismál, markmið aðgengisstefnu og hlutverk aðgengisnefndar:

Það liggur í augum uppi ef horft er til markmiða Aðgengisstefnunnar (drög) frá 22.9. 2017 að það vantar mikið upp á að tekið sé með markvissum hætti á ákveðnum þáttum sem snúa að aðgengismálum

Samkvæmt erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum skal aðgengisstefnan snúa að aðgengi að húsnæði í eigu borgarinnar og aðgengi að því húsnæði sem borgin leigir fyrir starfsemi sína.

Fyrirspurnir frá fulltrúa Flokks fólksins:
Hvar er að finna heildstæða áætlun varðandi húsnæði?

Hvernig er farið með byggingarleyfisskyldar breytingar á þegar byggðu húsnæði?

(Ef breyta á eldra húsnæði á, skv. byggingarreglugerð, að leggja fram greinargerð um aðgengi og eftir atvikum rökstuðningi á af hverju ekki sé hægt að uppfylla aðgengi fyrir alla, þ.e. undanþágur frá kröfum reglugerðar.
Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hefur sagt að það ”yrði mjög tímafrek vinna að fara í gegnum öll skjöl og finna út úr því sérstaklega hvar gefin hefur verið undanþága, en erindi og samþykktir þar sem þannig er háttar, eru ekki skráð sérstaklega í gagnagrunn embættis byggingarfulltrúa.”
Þetta hlýtur að teljast gagnrýnisvert. Þetta á að vera gegnsætt ferli og því verður að halda utan um og gera þessi gögn aðgengileg.)

Í drögum að Aðgengisstefnu frá 2017 voru sett fram markmið og aðgerðir í 19 liðum sem ekki hefur verið framfylgt.

Hvernig  á að taka á aðgengismálum þegar ákvæði byggingarreglugerðar geta ekki verið uppfyllt og hvernig er þá hægt að leita skapandi lausna?
(Ekki liggur fyrir neinn farvegur fyrir skapandi lausnir eftir því sem best er séð og eru því þessi mál óljós)

Varðandi markmið og aðgerðir hefur ýmislegt verið gert. Það er t.d. vísir að því að skipta út gönguljósabúnaði og bæta biðsvæði strætó.

Á ekki að fara  markvisst í að afmarka og merkja rétt bílastæði hreyfihamlaðra og veita upplýsingar um þau á korti?

Þarf ekki að fjölga og upplýsa um salerni hreyfihamlaðra?

Hvernig er unnið að því að losa snjó af göngustígum, yfir götur og á biðstöðvum strætó?

Hvernig gekk það síðasta vetur og hvernig mun því verki verða háttað næsta vetur í ljósi fyrri reynslu?

Hvernig gengur að gera útisvæði aðgengileg?

Hvernig miðar að  gera áætlun um aðgengi að félags-, íþrótta- og menningarstarfsemi?
(Aðgengi að íþróttamannvirkjum er t.d. oft mjög lélegt)

Hvernig miðar að koma upp skiltum og fjarlæga hindranir  á götum og gangstéttum?
Spurt er í ljósi þess að í vaxandi mæli hafa skipulagsyfirvöld verið að stilla upp húsgögnum, borðum og stólum á gangstéttir ef sést sem dæmi til sólar. Með þessu er stundum verið að teppa gönguleiðir.

Velferðarráð 16. september 2020

Óundirbúnar fyrirspurnir. Beint til borgarstjóra:

Áformað er að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi, sem yrði 1.3 km. langur þjóðvegur í þéttbýli. Hann var samþykktur á samgönguáætlun fyrir 2021 og áætlaður kostnaður skv. samgönguáætlun er 1.6 miljarðar. Áætlanir fyrir veginn byggja á umhverfismati frá 2003, en síðan þá hafa forsendur breyst verulega. Meðals annars þá er byggð í kringum veginn mun þéttari, umferð hefur aukist og áherslur í umhverfismálum hafa breyst. Þessi hluti Arnarnesvegar, sem upphaflega var hugsaður sem ofanbyggðavegur þegar hann var settur á skipulag fyrir 40 árum, mun koma til með að skera í tvennt náttúrulegt útivistar- og útsýnissvæði, sem mikið er nýtt af íbúum borgar og nágrennis. Vegurinn mun koma til með að breyta ásýnd og notagildi þessa dýrmæta græna svæðis til frambúðar
 

Spurning: 

Liður 1

Nýjustu áætlanir af veginum sýna að kostnaður við veginn hefur þegar nær tvöfaldast í tæpa 3 milljarða og hann mun skerða fyrirhugaðan Vetrargarð sem er á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Ef tekið er mið af þeim náttúruspjöllum sem vegurinn mun valda, þessum aukakostnaði og breyttra áherslna í umhverfis- og samgöngumálum er spurt hvernig er það siðferðislega verjandi fyrir borgina sem framkvæmdaleyfishafa að fara ekki fram á nýtt umhverfismat?

Liður 2

Breiðholtsbrautin er þegar sprungin umferðaræð og nú á að bæta við (eða færa til) umferð allt að 20.000 bíla inn á Breiðholtsbrautina í gegnum þenna nýja kafla af Arnarnesvegi. Formaður skipulagsráðs sagði nýlega “að það sé löngu kominn tími á það að meta kolefnislosun af öllum framkvæmdum á samgönguáætlun og forgangsraða þeim sem draga mest úr losun fyrst.” Spurt er hvaða rök eru fyrir því að Arnarnesvegur eigi að vera í forgangi á undan öðrum samgönguverkefnum borgarinnar, eins og t.d. tvöföldun Breiðholtsbrautar, og á hvaða skýrslum byggja þessi rök? 

 

Tillaga Flokks fólksins um að börn fái sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.
Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. Til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög.
Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16.6.2020 þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Þeirri tillögu var hafnað.  Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð

Á bilinu 18-35 þúsund einstaklingar búa við fátækt hverju sinni eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund einstaklingar í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna, hælisleitendur, flóttafólk og innflytjendur.

Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 kr. á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neita börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum á vegum skóla- og frístundar vegna fjárskorts. Fátækt fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis spurt hvernig sé háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega?

Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald. Þessi börn fá þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til íþrótta og tómstunda og börn foreldra sem eru fjárhagslega sterkari.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað í skólum og frístund og allur gangur er á hvernig síðan tekið er á  málum þegar upp koma tilfelli sem hér er lýst.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum vegna aðgengis á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar fyrir sumarhátíð.

Meirihlutinn í borgarstjórn og skóla- og frístundayfirvöld hafa sagt m.a. í bókun sinni við tillögu Flokks fólksins í júní sl. um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum,  að fyrirkomulagið í þessum málum sé með ýmsum hætti. Fram kemur í bókun þeirra að skólinn greiði oftast fyrir viðburði en fjáröflun er engu að síður í gangi þótt mismunandi sé milli skóla. Stundum er um að ræða samstarf foreldra, nemenda og skóla, með eða án fjáröflun fyrir ferðalög með eða án gistingu. Einnig er það þannig að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og segir í bókun meirihlutans. Í þeim tilfellum sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur þá er reynt að grípa til einhverra annarra ráða til að leysa málin farsællega.

Af þessu má sjá að hér er um  hálfgerðan frumskóg að ræða.

Það er skoðun fulltrúa Flokks fólksins að mikilvægt sé að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar. Kortleggja þarf þetta nánar til að sjá hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

En sú tillaga sem hér er lögð fram fjallar ekki um að gerð verði könnun heldur að borgarmeirihlutinn og skóla- og frístundaráð tryggi að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Þær greiningar sem nú liggja fyrir hjá skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmis konar viðburði innan skólanna í borginni er takmörkuð og gefur ekki fullnægjandi mynd. Taka þarf þessi mál alla leið og sjá til þess að öll börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra í skólatengdum verkefnum.

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun vegna afgreiðslu tillögunnar:

Á vorönn lagði fulltrúi Flokks fólksins fram sambærilega tillögu þ.e. að gerð yrði jafnréttisskimun á hvort börn eru að fá sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum. Þeirri tillögu var líka vísað frá. Öll vitum við að börn sitja ekki við sama borð í þessum máli og er ekki hægt að sætta sig við það. Nóg er að fögrum fyrirheitum hjá þessum meirihluta en minna um aðgerðir og framkvæmdir í þágu barna í borginni. Skóla- og frístundasvið hefur viðurkennt að fyrirkomulag þar sem foreldrar eru krafðir sérstakrar greiðslu vegna viðburða eða ferða sé með ýmsum hætti en málin eru sögð óljós. Einhver óreiða er í þessum málum. Þegar upp koma erfið mál þar sem foreldrar hafa ekki ráð á að greiða aukagjöld er reynt að leysa þau með einhverjum reddingum. Oft þarf að leita í einhverja varasjóði.  Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða í þessum sporum? Fullnægjandi greiningar liggja ekki fyrir hvernig þessu er háttað. Sagt er að skólinn greiði en að fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Hvað er átt við? Svo eiga fjáraflanir að redda málum. Það á ekki að þurfa að treysta á slíkt. Skóla- og velferðarkerfi borgarinnar treystir um og of á að aðrir bjargi málum, hjálparsamtök og safnanir.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Stöðu barna í Reykjavík:

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi. Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um friðlýsingu í Álfsnesi og við Þerneyjarsund til verndar miðaldahafnar í Reykjavík:

Það er sjálfsagt að styðja friðlýsingu. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“.  Lega Sundabrautar hefur ekki einu sinni verið ákveðin. Fleirum finnst þessi rök borgarstjóra ekki halda og er það sjálfur forstöðumaður Minjastofnunar. Í viðtali við forstöðumann Minjastofnunar kemur fram að friðlýsing skerði ekki vegstæði Sundabrautar og að varðveisla minja og lagning brautarinnar geti vel farið saman. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað en fleiri staðir koma án efa til greina ef út í það væri farið. Meirihlutinn í borgarstjórn á að vera þakklátur nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru. Það hefur komið skýrt fram að það megi ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi þar fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu enda hefur verið með sambærilega tillögu í velferðarráði 2019 þar sem henni var synjað. Lagt var til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð. Í tillögunni var vísað í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir það sem stendur þar: „Fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Það segir sig sjálft að þar með eru möguleikar viðkomandi til náms verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli hlýtur viðkomandi að þurfa að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám leiðir til aukinna möguleika á að fá vinnu, aukins stöðugleika og hærri launa en ella.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. september:

Kynning um fyrirhugaðan Arnarnesveg hefur átt sér stað tvisvar en kynningargögnum er haldið leyndum. Farið var yfir 3 útfærslur, allar óásættanlegar, þar sem allar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Útfærsla 1 var sögð ekki koma til greina, væri ekki gerleg og auk þess gríðarlega kostnaðarsöm. Útfærsla 2 er sú sem skipulagsyfirvöld sjarmera greinilega fyrir og leið 3 með mislægu gatnamótin er draumaútfærsla bæjarstjórnar Kópavogs. Allt er þetta byggt á löngu úreltu umhverfismati. Sú staðreynd að skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að taka þátt í þessari eyðileggingu er sérkennilegt því nú er kynnt nýtt skipulag með Vetrargarði einmitt þar sem vegurinn á að liggja. Það þarf að gera nýtt umhverfismat. Annað er ekki siðferðislega verjandi. Augljóslega er hægt að tengja frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf.  Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut  inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi.  Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs.  Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Sjálf Vatnsendahæðin gæfi  þá möguleika á að nýtast enn frekar sem útivistarsvæði. Þar myndi Vetrargarðurinn njóta sín og svæðið vera einstakt og eftirsótt af öllum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs og 3. og 9. lið í fundargerð velferðarráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum á þessum tímapunkti  í samfélaginu enda aðstæður afar óvenjulegar. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu hækkun greiðslna til stuðningsfjölskyldna. Með öðrum gjaldskrárhækkunum er höggvið í þá sem minnst mega sín á sama tíma og segir í bréfi borgarstjóra „það er varhugavert við þær aðstæður sem nú eru uppi að fara í niðurskurð  til þess að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi til skamms tíma“.

Hér er um mótsögn að ræða.  Seilst er í vasa þeirra viðkvæmustu. Á sama tíma mælist Samband íslenskra sveitarfélaga til þess með yfirlýsingu dags. 27. mars 2020 að sveitarfélög haldi aftur af sér við gjaldskrárhækkanir í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðfélaginu. Fundargerð skólaráðs. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Þetta er gert þrátt fyrir að nýlegt jafnréttismat sýni neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna. Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

Borgarstjórn 15. september 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu útfærslu tillögu fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts um táknmálskennslu í grunnskólum.

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa útfærslu tillögu fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts um táknmálskennslu í grunnskólum. Hinn 15. maí 2020 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um táknmálstúlkun á fundum borgarstjórnar og hafði tillagan áður verið lögð fram 3. 9. 2019. Tillögunni var frestað til að fá  kostnaðarmat. Það mat hefur ekki enn litið dagsins ljós.  Það vantar táknmálstúlka og þess vegna er tillagan frá ungmennaráðinu brýn. Túlkun málefna frá hinu opinbera ætti að vera meginregla. Um er að ræða mannréttindamál. Túlka ætti borgarstjórnarfundi skilyrðislaust, Með því er borgarstjórn að framfylgja lögum. Túlkun dregur úr einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna. Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu afgreiðslu tillögu ð fjölmargir leigjendur Félagsbústaða hafa haft samband og lýst óbærilegum aðstæðum sínum þegar upp koma deilumál milli leigjenda Félagsbústaða

Ástæðan fyrir því að Flokkur fólksins lagði fram þessa tillögu er að fjölmargir leigjendur Félagsbústaða hafa haft samband og lýst óbærilegum aðstæðum sínum þegar upp koma deilumál milli leigjenda Félagsbústaða. Þessar aðstæður hafa verið erfiðar eftir lokun skrifstofu og um hátíðir. Þá er eins og ekkert eða enginn geti gripið málið nema lögregla. Nýlega var um að ræða tilfelli af þessu tagi þar sem leigjandi varð fyrir árás og heill stigagangur óttaðist um öryggi sitt. Lögregla gat ekki sætt aðila enda málið flóknara en það. Hér þarf að koma til skýrt úrræði sem velferðarsvið og Félagsbústaðir standa að. Viðbrögð við vanda sem kemur upp hjá leigjendum er of ómarkviss og fálmkenndur að mati fulltrúa Flokks fólksins og bendir stunum hver á annað. Hver á að gera hvað, hversu langt á að ganga og hver ber ábyrgiðna er mjög óljóst? Það er mikilvægt að leigjendur geti leitað á ákveðinn stað, haft e.t.v. einhvern fastan tengilið sem þeir geta hringt í utan hefðbundins skrifstofutíma ef upp koma aðstæður sem þessar, þegar þeir kannski í kjölfar hótana eða árása eru miðir sínir af angist og kvíða. Leigendur þurfa að hafa aðgang að ráðgjöf og svara þarf kalli þeirra um aðstoð strax ef neyðaraðstæður skapast.

Forsætisnefnd 11. september 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu að drögum að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum.

Drög að erindisbréfi stýrihóps um heildstæða stefnu í aðgengismálum eru lögð fram til samþykktar af meirihlutanum. Óskað er eftir því að borgarráð skipi þrjá fulltrúa í stýrihópinn. Stýrihópurinn hefur það hlutverk að marka heildstæða stefnu um aðgengismál í víðum skilningi í Reykjavík með algilda hönnun að leiðarljósi m.a. hvað varðar aðgengi að byggingum og borgarrýmum. Flokkur fólksins vill að tryggt sé að fulltrúi frá hagsmunafélagi fatlaðra sitji í hópnum þar sem marka á heildstæða stefnu um aðgengismál. Mikilvægt er að þessi hópur hafi ekki loðinn tilgang sem oft vill verða þegar sagt er að gera eigi eitthvað „almennt“.  Aðgengismál eru hagsmunamál margra og sérstaklega þeirra sem glíma við líkamlega fötlun af einhverju tagi. Ekki á að móta stefnu um hagsmunahópa nema hafa fulltrúa þeirra með frá upphafi vinnunnar. Minnt er á  samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 9. september 2020:

 

Athugasemdir Skipulagsstofnunar hafa verið lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að hlustað verði á athugasemdirnar, ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg og á aldrei að þurfa. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík.  Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu. Skipulagsyfirvöld eru hvött til að stíga varlega til jarðar í þessum efnum. Þetta er ekki siðferðislega verjandi fyrir borg sem setur vernd náttúrulegra svæða í forgang og segist vilja standa vörð um náttúru í borgarlandinu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsagnar Reykjavíkurborgar, dags. 9. september 2020 varðandi tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund:

 

Þetta mál er afar viðkvæmt. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögunni er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“, hvað er átt við með því? Sundabraut er tenging yfir sundið og lega hennar hefur ekki verið ákveðin. Ekki er séð beint að þessi rök eigi hér við. Sérhagsmunir eiga aldrei að ganga framar almannahagsmunum. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað. Stjórnvöld eiga að vera þakklát nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu  á tillögum að útfærslu gatnamóta við Arnarnesveg og Breiðholtsbraut:

Kynntar eru 3 lausnir en fulltrúar hafa ekki séð kynninguna og fá ekki að sjá. Lausnirnar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem er á samgönguáætlun fyrir 2021 er óafturkræft skipulags- og umhverfisslys, verði lending í málinu með þeim hætti. Hvergi er minnst á veginn í nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt, en hann mun kom til með að þrengja verulega að fyrirhuguðum Vetrargarði og eyðileggja eitt dýrmætasta græna útivistar- og útsýnissvæði borgarinnar. Arnarnesvegur er úrelt kosningaloforð Sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Það er auðveldlega hægt að finna betri lausnir fyrir umferð inn í Kópavog sem kosta ekki svona gríðarlegar fjárhæðir og valda ekki svona miklu umhverfislegu tjóni. Hvað varð um áherslurnar á að vernda grænu svæðin og minnka losun gróðurhúsalofttegunda? Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður árið 2021 mun skera þessa gróðumiklu hæð í tvennt. Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati sem fjölmargir, þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs, telja alvarleg skipulagsmistök. Á þessu svæði er eitt fallegasta útsýni yfir Reykjavík. Þarna ætti að vera útsýnispallur til að allir getið notið yfirsýnar yfir Reykjavík.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 3. september 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Græna planið:

 

Borgarstjóri og meirihlutanum hefur verið tíðrætt um Græna planið og margt í því hefur ekki verið útskýrt  nægjanlega s.s. jarðhitagarður og hvað sé átt við með aukið aðgengi að mat og hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Reynt er að svara þessum spurningum af starfshópi  um undirbúning Græna plansins. Enn er þessi jarðhitagarður þó ráðgáta.  Fjallað er um aðgengi að hollum mat í matarstefnu Reykjavíkurborgar 2018-2022. En er fjallað um aðgengi að hollum mat í Græna planinu? Sjálfsagt er að vinna að því að auka aðgengi að hollum mat en ekki síður þarf átak til að spyrna fótum  við matarsóun sem víða er á  stofnunum borgarinnar. Borgarmeirihlutinn er ekki beint að beita sér fyrir stórtækum aðgerðum þar. Einnig ber lítið á átaki  í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps. Ekki er nóg að setja á laggirnar stýrihópa. Hver mánuður skiptir máli þegar kemur t.d. að flokkunarmálum. Sorpið kemur mest frá fyrirtækjum. Hvað sem þessu líður sýnir svarið að spurningar Flokks fólksins áttu rétt á sér. Flækjustig virðist vera nokkuð og margt aðeins á umræðustigi.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

 

Í ljósi fullyrðinga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í fyrirspurn sinni til borgarráðs um að talsmenn SORPU hafi sagt að hreinsun gas- og jarðgerðarstöðvarinnar, GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað hefur borist athugasemd frá SORPU þess efnis að slíkar fullyrðingar hafi aldrei verið viðhafðar af talsmönnum fyrirtækisins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Fulltrúi Flokks fólksins fór í heimsókn til GAJU og tók niður punkta. Þar kom fram að hreinsun í GAJU muni koma í stað flokkunar á upprunastað. Enn er spurt hvort gera eigi átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat vegna útilistaverks í Vogabyggð:

 

Flokkur fólksins spurði hvað væri að frétta af raunhæfismati á útilistaverki í Vogabyggð. Fram kemur að raunhæfismatið er ekki hafið en er á dagskrá. Matið verður unnið af óháðum ráðgjöfum ásamt sérfræðingum umhverfis- og skipulagssviðs. Áætlaður kostnaður við raunhæfismatið liggur ekki fyrir.  Í raunhæfismatsferlinu á að planta trjám á opnum svæðum og athuga hvort þau lifi. Þetta getur tekið mörg ár og orðið ansi fjárfrekt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að nú þegar hafa sterkar vísbendingar komið fram um að þetta gangi ekki, sé ekki aðeins óraunhæft heldur hrein og klár vitleysa. Mörgum finnst það stórt álitamál og jafnvel ábyrgðarhluti að borgarmeirihlutinn ætli að verja bæði tíma og  fjármagni í eitthvað sem er ljóst  að muni ekki ganga. Hér er gott dæmi þess hvernig fé og tíma er eytt í gæluverkefni í stað þess að huga að þarfari hlutum eins og að styrkja grunnþjónustu. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að verið sé að teygja málið því meirihlutinn á erfitt með að viðurkenna mistök. En gerði hann það, væri hann maður að meiri!

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Ekki er verið að „teygja“ málið líkt og áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins heldur fram heldur kemur beinlínis fram í svarinu eftirfarandi: „Ekki eru tafir á undirbúningsvinnu eða framkvæmdum í Vogabyggð vegna raunhæfismatsins“.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

 

Það geta öllum orðið á mistök og er tímabært að skipulagsyfirvöld viðurkenni klúður sitt varðandi þetta pálmadæmi í Vogahverfi og spari þar með  borgarbúum óþarfa útgjöld.

 

Bókun Flokks fólksins undir 5. lið fundargerðarinnar sem lýtur að samgöngubótum í norðanverðum Grafarvogi:

 

Fulltrúi Flokks fólksins er sammála því að mörgum spurningum er ósvarað sem lúta að samgöngubótum í norðanverðum Grafarvogi, t.d. gönguleiðir milli Korpusvæðisins og Hamrasvæðisins. Það er byrjað á framkvæmdunum en það er hvergi nærri gengið eins langt og var nefnt í sameiningarferlinu eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Þá var talað um undirgöng og umferðaljós, hafa þau loforð verið efnd? Staðsetning biðskýlis við Korpúlfsstaðaveg, Brúnastaði  er  alltof nálægt götunni. Börnin standa nánast út á götu þegar beðið er eftir skólarútunni. Hraðinn þarna er oft á tíðum mikill og því veruleg slysahætta á þessu svæði. Þar fyrir utan er það lýsing á göngustíg frá horni Garðsstaða og að einum undirgöngunum á svæðinu sem er ábótavant. Þetta eru atriði sem virðast hafa fallið utan þess sem er verið að gera og ljóst að þetta með staðsetningu skýlisins og hættunnar þar er gríðarlega mikið öryggismál og með því stærsta á svæðinu öllu. Auðvitað vonar fulltrúi Flokks fólksins að það sem verið er að gera leiði til breytinga og hjálpi til við að auka öryggi barnanna.

 

Bókun Flokks fólksins undir 9. lið fundargerðarinna skipulags- og samgönguráðs er varðar Arnarnesveginn:

 

Það verður að fara fram endurskoðun á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi sem er 1,3 km langur þjóðvegur í þéttbýli á milli Rjúpnavegar í Kópavogi og Breiðholtsbrautar í Reykjavík. Hann er á samgönguáætlun 2021 í samræmi við eldgamalt og úrelt umhverfismat frá 2003 og eru mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut á meðal forsendna. Síðan þá hafa flestar forsendur breyst mikið. Vegurinn kæmi til með að valda gríðarlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði og þrengja mjög að væntanlegum vetrargarði skv. nýju hverfisskipulagi Breiðholts. Þá liggur fyrirhugað vegarstæði hærra en aðrir þjóðvegir í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og þar er mjög snjóþungt. Flestar forsendur vegalagningarinnar  hafa breyst.  Íbúar í ofanverðu  Breiðholti hafa gert alvarlegar athugasemdir við lagningu Arnarnesvegar í gegnum Vatnsendahvarf allt frá 1983, og svo við umhverfismatið frá 2003. Það verður að gera nýtt umhverfismat  fyrir vestanvert Vatnsendahvarf vegna breyttra forsendna, með hliðsjón af uppbyggingu Vetrargarðs, og þar með eflingu á grænu útivistarsvæði í Vatnsendahvarfi sem bæði gagnast Reykvíkingum og Kópavogsbúum. Kanna á aðra og  mun ódýrari kosti til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið 6. í yfirliti um Embættisfræslur:

 

Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir orð umboðsmanns barna þar sem hún segir að ákvörðun sveitarfélags um að synja foreldrum í erfiðri stöðu um vistun fyrir barn í leikskóla sé eingöngu til þess fallin að auka á erfiðleika viðkomandi heimilis með því að gera foreldrum síður kleift að stunda vinnu utan heimilis og framfæra börn sín. Þannig minnka sömuleiðis líkurnar á því að skuldir foreldra við sveitarfélagið verði greiddar. Tilefni bréfsins er að fram hefur komið í fjölmiðlum að nokkur fjöldi barna sem búsett eru í Reykjavíkurborg eigi á hættu að fá ekki boðaða vist í leikskóla vegna vanskila foreldra við sveitarfélagið. Dæmi eru um að foreldrar hafi fengið tilkynningar um uppsögn á vistunarsamningi við leikskóla af sömu ástæðum. Í mannréttindastefnu og Barnasáttmálanum segir að börn skuli hafa jafnan rétt án tillits til m.a. efnahagsástands foreldra. Börn eiga aldrei að þurfa að líða fyrir fátækt. Huga þarf einmitt sérstaklega að börnum í aðstæðum þar sem fátækt ríkir en ekki útiloka þau með því að meina þeim vist í leikskóla af því að foreldrar þeira geti ekki borgað. Nú er aðstæður vegna COVID að koma skýrar í ljós. Róður er þungur hjá mörgum foreldrum og á eftir að þyngjast enn.

Borgarráð 10. september 2020

Bókun Flokk fólksins við svari að tillögu fulltrúa um réttindi barna á Íslandi 

Fulltrúi Flokk fólksins þakkar svarið og fagnar því að Reykjavíkurborg sé þátttakandi í áformi ríkisins að innleiða Banasáttmála Sameinuðu þjóðanna um barnvænt Íslands. Niðurstaða þessarar vinnu má ekki aðeins vera falleg orð á blaði heldur verður fjármagn að fylgja slíkri stefnubreytingu. Það kemur fram í tillög Flokk fólksins að börn í sumum skólum borgarinnar upplifa mismun vegna efnahags foreldra, þurfa m.a. að neita sér um að sækja sameiginlegar samkomur skólans sem þarf að greiða fyrir. Með einum eða öðrum hætti verður að mæta þessum mismuni og þá sérstaklega þegar þessi nýja stefna verður að veruleika. Í þessu ferli er æskilegt að notkun frístundakortsins verði jafnframt endurskoðuð með því að víkka notkunarmöguleika þess. Það er sumum fjölskyldum afar nauðsynlegt, svo börnin geti stundað það félags- og íþróttastarfs sem boðið er upp á í borginni. Hafa skal í huga það ótrúlega ástand sem nú er í samfélaginu vegna Covid og því miður fer versnandi hvað varðar efnahag margra heimila og ættu borgaryfirvöld að bregðast nú strax við, en bíða ekki niðurstöðum úr umræddu samráði sem gæti óneitanlega dregist á langinn einmitt í ástandi því sem við nú upplifum.

Mannréttinda- lýðræðis- og nýsköpunarráð 10. september 2020

Bókun Flokks fólksins við Arnarnesvegur-Breiðholtsbraut:

Kynntar eru 3 lausnir en fulltrúar hafa ekki séð kynninguna, lausnir sem allar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem er á samgönguáætlun fyrir 2021 er óafturkræft skipulags- og umhverfisslys, verði lending í málinu með þeim hætti. Hvergi er minnst á veginn í nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt, en hann mun kom til með að þrengja verulega að fyrirhuguðum Vetrargarði og eyðileggja eitt dýrmætasta græna útivistar- og útsýnissvæði borgarinnar. Arnarnesvegur er úrelt kosningaloforð Sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Það er auðveldlega hægt að finna betri lausnir fyrir umferð inn í Kópavog sem kosta ekki svona gríðarlegar fjárhæðir og valda ekki svona miklu umhverfislegu tjóni. Hvað varð um áherslurnar á að vernda grænu svæðin og minnka losun gróðurhúsalofttegunda?

Fyrirhugaður Arnarnesvegur frá Rjúpnavegi að Breiðholtsbraut sem á að vera lagður að árið 2021 mun skera hæðina í tvennt og Vegaframkvæmdin byggir á nær 18 ára gömlu umhverfismati sem fjölmargir þ.m.t. Vinir Vatnsendahvarfs telja alvarleg skipulagsmistök. Á þessu svæði er eitt fallegasta útsýni yfir Reykjavík. Ef einhvers staða, ætti þarna að vera útsýnispallur til að borgarbúar getið notið yfirsýnar yfir Reykjavík.

Bókun Flokks fólksins við Vogabyggð svæði 3, deiliskipulag miðsvæði sunnan Tranavogar og norðan Súðarvogar að Sæbraut

Kynnt eru drög að skipulagi er varðar byggingarheimildir og hönnunarskilmála fyrir nýtt deiliskipulag á svæði 3 í Vogabyggð, dags. 30. júlí 2020. Tillagan sýnir hugmyndir um þróunarrama, hönnunarskilmála ásamt nokkrum valmöguleikum um útfærslur á hverri lóð.

 

Bókun Flokks fólksins við Grafarlækur-Stekkjarmóar-Djúpidalur, breyting á deiliskipulagi vegna reits e3

Lögð fram umsókn T.ark Arkitekta ehf. dags. 15. júní 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Grafarlækjar-Stekkjarmóa-Djúpadals. Í breytingunni felst stækkun á byggingarreit e3 í suðurátt til að rúma verkstæði og vélageymslu ásamt aukningu á byggingarmagni, samkvæmt uppdr. T.ark Arkitekta ehf. dags. 12. júní 2020.

 

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafj. Breytt landnotkun, breyting á aðalskipulagi

Athugasemdir Skipulagsstofnunar eru lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að að hlustað verði á athugasemdir ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu.

 

Bókun Flokks fólksins við Kynning, Laugavegur göngugata, deiliskipulag 2. áfanga

Deiliskipulagstillögur eru lagðar fram. Fulltrúa Flokk fólksins finnst erfitt að átta sig á þessu og bíður eftir að fá gögnin með málinu og að kynningin verði þá endurtekin. Ómögulegt er að rýna í myndir á skjá þar sem reitir eru sýndir og smátt letur. Hér er um mikilvægt mál að ræða ekki síst í ljósi þess hvernig komið er fyrir þessu svæði. Þar er nú varla hræðu að sjá. Flótti verslana í hrönnum og svo kom COVID. Spurning er hvernig þróunin verður, hvenær næst að lífga við þetta svæði?

 

Bókun Flokks fólksins við Tímabundnar göngugötur í miðborginni

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að það sé afar óskynsamlegt að framlengja tímabundna göngugötur í borginni. Bærinn er líflaus nú og með því að opna aftur göturnar sem um ræðir eins og ráð var fyrir gert glytti í smá von að fleiri myndu vilja heimsækja hann. Nú er aðeins um Íslendinga að ræða þar sem engir ferðamenn eru en Íslendingar koma ekki í bæinn. COVID og afleiðingar faraldursins hefur vissulega slegið rothöggið en vandinn var orðinn háalvarlegur áður en COVID skall á. Að framlengja tímabundnar göngugötur á því engan veginn við nú og þjónar ekki tilgangi. En fjölgar auðum rýmum og varla er að sjá hræðu á ferðinni. Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með steindauðum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð með vályndum veðrum? Þetta mun fara endanlega með marga, þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnist í haust. Nú er sá draumur úti og þeir munu endanlega loka ef þetta gerist. Næstu mánuði munu margir blæða út.

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafj. Breytt landnotkun, breyting á aðalskipulagi:

Athugasemdir Skipulagsstofnunar eru lagðar fram um tillögu á breytingu á aðalskipulagi vegna nýja Skerjafjarðar. Fulltrúi Flokks fólksins vonast til að að hlustað verði á athugasemdir ekki síst þær sem snúa að landfyllingum. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Landfylling er óásættanleg. Náttúrulegar fjörur eru fágætar í Reykjavík. Málið allt er viðkvæmt og það er leiðinlegt að vinna þetta stóra verkefni í svo mikilli andstöðu.

 

Bókun Flokks fólksins við Borgarlína, staðan

Kynning er á borgarlínu en engin gögn fylgdu dagskrárliðnum og því erfitt fyrir kjörna fulltrúa að átta sig á stöðunni. Það hlýtur að vera mikilvægt að fara að endanlega ákveða hvar þessi lína á að vera nákvæmlega. Málið er flókið og flækist enn meira vegna samstarfs við önnur sveitarfélög í samstarfi félags þar sem Reykjavík ræður hlutfallslega litlu. Nýlega samþykkti meirihlutinn að Reykjavíkurborg tæki þátt í opinberu hlutafélagi, Betri samgöngur ohf. um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. borgarlínu. Í þessu félagi hins vegar verða stjórnendur ekki fulltrúar kjósenda. Ekkert er búið að ákveða eftir því sem fram kemur endalega staðsetningu, einungis er um tillögur að ræða þótt sumar séu ígrundaðar. En bíður úrvinnsla. Ekki er búið að panta neina vagna en fram kemur að undirbúa þarf akstursvagnaútboð. Það gæti tekið 2-3 ár. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig vagnarnir verða knúnir. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna í þessu sambandi á allt metanið, innlendan, vistvænan orkugjafa sem nóg er til að. Tryggja þarf með skýrari hætti aðkomu rekstraraðila að verkefninu. Hver á að reka almenningssamgöngurnar. Ljóst er að langt er í land.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins úr borgarráði, um endurnýjun svæðis umhverfis Mjódd –

Lögð er fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarráði 23. júlí 2020 og vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Vísað til umsagnar Skrifstofu umhverfisgæða og Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Bókun Flokks fólksins við svörum/umsögn við stöðu framkvæmda vegna bættra samgangna í Norðanverðum Grafarvogi:

Um er að ræða gönguleið milli Korpusvæðisins og Hamrasvæðisins. Það er byrjað á framkvæmdunum en það er hvergi nærri gengið eins langt og var nefnt í sameiningarferlinu eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Þá var talað um undirgöng og umferðaljós, hafa þau loforð verið efnd?
Aðstæður, staðsetning biðskýlis við Korpúlfsstaðaveg, Brúnastaði er einnig alltof nálægt götunni. Börnin standa nánast út á götu þegar beðið er eftir skólarútunni. Hraðinn þarna er oft á tíðum mikill og því veruleg slysahætta á þessu svæði. Þar fyrir utan er það lýsing á göngustíg frá horni Garðsstaða og að einum undirgöngunum á svæðinu sem er ábótavant.
Þetta eru atriði sem virðast hafa fallið utan þess sem er verið að gera og ljóst að þetta með staðsetningu skýlisins og hættunnar þar er gríðarlega mikið öryggismál og með því stærsta á svæðinu öllu. Auðvita vonar fulltrúi Flokks fólksins að það sem verið er að gera leiði til breytinga og hjálpi til við að auka öryggi barnanna.

 

Bókun Flokks fólksins við svörum/umsögn við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, sem varðar legu Sundabrauta:

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurnir sem varðar legu Sundabrautar og hvenær verði lokið við að skipuleggja legu hennar með þeirri nákvæmni að unnt verði að styðjast við það skipulag þegar fjallað er um næstu verklegar framkvæmdir með fram Sundum.
Í svari segir að framkvæmd Sundabrautar sé í höndum Vegagerðarinnar. Svarið er hreinn útúrsnúningur. Spurt var um legu brautarinnar en ekki hver hefði umsjón með framkvæmdum eða framkvæmdarhraða.
Hvar Sundabraut liggur er skipulagsmál og er því í höndum skipulagsyfirvalda borgarinnar en ekki Vegagerðarinnar. Það er því með ólíkindum hvernig umhverfis- og skipulagssvið getur svarað spurningu kjörins fulltrúa um skipulagsmál eins og um legu Sundabrautar með svari um hver ber ábyrgð á framkvæmd verksins? Óskað er eftir meiri nákvæmni í svörum við fyrirspurnum kjörinna fulltrúa. Hverju máli fylgir ákveðin vinna bæði fyrir kjörinn fulltrúa og starfsmenn og það er miður ef endurtaka þurfi fyrirspurnina einungis vegna þess að svar umhverfis- og skipulagssviðs er út í hött.

 

Bókun Flokks fólksins við svörum/umsögn við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi verslunarrými við göngugötur:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi talning embættis skipulagsfulltrúa nokkuð sérkennileg enda svo sem „lausleg talning“. En er hann að segja að sumarið 2020 hafi verið 7 tóm rými? Þetta stenst enga skoðun. Hvað þá að 4 rými standi auð frá Laugavegi að Klapparstíg. Samkvæmt talningu sem Miðbæjarfélagið í Reykjavík framkvæmdi 8. september eru laus verslunarrými frá Laugavegi 1 að Snorrabraut 26 og hefur þeim fjölgað enn meira síðustu vikur.

Fram kemur í svari að einungis er notast við húsnúmer sem tilheyra göngugötum í svari fyrirspurnarinnar. Einnig segir að umhverfis- og skipulagsráð haldi ekki úti tæmandi lista yfir stöðu verslunar- og veitingareksturs í miðborginni. Hvernig getur embætti skipulagsfulltrúa þá vitað hvað séu mörg rými laus. Fulltrúi Flokks fólksins vill bara segja að Skrifstofan og umhverfis- og skipulagssviðið hefur greinilega ekki hugmynd um hver raunveruleg staða er þarna á svæðinu frá degi til dags og hvað er að gerast á Laugavegi yfir höfuð enda ekkert samráð og ekki hlustað á rekstraraðila. Næstu mánuðir eru spurning uppá líf og dauða fyrir margan reksturinn. Með tillögunni um að framlengja tímabundnar göngugötur frá 1. okt. 2020 til 1. maí 2021 er sennilega restin af rekstraraðilunum að fá rothögg. Hefur framlenging tímabundinna göngugatna verið borin undir rekstraraðila?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að rétt sé farið með upplýsingar á heimasíðu Bílastæðasjóðs og hún uppfærð reglulega

Vísað frá.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillaga Flokks fólksins um að rétt sé farið með upplýsingar á heimasíðu Bílastæðasjóðs og hún uppfærð reglulega hefur verið vísað frá. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma en þar eru villandi upplýsingar.

Skipulagsyfirvöld ákváðu sem dæmi sl. vetur að lengja gjaldskyldu á svæði 1 til klukkan 20 á vikum dögum og á laugardögum og bæta við gjaldskyldu á svæðinu á sunnudögum frá klukkan 10-16. Í umsögn með tillögunni kemur fram að þessar reglur tóku aldrei gildi en ekki orð er um það á heimasíðu Bílastæðasjóðs. Að hætt var við gjaldskyldu vita borgarbúar ekkert um. Það er búið að tilkynna fólki að það sé gjaldtaka sem er síðan hætt við og fólk ekki upplýst um það. Verið er að hafa fé af fólki þar sem það veit ekki að fallið var frá þessari breytingu og greiðir því gjald á tímum sem ekki er gjaldskylda. Hér eru um blekkingar að ræða. Hér má aldeilis segja að hljóð og mynd fari ekki saman hjá skipulagsyfirvöldum Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að fólk sé kyrfilega upplýst um að breytingarnar tóku aldrei gildi og endurgreiða ætti þeim sem hafa greitt á þeim tíma sem ekki er gjaldskylda.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um áhrif af göngugötum á umferð og mannlíf:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort gerð hafi verið rannsókn á því hvaða áhrif lokun Laugavegarins hefur á umferð og mannlíf í kringum göngugötur. Spurt var einnig um mælingar og hvort fyrir liggi gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

Í svari segir að í júlí var framkvæmd talning á bílaumferð á þessu svæði sem vita mátti vissulega að hafi minnkað en þó ekki hversu mikið. Umferð hefur snarminnkað enda Íslendingar hættir að fara niður í bæ nema af illri nauðsyn. Fyrir það líða verslanir, þær sem eftir eru. Vísað er í niðurstöður eldri rannsókna þ.m.t. frá London sem segja að hjólandi og gangandi eru líklegri en akandi að versla um þær götur sem þeir ferðast um Reykjavík er vissulega ekki London. Hjólandi er heldur ekki líklegri til að versla á Laugavegi en sá sem kemur akandi til að versla í ákveðinni sérverslun. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að fækkun bíla er í samræmi við fækkun fólks á Laugavegi og söluhrun sem verður í kjölfar götulokana. Af hverju neitar Skrifstofa samgöngustjóra að horfast í augu við veruleikann sem við blasir og kýs þess í stað að ríghalda í gamlar, erlendar kannanir sem ekki eiga við hér í borg?

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Eins og fram kemur í svari fyrir fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins hefur bílaumferð á gatnamótum Laugavegs og Frakkastígs minnkað um 54,6% milli 2015 – 2020 og bílaumferð á gatnamótum Grettisgötu og Vitastígs minnkað um 15,4% á sama tímabili. Ekki er tekið undir þau sjónarmið að minnkuð bílaumferð feli í sér minni fjölda fólks sem fer um svæið. Eins og kemur fram í svarinu ber flestum rannsóknum saman um að hjólandi og gangandi vegfarendur eru mun líklegri en akandi vegfarendur til að versla við þær götur sem þeir verðast um og eins og kemur fram í svari við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins í lið nr. 15 má áætla lauslega að nýting sölurýma á þessum slóðum sé yfir 90% – og því ekkert sem bendir til þess að minnkandi bílaumferð feli í sér minni umgang fólks eða minni verslun. Óskað er eftir því að fulltrúi Flokks fólksins leggi fram þær rannsóknir sem hann vísar í máli sínu til stuðnings þegar hann heldur því fram að minnkandi bílaumferð á Laugavegi haldist í hendur við fækkun fólks á Laugavegi og valdi söluhruni.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um gerð hraðahindrana í ólíkum aðstæðum:

Spurt var um hönnun hraðahindrana og reglum þeim tengdum. Sagt er að notuð er norska leiðin. Í Reykjavík eru hraðahindranir í nokkrum útgáfum, stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu. Bungur eru mismunandi. Ekkert virðist vera staðlað. Ómögulegt er fyrir þann sem ekki þekkir götuna að vita hvað bíður, hvernig bunga bíður. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er ekki nóg að setja skilti sem á stendur hraðahindrun þegar þær eru síðan af mismunandi gerðum. Ekki er haldið utan um frávik. Af svari að dæma er óhætt að segja að verkefni sem snúa að hraðahindrunum hafa ekki verið nægjanlega vel unnin af umhverfis- og skipulagssviði. Það er ekki nóg að afrita einhverjar norskar eða danskar reglur ef því er að skipta og smella þeim inn hér í Reykvíska umferð án frekari útfærslu. Hvernig væri að skrifa íslenskar leiðbeiningar? Eins má spyrja af hverju er ekki hægt að nota blikkljós sem mæla hraða og vara við ef hraði er of mikill í stað hraðahindrana?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði:

Tillaga Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði hefur verið felld. Segir í umsögn að “ekki hafi verið tekin afstaða til hvort veita skuli sérstaka ívilnun fyrir visthæfa bíla í bílahúsum borgarinnar.

Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Það er ekki nein sanngirni í því að veita ívilnun á götustæðum en ekki í bílahúsum. Sérstaklega skiptir þetta máli ef það er markmið skipulagsyfirvalda að fækka lagningu bíla á götunni. Þarna ætti að gæta samræmis milli götustæða og stæða í bílahúsum.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Líkt og fram kemur í umsögn um tillöguna eru hleðslustöðvar í bílastæðahúsum borgarinnar þar sem notendur rafmagnsbíla njóta gjaldfrjáls rafmagns. Verður þetta að teljast ívilnun. Því er ekki tekið undir þau sjónarmið að bílastæðin innan bílastæðahúsa eigi að vera ókeypis.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti sem varðar bílastæðahús

Vísað frá.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Flokkur fólksins lagði til að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti. Sum húsin hafa verið illa nýtt seint á degi og um kvöld. Skrifstofa samgöngustjóra leggur til strax í umsögn sinni að tillögunni verði vísað frá og hefur það verið gert. Fram kemur í svari að lítil eftirspurn sé eftir því að hafa bílahúsin opin allan sólarhringinn. En væru húsin opin allan sólarhringinn og gjaldið lágt eða ekkert myndi eftirspurnin án efa vera mun meiri og jafnvel mikil. Það ætti að vera kappsmál hjá samgönguyfirvöldum að koma bílum af götu og í þar til gerð bílahús sem allra mest. Upplýsingar til fólks hefur verið ábótavant. Síða bílastæðasjóðs er ekki uppfærð reglulega og er á henni villandi upplýsingar sbr. gjaldskyldu á sunnudegi. Fólk veit oft ekki hvort bílahúsin eru opin að nóttu og hafa bílar því lokast inni yfir nótt fólki til mikillar vandræða. Nýtt aðgangskerfi er væntanleg en fulltrúi Flokks fólksins óttast þó að gjald fyrir stæði í bílahúsið verði svo hátt að ekki sé á færi allra að geyma bílinn sinn í bílastæðahús.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, varðandi rafmagns- og metan bíla

Vísað frá.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Sjá má að Skrifstofa samgöngustjóra hefur leitað grannt eftir haldbærum rökum til að þurfa ekki að flokka rafmagnsbíla sem vistvænan ferðamáta. Það er vistvænum ferðamáta varla til framdráttar að telja bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti á sama plani og bíla sem ganga fyrir rafmagni eða metani. Jarðefnaeldsneyti er sannanlega mengandi, veldur gróðurhúsaáhrifum og kostar okkur sem þjóð umtalsveran gjaldeyri. Hvorki rafmagn né metan valda gróðurhúsaáhrifum.

Rétt er að bílar taka meira pláss en reiðhjól. En stundum er bíll eini mögulegi fararmátinn. Rafmagnsbíll á naglalausum gúmmídekkjum mengar ekkert meira en rafmagnshjól. Það er því rangt að hvetja ekki til notkunar á bílum sem ekki menga umfram bíla sem menga. Meginatriðið er að rafbíll mengar ekki andrúmsloftið. Bílum mun fara fjölgandi enda borgin stækkandi með glæný hverfi t.d. í Úlfarsárdal, Grafarholt. Það er alveg sama hvað barið er hausnum í stein, bílum er ekki að fækka en vonandi verður innan tíðar mest um raf- og metanbíla, tala nú ekki um ef SORPA finnur leiðir til að markaðssetja metan sem ekki hefur tekist hingað til. Mest að sækja í umhverfismálum er að nýta metanið, ekkert nema plúsar, sparar gjaldeyrir og hvað eina. Þetta virðast skipulagsyfirvöld ekki vel sjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Metan er gróðurhúsalofttegund. Sjá: https://is.wikipedia.org/wiki/Gróðurhúsalofttegund

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi umferð í Ármúla

Mál nr. US200305

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um þéttingu byggða í Ármúla, sbr. 34. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 2. september 2020.

Vísað til umsagnar Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um legu Sundabrautar

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um væntanlega legu Sundabrautar og hvenær verði lokið við að skipuleggja legu hennar með þeirri nákvæmni að unnt verði að styðjast við það skipulag þegar fjallað er um næstu verklegar framkvæmdir með fram Sundum. Ekki er spurt um hver beri ábyrgð á framkvæmdinni enda veit fulltrúi Flokks fólksins að það er Vegagerðin. Lega Sundabrautar er skipulagsmál og er því í höndum skipulagsyfirvalda borgarinnar að ákveða.

Til að geta lagt mat á galla og kosti einstakra skipulagshugmynda þarf nákvæm lega Sundabrautar að liggja fyrir allt frá Sundahöfn að Kjalarnesi þannig að verklegar framkvæmdir á svæðinu taki mið af því. Lega brautarinnar og áhrif hennar á svæðið er enn ekki nægilega skýr. Drífa þarf í að fá legu Sundabrautar á hreint.

Vísað til umsagnar Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að umhverfis- og skipulagssvið skoði hvar hentar betur að nota blikkljós sem mæla hraða og vara við ef hraði er of mikill í stað hraðahindrunar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að umhverfis- og skipulagssvið skoði hvar hentar betur að nota blikkljós sem mæla hraða og vara við ef hraði er of mikill í stað hraðahindrunar. Nú liggur fyrir að hraðahindranir eru af ýmsum gerðum í Reykjavík, ekkert er staðlað og ekki eru til íslenskar leiðbeiningar.

Vísað til umsagnar Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að umhverfis- og skipulagssvið búi til íslenskar leiðbeiningar um hraðahindranir og blikkljós sem henta Reykvískri umferð í stað þess að nota norskar eða danskar reglur

Fulltrúi Flokks fólksins leggur jafnfram til að umhverfis- og skipulagssvið búi til íslenskar leiðbeiningar um hraðahindranir og blikkljós sem henta Reykvískri umferð í stað þess að nota norskar eða danskar reglur án mikillar skoðunar hvort þær henti hér í borg. Þessi mál eru í nokkrum ólestri nú. Í Reykjavík eru hraðahindranir stundum þrenging, stundum einstefna þar sem einn og einn bíll fer í gegn í einu. Bungur eru mismunandi. Ómögulegt er fyrir þann sem ekki þekkir götuna að vita hvað bíður, hvernig bunga bíður. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er ekki nóg að setja skilti sem á stendur hraðahindrun þegar þær eru síðan af mismunandi gerðum. Ekki er haldið utan um frávik. Af svari að dæma er óhætt að segja að verkefni sem snúa að hraðahindrunum hafa ekki verið nægjanlega vel unnin af umhverfissviðinu, bretta þarf upp ermar hér.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um Arnarnesveg og fyrirhugaða lagningu hans.

Áformað er að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi, sem yrði 1.3 km. langur þjóðvegur í þéttbýli. Hann er á samgönguáætlun 2021, í samræmi við umhverfismat frá 2003, en síðan hafa forsendurnar breyst mikið. Hér áður fyrr var þessi vegur nefndur Ofanbyggðarvegur á skipulagsuppdráttum.

Fyrri liður: Hver er afstaða Skipulags- og samgönguráðs og Reykjavíkurborgar til lagningar Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi með mislægum gatnamótum við Breiðholtsbraut í nábýli við fyrirhugaðan Vetrargarð skv. nýju hverfisskipulagi í Breiðholti, með fyrirsjáanlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði?

Seinni liður: Telur Reykjavíkurborg lagningu Arnarnesvegar í Vatnsendahvarfi, á mörkum Reykjavíkur og Kópavogs, forgangsverkefni í vegagerð á höfuðborgarsvæðinu miðað við t.d. Sundabraut og Vesturlandsveg á Kjalarnesi?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að kannaðir verði aðrir og mun ódýrari kostir til að liðka fyrir umferð frá Rjúpnavegi og norður á Breiðholtsbraut, svo sem með einfaldari vegartengingu ofar í Vatnsendahvarfi á milli Rjúpnavegar, Tónahvarfs og Breiðholtsbrautar, án mislægra gatnamóta þar. Einnig er lagt til að leyfa akstur slökkvibifreiða á milli Salahverfis í Kópavogi og Seljahverfis í Breiðholti með tengingu úr Jaðarseli neðan Lambasels, en þar er nú fyrirhugað að leyfa umferð strætisvagna.

Greinargerð

Arnarnesvegur mun auka umferð almennt og þá sér í lagi í gegnum íbúabyggð. Þar mun umferð þungra ökutækja í gegnum íbúabyggð aukast mikið, svifryksmengun, hávaði og hætta á alvarlegum umferðarsslysum á þessu svæði mun einnig aukast til muna. Íbúar Breiðholts og fleiri hafa gert athugasemdir á öllum skipulagsstigum við fyrirhugaða legu Arnarnesvegar, um nær 40 ára skeið. Upphaflega var vegurinn hugsaður sem ofanbyggðarvegur en mun nú liggja inn í og á milli hverfa. Enn ríkir óvissa um ákveðna þætti svo sem þörf fyrir mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut, staðsetningu brúar yfir veginn fyrir gangandi og hjólandi fólk, afvötnun á mjög snjóþungu svæði og bæði mengun og hljóðvist í nágrenni vegarins. Mikilvægt er að finna aðrar og umhverfisvænni leiðir til að bæta samgöngur og tengsl á milli efri byggða Kópavogs og Breiðholts án þess að leggja Arnarnesveg skv. núgildandi áformum.

Frestað

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að endurskoðun fari fram á þeim áformum Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og Vegagerðarinnar að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi sem er 1.3 km langur þjóðvegur í þéttbýli á milli Rjúpnavegar í Kópavogi og Breiðholtsbrautar í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fyrirhugaður Arnarnesvegur verði ekki lagður í Vatnsendahvarfi og að nýtt umhverfismat verði gert fyrir vestanvert Vatnsendahvarf.

Vegurinn er á samgönguáætlun 2021 í samræmi við umhverfismat frá 2003 og eru mislæg gatnamót við Breiðholtsbraut á meðal forsendna. Síðan þá hafa flestar forsendur breyst mikið. Vegurinn kæmi til með að valda gríðarlegum landspjöllum á verðmætu útivistarsvæði og þrengja mjög að væntanlegum Vetrargarði skv. nýju hverfisskipulagi Breiðholts. Þá liggur fyrirhugað vegarstæði hærra en aðrir þjóðvegir í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu og þar er mjög snjóþungt. Vvena þess að flestar forsendur þeirrar vegalagningar hafa breyst á síðustu 20 árum þarf að gera nýtt umhverfismat. Íbúar í ofanverðu Breiðholti hafa gert alvarlegar athugasemdir við lagningu Arnarnesvegar í gegnum Vatnsendahvarf allt frá 1983, og svo við umhverfismatið frá 2003. Farið er fram á að nýtt umhverfismat verði gert fyrir vestanvert Vatnsendahvarf vegna breyttra forsendna, með hliðsjón af uppbyggingu Vetrargarðs, og þar með eflingu á grænu útivistarsvæði í Vatnsendahvarfi sem bæði gagnast Reykvíkingum og Kópavogsbúum.

Skipulags- og samgönguráð 9. september 2020

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerðar endurskoðunarnefndar frá 24. ágúst 2020:

Afkoma hefur versnað vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Tekjur hafa dregist saman og útgjöld aukist. Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 3.111 m.kr. aðallega vegna lægri skatttekna af sölu byggingarréttar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel, m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin er illa undirbúin til að mæta áfalli sem þessu, alla vega þegar horft er til skuldastöðunnar. Velferðarsviði er ætlað að skera niður, hagræða, sem er í mótsögn við bréf borgarstjóra þar sem hann segir að varhugavert sé við þessar aðstæður að fara í niðurskurð. Fulltrúi Flokks fólksins vill minna á loforðin í meirihlutasáttmálanum og það lögbundna hlutverk að gæta að velferð borgarbúa ávallt og ekki síst við þær aðstæður sem uppi eru. Hlutverk borgarinnar er að þjónusta alla þá sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Einnig á að hækka gjaldskrár þrátt fyrir að Samband íslenskra sveitarfélaga mælist til að haldið sé aftur að gjaldskrárhækkunum. Afkoma dótturfyrirtækja hefur þess utan versnað til muna. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. sex mánuðum. Í stað þess að greiða niður skuldir í góðæri hefur borgin aukið skuldir.

 

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 2. september 2020:

Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga borgarlínu, Ártúnsholt–Hamraborg var lögð fyrir skipulagsfund 2. september sl. Fulltrúi Flokks fólksins finnst vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu. Hér er átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn. Koma þarf sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Eftir því sem næst er komist liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi enda væri ekki annað boðlegt nú þegar krafa er um orkuskipti hið fyrsta. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn ætti að vera metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar gas- og jarðgerðarstöðin, GAJA, verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta metan, þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta, framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.

 

Bókun Flokks fólksins við 5. lið Embættisafgreiðslna:

Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður með að tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. ágúst 2020, um að gjald fyrir skólamáltíðir verði lækkað hafi verið vísað til skoðunar við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar 2021. Það er afar mikilvægt að þessi tillaga verði skoðuð með opnum huga. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og ætti að vera leiðandi í ákvörðunum sem lúta að bættum hag barna. Tryggasta leiðin til að fullvissa liggi fyrir að ekkert barn sé svangt í skólanum er auðvitað að matur í skóla sé gjaldfrjáls. Flokkur fólksins hefur tvisvar lagt fram þá tillögu en hafði ekki erindi sem erfiði. En nú liggur fyrir tillaga um lækkun gjaldsins og vonast fulltrúi Flokks fólksins að hún komist inn fyrir dyragætt fjárhagsáætlunar og leiði til þess að skólamáltíðir verði lækkaðar. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Skólamáltíðir eru umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 25. júní 2020, um reglur um strætókort til nemenda í grunnskólum Reykjavíkurborgar:

Lögð er fyrir borgarráð tillaga skóla- og frístundasviðs um að afhenda börnum í grunnskólum borgarinnar kort frekar en strætómiða. Staðfest er að ekki verði gerðar neinar frekari breytingar á reglum um skólahverfi, umsókn og innritun í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Áfram verður því skólaakstur aðeins frá skráðu lögheimili. Hvað með börnin sem búa á tveimur heimilum en geta aðeins átt eitt lögheimili þar sem löggjafanum hefur ekki borið gæfa til að gera breytingar í samræmi við þann veruleika sem margir búa við núna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað. Með þennan hóp hefði þurft að gera undantekningu ef vegalengd frá heimili/lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km til að gæta að jafnræði.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 31. ágúst 2020, ásamt kynningu stýrihóps um forgangsröðun íþróttamannvirkja í tengslum við stefnu í íþróttamálum:

Lagðar eru fram í borgarráði niðurstöður stýrihóps um forgangsröðun mannvirkja vegna stefnu í íþróttamálum til 2030. Á listanum eru framtíðarmannvirki röðuð eftir félags- og fjármálaskorum. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar nú ekkert að fjölyrða um áreiðanleika þessarar aðferðarfræði sem hér er notuð. En ef reisa á fimleikahús á hiklaust að reisa það í hverfi 111 í Breiðholti, hús sem rúmar flestar íþróttagreinar og mikilvægt er að það verði í nafni Leiknis. Þar með er Leiknir orðið hverfisfélag fyrir hverfi 111 og sannarlega kominn tími til að svo verði. Yfirvöld í borginni verða að styðja betur við Leikni og það frábæra starf sem unnið er í hverfinu. Í þessu hverfi býr hæsta hlutfall fátæks fólks og hæsta hlutfall erlendra borgara. Nú er verið að ljúka við knatthús í Suður-Mjódd sem nýtist hverfi 111 lítið sem ekkert. Spurning er einnig með að ljúka tengibyggingu fyrir keiludeild ÍR sem er öflug deild. Borgin greiðir 32 milljónir á ári í brautarleigu í Egilshöll í staðinn fyrir að klára bygginguna með salnum fyrir rúmar 100 milljónir (held að það séu 120), sem mun borga sig upp á nokkrum árum. Þá er einnig möguleiki á að styrkja starfið og auglýsa það betur innan hverfis (Breiðholtið).

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur:

Lagt er til að skóla- og frístundaráð í samvinnu við mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð, mannréttindaskrifstofu og velferðarráð beiti sér sérstaklega fyrir hagsmunum erlendra barna í leik- og grunnskólum Reykjavíkur. Huga þarf að þessum hópi út frá stöðu þeirra í skóla- og frístundakerfinu, félagslega og ekki síst námslega s.s. námsgreinar sem snúa að lestrar- og íslenskukennslu. Skortur er á almennum úrræðum og fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn í leik- og grunnskólum. Staða margra þessara barna er slæm og hætta er á að þau einangrist. Árið 2014 var settur af stað hópur af skóla- og frístundaráði sem hafði það hlutverk að móta stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf. Í stefnu um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf eru ýmsar tillögur og ábendingar en óljóst er hvað af þessum tillögum/ábendingum hafa komist í framkvæmd. Lagt er því til að fagráð borgarinnar sameinist um að beita sér í málaflokknum til að bæta líðan, aðstöðu og utanumhald erlendra barna í leik- og grunnskólum borgarinnar. R20090033

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarráð 3. september 2020

Bókun Flokks fólksins liðnum: Fyrsti áfangi borgarlínu, Ártúnsholt – Hamraborg

Umsögn um tillögu að matsáætlun fyrsta áfanga Borgarlínu, Ártúnsholt – Hamraborg. Það virðist vera óvissa um samgöngur til og frá borgarlínu og er hér átt við tengsl við aðrar samgönguleiðir og hverjar þær eiga helst að vera. Hver verður fjöldi bílastæða við borgarlínu? Búast má við að margir munu koma akandi að borgarlínu og geyma bíl sinn við stöðina yfir daginn. Það þarf almennt að huga vel að samgönguháttum með tilliti til breytinga sem þarf á öðrum samgönguleiðum en borgarlínunni. Einnig þarf að koma sem fyrst með áætlun um hvernig orkugjafar eiga að vera. Metanvagnar, rafmagnsvagnar á rafhlöðum eða sítengdir vagnar við rafmagnslínu. Allt slíkt hefur áhrif á hávaða frá borgarlínunni svo og útblástur og svifryk. Þetta eru svona þættir sem margir borgarbúar eru að velta fyrir sér. Það liggur þó fyrir að orkugjafinn á að vera vistvænn, innlendur orkugjafi eftir því sem fram hefur komið hjá skipulagsyfirvöldum. Fulltrúi Flokks fólksins myndi ætla að orkugjafinn verði metan þar sem ofgnótt er til af því á söfnunarstað og verður meira þegar GAJA verður orðin virk. Það væri ánægjulegt ef lagst yrði á eitt um að nýta þennan vistvæna, innlenda orkugjafa sem SORPA, fyrirtæki í eigu Reykvíkinga af stærstum hluta framleiðir. Metan er nú brennt á báli, sóað þar sem ekki hefur tekist að koma því á markað.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Umferðaröryggi við Selvogsgrunn

Beiðni er lögð fram frá íbúum í Laugardalnum um að Selvogsgrunni verði lokað við Brúarveg. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta sé af hinu góða svo fremi sem gott rými er í götunni. Ef meirihluti íbúa telja mikilvægt að prófa þetta í tilraunaskyni á hiklaust að samþykkja það. Fulltrúi Flokks fólksins styður þess beiðni.


Lögð er fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvað stöðvun á framkvæmdum fráreinar af Bústaðarvegi inn á Kringlumýrarbraut til suðurs hafi kostað borgina. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa dags. 28. ágúst 2020.

Ekki er gerð bókun í þessu máli en hér kemur svar frá skipulagsyfirvöldum:

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu vegna kynningu á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt um fjölgun viðverudaga,  að komið verði upp sérstökum ábendingarhnappi á vefsíðu Reykjavíkur og símanúmeri  og að haldnir verði íbúaráðsfundir þegar COVID leyfir

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Bókun:
Tillögum Flokks fólksins um að auka aðgengi Breiðhyltinga að skipulagsyfirvöldum vegna hverfisskipulags Breiðholts hefur verið felld. Skipulagsyfirvöld telja ekki þörf á fjölgun viðveru eða frekari fundum þar sem mikil þátttaka hefur verið í samráðsferli. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að viðverudögum verði fjölgað í Mjódd og Gerðubergi vegna COVID ástandsins. Einnig fannst Flokki fólksins mikilvægt að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari svo hægt er að halda almennilega íbúaráðsfundir í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi af ótta við smit. Sumir eru einnig í sóttkví og einangrun vegna COVID. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri til að kynna sér hugmyndirnar og koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti. Með því að fella þessa tillögu er verið að loka fyrir þann möguleika að það fólk sem er fast heima vegna COVID geti komið til skrafs og ráðagerðar. Fyrir þá sem eru fastir heima þeim þarf að bjóða aðrar leiðir til að fá kynningu og koma ábendingum sínum á framfæri. Vel má hugsa sér að starfsmaður fari í heimsóknir til fólks sem óska eftir að ræða málin.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil þátttaka hefur verið í samráðsferli sem sést bæði á mætingu í Mjódd og Gerðuberg, áhorf á streymisfundi og mætingu í hverfisgöngur. Ekki er talin þörf á að ráðið handstýri því hvaða starfsmaður mæti hvert og hvenær með þeim hætti sem tillagan leggur til.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts

Tillaga Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts hefur verið vísað frá. Það er miður. Hér er ekki verið að biðja um að ráðið taki afstöðu til einstakra hugmynda heldur frekar að skipulagsyfirvöld verði enn meðvitaðri um hvar áhyggjur fólks liggja einna helst. Bílatæðamálin liggja þungt á stórum hópi Breiðhyltinga. Nú þegar er skortur á bílastæðum víða í Breiðholti og eftir því sem best er séð þá leiðir þetta nýja hverfisskipulag til enn meiri vandræða í þessum efni. Þetta vita þeir sem staðið hafa vaktina í Gerðubergi og Mjódd. Spurning er hvort skipulagsyfirvöld munu taka á þessum ábendingum mark, gera eitthvað með þær, reyna að virða óskir hverfisbúa?

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Allar tillögur og uppástungur verða teknar til skoðunar og þeim svarað. Hins vegar er ekki rétt að ráðið að taki afstöðu til einstaka hugmynda meðan hverfisskipulagið er enn í vinnslu.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að fá skóla og stofnanir í hverfið

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að skoðað ákveðnar nýjungar í Breiðholti hefur verið vísað frá. Lagt var til að skoða möguleikann á því að fá fleiri skóla í hverfið t.d. Listaháskólann fluttan í Breiðholtið í stað þess að hrúga öllum háskólum á sama blettinn í Vatnsmýrinni; að skoða nánar hugmyndir um skrúð- eða lystigarði í efra Breiðholti og skoða flutning opinberra stofnana í hverfið. Fulltrúi Flokks fólksins er hissa á þessum viðbrögðum skipulagsyfirvalda. Er ekki verið að biðja um ábendingar og tillögur? Síðan þegar fulltrúi Flokks fólksins og íbúi í Breiðholti kemur með þær er þeim hafnað! Hér eru tillögur sem vert er að skoða. Það er sjálfsagt að dreifa bæði skólum og fyrirtækjum um borgina til að létta á álagi á ákveðnum stöðum ekki síst í umferðinni.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Hverfisskipulagið er í vinnslu. Það væri óeðlilegt ef ráðið myndi á þessu stigi málsins taka upp nokkrar hugmyndir sem fram hafa komið í samráðsferlinu og hampað sem sínum. Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi og göngutúrar um hverfið

Nú er verið að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi og göngutúrar um hverfið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið með skipulagsyfirvöldum. Óskað er einnig upplýsinga um fjölda ábendinga sem hafa borist og að þær verði flokkaðar eftir innihaldi. Loks er spurt um aldursskiptingu þeirra sem komu á viðverufundina og í göngutúrana.

Vísað til umsagnar umhverfis og skipulagssviðs, Skrifstofu skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um viðhald gatna í Þingholtsstræti og nágrenni

Í gangi hafa verið framkvæmdir í Þingholtsstræti og nágrenni. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um verkefnastöðu á málningu gatna/bílastæða í miðbænum t.d. við Þingholtsstræti, og að minnsta kosti hluta Bókhlöðustígs og Skálholtsstígs. Hvenær hófst verkið og hvenær voru áætluð verklok?
Hver er staða viðhalds, vatnsræsingar og viðgerðar í Þingholtsstrætinu og næsta nágrennis?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um afgreiðslu erinda hjá skipulagsyfirvöldum borgarinnar

Það hefur nokkuð borið á því að fólk er ekki að ná sambandi við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborg þegar það vill koma áleiðis sem dæmi ábendingum, er með fyrirspurnir eða önnur erindi. Þá hefur borið á því stundum að hver vísar á annan, skeytum ekki svarað fyrr en seint um síðir og enn síður nær fólk í gegn með símtali. Skipulagskerfi borgarinnar er orðið nokkuð stórt bákn og virkar stundum eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki standi til að gera á þessu bragarbót?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að vinnureglu þess efnis að erindum sé svarað samdægurs

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að auka skilvirkni í afgreiðslu erinda frá borgarbúum hefur verið vísað frá. Lagt var til að starfs- og embættismenn sem og kjörnir fulltrúar meirihlutans í skipulagsráði geri það að vinnureglu sinni að ljúka ekki vinnudegi sínum fyrr en búið er að bregðast með einum eða öðrum hætti við innkomnum skeytum/skilaboðum sem borist hafa hefur verið vísað frá. Hér er ekki átt við að öll erindi fái fullnaðarafgreiðslur strax enda slíkt ekki raunhæft heldur að þeim sem sent hafa skeyti eða skilaboð verði svarað sem dæmi: „erindið er móttekið/málið er í skoðun/ haft verður samband hið fyrsta“, eða eitthvað á þessa leið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram þessa tillögu sökum þess að nokkuð hefur borið á kvörtunum um að illa gangi að ná sambandi við skipulagsyfirvöld. Allt of oft stígur fólk fram og segist ekki ná neinu sambandi við skipulagsyfirvöld. Í meirihlutasáttmála þessarar borgarstjórnar kom skýrt fram að bæta átti þjónustu, auka lýðræði og allt skyldi verða gegnsærra. Hafa þarf sífellt í huga að borgarbúar eiga að koma fyrst. Starfsmenn og kjörnir fulltrúar eru öll í vinnu hjá borgarbúum og eigum að þjónusta hvern og einn sem allra best.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu

Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillögu Flokks fólksins um að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu hefur verið vísað frá. Telur fulltrúi Flokks fólksins það vera á skjön við það sem lofað var í sáttmála þessa meirihluta en þar er margtalað um aðgengi, að borgarbúar hafi gott aðgengi að borgarkerfinu og embættis- og starfsmönnum. Aðgengi er ekki gott og það er ástæðan fyrir þessari tillögu. Eins og staðan er nú er borgarbúum boðið upp á að hringja í eitt miðlægt símanúmer til að ná í starfsmenn. Þetta hefur ekki alltaf gengið vel. Leggja þarf áherslu á að borgarbúar hafi greiðan aðgang að embættis- og starfsmönnum allra sviða borgarinnar. Fyrsta skrefið er að hafa netföng og símanúmer sýnileg og aðgengileg. Hvað er sjálfsagðra en að hafa upplýsingar um netföng og símanúmer starfsmanna og embættismanna aðgengilegt á netinu? Fulltrúi Flokks fólksins vill að borgarbúar geti sent skeyti og helst hringt beint í viðkomandi starfsmann. Hvorki kjörnir fulltrúar né starfsmenn eiga að vera settir í bómull þegar kemur að aðgengi að þeim.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarar eiga rétt að hafa samband við stjórnvöld, það eru margar leiðir til að tryggja þann rétt með skilvirkari hætti en þeim að hver og einn geti öllum stundum hringt í hvaða starfsmann borgarinnar sem er. Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvaða hugmyndir í hverfisskipulagi Breiðholts hafi komið frá  íbúum

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá það sundurliðað hvaða hugmyndir sem birtar eru í vinnutillögum nýs hverfisskipulags Breiðholts komu frá íbúum sjálfum og hvaða tillögur komu frá borgar- og skipulagsyfirvöldum eða öðrum?
Var það t.d. ósk íbúa Breiðholts að svo mikil þétting byggðar yrði?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skipulagsfulltrúa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um reglur um sleppistæði,

Fyrirspurnir framhaldi af svari skipulagsyfirvalda við fyrirspurn Flokks fólksins um stæði- og sleppistæði við leik- og grunnskóla. Í svari var vísað í reglur sem skipulag- og samgönguráð samþykkti 19. desember 2018. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík er fylgt til hins ítrasta. Einnig er spurt hvort það standi til hjá skipulags- og samgönguyfirvöldum að breyta þessum reglum næsta árið í þá átt að fækkað verði enn frekar bílastæðum og sleppistæðum við einhverja leik-, grunnskóla og frístundarheimili? Stendur það til hjá skipulagsyfirvöldum að setja gjaldskyldu á þau stæði önnur en sleppistæði sem nú eru til staðar fyrir framan leik- og grunnskóla og frístundaheimili?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um vistgötu á Norðurstíg

Skipulagsyfirvöld leggja til og hafa hafið framkvæmdir á að gera Norðurstíg og Nýlendugötu austan Ægisgötu að vistgötum sem þýðir að bílar eru aftast í forgangi. Hraði hjóla, hjólaskauta eða hjólabretta miðast við gönguhraða. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaðan þessi hugmynd kemur. Er þetta gert að ósk íbúa og vegfarenda eða er þetta einungis persónulegar ákvarðanir skipulagsfulltrúa? Hvernig var samráði háttað? Hér er enn og aftur spurt um samráð við fólkið í borginni en ekki stafkrókur um slíkt er að finna í framlagningu gagna sem er í formi tilkynningar fremur en tillögu.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, varðandi umferð í Ármúla

Þar sem fjöldi verslana og fyrirtækja hefur flutt í Ármúlann undanfarin ár er umferð orðin töluvert mikil um götuna. Umferð hefur aukist vegna t.d. lokana í miðbænum og þrenginga á Grensásveg. Í skipulagslýsingu sem lögð var fram í ágúst 2019 eru fyrirhugaðar breytingar tilgreindar. Í þeim felst að þétta byggð og eiga allt að 450 íbúðir og atvinnuhúsnæði rísi t.d. á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að þarna verði mikil þrengsli þar sem umferð af alls kyns tagi mun aukast ekki síst vegna lokana í miðbænum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvaða áhrif breytingar á lóðinni Suðurlandsbraut 34/Ármúli 31 muni hafa á umferð og rými vegfarenda? Eftir lokun miðbæjarins hefur umferð aukist mjög á þessu svæði, Ármúla og einnig Hallarmúla. Fulltrúa Flokks fólksins hafa einnig borist upplýsingar um að Reykjavíkurborg áformi breytingar á Ármúlanum ofar í götunni, á milli Vegmúla og Selmúla og að hæðarmælingar og annar undirbúningur hafi farið fram. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvaða breytingar séu fyrirhugaðar á þessum hluta Ármúla af hálfu skipulagsyfirvalda?

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 2. september 2020

Velferðarráð leggur fram tillögu að óska eftir viðræðum við Félagsmálaráðuneytið á grundvelli þeirrar samningsfyrirmyndar sem kynnt var á fundinum

Velferðarráð felur velferðarsviði að óska eftir viðræðum við Félagsmálaráðuneytið á grundvelli þeirrar samningsfyrirmyndar sem kynnt var á fundinum. Ráðið telur mjög mikilvægt að tekið verði ríkara tillit til þjónustuþátta eins og húsnæðismála, ráðgjafar og þjónustu vegna barna og unglinga, s.s. þjónustu skóla- og frístundasviðs, íþrótta- og tómastundasviðs, barnaverndar og ráðgjafa á þjónustumiðstöðvum. Velferðarráð minnir á mikilvægi þess að taka vel á móti öllum nýjum íbúum borgarinnar og þá sérstaklega umsækjendum um alþjóðlega vernd sem setjast að í Reykjavík og tryggja farsæla móttökuþjónustu og stuðla að velferð einstaklinga og fjölskyldna og aðstoð við félagslega þátttöku. Samanber stefnu Reykjavíkurborgar í málefnum innflytjenda, flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Enn fremur telur velferðarráð mikilvægt að samningurinn verði afturvirkur frá 1. janúar 2020, hið minnsta.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst afar mikilvægt að áfram verði starfrækt úrræðið Brim fyrir heimilislausar konur. Skýlið var sett á laggirnar sem viðbragð við Covid-19 þar sem ljóst var að ekki var hægt að virða tveggja metra reglu í Konukoti. Hætt var við lokun þegar smitum tók að fjölga aftur. Til stendur að bjóða þeim sem þar eru núna sjálfstæða búsetu samkvæmt „housing first“.  Hugmyndafræðin „housing first“ felur í sér fjölbreytt heimilisúrræði s.s neyðarskýli, áfangaheimili, búsetukjarna, smáhýsi eða eigin íbúð, með mjög miklum stuðningi, yfir í sjálfstæða búsetu. Markmiðið til lengri tíma er að fólk eignist sitt eigið heimili.  Úrræðið Brim hefur þá sérstöðu að starfsfólk er á vakt allan sólarhringinn og hentar það sumum betur þegar tekin eru fyrstu skrefin frá því að vera heimilislaus yfir í að eignast heimili.

 

Bókun Flokks fólksins við drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2021-2025.
Bókun færð í trúnaðarbók

 

Bókun Flokks fólksins við drög að gjaldskrám velferðarsviðs 2020 fyrir þjónustu á vegum Reykjavíkurborgar.
Bókun færð í trúnaðarbók

Velferðarráð 2. september

Óundirbúnar fyrirspurnir
Fyrirspurn Flokks fólksins:

Löngu fyrir Covid og þau efnahagslegu áföll sem faraldurinn hefur leitt af sér voru borgarbúar farnir að taka eftir hnökrum í þjónustu borgarinnar. Biðlistar eftir þjónustu hafa um áraraðir verið alltof langir. Nú horfir fram á skertar tekjur borgarinnar ásamt aukinni þörf borgarbúa fyrir aðstoð. Það er öllum augljóst að átaks er þörf til að koma í veg fyrir að biðlistar eftir þjónustu lengist til muna og í kjölfarið þarf að stytta þá í eðlilegt horf.

Hefur borgarstjóri og hans fólk áhuga á að ráðast í slíkt átak? Ef svo, hvernig telur borgarstjóri best að ráða bót á vandanum?

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagsyfirvöld kynni sér starfshætti hjá fleiri þjóðum varðandi myglu og rakaskemmdir

Tillaga Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagsráð/svið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti hjá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun. Einnig eru þau notuð til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

Greinargerð:

Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangrar vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litlum loftgæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfsfólk hafa kvartað yfir slappleika, höfuðverk, auknu mígreni og annarri vanlíðan vegna ástandsins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hafi verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fulltrúar umhverfismála borgarinnar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks á undan og á meðan framkvæmdatíma stendur auk þess að geta minnkað kostnað.
Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar borgarinnar á þessu sviði þurfa endilega að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstaka verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem virðast skila árangri og kosta minna.

Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Markmiðið hjá Flokki fólksins er að borgaryfirvöld leiti allra leiða til að finna bestu og hagkvæmustu leiðirnar í aðgerðum gegn myglu og raka í skólabyggingum. Margir hafa glímt við veikindi vegna vanrækslu meirihlutans á að viðhalda byggingum með eðlilegum hætti. Rökin fyrir frávísun eru að sérfræðingar borgarinnar viti þetta allt. Engu að síður kemur fram í framsögu formanns umhverfis- og heilbrigðisráðs að sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur. Tillögunni er því vísað frá. Halda mætti að tillagan ógni einhverjum eða einhverju. Hefur eitthvað fyrirtæki sem borgin skiptir við setið eitt að kjötkötlunum í aðgerðum gegn raka- og myglu? Ef talið er að fyrirtæki sé ógnað með tillögu Flokks fólksins má spyrja hvort það fyrirtæki teljist óháður aðili til að meta myglu- og rakaskemmdir þar sem að það í framhaldi fær vinnu við hönnun mannvirkja sem þarf að breyta vegna rakaskemmda. Eftir situr að umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld virðast ekki spennt fyrir að nota öflugan viðurkenndan loftefnahreinsibúnaður til að bæta ástand á meðan beðið er eftir viðgerðum og meðan á viðgerðum stendur.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðhæfir í bókun sinni að formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs hafi sagt í ræðu að „… sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur.“ Þetta er rangt með farið. Formaðurinn sagði hins vegar réttilega að notast er við staðlaðar aðferðir á landsvísu og að þessar samræmdu leiðbeiningar byggi á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar. Eins kom fram í sömu ræðu að séu notuð einhvers konar tæki þá sé það gert í samráði og samtali fagfólks á sviðinu sem eru í þéttu samstarfi við kollega sína víða um heim og hefur sérþekkingu á loftgæðamálum. Formaðurinn margumtalaði í bókun Flokks fólksins talaði hins vegar aldrei um nein fyrirtæki sem borgin skiptir við í störfum sínum enda átti slík umræða ekkert erindi í umfjöllun um þessa tillögu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er ekki rétt það sem meirihlutinn segir í gagnbókun sinni, en hún nefndi sérstaklega í andsvari sínu hvað aðferðir sérfræðingar borgarinnar notast við og það var ekki sú aðferð sem lögð er til að sérfræðingar borgarinnar kynni sér heldur eitthvað allt annað.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ef raki eða leki kemur upp er fyrst og fremst farið í það að uppræta orsökina, fjarlægja mögulega skemmt byggingarefni og þrífa. Á vef Reykjavíkur eru gefnar leiðbeiningar um hvernig fólk og fyrirtæki geti skoðað húsnæði sitt bæði fyrir rekstraraðila og einkaaðila sem og heimili. Um þetta verklag gilda samræmdar leiðbeiningar Umhverfisstofnunar á landsvísu sem eru byggðar á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hjá Heilbrigðiseftirlitinu starfar fagfólk í m.a. loftgæðamálum og er það í nánu samstarfi við erlendar eftirlitsstofnanir og kollega sína og sinnir símenntun sinni og störfum af alúð og fagmennsku. Tillaga Flokks fólksins bætir engu við það verklag eða störf þeirra sem sinna loftgæðamálum í borginni. Henni er því vísað frá.

 

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að öll börn fái sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum
Tillögunni er frestað

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. Til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög. Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16. júní sl. þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að Reykjavíkurborg taki þátt í að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf.

Tillaga um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. borgarlínu er lögð fram af meirihlutanum. Uppbygging á samgönguinnviðum er vissulega brýnt verkefni. Í þessu félagi hins vegar verða stjórnendur ekki fulltrúar kjósenda. Nokkra þætti í þessum sáttmála styður Flokkur fólksins ekki. Álagning veggjalda er röng og óttast er að meirihlutinn nýti sér veggjöld til að hamla notkun fjölskyldubílsins og refsa þeim sem kjósa bíl sem aðal ferðamáta. Það eru aðrar leiðir til en að setja á veggjöld. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur rökstutt vel að lestur á kílómetrastöðu bíls við árlega skoðun sé ódýr kostur ef leggja þarf gjald á akstur. Í sáttmálanum er ekki hugsað til viðkvæmustu hópanna, efnaminna fólks. Áhyggjuefni er að þétting byggðar meðfram borgarlínu þrengi að grænum svæðum borgarinnar þótt finna megi staði sem sannlega mætti þétta. Tillögur að hverfisskipulagi í Breiðholti bera þessu merki en þar á að byggja 3000 íbúðir á kostnað grænna svæða og bílastæða. Bílastæði eiga almennt ekki að fylgja nýjum íbúðum sem dregur úr eftirspurn. Ef sveitarfélög þurfa að gera sáttmála um fjölmörg atriði eiga þau þá ekki frekar að sameinast? En þangað til þarf að tryggja íbúum ríka aðkomu og gefa kjörnum minnihlutafulltrúum kost á að greiða atkvæði í stórum málum.

 

Bókun Flokks fólksins við 18.-20. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að viðaukar undir lið 12 yrðu bornir upp í sitthvoru lagi þar sem sumir snúa beint að þörfum fólks en aðrir að skreytingum torga. Ekki var orðið við því. Fulltrúi Flokks fólksins styður þá þætti sem lúta að hækkun fjárheimilda til skóla- og velferðarmála. Grynnka verður á biðlistum barna til fagaðila með því að fjölga fagaðilum. Til að skapa atvinnu ætti að hækka fjárheimildir til fasteignaverkefna eins og viðhald skóla og annarra fasteignaverkefna sem snúa beint að grunnþáttum og þjónustu við borgarbúa. Meirihlutinn vill hins vegar setja framkvæmdir við Þingholt-torg efst á lista og hækkar fjárfestingaheimildina um 20 m.kr. Afkoma borgarinnar hefur versnað stórum vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin var engan vegin nógu vel undirbúin til að mæta áfalli sem COVID-19 er alla vega ekki þegar horft er til skuldastöðunnar. Afkoma dótturfyrirtækja hefur auk þess versnað. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. 6 mánuðum. Af hverju hefur borgin ekki notað góðæri til að greiða niður skuldir í stað þess að auka þær?

 

Bókun Flokks fólksins við 13. lið í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst:

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs var lögð fram skýrsla: Tillögur að aðgerðum gegn matarsóun, dags. júní 2020. Ýmsar framtíðartillögur voru kynntar og tiltekið á hvers ábyrgð þær myndu vera, stjórnvalda eða atvinnulífsins. Framtíðartillögurnar hefði mátt greina nánar, hvað væri t.d. á könnu sveitarfélaganna. Skólar eru á ábyrgð sveitarafélaga og þegar kemur að baráttunni við „matarsóun“ þá er ótal margt sem skólar og börnin vilja gera. Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Virkja ætti öll leik- og grunnskólabörn með því t.d. að bjóða þeim að skammta sér sjálf þegar þau hafa aldur og þroska til og skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa. Í sumum skólum er þetta í boði og sumir skólar eru einnig Grænfánaskólar. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skóla í Reykjavík yrðu Grænfánaskólar og hvernig stemma megi stigu við matarsóun. Tillögunni var hafnað. Í framtíðartillögum skýrslunar sem hér um ræðir hefði mátt leggja meiri áherslu á þátt barnanna. Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera.

Borgarstjórn 1. september 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um móttöku vegna samgöngusáttmála:

Nú liggur fyrir hvaða fyrirmenn og konur sóttu kvöldverð sem kostaði rúma hálfa milljón þann 1. nóvember sl. í Höfða í tilefni af samgöngusáttmála? Alls voru boðsgestir 35. Ýmsum var boðið til veislunnar þ.m.t. aðstoðarmanni borgarstjóra en ekki einum einasta var boðið úr minnihluta borgarstjórnar. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig því dómgreindarleysi sem þarna átti sér stað, að bjóða til veislu sem þessarar þar sem borðað var og drukkið fyrir rúma hálfa milljón. Borgarlína á eftir að kosta borgarbúa nógu mikið þótt ekki sé verið að bæta ofan á kostnaði sem þessum. Fulltrúa Flokks fólksins er ekki að segja að fólk megi ekki fagna en þarna hefði t.d. fólk vel getað greitt drykki/áfengi úr eigin vasa. Ekkert af þessu fólki er á vonarvöl og hefði það því vel geta greitt fyrir sína drykki sjálft.

Forsætisnefnd 28. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við lið 50 og 53 við fundargerð skipulags- samgönguráðs 26. 8. vegna ábendinga sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um.

Tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði strax þær ábendingar sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um m.a. á samfélagsmiðlum hefur verið felld. Flestir virðast hafa áhyggjur af hvert stefnir í bílastæðismálum en víða er nú þegar skortur á þeim. Opnað er fyrir möguleika á að byggja 3000 íbúðir án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Íbúaeign án bílastæðis er ekki eins söluvæn og fylgdi henni bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að með því að fella þessa tillögu séu það merki um að skipulagsyfirvöld ætli ekki að taka þessum ábendingum alvarlega. Jafnvel þótt heilu fjölskyldurnar muni fara um á hjólum þá fá flestir stundum til sín gesti. Í stað þess að sýna slíka stífni þegar kemur að einkabílnum væri nær að skipulagsyfirvöld styddu fólk með ýmsum hætti til að skipta yfir í raf- eða metanbíl. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun fólk nota bíl áfram. Koma þarf börnum í leik- og grunnskóla ásamt að sinna öðrum erindum. Sumir verða að fara á bíl í vinnu og til að komast á borgarlínustöð. Tillaga Flokks fólksins um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti var einnig felld.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs, dags. 18. ágúst 2020, liður 5

Á fundi skóla- og frístundaráðs var gerð breytingartillaga við tillögu Flokks fólksins um að skóla og frístundaráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Segir í bókun meirihlutans að ekki hafi verið hægt að samþykkja tillöguna þar sem í upprunalega tillögutextanum eru athugasemdir um núverandi stöðu á fræðslu sem ekki er hægt að taka undir. Ekki er hægt að skilja af hverju skólayfirvöld setja það fyrir sig að í tillögu Flokks fólksins sé hvatt til að auka fræðslu til að tryggja umferðaröryggi telji sig þess vegna ekki geta samþykkt tillöguna. Að öðru leyti er tillagan samþykkt, þ.e. lögð fram sem breytingartillaga og er því nú í nafni meirihlutans en ekki lengur Flokks fólksins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur margtjáð sig um hvað þessi vinnubrögð eru hvimleið og hvati til sundrungar frekar en samvinnu. Til að loka fyrir samvinnu er ýmist brugðið á það ráð að finna að orðalagi tillagna eða vísað til reglna í stjórnkerfi borgarinnar. Skilaboðin hljóta einfaldlega að vera þau að meirihlutanum finnst erfitt að góðar tillögur frá Flokki fólksins séu ekki í nafni hans sjálfs. Þessu er vel hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst 2020 undir lið 7

Borist hefur svar frá framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits borgarinnar við tillögu Flokks fólksins að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Margsinnis hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um hvernig þessum gjöldum er varið í ljósi fækkun verkefna. Fram kemur hjá framkvæmdarstjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að búið er að senda út innheimtuseðla fyrir hundaeftirlitsgjaldi 2020. Í svari er vísað í tölur heilbrigðiðseftirlits Reykjavíkur sem sýnir glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Ekki er því skilið hvernig það má vera að þörf sé á að innheimta sama gjald og þegar verkefnin voru fleiri. Fulltrúi Flokks fólksins vill taka fram að hann er að vinna fyrir stóran hóp dýraeigenda sem kallar eftir skýringum þar sem útilokað er að sjá hvernig hundaeftirlitsgjaldið er nýtt í þágu dýraeigendanna og hunda þeirra. Sífellt er einnig ýjað að því að einhverjar órökstuddar staðhæfingar séu í fyrirspurnum og tillögum fulltrúa Flokks fólksins. Vísað er í heimasíðu heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og sagt að allar upplýsingar séu þar. En það er sama hvaða reikningskúnstir eru notaða þá skýrir það ekki af hverju gjaldið hafi ekki verið lækkað umtalsvert eða lagt af.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð velferðarráðs frá 19. ágúst 2020 undir 25. – 28. liðum fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði.

Hvatinn að gerð tillagnanna voru fréttir um að matarsending til eldri borgara hefði verið skilin eftir á hurðarhúni. Ljóst er að breyta verður verkferlum við matarsendingar og hlutverki sendils til draga úr hættu á misskilningi milli þjónustuveitanda og þjónustuþega. Útvíkka þarf einnig ákveðna þjónustuþætti og bæta fleirum við þann þjónustupakka sem nú býðst þessum hópi til að auka möguleikana á að geta búið lengur heima. Létta þarf fjárhagslega undir með mörgum eldri borgurum. Lagt var til að þeir sem búa í öðru húsnæði en þjónustuíbúð ættu að fá niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð s.s. rafmagn, húsgjald og þrif í görðum. Einnig var lagt til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnað við öryggishnapp. Rök fyrir að fella þá tillögu var að „að það sé varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytis sé óþörf“.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra varðandi þriggja ára tilraunaverkefni um frístundir í Breiðholti, ásamt fylgiskjölum.

Fulltrúi Flokks fólksins hefur barist lengi fyrir að frístundakortið verði notað samkvæmt sínu upphaflega tilgangi en ekki til að greiða með frístundaheimili eða setja upp í skuld foreldra sem þarfnast fjárhagsaðstoðar fyrir börn sín. Þessi og síðasti meirihluti hafa gengisfellt frístundakortið og höfðu þar með af fátækum börnum tækifæri til að velja sér tómstund og námskeið. Þess utan voru skilyrði fyrir að nota kortið óraunhæf fyrir mörg börn og foreldra. Námskeið þurfti að vera heilar 10 vikur til að hægt væri að nota kortið. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að greiða mismuninn. Nánast öllum tillögum Flokks fólksins um lagfæringar var hafnað. Settur var á laggirnar stýrihópur til að endurskoða reglur um frístundakortið en sá hópur hefur enn ekki skilað niðurstöðum. Nú fyrst á að gera bragarbót og er lagt til að sett verði á laggirnar verkefnið „Frístundir í Breiðholti“ sem þriggja ára tilraunaverkefna. Eins og marg sinnis kom fram í tillögum Flokks fólksins er þátttaka í íþrótta- og frístundastarfi og nýting frístundakorts í hverfi 111 í Breiðholti lægri en í öðrum hverfum. Flokkur fólksins barðist í á annað ár fyrir jafna þennan mun því að í þessu hverfi búa flest börn af erlendum uppruna og börn sem búa við fátækt.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að samþykkt verði að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf., um uppbyggingu samgönguinnviða með aðild ríkissjóðs og nágrannasveitarfélaganna:

Tillaga liggur fyrir um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu Betri samgöngur ohf. Tilgangur félagsins er sagður vera að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. fjármögnun á borgarlínu. Ekki er betur séð en að þetta félag verði sömu annmörkum háð og byggðasamlög. Reynslan hefur sýnt að þetta form er ekki heppilegt form. En auðvitað getur þetta gengið vel, en í kerfi sem þessu er auðvelt að fela mistök og stjórnendur eru ekki fulltrúar kjósenda. Er þetta ekki frekar tilefni fyrir sveitarfélögin að sameinast? Öll vitum við að aðkoma eigenda er ekki nógu góð að svona kerfi og minnihlutafulltrúar eru með öllu áhrifalausir. Þetta hefur verið margrætt og Flokkur fólksins hefur verið með tillögur til úrbóta en engum úrbótum hefur verið hrint í framkvæmd. Reykjavík sem stærsti hluthafinn mun alltaf koma illa út úr þessu sér í lagi ef mistök verða eða eitthvað klúður sbr. sjá mátti hjá SORPU bs. Ókostir samkrulls eins og þessa komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mestu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum borgarinnar verði lækkað. Nú eiga margir foreldrar um sárt að binda vegna COVID, margir hafa misst vinnuna. Ljóst er að skóla- og frístundayfirvöld ætla ekki að bjóða börnum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir á þessu kjörtímabili. Tillaga þess efnis hefur verið lögð a.m.k. tvisvar fram og hefur henni verið hafnað jafn oft. Gjald skólamáltíða í Reykjavík er í dýrari kantinum ef samanborið við sum önnur sveitarfélög. Í Reykjavík greiða foreldrar jafnaðargjald 10.050 krónur sem þýðir að hver máltíð kostar 528 krónur en verð á hverri máltíð rokkar milli mánaða. Eins og fram kom í Fréttablaðinu 26.ágúst sl. þá eru skólamáltíðir umtalsvert ódýrari á landsbyggðinni. Á Akranesi kosta þær 379 krónur, 315 á Hornafirði og aðeins 150 krónur í Fjarðabyggð. Sums staðar eru þær algerlega gjaldfrjálsar, til dæmis í Rangárþingi ytra. Reykjavík sem stærsta og öflugasta sveitarfélag landsins getur ekki verið þekkt fyrir að gera ekki betur en önnur smærri sveitarfélög fyrir foreldra skólabarna og hvetur fulltrúi Flokks fólksins skóla- og frístundayfirvöld að skoða lækkun skólamáltíða af alvöru. R20080159

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem annast viðhald fasteigna kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í húsnæði:

Tillaga Flokks fólksins að fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs sem annast viðhald fasteigna kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun, til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

Greinargerð fylgir tillögunni.

Loftgæðavandinn í skólum og öðrum byggingum í eigu borgarinnar er ekki nýr. Vandinn er mikið tilkominn vegna áralangrar vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skóla og fleiri bygginga borgarinnar. Afleiðingar hafa verið slæmar fyrir fjölda nemenda og starfsfólks. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litl­um loft­gæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfs­fólk hafa kvartað yfir slapp­leika, höfuðverk, auknu mígreni og ann­arri van­líðan vegna ástands­ins í sumum skólum. Spurning er hvort bestu aðferðum hafi verið beitt í glímunni við raka og myglu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að fulltrúar umhverfismála borgarinnar kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum  sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði.
Hér er um að ræða aðferðir sem skilað hafa góðum árangri í öðrum löndum eins og Danmörku og Þýskalandi. Einnig hafa þessar aðferðir verið notaðar hér á landi í öðrum sveitarfélögum og á vegum Ríkiseigna eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Ekki þarf að rýma heilu byggingarnar, heldur er hægt að einangra ákveðin skemmd svæði og halda starfsemi áfram með sem minnstu raski. Þessar aðferðir bæta líðan nemenda og starfsfólks á undan og á meðan framkvæmdatíma stendur auk þess að geta minnkað kostnað.

Auðvitað koma loftefnahreinsitæki aldrei í staðinn fyrir viðgerðir en virka vel sem aðstoð á framkvæmdatíma og einnig fyrir mjög næma einstaklinga þó loftgæði teljist almennt í lagi. Sérfræðingar borgarinnar á þessu sviði þurfa endilega að kynna sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum og ekki trúa í blindni á aðferðir einstaka verkfræðistofa hér á landi. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að borgaryfirvöld skoði þetta með opnum hug. Hér eru á ferðinni aðferðir sem virðast skila árangri og kosta minna.

Tillögunni er vísað frá.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun og lýsir óánægju vegna frávísunar án raka eða nokkurra skýringa

Tillaga Flokks fólksins að umhverfis- og skipulagssvið kynni sér starfshætti frá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði hefur verið vísað frá á fundi borgarráðs án nokkurra raka. Staðgengill formanns borgarráðs segir við frávísun tillögunnar að henni beri ekki skylda til að rökstyðja eitt eða neitt. Af einhverjum ástæðum virðist málið ofurviðkvæmt og eldfimt, svo eldfimt að ekki er einu sinni hægt að senda tillöguna til frekari skoðunar eða umsagnar hjá umhverfissviði?

Fulltrúi Flokks fólksins á því ekki annara kosta völ en að leggja tillöguna fyrir borgarstjórn. Tillagan var um að bæta loftgæðamál vegna rakaskemmda og annara ástæðna í skólum en það er stórt vandamál víða. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir t.d. í Þýskalandi eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð. Þessi tækni hefur ekki verið mikið notuð hér nema í kannski einum skóla og gafst það vel. Flokkur fólksins lagði til að umhverfisyfirvöld kynntu sér aðferðir í öðrum leiðandi löndum í stað þess að trúa í blindni á aðferðir einstakra verkfræðistofa hér á landi.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara:

Á hverju hausti er sami vandinn uppi hjá skóla- og frístundasviði vegna þess að ekki hefur tekist að manna stöður. Enn er óráðið í 76 grunnstöðugildi í 63 leikskólum borgarinnar og um fjörutíu stöðugildi í 36 grunnskólum. Flokkur fólksins leggur til að skólayfirvöld breyti um aðferðarfræði þegar kemur að ráðningu kennara. Byrja á mikið fyrr að auglýsa og kynna laus stöðugildi. Sú vinna á að fara fram að vori. Reynslan hefur sýnt að breyta þarf um taktík þar sem sami vandinn er á hverju ári. Hér er spurning um að læra af reynslu. Ef eitthvað virkar ekki þá þarf að endurskoða aðferðarfræðina og gera á henni breytingar. Það er ekki nóg að vona og vona. Nú blasir við sú staða að ekki er hægt að ráða inn í tiltekna leikskóla getur það hægt á innritun í þá skóla. Erfiðleikar við að fá fólk í þessi störf eru ákveðnar upplýsingar um störfin og líðan fólks í þeim. Meira að segja nú þegar atvinnuástandið er slæmt er erfitt að fá fólk til starfa í skólanna. Skoða þyrfti hvað það er við þessu störf annað en álag og lág laun sem hefur svo mikinn fælingarmátt. Ekki er ósennilegt að mygluvandi í skólum sé hluti af vandamálinu.

Greinargerð fylgir tillögunni

Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Biðlisti og tafir við inntöku í leikskóla er óverjandi..  Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að laða fólkið að störfunum.  Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur gert fjölmargt til að stuðla að því að störfin verði eftirsóttari. Eitt að því sem þarf að gera skruk í til að fá fólk til starfa í skólanum eru viðgerðir  á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Ótal veikindatilfelli starfsmanna má rekja beint til myglu í skólabyggingum.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn er varðar kostnað vegna rakaskemmda, til hvaða aðgerðar hefur verið gripið og hversu stór vandinn er í dag

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við spurningum er viðkemur loftgæðavandamálum.
Hversu mikið hefur kostnaður vegna rakaskemmda í húsnæði á vegum Reykjavíkurborgar aukist síðustu 20 ár?
Til hvaða aðgerða er gripið þegar upp kemur grunur um rakaskemmdir og börn og fullorðnir finna fyrir veikindaeinkennum sem líklega má rekja til rakaskemmda.
Hversu stór er vandinn í dag?
Hversu margir nemendur hafa veikst?
Hver er aukningin á milli ára eða áratuga?
Hvernig er brugðist við þegar vísbendingar eru um vanda? Er vandinn greindur strax og í framhaldi af greiningu farið í rýmingar á ákveðnum hluta húsnæðis eða er hreinlega allt húsnæði rýmt og hafist handa við viðgerðir? Í þeim tilfellum sem vandi sem þessi hefur komið upp í skólum hafa nemendur og starfsfólk unnið áfram í rakaskemmdu húsnæði meðan að leitað hefur verið leiða til úrbóta? Eða hefur húsnæðið, sá hluti sem talinn er vera sýktur verið rýmdur strax?
Hafa fulltrúar umhverfis- og skipulagssviðs kynnt sér hvernig starfsháttum sérfræðinga í rakaskemmdum er háttað í öðrum löndum í Evrópu, eins og t.d. í Þýskalandi?

Greinargerð er lögð fram með fyrirspurnunum

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá svör við  spurningum er viðkemur loftgæðavandamálum. Loftgæðamál  vegna rakaskemmda og annara ástæðna hafa verið stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar. Vandinn er tilkominn vegna áralangs vanrækslu borgaryfirvalda að viðhalda húsakosti skólanna og fleiri bygginga borgarinnar.

Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir fjölda nemenda og starfsfólk. Nemendur hafa mátt dúsa of margir í litl­um loft­gæðum og jafnvel þótt skólastjórnendur hafi ítrekað kvartað hefur verið brugðist seint og illa við í mörgum tilfellum. Nemendur og starfs­fólk hafa kvartað yfir slapp­leika, höfuðverk, auknu mígreni og ann­arri van­líðan vegna ástands­ins í sumum skólum

Í ljósi sögunnar óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fá svör við nokkrum fyrirspurnum sem tengist  rakaskemmdum, viðbrögðum borgaryfirvalda og aðferðum sem notaðar eru til að finna lausn á málinu

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum nýtt beint í þágu eigenda og hundanna:

Í ljósi þess hversu erfitt það er að fá skýr svör frá Heilbrigðiseftirliti borgarinnar er varðar hundaeftirlitsgjaldið sem hvorki hefur lækkað né verið afnumið þrátt fyrir umtalsverða fækkun á verkefnum hundaeftirlitsmanna vill fulltrúi Flokks fólksins freista þess að spyrja eftirfarandi spurninga:
Er hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum nýtt beint í þágu eigenda og hundanna og ef svo er þá hvernig? R20010132

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í ítarlega greiningu á því hvaða mál flokkast undir trúnaðarmál og hvað ekki og að verklagsreglur verði settar um flokkun mála eftir niðurstöðu greiningarinnar. Svo virðist sem ákvarðanir um hvaða mál séu trúnaðarmál og hvaða gögn séu trúnaðargögn séu oft hipsum haps. Ef í gögnum mála birtast viðkvæmar persónulegar upplýsingar þá er engin vafi að um þau mál skuli ríkja trúnaður. Eins gildir um tölulegar upplýsingar sem eru á leið í Kauphöll. Flest önnur mál eiga að vera opinber og gagnsæ nema í algerum undantekningartilfellum. Þannig hefur það ekki verið. Alls kyns mál eru stimpluð trúnaðarmál án þess að nokkur skýr ástæða liggi að baki um nauðsyn þess. Sem dæmi hafa kynningar og skýrslur verið faldar fyrir almenning og jafnvel aldrei litið dagsins ljós. Einnig hugmyndir að deiliskipulagi sem ættu einmitt að koma sem fyrst fyrir augu sem flestra. Í þessum málum hafa ekki verið neinar persónulegar upplýsingar eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar. Það hefur stundum verið tilfinning fulltrúa Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Almenningur á rétt á því að hafa aðgang að upplýsingum um verkefni Reykjavíkurborgar og trúnaður á að vera undantekningin en ekki meginreglan. R20080155

Borgarráð 27. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við Norðurstígur og Nýlendugata austan Ægisgötu verði vistgötur, tillaga meirihlutans:

Skipulagsyfirvöld leggja til og hafa hafið framkvæmdir á að gera Norðurstíg og Nýlendugötu austan Ægisgötu að vistgötum sem þýðir að bílar eru aftast í forgangi. Hraði hjóla, hjólaskauta eða hjólabretta miðast við gönguhraða. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaðan þessi hugmynd kemur og hvort þetta sé gert að ósk íbúa og vegfarenda eða er þetta einungis persónulegar ákvarðanir skipulagsfulltrúa?

Hér er enn og aftur spurt um samráð við fólkið í borginni en ekki stafkrókur um slíkt er að finna í framlagningu gagna um málið sem er í formi tilkynningar fremur en tillögu enda eru framkvæmdir hafnar.

 

Bókun Flokks fólksins við við framlagningu svars við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stæði við leik- og grunnskóla, umsögn:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Ástæða fyrirspurnarinnar eru ábendingar frá foreldrum um að stæði fyrir framan suma leikskóla eru of fá og stundum myndist vandræðaástand á álagstíma. Sama má segja um grunnskóla, en þar er ástandið stundum þannig í eðlilegu árferði (ekki í COVID aðstæðum) að hætta skapast þegar verið er að aka börnum í skólann. Í ljósi þeirrar aflmiklu herferðar skipulagsyfirvalda borgarinnar að fækka bílum með aðferðum eins og að fækka bílastæðum hafa áhyggjur margra aukist enn frekar.

Í svari skipulagsstjóra er vísað í reglur um fjölda stæða við skóla en eftir situr stærsta spurningin og hún er sú hvort skipulagsyfirvöld eru að fylgja þessum reglum sem samþykktar voru 19. desember 2018 til hins ítrasta?

Stendur það til hjá skipulags- og samgönguyfirvöldum að breyta þessum reglum næsta árið í þá átt að fækkað verði enn frekar bílastæðum við leik-, grunnskóla og frístundaheimili? Fulltrúi Flokks fólksins mun senda þessar fyrirspurnir og eina aðra til inn í skipulagsráð með formlegum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, hjólreiðahraðareglur:

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Tillaga Flokks fólksins um að gera hjólareiða-hraðareglur og einstaka hraðahindranir í öryggisskyni þar sem það á við hefur verið felld. Einnig var lagt til að aðskilja hjólreiðar og gangandi vegfarendur eins og kostur er. Í svari frá samgöngustjóra kemur fram að yfirvöld telja það vænlegra til árangurs að nota yfirborðsmerkingar, til áminningar um gagnkvæma tillitssemi vegfarenda og þar sem breytingar verða á eðli umferðar, auk leiðbeinandi merkinga á stigamót, heldur en að setja sérstakan hámarkshraða á stíga eða með uppsetningu hraðahindrana.

Eins og skipulagsyfirvöld vita þá hefur hjólreiðaslysum fjölgað samhliða fjölgun hjólreiðafólks svo þörfin fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir er mikil. Við hjólaflóruna hafa bæst rafskútur og rafhlaupahjól. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Sums staðar nægir ekki að setja aðeins upp merkingar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bókað um að víða skortir á að innviðir séu tilbúnir að taka við öllum þessum hjólanýjungum og fjölgun þeirra sem nota hjól sem ferðamáta. Ávallt ætti að skipuleggja hjóla- og göngustíga í öruggri fjarlægð frá umferðarþungum vegum og öruggt bil þarf einnig að vera á milli hjólreiðafólks og gangandi vegfarenda.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um bætt aðgengi að göngustíg við Breiðholtsbraut:

Tillaga Flokks fólksins um að ljúka við stíg og stígatengingu við nyrðri enda göngubrúar yfir Breiðholtsbraut þar sem eðlileg gönguleið er frá Mjódd upp Arnarbakkann var lögð fram 28. nóvember 2019. Nú hartnær ári síðar berst umsögn og er tillagan felld á grundvelli umsagnar skipulagsstjóra sem segir að tenging við brúna sé nú í samræmi við samþykkt deiliskipulags. Á þeim 9 mánuðum sem tillagan hefur legið á borði skipulagsyfirvalda og beðið afgreiðslu hefur tekist að fullklára verkefnið. Því ber að fagna.

Bókun Flokks fólksins við tillögu áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins, um aðstöðu við Strætó stoppiðstöð á Suðurlandsbraut:

Samþykkt.

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillagan hefur verið samþykkt enda eru aðstæður óviðunandi við strætóskýli á Suðurlandsbraut ofan Laugardalshallar. Farið verður af stað í að rýna verkefnið, kostnaðarmeta það og setja það í áætlun. Umbætur þarf að gera hið fyrsta. Eins og aðstæður eru nú á fatlað fólk þess engan kost að komast leiðar sinnar ætli það sér úr Strætó á þessari stoppistöð. Hugsanlega kæmist fötluð manneskja niður í Laugardalinn, með herkjum, en alls ekki ef viðkomandi ætlar sér yfir Suðurlandsbraut að gangbrautarljósum og t.d. upp í Ármúla. Þá tekur ekki betra við í Vegmúla, engin gangstétt nema að hluta til og mjög ruglingslegt hvernig gangandi vegfarandi kemst leiðar sinnar. Verkefnið þolir ekki mikla bið og væntir fulltrúi Flokks fólksins þess að hafist verði handa hið fyrsta.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni – Vísað til umsagnar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og fjölmenningarráðs.

Á fundi skipulags- og samgönguráð 1. júlí 2020 var neðangreindri tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni vísað til meðferðar borgarráðs. Tillagan var endursend til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lagt er til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða.

Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Það skiptir máli að eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum sé ekki aðeins virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa.

Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið.

Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, og þá sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.

Tillögunni fylgir greinargerð.

 

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins úr borgarráði, um endurnýjun svæðis umhverfis Mjódd –
Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld horfi til endurnýjunar á svæðinu umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stöðu framkvæmda vegna bættra samgangna
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna loforðs um bættar samgöngur. Nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan Korpuskóla var lokað. Lofað var bættum samgöngum fyrir börnin þegar þau gengju til skóla í nærliggjandi hverfi borgarinnar. Nú er skólahald að hefjast að nýju. Hver er staðan á framkvæmdum fyrir undirgöngum eða öðrum úrræðum til öruggari samgangna fyrir börnin í hverfinu á leið til skóla?

 

Tillaga áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins varðandi gerð kirkjugarðs við Úlfarsfell.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds

Í Reykjavík hafa borgar- og skipulags yfirvöld sýnt getuleysi þegar kemur að þessum málaflokki. Það líður að því að plássin fyrir kistur í Gufuneskirkjugarði klárist en reiknað er með plássi fyrir kistur í mesta lagi 3-4 ár í viðbót og þá þarf að fara að jarða Reykvíkinga í kirkjugarðinum í Kópavogi.

Kirkjugarðurinn við Úlfarsfell hefur lengi verið í undirbúningi. Skipulagsyfirvöld hafa dregið það árum saman að hefja framkvæmdir. Ítrekað hefur skipulagsyfirvöldum verið gert ljóst að brýn þörf er á nýjum grafarsvæðum og að hraða þurfi framkvæmdum á kirkjugarðinum við Úlfarsfell en skipulagsyfirvöld hafa látið málið sem vind og eyru og þjóta. Það er miður að borgaryfirvöld sjái ekki nauðsyn þess að fullklára kirkjugarð þar sem Reykvíkingar sem óska þess að vera jarðaðir í kistu fái að hvíla.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að gert verði átak í Hólavallagarði en honum þarf að halda betur við en gert hefur verið. Aðeins hluti garðsins hefur verið tekinn í gegn en annar hluti hans er að grotna niður. Skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa til margra ára ekki sýnt Hólavallagarði nægjanlega virðingu og ekki úthlutað til hans nauðsynlegum fjármunum til að halda honum við.

 

Tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins  varðandi rafmagns- og metan bíla

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta.

Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts er farið mörgum orðum um vistvænan ferðamáta en ekki minnst á vistvæna bíla

Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu.

Ekki einu orði er minnst á rafmagns- eða metanbíla heldur einungis hjól og síðan væntanlega borgarlínu.

Telja skipulagsyfirvöld þar með að hreyfihamlaðir sem dæmi notist frekar við hjól en bíl?

Nú eru aðeins 10 ár þar til bannað verður að flytja inn bensín- og díselbíla. Skipulagsyfirvöld verða að fara að sætta sig við að þau koma ekki öllum á hjól og þurfa því að viðurkenna að einkabíllinn mun áfram verða einn helsti ferðamáti borgarbúa. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nú ætti að leggja alla áherslu á að styðja og hvetja til orkuskipta og taka rafmagns og metanbílinn inn í flokkinn „vistvænn ferðamáti“.

 

Tilögu áheyrnarfulltrúi Flokks fólkins varðandi vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti

 Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að lagfæra vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti.

Í fjölda ára hefur verið kvartað yfir vatnsflæði sem kemur í leysingum (hláku). Það kemur úr holtinu ofan við Stöng. Stöng liggur frá Arnarbakka og upp að Breiðholtsbraut og er með hita til snjóbræðslu sem eykur enn vatnsflæðið. Vatnið rennur inn Leirubakkann og hefur í gegnum árin valdið tjóni á malbiki. Þegar frystir og þiðnar að þá veldur þetta vatn tjóni á malbikinu sem liggur inn Leirubakkann.

Stundum rennur vatnið inn allan Leirubakkann og endar í niðurfalli innst sem hefur ekki undan og stíflast. Þegar frystir er erfitt að hreinsa frá niðurfallinu, sem lendir oft á íbúum að gera. Vandamál sem þessi eiga ekki að vera viðvarandi. Þetta er hægt að laga og hefði átt að laga um leið og vandinn kom í ljós.

Lagt er til að niðurföllin neðan við Stöng í Arnarbakkanum verði lagfærð þannig að þau taki við vatninu sem kemur úr brekkunni og úr holtinu. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg lagfæri malbikið í Leirubakkanum. Íbúar eiga ekki að þurfa að laga skemmdir sem vatn hefur valdið sem kemur langt að vegna galla í hönnun niðurfalla við Stöng í Arnarbakka.

 

Fyrirspurn áheyrnarfulltrú Flokks fólksins um kostnað vegna mistaka í útboðsmálum vegna Fossvogsbrúar

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Nú hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stóðu fyrir um hönnun brúar yfir Fossvog. Fimm hönnunar- og arkitektastofur af þeim ellefu sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til kærunefndar útboðsmála sem hefur stöðvað keppnina tímabundið. Alls sendu sautján hönnunar- og arkitektastofur inn tillögur.

Alvarlegar athugasemdir eru gerðar í úrskurðinum við vinnubrögð Vegagerðarinnar og eru hún, Reykjavíkurborg og Kópavogur gert að greiða skaðabætur samkvæmt úrskurðarorði. Fram kemur í úrskurðinum að „Efla hf. hafi fengið óeðlilegt forskot á aðra þátttakendur. Jafnframt hafi einn dómnefndarmenn verið starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar, sem hafi staðfest ákvörðun dómnefndar um val þátttakenda, verið eigandi, stjórnarmaður og starfsmaður Eflu hf. þar til fyrir skömmu. Dómnefndin hafi því verið vanhæf til ákvarðanatöku í forvalinu“.

Í þessu máli er alla vega víst að Reykjavíkurborg ber ákvarðanaábyrgð og skaðabætur greiðast úr vasa útsvarsgreiðenda.

 

Fyrirspurn á Flokks fólksins  um stefnu Strætó hvað viðkemur lausagangi strætisvagna á biðtíma

Vísað til umsagnar strætó bs.

Bílar sem brenna bensín eða dísel eyða og menga mest á litlum hraða í fyrsta gír, svo ekki sé talað um kyrrstöðu. Þá brenna þeir og menga til einskis.

Flestir nýir einkabílar af öllum gerðum eru í dag með hugbúnað sem lokar fyrir eldsneyti til vélarinnar þegar verið er að hægja á ferðinni og stöðvar síðan vélina þegar menn stoppa, t.d. á ljósum, en ræsir síðan sjálfvirkt vélina aftur þegar bremsunni er sleppt.

Þetta á ekki við um þá vagna sem Strætó notar. Þeir eru alltaf í gangi í akstri, sem og þegar stoppað er á ljósum eða á stoppistöðvum í lengri og skemmri tíma. Það er alltaf bílstjórans á þessum vögnum því að ákveða hvenær drepið er á vélinni og hvenær ekki.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir:

Hver er stefna Strætó. bs hvað þetta varðar?

Hvað er bílstjórum Strætó. bs kennt og uppálagt í þessum efnum?

Óskað er eftir að fá yfirlit yfir þá þjálfun og fyrirmæli sem strætisvagnabílstjórar fá hvað þetta varðar og þá er átt einnig við hvort bílstjórar fái ekki þau fyrirmæli að hafa vagna aldrei í lausagangi á biðstöð s.s. á Hlemmi eða í Mjódd?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu

Tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði strax þær ábendingar sem íbúar Breiðholts hafa tjáð sig um m.a. á samfélagsmiðlum hefur verið felld. Flestir virðast hafa áhyggjur af hvert stefnir í bílastæðismálum en víða er nú þegar skortur á þeim. Opnað er fyrir möguleika á að byggja 3000 íbúðir án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Íbúaeign án bílastæðis er ekki eins söluvæn og fylgdi henni bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins óttast að með því að fella þessa tillögu séu það merki um að skipulagsyfirvöld ætli ekki að taka þessar ábendingar alvarlega. Jafnvel þótt heilu fjölskyldurnar muni fara um á hjólum þá fá flestir stundum til sín gesti. Stefnir í þrengsl í sumum hverfum sem þröngt er fyrir. Í stað þess að sýna slíka stífni þegar kemur að einkabílnum væri nær að skipulagsyfirvöld styddu fólk með ýmsum hætti til að skipta yfir í raf- eða metanbíl. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun fólk nota bíl áfram. Koma þarf börnum í leik-, og grunnskóla ásamt að sinna öðrum erindum. Sumir verða að fara á bíl í vinnu og margir verða að nota bílinn til að komast á borgarlínustöð. Enn liggur ekki fyrir hvernig bílastæðamálum verður háttað í kringum borgarlínustöðina í Mjódd.

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Vítt og opið samráðsferli á sér stað þessa dagana við íbúa og hagsmunaaðila í Breiðholti. Þar er mikið lagt upp úr að hlusta á allar raddir samfélagsins, unga sem aldna. Ekki er um að ræða kvaðir á íbúa um t.a.m. fækkun bílastæða, heldur felur skipulagið í sér auknar heimildir íbúa til þess að breyta og bæta eignir sínar. Unnið verður úr öllum ábendingum íbúa sem koma fram áður en Hverfisskipulagið verður sett í lögformlegt auglýsingarferli. Tillagan er því felld.

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins um kostnað vegna grjótmana sem settar var á Eiðsgranda.

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver er kostnaður af þessum grjótmönum sem settar voru á Eiðsgranda og hver mun viðbótarkostnaður verða við lagfæringu þeirra? Í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um málið segir:

„Að nú hafi verið tekin ákvörðun um að laga manirnar, lækka þær og laga betur að landinu. Síðan verður sáð og gróðursettur strandgróður í svæðið.

Manirnar séu ekki grjóthrúgur heldur er sé þetta uppgröftur úr stígnum og lag af möl yfir en ekki hafi unnist tími til að huga nægilega vel að frágangi. En fremur að ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og manirnar höfðu ekki verið hannaðar heldur unnar beint í landið. Manirnar urðu óþarflega háar og sérstaklega ein mönin sem er of há og of brött og lokar sýn úr Rekagranda og að alltaf hafi staðið til að græða upp manirnar með gróðri sem ekki væri hægt að hefja fyrr en að vori.“

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað alls verkefnisins og sundurliðun eftir verkþáttum.

 

Fyrirspurnir Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um gæðaeftirlit með strætisvögnum

Vísað til umsagnar strætó bs.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hvort og hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað?

Dæmi eru um að vagnar séu ekki með ljósin í lagi svo fátt sé nefnt sem fólk hefur tekið eftir.

Er virkt eftirlit haft með vögnunum? Spurt er hvort einhver gangi t.d. reglulega um vagnanna og skoðar þá innan og utan til að kanna hvort allt sé í lagi með þá?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags í Breiðholti þar til Covid leyfir íbúaráðsfundi:

Tillaga Flokks fólksins um að fresta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti hefur verið felld. Skipulags- og samgönguráð er með því að axla ábyrgð á að fólk sem ekki kemst út vegna COVID aðstæðna komist ekki til skrafs og ráðagerðar vegna nýs hverfisskipulags. Nú er ekki hægt, vegna COVID að hafa hefðbundna íbúafundi. Svo virðist sem skipulagsyfirvöld ætli ekki að aðlaga sig að aðstæðum og tryggja samráðsvettvang fyrir þá sem eru í einangrun/sóttkví/sjálfskipaðri sóttkví. Slíkt er aðeins ávísun á seinni tíma vandamál ef fólk kemst ekki til að koma skoðunum sínum á framfæri .

Allt þarf að gera til að ná til fólks sem lokað er inni vegna COVID. Koma mætti t.d. upp sérstökum ábendingarhnappi á vefsíðu Reykjavíkur og auglýsa sérstakt símanúmer hafi viðkomandi áhuga á að ræða hverfisskipulagið við skipulagsfrömuði borgarinnar. Heiðarlegast gagnvart íbúum Breiðholts er að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari og þá verði haldnir íbúaráðsfundi í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild. Gæta þarf jafnræðis og sjá til þess að allir hafi jöfn tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti.

Tillagan er felld með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Í byrjun sumars var ákveðið að setja ekki Hverfisskipulag Breiðholts í lögbundið samþykktar- og samráðsferli líkt og til stóð heldur bæta við ferlið auknu samráði. Það hefur falist í kynningum á heimasíðum verkefnisins, samfélagsmiðlum og dagblöðum. Einnig hefur hverfisskipulagið verið kynnt í Gerðubergi þar sem öllum hefur boðist að mæta. Þar var hægt að rýna allar tillögur, greiningarvinnu og helstu forsendur skipulagsins. Þar voru til svara starfsfólk skipulagsfulltrúa sem unnið hefur við hverfisskipulagið síðustu ár. Einnig verður skipulagið kynnt með sambærilegum hætti í Mjódd. Þrír göngutúrar hafa verið skipulagið með íbúum um hverfið til að fara yfir tillögurnar, hitta faglega ráðgjafa skipulagsins, ræða og koma með ábendingar. Allt er þetta viðbótarsamráð við það samráð sem nú þegar hefur verið haft við gerð Hverfisskipulags Breiðholts sem fólst í því að virkja alla aldurshópa, með þátttöku grunnskóla, rýnihópa og opnum íbúafundum. Að lokum er rétt að benda á að lögbundið samráð með lögformlegri auglýsingu mun einnig eiga sér stað og gefst þá öllum tækifæri á að koma sínum athugasemdum á framfæri.

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn, um gerð hraðahindrana í ólíkum aðstæðum

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Spurt er hvort leiðbeiningum sé ávallt fylgt og af hverju ekki séu til íslenskar leiðbeiningar/reglur?

Við hönnun hraðahindrana í Reykjavík er erlendum leiðbeiningum fylgt, oftast norskum eða dönskum. Þar er lýst mismunandi gerðum og formi eftir aðstæðum. Sérstakar leiðbeiningar eru um útfærslu 30 km/klst „hliða“ í Reykjavík á þeim stöðum þar sem 30km/klst hverfi eru afmörkuð.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita af hverju ekki eru til íslenskar leiðbeiningar eða reglur um gerð hraðahindrana í ólíkum aðstæðum sem taki mið af reynslu við notkun hraðahindrana hér á landi?

Einnig er spurt hvort þessum norsku og dönsku leiðbeiningum hafi ávallt verið fylgt til hins ýtrasta?

Ef ekki, í hvaða tilfellum var þeim ekki fylgt og hverjar voru ástæður þess að gerðar voru undantekningar?

 

Tillögur áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi

Nú er verið að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að:

 1. Viðverudögum verði fjölgað og framhaldið í a.m.k. mánuð í viðbót eða eins lengi og þörf þykir og óskir eru um
 2. Að komið verði upp sérstökum ábendingarhnappi á vefsíðu Reykjavíkur þar sem hægt er að senda inn ábendingar um hverfisskipulagið
 3. Að auglýst verði sérstakt símanúmer sem hægt er að hringja í hafi viðkomandi ábendingu eða athugasemd við hverfisskipulagið
 4. Að beðið verði eftir að COVID aðstæður verði öruggari og þá verði haldnir íbúaráðsfundi í hverju hverfi og fyrir hverfið í heild. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi af ótta við smit. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri til að kynna sér hugmyndirnar og koma skoðunum sínum á framfæri með beinum hætti.
 5. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þeir sem standa vaktina í viðveru vegna hverfisskipulags Breiðholts verði einnig þeir aðilar sem eru höfundar hugmyndinna hvort sem það eru arkitektar eða aðrir skipulagsfrömuðir Reykjavíkur

Frestað.

 

Tillögur áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts .

Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðið var við á m.a. á samfélagsmiðlum að það sem liggur hvað mest á fólki varðandi nýtt hverfisskipulag í Breiðholti er fyrirsjáanlegur skortur á bílastæðum. Flokkur fólksins leggur því til að skipulagsyfirvöld taki alvarlega ábendingar fólks sem lúta að bílastæðamálum í hinu nýja hverfisskipulagi Breiðholts. Víða er nú þegar skortur á bílastæðum. Horfast þarf einnig í augu við þá staðreynt að það rýrir sölugildi eignar ef ekki fylgir bílastæði. Ávallt verður einnig að muna að hreyfihamlaðir aka frekar bíl en hjóla.

Sjálfsagt er að þétta byggð upp að vissu marki en þó ekki á kostnað bílastæða eða grænna svæða. Skipulagsyfirvöld ættu að hvetja til aksturs á vistvænum bílum svo sem raf- og metanbílum. Enda þótt borgarlína sé fyrirhuguð í Mjódd mun það ekki breyta miklu um bílanotkun fólks sem áfram þarf að nota bíl til að koma börnum sínum í leik-, og grunnskóla sem og frístund. Einnig til að komast í vinnu og til að komast í borgarlínu hyggist það nota hana. Enn liggur ekki fyrir hvernig bílastæðamálum verður háttað í kringum borgarlínustöðina í Mjódd.

Frestað.

Tillögur áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að eftirfarandi hugmyndir verði skoðaðar í tengslum við nýtt hverfisskipulag í Breiðholti:

 1. Að skoða möguleikann á því að fá fleiri skóla í hverfið t.d. Listaháskólann fluttan í Breiðholtið í stað þess að hrúga öllum háskólum á sama blettinn í Vatnsmýrinni.
 2. Að skoða skoða nánar hugmyndir um skrúð- eða lystigarði í efra Breiðholti.
 3. Að skoða flutning opinberra stofnana í hverfið.

Frestað.

Fyrirspurnir Flokks fólksins varðandi upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið með skipulagsyfirvöldum.

Nú er verið að kynna nýtt hverfisskipulag fyrir Breiðholt. Í gangi er viðvera skipulagsyfirvalda sem hefur bæði verið í Mjódd og í Gerðubergi og göngutúrar um hverfið. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um aðsókn á viðverufundina og fjölda þeirra sem fóru í göngutúra um hverfið með skipulagsyfirvöldum. Óskað er einnig upplýsinga um fjölda ábendinga sem hafa borist og að þær verði flokkaðar eftir innihaldi. Loks er spurt um aldursskiptingu þeirra sem komu á viðverufundina og í göngutúrana.

Frestað.

 

Fyrirspurnir Flokks fólksins um upplýsingar um verkefnastöðu á málningu gatna/bílastæða í miðbænum t.d. við Þingholtssræti

Í gangi hafa verið framkvæmdir í Þingholtsstræti og nágrenni

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um verkefnastöðu á málningu gatna/bílastæða í miðbænum t.d. við Þingholtssræti, og að minnsta kosti hluta Bókhlöðustígs og Skálholtsstígs. Hvenær hófst verkið og hvenær voru áætluð verklok?

Hver er staða viðhalds, vatnsræsingar og viðgerðar í Þingholtsstrætinu og næsta nágrennis ?

Frestað.

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins um hvort ekki eigi að gera bragarbót á afgreiðslu erinda til skipulags- og samgönguráðs en kvartað hefur verið yfir seinagangi

Það hefur nokkuð borið á því að fólk er ekki að ná sambandi við skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborg þegar það vill koma áleiðis sem dæmi ábendingum, er með fyrirspurnir eða önnur erindi. Þá hefur borið á því stundum að hver vísar á annan, skeytum ekki svarað fyrr en seint um síðir og enn síður nær fólk í gegn með símtali. Skipulagskerfi borgarinnar er orðið nokkuð stórt bákn og virkar stundum eins og hægri höndin viti ekki hvað sú vinstri gerir. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort ekki standi til að gera á þessu bragarbót?

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins leggur til að skipulagsráði geri það að vinnureglu sinni að ljúka ekki vinnudegi sínum fyrr en búið er að bregðast með einum eða öðrum hætti við innkomnum skeytum/skilaboðum sem borist hafa.

Í ljósi þess að nokkuð hefur borið á kvörtunum yfir að illa gangi að ná sambandi við skipulagsyfirvöld leggur fulltrúi Flokks fólksins til að starfs- og embættismenn sem og kjörnir fulltrúar meirihlutans í skipulagsráði geri það að vinnureglu sinni að ljúka ekki vinnudegi sínum fyrr en búið er að bregðast með einum eða öðrum hætti við innkomnum skeytum/skilaboðum sem borist hafa.

Vissulega gætu komið dagar sem þetta er ekki hægt en í það minnsta muni starfsmenn leitast við að svara samdægurs. Hér er ekki átt við að öll erindi fái fullnaðarafgreiðslur strax enda slíkt ekki raunhæft heldur að þeim sem sent hafa skeyti eða skilaboð verði svarað sem dæmi: „erindið er móttekið/málið er í skoðun/ haft verður samband hið fyrsta“, eða eitthvað á þessa leið.

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins til að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu.

Í ljósi þess að illa gengur oft að komast í samband við starfsmenn og embættismenn borgarinnar leggur fulltrúi Flokks fólksins til að öll netföng og vinnusímar starfs- og embættismanna skipulagssviða borgarinnar séu aðgengileg á netinu.

Eins og staðan er nú er borgarbúum boðið upp á að hringja í eitt miðlægt símanúmer til að ná í starfsmenn. Þetta hefur ekki alltaf gengið vel. Leggja þarf áherslu á að borgarbúar hafi greiðan aðgang að embættis- og starfsmönnum allra sviða borgarinnar. Fyrsta skrefið er að hafa netföng og símanúmer sýnileg og aðgengileg.

Frestað.

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins að fá sundurliðun hugmynda hverfisskipulags Breiðholts

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá það sundurliðað hvaða hugmyndir sem birtar eru í vinnutillögum nýs hverfisskipulags Breiðholts komu frá íbúum sjálfum og hvaða tillögur komu frá borgar- og skipulagsyfirvöldum eða öðrum?

Var það t.d. ósk íbúa Breiðholts að svo mikil þétting byggðar yrði?

Frestað.

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins um hvort reglum um stæði og sleppistæði fyrir framan leik- og grunnskóla sé fylgt til hins ítrasta

Fyrirspurnir framhaldi af svari skipulagsyfirvalda við fyrirspurn Flokks fólksins um stæði- og sleppistæði við leik- og grunnskóla.

Í svari var vísað í reglur sem skipulag- og samgönguráð samþykkti 19. desember 2018. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík er fylgt til hins ítrasta. Einnig er spurt hvort það standi til hjá skipulags- og samgönguyfirvöldum að breyta þessum reglum næsta árið í þá átt að fækkað verði enn frekar bílastæðum og sleppistæðum við einhverja leik-, grunnskóla og frístundarheimili?

Stendur það til hjá skipulagsyfirvöldum að setja gjaldskyldu á þau stæði önnur en sleppistæði sem nú eru til staðar fyrir framan leik- og grunnskóla og frístundaheimili?

 

Fyrirspurnir  Flokks fólksins um hver eigi hugmyndir um að gerðar séu vistgötur

Skipulagsyfirvöld leggja til og hafa hafið framkvæmdir á að gera Norðurstíg og Nýlendugötu austan Ægisgötu að vistgötum sem þýðir að bílar eru aftast í forgangi. Hraði hjóla, hjólaskauta eða hjólabretta miðast við gönguhraða.

Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvaðan þessi hugmynd kemur.

Er þetta gert að ósk íbúa og vegfarenda eða er þetta einungis persónulegar ákvarðanir skipulagsfulltrúa?

Hvernig var samráði háttað?

Hér er enn og aftur spurt um samráð við fólkið í borginni en ekki stafkrókur um slíkt er að finna í framlagningu gagna sem er í formi tilkynningar fremur en tillögu.

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 26. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 17. ágúst 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 23 við Furugerði:

Fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir lá einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða. Brátt mun Reykvíkingum ekki standa til boða að geta lagt í námunda við heimili sín sem hyggjast kaupa nýbyggingar. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir slíkt skipulag? Húsin standa mjög nærri Bústaðavegi og vert er að athuga mengunarmál á þessu svæði, þá sérstaklega með tilliti til barna sem sannanlega kom til með að búa þarna.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars  skrifstofu borgarstjórnar, dags. 1. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skilagreinar vegna styrkumsókna til borgarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk frá Reykjavíkurborg síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum um hvernig styrkurinn var nýttur eins og reglur gera ráð fyrir. Spurt var einnig hvernig brugðist sé við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein. Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn? Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar við fyrirspurnunum er ekkert sem svarar þessum spurningum. Styrkjareglur Reykjavíkurborgar eru reifaðar en fyrirspurnunum ekki svarað. Enn er því óskað svara við fyrirspurnunum. Fulltrúi Flokks fólksins er ágætlega læs og getur lesið sér til um regluverkið á bak við styrkveitingar en fyrirspurnum er ekki svarað beint. Það er erfitt að skilja að þegar settar eru fram einfaldar fyrirspurnir að í svari sé ekki annað reifað en regluverk borgarinnar. Í svarinu kemur fram að farið sé að öllu leyti eftir reglum um styrki. Er með því verið að staðfesta að hver einasti styrkþegi undanfarin 5 ár hafi skilað inn skilagrein um verkefnið sem viðkomandi fékk styrk til að framkvæma?

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um styrkveitingar borgarráðs. Í framlögðu svari kemur m.a. fram að fjármála- og áhættustýringarsvið vinnur árlega greinargerð um framkvæmd styrkjareglna sem lögð er fram í borgarráði, er aðgengileg fulltrúum í borgarráði og er opinbert gagn. Í þeirri greinargerð kemur fram að á vettvangi borgarráðs er farið eftir öllum reglum þ.m.t. þeim ákvæðum sem fjalla um skil greinargerða um ráðstöfun styrkfjár fyrir lok ráðstöfunarárs.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmeti tillögur minnihlutafulltrúa, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. maí 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að minnihlutafulltrúar fengju aðstoð fjármálaskrifstofu við að kostnaðarmeta tillögur eftir því sem þeir telja nauðsynlegt áður en tillaga er lögð fram. Rökstuðningur fylgdi tillögunni og segir í honum að stundum nægi gróft kostnaðarmat. Að hafa hugmynd um kostnað getur stutt mál minnihlutans og hreinlega skipt sköpum við atkvæðagreiðslu, þ.e. dregið úr líkum þess að tillögu verði vísað samstundis frá af meirihlutanum eða felld. Í umsögn fjármálastjóra við tillögunni er hins vegar ekkert sem hægt er að tengja við efni tillögunnar heldur einungis um hvernig fjármálaskrifstofan þarf að haga málum við svörun á fyrirspurnum frá borgarfulltrúum. Hvergi í tillögu Flokks fólksins er minnst á fyrirspurnir eða svörun þeirra. Engin tenging er milli svars fjármálastjóra og tillögunnar sem hér er lögð fram af Flokki fólksins. Halda mætti að tillagan hafi ekki einu sinni verið lesin. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að tillagan er um að kostnaðarmeta tillögur en fjallar ekkert um hvernig fjármálaskrifstofan hagar málum þegar hún er beðin að svara fyrirspurnum. Tillagan verður þar af leiðandi lögð fram aftur.

 

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er vísað frá vegna þess að fjármála- og áhættustýringarsvið kostnaðarmetur nú þegar tillögur frá kjörnum fulltrúum hvort sem þær eru formlegar eða óformlegar, þ.e.a.s. áður en tillagan er lögð fram. Fjármála- og áhættustýringarsvið veitir mikla þjónustu til kjörinna fulltrúa og er það sviðsstjóra að skipuleggja starfsemina og ráðstafa tíma starfsfólks. Á sviðinu starfa margir sérfræðingar með ólíkan grunn sem endurspeglar umfang borgarinnar, því er það ekki talið heppilegt að vera með einn sérfræðing sem myndi svara öllum fyrirspurnum kjörinna fulltrúa enda eru fyrirspurnirnar jafn ólíkar og þær eru margar og oft þarf að leita fanga víða, bæði innan og utan sviðsins og borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðferð rekstrarleyfisumsókna sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. maí 2020.:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur reynt að setja sig inn í þessi leyfisveitingamál enda talið að honum beri skylda til þess þar sem þau eru lögð vikulega fyrir borgarráð. Fulltrúi Flokks fólksins skilur svarið við fyrirspurnunum um meðferð rekstrarleyfisumsókna en veltir fyrir sér af hverju þessi mál eru yfir höfuð að koma fyrir borgarráð. Er hér einungis verið að upplýsa borgarfulltrúa og ef svo er þá til hvers? Eða eiga borgarfulltrúar að setja sig inn í þessi mál, sem eftirlitsaðilar? Komi mál fyrir borgarráð með öllum fylgigögnum eins og þessi mál, álítur fulltrúi Flokks fólksins að þau séu á dagskrá þar sem ætlast er til að þau séu skoðuð af borgarfulltrúum. Í þessum leyfismálum er alveg ljóst að borgarfulltrúar hafa engar forsendur til að setja sig inn í þessi mál og hvað þá hafa á þeim skoðun. Hver er mögulega tilgangurinn með því að leggja þau fyrir borgarráð? Er kannski aðeins verið að uppfylla einhverjar gamlar samþykktir?

Borgarráð 20. ágúst 2020

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu er varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur.

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins er varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að taka inn þjónustuþætti eins og aðstoð við hár og neglur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þeir eldri borgarar sem búa einir fái aðstoð, óski þeir þess, með hár og neglur og fleira ámóta sem fólk þarfnast í sínu daglega lífi.  Sumir eldri borgarar eiga ekki ættingja til að sinna þessum þáttum eða hafa fjármagn til að kaupa þjónustuna sérstaklega. Enn aðrir hafa auk þess ekki þrek til að sækja sér svona þjónustu utan heimilis þar sem þeir einfaldlega treysta sér ekki út. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu fyrir eldri borgara hvort sem þeir búa heima eða í þjónustukjarna. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Lagt er til að tillögunni verði vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með 5 atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni er hafnað á grundvelli samkeppnissjónarmiða og með tilvísun í gildandi stefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessi tillaga hefur verið felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar.  Um var að ræða tillögu er  varðar nýja þjónustuþætti eins og þjónustu við hár og neglur. Ekki er skilningur á að eldri borgarar þurfi að fá þjónustu sem þessa. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að taka inn þjónustuþætti eins og aðstoð við hár og neglur. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að þeir eldri borgarar sem búa einir fái aðstoð, óski þeir þess, með hár og neglur og fleira ámóta sem fólk þarfnast í sínu daglega lífi.  Sumir eldri borgarar eiga ekki ættingja til að sinna þessum þáttum eða hafa fjármagn til að kaupa þjónustuna sérstaklega. Enn aðrir hafa auk þess ekki þrek til að sækja sér svona þjónustu utan heimilis þar sem þeir einfaldlega treysta sér ekki út. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu fyrir eldri borgara hvort sem þeir búa heima eða í þjónustukjarna. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi

Tillögur Flokks fólksins um breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til eftirfarandi breytingar er lúta að framleiðslu matarins, umbúðum og tímasetningu afhendingar hans: Að maturinn sé sendur út sama dag og hann er framleiddur. Það gerir matinn girnilegri til neyslu og hjálpar þjónustuþegum að viðhalda eðlilegri matarlyst. Að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru nú er erfitt að rífa plastið af bakkanum. Lagt er til að skoðað verði að nota lok í stað þess að líma plast yfir matarílátið. Lagt er til að maturinn komi ávallt á sama tíma eða því sem næst, með að hámarki 30 mín. skekkjumörkum. Fram hefur komið hjá fólki að tímasetningar séu ekki nægjanlega nákvæmar hjá Reykjavíkurborg. Því nákvæmari sem tímasetning er því auðveldara eiga þjónustuþegar með að undirbúa móttöku hans. Það skiptir marga eldri borgara máli að hlutir séu í föstum skorðum til að þeir geti sjálfir haldið rútínu. Það er á ábyrgð velferðarsviðs að ofangreindir þættir komist hið fyrsta í betra horf og leggur fulltrúi Flokks fólksins til að tillögunum verði vísað í starfshóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á þeim kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði og með vísan í samþykkta stefnumörkun og aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara og matarstefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  breytingar á verklagsreglum og framkvæmdaferil Vitatorgs varðandi matarsendingar til eldri borgara í heimahúsi. Velferðarráð virðist ekki hafa skilning á að það þurfi að laga þessa hluti. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til eftirfarandi breytingar er lúta að framleiðslu matarins, umbúðum og tímasetningu afhendingar hans: Að maturinn sé sendur út sama dag og hann er framleiddur. Það gerir matinn girnilegri til neyslu og hjálpar þjónustuþegum að viðhalda eðlilegri matarlyst að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru nú er erfitt að rífa plastið af bakkanum. Lagt er til að skoðað verði að nota lok í stað þess að líma plast yfir matarílátið. Lagt er til að maturinn komi ávallt á sama tíma eða því sem næst, með að hámarki 30 mín. skekkjumörkum. Fram hefur komið hjá fólki að tímasetningar séu ekki nægjanlega nákvæmar hjá Reykjavíkurborg. Því nákvæmari sem tímasetning er því auðveldara eiga þjónustuþegar með að undirbúa móttöku hans. Það skiptir marga eldri borgara máli að hlutir séu í föstum skorðum til að þeir geti sjálfir haldið rútínu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu ásamt greinargerð um breytingar á verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara:

Tillögur Flokks fólksins er lúta sérstaklega að verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara. Taka þarf tillit til margra þátta þegar reglur um verklag þjónustu við eldri borgara sem búa heima eru hannaðar. Staða eldri borgara er ólík. Það eiga t.d. ekki allir ættingja sem geta hlaupið undir bagga og það búa ekki allir í íbúðum hannaðar með hliðsjón af skertri færni og/eða hreyfigetu.  Lagt er til eftirfarandi verklag við afhendingu/móttöku matar: Þjónustuþegar láta þjónustumiðstöð vita ef þeir vilja ekki fá matarsendingu þann daginn eða til lengri tíma. Ef engin fyrirmæli eru um að matarsending eigi ekki að berast eða skuli afhendast með öðrum hætti  á að gera ráð fyrir að þjónustuþegi opni til að taka við matnum. Dæmi um önnur fyrirmæli gætu verið að viðkomandi óskar eftir að maturinn sé settur inn fyrir hurðina og hefur þá hurðin verið tekin úr lás eða að matur sé skilin eftir fyrir utan hurð. -Ef dyrabjöllu er ekki svarað þrátt fyrir að henni hafi verið hringt nokkrum sinnum þá ætti að hringja í síma þjónustuþega. Ef ekki er svarað í síma ætti sendill að hringja í ættingja (þjónustumiðstöð) sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Greinargerð:

Heimilisaðstæður eru mismunandi. Ekki eru allir sem búa heima í þjónustuíbúð heldur eru í sínum vistarverum sem eru ekki endilega hannaðar með þarfir eldri borgara í huga. Sumar  íbúðir eru með þröskuldum sem hindra að viðkomandi komist hratt um ef hann er t.d. með skerta hreyfigetu og notast við göngugrind.

Í greinargerð þessari er nánar kveðið á um verklagsreglur sendils eins og Fulltrúi Flokks fólksins leggur þær upp eftir að hafa haft samráð við eldri borgara sem búa heima og aðstandendur.

Verklagsreglur sendils:

 1.     Ef enginn skilaboð eru um annað sbr. ofangreint þá er gert ráð fyrir að móttakandi matarins taki við honum úr hendi sendils
 2.     Ef enginn svarar dyrabjöllu, ætti sendill hinkra við og reyna að hringja í síma (þjónustuþegi gæti     mögulega ekki hafa heyrt í bjöllunni eða skroppið á salernið).
 3.     Sé síma ekki heldur svarað ætti sendill hringja í ættingja (símanúmer sem hann hefur tiltækt hjá öllum þjónustuþegum sem þiggja matinn heim) og upplýsa ættingja um stöðu mála sé ættingi til staðar en að öðrum kosti sé þjónustumiðstöð upplýst.
  Ættingi tekur ákvörðun um hvað skuli gera í stöðunni. Ættingi gæti beðið sendil um að hringja aftur eftir stutta stund (sinna öðrum matarsendingum á milli).

Með símtali sendils til ættingja (eða þjónustumiðstöð) er ættingi einnig kominn með upplýsingar um að þjónustuþegi svari hvorki dyrabjöllu né síma þrátt fyrir að hann viti að matarsending er væntanleg.
Slíkt gæti verið vísbending um að þjónustuþegi sé í vanda og kalla þurfi á lögreglu umsvifalaust.
Með þessu fyrirkomulagi er sendillinn einnig öryggisnet.
Þegar eldri borgarar eru annars vegar eru allir þeir sem hafa við þá samskipti hluti af öryggisneti.
Safnist sem dæmi matur upp hjá þjónustuþega sem óskað hefur eftir að hann sé skilinn eftir fyrir utan dyr hlýtur sendill að verða að láta ættingja eða þjónustumiðstöð vita sem myndu í framhaldi leita orsaka.

Í öllu falli þarf matarsendingin að komast til skila enda vara sem búið er að greiða fyrir. Ekki er boðlegt eða réttlætanlegt að fara aftur til baka með matarsendinguna og ætlast til að þjónustuþegi sæki hana sjálfur, sendi leigubíl eftir henni eða fái hana daginn eftir eins og hugmyndir velferðarsviðs ganga m.a. út á. Þegar ekki er komið til dyra til að taka við matnum er ekki réttlætanlegt að skilja matinn eftir á hurðarhúninum nema fyrirmæli hafi komið um slíkt.

Ef sendill lendir oft í því að koma matarsendingunni ekki til skila eins og tilætlað er að beiðni þjónustuþega eru það vísbendingar um að finna þarf aðrar leiðir við afhendingu matarins í samráði við þjónustuþegann. Sú staða gæti verið uppi að þjónustuþegi sem er eldri borgari heyri t.d. verr en haldið var og/eða áttar sig verr á hvað tímanum líður.  Eldri borgarar eru eðli málsins samkvæmt stundum svifaseinir og sumir notast við göngugrind.

Það er ábyrgð velferðarsviðs að ofangreindir þættir komist hið fyrsta í betra horf og leggur fulltrúi Flokks fólksins til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði auk þess kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði og með vísan í samþykkta stefnumörkun og aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara og matarstefnu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um   breytingar sem lúta að verklagsreglum sendils við afhendingu matar til eldri borgara. Taka þarf tillit til margra þátta þegar reglur um verklag þjónustu við eldri borgara sem búa heima eru hannaðar. Staða eldri borgara er ólík. Það eiga t.d. ekki allir ættingja sem geta hlaupið undir bagga og það búa ekki allir í íbúðum hannaðar með hliðsjón af skertri færni og/eða hreyfigetu.  Lagt var til eftirfarandi verklag við afhendingu/móttöku matar: Þjónustuþegar láta þjónustumiðstöð vita ef þeir vilja ekki fá matarsendingu þann daginn eða til lengri tíma. Ef engin fyrirmæli eru um að matarsending eigi ekki að berast eða skuli afhendast með öðrum hætti  á að gera ráð fyrir að þjónustuþegi opni til að taka við matnum.

Ef dyrabjöllu er ekki svarað þrátt fyrir að henni hafi verið hringt nokkrum sinnum þá ætti að hringja í síma þjónustuþega. Ef ekki er svarað í síma ætti sendill að hringja í ættingja (þjónustumiðstöð) sem tekur ákvörðun um framhaldið.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu er varða matseðilinn, framleiðslu matarins og næringargildi.

Tillögur er varða matseðilinn, framleiðslu matarins og næringargildi.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að matseðill eldri borgara verði endurskoðaður hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Gerðar hafa verið kannanir um marga þætti þessu tengdu en einhverjum þykir sem niðurstöður og óskir eldri borgara hafi ekki verið virtar. Lagt er til að næringardrykk sé bætt við matarsendinguna. Ef litið er yfir matseðla má sjá að all oft er maturinn kolvetnaríkur en minna er um prótein. Eldra fólk þarf á góðri næringu að halda til að geta haldið heilsu og þrótti til að það geti búið sem lengst heima hjá sér. Dæmi eru um að eldri borgarar sem búa heima hafi þurft að fara á sjúkrahús vegna næringarskorts og uppþornunar. Auk þess er lagt til að fólki sé boðið upp á eitthvað val með matinn sinn, t.d. geti valið meira eða minna grænmeti. Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að þessi atriði verði skoðuð af næringarráðgjöfum borgarinnar og að aukin verði eftirfylgni með að farið sé eftir matarstefnu borgarinnar að öllu leyti. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á tillögunni kostnaðarmat.

Vísað til stýrihóps um innleiðingu á matarstefnu Reykjavíkurborgar.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað til meðferðar stýrihóps um forgangsröðun og innleiðingu matarstefnu

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð

Tillaga Flokks fólksins um að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að eldri borgarar sem búa í eigin húsnæði sem ekki er hluti af þjónustukjarna eða skilgreint sem þjónustuhúsnæði geti sótt um niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru innifaldir í þjónustuíbúð. Hér mætti nefna afslátt af fasteignagjöldum, rafmagni og þátttöku velferðaryfirvalda í húsgjaldi blokkarinnar sem snýr að íbúð viðkomandi. Einnig að þeir fái aðstoð eða niðurgreidda þjónustu varðandi þrif í görðum sínum, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi með sorpið og allra síst ef hálka er og ófærð. Fjárhagur sumra eldri borgara er þröngur. Þeir sem búa í eigin íbúðum sem ekki eru skilgreindar þjónustuíbúðir  eru að mæta annars konar hindrunum en þeir sem búa í þjónustuíbúð. Má sem dæmi nefna þrengsl á baðherbergi og í eldhúsi, dyraop eru þrengri og víða eru þröskuldar. Fyrir þá sem notast við göngugrindur eða hækjur/staf getur verið erfitt um vik. Lagt er til að þessari tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er felld með vísan í stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun sem er í innleiðingu. Samkvæmt 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er sveitarfélögum heimilt að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Er sveitarfélögum skylt að setja sér reglur um beitingu heimildarinnar og það hefur Reykjavíkurborg gert í borgarráði.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að eldri borgarar sem búa í sínum eigin íbúðum, ekki í þjónustukjarna, geti sótt um niðurgreiðslu á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð. Fulltrúi Flokks fólksins lagði  til að eldri borgarar sem búa í eigin húsnæði sem ekki er hluti af þjónustukjarna eða skilgreint sem þjónustuhúsnæði geti sótt um niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru innifaldir í þjónustuíbúð. Hér mætti nefna afslátt af fasteignagjöldum, rafmagni og þátttöku velferðaryfirvalda í húsgjaldi blokkarinnar sem snýr að íbúð viðkomandi. Einnig að þeir fái aðstoð eða niðurgreidda þjónustu varðandi þrif í görðum sínum, flokkun á sorpi og sorphirðu. Sumir eldri borgarar treysta sér einfaldlega ekki út úr húsi með sorpið og allra síst ef hálka er og ófærð.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Nú þegar er heimild til að lækka slík gjöld vegna fjárhagslegra aðstæðna, en ekki er lagaheimild til að útvíkka hana eingöngu á forsendum aldurs.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að eldri borgarar fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði:

Tillaga um að eldri borgarar fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði. Með aukinni sjúkraþjálfun fyrir eldri borgara sem búa einir heima og geta ekki farið mikið út úr húsi eru meiri líkur á að viðkomandi geti viðhaldið þrótti sínum og verið lengur heima. Með aukinni þjálfun og fjölbreyttri hreyfingu eru líkur á að losa megi um stirðnun eða í það minnsta tefja fyrir henni. Með aukinni hreyfigetu nær viðkomandi að halda líkamanum í meira jafnvægi sem eykur sjálfstraust og þor til að geta gert þá nauðsynlegustu hluti eins og að klæða sig án erfiðleika. Með aukinni hreyfingu og hreyfigetu eykst einnig matarlyst og líkamsstarfsemin helst betri. Það hefur verið sannað að það fólk sem getur hreyft sig á efri árunum líður betur andlega og líkamlega. Í ljósi þessa leggur fulltrúi Flokks fólksins til að eldri borgarar sem búa heima fái þjónustu sjúkraþjálfara tvo daga í viku í stað eins og að heimahjúkrun verði veitt í ríkari mæli en nú er í boði. Lagt er til að tilögunum verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði á þeim kostnaðarmat.

Vísað til yfirstandandi samningagerðar Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands til umfjöllunar og meðferðar.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til þeirra eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins.:

Tillaga Flokks fólksins um að taka upp gjaldfrjálsar matarheimsendingar til þeirra eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði að taka upp gjaldfrjálsar heimsendingar á mat til eldri borgara sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Sama gildir um þjónustu sjúkraþjálfara. Í þessu sambandi vill fulltrúi Flokks fólksins taka fram að kostnaður við sveitafélag er um 14 milljónir á skjólstæðing sem dvelur á dvalarheimili. Hægt er að helminga þann kostnað með því að hjálpa viðkomandi til að vera heima sem lengst með auknum fríðindum eins og þessum. Þá getur viðkomandi frekar borgað af eign sinni eða húsaleigu. Fyrir marga eldri borgara munar um hverja krónu. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu  og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki.

Tillögur Flokks fólksins um að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Öryggishnappur er þarfaþing hjá öllum þeim eldri borgurum sem búa einir. Það veitir líka aðstandendum öryggi. Þessi þjónusta er veitt af Securitas og Öryggismiðstöðinni. Hjá Öryggismiðstöðinni kostar hnappurinn í gegnum sjúkratryggingarnar um 2.520, en beint til þeirra er kostnaður um 6.440,-   Það má hugsa sér að öryggishnappur sé einn af kostnaðarþáttum heimahjúkrunar. Auk þess leggur fulltrúi Flokks fólksins til að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki enda hafa ekki allir eldri borgarar ráð á að kaupa slík tæki t.d. blóðþrýstingsmæli. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfshóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tryggingastofnun sér um niðurgreiðslu öryggishnappa. Búnaður er til staðar hjá starfsmönnum ríkisins.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp og að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Öryggishnappur er þarfaþing hjá öllum þeim eldri borgurum sem búa einir. Það veitir líka aðstandendum öryggi. Þessi þjónusta er veitt af Securitas og Öryggismiðstöðinni. Hjá Öryggismiðstöðinni kostar hnappurinn í gegnum sjúkratryggingarnar um 2.520, en beint til þeirra er kostnaður um 6.440,-   Það má hugsa sér að öryggishnappur sé einn af kostnaðarþáttum heimahjúkrunar. Auk þess leggur fulltrúi Flokks fólksins til að þeir sem veita eldri borgurum þjónustu í heimahúsum s.s. taka lífsmörk komi með sín eigin tæki enda hafa ekki allir eldri borgarar ráð á að kaupa slík tæki t.d. blóðþrýstingsmæli.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er mikilvægt að gæta að verkskiptingu og kostnaðarskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins og mjög varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytisins sé óþörf, það gæti einnig sett í uppnám samskipti milli sveitarfélags og ríkis þar sem um mjög misvísandi skilaboð væri að ræða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja:

Tillaga Flokks fólksins um að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að stöðumat verði gert oftar en nú er gert og ekki eingöngu þegar sótt er um þjónustuna. Einnig er lagt til að þjónustukerfi velferðarsviðs treysti minna á ættingja, séu þeir til staðar, heldur skipuleggi þjónustu við eldri borgara frá upphafi þannig að ekki eigi að setja verkefnin á herðar fjölskyldunnar eða þjónustuþegans sjálfs. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einnig til að matið verði einfaldað þegar sótt er um á hjúkrunarheimili. Fólki er gert erfitt fyrir að komast ofarlega á lista, það þarf að krossa í öll boxin með rökstuðningi sem ekki er á færi allra að geta. Lagt er til að gengið verði í,  í kjölfar matsins, að laga það sem vantar upp á af þjónustuþáttum til að viðkomandi geti verið sem lengst heima hjá sér. Enn fremur leggur fulltrúi Flokks fólksins til að iðjuþjálfi komi árlega til að meta þörf einstaklingsins og jafnvel oftar sé viðkomandi með einhver hjálpartæki. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sita hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá á grundvelli þess að, heilsu og færnimat er ekki á vegum Reykjavíkurborgar heldur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að stöðumat á skjólstæðingi sem þiggur þjónustu frá Reykjavíkurborg verði tíðari en nú er og minna verði treyst á ættingja. Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að stöðumat yrði gert oftar en nú er gert og ekki eingöngu þegar sótt er um þjónustuna. Einnig er lagt til að þjónustukerfi velferðarsviðs treysti minna á ættingja, séu þeir til staðar, heldur skipuleggi þjónustu við eldri borgara frá upphafi þannig að ekki eigi að setja verkefnin á herðar fjölskyldunnar eða þjónustuþegans sjálfs. Fulltrúi Flokks fólksins leggur einnig til að matið verði einfaldað þegar sótt er um á hjúkrunarheimili. Fólki er gert erfitt fyrir að komast ofarlega á lista, það þarf að krossa í öll boxin með rökstuðningi sem ekki er á færi allra að geta.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Svarið við þessari tillögu er að þessi þjónusta er ekki á vegum Reykjavíkurborgar, heldur Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, enginn ágreiningur er um það og óþarfi að kalla á sérstaka úrvinnslu á sviðinu til að ítreka það.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús:

Tillaga Flokks fólksins um að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús. Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta búið sem lengst heima þá þarf að endurskipuleggja nokkra mikilvæga þjónustuþætti. Það eru eldri borgarar sem búa heima sem upplifa óöryggi varðandi ýmsa þjónustuþætti velferðarsviðs. Sumum aðstandendum finnst þeir vera í glímu við velferðarkerfið fyrir hönd þjónustuþegans. Enda þótt eldri borgarar séu mikið heima við þá vilja þeir eðlilega halda tímaplani og skipulagi. Fátt er meira þreytandi en að bíða eftir þjónustu. Starfsfólkið er í kapphlaupi við tímann sem fjölgar þeim tilfellum að tímasetningar raskast. Dæmi er um að þjónusta sem á að veita kannski kl. 13 er veitt kl. 15 eða seinna. Einnig eru dæmi um að verið sé að færa þjónustuna milli daga því ekki náðist að ljúka henni á tilsettum degi eða að tímar hafi riðlast yfir daginn. Lagt er til að tillögunni sé vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað frá, verklagsreglur og framkvæmdaferill eru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki í velferðarráði. Þjónustumiðstöðvar hafa metnað til að halda tímaskipulag en reynist það flókið einhverra hluta vegna þá er sannarlega mikilvægt að vera í góðu samstarfi við þjónustuþega.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að  þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að velferðarsvið skipuleggi betur tímasetningar vinnu heimahjúkrunar og annarra þjónustu sem eldri borgarar fá í heimahús. Í bókun meirihlutans segir  að rökin fyrir frávísun séu m.a að þjónustumiðstöðvar hafa metnað til að halda tímaskipulagi en reynist það flókið einhverra hluta vegna þá er sannarlega mikilvægt að og vera í góðu samstarfi við þjónustuþega.  Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta búið sem lengst heima þá þarf að endurskipuleggja nokkra mikilvæga þjónustuþætti. Það eru eldri borgarar sem búa heima sem upplifa óöryggi varðandi ýmsa þjónustuþætti velferðarsviðs. Enda þótt eldri borgarar séu mikið heima við þá vilja þeir eðlilega halda  tímaplani og skipulagi. Fátt er meira þreytandi en að bíða eftir þjónustu. Starfsfólkið er í kapphlaupi við tímann sem fjölgar þeim tilfellum að tímasetningar raskast. Dæmi er um að þjónusta sem á að veita kannski kl. 13 er veitt kl. 15 eða seinna.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram tillögu um að starfsfólk sem þjónustar eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna því:

Tillaga Flokks fólksins um að starfsfólk sem þjónustar eldri borgara fái aukið svigrúm og sveigjanleika til að sinna því. Lagt er til að allt það færa fólk sem starfar í þessum geira fái aukinn sveigjanleika og svigrúm til að sinna starfi sínu með eldri borgurum. Þau störf sem hér um ræðir eru álagsstörf og launin eru lág. Til að geta sinnt starfi sem þessu þarf að hafa ríka þjónustulund. Fulltrúi Flokks fólksins vill nefna mikilvægi þess að starfsfólki sé veitt nauðsynlegt svigrúm í starfinu til að sinna eldri borgurum með ýmislegt sem er ekki endilega í verklýsingu. Þeir sem sinna þjónustunni eru jafnvel þeir einu sem sumir eldri borgarar sjá yfir daginn. Starfsfólk þarf að geta haft svigrúm og tíma til að hjálpa með ein og önnur erindi eins og t.d. ef hringja þarf fyrir eldri borgara og panta tíma hjá lækni eða annað sambærilegt. Hér er átt við að sá sem þjónustar gangi í verkefni sem augljóslega þarf að gera fyrir þjónustuþegann. Þetta auka svigrúm myndi einnig gefa nokkrar mínútur til að spjalla aðeins saman. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfshóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Frestað og vísað til umsagnar velferðarsviðs.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur að þjónustuþáttum sem flokkast undir heimilisþrif/heimilishjálp verði fjölgað.

Eldri borgarar eiga iðulega erfitt með þegar árin færast yfir að þvo þvottinn sinn, skipta á rúmi og annast flokkun sorps og sorphirðu. Þvotturinn er þungur og að skipta á rúmi og setja í þurrkara eða hengja upp þvott krefst ákveðinnar hreyfigetu. Þessari þjónustu verður velferðarsvið að koma á laggirnar. Aðstæður eldri borgara sem búa heima eru mismunandi. Sumir eldri borgarar sem búa einir eiga ekki ættingja eða vini sem þeir geta leitað til eftir aðstoð með þætti sem þjónusta velferðarsviðs býður ekki upp á.  Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að velferðarsvið bjóði út tauþvott þeirra eldri borgara sem óska eftir aðstoð með þvottinn sinn og skuli hann vera gjaldfrjáls þeim sem mælast undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins. Slík þjónusta yrði þá þannig að óhreinn þvottur er sóttur og honum skilað hreinum. Annað sem er ekki nú þegar á lista heimilisþrifa verði bætt við s.s. skipti á rúmi, flokkun heimilissorps og sorphirða.

Greinargerð

Eins og málum er háttað í dag er þjónusta velferðarsviðs við eldri borgara of takmörkuð. Engin þjónusta er í boði að annast þvotta og þurrkunar á þvotti hjá eldri borgurum. Þeir eldri borgarar sem það geta biðja ættingja sína að hjálpa sér með þessa hluti. En það eru ekki allir svo lánsamir að eiga einhvern að sem getur sinnt þjónustustörfum sem þessum. Það er því mikilvægt að fjölga þjónustumöguleikum „heimilishjálpar“. Sá eð sú sem sinnir heimilisþrifum setji t.d. einnig í þvottavél og þurrkara, brjóti saman og setji í skáp og skúffur.

Varðandi sorphirðu þá þurfa margir eldri borgarar sem búa einir heima aðstoð við að fara út með heimilissorp. Flokka þarf plast, pappír og lífrænan úrgang.  Jafnvel þótt ruslafötur séu á baði þá fyllast þær fljótt. Koma þarf uppsöfnuðu sorpi út úr húsi. Margir eldri borgarar sem búa í íbúðum sem ekki eru skilgreindar þjónustuíbúðir komast stundum ekki út úr íbúð sinni hjálparlaust. Þess vegna er ekki hægt að ætlast til þess að þeir sjái um þessa hluti sjálfir.
Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Tillagan er felld með vísan í að verið er að innleiða stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun þar um. Þar er forgangsröðun samþykkt. Þess má geta að mörg af þessum verkefnum eru þegar innt af hendi s.s aðstoð við að skipta á rúmum, aðstoð við þvotta og sorphirðu en er það ákvarðað að grundvelli mats á hverjum tíma. Hinsvegar stendur ekki til að bjóða út tauþvott til eldri borgara sem búa í heimahúsum að þessu sinni.

 

Fulltrúi Flokks fólksin leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við að þessi tillaga var felld. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar til að upplýsa megi eldri borgara um stöðu mála. Tillagan var um  að fjölgun þjónustuþátta sem flokkast undir heimilisþrif/heimilishjálp. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að verkefni þeirra sem sinna heimilisþrifum/hjálp nái til fleiri þátta, sem dæmi skipti á rúmum, þvotta og sorphirðu. Eldri borgarar eiga iðulega erfitt með þegar árin færast yfir að þvo þvottinn sinn, skipta á rúmi og annast flokkun sorps og sorphirðu.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerðar verði nokkrar breytingar á verkferlum sem lúta að aðstoð við böðun fólks sem þurfa aðstoð að því tagi:

Flokkur fólksins leggur til að þeir sem njóta aðstoðar við böðun fái aðstoðina þrátt fyrir að áætlaður baðdagur þeirra lendi á rauðum degi. Viðhalda þarf þessari þjónustu sama hvaða dagur er. Auka þarf mannskap svo hægt sé að viðhalda þjónustunni án tillits til hvort það er virkur dagur eða rauður dagur. Lagt er einnig til að baðdögum sé fjölgað úr einum í tvo á viku hjá þeim sem þess óska. Í verklagsreglum vegna böðunar þarf jafnframt að koma enn skýrar fram að fólk sé ekki skilið eftir í baðaðstæðunum þar sem það getur slasast. Aldrei má skilja við einstakling sem er orðinn óöruggur í hreyfingum fyrr en hann er kominn á öruggan stað í íbúð sinni. Sá vandi hefur verið reifaður að aðstoðarfólk sé oft undir álagi og hafi aðeins stuttan tíma eða kannski 40 mín. til að aðstoða við böðun. Sá tími dugar alls ekki í mörgum tilfellum.

Greinargerð

Allir eiga rétt á að vera baðaðir enda þiggja þeir þá þjónustu og því á að viðhalda henni sama hvaða dagur er. Til að létta á álagi þarf velferðarsvið að skipuleggja þessa þjónustu betur, bæta við starfsfólki eða semja við það starfsfólk sem er fyrir t.d. með því að bjóða þeim auka greiðslu eða frí í staðinn fyrir að vinna á rauðum dögum.

Með því að bjóða þeim sem þess þurfa og vilja upp á að fara í bað tvisvar í viku er dregið úr líkum þess að eldri borgarar fái sýkingar svo ekki sé minnst á hina auknu vellíðan sem fylgir. Ef það á að vera raunverulegur kostur að geta verið sem lengst heima þá þarf að endurskoða meðal annars þetta í þjónustuþáttum velferðarsviðs.  Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að hanna og skipuleggja þjónustu. Hafa þarf fullt samráð við þjónustuþegann og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Lagt er til að tillögunni verði vísað í sérstakan starfs- eða vinnuhóp til frekari úrvinnslu og að gert verði kostnaðarmat.

Samþykkt að vísa inn í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar og Sjúkratrygginga Íslands.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vísað í yfirstandandi samningagerð Reykjavíkurborgar við Sjúkratryggingar Íslands til umfjöllunar og meðferðar.

 

Tillaga Flokks fólksins að efla og auka tengsl velferðarþjónustunnar við eldri borgara

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að velferðarsvið treysti of mikið á ættingja og tölvukerfið þegar kemur að samskiptum við eldri borgara. Dæmi eru um að fólk „detti út úr“ tölvukerfinu og fái þess vegna ekki matinn sendan heim þótt reynt sé að hringja og láta vita. Skemmst er að minnast eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist í kerfinu Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Lagt er til að tengslakerfi við eldri borgara sem þiggja þjónustu frá Reykjavíkurborg verði eflt og notaðar verði fjölbreyttari leiðir í því sambandi. Þegar faraldurinn skall á var sett á laggirnar verkefni sem fól í sér að hringt var til Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið gekk vel og lagði Flokkur fólksins til í júní 2020 að verkefninu yrði framhaldið. Nú eru ámóta aðstæður skollnar á aftur og brýnt að leitað verði allra leiða til að efla og dýpka tengsl við eldri borgara sem búa heima. Lagt er til að tillögunni verði vísað í starfs- eða vinnuhóp til frekari meðferðar og að gert verði kostnaðarmat.

Vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun

Tillögunni er vísað frá með tilvísun í gildandi stefnu í málefnum eldri borgara og aðgerðaáætlun sem verið er að innleiða.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins er ósáttur við að þessari tillögu var vísað frá. Hér hefði verið lag að senda tillöguna áfram og fá formlegt svar.  Um var að ræða að efla og auka tengsl velferðarþjónustunnar við eldri borgara. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður tjáð sig um að velferðarsvið treysti of mikið á ættingja og tölvukerfið þegar kemur að samskiptum við eldri borgara.  Dæmi eru um að fólk „detti út úr“ tölvukerfinu og fái þess vegna ekki matinn sendan heim þótt reynt sé að hringja og láta vita. Skemmst er að minnast eldri borgara sem kom heim eftir legu á sjúkrahúsi og hreinlega gleymdist í kerfinu Hann átti aðeins malt og lýsi í ísskápnum. Lagt er til að tengslakerfi við eldri borgara sem þiggja þjónustu frá Reykjavíkurborg verði eflt og notaðar verði fjölbreyttari leiðir í því sambandi. Þegar faraldurinn skall á var sett á laggirnar verkefni sem fól í sér að hringt var til Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið gekk vel og lagði Flokkur fólksins til í júní 2020 að verkefninu yrði framhaldið. Nú eru ámóta aðstæður skollnar á aftur og brýnt að leitað verði allra leiða til að efla og dýpka tengsl við eldri borgara sem búa heima.

 

Fyrirspurnir sem lagðar eru fram á fundinum

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hækkun húsaleigu Félagsbústaða síðustu misserin:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum síðustu 2 ár.
Vísað til Félagsbústaða.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborga:

Fyrirspurnir um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar. Lögð er fram stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. Aðallega er fjallað um tillögur að vinnu markaðsaðgerðum, stöðu langtíma atvinnulausra og stöðu aðgerða í velferðarþjónustu auk húsnæðis- og skuldamála. Flest af því sem fram kemur í skýrslunni lýtur að aðgerðum stjórnvalda og ákveðin samstarfsverkefni stjórnvalda og Reykjavíkur. Það sem fulltrúi Flokks fólksins langar að vita er hver sé þróun verkefna sem Reykjavíkurborg stendur ein fyrir? Í framhaldinu eru lagðar fram fyrirspurnir: Hvernig er ástandið á vinnumarkaði borgarinnar? Hvernig hefur gengið að manna lausar stöður í Reykjavík og hvar er mesti vandinn vegna manneklu? Óskað er eftir yfirliti fyrir síðustu mánuði.

Vísað til velferðarsviðs.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á teymi um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19:

Lögð er fram stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála, stöðu aðgerða í velferðarþjónustu auk húsnæðis- og skuldamála  í kjölfar COVID-19. Flest af því sem fram kemur í skýrslunni lýtur að aðgerðum stjórnvalda og ákveðnum samstarfsverkefnum stjórnvalda og Reykjavíkur. Fram kemur að ákveðið er að veita 600 milljónum króna til þess að auka jöfnuð í íþrótta- og tómstundastarfi barna. Styrkurinn miðast við heimili sem hafa tekjur undir 740.000 kr. á mánuði. Þessar upplýsingar leiða huga fulltrúa Flokks fólksins að frístundakortinu sem er á forræði skóla- og frístundaráðs og hefur einmitt þennan sama tilgang. Engar fréttir hafa borist frá þeim vinnuhópi sem endurskoðar reglur um frístundakortið og veltir fulltrúi Flokks fólksins hvort velferðarráð og skóla- og frístundaráð eigi ekki að eiga í meira samstarfi um frístundakortið og styrki sem hugaðir eru til að auka jöfnuð?  Það sem fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá er meira um þróun verkefna sem Reykjavíkurborg stendur ein fyrir í ljósi þess að aukning hefur orðið á umsóknum um fjárhagsaðstoð til framfærslu og framfærslulán hjá Reykjavíkurborg. Í framhaldinu eru lagðar fram fyrirspurnir sem eru sendar sérstaklega: Hvernig er ástandið á vinnumarkaði borgarinnar? Hvernig hefur gengið að manna lausar stöður í Reykjavík og hvar er mesti vandinn vegna manneklu?

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 19. ágúst, um rekstur Konukots:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hægt er að tryggja rekstur Konukots. Tillaga sviðsstjóra er að velferðarsviði verði falið að stofna til viðræðna við Rótina (félag um konur, áföll og vímugjafa) um rekstur Konukots. Auglýst var í júní eftir áhugasömum rekstraraðilum og sendi Lausnin (fjölskyldu- og áfallamiðstöð) og Rótin inn upplýsingar. Rekstraráætlun Lausnarinnar var um 106 milljónir en Rótarinnar um 93 milljónir. Fulltrúi Flokks fólksins þekkir vel til Lausnarinnar sem leidd er af ráðgjöfum og þerapistum með mikla menntun og reynslu. Sem sálfræðingur hefur fulltrúi Flokks fólksins oft vísað á Lausnina og veit til þess að þar er veitt fagleg og góð þjónusta. Með þessu er ekki verið að segja að Rótin skarti ekki sambærilegum gæðum hvað varðar fagmennsku og hefur Rótin verið  leiðandi í þessum málaflokki um langt skeið.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu  Flokks fólksins um deilumál á milli leigjenda félagsbústaða.

Tillögur  fulltrúa Flokks fólksins um frekari bjargir sem leigjendur Félagsbústaða geta gripið til ef upp koma erfið mál milli  leigjenda félagsbústaða og að stofnað verði teymi sem hægt er að kalla til utan opnunartíma hafa verið afgreiddar. Sú fyrri er felld en sú seinni er vísað til starfshóps. Tillögurnar voru lagðar fram vegna ábendinga um að skortur sé á úrræði og aðstoð við úrlausn komi upp ágreiningur milli leigjenda. Erfiðast er þegar slík mál koma upp utan opnunartíma.  Í svari kemur fram að vinnureglan sé sú að íbúi hringi í lögreglu og sé um ítrekaðan vanda sé það tilkynnt til Félagsbústaða. Vandamálið er að lögregla getur oft ekki leyst mál af þessu tagi utan opnunartíma og situr fólk oft eftir í erfiðum aðstæðum sem fólk hefur engar forsendur til að leysa úr. Um hátíðir getur þetta verið sérstaklega erfitt. Stundum eru aðstæður þannig að mál þolir ekki bið og þá hafa leigjendur lent í að fá enga aðstoð nema sagt að leita til síns ráðgjafa á opnunartíma. Á opnunartíma gilda önnur lögmál. Fram kemur að innan velferðarsviðs sé starfandi teymi sem tekur á slíkum málum. Eftir sem áður er vandinn enn til staðar komi upp erfið mál utan opnunartíma, ekki síst um hátíðir.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæða fulltrúa Flokks fólksins og Sósíalistaflokks Íslands. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins um teymi sem starfar utan opnunartíma:

Tillögur  fulltrúa Flokks fólksins um að stofnað verði teymi sem hægt er að kalla til utan opnunartíma  hefur verið vísað til starfshóps og fagnar Flokkur fólksins því. Tillagan var lögð fram vegna ábendinga um erfiðleika þegar vandi kemur upp utan opnunartíma. Í svari kemur fram að vinnureglan sé sú að íbúi hringi í lögreglu og sé um ítrekaðan vanda sé það tilkynnt til Félagsbústaða. Vandamálið er að lögregla getur oft ekki leyst mál af þessu tagi utan opnunartíma og situr fólk oft eftir í erfiðum aðstæðum sem fólk hefur engar forsendur til að leysa úr. Um hátíðir getur þetta verið sérstaklega erfitt. Stundum eru aðstæður þannig að mál þolir ekki bið og þá hafa leigjendur lent í að fá enga aðstoð nema sagt að leita til síns ráðgjafa á opnunartíma. Á opnunartíma gilda önnur lögmál. Fram kemur að innan velferðarsviðs sé starfandi teymi sem tekur á slíkum málum. Eftir sem áður er vandinn enn til staðar komi upp erfið mál utan opnunartíma, ekki síst um hátíðir.

Samþykkt að vísa inn í stýrihóp um stefnumótum í velferðarmálum.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að auka gegnsæi í þjónustu þjónustumiðstöðva:

Tillögunni er vísað í starfshóp og fær vonandi þar góða meðferð. Það er ánægjulegt að sjá að margt er í farvatninu sem auka myndi  gegnsæi og upplýsingagjöf til foreldra um þjónustu til barna og barnafjölskyldna á vegum þjónustumiðstöðva eins og tillaga Flokks fólksins fjallar um. Mestar áhyggjur hafa snúið að upplýsingagjöf til okkar viðkvæmustu hópa, fólks með fötlun og foreldra sem og eldri borgara og öryrkja. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar ekki hvað síst að texti verður auðlesnari og uppsetning aðgengilegri en áður og þar mun koma skýrt fram hvaða þjónusta er í boði, hvaða hópum hún er ætluð, hvernig hægt sé að sækja um hana og fylgjast með umsóknarferli. Allra leiða þarf að leita til að auka aðgengi foreldra að stuðningsþjónustu fyrir börn og fjölskyldur þar sem unnið verður með alla verkferla og umsóknir. Í þessu öllu má ekki gleyma að vinna með borgarbúum, þjónustuþegum enda eru þeir þeir einu sem geta sagt hvað sé að virka og hvað virkar ekki eins vel eða alls ekki. Í svari/umsögn lítur út fyrir sem með þessum aðgerðum verði komið til móts við margar þeirra tillagna sem settar eru fram af fulltrúa Flokk fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Flokks fólksins áframhaldandi ráðningu sumarstarfsmanna.

Flokkur fólksins lagði til að sumarstarfsmenn, sem eiga þess kost, fái áframhaldandi ráðningu því að COVID 19 er ekki búið og verður ekki búið fyrr en viðurkennt bóluefni kemur á markað. Einhver tími er í það. Nú  liggur fyrir að allir þurfi að aðlagast því að lifa með veirunni. Hér er því ekkert um on eða off að ræða. Það sem gafst vel í upphafi COVID heldur áfram að gefast vel ef vel er haldið á spilunum. Sumt af því sem fólk varð að tileinka sér út af COVID ástandinu var af hinu góða og verður væntanlega tekið upp sem hluti af daglegu lífi. Tillagan er felld með þeim rökum að þar sem ekki var gert ráð fyrir að átakið yrði framlengt gefi fjárhagsrammi velferðarsviðs ekki svigrúm til að bjóða þessu starfsfólki áframhaldandi störf. Enda þótt ekki hafi verið gert ráð fyrir að umrætt átak verð framlengt og ekki sé til peningur hjá sviðinu mun Flokkur fólksins engu að síður halda tillögunni til haga og minna á hana við næstu fjárlagagerð.

Felld fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata, Vinstri grænna. gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

 

Bókun Flokks fólksins Flokks fólksins vegna þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs jan-mars:

Fulltrúi Flokks fólksins gerir sér  grein fyrir að taka þarf þriggja mánaða uppgjöri með fyrirvara. Það væri kannski gott að fá einfaldlega ítarlegri skýringar með yfirlitinu? Í svari kemur fram hjá sviðsstjóra að heimaþjónusta er ekki innan fjárheimilda vegna manneklu heldur vegna verkfalla í byrjun árs og vegna þess að ekki var hægt að ráða í þær stöður sem fjármagn var ætlað í vegna Covid.  Engu að síður stendur í yfirlitinu að heimaþjónusta og heimahjúkrun voru innan fjárheimilda af tveimur ástæðum, vegna verkfalla í byrjun árs  og að ekki náðist að manna í allar stöður. Mannekla kemur m.a. til vegna þess að þessi störf eru ekki talin mjög eftirsóknarverð mikið til vegna álags og lágra launa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur oft rætt um mannekluvandann og tjáð sig um að velferðaryfirvöld nái ekki utan um þann vanda sem bitnar á þjónustuþegum. Vegna umfram fjárheimilda hjá barnavernd sem skýrast af vistgjöldum barna með fjölþættan vanda eru það sömu skýringar og oft áður. Börnum með fjölþættan vanda hefur verið að fjölga jafnt og þétt síðustu ár og telur fulltrúi Flokks fólksins að reyna mætti að gera nákvæmari áætlun fyrir barnavernd.

Velferðarráð 19. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 8. júlí 2020, til samgöngu og sveitarstjórnarráðherra varðandi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug:

Kallað er eftir nýjum stað fyrir kennslu- og einkaflug. Segir í gögnum að aðilar séu sammála um að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vera góður kostur. Þótt staður kennslu og einkaflugs sé beinlínis ekki tengdur því hvort flugvöllurinn fari þaðan í framtíðinni þá liggur nú fyrir að næsta áratuginn eða svo mun flugvöllurinn vera áfram í Vatnsmýrinni. Hvort Hvassahraun sé vænlegur kostur er allsendis óvíst. Rannsóknir hafa tafist von úr viti. Af hverju liggur því núna svona mikið á að finna nýjan stað fyrir kennslu og einkaflug? Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir flugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Farið var að mæla veðurskilyrði þar fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi, s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Óvissan um staðsetningu fyrir nýjan flugvöll er alger, gildir þá einu hvaða skoðanir fólk hefur á hvort völlurinn eigi að vera eða fara. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir. Að færa kennslu og einkaflug annað er ekkert akút mál og mun einungis kalla á útlát fjármuna sem ekki eru tímabær.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um COVID í tengslum við minnisblað slökkviliðsstjóra og framkvæmdastjóra almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, dags. 12. ágúst 2020, varðandi COVID-19 og aðgerðir sveitarfélaga:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort meirihluti borgarráðs hafi farið of geyst með ákvörðunum sem leiða til mannmargra viðburða og samkoma. Borgarráð, þeir sem þar ráða hefðu mátt vita eins og aðrir að það gæti komið bakslag vegna COVID sem síðan varð raunin. Borgar- og skipulagsyfirvöld verða að haga ákvörðunum sínum í samræmi við það. Fulltrúi Flokks fólksins nefndi þetta í einni af bókunum sínum á borgarráðsfundi 2. júlí og segir í þeirri bókun ennfremur að þegar líða tekur á árið liggi betur fyrir hvernig mál munu þróast. COVID er ekki búið og borgaryfirvöld verða að horfast í augu við það þegar sem dæmi boða á til umræðufunda vegna skipulagsmála. Í því COVID ástandi sem nú ríkir treysta sumir sér ekki út úr húsi. Hér þarf að gæta að jafnræði og sjá til þess að aðstæður séu með þeim hætti að allir hafi jöfn tækifæri á að mæta til slíkra funda til að geta látið skoðanir sínar í ljós um mál sem snúa beint að þeim sjálfum.

 

Bókun Flokks fólksins við  við svari menningar- og ferðamálasviðs, dags. 6. ágúst 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð, sbr. 62. lið fundargerð borgarráðs frá 25. júní 2020:

Á fundi borgarráðs 25. júní lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um hvar umhverfismatið sem pálmaverkið sem setja átti upp í Vogabyggð er statt. Ekki hefur borist svar við því en fyrirspurninni var vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svari við fyrirspurninni hið fyrsta og hefði það svar í raun átt að koma nú samhliða svari við fyrirspurn Miðflokksins um uppsetningu pálmatrjáa í Vogabyggð enda báðar fyrirspurnirnar lagðar fram á sama fundi. Ennþá er því beðið eftir svari við „fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um framvindu raunhæfismats á útilistaverki í Vogabyggð“. Aðrar fyrirspurnir voru: Hverjir koma að matinu. Hvert er ferlið við framkvæmd raunhæfismats og hvar er borgin stödd í því ferli? Hver annast framkvæmd raunhæfismatsins? Hvað veldur þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd raunhæfismatsins nú þegar meira en ár er liðið frá því ákvörðun um það var tekin í málinu? Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmd raunhæfismatsins?

 

Bókun Flokks fólksins við  fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. ágúst 2020:

Af kynningu eigenda rafskútuleiga að dæma hefur orðið gríðarleg fjölgun á notkun rafskútna og rafhlaupahjóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af slysum sem hafa orðið á þessum hjólum og kunna að verða. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Velta má fyrir sér hvort borgar- og skipulagsyfirvöld ásamt rafskútuleigum hafi unnið nægjanlega vel og mikið með samgöngustofu og lögreglu í þessum málum og gert allt sem hægt er að gera til að tryggja öryggi þeirra sem hjóla og annarra vegfarenda? Rafhjólin eru komin til að vera, ekki er um það deilt. Samkvæmt umferðarlögum á hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Borgaryfirvöld geta og eiga að hvetja til hjálmanotkunar allra notenda rafhlaupahjóla og venjulegra hjóla án tillits til aldurs. Bannað er að hjóla undir áhrifum áfengis. Borgaryfirvöldum ber að leggja alla áherslu á að upplýsa um þessar reglur og ítreka að þær skuli virtar. Enn skortir mikið á að innviðir séu tilbúnir til að taka við þessari miklu fjölgun rafskútna/hjóla. Spýta þarf í lófana í þeim efnum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 19. júní:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að í stefnumótun Strætó hefur ákveðið að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína. Árið 2019 lagði Flokkur fólksins til að borgaryfirvöld samþykktu að innleiða heimsmarkmiðin með formlegum hætti í sína stefnu. Tillagan var felld. Borgaryfirvöld hefðu auðvitað átt að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn eins og sum önnur sveitarfélög hafa gert. Að öðrum málum hjá fyrirtækinu er ekki hjá því komist að spyrja hvort hafa þurfi áhyggjur af fyrirtækinu og stjórnun þess? Strætó bs. hefur komist í fréttir tvisvar á afar stuttum tíma vegna sérkennilegra skilaboða um grímuskyldu eða ekki grímuskyldu og nú síðast vegna meints ölvunaraksturs strætóbílstjóra. Ef litið er til síðasta árs hafa fleiri erfið mál komið upp sem valdið hafa usla og sárindum hjá þjónustuþegum.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvernig miðar samgöngubótum í Grafarvogi í kjölfar lokunar Korpuskóla:

Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna loforðs um bættar samgöngur. Nú eru nokkrir mánuðir liðnir síðan Korpuskóla var lokað. Lofað var bættum samgöngum fyrir börnin þegar þau gengju til skóla í nærliggjandi hverfi borgarinnar. Nú er skólahald að hefjast að nýju. Hver er staðan á framkvæmdum fyrir undirgöngum eða öðrum úrræðum til öruggari samgangna fyrir börnin í hverfinu á leið til skóla?

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Borgarráð 13. ágúst 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu Hopp og Zolu rafskútuleigu:

Gríðarleg fjölgun er á notkun slíkrar hjóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af slysum sem hafa orðið á þessum hjólum og kunna að verða. Nú þegar hafa verið skráð nokkur slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þróuninni í ljósi reynslu annarra þjóða. Velta má fyrir sér hvort skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar, ásamt rafskútuleigum hafi unnið með og verið í samvinnu við samgöngustofu og lögreglu um þessi mál? Rafhjólin eru komin til að vera, ekki er um það deilt. Samkvæmt umferðarlögum mega „rafhlaupahjól eingöngu vera á gangstéttum og göngustígum, ekki á götum. Gangandi vegfarendur eiga alltaf réttinn á gangstéttum eða göngustígum. Hjólreiðamaður eða sá sem er á rafmagnshlaupahjóli á að víkja fyrir gangandi vegfarenda. Þá er hjálmaskylda fyrir alla undir 16 ára aldri. Einnig er bannað að keyra á þeim undir áhrifum áfengis“. Borgaryfirvöld eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að upplýsa um þessar reglur. Einnig er það á herðum skipulagsyfirvalda að sjá til þess að innviðir séu tilbúnir til að taka við þessari miklu fjölgun rafskútna/hjóla og að allar merkingar og skilti séu í lagi. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort byrjað hafi verið á öfugum enda?

 

Bókun Flokks fólksins við Furugerði 23, breyting á deiliskipulagi:

Verið er að gera breytingar á deiliskipulagi „Espigerði“. Fyrir liggur einnig á fundi 12. ágúst athugasemdalisti íbúa Háaleitis og Bústaðahverfis. Meðal þess sem fram kemur á athugasemdalista er að íbúar hafi áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverandi fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkv. þessari athugasemd og fleiri er varðar þrengsl á gangstéttum og hljóðvist. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta skipulag?

 

Bókun Flokks fólksins við Fegrunarviðurkenningar 2020, tilnefningar trúnaðarmál, bókun fer í trúnaðarbók og verður opinberuð síðar.

 

Bókun Flokks fólksins við erindi starfsmanns íbúaráða, dags. 3. júlí 2020, f.h. íbúaráðs Háaleitis og Bústaða og bréf íbúa í Fururgerði til íbúaráðs Háaleitis- og Bústaðahverfis:

Í athugasemdalista íbúaráðsins segir: „Íbúar hafa áhyggjur af skorti á bílastæðum. Á svæðinu er nú þegar takmarkað magn bílastæða og miðað við núverand fyrirætlanir er gert ráð fyrir bílakjallara en að þar séu aðeins stæði fyrir íbúa. Ekki sé gert ráð fyrir neinum stæðum við húsin sjálf, svo sem fyrir gesti og aðra og því ekki gert ráð fyrir að gestir komi akandi. „ Fulltrúi Flokks fólksins vill taka undir áhyggjur íbúa í þessu hverfi vegna skorts á bílastæðum samkvæmt þessari athugasemd.Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hér megi sjá í hnotskurn hvert skipulagsyfirvöld stefna leynt og ljóst í skipulagsmálum víða í borginni. Verið er að auka byggingarmagn gríðarlega en ekki fylgja bílastæði í hlutfalli við aukningu íbúða Brátt mun það ekki standa Reykvíkingum sem hyggjast kaupa nýbyggingar til boða að geta lagt í námunda við heimili sín. Skipulagsyfirvöld bjóða sums staðar upp á miðlægan bílastæðakjallara í hverfi eða í besta falli deilistæði. Hafa borgarbúar verið spurðir hvort þeir séu sáttir við þetta? Sams konar má sjá í hugmyndum um hverfisskipulag í Breiðholti. Þar fá eigendur séreigna að bæta við íbúð en ekki skal fylgja bílastæði. Þar verður veitt heimild að byggja hæðir ofan á blokkir en ekki skal fjölga bílastæðum.

Bókun Flokks fólksins við erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna v.Koparslétta 6-8, kæra 56/2020:

Fyrir liggur kæra vegna breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi vegna lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu. Í gögnum kærunnar er þess er krafist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felli úr gildi ákvörðun borgarráðs 2. apríl 2020 um að samþykkja breytinguna. . Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins kæra þessi er réttmæt enda hér um að ræða ákvörðun sem hefur neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif og sem mun skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði. Hér er verið að búa til stóra lóð undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um neyðarnúmer, vegna bílastæða, umsögn en tillagan er felld með  fjórum greiddum atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg hafi neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma þjónustuvers hefur verið felld. Tillagan var send til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs sem hefur ekkert að gera með þessa tillögu. Rökin fyrir að fella tillöguna er því ekki byggð á umsögn þeirra sem hafa með þessi mál að gera. Þessi þjónusta sem Flokkur fólksins er að reyna að fá bætta er ekki í góðu lagi. Fólk hefur lent í miklum vandræðum í bílastæðahúsum. Af afgreiðslunni að dæma lítur ekki út fyrir að laga eigi þessa hluti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið ábendingar frá þeim sem lokast hafa inni í bílastæðahúsum og ekki fundið leiðir til að kalla eftir hjálp. Almennt séð er það ólíðandi að fólk geti ekki hringt í neitt númer, neyðar- eða þjónustunúmer þegar það lendir í vandræðum í einhverjum af stofnunum Reykjavíkurborgar eftir að lokun. Hér þarf að bæta úr hið snarasta. Það myndi breyta miklu að hafa þjónustu/neyðarsíma sem fólk hefur aðgang að ef það lendir í vandræðum í borginni. Þótt tillagan hafi verið felld er það enn von fulltrúa Flokks fólksins að bílastæðasjóður taki til greinar þessar ábendingar, í það minnsta merki betur hvað fólks skuli gera lendi það í vandræðum.

 

Bókun Flokks fólksins við við svari fyrirspurnar Sjálfstæðisflokksins um grjóthrúgur við Eiðsgranda:

Af svari að dæma um grjóthrúgur á Eiðsgranda virðist verkefnið allt vera vanhugsað. Lagt er út í það án þess að hugsa það til enda. Lesa má í hverri línu umsagnarinnar þótt það sé ekki sagt beinum orðum að “ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og að manirnar urðu óþarflega háar”. Hér eru enn ein mistökin í skipulagsmálum að ræða sem kosta mun borgarbúa fé. Í þessu verkefni alla vega virðist sem framkvæmdin hafi ekki verið hugsuð til enda. Fulltrúi Flokks fólks kallar eftir að meiri skynsemi sé sýnd í þessum málum og minnt er á enn og aftur að verið er að sýsla með fé borgarbúa.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði.

Tillaga Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði. Það er ekki rökrétt að bjóða visthæfu bílaeigendum að leggja frítt í stæði á götu í 90 mínútur en ekki í bílastæðahúsi. Með því að hafa ekki sömu ívilnun í bílastæðahúsinu eru skipulagsyfirvöld að hvetja þessar bílaeigendur að leggja frekar bíl sínum á götu en í bílastæðahúsi. Hér eru skipulagsyfirvöld í mótsögn við sjálfa sig. Þau agnúast út í bílaeigendur sem koma í miðborgina á bíl sínum en gera hins vegar fátt til að hvetja þá til að a.m.k. nýta sér bílastæðahúsin sem eru mörg hver illa nýtt.Samkvæmt samgöngustjóra (17. 2. 20) er nýting húsanna á þessum tíma almennt lítil, 10-15% nýting ef langtímanotendur með mánaðarkort eru taldir með. Engu að síður sjá skipulagsyfirvöld ofsjónum yfir lækkun tekna bílastæðasjóðs ef gjaldfrjálst verður í bílahúsin frá kl. 22:00 til kl. 08:00 eins og ein af tillögu Flokks fólksins gekk út á. Ef lagt er yfir nótt frá kl. 22:00 að kvöldi og sótt rétt kl. 8:00 morguninn eftir þarf sem dæmi að greiða 1.050 kr. í Stjörnuporti, og Vitatorgi en 1.320 kr.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti.

Tillaga Flokks fólksins að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti. Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar rekur sjö bílastæðahús. Viðurkennt hefur verið af skipulagsyfirvöldum að skammtímastæði þar eru illa nýtt seint á degi og um kvöld.Þar er ekki boðið upp á að greiða með t.d. leggja.is eða öðru sambærilegu. Samkvæmt heimasíðu Bílastæðasjóðs er dýrara að leggja í bílastæðahúsum en út á götu á gjaldsvæðum 2-4. Í bílastæðahúsum þarf að greiða gjald fyrir allan þann tíma sem bíl er lagt og ekki er boðið upp á ívilnanir fyrir metan- eða rafbíla eða frítt stæði í 90 mín eins og í gjaldstæði á götum. Á heimasíðu bílastæðasjóðs eru ekki upplýsingar um nýjar reglur um gjaldskyldu og gjaldskyldusvæði sem samþykktar voru 12. september 2029. Helstu breytingar voru að gjaldskylda er nú á sunnudögum og lengja á gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 til 20:00 á virkum dögum. Eru þær reglur kannski ekki búnar að taka gildi?Ef bílastæðahús eiga að vera nýtt með fullnægjandi hætta þurfa þau að vera opin allan sólarhringinn þannig að þeir sem vilja dvelja í miðbænum fram yfir miðnætti geta lagt þar.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og til umsagnar bílastæðasjóðs.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma

Tillaga að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma. Samþykkt var sl. vetur á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. september 2019 að lengja gjaldskyldu á svæði 1 til klukkan 20 á vikum dögum og á laugardögum og að bæta við gjaldskyldu á svæðinu á sunnudögum frá klukkan 10-16. Á heimasíðu bílastæðasjóðs kemur þessi breyting ekki fram, nema að þessar nýju reglur hafi ekki tekið gildi? Ef þær hafa gert það þá hefur heimasíðan ekki verið uppfærð. Upplýsingar á heimasíðunni gefa til kynna núna að gjaldskyldu ljúki kl. 18 en ekki 20 í gjaldstæði 1 og að engin gjaldskylda sé á sunnudögum. Einnig segir að gjald sé innheimt á virkum dögum milli 9-18 og á laugardögum 10-16 og í P4 8-16 . Auk þess eru aðrar upplýsingar einnig villandi. Í dálknum gjaldskyld svæði eru sunnudagar ekki nefndir. Neðar á heimasíðunni er listi yfir daga sem ekki er tekið gjald en þar eru sunnudagar ekki heldur nefndir.  Þessar mikilvægu upplýsingar skipta máli fyrir fólk sem veltir fyrir sér hvort það vilji heimsækja bæinn á sunnudögum og þurfi þá e.t.v. að leggja í gjaldskyld svæði. https://www.bilastaedasjodur.is/gjaldskylda/gjaldsvaedin.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar og til umsagnar bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði:        

Í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Nú þegar er þetta svæði ekki mikið atvinnusvæði. Spurt er þess vegna hvað átt sé við hér, hvernig atvinnusvæði er verið að vísa til?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, skrifstofu skipulagsfulltrúa.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd. Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir. Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18. Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingarmiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.

Greinargerð

Göngugatan í Mjódd hentar mjög vel fyrir þá sem langar að hitta aðra eða sjá skemmtilega hluti. Verslun í bland við veitingasölu, uppákomur, gjörninga og styttri viðburði svo sem uppistand, stutta leikþætti, tónlistar- og söngatriði, og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að.  Skreyta mætti götuna meira með listaverkum, mála hana með glaðlegum litum, setja upp fleiri lítil leiktæki og aðra afþreyingu sem þarna myndi passa inn.
Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að gefa þessu gaum. Það standa til ákveðnar framkvæmdir utandyra í Mjódd og er það mjög gott en þarna bíður göngugatan í Mjódd eftir meira lífi og aukna upplifun fyrir gesti og gangandi.

Fellt með fjórum greiddum atkvæðum, fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

Reykjavíkurborg heldur ekki viðburði í verslunarkjörnum í einkaeigu en meirihlutinn hefur á þessu kjörtímbili lagt vinnu við að fegra ásýnd svæðis í kringum Mjóddina og er sú vinnan enn þá yfirstandandi. Vinna við borgalínu mun fara í gang þegar annar áfangi fer í vinnu og þá gefst tækifæri til að skipuleggja svæðið í heild sinni. Tillagan er því felld.

 

Áheyrnarfulltrú Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins úr borgarráði, um eflingu starfsemi í Mjódd hefur verið felld af skipulagsyfirvöldum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins þegar bókun meirihlutans er skoðuð að skipulagsyfirvöld hafi ekki mikinn áhuga á öðrum göngugötum en þeim sem tilheyra miðbænum. Á göngugötum í miðbænum halda borgaryfirvöld oft viðburði. Á þeim götum eru verslanir líka í einkaeigu fjölmargra. Reykjavíkurborg hefur reyndar haldið viðburð í göngugötunni í Mjódd svo fyrir því er fordæmi, því miður eru þeir allt of fáir. Borgin á eignir í Mjóddinni og ber ákveðna ábyrgð ásamt fleirum á bílastæðunum, aðgengi og öryggi þar. Hvernig á að túlka þetta öðruvísi en skipulagsyfirvöld hafi minni áhuga á úthverfum en miðbænum? Vinna við borgarlínu þarf ekki að koma í veg fyrir að lífga megi upp göngugötunni í Mjódd. Eitt útilokar ekki annað í þessum efnum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar endurgerð torga. Ef lífgað yrði upp á göngugötuna myndu fleiri ganga um torgin.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvort leiðbeiningum sé ávallt fylgt og af hverju ekki séu til íslenskar leiðbeiningar/reglur?:  

Spurt er hvort leiðbeiningum sé ávallt fylgt og af hverju ekki séu til íslenskar leiðbeiningar/reglur? Við hönnun hraðahindrana í Reykjavík er erlendum leiðbeiningum fylgt, oftast norskum eða dönskum. Þar er lýst mismunandi gerðum og formi eftir aðstæðum. Sérstakar leiðbeiningar eru um útfærslu 30 km/klst „hliða“ í Reykjavík á þeim stöðum þar sem 30km/klst hverfi eru afmörkuð.Fulltrúi Flokks fólksins óskar að vita af hverju ekki eru til íslenskar leiðbeiningar eða reglur um gerð hraðahindrana í ólíkum aðstæðum sem taki mið af reynslu við notkun hraðahindrana hér á landi? Einnig er spurt hvort þessum norsku og dönsku leiðbeiningum hafi ávallt verið fylgt til hins ýtrasta? Ef ekki, í hvaða tilfellum var þeim ekki fylgt og hverjar voru ástæður þess að gerðar voru undantekningar?

Frestað.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að fresta/frysta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti.

Tillaga Flokks fólksins um að fresta/frysta samþykktarferli hverfisskipulags Breiðholts vegna COVID aðstæðna þar til hægt verði að hafa íbúaráðsfundi í Breiðholti. Eins og sakir standa er ekki hægt að bjóða upp á mannmarga viðburði til að ræða hugmyndir um nýtt hverfisskipulag í Breiðholti svo vel sé. Um er að ræða stórfelldar breytingar sem íbúar þess verða að fá fulla aðkomu að til að geta sett sig inn í það, mótað skoðanir og komið þeim á framfæri. Á með staðan er svona vegna COVID er það ábyrgðarhluti ef borgaryfirvöld ætla að kalla saman fólk á fundi til að ræða skipulag eða annað ef því er að skipta. Skipulagsyfirvöld geta nýtt tímann til að yfirfara þær ábendingar sem þegar hafa borist og aðlagað hverfisskipulagið að þeim. Nú hafa sem dæmi margir stigið fram og lýst áhyggjum sínum yfir stefnu skipulagsyfirvalda að þrengja að bíleigendum með þeim hætti að erfitt er að finna bílastæði. Bílastæðaskortur er nú þegar víða í Breiðholti sem dæmi í Seljahverfi og Austurberginu. Það er skortur á bílastæðum hjá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þegar dagskólinn er. En ekkert skal gert nema í samráði við íbúana og séu íbúar ósammála innbyrðis eða ósammála skipulagsyfirvöldum er mikilvægt að kosið verði um þau atriði. Einfaldur meirihluti muni þá ráða.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort og hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hvort og hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað? Dæmi eru um að vagnar séu ekki með ljósin í lagi svo fátt sé nefnt sem fólk hefur tekið eftir. Er virkt eftirlit haft með vögnunum? Spurt er hvort einhver gangi t.d. reglulega um vagnanna og skoðar þá innan og utan til að kanna hvort allt sé í lagi með þá?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hver er kostnaður af þessum grjótmönum sem settar voru á Eiðsgranda og hver mun viðbótarkostnaður verða við lagfæringu þeirra?:

 

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hver er kostnaður af þessum grjótmönum sem settar voru á Eiðsgranda og hver mun viðbótarkostnaður verða við lagfæringu þeirra? Í svari við fyrirspurn Sjálfstæðisflokksins um málið segir: „Að nú hafi verið tekin ákvörðun um að laga manirnar, lækka þær og laga betur að landinu. Síðan verður sáð og gróðursettur strandgróður í svæðið. Manirnar séu ekki grjóthrúgur heldur er sé þetta uppgröftur úr stígnum og lag af möl yfir en ekki hafi unnist tími til að huga nægilega vel að frágangi. En fremur að ákvörðun um mölina var ekki mikið ígrunduð og manirnar höfðu ekki verið hannaðar heldur unnar beint í landið. Manirnar urðu óþarflega háar og sérstaklega ein mönin sem er of há og of brött og lokar sýn úr Rekagranda og að alltaf hafi staðið til að græða upp manirnar með gróðri sem ekki væri hægt að hefja fyrr en að vori.“ Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um kostnað alls verkefnisins og sundurliðun eftir verkþáttum.

Frestað.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld endurskoði, áður en lengra er haldið með nýtt hverfisskipulag í Breiðholti, þær ábendingar sem birtar hafa verið á samfélagsmiðlum sérstaklega hvað varða áhyggjur íbúa á frekari skorti á bílastæðum í hverfinu. Vinnutillögur fyrir hverfisskipulag Breiðholts gera ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 3000 í hverfinu án þess að þeim fylgi bílastæði í sambærilegu hlutfalli. Endurskoða þarf hugmyndir sem lúta að mögulegum bílastæðum sem ættu að fylgja þeim aukaíbúðum sem eigendur sérbýlishúsa mega byggja/innrétta á lóðum sínum. Í hugmyndunum er ekki gert ráð fyrir að þessar aukaíbúðir fái bílastæði. Verði það raunin mun það rýra gildi eignarinnar enda fólk almennt síður tilbúið að leiga eða kaupa eign þar sem það eða gestir þeirra geti ekki lagt bíl sínum nálægt. Eldri borgarar og hreyfihamlaðir nota frekar bíl en hjól til að ferðast um sem dæmi. Einnig þarf að endurskoða það blokkarbyggingarmagn sem áætlað er að byggja í Breiðholti. Byggja á mikið af blokkum í hverfi sem hefur hvað flestar blokkirnar í borginni. Gengið er á græn svæði og leikvelli sem ekki er boðlegt. Byggja á litlar íbúðir en ekki er séð að skortur verði á litlum íbúðum ef horft er til yfirstandandi framkvæmda í borginni og íbúðir sem ekki hafa selst.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um yfirlit yfir þá þjálfun og fyrirmæli sem strætisvagnabílstjórar fá hvað þetta varðar og þá er átt einnig við hvort bílstjórar fái ekki þau fyrirmæli að hafa vagna aldrei í lausagangi á biðstöð s.s. á Hlemmi eða í Mjódd:

 

Bílar sem brenna bensín eða dísel eyða og menga mest á litlum hraða í fyrsta gír, svo ekki sé talað um kyrrstöðu. Þá brenna þeir og menga til einskis. Flestir nýir einkabílar af öllum gerðum eru í dag með hugbúnað sem lokar fyrir eldsneyti til vélarinnar þegar verið er að hægja á ferðinni og stöðvar síðan vélina þegar menn stoppa, t.d. á ljósum, en ræsir síðan sjálfvirkt vélina aftur þegar bremsunni er sleppt. Þetta á ekki við um þá vagna sem Strætó notar. Þeir eru alltaf í gangi í akstri, sem og þegar stoppað er á ljósum eða á stoppistöðvum í lengri og skemmri tíma. Það er alltaf bílstjórans á þessum vögnum því að ákveða hvenær drepið er á vélinni og hvenær ekki. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi fyrirspurnir: Hver er stefna Strætó. bs. hvað þetta varðar? Hvað er bílstjórum Strætó bs. kennt og uppálagt í þessum efnum? Óskað er eftir að fá yfirlit yfir þá þjálfun og fyrirmæli sem strætisvagnabílstjórar fá hvað þetta varðar og þá er átt einnig við hvort bílstjórar fái ekki þau fyrirmæli að hafa vagna aldrei í lausagangi á biðstöð s.s. á Hlemmi eða í Mjódd?

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa og hvaða úrbætur Reykjavík hyggst gera á verklagi í ljósi úrskurðarins?

Nú hefur úrskurðarnefnd kærunefndar útboðsmála fellt úr gildi hönnunarsamkeppni sem Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær stóðu fyrir um hönnun brúar yfir Fossvog. Fimm hönnunar- og arkitektastofur af þeim ellefu sem ekki voru valdir í forvalið kærðu valið til kærunefndar útboðsmála sem hefur stöðvað keppnina tímabundið. Alls sendu sautján hönnunar- og arkitektastofur inn tillögur. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar í úrskurðinum við vinnubrögð Vegagerðarinnar og eru hún, Reykjavíkurborg og Kópavogur gert að greiða skaðabætur samkvæmt úrskurðarorði. Fram kemur í úrskurðinum að „Efla hf. hafi fengið óeðlilegt forskot á aðra þátttakendur. Jafnframt hafi einn dómnefndarmenn verið starfsmaður Eflu hf. og tiltekinn starfsmaður Vegagerðarinnar, sem hafi staðfest ákvörðun dómnefndar um val þátttakenda, verið eigandi, stjórnarmaður og starfsmaður Eflu hf. þar til fyrir skömmu. Dómnefndin hafi því verið vanhæf til ákvarðanatöku í forvalinu“. Í þessu máli er alla vega víst að Reykjavíkurborg ber ákvarðanaábyrgð og skaðabætur greiðast úr vasa útsvarsgreiðenda. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvað þessi mistök í útboðsmálum munu kosta borgarbúa og hvaða úrbætur Reykjavík hyggst gera á verklagi í ljósi úrskurðarins?

Frestað.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að lagfæra vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti. Í fjölda ára hefur verið kvartað yfir vatnsflæði sem kemur í leysingum (hláku).

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að lagfæra vatnsflæðisvandamál við Leirubakka í Breiðholti. Í fjölda ára hefur verið kvartað yfir vatnsflæði sem kemur í leysingum (hláku). Það kemur úr holtinu ofan við Stöng. Stöng liggur frá Arnarbakka og upp að Breiðholtsbraut og er með hita til snjóbræðslu sem eykur enn vatnsflæðið. Vatnið rennur inn Leirubakkann og hefur í gegnum árin valdið tjóni á malbiki. Þegar frystir og þiðnar að þá veldur þetta vatn tjóni á malbikinu sem liggur inn Leirubakkann. Stundum rennur vatnið inn allan Leirubakkann og endar í niðurfalli innst sem hefur ekki undan og stíflast. Þegar frystir er erfitt að hreinsa frá niðurfallinu, sem lendir oft á íbúum að gera. Vandamál sem þessi eiga ekki að vera viðvarandi. Þetta er hægt að laga og hefði átt að laga um leið og vandinn kom í ljós. Lagt er til að niðurföllin neðan við Stöng í Arnarbakkanum verði lagfærð þannig að þau taki við vatninu sem kemur úr brekkunni og úr holtinu. Jafnframt er lagt til að Reykjavíkurborg lagfæri malbikið í Leirubakkanum. Íbúar eiga ekki að þurfa að laga skemmdir sem vatn hefur valdið sem kemur langt að vegna galla í hönnun niðurfalla við Stöng í Arnarbakka.

Frestað.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld borgarinnar setji rafmagns- og metan bíla á lista yfir það sem þau kalla vistvænan ferðamáta. Í nýju hverfisskipulagi Breiðholts er farið mörgum orðum um vistvænan ferðamáta en ekki minnst á vistvæna bíla. Áhersla er lögð á að gera vistvænum ferðamátum hátt undir höfði og að aðgengi allra sé tryggt, óháð hreyfigetu. Ekki einu orði er minnst á rafmagns- eða metanbíla heldur einungis hjól og síðan væntanlega borgarlínu. Telja skipulagsyfirvöld þar með að hreyfihamlaðir sem dæmi notist frekar við hjól en bíl? Nú eru aðeins 10 ár þar til bannað verður að flytja inn bensín- og díselbíla. Skipulagsyfirvöld verða að fara að sætta sig við að þau koma ekki öllum á hjól og þurfa því að viðurkenna að einkabíllinn mun áfram verða einn helsti ferðamáti borgarbúa. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að nú ætti að leggja alla áherslu á að styðja og hvetja til orkuskipta og taka rafmagns og metanbílinn inn í flokkinn „vistvænn ferðamáti“.

Frestað.

 

Lögð er fram tillaga Flokks fólksins um að hraða framkvæmdum við byggingu nýs kirkjugarðar við Úlfarsfell sem dregist hefur von úr viti:

Í Reykjavík hafa borgar- og skipulags yfirvöld sýnt getuleysi þegar kemur að þessum málaflokki. Það líður að því að plássin fyrir kistur í Gufuneskirkjugarði klárist en reiknað er með plássi fyrir kistur í mesta lagi 3-4 ár í viðbót og þá þarf að fara að jarða Reykvíkinga í kirkjugarðinum í Kópavogi. Kirkjugarðurinn við Úlfarsfell hefur lengi verið í undirbúningi. Skipulagsyfirvöld hafa dregið það árum saman að hefja framkvæmdir. Ítrekað hefur skipulagsyfirvöldum verið gert ljóst að brýn þörf er á nýjum grafarsvæðum og að hraða þurfi framkvæmdum á kirkjugarðinum við Úlfarsfell en skipulagsyfirvöld hafa látið málið sem vind og eyru og þjóta. Það er miður að borgaryfirvöld sjái ekki nauðsyn þess að fullklára kirkjugarð þar sem Reykvíkingar sem óska þess að vera jarðaðir í kistu fái að hvíla. Fulltrúi Flokks fólksins leggur auk þess til að gert verði átak í Hólavallagarði en honum þarf að halda betur við en gert hefur verið. Aðeins hluti garðsins hefur verið tekinn í gegn en annar hluti hans er að grotna niður. Skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa til margra ára ekki sýnt Hólavallagarði nægjanlega virðingu og ekki úthlutað til hans nauðsynlegum fjármunum til að halda honum við.

Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 12. ágúst 2020

Framlagðar tillögur um Mjódd á fundi borgarráðs 23.7.

Flokkur fólksins leggur til að skipulagsyfirvöld leggi sitt að mörkum til að efla starfsemi í Mjódd.

Úr göngugötunni í Mjódd er aðkoma í fjölmargar verslanir og þangað koma margir.  Gera mætti fjölmargt fyrir götuna til að gera hana meira aðlaðandi. Stundum er þar götumarkaður en fjölmargt annað mætti koma til sem laðaði að aldna sem unga. Yfirbyggð gata eins og göngugatan í Mjódd og það útisvæði sem er þar í kring s.s. litlu torgin við innganga til norðurs og suðurs bíður upp á ótal tækifæri. Þar mætti sem dæmi spila tónlist, söng, dans og annað sem gleðja myndu gesti og gangandi. Þá er einnig ónotuð lóð við Álfabakka 18. Ekki er séð að nein sérstök stefna ríki um Svæðið í Mjódd. Vel mætti vinna markvisst að því að gera þetta svæði að helsta kjarna Breiðholtsins. Með því að glæða götuna lífi mun það auka aðsóknina og breikka hóp viðskiptavina. Takist vel til myndu fleiri fyrirtæki og verslanir vilja vera á svæðinu sem er sérstaklega vel staðsett því aðkoma er góð úr mörgum áttum. Gera ætti göngugötuna í Mjódd að afþreyingarmiðaðri göngugötu og er þá átt við göngugötu sem fólk sækir í ýmist til að versla, fá sér kaffi og/eða upplifa viðburði.

Göngugatan í Mjódd hentar mjög vel fyrir þá sem langar að hitta aðra eða sjá skemmtilega hluti. Verslun í bland við veitingasölu, uppákomur, gjörninga og styttri viðburði svo sem uppistand, stutta leikþætti, tónlistar- og söngatriði, og fleira í þeim dúr er eitthvað sem laðar að. Skreyta mætti götuna meira með listaverkum, mála hana með glaðlegum litum, setja upp fleiri lítil leiktæki og aðra afþreyingu sem þarna myndi passa inn.
Fulltrúi Flokks fólksins hvetur borgaryfirvöld að gefa þessu gaum. Það standa til ákveðnar framkvæmdir utandyra í Mjódd og er það mjög gott en þarna bíður göngugatan í Mjódd eftir meira lífi og aukna upplifun fyrir gesti og gangandi.

Tillaga Flokks fólksins um endurgerð bílastæða í Mjódd

Til ársloka 2018 var í gangi samningur milli Reykjavíkur og Svæðisfélags v/ göngugötu í Mjódd. Sá samningur er fallinn úr gildi og hefur ekki verið endurnýjaður. Viðræður ganga hægt og endurgerð bílastæðanna á svæðinu er orðið afar brýnt mál. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að gengið verði sem fyrst í að semja aftur með hagsmuni Mjóddar að leiðarljósi bæði með tilliti til aðgengismála og öryggismála gesta og gangandi sem leggja leið sína í Mjódd.

Lagt er til að skipulagsyfirvöld horfi til endurnýjunar á svæðinu umhverfis Mjódd og að það verði fært í nútímalegra horf sem henta hagsmunum borgarbúa í dag.

Lagt er til að endurgera og snyrta grænu svæðin í kringum Mjódd með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun.

 

Fyrirspurnir Flokks fólksins um aðkomu Aðgengis og samráðsnefndar að mikilvægum aðgengismálum fatlaðs fólks

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja formann og fulltrúa aðgengis- og samráðsnefndar með hvaða hætti nefndin hefur beitt sér í eftirfarandi málefnum fatlaðs fólks:

Með hvaða hætti, ef nokkuð, beitti Aðgengis- og samráðsnefndin sér varðandi 10. gr. nýrra umferðarlaga sem kveður á um heimild fatlaðs fólks að aka göngugötur og leggja í merkt stæði?

Hvernig hefur Aðgengis- og samráðsnefndin, ef eitthvað, beitt sér fyrir því að skilti og merkingar í borginni sem sýna rétt handhafa stæðiskorta séu samkvæmt landslögum? Hér er átt við skilti sem sýna rétt þeirra sem eru með P merki. Þeir mega bæði keyra og leggja á göngugötum.

Hvernig beitti Aðgengis- og samráðsnefndin sér í að haft yrði samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks í útboðsmálum Sameiginlegrar akstursþjónustu á höfuðborgarsvæðinu?

Hversu oft hafa ofangreind mál verið sett á dagskrá Aðgengis- og samráðsnefndarinnar og hvernig hafa þau verið afgreidd úr nefndinni?

Tillaga Flokks fólksins um að gera ábendingarhnapp Strætó sýnilegri á heimasíðu Strætó bs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að ábendingahnappur Strætó bs. verði sýnilegri og aðgengilegri á heimasíðu Strætó bs. Nú er sá hnappur neðarlega undir hnappnum Notendaupplýsingar og er frekar seinfundinn fyrir notendur og þjónustuþega sem vilja senda inn ábendingar. Ábendingahnappurinn þarf að blasa við um leið og vefsíða þjónustufyrirtækis eins og Strætó bs. er opnuð. Öðruvísi gagnast hann aðeins með takmörkuðum hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út kaup á búnaði til endurnýjunar á umferðarljósum árið 2020 í samstarfi við Vegagerðina:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að endurnýja úrelt umferðarljós og hefði mátt gera það fyrir löngu. Nútímavæðing stýribúnaðar umferðarljósa er eitt af því sem legið hefur í láginni hjá þessum og síðasta meirihluta. Um það bera umferðartafir og öngþveiti í borginni skýrt merki. Formgalli sem þessi kemur við pyngju borgarbúa. Hér var ekki gætt að ákvæðum laga um opinber innkaup við ákvörðun tilboðsfrests. Þetta er sérkennilegt þar sem útboð  er nánast daglegt brauð hjá stóru sveitarfélagi. Nú þarf Reykjavíkurborg og borgarbúar að greiða Smith & Norland bætur vegna þessara mistaka. Bæturnar eiga að nema kostnaði fyrirtækisins við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboðinu. Óumdeilt er að mati kærunefndarinnar  að borgin hafi ekki farið að lögum og hafi af þeim sökum þurft að ógilda útboðið.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 22. júlí 2020, um bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 22. júní 2020, varðandi skipulag og uppbygging á landi við Skerjafjörð:

Verið er að binda lokahnút á samkomulag á skipulagi og uppbyggingu á landi við Skerjafjörð. Byggja á allt í kringum flugvöllinn og setja skóla í uppfyllta fjöru. Þetta er sérstakt í ljósi þess að ekki liggur fyrir hvort flugvöllurinn muni fara úr Vatnsmýrinni eða vera þar til 20 ára eða langrar framtíðar. Lengst af talaði borgarstjóri og Samfylkingin fyrir því að flugvöllurinn færi  úr Vatnsmýrinni einmitt til að skipuleggja þar heildstæða byggð. Nú hefur þeim snúist hugur, hafa samþykkt að tryggja að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til 15-20 ára eða þar til önnur staðsetning finnst, finnist hún þ.e.a.s. Svo láta á duga að byggja í kringum hann á alla mögulega auða bletti og með fjörulandfyllingu til að hægt sé að setja upp þjónustustofnanir.  Í þessu sambandi má minna á að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Annað atriði er hversu lítið  samtal skipulagsyfirvöld hafa átt við íbúa Skerjafjarðar um nákvæmlega þessa uppbyggingu þar. Síðast en ekki síst þá hafa margir áhyggjur af umferðarmálum. Ekki er séð að það skipulag sem liggur á borðinu í umferðarmálum dugi til að koma fólki í og úr hverfinu með skjótum og tafarlausum hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla, til leigu:

Með þessari aðgerð, að heimila að auglýsa Bakkastaði 2, Korpuskóla til leigu er verið endanlega að loka fyrir þann möguleika að snúa ákvörðun um skólamálin í norðanverðum Grafarvogi til baka þe. að hafa starfsstöð Kelduskóla í Korpuskóla eins og var. Sameining starfsemi grunnskóla í Grafarvogi þar sem hætt var notkun á húsnæðinu olli  reiði og ólgu meðal margra foreldra og íbúa í Grafarvogi. Ekki er komin reynsla á hvernig hið nýja fyrirkomulag muni koma út ef horft er til hagsmuna barnanna. Enda þótt ekki sé góður kostur að hafa Bakkastaði 2 ónotað húsnæði er spurning hvort ekki ætti að hinkra ögn og sjá hvernig mál þróast í hinu nýja fyrirkomulagi. Til bóta er ef úr verður að húsið verði leigt að uppsagnafrestur leigu verði sem stystur.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 21. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlunar 2021 og fimm ára áætlunar 2021-2025. Einnig lagt fram bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 2. júlí 2020, varðandi forsendur fjárhagsáætlana 2021-2024:

Fram kemur í minnisblaði Sambands íslenskra sveitarfélaga að forsendur mannfjöldaspár kunni að vera úreltar.  Hagstofa Íslands hefur endurskoðað mannfjöldaspá sína og tekur hin nýja spá til áranna frá 2019 til 2068. Í fyrra reiknaði hagstofan með verulegum aðflutningi fólks umfram brottflutning fram til ársins 2023 vegna efnahagsástands og mikillar eftirspurnar eftir vinnuafli. Fram kemur í minnisblaðinu að frá 2023 verða veruleg vatnaskil í reikningum hagstofu og í stað þess að aðfluttir verði um 3.500 fleiri en brottfluttir reiknar hagstofa með að þetta snúist við og brottfluttir verði um 2.700 fleiri en aðfluttir. Fyrir vikið mun íbúum ekki fjölga frá 2023 til 2024 gangi þessi forsenda Hagstofu eftir.  Þar sem forsendur eru nú taldar úreltar hlýtur að þurfa að endurskoða  kostnaðarsöm  risaverkefni eins og borgarlínu sem meirihluti borgarstjórnar hefur ákveðið að ráðist verði í. Eitt af meginrökum skipulagsyfirvalda fyrir borgarlínu er að spáð hafði verið mikilli fólksfjölgun næstu árin. Vissulega er erfitt að spá nákvæmlega fyrir um mannfjölgun. Gera má ráð fyrir að borgarbúum fjölgi en klárlega ekki í þeim mæli sem talið var.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að styrkja Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Styrkurinn mun nýtast til að kaupa ný eldhústæki fyrir barnaheimilið í Tasiilaq á Grænlandi þar sem alast upp átján börn. Styrkurinn verður fjármagnaður af kostnaðarstaðnum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að styrkja á Skákfélagið Hrókinn um 1 m.kr. vegna kveðjugjafar til barna á Grænlandi. Flokkur fólksins lagði til í október 2018 að skóla- og frístundaráð beiti sér fyrir því að menntamálaráðuneytið samþykki að skák verði kennd í grunnskólum. Tillagan var felld 11. desember 2018 með fjórum atkvæðum meirihlutans í skóla- og frístundaráði. Fulltrúar  Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Skák er því miður ekki komin í námskrá grunnskólanna í Reykjavík, þótt tvær nefndir á vegum menntamálaráðuneytisins hafi mælt eindregið með því. Kennarar og skólastjórnendur eru margir hlynntir skákkennslu, og víða í Reykjavíkurskólunum er unnið gott starf. Skák þarf hins vegar að komast inn á námskrá, 1 kennslustund í viku ef vel ætti að vera. Skák er einstök fyrir margar sakir. Rannsóknir hafa sýnt að samhengi er á milli námsárangurs og skákkunnáttu. Skákin hentar öllum börnum en einstaklega vel í samfélagi eins og á Grænlandi þar sem landfræðilegar aðstæður og mannfæð bjóða börnum almennt ekki upp á mörg tækifæri til tómstundaiðkunar. Með skáklandnámi Hróksins og Kalak á Grænlandi hefur fjöldi Grænlenskra barna fengið tækifæri til að þroska með sér þá færni sem skákíþróttin veitir, sem þau hefðu mögulega annars farið á mis við.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 19. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda sem nýtti sér tímabundna breytingu á innheimtureglum borgarinnar vegna COVID-19 til að fresta leigugreiðslum, sbr. 72. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. júlí 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hversu margir hefðu nýtt sér heimildina að fresta leigugreiðslum vegna COVID-19 í tengslum við tillögu borgarstjóra að  framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Í svari kemur fram að aðeins „12 aðilar hafa nýtt sér frest vegna leigu í mars til júní”. Ljóst er að þetta úrræði er ekki að ná til margra ef aðeins 12 hafa nýtt sér frestinn. Í ljósi þess væri sanngjarnt að endurskoða skilyrðin fyrir frestinum til að koma á móts við fleiri. Hjálparúrræði ná skammt ef aðeins örfáir geta nýtt sér þau. Oft fylgja tillögum borgarstjóra til hjálpar ýmis  íþyngjandi skilyrði sem valda því að úrræðið hentar fáum. Í því tilfelli sem hér um ræðir nær tillaga borgarstjóra of skammt enda þótt allt sé betra en ekki neitt. Til að nýta þessa heimild þurfa leigutakar  að sýna fram á að minnsta kosti þriðjungs tekjutap miðað við sama tíma árið 2019 og skila inn viðeigandi gögnum skv. nánari leiðbeiningum. Það gæti verið erfitt á þessu stutta tímabili að sýna fram á þriðjungs tekjutap. Hér kallar fulltrúi Flokks fólksins eftir auknum  sveigjanleika og manneskjulegheitum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 2. júlí 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. júní 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið sem greinilega er vandað til. Stafrænar lausnir og stafrænt kerfi er nýjung, eitthvað sem sennilega er að þróast frá degi til dags. Það sem vakir fyrir fulltrúa Flokks  fólksins er að fólk sem nota á kerfið hafi góðan aðgang að því, finni upplýsingar sem það vantar, fái svör við fyrirspurnum sínum og að mál þeirra séu leyst á skjótan og skýran hátt í gegnum upplýsingakerfi borgarinnar.  Ef marka má kvartanir sem berast reglulega að þetta sé ekki svona í reynd. Kvartað er t.d. yfir að ekki séu veittar upplýsingar, að skeytum sé ekki svarað, o.s.frv. Þetta kann að koma skrifstofu stafrænnar Reykjavíkur ekkert við en verið er samt að tala um aðgengi og gagnsæi í báðum tilvikum. Það er ekki nóg að skreyta með smart útliti ef fólk nær „ekki í gegn” ef skilvirkni er ekki til staðar. Þessi stafrænu fínheit kunna að vera gagnleg fyrir starfsfólk en kerfið þarf að virka fyrir borgarbúa. Heildarkostnaður er tæpar 9 milljónir og ekki var farið í útboð eftir því sem næst er komist. Og loks, hvað þýðir að ítra? Í  svari kemur fram eftirfarandi: Kerfið er tilbúið og þegar hægt að sækja efni þangað inn eða bæta við og ítra.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 17. júlí 2020, við fyrirspurn um innri leigu Klettaskóla, sbr. 19. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020:

Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

 

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerð innkaupa- og framkvæmdaráðs frá 25. júní 2020:

Bókun Flokks fólksins við svari um innri leigu Klettaskóla. Leiga Klettaskóla hefur hækkað umtalsvert. Í svari er vísað ítrekað í „leikreglur“ um innri leigu sem er (samkv. leikreglum) 8.5% af framkvæmdakostnaði á ári. Í ljósi þess hversu skólabyggingar í borginni hafa margar fengið að drabbast niður í gegnum árin lagði Flokkur fólksins það til í lok síðasta árs að borgarstjórn samþykkti að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi. Í skýrslum innri endurskoðanda hefur hann bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir. Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur sem sagt 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi, ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Er þá gripið til þess að hækka leigu?

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðar velferðarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins finnst nokkrir hlutir eftirtektarverðir þegar kemur að „helstu frávikum í  þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs. Þjónustumiðstöðvar voru 15 m.kr. umfram fjárheimildir sem rekja má til langtímaveikinda. Hér verða að koma betri skýringar. Líður fólki illa í vinnunni, eru þetta veikindi sem rekja má til þess? Þetta er sannarlega ekki léttvægt mál. Varðandi hjúkrunarheimili þá voru Droplaugastaðir 19. m.kr. umfram fjárheimildir eða  tæp 60%.  Seljahlíð fer 68% fram yfir áætlun og er skýrt með því að þetta sé óhagstæð rekstrareining. Það geta ekki verið nýjar fréttir? Af hverju hefur þá ekki verið bætt úr því? Hægt ætti að vera að finna leiðir til að búa til hagstæðustu rekstareininguna sem völ er á. Sama má segja um vistgjöld barnaverndar, hægt er að áætla nákvæmara en gert er nú.  Kerfi sem gengur áfram ár eftir ár ætti að vera auðvelt að spá fyrir um og áætla samkvæmt því. Enn eru frávik vegna heimaþjónustu að þessu sinni 98 m.kr. innan fjárheimilda því ekki hefur tekist að manna stöður. Þetta þýðir að  ekki var hægt að veita fullnægjandi grunnþjónustu sem fólk á rétt á og þarfnast. Sama er um heimahjúkrun sem var 23 m.kr innan fjárheimilda vegna ónógrar mönnunar. Það verður að fara að taka á mannekluvanda í Reykjavík með öllum ráðum og dáðum.

Borgarráð 23. júlí 2020

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna byggðar í Skerjafirði:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af mengun í jörð og hávaðamengun af flugvelli fyrir komandi íbúa í Skerjafirði. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvorutveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin. Flytja þarf uppgrafinn mengandi jarðveg í burtu en engin getur svarað hvernig á að gera það. Ekki er vitað hvort flugvöllurinn verði í 15 eða 50 ár enda engin niðurstaða komin í Hvassahraunið sem verðandi flugvallarsvæði. Lýsing á hverfunum gefur einnig til kynna að þetta hverfi er ætlað afmörkuðum hópi, þeim sem eiga ekki heimilisbíl þar sem engin bílastæði eru við hús heldur er aðeins einn stór sameiginlegur bílakjallara. Talað er um blandaða byggð, „coliving“ sem er einhvers konar sambýli margra. Ekki hefur þó verið minnst á íbúðir fyrir fatlaða, smáhýsi fyrir heimilislausa, hjúkrunarrými eða heilsugæslu. Áhyggjur eru af einangrun en spáð er að bílum fari fjölgandi úr 2000 bíla í 7000 samkv. gögnum. Um er að ræða 1300 íbúðir. Það munu ekki allir starfa nærri heimili sínu enda á að draga úr byggingarheimildum iðnaðarhúsnæðis. Umferð um Hringbraut er löngu sprungin og ekki má aka Fossvogsbrúna. Flokkur fólksins er einnig alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna sértækra búsetuúrræða og landnotkun:

Markmiðið er að auka möguleika á að setja niður t.d. smáhýsi fyrir heimilislausa og er í því samhengi jákvæð breyting. Breytingin snýst um að rýmka það svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæð. svo sem: verslunar- og þjónustusvæða, miðsvæða, athafnasvæða, hafnarsvæða, iðnaðarsvæða, opinna svæða og landbúnaðarsvæða enda byggingar einkum staðsettar innan þegar skilgreinds byggingarreits eða lóðar samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi og í samráði við lóðarhafa eða landeiganda. Þessi breyting ætti að skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Nægur sveigjanleiki þarf að vera til að hægt sé að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 vegna stefnu um íbúðabyggð í Breiðholti:

Við stækkun kjarnans í Arnarbakka þarf að huga að samgöngum við kjarnann. Núverandi bílvegur liggur framhjá skóla og er þröngur. Í núverandi standi ber hann ekki mikla umferð. Skýra þarf því hvernig almenningssamgöngur, bíla og hjólaumferð tengist áformunum. Núverandi staða hjólastíga gefur færi á að auka virkni þeirra t.d. með því að lagfæra legu að hluta og fjarlægja óþarfa hindranir svo sem tröppur og þröngar 90 gráðu beygjur. Svipað gildir um hina kjarnana í Breiðholtinu og að frekari uppbygging þeirra kallar á þægilegar vistvænar samgöngur. Stígarnir í Breiðholti henta eins og er miklu frekar gangandi umferð en umferð á hjólum. Venjuleg hjól, rafknúin hjól, hlaupahjól og sambærilegt önnur rafknúin tæki eru og munu vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar. Þess vegna þarf að bæta núverandi göngustígakerfi með tilliti til þess

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46:

Skipulagsyfirvöld leggja fram nýja tillögu að skipulagslýsingu fyrir Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Einnig er lögð fram umsókn THG Arkitekta um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhagi 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni elst m.a. niðurrif og uppbygging á loð nr. 18-20 við Dunhaga. Andmæli við fyrirhugaðar breytingar hafa verið miklar og djúpstæðar og kemur fram að andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Auglýsing að skipulagslýsingu var ekki send hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum. Eftir því sem skipulagsyfirvöld segja nú hafa eigendur fengið frest og umbeðinn aukafrest til að skila athugasemdum. Komi frekari ábendingar og athugasemdir eftir auglýsingu er það von fulltrúa Flokks fólksins að tekið verði vel í þær og þeim mætt eins og framast er unnt.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. synjun skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð:

Hér er lögð fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir lóð nr. 20 við Bólstaðarhlíð, Ísaksskóla, vegna battavallar. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst er í þessu máli. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hlusta á á raddir fólks í þessu máli og ganga í það að lagfæra og minnka umfang battavallarins eða finna aðrar lausnir sem eru ásættanlegri fyrir alla aðila, fullorðna sem börnin.  Framkvæmdin var gerð í óleyfi eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilst þar sem ekki lá fyrir heimild frá skipulagsyfirvöldum. Völlurinn er á vegum skólans en ábyrgðin engu að síður nokkuð óljós.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:

Skipulagsyfirvöld hafa samþykkt breytingu á deiliskipulagsmörkum flugvallarins í Vatnsmýri. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Reisa á 1300 íbúðir á svæði sem er í raun frekar klesst upp að flugvellinum. Fylla á fjörur fyrir skólabyggingar. Sagt er að þetta sé óveruleg tilfærsla á flugvallargirðingu en tillagan ber með sér að nota þarf hvern blett/rými á svæðinu til að koma þessu öllu fyrir. Þrengt er að flugvellinum sem mögulega verður þarna í 15 ár eða 50 ár. Framtíð þessa svæðis er með öllu óljós en ljóst er að skipulagsyfirvöldum liggur mikið á að byggja þarna þrátt fyrir að ekki er fyrirséð hvernig mæta á umferðaraukningu.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á breytingu á deiliskipulagi fyrir athafnasvæði við Esjumela á Kjalarnesi:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst flytja starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði. Hér er verið að búa til stóra lóð undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 1. júlí 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir nýja Skerjafjörð:

Áhyggjuefnin eru mörg varðandi uppbyggingu Skerjafjarðar eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Aðeins ein af merktum jarðvegsholum er skráð „í lagi“, 16 falla undir „slæmt og mjög slæmt“ af 96 alls. Flokkur fólksins er alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að búa til land fyrir nýbyggingar. Þrátt fyrir minnkun á landfyllingu verður engu að síður um að ræða óafturkræfanlegar skemmdir á náttúrulegri fjöru. Fram kemur að ströndin sé röskuð hvort eð er en óþarfi er kannski að raska henni enn meira? Náttúrulegar fjörur í Reykjavík eru takmörkuð auðlind og eru mikilvægar fyrir lífríki svæðisins. Engin þörf yrði á landfyllingum í Skerjafirði ef byrjað er að byggja eftir að flugvöllurinn fer. Fari hann þá er hægt að skipuleggja byggðakjarna án landfyllinga. Því miður kom það ekki til greina hjá skipulagsyfirvöldum að fresta uppbyggingu þarna. Bílafjöldi um vestasta hluta Einarsness fer úr 2 þúsund á sólarhring í 7 þúsund samkvæmt spá. Íbúar á bíl sem starfa langt frá heimili þurfa að komast í og úr hverfinu. Hvernig leysa á umferðarmál er óljóst. Horfa þarf til samfellu í borgarlandinu og að flæði verði í samgöngum þar sem liðkað er fyrir öllum tegundum af ferðamáta.

 

Bókun Flokks fólksins við framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19:

Hér leggur borgarstjóri til að borgarráð samþykki framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu að sjálfsögðu. Fram kemur að nokkrir leigutaka hafa nýtt sér þetta ákvæði og er lagt til að heimilt verði að bæta við frestun greiðslna vegna júlí, ágúst og september 2020 til viðbótar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu borgarstjóra, dags. 30. júní 2020, varðandi fjárhagsramma fyrir svið borgarinnar vegna undirbúnings fjárhagsáætlunar 2021:

Fulltrúa Flokks fólksins þykir miður að sjá að skera á niður á velferðar- og skóla- og frístundasviði. Hér er verið að skera beina þjónustu til okkar viðkvæmustu hópa. Skorið er niður í velferðarmálum um 112 m.kr. og skóla og frístundarráði 86.371. Þess utan er þessum sviðum gert að hagræða um 0.5%. Á þessum sviðum ætti ekki að vera nein krafa um hagræðingu eins og nú árar. Nú er aldeilis ekki tíminn til að skera niður á þessum sviðum. Hér má sjá enn og aftur að fólkið er ekki í forgangi í þessari borg. Nær væri að auka í frekar en að draga úr því nú kemur kúfur af erfiðum málum. Það mun bæta verulega í biðlista barna eftir þjónustu bæði til fagaðila skólanna og einnig til Þroska- og hegðunarstöðar. Tilvísanir til skólasálfræðinga munu taka kipp í haust enda var snörp fækkun vegna röskunar á skólastarfi. Reiknað er með neikvæðum rekstri borgarinnar. Engu að síður er farið nú í ýmsar framkvæmdir sem vel geta beðið eins og endurgerð húsa og torga á meðan biðlistar barna eftir þjónustu sálfræðinga og talmeinafræðinga og fleiri lengjast enn frekar og voru þeir nú langir fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs SORPU bs., dags. 25. júní 2020, vegna tillagna stjórnar byggðasamlagsins um fjármál SORPU bs., ásamt fylgiskjölum. Einnig lagt fram minnisblað fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 30. júní 2020, um tillögu SORPU bs. um greiðslur stofnframlaga frá eigendum:

Endurskoða á fjárfestingaráætlunina. Nú á að finna leiðir til að redda SORPU úr þeim ógöngum sem fyrirtækið hefur verið sett í. Í erindi SORPU til borgarráðs, er þess farið á leit að eigendur félagsins samþykki að greiða SORPU bs. stofnframlög að fjárhæð 1.000 m.kr. til að takast á við vanda vegna ófjármagnaðra fjárfestinga félagsins. Fjárfestingarnar sem um ræðir eru gas- og jarðgerðarstöðin (GAJA) og kostnaður vegna tækjabúnaðar í móttöku- og flokkunarstöð (MTFS) í Gufunesi. Heildarfjárfesting þessara verkefna er alls 6.145 m.kr. Kostnaður vegna verkefnanna hefur farið mikið fram úr áætlunum eins og segir í erindinu. Fjármálastaða SORPU er áfall fyrir alla borgarbúa enda mun framúrkeyrsla koma með einum eða örðum hætti við pyngju þeirra sem stærsta eiganda SORPU. Einhvers staðar koma peningarnir frá hvort sem það kallast stofnframlög eða lán. Gjaldskrárhækkanir eru handan við hornið. Með GAJU mun urðunarmál auðvitað breytast ef vel tekst til, þá mun henni að mestu hætt. En allt er enn óljóst með afurðir GAJA, metan og moltuna, nema metanið vill SOPRA áfram brenna og moltan verður gefin þ.e. ef einhver vill þiggja hana. Hvað verður um moltuna er háð gæðum hennar en SORPA hefur ekki sýnt heimaflokkun áhuga til að tryggja góð gæði hennar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs menningar- og ferðamálasviðs um að gengið verði frá samstarfssamningi Reykjavíkurborgar og Bíó Paradís:

Spurt er hvort ekki sé rétt að hinkra með þennan samstarfssamning um sinn t.d. fram á haust þar sem sú staða er nú uppi að fólk getur ekki komið saman í stórum hópum vegna áhyggna að því að smitast af COVID-19. Fulltrúi Flokks fólksins vill þó árétta að Bíó Paradís er gríðarmikilvægt í lista- og menningarflóru borgarinnar og landsins alls. Nú er staðan þannig að borgarmeirihlutinn er að skera niður til velferðarmála og skólamála á sama tíma og mikil fjölgun er t.d. af tilvísunum barna og unglinga til fagfólks borgarinnar en fyrir eru langir biðlistar. Þegar líða tekur á árið liggur betur fyrir hvernig mál munu þróast og þá ætti borgin að koma sterkt inn með stuðning við Bíó Paradís. Standa þarf vörð um Bíó Paradís og sjá til þess að það standi styrkum fótum til langrar framtíðar. Önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu einnig að veita styrk til starfseminnar, enda sækja Bíó Paradís ungir sem aldnir íbúar þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að auka fjármagn í menningarpott Reykjavíkurborgar vegna ársins 2020 um 30 m.kr.:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir mikilvægi þess að styðja við listamenn. Hins vegar verður að gera ráð fyrir skertu menningarlífi í ár vegna bakslags COVID smita. Horfast verður í augu við að það er margt breytt eftir veiruvágestinn og geta borgaryfirvöld ekki verið að hvetja til að fólk mæti á viðburði, heimsæki staði þar sem margir koma saman sér í lagi ef viðeigandi ráðstafanir, s.s. hólfun, hafa ekki verið gerðar. Horft er til miðborgarinnar í þessu aðgerðarplani en fulltrúi Flokks fólksins vill minna á að það eru fleiri hverfi í borginni en miðbærinn eða kjarni miðborgarinnar. Það blasir við að meirihlutinn er afar stressaður yfir miðbænum og hversu mjög hann hefur dalað af ástæðum sem ekki eru raktar hér. Ofuráhersla er nú lögð í að redda málum í miðbænum, redda því að ekki hefur verið haft viðunandi samráð sem leitt hefur til stórtæks flótta verslana og fyrirtækja af svæðinu. Það er sannarlega vonast til að þrátt fyrir allt sem gengið hefur á muni bærinn einn góðan veðurdag skarta fólki.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Arnarskóla, dags. 1. apríl 2020, varðandi beiðni um endurupptöku á ákvörðun borgarráðs frá 26. mars 2020 á tillögu um reykvíska nemendur í Arnarskóla:

Viðurkennt er af skóla- og frístundaráði að hnökrar voru á ferlinu og hefur synjun umsókna þriggja barna verið dregin til baka. Þessu ber að fagna. Nú skiptir hið svokallaða „ytra mat“ ekki eins miklu máli enda var það fyrirsláttur að mati fulltrúa Flokks fólksins. Í Arnarskóla fer fram ljómandi gott starf en vissulega er nauðsynlegt að gera faglegt mat. Þótt seinkun sé á því er engin ástæða til að loka fyrir umsóknir í Arnarskóla séu laus pláss í skólanum á annað borð. Að loka á umsókn barna í Arnarskóla var mikil ósanngirni þar sem Reykjavíkurborg getur ekki boðið börnum upp á sambærilegt úrræði. Hugsa þarf um hagsmuni barnanna fyrst og fremst og hafa það ávallt að leiðarljósi. Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt og býður upp á sambærilegt úrræði skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir fyrir þau börn sem notið gætu góðs af úrræðinu. Klettaskóli er vissulega til staðar en hann er eftir því sem best er vitað oftast yfirfullur. Auk þess er hann heldur ekki alveg sambærilegt úrræði og Arnarskóli en sá síðarnefndi býður upp á heildstæða, samfellda þjónustu.

 

Bókun Flokks fólksins við breytingu á gjaldskrá velferðarsviðs um akstursþjónustu fatlaðs fólks, ásamt fylgiskjölum:

Í nýju gjaldskránni verður gerður greinarmunur á föstum ferðum og tilfallandi ferðum. Rukkað verður hálft strætógjald fyrir fastar ferðir, líkt og nú er gert fyrir allar ferðir, og síðan fullt gjald fyrir tilfallandi ferðir. Þetta er að mörgu leyti gjaldaukning fyrir notendur. Hér er verið að ýta á að fólk panti sér ferðir með fyrirvara enda sé það hagstæðara. Það væri ásættanlegra ef hægt væri að panta ferðir fyrirvaralaust, en það er ekki hægt enn. Áfram er miðað við a.m.k. 2 klst. fyrirvara. Þjónustan er því ekki sambærileg við strætó að þessu leyti, sem hún þó á að vera. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að áfram er hægt að taka með sér farþega, sem greiða sitt fargjald. En helsti vandinn er þó að fólk sem á rétt á akstursþjónustu en getur líka notað strætó, a.m.k. við og við, þarf þá að borga tvöfalt gjald. Þetta er ósanngjarnt með meiru og er málið á borði umboðsmanns borgarbúa. Akstursþjónustan er ígildi strætó og það á ekki að fæla fólk frá því að reyna að nota strætó í bland. Er ekki gott að fækka ferðum akstursþjónustunnar? Þetta er alger bremsa og væntanlega brot á jafnræðisreglu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 30. júní 2020 um styrkingu á starfsemi Barnaverndar Reykjavíkur um sjö stöðugildi vegna fjölgunar tilkynninga í kjölfar COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins samþykkti tillögur er lúta að styrkingu barnaverndar á fundi velferðarráðs dags. 24. júní sl. enda gerir hann sér grein fyrir að barnaverndin þarf að hafa tryggan fjárhagslegan grunn og samþykkir því tillögu um styrkingu til barnaverndar. Varðandi barnaverndarmál þá liggur það þokkalega ljóst fyrir hvað málaflokkurinn þarf af fjármagni sem tryggja ætti þá í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár svo ekki þurfi að kalla sífellt á aukingu eða viðauka. Málum fer ekki fækkandi, þeim fer fjölgandi og allar líkur eru á að þeim fjölgi áfram í framhaldi af COVID-19 og þeim áhrifum og afleiðingum sem veirufaraldurinn hefur og mun hafa til langs tíma. Tilkynningar munu jafnvel eiga eftir að taka enn meiri kipp í haust vegna áhrifa og afleiðinga COVID-19. Veirufaraldurinn hefur margs konar neikvæð andleg og fjárhagsleg áhrif á foreldra og foreldrar eru í afar misjafnri stöðu eins og gengur í fjölmenningarsamfélagi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs um þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 29. júní 2020, þar sem minnisblað um tímamót í rafrænni stjórnsýslu og rafrænni langtímavarðveislu gagna hjá Reykjavíkurborg er sent borgarráði til kynningar, ásamt fylgiskjölum:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar öllum endurbótum hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði borgarinnar. Á þeim var sannarlega þörf og má í því sambandi vísa til mála eins og Nauthólsvegar 100 þar sem hnökrar skjalavörslumála og varðveislu gagna komu við sögu. Til upprifjunar þá samræmdust skjalavarsla og skjalastjórn vegna framkvæmda við braggann ekki í veigamiklum atriðum lögum um opinber skjalasöfn. Þetta kom fram í niðurstöðum frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Ýmist var komist upp með að vista skjöl löngu síðar og mikill fjöldi skjala var vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína. Skjöl voru ítrekað vistuð með þeim hætti að þau voru ekki aðgengileg í samræmi við kröfur laga um opinber skjalasöfn. Allt þetta sýnir í hversu miklum ólestri þessi mál voru. Nú heyrir þetta vonandi sögunni til. Þetta sem kallast Hlaðan og GoPro Foris mun nú varðveita og afhenda gögn á rafrænu formi til langtímavarðveislu hjá Borgarskjalasafni Reykjavíkur. Fram kemur að undirbúningur hefur staðið lengi eða allt frá 2015. Auðvitað má spyrja af hverju þessi mál, eins mikilvæg og þau eru hafi verið látin sitja á hakanum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 12. júní 2020, varðandi skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaga á höfuðborgarsvæðinu:

Birtar eru tvær útgáfur af sviðsmyndum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að mestu skiptir í þessu sambandi að fá fleiri mál bs-félaga inn á fundi með eigendum og að minnihlutafulltrúar hafi fulla aðkomu að málum. Reynslan er sú að byggðasamlögin hafa orðið ríki í ríkinu. Skipulag og stjórnunarhættir hafa leitt til þess að bs-kerfin hafa vikið verulega frá uppruna sínum og hafa lokað á kjörna fulltrúa og eigendur sína. Reynslan hefur ekki alltaf verið góð. Saga SORPU er kunn og stjórn bar ekki gæfu til að grípa í taumana. Eigendur hafa oft ekki hugmynd um hvernig verið er að sýsla með fé þeirra. Byggðasamlög eru flókið kerfi og boðleiðir því langar. Kjörnir fulltrúar eru brúin frá eigendum yfir til stjórnar. Reykjavík er langstærsti eigandinn og stærsti greiðandi skulda og taka stærstu ábyrgðina á óförum sem kunna að verða hjá byggðasamlagi. Þegar talað er um að bjóða fleirum að borðinu er ekki nóg að bjóða þeim sem áheyrnarfulltrúum heldur verða þeir að hafa atkvæðarétt. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef ekki er hægt að laga byggðasamlögin til þannig að þau verði lýðræðisleg og fela í sér aðkomu allra pólitískra fulltrúa er tímabært að huga að sameiningarmálum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 29. júní 2020, við fyrirspurn Sósíalistaflokks Íslands um hlutfall veikinda starfsmanna:

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að þetta séu mikil veikindi hjá Reykjavíkurborg sem sýndar eru í svari en í borginni starfa yfir 9000 starfmenn á hverjum tíma. Veikindahlutfall starfsmanna Reykjavíkurborgar var 6,7% árið 2017, 6,8% árið 2018 og 6,9% árið 2019. Hér er um fjölgun að ræða, jafna og þétta sem hlýtur að valda áhyggjum. Sama mátti sjá í þriggja mánaða uppgjöri velferðarsviðs janúar-mars 2020 þar sem fram kom að fjárheimildir voru 15 m.kr. umfram sem rekja má til langtímaveikinda. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni tengi þessa niðurstöður aldrei við vinnuaðstæður. Samkvæmt síðustu könnun um einelti hefur vanlíðan í starfi farið vaxandi. Lagðar voru fram niðurstöður viðhorfskönnunar starfsmanna á fundi velferðarráðs dags. 25. maí 2020. Spurt var um hvort fólk hafi orðið fyrir áreitni og einelti frá samstarfsfólki. Prósentutalan „Einelti frá samstarfsfólki“ hefur hækkað, var 2,8% árið 2019 en 3,4% í ár. Hvort tveggja er áhyggjuefni. Flokkur fólksins væntir þess að athugað verði hver sé vandinn hjá þjónustu- og nýsköpunarsviði og að borgarfulltrúar verði upplýstir um þær niðurstöður.

 

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins við afgreiðslu tillögu um frestun dráttarvaxta og innheimtukostnaðar vegna greiðslufalls fasteignagjalda, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. apríl 2020:

Tillögu Miðflokksins og Flokks fólksins hefur verið vísað frá en hún varðar að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar auka innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda og sagt er í umsögn að slíkt sé ekki löglegt en að lengt hafi verið í gjalddögum fasteignagjalda ársins 2020. Þess er vænst að áframhald verði á frestun gjalddaga enda ekki séð að rekstrargrundvöllur fyrirtækja lagist mikið á þessu ári vegna COVID-19. Telja má hins vegar að það ætti að vera auðsótt að fá undanþágu frá lögunum til að ýmist fella niður eða fresta gjalddögum sem dæmi út þetta ár. Hin miklu efnahagslegu áhrif heimsfaraldurs kórónuveiru er rétt að byrja og mikilvægt er að létta á rekstraraðilum ekki síst þeim sem þjónustuðu ferðamenn.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Sósíalistaflokks Íslands, dags. 30. apríl 2020, um að borgarsjóður fjármagni niðurfellingu á leigu hjá leigendum Félagsbústaða:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins barðist fyrir því að komið yrði á móts við leigjendur Félagsbústaða þegar veirufaraldurinn skall á með því að fella niður leigu þó ekki væri nema í einn mánuð. Allt kom fyrir ekki og má segja að meirihlutinn hafi hneykslast á tillögunni eins og sjá má í einstaka bókunum þeirra. Að fella niður leigu hefði einfaldlega hjálpað mörgum og kemur í raun ekkert úrræði beinlínis í staðinn fyrir það. Vissulega hefði kostnaður verið talsverður en annað eins er nú greitt til einstaklinga og fyrirtækja vegna áfallsins sem kórónuveiran olli með tilheyrandi skaða. Þær tímabundnu breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð sem Félagsbústaðir buðu upp á náðu bara ekki nógu langt, alla vega ekki fyrir alla.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. júní 2020:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn sé að taka við sér og merkja nú handhöfum stæðiskorta sérstök stæði við göngugötur og eru þar með að fylgja lögum, þ.e. 10. grein nýrra umferðarlaga sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í 10. greininni er kveðið á um að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í þar til merkt stæði. Handhafar stæðiskorta hafa haft áhyggjur af þessu og óttast jafnframt að nýta þessa heimild m.a. vegna andstöðu meirihlutans við lagaheimildina. Það minnisblað sem sent var til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem farið er fram á að fá þessu breytt liggur enn hjá Alþingi. Ekki eru miklar líkur á að þessu verði breytt enda hér um áralanga baráttu fatlaðs fólks að ræða sem loksins gekk í gegn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um brunann á Bræðraborgarstíg 1-3:

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 1. júlí lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Einnig var lagt til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum verður að vera virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið. Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.

 

Borgarráð leggur fram svohljóðandi bókun ásamt áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fulltrúum Vegagerðarinnar er þakkað fyrir að koma í borgarráð. Ljóst má vera að gera þarf allt til þess að koma í veg fyrir að svo hörmulegt slys eins og átti sér stað síðastliðinn sunnudag geti endurtekið sig. Aðstandendum og öðrum sem um sárt eiga að binda vegna slyssins eru sendar innilegar samúðarkveðjur.

 

Tillaga að  stýrihópar sem stefndu að því að skila af sér niðurstöðum fyrir sumarið en hafa ekki gert það, geri það hið fyrsta.

Tillaga Flokks fólksins að stýrihópar skili af sér fyrir sumarfrí. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að stýrihópar sem stefndu að því að skila af sér niðurstöðum fyrir sumarið en hafa ekki gert það, geri það hið fyrsta. Það er ótækt að vinna stýrihópa tefjist fram á haustið og mun slík töf geta haft áhrif á marga. Enn bólar sem dæmi ekkert á niðurstöðum starfshóps sem endurskoðar reglur um dýrahald en til stóð að hann lyki störfum á vordögum. Í gangi er einnig starfshópur „um frístundakort“ en ekki er vitað um framvindu þeirrar vinnu. Sá hópur átti m.a. að endurskoða reglur um frístundakort. Bundnar voru vonir við að börnum gæfist kostur á að nýta frístundakortið til þátttöku í sumarnámskeiðum sem nú eru í algleymingi. En reglan um að námskeið þurfi að vara í 20 vikur til að hægt sé að nota frístundakort hindrar það. R20070025

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Starfshópar þeir sem nefndir eru í tillögunni þ.e. vegna dýrahalds annars vegar og frístundakort hins vegar, starfa á ábyrgð viðkomandi fagráða. Það er ekki hlutverk borgarráðs að ákveða skil þeirra hópa enda liggja engar upplýsingar fyrir í borgarráði um stöðu þeirrar vinnu né áætluð skil.

Gagnbókun Flokks fólksins:

Stýrihópar virðast hafa sjálfdæmi um hvenær þeir skila af sér vinnu og er það miður. Flokkur fólksins veit ekki hver í borginni hefur með það að gera að kalla eftir niðurstöðum stýrihópa. Það er t.d. miður að stýrihópur um endurskoðun frístundakorts skildi ekki hafa lokið störfum og verður það til þess mörg börn geta ekki notað frístundakortið í sumarnámskeið eins og vonast var til að þau gætu eftir endurskoðunina.

Bókun Flokks fólksins Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn er varðar breytingu á innheimtureglum.:

Í framhaldi af tillögu borgarstjóra að framlengja tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar þannig að heimilt verði að fresta leigugreiðslum vegna júlí, ágúst og september 2020 vegna COVID-19 óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað margir nýttu sér þetta ákvæði. R20030260

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Borgarráð 2. júlí 2020

Bókun Flokks fólksins við Sértæku búsetuúrræði, breyting á:

Markmiðið er að auka möguleika á að setja niður t.d. smáhýsi fyrir heimilislausa og er í því samhengi jákvæð breyting. Breytingin snýst um að rýmka það svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæði. svo sem: Verslunar- og þjónustusvæða, Miðsvæða, Athafnasvæða  Hafnarsvæða Iðnaðarsvæða  Opinna svæða og Landbúnaðarsvæða  enda byggingar einkum staðsettar innan þegar skilgreinds byggingarreits eða lóðar samkvæmt fyrirliggjandi deiliskipulagi og í samráði við lóðarhafa eða landeiganda. Þessi breyting ætti að skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Nægur sveigjanleiki þarf að vera til að hægt sé að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

 

Bókun Flokks fólksins við Bólstaðarhlíð 20, breyting á deiliskipulagi:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hlusta á á raddir fólks í þessu máli og ganga í það að lagfæra og minnka umfang battavallarins eða finna aðrar lausnir sem eru ásættanlegri.  Framkvæmdin var gerð í óleyfi, ekki lá fyrir heimild frá skipulagsyfirvöldum. Völlurinn er á vegum skólans en ábyrgðin engu að síður nokkuð óljós. Svona völlur er sannarlega mikilvægur og börnum til gleði en hann má ekki vera staðsettur þar sem hann veldur öðrum ólíðandi ama og truflar heimilislíf eins og lýst er í þessu máli.

 

Bókun Flokks fólksins við Vesturlandsvegur, breyting á deiliskipulagi:

Lagt er fram á fundi umsókn um breytingu á deiliskipulagi Vesturlandsvegar vegna útfærslu vegar. Í gögnum er gert ráð fyrir að göngu- og hjólaleið verði annað hvort á vegöxl hliðarvega eða að gerður verður sérstakur göngu- og hjólastígur. Það er mat Flokks fólksins að enda þótt áhersla sé á að til verði samfelld og  örugg göngu- og hjólaleið með fram Vesturlandsvegi sé öryggi gangandi og hjólandi best tryggt ef stígar eru vel til hliðar frekar en að vera á vegöxl. Aðstæður eru mismunandi en ávallt ætti að reyna til hins ítrasta að hafa stíga fyrir gangandi og hjólandi eins fjarri umferð og hægt er. Þarna ætti að gera góðan hjólastíg  án undanbragða og sá stígur ætti að liggja með hæðarlínum og þannig hallalaus. Ekki er boðlegt að segja í áætlun að: ,, Bætt er við þeim möguleika að gera sérstakan göngu- og hjólastíg, eftir því sem aðstæður leyfa, sem kæmi þá í stað göngu- og hjólaleiðar á vegöxl hliðarvega. Leitast verður við að stígarnir séu 3-3,5 metra breiðir”. Orðalag þarf að vera meira afgerandi hér að mati Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu um breytingar, Kjalarnes, Esjumelar, breyting á deiliskipulagi. Í breytingunum felst m.a. að skipulögð er um 5 hektara lóð fyrir Malbikunarstöð Höfða þar sem fyrirtækið hyggst  starfsemi sína á Esjumela. Það er mat Flokks fólksins að þær athugasemdir sem borist hafa séu réttmætar enda  varða þær allar neikvæð umhverfis- og sjónræn áhrif sem breytingin hefur í för með sér og sem munu skerða gæði útivistar fyrir nærliggjandi svæði.  Hér er verið að  búa til stóra lóð  undir malbikunarstöð, sem óhjákvæmilega mun hafa áhrif á umhverfið. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um hvort viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé heil og sönn?. Það er afar mikilvægt að hlustað verði á þá sem hafa sent inn athugasemdir og lýst yfir áhyggjum sínum.

 

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi Skerjafjörður:

Flokkur fólksins  er alfarið andvígur því að landfyllingar séu gerðar í þeim tilgangi að  búa til land fyrir nýbyggingar.  Náttúrulegar fjörur í Reykjavík eru takmörkuð auðlind og eru útivistarsvæði margra auk þess sem margar eru mikilvægar fyrir  lífríki svæðisins. Engin þörf er á landfyllingum í Skerjafirði. Þegar flugvöllurinn fer, fari hann þ.e.a.s.  verður hægt að skipuleggja góðan byggðakjarna án landfyllinga. Þess vegna ætti að koma til  greina að fresta skipulagsmálum í og við flugvallarsvæðið, þar til tímasett verður hvenær flugvöllurinn fer. Fram kemur að ströndin sé röskuð en óþarfi er kannski að raska henni enn meira?

 

Bókun Flokks fólksins við Skerjafjörður Þ5, deiliskipulag:

Þrátt fyrir minnkun á landfyllingu verður engu að síður um að ræða óafturkræfanlegar skemmdir á náttúrulegri fjöru. Áhyggjuefnin eru mörg varðandi þetta framtíðarsvæði eins og því er stillt upp. Mengun er í jörðu og hávaðamengun af flugvélum. Hvorutveggja er raunveruleiki þótt reynt verði að milda áhrifin.  Aðeins ein af merktum jarðvegsholum er skráð „í lagi“,  16 falla undir „slæmt og mjög slæmt“ af 96 alls. Mengaðan jarðveg þarf að skófla burt. Annað áhyggjuefni er fjöldi íbúða sem þarna á að rísa. Fjöldi íbúða hækkar úr 800 í 1300 og  eru að mestu hugsað fyrir hjólandi og gangandi enda engin bílastæði við húsin heldur  á að leggja í  einum stórum sameiginlegum bílakjallara. Reiknað er með því að bílafjöldi um vestasta hluta Einarsness fari úr 2 þús. bílum á sólarhring í 7 þús. Íbúar á bíl, sem starfa jafnvel langt frá heimili þurfa að komast í og úr hverfinu. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að aðgengi inn og út úr hverfinu er ekki fyrirsjáanlegt. Hverfi mega ekki verða einangraðir afkimar borgarlandsins. Horfa þarf til samfellu í borgarlandinu og að gott flæði verði í samgöngum þar sem liðkað er fyrir öllum tegundum af ferðamáta.

 

Bókun Flokks fólksins við Dunhagi, Hjarðarhagi og Tómasarhagi,  deiliskipulag:

Skipulagsyfirvöld leggja fram nýja tillögu að skipulagslýsingu fyrir Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga. Einnig er lögð fram umsókn THG Arkitekta um nýtt deiliskipulag fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhagi 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Í tillögunni elst m.a. niðurrif og uppbygging á loð nr. 18-20 við Dunhaga. Í báðum þessum málum vill fulltrúi  Flokks fólksins minna skipulagsyfirvöld á loforð um samráð við borgara/íbúa þegar þessi meirihluti tók við völdum. Ekki er betur séð í þessu máli að ekki hafi verið hlustað á alla þá sem vilja tjá sig um málið og sem málið snertir. Óskað er eftir frest á að skila inn athugasemdum og eiga skipulagsyfirvöld að verða við því. Andmæli við fyrirhugaðar breytingar hafa verið miklar og djúpstæðar og kemur fram að andmælendur hafa tvívegis unnið mál fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála. Auglýsing að skipulagslýsingu var ekki send hagsmunaaðilum á skipulagsreitnum. Eigendur verða að fá  eðlilegan frest til að skila athugasemdum. Enn eru einhverjir sem vilja tjá sig um málið áður en það fer lengra

 

Bókun Flokks fólksins við hámarkshraðabreytingar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessum aðgerðum og sérstaklega þeim sérstaka viðburði að tillaga Flokks fólksins um lækkun hámarkshraða úr 50 km/klst.  í 30 km/klst.   á Laugarásvegi var samþykkt. Á þessari götu var þörf að lækka hraðan enda þótt hraðahindranir geri vissulega sitt gagn. Þetta er í raun í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka jafnan hraðar en  30 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar  hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst sem nú er orðinn að raunveruleika.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu skipulags- og samgönguráð um hvaða bílastæði verði merkt sérstaklega fyrir hreyfihamlaða:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að meirihlutinn í skipulags og samgönguráði  er að taka við sér og merkja nú handhöfum stæðiskorta sérstök stæði við göngugötur og eru þar með að fylgja lögum, þ.e. 10. grein nýrra umferðarlaga sem tók gildi 1. janúar 2020. Í 10. greininni er kveðið á um að handhafar stæðiskorta megi aka göngugötur og leggja í  þar til merkt stæði. Handhafar stæðiskorta hafa haft áhyggjur af þessu og óttast jafnframt að nýta þessa heimild m.a. vegna andstöðu meirihlutans við lagaheimildinni. Það minnisblað sem skipulagsyfirvöld  sendu   til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins þar sem farið er fram á að fá þessu breytt liggur enn hjá Alþingi. Ekki eru miklar líkur á að þessu verði breytt enda hér um áralanga baráttu fatlaðs fólks að ræða sem loksins gekk í gegn.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu yfirlits yfir ferðakostnað starfsmanna umhverfis- og skipulagssviðs frá janúar – mars 2020:

Lagt er fram yfirlit Umhverfis- og skipulagssvið  yfir ferðir og kostnað við þær frá jan. – mars 2020. Upphæðin að þessu sinn er 865.000. Í mars lögðust af allar ferðir vegna COVID-19 og er því upphæð vorannar einstaklega lág eðli málsins samkvæmt. Eins og vitað er þá hefur farið  gríðarmikið fé í ferðir erlendis hjá þessu sviði. Nú má vænta þess að ferðum snar fækki vegna þess að með Covid-19 lærði fólk að nota fjarfundakerfi sem gekk almennt sé mjög vel.  Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ferðalög  á kostnað útsvarsgreiðenda eiga því að vera alger undantekning.

 

Bókun Flokks fólksins við Barmahlíð 19 og 21, kæra:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst kærur allt of margar sem berast skipulagssviði og þess vert að skoða hvort það kunni að vera vegna þess að reglur eru ýmist óljósar eða of stífar.  Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki oft tjáð sig um kærur enda ekki með sömu forsendur og starfsmenn/embættismenn skipulagsins. Til að taka afstöðu þarf að lesa ofan í kjölinn báðar málshliðar auk þess sem mikilvægt er að hafa einhverja smá þekkingu í byggingar- og hönnunarfræðum og mörgu öðru til að geta tekið vitræna afstöðu. Það hefur komið fyrir að fulltrúi Flokks fólksins sér þó alls engin rök fyrir að verið sé að synja fólki um að t.d. stækka glugga eða hækka þök þegar framkvæmdin káfar ekki upp á neinn í nágrenninu. Í þessu tilfelli Barmahlíð 19-21 er ekki hægt að sjá hvaða rök liggja að baki synjun. Hér eru fordæmi fyrir hendi og ekki virðist gætt jafnræði og meðalhófs. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að í málum sem ríkur vafi leikur á um að rök teljist sanngjörn og fagleg fái þau aftur skoðun skipulagsyfirvalda og færist jafnvel í aðrar hendur innan borgarkerfisins svo málið fái eins hlutlausa afgreiðslu og hugsast getur.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu vegna samþykktar borgarráðs frá 28. maí 2020 um rammaskipulag fyrir Austurheiðar:

Ljóst er að mikill metnaður hefur verið lagður í verkefnið. Fulltrúi Flokks fólksins lagði, í sínum bókunum í málinu, áherslu á að hagsmunaaðilar verði hafðir með í ráðum allt til enda og að áfram verði haldnir fundir  og að fundargerðir verði ávallt aðgengilegar til að samráðið sé að fullu gegnsætt. Öllu máli skiptir að þetta sé unnið í sátt allt til enda og að hagsmunaaðilar fái að koma að undirbúningsvinnu og þeir upplýstir um í hvaða skref er verið að taka hverju sinni. Flestar lóðir við Langavatn eru eignarlóðir. Ræktun gamalla lóða verður vonandi nýtt í stórum stíl. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að, eins og svæðið er skipulagt, að nóg ætti að verða af bílastæðum við aðkomuleiðir. Tryggja þarf aðgengi allra, akandi, hjólandi og gangandi og gæta þess að aðgengi fatlaðs fólks sé fullnægjandi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra dags. 18. júní 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 16. júní 2020 á  breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur:

Skipulagsyfirvöld samþykktu tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar í borgarstjórn 16. júní 2020. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á skemmdir á fjörum sem allt þetta hefur í för með sér. Skipulagsyfirvöld hafa áður verið gagnrýnd fyrir að fara offari í landfyllingum.  Breytingartillagan bar með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Nýta þarf hvern einn og einasta útnára í kringum flugvöllinn. Nær hefði verið að bíða enda yrði uppbygging á svæðinu allt önnur ef flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni. Það er vissulega með öllu óljóst á þessu stigi máls. Meðal þess sem áhyggjur eru af er að það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs um breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:

Það var mat fulltrúa Flokks fólksins að fresta hefði átt byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer úr Vatnsmýrinni, fari hann þ.e.a.s.,  enda verður þá allt annað umhverfi í boði. Vissulega liggur það ekki fyrir að hann fari en nokkuð er ljóst að hann verður á sínum stað næstu 15 árin samkvæmt því sem borgarstjóri hefur fullyrt. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án stórframkvæmda. Hér er um stórt skipulagsmál að ræða. Fari flugvöllurinn býður svæðið upp á ólíka uppbyggingu en nú er stefnt að. Nú þarf allt skipulag að taka mið af flugvellinum og með því hefur möguleikum á annars konar byggðaþróun verið spillt. Fari flugvöllurinn eru sem dæmi ekki sömu takmarkanir á hæð bygginga eða öryggisgirðingar svo eitthvað sé nefnt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra varðandi breytingu á deiliskipulagi Eiðsgranda, miðsvæði, vegna lóðarinnar nr. 14 við Rekagranda:

Skipulagsyfirvöld hafa ákveðið að gera grundvallarbreytingar á lóð nr. 14 við Rekagranda. Lóð leikskólans stækkar sem er gott en fjarlægður er snúningsreitur og nokkur bílastæði. Við þessa ákvörðun hefur ljóslega ekki verið horft til  þeirra fjölskyldna sem ekki búa næst leikskólanum og geta ekki nýtt sér almenningssamgöngur. Þegar komið er með börnin í leikskóla á álagstímum er stundum engin stæði laus og þarf þá að bíða í götunni þar til stæði losnar, aðstæður sem geta skapað hættu. Ef reglur um fjölda bílastæða í Reykjavík eru skoðaðar segir að gera eigi ráð fyrir 0,2 – 0,5 bílastæði á starf, og gera þarf ráð fyrir mun fleirum stæðum þ.m.t. „sleppistæðum“ við leikskóla. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki fengið það staðfest hvort að skipulagsyfirvöld fari í einu og öllu eftir þessum reglum?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs Landverndar til borgarstjórans í Reykjavík og skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, dags. 29. apríl 2020, um landfyllingu austan við Laugarnes og áhrif á náttúru, landslag og útivist:

Hér er um landfyllingar við Sundahöfn austan við Laugarnes að ræða. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir með Landvernd og lýsir yfir vonbrigðum með að beitt skuli undantekningarákvæðum vegna framangreindra framkvæmda. Ekki verður séð af gögnum að ítarlega hafi verið fjallað um framkvæmdina í aðalskipulagi. Alvarlegt er að framkvæmdir séu hafnar þótt ekki liggi fyrir samþykkt deiliskipulag á svæðinu en segir í lögum að framkvæmdaleyfi skal ávallt vera í samræmi við skipulag.  Laugarnestangi er á náttúruminjaskrá og nýtur hverfisverndar í aðalskipulagi m.a. vegna þess að mikið er um búsetuminjar og ströndin er að mestu ósnortin. Skipulagsyfirvöld segja sjálf í gögnum, að “mikilvægt sé að halda í þetta merkilega menningarlandslag, samspil náttúru og minja, sem er hvergi að finna annars staðar í Reykjavík.” En ekki er  litið til framgreindar lýsingar á þeim verðmætum sem í húfi eru. Áhrif framkvæmda á verðmætt náttúru- og útivistarsvæði hafa ekki verið vel athuguð, Fulltrúi Flokks fólksins  vill fagleg vinnubrögð skipulagsyfirvalda og að “skipulagsyfirvöld taki framangreinda þætti til vandlegrar skoðunar og kynninga vel áður en teknar verða ákvarðanir um deiliskipulag og frekari framkvæmdir á og við framangreinda landfyllingu.” Skipulagsyfirvöld verða að hætta að skerða einatt fjörur þegar eitthvað þarf að gera nálægt sjó.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingarinnar vegna stoppistöðvar Strætó og barst skipulags- og samgönguráði 1. apríl 2020:

Í tengslum við fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar um stoppistöðvar Strætó vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að fatlað fólk (ÖBI) hefur lengi bent á að  aðgengi að biðstöðvum er víða í lamasessi í borgarlandinu. Fengnir voru tveir fatlaðir menn til að gera úttekt á strætósamgöngum í samstarfi við Strætó bs. sumarið 2018 og voru niðurstöður birtar vorið 2019 (https://www.obi.is/is/utgafa/frettir/getur-fatlad-folk-notad-straeto). Við uppsetningu nýju skýlanna átti jafnframt að bæta allt aðgengi að biðskýlunum. Það er almennt betra fyrir vikið en ekki alltaf eins og best verður á kosið. Það er búið að ráða sumarstarfsmann til að gera úttekt á aðgengismálum við biðstöðvar strætó, eins og kemur fram í svarinu og er það vel.

 

Bókun Flokks fólksins við áður framlagðri tillögu fulltrúa Flokks fólksins vegna leiðarkerfis Strætós bs. í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal og barst skipulags- og samgönguráði 4. mars 2020.

Vísað til faghóps um leiðakerfismál hjá Strætó bs.:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu vegna leiðarkerfis Strætós bs. í Grafarvogi, Grafarholti og Úlfarsárdal. Tillagan gekk út á að leiðarkerfið verði þétt og skilvirkt milli hverfanna og til að svo megi verða þarf að endurskoða leiðarkerfið Strætó með hliðsjón af ábendingum og athugasemdum íbúa þessara hverfa.  Umsögn hefur borist og lagt er til að vísa  ábendingum Flokks fólksins til faghóps um leiðakerfismál, til frekari greiningar og úrvinnslu. Það er að mati fulltrúa Flokks fólksins ágætt næsta skref. Flokkur fólksins vill í þessu sem öðru gæta þess að ávallt sé tekið tillit til athugasemda íbúa og í þessu tilfelli er um að reiða óviðunandi leiðarkerfi Strætó bs. Hér er ekki síst um að ræða öryggi barnanna sem koma úr þremur hverfum. Það eru ekki allir á bíl og það fólk þarf að geta nýtt almenningsvagna til að komast í verslanir.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu um neyðarnúmer/þjónustusíma sem hægt er að hringja í eftir hefðbundinn opnunartíma þjónustuvers.

Tillögunni fylgir greinargerð.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um kostnað hundagerðis í Vesturbæ sem nú hefur verið fallið frá.

Hundagerðið var frá upphafi ófullnægjandi fyrir ýmsar sakir og skellt var skolleyrum við ábendingum og varnarorðum hundaeigenda. Engu að síður var haldið áfram með verkefnið  Flokkur fólksins óskar eftir að vita hvað þetta hundagerði kostaði borgarbúa?

Vísað til umsagnar umhverfis – og skipulagssviðs, Skrifstofu framkvæmda og viðhalds.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði

Lagt er til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Lagt er til að slökkviliðsstjóri og byggingarfulltrúi skipuleggi og sjái um framkvæmd aðgerða. Harmleikurinn sem átti sér stað þegar kviknaði í illa búnu húsnæði á Bræðraborgarstíg átti sér aðdraganda. Aðbúnaður í húsinu hafði áður komið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Í þessu tilviki var um að ræða húsnæði sem nýtt var til útleigu umfram það sem eðlilegt getur talist þrátt fyrir að aðeins væri einn brunaútgangur á húsinu. Þá höfðu verið gerðar breytingar á húsinu án tilskilinna leyfa. Í slíkum tilvikum fer ekki fram skoðun eftirlitsmanna á fyrirhuguðum teikningum og öryggismat. Það skiptir máli að eftirlit með aðbúnaði og brunavörnum sé ekki aðeins virkt á framkvæmdarstiginu. Það þarf að efla frumkvæðiseftirlit slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa. Lagt er jafnframt til að fagaðilar greini hvað þarf að efla í eftirliti með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja og hvort þörf sé á frekari eftirlitsheimildum eða auknum mannafla eða fjármagni í verkefnið. Flokkur fólksins leggur einnig til að áhersla verði lögð á vitundarvakningu meðal almennings, og þá sérstaklega fólks á leigumarkaði, um brunavarnir og aðbúnað.

Greinargerð

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavík feli slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa að skipuleggja og sjá um framkvæmd á sérstöku átaki gegn hættulegu húsnæði. Þessir aðilar hafa sérþekkingu um öryggismál og sjá auk þess um eftirlit með brunavörnum og aðbúnaði mannvirkja í borginni.

Mikið er af eldri húsum í miðborg Reykjavíkur. Þegar þessi hús voru byggð var tíðin önnur. Í dag gerum við miklu meiri kröfur um gæði og öryggi mannvirkja. Þó gjarnan sé búið að gera ýmsar úrbætur á eldri húsum í átt að meira öryggi þá leynast víða hús í slæmu ástandi sem bjóða upp á slysahættu. Það þarf að kortleggja hvaða hús þarfnast úrbóta og hvaða úrbætur gagnist best í þeim efnum. Þetta má gera með því að hafa samband að fyrra bragði við eigendur eldri húsa og bjóða þeim upp á skoðun eftirlitsaðila.
Þá er mikið um það að fólk á leigumarkaði neyðist vegna fátæktar að leigja íbúðir í ósamþykktu húsnæði. Þessar íbúðir þarf að athuga sérstaklega. Það er nauðsynlegt að auka fræðslu til almennings um hvaða kröfur íbúðir þurfi að uppfylla til að þær teljist öruggar og að leigutakar eigi rétt á því að krefjast þess að leigusali ráðist í þessar úrbætur. Stór hluti þeirra sem leigja ósamþykktar íbúðir eru af erlendu bergi brotnir og þekkja ekki sín réttindi í þessum efnum eða hræðast það að missa húsnæði sitt ef þeir gera yfirvöldum viðvart. Það þarf að ná til þessa fólks og fræða þau um réttindi sín og hve alvarlegt það getur verið ef aðbúnaði og brunavörnum er ábótavant. Reykjavík þarf að hafa frumkvæði með það að fræða fólk á leigumarkaði um réttindi sín og fólk almennt um öryggi og aðbúnað húsnæðis.
Þá þarf að kortleggja eftirlitsheimildir slökkviliðsstjóra og byggingarfulltrúa og athuga hvort þörf er á frekari heimildum til frumkvæðiseftirlits eða frekari heimildum til að beita viðurlögum. Komi í ljós að frekari heimildir þurfi þá þarf Reykjavík að kalla eftir samráði við Alþingi um lagasetningu á þessu sviði.
Þá þarf að útbúa gæðastimpil og kynna almenningi. Sýnileg vottun um öryggi húsnæðis eykur bæði vitund almennings um öryggi og hvetur eigendur mannvirkja til úrbóta.  Gæðastimpill yrði þá Skjöldur sem hægt er að festa á vegg húsnæðis. Hann yrði veittur húsnæði ef það uppfyllir kröfur laga og reglugerða um brunavarnir og aðbúnað og mætti þá prýða hús gæðastimplinum, líkt og AirBnB íbúðir gera með TripAdvisor viðurkenningar. Þannig yrði almenningi, bæði leigjendum og öðrum auðvelt að kanna hvort tiltekið húsnæði uppfyllti allar tilskyldar kröfur. Þá yrði slíkt fyrirkomulag til hvatningar til leigusala þar sem það eykur traust gagnvart leigusala ef hann er framúrskarandi í öryggismálum. Þessir gæðastimplar yrðu þá merktir með ártali og myndu gilda í tiltekinn tíma, líkt og t.d. vottanir heilbrigðiseftirlits. Að þeim tíma liðnum færi fram úttekt að nýju ef eigandi óskar þess.

Vísað til meðferðar borgarráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði.

Tillaga Flokks fólksins að sama ívilnun gildi fyrir visthæfa bíla, þe. 90 mín. frítt í stæði í bílastæðahúsum og í götustæði. Það er ekki rökrétt að bjóða visthæfu bílaeigendum að leggja frítt í stæði á götu í 90 mínútur en ekki í bílastæðahúsi. Með því að hafa ekki sömu ívilnun í bílastæðahúsinu  eru skipulagsyfirvöld að hvetja þessar bílaeigendur að leggja frekar bíl sínum á götu en í bílastæðahúsi. Hér eru skipulagsyfirvöld í  mótsögn við sjálfa sig. Þau agnúast út í bílaeigendur sem  koma í miðborgina á bíl sínum en gera hins vegar fátt til að hvetja þá til að a.m.k. nýta sér bílastæðahúsin sem eru mörg hver illa nýtt. Samkvæmt samgöngustjóra (17. 2., 20) er nýting húsanna á þessum tíma almennt lítil, 10-15% nýting ef langtímanotendur með mánaðarkort eru taldir með. Engu að síður sjá skipulagsyfirvöld ofsjónum yfir lækkun tekna bílastæðasjóðs ef gjaldfrjálst verður í bílahúsin frá kl. 22:00 til kl. 08:00 eins og ein af tillögu Flokks fólksins gekk út á. Ef lagt er yfir nótt frá kl. 22:00 að kvöldi og sótt rétt kl. 8:00 morguninn eftir þarf sem dæmi að greiða 1.050 kr. í Stjörnuporti, og Vitatorgi en 1.320 kr.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti.

Tillaga Flokks fólksins að bíllinn verði aðgengilegur allan sólarhringinn í bílastæðahúsum og að kostnaður við að leggja í bílastæðahús verði áþreifanlega minni en ef lagt er á götum úti. Bílastæðasjóður Reykjavíkurborgar rekur sjö bílastæðahús. Viðurkennt hefur verið af skipulagsyfirvöldum að skammtímastæði þar eru illa nýtt seint á degi og um kvöld. Þar er ekki boðið upp á að greiða með t.d. leggja.is eða öðru sambærilegu. Samkvæmt heimasíðu Bílastæðasjóðs er dýrara að leggja í bílastæðahúsum en út á götu á gjaldsvæðum 2-4. Í bílastæðahúsum þarf að greiða gjald fyrir allan þann tíma sem bíl er lagt og ekki er boðið upp á ívilnanir fyrir metan- eða rafbíla eða frítt stæði í 90 mín eins og í gjaldstæði á götum.  Á heimasíðu bílastæðasjóðs eru ekki upplýsingar um nýjar reglur um gjaldskyldu og gjaldskyldusvæði sem samþykktar voru 12. september 2029. Helstu breytingar voru að gjaldskylda er nú á sunnudögum og lengja á gjaldskyldu á gjaldsvæði 1 til 20:00 á virkum dögum. Eru þær reglur kannski ekki búnar að taka gildi? Ef bílastæðahús eiga að vera nýtt með fullnægjandi hætta þurfa þau að vera opin allan sólarhringinn þannig að þeir sem vilja dvelja í miðbænum fram yfir miðnætti geta lagt þar.

Frestað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma.

Tillaga að bílastæðasjóður birti á heimasíðu sinni réttar upplýsingar um gjaldskyldutíma. Samþykkt var sl.  vetur á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. september 2019 að lengja gjaldskyldu á svæði 1 til klukkan 20 á vikum dögum og á laugardögum og að bæta við gjaldskyldu á svæðinu á sunnudögum frá klukkan 10-16. Á heimasíðu bílastæðasjóðs kemur þessi breyting ekki fram, nema að þessar nýju reglur hafi ekki tekið gildi? Ef þær hafa gert það þá hefur heimasíðan ekki verið uppfærð. Upplýsingar á heimasíðunni gefa til kynna núna að gjaldskyldu ljúki kl. 18 en ekki 20 í gjaldstæði 1 og að engin gjaldskylda sé á sunnudögum. Einnig segir að gjald sé innheimt á virkum dögum milli 9-18 og á laugardögum 10-16 og í P4 8-16 . Auk þess eru aðrar upplýsingar einnig villandi. Í dálknum gjaldskyld svæði eru sunnudagar ekki nefndir. Neðar á heimasíðunni er listi yfir daga sem ekki er tekið gjald en þar eru sunnudagar ekki heldur nefndir. Þessar mikilvægu upplýsingar skipta máli fyrir fólk sem veltir fyrir sér hvort það vilji heimsækja bæinn á sunnudögum og þurfi þá e.t.v. að leggja í gjaldskyld svæði. https://www.bilastaedasjodur.is/gjaldskylda/gjaldsvaedin.
Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um uppbyggingaráform Skerjafjarðar

Í gögnum um uppbyggingu í Skerjafirði kemur fram að draga eigi úr byggingarheimildum atvinnusvæðis í Skerjafirði. Nú þegar er þetta svæði ekki mikið atvinnusvæði. Spurt er þess vegna hvað átt sé við hér, hvernig atvinnusvæði er verið að vísa til?
Frestað.

Skipulags- og samgönguráð 1. júlí 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Ártúnshöfða – eystri vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi:

Smáhýsi fyrir heimilislausa í Reykjavík hafa verið til umræðu um skeið. Markmiðið með smáhýsunum er að veita einstaklingum og pörum með fjölþættan vanda öruggt húsnæði. Erfitt hefur reynst að finna þessum smáhýsum stað. Mikilvægt er að smáhýsin séu nálægt allri helstu þjónustu og almenningssamgöngum. Það eru ekki allir sáttir við að fá smáhýsin í nærumhverfið. Vel kann að vera að almennt þurfi að auka þekkingu á málefnum heimilislausra á Íslandi og veita betri innsýn. Stundum nægja upplýsingar og fræðsla um málaflokkinn til að róa þá sem bera kvíðboga fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt. Fyrir einhverja sem fá úthlutað smáhýsi er það e.t.v. fyrsta heimilið þeirra í langan tíma, staður þar sem þeir geta dvalið á í stað þess að vera stöðugt á ferðinni. Heimili er ekki einungis skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið er ekki síður háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn á staðinn og í hverfið. Það getur komið fyrir alla að vera heimilislausir. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. Að búa í samfélagi kallar á samtryggingu.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júní 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 10. júní 2020 á að falla frá breytingu á deiliskipulagi Vesturbæjarsundlaugar, lóð nr. 54 við Hofsvallagötu:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að skipulagsyfirvöld hafi séð að sér, séð að þetta hundagerði við Vesturbæjarlaug var illa hannað og skipulagt. Meðal galla var að hundagerðið var allt of lítið. Verst er að skipulagsyfirvöld skuli ekki hafa hlustað strax á hundaeigendur og varnaðarorð fjölmargra. Nú er búið að eyða tíma og fé borgarbúa í eitthvað sem var fyrirfram dæmt til að mistakast. Hönnun þessa hundagerðis var frá byrjun gölluð. Flokkur fólksins lagði fram margar bókanir og athugasemdir um hverju þyrfti að breyta til að gera gerðið fullnægjandi, bæði um stærð, lögun og girðingu, en ekki var hlustað þá. Mikilvægt er að hanna nýtt og gott hundagerði og gera það með hundaeigendum og íbúum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs borgarstjóra, dags. 22. júní 2020, þar sem drög að erindisbréfi um undirbúning Græna plansins eru send borgarráði til kynningar:

Í Græna planinu eru mörg fín hugtök. Nokkur lúta að orkuskiptum sem ekki er þó alltaf mikið á bak við. Nokkuð er talað um að nota rafmagn í samgöngum svo sem að styrkja uppbyggingu hleðslustöðva í hverfum, rafvæða hafnir og almenningssamgöngur. En ekkert er minnst á að nota metan sem er þó sá orkugjafi sem það mikið er til af að því verður að brenna á báli, engum til gagns. Það er græn innlend afurð sem breytt gæti orkumálum borgarinnar til hins betra ef vel er haldið á spilunum. Enginn skortur verður á metani næstu ár þegar gas- og jarðgerðastöðin, GAJA, hefur bæst við. Því er nú sóað metani í stórum stíl. Stefna mætti að því að setja metan á alla stóra bíla borgarinnar sem dæmi, t.d. Strætó bs, flutningsbíla, greiðabíla og ferlibíla sem eru á vegum borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars velferðarsviðs, ódags., við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað borgarmeirihlutinn hyggst gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið við fyrirspurn um hvað borgarmeirihlutinn hyggst gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið. Einnig eru öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í vinnu sinni eða sem sjálfboðaliðar til að styðja og styrkja eldri borgara í COVID-19 aðstæðunum færðar þakkir. Ljóst er að mikið hefur verið gert og vonandi hefur náðst til allra sem þurftu aðstoð eða stuðning af einhverju tagi. Ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins fann sig knúinn til að leggja fram þessa fyrirspurn er að í ályktun Landssambands eldri borgara (LEB) frá 28. mars segir „að í öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gert til að koma til móts við fyrirtæki og einstak-linga vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið sé hvergi minnst á aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins“. Í sömu ályktun skorar stjórn LEB á sveitarfélögin að taka upp gjaldfrjálsa matarheimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá matarsendingar heim til sín. Þegar stjórn LEB hefur áhyggjur hefur Flokkur fólksins áhyggjur enda er Flokkur fólksins stofnaður með það að markmiði að halda utan um viðkvæmustu hópa samfélagsins. Varðandi matarheimsendingar þá eru þær ekki fríar. Vel kann að vera að gjaldskráin sé sanngjörn en fyrir þá sem eru fátækir þá er allur kostnaður erfiður.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um frestun árlegs hundaeftirlitsgjalds, sbr. 26. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. mars 2020. Einnig er lögð fram umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 19. júní 2020.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga Flokks fólksins sem var um að fresta skuli árlegu hundaeftirlitsgjaldi þar til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum hefur verið felld. Þetta er ofureðlileg tillaga þar sem ekki er ljóst hvaða niðurstöðum hópurinn skilar af sér. Reglur um dýrahald og þjónusta við t.d. hunda og hundaeigendur er málaflokkur sem ekki hefur fengið að þróast með sambærilegum hætti og í borgum sem við berum okkur saman við. Stutt er síðan hundahald var leyft en áður voru hundar, slyppu þeir frá eigendum sínum, skotnir á færi í borginni. Í umsögn með tillögunni eru engin rök heldur vísað í eldri svör og á heimasíðu þar sem hagsmunasamtökum hundaeigenda er ætlað að finna allan sannleika. Hundaeigendur eru ekki tilbúnir að láta valta yfir sig með yfirgangi embættismanna og kalla á réttlæti og kalla einnig á að þeir sem starfi í þessum geira hafi ekki gildishlaðin viðhorf til dýranna og eigenda þeirra. Þöggun ríkir um vinnuskýrslur sem sýna verkefni eftirlitsins, en tölur sýna svo ekki verði um villst að verkefni þess eru orðin sárafá. Árið 2016 voru lausagöngumál aðeins 62 og og reikna má að þeim hafi fækkað enn frekar.

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Hér bókar áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins og talar um yfirgang embættismanna í tengslum við innheimtu árlegra hundaleyfisgjalda. Gjöldum fyrir hundaleyfi er samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar um hundahald nr. 478 og er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu. Starfsfólk borgarinnar sinnir bara því sem því er gert að gera og ámælisvert að tala um yfirgang þess við þau störf. Engin þöggun á sér stað um störf hundaeftirlitsins enda má finna allar upplýsingar á vef borgarinnar eins og ítrekað hefur verið bent á í svörum við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins. Nú er verið að leggja lokahönd á stefnu um dýraþjónustu í borginni og vænta má breytinga og betrumbóta fyrir dýraeigendur í borginni. Það verður hins vegar ekki borgarfulltrúa Flokks fólksins að þakka sem virðist hafa það eina á dagskrá sinni að níða skóinn af starfsfólki borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins er knúinn til að nefna með hvaða hætti svör frá heilbrigðiseftirlitinu eru lituð af neikvæðni í garð hundaeigenda sem kvarta yfir hundaeftirlitsgjaldinu og þess kjörins fulltrúa sem hefur sent inn fyrirspurnir og tillögur í máli er varða hundaeftirlitsgjaldið. Svörin við fyrirspurnum hafa einkennst af pirringi í málum er varðar þetta umrædda gjald sem hundaeigendur eru rukkaðir um. Það er mikilvægt að embættismenn láti ekki tilfinningar sínar lita afgreiðslu mála heldur gæti ávallt að fagmennsku. Í borginni eru ýmsir hagsmunaaðilar og hundaeigendum finnst á sér brotið í þessu máli. Flokkur fólksins er eini flokkurinn í borgarstjórn sem hefur barist fyrir þessum málaflokki og mun gera það áfram. Þess er vænst að meirihlutinn og embættismenn reyni að halda fagmennsku hvort heldur í þessu máli eða öðru. Á Íslandi er skoðana- og tjáningarfrelsi. Þess er einnig vænst að eitthvað bitastætt komi út úr vinnu stýrihóps um dýraþjónustu borgarinnar enda löngu tímabært og hópurinn verið lengi að störfum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur það hlutverk að standa með fólkinu í borginni sem finnst á sér brotið og mótmælir ef starfsmenn eða embættismenn reyna að níða skóinn af kjörnum fulltrúum þótt þeim líki ekki málareksturinn.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 9. júní 2020:

Lögin eru skýr. Handhafar stæðiskorta mega aka um göngugötu. Ef það eru stæði á göngugötu til að leggja þá ber borginni að merkja þau. Margir fatlaðir óttast engu að síður að aka göngugötu þrátt fyrir skýra lagaheimild. Þau óttast skipulagsyfirvöld sem fundið hafa þessari heimild allt til foráttu. Reynt er allt til að fæla fatlaða frá því að nýta sér heimildina. Sem dæmi er búið að stilla upp keilum við inngöngu göngugatna sem auðvitað eru fátt annað en skilaboð um að handhafar stæðiskorta haldi sig frá göngugötum. Beðið er viðbragða þingsins við minnisblaði skipulagsyfirvalda borgarinnar sem sent var 3. apríl sl. til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Skipulagsyfirvöld borgarinnar reyna að fá orðalag laganna breytt til að geta afmáð heimildina. Hér er um áralanga baráttu handhafa stæðiskorta að ræða sem loksins skilaði árangri og þetta vill borgarmeirihlutinn eyðilegga fyrir þeim. Þegar um er að ræða Menningarnótt eða aðra ámóta stórviðburði segir það sig sjálft að vélknúið ökutæki ekur ekki göngugötu nema í neyðartilvikum. Á göngugötu má aldrei aka hraðar en 10 km á klst.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð endurskoðunarnefndar frá 10., 15. og 18. júní 2020. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar frá 15. júní og 1. lið fundargerðarinnar frá 18. júní:

Bókun við fundargerð endurskoðunarnefndar 15. júní liður 1: Áætlun innri endurskoðunar um sameiningu á hlutverkum umboðsmanns borgarbúa, persónuverndarfulltrúa og innri endurskoðunar. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að mörgu leyti tillögu um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar, persónuverndarfulltrúa og embætti umboðsmanns borgarbúa sem vonandi leiðir til hagræðingar. Gæta þarf þó þess að sérhæfing og sértæk reynsla tapist ekki með sameiningu þessari. Áfram þurfa borgarbúar að geta treyst á að mál þeirra fái faglega og hlutlausa meðferð og afgreiðslu þegar þeir leita með málefni sín til embættisins. Oft er um að ræða viðkvæm málefni þar sem borgarbúi telur að á sér hafi verið brotið eða hann beittur misrétti. Bókun við lið 1 í fundargerð endurskoðunarnefndar 18. júní og varðar reikningsskil Félagsbústaða: Lögð er fram fyrirspurn Ríkisskattsjóra dags. 6. mars um að gera grein fyrir hvernig tryggt verður að innihald og framsetning skýrslu stjórnar Félagsbústaða hf. sé viðeigandi og uppfylli ákvæði VI. kafla laga um framsetningu og innihald ársreikninga og samstæðureikninga. Fulltrúi Flokks fólksins setti einmitt þetta atriði sem einn af tveimur fyrirvörum við undirskrift ársreiknings 2019. Hér leikur vafi á um hvort reiknisskil Félagsbústaða hf. séu viðeigandi.

 

Bókun Flokks fólksins við innisblaði ADVEL lögmanna og Mannvits, dags. 19. júní 2020, varðandi mat á tilboðum útboðs Strætó bs. nr. 14799.

Það er bagalegt hvað þetta ferli allt tók langan tíma. Margir voru orðnir órólegir þar sem lítið hafði frést. Sennilega voru gildar ástæður fyrir því og vonandi var það líka vegna þess að reynt var að vanda til verka og tryggja að aksturinn færi til aðila sem gæti uppfyllt allar útboðskröfur og veitt rétta þjónustu. Alls bárust 6 tilboð og var næsthæsta tilboðinu tekið þar sem lægri tilboð voru ógild. Hópbílar taka við akstrinum, þeir hafa mikla reynslu af honum fyrir, og fá svigrúm til að uppfylla ítrustu kröfur. Vonandi verður það til þess að tryggja góða samfellu og lágmarka hættuna á því að sambærileg mál komi upp og í kjölfar þjónustuyfirfærslunnar vorið 2015.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar:

Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar. Flokkur fólksins hefur áður verið með allmargar fyrirspurnir og tillögur um umrætt gjald sem er að engu leiti notað í þágu dýranna og eigenda þeirra. Innheimta hundaeftirlitsgjalds er ósanngjörn innheimta, fétaka og ekki er alveg ljóst í hvað það fé er notað þar sem umfang verkefna borgarinnar er varða hunda hefur minnkað svo um munar. Bæði tölur frá borginni og frá félögum hundaeigenda sýna mikla fækkun verkefna. Sem dæmi voru fjöldi hunda í hundageymslum árið 2010, 89 og 209 í lausagöngu en árið 2016 voru 11 í geymslu og 62 í lausagöngu. Í fyrra, 2019, voru þessar tölur enn lægri.  Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025 kom fram að lækkun verður almennt á eftirlitsgjaldi vegna minna eftirlits í fyrirtæki sem veita þjónustu. Þar er ekki minnst á hundaeftirlitsgjaldið. Nú er yfirvöldum í borginni ekki lengur stætt á þessu gjaldi. Engin sanngirni er í því að halda áfram að innheimta gjaldið lengur þar sem ekki er sama þörf fyrir þjónustuna og verkefnin sárafá.

Greinargerð:

Eftir því sem best er vitað er starfandi stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald. Ekkert bólar á vinnu frá þeim hópi þrátt fyrir að nú sé borgarstjórn komin í sumarfrí. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur margoft spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og manni finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Sífellt er vísað á heimasíðu en þar er ekkert sem fær dæmið til að ganga upp. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest af Heilbrigðiseftirlitinu að verkefnum eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra en því hefur verið hafnað. Svo virðist sem þöggun ríki um þessi mál. Ef litið er nánar á tölur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sést að kvörtunum vegna hunda hefur fækkað. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 voru kvartanir milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Eins og segir í tillögunni hefur fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum stórfækkað og eru nú örfá tilfelli skráð.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna fellingar tillögu um að afnema hundaeftirlitsgjald:

Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar hefur verið felld á sama fundi og hún er lögð fram. Það á greinilega að halda áfram að innheimta sérstakt hundaeftirlitsgjald af hundaeigendum, gjald sem engan vegin er ljóst í hvað verið er að nota. Það er alla vega ekki verið að nota það í þágu hunda svo mikið er víst, hvað þá hundaeigenda. Ákveðið hefur verið að lækka almennt eftirlitsgjald vegna minna eftirlits í fyrirtækinu. Þetta var staðfest í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025. Viðhorf og menning borgarinnar til hundahalds er fornaldarlegt og má skynja neikvæðni einstaka embættismanna í svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins til heilbrigðiseftirlitsins. Þetta er upplifun fulltrúa Flokks fólksins. Svör og umsagnir hafa verið litaðar af pirringi og skilningsleysi embættiskerfisins og meirihlutans á að borgarfulltrúi er kjörinn til að gæta hagsmuna borgara og í þessu máli er verið að brjóta á rétti hundaeigenda.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat á útilistaverki í Vogabyggð en þá hafði borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmatré fari í raunhæfismat:

Á fundi borgarráðs 7. febrúar 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurn um raunhæfismat á útilistaverki í Vogabyggð en þá hafði borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmatré fari í raunhæfismat. Engar fregnir hafa borist af því raunhæfismati og því er óskað eftir upplýsingum um hvernig því framvindur. Einnig hverjir komi að matinu. Hvert er ferlið við framkvæmd raunhæfismats og hvar er borgin stödd í því ferli? Hver annast framkvæmd raunhæfismatsins? Hvað veldur þeim töfum sem orðið hafa á framkvæmd raunhæfismatsins nú þegar meira en ár er liðið frá því ákvörðun um það var tekin í málinu? Hver er áætlaður kostnaður við framkvæmd raunhæfismatsins?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um hver kostnaður var við þessa sérfræðilegu ráðgjöf ADVEL og hvort verkefnið var boðið út:

Á fundi borgarráðs 25. júní var lagt fram minnisblað ADVEL lögmanna og Mannvits, dags. 19. júní 2020, varðandi mat á tilboðum útboðs Strætó bs. nr. 14799. Samkvæmt framlögðum gögnum fór Strætó bs. þess á leit við ADVEL lögmenn að veitt yrði sérfræðileg ráðgjöf við mat á yfirferð tilboða í útboði Strætó bs. nr. 14779 um sameiginlega akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. Aðkoma ADVEL og Mannvits fólst í ráðgjöf gagnvart kaupanda í matsferlinu svo og sérfræðilegu mati á innsendum tilboðum á grundvelli útboðsgagna til samræmis við ákvæði laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver kostnaður var við þessa sérfræðilegu ráðgjöf ADVEL og hvort verkefnið var boðið út?
Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varð Græna planið?

Hvernig bætir jarðhitagarður á Hellisheiði Græna planið? Hvað er  Græn þjónusta borgarinnar – grænn rekstur – græn skref borgarinnar? Hér þarf að fylgja nánari útskýringar til þess að hinn almenni borgarbúi átti sig á hvað liggur að baki. Hvað er aukið aðgengi að hollum mat? Er ekki aðgengi að hollum mat gott nú? Er það kannski verðið á hinum „holla“ mat sem er takmarkandi frekar en aðgengið? Á að gera átak í flokkun og endurnýtingu fyrirtækjasorps? Talsmenn SORPU bs. hafa sagt að hreinsunin í gas- og jarðgerðastöðinni, GAJU, muni koma í stað flokkunar á upprunastað.
Vísað til umsagnar stýrihóps um Græna planið.

Borgarráð 25. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu að breytingu á aðalskipulagi í Reykjavík – Sérstök búsetuúrræði, Heimildir innan landnotkunarsvæða:

Fulltrúi Flokks fólksins telur þessa breytingu nauðsynlega í ljósi þess að erfitt hefur verið að finna smáhýsum fyrir heimilislausa staðsetningu. Það er skylda og ábyrgð sveitarfélags að bjóða öllum þeim sem vilja og þurfa öruggan stað að búa á, stað sem hægt er að kalla heimili. Það getur komið fyrir alla að vera á götunni, heimilislaus, öðrum háður og þurfa að leita til stjórnvalda eftir húsnæði. Það er skylda samfélagsins að bregðast við því kalli. Út á það gengur samfélag. Að búa í samfélagi þýðir samneysla. Þeir sem eru betur settir hjálpa þeim sem eru verr settir. Flokkur fólksins lætur sig varða alla þá sem hafa af einhverjum orsökum orðið undir, verið beittir misrétti, hafa slasast eða eru veikir og þar að leiðandi ekki færir um að koma sér þaki yfir höfuðið. Sumir íbúar þeirra hverfa sem komið hafa til greina fyrir smáhýsin hafa mótmælt því að þau verði reist í þeirra hverfi. Sumt fólk er uggandi því það upplifir óvissu um verðandi íbúa smáhýsanna. Góðar upplýsingar og almenn fræðsla um heimilislaust fólk á Íslandi gæti verið hjálplegt til að draga úr óvissu og kvíða nágranna.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að breytingu á gjaldskrá akstursþjónustu fyrir fatlað fólk:

Í nýju gjaldskránni verður gerður greinarmunur á föstum ferðum og tilfallandi ferðum. Rukkað verður hálft strætógjald fyrir fastar ferðir, líkt og nú er gert fyrir allar ferðir, og síðan fullt gjald fyrir tilfallandi ferðir. Þetta er að mörgu leyti gjaldaukning fyrir notendur. Hér er verið að ýta á að fólk panti sér ferðir með fyrirvara enda sé það hagstæðara. Það væri ásættanlegra ef hægt væri að panta ferðir fyrirvaralaust, en það er ekki hægt enn. Áfram er miðað við a.m.k. 2 klst fyrirvara. Þjónustan er því ekki sambærileg við strætó að þessu leyti, sem hún þó á að vera. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gott að áfram er hægt að taka með sér farþega, sem greiða sitt fargjald. En helsti vandinn er þó að fólk sem á rétt á akstursþjónustu en getur líka notað strætó, a.m.k. við og við, þarf þá að borga tvöfalt gjald. Þetta er ósanngjarnt með meiru og er málið á borði umboðsmanns borgarbúa. Akstursþjónustan er ígildi strætó og það á ekki að fæla fólk frá því að reyna að nota strætó í bland. Er ekki gott að fækka ferðum akstursþjónustunnar? Þetta er alger bremsa og væntanlega brot á jafnræðisreglu.

 

Bókun Flokks fólksins við ályktun frá stjórn Geðhjálpar vegna smáhýsa við Skógarhlíð:

Smáhýsi fyrir heimilislausa í Reykjavík hafa verið til umræðu um skeið. Hér er um að ræða nýtt búsetuúrræði og er það þar af leiðandi framandi fyrir marga. Það er ekki óalgengt að þegar um er að ræða nýjungar og ekki alveg séð fyrir hvernig gengur að fólk fyllist óöryggi og kvíða. Það þarf að virða. Þótt fólk gagnrýni og mótmæli einhverju sem því líst ekki á í fljótu bragði þýðir það ekki að það sé „skilningslaust“ fólk. Fulltrúi Flokks fólksins er þeirra skoðunar að með samtali, útskýringum og almennri fræðslu má milda margt í þessu sambandi og jafnvel draga úr óöryggi og kvíða fyrir að fá þetta nýja búsetuúrræði í hverfið sitt. Það er óskandi að þar sem smáhýsin munu rísa muni ríkja um þau þokkaleg sátt. Heimili er nefnilega ekki aðeins skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið er ekki síður háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn á staðinn og í hverfið. Það getur komið fyrir alla að vera heimilislausir. Ástæður þess að fólk verður heimilislaust til langs tíma eru oftast margþættar. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt.

 

Bókun Flokks fólksins flutt úr trúnaðarbók við þriggja mánaðauppgjöri velferðarsviðs jan-mars 2020:

Það vekur ávallt áhuga að sjá hver helstu frávikin eru á velferðarsviði sem og á öðrum sviðum borgarinnar. Þegar talað er um frávik er það oftast í þeim tilfellum sem farið er umfram fjárheimildir. Þannig er það með nokkur atriði hjá velferðarsviði en fulltrúi Flokks fólksins vill þó bóka um frávik í heimaþjónustu og heimahjúkrun sem voru um 98 m.kr. innan fjárheimilda. Þetta vill maður helst ekki sjá því þetta þýðir að ekki var hægt að veita grunnþjónustu sem fólk á rétt á og þarfnast. Heimaþjónusta var um 75 m.kr. innan fjárheimilda sem er vegna verkfalla í byrjun árs eins og segir í gögnum. Heimahjúkrun var 23 m.kr innan fjárheimilda sem má m.a. rekja til þess að ekki hefur náðst að manna allar stöður sbr. þriggja mánaðauppgjör velferðarsviðs. Mannekla er rótgróinn vandi í borginni sem ekki hefur tekist að vinna á. Helsta ástæðan er lág laun og mikið álag í þessum störfum. Í upphafi kjörtímabils lofaði þessi meirihluti að taka á mannekluvandanum fyrir alvöru en nú þegar kjörtímabilið er hálfnað hefur það ekki enn tekist.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um sérstaka stuðningsþjónustu fyrir börn alkóhólista.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins.

Eins og fram kemur í umsögn velferðarsviðs er nú þegar í gildi samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og SÁÁ frá árinu 2008, sem m.a. tryggir börnum fólks með áfengisfíkn endurgjaldslausa sálfræðiþjónustu. Það fyrirkomulag hefur reynst vel og árið 2019 voru 39 börn sem fengu þá þjónustu í alls 135 skipti. Samkvæmt samningnum geta allt að 45 börn fengið 8 tíma hvert á ári. Þar að auki er velferðarsvið með samning við Foreldrahús, þar sem Reykjavíkurborg niðurgreiðir þjónustu og notendur á vegum þjónustumiðstöðva eða barnaverndar fá án endurgjalds. Velferðarsvið og Barnavernd veita auk þess stuðning og ráðgjöf á eigin vegum. Ekki er hægt að taka undir það sjónarmið að á meðan þessi þjónusta er veitt samkvæmt samningi við SÁÁ ætti samhliða því að reka annað samskonar úrræði fyrir sama hóp á öðrum stað, en vissulega má alltaf skoða með hvaða hætti er best að veita þjónustu sem þessa.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sérstaka stuðningsþjónustu fyrir börn alkóhólista hefur verið felld. Fulltrúi Flokks fólksins vill að Reykjavíkurborg veiti meiri stuðning við þennan hóp barna en gert hefur verið. Hér er ekki verið að segja að börn alkóhólista og vímuefnaneytenda fái enga þjónustu hjá Reykjavíkurborg en með tillögunni er verið að kalla eftir að stuðningurinn verði markvissari, skilvirkari og fjölbreyttari. Öllum börnum í þessari stöðu á að bjóða aðstoð. Margra mánaða biðlisti er í þjónustu SÁÁ. Vegna mikillar aðsóknar þarf SÁÁ að forgangsraða börnunum. Auk þess er krafist tilvísunar í úrræðið. Aðgengi að þjónustu sem þessari þarf að vera gott. Vinna SÁÁ sem er sértæk þjónusta fríar ekki borgina frá skyldum sínum gagnvart börnum alkóhólista og þá meinar fulltrúi Flokks fólksins öllum börnum sem eru í þessum aðstæðum. Minnt er á jafnréttisstefnu borgarinnar sem segir að börn skulu sitja við sama borð og ekki vera mismunað vegna aðstæðna foreldra. Auka þarf ráðgjöf samhliða til foreldra. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvort markvisst er verið að sinna þeim börnum sem ekki fá aðstoð hjá SÁÁ ýmist vegna þess að þau eru ekki talin í áhættuhópi sjálf eða hafa verið á biðlista í vikur eða mánuði?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs þann 12. mars 2020, um að enginn verði án matar og um viðbragðsáætlun vegna lokunar góðgerðafélaga sem sjá um matarúthlutanir.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Flokks fólksins, Sósíalistaflokks Ísland og Sjálfstæðisflokksins.

Enginn á nokkurn tímann að þurfa að vera án matar á Íslandi og auðvitað þarf að vera viðbragðsáætlun. Covid hefur kennt ýmislegt og skemmst er einnig að minnast þess að í fyrra lentu 3700 manns í því að fá ekki að borða því góðgerðasamtök lokuðu. Þetta er áhyggjuefni. Velferðaryfirvöldum ber skylda til að sjá til þess að allir eigi að borða í Reykjavík. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað hvort sem það eru hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki er flóknari útfærsla. Slíkt fyrirkomulag þarfnast yfirbyggingar og utanumhalds. Afhending matarskorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við. Flokkur fólksins styður efnislega þessar tillögur enda mátast við stefnu Flokks fólksins sem var stofnaður m.a. til að berjast gegn fátækt og hlúa að þeim verst settu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. júní 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um lista yfir úrræði/aðstoð sem eldri borgarar fengu í COVID-19 aðstæðunum:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og þakkar öllum þeim sem lögðu hönd á plóg í vinnu sinni eða sem sjálfboðaliðar til styðja og styrkja eldri borgara í COVID-19 aðstæðunum. Ljóst er að mikið hefur verið gert og vonandi hefur náðst til allra sem þurftu aðstoð eða stuðning af einhverju tagi. Ástæða þess að fulltrúi Flokks fólksins fann sig knúinn til að kalla eftir þessu yfirliti er að í ályktun Landssambands eldri borgara (LEB) frá 28. mars segir „að í öllum þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa gert til að koma til móts við fyrirtæki og einstaklinga vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið sé hvergi minnst á aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins“. Í sömu ályktun skorar stjórn LEB á sveitarfélögin að taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín. Þegar stjórn LEB hefur áhyggjur hefur Flokkur fólksins áhyggjur enda flokkur sem er búinn til með það að markmiði að halda utan um okkar viðkvæmasta hóp. Varðandi matarheimsendingar þá eru þær ekki fríar. Vel kann að vera að gjaldskráin sé sanngjörn en fyrir þá sem eru fátækir þá er allur kostnaður erfiður.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 24. júní 2020, um styrkingu barnaverndar:

Fulltrúi Flokks fólksins samþykkir tillögu sviðsstjóra enda gerir hann sér grein fyrir að barnaverndin þarf að hafa tryggan fjárhagslegan grunn og samþykkir því tillögu um styrkingu til barnaverndar. Varðandi barnaverndarmál þá liggur það þokkalega ljóst fyrir hvað málaflokkurinn þarf af fjármagni sem tryggja ætti þá í fjárhagsáætlun fyrir hvert ár. Málum fer ekki fækkandi, þeim fer fjölgandi og allar líkur eru á að þeim fjölgi áfram í framhaldi af Covid og þeim áhrifum og afleiðingum sem veirufaraldurinn hefur og mun hafa til langs tíma. Allt þetta bitnar á börnunum. Knýjandi er einnig að taka á biðlistameini í þjónustu borgarinnar. Biðlistar eru nánast í alla þjónustu fyrir börn. Það kostar að veita góða þjónustu. Börn eiga ávallt að fá góða þjónustu og þau eiga ekki að þurfa að bíða eftir henni.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsagna frumvarpa til laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og einnig fer fram kynning á frumvarpinu ásamt frumvörpum til laga um gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála og barna- og fjölskyldustofu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst jákvætt að nú sé verið að koma á fót samráðsvettvangi milli mismunandi þjónustuveitenda á vegum sveitarfélaga, stjórnvalda og ráðuneyta til að efla þjónustu við börn. Þá fá foreldrar sinn tengilið sem sér um að veita þeim upplýsingar um þjónustu í þágu barnsins, svonefndan tengilið. Gert er ráð fyrir því að það verði starfsmaður heilsugæslu þar til barn hefur nám og eftir það starfsmaður skóla. Ef tengiliður telur að barn þurfi á frekari þjónustu að halda en fyrsta stigs þjónustu (grunnþjónusta aðgengileg öllum og einstaklingsbundinn snemmtækur stuðningur) skal hann skipa barninu málsstjóra sem er með meiri sérhæfingu en tengiliðurinn. Þessi frumvörp snúast um að barnið fái sinn fulltrúa, sem er með sérþekkingu og gerir sitt besta til að tryggja barninu réttu þjónustuna af hálfu hins opinbera. Biðlistar eru í alla þessa þjónustu hjá borginni og einnig hjá stofnunum ríkisins er það því miður svartur blettur á öllu því góða sem þó er verið að gera. Þá verður með hinum 2 frumvörpunum stofnað: Barna og fjölskyldustofa sem mun m.a. fræða stjórnvöld, gefa út leiðbeiningar og gátlista til þeirra, þróa nýjar aðferðir og úrræði í þágu barna. Allt mjög jákvætt.

 

Tillaga Flokks fólksins  að auka gegnsæi þjónustu Þjónustumiðstöðva Reykjavíkur og auka upplýsingaflæði og fræðslu til foreldra m.a. ADHD barna.

Tillaga Flokks fólksins um. Í samtali fulltrúa Flokks fólksins við foreldra hefur komið í ljós að gegnsæi á þjónustu þjónustumiðstöðva er ábótavant. Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Foreldrar barna með námsörðugleika ásamt foreldrum fatlaðra barna hafa kvartað yfir þessu vandamáli. Þetta er m.a. ástæða þess að árið 2019 lagði fulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um gerð upplýsingabæklings og í þeim bæklingi kæmi skýrt fram hvaða þjónusta er í boði hjá borginni. Upplýsingar um þjónustu verður að vera gagnsærri og aðgengilegri. Það gæti verið afar hjálplegt ef útbúinn yrði bæklingur fyrir hvern skóla fyrir sig sem útskýrir á einfaldan og skýran hátt birtingarmyndir helstu námsörðugleika, réttindi barna í skólanum, hvaða samtaka hægt er að leita til og hverjar eru áherslur þeirra. Það er mikilvægt að það komi skýrt fram hvað þjónustumiðstöðvar bjóða upp á, hvernig má hafa samband við þær og hversu langur biðtími er eftir hverri þjónustu fyrir sig. Upplýsingar verða jafnframt að vera aðgengilegar á einfaldan máta á netinu. Fyrir þá sem ekki nota netið þarf viðkomandi að geta náð símasambandi við félagsráðgjafa samdægurs til að bóka upplýsingaviðtal.

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins að haldið verði áfram með úthringingarverkefni sem hófst í COVID-19 aðstæðunum til eldri borgara enda vara verkefnið árangursríkt:

Í Covid-19 aðstæðunum stóð velferðarsvið fyrir úthringingum til allra Reykvíkinga sem fá heimaþjónustu, búa einir og eru eldri en 85 ára. Verkefnið var samstarfsverkefni Landssambands eldri borgara (LEB) og Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrennis ásamt Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands. Markmiðið var að veita félagslegan og sálrænan stuðning á þessum erfiða tíma og sporna við einangrun meðal eldri borgara. Í ljósi þess að verkefnið skilaði tilætluðum árangri leggur fulltrúi Flokks fólksins til að því verði framhaldið með eða án samstarfs við LEB eða Félags eldri borgara í Reykjavík. Mikilvægt er að mati fulltrúa Flokks fólksins að halda áfram því sem gengur vel, útvíkka verkefnið og þróa það áfram og umfram allt að gera það að föstu verkefni til framtíðar. Þeir eldri borgarar sem ekki vildu símtal eða símavin núna gætu t.d. viljað síðar og mikilvægt er að stækka þann hóp sem hringt er í. Fyrir þá sem hringja er þetta einnig dýrmæt reynsla og í henni felst oft heilmikill lærdómur.

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins leggur til að að framhald verði á ráðningu námsmanna sem ráðnir voru til að auka þjónustu við eldri borgara í COVID – 19 aðstæðunum m.a. til að taka á mannekluvanda sem verið hefur árum saman

Í Covid-19 aðstæðunum voru ráðnir námsmenn til þess að auka þjónustu við eldri borgara. Ráðið var í 63 stöðugildi námsmanna vegna eldri borgara og var ráðningatímabilið 2 mánuðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að framhald verði á ráðningu námsmanna. Hér er um beggja hag að ræða. Eldri borgarar fá þjónustu sem ekki hefur alltaf verið fullnægjandi og jafnvel ekki viðunandi oft vegna manneklu og námsmenn fá dýrmæta reynslu við störf sín með eldri borgurum ýmist við aðhlynningarstörf eða félags- og tómstundastörf. Þetta fyrirkomulag ætti að vera komið til að vera.

Frestað.

 

Tillaga Flokks fólksins að sett verði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn velferðarþjónustu/þjónustumiðstöðva yfirgefi ekki vinnustaðinn í lok dags fyrr en búið er að bregðast við innkomnum skeytum/skilaboðum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að sett verði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn velferðarþjónustu/þjónustumiðstöðva yfirgefi ekki vinnustaðinn í lok dags fyrr en þeir eru búnir að svara með einum eða öðrum hætti innkomnum erindum (skeytum/skilaboðum) sem borist hafa. Vissulega gætu komið dagar sem þetta er ekki hægt en í það minnsta muni starfsmenn leitast við af öllum mætti að gera þetta. Hér er ekki átt við að öll erindi fái fullnaðarafgreiðslur enda slíkt ekki raunhæft heldur að þeim sem sent hafa skeyti eða skilaboð verði svarað sem dæmi: „erindið er móttekið/málið er í skoðun/ haft verður samband hið fyrsta“, eða eitthvað á þessa leið. Fólk sem hringir á þjónustumiðstöðvar er með ákveðin erindi, misáríðandi eins og gengur. Í flóknari málum skilja flestir að afgreiðsla getur tekið einhvern tíma. Hins vegar skiptir það máli að fá vitneskju um að erindi þeirra er móttekið og haft verði samband. Þær upplýsingar hjálpa. Við sem erum í þjónustustörfum eigum ávallt að gera allt til að létta skjólstæðingum okkar lífið, milda álag og draga úr streitu og kvíða. Móttökuskeyti getur skipt þjónustuþega þjónustumiðstöðva máli.

Frestað.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir sem lúta að fráviki í fjárhagsáætlunum velferðarsviðs:

Þriggja mánaða uppgjör velferðarsviðs jan-mars 2020 vöktu upp nokkrar spurningar hjá fulltrúa Flokks fólksins. Þær eru lagðar fram hér formlega:

 1. Þjónustumiðstöðvar voru 15 m.kr. umfram fjárheimildir sem rekja má til langtímaveikinda. Hér er óskað nánari skýringa?
  2. Seljahlíð fer 68% fram yfir áætlun og er skýrt með því að þetta sé óhagstæð rekstrareining. Það geta ekki verið nýjar fréttir? Af hverju hefur þá ekki verið bætt úr því með því að búa til hagstæðustu rekstrareininguna sem völ er á?
  3. Barnaverndarmálum hefur farið fjölgandi. Ætla má að gera megi tiltölulega nákvæmar áætlanir í þessum málaflokki. Málum hefur farið fjölgandi frá ári til árs og fer þeim klárlega ekki fækkandi. Hvernig stendur á því að áætlanir eru svo ónákvæmar sem raun ber vitni?
  4. Heimaþjónusta er ítrekað innan fjárheimilda vegna manneklu. Af hverju hafa velferðaryfirvöld ekki leyst manneklumálin eins og þau lofuðu þegar þau skrifuðum undir meirihlutasáttmálann. Hvaða aðgerðir eru í gangi sem leysa á mannekluvanda til skemmri og lengri tíma?

 

Velferðarráð 24. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu og umræða um skóla- og frístundastarf í norðanverðum Grafarvogi frá hausti 2020.

Allt þetta mál hefur verið erfitt einna helst vegna þess að farið var í framkvæmdir í óþökk íbúa, foreldra og barna. Hvernig þetta allt lukkast kemur ekki í ljós fyrr en komin er á reynsla og ekki fyrr en þá foreldrar segja að þau séu sátt og að þau séu örugg með börn sín. Það er einnig miður að þegar íbúar senda inn fyrirspurnir að þeim er ekki svarað fyrr en eftir dúk og disk og ítrekanir. Staðreyndin er sú að íbúar eru uggandi og enn kraumar án efa einhver óánægja og kvíði fyrir framtíðinni. Síðast í gær var borgarfulltrúum sent skeyti þar sem ítrekað er að fá svör við fyrirspurnum um ýmis atriði. Í skeytinu er lýst yfir áhyggjum ekki síst yfir því hvað gengur illa að fá viðbrögð skóla- og frístundasviðsins við fyrirspurnum. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ef borgari þarf að senda stjórnkerfi borgarinnar skeyti af þessu tagi þá er eitthvað sem þarf að laga. Ekkert afsakar samskiptaleysi eða hunsun gagnvart áhyggjufullum foreldrum eða íbúum sem eru uggandi um börn sín. Óvissa og þögn fer illa með alla.

 

Bókun Flokks fólksns við framlagningu skýrsluum  Öryggismál í skóla- og frístundastarfi, tillögur starfshóps, dags. 26. maí 2020:

Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál í skólum undir kaflanum um „Öryggismyndavélar, hvers vegna öryggismyndavélar?“ að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Hætta getur skapast af glerbrotum sem liggja á skólalóðinni eftir ítrekuð rúðubrot. Gríðarlegur kostnaður fer í að hreinsa upp glerbrot og skipta um gler í gluggum skólans. Kostnaður fyrir árið 2018 er 15.259.000 kr. og fyrir árið 2019 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Fulltrúa Flokks fólksins finnst eðlilegt að foreldrar axli ábyrgð brjóti barn þeirra rúðu í skólanum utan skólatíma, gefið að staðfest sé hver gerandinn er og að hann sé nemandi í skólanum. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá hlýtur barnið þ.e. foreldrar þess að vera skaðabótaskyldir gagnvart skólanum. Hvað varðar öryggismyndavélar tekur fulltrúi Flokks fólksins undir mikilvægi þeirra í mörgu tilliti. Öryggismyndavélar eru dýrar og viðhaldskostnaður án efa mikill. Vega þarf og meta ávinninginn, hvar öryggismyndavélar koma að mesta gagni og í hvaða skólum uppsetning þeirra er sérstaklega mikilvæg t.d. hvað varðar fælingarmátt sem öryggismyndavélar sannarlega hafa.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um reglur afhendingu farmiða til nemenda í grunnskólum borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum:

Meirihlutinn er að samþykkja hér að gera engar breytingar á reglum um afhendingu farmiða til nemenda í grunnskóla borgarinnar með strætisvögnum Reykjavíkur og akstur nemenda með hópbifreiðum. Að halda reglunum óbreyttum eru vonbrigði því margt í þeim er úrelt. Fulltrúi Flokks fólksins situr því hjá. Í þessum reglum er t.d. ekki verið að hugsa til þeirra barna sem búa á tveimur stöðum en þannig er það með hóp barna. Þetta eru börn sem eru t.d. viku hjá föður og viku hjá móður en eru aðeins með lögheimili á einum stað eins og lögin kveða á um að verði að vera. Í þessum tilfellum hlýtur að þurfa að gera undantekningar ef vegalengd frá lögheimili til skóla er meiri en 1,5 km. Fulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að skóla- og frístundarráð nái sambandi við stjórn Strætó bs. Það er tímabært að gera breytingar á reglunum ef börn eiga að sitja við sama borð í þessum efnum. Strætó bs er í eigu borgarinnar að stórum hluta og verður að vinna með fagsviðunum til þess að hægt sé að virða ákvæði mannréttindastefnu og Barnasáttmálans.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögun um að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í hverfinu sumarið 2020:

Fulltrúa Flokks fólksins líst vel á þessa tillögu að komið verði á fót smíðavöllum fyrir grunnskólanema í Úlfarsárdal sumarið 2020 en tillagan kom frá íbúaráði Grafarholts og Úlfarsárdals þann 18. maí 2020. Verkefni sem þetta hentar án efa mörgum börnum. Fram kemur að smíðavellir hafa ekki verið starfræktir í Reykjavík síðan sumarið 2012. Nefndar voru ýmsar ástæður fyrir því að þetta verkefni var lagt af t.d. misjöfn mæting en engu að síður var biðlisti. Fulltrúa Flokks fólksins fyndist það skynsamlegt að prófa þetta aftur og finna leiðir til að bæta þá þætti sem betur máttu fara í verkefninu. Á meðan ekki er hægt að nota frístundakortið í námskeið sem eru styttri en 10 vikur er mikilvægt að finna vettvang fyrir börnin að koma saman í skapandi vinnu án þess að foreldrar þurfi að greiða. Vikunámskeið á vegum borgarinnar kostar a.m.k. 10 þúsund og jafnvel meira. Þetta verkefni gæti verið mjög hagkvæmt enda fellur mikið af viði til sem nýta má í smíði. Margir myndu án efa vilja leiðbeina í þessu.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 15. júní 2020, um stöðu ráðninga í leikskólum og grunnskólum 10. júní 2020:

Staða ráðningarmála fyrir næsta skólaár vekur upp áhyggjur. Eftir er að ráða í 67,5 stöðugildi fyrir haustið, 30,4 stöðugildi kennara, 26,5 stöðugildi stuðningsfulltrúa. Auðvitað getur margt breyst fram á haust en það er sú óvissa sem hér ríkir sem er ekki síður erfið. Staðan var líka erfið í fyrra og einnig árið áður. Fyrir ríkt og velmegandi sveitarfélag eins og Reykjavík er þessi staða sérkennileg þótt vissulega spili margt inn í. Í skýrslu Innri endurskoðunar um rekstrarramma grunnskólanna sem kom út sumarið 2019 mátti án efa greina hluta vandans. Kennarar eru undir miklu álagi og hafa margsinnis óskað eftir að álagsþáttur þeirra í starfi verði skoðaður. Þeir kalla eftir meiri fagþjónustu, fagfólk inn í skólana til að sinna börnunum og styðja við kennara. Í skýrslunni kemur fram að nærvera fagaðila myndi létta mjög álagi á þeim. Ekki hefur verið brugðist við því. Staðan er óbreytt og hefur verið árum saman.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar varðandi fjölda tómstunda- og félagsmála- og frístundafræðinga í frístundaheimilum:

Aðalatriðið að mati fulltrúa Flokks fólksins er að borgaryfirvöld hafi stefnu í því sem þau eru að gera í þessu sem öðru. Hér er lagt fram svar við fyrirspurn um fjölda tómstunda- og félagsmálafræðinga í félagsmiðstöðvum. Hvaða reynslu, menntun og bakgrunn starfsmenn hafa hlýtur að taka mið af því hvaða hugmyndir eru á lofti um markmið starfsins. Til að ná árangri þarf að gera ákveðnar grunnkröfur, þannig þróast fagvitund. Það er mikilvægt að skilgreina hlutina. Hluti starfsmanna eru ófaglærðir í skóladagvistun og á frístundaheimilum borgarinnar. Skortur á fagmenntuðu fólki til starfa á frístundaheimilum eða skóladagvistum er ástæðan. Gera þarf kröfur um menntun stjórnenda. Halda þarf vel utan um ófaglært fólk, sjá til þess að þeir fái góða handleiðslu og reglulega þjálfun auk grunnþjálfunar. Í þessum störfum er mikil hreyfing sem hefur iðulega vissulega ókosti. Klárlega er víða unnið gott starf og öll erum við sammála um að tryggja börnum góða þjónustu í þroskandi umhverfi.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hver er fjárhagslegur ávinningur við sameiningu skóla í norðanverðum Grafarvogi þegar upp er staðið.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga er að viðamiklar breytingar fylgja sameiningunni, innri sem ytri og sem eru kostnaðarsamar. Ekki er hægt að leggja fjárhagslegt mat á huglæga þætti eins og tilfinningar og upplifun íbúa/foreldra sem gátu af ýmsum ástæðum ekki sætt sig við þessa breytingu og hafa e.t.v. ekki enn gert og munu jafnvel aldrei gera. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvort þetta borgaði sig fjárhagslega fyrir borgina að fara í þessar breytingar? Í svari er þess vænst að kostnaðartölur fylgi með sem varpa ljósi á kostnað nauðsynlegra breytinga sem gera þarf í kjölfar sameiningarinnar.

 

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort foreldrar beri ekki kostnað í þeim tilfellum sem fyrir liggur hver sé gerandi og að gerandi sé nemandi í skólanum og að hann hafi brotið rúðu utan skólatíma:

Fram kemur í skýrslu starfshóps um öryggismál að alls hafa 73 rúður verið brotnar á 12 mánaða tímabili víðs vegar um húsnæði eins skóla í borginni. Kostnaður er fyrir árið 2019 í þessum skóla 12.023.000 kr. Hér er aðeins um einn skóla að ræða í borginni en Reykjavíkurborg rekur 36 grunnskóla. Ef barnið er í skólanum á skólatíma þá er barnið á ábyrgð skólans. Ef það er utan skólatíma þá getur barnið verið skaðabótaskylt gagnvart skólanum, þ.e. foreldrar þess. Barn er sakhæft 15 ára. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort foreldrar beri ekki kostnað í þeim tilfellum sem fyrir liggur hver sé gerandi og að gerandi sé nemandi í skólanum og að hann hafi brotið rúðu utan skólatíma?

Skóla- og frístundaráð 23. júní 2020

Tillaga Flokks fólksins um jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að láta gera jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðum á vegum Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að athuga hvort börn njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Skólinn, frístundaheimilin og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á fjölbreytt starf þar á meðal að bjóða börnunum upp á að taka þátt í afþreyingu utan húss, heimsækja staði og fara í styttri ferðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði með kerfisbundnum hætti hvort börnin eru að fá sömu tækifæri til þátttöku án tillits til efnahags foreldra.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna og eru jafnvel undir fátæktarviðmiði geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Greinargerð

Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neyta börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum vegna fjárskorts. Þetta fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Hvernig er háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega? Þessi börn fá ekki sömu tækifæri til íþrótta- og tómstunda. Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað og því óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að borgarstjórn samþykki að gera skimun eða könnun á þessu til að kortleggja hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar sumarhátíð.

Mikilvægt er að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar en henni var vísað frá:

Lögð hefur verið fram tillaga um að gerð verði jafnréttisskimum í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum til að athuga jafnrétti til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillögunni hefur verið vísað frá. Enn og aftur er þessi meirihluti í borgarstjórn ekki í takt við sjálfan sig. Hann setur fram „fína“ mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem hann síðan virðir að vettugi. Viðurkennt er að þetta sé með ýmsum hætti sem þó er ekki alveg vitað. Flokkur fólksins vill að þessar upplýsingar liggi skýrt fyrir svo hægt sé að finna leiðir til að engu barni verði mismunað vegna efnahagsþrenginga foreldra né að nokkru öðru leyti að sjálfsögðu. Nú er verið að að reyna að leysa einstaka mál sem upp koma. Í sumum skólum eiga foreldrar að greiða sem dæmi gistingu, sé verið að fara í ferðalag og fleira í þeim dúr og þurfa þá að leita náðar hjá skólanum. Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða? Það segir í mannréttindastefnu meirihlutans, sem hann sjálfur hundsar, að börn eigi að njóta jafnréttis.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Greiningar liggja nú þegar fyrir inn á skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmiskonar viðburði innan skólanna í borginni. Fyrirkomulag slíkra ferða er með ýmsum hætti. Til dæmis greiðir skólinn í nær öllum tilfellum stóran hluta kostnaðar ýmissa viðburða þótt fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Í vissum tilfellum er um samstarf foreldra, nemenda og skóla, með fjáröflunum ef um er að ræða ferðalög með gistingu. Þá er rétt að taka fram að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ef upp koma einstök tilfelli þar sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur, þá er alltaf leitast við að leysa málin farsællega.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023:

Víða í borginni er umferðaröryggi ábótavant og aðstæður hættulegar. Strætisvagnar stoppa á miðri götu til að hleypa farþegum í og úr og dæmi eru um að strætisvagnar stoppa á miðju hringtorgi. Nýlega var grjóti sturtað á miðjan Eiðsgranda sem getur skapað stórhættu. Í borginni eiga ekki að vera neinar dauðagildrur. Fjölgun þeirra sem fer um hjólandi má fagna en meira þarf að gera til að hvetja þá sem fara um á bílum að fjárfesta í rafmagns eða metan bílum, gefið að öllu metani sé þ.e. ekki sóað. Í nýjum vistvænum bílum eru öflugir varúðarskynjarar sem geta dregið úr slysahættu. Ljósamálin eru enn í ólestri. Á 100 stöðum í borginni eru úrelt ljós. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Flest slysin verða þegar götur eru þveraðar og þá lang oftast þegar hjólreiðamenn hjóla yfir götu/gangbraut. Segir í skýrslunni að taka þarf tillit til sérþarfa, s.s þeirra sem glíma við líkamlega fötlun. Nú reynir meirihlutinn að fá lagaheimildinni breytt til að hindra að handhafar stæðiskorta geti ekið göngugötur. Þeim er þess í stað ætlað að leggja í hliðargötum þar sem þeirra er víða hætta búin vegna halla og þrengsla.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðiflokks um sveigjanlegan vinnutíma:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu sem þessa 2. maí 2019 í borgarráði. Tillögunni var vísað frá á sama fundi og hún var lögð fram. Meirihlutinn í borgarráði rökstuddi ekki frávísunina þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi óskað eftir því. Í raun er þetta svo sjálfsagt mál og eitthvað sem er einfalt fyrir borgina að huga að og taka frumkvæði í. Meirihlutinn getur hvatt stofnanir að huga að sveigjanleika sem þessum og einnig gert breytingar í þeim stofnunum sem tilheyra borgarkerfinu. Kjarninn í málinu er sá að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að lækka umferðartoppa í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis. Einnig má huga að því að dreifa stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar víðar um borgina sem myndi draga enn meira úr umferðarálaginu.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til að Reykjavíkurborg feli mannauðs- og starfsumhverfissviði að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík:

Það er vel þess virði að eiga það samtal sem hér er lagt til að eigi sér stað milli mannauðssviðs og háskólasamfélagsins um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Stór hópur fólks vinnur við ýmis störf í lausamennsku eða er með viðkvæman rekstur, svo sem listamenn, hönnuðir, fólk í nýsköpun, iðnaði, garðyrkju og vísinda- og fræðimenn. Allir þessi hópar eru nauðsynlegir samfélaginu og gefa lífinu lit og tilgang. Hér eru einstaklingar sem hafa margir hverjir lifað í töluverðri óvissu, taka áhættu um afkomu sína, en gera það vegna menntunar sinnar, löngunar að gefa af sér og ástríðu við þau viðfangsefni sem þau taka sér fyrir hendur eða eru ráðin í. Þessu fólki má ekki gleyma þegar illa árar, að því þarf að hlúa. Fyrsta skrefið er sannarlega að skoða málið, hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis og kortleggja hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera.

 

Bókun Flokks fólksins við við umræðu um bílastæðahús á vegum Reykjavíkurborgar að beiðni Flokks fólksins:

Vill borgarmeirihlutinn fækka bílum á götum eða ekki? Ef svarið er já, af hverju er þá ekkert gert í því sambandi. Af hverju eru bílastæðahús borgarinnar mörg hver hálftóm? Gjalds í bílastæðahúsum er krafist allan opnunartímann en gjald í bílastæðum á götum fylgir nokkurn vegin opnunartíma verslana. Bílastæðahús taka heldur ekki við greiðslum frá snjallkerfum. Bílastæðahús eru lokuð að nóttu, en bílastæði á götum eru alltaf tiltæk. Næturlokun veldur því að sækja þarf bílinn fyrir kl. 24:00 ella bíða til morguns. Sum bílastæðahús eru auk þess illa lýst og kuldaleg. Vísbendingar eru um að fólk sem komið er á og yfir ákveðinn aldur noti ekki bílastæðahús. Þau treysta sér ekki til að eiga við miðakerfi greiðsluvélanna. Bráðaþjónustu er ábótavant lendi fólk í vandræðum. Borgin hefur byggt bílastæðahús væntanlega með það að markmiði að þau verði nýtt sem best. Tillögur Flokks fólksins um betrumbætur hafa farið forgörðum með þeim rökum að tap Bílastæðasjóðs yrði svo mikið. Ef notkun bílastæðahúsa er eins lítil og raun ber vitni þá ætti það ekki að valda miklum kostnaði þótt þau (eitt eða fleiri) verði gjaldfrjáls á nóttunni. Á meðan hagkvæmara er að leggja bílnum úti en inni, leggja að sjálfsögðu fleiri úti en inni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að  áformum um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði verði frestað á meðan rannsóknir fara fram:

Flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt borgarstjóra. Flokkur fólksins telur að fresta eigi byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer, fari hann þ.e.a.s. Fari flugvöllurinn opnast ólíkir möguleikar á byggðaþróun t.d. er þá hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð. Nú er verið að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Fari flugvöllurinn verður annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf á landfyllingum. Í drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um skipulag byggðar í Skerjafirði kemur fram að umfang landfyllinga verður minnkað frá fyrri áætlun. En samt þarf landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu. Eyðilegging fjöru með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Fá náttúruleg svæði má nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Náttúrulegar fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir í málinu í skipulags- og samgönguráði sem var vísað frá með þeim rökum að spurt sé um pólitíska afstöðu kjörinna fulltrúa. Svo er auðvitað ekki. Skipulagsyfirvöld vilja einfaldlega ekki svara. Umhverfi flugvallarins er fyrst og fremst skipulagsmál en umræðan er vissulega á pólitískum vettvangi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins  að Reykjavíkurborg verði leiðandi þátttakandi í undirbúningi að stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í umhverfis- og úrgangsstjórnunarmálum:

Flokkur fólksins er fylgjandi nýsköpun og vill styðja alla þá sem hana stunda. Umfang sem hér er boðað virkar all nokkuð og verður kannski varla alveg án útgjalda enda þótt stefnt sé að því að svo verði. Samkvæmt tillögunni á að hafa samstarf við fjölda aðila. Mikilvægt er að hér sé aðeins verið að tala um að bjóða upp á vettvang enda vill engin stækka báknið sem er nóg fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs 11. júní, þriggja mánaða uppgjör:

Ef litið er yfir árið 2019 þá vantar mikið upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 m.kr. undir áætlun. Ekki tókst að halda áætlun 2019 og ekki gekk heldur að greiða niður skuldir, en samt var góðæri! Á þessum tíma var ekkert COVID-19 áfall og ástand. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið við að sjá þriggja mánaðaruppgjör A- hluta, janúar til mars 2020. Borgin safnaði skuldum 2019 og hafa skuldir hækkað um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af afkomu borgarinnar þegar fer að reyna á áhrif COVID-19 fyrir alvöru. Ekki er annað hægt en að vera uggandi fyrir næstu tveimur árum seinnihluta þessa kjörtímabils. Fyrri hluti þessa kjörtímabils hefur sannarlega ekki verið án áfalla, braggamálið, fleiri framúrkeyrsluverkefni, SORPA svo fátt sé nefnt. Ef ekki var hægt að áætla með nákvæmari hætti fyrir 2019 hvernig verða þá áætlanir fyrir þetta ár?

 

Bókun Flokks fólksins undi 17. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 11. júní og 14. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní er varða heimild handhafa stæðiskorta að leggja í göngugötur:

Skipulagyfirvöld borgarinnar gera nú hvað þau geta til að taka heimild af handhöfum stæðiskorta að aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Verið er að reyna að fá löggjafann til að breyta ákvæði 10. gr. umferðalaga sem kveður á um þessa heimild. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Flokkur fólksins hefur einnig verið með málið í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði enda mannréttindamál. Ef tillaga borgarinnar verður samþykkt af löggjafanum munu skipulagsyfirvöld loka fyrir þennan möguleika. Með því að setja fötluðu fólki skorður að það geti ekki komist inn í göngugötur á bíl sínum er verið að jaðarsetja fatlað fólk. Hreyfihamlaðir hafa barist fyrir þessari heimild í fjölmörg ár. Skipulagsyfirvöld hafa ekki haft samráð við hreyfihamlaða um þetta mál og miður er að skipulagsyfirvöld vilji ekki láta reyna á þetta. Það er firra skipulagsyfirvalda að halda að göngugötur fyllist af handhöfum stæðiskorta. Löggjafinn hefur veit handhöfum stæðiskorta heimild til að aka í göngugötur og leggja þar í merkt stæði. Margar hliðargötur koma ekki til greina fyrir stæði hreyfihamlaðra vegna halla og þrengsla. Skipulagsyfirvöldum ber að virða markmið Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tekið á aðgengismálum.

Borgarstjórn 15. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við umsögn upplýsingadeildar ÞON um breytingu á merki Reykjavíkurborgar:

Borgarfulltrúi Flokk fólksins er ekki sammála umsagnaraðila er varðar breytingu á  bláa lit merkis Reykjavíkur og telur að ekki eigi að breyta honum  frá sæbláu yfir í himinbláan. Rök fulltrúa Flokks fólksins eru þau að dökkblái liturinn, sæblár- minnir meira á stöðu Reykjavíkur sem borgar við sjóinn, en sá ljósi  minnir frekar á ljósan himinn sem á betur við ef um væri að ræða borg sem ekki tengjast sjó.  Borgin á að tengja sig við sjóinn og þess vegna eiga bláir tónar í öllum  merkjum  og  skiltum borgarinnar  að vera sæbláir. Litir í tölvum eiga ekki að stjórna. Flokkur fólksins leggur því til að litur merkisins haldi sér.

Forsætisnefnd 12. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2020 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur vegna aðkomutengingar við fyrirhugaða Fossvogsbrú:

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á skemmdir á fjörum sem allt þetta hefur í för með sér. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling sem kynnt er í breytingunni á deiliskipulagi raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Er ekki hægt að skipuleggja þetta öðruvísi? Breytingartillagan ber með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Uppbygging með flugvöllinn á staðnum er allt önnur en uppbygging sem yrði, fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Hér eru lagðar fram ábendingar frá Ísavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða, báðar afar mikilvægar. Sú síðari lýtur að aðgengismálum og að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir eins og segir í athugasemdinni/ábendingunni. Það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar. Eftir því sem fulltrúa Flokks fólksins skilst á að bregðast við þessum athugasemdum, vonandi verður það gert með jákvæðum huga þannig að allir aðilar verði sáttir.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júní 2020, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní 2020 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Reykjavíkurflugvallar:

Fresta ætti öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer úr Vatnsmýrinni, fari hann þ.e.a.s. enda verður þá allt annað umhverfi í boði. Fyrirspurn um þetta var lögð fram í skipulags- og samgönguráði en vísað frá með þeim rökum að verið sé að spyrja um pólitísku afstöðu kjörinna fulltrúa eins og segir í svari. Hér er ekki spurt um pólitíska afstöðu heldur um skipulagsmál enda er umhverfi flugvallarins skipulagsmál. Vissulega eru skipulagsmál oft pólitísk enda ákvörðuð á pólitískum vettvangi. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur eru brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Fari flugvöllurinn opnast allt aðrir möguleikar á byggðaþróun. Þeim möguleika á ekki að spilla með því að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Miklu máli skiptir hvort flugvöllur sé á svæðinu eða ekki þegar horft er til byggingaáforma. Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Tillagan ber með sér að rými við flugvöllinn er ekki mikið. Fyrirhugaðar eru landfyllingar. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Ábendingar frá Ísavia og íbúaráði Miðborgar og Hlíða benda til að ýmsa þætti sem tengjast boðuðum framkvæmdum þyrfti að skoða nánar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga árið 2020:

Íþróttamannvirki ÍR í Mjódd. Íþróttahús (parkethús). Birtur er árangur af útboðum, en tilboð eru hærri en kostnaðaráætlun er. Í umsögn er sagt að skýring á að tilboð séu hærri en kostnaðaráætlun sé að krónan féll um 15% frá tíma kostnaðaráætlunar og tilboða. En nú hefur sú gengislækkun gengið að mestu til baka og ætti það þá ekki að hafa áhrif á tilboðin til lækkunar? Í þessari bókun má leggja til að þetta verði kannað með samatali við tilboðsgjafa.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs dags. 8. júní 2020, þar sem lagt er fram skilamat vegna framkvæmda við Klettaskóla:

Bókun við skilamat framkvæmda v. Klettaskóla. Flokkur fólksins fagnar að margt tókst vel í þessu verkefni sem var flókið og margslungið. Engu að síður má ætla að margt hafi verið fyrirsjáanlegt og hafi ekki þurft að koma á óvart. Allt of mikið var af töfum og aukaverkum. Ekki er hægt að líta fram hjá að einn milljarður var í framúrkeyrslu og er það óásættanlegt. Upplýst hefur verið að fimm viðaukar hafi verið lagðir fram á árunum 2015-2018 að upphæð 940 milljónir króna. Fyrir þá sem ekki þekkja málið er hér birt dæmi um nokkrar orsakir viðbótarkostnaðar. Grunnur reyndist heldur dýpri en gert var ráð fyrir, sökklar hærri og magnaukning verður í steypu og steypustyrktarjárni. Vegna hönnunar á tröppum við félagsmiðstöð varð að fleyga og fjarlægja töluvert meira af klöpp en áætlað hafði verið. Ásigkomulag gólfa í eldra húsnæði, tenging viðbyggingar við eldra hús olli töluverðum vandræðum við uppsetningu stálvirkis efri hæðar miðálmu. Nokkrar breytingar urðu á magntölum í stálvirki. Sumar til hækkunar en aðrar lækkunar og jarðvinna vegna lagna er almennt vanáætluð. Hér eru aðeins brot nefnd af framúrkeyrsluverkum sem tengist þessu verkefni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út 1. áfanga framkvæmda við leikskólann Funaborg og Seljakot:

Flokkur fólksins fagnar að loksins sé hreyfing við byggingu nýrra leikskóladeilda. Sagt er loksins því tímaáætlanir hafa engan vegin staðist. Vandræði hafa skapast þar sem bilið hafði ekki verið brúað þegar hurðinni var skellt á dagforeldra. Minnt er á að enn eru vandræði með að fá dagforeldra á vissum tíma árs. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgin styrki dagforeldra, t.d. með því að greiða þeim sem samsvarar gæslu 5. barnsins nái þeir ekki að fylla öll pláss. Enn er talsverður tími þangað til bilið verður að fullu brúað og þess vegna verður að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við frekari flótta úr stéttinni á meðan verið er að „brúa bilið”. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 8. júní 2020, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við samgöngubætur í Grafarvogi norður:

Bókun Flokks fólksins við Grafarvogur norður, samgöngubætur: Kynntar eru fyrirhugaðar samgöngubætur í norðurhluta Grafarvogshverfis. Þetta eru meðal atriða sem íbúum var lofað þegar ráðist var í að leggja af skólahald í einu húsi þverrt gegn vilja foreldra barna skólans. Þau óttuðust um öryggi barna sinna á leið í og úr skóla. Er hér búið að tryggja að fullu, eins og hægt er, trausta og örugga samgönguleið á milli Staðahverfis og Víkurhverfis? Fram kemur í kynningu að þetta hafi verið kynnt foreldrum en fulltrúi Flokks fólksins veit ekki hvort foreldrar séu sáttir upp til hópa og hvort þeir upplifi að börn þeirra séu örugg á leið úr og í skóla.

Bókun Flokks fólksins við bréfi innri endurskoðunar, dags. 8. júní 2020 þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki framlgða áætlun um útfærslu að skipulagi nýrrar:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að mörgu leyti tillögu um sameinaða starfsemi innri endurskoðunar, persónuverndarfulltrúa og embætti umboðsmanns borgarbúa. Sagt er að þetta leiði til sparnaðar og vonandi gerir það það en hvort það verði reyndin á eftir að koma í ljós. Svarti blettur þessara breytinga er að umboðsmaður borgarbúa hættir og fer þar með hans sérhæfða hlutverk. Það embætti var það eina sem borgarbúar gátu í raun treyst á að myndi ganga erindi þeirra. Þetta voru þeir sem töldu sig hafa orðið fyrir misbeitingu, órétti eða öðrum meintum brotum af hálfu borgarinnar gagnvart borgarbúum. Hverjir munu sinna þessum borgurum og málum þeirra núna með jafnhlutlausum hætti og embætti umboðsmanns borgarbúa gerði? Og hvernig mun í þessu nýja sameinaða kerfi ganga að svara erindum borgarfulltrúa en sú staða kemur stundum upp að borgarfulltrúar telja ástæðu til að láta skoða mál, svið eða deildir.

Bókun Flokks fólksins við við kynningu á drögum að gjaldskrárstefnu Strætó bs.:

Kynnt eru drög að gjaldskrárstefnu Strætó bs. Einhver einföldun hefur orðið en ganga hefði mátt lengra. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins nefna tillögu um að lækka einstaklingsmiða í strætó sem er nú tæpar 500 krónur til að laða fleiri að almenningssamgöngum. Einnig var lagt til að hafa ótakmarkaðan gildistíma á strætókortum. Þessi tillaga fékk ekki að fara fyrir stjórn Strætó bs. til umræðu heldur var vísað strax frá í borgarráði sem er miður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að það sé afar mikilvægt að auka sveigjanleika strætókorta, t.d. að hafa ótakmarkaðan gildistíma. Fyrir þann sem tekur vagninn sjaldan getur hann ekki keypt 10 miða kort því gildistíminn er stuttur. Einnig er of lítill munur á miðaverði sé keyptur einn miði eða sé miðin hluti af stærtókorti. Þótt keypt sé 20 miða kort er einstaka miði aðeins um 15 krónum ódýrari. Væri gjaldið að minnsta kosti 100 krónum lægra og 150 krónum lægra ef keypt er 20 miða kort með ótakmarkaðan gildistíma er það hvatning að nota meira strætó. Hér er verið að hugsa til hóps fólks sem öllu jafnan notar einkabílinn en þarf að stöku sinnum nýta sér aðrar ferðaleiðir. Þessi staða kemur stundum upp hjá fjölskyldum sem eiga einn heimilisbíl.

 

Bókun Flokks fólksins við  við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. júní 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um akstur handhafa P-korta á göngugötum og um heimild handhafa P-korta til að keyra á göngugötum:

Viðhorf skipulagsyfirvalda til 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga er alveg skýrt. Reyna á að fá löggjafann til að breyta þessu ákvæði, taka út ofangreinda heimild og tryggja þar með að akstursþjónusta fatlaðra og handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða geti ekki ekið göngugötur og lagt þar í merkt stæði eins og kveðið er á um í lagagreininni. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Fulltrúi Flokks fólksins finnst sem hér sé ekki verið að setja fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Auðvitað munu ekki margir handhafar stæðiskorta vera á göngugötu á sama tíma. Hins vegar getur vel verið að þessi heimild hvetji einn og einn handhafa að koma inn á göngugötu.

Í borg þar sem borgarbúa hafa mismunandi þarfir er mikilvægt að sýna skilning og sveigjanleika. Borgin er fyrir fólkið en ekki öfugt. Ýmsar leiðir hafa verið fundnar í borgum erlendis en þar er víðast almenningssamgöngukerfi sem þjónustar fólkið vel. Að mörgu leyti eru aðrar borgir því ekki sambærilegar og Reykjavík. Þver- og hliðargötur í erlendum borgum eru auk þess með afar gott aðgengi og séð er til þess að þar geti fólk lagt bíl sínum stutt frá áfangastað. Þvergötur við Laugaveg bjóða ekki upp á þann möguleika.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 29. maí 2020, um fyrirtækið Strategíu og kostnað vegna tillagna fyrirtækisins um stjórnskipulag byggðasamlaga:

Bókun Flokks fólksins við svari spurninga um hvernig var fyrirtækið Strategía fyrir valinu að koma með tillögur á stjórnskipulagi byggðarsamlaga? Fór þetta verkefni í útboð? Hver er kostnaðurinn við verkefnið og hver greiðir? Fram kemur að í starfs- og fjárhagsáætlun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir árið 2020 er áætlað að fyrsti hluti verkefnisins verði um 7. millj. kr. og að Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu stendur straum af verkefninu kostnaðarlega og heldur utan um verkefnið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta há upphæð og er hér aðeins um fyrsta hluta. Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu er haldið uppi að fólkinu í sveitarfélaginu. Nýlega var verið að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun, tillögu um að fjárheimildir borgarstjórnar verði hækkaðar um 4.609 þ.kr vegna hækkunar á félagsgjöldum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem hækkaði um 50% eða um ríflega 4,6 milljónir. Félagsgjöld eins og annað koma úr vasa borgarbúa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu Flokks fólksins um viðveru starfsmanns tæknideildar á meðan á fundum ráðsins stendur:

 

Bókun Flokks fólksins við svari vegna tillögu Flokks fólksins um viðveru starfsmanns tæknideildar á meðan á fundum borgarstjórnar stendur. Tillögunni var vísað frá. Tillagan var um að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið. Í svari segir að atvik eins og tillagan vísar til geta komið upp, en eru afar sjaldgæf. Skrifstofunni þykir miður að tæknimaður hafi verið fjarverandi á umræddum fundi. Óviðráðanlegar aðstæður gerðu það að verkum að ekki reyndist unnt að fylla í skarð hans þennan umrædda dag. Upplýsingatækniþjónstu Reykjavíkurborgar mun nú sem áður einblína á að veita borgarráði og borgarstjórn fyrirtaks tækniþjónustu á fundum ráðsins. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið sem er hreinskilið.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Skipulags- og samgönguráðs frá 3ja júní er varðar vegatolla:

Umsögn Reykjavíkurborgar um frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir liður 13. Veggjöld í Reykjavík gætu falið í sér tugþúsunda kostnaðarauka á mánuði vegna ferða borgarbúa. Vegtollar eru aðför að borgurunum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nú vilja skipulagsyfirvöld leggja sérstaka áherslu á að rukka þá sem aka um á ákveðnum tímum, á álagstímum, á þeim tíma sem þeim er ætlað að mæta í vinnu. Það er vissulega fagnaðarefni að bæta eigi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið brugðist við fólksfjölgun og auknum umferðarþunga. Gert er ráð fyrir að vegtollar á notendur fjölskyldubíla standi undir helmingi kostnaðar. Vegtollahugmyndirnar hafa verið gagnrýndar harkalega. Félag íslenskra bifreiðaeiganda hefur bent á að setja þyrfti upp myndavélar á 160 gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu til að innheimta vegtolla á helstu stofnbrautum. Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri. Að auki greiða vegfarendum 11% virðisaukaskatt af veggjöldum. Veggjöld leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi. Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði tapar þeim ávinningi komi til innheimtu veggjalda. Veggjöld eru flöt krónutala og mun hærra hlutfall launa láglaunafólks samanborið við laun hálaunafólks.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða Orkuveitunnar:

Hér eru sex fundargerðir Orkuveitunnar lagðar fram á einu bretti, sú elsta frá því í febrúar. Þetta er frekar óþægilegt og óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að fundargerðir komi jafnhraðan enda ærin vinna að fylgjast með málum þegar svo margar fundargerðir koma inn á einu bretti og sumar allt að fjögurra mánaða gamlar.

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið fundargerðarinnar Sorpu frá 18. maí:

Gas og jarðgerðarstöðin, verður vígð í næstu viku og er framtíðarlausn á meðhöndlun lífræns sorps. Minna verður urðað sem er gott en dýrmætar afurðir sem verða til við vinnsluna virðast ekki ætla að nýtast. Engir samningar eru í höfn um sölu á metani og moltuna á að gefa, þ.e.a.s. ef einhver vill hana. Ef enginn vill hana þarf að urða hana.

 

Bókun Flokks fólksins við 7. lið yfirlitsins um embættisfærslur:

Einn liður embættisafgreiðslna er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um íslenskunámskeið fyrir erlenda leikskólastarfsmenn sem vísað var frá á fundi skóla- og frístundaráðs þann 26. maí sl. Tillagan gengur út á að allir verðandi starfsmenn leikskóla sem ekki tala íslensku sæki eitt íslenskunámskeið áður eða um það leyti sem þeir hefja störf þar sem það er mjög erfitt að byrja á vinnustað ef erfiðleikar eru með að skilja það sem sagt er eða tjá sig. Í svari kemur fram „að í dag standi öllum erlendum starfsmönnum í leikskólum til boða íslenskukennsla og að það sé einstaklingsbundið hvenær hentar bæði fyrir starfsmanninn og vinnustaðinn“. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér eigi ekki að vera um val að ræða enda vilja flestir erlendir starfsmenn læra málið sem fyrst til að geta tekið strax fullan þátt og liðið vel í vinnunni. Á leikskólum eru börn auk þess sjálf að læra sitt eigið tungumál svo hér er um allra hag að ræða. Eðlilegt væri að íslenskunámskeið væri hluti af ráðningarferli í þeim tilvikum sem það á við.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf.

Tillaga Flokks fólksins að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að unnið verði markvisst að fækkun nemenda í bekkjum þar sem þess er þörf. Það hefur sýnt sig í rannsóknum að bekkjastærð skiptir miklu máli fyrir flesta nemendur. Nemendur í of stórum bekkjum ná ekki sama námsárangri og aðrir nemendur. Þá hefur bekkjastærð einnig mikil áhrif á kennara. Álagið sem fylgir því að vera með 20-30 börn í „krefjandi“ bekk er slíkt að það stuðlar að kulnun og brottfalli úr starfi. Í tilfellum þar sem ekki er ráðið við að fækka nemendum í bekk þar sem þess er þörf skiptir sköpum að kennari hafi aðstoðarmann. Með slíku fyrirkomulagi er einnig spornað að einhverju leyti við vandamálinu sem fylgir því að börn með dulda námsörðugleika og vanlíðan fari í gegnum skólakerfið án eftirtektar. Þegar rekstur grunnskóla var færður yfir til sveitarfélaganna árið 1996 var ákveðið að veita sveitarfélögum ákveðið svigrúm í að útfæra rekstur þeirra. Allt frá árinu 1996 hafa því ekki verið í gildi reglur um stærð bekkja á vegum menntamálaráðuneytisins. Það er því hlutverk Reykjavíkurborgar að tryggja að bekkjastærðir séu innan skynsamlegra marka og bitni ekki á velferð nemenda og kennara. R20060108

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari námsstuðning við börn með einkenni ADHD og fyrirbyggjandi ráðgjöf fyrir foreldra þeirra á meðan biðtíma eftir greiningu og sálfræðiaðstoð stendur

Tillaga um frekari námsstuðning við börn með einkenni ADHD og fyrirbyggjandi ráðgjöf fyrir foreldra þeirra á meðan biðtíma eftir greiningu og sálfræðiaðstoð stendur. Í febrúar sl. voru 674 börn á biðlista eftir ADHD greiningu, þar af 429 að bíða eftir fyrstu þjónustu og 245 börn eftir frekari þjónustu. Þessi langi biðlisti er með öllu ólíðandi. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur sem lúta að styttingu biðlista, m.a. að sálfræðingum verði fjölgað og að samstarf við Þroska- og hegðunarstöð verði formgert. Til að koma til móts við þessi börn og foreldra þeirra leggur Flokkur fólksins til við skóla- og frístundaráð að börnin á biðlistanum fái frekari aðstoð en nú er veitt og sérstaklega við „heimanám“. Flokkur fólksins leggur jafnframt til að foreldrar barna á biðlistanum fái sérstaka fræðslu um ADHD ásamt ráðgjöf á meðan biðtímanum stendur. Í „snemmtækri íhlutun“ verður að felast fleiri og markvissari úrræði til að létta undir með foreldrum og börnum á meðan bið eftir aðstoð fagaðila stendur. Hvert barn skiptir máli og hvert ár á þessum mikilvægu mótunarárum getur haft áhrif á sálarlíf þess áratugum saman. Það hlýtur að vera vilji borgarstjórnar að tryggja börnum með ADHD betri farveg í grunnskólakerfinu og vonar Flokkur fólksins að nú verði vandinn viðurkenndur og lausnir settar í farveg. R20060106

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður. Styðja þarf kennara enn frekar en gert er nú

Flokkur fólksins leggur til að í stærri bekkjum séu ávallt tveir, kennari og aðstoðarmaður. Styðja þarf kennara enn frekar en gert er nú. Mikið álag er á marga kennara sem kenna stórum bekkjum þar sem margir nemendur þurfa e.t.v. sértæka aðstoð. Í slíkum bekk er auðvelt fyrir barn sem hefur sig ekki í frammi að týnast og erfiðara er að uppgötva mögulega námserfiðleika og kortleggja aðstoðina sem börnin kunna að þarfnast. Einkenni eru oft falin. Kennari sem er undir miklu álagi og hefur í mörg horn að líta getur ekki tekið eftir öllu í skólastofunni. Að hafa tvo inn í bekk, kennara og annan honum til aðstoðar er mikill kostur og léttir á álagi. Betur sjá augu en auga, auðveldara er að fylgjast með líðan og hegðun nemenda og þeir fá meiri athygli og aðstoð á einstaklingsgrunni. R20060103

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins afstöðu íbúðaráða til tillögu um að auka samvinnu við stofnanir í hverfum:

Í bréfi stýrihóps um innleiðingu íbúaráða, dags. 18. febrúar kemur fram að tillögu Flokks fólksins um að íbúaráðin finni leiðir til að auka samvinnu við stofnanir í hverfum þeirra hefur verið sent til allra íbúaráða. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því og óskar á sama tíma eftir að fá senda afstöðu íbúaráðanna til tillögunnar eftir að um hana hefur verið fjallað á fundum ráðanna. R20010381

Vísað til meðferðar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins hvað er átt við með hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur og hver er kostnaðurinn:

Fyrirspurnir í tengslum við liðinn um hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur. Kynnt er hönnunarkerfi fyrir stafrænar vörur. Talað er um formheim, teikningar, raddtónn. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki alveg hvernig þetta kerfi virkar, notagildi, tilgangur, skemmtanagildi? Hér koma nokkrar spurningar sem vonandi varpa frekara ljósi á þetta. Talað er um samræmingu, að verið sé að samræma upplýsingar? Hvað er átt við og óskað er eftir dæmum í máli og myndum. Hvað fá borgarbúar út úr þessu? Myndi þetta teljast til forgangsverkefna og ef svo er, að hvaða leyti? Hver er kostnaður við þessa hönnun? R20060063. Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um mál sem nefnd eru í fundargerð Strætó bs. 29. maí:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um mál sem nefnd eru í fundargerð Strætó bs. 29. maí. Á þessum fundi voru rædd mál og veittar upplýsingar m.a. um aðgerðarlista vegna starfsánægjukönnunar og almenn umræðu var einnig um eigendastefnu Strætó bs.. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá samantekt á þessari umræðu og helstu niðurstöður. R20010017

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvernig hægt sé að gera marktæka kostnaðaráætlun áður en búið er að forhanna hjólastíga

Fyrirspurn um hjólastíga. Skipulagsyfirvöld óska eftir að borgarráð heimili að framkvæmd við jólastíga verði boðið út. Verkefnin eru samkvæmt hjólreiðaáætlun Reykjavíkur og vegna samgöngusáttmála. Kostnaðaráætlun 2 er 960 mkr og þar af hluti er kostnaðaráætlun vegna undirbúnings og forhönnunar. Er hægt að vinna kostnaðaráætlun áður en það er gert ? Eru þær kostnaðaráætlanir sem hér er birtar marktækar þar sem ekki er búið að forhanna? Það væri gott að fá nákvæmar upplýsingar um þetta í ljósi þess að allt of oft virðist sem áætlanir standist ekki. R20060065

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Borgarráð 11. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við svari samgöngustjóra er lagt fram við fyrirspurn Flokks fólksins  um  hvort borgin ætli ekki að ð virða 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019:

Svar samgöngustjóra er lagt fram við fyrirspurn Flokks fólksins  um  hvort borgin ætli ekki að ð virða 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum, þar sem tiltekið er að umferð vélknúinna ökutækja er heimil um göngugötur, þ.á m. akstursþjónustu fatlaðra og handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða og  mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Segir í svari að göngugötur í Reykjavík séu merktar með áberandi umferðarmerkjum en ekki lokaðar að öðru leyti.  Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort það þýði að P merktir bílar geti ekið göngugötur og lagt í merkt stæði? Fram kemur einnig í svari að 3. apríl sl. sendi umhverfis- og skipulagssvið minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem lýst var yfir áhyggjum af framkvæmd undanþáguákvæðis 1. mgr. 10. gr. laganna sem felur í sér að  handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, er heimilað að keyra um göngugötur. Óttast er um neikvæð áhrif þessa ákvæðis.
Deila má um neikvæð áhrif en fyrir liggur að  tryggja þarf jafnt aðgengi allra. Skipulagsyfirvöld eigi ekki að reyna að breyta orðalagi þessara lagagreinar. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn setur þessa heimild og ætla má að mikil vinna liggi þarna að baki. Tryggja þarf hreyfihömluðum fullnægjandi aðgengi.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn í tengslum við tillögu  Flokksins um úrræði vegna barna sem sýna árásargirni og ofbeld. 

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið við fyrirspurn í tengslum við tillögu  Flokksins um úrræði vegna barna sem sýna árásargirni og ofbeld. Tillögunni var  hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnun um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Þessu ber að fagna. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður draga fram þá staðreynd að við kortlagningu úrræða í tengslum við aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020 kom í ljós að ofbeldi barna í borginni hefur farið vaxandi en 40% aukning hefur orðið á tilkynningum þar sem tilkynnt er um barn sem beitir ofbeldi milli áranna 2016 (145 tilkynningar) og 2018 (204 tilkynningar). Það sem veldur áhyggjum er að í öll úrræði eru biðlistar, Eitt er að setja á laggirnar úrræði en þau ná stundum skammt ef ekki fylgir nægjanlegt fjármagn til að halda úti úrræðinu þannig að börn og foreldrar hafi auðvelt aðgengi að því og þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir aðstoð. Málum er forgangsraðað eftir alvarleika sem þýðir að mörg börn bíða lengi eftir aðstoð. Það hlýtur að teljast til mannréttindabrota að láta börn bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð.

 

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að bæta réttindi barna  sem hefur verið vísað frá í mannréttindaráði.

Fyrir liggur að ekki allir foreldrar geta greitt aukalega fyrir þátttöku barna sinna í ferðum eða viðburðum. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um  banni við mismunun af nokkru tagi. Í aðalnámskrá grunnskólanna segir að ekki skuli mismuna börnum eftir  aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund sem eru í mikilli neyð er stærsti hluti þeirra einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 á mánuði eig á hættu að búa við fátækt. Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau. Í 5 skólum standa foreldrar straum af ferðum barna sinna  og í 13 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og sumarhátíðum. Samkvæmt þessu eru vísbendingar um að  börn njóti ekki jafnræðis.

Mannréttinda- lýðræðis og nýsköpunarráð 11. júní 2020

Skipulags- og samgönguráð
10. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umferðaröryggisáætlunar Reykjavíkur 2019-2023, dags. 5. júní 2020:

Kynnt er skýrsla um umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023. Fjallað er um núverandi stöðu slysa og þróun sem og helstu áherslur. Fulltrúi Flokks fólksins vill bóka um eldri borgara og umferðaröryggi. Fram kemur að rannsóknir erlendis frá hafa sýnt að ferðum fækkar þegar fólk eldist sem er eðlilegt.  Eldri borgarar koma síður í miðbæinn eftir umdeildar framkvæmdir sem dregið hafa úr aðgengi að hinum áður vinsæla Laugavegi. Aðgengi hjólandi er gott en eldri borgarar ferðast ekki mikið um á hjólum. Eldri borgarar leggja sjaldan í bílastæðahús af ótta við að villast eða lenda í vandræðum með greiðslukerfið. Huga þarf sérstaklega að öryggi þessa hóps í umferðinni. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því þegar heimild var veitt í umferðarlögum að fatlaðir geti ekið göngugötur. Af öðrum öryggisþáttum má benda á að lausnir við að bæta öryggi takmarkast af því sem hægt er að gera umhverfislega jafnt sem kostnaðarlega. Að aðskilja andstæðar akreinar  með vegriði er oft hægt að koma við.  Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Að aka á þungum bílum  veitir vernd en minnkar samsvarandi hjá þeim sem aka á léttum bílum. Til bóta væri að fækka þungum bílum innan þéttbýlasta svæði borgarinnar

Bókun Flokks fólksins við kantsteinagerð á Skólavörðustíg við Bergstaðastræti:

Fulltrúi Flokks fólksins veltir hér fyrir sér forgangsröðun og hvort að hér sé með þessari aðgerð ekki verið að loka fyrir möguleika á að snúa þessari ákvörðun um lokun þessa svæðis við. Eins og margoft hefur komið fram eru miklar deilur um þessa framkvæmd alla og ef sú staða kæmi upp að fáir eigi eftir að koma á svæðið eftir breytinguna og verslanir  komi jafnvel ekki til með að þrífast þarna er mikilvægt að geta breytt aftur til baka með litlum tilkostnaði. Þá getur komið upp sú staða að búið sé að henda 10 milljónum í ekki neitt. Flokkur fólksins leggur til að beðið sé með þessa aðgerð til að sjá hverju framvindur. Hafa skal í huga að um göngugötur eiga eftir að aka bílar, P merktir bílar og  bílar sem losa vörur. Kantsteinar og upphækkanir henta þá illa. Fulltrúi Flokks fólksins skilur ekki sjónarmiðið, hér er verið að eyða peningum að óþörfu.

Bókun Flokks fólksins við Hringbraut – Hofsvallagata, breytingar, óskað er heimildar til að ljúka, í samstarfi við Vegagerðina, undirbúningi breytinga á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu.

Skipulagsyfirvöld óska heimildar til að ljúka undirbúningi breytinga á gatnamótum Hringbrautar og Hofsvallagötu. Flokkur fólksins fagnar að endurnýja á umferðarljósabúnað enda þarna búið að vera ófremdarástand. Það er almennt  erfitt að koma akandi Hringbraut og beygja til suður á Hofsvallagötu og spurning hvort að það verði nokkurn tíma gott eftir allt rask sem orðið hefur á gatnakerfinu. Umferðröryggi gangandi og hjólandi er einnig slæmt vegna þrengsla. Of lítið bil er milli bíla, hjólandi og gangandi. Hofsvallagata rúmar þetta illa.  Það á þátt í að bílar sitja fastir á þessum gatnamótum, margir á leið sinni vestur í bæ og út á Seltjarnes. Vandinn væri ekki svo mikill ef þetta væri ekki önnur helsta leið út á Seltjarnarnes. Fyrir þá sem búa fyrir vestan þessi gatnamót  hlýtur þetta að fara að hafa  áhrif t.d.  á sölumöguleika húseigna þar.

Bókun Flokks fólksins við Vesturlandsvegur, breyting á deiliskipulagi:

Reykjavíkurborg og Vegagerðin standa í sameiningu að gerð deiliskipulags fyrir Vesturlandsveg. Löngu tímabær aðgerð. Flokkur fólksins fagnar tillögum um að aðskilja akstur sem fer í sitt hvor átt með vegriðum. Einnig er tímabært að bæta við hjólastígum og göngustígum.  Gert er ráð fyrir að gangandi, hjólandi og ríðandi vegfarendur noti hliðarvegi eða sérstakan göngu- og hjólastíg  og reiðstíga meðfram hliðarvegunum. En slíkir stígar eiga ekki að liggja meðfram fjölförnum bílavegum skyldi maður ætla og vissulega eru einhverjar reglur um það sem hlýtur að þurfa að fylgja. Slíkum stígum ætti að finna stað í einhverri fjarlægð frá bílagötunni? Hér þarf að stíga varlega til jarðar til að ekki verði sóað óþarfa fé í eitthvað sem mun síðan ekki reynast farsælt. Sýna þarf fyrirhyggju í hönnunarvinnunni og umfram allt gæta að öryggis allra ferðalanga. Fulltrúi Flokks fólksins gerir sé grein fyrir að  deiliskipulagsmörkin setja skorður. Og enn skal á það bent að hjólastígar eiga að liggja eins lárétt og unnt er. Brekkur ætti að forðast. Þarna er ekki alveg slétt og  með því að hugsa og hanna rétt má gera hjólastíginn flatan. En ef ekki er hugsað um það verður hann upp og niður og allavega.

Bókun Flokks fólksins við Seljavegur 2, (fsp) uppbygging:     

Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af því að sú stefna meirihlutans að byggja agnarsmáar íbúðir sé á leið út í öfgar ekki síst vegna þess að þessar litlu íbúðir eru rándýrar. Vissulega er markaður fyrir litlar íbúðir og hefur hann farið vaxandi sem er vel. Verið er að byggja agnarsmáar íbúðir í stórum stíl.  Stefnan er að hafa engin bílastæði, e.t.v. deilibílastæði ef vel lætur. Fulltrúi Flokks fólksins er allur fyrir fjölbreytni og gerir kröfu um að þörfum allra verði mætt sem best.  Hér er verið að tala um að minnstu íbúðirnar eru ekki mikið stærri en 35 fermetrar. Dæmi eru um að studíóíbúð er seld á 19 milljónir. Minnstu íbúðirnar geta kostað allt að 30 milljónir á dýrustu stöðunum. Hér er því varla verið að höfða til fólks sem hefur lítið fé milli handanna. Fulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá hver eftirspurnin verður eftir þessum litlu skápaíbúðum áður en lengra er haldið svo ekki verði setið uppi með óseldar, rándýrar 30 fermetra íbúðir í stórum stíl.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.2 Seljahverfi:

Með þessum lið og tveimur öðrum eru kynningar: Hverfisskipulag, Breiðholt , Seljahverfi, Efra og Neðra Breiðholt. Í útsendri dagskrá fylgdu engin göng og því útilokað að setja sig inn í allar þær upplýsingar sem liggja fyrir í hverfisskipulagi í Breiðholti. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áður kvartað yfir vinnubrögðum af þessu tagi. Það nær engri átt að kynna  svo stór og mikilvæg mál og ætla að keyra þau í gegn án þess að gefa fulltrúum ráðrúm til að skoða málin fyrirfram af einhverri dýpt. Með þessum hætti er verið að skerða möguleika minnihutafulltrúa á þátttöku og tjáningu. Þessu er enn og aftur mótmælt og krafist að allar  kynningaglærur verði í framtíðinni sendar út með dagskrá fundarins.

Bókun Flokks fólksins við Hverfisskipulag, Breiðholt 6.3 Efra og Neðra Breiðholti:

Hverfisskipulag þriggja hverfa í Breiðholti er kynnt á fundi skipulags- og samgönguráðs. Mikið magn upplýsinga liggur fyrir sem erfitt er að meðtaka á stuttum tíma. Kynningin vekur upp fjölmargar spurningar. Byggja á ofan á hús í stórum stíl en ekki er talað um hvernig falli  inn í umhverfið eða hugnist íbúum hverfisins.  Fulltrúi Flokks fólksins vill staldra við samráðsferli sem er skref 3 af 6 hjá skipulagsyfirvöldum. Fjöldi íbúafunda eða rýnihópa er ekki merki þess að samráð hafi tekist vel. Á fundi sem þessa komast ekki allir og boðun á þá fer fram hjá mörgum. Fjölbreyttar leiðir til samráðs eru afar mikilvægar, stundum þarf jafnvel að nota símann eða senda persónuleg bréf. Fram kemur í kynningu að reyna á að höfða til unga fólksins og reyna að fá þeirra sjónarmið, hvað leiðir á að nota til þess? Það er mat Flokks fólksins að samráð þarf að koma inn strax í upphafi ferilsins eiginlega um leið og gróf grunnhugmynd liggur fyri