Borgarráð 13. febrúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hverju líður vinnu starfshóps um frístundarkort:

Eins og margsinnis hefur komið fram hefur frístundakortið tapað sínu upphaflega markmiði þ.e. að gefa börnum tækifæri til að stunda íþróttir. Nú er seilst í það til að láta efnaminni og fátækt fólk nota það upp í greiðslu frístundaheimilis, (frá 2009), greiða fyrir tungumálaskóla sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð og fyrir skuldadreifingu hjá borginmi. Nú hefur verið myndaður stýrihópur um frístundakortið og vill Flokkur fólksins vita um framvindu vinnu hans og gjarnan fá áfangaskýrslu. Í þessu máli þarf að hafa hraðar hendur því verið er að beita börn órétti með því að taka af þeim möguleikann á að nota frístundakortið til þess sem því var ætlað. Skýrasta dæmið er hverfi 111 en þar er minnsta notkun kortsins í samræmi við tilgang þess. Í þessu hverfi er hæsta hlutafall barna af erlendum uppruna og þar eru einnig flestir með fjárhagsaðstoð í samanburði við önnur hverfi sem skýrir m.a. að nýtingin skuli ekki vera meiri eða ámóta og í öðrum hverfum borgarinnar. Þessu þarf að breyta og horft er til stýrihóps um frístundarkortið að leiðrétta þetta hið fyrsta.
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framvindu vinnu starfshóps sem endurskoða á þjónustu við gæludýraeigendur:

Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarleg óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla eins og tölur hafa sýnt. Engu að síður eru eigendur krafnir um gjald sem síðan er sagt að eigi að nota til að þjónusta alla. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda fyrirspurna en einnig tillögur um hunda og hundahald. Tillögurnar voru ýmist felldar eða vísað frá í umhverfis- og heilbrigðisráði en eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur þá á starfshópurinn um endurskoðun þjónustu við gæludýraeigendur að taka þær til umræðu/meðferðar. Þessar tillögur eru: Að aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað. Að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði rýmkaðar. Að heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum. Að hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður. Að innheimta hundagjalds fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um framvindu vinnu stýrihópsins og upplýsingar um meðferð tillagnanna.
Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur um styrkveitingar m.a. hvort allir sem fengið hafa styrki hafa skilað inn skilagreinum:

Nú stendur til að afgreiða árlega styrkúthlutun borgarráðs. Flokkur fólksins hefur nokkrar spurningar í þessu sambandi. Í 9. gr. um reglur um styrkveitingar segir að hafi umsækjendur áður fengið styrki skulu liggja fyrir skilagreinar um nýtingu fyrri styrkja. Spurt er hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk t.d. síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum? Hvernig er brugðist við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein? Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn?
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að lengja fyrningartíma á búnaði, áhöldum og tækjum við útreikning innri leigu:

Tillaga Flokks fólksins að fyrningartími á búnaði, áhöldum og tækjum við útreikning innri leigu verði endurreiknaður með það að markmiði að lengja hann. Í svari um starfshóp um endurskoðun innri leigu tekur borgarfullrúi Flokks fólksins eftir að fyrningartími á húsbúnaði og tækjabúnaði er óvenju stuttur. Segir jafnframt í svari að miðað sé við að afskriftir sem mynda stofn til innri leigu búnaðar, áhalda og tækja sé fastur hundraðshluti miðað við áætlaðan nýtingartíma rekstrarfjármuna. Í 3. grein reglna um eignaskráningu rekstrarfjármuna borgarinnar er fyrningartími einstakra flokka stofnbúnaðar ákveðinn. Flokki fólksins finnst þessi tími allt of stuttur. Tillaga Flokks fólksins er að þegar kemur að húsbúnaði, tölvubúnaði og öðrum tækjabúnaði verði reglum um viðmið afskrifta til útreiknings innri leigu breytt þannig að fyrningartíminn verði lengri. Endurreiknað viðmið taki mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæma umgengni. Frestað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavík skal skila gögnum til mebættisins:

Í svari við fyrirspurn um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavíkurborg skal skila gögnum og skýrslum til embættisins kennir margra grasa. Ef litið er til skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 kom alveg skýrt fram að tölvupóstum hafði verið eytt. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í rannsókn til þar til bærra yfirvalda. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er erfið öllum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Starf borgarritara:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fulltrúar borgarráðs fái að vera með í ráðningarferli á nýjum borgarritara frá allra fyrstu stigum. Minna skal á að borgarritari er borgarritari minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Gera verður kröfu um framúrskarandi færni í samskiptum og mikilvægt er að sá sem ráðinn verður hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum. Að hann sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillagna á breytingum um sérstakan húsnæðisstuðning:

Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins (hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu um breytingu á reglum þjónustu við börn og barnafjölskyldur:

Flokkur fólksins telur að þessar reglur séu til bóta enda leggja þær grunn að frekari styrkingu og stoðum til handa barna og fjölskyldna þeirra. Góður vilji og falleg orð eru til alls fyrst. Í nútíma samfélagi þar sem virða á lýðræði eiga þeir sem þjónustuna þiggja ávallt að segja til um hvers lags þjónustu þeir þurfa og vilja. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér enga grein fyrir hvort þeir sem sitja að samningu reglugerðar séu komnir með þessa nálgun inn að beini. Reynslan á eftir að sýna það en í því sambandi skiptir máli að hlusta á þjónustuþegann. Taka þarf allar athugasemdir alvarlega og láta þær verða að hvata til að horfa gagnrýnum augum á reglur og regluverk. Í þessum reglum er strax gert ráð fyrir löngum biðlista. Það eitt og sér vekur ugg. Margra mánaða biðlista á ekki að samþykkja sem gefinn. Að það skuli yfir höfuð minnst á biðlista í glænýju regluverki eru vísbendingar um að sú þjónusta sem reyna á að veita er undirfjármögnuð.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur – göngugata – deiliskipulag

Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast ekki bílar á göngugöturnar. Í sumar verður Laugaveginum umturnað. Þetta svæði sem kallast hefur miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi fólks, líka Íslendinga. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna lokana gatna og breytinga á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur. Þessi ákvörðun hefur haft skaðleg áhrif á fjölda ólíkra verslana. Þær hafa ekki þrifist eftir að lokað var alfarið fyrir bílaumferð. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar og sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum á Laugavegi. Bíður rekstraaðila Laugavegar það sama og rekstraaðila Hverfisgötunnar? Þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum. Í það minnsta er það nokkuð víst að þegar framkvæmdir hefjast verður aðgengi að Laugavegi sennilega mjög erfitt líka fyrir gangandi og hjólandi.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum deiliskipulag – Sjómannareitur og  Veðurstofuhæð, breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til afgreiðslu

Það er eins með Sjómannaskólareitinn og Stekkjabakkareitinn. Deiliskipulagið hefur fengið óhemju viðbrögð og því miður mörg neikvæð. Einhverjir telja klárlega að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð. Flokkur fólksins fagnar að dregið hafi úr byggingarmagni og að Vatnshóllinn og Saltfiskmóinn fái nú að njóta sín betur. Það er hins vegar mat Flokks fólksins að almennt séð megi endurskoða það samráðsferli sem er við lýði þannig að það virki betur. Sú reiði og pirringur borgarbúa gagnvart deiliskipulagi og ekki einvörðungu á þessum reit heldur víða er ekki einleikið. Flokkur fólksins hefur ávallt sagt að bjóða þarf borgarbúum að borðinu á fyrstu stigum. Þétting byggðar er það sem þessi meirihluti setur á oddinn eins og ekkert annað skipti máli. Þétta skal byggð núna sama hvað hver segir og þótt það fari jafnvel gegn vilja fjölda manns, íbúa svæðisins. Þegar börn almennt séð tjá sig um hvernig þau vilja hafa umhverfi er einmitt mikilvægt að hlusta. Það var gert í þessu tilfelli sem hér um ræðir og fagnar borgarfulltrúi því. Börnin eiga að hafa mikið um þessi mál að segja ekki síður en fullorðnir enda er framtíðin þeirra.