Er ekki bara best að þú hættir störfum?

Þolendur og gerendur eineltis fyrirfinnast á flestum aldursskeiðum. Sjónum hefur hvað mest verið beint að einelti barna en e.t.v. minna að einelti meðal fullorðinna. Einelti meðal fullorðinna er síður en svo einskorðað við vinnustaði.

Einelti á vinnustað

Birtingarmyndir eineltis á vinnustað eru margar og mismunandi allt eftir eðli og aðstæðum á vinnustaðnum. Þolendur og gerendur geta hvort heldur sem er verið úr röðum stjórnenda/millistjórnenda eða starfsmanna sem ekki bera stjórnunarlega ábyrgð. Einelti einkennist af röð atvika í stað eins ákveðins atburðar.

Einelti er skilgreint sem ítrekaðar neikvæðar athafnir sem beitt er af einum eða fleirum einstaklingum í garð annars einstaklings. Neikvæðar athafnir eru m.a.:

  • Baktal/rógburður
  • Sniðganga, einangra og hafna samstarfsaðila
  • Halda frá, leyna upplýsingum eða kaffæra í verkefnum
  • Gagnrýna, bera röngum sökum

Hvað eiga þolendur sameiginlegt?

Þolendur eru á öllum aldri en rannsóknir hafa sýnt að meirihluti þeirra eru konur. Ekki hefur tekist að greina persónugerð hins dæmigerða þolanda. Fordóma gætir enn í umhverfinu í garð þeirra sem segjast vera þolendur eineltis. Fordómarnir lýsa sér t.d. þannig að fólk sem jafnvel þekkir lítið eða ekkert til málsatvika hefur tilhneigingu til að álykta að sökin sé þolandans. Þolandinn endurspeglar fordómana með því að upplifa skömm og sektarkennd. Fordómar í garð þolandans skýra að einhverju leyti af hverju vandamál af þessu tagi hefur tilhneigingu til að vera falið. Þolandinn álítur sem svo að það kunni að stríða gegn hagsmunum hans ef eineltið fréttist. Hann óttast að vera álitinn vandræðaseggur og með því kunni möguleikar á seinni tíma ráðningu að skerðast. Ef ástandið er viðvarandi og ekki útlit fyrir að taka eigi á málunum er líklegt að þolandinn verði auðsæranlegur og gefi frekar á sér höggstað eða geri mistök í starfi.

Afleiðingar eineltis eru flestum kunnar. Ef þolandinn er látinn fara eða telur sig knúinn til að yfirgefa vinnustaðinn er bataferillinn lengri. Auk þess sem hann hefur misst atvinnu sína er hann fullur efasemdar um sjálfan sig. Í raun velta örlög þolandans hvað mest á persónustyrk hans, stuðning fjölskyldu og þeirri trú að honum sé ekki alls varnað.

Hvað býr í einstaklingi sem vill leggja annan í einelti?

Einelti finnst án tillits til efnahags, stéttar, stöðu eða búsetu. Fullorðnir gerendur eineltis eru bæði karlar og konur. Vísbendingar eru um að gerendurnir sjálfir hafi brotna sjálfsmynd og séu óöryggir með sig. Með því að valda öðrum vanlíðan, næra þeir sína eigin og upplifa sig verðugri. Öfund og persónuleg vanlíðan er gjarnan megin driffjöður í eineltisathöfnum gerandans. Í sumum tilvikum hefur gerandinn sjálfur verið lagður i einelti en það er þó ekki einhlítt.

Gerandinn er ekki alltaf með áhangendur. Algengt er þó að hann leggi sig fram um að sannfæra samstarfsfélaga sína um galla og veikleika þolandans. Illviljinn sem einkennt hefur einstaka eineltismál getur orðið slíkur að samúð og samkennd hverfur með öllu og gerandinn (gerendur) lætur sér líðan þolandans í léttu rúmi liggja. Hætti þolandinn störfum hvort sem hann sé látinn fara eða fer sjálfviljugur upplifa gerendur gjarnan sigur. Með brotthvarfi þolanda hafa athafnir þeirra verið réttlættar.

Stjórnandinn (annar en þolandi eða gerandi)

Árangursríkur stjórnandi þarf að hafa faglega jafnt sem persónulega burði til að stjórna. Góður stjórnandi er sér meðvitaður um styrkleika og veikleika sína. Hann gerir starfsfólki sínu grein fyrir að baktal eða hvers lags ofbeldi verði ekki liðið enda slíkt vinnuumhverfi óheilbrigt og mannskemmandi. Fjölmargir vinnustaðir hafa tekið þessi mál föstum tökum og sett á laggirnar lítinn hóp, teymi sem beina má kvörtunum til. Teymið skoðar málið, aflar gagna og gerir tillögu að úrvinnslu. Aðrir vinnustaðir hafa fá eða engin úrræði og þar sýna stjórnendur þessum málum e.t.v. lítinn áhuga og skilning. Þrátt fyrir að mikið hafi áunnist í þessum málum og umræðan í þjóðfélaginu sé bæði opnari og faglegri er enn að heyrast um tilvik þar sem stjórnandi gerir þolandann að sökudólgi og telji lausnina felast í að hann hættir störfum.

Einelti eða samskiptavandamál

Eitt sjónarmið er að mikilvægt sé að nota hlutlausara orðalag yfir einelti á fyrstu stigum líkt og hugtakið samskiptavandi. Það sé nefnilega ekki fyrr en á síðari stigum sem menn geti verið sammála hvort um raunverulegt einelti sé að ræða. Ókosturinn við það er þó sá að þolandinn upplifi sig samábyrgan og kennir sér jafnvel um ástandið. Grunnathugun á málinu nægir þó oft til að varpa ljósi á hvers eðlis vandamálið er.