Borgarstjórn 15. júní 2020

Tillaga Flokks fólksins um jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að láta gera jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðum á vegum Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að athuga hvort börn njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Skólinn, frístundaheimilin og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á fjölbreytt starf þar á meðal að bjóða börnunum upp á að taka þátt í afþreyingu utan húss, heimsækja staði og fara í styttri ferðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði með kerfisbundnum hætti hvort börnin eru að fá sömu tækifæri til þátttöku án tillits til efnahags foreldra.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna og eru jafnvel undir fátæktarviðmiði geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Greinargerð

Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neyta börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum vegna fjárskorts. Þetta fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Hvernig er háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega? Þessi börn fá ekki sömu tækifæri til íþrótta- og tómstunda. Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað og því óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að borgarstjórn samþykki að gera skimun eða könnun á þessu til að kortleggja hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar sumarhátíð.

Mikilvægt er að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar en henni var vísað frá:

Lögð hefur verið fram tillaga um að gerð verði jafnréttisskimum í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum til að athuga jafnrétti til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillögunni hefur verið vísað frá. Enn og aftur er þessi meirihluti í borgarstjórn ekki í takt við sjálfan sig. Hann setur fram „fína“ mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem hann síðan virðir að vettugi. Viðurkennt er að þetta sé með ýmsum hætti sem þó er ekki alveg vitað. Flokkur fólksins vill að þessar upplýsingar liggi skýrt fyrir svo hægt sé að finna leiðir til að engu barni verði mismunað vegna efnahagsþrenginga foreldra né að nokkru öðru leyti að sjálfsögðu. Nú er verið að að reyna að leysa einstaka mál sem upp koma. Í sumum skólum eiga foreldrar að greiða sem dæmi gistingu, sé verið að fara í ferðalag og fleira í þeim dúr og þurfa þá að leita náðar hjá skólanum. Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða? Það segir í mannréttindastefnu meirihlutans, sem hann sjálfur hundsar, að börn eigi að njóta jafnréttis.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Greiningar liggja nú þegar fyrir inn á skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmiskonar viðburði innan skólanna í borginni. Fyrirkomulag slíkra ferða er með ýmsum hætti. Til dæmis greiðir skólinn í nær öllum tilfellum stóran hluta kostnaðar ýmissa viðburða þótt fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Í vissum tilfellum er um samstarf foreldra, nemenda og skóla, með fjáröflunum ef um er að ræða ferðalög með gistingu. Þá er rétt að taka fram að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ef upp koma einstök tilfelli þar sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur, þá er alltaf leitast við að leysa málin farsællega.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023:

Víða í borginni er umferðaröryggi ábótavant og aðstæður hættulegar. Strætisvagnar stoppa á miðri götu til að hleypa farþegum í og úr og dæmi eru um að strætisvagnar stoppa á miðju hringtorgi. Nýlega var grjóti sturtað á miðjan Eiðsgranda sem getur skapað stórhættu. Í borginni eiga ekki að vera neinar dauðagildrur. Fjölgun þeirra sem fer um hjólandi má fagna en meira þarf að gera til að hvetja þá sem fara um á bílum að fjárfesta í rafmagns eða metan bílum, gefið að öllu metani sé þ.e. ekki sóað. Í nýjum vistvænum bílum eru öflugir varúðarskynjarar sem geta dregið úr slysahættu. Ljósamálin eru enn í ólestri. Á 100 stöðum í borginni eru úrelt ljós. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Flest slysin verða þegar götur eru þveraðar og þá lang oftast þegar hjólreiðamenn hjóla yfir götu/gangbraut. Segir í skýrslunni að taka þarf tillit til sérþarfa, s.s þeirra sem glíma við líkamlega fötlun. Nú reynir meirihlutinn að fá lagaheimildinni breytt til að hindra að handhafar stæðiskorta geti ekið göngugötur. Þeim er þess í stað ætlað að leggja í hliðargötum þar sem þeirra er víða hætta búin vegna halla og þrengsla.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðiflokks um sveigjanlegan vinnutíma:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu sem þessa 2. maí 2019 í borgarráði. Tillögunni var vísað frá á sama fundi og hún var lögð fram. Meirihlutinn í borgarráði rökstuddi ekki frávísunina þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi óskað eftir því. Í raun er þetta svo sjálfsagt mál og eitthvað sem er einfalt fyrir borgina að huga að og taka frumkvæði í. Meirihlutinn getur hvatt stofnanir að huga að sveigjanleika sem þessum og einnig gert breytingar í þeim stofnunum sem tilheyra borgarkerfinu. Kjarninn í málinu er sá að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að lækka umferðartoppa í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis. Einnig má huga að því að dreifa stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar víðar um borgina sem myndi draga enn meira úr umferðarálaginu.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til að Reykjavíkurborg feli mannauðs- og starfsumhverfissviði að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík:

Það er vel þess virði að eiga það samtal sem hér er lagt til að eigi sér stað milli mannauðssviðs og háskólasamfélagsins um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Stór hópur fólks vinnur við ýmis störf í lausamennsku eða er með viðkvæman rekstur, svo sem listamenn, hönnuðir, fólk í nýsköpun, iðnaði, garðyrkju og vísinda- og fræðimenn. Allir þessi hópar eru nauðsynlegir samfélaginu og gefa lífinu lit og tilgang. Hér eru einstaklingar sem hafa margir hverjir lifað í töluverðri óvissu, taka áhættu um afkomu sína, en gera það vegna menntunar sinnar, löngunar að gefa af sér og ástríðu við þau viðfangsefni sem þau taka sér fyrir hendur eða eru ráðin í. Þessu fólki má ekki gleyma þegar illa árar, að því þarf að hlúa. Fyrsta skrefið er sannarlega að skoða málið, hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis og kortleggja hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera.

 

Bókun Flokks fólksins við við umræðu um bílastæðahús á vegum Reykjavíkurborgar að beiðni Flokks fólksins:

Vill borgarmeirihlutinn fækka bílum á götum eða ekki? Ef svarið er já, af hverju er þá ekkert gert í því sambandi. Af hverju eru bílastæðahús borgarinnar mörg hver hálftóm? Gjalds í bílastæðahúsum er krafist allan opnunartímann en gjald í bílastæðum á götum fylgir nokkurn vegin opnunartíma verslana. Bílastæðahús taka heldur ekki við greiðslum frá snjallkerfum. Bílastæðahús eru lokuð að nóttu, en bílastæði á götum eru alltaf tiltæk. Næturlokun veldur því að sækja þarf bílinn fyrir kl. 24:00 ella bíða til morguns. Sum bílastæðahús eru auk þess illa lýst og kuldaleg. Vísbendingar eru um að fólk sem komið er á og yfir ákveðinn aldur noti ekki bílastæðahús. Þau treysta sér ekki til að eiga við miðakerfi greiðsluvélanna. Bráðaþjónustu er ábótavant lendi fólk í vandræðum. Borgin hefur byggt bílastæðahús væntanlega með það að markmiði að þau verði nýtt sem best. Tillögur Flokks fólksins um betrumbætur hafa farið forgörðum með þeim rökum að tap Bílastæðasjóðs yrði svo mikið. Ef notkun bílastæðahúsa er eins lítil og raun ber vitni þá ætti það ekki að valda miklum kostnaði þótt þau (eitt eða fleiri) verði gjaldfrjáls á nóttunni. Á meðan hagkvæmara er að leggja bílnum úti en inni, leggja að sjálfsögðu fleiri úti en inni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að  áformum um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði verði frestað á meðan rannsóknir fara fram:

Flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt borgarstjóra. Flokkur fólksins telur að fresta eigi byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer, fari hann þ.e.a.s. Fari flugvöllurinn opnast ólíkir möguleikar á byggðaþróun t.d. er þá hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð. Nú er verið að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Fari flugvöllurinn verður annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf á landfyllingum. Í drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um skipulag byggðar í Skerjafirði kemur fram að umfang landfyllinga verður minnkað frá fyrri áætlun. En samt þarf landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu. Eyðilegging fjöru með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Fá náttúruleg svæði má nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Náttúrulegar fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir í málinu í skipulags- og samgönguráði sem var vísað frá með þeim rökum að spurt sé um pólitíska afstöðu kjörinna fulltrúa. Svo er auðvitað ekki. Skipulagsyfirvöld vilja einfaldlega ekki svara. Umhverfi flugvallarins er fyrst og fremst skipulagsmál en umræðan er vissulega á pólitískum vettvangi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins  að Reykjavíkurborg verði leiðandi þátttakandi í undirbúningi að stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í umhverfis- og úrgangsstjórnunarmálum:

Flokkur fólksins er fylgjandi nýsköpun og vill styðja alla þá sem hana stunda. Umfang sem hér er boðað virkar all nokkuð og verður kannski varla alveg án útgjalda enda þótt stefnt sé að því að svo verði. Samkvæmt tillögunni á að hafa samstarf við fjölda aðila. Mikilvægt er að hér sé aðeins verið að tala um að bjóða upp á vettvang enda vill engin stækka báknið sem er nóg fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs 11. júní, þriggja mánaða uppgjör:

Ef litið er yfir árið 2019 þá vantar mikið upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 m.kr. undir áætlun. Ekki tókst að halda áætlun 2019 og ekki gekk heldur að greiða niður skuldir, en samt var góðæri! Á þessum tíma var ekkert COVID-19 áfall og ástand. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið við að sjá þriggja mánaðaruppgjör A- hluta, janúar til mars 2020. Borgin safnaði skuldum 2019 og hafa skuldir hækkað um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af afkomu borgarinnar þegar fer að reyna á áhrif COVID-19 fyrir alvöru. Ekki er annað hægt en að vera uggandi fyrir næstu tveimur árum seinnihluta þessa kjörtímabils. Fyrri hluti þessa kjörtímabils hefur sannarlega ekki verið án áfalla, braggamálið, fleiri framúrkeyrsluverkefni, SORPA svo fátt sé nefnt. Ef ekki var hægt að áætla með nákvæmari hætti fyrir 2019 hvernig verða þá áætlanir fyrir þetta ár?

 

Bókun Flokks fólksins undi 17. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 11. júní og 14. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní er varða heimild handhafa stæðiskorta að leggja í göngugötur:

Skipulagyfirvöld borgarinnar gera nú hvað þau geta til að taka heimild af handhöfum stæðiskorta að aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Verið er að reyna að fá löggjafann til að breyta ákvæði 10. gr. umferðalaga sem kveður á um þessa heimild. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Flokkur fólksins hefur einnig verið með málið í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði enda mannréttindamál. Ef tillaga borgarinnar verður samþykkt af löggjafanum munu skipulagsyfirvöld loka fyrir þennan möguleika. Með því að setja fötluðu fólki skorður að það geti ekki komist inn í göngugötur á bíl sínum er verið að jaðarsetja fatlað fólk. Hreyfihamlaðir hafa barist fyrir þessari heimild í fjölmörg ár. Skipulagsyfirvöld hafa ekki haft samráð við hreyfihamlaða um þetta mál og miður er að skipulagsyfirvöld vilji ekki láta reyna á þetta. Það er firra skipulagsyfirvalda að halda að göngugötur fyllist af handhöfum stæðiskorta. Löggjafinn hefur veit handhöfum stæðiskorta heimild til að aka í göngugötur og leggja þar í merkt stæði. Margar hliðargötur koma ekki til greina fyrir stæði hreyfihamlaðra vegna halla og þrengsla. Skipulagsyfirvöldum ber að virða markmið Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tekið á aðgengismálum.