Kolbrún Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022. Hér birtast fréttir af Kolbrúnu á pólitískum vettvangi borgarmálanna.
Greinasafn eftir Kolbrúnu á visi.is

Borgarráð
19. september 2019

Tillaga Flokks  fólksins að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík, (í Austurbæ, í Árbæ og Breiðholti, í Vesturbæ og í Grafarvogi) en hverfi borgarinnar eru 10. Eftir stendur Grafarholt og Úlfarsárdalur, Háaleiti og Bústaðir, Laugardalur, Hlíðar og Miðborg. Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt og ekki á færi allra foreldra að greiða fyrir tónlistarmenntun barna sinna. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á tónlistarnám og  ekki er á allra færi að stunda slíkt nám vegna mikils kostnaðar  gæti þátttaka í skólahljómsveit verið góður valmöguleiki. Með því að hafa skólahljómsveit í öllum hverfum er tækifæri til tónlistarnáms flutt í nærumhverfi barnanna. Reykjavíkurborg tryggir með þessu að börnum sé ekki mismunað á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að stunda tónlistarnám.

Tillaga Flokks fólksins að farið verði í sérstakt átak við að auka þátttöku barna í hverfi 111 m.a. með notkun frístundakortsins til íþrótta- og tómstundanáms

Tillaga um að Reykjavíkurborg fari í sérstakt átak við að auka þátttöku barna í hverfi 111 m.a. með notkun frístundakortsins til íþrótta- og tómstundanáms. Í yfirliti yfir þátttöku barna í skipulögðu starfi árið 2018 og notkun frístundakorta kemur í ljós að þátttakan er lökust í hverfi 111. Þátttaka stúlkna í þessu hverfi er 66% og þátttaka drengja er 69%. Til samanburðar má nefna að mest er skráning í frístundastarf í hverfi 112, drengir með 94% og stúlkur 85%. Ástæður fyrir þessu geta verið af ýmsum toga. Hverfi 111 er Fella- og Hólahverfi og þar er eitt mesta fjölmenningarsamfélagið í borginni. Flokkur fólksins hefur spurt um stöðu barna í Fella- og Hólaskóla. Þar býr hæsta hlutfall fólks sem er af erlendu bergi brotið. Af svari að dæma er stór hópur barna í hverfinu félagslega einangraður og þar búa margir sem glíma við fátækt. Ekki eru til upplýsingar hjá íþrótta- og tómstundasviði um hlutfall þátttöku barna af erlendu bergi brotnu. Möguleg skýring á minni þátttöku barna í hverfinu er að hér er um efnalitla og fátæka foreldra að ræða sem eiga e.t.v. ekki annan kost en að nota frístundakort barnanna til að greiða gjald frístundaheimilis svo foreldrarnir geti verið á vinnumarkaði. En það er auðvitað ekki markmiðið með frístundakortinu.

Greinargerð

Meginmarkmið Frístundakortsins er að öll börn á aldrinum 6-18 ára  í Reykjavík geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika íþrótta-, lista- og tómstundastarfs eins og segir í reglum um Kortið. Íþrótta- og tómstundarnám er dýrt og notkun frístundarkortsins dekkar aðeins brot af þeim kostnaði. Hins vegar er þessi litla upphæð sem frístundarkortið gefur engu síður ákveðin hvatning til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Hér þarf að koma til sérstaks átaks hjá borginni. Slíkt átak gæti t.d. falið í sér að bjóða þeim sem eru verst settir og sem nota frístundarkortið til að greiða upp í gjald frístundaheimilis sérstakan styrk til að greiða með frístundaheimili svo barnið geti notað frístundarkortið í annað. Einnig þarf að fara af stað með hvatningarátak þar sem börnum þessa hverfis er sérstaklega kynnt hvað stendur til boða og kannað hjá þeim með markvissum hætti hvaða íþrótta- og tómstundargreinar veki áhuga þeirra. Í kjölfarið þyrfti að sinna eftirfylgni og mæla svo árangurinn eftir einhvern tíma. Það er ekki viðunandi að svo mikill munur sé á milli hverfa í þessu tilliti.

Tillaga Flokks fólksins að Strætó bs setji sér þjónustustefnu með áherslu á auðmýkt

Flokkur fólksins leggur til að Strætó bs setji sér þjónustustefnu með áherslu ekki einungis á notendavæna hönnun heldur einnig þjónustulund og auðmýkt gagnvart farþegum. Stofnanir og fyrirtæki í eigu borgarinnar eiga að starfa samkvæmt skýrri þjónustustefnu. Markmið þjónustustefnu er að stofnun uppfylli hlutverk sitt og veiti notendum góða þjónustu og sýni hlýtt viðmót. Þessi tillaga er lögð fram núna að gefnu tilefni. Í ljósi kvartanna vegna m.a. framkomu og aksturslags vagnstjóra sem borist hafa til Strætó bs. er afar brýnt að móta þjónustustefnu sem innleidd verði hið fyrsta. Í stefnu þeirri sem hér er lagt til að Strætó bs. setji sér, leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að hún feli í sér ákvæði um að vagnstjórar/starfsmenn Strætó bs sýni auðmýkt og lítillæti í störfum sínum og séu ávallt tilbúnir að aðstoða fólk við inn- og útgöngu í vagnanna. Sýni farþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu og séu vingjarnlegir og hjálpfúsir gagnvart farþegum. Vagnstjórar/starfsmenn þurfa að þekkja sitt hlutverk og hafa velferð farþega ávallt að leiðarljósi. Vagnstjórar þurfa að gæta sérstaklega að börnum, öryrkjum, eldri borgurum og öðrum viðkvæmum hópum þegar stigið er inn og úr vagninum. Vagnstjórar þurfa auk þess að hafi færni og getu til að lesa og meta aðstæður.

Greinargerð

Lagt er til að þjónustustefna Strætó feli einnig í sér:

 • Að vagnstjórar byggi ákvarðanir sínar ávallt á því hvað er farþegum fyrir bestu
 • Að vagnstjórar leyfi farþeganum ávallt að njóta vafans komi upp einhver vafamál enda skulu farþegar ávallt vera í forgangi
 • Að vagnstjórar veiti farþegum nauðsynlegar upplýsingar eftir atvikum

Flokkur fólksins vill ítreka mikilvægi þess að stefnan sem hér um ræðir kveði á um þjónustulund, kurteisi, tillit, sveigjanleika og að þjóna borgarbúum sem nota þjónustuna af auðmýkt og lítillæti. Gæta þarf sérstaklega að velferð og öryggi barna, öryrkja og eldri borgara. Þessum aðilum þarf að sýna sérstaka biðlund og oft sérstaka aðstoð. Gæta þarf að aksturslagi þegar um er að ræða börn, einstaklingar sem glíma við hreyfivanda eða hömlun af einhverju tagi og einnig fólki sem hefur lítil börn í fangi eða sér við hönd.

Vísað til meðferðar stjórnar Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um meðalstærð íbúða

Flokkur fólksins þakkar svarið. Þetta er greinargóð lýsing á því hvernig unnið er og það er greinilega verið að gera heilmikið til að mynda fjölbreytta byggð. Það sem borgarfulltrúi hafði í huga með fyrirspurninni er að með því að setja fram kröfu um meðalstærð íbúða t.d. á einstökum byggingarreitum má ná fram því markmiði að byggðar verði misstórar íbúðir á einstökum svæðum. Kosturinn við þessa aðferð sem spurt er um hvort borgin hafi er að hönnuðir fá nokkuð frjálsar hendur við hönnunina með að skapa enn meiri fjölbreytni. Reglan er einföld, en getur leitt til þess að mjög mismunandi íbúðir verði til í einu og sama húsinu.

Borgarstjórn
17. september 2019

Á fundi borgarstjórnar í gær óskaði ég eftir umræðu um ábyrgð borgarinnar á þeim sem þiggja mataraðstoð frá frjálsum félagasamtökum, Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki áttu peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu. Með umræðunni vildi ég kalla eftir ábyrgð borgarinnar á fólki sem vegna fjárhagserfiðleika hefur orðið að setja allt sitt traust á félagasamtök. Á sama tíma og staða hagkerfisins er góð og borgin státar af hagnaði er engu að síður á fjórða þúsund manns sem ekki fær grunnþörfum sínum mætt eins og að fá að borða og þarf að treysta á matargjafir

Eftirfarandi var bókað af Flokkis fólksins

Á sama tíma og meirihlutinn setur á dagskrá sjálfshrós fyrir að virða frelsi og fjölmenningu stóðu 3600 manns fyrir framan lokaðar dyr frjálsra félagasamtaka í sumar þar sem þeir treystu á að fá mat. Meirihlutinn í borginni virðist ekki hafa vitað af lokununum og ekki vitað um stöðu þessa stóra hóps fátæks fólks sem átti ekki til hnífs og skeiðar og höfðu engin ráð þegar frjáls félagasamtök gátu ekki veitt matargjafir. Flokkur fólksins minnir á að: „Sveitarfélag skal sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögum og tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Aðstoð og þjónusta skal jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf“.  Af hverju virðir meirihlutinn í borgarstjórn ekki þessi lög? Hér er kallað eftir ábyrgð borgarmeirihlutans og að borgin sinni lögbundnum skyldum sínum. Ekki liggur fyrir hvort velferðarkerfið hafi athugað með þennan stóra hóp nú þegar vetur gengur í garð. Enginn á að þurfa að eiga lífsviðurværi sitt undir frjálsum félagasamtökum. Hér þarf greinilega að endurreikna fjárhagsaðstoð, í það minnsta þannig að hún dugi fólki fyrir mat.

 

Bókun við liðnum: Ábyrgð á 1.6 milljarða króna láni til Sorpu vegna mistaka

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðar borgarráðs frá 5. september sem hefur að gera með ábyrgð á lántöku SORPU bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Afgreiðsla: Samþykkt með 13 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins v. láns til Sorpu

Framkvæmdastjóri Sorpu óskar eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt er um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Hér þarf að staldra við enda engar haldbærar skýringar á af hverju það vantar rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Meirihlutinn í borginni spyr einskis, tilbúinn að samþykkja möglunarlaust að ganga í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Bæjarráð Seltjarnarness segist ekki ætla að ganga í ábyrgð fyrir láninu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Sum sleppa vel með margt annað líka t.d. að koma upp félagslegu húsnæði. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í þessu klúðri Sorpu kristallast þetta. Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim. Byggðasamlög eins og þau starfa nú, eru fjarlæg hinum almenna borgara. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex. Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda. Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri lang mestu fjárhagslegu ábyrgðina.

Greinargerð fylgir, sjá neðar, undir forsætisnefnd 13. september.

Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela borgarstjóra að taka upp viðræður um fyrirkomulag á rekstri og stjórnun sameiginlegra fyrirtækja sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á vettvangi stjórnar og fulltrúaráðs SSH. SSH starfar á grundvelli ákvæða sveitarstjórnarlaga um landshlutasamtök sveitarfélaga og er markmið þeirra að vera vettvangur samráðs og samstarfs aðildarsveitarfélaga, vinna að sameiginlegum hagsmunamálum þeirra og vera sameiginlegur málsvari. SSH er jafnframt sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni auk þess sem fulltrúaráð SSH hefur það skýra hlutverk að mynda samráðsvettvang vegna reksturs þeirra byggðasamlaga sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni. R19090193

Breytingartillagan er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
Tillagan svo breytt er samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarmeirihlutinn virðist ætla sætta sig við að hafa alla þessa fjárhagslegu ábyrgð en hlutfallslega litlar stjórnunarheimildir. Það er blóðugt í ljósi bakreiknings frá Sorpu en nákvæmlega þar kristallast hin vonda staða Reykjavíkur í byggðasamlögum. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga, verður Reykjavík að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagi höfuðborgarsvæðisins. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og aðrar skuldbindingar. Horfa ætti til stjórnsýsluúttektar árið 2011 á byggðasamlögum borgarinnar þar sem staðfest er tengslaleysi milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Dæmi eru um að stjórnir byggðasamlaga fóru út fyrir verksvið sitt og tóku veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.. Þetta fyrirkomulag er ekki gott eins og kom í ljós þegar beiðni frá Sorpu um viðbótarframlag upp á 1.6 milljarð var sett fram vegna „mistaka“. Þetta er ekki borgarbúum bjóðandi. Meirihlutinn í Reykjavík á að ganga í verkið og fara fram á breytingar án þess að hengja sig á Samtök Sveitarfélaga eins og hann leggur til hér.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við yfirlýsingu meirihlutans um Fjölmenningarborgina Reykjavík í samræmi við þátttöku borgarinnar í verkefninu „Intercultural Cities“:

Margt gott hefur verið gert til að auka fjölmenningu, fjölbreytileika og styrkja minnihlutahópa.  Innan okkar samfélags vill Flokkur fólksins einnig minna á að það eru aðrir fjölbreytilegir minnihlutahópar sem ekki njóta nægjanlegs stuðnings. Hér er vísað til eldri borgara, öryrkja og barna sem þurfa sérþjónustu af ýmsu tagi. Grunnþjónusta við þessa hópa er ekki viðunandi, biðlistar eru nánast hvert sem litið er.  Varla eru þeir gleymdir sem bíða eftir hjúkrunarrými en lengd biðlista náði hámarki 2018 eftir stöðuga fjölgun frá 2014. Hvað varðar innflytjendur lagði Flokkur fólksins til að sett yrðu á laggirnar námskeið fyrir innflytjendur þar sem sérstaklega yrði miðað að því að kenna málið í tengslum við atvinnuumsóknir og atvinnuviðtöl. Hér er brýnt að túlkað sé á máli viðkomandi en á íslenskunámskeiðum eru margir þjóðfélagshópar, margar mállýskur og ólíkar þarfir.  Til að auðvelda aðlögun og draga úr einangrun er brýnt að komast út á vinnumarkað. Innflytjendur hafa einangrast, t.d. í Breiðholti, þar sem segja má að félagsleg blöndun hafi mistekist. Tillagan var felld. Börn af erlendu bergi sem eru fædd hér á landi eru mörg afar illa stödd í íslensku máli eins og kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar um skólamálin. Hér þarf einnig að gera betur. Sem sagt minnihlutahópar eru alls konar.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins við umræð um skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur grunnskóla Reykjavíkur.

Einn stærsti veikleikinn sem skýrsla innri endurskoðunar fjallar um snýr að útdeilingu fjármagns til skólanna. Hvergi í þessu ferli hafa skólastjórnendur aðkomu en þeir geta sent óskalista um viðbótarfjármagn. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skólastjórnendum ekki sýnd virðing hér.  Fjárveitingarvaldið hlustar ekki á fólkið á planinu. Hið margplástraða reiknilíkan sem lýst er hélt maður fyrst að væri bara eitthvað grín. Úrelt líkan sem lifir sjálfstæðu lífi er farið að stýra fjármagni til skólanna. Svelt skólakerfi sem á að vera skóli án aðgreiningar hefur dregið dilk á eftir sér. Ömurlegar afleiðingar var fyrirsögn í einu fréttablaðinu þar sem fjallað var um skóla án aðgreiningar. Menntun á að vera fyrir alla. Ef þetta á að heita skóli án aðgreiningar þarf að sjá til þess að hann sé það í raun og það kostar að hafa þann útbúnað, aðstæður og mannafla til að sinna fjölbreyttri flóru barna með fjölbreyttar þarfir. Í mörg ár hefur skóla- og frístundasviðinu verið naumt skammtað og getur því ekki deilt nauðsynlegu fé til skólanna. Skólarnir fara þess vegna fram úr áætlun og til að mæta fjárskorti er klipið af nemendatengdum stöðugildum. Skólarnir hafa einnig þurft að gera ráð fyrir mun minni yfirvinnu en er í raun, skera niður sérkennslu og stuðning við börnin svo fátt eitt sé nefnt.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við tillögu Sósialistaflokksins um að Reykjavíkurborg stofni tónlistarskóla með það að markmiði að halda kostnaði í lágmarki fyrir þau börn sem koma til með að sækja skólann og/eða skólana.

Á borgarstjórnarfundi nú er einnig lagt til að borgarstjórn samþykki viðauka vegna tónlistarskóla að upphæð 27.888 þ. kr. Um er að ræða frávik á framlagi Jöfnunarsjóðs í tengslum við tónlistarskóla sem kom í  ljós við rýningu og samanburð á greiðslum frá Jöfnunarsjóði til Reykjavíkurborgar vegna náms í söng og hljóðfæraleik. Flokki fólksins finnst hér komin ein ástæða þess að borgin ætti að skoða að reka sjálf tónlistarskóla.  Fimm tónlistarskólar kenna um 83% af kennslumagni í borginni á efri námsstigum. Safnast hafa upp frávik milli fjárheimilda hjá borginni og greiðslna Jöfnunarsjóðs inn í borgarsjóð fjögur undanfarin ár.  Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kominn sé tími til að endurskoða þetta með það í huga að taka tónlistarkennslu af fjölbreyttu tagi inn í skólakerfið. Ávinningurinn af því er sá að með því fyrirkomulagi er betur séð til þess að öll börn geti tekið þátt í tónlistarnámi óháð efnahag foreldra. Eins og vitað er dugar Frístundakortið engan veginn fyrir tónlistarnámi í einkareknum tónlistarskóla auk þess sem efnalitlir foreldrar eru stundum tilneyddir til að nota Frístundakortið sem gjaldmiðil fyrir frístundaheimili til að þeir komist út á vinnumarkað.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við tillögu meirihlutans um að minnka álagstoppa í umferð með því að auka sveigjanleika opnunartíma stofnana og fyrirtækja borgarinnar og stuðla jafnframt að því að aðrir atvinnurekendur geri slíkt hið sama.

Flokkur fólksins lagði fram í borgarráði sambærilega tillögu: „að fleytitími verði enn sveigjanlegri en hann er í þeim störfum sem upp á það bjóða með það að markmiði að  létta á umferðinni í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis“. Einnig var lögð fram tillaga um: „að  borgin beiti sér í ríkari mæli í að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni“. Til að létta enn meira á álagi í umferðinni inn og úr miðbænum á meðan almenningssamgöngur eru ekki raunhæfur valkostur, var lagt til að skoðað yrði gaumgæfilega hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin. Formanni borgarráðs hugnaðist ekki þessi tillaga og var henni vísað frá á sama fundi án frekari orða. Nú hefur tillagan verið lögð fram að nýju en af öðrum flokki en Flokki fólksins og nú er annað upp á teningnum, sem betur fer. Í það minnsta á ekki að vísa henni frá. Vissulega er sama hvaðan gott kemur en engu að síður vekur þetta upp spurningar um hvort það skipti máli hvaða flokkur í minnihluta leggur fram tillögur og án efa skiptir máli hverjir eru í forsvari funda hverju sinni.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 28. ágúst.

Sameiginlegur fundur skipulags- og umhverfisráðs var haldinn í Viðey 28. ágúst. Um var að ræða einhvers konar samráðsfund að sagt var þar sem skrifstofa umhverfisgæða, samgöngustjóri og skipulagsfulltrúar sögðu frá megináherslum og breytingum á milli ári. Orkuskipti voru meðal umræðuefna. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um metan sem nóg er framleitt af. Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? Engin svör hafa borist og ekkert af sviðum og ráðum sem bera ábyrgð á orkuskiptum í borginni hafa brugðist við þessum fyrirspurnum. Í raun er ekkert sem bendir til þess að verið sé að vinna í þessu. Engin skýr svör hafa heldur borist hvað Strætó bs. hyggst gera  í þessum efnum. Ætlar Strætó að fjárfesta í fleiri metanvögnum?

Forsætisnefnd
13. september 2019

Undirbúningur dagskrár borgarstjórnarfundar 17. september

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki  að aðild Reykjavíkur að byggðasamlögum verði skoðuð með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu reykvíkinga að þeim.

Byggðasamlög eins og þau starfa nú, eru fjarlæg hinum almenna borgara. Þau eru stofnun sem setur sér eigin starfsreglur og eigin stefnu. Innan þeirra fer ekki saman fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka. Í núverandi kerfi mun byggðasamlögum fjölga frekar en fækka. Lýðræðishallinn vex.  Ef þörf er á fjölda byggðasamlaga er ástæða til að huga að sameiningu þeirra sveitarfélaga sem þau mynda.
Reykjavík getur ekki í núverandi byggðasamlögum tekið  ákvarðanir um mikilvæg atriði sem kunna að skipta borgarbúa miklu án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga og það þótt Reykjavík beri lang mestu fjárhagslegu ábyrgðina. Nýverið barst Reykjavíkurborg þungur bakreikningur vegna mistaka í fjárhagsáætlanagerð Sorpu. Þótt Sorpa sé í eigu allra sveitarfélaga höfuðborgarsvæðisins þarf Reykjavík að bera þungann af fjármögnun hennar vegna íbúafjölda. Ef fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga á að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá auknu ábyrgð.

Greinargerð
Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði árið 2011 stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar nánar tiltekið Strætó, Sorpu og Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þar kom fram að sambandsleysi virtist vera milli eigenda byggðasamlaganna og stjórna þeirra. Stjórnir félaganna hefðu stundum farið út fyrir verksvið sitt og jafnvel tekið veigamiklar ákvarðanir sem féllu ekki að væntingum eigendanna. Reykjavíkurborg hefur jafnvel gert málamiðlanir á kostnað eigin hagsmuna.

Innri endurskoðun benti á í sinni stjórnsýsluúttekt á byggðasamlögum borgarinnar að byggðasamlagsformið kæmi sér best þegar samstarf fæli í sér lögbundin verkefni en betra væri að nota annað félagsform þegar starfsemi fæli í sér starfsemi sem ber einkenni almenns einkareksturs á samkeppnisgrundvelli, eins og ætti við um Sorpu og Strætó.

Stjórn Sorpu er skipuð einum stjórnarmanni frá hverju sveitarfélagið höfuðborgarsvæðisins. Atkvæðavægi þeirra er hlutfallslegt og miðar við íbúafjölda sveitarfélaga. Reykjavík hefur því mest atkvæðavægi af sveitarfélögunum. Samþykki ¾ hluta atkvæðavægis eða a.m.k. 3 sveitarfélaga þarf fyrir ákvörðunum um gjaldskrár, fjárfestingar, ólögbundin útgjöld og meiri háttar skuldbindingar. Reykjavík getur því ekki í krafti atkvæða sinna tekið ákvarðanir um framangreinda hluti án þess að njóta stuðnings a.m.k. tveggja annarra sveitarfélaga.

Samkvæmt starfsreglum stjórnar Strætó er atkvæðavægi stjórnarmanna í hlutfalli við íbúatölu en samþykki ¾ hluta atkvæðisvægis í stjórn, þó aldrei færri atkvæði en þriggja aðildarsveitarfélaga, þarf til að þær ákvarðanir öðlist gildi sem varðar rekstrarkostnaðarskiptingu, meiriháttar fjárfestingar, stofnun eða þátttöku í dótturfélögum, breytingar á gjaldskrá eða breytingar á þjónustustigi. Sama gildir um upptöku nýs leiðakerfis, að hluta eða í heild. Því getur Reykjavík ekki tekið ákvarðanir um þau málefni í krafti atkvæðavægis nema með stuðningi a.m.k. 2 annarra sveitarfélaga og a.m.k. ¾ hluta atkvæðavægis. Þá er í starfsreglum stjórnar Strætó ákveðið að sveitarfélögin skuli skipta með sér formennsku á 2 ára fresti.

Nú stendur til að nýtt byggðasamlag verði stofnað í kringum hina umdeildu Borgarlínu og því er eðlilegt að borgarbúar spyrji sig hvort Reykjavík muni þar einnig bera skertan hlut frá borði. Þegar byggðasamlög eru í meirihlutaeigu Reykjavíkurborgar verður að tryggja að Reykjavíkurborg fái viðhlítandi stjórn og yfirsýn með rekstri þeirra. Ákvarðanataka verður  að vera gegnsæ. Hætta er á að þar verði misbrestur hjá byggðasamlögum

Bókun Flokks fólksins við málsmeðferðartillögu meirihlutans:
Að tillögu Flokks fólksins verði vísað til umsagnar Félags heyrnarlausra og aðgengis- og samráðsnefndar fatlaðs fólks. Jafnframt er samþykkt að óska eftir kostnaðarmati fjármála- og
áhættustýringarsviðs á tillögunni að umsögnunum fengnum. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur mikla áherslu á að tillagan fari til umsagnar til aðila utan borgarstjórnar og fagnar því þess vegna að hún fari til umsagnar til Félags heyrnarlausra.  Einnig er mikilvægt að kostnaðarmat verði  gert af utanaðkomandi aðila, þ.e. öðrum en fjármála- og áhættustýringarsviði. Gott væri að fá tvenns konar kostnaðarmat á tillögunni þar af annað framkvæmt af aðila ótengdum borgarstjórn.

Bókun meirihlutans:

Það er hlutverk sviðs Fjármála- og áhættustýringar að gera kostnaðaráætlanir. Það getur ekki talist annað en undarlegt að lýsa með þessum hætti vantrausti á starfsfólk þeirrar skrifstofu sem ráðið er sérstaklega til að sinna þessari vinnu, og töluverður aukakostnaður myndi hljótast af þyrfti að gera slíkt mat af utanaðkomandi stofnun í hvert skipti, án þess að sérstök ástæða sé tilgreind

Gagnbókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins er ekki að lýsa vantrausti á neinn í sinni bókun og því óþarfi hjá meirihlutanum í forsætisnefnd að draga þá ályktun. Hins vegar er það rétt að Flokki fólksins finnst það jákvætt að tillagan fari til umsagnar utan borgarstjórnar í  ljósi frekar neikvæðra viðbragða meirihlutans við tillögunni á fundi borgarstjórnar. Þess utan yrði góður bragur að því að fá kostnaðarmat frá tveimur aðilum, öðrum utan borgarstjórnar.

Borgarráð
12. september

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarráð, velferðarráð í samstarfi við ofbeldisvarnanefnd móti ný og fjölbreytt úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi.

Á aukafundi borgarstjórnar sl. þriðjudag var lögð fram aðgerðaráætlun borgarinnar gegn ofbeldi 2018 til 2020. Áætlunin er yfirgripsmikil en í hana vantar umfjöllun um börn sem beita önnur börn og stundum fullorðna þ.m.t. foreldra og kennara sína ofbeldi. Börn eru skilgreind börn til 18 ára aldurs. Hvaða áætlanir hefur borgin fyrir þessi börn og foreldra þeirra? Fyrir foreldra barna sem glíma við reiðistjórnunarvanda og beita ofbeldi þarf að vera greiður aðgangur að fjölbreyttu ráðgjafar- og meðferðarúrræði. Ef ekki tekst að stöðva ofbeldishegðun barna er hætta á að þau haldi áfram að beita ofbeldi sem unglingar og á fullorðinsárum. Úrræði sem þetta þarf að fela í sér stuðning og fræðslu fyrir foreldra. Haldi ofbeldishegðun áfram er mikilvægt að barnið eigi þess kost að sækja námskeið þar sem stuðst er við atferlismótandi kerfi sem er sniðið að þörfum barnsins, aldri og þroska. Námskeið af þessu tagi hafa verið í boði á vegum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar og e.t.v. einnig á vegum borgarinnar en í þau er langur biðlisti. R19090127

Vísað til meðferðar ofbeldisvarnarnefndar.

Lögð fram  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fyrirhugaðar götuþrengingar í borgarlandinu

Fyrir dyrum standa umfangsmiklar framkvæmdir í samgöngum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvort meirihlutinn hyggist vinna að frekari þrengingum gatna á næstunni svipuðum þeim á Hofsvallagötu og á Grensásvegi. Eins og vitað er hafa þrengingar verið afar umdeildar þar sem þær hafa leitt til enn meiri tafa á umferð. Borgarmeirihlutinn hefur ekki viljað ljá máls á úrlausnum og hefur t.d. vísað frá tillögu um snjallstýringu ljósa. Langar bílalestir sem rétt sniglast áfram eru ekki einungis ökumönnum til ama heldur öllum vegfarendum. Bílum í umferðinni fjölgar eins og nýjustu kannanir sýna. Ekki er endilega víst að borgarlína breyti því en áætlað er að uppbyggingu hennar ljúki um 2030-35. Almenningssamgöngur henta einungis broti af borgarbúum. Tímanna tvenna tekur að komast milli staða enda situr strætó fastur í umferðarteppum um alla borg. Óttast er að komið sé að þolmörkum. R19090128

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga Flokks fólksins að hraða uppsetningu hleðslustöðva sem fyrirhugað er að setja upp

Lagt er til að sá tími sem áætlaður er í að setja upp 90 viðbótar hleðslustöðvar verði styttur um helming og verði þær komnar upp innan eins og hálfs árs í stað þriggja ára. Komnar eru hlöður á nokkra staði í Reykjavík en betur má ef duga skal. Ljóst er að ef fólk getur ekki hlaðið rafbíla sína heima hjá sér og þarf að setja í samband við almenningshleðslur fælir það fólk frá að kaupa rafbíl en það mun tefja orkuskiptin. Það vantar hlöður í efri byggðir, t.d. Grafarvog og Breiðholt og reyndar miklu víðar. Þótt það séu hleðslustöðvar í hverfinu dugar það ekki ef aðeins er hægt að hlaða einn eða tvo rafbíla í einu. R19090129

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Tillaga Flokks fólksins að mæla þjónustustefnu borgarinnar

Lagt er til að mæla þjónustustefnu borgarinnar um ákveðna þætti. Til er stefna sem heitir Þjónustustefna borgarinnar en hún var samþykkt í nóvember 2016 og aðgerðaáætlun í september 2017. Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að margt í stefnunni sé ekki framkvæmt eða fylgt eftir. Eina leiðin til að komast að því hvaða hlutum hennar er ekki fylgt eftir, er að mæla árangur þátta svo sem hversu fljótt er leyst úr erindum o.s.frv. Þjónustustefnan er með átta áttavita. Flokkur fólksins myndi sérstaklega vilja láta mæla a.m.k. helming þeirra ef ekki alla: Hér eru fjórir af átta áttavitum sem mikilvægt er að mæla: Við komum fram við viðskiptavini af virðingu. Við leitum lausna og leiða í þágu viðskiptavina. Við vísum engum erindum frá. Við sinnum viðskiptavinum fljótt og vel. Ef mæla á áttavitana með trúverðugum hætti þarf að spyrja notendur þjónustunnar. Þetta þarf að gera af hlutlausum aðila. Kannski er ekkert til sem heitir algert hlutleysi en í það minnsta þarf að fá til verksins einhverja sem hafa engar tengingar við borgina nema að taka við þóknuninni fyrir könnunina. Flokkur fólksins myndi t.d. vilja kanna hjá leigjendum Félagsbústaða hversu vel þeim finnst erindum sínum sinnt í ljósi nýlegra breytinga hjá fyrirtækinu að senda ógreiddar kröfur til innheimtu hjá lögfræðingum. R19090130

Vísað til meðferðar mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráðs.

Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvert sé aðalmarkmiðið með að setja Miklubraut í stokk

Hvert er markmiðið skipulagsyfirvalda borgarinnar með að setja Miklabraut í stokk og hvað vinnst með því? Er gert ráð fyrir að aksturstíminn styttist eða er markmiðið aðallega að byggja meira t.d. á núverandi helgunarsvæði sem er meðfram götunni? Ef svo er, hvað er þá gert ráð fyrir miklu byggingarmagni? t.d. háhýsum? R19090131

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram fyrirspurn  Flokks fólksins um hvort skipulagsyfirvöld hafi nýtt sér vindgöng og líkön til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu

Háhýsi er þekkt fyrir að geta dregið vind niður að jörðu og myndað vindsveipi. Flokkur fólksins spyr hvort borgin hafi nýtt sér vindgöng og líkön til að mæla áhrif bygginga á vindhreyfingu ? Ef ekki, sér borgin ekki ástæðu til að nýta líkantilraunir til mæla vindáhrif? Hefur einhvern tíma verið reynt að mæla, í vindgöngum, áhrif af mismunandi lagi húsa á vindhreyfingar. Hægt er með slíkum tilraunum að prófa mismunandi gerðir háhýsa í og mæla hversu mikil áhrif húsin hafa á vindstreymi og hægt er að mæla hvar vindar skella niður að jörð. Form háhýsa skipta máli, ef hús eru stölluð eða mjókka upp eru minni líkur á að vindurinn skelli niður. R19090132

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram fyrirspurn Flokks fólksins um hvað gera á við allt það metan sem Sorpa framleiðir þegar ný stöð er risin í Álfsnesi

Hjá SORPU er verið að auka nýtingu á lífrænum úrgangi. Meðal annars með sérsöfnun á lífrænum eldhúsúrgangi. Nýja stöð er verið að reisa í Álfsnesi. Það þýðir að meira metan verður til. Flokkur fólksins spyr: Hvað á að gera við allt þetta metan? Ef það verður ekki nýtt sem orkugjafi, á þá að stækka metanbálið í Álfsnesi? Í komandi orkuskiptum spyr Flokkur fólksins hvort ekki þarf að leggja áherslu á að borgin nýti þetta metan eða selji það? R19090140

Vísað til umsagnar hjá stjórn SORPU.

Lögð fram fyrirspurn  Flokks fólksins um frekari endurheimtingu á votlendi í borgarlandinu

Meirihlutanum er tíðrætt um endurheimt votlendis í borgarsvæðinu. Flokkur fólksins spyr: Eru einhver svæði til í borgarlandinu núna sem skipta máli í endurheimt votlendis. Hvorki munu Laugamýri eða Kringlumýri verða endurheimtar, né Vatnsmýrin, en lítill hluti hennar er enn votlendi og verður væntanlega áfram. Hvaða aðrar mýrar í borgarlandinu er hægt að endurheimta? Óskað er eftir að fá lista yfir þær ef eru?  R19090137

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga Flokks fólksins að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur við einelti

Flokkur fólksins leggur til að farið verði kerfisbundið yfir viðbrögð grunnskóla Reykjavíkur gagnvart einelti með það að markmiði að kanna a) hvernig skólar sinna forvörnum og b) hver viðbrögð skólanna eru komi kvörtun um einelti. Markmiðið með kerfisbundinni yfirferð sem þessari er einnig að samræma hvorutveggja eftir því sem þurfa þykir þannig að allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis bæði hvað varðar forvarnir, viðbragðsáætlun og úrvinnsluferli. Flokkur fólksins leggur til að athugað verði sérstaklega hvort skólar í Reykjavík hafi þau verkfæri tiltæk og aðferðir, bæði almenn og sértæk til að geta tekið á móti og unnið með kvörtunarmál um einelti af öllum stærðargráðum með faglegum og skilvirkum hætti. Kanna þarf eftirfarandi sérstaklega: Er tilkynningareyðublað á heimasíðu? Er viðbragðsáætlun á heimasíðu? Er lýsing á úrvinnslu ferli kvörtunarmála aðgengileg á heimasíðu? Er upplýsingar á heimasíðu skólans hverjir sitja í eineltisteymi skólans? Er skýrt á heimasíðu hverjir taka við eineltiskvörtunum? R19090138

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur

Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðana um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundarráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að Skóla- og frístundarráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að Skóla- og frístundarráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinna í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef Skóla- og frístundarráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundir ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram  fyrirspurn  Flokks fólksins um hver ákveður hvar skekkjumörk liggja þegar gerðar eru kostnaðaráætlanir 

Fyrirspurn vegna viðbótarverka í tengslum við Klettaskóla sem leiddi til að farið var fram úr kostnaðaráætlun. Viðbótarverkin eru tilkomin að sögn meirihlutans þar sem ekki var hægt að sjá öll verk fyrir er vörðuðu húsbúnað, lóð og húsnæði. Fram hefur komið í svari frá borginni að í þessari framkvæmd er um að ræða framúrkeyrslu að upphæð 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7%. Fram kemur að það sé innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurt er: Hver og hvernig eru skekkjumörkin ákveðin og hverjar eru forsendurnar? R19090133

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Bókun Flokks fólksins við 8. lið fundargerðar ofbeldisvarnarnefndar frá 2. september 2019

Flokkur fólksins vill gera athugasemdir við dagskrá og fyrirkomulag sameiginlegs fundar borgarstjórnar og ofbeldisvarnarnefndar 10. september. Kynningar tóku megnið af fundinum sem aðeins var áætlaður um þrjá tíma. Tíminn sem borgarfulltrúar fengu til að ræða málið var afar takmarkaður. Þeim var skammtað þrjár mínútur á mann. Hér var um mikilvægt mál að ræða sem hefði þurft meiri umræðu. Á það skal minnt að fundir borgarstjórnar eru umræðuvettvangur og sá eini sem borgarfulltrúar hafa fyrir opnum tjöldum. Kynningar má lesa fyrir fundinn. Einnig er gerð athugasemd að ekki var leyft að senda inn bókanir á fundinum, „sagt að sé ekki hefð fyrir því“. Engu að síður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins bókað á sambærilegum fundi með fjölmenningarráði.

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar Sorpu frá 2. september

Fram kemur undir lið 1 í fundargerðinni að taka á lán, einn milljarð króna, til 15 ára til að mæta viðbótarkostnaði við byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Viðbótarkostnaðurinn er sagður tilkominn vegna mistaka/handvammar. Fyrir handvömmina eiga borgarbúar að greiða en enginn hjá SORPU mun ætla að axla ábyrgð. Því er mótmælt að seilast eigi í vasa borgarbúa til að greiða fyrir stjórnunarklúður SORPU og í framhaldinu á að láta eins og ekkert hafi í skorist. Svona vinnubrögð eru óásættanleg og ekki borgarbúum bjóðandi. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð. Finna þarf aðrar leiðir til að bæta fyrri skaðann en að senda notendum reikninginn.

Bókun Flokks fólksins undir lið  11.  fundargerðar skipulags- og samgönguráðs 11. september

Ekkert er fengið með lengingu gjaldskyldutímans og stækkun gjaldsvæðis annað en að fæla fólk sem kemur á bíl úr miðbænum. Sagt er að markmiðið sé „betri stýring umferðar, hagkvæmari nýting stæða og auknar tekjur.“ Þvert á móti er verið með þessu að fæla bílaeigendur frá því að koma í bæinn. Skilaboðin eru, „ekki koma í bæinn ef þú ætlar að koma á bílnum þínum“. Önnur rök eru: Hagkvæm nýting stæða? En málið er að nú þegar er slæm nýting stæða t.d. í bílahúsum. Hugnast ákveðnum hópum alls ekki að fara með bíl sinn inn í þau. Auknar tekjur eru önnur enn ein rökin meirihlutans? Varla verður mikið um auknar tekjur ef færri koma á bíl sínum í bæinn vegna ósanngjarnar stæðisgjaldtöku. Með þessu stefnir bærinn í enn einsleitari bæ þar sem ferðafólk og búendur hans fara um og kannski aðrir á tyllidögum. Þessi aðgerð mun leiða til frekari flótta fyrirtækja úr bænum og er nú nóg samt. Fara ætti í þveröfuga átt til að laða fólk í bæinn líka það fólk sem kemur á bílum. Hafa ætti bifreiðastæðaklukku sem hefur reynst afar vel víða og enga gjaldskyldu a.m.k. 2 tíma á daga í útistæðum og í bílastæðahúsum og gjaldfrjáls stæði í bílastæðahúsum á nóttum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillagna að fegrunarviðurkenningum Reykjavíkurborgar fyrir 2019 sem samþykkt var á fundi borgarráðs þann 22. ágúst 2019 og fært úr trúnaðarbók.

Flokkur fólksins vill aftur gera athugasemd við liðinn Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar 2019 vegna sömu atriða og 2018. Enn virðist ekki hægt að veita fegrunarviðurkenningu húsum utan ákveðins miðsvæðishrings. Hvað með hverfi eins og Skerjafjörð, Breiðholtið, Árbæ og Grafarvog? Flokkur fólksins telur mikilvægt að í hvert sinn sem borgin veitir viðurkenningu af hvers lags tagi skuli leitað vítt og breitt en ekki einblína á eitt svæði eða tvö. Á það skal bent að víða í úthverfum borgarinnar er verið að endurgera og endurnýja hús sem hefðu vel getað komið til greina við ákvörðun á fegrunarviðurkenningu borgarinnar. Vel mætti fjölga þessum viðurkenningum þar sem enginn kostnaður felst í því nema að kaupa blómavönd. Að veita svona viðurkenningu er hvatning fyrir fólk og ekki ætti endilega að leggja áherslu á að húsin hafi einhverja sérstaka sögu eða flokkist undir einhvern frægan byggingarstíl. Hugmynd Flokks fólksins sem hér er lögð fram í bókun er að velja mætti eitt hús í hverju hverfi til að veita viðurkenningu.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Miðflokksins um kostnað við Klettaskóla og ástæður vanáætlunar en verkefnið fór fram úr áætlun um rúmlega 300 milljónir 

Flokkur fólksins veltir fyrir sér öllum þessum viðbótarverkum í þessari framkvæmd sem leiddu til frávika í kostnaðaráætlun. Sagt er að það hafi ekki verið hægt að sjá þetta þetta fyrir. Í ljósi sögu borgarinnar sl. ár um framúrkeyrslur og vanáætlanir t.d. í braggaverkefninu, vitanum, mathöll og fleiri framkvæmdum virkar svona lagað tortryggileg. Varðandi viðbótarverkin er spurt hvort borgin hefði ekki geta sagt sér það strax að endurnýja þyrfti t.d. húsbúnaðinn og lóðina? Skortir ekki eitthvað á framsýni hér, að hugsa fram í tímann og sýna fyrirhyggju? Í þessari framkvæmd er um að ræða 348 m.kr. til hækkunar eða 9.7% sem er innan skekkjumarka áætlunargerðar. Spurning er hver ákveður skekkjumörkin og á hvaða forsendum? Flokkur fólksins fagnar annars öllum endurbætur í Klettaskóla enda löngu tímabærar og börn hafa allt of lengi stundað nám í afleitum aðstæðum. Viðbótarverk og frávik í kostnaðaráætlun er hins vegar ekki eitthvað sem hvorki kjörnum fulltrúum, embættismönnum eða starfsmönnum eiga að þykja vera í lagi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgrstjóra, dags. 9 september 2019, að flutningi á halla og afgangi vegna ársins 2018:

Í kafla 3.4. Færsla fjárheimilda á milli ára kemur fram að rekstrarafgangur á sviði/stofnun færist á milli ára ef rekja má hann með skýrum hætti til góðrar fjármálastjórnunar. Flokki fólksins er umhugað um að hér sé ekki um hipsum haps aðferðir að ræða. Í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla kemur fram að hjá skóla- og frístundasviði fá grunnskólar að halda afgangi sem nemur 2% af úthlutuðum fjárhagsramma en afgangur umfram þessi 2% rennur til sviðsins og þar með til að mæta halla þeirra sem höfðu ekki staðið sig jafn vel í rekstrinum. Óskað er skýringa á af hverju þetta gildir um grunnskólanna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er umhugað um að gætt sé jafnræðis í þessu sem öðru. Almennt séð eru reglur um yfirfærslu fjárheimilda flóknar. Erfitt getur verið fyrir aðra þ.e. aðra en þá sem velkjast um í fjármálaumhverfi borgarinnar að átta sig á hinum og þessum skilyrðunum/reglum og meta sanngirni þeirra og faglegar forsendur. Einfaldleiki og gegnsæi skiptir máli í þessu sem öðru.

Borgarráð
5. september 2019

Tillaga Flokks fólksins að lækka hámarkshraða á Laugarásvegi

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að hámarkshraði á Laugarásvegi verði lækkaður úr 50 km/klst. í 30 km/klst. Nauðsynlegt er að lækka hámarkshraskýrslaða á Laugarásvegi úr 50 km/klst. í 30 km/klst. í samræmi við aðrar götur í hverfinu þar sem íbúðarhúsnæði er þétt. Ökumenn aka jafnan vel yfir 50 km/klst. á Laugarásvegi sem skapar mikla hættu en mikið af börnum búa í götunni og leika sér fyrir framan húsin. Gatan er löng og þ.a.l. eiga ökumenn það til að auka hraðann verulega. Íbúar við Laugarásveg eru uggandi um börn sín og telja að það auki öryggi þeirra til muna verði hámarkshraði lækkaður í 30 km/klst. R19090067

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Tillaga Flokks fólksins að bílastæði í bílastæðahúsum borgarinnar verði gjaldfrjáls á nóttum.

Bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Bílastæðahúsin eru alls ekki nógu vel nýtt yfir daginn og notkun þeirra er enn minni á nóttinni. Gjaldskylda í bílastæði fellur niður á kvöldin en gjaldskylda er allan sólarhringinn í bílastæðahúsum. Til að stemma stigu við bílastæðavanda miðborgarinnar er því lagt til að það verði gjaldfrjálst að leggja í bílastæðahús á nóttinni, nánar tiltekið milli kl. 22:00 og kl. 8:00. Þannig er hægt að koma til móts við bílastæðavanda miðborgarinnar og auka notkun bílastæðahúsa. Þá er það einnig íbúum til góðs að leggja bílum sínum þar sem þeir njóta skjóls frá veðri og vindum. R19090068

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Breyting á fjárfestingar- og fjármögnunaráætlun SORPU V. 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka

Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna. Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðarsamlögum. Byggðasamlög eru ekki góð tilhögun þar sem ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á rúm 66 % í byggðarsamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er um 20 sinnum meiri en stjórnarmanns frá fámennasta sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík. Sorpa ætlar að fresta framkvæmduam. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir þvi að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu Skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til grunnskóla

Ef litið er til síðustu ára sést að áhersla hefur verið á framkvæmdir ýmissa verkefna sem snúa ekki beint að þörfum fólks. Við höfum fengið skýrslur um framúrkeyrslur og að sveitarstjórnarlög hafi verið brotin, hunsað að gera samninga eða fara í útboð skv. innkaupareglum. Á meðan hefur skólakerfið verið vanrækt með vaxandi vanlíðan barna og skólabyggingar hafa drabbast niður. Hróp skólastjórnenda hafa ekki náð eyrum borgarstjóra og skólaráðs. Alla vega hafa þessi aðilar ekki beitt sér í því að beina meira fjármagni til skólanna. Eftir hrun var erfið staða en 10 ár eru frá hruni og nú er borgin rekin með hagnaði. Í skýrslunni segir „viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi og safnast upp „innheimt óunnið viðhald“ þar sem SEA hefur tekjufært þetta án þess að viðhaldið væri unnið“. Skýrslan er kjaftshögg og svartari en von var á. Það er ekki haft samráð við fólkið á gólfinu og skólastjórar geta aðeins sent inn óskalista og svo bara beðið og vonað. Svona vinnubrögð geta aldrei leitt til góðs. Flokki fólksins finnst að börn séu ekki hátt skrifuð hjá borgarstjóra og finnst að skóla og frístundaráð hafi brugðist. Endurskoða þarf þetta kerfi frá grunni.

Fyrirspurn Flokks fólksins um að fá opinberað skjal frá fyrra ári með breytingum og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn

Skóla og frístundarsvið heldur utan um skjal með breytingum frá fyrra ári og óskum skólastjóra um viðbótarfjármagn. Þetta grunnskjal fer síðan til skoðunar og yfirferðar hjá fjármálaskrifstofu (FMS) og eftir atvikum tekur fjármálahópur og/eða meirihluti borgarstjórnar skjalið til meðferðar og samþykkir eða hafnar óskum skólastjórnenda sem þar koma fram. Flokkur fólksins óskar eftir að fá að sjá þetta breytingarskjal SFS frá síðasta ári og sjá hvaða meðferð óskir skólastjóra fengu, hvaða óskir voru samþykktar og hverjum var hafnað. Flokkur fólksins fer einnig fram á að fá í hendur hina svokölluðu 5 skóla skýrslu. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Borgarstjóri hefur neitað að opinbera þetta skjal. Óskað er eftir að hin svokallaða 5 skólaskýrsla verði opinberuð strax. R19050085

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Tillaga Flokks fólksins að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn að erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem mest

Lagt er til að fundnar verði leiðir til að tryggja að börn sem eru af erlendu bergi brotin heyri íslenskt mál sem oftast til að auka líkur þeirra á að tileinka sér íslensk mál sem fyrst. Þátttaka þeirra í umhverfi þar sem töluð er íslenska skiptir sköpum Fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar um úthlutun fjármagns til grunnskóla að börn af erlendu bergi sem eru fædd á Íslandi komu ekki nógu vel út úr prófi sem ætlað er að greina færni þeirra í íslensku. Fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu barna af erlendu bergi. Grunnur fyrir úthlutun er svokallað Milli mála málkönnunarpróf sem mælir færni þeirra í íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í grænan, gulan, og rauðan. Þau sem fá gulan eða rauðan þurfa aðstoð. Fjöldi barna sem fengu rauða niðurstöðu árið 2018 voru 1.797. 45 % af þeim eru börn sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum. Það er sláandi hvað mörg börn sem fædd eru á Íslandi og hafa alist upp í leik- og grunnskólakerfinu séu engu að síður svo illa stödd í íslensku. Þetta þarf sérstaklega að leggjast yfir. Finna þarf leiðir til að tryggja að þessi börn heyri íslensku nægjanlega oft og vel til að geta meðtekið hana sem sitt fyrsta mál.

Greinargerð

Finna þarf að finna skýringar á hvað gæti legið til grundvallar að 45% barna af 1797 börnum sem fengu rauða niðurstöðu eru af erlendu bergi brotin en fædd á Íslandi. Meðal skýringa gæti verið að foreldrar þeirra tali ekki íslensku og að íslenska sé ekki töluð á heimilinu.  Leita þarf fleiri skýringa t.d. hvort börnin séu í félagsstarfi og íþróttum. Það kemur fram í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hver sé fjöldi fjölskyldna í Fella og Hólahverfi sem búa við félagslega einangrun að fjöldi foreldra sem sækja fjárhagsstyrk er mestur í Breiðholti. Í tveimur hverfum, 109 og 111 er hins vegar notkun frístundarkortsins minnst eða 56% og 38% í póstnúmer 111.

Hér er um efnalitlar fjölskyldur að ræða jafnvel fátækar. Frístundarkort þessara barna er því kannski mikið til notað til að greiða gjald frístundarheimilis og þar með er barnið ekki að geta notað það í annað félags- eða tómstundastarf. Ef börn eiga að læra tungumálið þurfa þau að heyra það. Ef börn heyra ekki íslensku talaða á heimilinu skiptir öllu máli að þau heyri það í skólanum og í félags- og tómstundarstarfi. Þetta þarf að skoða ofan í kjölinn. Hægt er að sækja um aðra styrki en í svari hefur einnig komið fram að fæstar umsóknir um aukastyrki eru í Breiðholti. Vissulega er það val foreldra hvort þeir nota frístundarkortið til að greiða frístundarheimilið en  ef ekki eru til peningar á heimilinu er þetta að sjálfsögðu ekkert val. Tillaga Flokks fólksins er að þessum börnum verði veittur styrkur (þurfa ekki að sækja um hann sérstaklega) til að  standa straum af gjaldi frístundarheimilis til þess að þau geti notað frístundarkortið sitt í annað tómstundar- og félagsstarf.  Allt miðast þetta að því að börn af erlendu bergi geti verið sem mest í umhverfi þar sem talað er íslenska.

 

Gagnbókun Flokks fólksins undir 4. lið fundargerðarinnar vegna samráðsleysis meirihlutans við hagsmuna- og rekstraraðila í tengslum við lokanir gatna í miðbænum

Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hunsa skoðanir fjölda fólks, rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila sem hrópa á hlustun. Hugtakið „samráð“ hefur verið afbakað. Það sem meirihlutinn kallar samráð er að bjóða fólki til fundar, leyfa því að blása út en ekkert er síðan gert með óskir þeirra hvað þá kröfur. Eitthvað fékk fólk jú að segja til um hvar setja ætti bekki og blómapotta. Þetta er kallað  „mikið og gott samráð“. Nýjustu viðbrögð meirihlutans í borgarstjórn er að segja að „Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt“. Öll vitum við að umboð þessa meirihluta er tæpt og stendur hann því á brauðfótum. Að vísa í eitthvað umboð er örvæntingarviðbragð meirihlutans. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að í þessu máli stígi meirihlutinn aftur á bak um nokkur skref og byrji á byrjuninni sem er að hafa alvöru samráð.

Bókun Flokks fólksins undir liðum 19., 20., 21. og 22. lið fundargerðar Skipulags- og samgönguráðs frá 4. september

19: Tal um mikið og gott samráð meirihlutans við hagsmunaaðila vegna lokunar gatna er orðið hjákátlegt. Ekki er hægt að draga borgarbúa á asnaeyrum út í hið óendanlega. Minnt er á nýsamþykktar siðareglur þar sem hvatt er m.a. til heiðarleika. Hið meinta íbúasamráð í Ráðhúsinu er fátt annað en grín. Ekki hefur verið tekið mark á kröfum fólksins og kallast það því ekki samráð. Halda á til streitu að loka götum varanlega þrátt fyrir gargandi mótmæli. Ekkert lögformlegt samráð hefur verið haft á grundvelli 40. gr. skipulagslaga
20: Fjöldi ábendinga/kvartana sem borist hafa Strætó bs er sláandi og snúa þær að mestu að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningar eins og segir í svari. Skoða þarf hvað er þarna í gangi.
21: Meirihlutinn hafnar samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila þrátt fyrir margítrekað ákall. Hér er með fordæmalausum hætti gengið fram hjá hagsmunaaðilum sem hafa  haft lífsviðurværi sitt á þessum götum.
22: Tillaga að  heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar í 120 mínútur á dag er felld. Bílastæðahúsin eru illa nýtt. Ekki er áhugi fyrir að kanna ástæður og finna leiðir til að þau verði betur nýtt til að laða t.d. íslendinga í bæinn. Það kostar líka að hafa tóm bílastæðahús.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Bréf borgarstjóra þess efnis að lagt er til að Secret Solstice verði með sama sniði og á sama stað næsta ár, 2020

Borgarstjóri vill að tónleikar Secret Solstice verði haldnir með sambærilegu sniði og var í ár í Laugardal dagana 26. – 28. júní 2020. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að haft verði samráð við íbúa í nágrenninu og foreldrafélög. Framkvæma á könnun og verður það að vera gert af óháðum, viðurkenndum aðila. Flokkur fólksins vill að beðið verði eftir niðurstöðum og verði þær á þann veg að ekki sé vilji til að halda hátíðina í Laugardalnum ber borginni að una því. Hér er verið að segja að íbúar áhrifasvæða tónleikanna ákveði hvort hátíðin skuli haldin aftur á þessum stað. Að leggja fyrir könnun í þeim tilgangi einum að bregðast við ábendingum segir ekkert um hvort fólk sé almennt sátt við að hafa þessa hátíð aftur í Laugardalnum. Íbúar eiga að ráða þessu.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Yfirlit yfir ábendingar innri endurskoðanda um Nauthólsveg 100

Lagt er fram yfirlit yfir ábendingar og niðurstöður í skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Það er gott að vita til þess að ekki sé búið að gleyma braggamálinu og annað þar sem farið var á svig við sveitarstjórnarlög s.s. ekki gerðir samningar og ekki farið í útboð svo fátt sé nefnt. . Skýrslan um braggann er ein sú svartasta sem sést hefur og áfellisdómur á borgarkerfið. Fleiri slíkar skýrslu fylgdu í kjölfarið. Í skýrslunni rakti innri endurskoðandi fjölda atriða sem brást, þætti sem ekki er hægt að setja á reikning mistaka. Margstaðfest hefur verið að ábendingar hafa verið hunsaðar árum saman og hafa eftirlitsaðilar ítrekað bent á það í opinberum gögnum. Hvað þessu yfirliti líður og að fara eigi í að laga hluti þá er engu að síður langt í land með að byggja upp traust í garð borgarkerfisins. En vonandi liggur núna einhver alvara hér að baki.

Velferðarráð
4. september 2019

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Stöðumat á kaupum hjá Félagsbústöðum og yfirlit úthlutana í félagsleg húsnæði

Það sem vekur áhyggjur er að Félagsbústaðir hafa fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Ef fólk fer í skuld, stóra eða smáa er skuldin send kerfisbundið til lögfræðinga í innheimtu. Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar, sett á laggirnar til að halda utan um okkar verst settu borgarbúa. Enginn leikur sér að því að borga ekki. Margir hafa kvartað og stendur ógn af því Félagsbústaðir skuli siga á þá lögfræðingum eins og fólk orðar það sjálft. Oft er um að ræða fólk sem hefur staðið í skilum en eitthvað komið upp á. Dæmi er um að einn mánuður í skuld er sendur umsvifalaust til Motus. Það er umhugsunarefni að Félagsbústaðir skuli velja að beina skjólstæðingum í þessa átt í stað þess að gefa þeim tækifæri til að dreifa skuld sinni hjá Félagsbústöðum. Skjólstæðingar Félagsbústaða hafa lítið milli handanna og eru í viðkvæmri stöðu. Okkur ber að hafa gagnrýna hugsun og taka allar ábendingar til greina og skoða með hvaða hætti hægt er að bæta starfsemina og gera enn betur í þágu notenda þjónustunnar. Reglur eru vissulega nauðsynlegar en þær þurfa að vera manneskjulegar, sanngjarnar og taka mið af aðstæðum hvers og eins.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og hætti alfarið að senda skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum

Eins og fram kemur í kynningu hefur verið fallið frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins. Kallað er eftir í velferðarráði að minnihlutinn komi með hugmyndir að lausnum fyrir Félagsbústaði sem nú hefur ákveðið að senda skuldir, smáar og stórar í innheimtu hjá lögfræðingum.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir hætti við að falla frá því að gera samkomulag um greiðsludreifingu og greiðslufresti á skrifstofu félagsins heldur semji sjálft við fólk sem komið er í skuld og spari með því að borga lögfræðingum út í bæ fyrir að innheimta skuld af fólki sem berst í bökkum.

Fyrirspurn Flokks fólksins leggur um aðferðir velferðarsviðs til að upplýsa fólk um styrki á grundvelli 16.gr. a:

Hvað gerir velferðarsvið til að upplýsa fólk um að hægt sé að sækja um styrk á grundvelli 16. greinar a í reglum um fjárhagsaðstoð? Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda fjölskyldna í Fella- og Hólahverfi sem búa við félagslega einangrun kemur fram að fjöldi foreldra með fjárhagsstöðu til framfærslu sem sækja um styrk á grundvelli 16. gr. a í reglum um fjárhagsaðstoð (styrkur t.d. til að greiða daggæslu barna í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili, sumardvöl og eða þátttöku í tómstundastarfi) er mestur í Breiðholti. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hverju þetta sætir og hvort ástæður liggi í skorti á upplýsingum um þessa 16. grein a. Spurt er hvað og hvort velferðarsvið þurfi ekki að gera miklu meira en gert er til að upplýsa fólk um að hægt er að sækja um styrk á grundvelli 16. gr. a í reglum um fjárhagsaðstoð t.d. til þess að þurfa ekki að nota frístundarkortið sem gjaldmiðil til að greiða gjald frístundaheimilis.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Ferðaheimild Velferðarráðs jan- til júní 2019

Listi yfir ferðir starfsmanna og kjörinna fulltrúa janúar til júní 2019 Samkvæmt verklagsreglum um ferðaheimildir og greiðslu ferðakostnaðar í ferðum á vegum Reykjavíkurborgar (FMS-VLR-029) er lagt fram. Hér er um að ræða 1.8 millj. Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir ferðir síðustu þriggja  ára og fá upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi.

Fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir starfsmanna þriggja ára og kostnað við þær 

Í yfirliti sem lagt hefur verið fram og nær yfir síðasta hálfa ár er um að ræða 1,8 millj. Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir ferðir síðustu þriggja ára og fá upplýsingar um kostnað borgarinnar í því sambandi. Einnig er kallað eftir hvaða stefnu velferðarsvið og ráðið hefur um ferðir erlendis og kostnað í sambandi við þær?

Bókun Flokks fólksins  við afgreiðslu tillögu um samstarf við ríkið um útgáfu heildstæðs upplýsingabæklings fyrir foreldra fatlaðra barna, fatlaða einstaklinga og eldri borgara

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins.

Bókun Flokks fólksins: Í þessari tillögu Flokks fólksins sem nú er til afgreiðslu í velferðarráði er talað um að velferðarsvið eigi frumkvæði að samtali og samvinnu við ríkið að gera sameiginlegan bækling um réttindi fólks þar sem skilgreint er hvað er á forræði borgarinnar og hvað er á forræði ríkisins. Tillagan hefur verið felld í velferðarráði. Þessi tillaga er hugsuð til að ríki og borg geti tengst í sameiginlegu átaki í þágu íbúanna og að koma upplýsingum til þeirra með skýrum hætti þannig að fólk sjái á einum stað hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins. Meirihlutinn verður að hlusta á fólkið. Að hlusta á fólk, þarfir þess, óskir og væntingar krefst engrar pólitíkur. Nefnt var dæmi í tillögunni um konu, móður fatlaðs einstaklings sem er oft búin að greiða meira en henni ber vegna þess að hún veit ekki betur og jafnvel sá sem tekur við peningunum veit ekki betur. Stærsti vandinn er að fólk veit ekki hvað er borgarinnar og hvað er ríkisins.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um útgáfu bæklings um framlag eldri borgara til samfélagsins, sbr. 15 lið fundargerðar velferðarráðs 21. ágúst 2019.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá.

Bókun Flokks fólksins: Tillaga er um að gefa út bækling um framlag eldri borgara til samfélagsins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill að vel sé haldið utan það sem þessi hópur er að leggja til samfélagsins og það tryggt að sé opinbert. Borgarfulltrúi virðir ólíkar skoðanir í garð verkefnisins en finnst engu að síður að hægt hefði verið að vinna áfram með þessa hugmynd í einhverri útfærslu.

Bókun Flokks fólksins við svari velferðarráðs við fyrirspurn Flokks fólksins um stöðu barna í Fella- og Hólaskóla.

Af svari að dæma er stór hópur barna félagslega einangruð í Breiðholti. Þar ríkir einnig hvað mesta fátæktin. Í Breiðholti býr einnig hæsta hlutfall fólks sem er af erlendu bergi brotið. Í Breiðholti á stór hópur barna erfitt uppdráttar. Þetta kemur t.d. fram í skýrslu innri endurskoðunar (IE) um úthlutun fjármagns til grunnskóla. Félagsleg blöndun hefur mistekist í Breiðholti og eru afleiðingar að verða okkur æ skýrari. Hlutfallslega eiga börn í Breiðholti erfiðast með íslenskuna sem eykur en hættuna á einangrun, bæði að einangrast sem einstaklingar og einnig sem hópur.  Fram kom í skýrslu IE að  fjármagni er úthlutað sérstaklega til grunnskóla vegna kennslu barna af erlendu bergi. Grunnur fyrir úthlutun er svokallað Milli mála málkönnunarpróf sem lagt er fyrir börn sem hafa annað móður mál en íslensku en prófið er ætlað að greina færni þeirra í íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í grænan, gulan, og rauðan. Þau sem fá gulan eða rauðan þurfa aðstoð. Fjöldi barna sem fengu rauða niðurstöðu árið 2018 voru 1.797. 45 % af þeim eru börn sem fædd eru á Íslandi af erlendum foreldrum. Hér er mögulega enn ein skýring þess að fjölskyldur og börn á þessu svæði eru svo einangruð sem raun ber vitni.

Tillaga Flokks fólksins um breytingar á bæklingi velferðarsviðs fyrir eldri borgara

Tillaga Flokks fólksins að nokkrum breytingum sem gera má á þeim bæklingi sem borgin sendir öllum þeim sem verða 75 ára. Bæklingur sem þessi þarf auk þess að vera aðgengilegur helst að byrja á sérstökum kafla þar sem upplýsingar um réttindi sundurliðuð eftir hópum eru listaðar upp, gerð grein fyrir þeim í stuttu máli, og hvað það er sem er neytendum að kostnaðarlausu og hvað er gegn gjaldi.
Fallegar myndir eru ekki atriði í svona bæklingi. Mikilvægt er að hafa upptalningu á félagsmiðstöðvum, félagasamtökum, og stöðum þar sem hægt er að fá keyptar máltíðir. Einnig hvaða matvöruverslanir senda heim vörur ef keypt er fyrir ákveðna lágmarksupphæð. Í bæklingnum mættu vera upplýsingar um hvar eldri borgarar fá sálfræðiþjónustu eða annan stuðning. Nefna þarf samtök og félög sem styðja við bakið á eldri borgurum t.d. vinaheimsóknir Rauða Krossins. Í bæklingnum ættu að vera upplýsingar sem gagnast þeim sem eru ánetjaðir lyfjum eða áfengi og hvert hægt er að sækja aðstoð. Hugsa þarf svona bækling að hann sé fyrir breiðan hóp fólks, bæði þá sem eru efnaðir og efnaminni sem og fátækir og/eða einmana og einangraðir. Þetta er sennilega aðeins smá brot af því sem mætti nefna til að bæta bækling þann sem hér um ræðir.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til meðferðar velferðarssviðs og Öldungaráðs til nánari vinnslu.
Samþykkt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Gjaldskrár Velferðarsviðs 2020

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er andvígur öllum hækkunum á gjaldskrá á þessum tímapunkti. Hækkanir þótt jafnvel séu hóflegar geta komið viðkvæmustu hópunum illa. Finna þarf aðrar leiðir en að hækka gjöldin til að mæta auknum kosnaði við að veita fullnægjandi þjónustu. En hér er vissulega aðeins um fyrstu drög að ræða og eiga gjaldskrár eftir að fara í frekari vinnslu.

 

Borgarstjórn
3. september 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli. Borgarstjórnarfundir eru tvisvar í mánuði að meðaltali 6-7 klukkustundir hver. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna. Íslenska og táknmál heyrnarlausra eru jafn rétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta. Að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er vel gerlegt. Hægt er að sjá fyrir sér að túlkunin yrði í útsendingunni frá fundinum, þ.e. sér myndavél væri á túlkinum og túlkunin í glugga á skjánum. Þá getur fólk farið inn á útsendinguna hvar sem það er statt í borginni. Kostnað við að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi er lagt til að verði tekið af liðnum „ófyrirséð“. Verkið yrði boðið út samkvæmt útboðsreglum borgarinnar. Í útboði þarf að tryggja að þeir sem gera tilboð í verkið séu með menntun á sviði táknmálstúlkunar. Þær tæknilegu breytingar sem þyrftu að koma til færu einnig í útboð.
Greinargerð fylgir tillögunni. R19090030 (sjá neðar undir Forsætisnefnd).

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar forsætisnefndar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er um mannréttinda- og réttlætismál að ræða og á meirihlutinn ekki að sjá eftir fé sem fer í að túlka borgarstjórnarfundi. Íslenska og táknmál eru samkvæmt lögum jafn rétthá. Borgarfulltrúa þykir miður að hlusta á viðbrögð meirihlutans en borgarfulltrúi Samfylkingar í ræðu sinni talaði strax tillöguna niður og vildi meina að túlkun eins og þessi kostaði mikið álag, mikið fé og að ekki hafi heyrst háværar raddir eftir þessari þjónustu o.s.frv. Það er ekki borgarfulltrúa að meta hvort táknmálstúlkun er erfið eða flókin eða kalli á mikinn undirbúning heldur þeirra sem ráðnir yrðu til að túlka. Að öðru leyti fagnar borgarfulltrúi Flokks fólksins að tillögunni var alla vega vísað áfram en hvorki felld né vísað frá á þessu stigi.

Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun og fjárhagsramma  til grunnskóla Reykjavíkur
Gagnbókun Flokks fólksins  undir 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst:

Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og reksturs til grunnskóla Reykjavíkur barst borgarfulltrúum öðrum en þeim sem sitja í skóla- og frístundarráði fyrst til eyrna í fjölmiðlum. Þetta sætir furðu. Þessa skýrslu hefði átt að senda öllum borgarfulltrúum um leið og hún kom út. Á þessu er óskað skýringa. Efni skýrslunnar kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Lengi hefur verið vitað að skólakerfi borgarinnar hefur verið svelt árum saman. Hver ætlar að taka ábyrgðina á því? Er ekki alveg ljóst að þeim sem vermt hafa formannssæti skóla- og frístundarráðs sl. 10 ár hafi mistekist? Þessum formönnum hefur mistekist að glíma við fjármálaöfl borgarinnar, fjárveitingarvaldið (FMS) eins og vísað er í í skýrslu IE. Það er hópurinn sem ákveður upphæðirnar og í hvað átt peningar borgarbúa fara en aðeins eftir atvikum fer skjalið til skoðunar hjá meirihlutanum og borgarstjóra. Síðan er það hið ótrúlega plástraða úrelta excel skjal sem virðist lifa sjálfstæðu lífi í borgarkerfinu. Skólastjórar fá enga aðkomu að ákvörðun um ramma sinnar stofnunar. Þeir mega bara senda inn óskalista og fá aðeins brot af þeim óskum uppfylltum eins og segir í skýrslunn: Skólarnir standa almennt frammi fyrir því að nánast allir rekstrarliðir fá of knappt fjármagn.

Lokanir Laugavegar og Skólavörðustígs.
Bókun  Flokks fólksins undir 12. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí:

Nú hefur þessi skipulagslýsing verið samþykkt þrátt fyrir að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem þessar breytingar snerta mest. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur ákveðið að hunsa skoðanir fjölda fólks, rekstraraðila og aðra hagsmunaaðila sem hrópa á hlustun. Engu breytir þótt glæný könnun sýni með afgerandi hætti að meirihlutinn í borginni er á móti þessum breytingum. Það sem meirihlutinn kallar samráð er að bjóða fólki til fundar, leyfa því að blása út en ekkert er síðan gert með óskir þeirra hvað þá kröfur. Ekki er einu sinni reynt að mæta borgarbúum á miðri leið. Þetta er taktík sem meirihlutinn í borginni bregður fyrir sig og þetta kallar „mikið og gott samráð“. Nýjustu viðbrögð meirihlutans í borgarstjórn er að segja að „Flokkarnir sem mynda meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur höfðu allir þá stefnu að gera Laugaveg að varanlegri göngugötu og umboð kjósenda því skýrt“. Öll vitum við að umboð þessa meirihluta er tæpt og stendur hann því á brauðfótum. Að vísa í eitthvað umboð er því túlkað sem örvæntingarviðbragð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að í þessu máli stígi meirihlutinn aftur á bak um nokkur skref og byrji á byrjuninni sem er að hafa alvöru samráð.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um snjallvæðingu í umferðar- og ljósastýringu 2020

Flokkur fólksins hefur verið með fjölmargar tillögur sem miðast að því að létta á umferð og leysa verstu hnútana m.a. tillögu um ljósastýringu. Engin þeirra hefur svo mikið sem fengið vitsmunalega umræðu heldur afgreiddar með einhverri rakaleysu.  Þessi tillaga sem nú er lögð fram, að undirbúa útboð vegna ljósastýringar og snjallvæðingar í umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu ætti að vera fyrir löngu komin fram og auðvitað að frumkvæði meirihlutans.  Til áþreifanlegra ráða þarf að grípa enda er ástandið í umferðarmálum borgarinnar grafalvarlegt og varla um annað talað. Forstjóri Strætó hefur komið með þá hugmynd að vagnarnir aki á móti umferð til að komast aðeins hraðar en fetið þegar umferðarþunginn á morgnana og síðdegis í höfuðborginni er sem mestur. Þetta er örvæntingaróp stjórnanda um að fá einhverja lausn og það ber að virða þótt hugmyndin sé óraunhæf. Meirihluti borgarstjórnar, núverandi og fyrrverandi, hafa ekki tekið á þessum málum ella væri staðan ekki svona slæm. Viðbrögðin hafa verið meira í áttina að því að vilja strípa miðbæinn af bílum. Þeir sem þrjóskast við, þeim er hótað með tafagjöldum.  Ýmis inngrip meirihlutans ætluð til lausna hafa verið sérkennileg og jafnvel gert ástandið verra. Nærtækt dæmi er að hleypa umferð upp Laugaveginn eða loka fyrir beygur víðs vegar án skiljanlegra raka eða sjáanlegs ávinnings.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um innleiðingu matarstefnu

Af hverju framkvæmdarhluti stefnunnar er lagður fram akkúrat núna á fundi borgarstjórnar er kannski vegna sérkennilegs málflutnings oddvita VG í síðustu viku þar sem hún stökk fram og sagðist vilja draga úr dýraafurðum.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af þessum öfgum og á því erfitt með að treysta hvað verður í reynd þótt matarstefnuplaggið virðist frekar saklaust. Borgarfulltrúa hugnast engar öfgar í þessu frekar en öðru og óttast forræðistilhneigingu meirihlutans. Í skýrslu innri endurskoðunar kemur fram að „SFS telur að matarstefna borgarinnar setji skólasviðinu þröngar skorður hvað varðar valkosti m.a. með tillliti til frekari útvistunar á þjónustu skólamötuneyta“. Þetta er áhyggjuefni. Í tillögunni er talað um að það sé grundvallarmannréttindi að hafa aðgengi að heilsusamlegum og öruggum mat. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins minna á að 3700 manns fengu ekki að borða í sumar þegar góðgerðarsamtök lokuðu. Hvar eru mannréttindin fyrir þennan stóra hóp? Reykjavíkurborg ber sem sveitarfélag skylda samkvæmt lögum að sjá til þess að allir fái grunnþörfum sínum fullnægt. Á ekki borgarmeirihlutinn að byrja að tryggja að allir fái að borða áður en hann fer að koma með yfirlýsingar um hvað eigi að vera á diskunum okkar?

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um hönnunarsamkeppni um nýjan leik- og grunnskóla í Skerjafirði.

Flokkur fólksins veltir fyrir sér tímaásnum í þessu sambandi. Það er varla komin röðin að hönnunarsamkeppni þegar deiliskipulagið í Skerjafirði hefur ekki verið samþykkt? Þetta hefur ekkert að gera með að vera með eða á móti leikskólum. Vonandi rísa þeir upp hið fyrsta eftir að deiliskipulag í Skerjafirði hefur farið í umhverfismat og í kjölfar þess fengið samþykki. Á þessum sama fundi í dag er einmitt lagt til að Skerjafjörðurinn fari í umhverfismat.
Flokkur fólksins veltir líka fyrir sér kostnaði við hönnunarsamkeppni sem þessa. Eitthvað hlýtur svona ferli að kosta borgina og þess þá heldur skiptir máli að keppni af þessu tagi sé á eðlilegum tímapunkti. Í ljósi nýútkominnar svartrar skýrslu innri endurskoðanda um ástandið í skólakerfinu eftir langvarandi svelti skólakerfisins verður að huga að ráðdeild og hagkvæmni. Mikilvægt er að flýta sér hægt og tryggja með því auknar líkur á að fé borgaranna sé vel varið. Flokkur fólksins greiðir því atkvæði gegn tillögu um að efna til hönnunarsamkeppni sem snýr að Skerjafirði á þessum tímapunkti. Til stendur að fylla fjörur Skerjafjarðar á stóru svæði. Umhverfismat verður því að fara fram áður en farið er í svo viðamikla óafturkræfa framkvæmt þar sem dýrmætt landsvæði og einstakar fjörur eru undir.

 

Forsætisnefnd
30. ágúst 2019

Bókun Flokks fólksins, Miðflokksins og Mörtu Guðjónsdóttur Sjálfstæðisflokki við liðnum Siðareglur, staðfesting á fundi Forsætisnefndar við staðfestingu siðareglna

Borgarfulltrúar Flokks fólksins, Miðflokksins og Marta Guðjónsddóttir Sjálfstæðisflokki eru ekki mótfallnar þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn höfum við hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvarlega. Oft er  farið í manninn í umræðunni og reynt að klekkja á minnihlutafulltrúum. Sem dæmi var það mjög óviðeigandi þegar reglur um skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa voru ræddar á borgarstjórnarfundi í vor þegar sá óviðeigandi hlutur gerðist að forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa. Aftur núna voru persónulegir hagsmunir borgarfulltrúa ræddir í fréttum á Rúv af sama borgarfulltrúa meirihlutans. Það getur varla samræmst siðareglum að ræða persónulega þætti borgarfulltrúa á opinberum vettvangi hvað þá að draga slíkt inn í dagsrkárliði borgarstjórnar sem eru í beinni útsendingu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að borgarstjórnarfundir verði túlkaði á táknmáli.
Lögð fyrir fund Borgarstjórnar 3. september 2019

Borgarstjórnarfundir eru tvisvar í mánuði að meðaltali 6-7 klukkustundir hver.

Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnaskertra og heyrnalausra einstaklinga.  Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar hvaðan æfa úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna.

Íslenska og táknmál  heyrnarlausra eru, jafnrétthá. Talið er að um 350-400 einstaklingar/manns reiða sig á íslenskt táknmál til tjáningar og samskipta.  Að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er vel gerlegt. Hægt er að sjá fyrir sér að túlkunin yrði í útsendingunni frá fundinum, þ.e. sér myndavél á túlkinn og túlkunin í glugga á skjánum.  Þá getur fólk farið inn á útsendinguna hvar sem það er statt í borginni. Kostnað við að táknmálstúlka borgarstjórnarfundi er lagt til að verði tekið af liðnum „ófyrirséð“

Verkið yrði boðið út skv. útboðsreglum borgarinna. Í útboði þarf að tryggja að þeir sem gera tilboð í verkið séu með menntun á sviði táknmálstúlkunnar. Þær tæknilegu breytingar sem þyrftu að koma til fari einnig í útboð.

Greinargerð

Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls frá 7. júní 2011 3 gr. segir að Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Segir enn fremur að stjórnvöld skulu hlúa að því og styðja.  Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.
Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra segir:
Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega og fræðslu- og afþreyingarefni sem ætlað er almenningi verði gert þeim aðgengilegt með textun á íslensku eða túlkun á íslenskt táknmál eftir því sem við á.
Óheimilt er að neita heyrnarlausum, heyrnarskertum eða daufblindum manni um atvinnu, skólavist, tómstundir eða aðra þjónustu á grundvelli heyrnarleysis eða þess að hann notar táknmál.  Vísað er einnig í Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) en hann er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til þess að tryggja réttindi fatlaðs fólks.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu samninginn árið 2007, fullgiltu hann 2016 en hafa enn ekki lögfest hann. Alþingi samþykkti vorið 2019 þingsályktunartillögu sextán þingmanna að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa lögfestingu SRFF og að frumvarpið skuli lagt fyrir Alþingi eigi síðar en 13. desember 2020.
Lögfesting samningsins mun tryggja að fatlað fólk á Íslandi geti byggt rétt sinn á samningnum með beinum hætti. Það þýðir verulega réttarbót.
Í samningnum segir: Aðildarríkin skuldabinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.

 

Flokkur fólksins óskar eftir að fram fari umræða um ábyrgð borgarinnar á fólki sem á ekki peninga til að kaupa sér mat.

Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki eiga peninga til að kaupa mat fengu ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu.
Eitthvað er að í samfélagi sem þarf að treysta á frjáls félagasamtök til að gefa fátæku fólki að borða. Staða hagkerfisins er góð og borgin segist skila hagnaði en engu að síður þurfa á fjórða þúsund manns að treysta á frjáls félagasamtök til að fá grunnþörfum sínum fullnægt eins og að fá að borða. Hver er eiginlega ábyrgð stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu?
Eiga hundruð manna að treysta á frjáls félagasamtök til að fá að borða og ef eitthvað brestur hjá þeim á þetta fólk ekki til hnífs og skeiðar.
Flokkur fólksins vill ræða og skilgreina  ábyrgð borgaryfirvalda á fátæku fólki. Óskað er eftir umræðu um hvernig borgarstjórn vill leysa málefni þessa hóps.

Tillaga Flokks fólksins um skýrari reglur í kringum móttöku/viðburðar í kjölfar svars við liðnum: Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um mótttökureglur

Flokkur fólksins þakkar svarið og leggur til i framhaldi að  í hvert skipti sem boðið er til móttöku að fram komi tilefnið og hvernig það þjóni hagsmunum Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga og/eða  samræmist  hlutverki Reykjavíkur sem höfuðborgar og hvernig það sé í samræmi við samþykkta stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda.

Ennfremur er óskað eftir þegar boðið er til móttöku að fram komi upplýsingar um áætlaðan kostnað og fljótlega eftir að viðburði líkur eða í næsta yfirliti sem lagt er fram komi þá endanlegur kostnaður vegna sérhverrar móttöku

Borgarráð
29. ágúst 2019

Bókun Flokks fólksins við 6 mánaða uppgjöri fjármálaskrifstofu

Fram kemur í kynningu fjármálaskrifstofu í 6 mánaða uppgjöri að 49% af nettó útgjöldum í hlutfalli af skatttekjum borgarinnar fer í Skóla- og frístundarsvið. Sviðið er með 1 m.kr umfram fjárheimildir. Engu að síður er ástandið í skólamálum slæmt. Ástand skólahúsnæðis vegna viðhaldsleysis sl. 10 ára með tilheyrandi afleiðingum, raka og leka (myglu) er vel þekkt orðið. Nú liggur fyrir skýrsla innri endurskoðanda sem staðfestir þetta og fleiri vandamál. Í skýrslunni segir að mismunandi skilningur er á milli skólastjórnenda og fjárveitingarvaldsins hjá Reykjavíkurborg um hversu mikið fjármagn þarf til að reka grunnskóla í borginni. Lítið svigrúm er til hagræðingar innan skólanna og gripið er til sameiningar og lokana oftast í óþökk foreldra og jafnvel skólastjórnenda. Í sérkennslu fara um 5 milljarðar en hún er ekki árangursmæld og því óljóst hvort hún sé að skila sér sem skyldi til barna sem hennar njóta. Það er erfitt að átta sig á hvert borgarmeirihlutinn er að fara í skólamálum borgarinnar. Kapp er lagt á að allt lítið vel út á yfirborðinu, skóli án aðgreiningar og allt það. Af þessu að dæma má e.t.v. hlýtur það að liggja í augum uppi að fé sem veitt er í skólakerfið sé einhvern veginn ekki að nýtast.

 

Bókun Flokks fólksins við lið 1 Skýrsla innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma og rekstur skóla í fundargerð Skóla- og frístundarsviðs dags. 20 ágúst.

Fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda að viðhaldi skólanna hefur ekki verið sinn sem skyldi sl. 10 ár vegna niðurskurðar. Fjárveitingavald borgarinnar virðist ekki skilja að sinna þarf húsum ef þau eiga ekki að grotna niður. Nú á að setja í þetta  300 milljónir sem er eins og dropi í hafið ef tekið er mið af ástandi skólabygginga. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í Borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Vandi skólanna er mikill og hefur haft alvarleg líkamleg og andleg áhrif á kennara, starfsfólk og nemendur. Gera þarf stórátak í þessum málum og verja í hann 1-2 milljörðum. Stokka þarf upp á nýtt forgangsröðun borgarinnar þegar kemur að útdeilingu fjármagns, setja á fé í þjónustu við börnin og fresta dýrum skreytingarverkefnum á meðan. Hégómleg verkefni eiga ekki við ef börnin þurfa að sækja skóla í ónýtum skólabyggingum.  Fjármagnið er of knappt eins og fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar. Ætla mætti að ekki þurfi innri endurskoðanda til að segja valdhöfum borgarinnar að gyrða sig í brók í þessum málum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur er varða launahækkun forstjórans

Borgarfulltrúi Flokks fólksins mótmælir svo mikilli launahækkun forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur. Nú hefur starfskjaranefnd ákveðið að hækka laun forstjóra um 5.5% í stað 3.7% og er hækkun afturvirk til 1. mars.

Hækkunin nemur um 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin hefur verið gagnrýnd  enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%.
Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Hækkun forstjórans á einu bretti nemur helmingi af launum þeirra sem er lægst launaðir í borginni.

Bókun Flokks fólksins við Grænbók um flugsamgöngur, umsögn Reykjavíkurborgar

Allt er í góðu með að vinna grænbók og huga til næstu ára en staðreyndin er engu að síður sú að flugvöllurinn í Vatnsmýri er ekki að fara neitt næstu árin og fer ekki fyrr en ný staðsetning er fundin sem talin er fullkomalega henta, sem þjónar landinu öllu og sem getur þjónað fullnægjandi öryggishlutverki. Þar til verður flugvöllurinn í Vatnsmýrinni áfram öryggisflugvöllur og  æfingar- og kennsluflugvöllur.

Bókun Flokks fólksins við úrskurði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í máli vegna álagningar Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi

Fyrr á þessu ári komst samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að þeirri niðurstöðu að vatnsgjöld vegna ársins 2016 hefðu verið of há. Búið er að endurreiknað vatnsgjaldið, leiðrétta og endurgreiða afturvirkt og því ber að fagna. Það er ekki annað hægt að segja en að þetta sé hið mesta leiðindarmál en sem betur fer virðist sem fyrirtækið sýni auðmýkt núna í það minnsta var farið í að leiðrétta þessa oftöku gjalds en það þurfti vissulega úrskurð til. Það var ekki að frumkvæði Orkuveitunar að kanna hvort seilst hafi verið of mikið í vasa borgaranna heldur er það einstaklingur sem fer af stað með málið.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvað borgin ætlar að setja mikið fjármagn í Lean

Nú heyrist æ oftar að meirihlutinn í borginni kynnir með stolti fyrirhugaða innleiðingu Lean/Straumlínustjórnun. Lean er lýst sem umbótarkerfi sem snýst um að finna út hvað er virði fyrirtækisins í augum viðskiptavinarins og finna þær aðgerðir sem skapa virði, sem skapa ekki virði og eru sóun.  Það er vissulega gott og blessað. Það er hins vegar alþekkt að sums staðar sem Lean hefur verið innleitt þá hefur það ekki tekist vel, ekki virkað og ekki verið mikil ánægja með það. Sums staðar hefur það hreinlega alls ekki verið virkað og starfsmenn verið því andsnúnir. Hér er um að ræða mikla fjármuni, sem sennilega hleypur á tugi milljóna og ef Lean kerfið á ekki við þá er er þessum fjármunum sóað.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvað miklum fjármunum er stefnt að því að verja í innleiðingu Lean og hvar innan borgarkerfisins verður það innleitt?
Hvað hefur verið gert í aðdraganda þess að ákveðið er að taka inn Lean sem staðfestir að það muni virka vel á starfsstöðum borgarinnar? Hvaða athuganir/rannsóknir liggja til grundvallar innleiðingunni í borginni?

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um hvenær laga á aðgengi að Breiðholtsbrúnni vinstra megin við Brautina þegar komið er frá Mjódd

Að komast upp á brúna sem er yfir Breiðholtsbrautina ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina (frá Mjódd) er aðeins fyrir þá fótafimustu. Til að komast upp á brúna er nokkra metra all brattur rampur sem er mold og grjót. Það er ekki hægt að ætlast til þess að t.d.  eldri borgara eða hreyfihamlaðir komist upp þennan ramp til að komast á brúna. Þessi frágangur er óásættanlegur því það þarf nánsta að skríða þarna upp og á vetrum gæti þetta orðið eins og rennibraut. Sjá myndir

Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr: Af hverju er þetta skilið eftir með þessum hætti?
Hvenær stendur til að ljúka þessu frágangi þannig að aðgengi þarna megin við brúna verði fyrir alla?

Fyrirspurn frá Flokki fólksins vegna klifurgrindar í Öskjuhlíð sem var síðan rifin

Í Öskjuhlíð var unnið að því að setja upp klifurgrind eða leiksgrind, sjá mynd. Búið var að grafa heilan grunn, steypa undirstöður, setja upp grindina en síðan allt rifið niður og þökur lagðar yfir og ummerkjum eytt.
Þetta er í Öskjuhlíð, vestan við Perluna við hliðina á göngustígnum niður í skóginn.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvað átti þetta að þýða? Hvað kostaði þetta og af hverju var þetta rifið niður? Með fyrirspurninni fylgir mynd til útskýringa.

Fyrirspurnir frá Flokki fólksins um leikskóla í Úlfarsárdal.

Uppbyggingin í Úlfarsárdal hefur verið hröð. Nú er þar einn leikskóli og sárlega vantar fleiri. Foreldrar sem búa í Úlfarsárdal hafa þurft að fara með börn sín í leikskóla í öðrum hverfum:

Hvenær verður annar leikskóli opnaður í Úlfarsárdal?
Hvað verða margir leikskólar í hverfinu?
Hvenær verða allir leikskólarnir í hverfinu farnir að starfa?

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um rafmagnstrætó og hvernig reynslan hafi verið af þeim

Árið 2017 var sagt frá því að Strætó bs. hafi fjár­fest í 9 hrein­um rafstræt­is­vögn­um frá kín­verska fram­leiðand­an­um Yut­ong. „Hröð skref yrðu stig­in í átt að raf­væðingu flot­ans sem spara myndi yfir 1.000 tonn af út­blæstri gróður­húsaloft­teg­unda strax á næsta ári. Segir einnig í þessari frétt frá 2017:

Í júní næst­kom­andi mun Strætó bs. taka í notk­un fyrstu fjóra raf­magnsvagn­ana af þeim níu sem fyr­ir­tækið hef­ur fest kaup á úr verk­smiðjum Yut­ong í Kína. Verða það fyrstu stræt­is­vagn­arn­ir hér­lend­is sem ein­vörðungu verða knún­ir áfram af raf­magni.

Vagnarnir sjást sjaldan í umferðinni og langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að fá upplýsingar um hvernig reynslan hefur verið með þessa 9 rafmagnsvagna og hvort bílaflotinn sé ekki allur að rafvæðast?

Borgarráð
22. ágúst 2019

Tillaga Flokks fólksins að heimilt verði að leggja frítt í bílastæðahúsin í borginni í 120 mínútur á dag.

Tillaga Flokks fólksins sem hér er lögð fram er að heimila að leggja frítt í bílastæðahúsin í 120 mínútur á dag. Lagt er til að viðbótarkostnaður sem af þessu hlýst verði tekinn af  kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205. Áður hefur Flokkur fólksins lagt til að heimila að leggja frítt í 90 mínútur í bílastæði Miðbæjarins og einnig að komið verði á bifreiðastæðaklukku í borginni sem reynst hefur frábærlega vel þar sem slíkt fyrirkomulag er. Enn hafa ekki borist viðbrögð borgarmeirihlutans við þessum tillögum.  Bílastæði Miðborgarinnar eru ekki fullnýtt og kemur þar margt til. Að heimila frítt stæði í 2 tíma á dag er hvatning fyrir íslendinga að skjótast í Miðbæinn. Auka mætti sýnileika þessara bílastæðahúsa, t.d. með því að auglýsa þau betur með myndrænum hætti. Annað mál er síðan hvernig ástatt er um bílastæðahúsin en mörg þeirra eru því miður afar óaðlaðandi og aðkoma þröng og hafa þar að leiðandi fælingaráhrif. Mjög margt eldra fólk forðast þau. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið.

Greinargerð

Könnun Zenter rannsókna sýna að æ færri íslendingar leggja leið sína í miðbæinn og kemur margt til. Fyrst er að nefna að mikil fækkun verslana, eldri sem nýrri hafa flutt sig úr bænum eftir að götum var lokað þar sem verslun þeirra snarminnkaði í kjölfarið. Samkvæmt talningu 18. ágúst voru 38 laus  verslunarrými  á Laugavegi. Skólavörðustíg og Hverfisgötu. Mikið af þeim glæsileg rými sem hýstu þekktar verslanir sem eru farnar.Þetta er fyrir utan þann fjölda nýrra rýma á jarðhæðum á þessu svæði sem koma á til leigu og til sölu markaðinn á næstu misserum. Enn eru þó blessunarlega verslanir í bænum og spurning er hversu lengi þær þrauka. Þess vegna verður borgin að grípa til allra mögulegra úrræða til að hvetja íslendinga til að koma í bæinn og versla. Mestu máli myndi skipa að snúa frá þeirri skaðlegu stefnu sem borgarmeirihlutinn keyrir nú með því að loka götum í óþökk á þriðja hundrað rekstraraðila.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er meðalstærð íbúða;

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort það hafi aldrei komið til greina við skipulag einstakra reita að setja inn ákvæði um meðalstærð íbúða. Sem dæmi ef ákvæði væri að meðaltalið væri 80 fm. íbúð, myndi það þýða að ef byggingarverktakinn byggði eina 100 fm. íbúð, þyrfti hann að byggja aðra 60 fm. íbúð á móti til að ná 80 fm. meðaltali. Borgaryfirvöld gætu sett slík meðaltalsmörk til að stuðla að breytilegri stærð íbúða á ákveðnum reitum/svæði og þar með að margar stærðir íbúða stæðu til boða.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar ný umferðarlög:

Eins og vitað er eru komin ný umferðarlög. Samkvæmt þeim mega hreyfihamlaðir, með svokölluð P-kort, keyra á göngugötum. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur nýlega tjáð sig um þetta ákvæði í fjölmiðlum á þann hátt að það vekur upp áhyggjur af því hvort borgarmeirihlutinn ætli kannski að hunsa þetta ákvæði og þar með brjóta lög? Borgarfulltrúi Viðreisnar segir að löggjafinn hafa verið á villigötum þegar ný umferðarlög voru samþykkt. Það þykir nokkuð alvarlegt þegar borgarfulltrúi er farinn að segja að löggjafinn „sé á villigötum“. Með því að segja það er hann að grafa undan trausti fólks á löggjafanum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það sérstaklega alvarlegt að kjörinn fulltrúi tjái sig með þessum hætti um löggjafann. Borgarfulltrúi Viðreisnar hefur áhyggjur af heildarásýndinni en tjáir sig ekkert um þarfir fatlaðs fólks og að gefa þeim kost á að komast inn á göngugötu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er feginn að frumvarpið kom aldrei fyrir sjónir borgarmeirihlutans sem hefði þá lagt allt kapp á að beita sér gegn því og þar með hefta möguleika fatlaðra að komast leiðar sinnar. Ætlar meirihlutinn að virða ný umferðarlög, það ákvæði sem kveður á um að hreyfihamlaðir geti ekið og lagt á göngugötu?

Tillaga Flokks fólksins að meirihlutinn í borgarstjórn/Skipulags- og samgönguráði eigi alvöru og heiðarlegt samtal við hvern einn aðila sem sendi borgarstjórn opið bréf í maí s.l. og ræði afstöðu þeirra og óskir hvað varðar fyrirkomulag á Laugavegi og Skólavörðustíg.

Í bréfinu segir
Við sem skrifum þetta opna bréf rekum öll fyrirtæki sem hafa starfað í miðbænum í 25 ár eða lengur. Samanlögð viðskiptasaga fyrirtækjanna er 1.689 ár. Við höfum því lifað tímana tvenna. Við höfum staðið vaktina þrátt fyrir tilkomu Kringlu, Smáralindar og fleiri verslunarkjarna víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu. Sumarlokanir gatna í miðbænum frá árinu 2012 og síendurteknar skyndilokanir hafa leitt af sér mikinn samdrátt í verslun. Viðskiptavinir venjast af því að versla hér á þessu svæði þegar götunum er lokað og ástandið versnar í hvert sinn sem lokað er að nýju. Á þetta hefur ítrekað verið bent, meðal annars með veltutölum, en við höfum talað fyrir daufum eyrum borgaryfirvalda. Svo fór að Miðbæjarfélagið kærði ákvörðun um lokun gatna til ráðherra og það mál fór einnig fyrir umboðsmann Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að staðið hefði verið að lokunum með ólögmætum hætti. Borgaryfirvöld létu það álit sem vind um eyru þjóta og héldu uppteknum hætti.“

Greinargerð

Þeir sem skrifa undir hafa lagst gegn lokunum gatna í miðbænum og segja að lokanirnar hafi skaðað rekstur þeirra verulega undanfarin ár. Nú er kominn tími til að borgarmeirihlutinn eigi alvöru samtal og SAMRÁÐ við þessa aðila enda mál að linni að framkvæma eitthvað sem stór hluti borgarbúa leggst gegn. Staðan í verslun í miðbænum er grafalvarleg. Ýmis rótgróin fyrirtæki eru að hverfa á braut og fleiri að hugsa sér til hreyfings. Það er ekki hvað síst afleiðing götulokana undanfarinna ára. Neikvæð áhrif lokanna ná langt út fyrir þau svæði þar sem lokað er. Þrátt fyrir það boða borgaryfirvöld nú í áföngum lokun Laugavegar, Bankastrætis og neðsta hlutar Skólavörðustígs til frambúðar. Ítrekuðum óskum um samráð hefur verið hafnað og á fundum með embættismönnum og borgarfulltrúum hefur sjónarmiðum þeirra beinlínis verið mætt með hótfyndni og dónaskap að sögn rekstraraðilanna. Margir sjá alls engan rekstrargrundvöll í lokaðri götu og telja því eina kostinn að flytja fyrirtækin annað. Til að verslunin fái þrifist þarf aðgengi að henni að vera greitt.

Eftirfarandi kemur einnig fram í bréfinu:

„Milli okkar hefur gengið undirskriftarlisti þar sem lokunum er mótmælt og þegar hafa hátt í 170 rekstraraðilar á Laugavegi, Skólavörðustíg og Bankastræti skrifað undir og undirskriftum fjölgar dag frá degi (er nú í ágúst 2019 orðnir 240). Enginn þarf að velkjast í vafa um afstöðu meginþorra rekstraraðila í þessu efni.

Gullkistan, sem á sér samfellda sögu í 147 ár, er ein fjölmargra verslana sem líður fyrir götulokanir borgarstjórnar. Verslunar- og þjónustufyrirtæki sem eiga sér áratugalanga sögu eru mikilvægur þáttur í menningu borgarinnar.

Nú er mál til komið að borgaryfirvöld hlusti á okkur sem staðið höfum vaktina í fyrirtækjum okkar í áratugi og hefji raunverulegt samráð um leiðir til að efla verslun og þar með mannlíf hér á þessu svæði, því án blómlegrar verslunar er enginn miðbær.“

Gullkistan skrautgripaverslun, Frakkastíg 10 (rétt við hornið á Laugavegi) – rekstrarsaga í 147

Penninn Eymundsson, Austurstræti 18, Laugavegi 77, Skólavörðustíg 11 – verslunarsaga í 140 ár

Verslun Guðsteins Eyjólfssonar, Laugavegi 34 – verslunarsaga í 101 ár

Brynja, Laugavegi 29 – verslunarsaga í 100 ár

Guðlaugur A. Magnússon, Skólavörðustíg 10 – verslunarsaga í 95 ár

Listvinahúsið leirkerasmíði og minjagripaverslun – rekstrarsaga í 92 ár

Efnalaugin Úðafoss, Vitastíg 13 (50 metra frá Laugavegi) – rekstrarsaga í 86 ár

Snyrtivöruverslunin Stella, Bankastræti 3 – verslunarsaga í 77 ár

Vinnufatabúðin, Laugavegi 76 – verslunarsaga í 75 ár

Dún og fiður, Laugavegi 86 – verslunarsaga í 60 ár

Gullsmíðaverslun og verkstæði Hjálmars Torfasonar, Laugavegi 71 – verslunarsaga í 60 ár

Mál og menning, Laugavegi 18 – verslunarsaga í 60 ár

Gleraugnasalan 65, Laugavegi 65 – verslunarsaga í 58 ár

Tösku og hanskabúðin, Laugavegi 103 – verslunarsaga í 58 ár

Herrahúsið, Laugavegi 47 – verslunasaga í 54 ár (flytur nú í Ármúla 27)

Gullsmíðaverslun Guðbrandur J. Jezorski, Laugavegi 48 – verslunarsaga í 53 ár

Gull & Silfur skartgripaverslun og verkstæði – verslunarsaga í 48 ár

Jón og Óskar úra og skartgripaverslun, Laugavegi 61 – verslunarsaga í 48 ár

Gleraugnamiðstöðin Profil-Optik, Laugavegi 24 – verslunarsaga í 47 ár

Linsan gleraugnaverslun, Skólavörðustíg 41 – verslunarsaga í 47 ár

Gilbert úrsmiður, Laugavegi 62 – verslunarsaga í 45 ár

Dimmalimm, Laugavegi 53b – verslunarsaga í 30 ár

Gullkúnst Helgu, Laugavegi 13 – verslunarsaga í 30 ár

Gullsmiðja og Listmunahús Ófeigs, Skólavörðustíg 5 – verslunarsaga í 27 ár

Verslunin Kós, Laugavegi 94 – verslunarsaga í 26 ár

Caruso við Lækjartorg – veitingasaga í 25 ár

Bolli Kristinsson, kaupmaður við Laugaveg

Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 13. ágúst 2019.

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við 7. lið fundargerðarinnar:

Svar Skóla- og frístundarráðs við tillögu Flokks fólksins að sviðið hafi aðgang að upplýsingum um tekjur umsækjenda til að umsóknarferli verði skilvirkara

Sviðsstjóri bendir í svari sínu á verklagsreglur milli skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs sem samþykktar voru 2013. Þar er gert ráð fyrir að „fram fari mat á aðstæðum hverju sinni í stað þess að tekjurnar einar og sér ráði gjaldi foreldra“.  Flokkur fólksins vill benda á að tengsl eru á milli tekna og aðstæðna. Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Skóla- og frístundasvið á að hafa heildarmynd af hverri fjölskyldu til að afgreiðsla geti verið skilvirkari. Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri oft að bíða lengi eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metinn hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt sem gerir foreldri enn erfiðara fyrir að greiða skuldina. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpill frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða  áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur?  Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur.

Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Gjaldskrár í Reykjavík eru með því lægsta á öllu landinu hvort sem litið er til leikskóla eða frístundaheimila, þá eru systkinaafslættir ríflegir. Ef foreldrar eiga erfitt með að greiða fyrir þá þjónustu er leitast við að leysa þau mál með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Verklag skóla- og frístundasviðs í þessu tilliti er því til mikillar fyrirmyndar.

Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill árétta hér að enginn var að tala um gjaldskrá í þessu sambandi þ.e. að hún væri of há eða verið væri að bera gjaldskrá borgarinnar saman við önnur sveitarfélög. Ef fólk á erfitt með að greiða skuld sína fyrir þjónustu svo sem frístund bíður þeirra langur og tyrfinn vegur sbr. verklagsreglur um þriggja mánaða skuldaskjól. Ef meirihlutinn efast um þetta ætti hann bara að ræða við þennan hóp foreldra og heyra það beint frá þeim hver þeirra reynsla er.

Fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 21. ágúst 2019 – til samþykktar að hluta.

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins við tillögum Flokks fólksins er varða umferðarmál í miðbænum.
Um er að ræað eftirfarandi liði í fundargerð Skipulags- og samgönguráðs 21. ágúst:

Bókanir meirihlutans í skipulags- og samgönguráði við liði 18, 20, 21, 23, 24, 25, 26 og 27, allt umferðartillögur Flokks fólksins, lýsa talsverðum hroka, andúð gegn bílanotkun og forræðishyggju meirihlutans í ráðinu. Allar tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum voru felldar. Meirihlutinn í skipulagsráði getur ekki sett sig í spor t.d. eldri borgara sem finnst mörgum bílastæðahúsin ógnvænleg. Hvað varðar Lækjargötuna (liður 20) skapar ástandið þar núna slysahættu bæði  fyrir gangandi, hjólandi og akandi. Þarna er óreiða og hefur verið lengi. Með þessu einstrengingslega viðhorfi sem meirihlutinn sýnir í bókunum græða þau fátt annað en að vekja reiði borgarbúa. Nú er ástandið á Laugavegi þannig að fólk er sífellt að ruglast. Fyrir þessum breytingum voru engin rök og lokanir gatna eru eins og margstaðfest er í óþökk meirihluta hagsmunaaðila. Reynt er að fegra alla hluti og hausnum stungið í sandinn þegar blasir við að bærinn er að tæmast af Íslendingum. Það er langur vegur í að almenningssamgöngur verði fýsilegur kostur. Ótal atriði þarf að bæta eins og fjöldi kvartana hefur sýnt. Tíðni þarf að vera mun meiri ef þetta á að vera alvöru kostur. Borgarlína er enn bara mynd á blaði og einhver ár í að hún verði alvöru kostur ef hún verður það einhvern tímann.

Lögð fram svohljóðandi gagnbókun borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tíu tillögur um umferðarmál í skipulags- og samgönguráði sem allar miðuðu að því að gera borgina að meiri bílaborg en hún er nú þegar. Bílaeign á Íslandi er ein sú mesta í heiminum og mikilvægt að gera öðrum samgöngumátum hátt undir höfði með því að leggja nýja hjólastíga, auka forgang strætó og gera gangandi vegfarendum auðveldara um vik að komast á milli staða. Hamfarahlýnun krefst þess að brugðist sé við með róttækum hætti til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Ekki fæst séð hvernig rétturinn til að menga skipti meira máli en rétturinn á hreinu lofti og framtíðar jarðarinnar.

Lögð fram svohljóðandi gagnbókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Hér er um hreina útúrsnúninga meirihlutans að ræða og reynt er að slá ryki í augu fólks sem kunna að lesa þessar bókanir. Ekkert af þessum umferðartillögum miða að því sérstaklega að gera borgina að meiri bílaborg en hún er. Þær miða hins vegar að því að skipulagsyfirvöld í borginni noti heilbrigða skynsemi, sanngirni og virðingu gagnvart fólki  í borginni og þeim sem koma lengra að og þeim lífstíl í ferðamáta sem það kýs sér. Andúð gagnavart bílaeigendum sem meirihlutinn í skipulagsráði og borgarstjórn sýnir er komin út yfir öll velsæmismörk. Það er mat Flokks fólksins að allt á að gera til að minnka tafir, alls konar tafir og auðvelda öllum aðgengi að miðbænum okkar án tillits til hvernig þeir ferðast.

Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 16. ágúst 2019, þar sem óskað er staðfestingar borgarráðs varðandi leiðréttingu skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst 2019

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar athugasemdir við orðalag í umræddu bréfi:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera athugasemdir við orðalag í bréfi frá umhverfis- og skipulagssviði. Á bls. 8 er talað um „lifandi jarðhæð“. Þetta er afar sérkennilega orðað og leggur borgarfulltrúi til að sviðið leggist yfir eitthvað skárra til að lýsa því sem verið er að reyna að lýsa sem er sennilega að á jarðhæð sé einhvers konar starfsemi. Á bls. 9 er talað um „Takmarka ónæði og umferð vegna lestunar og losunar ferðamanna“. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst skrýtið að nota lestun og losun þegar vísað er til fólks, að lesta og losa fólk? Á sömu blaðsíðu er talað um „Húsnæði fyrir alla og er það þá ekki orðalag sem er gagnrýnt heldur mætti bæta við setninguna „Leitast verði við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosts fyrir alla félagshópa“ og svo mætti bæta við: sem gert yrði með fjárhagslegum aðgerðum, svo sem styrkjum, kvóta eða miðstýringu. Að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta á dýrasta svæði borgarinnar verður nefnilega ekki gert nema með handstýringu en ekki markaðsöflum.

Lagt fram minnisblað skóla- og frístundasviðs, dags. 21. ágúst 2019, um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði 19. ágúst 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fram kemur í minnisblaði sviðsstjóra um stöðu ráðninga á skóla- og frístundasviði að enn á eftir að ráða í 60.8 grunnstöðugildi í leikskólum, 40 stöðugildi í grunnskólum og 102,5 stöðugildi í frístundaheimilum/sértækum félagsmiðstöðvum. Enn er óljóst hvort staða ráðningarmála seinki áætlun um inntöku barna í leikskóla. Það má sjálfsagt deila um hvort þetta sé slæmt eða viðunandi í ljósi þess að það taki tíma að ná inn fólki. Staðreyndin er sú hvernig sem litið er á málið að það er langt í land með að fullmanna þessar stöður. Borgarmeirihlutinn getur gert betur í þessum málum. Það að sé biðlisti í leikskóla yfir höfuð er óverjandi. Hægt er að fara ýmsar leiðir til að gera þessi störf aðlaðandi og eftirsótt og strax að vori þarf að fara af krafti í að ná í fólk með öllum ráðum.  Ef horft er á málið í víðara samhengi t.d. í tengslum við kjaramálin þá er það borgin sem setur stefnuna og getur falið samninganefnd sinni að koma með tillögur í samningaviðræður sem stuðla að því að störfin verði eftirsóttari t.d. stytta vinnuviku til að létta á álagi. Ofan á þetta bætast viðgerðir á skólabyggingum vegna viðhaldsleysis og myglu. Þá eru ótalin veikindatilfelli sem rekja má beint til myglu í skólabyggingum.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um lækkun framkvæmdagjalds við Lindagötu:

Er ákvörðun sem tekin var um lækkun framkvæmdargjalds á Lindargötu komin til framkvæmda? Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja hvort búið sé að lækka framkvæmdargjald á Lindargötu 57-66 eins meirihluti fundarmanna ákvað að gera skyldi á félagsfundi dags 4. júlí 2018?

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Tillaga Flokks fólksins að börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð frá borginni fá sérstakan styrk til að standa straum af gjaldi frístundarheimilis

Þessi tillaga er lögð fram til þess að börn fátækra foreldra þurfi EKKI að nota frístundarkortið til að greiða upp í gjald frístundarheimilis enda er það ekki markmið né tilgangur frístundarkorts heldur er það eftirfarandi:„Að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.“

Kostnaður vegna tillögunnar verði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205.
Það er mikilvægt að öll börn sitji við sama borð þegar kemur að tækifærum til að upplifa reynslu og nám. Frístundarkortið er hugsað til þess að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundariðju. Það er því mjög mikilvægt að frístundarkortið sé notað til þess einvörðungu en að foreldrar sem eru fjárhagslega aðþrengdir séu ekki þvingaði til að nota kortið til að greiða upp í gjald frístundarheimilis. Til að foreldrar geti unnið úti þarf barnið að hafa gæslu a.m.k þar til það nær 9-10 ára aldri. Dvöl barns á frístundarheimili er því nauðsynleg til að foreldrar geti unnið út. Það er því ekki sanngjarnt að þessi foreldrar verði að nota frístundarkort sem hugsað er til að auka jöfnuð til að greiða upp í gjald frístundarheimilis.

Greinargerð

Eins og staðan er núna er það því afar ósanngjarn að í reglum standi að kortið megi nota til að greiða gjald frístundarheimilis og er þar með tekið af barninu mögulegt tækifæri á nýta það í annað nám og námskeið eins og tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, ljósmyndanám eða annað sambærilegt. Gengið er svo langt að gera það að skilyrði að ekki sé hægt að sæka um þriggja mánaða skuldaskjóla nema umsækjandi hafi fyrst  notað frístundarkortið upp í skuldina.  Hér er verið að brjóta á réttindum barna með grófum hætti að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Það gefur auga leið að ef foreldri verður að nota frístundarkort barns síns til að greiða frístundarheimili er það ekki á meðan nota það fyrir barnið samkvæmt markmiðum frístundarkortsins en í reglum um frístundarkort stendur. Börn eru á frístundarheimili til þess að foreldrar þeirra geti stundað vinnu og verið á meðan örugg um börn sín eftir að skóla líkur á daginn. Hér er því um nauðsyn að ræða á meðan frístundarkortið er hugsað í allt öðrum tilgangi þ.e. að veita barni tækifæri til að taka þátt í uppbyggilegu frístundarstarfi sem iðulega er mjög kostnaðarsamt og ekki allra foreldra að geta greitt fyrir. Hér er því verið að mismuna börnum fátækra og efnaminni foreldra á grundvelli fjárhagsstöðu.

Tillaga Flokks fólksins að borgarráð samþykki að tekjur foreldra/forsjármanna hafi bein áhrif á gjaldskrá frístundaheimila.

Foreldrar með 350 þ.kr. tekjur á mánuði og borga þar af leigu geta varla haft mikið aukreitis. Flokkur fólksins hefur lagt til að þeir foreldrar sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis fái gjaldfrjáls frístundaheimili en þeirri tillögu hefur verið hafnað. Á árinu 2017 fengu 466 foreldrar, 777 barna fjárhagsaðstoð til framfærslu. Margir þessara foreldra getað ekki greitt frístundargjaldið og lenda í vanskilum. Þá hefst afar tyrfin vegferð þeirra til að reyna að fá skuld sína afskrifaða. Flókið ferli er aldrei ódýrt. Ferli sem er á mörgum stigum og kemur inn á borð margra starfsmanna kostar peninga. Ferlið er auk þess óþarflega snúið því skóla- og frístundarsvið hefur ekki heildarmyndina hjá sér, starfsmenn hafa engar upplýsingar um tekjur foreldra. Árið 2017  fengu 466 foreldrar, 777 barna í Reykjavík fjárhagsaðstoð til framfærslu. Það sem verra er að enn fleiri þyrftu aðstoð en fá ekki. Matsreglur og umsóknarferlið er flókið og kemur inn á borð margra. Skuldir þeirra sem fá synjun á aðstoð hvort heldur til skamms eða langs tíma eru sendar í innheimtu hjá lögfræðingum.

Greinargerð

Til að fá þriggja mánaða skuldaskjól þarf foreldri að bíða stundum óratíma eftir viðtali hjá félagsráðgjafa. Ef skuldari er metin hafa greiðslugetu er skuldin send í innheimtu þar sem hún margfaldast fljótt. Foreldri sem ekki hefur getað greitt skuldina getur það varla eitthvað frekar þegar hún er komin með dráttarvexti. Sé greiðslugeta neikvæð er beðið eftir greinargerð og stimpil frá afskriftarnefnd sem fundar tvisvar á ári. Á meðan skal skuldari greiða l áfallandi gjöld. Af hverju er fólk sem þarf aðstoð látið ganga slíkar þrautargöngur?  Bak við hvert mál eru börn sem oft fara ekki varhluta af fjárhagsáhyggjum foreldra sinna og hér eru verið að tala um frístund fyrir börnin á meðan foreldrið vinnur. Hversu bættari er borgin ef barnið er ekki í frístund og foreldrið kemst ekki til vinnu? Flokkur fólksins leggur þess vegna til að gripið verði til sértækra aðgerðar fyrir þann skilgreinda hópur sem hér er rætt um og að tekjur foreldra hafi bein áhrif á gjald frístundaheimilis.

Velferðarráð
21. ágúst 2019

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvert hlutfall barna í 1-4 bekk er í Reykjavík sem frístundarkort er nota upp í greiðslu fyrir dvöl þeirra frístundarheimili:

Hversu mörg af þeim börnum er börn foreldra sem þiggja fjárhagsaðstoð af einhverju tagi.
Hversu mörg þeirra barna eru af erlendu bergi brotin?

Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Því má við bæta að fjöldi barna eftir þjónustumiðstöðvum og fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur er 784, flest í Breiðholti.

Í reglum um frístundarkort segir m.a. „að dæmi um starfsemi sem telst styrkhæf er starfsemi á vegum íþrótta- og æskulýðsfélaga, nám við tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, frístundaheimili á vegum Reykjavíkurborgar

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er sú að borgarfulltrúi Flokks fólksins óttast að fátækir foreldrar og efnaminni neyðist til að láta frístundarkortið upp í gjald frístundarheimilis. Þar að leiðandi geta börnin ekki nýtt það til þátttöku í hinum ýmsu  íþrótta- og tómstudarnámskeiðum t.d.  í tónlistar,  dans, eða myndlistarskóla, ljósmynda- eða, siglinganámskeið . Sé þetta raunin þá er frístundakortið ekki að ná markmiði sínu sem er „að öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.

Skipulag- og samgönguráð
21. ágúst 2019

Flokkur fólksins gerir athugasemd við fyrirkomulag undirbúnings Skipulagsfundar:

Flokkur fólksins vill enn og aftur gera athugasemd varðandi dagskrá Skipulags- og umhverfisráðs sem snýr að upplýsingum um afgreiðslu mála sem birta ætti í dagskrá fyrir fundinn. Fram kemur að mál eigi að koma til afgreiðslu en engar umsagnir fylgja með sem gerir undirbúning erfiðan. Til að geta samið efnislega bókun byggða á rökum fyrir af hverju mál er fellt eða vísað frá verðum við að sjá rökin fyrir því fyrir fundinn. Eins og þetta er núna virkar þetta eins og teknar séu einhverjar skyndi geðþóttaákvarðanir um málin, þau ýmis felld eða vísað frá á kerfisbundin hátt. Í því felst engin fagmennska. Málin okkar hljóta að hafa verið til umræðu einhvers staðar hjá Ráðinu/sviðinu og úr þeirri umræðu hlýtur að hafa komið eitthvað mat/umsögn sem verður að fylgja með í dagskrá til að Flokkur fólksins geti samið efnislega bókun fyrir fundinn.  Í borgarráði er þessu oftast þannig  farið. Þá fylgja umsagnir sem gefa tóninn og í framhaldi er hægt að undirbúa bókun í málinu fyrir fundinn sjálfan.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi samráð við hagsmunaaðila við Laugarveginn vegna göngugatna

Á fundi skipulags- og samgönguráðs 20. mars 2019 var lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins sem spyr hvers vegna var ekki haft samráð við hagsmunaaðila við Laugaveginn þegar ákveðið var að gera hann að göngugötu. Á blaðamannafundi Laugavegsamtakanna í 19.3.2019 kom fram að ekkert samráð var haft við verslunar og fyrirtækjaeigendur við götuna, hvað þá íbúa. Laugarvegurinn og nærliggjandi götur sem eru með verslunar og veitingarými eru aðal aðdráttarafl miðborgarinnar. Þangað hafa íbúar borgarinnar sótt sérnauðsynjar, skemmtun og mannlíf. Flokkur fólksins vill benda á að Reykjavík er staðsett á Íslandi sem liggur við 66° gráðu, eða á norðurhveli jarðar. Á þessu blessaða landi eru ýmis konar veðrabrigði, þá sérstaklega á vetrum. Því miður hvernig sem viðhorf fólks er, er íbúum borgarinnar nauðsynlegt að nýta sér bílinn til að komast auðveldlega um í erfiðum veðrum, sérstaklega. Verslunaraðilar við Laugaveginn og nærliggjandi götum fullyrða að verslun við Laugaveginn minnki um allt að 30% við lokun hinna ýmsu hluta gatnanna, hingað til í tilraunaskyni. Sigurborg Ósk Haraldsdóttir fullyrti í fréttatíma RÚV sama dag og fundurinn var haldinn að borgarstjórn hafi samþykkt samhljóða að gera Laugaveginn að göngugötu. Borgarfulltrúi Flokk fólksins kannast ekki við það.

Fulltrúi Pírata, fulltrúi Viðreisnar og fulltrúar Samfylkingarinnar bóka:

Til eru margar tegundir af rökvillum og er svokölluð „Leiðandi spurning“ ein af þeim þar sem svaranda er einungis gert kleift að játa eða neita spurningunni, þótt hvorugt svarið eigi í raun við. Spurt er af hverju var ekki haft samráð við verslunareigendur þegar ákveðið var að breyta Laugavegi í göngugötu. Svarið er að það var haft samráð við verslunareigendur. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð mikilvægt leiðarstef, þannig hefur það verið hingað til og verður áfram. Sem dæmi má nefna opið samráð í Ráðhúsi Reykjavíkur dagana 28. janúar til 3. febrúar og opinn samráðsfund með veitingafólki, verslunarrekendum, ferðaþjónustu- og vöruflutningaaðilum. Þá á borgin í reglulegu og góðu samtali við Öryrkjabandalag Íslands og fleiri hagsmunafélög auk þess sem á vegum borgarinnar starfar öflug aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks. Núna er í gangi deiliskipulagsferli fyrir Laugaveg sem göngugötu og felur það í sér lögbundið samráðsferli við hagsmunaaðila.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins gagnbókar:

Í svari er enn og aftur rætt um mikið og gott samstarf og samráð sem allir vita að er hvorki satt né rétt. Ástandið í miðbænum er slæmt og fer versnandi. Varla líður sá dagur að ekki eru upphróp óánægjuradda, fólk sem finnst að hafi verið valtað yfir sig með yfirgangi og hroka. Flokkur fólksins vill vísa leiðara í Fréttablaðinu um daginn þar sem ástandinu er ítarlega lýst. Safnað hefur verið 247 mótmælaundirskriftum og segja þar allir að enginn hafi haft samband frá borginni og viðkomandi ekki spurður álits. Það telst varla til samráðs að vera boðið að mæta í 90 mínútur í Ráðhúsið aðeins til að fá að heyra hvað borgarmeirihlutinn hefur ákveðið að gera. Formaðurinn bauð fólki að koma með hugmyndir um hvar ætti að setja niður bekki og blómapotta. Það er því marg staðfest að formaðurinn fer ekki rétt með þegar hún segir að víðtækt samráð hafi verið haft með veitingafólki, verslunarrekendum, Öryrkjabandalagi Íslands og öðrum félagasamtökum um lokun gatna og aðgengismál að Miðborginni. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið. Fækkun verslana er. Samkvæmt talningu 18. ágúst voru 38 laus verslunarrými á Laugavegi. Skólavörðustíg og Hverfisgötu.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Aðgengi að bílastæðahúsum verði bætt

Einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillagan verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Það liggur orðið í augum uppi að einkabíllinn er ekki velkominn lengur í miðbæinn og allt virðist gert til að hindra aðgengi fólks sem kemur á bílnum sínum í bæinn. Á meðal þess er að gera aðkomu og aðgengi að bílstæðahúsum eins erfitt og óaðlaðandi og hægt er. Fjölmargir forðast bílastæðahúsin og má þar nefna hreyfihamlaða og eldri borgarra. Eins og vitað er hefur miðbærinn svo gott sem tæmst af íslendingum og er nú fátt að finna þar nema ferðamenn og þá sem búa á svæðinu auk gesta sem sækja skemmtanalífið. Könnun Zenter rannsókna sýna að æ færri íslendingar leggja leið sína í miðbæinn enda margt það sem fólk sótti þar er horfið þaðan. Til að sporna við mætti sem dæmi heimila að leggja frítt í bílastæðahúsin í 120 mínútur á dag. Það yrði í það minnsta smávegis hvatning fyrir íslendinga að skjótast í Miðbæinn. Auka mætti sýnileika þessara bílastæðahúsa, t.d. með því að auglýsa þau betur með myndrænum hætti. Annað mál er síðan hvernig ástatt er um bílastæðahúsin að innan en mörg þeirra eru því miður afar óaðlaðandi og þau þar að leiðandi fælingarmátt.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Bifreiðastæðaklukkur komi í stað stöðumæla

Skoða að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar.

Vísað til umsagnar Umhverfis- og skipulagssviðs, Skrifstofu Samgöngustjóra og borgarhönnunar.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Óþarfi að loka Lækjargötu

Það er óþarfi að loka Lækjargötunni með þeim hætti sem nú er gert vegna framkvæmda, vinnusvæði þar gæti verið mun minna. Aðstæður þar núna skapa slysahættu.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Hér er bílastæði fyrir byggingarkrana verktaka og því væri hægt að loka Vonarstrætinu og hafa byggingarkranann þar og nota götuna sem vinnusvæði og halda þannig Lækjargötunni opinni. Hafa mætti gönguleið öðru megin við götuna og síðan aftur yfir við Tjörnina hjá Miðbæjarskólanum.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Breyta hraðahindrunum og setja radar og myndavélar í stað sumra

Breyta hraðahindrunum þannig að á 50 km götu sé radar og myndavélar í staðin fyrir hraðahindrun nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Tillaga um að breyta hraðahindrun í samræmi við eins og gengur og gerist hjá þjóðum sem við berum okkur saman við er fleygt af meirihlutanum. Svo ótal margt er varðar umferð er gamaldags í Reykjavík og úrelt og þetta er eitt af því. Margar þjóðir eru að hætta að nota hraðahindranir, nota heldur myndavélar, hraðaskilti og síðan almennilega löggæslu. Bílar í dag eru ekki smíðaðir fyrir annað en sléttar götur og því mikið um tjón og óþarfa slit með því að vera með hraðahindranir. Í Reykjavík eru hraðahindranir settar á 30 km. götur en minna í 50 km. götur. Það gerir enginn annarsstaðar og er bara til að auka enn meira á tjón, mengun og eyðslu. Til eru mælingar um að 50 km gata með hraðahindrunum eykur eyðslum 47%, meðan sambærileg gata með hringtorgum eykur eyðslu um 15% í samanburði við götur með fríu flæði. Þetta þýðir sömu aukningu CO2 útblásturs, algjörlega að óþörfu. Engin ástæða er að hafa hraðahindrun á 50 km götu nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Auka umferðarflæði með nýrri tækni

Nota tækni til að auka flæði. Skipta út stýrikerfi á umferðarljósum í borginni. Umferðarstýringakerfi á að vera þannig að það snýst um að lágmarka tafatíma hver og eins. Flæðistýring umferðarljósa er eitt aðaltækið til að bæta umferðina.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Markmiðið á að vera að minnka tafir fyrir alla, ekki reyna að stýra og stjórna fólki og vali þess á samgöngum eins og borgarmeirihlutinn vill gera. Af hverju vill þessi meirihluti ekki nútímavæðast og skipta t.d. út stýrikerfi á umferðarljósum á höfuðborginni með umferðarstýringakerfi sem snýst um að lágmarka tafatíma hvers og eins? Það yrði mikill tímasparnaður, sparnaður myndi aukast mikið og auka flæði almenningssamgangna einnig. Ef það ekki dugar verður að huga að mislægum gatnamótum þar sem 130 þús. bílar geta farið í gegn. Ef umferð á einhvern tímann á að verða í lagi verður að hafa umferðarmódel, nota tölvukerfi til að mæla hverfin og flæðið, hindranir og tafir. Hólfa borgina niður í litla ferninga og mæla hvar fólk eyðir deginum. Hvar fólk vinnur, hvar er fólkið yfir daginn. Á þessu hefur borgarmeirihlutinn að því er virðist engan áhuga.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Meirihlutinn láti af forræðishyggju

Láta af því sem stjórnvald að vilja velja samgöngumáta fyrir fólk.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Það er gríðarleg forræðishyggja í gangi hjá borgarmeirihlutanum. Þau vilja stjórna ótrúlegustu hlutum í lífi fólks þar á meðal samgöngumáta. Þetta er sérkennilegt því þeir flokkar sem skipa meirihlutann hafa orðið tíðrætt um lýðræðið, val og frelsi. Hér finnst Flokki fólksins skorta mikla virðingu gagnvart borgarbúum. Nú er allt kapp lagt á að taka einkabílinn af fólki og það fólk sem gefur sig ekki með það er ekki velkomið í bæinn. Vistvænir bílar hafa ekki einu sinni hlotið náð fyrir augum meirihlutans. Það er óskiljanlegt af hverju ekki má gera þeim sem velja að aka vistvænum bíl eða rafbíl hátt undir höfði. Sú var tíðin að þeir sem vildu skipta yfir í vistvæna bíla fengu ákveðna umbun. Sú umbun var tekin af. Það hefur komið skýrt fram að þessi meirihluti ætlar ekki að gera neinn greinarmun á hvort bíll er bensínbíll eða rafbíll. Einu sinni fengu vistvænir bílar ókeypis stæði í miðborginni. Þá var talað um að það skref væri eitt af hinum 10 grænu skrefum. Það sérkennilega er að í meirihlutanum sitja VG sem nú virðast ekki hafa áhuga á „grænu“ alla vega ekki hvað varðar umferðarmál og mengun í því sambandi.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Meirihlutinn innleiði nýja hugsun

Innleiða nýja hugsun sem gengur út á að minnka tafir fyrir alla. Að hugsa eða halda að það sé í lagi að tefja þá sem eru á bíl er röng hugsun og stríðir gegn jafnræðisreglunni

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Ný hugsun er sú hugsun að minnka tafir fyrir alla, ekki bara suma. Flokki fólksins hefur fundist meirihlutinn nánast vilja tefja umferð kannski til að styðja þeirra hugmynd um að miðbærinn eigi að vera bíllaus. Þetta er mjög ósanngjarn og stríðir gegn jafnræðisreglunni. Bera þarf virðingu fyrir vali fólks á samgöngumáta og reyna allt til að auka flæði og minnka tafir allra hvernig svo sem þeir kjósa að ferðast.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Að opina aftur Hverfisgötu, uppleið

Að hægt sé að aka upp Hverfisgötuna og til að auðvelda flæðið þarf að breyta Hafnarstræti úr einstefnugötu þannig að hægt sé að beygja út af Mýrargötu inn á Hafnarstræti og komast þannig annað hvort upp Hverfisgötuna eða suður Lækjargötuna. Við það myndi umferðarhnúturinn við Geirsgötu örugglega minnka mikið. Á háannatíma eru margir farnir að þræða sig í gegnum Þingholtin til að komast án vandræða til vinnu. Ef ein leið lokast þá reynir fólk að finna aðra. Kannski þróast mál nú þannig að aðalumferðaræðin verður í gegnum Þingholtin?

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Flokkur fólksins vill beina athygli meirihlutans í Reykjavík að Hafnarstræti og Tryggvagata gætu opnast yfir ljósin og inn á Hverfisgötu.

Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál/Að hægt verði aftur að aka niður Laugaveg

Opna aftur fyrir að hægt sé að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem koma í miðbæinn á bíl (fólk sem kemur oft langan veg, jafnvel úr öðrum bæjarfélögum eða utan af landi). Bílaumferð á Laugavegi hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar:

Flokkur fólksins leggur enn og aftur áherslu á að hægt væri að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem í í miðbæinn á bíl. Bílaumferð hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.

Tillögur Flokks fólksins, umferðarmál/Gera almenningssamgöngur að alvöru kosti

Byrja á að auðvelda almenningssamgöngur og gera þær fýsilegan kost en ekki einblína á að hindra og tefja fyrir umferð. Eins og staðan er núna eru almenningsamgöngur ekki alvöru kostur. Tíðni þyrfti að vera meiri og það er dýrt að taka strætó. Þess utan er langt fyrir suma að næstu stoppustöð. Að komast frá A til B með strætó getur tekið að allt að 2 tíma ef skipta þarf um vagn. Í veðrum sem hér eru oft á vetrum er fráleitt að leggja til við fólk, fjölskyldur með börn sem dæmi að „taka bara strætó“.  Áður en rætt er um að fækka bílaflota borgarinnar þarf að byrja á réttum enda og bjóða fólki upp á almenningssamgöngur sem virka.

Meirihluti umhverfis- og skipulagsráðs leggur til að tillöguninni verði felld. Tillaga felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Athugasemd við dagskrá skipulags- og samgönguráðs, frá áheyrnarfulltrúa Flokki fólksins

Flokkur fólksins vill enn og aftur gera athugasemd varðandi dagskrá Skipulags- og umhverfisráðs sem snýr að upplýsingum um afgreiðslu mála sem birta ætti í dagskrá fyrir fundinn. Fram kemur að mál eigi að koma til afgreiðslu en engar umsagnir fylgja með sem gerir undirbúning erfiðan. Til að geta samið efnislega bókun byggða á rökum fyrir af hverju mál er fellt eða vísað frá verðum við að sjá rökin fyrir því fyrir fundinn. Eins og þetta er núna virkar þetta eins og teknar séu einhverjar skyndi geðþóttaákvarðanir um málin, þau ýmis felld eða vísað frá á kerfisbundin hátt. Í því felst engin fagmennska. Málin okkar hljóta að hafa verið til umræðu einhvers staðar hjá Ráðinu/sviðinu og úr þeirri umræðu hlýtur að hafa komið eitthvað mat/umsögn sem verður að fylgja með í dagskrá til að Flokkur fólksins geti samið efnislega bókun fyrir fundinn. Í borgarráði er þessu oftast þannig farið. Þá fylgja umsagnir sem gefa tóninn og í framhaldi er hægt að undirbúa bókun í málinu fyrir fundinn sjálfan.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins, hvenær laga á aðgengi að Breiðholtsbrúnni vinstra megin við Brautina þegar komið er frá Mjódd  

Að komast upp á brúna yfir Breiðholtsbrautina ef komið er frá Mjódd, vinstra megin við Brautina er aðeins fyrir þá fótafimustu. Það er hrikalegt að sjá þennan frágang og ekki nokkur leið fyrir eldri borgara, hreyfiskerta eða aðra sem eiga erfitt með gang

Þennan spöl þarf nánast að fara upp á fjórum fótum og á vetrum yrði þetta bara eins og rennibraut. Myndir fylgja fyrirspurninni, sem ekki voru teknar með

Spurt er hvort þetta sé lokafrágangur ? Ef ekki hvenær á að laga þetta og ganga frá þessu með sómasamlegum hætti þannig að aðgengi þarna megin við brúna verði fyrir alla?

Frestað.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins, er varðar orð formanns Skipulags- og samgönguráðs í bókun hennar við lið 16 á dagskrá fundar 21. 8.           

Fyrirspurn frá Flokki fólksins er varðar orð formanns Skipulags- og samgönguráðs í bókun hennar við lið 16 á dagskrá fundar 21. 8. Þar segir hún í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi samráð við hagsmunaaðila við Laugarveginn vegna göngugatna.

„Núna er í gangi deiliskipulagsferli fyrir Laugaveg sem göngugötu og felur það í sér lögbundið samráðsferli við hagsmunaaðila.“

Flokkur fólksins óskar eftir ítarlegum upplýsingum um hvernig þetta lögbundna samráðsferli við hagsmunaaðila eigi að fara fram. Þegar talar er um að fá ítarlegar upplýsingar er átt við:
Hvernig skal það samráð fara fram, hvar og hvenær?
Felst í þessu „samráði“ að hagsmunaaðilar muni fá tækifæri til að taka fullan þátt í ákvörðunum byggðan á þeirra forsendum?

Nú hafa hagsmunaaðilar mótmælt harðlega lokun þar sem verslun þeirra hefur í kjölfarið hrunið. Spurt er, verður tekið tillit til þess?

Fram til þessa hefur ekkert samráð verið en hagsmunaaðilum boðið á einn fund og fengið að merkja inn á svæðið hvar hafa á bekki og blómapotta. Hvað varðar Sjálfsbjörg og ÖBÍ hefur borgin vissulega sent umboðslausa embættismenn til viðræðu við samtökin. Mörgum spurninga þeirra hefur ekki verið svarað. Hagsmunaaðilar hafa aldrei verið spurðir um afstöðu varðandi lokun gatna hvað þá að tekið hafi verið tillit til þeirra vilja og skoðana. Reiði hefur verið mikil í þessum hópi sem finnst Skipulagsráð og meirihluti borgarstjórnar hafa valtað yfir sig með frekju, valdníðslu og yfirgangi.

Frestað.

Borgarráð
15. ágúst 2019

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um styttingu vinnuvikunnar í heimaþjónustu, sbr. 44. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. júní 2019.
Einnig er lögð fram umsögn stýrihóps um styttingu vinnudags án launaskerðingar, ódags. R14050127
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þessari tillögu hefur verið vísað frá. Að stytta vinnuvikuna hjá starfsfólki í heimaþjónustu er frábært tækifæri til að laða fólk að í þessi störf en í þessum geira hefur verið gríðarleg mannekla árum saman sem ekkert virðist ráðast við. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Það loforð sem gefið var fyrir rúmu ári þegar meirihlutasáttmálinn var kynntur um að taka á þessum málum fyrir alvöru hefur því ekki verið efnt.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um sveigjanleg vinnulok, sbr. 49. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. apríl 2019.
Einnig er lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, ódags. R19040145
Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er afar leitt að borgarmeirihlutinn vísi þessari tillögu frá. Núna er sveigjanleiki afar takmarkaður og skilyrtur við alls kyns kvaðir. Fólk sem náð hefur sjötugsaldri er ekki gamalt fólk í dag hvorki í óeiginlegum né eiginlegum skilningi og fyrir því eru margar ástæður. Það ætti að vera markmið borgarinnar leynt og ljóst að halda í starfsfólk sem allra lengst enda gríðarlegur mannauður fólginn í þeim sem komin eru með áratuga reynslu. „Endurráðning í hálft ár, tvö ár í viðbót á tímakaupi“ er lítið fyrir starfsmann í fullu fjöri sem vill fá að sinna starfi sínu áfram. Hvað með að taka bara „þakið“ í burtu, leyfa fólki að vera eins lengi og það vill og getur. Leyfa fólki að stýra sínu lífi sjálft en ekki vera stýrt af borgarkerfinu. Er ekki tími til að við förum að hugsa út fyrir boxið í þessum efnum? Losum um höft, öll þessi skilyrði og kvaðir! Sem dæmi þarf starfsmaður að hafa unnið samfellt hjá borginni í 10 ár til að minnkun á vinnuskyldu feli ekki í sér skerðingar. Hvað með þann sem hefur starfað í 12 ár hjá borginni en ekki samfellt?

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar um kostnað við aðstoðarmann borgarstjóra

Svarið má sjá hér

Í svari segir einungis að aðstoðarmaður sinnir margvíslegum verkefnum fyrir borgarstjóra. Aðstoðarmaður er með 1,3 m.kr. á mánuði sem hlýtur að þýða að hér er um sérfræðivinnu að ræða. Starf aðstoðarmanna borgarstjóra hefur verið við lýði í aldarfjórðung. Spyrja má hvort þetta starf sé nauðsynlegt. Í fyrsta lagi er spurning hvort borgarstjóri sjálfur sé ekki fullfær um að annast mörg af þessum verkefnum sjálfur eða fela skrifstofu borgarstjóra eitthvað af þessum verkefnum en þar starfa fjöldi sérfræðinga. Aðstoðarmaður borgarstjóra ferðast mikið með borgarstjóra. Ferðakostnaður aðstoðarmanns 2018 er 712 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill fá að fetta fingur út í þetta og með því leggja áherslu á að nota mætti þetta fé sem embættið kostar í beina þágu við borgarbúa en víða í borginni er þjónustu ábótavant. Hér er ekki um neitt persónulegt að ræða að sjálfsögðu og vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að borgarstjóri og aðstoðarmaður hans taki þessari ábendingu vel.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Er hafinn undirbúningur innleiðingar nýrrar löggjafar sem taka á gildi um næstu áramót og sem kveða á um að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar? R19070069

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráðhússins a.m.k. tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sér ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum, td. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur, t.d. ef eitthvað málefni brenni á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gagnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa. Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartana um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg málefni stór sem smá.

Vísað til meðferðar forsætisnefndar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fyrirspurn vegna fjölda skeyta sem borgarfulltrúa Flokks fólksins eins og aðrir borgarfulltrúar hafa fengið send og varðar meint brot skólastjóra Kelduskóla að vísa ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir og andstöðu við fyrirhugaðar breytingar á skólahaldi í Staðarhverfi. Flest skeytin hafa eftirfarandi innihald: „Ég, x og er íbúi í Staðarhverfi í Grafarvogi óska eftir því að borgarstjórn taki til umfjöllunar mögulegt brot skólastjóra Kelduskóla á 8 gr. laga númer 91/2008 þegar hún vísaði ekki máli til skólaráðs eins og lögin gera ráð fyrir. Ykkur hafa þegar verið sendar allar upplýsingar og gögn varðandi þetta mál“. Margir hafa einnig bent á í þessum skeytum að deiliskipulag hverfisins beri að virða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekki séð nein viðbrögð við öllum þessum skeytum frá meirihluta borgarinnar í skóla- og frístundaráði og spyr hverju það sæti? R19080068

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúum hefur borist fjölda skeyta frá foreldrum sem lýsa andstöðu sinni á „breytingum á skólastarfi í norðanverðum Grafarvogi“ sem standa fyrir dyrum í Staðahverfi í samræmi við gildandi deiliskipulag og gildandi aðalskipulag hverfisins. Meðal raka er bent á að núverandi strætósamgöngur úr Staðahverfi yfir í Víkurhverfi eru ekki beinar og ekki allir árgangar munu eiga rétt á strætómiðum eða skólaakstri og munu börn því þurfa að ganga í skólann um kílómetraleið yfir 2 miklar umferðargötur þar sem ekki eru merktar gangbrautir og ekki umferðarljós. Fram hefur komið hjá íbúum að eftirspurn eftir húsnæði í hverfinu er strax byrjuð að minnka eftir að þessar fyrirhuguðu aðgerðir er varðar skólamálin spurðust út. Íbúar eru afar ósáttir og benda á að með því að nýta bæði húsnæði skólans betur væri hægt að laga vandamál sem staðið hafa árum saman vegna aðstöðuleysi frístundar í Kelduskóla Vík. Flokkur fólksins spyr hvað hyggst Skóla- og frístundaráð gera í þessu máli og hvernig ætlar borgin að finna lausn sem íbúar/foreldrar geta sætt sig við? R19080068

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Fyrirspurn Flokks fólksins um búsetuúrræði fyrir fatlaða einstaklinga. Samkvæmt nýjustu upplýsingum bíða nú 57 einstaklingar eftir sértæku húsnæði í flokki 1, 45 eftir sértæku húsnæði í flokki 2 og 43 eftir sértæku húsnæði í flokki 3. Til upprifjunar þá er flokkur 3 þeir sem þurfa mikla þjónustu og flokkur 2 minni og flokkur 1 minnst af þeim sem þurfa sértækt húsnæðisúrræði. Samtals eru þetta 145 auk þess eru 35 á bið eftir húsnæði með stuðningi en það þýðir að viðkomandi fær staka íbúð en teymi starfsfólks sér um að veita þjónustu heim. Ef litið er á listann fyrir ca. 5 árum kemur í ljós að hann hefur ekkert styðst. Þetta er stór hópur einstaklinga og hafa margir beðið lengi, jafnvel nokkur ár. Flokkur fólksins spyr: Hver er ástæða þess að fólk með fötlun í Reykjavík þarf að bíða mánuðum og árum saman eftir búsetuúrræði? Er það skortur á húsnæði? Skortur á starfsfólki? Hvað er verið að byggja fyrir marga? Er á dagskrá að kaupa húsnæði sem þegar er til staðar? Er til nýleg þarfagreining meðal þeirra sem þurfa sérstök húsnæðisúrræði? R19080069

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er í sambandi við all marga foreldra fatlaðra einstaklinga sem segjast vera úrvinda vegna langrar biða eftir sérstöku búsetuúrræði. Fullorðinn einstaklingar með fötlun eru heima hjá foreldrum sínum í sumum tilfellum þar sem foreldrar geta engan veginn sinnt þeim ýmist vegna fötlunar þeirra eða veikinda foreldrana. Hér er verið að brjóta á rétti fatlaðs einstaklings sem á rétt á viðeigandi þjónustu frá borginni. Á sumum heimilum eru síðan yngri systkini sem farin eru að sýna streitu- og vanlíðunareinkenni vegna aðstæðna. Þetta fólk hefur verið að banka upp á svo mánuðum og jafnvel árum skiptir í þeirri von að fá sérstakt búsetuúrræði fyrir fullorðin fötluð börn sín. Hvað eiga þessir foreldrar að gera í þessari stöðu? Borgin hefur nýlega keypt hús á Hringbraut fyrir fatlaða einstaklinga og því bera að fagna. En betur má ef duga skal. Það vantar búsetuúrræði fyrir 180 manns. Þessi málaflokkur er í lamasessi og ef litið er til síðustu ára hefur hann verið meðal þeirra sem stillt er upp aftast í forgangsröðuninni. R19080069

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill reyna að skilja þessa viðauka við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar betur sem koma reglulega inn í borgarráð. Fyrir fólkið í borginni sem vill e.t.v. rýna í þetta væri gott að með viðaukum fylgdi ítarlegri skýringar. Í þessum viðaukum sem lagðir eru fram á fundi borgarráðs 15. ágúst er óskað nánari skýringa. Til dæmis er talað um viðauka vegna samgöngusamninga jan. til jún. 2019. Ekki kemur fram hvað þetta er nákvæmlega, ferðir? Ef svo er af hverju eru þær í viðauka? Hvaða forsendur breyttust þegar gerð var áætlun um þennan lið? Í lið 3, er fjallað um námsgögn sem virðast hafa verið vanáætluð, er verið að tala um að bæta þurfi við 40 millj. vegna vanáætlunar? Þetta hefði mátt koma skýrar fram. Í 8 er talað um velferðartæknismiðju. Hvað er velferðartæknismiðja? Í 9 er talað um að lækka eigi fjárheimildir vegna frestunar á úrræði fyrir tvígreindar konur. Af hverju var þessu úrræði frestað og hvenær er þá reiknað með að því verði komið á? Í lokaliðnum er talað um að stjórnendur munu raðast í lægri flokk. Eru þessi aðilar að lækka í launum? R19010200

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Tillaga Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn skilgreini ábyrgð sína gagnvart öllu því fólki sem hafa treyst á að fá mat hjá frjálsum félagasamtökum. Lagt er til að borgarmeirihlutinn upplýsi um hvernig hún ætlar að axla þessa ábyrgð? Auk þess er lagt til að öllum þeim sem hafa treyst á matargjafir frá hjálparstofnunum sé boðið til fundar við félagsráðgjafa sem leggur mat á þörfina og myndi í framhaldi láta fólk fá matarkort (t.d. Bónuskort) til að kaupa sér mat. Markmiðið er að viðkomandi þurfi ekki að treysta á frjáls félagasamtök til að eiga til hnífs og skeiðar enda er það ekki lögbundin ábyrgð þeirra. Í sumar myndaðist neyðarástand þegar 3600 manns sem ekki á peninga til að kaupa mat fékk ekki að borða vegna þess að frjáls félagasamtök sem eru með matargjafir lokuðu. Það er eitthvað að í samfélagi sem þarf að treysta á frjáls félagasamtök til að gefa fátæku fólki að borða. Staða hagkerfisins er góð og borgin segist skila hagnaði en engu að síður er á fjórða þúsund manns sem verður að treysta á frjáls félagasamtök til að fá grunnþörfum sínum fullnægt eins og að fá að borða. Hver er eiginlega ábyrgð stjórnvalda gagnvart þeim sem minnst mega sín í samfélaginu?

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um greiðslu í hússjóð hjá Félagsbústöðum

Svarið má sjá hér

Óskað var eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu.
Það kemur á óvart að verið sé að rukka leigjendur fyrir rafmagn og hita og þrif og annað sem þarna er nefnt. Eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur heyrt frá leigjendum eru þeir sjálfir að greiða reikninga fyrir þrif og rafmagn sem dæmi. Spurningarmerki er sett við snjómokstur, snjómokstur og fleira af þessu sem nefnt er kannast ekki allir leigjendur við. Hvað varðar öryggishnappinn ætti hann að vera valkvæður. Þetta svar í heild sinni vekur því upp margar spurningar og vangaveltur sem dæmi hvort ekki sé verið að seilast helst til of mikið í vasa leigjenda með öllum þessum gjöldum sem þeir eru sjálfir að hluta til að greiða beint eins og t.d. rafmagn og þrif. Þegar allt er talið, hússjóðsgjöld og þjónustugjöld ofan á leigu íbúða sem eru í afar misgóðu ástandi er hér orðið um ansi háar upphæðir að ræða. Nokkrar áhyggjur eru af málum hjá Félagsbústöðum. Leigjendur eru viðkvæmur hópur og margir kvarta ekki, hafa ekki vanist að kvarta og aðrir þora hreinlega ekki að kvarta

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Skóla- og frístundarráðs frá 30. júlí, liður 2 um kynningu á stöðu framkvæmda við grunnskóla Reykjavíkurborgar 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna langtíma viðhaldsleysis og myglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf. Tugir barna og kennara hafa verið og eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Nýlega var Flokkur fólksins með umræðu um ástand skólabygginga í Borgarstjórn. Þar var sérstaklega rakið ástandið m.a. í Hagaskóla. Til er svokölluð 5 skóla skýrsla sem borgarfulltrúi hefur óskað eftir að verði gerð opinber en án árangurs. Falin gögn vekja tortryggni t.d. hvort ástandið kunni að vera verra en talið er?

Bókun  Flokks fólksins við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 3. júlí 2019  undir 1. og 4. lið fundargerðarinnar

Undir 1. lið. Meðal tillagna stýrihóps um aðgerðaráætlun í úrgangsmálum er að hafin verði söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi til jarðgerða í tilraunaskyni, að flokkað verði gler og málmar og að hefja átak flokkunar á pappír til endurvinnslu. Þessu ber að fagna en hér er minnt á tillögu Flokks fólksins um að Sorpa taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Þetta hefði átt að vera löngu búið að gera og í raun hefði Reykjavík átt að vera leiðandi með slíkt kerfi sem stærsta sveitarfélag landsins. Nú hafa mörg sveitarfélög tekið þetta upp og má segja að Reykjavík sé að verða gamaldags þegar kemur að flokkun sorps. Þriggja flokka sorpflokkunarkerfi er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu. Flokkur fólksins hvetur umhverfis- og heilbrigðisráð til að styðja við þessa tillögu sem vísað var til stjórnar Sorpu.
Undir 4. lið fundargerðarinnar. Flokkur fólksins vill taka undir margt af því sem kemur fram hjá fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Miðflokks í bókun um mál Vinnuskólans, að verkefni s.s. að búa til mótmælaspjöld hefði átt að vera borið undir foreldra. Borgarfulltrúar hafa eftirlitshlutverk og ef grunur leikur á að ekki sé leitað viðeigandi samráðs við foreldra er varðar málefni barna þeirra ber borgarfulltrúum að taka upp málið á vettvangi borgarinnar.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 56. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 14. ágúst

Hér er verið að leggja fram bréf borgarstjóra um skipulagslýsingu sem er undanfari varanlegrar lokunar Laugavegar. Flokkur fólksins óskaði eftir að þessu máli yrði frestað til að hafa mætti betra samráð við hagsmunaaðila en sú málsmeðferðartillaga var felld á síðasta fundi borgarráðs fyrir sumarhlé. Nú er komið að því að keyra málið áfram í óþökk fjölda rekstraraðila sem sent hafa inn um 230 undirskriftir til að mótmæla þessum aðgerðum. Ekkert frekara samráð hefur verið haft í sumar enda löngu ljóst að allt tal um samráð er fátt nema sýndarmennska borgarmeirihlutans. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir að þeim hafi verið lofað að haft yrði samráð við samtökin. Minnt er á ný umferðarlög sem heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Lögin taka gildi um áramót. Í framhaldi vill borgarfulltrúi spyrja hvort hafinn sé undirbúningur innleiðingar þessarar nýju löggjafar?

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf og umsagna með athugasemdum hagsmunaaðila vegna tónleika Secret Solstice í Laugardal

Allir eru sammála um að það gekk betur í ár en í fyrra og kemur margt til sem skýrir það. Ítarlegar umsagnar liggja fyrir frá ólíkum hagsmunaðilum. Þrátt fyrir aukið eftirlit komu engu að síður upp 40 fíkniefnamál og í athvarfið komu 43 unglingar vegna ölvunar. Vitni voru að því að barþjónar voru að selja gestum lokaðar dósir á barnum sem samræmist ekki lögum og unglingar fengu margir hverjir afgreiðslu á barnum þrátt fyrir að vera með Youth (13-17 ára) armbönd. Ekki var því nægjanlega fylgst með börnum allan tímann. Tímasetning stóðst ekki en skv. starfsleyfisskilyrðum fyrir hátíðina átti tónleikum að vera lokið 23:30. Engu að síður var spilað fram yfir miðnætti. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Fram kemur í umsögn Þróttar að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hefur skemmt völlinn og sé svæðið í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu. Nú liggur fyrir ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í Dalnum. Áætlaður kostnaður er 800 þúsund. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur einfaldlega til að fundinn verði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessu tagi og af þessari stærðargráðu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu ársskýrslu endurskoðunarnefndar Reykjavíkurborgar, dags. 15. ágúst 2019, til borgarstjórnar fyrir árið 2019.

Flokkur fólksins tekur undir með nefndinni og innri endurskoðun að þurft hefur að takast á við mörg ófyrirséð verkefni utan áætlunar síðasta misseri sem mun hafa áhrif á framgang samþykktar endurskoðunaáætlunar. Síðasta ár hefur komið í ljós margir gallar í borgarkerfinu þegar kemur að eftirliti og skemmst er að minnast opinberunar á hvað fram fór bak við tjöldin við endurgerð braggans og fleiri verkefni sem ýmist voru ekki fullar fjárheimildir fyrir eða gerðir samningar. Allt fékk þetta að viðgangast árum saman sem hlýtur að þýða einhverskonar andvaraleysi eða ofmetið traust? Það er von borgarfulltrúa Flokks fólksins að allir þeir aðilar sem eiga að gæta þess að fjármál og fjármálastjórn borgarinnar sé í samræmi við lög og reglur séu stöðugt á tánum við að prófa og sannprófa virkni eftirlits og í sífelldri leit að veikleikum kerfisins. Erfiðast hefur verið að horfa upp á að ábendingar sem þó hafa verið lagðar fram af eftirlitsaðilum, sumar ítrekaðar, en sem samt hafa verið hunsaðar jafnvel í nokkur ár. Hvað þýðir það þegar ábyrgðaraðilar verkefna komast upp með slíka hunsun? Leiða má líkum að því að ekki hafi verið borin nægjanleg virðing fyrir eftirlitsaðilum fram til þessa og viðvaranir þeirra þess vegna bara látnar lönd og leið?

Tillaga um að borgarfulltrúar fundi með borgarbúum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarbúum verði boðið til fundar við alla borgarfulltrúa í Tjarnarsal Ráhússins amk tvisvar til þrisvar á ári. Þar mun borgarbúum gefast kostur á að hitta alla borgarfulltrúa í einu og leggja fram málefni til umræðu eða spyrja spurninga. Hægt er að hugsa sé ýmis konar fyrirkomulag á fundum sem þessum td. að hafa ákveðna dagskrá en umfram allt að leyfa fundinum að vera dýnamískur t.d. ef eitthvað málefni brenna á borgarbúum þá verði það ráðandi á fundinum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill leggja áherslu á lýðræði, lýðræðisleg vinnubrögð, sveigjanleika, tengsl og gegnsæi þegar kemur að samtali við borgarbúa.  Mikilvægt er að skapa vettvang sem þennan til að ná almennilegri tengingu við fólkið í borginni í ljósi fjölmargra kvartana um skort á samráði og tillitsleysi borgaryfirvalda gagnvart borgarbúum hvað varðar mýmörg málefni stór sem smá.

Bókun Flokks fólksins við svari fyrirspurnar Miðflokksins um hönnun borgarlínu

Flokki fólksins finnst þessi svör við fyrirspurn Miðflokksins ansi rýr og telur að borgaryfirvöld geti ekki vel sett sig í spor borgarbúa sem sjá margir hverjir þetta risavaxna verkefni ekki alveg fyrir sér. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur einnig lagt inn fyrirspurnir sem vísað var til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. Enn hefur ekki borist svör við þeim. Þær eru hér með ítrekaðar:
1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin?
2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað?
3.Hversu margir km. verður línan?
4. Hvað þarf marga vagna í hana?
5. Á hvaða orku verður hún keyrð?
6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir?
7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu?
8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna?
9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?

Borgarráð.
18. júlí 2019

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um kostnað vegna tilraunaverkefnis með vetnisstrætó ári 2001

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar við fyrirspurninni um kostnað við tilraunaverkefni með vetnisstrætó í kringum árið 2001 ekki fullnægjandi. Varla hefur þetta verið ókeypis fyrir borgarbúa. Verkefninu var stýrt og kostað m.a. af Íslenskri NýOrku sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar. Sérstakt þykir að ekki finnist nein gögn um að Reykjavíkurborg hafi lagt fjármuni beint í verkefnið utan 730 þ.kr vegna ráðstefnu. Æ oftar má sjá hvað fyrirtæki B-hluta borgarinnar virðast vera dottin úr tengslum við Reykjavíkurborg og farin að haga sér eins og einkafyrirtæki en ekki fyrirtæki í eigu borgarinnar. Reykjavíkurborg á fulltrúa í stjórnum B-hluta fyrirtækjanna og er meirihlutaeigandi í öllum byggðasamlögum en engu að síður er talað um þessi fyrirtæki eins og borgin hafi ekkert um þau að segja. Auðvelt ætti að fá upplýsingar um hvað NýOrka, félag sem er dótturdótturfyrirtæki borgarinnar greiddi í þetta tilraunaverkefni. Verkefni var sérstakt fyrir margar sakir. Hér var um þýska vagna að ræða sem gerð var tilraun með hér á land. Hér var ekki verið að prófa íslenska tækni. Af hverju var þessi tilraun ekki gerð í Þýskalandi? En sú spurning er sjálfsögðu ekki tengd fyrirspurninni um kostnaðinn þótt hún fái að fylgja hér með.

Svar fjármála- og áhættustýringasviðs

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um vinnustaðakönnun Strætó bs.

Flokkur fólksins spurði um vinnustaðakönnun Strætó bs ekki síst í ljósi allra þeirra fjölmörgu kvartana sem fyrirtækið hefur fengið á sig sem er langt umfram það sem teljast má eðlilegt. Enn er beðið eftir nánari sundurliðun en fram kom í síðasta svari að meirihlutinn væri vegna framkomu, tímasetningar og aksturlags. Í þessari könnun er eftir því tekið að meiri en helmingur svarenda finnur fyrir streitu í vinnu, sbr. 10 og 15% segjast hafa orðið fyrir einelti á vinnustað (skv. síðustu glærunni). Þetta er hátt hlutfall. Þegar meiri en helmingur svarenda segist finna fyrir streitu í vinnunni má velta fyrir sér hvort streita kunni að tengjast eitthvað þessu háa hlutfalli ábendinga/kvartana t.d. þeim hluta sem snúa að framkomu og aksturslagi? Hjá fyrirtækinu er afar skekkt kynjahlutfall. Hlutfall kvenna sem eru vagnstjórar er aðeins 12%. Heildarfjöldi 185 vagnstjórar, konur 20 og karlar 165. Kvartanir/ábendingar voru, árið 2018, 2.778 og hafði fjölgað nokkuð frá árinu áður. Ef streita hleðst upp í starfi þekkjum við það öll að hún getur laðað fram einkenni sem hefur áhrif á framkomu okkar og atferli. Því ber þó að fagna að vinnustaðarmenningin á staðnum virðist fara batnandi.

Svar Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við að borgin geri samning við Arnarskóla vegna reykvískra nemenda

Er ekki tímabært að borgin setji á fót svona úrræði, sinn eigin „Arnarskóla“? Kostnaður vegna fjögurra nemenda sem borgin greiðir fyrir 4 börn er kr. 4.949.956,- á mánuði skv. gjaldi í maí 2019 og á ári miðað við 12 mánaða þjónustu kr. 59.399.472,-Sérúrræði sem þetta hefur Flokkur fólksins ítrekað kallað eftir enda bráðvantar það í borginni. Það er blinda og afneitun meirihlutans gagnvart þeirri staðreynd að Skóli án aðgreininga eins og honum er stillt upp er ekki að virka fyrir öll börn. Dæmi eru um að börnum hafi verið úthýst úr skólakerfinu vegna djúpstæðs vanda, send heim og ekki boðið neitt úrræði fyrr en eftir dúk og disk og þá fyrst eftir að foreldrar hafa gengið þrautargöngu innan kerfisins. Hvað þarf margar kannanir og upphróp til að meirihlutinn hætti að stinga hausnum í sandinn og horfist i augu við að hópur barna sem forðast skólann sinn fer stækkandi, barna sem sýna einkenni kvíða og depurðar sem rekja má beint til líðan í skóla þar sem þau hafa ekki fundið sig meðal jafningja. Svona úrræði geta önnur sveitarfélög stofnað en ekki stærsta sveitarfélag landsins, Reykjavík, sem er því upp á náð og miskunn annars sveitarfélags með að fá inni fyrir reykvísk börn.

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 1. júlí 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um launagreiðslur til fyrrum framkvæmdastjóra Félagsbústaða fyrir árið 2018 vegna starfsloka hans.

Laun fráfarandi forstjóra Félagsbústaða eru regin hneyksli. Forstjórinn var með rúmar 1,6 m.kr á mánuði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er orðlaus yfir þessari upphæð sem sennilega er á pari við sjálfan borgarstjórann. Fram kemur í svari að viðkomandi átti um 2 mánuði ógreitt orlof og ógreidda yfirvinnutíma. Upplýst hefur verið með yfirvinnu. Við starfslok voru greiddir út  128 tímar í yfirvinnu á tímabilinu 2017 til 2018 samtals 1.961.023. Þetta var ofan á föst laun. Flokkur fólksins gerir skilyrðislausa kröfu til stjórnar að laun núverandi forstjóra verði lækkuð séu þau í einhverju samræmi við þessa upphæð. Laun viðkomandi sem sinnir þessu starfi þarf að vera í einhverju samræmi við þann veruleika sem við lifum í. Hér er um firringu að ræða sem æ oftar virðist vera raunin hjá meirihluta borgarstjórnar og fyrirtækjum í eigu borgarbúa þegar sýslað er með skattfé borgarbúa. Einhver meðvirkni virðist vera í öllu þessu máli.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs um varanlegan regnboga í Reykjavík

Flokkur fólksins fagnar því að ákveðið var að setja regnbogagötu á eina götu borgarinnar enda samþykkt af öllum flokkum í borgarstjórn. Skólavörðustígur hefur verið valinn án nokkurs samráðs við rekstraraðila götunnar eða íbúa þrátt fyrir tal meirihlutans um samráð. Þetta eru ólíðandi vinnubrögð. Skólavörðustígur er vissulega heppileg gata en í lýðræðissamfélagi er leitað eftir samráði við fólk þegar svona ákvörðun er tekin.

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 11. júlí 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjun götutrjáa 2019. Kostnaðaráætlun er 20 m.kr.

Endurnýja á götutré við gönguleiðina „Ormurinn langi“ í Rimahverfi fyrir 20 m.kr. og er hér aðeins um 1. áfanga að ræða. Fjarlæga á 25 aspir og setja lágvaxnari tegundir sem sagt er að auki „líffræðilega fjölbreytni“. Ef breyta á einu beði eykur það varla „líffræðilega fjölbreytni“, slík hugtök eru notuð á heldur stærri skala. Það sem borgarfulltrúi vill þó leggja áherslu á hér er þessi mikli kostnaður. Það er eins og ráðamenn í borginni hugsi aldrei út í kostnað og farið er af stað með tugi verkefna af alls kyns tagi fyrir stórar upphæðir eins og milljónin skipti engu máli. Fyrir 20 milljónir væri hægt að gera mikið fyrir börn þessarar borgar og skólana sem nú eru víða í lamasessi vegna viðhaldsleysis og myglu. Það er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að einhver veruleikafirring sé í gangi þegar kemur að peningum og ráðstöfun þeirra. Þetta er útsvarsfé borgarbúa sem hér er verið að sýsla með og er það skylda og ábyrgð þeirra sem ráða að horfa í hverja krónu og umfram allt sjá til þess að borgarbúar allir sem einn fái fullnægjandi þjónustu. Út á það gengur hugmyndafræði samneyslunnar. Þegar sú þjónusta er trygg er hægt að fara skoða verkefni ætluð til skreytinga.

Bókun Flokks fólksins undir lið 3 í fundargerð Strætó bs., dags. 21.6.2019, vegna funda með samstarfssveitarstjórnum sem standa að Strætó og kynninga á niðurstöðu stefnumótunarvinnu.

Áfram á að halda kynningum þar til öll sveitafélög hafa verið heimsótt. Borgarfulltrúa finnst þessi aðferð hljóti að vera æði tímafrek og dýr. Það blasir við að Strætó bs. verður að fara endurnýja og nútímavæða sig sem þjónustufyrirtæki til að það verði ekki úrelt ef tekið er mið af almenningssamgöngukerfi í borgum sem við berum okkur við. Það verður því að fara að spýta í lófana.

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðar Verkefnastjórnar miðborgarmála frá 9. apríl:

Eftir því er tekið í þessari fundargerð að enginn frá borginni hafði áhuga á að ræða mótmæli 247 rekstraraðila (90%) og þá staðreynd að ekkert samráð hefur verið haft við þá hvorki nú né undanfarin ár. Öryrkjabandalagið telur einnig að ekki hafi verið haft samráð við þá af einhverri alvöru. Ef fundir verkefnastjórnar miðborgarmála eru eins einhliða og fundargerðir þeirra sýna er ljóst að allt sem kallast lýðræði hefur verið varpað fyrir róða. Þessi vinnubrögð eru með öllu óásættanleg og krefst borgarfulltrúi Flokks fólksins að verkefnastjórn miðborgarmála bjóði umsvifalaust Miðbæjarfélaginu á fund og Öryrkjabandalaginu. Ef göngugötur að eiga að vera skulu þær vera á forsendum rekstraraðila og annarra hagsmunasamtaka og einnig vera gerðar í samráði við alla borgarbúa. Miðbærinn er okkar allra. Hafa skal í huga að hjá þeim 247 rekstraraðilum sem skrifuðu undir mótmæli við göngugötum vinna 1.870 manns. Þeirra lífsviðurværi er líka í hættu. Frá febrúar 2019 hafa 16 verslanir lokað.

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðar Verkefnastjórnar miðborgarmála frá 14. maí vegna skorts á samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila

Fregnir hafa borist af þessum fundi frá aðilum sem vildu ræða afgerandi andstöðu rekstraraðila við lokunum en fengu ekki hlustun. Ekki eitt orð er um könnun Zenter rannsókna og Samtök þjónustu og verslunar sem fjármagnaði hana. Það er sérkennilegt þar sem stjórnarmaður í Miðborgin okkar situr einnig í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu. Því hefði mátt halda að könnunin fengi vægi á fundi verkefnastjórnar miðborgarmála. Könnunin er vissulega áfall fyrir meirihlutann í borgarstjórn sem vill loka götum fyrir umferð þrátt fyrir hávær mótmæli og óánægju rekstraraðila og annarra hagsmunaaðila. 247 rekstraraðilar hafa sent borgarstjóra skrifleg mótmæli sín. Aldrei voru þessir aðilar spurðir um forsendur sínar fyrir þessum framkvæmdum. Meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru óánægðir með varanlegar göngugötur. Niðurstöður sýna skýrt að bærinn er að verða einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir. Er meirihlutinn og Miðborgin okkar að reyna að þagga þessa könnun þar sem niðurstöður hennar voru þeim ekki þóknanlegar?

Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. júlí 2019, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. júlí 2019 á auglýsingu á tillögu að lýsingu fyrir deiliskipulag Laugavegar sem göngugötu, ásamt fylgiskjölum. R19070069

Skýrsla: Laugavegur sem göngugata

Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að þessum lið verði frestað.

Hér er verið að afgreiða breytingu á skipulagslýsingu sem er undanfari lokunar Laugavegar varanlega. Þetta á að gera þrátt fyrir hávær mótmæli en 230 rekstraraðilar hafa skilað inn undirskriftum. Óskir Öryrkjabandalags Íslands og Sjálfsbjargar hafa einnig verið hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. Öryrkjabandalags Íslands hitti arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald. Enda þótt þessum aðilum hafi e.t.v. verið leyft að tjá sig um málið hefur ekkert verið hlustað á þeirra sjónarmið og rök. Niðurstöður könnunar Zenter rannsókna sýna einnig megna óánægju meirihuta rekstraraðila og borgarbúa nema ákveðins hóps. Farið er fram á að það verði rætt við öll þessi félög og samtök og að tekið verði tillit til þeirra forsendna og þarfa áður en haldið er áfram með þetta mál. Ný lög eru skýr á að heimila handhöfum P-korta fyrir hreyfihamlaða að keyra á vélknúnum ökutækjum í göngugötum og leggja þar. Varla ætlar borgin að brjóta lög. Það er ekki tímabært að afgreiða skipulagslýsingu núna. Almennt séð er aðgengi hreyfihamlaðra að miðborginni afar slæmt. Bílastæði fyrir hreyfihamlaða af skornum skammti og aðgengi að lokuðum götum mjög erfitt. Reyndin er að fyrirtæki flýja nú bæinn og fólk er farið að forðast hann.

Málsmeðferðartillagan er felld með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Erindið er samþykkt (Flokkur fólksins er ekki með atkvæðarétt í borgarráði)

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins hreinlega blöskrar þau ósannindi sem reifuð eru í kafla skýrslunnar um samráðsferli. Ekkert alvöru samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið, Öryrkjabandalag Íslands og Sjálfsbjörgu en fullyrt er án þess að blikna að „víðtækt samráð hefur þegar verið haft við hagsmunaaðila“. Borgarfulltrúi vill spyrja hvort skrifleg mótmæli um 247 rekstraraðila hafi farið fram hjá borgarstjóra en honum voru afhentir undirskriftarlistar fyrir fund borgarstjórnar í byrjun apríl. Er borgarstjóri búinn að henda þessum listum? Eða skoðaði hann þá aldrei? Hér stendur ekki steinn yfir steini í málflutningi meirihlutans sem viðhafði aldrei neitt samráð um ákvörðun um varanlega lokun gatna. Svokallað samráð gekk í mesta lagi út á að leyfa fólki að tala en ekkert var hlustað. Flokkur fólksins gerir þá kröfu til meirihlutans og borgarstjóra að hann fundi umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu, Öryrkjabandalagi Íslands og Sjálfsbjörgu um þessar fyrirætlanir. Hvorki hefur verið tekið mark á undirskriftum né Zenter könnun sem Miðborgin okkar fékk þó gerða. Miðbæjarfélagið hefur haft samband við á annað hundrað rekstraraðila og kannast engin við samráð hvorki nú né undanfarin ár. Allt tal um samráð eru því ósannindi og blekkingar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef. Svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Rétt er að nefna þá skipulagslýsingu sem verið er að samþykkja núna í auglýsingu í borgarráði 18. júlí sem er grunnurinn að því víðtæka lögformlega samráði sem í deiliskipulagsferlinu felst. Innihaldslausum upphrópunum fulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um ósannindi er vísað á bug.

Tillaga um að haldinn verði fundur umsvifalaust með Miðbæjarfélaginu um fyrirætlanir um lokun gatna í miðbænum.

Hafa þarf beint samráð við rekstraraðila félagsins og að allar breytingar séu á þeirra forsendum og annarra hagsmunaaðila. Tugir rekstraraðila hafa flúið vegna þess að verslun þeirra hefur hrunið samhliða lokun gatna fyrir umferð. Í skýrslu sem ber heitið Laugavegur sem göngugata og er dags. 28. júní 2019 er kafli sem heitir Samráðsferli. Þar er því haldið fram að „víðtækt samráðsferli hefur þegar átt sér stað við hagsmunaaðila. Það samráð er einhliða. Ekkert samráð hefur verið haft við Miðbæjarfélagið. Samráð sem hér er talað um er sagt hafa verið dagana 28. janúar til 3. febrúar 2019. Þar var ekki hlustað einu orði á rekstraraðila Miðbæjarfélagsins. Afstaða þeirra er skýr sbr. undirskriftalista. Zenter rannsóknir staðfesta í niðurstöðum sínum víðtæka óánægju með varanlega lokun enda ekki á forsendum rekstraraðila og meirihluta borgarbúa.
Frestað.

Tillaga um að meirihlutinn haldi fund umsvifalaust með Öryrkjabandalaginu og Sjálfsbjörg um samráð um  varanlega lokun gatna í miðbænum.

Ekkert raunverulegt samráð hefur farið fram við Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörgu. Óskir um fundi hunsaðar, þrátt fyrir bókun sl. haust um að fundað yrði með þeim um algilda hönnun. ÖBI hefur verið boðið að hitta arkitekt, sem hefur ekkert pólitískt vald og getur ekki ákvarðað um annað en ákveðnar útfærslur, svo sem um hækkun götunnar til að auðvelda inngöngu í verslanir. ÖBI hefur verið mjög skýr um það frá upphafi að það verði að hleypa fólki með P-merki inn á göngugötur og hafa bílastæði þar. Nú verður borgin að taka mark á þeim kröfum skv. lögum. Þessi mál þarf að ræða við notendur og skal ekkert um þá gert án þeirra.
Frestað.

Fyrirspurn um hvað mörg fyrirtæki hafa leigt bílastæði fyrir starfsfólk sitt í bílastæðahúsum í miðborginni og hve mörg?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurnir um hvað mörg bílastæði verða fyrir almenning á Hafnartorgi?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn um hvað forstjórar B-hluta fyrirtækja hafa í laun og yfirlit yfir launahækkanir síðustu 2 ár.

Í fréttum nýlega var sagt frá því að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi samþykkt að hækka mánaðarlaun forstjóra um 5,5% eða sem nemur tæplega 130.000 krónum á mánuði. Hækkunin er afturvirk til 1. mars síðastliðins. Eftir hækkunina nema grunnlaun forstjórans 2,5 milljónum króna. Hækkunin var gagnrýnd enda hafi verið samþykkt á síðasta aðalfundi OR að hækka laun stjórnarmanna um 3,7% en ekki 5,5%. Flokkur Fólksins vill minna á að margt fólk sem er með 300.000 krónur í laun á mánuði er ætlað að greiða rúmlega helminginn af því í húsaleigu og lifa á restinni. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst auk þess mikilvægt að fá þessar upplýsingar til að bera saman við hæstu laun sem greidd eru í borginni þar á meðal laun borgarstjóra. Mörgum finnst sem B-hluta fyrirtæki borgarinnar séu orðin eins og ríki í ríkinu og ákveða stjórnir þeirra að hafa hlutina eins og þeim sýnist eins og gleymst hafi að þetta eru fyrirtæki í eigu borgarbúa.
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Tillaga um að fulltrúi úr röðum leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins frá og með næsta aðalfundi sem verður 2020.

Mikill meirihluta íbúða á Lindargötu 57-66 eru leiguíbúðir í eigu Félagsbústaða. Minnihluti eru eignaríbúðir. Engu að síður á fulltrúi eignaríbúða sæti í stjórn húsfélagsins en ekki fulltrúi leigjenda. Það segir sig sjálft að engin sanngirni er í þessu fyrirkomulagi og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja til að úr þessu verði bætt hið fyrsta. Aðalfundur er nýlega afstaðinn. Fyrir næsta fund er lagt til að gerðar verði breytingar sem kunna að vera nauðsynlegar t.d. lagabreytingar til að hægt sé að kjósa fulltrúa leigjenda í stjórn á næsta aðalfundi 2020. Lindargata 57-66 er, eftir því sem næst er komist eina húsfélagið þar sem leigjendaíbúðir eru í meirihluta. Verði um fleiri slík tilfelli að ræða skal ávallt tryggja að fulltrúi leigjenda eigi sæti í stjórn húsfélagsins.
Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

Tillaga um að stofnuð séu húsfélög í þeim fjölbýlishúsum þar sem Félagsbústaðir eiga allar íbúðirnar (Félagsbústaðir eini eigandinn).

Ávallt þarf að tryggja að rödd leigjenda heyrist og húsfélag er formleg leið til þess og í stjórn sitji leigjendur. Eins og flestum er kunnugt hafa leigjendur í tugatali upplýst um að kvartanir þeirra, um langvarandi viðhaldsleysi og heilsuspillandi myglu í húsnæði þeirra, til stjórnenda Félagsbústaða hafi hreinlega verið hunsaðar eða í það minnsta ekki teknar nægjanlega alvarlega til að gert hafi verið við með fullnægjandi hætti.
Vísað til umsagnar Félagsbústaða.

Fyrirspurn um hvað hyggst skóla- og frístundarráð gera fyrir þau börn í vanda sem eiga ekki inni í „venjulegum skólum“. Hvert eiga þau að fara? Hvar eiga þau að stunda nám?

Vitað er að í öll sérúrræði er langur biðlisti t.d. í Klettaskóla og Brúarskóla. Nýlega fékk Flokkur fólksins svar við fyrirspurn sinni um hve mörg börn hafa undanfarin 5 ár ekki fengið skólavist vegna þess að þau glími við djúpstæðan tilfinningar- og hegðunarvanda. Sagt var að engu barni hafi verið vísað úr skóla vegna alvarlegs hegðunarvanda á þessu tímabili sem spurt var um. Þetta er ekki rétt. Síðan þetta svar var birt hafa nokkrir foreldrar haft samband og segjast einmitt hafa verið í þessum sporum auk þess sem við öll þekkjum eitt mál sem var nýlega í fréttum. Minnt er á að ef börn eru sett í aðstæður þar sem þau fá ekki notið styrkleika sinna og almennt séð fá ekki notið sín er hætta á að þau fari að sýna einkenni depurðar og kvíða. Sé barn látið vera í aðstæðum sem þessum lengi, jafnvel árum saman mun það einfaldlega hætta að vilja fara í skólann. Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk meta svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki inni í slíku úrræði.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Tillaga um að skóla- og frístundarráð kalli markvisst eftir upplýsingum frá foreldrum sem telja að börn þeirra fái ekki þörfum sínum mætt í hinum „almenna skóla“ byggðan á stefnu borgarinnar sem kallast Skóli án aðgreiningar.

Eins og Flokkur fólksins hefur margítrekað þá er verið að taka áhættu með andlega heilsu barna ef þau eru sett í aðstæður til langs tíma þar sem þau fá ekki notið sín í. Barn sem upplifir sig ekki vera meðal jafningja og finnur sig einangrað er í áhættu með að þróa með sér depurð og kvíða. Eins og fram hefur komið m.a. í könnun Velferðarvaktarinnar er hópur barna sem neitar að fara í skólann vegna vanlíðan sem þau tengja skólanum. Hópurinn hefur farið stækkandi undanfarin ár. Þessi börn geta verið alla ævi að byggja sig upp eftir áralanga veru í skólaaðstæðum sem ekki hentar þeim.

Greinargerð:

Biðlisti í flest öll sérskólaúrræði hvort sem eru deildir eða skólar er langur og jafnvel þótt kennarar, foreldrar og fagfólk metur svo að barn eigi heima í sérúrræði þá fær það ekki þar inni. Það er mikilvægt að Skóla- og frístundarráð viti hvað mörg börn eru í þessum aðstæðum og heyri frá foreldrum þeirra hvað þeir telji að þurfi að breytast í aðstæðunum og hvaða og hvernig úrræði henti barni þeirra til að það geti notið skólagöngu sinnar til fulls.

Í skýrslunni segir:

„Stofnað verði til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla. Fyrsti þátttökubekkurinn taki til starfa haustið 2013 og hinir með tveggja ára millibili þannig að allir bekkirnir verði farnir að starfa haustið 2019“

Spurt er af hverju hefur borgarmeirihlutinn/Skóla- og frístundarráð ekki staðið við áætlun sína sem birt er í þessari skýrslu frá 2012 um að stofna til fjögurra þátttökubekkja undir stjórn Klettaskóla?
Allir fjórir bekkirnir ættu að vera starfandi nú í haust en aðeins einn bekkur er starfræktur. Allt of mörg börn kvarta yfir vanlíðan í skólanum, skóla sem á að vera fyrir alla og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri. Foreldrar hafa stigið fram og sagt skólann ekki vera að mæta þörfum barna sinna og óska eftir að fá aðgang að sérskólum borgarinnar. Þangað inn er eins og fyrir úlfalda að komast í gegnum nálarauga. Báðir sérskólarnir eru löngu sprungnir og hefur Flokkur fólksins lagt til stækkun þeirra og fjölgun sambærilegra úrræða, allt tillögur sem hafa verið felldar eða vísað frá.
Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Tillaga um að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að Orkuveita Reykjavíkur/Veitur og Reykjavíkurborg stefni að því að hafa margar litlar rafbílahleðslustöðvar í stað fárra stórra.

Fyrir þá sem hyggjast kaupa rafbíl eru stærstu áhyggjur að komast ekki að stöð. Ef aðeins eru fáar stórar stöðvar munu myndast biðraðir. Vænta má að margir haldi að sér höndum við að kaupa rafbíl því þeir óttast að þeir þurfi að bíða efir að komast í rafmagn. Meðan þetta er raunveruleikinn þá eykst rafbílaflotinn hægt. Reykjavíkurborg á stóran meirihluta í OR/Veitum og því er eðlilegt að borgarstjórn hafi skoðun á þessu máli þrátt fyrir að þetta sé B-hluta fyrirtæki í eigu þriggja sveitarfélaga. Reykjavík er langstærsti eigandinn. Benda má reynsluna t.d. Osló en þar hefur einmitt fjöldi stöðva skipt öllu máli.

Greinargerð:

Í upphafi rafbílavæðingarinnar voru hleðslustöðvar margar og rafbílavæðingin tók hratt af stað, enda sá fólk  að það gæti hlaðið.  Fyrir hverja stöð voru ca. 4 bílar og þær voru allar litlar (lítið afl, enda höfuðmálið að setja upp margar stöðvar og nýta tímann).
Þar er í fyrsta sinn að verða vandamál að finna stöðvar, en hlutfallið er í dag ca. 10 bílar per stöð.  Viðbrögðin eru að byggja upp millihraðar stöðvar (7,4 – 22kW)  á helstu akstursleiðum til/frá borginni ásamt því að byrja í fyrsta sinn að rukka fyrir notkun hleðslustæðanna svo rafbílaeigendur noti ekki hleðslustæði til að sleppa við að borga í stæði. Osló að gera hlutina rétt – fókusinn er á að hafa nógu margar stöðvar við bílastæði í borgarlandinu fyrir langtímahleðslu og nýta tímann til að hlaða í stað þess að einblína á aflið. Það er hins vegar gert á hraðhleðslustöðvum sem eru við áningarstaði.
Svo virðist sem að ON stefni að fáum en öflugum hleðslustöðum í stað margra litla. Það er óþarfi að gera mistök sem þessi sér í lagi þegar nóg er af góðum fyrirmyndum erlendis sem virkað hafa frábærlega
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn um hvort Strætó bs hyggst skoða metan sem orkugjafa á vagna fyrirtækisins

Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að stjórn Strætó óski eftir að fengin verði utanaðkomandi ráðgjafi til að gera greiningu á mismunandi orkugjöfum vagna þar sem meðal annars komi fram reynsla, hagkvæmni og heildar líftímakostnaður. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins vill spyrja hvort Strætó bs. hyggst skoða metan sem orkugjafa vagna og horfa þá til þess metans sem Sorpa brennir engum til gagns?
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Fyrirspurn um fargjaldastefnu Strætó bs, hvort hún sé opinber og hvort kallað hafi verð eftir viðbrögðum almennings/notenda

Í fundargerð Strætó bs., dags. 21. júní 2019, segir að fyrir fundinum liggi drög að forsendum nýrrar fargjaldastefnu. Hefur sú stefnu verið kynnt opinberlega og kallað eftir viðbrögðum borgarbúa? Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins minna á allt tal meirihlutans um að hafa samráð við borgarbúa og hafa framkvæmdir og breytingarferli gegnsætt. Kallað er eftir meirihluti borgarstjórnar efni þetta loforð. Strætó er í meirihuta eigu borgarinnar og ætti borgin því að hafa bæði skoðun og áhrif á málefni Strætó bs.
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Fyrirspurn um kynningu Eddu Ívarsdóttur um göngugötur sem hún flutti á fundi Verkefnastjórnar miðborgarmála

Í fundargerð verkefnastjórnar miðborgarmála kemur fram undir lið 2 að Edda Ívarsdóttir hafi haldið kynningu um göngugötur sumarið 2019 ásamt kynningu á tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði að útfærslu á áfangaskiptingu á varanlegum göngugötum. Flokkur fólksins óskar eftir að fá senda þá kynningu sem Edda Ívarsdóttir flutti um göngugötur sumarið 2019 og spyr auk þess hvort þessi kynning hafi verið kynnt hagsmunaaðilum öllum og óskað eftir viðbrögðum þeirra?
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun um fundarsköp:

 1. Að mál eru send út í dagskrá en er síðan tekin af dagskrá án samráðs við aðila og sagt að þau séu ekki tilbúin. Þetta eru vond vinnubrögð enda borgarfulltrúar búnir að undirbúa málið.
 2. Flokkur fólksins óskar eftir að áður en fundum er slitið að það sé kannað meðal fundarmanna hvort eitthvað sé eftir, hvort einhver eigi eftir að skila bókunum og hvort menn séu sáttir við að fundi sé slitið á þessum tímapunkti. Þetta er almenn kurteisi enda eftir að fundi er slitið er engu hægt að koma til skila.

Borgarráð
4. júlí 2019

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um afdrif hugmynda um búsetuhús:

Fyrirspurn Flokks fólksins um hugmyndir um búsetuhús sem hópur foreldra barna með þroskahömlun lagði fyrir fyrrverandi skrifstofustjóra SEA og fyrrverandi formann velferðarráðs fyrir ca. 5 árum síðan. Spurt er um afdrif þessa máls. Fundað var all oft um þessar hugmyndir og fjöldi bréfaskrifta fóru á milli aðila en síðan er ekki vitað hvað varð um þær. Foreldrar og börnin bjuggu til sérstaka bók með hugmyndum um búsetuhús. Þessir foreldrahópur skilaði inn mikið af gögnum frá þeim og börnum þeirra. Systir eins barnsins var arkitekt og bauðst til að teikna húsið frítt og börnin máluðu málverk sem á stóð „Ekki gleyma okkur“. Þáverandi skrifstofustjóri lét að því liggja að þetta hús gæti risið í Skerjafirði. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vita hvað varð um alla þessa vinnu?

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um námsskrá vinnuskólans:

Í reglugerð og leiðbeinandi viðmiðunarreglum Vinnuskólans er talað um hefðbundin hreinsunar- og garðyrkjustörf og að námsefnið samanstandi af þremur þáttum: fræðslu, tómstundum og vinnu. Í ljósi frétta um að börnin í Vinnuskólanum læri að gera kröfuspjöld og fara í kröfugöngur og þess háttar langar borgarfulltrúa Flokks fólksins að spyrja nánar um: Hver ákveður hvaða verkefni börnin taka sér fyrir hendur í Vinnuskólanum hverju sinni og er verkefnavalið borið undir foreldra þeirra? R19070050

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu tillagna og fyrirspurna í borgarráði – framlagning  

Flokkur fólksins telur að enn sé mörgum fyrirspurnum ósvarað sem og tillögur óafgreiddar í borgarkerfinu, dæmi er um að málum hafi verið frestað t.d. tillögu um sveigjanleg starfslok eldri borgara. Ekki er vitað hvar það mál er statt. Fleira mætti telja upp. Sagt er að búið sé að svara og afgreiða 94% af málum Flokks fólksins í borgarráði. Flokkur fólksins þiggur að fá nákvæman lista yfir öll mál flokksins frá upphafi með upplýsingum um hvernig þau voru afgreidd á sérstökum lista og hvaða mál eru óafgreidd og hvar þau eru þá stödd. Hér er einnig átt við allar fyrirspurnir. R19070045

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ákvörðun um staðsetningu varanlegs regnboga:

Hvernig var ferli þess að Skólavörðustígur var valinn regnbogagata en ekki einhver önnur gata og hverjir komu að ákvörðuninni? Óskað er eftir nákvæmum upplýsingum um ferlið lið fyrir lið og hverjir sátu í hópi þeirra sem ræddu um hvaða gata yrði fyrir valinu. Flokkur fólksins telur mikilvægt að þegar val eins og þetta stendur fyrir dyrum þarf ferlið að vera gegnsætt og rétt hefði verið að leggja fram nokkra valmöguleika og leyfa fleirum að hafa eitthvað um þetta val að segja. R19060051

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um staðsetningu varanlegs regnboga

Lagt er til að allir rekstraraðilar verslana og fyrirtækja sem og íbúar Skólavörðustígs verði spurðir um afstöðu þeirra gagnvart því að gatan þeirra hefur verið valin regnbogagata. Ákveðið var með öllum greiddum atkvæðum í borgarstjórn að gera eina götu að regnbogagötu og var það hið besta mál. Vissulega var ávallt reiknað með að haft yrði viðhlítandi samráð við íbúa og fyrirtæki við þá götu sem borgin vildi stinga upp á að yrði fyrir valinu enda er meirihluti borgarinnar sífellt að monta sig af því að hafa samráð við borgarbúa og hlusta á raddir þeirra. Nú eru sterkar vísbendingar eftir því sem heyrist að ekkert samráð hafi verið haft við þá sem starfa og búa við Skólavörðustíg og vekur það furðu. Nú stendur til að Skólavörðustígur verði opnaður aftur fyrir umferð 1. október samanber tillögu meirihlutans frá 1. apríl 2019. Gatan verður því ekki göngugata a.m.k. næsta ár. Vissulega breytir það engu þótt bílaumferð fari eftir regnbogagötu sem er gata eins og hver önnur gata.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um borgarlínu : 

Í allri þessari umræðu um borgarlínu er afar margt loðið og óljóst og sumt eiginlega óskiljanlegt. Þess vegna vill borgarfulltrúi freista þess að koma með nokkrar fyrirspurnir: 1. Hvar á götunni á borgarlínan/vagnarnir að aka? Á miðri götu eða hægra megin? 2. Hvers lags farartæki er hér um að ræða? Sporvagn, hraðvagnar á gúmmíhjólum, annað? 3.Hversu margir km. verður línan? 4. Hvað þarf marga vagna í hana? 5. Á hvaða orku verður hún keyrð? 6. Hver á að reka hana? Strætó? Ríkið? Sveitarfélög? Allir saman? Aðrir? 7. Hvar er hægt að sjá rekstrar- og tekjuáætlun borgarinnar fyrir borgarlínu? 8. Hvað myndi kannski kosta að reka 400 til 500 vagna? 9. Hvað þýðir þetta í skattaálögum á almenning?

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um greiðslu í hússjóð hjá Félagsbústöðum – framlagning

Óskað er eftir upplýsingum um gjald sem leigjendur Félagsbústaða eru látnir greiða í hússjóð og þjónustugjald á mánuði og fyrir hvað verið er að greiða nákvæmlega með gjaldinu. Óskað er upplýsinga um alla hússjóði sé mikill munur á þessu gjaldi milli sjóða.

Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfslokasamninga hjá Félagsbústöðum:

Óskað er eftir upplýsingum um fjárhæðir og fjölda starfslokasamninga sem gerðir hafa verið árin 2015-2019 hjá Félagsbústöðum. R19070048

Vísað til umsagnar hjá stjórn Félagsbústaða.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda barna sem fær ekki skólavist vegna hegðunarvanda

Svar Skólaráðs

Flokkur fólksins þakkar svarið við fyrirspurninni, sem finna má í lokamálsgrein: það er að ekki eru til nein dæmi þess síðastliðin 5 ár að barn hafi ekki fengið skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengda röskun af einhverju tagi. Þetta er náttúrulega ekki rétt enda skemmst að minnast máls stúlku sem ítrekað var rætt um í fréttum nýlega en henni hafði verið úthýst úr skólakerfi borgarinnar vegna félags- og tilfinningalegra vandkvæða. En nokkur orð um svarið sjálft: Borgarfulltrúi veit að oft er mikil vinna við að svara fjölda fyrirspurna frá borgarráði og vill benda á að alveg óþarfi er að eyða of mikilli orku í að rekja ákvæði laga og reglugerða. Betra er að koma sér beint að því að svara fyrirspurninni með skýrum hætti. Fyrirspurnin var lögð fram af tilefni þar sem alvarlegt dæmi um að barn var utan skóla vegna hegðunarvanda hafði verið reifað í fjölmiðlum og var ósk Flokks fólksins að vita hvort um fleiri slík tilfelli væri að ræða. Svo virðist ekki vera samkvæmt þessu svari.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um verklagsreglur Úrbótasjóðs tónleikastaða

Ekkert samráð hefur verið haft við íbúa í þessu máli. Þessar reglur hefði átt að senda til stjórnar íbúasamtaka Miðborgar til umsagnar. Hér skortir allt tillit. Þetta er sérlega mikilvægt því hér er verið að ræða um tímasetningar, hljóð og mögulega hljóðmengun. Staðsetningin skiptir miklu máli og að tryggt sé að tónlistaatriðum sé ávallt lokið á þeim tíma sem nágrannar eru sáttir við. Þætti sem þessa þurfa íbúasamtök að fá tækifæri til að fjalla og álykta um. Hvað varðar afstöðu Flokks fólksins þá snýst hún um 16 milljónir úr borgarsjóði (verkefni til tveggja ára). Í hvert sinn sem tillaga eins og þessi er lögð fram er borgarfulltrúa Flokks fólksins hugsað til skertrar grunnþjónustu, biðlista barna eftir þjónustu, börn sem búa við skert kjör og eldri borgara sem bíða eftir heimaþjónustu og fleira af sama meiði. Vissulega er mikilvægt að gleyma ekki tónlistinni og gefa listamönnum tækifæri en hér er ekki verið að tala um hefðbundna „tónleikastaði“ heldur veitingastaði og bari og ættu tónlistabönd að semja beint við þá og auðvitað ávallt að fylgja reglum Heilbrigðiseftirlits um hljóðmengun sem og öðrum reglum.

Bókun Flokks fólksins við  Stekkjarbakki/Elliðaárdalur– deiliskipulag

Þetta er stórmál sem varðar fjölmarga. Það verður að vera íbúakosning um þetta nýja deiliskipulag fyrir nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka. Elliðaárdalurinn skiptir fjölmarga máli, tilfinningamáli. Þetta er viðkvæmt svæði fullt af dýrmætu dýralífi. Um þetta verður aldrei friður nema að haft verði fullt samráð við áhugahópa, hagsmunahópa og aðra sem óska eftir að hafa skoðun á málinu. Borgarráð samþykkti, á fundi miðvikudaginn 6. desember, að veita félaginu Spor í sandinn ehf. vilyrði fyrir lóð í Stekkjarbakka í Breiðholti en ætlunin er að byggja þar gróðurhvelfingu fyrir Aldin BioDome. Þetta er afar umdeilt mannvirki. Hér er um að ræða 20 metra hátt mannvirki, hjúpað gleri. Borgarmeirihlutinn virðist vera sérlega hrifinn af háum glerhjúpamannvirkjum. Skemmst er að minnast verksins Pálma í Vogahverfi. Í þessu máli er talað um að það hafi verið haft samráð við íbúana og fólk hafi verið afar ánægt með þetta en um var að ræða einn samráðsfund eftir því sem næst er komist? Hér hefði átt að fresta málinu og taka það aftur upp í haust og þá í borgarstjórn.

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulag,  Sjómannaskólareitur:

Í þessu málefni Sjómannaskólareitsins hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Þegar slíkur mótbyr er, er varla þess virði að keyra áfram af offorsi og öfgum. Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. Flokkur fólksins vill taka undir með Vinum Saltfiskmóans að gengið er um of á gróðurþekju Háteigshverfis sem er nú þegar of lítil samkvæmt úttekt borgarinnar sjálfrar. Gríðarlegt byggingarmagn með tilheyrandi skuggavarpi mun ekki aðeins rýra verðgildi þeirra eigna sem fyrir eru heldur einnig rýra gildi stakkstæðisins í Saltfiskmóanum og Vatnshólsins sem útivistarsvæðis. Ástæða er til að hafa áhyggjur af umferðaröryggi. Vandi Háteigsskóla vegna þéttingar í Háteigshverfi er enn óleystur. Fyrirliggjandi byggingaráform fela í sér skipulagsslys sem varað er eindregið við

Bókun Flokks fólksin undir liðunum 8 og 16 í fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 24. júní 2019:

Nú er ekki lengur frítt inn á söfn fyrir eldri borgara. Það var mikill hvati fyrir eldri borgara að hafa frítt á söfn og óttast borgarfulltrúi Flokks fólksins að með því að þurfa að kaupa menningarkort þótt ódýrt sé, þá muni það hafa letjandi áhrif að taka þátt í menningarlífi borgarinnar. Nóg er nú samt sem letur eldri borgara að sækja miðbæinn. Aðgengi að miðbænum er slæmt t.d. ef eldri borgari vill koma akandi. Mjög margir treysta sér ekki í bílahúsin vegna erfiðrar aðkomu að sumum bílastæðahúsum, flókins greiðslumáta og ótta við að lokast inni ef þeim tekst ekki að greiða gjaldið. Með þessari breytingu er verið að rýra kjör eldri borgara til muna. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og er liður í að draga úr félagslegri einangrun. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Vegna liðs nr. 16., pylsuvagninn bannaður. Flokkur fólksins skilur ekki afstöðu meirihlutans að banna pylsuvagninn við Sundhöllina. Telur það „ekki heppilegt“. Hvað er eiginlega átt við hérna? Þetta er enn eitt dæmi um forræðishyggju flokka meirihlutans. Þeir vilja ekki aðeins ráða samgöngumáta fólks heldur einnig hvort þeir fái sér pylsu eftir sund.

Bókun Flokks fólksins undir lið 15 við Embættisafgreiðslur skrifstofu borgarstjórnar 4. júlí 2019

Það er óskiljanlegt af hverju ekki má gera þeim sem velja að aka vistvænum bíl eða rafbíl hátt undir höfði. Sú var tíðin að þeir sem vildu skipta yfir í vistvæna bíla fengu ákveðna umbun. Sú umbun var tekin af. Það hefur komið skýrt fram að þessi meirihluti ætlar ekki að gera neinn greinarmun á hvort bíll er bensínbíll eða rafbíll. Á hinn bóginn vill meirihlutinn gjarnan draga úr mengun en gerir afar lítið til að stíga öll möguleg skref í þeim efnum. Að taka upp eldri reglur í þessu sambandi væri hvorki flókið né kostnaðarsamt en afar jákvæð skilaboð til almennings. Eigi að loka fyrir aðkomu bíla úr miðbænum endar með að bærinn tæmist alveg og má hann varla við því nú þegar rekstraraðilar í tugatali hafa verið hraktir burt með verslun sína. Staðreyndin er að almenningssamgöngur eru ekki hagstæðar fjölmörgum borgarbúum. Að umbuna þeim sem velja að aka vistvænum bílum ætti að vera á forgangslistanum fremur en að setja allt púður í að útiloka bíla frá miðbænum. Flokkur fólksins hvetur meirihlutann til að draga úr öfgum. Með því að leyfa þeim sem aka vistvænum bílum að fá frítt bílastæði í 90 mín. muni auka líkur á að fleiri sjái slíka fjárfestingu sem góðan kost.

Bókun Flokks fólksins við 10. lið fundargerðar stjórnar Sorpu bs. frá 25. júní 2019:

Flokkur fólksins fagnar því að fjalla eigi um notkun sveitarfélaganna á metani á eigendafundi Sorpu. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 18. júní þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða. Borgarfulltrúi Flokks fólksins batt vonir við að tillagan fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Bókun Flokks fólksins við 1. lið fundargerðar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 27. maí:

Það er með öllu vonlaust að átta sig á hvað er verið að ræða á stjórnarfundum Orkuveitu Reykjavíkur út frá fundargerð. Þarna er einungis sagt hvað er á dagskrá. Fundargerð er ekki sama og dagskrá. Skiljanlega er ekki hægt að fara í mikla dýpt í málin eða segja hver sagði hvað. En það má eitthvað á milli vera. Í þessa fundargerð vantar kjöt á beinin til þess að þeir sem vilja fylgjast með og hafa eftirlitsskyldu geti með einhverju móti áttað sig á umræðunni sem þarna fer fram.

Bókun Flokks fólksins undir lið 4. lið fundargerðarinnar frá 12. júní um aðgengi að Hverfisgötu á meðan á framkvæmdum stendur

Svo oft virðist það gleymast að tryggja aðgengi fyrir alla þegar verið er að framkvæma í borginni. Áður en framkvæmdir hefjast verður að setjast niður með hagsmunasamtökum t.d. hreyfihamlaðra til að hafa öflugt samráð um hvernig málum verði háttað er varðar aðgengi á viðkomandi stað. Þetta hefur ekki verið gert. Núna er víða vonlaust fyrir hreyfihamlaða að fara um. Bílastæði fyrir P merkta bíla eru fá. Núverandi borgarmeirihluti verður að virða þá staðreynd að ekki allir eru gangandi eða hjólandi vegfarendur. Hverfisgata eins og aðrir hlutar borgarinnar á að vera fyrir alla, hvaðan sem þeir koma og með hvaða leiðum. Búið er að fjarlægja fjölda bílastæða á götum með alls kyns þrengingum. Bílastæðahús eru vissulega til staðar en aðkoma og aðgengi að þeim er víða slæmt. Margir eldri borgarar, fatlaðir og einnig ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.

Skipulags- og samgönguráð
3. júlí 2019

 1. Tillögur frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Byrja á að auðvelda almenningssamgöngur og gera þær fýsilegan kost en ekki einblína á að hindra og tefja fyrir umferð.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Opna aftur fyrir að hægt sé að aka niður Laugaveginn og fjölga bílastæðum með því að fjarlægja eitthvað af þeim hindrunum sem settar hafa verið til að takmarka aðgengi þeirra sem koma í miðbæinn á bíl (fólk sem kemur oft langan veg, jafnvel úr öðrum bæjarfélögum eða utan af landi). Bílaumferð á Laugavegi hefur alltaf verið hæg og ekki valdið slysum.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Að hægt sé að aka upp Hverfisgötuna og til að auðvelda flæðið þarf að breyta Hafnarstræti úr einstefnugötu þannig að hægt sé að beygja út af Mýrargötu inn á Hafnarstræti og komast þannig annað hvort upp Hverfisgötuna eða suður Lækjargötuna. Við það myndi umferðarhnúturinn við Geirsgötu örugglega minnka mikið. Á háannatíma eru margir farnir að þræða sig í gegnum Þingholtin til að komast án vandræða til vinnu. Ef ein leið lokast þá reynir fólk að finna aðra. Kannski þróast mál nú þannig að aðalumferðaræðin verður í gegnum Þingholtin?
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Innleiða nýja hugsun sem gengur út á að minnka tafir fyrir alla. Að hugsa eða halda að það sé í lagi að tefja þá sem eru á bíl er röng hugsun og stríðir gegn jafnræðisreglunni.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál
  Láta af því sem stjórnvald að vilja velja samgöngumáta fyrir fólk.
  Frestað.
 2. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Nota tækni til að auka flæði. Skipta út stýrikerfi á umferðarljósum í borginni. Umferðarstýringakerfi á að vera þannig að það snýst um að lágmarka tafatíma hver og eins. Flæðistýring umferðarljósa er eitt aðaltækið til að bæta umferðina.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Breyta hraðahindrunum þannig að á 50 km götu sé radar og myndavélar í staðin fyrir hraðahindrun nema fyrir framan skóla, þar sem börn fara yfir.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Það er óþarfi að loka Lækjargötunni með þeim hætti sem nú er gert vegna framkvæmda, vinnusvæði þar gæti verið mun minna. Aðstæður þar núna skapa slysahættu.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Skoða að leggja af stöðumæla og setja þess í stað bílastæðaklukkur. Í því myndi vera mikill sparnaður og hagræðing. Klukkur og nemar er það sem reynst hefur best annars staðar.
Frestað.

 1. Tillaga frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, umferðarmál

Einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.
Frestað.

Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu sviðsstjóra.

Bókun Flokks fólksins við svari Fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, varðandi deiliskipulag fyrir nýjan Skerjafjörð

Svar má sjá hér í lið 32

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar eftirfarandi. Það er almennt afar hvimleitt að áfallt skuli vera ráðist á fjörurnar til að búa til land. Af hverju mega fjörur ekki fá að vera í friði? Á það skal minnst að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Ætlar borgin að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum?. Af hverju hafa vísindamenn ekki verið spurðir en vitað er að margir eru uggandi. Flokkur fólksins álítur það mikið og alvarlegt ábyrgðarleysi hjá meirihlutanum í Reykjavík að hefja framkvæmdir á Skerjafjarðarsvæðinu án vitundar um hækkunnar sjávarmáls á svæðinu. Þeir sem taka í nútímanum ákvarðanir varðandi uppbyggingu á Skerjafjarðarsvæðinu munu ekki verða til staðar þegar og ef til hamfara komi á umræddu svæði. Þá liggur ekki ljóst fyrir atriði er varða mengun, hávaðamengun, byggingamagn og umferðaþungi. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af umferðarþunga ekki síst meðan á framkvæmdum stendur. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni enda mörgum spurningum enn ósvarað með hana og ekki er heldur fyrirsjáanlegt að flugvöllurinn fari næstu árin. Þá liggur ekki ljóst fyrir atriði er varða mengun, hávaðamengun, byggingamagn og umferðaþungi.

Bókun við fyrirspurnum frá áheyrnarfulltrúa Flokki fólksins, samráð við hagsmunaaðila Laugaveg og Skólavörðustígs:

Svar meirihlutans, liður 31

Flokkur fólksins þakkar hið staðlaða embættismannasvar.Í fyrirspurnunum var áhersla á að haft sé samráð við hagsmunaaðila þessa svæðis enda þarna um lífsstarf margra að ræða. Nú hefur það verið staðfest að ekkert samráð hefur verið haft við einn einasta rekstraraðila af þessum 247 sem hafa andmælt lokunum með undirskrift sinni. Það er óásættanlegt að borgarmeirihlutinn telji sig geta sópað öllum þessum fyrirtækjum í burtu með varanlegum breytingum á aðkomu og aðgengi að þessum fyrirtækjum án þess að ræða við kóng né prest. Minna má þennan meirihluta á að við búum í lýðræðisríki. Að bera fyrir sig í þessu máli samþykktir, lög og reglugerðir eru bara útúrsnúningar enda er það borgin sem semur samþykktirnar og setur reglur. Hvergi í lögum segir að hægt sé með aðgerð sem þessari án samráðs að valda slíku tjóni sem hér hefur verið gert. Á bak við eitt fyrirtæki er heil fjölskylda og af þessu svari að dæma virðist vera afar lítill skilningur á því hjá meirihlutanum. Nú liggur fyrir í glænýrri könnun að þessi aðgerð með varanlega lokun stríðir gegn meirihluta rekstraraðila og borgarbúa nema þeirra sem búa á svæðinu og yngra fólki sem sækja skemmtanalífið. Væri einhver skynsemi til, ætti meirihlutinn umsvifalaust að endurskoða stefnu sína er varðar þetta mál.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Fiskislóð, nýjar gönguþveranir merktar með gangbrautarmerkjum:

Fagnað er lagfæringum á vegakerfi borgarinnar með öryggi íbúanna að leiðarljósi. Það er ánægjulegt að óskin komi frá Faxaflóahöfnum sem leggja til að tvær gönguþveranir þvert á Fiskislóð sitt hvoru megin við gatnamótin við Flokkur fólksins vill aftur vekja athygli á að fulltrúi hans lagði fram mál er varða umferðarmál á grandasvæðinu 7. nóvember 2018 og segir þar að komið hefur fram í síðustu könnun sem framkvæmd var fyrir Faxaflóahafnir og unnin af Árna Steini Viggóssyni að megn og vaxandi óánægja er með umferðaröryggi á svæðinu hjá þeim sem stunda þar atvinnurekstur, gangandi og hjólandi og akandi vegfarendur og hinum mikla fjölda ferðamanna sem fara um svæðið. Það kemur fram í síðustu könnun að einungis 15 manns eða 11.8% viðmælanda af þeim 127 sem höfðu skoðun á málinu þótti aðstæður vera í lagi. Sýna þessar niðurstöður hversu stór hluti viðmælenda er óánægður með umferðarmálin á umræddu svæði. Mikil slysahætta er á svæðinu vegna umferðar bifreiða sem bruna í gegnum svæðið þar á meðal olíubílar. Höfnin var einu sinni höfn , nú eru aðstæður allt aðrar. Viðmælendur telja hættulegt að keyra um svæðið. Það er verið að bíða eftir stóra slysinu að mati þeirra sem eiga erindi á svæðið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um stæði fyrir hreyfihamlaða á Laugavegi 30:

Það vekur athygli að einungis á að bjóða upp á tvö bílastæði fyrir hreyfihamlaða að Laugavegi 30. Fyrir var eitt merkt stæði fyrir hreyfihamlaða en nú er lagt til að tvö stæði við Laugaveg 30 verði merkt sérstaklega fyrir hreyfihamlaða. Bæta á einu stæði við. Stæðin séu merkt með D01.21 og viðeigandi yfirborðsmerkingu. Um er að ræða tvö stæði. þetta eru allt of fá stæði ætluðum hreyfihömluðum að Laugavegi 30 að mati Flokki fólksins.

Bókun Flokks fólksins við tillögur stýrihóps um stýringu bílastæða, Skýrsla stýrihóps um stefnumörkun í bíla- og hjólastæðamálum:

Flokkur fólksins vill bóka um þessar niðurstöður stýrihópsins sem mikið ganga út á að stýra því hvaða samgöngumáta fólk velur. Reynt er með þessum aðgerðum að gera bílafólki eins erfitt fyrir og hægt er, að koma á bílnum sínum inn á viss svæði. Á meðan ekki er boðið uppá strætó sem fýsilegan kost er svona aðgerðir afar ósanngjarnar. Verklagsreglur varða ný gjaldsvæði og verðbreytingar gjaldsvæða. Flokkur fólksins vill ítreka að borgin er fyrir alla og hugsunin verður að vera sú að minnka tafir fyrir alla og finna öllum farartækjum stað í borginni með sanngjörnum hætti. Eins og þetta lítur út er sífellt verið að finna leiðir til að koma höggi á bílaeigendur og gera þeim æ erfiðara fyrir að koma á bíl sínu á ákveðið svæði. Nú á að stækka gjaldskyldusvæði, lengja tíma og bæta við gjaldskyldu á sunnudegi. Rökin fyrir þessu eru all sérstök þ.e. að með hækkun bílastæðagjalds þá skapist fleiri auð stæði. Hér á einn ökumaður að líða á kostnað hins? Bílastæðahúsin eru mjög erfið mörgum. Það þarf að huga að því að einfalda aðkomu og aðgengi að bílastæðahúsum. Margir eldri borgarar og ungir ökumenn treysta sér ekki í þau, aðkoma virkar flókin og fólk óttast að lokast inni með bíl sinn t.d. þar sem enginn umsjón er á svæðinu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Laugavegur sem göngugata, skipulagslýsing, skipulagslýsing:

Það er alveg ljóst að verulegur meirihluti rekstraraðila er á móti lokunum samkv. könnun sem Zenter og Miðborgin okkar lét gera og Samtök verslunar og þjónustu fjármagnaði. Sú niðurstaða er áfall fyrir Miðborgina Okkar og meirihlutann í borgarstjórn. Það verður fróðlegt að sjá viðbrögð þeirra. Ætlar Miðborgin Okkar að standa með rekstraraðilum og berjast gegn lokunum eða vera fjarðstýrð strengjabrúða sem er stjórnað frá Ráðhúsinu sem fjármagnar félagið að mestu leiti gegnum styrki? Þá liggja frammi undirskriftir 247 rekstraraðila á Laugavegi, Skólavörðustíg, Bankastræti og allra næsta nágrenni þar sem yfir 90% rekstraraðila mótmæla lokunum. Flokkur fólksins veit til þess að ekkert samráð hefur verið haft við einn einasta af þessum 247 andmælendum. Þannig að allar lokanir eru gerðar í mikilli andstöðu við rekstraraðila og á þá ekki hlustað enda eru engar rekstralegar forsendur fyrir lokunum. Lokanir hafa skaðað flesta samkvæmt því sem þessir aðilar segja. Samkvæmt könnun Zenter mun viðskiptavinum miðborgarinnar fækka um að minnsta kost 25% ef lokað verður allt árið. Verslunin má ekki við því að missa þá.

Bókun Flokks fólksins við breytingu á deiliskipulagi Sjómannaskólareitsins:

Flokkur fólksins vill vekja athygli á óskum nemenda í Háteigsskóla og draga fram þeirra framtíðarsýn á svæðinu. Ungviðið í hverfinu vill ekki ný hús hjá Vatnshólnum. Vatnshóllinn er uppáhalds hóllinn og þeim finnst svo gott útsýni og gaman að leika sér á honum. Þau fara oft í leiki á hólnum með vinum sínum. Hóllinn er líka svo fallegur og skemmtilegur. Við ímyndum okkur stundum að hurðarnar á hólnum séu verndar risar. Vatnshóllinn er ævintýraheimur fyrir okkur. Hann er líka besta sleðabrekkan og við værum frekar til í að fá almennilegar tröppur til að komast upp á hólinn og rennibraut niður og útsýnisskífu til að kenna okkur hvað öll fjöllin heita sem við sjáum þegar við stöndum upp á hólnum. Á að hunsa óskir og skoðanir unga fólksins hér.

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, Sjómannaskólareitur:

Eins og segir á forsíðu Skipulagsstofnunar er mikilvægt að sjónarmið almennings komi fram þegar teknar eru ákvarðanir sem varða hagsmuni almennings og geta haft í för með sér miklar breytingar á umhverfinu. Í þessu máli hafa komið óvenju mikið af alvarlegum athugasemdum frá fólki á öllum aldri og þar með börnum sem er annt um umhverfi sitt. Þetta svæði er afar mikilvægt í borgarlandinu enda einstakt. Flokkur fólksins vill hvetja meirihlutann til að staldra við og ana ekki að neinu sem ekki verður aftur tekið. Hér er auðvelt að gera alvarleg mistök svo stórslys verði. Meirihlutinn í borgarstjórn verður að fara rækilega ofan í saumana á umsögnum og athugasemdum og kynna sér vandlega þau málefni er varða sjálfsprottnu grænu svæðin á Sjómannaskólareitnum í Reykjavík. Sérkenni þeirra og þýðingu fyrir Háteigshverfið og Reykjavíkurborg. Hefur meirihlutinn heimsótt Vatnshólinn sjálfan sem dæmi? sem er kennileiti hverfisins og griðarstaður íbúa. Umhverfi hans er uppspretta ævintýra, útivistar og samveru hverfisbúa. Útivist og leikur í náttúrunni er það sem hefur mótað Íslendinga frá örófi alda, á tímum tölvuleikja og nútímatækni er mikilvægt að börnin hafi eitthvað í sínu nær umhverfi sem hvetur þau til útiveru og ævintýrasköpunnar á þann hátt sem Sjómannakólareiturinn í heild sinni gerir.

Borgarráð
27. júní 2019

Tillaga Flokks fólksins að settar verði á laggirnar skipulagðar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum

Flokkur fólksins leggur til að settar verða á laggirnar skipulagðar, reglulegar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum á ýmis söfn og aðra viðburði. Margir eldri borgarar hafa löngun til að sækja sýningar og viðburði en treysta sér ekki til að komast á staðinn eða hafa engan til að fara með. Auk þess er vetrarfærð misjöfn og getur hæglega komið í veg fyrir að fólk treysti sér út úr húsi.

Greinargerð fylgir tillögunni

Finna þarf góða leið til að auglýsa viðburði, til að ná sem flestum í bíl sem áhuga hafa á að sjá sýningu eða fara á viðburð. Margir eldri borgarar hafa einangrast og mikla fyrir sér að taka sér ferð á hendur til að sækja söfn eins og Listasafn Reykjavíkur eða Borgarsögusafnið. Ekki liggja fyrir tölur, hversu margir af þeim,sem sækja ofangreind söfn sem dæmi, eru eldri en 67 ára. Þess vegna er afar mikilvægt, að bjóða eldri borgurum upp á skipulagðar ferðir, á sýningar/viðburði og að það verði gert með reglubundnum hætti, þannig að hægt verði að treysta á, að farið verði örugglega. Ákveðinn hópur eldri borgara eru einmanna og einangraðir en myndu svo gjarnan vilja vera félagslega virkari. Með öruggri akstursþjónustu á sýningar og viðburði er hægt að tryggja að fleiri eldri borgarar njóti félagsskapar og skemmtunar á því sem borgin hefur upp á að bjóða.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að vera sóttir heim og eknir á félagsmiðstöð sína óski þau þess

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að hringja á félagsmiðstöðina sína og biðja um að láta sækja sig í félagsstarfið. Ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki komið sér sjálfir þann daginn væri akstursþjónusta lykillinn að félagslífi þeirra. En til þess að þetta virki vel, þarf þessi þjónusta að vera tiltæk og að ekki sé nauðsynlegt að panta hana fyrirfram. Viðkomandi er síðan ekið heim eftir á, þegar hann óskar. Hægt er að hafa einhverja lágmarksupphæð fyrir hverja ferð. Möguleiki væri að hanna einhvers konar áskrift á akstursþjónustu. Ítrekaður leigubílakostnaður, væri öldruðum ofviða og væri líklegur til að hindra eða draga úr þátttöku í félagslífi sem væri samt brýn þörf fyrir. Félagslíf eykur virkni og vellíðan og minnkar þörf fyrir lyf svo það er nauðsynlegt að ýta undir félagslífið. R19060229

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af hverju tillögu um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg var ekki vísað til Vegagerðarinnar 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju tillögunni um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg hvern virkan dag frá kl 16 til 18 í tilraunaskyni var ekki vísað til Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á fundi skipulags- samgönguráðs 26. júní. Tillagan fjallaði um að þar yrðu ljósin tekin úr notkun á þessum tíma. Með slíkri framkvæmd má draga verulega úr töfum vegfarenda á leið sinni suður og norður eftir Breiðholtsbrautinni. Það eru fjölmargir sem styðja þessa tillögu enda myndi þetta geta virkilega leyst úr mjög erfiðum flöskuháls sem þarna myndast. Enda þótt mæling hafi einhvern tímann sýnt að þetta sé ekki til bóta er ekki þar með sagt að það myndi ekki gera það núna. Þetta er eitt dæmi þess að borgarmeirihlutinn virðist einfaldlega ekki vilja gera neitt í umferðarmálum og þráast við þegar koma góðar tillögur til bóta. Er það vegna þess að verið er að gera stöðuna eins erfiða og hægt er til að sýna fram á mikilvægi borgarlínu og útrýma bílnum úr miðbænum? En eitt útilokar ekki annað. Borgarlína kemur ekki á morgun og þangað til er sjálfsagt að grípa til aðgerða strax sem leysir helsta vandann. Borgarfulltrúa finnst borgarmeirihlutinn sýna mikið andvaraleysi og áhugaleysi en vill þessi meirihluti lítið gera fyrir bílaeigendur í borginni. Lágmarksviðbrögð væru að vísa þessum tillögum í vinnu Vegagerðarinnar og Samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og er spurt hér af hverju það var ekki gert.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum?

Óskað er eftir upplýsingum um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum? Það hefur vissulega verið margt gert og ekki er dregið úr því. Hins vegar má segja að Breiðholti sé einstakt vegna fjölbreytileika. Eins og vitað er hefur félagsleg blöndun mistekist á þessu svæði og þarna búa fjölskyldur og einstaklingar sem hafa einangrast mikið. Þar er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Það væri því eðlilegt og sjálfsagt að borgin sinnti þessu hverfi sérstaklega. Því vill borgarfulltrúi Flokks fólksins fá þessar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á stöðuna og skoða hvað þarf að gera til að bæta hana komi í ljós að hún sé óviðunandi. Ekki er óeðlilegt að Breiðholtið og þá sérstaklega Fella- og Hólahverfi fái sérstaka aðhlynningu enda mesta fjölmenningin þar í allri Reykjavík.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varða Seljaskóla sem fengið hefur að drabbast niður eins og margir aðrir skólar í Reykjavík

Það er almennt til háborinnar skammar hversu lengi skólabyggingar hafa fengið að drabbast niður í Reykjavík. Seljaskóli er þar engin undantekning. Vandamálin eru víðtæk og öll má rekja til vanrækslu á viðhaldi þessa og síðasta meirihluta í borginni. Það hefur „brunnið“ mest á Seljaskóla í heil 15 ár frá skýrslunni 2004 og svo eftir brunann. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja borgaryfirvöld eftirfarandi spurninga:
1. Fær skólinn bætt þá innanstokksmuni sem skemmdust í brunanum, bækur, tölvur o.s.frv.
2. Verða húsgögn og búnaður almennt uppfærð?
3. Verður smíðastofan áfram í bráðabirgðahúsnæðinu sem hún fór í fyrir 20 árum? Og með búnaði í Miðbæjarskólanum frá 1950?
4. Verður húsnæði skólans áfram sprungið þar sem enn er ekki búið að klára málin gagnvart teikningunni sem fór af stað eftir ofangreinda skýrslu?
5. Hvenær verður hætt að kenna í 60-70 manna bekkjum? Allt þetta er óboðlegt fyrir nemendur sem og kennara – allof stórar einingar. Óskað er skýrra svara við þessum spurningum hið fyrsta

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vanrækslu á umhverfi Árbæjarsafns

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir er varða umhverfi Árbæjarsafns. Borist hafa ábendingar um að mikil óhirða er í kringum Árbæjarsafn. Grasið er úr sér vaxið og þétt af fíflum. Húsveggir þarfnast viðhalds. Sjá má glöggt að þarna skortir verulega á viðhald og snyrtingu. Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum er varða umhirðu á lóð Árbæjarsafns. 1. Hvaða stofnun/ fyrirtæki sér um umhirðu á lóðum eins og í kringum Árbæjarsafn? 2. Hversu oft er farið og kannað ástand umhirðu á slíkum lóðum? 3. Ef einkaaðilar, þá er spurt hefur verk/eftirlit verið boðið út?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsviði og skóla- og frístundasviði

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Óskað er upplýsinga um hve margir starfa á sviðunum hvoru um sig og hversu margir af þeim hafa veikst til langs tíma, annars vegar þeirra sem starfa undir velferðarsviði og hins vegar skóla- og frístundarsviði, helstu ástæður, gróflega flokkað og tímabil veikindanna. Fram hefur komið í fréttum að á árunum 2009-2017 varði Reykjavíkurborg samtals um 5,3 milljörðum (miðað við verðlag 2018) í langtímaveikindi starfsmanna, aðeins á skóla- og frístundasviði.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skýringar á háum greiðslum til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða

Flokkur fólksins óskar skýringa á háum greiðslu til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða á árinu 2018 en samkvæmt ársreikningi 2018 á bls. 12 nema þær 36.9 milljónum. Var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða? Hafi svo verið er óskað allra upplýsinga sem varða þann samning.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um í hvað marga borgara 75 ára og eldri velferðarsvið hefur hringt í til að kanna hvort þeir séu upplýstir um réttindi sín og hvernig þeim líður

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um í hversu marga borgara sem eru 75 ára og eldri hefur velferðarsvið hringt í til að kanna hvort viðkomandi er upplýstur um réttindi sín og almennt séð hvernig viðkomandi líður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir og leggur til að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Fyrirspurn  Flokks fólksins um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs. 2019 þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi og sem minnst er á í fundargerð Strætó bs. frá 4. júní og lögð var fyrir borgarráð 27. júní 2019.

Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við svari við tillögu um útgáfu auglýsingabæklings og aukna upplýsingagjöf til borgarbúa um réttindi þeirra

Tillagan er felld. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. Áhugavert væri að vita í hvað marga í þessum aldurshópi hefur verið haft samband við símleiðis?

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins við svari skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarritara, dags. 24. maí 2019, við fyrirspurn um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019

Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2019 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttektir í grunnskólum borgarinnar sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. maí 2019. 

Þessi úttektarmál á skólum virðast býsna ruglingsleg. Innra og ytra mat er hluti af lögbundinni skyldu og sýnist borgarfulltrúa Flokks fólksins á öllu að skólar eru að vinna sínar innri úttektir vel enda mikil vinna ásamt því að sinna öllum öðrum verkum. Aðeins flóknara virðist vera með ytra mat og það kannski meira háð tilviljunum? Stundum hefur það líka verið þannig að Menntamálastofnun gerir úttekt en ekki er ljóst hvað ákvarðar það eða hverjir taka ákvörðun um slíkt. Til eru alls konar úttektir, úttektir á kennslunni og námsárangri en einnig úttektir heilbrigðiseftirlits, vinnueftirlits, úttekt vegna brunamála og fleira þess háttar. Skilja má að almennt séð er „ytra mat“ framkvæmt af sveitarfélaginu og er það samkvæmt lögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi telja að betra væri að fá óháðan, utanaðkomandi aðila til að annast ytra mat. Til dæmis gæti verið gott að Menntamálstofnun annaðist allar úttektir en ekki bara einstaka.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna fjárfestingaráætlunar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna viðhaldsleysis og langtímamyglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf.

Bókun Flokks fólksins við kynningu Strætó bs á framtíðarsýn fyrirtækisins

Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr. Það á að kolefnisjafna en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en ekki er unnið að því að auka hlut metans sem eldsneyti hjá Strætó. Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hér en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær vikulegar ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en hér er eitthvað sem vel mætti taka á af krafti og það strax.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um endurbætur í Seljaskóla vegna bruna

Þegar alvarlegur atburður gerist eins og bruni í Seljaskóla bætist enn ofan á hið alvarlega ástand sem er í skólanum. Það er einstakt að það brenni tvisvar í sama skóla eins og í Seljaskóla. Miklar áhyggjur eru af því hvort gerðar verði nauðsynlegar lagfæringar ofan á annað sem þarf að laga í Seljaskóla. Nú bíður barnanna mikið rask en börnin hafa lengi búið við mikið rask. Í dag er óljóst hver framkvæmdatími á endurnýjun Seljaskóla verður. Börnum í Seljaskóla hefur lengi verið þeytt fram og til baka. Fram hefur komið hjá foreldrafélagi að það gengur ekki að vera í kirkjunni, í ÍR heimilinu né hjá KSÍ. Alls konar reddingar eru í gangi núna þegar afleiðingar brunans bætast ofan á allt annað. Það er ljóst að Seljaskóli þarf auka fjármagn/mannafla til að fylgja eftir verkefnum og til að tryggja að framkvæmdatími haldist. Fyrri verk í Seljaskóla hafa nærri öll dregist úr hófi fram. Þá þarf fjármagn fyrir þá innanstokksmuni sem töpuðust í brunanum, t.d. tölvur, bækur og annan búnað ef að tryggingafélagið, VÍS, bætir ekki innanstokksmuni. Svona mætti lengi telja og veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólk, foreldrar og nemendur eru uggandi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. júní 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 24. júní 2019, á tillögu um afslátt á menningarkorti fyrir eldri borgara. Áður var frítt inn á söfn fyrir eldri borgara

Það er jákvætt að öryrkjar og börn og unglingar fái ókeypis á söfn borgarinnar. Hins vegar á að afnema þau réttindi sem eldri borgarar hafa haft hingað til þannig að þeir muni ekki fá frítt inn á söfn lengur. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og skoðað t.d. listasöfnin í borginni, heimsótt Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið en það gæti orðið liður í að draga úr félagslegri einangrun og eflt lýðheilsu þessa aldurshóps. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Frír aðgangur fyrir eldri borgara er hvati fyrir starfsfólkið að fara á söfn með hópinn eða frá dagvist aldraðra. Mjög margir eldri borgarar geta ekki einu sinni leyft sér að fara á söfn því miður. Ef fara á skipulagða ferð á vegum félagsmiðstöðvar gæti komið í ljós að einhver á ekki kort og fer því ekki með. Til að koma í veg fyrir tekjumissi af ferðamönnum í þessum aldurshópi sem fá þá líka frítt inn mætti hafa þann hátt á að sækja þarf um menningarkortið sem yrði endurgjaldslaust hjá félags- eða þjónustumiðstöðvum. Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.

Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 19. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og enn þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau svo lág laun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tilboð Strætó bs. að bjóða út kaup á vetnisvögnum hefur runnið út í sandinn. Borgarfulltrúi spyr hvort menn séu búnir að gleyma tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000. Ætla borgaryfirvöld að láta plata sig aftur eins og þá, tilraunaverkefni sem kostaði milljarð. Vitað er að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á tillögu sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júni þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Það er sárt að sjá hvernig metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða.

Undir 8. lið í fundargerðinni kemur fram að rætt er um niðurstöður vinnustaðakönnunar þar sem sérstaklega er spurt um einelti, áreitni og ofbeldi.
Borgarfulltrúi vill minna á ný endurskoðaða stefnu og verkferli í eineltismálum sem stýrihópur sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fór fyrir og hvetja Strætó bs til að tileinka sér hvorutveggja, stefnu og verkferli.

Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar er varðar heimsmarkmiðin og fræðsla á þeim í leikskólum:

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á sérstaka fræðslu um heimsmarkmiðin á leikskólum. Tillagan var felld, Sjálfstæðisflokkur og Sósialistaflokkur sátu hjá. Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þ.e. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga getur auðveldlega fallið að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði mátt leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019. 
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar vegna frávísunar tillögu um samráð við rekstraraðila vegna lokun Laugavegs og Skólavörðustígs

Tillögu Flokks fólksins um að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni hefur verið vísað frá. Með tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð. Nú hefur það verið staðfest í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og SVÞ fjármagnaði að meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru mjög óánægðir með varanlegar göngugötur. Skemmdarverk hefur verið unnið með þessum breytingum og stefnir í einsleitan miðbæ verði ekki horfið frá þessari stefnu. Þau fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og selja minjagripi munu þrífast og þeir sem heimsækja miðbæinn eru í meirihluta yngra fólk sem sækir skemmtanalífið. Búið er með þessum breytingum án samráðs að hrekja tugi verslana úr bænum og æ færri leggja leið sína á svæðið. Það er kaldhæðnislegt að Miðborgin okkar sem vænti án efa annarrar niðurstöðu skuli nú verða að kyngja blákaldri staðreyndinni. Göngugötur eru samkvæmt þessu að fæla fólk frá. Bærinn er að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Þetta blasti við þótt meirihlutinn í borgarstjórn reyndi hvað hann gat að slá ryki í augu fólks. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en 25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef, svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur. Það er mál að ósanngjarnri gagnrýni einstaka borgarfulltrúa á starfsemi í miðbænum linni.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð. Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ásökunum um þöggunartilburði og kúgun er vísað á bug. Borgarfulltrúa Flokks flokksins er að sjálfsögðu heimilt að tjá skoðun sína á stefnu meirihlutans. Á sama hátt er það réttur okkar að benda á þær afleiðingar sem sú orðræða kann að hafa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs  sviðstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 24. júní 2019, vegna tónleika Secret Solstice sem fóru fram í Laugardal 21.-23. júní 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að vísbendingar eru um að Secret Solstice hátíðin gekk betur en í fyrra. Beðið er eftir frekari upplýsingum áður en hægt er að leggja endanlegt mat á hversu vel gekk raunverulega. Það er þó mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ekki skuli halda þessa hátíð aftur á sama stað enda staðsetningin alls ekki hentug inn í miðju íbúðarhverfi.

Tillaga Flokks fólksins um að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn.

Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum.

Borgarráð 
20. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við veitingu vínveitinga á Secret Solstice

Flokkur Fólksins​ lagði til styttingu á vínveitingaleyfi hátíðarinnar til klukkan 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Í bókun er vísað til þess að foreldrar í hverfinu séu kvíðnir fyrir hátíðinni í ljósi neikvæðra reynslu af hátíðinni frá því í fyrra.
Hér er bókunin í heild sinni“:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til í borgarráði 20. júní styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt var til að áfengisleyfi verði til 23:00 en ekki 23:30 eins og stefnt er að. Tillagan var felld af meirihlutanum.
Ástæðan fyrir þessari tillögu er að margir foreldrar í hverfinu eru kvíðnir fyrir hátíðinni í ljósi neikvæðra reynslu af hátíðinni frá því í fyrra sem tengist börnum og neyslu áfengis- og vímuefna. Hátíðin er umdeild ekki síst vegna staðsetningar hennar þ.e. inn í miðju íbúðarhverfi. Kvartað hefur verið yfir hávaða og látum langt fram á nótt. Flokkur fólksins hefur áður rætt og bókað um umsagnir foreldrafélaga sem hafa lýst áhyggjum sínum af hátíðinni og eru óánægðir með að hún skuli haldin aftur í Laugardalnum. Þegar kemur að vínveitingaleyfi þá munar um hvern hálftíma og líklegt að ró myndi komast fyrr á ef leyfið væri stytt.

Tillaga Flokks fólksins um styttingu vínveitingaleyfis um hálftíma

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til styttingu á áfengisleyfi á Secret Solstice Festival. Lagt er til að leyfi til að veita/selja áfengi sé til 23:00 í stað 23:30 eins og til stendur alla daga.

Tillaga felld af meirihlutanum

Bókun Flokks fólksins við svari um umfang vinnu trúnaðarmanns dómnefndar við vali á listaverki í Vogabyggð

Svar hefur borist við fyrirspurn Flokks fólksins um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð. Spurt var um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefndinni. Erfitt er að meta þetta svar, greinilegt að allt er týnt til í því skyni að sýna fram á mikilvægi starfsins. Það leiðir hugann að öðrum þáttum þessum tengdum og það er hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum og á hvaða forsendum viðkomandi er valinn?

Fyrirspurn til að skerpa á fyrirspurn um umfang og laun trúnaðarmanns dómnefndar
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nú spyrja, hvaða launaviðmið er notast við í slíkum verkefnum?
Á hvaða forsendum er viðkomandi valinn?
Hvað þarf viðkomandi að hafa að bera til að sinna því sem lýst er?

Bókun Flokks fólksins við kynningu starfshóps á tilraunarverkefni við styttingu vinnuviku

Það er ánægjulegt að sjá hvað stytting vinnuviku hefur góð áhrif á fjölmarga þætti. Stytting vinnuviku (styttri vaktir og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun) gæti verið nýtt sem hvatningarþáttur í að laða að fólk til að sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun. Eins og vitað er þá hefur mannekla verið mikil í þessum störfum í mörg ár sem hefur komið illa niður á þjónustuþegum og aðstandendum. Nú er enn eitt sumarið þar sem skera þarf niður þjónustu af þessu tagi og aðeins er hægt að sinna þeim allra veikustu. Að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun gæti leitt til þess að fleiri sýni þessum mikilvægu en krefjandi störfum áhuga.  Þessi störf og mörg önnur aðhlynningarstörf eru afar illa launuð, sennilega ein lægstu laun sem boðið er upp á og má gera því skóna að það sé ein helsta ástæða að ekki tekst að manna þessa stöður betur en raun ber vitni. Eitthvað fleira og annað þarf því að koma til og „stytting vinnuvikunnar“ er hvatningarþáttur sem vel mæti nýta í þessum tilgangi. Það væri ánægjulegt ef þessi hópur sem haldið hefur utan um þetta verkefni myndi leggja til við borgarstjóra að skoða þennan möguleika. Enda þótt þessi mál komi til með að vera hluti af kjarasamningum getur borgarstjóri engu að síður beitt sér í þessa átt með ýmsu móti.

Tillaga um að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og hjúkrun vegna gríðarlegs mannekluvanda og skerðingar á þjónustu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að vinnuvika þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun verði stytt. Vaktir verði styttri og færri vinnuklukkustundir fyrir sömu laun. Rökin fyrir því að þessir hópar væru teknir út sérstaklega og það sem fyrst væri einfaldlega sá að það er nánast útilokað að manna þessi störf á þessum launum. Nú þarf að skerða þjónustuna og mögulega setur það þjónustuþega í einhverja áhættu.
Hér er vissulega um kjarasamningsmál að ræða en borgaryfirvöld geta engu að síður beitt sér af krafti í þessa átt og tekið af skarið t.d. með því að byrja á þessum hópi sem hér er nefndur. Fleiri geta síðan komið í kjölfarið. Það myndi strax muna um að stytta vinnuskylduna um 2-3 tíma án þess að skerða launin. Finna mætti einnig fleiri hvata til að manna þessar stöður t.d. sem lúta að því að létta á álagi eða breyta vaktafyrirkomulagi.

Greinargerð

Nú er enn eitt sumarið þar sem skera þarf niður þjónustu af þessu tagi og aðeins er hægt að sinna þeim allra veikustu. Samkvæmt niðurstöðum skýrslu um 2. áfanga tilraunaverkefnis um styttingu vinnuvikunnar hefur stytting vinnuvikunnar jákvæð áhrif á fjölmargt. Að stytta vinnuviku þeirra sem sinna félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun gæti leitt til þess að fleiri sýni þessum mikilvægu en krefjandi störfum áhuga. Þessi störf er afar illa launuð, sennilega ein lægstu laun sem boðið er upp á sem er helsta ástæðan þess að ekki tekst að manna þessa stöður betur en raun ber vitni. Eitthvað fleira og annað þarf því að koma til og „stytting vinnuvikunnar“ er hvatningarþáttur sem vel mæti nýta í þessum tilgangi. Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og en þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan launin eru svo lág að ekki möguleiki er að lifa á þeim.  Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf. Stytting vinnuvikunnar gæti verið sá hvati meðal annarra.  Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Margir bíða á Landspítalanum vegna þess að ekki er hægt að útvega þeim félagslega heimaþjónustu. Þetta er gríðarlega kostnaðarsamt að ótöldu álagi sem lagt er á fólkið sjálft og aðstandendur þeirra. Að stytta vinnuvikuna fyrir þennan hóp sérstaklega er eitthvað sem borgarmeirihlutinn getur vel hrint í framkvæmt eða stuðlað að.

Bókun Flokks fólksins, Miðflokksins við svari við fyrirspurn um kostnað vegna ólöglegra ráðningar, brottreksturs ásamt dómsmálum.

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins voru ekki að óska eftir stöðluðu svari um almennar reglur um starfslok eins svarið sem hér er lagt fram af hálfu borgarinnar. Vera kann að fyrirspurnin hafi ekki verið nægjanlega skýr. Í ljós þess möguleika leggja áheyrnarfulltrúarnir aftur fram fyrirspurn um hvað borgin hefur greitt til yfirmanna/embættismanna vegna ólöglegrar ráðninga,  brottrekstrar ásamt dómsmálum.

Fyrirspurn um kostnað við ólöglegra ráðninga, brottrekstra starfsmanna og dómsmála

Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi ólöglegar ráðningar/brottrekstra starfsmanna hjá borginni auk dómsmála síðustu tíu ár?

Velferðarráð
19. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um biðlista í félagslega heimaþjónustu og hjúkrun

Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og en þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau lúsalaun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf. Það er borgarmeirihlutans að finna þá hvatningu, reyna að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau.  Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

Borgarstjórn
18. júní 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Strætó á nú tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er metan sem ekki selst brennt á báli. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs nýti metan sem byggðasamlagið Sorpa framleiðir en nýtir ekki.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er hins vegar dýr, en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn.

Greinargerð

Í ljósi þess að  metan er til og ekki nýtt er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti.

Nokkur orð um metan.
Metangas  myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni. Í Álfsnesi er lífrænt sorp urðað og þar myndast metangas og því gasi er safnað. Metanið er orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða um 30 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Sé það ekki nýtt er betra að  brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa.

Eins og framan greinir kom fram í svari frá Strætó bs við fyrirspurn borgarfulltrúa um málið að fyrirtækið hefur óskað eftir tilboðum í vetnisbíla en ekki metanbíla þótt  nóg sé til af metani. Það er vægast sagt sérkennilegt.

Skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist  fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Þar sem Reykjavíkurborg á meirihlutann í báðum þessum byggðasamlögum, Strætó bs og Sorpu ætti borgin að geta haft einhverja skoðun á því hvernig þeim er stjórnað þegar kemur að hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki geta selt allt það metangas sem hún framleiðir og í þess stað þurfi að brenna því engum til gagns. Það er óskiljanlegt af hverju annað fyrirtækið geti ekki nýtt sér það sem hitt framleiðir, fyrirtæki sem  bæði eru að stórum hluta í eigu borgarinnar.

Rökrétt er að reyna að nýta metangasið á stóra bíla, þar sem illa hefur gengið að koma því á almenna bílaflotann. Að nota gasið á strætisvagnana er því sjálfsagt mál. Það er sóun að brenna gasinu til einskis nema í þeim tilgangi að minnka gróðurhúsaáhrifin að sjálfsögðu.  Metangassöfnun í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra og hefur varla minnkað síðan. Þarna er nægt gas til að nýta á fjölmarga strætisvagna sé vilji til.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs fái upplýsta umræðu í stjórn Strætó bs. Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnibíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá  hvernig  metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.   Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en  svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu siðareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ekki mótfallinn þessum reglum enda listi af almennum kurteisisreglum sem innbyggðar ættu að vera í hverja manneskju. Í umhverfi sem ríkir hér í borgarstjórn hef ég hins vegar ekki trú á að reglur sem þessar verði teknar alvara. Alla vega ekki á meðan stjórnunarstíll meirihlutans er litaður af slíkri valdbeitingu sem ég hef áður lýst í bókunum.  Það „verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til að starfsmenn eigi greiða leið að kvarta yfir borgarfulltrúum ber ekki mikinn vott um vilja til góðra samskiptahátta eða samvinnu. Hvað þá sá óhróður sem borgarritari dreifði á sameiginlegu vefsvæði með stuðningi borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og sagði þá vera „eins og tudda“ með þeim orðum „þeir sem bregðast við orðum hans eru þeir seku“. Einn fulltrúi meirihlutans kynnti undir á sama vefsvæði með því að nafngreina „hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Varla samræmist þetta nokkrum siðareglum? Borgarmeirihlutinn núverandi sem að hluta til hefur setið í mörg ár hefur heldur ekki sýnt gott fordæmi þegar kemur að reglum um gott siðferði. Í gögnum um t.d. úttekt braggans er staðfest að valdhafar hafi farið á svig við siðareglur t.d. þær sem kveða á um að  forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé.

Bókun Flokks fólksins um reglur skráningu fjárhagslegra hagsmuna borgarfulltrúa
Undir þessum lið, endurskoðun reglna um skráningu á fjárhagslegum hagsmunum borgarfulltrúa átti sér stað afar óviðeigandi hlutur þegar forseti borgarstjórnar réðist skyndilega á annan fulltrúa og heimtaði að vita um eignir hans og samhliða dylgja um viðkomandi fulltrúa. Í liðnum á undan var verið að samþykkja siðareglur sem sami fulltrúi meirihlutans hafði rétt svo lesið upp af stolti. Ekki mikið um alvöru þar! Borgarfulltrúi Flokks Fólksins sat hjá undir liðnum um siðareglur enda vissi að valdhöfum er ekki alvara með hvorki þessum né öðrum siðareglum. En að efni liðsins:Afar mikilvægt er að kjörnir fulltrúar skrái fjárhagslega hagsmuni sína. Óskað hefur verið eftir að Persónuvernd veitti Reykjavíkurborg samráð í samræmi við ákvæði 30. gr. laga og er málið eðlilega ekki tækt fyrr en sá úrskurður liggur fyrir.  Það er gott að meirihlutinn í borginni hefur séð af sér að ætla að samþykkja þessar reglur hér í borgarstjórn með fyrirvara um úrskurð Persónuverndar eins og til stóð. Nú á að vísa því í borgarráð sem er afar sérkennilegt því málið var á dagskrá forsætisnefndar sl föstudag. Ekki er alveg ljóst hvaða snúninga verið er að taka hér með því að vísa málinu til borgarráðs og situr því borgarfulltrúi Flokks fólksins hjá við atkvæðagreiðslu.


Bókun Flokks fólksin við tillögu Sjálfstæðismanna um markvissa gróðursetningu til að minnka vindálag í Reykjavík

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekkert á móti rannsóknum á veðurfari og vera kann að meiri upplýsingar um nærveður muni koma að gagni. Borgarfulltrúi vill þó benda á eftirfarandi atriði. Skógur og skjólbelti draga úr vindhraða. Há skjólbelti hafa veruleg áhrif á vindhraða og þar með vindkælingu og álagi á fasta hluti. Byggingar breyta vindlagi, í misjafnar áttir og þau áhrif  tengjast hæð og byggingarlagi húsanna. Erfitt kann að vera að meta slík áhrif með veðurstöð. Til að spá fyrir um slík áhrif eru líkanprófanir í vindgöngum betri aðferð. Líkanprófanir eru t.d. vel þekktar áður en hafnir eru gerðar til að mæla áhrif einstakra byggingarhátta svo sem brimvarnargarða. Veðurmælingar  á nærveðri verða af ofangreindum ástæðum úreltar um leið og umhverfinu hefur verið breytt og gildir þá einu hvort mælingarnar hafi kostað 10 eða 100 milljónir. Varla verður í framtíðinni unnið með úreltar upplýsingar og leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins til að reynt verið að halda kostnaði við upplýsingar um nærveður innan skynsamlegra marka.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Reykjavíkurflugvöll

Borgarfulltrúi getur tekið undir margt í umræðunni um mikilvægi flugvallarins í Vatnsmýri. Flugvöllurinn er í það minnsta ekki að fara neitt næstu árin enda enginn staður fundinn sem hentar. Helstu mótrök sem hér eru lögð fram er að það bráðvanti land fyrir húsnæði. Hægt er að byggja víða annars staðar nær og fjær en í Vatnsmýrinni. Talað er um vistvænan ferðamáta í þessu sambandi. Vistvænn ferðamáti getur orðið þótt ekki sé byggt á sama bletti. Hvernig væri að setja kraft í að efla almenningsvagnakerfið þannig að það laði mögulega fleiri að? Meirihlutinn talar um kolefnissporin en gerir ekkert til að hvetja þá sem vilja aka einkabíl til að fjárfesta í vistvænum bílum. Hugmynd um þéttingu byggðar er komin út í öfgar hjá þessum meirihluta og fátt er um samráð við fólkið í borginni. Byggð í miðbænum er auk þess hugsuð mest megins fyrir þá efnameiri. Meðalstór 4 herbergja íbúð kostar vel yfir 100 m.kr. Könnun Zenter sýnir skýrt að bærinn er að verða afar einsleitur. Ferðamenn og búendur miðborgarinnar njóta hans og aðrir sem leggja leið sína í bæinn eru að sækja skemmtanalífið frekar en að versla enda tugir verslana farnir af svæðinu. Verði haldið áfram að keyra þessa stefnu verður ekkert eftir í bænum nema veitingastaðir, barir og minjagripabúðir.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um tafa- og mengunargjöld sem fela munu í sér aukna gjaldtöku í umferð 

Tafagjöld sem stýritæki á umferð er aðför að bílaeigendum. Hafa verður í huga að almenningsamgöngur í borginni eru langt frá því að vera viðunandi. Jafnvel þótt þær væru skárri hentar sá ferðamáti ekki öllum. Andúð þeirra sem skipa meirihlutann í borginni gagnvart  „bílum“ líka þeim vistvænu er hrein þráhyggja. Bíllinn skal úr miðborginni. Nú hefur einnig verið bannað að leyfa fornbílaeigendum að aka niður Laugaveginn í sýningarskyni á 17. júní, sýning sem glatt hefur augu margra áratugum saman. Að setja á tafagjöld í andstöðu við borgarbúa er kúgun. Þær borgir sem sett hafa á slík gjöld í óþökk borgarbúa vara við slíku og tala þá af reynslu. Þær borgir geta þó í það minnsta státað af góðu almenningsamgöngukerfi. Hvað með þá sem minna hafa milli handanna og þá sem eiga erfitt með hreyfingu? En annað gjald mun síður en svo vera hvatning fyrir þennan hóp. Nógu slæmt er aðgengi þótt komuskattur bætist ekki við. Eins mikið og borgaryfirvöld hjala um samráð sést það sjaldan í reynd. Nýjasta dæmið um skort á samráði eru lokanir gatna í miðbænum. Í nýrri könnun Zenter og SVÞ sýna niðurstöður almenna óánægju meirihluta rekstraraðila með lokun gatna fyrir umferð. Æ færri sækja miðbæinn nema til að njóta skemmtanalífs.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósalista um endurgreiðslu útsvars til hinna tekjulægstu

Það er hægt að fara ýmsar leiðir til að ná fram jöfnuði. Tillaga Sósilalista er ein leiðin. Koma þarf með sértækar aðgerðir fyrir skilgreindan hóp sem berst við fátækt. Flokkur fólksins var með tillögu um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum. Tillögunni var vísað frá. Núna er hópur að störfum sem skoðar sárafátækt og mættu tillögur sem lúta að leiðum til að jafna kjör borgarbúa gjarnan vera vísað í hópinn til frekari útfærslu í stað þess að hafna þeim.  Raunveruleikinn er blákaldur og hefur verið skilgreindur m.a. af fjármálastjóra borgarinnar. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum.  Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp það sem fólk þénar á mánuði. Þeir flokkar sem ríkja nú, utan Viðreisnar og Pírata hafa skilgreint sig sem jafnaðarflokkar með stefnu sem einmitt átti að bæta kjör þeirra verst settu?

Tillaga Flokks fólksins við Vatsnmýri – Póstnúmer 102

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill styðja íbúa svæðisins í þessu máli vegna þess að yfir þá hefur verið valtað af borgaryfirvöldum. Þetta er enn eitt dæmið um að loforð um samráð er að mestu bara  í orði en ekki á borði hjá meirihlutanum. Dæmin eru víðar t.d. er gróft dæmi um yfirgang og skort á samráði hvað varðar lokanir gatna í miðborginni og ákvörðun um varanlega lokun sumra þeirra allt árið án samráðs við rekstraraðila og borgarbúa aðra en þá sem búa á miðsvæðis. Vel kann að vera að stundum sé kallað eftir sjónarmiðum íbúa og þá kannski meira til að geta sagst hafa gert það en síðan eru sjónarmið eða athugasemdir einfaldlega hunsaðar. Flokkur fólksins tekur undir með borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að á meðan  flugvöllurinn er enn í Vatnsmýrinni breytir engu þótt þetta póstnúmer sé áfram það saman. Hér er ekki um neins konar forgangsmál að ræða og óþarfi að verja fé í þetta núna sem betur mætti nota til að styrkja grunnþjónustu frekar.

Tillaga Flokks fólksins við breytingum á samþykktum 

Borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, eða á að vera það en þannig er það ekki beinlínis í praksís. Sem dæmi hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins ekki tekist að hafa aðkomu að breytingar á samþykktum. Þær tillögur sem lagðar hafa verið fram í þeim efnum hafa ýmist verið felldar eða vísað frá. Borgarfulltrúi Flokks fólksins situr því hjá við atkvæðagreiðslu. Af hálfu minnihlutafulltrúa hafa oft verið lagðar fram tillögur að góðum breytingum í vetur, t.d. að áheyrnafulltrúar minnihlutans fái að sitja í öllum ráðum og nefndum nema Barnaverndarnefnd til að geta betur fylgst með öllum málum. Annað dæmi er tillaga um að borgarstjórnarfundir hefjist fyrr til að þeim ljúki fyrr en oft þarf að fresta helming af málum fundarins. Þetta er einungis brot af tilraunum minnihlutans sem lagðar hafa verið fram til að stuðla að jákvæðum breytingum á samþykktir í stjórnsýslu borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu Skóla- og frístundarráðs á tillögunni að leggja sérstaka áherslu á að fræða börn í leikskólum um heimsmarkmiðin 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þe. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga fellur ekki illa að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska.  Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði má leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Bókun Flokks fólksins við tillögunni um að hafa samráð við rekstraraðila og borgarbúa um varanlegar lokanir göngugatna

Tillögu eða krafa Flokks fólksins um að haft verði samráð við rekstraraðila og borgarbúa vegna lokana í miðbænum var frestað í Skipulagsráði 5. júní. Um þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg hafa með undirskrift sinni mótmælt ákvörðun um lokanir og óttast um afkomu sína. Fyrir liggur tvíþætt viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og Samtök verslunar og þjónustu. Niðurstöður sýna mikla óánægju hjá rekstraraðilum og hjá borgarbúum sem búa ekki miðsvæðis. Fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og minjagripi ganga og ánægja er helst meðal yngra fólks og þeirra sem sækja skemmtanalífið. Það stefnir í einsleitan bæ bæði hvað varðar rekstur og mannlíf. Niðurstöður hljóta að vera áfall fyrir borgaryfirvöld og Miðborgina okkar sem greinilega væntu þess að sjá stuðning við stefnuna. Þvert á móti sýna niðurstöður að göngugötur eru að fæla fólk frá. Verði ekki horfið frá þessari stefnu er bærinn að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Ekki eru allir undrandi því sterkar vísbendingar voru um að stór hluti fólks er hættur að sækja miðbæinn. Samráð hefur verið lítið sem ekkert. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en  25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar í miðbænum hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

Forsætisnefnd 
14. júní 2019

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju ekki er í siðareglum kveðið á um að borgaryfirvöld skuli ávallt hafa í heiðri heiðarleika, rækja störf sín af ábyrgð og forðast að aðhafast nokkuð sem falið getur í sér misnotkun á almannafé. Það ákvæði var í fyrri siðareglum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Við ákvörðun um opinbera móttöku segir í reglum að horfa skal til þess að tilefnið þjóni hagsmunum Reykjavíkurborgar og Reykvíkinga og/eða sé í samræmi við hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar og í samræmi við samþykkta stefnumörkun, áherslur og forgangsröðun borgaryfirvalda. Þá skal horft til sjónarmiða um mannréttindi og samfélagslega ábyrgð við ákvörðun um opinbera móttöku. 3. gr.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um áætlaðan kostnað þessara viðburða/móttöku sem hér eru lögð fram og með hvaða hætti þær þjóna hagsmunum Reykjavíkur sem höfuðborgar sbr. reglur um móttökur.
Um er að ræða:
Höfða friðarsetur í samstarfi við Davis Center við Harvard háskóla; stjórnendur menningarhúsa í Skandinavíu og Kvennasmiðju. Eins er óskað eftir að betur sé gerð grein fyrir tilefninu. Í öllum tilfellum tekur Reykjavíkurborg á sig allan kostnað. Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins fýsir að vita nánar um hvenær og hvort fulltrúa borgarinnar á Velferðarvaktinni hafi nú þegar verið falið að koma þessari tillögu inn á borð Vaktarinnar til að hún verði rædd. Málið er brýnt og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins sjá þessi mál komin í viðunandi farveg hjá ríkinu áður en skólar byrja í haust. Hér er um sanngirnismál að ræða eins og borgin og ríkisstjórnin vita.
Börn eru börn til 18 ára aldur og ekki er verjandi að mismuna þeim með þessum hætti milli skólastiga.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu velferðarráðs þann 24. apríl 2019 á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Kjalarness um gjaldfrjáls námsgögn í framhaldsskólum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála því að námsgögn ungmenna í
framhaldsskólum á aldrinum 16-18 eru á forræði ríkisins. Í bókun meirihlutans og Flokks fólksins kemur fram að fulltrúar skora á ríkið til að fara að fordæmi margra sveitarfélaga og hafa námsgögn í framhaldsskólum gjaldfrjáls. Fulltrúar fela einnig fulltrúa sínum á Velferðarvaktinni að koma þessari tillögu inn á borð þar til umræðu
Mikilvægt er að það verði gert eins fljótt og unnt er.

Bókun Flokks fólksins vegna bréfs íþrótta- og tómstundasviðs vegna kynningu á frístundakorti á erlendum tungumálum:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að auka meðvitund meðal
Reykvíkinga með annað móðurmál en íslensku um hvernig nýta megi alla þjónustu
Reykjavíkurborgar, þ.m.t. frístundakortið. Gallinn er hins vegar sá að reglur um
frístundakort eru alltof strangar og ósveigjanlegar sem veldur því að það er ekki
nægjanlega vel nýtt, sem dæmi í Breiðholti þar sem mesta fjölmenningin er. Varla
er það markmið borgarinnar að kortið sé ekki betur nýtt en raun bera vitni. Nýting
er allt niður í 65%. Nú hefur verið samþykkt að verja miklum fjármunum í að kynna
kortið á fleiri tungumálum. Hér er byrjað á öfugum enda. Þýða á reglur um
frístundakort sem eru allsendis óboðlegar. Reglur eru hreinlega ósanngjarnar
gagnvart sumum börnum. Sem dæmi er með að öllu er óraunhæft að skilyrða kortið
við 10 vikna námskeið hið minnsta. Mörg börn treysta sér ekki til að skuldbinda sig
í svo langan tíma en myndu gjarnan taka þátt í styttri námskeiðum. Að skilyrða
húsnæði með rekstrarleyfi er að sama skapi óþarfa skilyrði. Væri ekki nær að laga
til þessar reglur áður en sett er fjármagn í auglýsingaátak á fleiri tungumálum?

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að minnka kostnað vegna funda borgarstjóra. Tillagan er felld.

Það kemur á óvart að meirihlutinn vill ekki minnka kostnað funda borgarstjóra. Þar
er í gangi mikið bruðl sér í lagi er varðar kostnað við hljóðkerfi,
myndbandsupptökur og streymi frá opnum fundum í lágmarki. Til dæmis er sífellt
samið um einn fund í einu í stað þess að fá tilboð í pakka af fundum. En með því
að semja aðeins um einn fund í einu er ólíklegt að gott tilboð fáist. Þess utan er
ekkert í innkaupareglum sem meinar að spurt sé um verð eða boðið út þótt áætluð
fjárhæð innkaupa með virðisaukaskatti sé undir 7 m.kr. Borgin þarf að fara að hugsa
eins og „hagsýn húsmóðir/faðir“ og hætta að kaupa alltaf eina litla einingu í einu
og fara að kalla þess í stað eftir tilboðum í „magn“. Það eru engin geimvísindi að
sekkur af hrísgrjónum er hlutfallslega ódýrari en lítill pakki af hrísgrjónum. Ef
fyrirsjáanleg er fundarröð 5-10 funda þá skal gera verðfyrirspurn og/eða óska
tilboða í þá alla í einu.

Bókun Flokks fólksins vegna kostnaðar fundaherferðar borgarstjóra, sbr. 9.
lið fundargerðar forsætisnefndar frá 15. mars 2019:

Þessi svör/umsögn eru engan vegin viðunandi hvað þá fullnægjandi. Sífellt er klifað
á því að reynt sé að halda kostnaði við hljóðkerfi, myndbandsupptökur og streymi
frá opnum fundum í lágmarki. En með því að semja aðeins um einn fund í einu er
ólíklegt að gott tilboð fáist. Þess utan er ekkert í innkaupareglum sem meinar að
spurt sé um verð eða boðið út þótt áætluð fjárhæð innkaupa með virðisaukaskatti sé
undir 7 m.kr. Stærsta meinið er að sífellt er miðað við einn fund í einu í stað þess
að gera verðfyrirspurn í röð funda „pakka“ eða leita tilboða í „pakka“ af fundum.
Borgin þarf að fara að hugsa eins og „hagsýn húsmóðir/-faðir“ og hætta að kaupa
alltaf eina litla einingu í einu og fara að kalla þess í stað eftir tilboðum í „magn“.
Það eru engin geimvísindi að sekkur af hrísgrjónum er hlutfallslega ódýrari en lítill
pakki af hrísgrjónum. Ef fyrirsjáanleg er fundarröð 5-10 funda þá skal gera
verðfyrirspurn og /eða óska tilboða í þá alla í einu.

Bókun Flokks fólksins við nýjum reglum um móttökur Reykjavíkurborgar:

Það skiptir miklu máli að þarna ríki fullkomið gegnsæi og að birtur sé sundurliðaður
kostnaður eftir hverja móttöku á vef borgarinnar. Eins er mikilvægt að útboð verði
samkvæmt innkaupareglum jafnvel þótt áætluð upphæð sé undir viðmiði
innkaupareglna. Ekkert meinar borginni að kanna verð fyrirfram eða leita tilboða
þótt lágmarksviðmiði innkaupareglna sé ekki náð vegna kaupa á þjónustu. Hvað
varðar beiðni um móttöku þá getur hver og einn lagt fram beiðni um móttöku
samkvæmt reglum. Móttökur eru margar í Reykjavíkurborg, stundum allt að þrjár
jafnvel fjórar í viku þegar mest lætur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka
mikilvægi þess að ALLAR beiðnir um móttökur séu sýnilegar, rökin fyrir þeim og
hvernig tilefnið samræmist hagsmunum borgarinnar samanber það sem segir í
reglum. Til að borgarbúar geti áttað sig á af hverju sumar beiðnir um móttökur eru
samþykktar en aðrar ekki þurfa að fylgja með rök.

Bókun Flokks fólksins varðandi nýjar siðareglur:

Siðareglur snúa að mörgu í mannlegum samskiptum. Valdhroki og valdníðsla hefur
oft ríkt á fundum ráða og nefnda í borginni t.d. í formi banns við að bregðast við/tjá
sig, beiðni um að ljúka bókun verið hunsuð, fundi slitið til að kæfa umræðu og skort
á samvinnu um frestun mála. „Verkferli“ sem meirihlutinn samþykkti einhliða til
að opna leið fyrir starfsmenn sem vilja kvarta yfir borgarfulltrúum er engan veginn
í samræmi við siðareglur. Hvað þá óhróður sem borgarritari dreifði, með samþykki
borgarstjóra, um fulltrúa minnihlutans og þeir sagðir „tuddar“ á sameiginlegu
vinnusvæði með þeim orðum að „þeir sem bregðast við eru þeir seku“. Einn fulltrúi
meirihlutans kynti undir óhróðurinn á sama vefsvæði með því að nafngreina
„hrekkjusvínin“ eins og fulltrúinn orðaði það. Loks má nefna ábyrgðarleysi og brot
valdhafa á siðareglum í braggamálinu en í siðareglum er kveðið á um að „hafa í
heiðri heiðarleika, rækja störf sín af ábyrgð og forðast að aðhafast nokkuð sem falið
getur í sér misnotkun á almannafé“. Á meðan valdhafar í borginni koma fram af
ábyrgðarleysi, hörku og óbilgirni finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins varla vera
mikil alvara að baki. Siðareglur geta ekki einungis verið falleg orð á blaði.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu á bréfi skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. júní 2019, um endurskoðun á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar ásamt viðaukum.

Borgarstjórn er fjölskipað stjórnvald, eða á að vera það. Þannig er það ekki í praksís. Hér er verið að leggja fram breytingar á samþykktum til samþykktar. Hér hefur minnihlutinn ekki átt neina aðkomu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Leiðin til að koma að breytingu á samþykktum er að leggja fram tillögur. Tillögur um breytingar á samþykktum lagðar fram af minnihlutanum hafa flestar ef ekki allar verið felldar.
Minnihlutinn hefur þannig enga aðkomu að neinu er varðar samþykktir borgarinnar. Dæmi um tillögu minnihlutans er að áheyrnafulltrúar minnihlutans fái að sitja í öllum ráðum og nefndum nema barnaverndarnefnd og að borgarstjórnarfundir hefjist fyrr en báðar þessar tillögur voru felldar. Þetta er einungis brot af tilraunum
minnihlutans til að hafa einhver áhrif á stjórnsýslu borgarinnar sem finna má í hinum ýmsu samþykktum.

Borgarráð
6. júní 2019

Ný mál lögð fram á fundinum:

Flokkur fólksins leggur til að borgin reki skutlu sem aki Laugaveginn, Skólavörðustíginn, Lækjartorg og upp Hverfisgötu.

Spurning er að reyna þetta í tilraunaskyni, tímabundið. Skutla taki hring um kjarna miðborgarinnar t.d. 4-5 sinnum á klukkutíma. Markmiðið er að mæta þeim sem eiga erfitt með gang, eru hreyfihamlaðir eða tímabundnir svo eitthvað sé nefnt nú þegar aðgengi hefur verið takmarkað að svæðinu bæði vegna lokunar gatna en einnig vegna framkvæmda. Lokanir gatna fyrir bílaumferð hefur valdið mögum þeim sem eru ekki á hjóli og eiga erfitt um gang ama. Ekki hefur verið haft viðhlítandi samráð við fólkið í borginni, hagsmunaaðila og öryrkja hvort þeim yfirleitt hugnast þessar lokanir hvað þá varanlegar lokanir. Þetta er ein tillaga sem gæti komið til móts við þá sem treysta sér ekki til að ganga mikið en langar e.t.v. engu að síður að koma inn á þetta svæði og fara um það á skömmum tíma.

Fyrirspurn um kostnað við aðstoðarmann borgarstjóra

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hver sé kostnaður við að halda úti stöðu aðstoðarmanns borgarstjóra. Hér er ekki aðeins verið að spyrja um laun heldur einnig annan kostnað sem fylgir þessu starfi svo sem ferða- og dagpeningakostnað. Óskað er upplýsinga fyrir árin 2017 og 2018

Fyrirspurn um kostnað borgarinnar á tilraunaverkefni með vetnisstrætó í kringum árið 2000

Fyrir nokkrum árum var hér í gangi tilraunaverkefni með vetnisstrætó. Óskað er upplýsinga um kostnað Reykjavíkur við það verkefni. Ástæða fyrir fyrirspurninni er sú að upp úr árinu 2000 var sett á laggirnar verkefni þar sem vetni átti að reyna sem eldsneyti á strætisvagna Strætó. Vetni fellur ekki til sem afgangsafurð í iðnaði hér á landi og er þá eina framleiðsluaðferðin að framleiða vetni með rafgreiningu sem er dýr aðferð. Árangurinn af verkefninu varð lítill. Vagnarnir entust aðeins í örfá ár. Sú bjartsýni sem birtist í byrjun tilraunarinnar gufaði upp. Sjá t.d. orð iðnaðarráðherra: ,, Það er stefna stjórnvalda að stuðla að aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku í umhverfisskyni. Þess vegna yrði framleiðsla og notkun vetnis, ef slíkt reynist fjárhagslega hagkvæmt, í samræmi við stefnu stjórnvalda.“ Og orð forsætisráðherra: „Takist þessi tilraun verða sigurlaunin mikil. Verulegur efnahagslegur ávinningur virðist þá blasa við „. Varla hefur verið minnst á vetnisvagna þar til nú þegar Strætó bs. hefur gert tilboð í slíkan vagn sem vekur furðu m.a. í ljósi sögunnar

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín.

Meirihlutinn í borginni hefur gefið sig út fyrir að vilja vistvæna borg. Sérstaklega hefur verið horft til bíla í því sambandi. Það kom því á óvart þegar Reykjavíkurborg um áramót 2011 herti reglur um hvaða bílar teljast visthæfir og hverjir ekki. Frá 2011 hafa visthæfir bílar getað lagt frítt í gjaldskyld bílastæði borgarinnar í allt að níutíu mínútur. Með hertum reglum féllu fjöldi bifreiða úr visthæfa flokknum með breytingunum og gátu eigendur ekki lengur nýtt sér þennan valkost. Áður töldust bílar visthæfir ef þeir losuðu minna en 120 grömm af koltvísýringi á hvern kílómetra í blönduðum akstri en þetta mark hefur nú verið lækkað niður í hundrað grömm. Bifreiðar sem ganga fyrir vetni, rafmagni og metani falla einnig í flokk visthæfra ökutækja. Bílarnir mega í mesta falli vera 1.800 kílógrömm að þyngd og mega ekki vera á negldum vetrardekkjum.

Greinargerð
Í upplýsingum frá Samgöngustofu kemur fram að 11.432 skráðar bifreiðar hafi losað á bilinu 100-120 grömm af koltvísýringi á hvern kílómetra. Sá fjöldi hefur talist óvisthæfur frá áramótum. Að auki vantar upplýsingar um tvinnökutæki.
Á vefsíðu Bílgreinasambandsins má finna lista yfir bíla sem brenna bensíni, dísilolíu eða metani og uppfylla skilyrðin til að teljast visthæfir bílar. Á þeim lista eru rúmlega níutíu tegundir en aðeins tæpur þriðjungur þeirra uppfyllir nú skilyrðin til að teljast visthæfur. Rétt er að taka fram að listinn var síðast uppfærður í sumar og er ekki tæmandi talning á þeim ökutækjum er uppfylla skilyrðin. Reglur um vistvæna bíla  geta haft áhrif á ákvörðun neytenda um hvaða bíll verður keyptur. Þessum reglum var á sínum tíma breytt með einu pennastriki og kom illa við marga t.d. þá sem voru nýbúnir að kaup sér vistvænan bíl.

Bókun Flokks fólksins við svari um stöðu biðlista fyrir heimaþjónustu og hjúkrunarrými

Svar borgarmeirihlutans

Mannekla í þessum störfum er fyrst og fremst vegna lágra launa. Hér gæti borgin beitt sér ef vilji væri fyrir hendi. Mannekla er ekkert lögmál, ekki nema það sé orðið það hjá þessum meirihluta. Það er klárlega í hendi borgarmeirihlutans að leysa þennan vanda og hefði verið hægt að gera það fyrir lifandis löngu þ.e. ef fólk og grunnþjónusta við það hefði einhvern tímann verið sett í forgang. Varðandi þjónustu borgarinnar, félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun þá eru flestir sjúkraliðar sem vinna við heimahjúkrun. Vegna manneklu er aðeins hægt að sinna þeim sem eru veikastir. Það sem er hvað mest sláandi í þessu svari er að alls 273 einstaklingar á höfuðborgarsvæðinu eru á biðlista eftir varanlegri vistun, af þeim eru 158 með lögheimili í Reykjavík. Sviðið hefur ekki yfirsýn yfir það hvar þeir eru sem eru að bíða eftir innlögn á hjúkrunarheimili, þ.e. hversu margir eru á Landspítala og hversu margir heima. Margir vilja segja að Landspítalinn sé orðinn stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni.

Bókun Flokks fólksins við svari frá Strætó bs. um fjölda kvartana sem kunna að hafa borist Strætó bs frá notendum þjónustunnar

Svar frá Strætó bs

Bókun Flokks fólksin við svari Strætó bs vegna kvartana

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó bs. frá notendum þjónustunnar kemur fram að fjöldi ábendinga eru eftirfarandi: 2016 – 3654 ábendingar, 2017 – 2536 ábendingar 2018 – 2778 ábendingar. Flestar ábendingar sem berast Strætó snúa að aksturslagi, framkomu vagnstjóra og tímasetningum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins sýnist á svari að gæðakerfið sé gott og gengið er strax í málin en fjöldi ábendinga er óheyrilegur. Borgarfulltrúi átti kannski von á 100 til 200 ábendingum en ekki á þriðja þúsund og yfir. Fjölgun er milli ára 2017 til 2018 og munar þar um ca. 200 ábendingum. Fækkun sem er frá 2016 til 2017 heldur ekki áfram árið 2018 heldur fjölgar þá aftur ábendingum. Þetta er afar sérstakt. Flokkur fólksins spyr hvort kafað hafi verið ofan í þessu mál og unnið að því að fækka ábendingum verulega. Áhugavert væri að fá nánari flokkun á þessu t.d. eru flestar kannski kvartanir vegna tímasetningar? Niðurstaðan í huga borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar hann hefur séð þetta svar er að það er eitthvað mikið að í þessu fyrirtæki þegar kemur að þjónustu við farþega. Slíkur fjöldi ábendinga er ekki eðlilegur.

Fyrirspurnir í tengslum við svar vegna kvartana til Strætó

Í framhaldi af svari Strætó bs. um fjölda kvartana óskar borgarfulltrúi eftir að fá nánari sundurliðun á þessum ábendingum til þriggja ára og upplýsingar um hvort farið hefur verið ofan í saumana á þeim með það að markmiði að fækka þeim. Um þetta er spurt vegna þess að ábendingum fjölgar aftur árið 2018 frá árinu 2017. Það er sérkennilegt í ljósi þess að í svari frá Strætó kemur fram að unnið sé markvisst með ábendingar og er ábyrgðaraðili settur á hverja ábendingu sem tryggir að úrvinnsla hennar eigi sér stað? Loks er óskað upplýsinga um hve margar af þessum ábendingum leiði til verulegra úrbóta.

Bókun Flokks fólksins við svari um hvað það muni kosta að grunnskólanemar í Reykjavík fái frítt í strætó

Svar meirihlutans:

Fram kemur í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað það muni kosta ef grunnskólanemar fái frítt í Strætó. Það eru um 200 milljónir og segir í svari að það gæti verið erfitt miðað við núverandi greiðslufyrirkomulag að gera greinarmun á því hvort barn/ungmenni ætti rétt á að ferðast frítt eða ekki. Borgarfulltrúa finnst sýnt að hægt væri að láta þá sem eiga rétt á að ferðast frítt fá kort sem þau sýna við komu í vagninn. Svo málið er nú ekki flóknara en það. Gera má því skóna að væri frítt í strætó fyrir grunnskólanema í Reykjavík myndi notkun aukast. Í það minnsta væri vel þess virði að prófa þetta í tilraunaskyni í hálft til eitt ár. Þetta mundi auk þess muna miklu fjárhagslega fyrir fjölskyldur t.d. þar sem fleiri en eitt barn er á grunnskólaaldri.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundarheimili vegna fjárhagsvanda.

Svar borgarmeirihlutans

Spurt var hversu mörg börn hafa hætt á frístundaheimili vegna þess að foreldri hefur ekkert aðhafst að semja um vangreidda vistunarskuld sína við borgina. Um er að ræða 26 börn á tveimur árum. Sundurliðun er eftir mánuðum og er dreifing allt frá 0 og upp í 7 börn. Í febrúar og maí 2018 voru 14 börnum sagt upp vistun og í apríl það sama ár 4. Sama tíma árinu áður er engu barni sagt upp. Þetta er nokkuð sérstakt og væri forvitnilegt að vita hvað þarna liggur að baki. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur þá skoðun að engu barni eigi að segja upp vegna vangoldinna skulda foreldra. Enda þótt foreldrar hafi leiðir til að semja um skuldina þá geta verið ólíkar orsakir þess að það er ekki gert og slíkt á aldrei að bitna á barninu. Dvöl á frístundaheimili er flestum börnum afar mikilvæg og þjónar fleiri en einum tilgangi. Í ljósi þess að hér er ekki um stærri hóp að ræða á borgin skilyrðislaust að una þessu börnum þess að fá að vera þar, þrátt fyrir að foreldrar greiði ekki skuldina. Ekki þarf að minna á að á Íslandi gildir Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna. Það stríðir klárlega gegn honum að henda barni úr frístund vegna þess að foreldrar hafi ekki greitt vistundargjaldið

Bókun Flokks fólksins vegna minnisblaðs fyrrverandi fjármálastjóra Reykjavíkurborgar vegna álitsgerðar Trausta Fannars Valssonar, sem hann vann að beiðni endurskoðunarnefndar

Flokkur fólksins fagnar því að þessi mál hafi skýrst með afdráttarlausum hætti en það gerðist ekki fyrr en með greinargerð eða minnisblaði utanaðkomandi stjórnsýslufræðings. Endurskoðunarnefndin vekur athygli á leiðbeinandi verklagsreglum vegna viðauka fjárhagsáætlunar frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga, grein 3.2 „Hvenær er ekki tilefni til gerðar viðauka?“ Greinin hljóðar svona: „Viðauka skal ekki gera til að leiðrétta fjárhagsáætlun, útgjöld eða fjárfestingu sem stofnað er til utan fjárheimildar. Mælst er til að útgjöld eða fjárfesting sem stofnað er til utan fjárheimildar og ekki að undangengnum viðauka, séu sett á dagskrá sveitarstjórnar og bókað sérstaklega“. Sveitarstjórn verður að hafa vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálum borgarinnar. Flokkur fólksins styður því það sem segir í álitsgerð um fjárhagsáætlun sveitarfélaga og viðauka frá endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar að borgarráð beini því til fjármálaskrifstofunnar að bregðast við því sem fram kemur í álitsgerðinni.

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu borgarstjóra að stofna nýtt póstnúmer en kostnaður við það er 2.330.000 krónur.

Flokki fólksins finnst nær að nota þessar þrjár milljónir sem fara í að skipta um póstnúmer í Vatnsmýrinni til að greiða t.d. niður gjald skólamáltíða. Flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni næstu árin eða þar til annar betri staður finnst sem borgarbúar geta sætt sig við. Á meðan mætti þetta sama póstnúmer vera áfram í Vatnsmýrinni Flokki fólksins að meinalausu og nota peningana í að styrkja grunnþjónustu frekar.

Velferðarráð
5. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum

Tillögu Flokks fólksins um að gripið verði til sértækra aðgerða til að létta á undir með fátækum barnafjölskyldum hefur verið vísað frá. Borgarfulltrúa finnst það miður og telur að það hefði verið lag að vísa tillögunni inn í hóp um sárafátækt sem er að störfum. Það hljómar illa þegar tillaga eins og þessari er fleygt út af borðinu eins og hún sé ekki þess verð að fá nánari skoðun. Betur hefði farið á því að leyfa henni að fljóta með í vinnu um málefnið sem nú þegar er í gangi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nota tækifærið aftur til að höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum þar með tekjutengingaraðferðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið út undan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. Borgarafulltrúi vill benda á skýrsluna Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem unnin var fyrir Velferðarvaktina í þessu sambandi.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu flokksins um greiningu á stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna.

Tillögu Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjendabakgrunn til að varpa ljósi á stöðu þeirra í íslensku samfélagi hefur verið vísað frá á fundi velferðarráðs 5. júní. Engu að síður lýsir velferðarráð stuðningi við  tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra:

 • Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
 • Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða. 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Minnisblað sviðsstjóra um notendasamráð, sbr. bókun velferðarráðs.

Minnisblað sviðsstjóra er gott og gagnlegt yfirlit en hvernig eru þessi mál í reynd? Það er alveg sama hvað er skrifað mikið og fallega um notendasamráð og hversu mikill og góður vilji og hvati er þar að baki þá virkar það ekki sannfærandi ef notendunum sjálfum finnst að ekki sé verið að hafa samráð við þá um málefni þeirra. Ekki er vitað hversu víðtækt notendasamráð er haft við notendur þjónustu hjá Reykjavíkurborg. Aðeins notendur þjónustu geta staðfest hvort haft sé fullnægjandi notendasamráð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi vilja sjá að gerð yrði könnun hjá notendum, einstaklingum og hópum þar sem spurt er um upplifun þeirra á notendasamráði og notendamiðaðri hönnun. Ef tala á um raunverulegt notendasamráð sem dæmi þurfa notendur helst sjálfir að vera með í að stýra verkefninu. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins hvetja til ríkra tengsla milli hugmyndasviðs og framkvæmdarsviðs til að tryggja að þjónustan verði útfærð með þeim hætti að notandinn upplifi að hann sé hafður með í ráðum frá hugmynd á fyrstu stigum til framkvæmdar. Til þess að notendasamráð tvinnist inn í menningu og samfélag þarf hugmyndafræðin að vera helst greipt í námsefni fagaðila og verða hluti að fagþekkingu og reynslu.

Bókun Flokks fólksins um greiningu á stöðu barna með fötlun sem eru af erlendum uppruna

Velferðarráð lýsir stuðningi við eftirfarandi tillögur sem Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent félagsmálaráðuneytinu um að í framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda verði aðgerðir sem lúta sérstaklega að aðstæðum þörfum og réttindum fatlaðra barna af erlendum uppruna og aðstandenda þeirra:

 • Söfnun viðeigandi upplýsinga, meðal annars tölfræðilegra gagna og rannsóknargagna, sem gera hlutaðeigandi stjórnvöldum kleift að greina stöðu og þarfir fatlaðra barna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi og grípa til viðeigandi ráðstafana á grundvelli þeirra. Í þessu sambandi vísast til skyldna stjórnvalda á þessu sviði samkvæmt 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
 • Gerð fræðsluefnis fyrir aðstandendur fatlaðra barna af erlendum uppruna um réttindi þeirra samkvæmt íslenskum lögum og mannréttindasamningum sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og þjónustu og stuðning sem þeim stendur til boða.

Borgarstjórn
4. júní 2019

Bókun Flokks fólksins við lið 3 í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 28. maí um skort á plássum hjá dagforeldrum og hvernig gengur að brúa bilið milli dagforeldra og leikskóla.

Innritun kann að ganga vel í laus pláss leikskóla en brúin milli fæðingarorlofs og leikskóla með dagforeldra sem millilið er langt því frá að vera brúuð. Borgaryfirvöld hafa ekki hlúð nægjanlega að dagforeldrastéttinni. Horfa verður á þessi mál í samhengi. Með tali um ungbarnaleikskóla eins og þeir væru handan við hornið hefur verið sáð fræjum óöryggis í stétt dagforeldra með þeim afleiðingum að flótti hefur verið úr stéttinni, amk hundrað hafa hætt og fleiri munu bætast í þann hóp. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði orðnir nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni. Nú eru enn 48 börn 18 mánaða og eldri á biðlista. Jafnframt eru 259 börn fædd frá 1. mars til 30. júní 2018 á biðlista eftir leikskólavist þ.e. börn sem verða 14-17 mánaða 1. september nk. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi ef þeir eiga ekki að flýja úr stéttinni.

Bókun Flokks fólksins vegna fundarsköpunar á fundi forsætisnefndar 31. maí undir lið 6 og 7

Það er engin hemja hvernig fundir forsætisnefndar eru oft hvað varðar fundarsköp. Síðasti fundur var óhemju slæmur. Fyrir fundinn lágu 11 dagskráliðir en 7 af þeim var frestað eftir að dólað hafði verið með fyrstu málin. Til að forðast nokkra umræðu um frestun mála flýtti formaðurinn sér að slíta fundi.  Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og telur þetta enn eitt dæmið um valdníðslu meirihlutans á fundum. Sambærilegir hlutir hafa oft gerst áður.  Svona getur þetta varla átt að vera. Þetta veldur pirringi og gremju þar sem aldrei er þess freistað að ná samkomulagi með eitt eða neitt við fulltrúa minnihlutans t.d. að semja um hvaða málum skuli frestað. Allt sem heitir samvinna og samkomulag finnst ekki á fundum forsætisnefndar og stundum ekki heldur á öðrum fundum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki boðlegt og krefst þess að annar háttur verði hafður á í framtíðinni og borin sé einhver lágmarks virðing fyrir minnihlutafulltrúum og málum þeirra sem lögð eru fram á fundinum.

Bókun Flokks fólksins  við 24. liður; svar borgarstjóra við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga

Það er athyglisvert að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur séð ástæðu til að spyrja nánar um braggamálið og skýrslu Innri endurskoðunar um braggann.  Nefndin spyr:
1. Hver var eftirfylgni Innri endurskoðunar með því að brugðist yrði við umræddum ábendingum um atriði sem betur máttu fara?
2. Bárust endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendum Reykjavíkurborgar þessar ábendingar innri endurskoðunar?
3. Hver voru viðbrögð og eftirfylgni endurskoðunarnefndar og ytri endurskoðenda við ábendingum  IE og því að ekki var brugðist við ábendingum?

Allar spurningar eru í takt við  bókanir Flokks fólksins um af hverju var ábendingum ekki fylgt og af hverju gekk IE ekki röskar fram í að fylgja þeim eftir? Í bókun Flokks fólksins 4. 4 2019 segir:
Fram hefur komið hjá Endurskoðunarnefnd að allt of langur tími (2-4 ár) líður oft frá því að úttekt er gerð af IE og þar til skrifstofan fylgir eftir eigin ábendingum. En gott er til að vita að Eftirlitsnefnd er með puttann á púlsinum og kallar  væntanlega eftir ítarlegri svörum frá borgarstjóra ef þörf þykir. Borgarfulltrúa fannst hluti þessa mál aldrei vera nægjanlega upplýstur. Málið í heild sinni átti sannarlega erindi í frekari rannsóknar til þar til bærra yfirvalda en sú tillaga M og F flokksins var felld af meirihlutanum, Sósíalistaflokki og hluta Sjálfstæðisflokks.

Bókun Flokks fólksins að lokinni umræðu að beiðni Flokks fólksins um ástand skólahúsnæðis í Reykjavík og stöðu skólanýbygginga

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lýsir miklum áhyggjum af stöðu húsnæðismála margra skóla í borginni. Síðustu ár hefur forgangsröðun verið kolröng hér í borg. Borgaryfirvöld hafa ekki tekið ábyrgð hvorki á að halda við húsnæðiskosti skólanna né að sjá til þess að byggt verði nægjanlega.  Tugir barna og kennara eru veik vegna heilsuspillandi skólahúsnæðis. Ekki er tekin ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu um aðbúnað og  stjórnendur og aðrir hagsmunaaðilar hafa ekki fengið viðunandi áheyrn eða verið tekin alvarlega. Sífellt er verið að boða til sóknar í skólamálum engu að síður. Haldnir hafa verið fundir þar sem meirihlutinn reynir oft að sneyða hjá að svara fyrir hið slæma ástand. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið að einhverjum málum en vísar oft hver á annan. Flokkur fólksins krefst þess að málefnið verði sett í algeran forgang. Það er grafalvarlegt að Skóla- og frísstundarráð og borgarstjóri láti sjúkdómseinkenni barna sem rakið er til skólahúsnæðisins um vind og eyru þjóta. Haldinni er leyndri fyrir borgarfulltrúum hin svo kallaða 5 skóla skýrsla sem sagt er að sé vinnuplagg borgarstjóra. Flokkur fólksins krefst þess að fá að sjá skýrslu sem borgarstjóri segir vera  hluta af fjárfestingaráætlun næsta árs. Fyrstu skólarnir voru skoðaðir 2017 og síðan Hagaskóla og einn annar 2018

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðismanna að skora á Alþingi að samþykkja lög um að selja áfengi í hverfisverslunum

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst ekki ástæða til að rugga bátnum að óþörfu þegar kemur að aðgengi að áfengi og vill því ekki styðja þessa tillögu enda ekki málefni borgarinna. Borgarfulltrúi, eins og margir aðrir sem hafa tjáð sig um þessi mál telur að með þessari breytingu á fyrirkomulagi muni þeim góða ár­angri sem við höf­um náð í for­vörn­um og minnk­andi ung­linga­drykkju  vera stefnt í voða. Aukið aðgengi gæti leitt til auk­inn­ar neyslu. Fyrir suma unglinga er áfengi fyrsta efni sem neytt er áður en farið er út í sterkara efni. Margir foreldrar eru uggandi um velferð barna sinna þegar kemur að vímuefnum og neyslu þeirra. Þessi mál eru í ágætum farvegi eins og þau eru og er því engin nauðsyn að hefja sölu áfengis í hverfisverslunum. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að við sem stjórnmálamenn sem eigum að vera góðar fyrirmyndir gætum okkar á því hvað við leggjum til er varðar mögulega heilsu og velferð barna. Við eigum ávallt að hafa hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi í öllum okkar störfum. Börnin koma fyrst og fullorðna fólk svo. Okkar verkefni er að sinna forvörnum af kappi og gæta þess að gera ekki neitt sem mögulega geta komið börnum og unglinum illa.

Bókun Flokks fólksins við umræðu meirihlutans um framtíðina í borginni hvað varðar samgöngur og mengun

Meirihlutanum er tíðrætt um bílaumferð og mengun en gerir samt lítið til að sporna við henni þar sem það er hægt. Sífellt er borgin borin saman við Osló en sú síðarnefnda getur státað af góðu almenningsamgöngukerfi sem Reykjavík getur ekki. Á annan klukkutíma tekur stundum að komast milli staða í Reykjavík með strætó. Væri borgaryfirvöldum alvara að bæta loftgæði hefði ekki eina ívilnun til að hvetja fólk að aka vistvænum bíl verið tekin af. Flokkur fólksins hefur lagt til að biðljós verði fjarlægð og sett í stað göngubrú þar sem myndast miklar umferðarteppur með tilheyrandi mengun. Biðljós á Miklubraut loga lengi eftir að gangandi vegfarandi er komin yfir og eru síðan virkjuð samstundis aftur. Þessu vill meirihlutinn ekki breyta. Sú herferð sem meirihlutinn er í gegn fólki sem kýs og þarf einkabílinn er komin út yfir öll mörk. Er ekki rétt að byrja á byrjuninni, laga strætókerfið áður en tafagjöld verða sett á bílana. Hvernig farið hefur verið með rekstraraðila á Laugavegi er mál þessu tengt. Lokað fyrir umferð án samráðs á sama tíma og státað er af lýðræði og samráði? Aðeins meira um umhverfið, af hverju hefur borgin ekki tekið upp þriggja tunnu flokkunarkerfi eins og mörg önnur sveitarfélög?

Umræða að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins um ástand skólahúsnæðis og byggingar- og viðhaldsþörf skóla í Reykjavík

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að nýta metangas sem SORPA framleiðir á metanvagna Strætó bs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að SORPA hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. á metanvagna Strætó bs. Um er að ræða tvö byggðasamlög sem Reykjavíkurborg á meirihluta í. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs. noti metan á strætisvagna sem byggðasamlagið SORPA framleiðir en nýtir ekki. Strætó bs. á tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er brennt. Í ljósi þess að metan er til hér er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani á báli og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti. Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni en það er ekki framleitt hér. Framleiðsla vetnis með rafgreiningu er dýr og myndi þurfa að flytja vetnið inn.
Greinargerð fylgir
Frestað, verður lög fram 18. júní

Forsætisnefnd
31. maí 2019

Bókun Flokks fólksins við fundarsköp

Flokkur fólksins vill bóka um fundarsköp. Borgarfulltrúi er mjög ósáttur við
hvernig fundi forsætisnefndar var stjórnað. Helming af dagskrárliðum var frestað á
lokasekúndum fundarins. Þetta er afar vont enda undirbúa fulltrúar sig fyrir fundina
samkvæmt fundardagskrá. Flokkur fólksins mótmælir þessum vinnubrögðum og
telur þetta enn eitt skýrt dæmið um valdníðslu meirihlutans á fundum.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum kynning á drögum að endurskoðuðum reglum um móttökur Reykjavíkurborgar

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessar reglur ekki nógu skýrar og ekki nógu
gegnsæjar. Til dæmis segir að við ákvörðun um opinbera móttöku skuli horft til
þess að tilefnið þjóni hagsmunum borgarinnar. Þetta er allt mjög teygjanlegt og háð
túlkun. Flokkur fólksins hefur lagt til að með yfirliti fylgi sundurliðaður kostnaður
fyrir hverja veislu. Það er afar mikilvægt að borgarbúar geti fylgst með kostnaði
sem fer í opinberar móttökur og aðra viðburði sem skrifstofa borgarstjóra ákveður
að halda. Einnig ætti að vera oftar útboð samkvæmt innkaupareglum jafnvel þótt að
áætluð upphæð sé undir viðmiði. Fé sem varið er í veislur og móttökur kemur úr
vasa borgarbúa. Hver og einn getur í raun lagt fram beiðni um móttöku. Móttökur
er margar í Reykjavíkurborg, stundum allt að fjórar í viku, og flestar með áfengi og
að sjálfsögðu öðrum veisluföngum. Í 7. gr. kemur fram að móttökur sem
utanaðkomandi aðili sækir um að Reykjavíkurborg haldi skuli að öllu leyti greiddar
af umsóknaraðila. Þá má spyrja hverjir þeir eru sem ekki kallast utanaðkomandi,
hver séu tengsl þeirra við borgina, er hér verið að ræða um launþega borgarinnar?
Hér má margt bæta. Borgarfulltrúi vill að allar beiðnir séu upp á borði, líka þeim
sem er hafnað og hvað rök liggja fyrir því.

Borgarráð
16. maí 2019

Flokkur fólksins er með tveimur öðrum minnihlutaflokkum í tillögu um mötuneytismál í Dalskóla:

Lagt er til að fundin verði viðunandi lausn fyrir skólabyrjun í haust hvað varðar mötuneytismál Dalskóla þar sem mötuneyti skólans verður ekki tilbúið fyrr en 2020 þar sem gleymst hafði að gera ráð fyrir því við hönnun skólans. Það stefnir í að Dalskóli muni ekki geta uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið. Sveitarfélögum er heimilt að taka gjald fyrir skólamáltíðir samkvæmt sérstakri gjaldskrá sem þau setja. Vísað er í erindi sem birt var skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, hinn 16. maí. R19050138

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: fundargerð endurskoðunarnefndar frá 29. apríl þar sem fjallað er um álit Trausta Fannars Valssonar vegna áritunar ársreiknings:

Loksins liggur allt uppi á borði er varðar hvað þýðir að skrifa undir ársreikning en nú er lögfræðiálit stjórnsýslufræðings sýnilegt öllum borgarráðsfulltrúum. Nokkur atriði er vert að leggja áherslu á og það er að staðfesting ársreiknings felur ekki í sér samþykki einstakra ráðstafana sem liggja til grundvallar í því reikningshaldi sem ársreikningurinn lýsir. Með undirskrift borgarfulltrúa Flokks fólksins, með fyrirvara, var þá ekki verið að staðfesta á neinn hátt eða samþykkja fjárútlát framúrkeyrsluverkefna og því þá síður fjárútlát sem voru án heimildar borgarráðs. Eins og menn muna var borgarráð platað, ýmist var haldið frá borgarráði upplýsingum eða því veittar rangar upplýsingar. Ekki síður mikilvægt er þessi niðurstaða (leiðbeiningar) reikningsskila- og upplýsinganefndarinnar sem máli skiptir þ.e. um meðferð og samþykktir viðauka við fjárhagsáætlun. Viðauka skal ekki gera til að leiðrétta fjárhagsáætlun, útgjöld eða fjárfestingu sem stofnað er til utan fjárheimildar en þessi leikur virðist leikinn í borginni og það ítrekað. Sveitarstjórn verður að hafa vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun til að geta sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálum borgarinnar. Í borgarfjármálunum þarf því margt að laga!

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Secret Solstice, drög að nýjum samningi 

Nú stendur til að halda aftur Secret Solstice í skugga himinhárra óuppgerðra skulda frá hátíðinni í fyrra. Einnig hafa borist fjölmargar umsagnir frá foreldrum og íbúum sem eru uggandi um börn sín. Fullyrt er að ekki sé hlustað á áhyggjur þeirra og að ekki hafi fengist viðtal við borgarstjóra vegna málsins. Gagnrýnt hefur verið að halda hátíð af þessari stærðargráðu þar sem íbúðarhverfi eru allt um kring ekki síst vegna þess að mikill misbrestur hefur auk þess verið á eftirliti. Fram hefur komið hjá foreldrum í kjölfar síðustu hátíðar „að stórfelld brotalöm var á skipulagi hátíðarinnar og framfylgd áfengiskaupalaga auk þess sem neysla og sala fíkniefna var mikil í tengslum við hátíðarhöldin“. Borgarfulltrúi Flokks fólksins bókaði um málið á þessum nótum í nóvember sl. þegar ljóst var að eigendur hátíðarinnar stóðu ekki í skilum. Engu að síður hófst undirbúningur hátíðarinnar fyrir 2019. Borgarfulltrúi vill styðja það sem fram kemur í umsögnum foreldrafélaga í hverfinu sem telja að þessi hátíð eigi ekki heima í Laugardalnum. Borgarfulltrúi veit að reynt hefur verið að gera ráðstafanir til að þessir hlutir fari ekki úr böndum. Engu að síður eru foreldrar áhyggjufullir vegna barna sinna enda eiga hagsmunir barna ávallt að vera í fyrirrúmi.

Flokkur fólksins og Miðflokksins sameinast í bókun undir fundargerð endurskoðunarnefndar frá 6. maí er viðauka:

Eftir að hafa fengið gögn sem eftirlitsnefnd Reykjavíkur kallaði eftir að beiðni oddvita Sjálfstæðisflokksins er ljóst að ekki stendur steinn yfir steini í rekstri borgarinnar. Sveitarstjórnarlög og lög um opinber skjalasöfn hafa verið brotin og farið hefur verið gegn reglum frá reikningsskila- og upplýsinganefnd sveitarfélaga. En í reglunum kemur fram að mælst er til að útgjöld eða fjárfesting sem stofnað er til utan fjárheimildar og ekki að undangengnum viðauka, séu sett á dagskrá sveitarstjórnar og bókað sérstaklega. Sveitarstjórn hefur þannig vitneskju um ástæður þess að tiltekin útgjöld eða fjárfesting séu umfram fjárhagsáætlun og getur þannig sinnt eftirlitshlutverki sínu gagnvart fjármálunum. Leiðréttingar á fjárhagsáætlun með gerð viðauka undir lok árs, vegna útgjalda eða fjárfestinga sem stofnað hefur verið til án samþykkis sveitarstjórnar, samræmast þannig ekki reglum um viðauka. Slíkar samþykktir þjóna ekki tilgangi laganna um fyrirfram samþykki sveitarstjórnar vegna breytinga á samþykktri fjárhagsáætlun. Nú blasir við hvers vegna meirihlutinn barðist hatrammlega á móti tillögu borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um að vísa braggaskýrslunni til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar en tillagan var felld á fundi borgarstjórnar hinn 15. janúar sl.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um bruna í Seljaskóla:

Bruni í tvígang í Seljaskóla er mikið áfall. Öllum er brugðið. Orsakir liggja ekki fyrir en fullyrt er að eftirlit sé gott og strangt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er hugsað til eldri skólabygginga sem ekki hefur verið haldið við en þær eru fjölmargar í Reykjavík. Byggingar í eigu borgarinnar hafa margar drabbast niður undanfarin ár. Því til staðfestingar er fjöldi tilvika um myglu í fasteignum borgarinnar. Í fréttum segir að á einhverjum tíma var verið að segja upp vöktunarsamningum á brunaviðvörunar- og vatnsúðakerfum og viðhaldssamningum þrátt fyrir að það hafa verið brunar af og til. Viðhald skiptir öllu máli og hafa viðhaldsmál einfaldlega rekið á reiðanum í borginni undanfarin ár. Brunavörnum þarf einnig að sinna. Ef brunavörnum er ekki sinnt dags daglega eru þær ekki til neins. Svo ábyrgð borgarinnar er mjög mikil. Ég spyr eins og margir, eru skólarnir á höfuðborgarsvæðinu öruggir fyrir börnin? Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að allt fór vel og þakkar slökkviliði og stjórnendum. Borgarfulltrúi er hins vegar ekki tilbúinn að bíða eftir næsta bruna. Hér verður að setja peninga í að taka út stöðu viðhalds bygginga þar sem börn stunda nám eða tómstundir.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Hagkvæmt húsnæði – Bryggjuhverfi – Variat:

Borgarfulltrúi vill aftur árétta það sama hvað varðar þetta vilyrði og annað sambærilegt sem áður hefur verið kynnt borgarráði. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Fram kemur að Variat skulu bjóða Félagsbústöðum hf. íbúðirnar til kaups þegar hönnun liggur fyrir og skulu Félagsbústaðir hf. þá hafa einn mánuð til að taka afstöðu til kaupréttarins. Ef Félagsbústaðir hf. bregðast ekki við innan þeirra tímamarka er Variat rétt að líta svo á að Félagsbústaðir hf. hyggist ekki nýta sér kaupréttinn. Hér er um allt of skamman tíma að ræða. Við yfirferð þessara skilmála er smávegis eins og margt sé gert til að gera Félagsbústöðum erfiðara fyrir en ella að fjárfesta þarna.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Starfsáætlun og rýmingaráætlun almannavarnarnefndar höfuðborgarsvæðisins:

Borgarfulltrúi þakkar þessa kynningu og telur að slökkviliðið og almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins standi vakt sína með sóma. Engu að síður vill borgarfulltrúi nefna í tengslum við þessa umræðu að ekki er hægt að útiloka að það þurfi að koma til brottflutnings fólks af stóru svæði Reykjavíkur og Seltjarnarness. Þess myndi mögulega þurfa ef upp kæmi sú staða að ekki væri hægt að rýma milli svæða. Það er aldrei neitt útilokað í þessu lífi. Ef sú staða kæmi upp t.d. vegna náttúruhamfara sem gerði það að verkum að fólk þyrfti að komast í snarheitum frá Reykjavík og Seltjarnarnesi þá er alveg ljóst að engar raunhæfar áætlanir eru til. Þar er vissulega ekki við almannavarnarnefnd og slökkviliðið að sakast en því fyrr sem borgarpólitíkin er tilbúin að horfast í augu við þessa staðreynd því betra.

Borgarstjórn
14. maí 2019

Athugasemdir Flokks fólksins við Ársreikning 2018 sem lagður var fram til síðari umræðu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins skrifar undir Ársreikning borgarinnar 2018 með fyrirvara. Borgarfulltrúi er ekki sáttur við hvernig farið hefur verið efnislega með fjármuni borgarinnar. Borgarfulltrúi óttast einnig að ekki séu öll kurl komin til grafar í verkefnum sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 10. janúar að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gerð var á Nauthólsvegi 100 en Gröndalshúsið fór langt fram úr kostnaðaráætlun. Tillaga var felld á grundvelli umsagnar Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar án þess fengið væri álit Innri endurskoðanda. Það er mat borgarfulltrúa að borgaryfirvöld hafi misnotað fé borgarbúa með grófum hætti undanfarin ár. Fjölmörgum ábendingum Innri endurskoðanda hefur ekki verið fylgt eftir, 37% ábendinga sem raktar eru í nýrri skýrslu Innri endurskoðunar hafa ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar. Borgarfulltrúi áréttar aftur að með þessari undirskrift sinni samþykkir hann EKKI nein fjárútgjöld sem farið hafa fram úr fjárheimildum án heimildar og fordæmir brot borgarinnar á sveitarstjórnarlögum, á lögum um skjalasöfn, að fjárhæðum hafi verið eytt án heimildar, brot á innkaupareglum, að borgarráði hafi verið veitt rangar upplýsingar sem og að tölvupósti og afritum var eytt, allt sem staðfest hefur verið í skýrslu Innri endurskoðunar borgarinnar m.a. um Nauthólsveg 100.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 29. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí og varðar frávísun tillögu um að fá mat stjórnsýslufræðings á hið svo kallaða bráðabirgðarverkferli meirihlutans til að hægt sé að kvarta yfir borgarfulltrúum minnihlutans

Það er sérkennilegt að borgarmeirihlutinn hafi ekki viljað fá ráðleggingar stjórnsýslufræðinga á þetta verkferli sem meirihlutinn hefur nú einhliða samþykkt og ætlað er fyrir starfsmenn sem vilja kvarta undan kjörnum fulltrúum. Hér skiptir máli að hlutir séu rökréttir en ekki bara einhver geðþóttaákvörðun þeirra sem valdið hafa. Því hefði verið tilvalið að fá mat fræðinga í stjórnsýslureglum vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi er í annars vegar og starfsmaður hins vegar. Hin samþykkta tillaga er órökrétt. Kjörnum fulltrúa er í lófa lagt hvort hann ansi kalli rannsakanda að koma til tals um kvörtun á hendur honum. Geri hann það ekki fer ekkert ferli af stað. Borgarritari hefur móttekið kvörtun frá starfsmönnum sem jafngildir loforði um að kvörtunarmál fari í ferli sem lýkur með úrlausn. Borgarstjóri og -ritari hafa tapað áttum við lestur frekar óljósrar skýrslu siðanefndar sveitarfélaga. Þar segir að ekki sé hægt að vinna mál á pólitískum vettvangi en engu að síður eigi að búa til farveg. Nú á að fá utanaðkomandi aðila til verksins en sem ráðinn er af hinum pólitíska framkvæmdastjóra. Borgarritari hefur einnig boðið borgarfulltrúum að kvarta yfir starfsmönnum. Staða þess starfsmanns sem kjörinn fulltrúi kvartar yfir er mun verri en sé málið á hinn veginn. Starfsmann er hægt að áminna og reka en kjörinn fulltrúa ekki.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 36. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí er varðar tillögu að gera víðtæka skoðun vegna varanlegrar lokunar Laugavegs og Skólavörðustígs

Tillaga Flokks fólksins um víðtæka skoðanakönnun vegna varanlegra lokana gatna í miðbænum var felld um leið og hún var lögð fram. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að borgarmeirihlutinn þori ekki að láta framkvæma slíka könnun því undir niðri er vitað að mikil mótmæli munu koma fram vegna fyrirhugaðra varanlegra lokana tveggja aðalgatna og jafnvel fleiri í miðborginni. Meirihlutinn rígheldur í eldri kannanir sem þeim hefur tekist að sannfæra borgarbúa um að styðji þessar framkvæmdir. Borgarbúar voru plataðir. Aldrei var spurt hvað fólki fyndist um varanlega lokun þessara gatna. Spurningar voru loðnar og óljósar og áttu svarendur án efa erfitt með að átta sig á um hvað málið snerist sem er að bílar munu aldrei framar geta ekið um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar. Fyrir hreyfihamlaða er þetta mikið áfall þar sem aðgengi að þessu svæði er slakt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 35. lið fundargerðar borgarráðs 4. maí sem fjallar um fá tillögu innri endurskoðanda á umsögn SEA að hafna tillögu um úttekt á Gröndalshúsi.

Tillaga Flokks fólksins um að fengin yrði umsögn innri endurskoðanda á umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar (frá 4. apríl og 6. maí) við fyrirspurn borgarfulltrúa vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun var vísað frá á sama fundi borgarráðs og hún var lögð fram. Þetta er allt hið sérkennilegasta mál þar sem í raun er umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar ein og sér lögð til grundvallar þess að vísa þessari tillögu frá. Hér er því „skrifstofan“ sjálf SEA að meta það ein hvort eigi að skoða stöðu verka og verkefna hennar eins og Gröndalshús. Það ætti að þykja sjálfsagt að innri endurskoðandi fengi tillögu um úttekt á Gröndalshúsinu inn á sitt borð en staðfest er að umrædd umsögn SEA kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Það ætti að vera metnaður borgarmeirihlutans að ákvörðun um hvaða verkefni fari í úttekt komi fyrst og fremst frá þeirri skrifstofu sem hefur að gera með eftirlit með verkefnum borgarinnar. Að vera dómari á eigin verk getur varla talist faglegt hvað þá trúverðugt. Borgarfulltrúi mótmælir þeirri málsmeðferð sem hér hefur verið viðhöfð, að ítrekað sé tillögum sem eiga fullan rétt á sér vísað frá eða svarað með útúrsnúningum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. maí er varðar endurskoðun innkaupareglna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupareglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís að kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Eitt mikilvægasta atriðið er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!

Borgarráð 
9. maí 2019

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins um að lóð Brúarskóla verði löguð hið fyrsta

Lagt er til af Flokki fólksins að farið verði hið fyrsta í að laga lóðina í kringum Brúarskóla. Eftir því sem næst er komist var búið að teikna lóðina upp en síðan var verkefnið sett til hliðar. Lóðin er verulega illa farin og á henni eru slysagildrur. Á henni eru heldur engin leiktæki eða afþreyingartæki fyrir börnin eða viðundandi svæði til athafna fyrir utan körfuboltakörfu. Þetta er eitt dæmi þess að skólinn virðist vera eins konar afgangsstærð hjá borginni og hefur umhverfi hans ekki verið sinnt sem skyldi. R19050072

Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð fjárfestingaáætlunar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um úttektir á grunnskólum borgarinnar sem framkvæmdar hafa verið, hvenær og á hvaða skólum aðrar en sjálfsúttektir. Hér er verið að spyrja um úttektir sem gerðar eru af utanaðkomandi aðilum. Óskað er yfirlits yfir gerðar úttektir og upplýsingar í samantektarformi um hverja og eina síðustu 10 árin. Úttekt á skólum borgarinnar er afar mikilvæg fyrir alla hlutaðeigandi aðila til að hægt sé að fá það staðfest að verið sé að ná þeim markmiðum sem sett hafa verið. Aftur er ítrekað að hér er ekki verið að spyrja um sjálfsmatsúttektir. R19050085

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun vegna varanlegrar lokunar Laugavegs og Skólavörðustígs

Flokkur fólksins leggur til að framkvæmd verði víðtæk skoðanakönnun á meðal borgarbúa víðs vegar um borgina með spurningum sem eru skýrar þannig að svarendur geti áttað sig á um hvað málið snýst sem er að bílar mega alfarið ekki aka um Laugaveg og hluta Skólavörðustígs allt árið um kring hvernig sem viðrar, þegar áætlunin verður framkvæmd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem ítrekað hefur komið fram, þar á meðal í bókun meirihlutans um málið frá 4. apríl, lið 2, að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni og þar með lokun þeirra fyrir allri bílaumferð árið um kring. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum sem engan veginn gefur heildarmynd. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Bráðabirgðarverkferill vegna kvartana starfsmanna yfir kjörnum fulltrúum

Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa eins og opinbert er orðið. Það er ábyrgðarhluti að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og ill gerlegt að búa hann til vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Verið er að gefa þeim sem kvartar falskar vonir um vinnslu til lausnar. Tillagan er órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Hins vegar hefur borgarritari veitt nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn. Að opna fyrir þennan möguleika er ekki réttlátt gagnvart hinum almenna starfsmanni borgarinnar. Formlegt ferli getur leitt til áminningar eða brottrekstrar starfsmanns allt eftir alvarleika málsins. Sama gengur ekki á hinn veginn þar sem hvorki er hægt að reka kjörinn fulltrúa né áminna hann. Kjörinn fulltrúi hefur á hinn bóginn engan stuðning af stéttarfélagi eins og starfsmaðurinn. Komi upp mál milli aðila er dómstólaleiðin eina færa leiðin þegar aðilar eru annars vegar kjörinn fulltrúi og hins vegar starfsmaður.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að fengið verði mat stjórnsýslufræðinga á tillögu meirihlutans um bráðabirgðarverkferil fyrir kvartanir yfir kjörnum fulltrúum

Borgarfulltrúi Flokks fólks leggur til að fengið verði mat stjórnsýslufræðinga á hvort sú tillaga meirihlutans sem nú hefur verið samþykkt af þeim einhliða um bráðabirgðaverkferil sem hefur það markmið að skapa farveg fyrir kvartanir starfsfólks yfir kjörnum fulltrúum standist skoðun. Lagt er til að þetta verði metið út frá stjórnsýslulögum og öðrum lögum og reglugerðum sem hún kann að snerta vegna þeirrar ójöfnu stöðu sem kjörinn fulltrúi hefur annars vegar og starfsmaður hins vegar. Borgarritari hefur tekið við kvörtunum frá starfsfólki vegna kjörinna fulltrúa. Það er ábyrgðarhluti hjá borgarritara að taka á móti kvörtun þegar ekki er til farvegur fyrir hana og útilokað að búa til slíkan vegna ójafnrar stöðu kjörins fulltrúa annars vegar og starfsmanns hins vegar. Tillagan er að mati borgarfulltrúa órökrétt enda geta kvörtunarmál starfsmanns yfir kjörnum fulltrúa aldrei fengið neinar rökréttar málalyktir. Því er því mikilvægt að sérfræðingar leggist yfir hana út frá stjórnsýslulögum. Borgarritari og borgarstjóri byggja þessa hugmynd sína á afar óljósri og loðinni skýrslu frá siðanefnd sveitarfélaga. Þessu er við að bæta að það vakti furðu þegar borgarritari veitti nánast skotleyfi á starfsfólk borgarinnar með því að bjóða kjörnum fulltrúum að senda mannauðsdeild formlega kvörtun teldu þeir starfsmann hafa gert á hlut sinn.

Greinargerð fylgir tillögunni. R19030021
Vísað til skoðunar í yfirstandandi vinnu við gerð varanlegs verkferils.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árið 2010-2024

Umsögn fjármálaskrifstofu

Enda þótt Alþingi sé ekki að standa sig gagnvart sveitarfélögum í að tryggja fulla fjármögnun í fjölmörgum málum eins og fram kemur í skýrslu fjármálastjóra verður borgin engu að síður að forgangsraða fjármunum borgarsjóðs þannig að fólkið sjálft og þjónusta við það sé ávallt í forgangi. Aðrir hlutir verða þá bara að raðast aftar. En þannig hefur það ekki verið undanfarin ár og hefur vandinn því vaxið. Dæmi um mál sem eiga að vera í algerum forgangi og nefndir eru í skýrslunni eru þjónusta við heimilislausa með flóknar þjónustuþarfir, fjölgun dagdvalarrýma og fjölgun hjúkrunarrýma til þess að fólkið sem ýmist vegna aldurs eða veikinda geti komist heim með stuðningi eða á hjúkrunarheimili allt eftir því sem mætir þeirra þörfum hverju sinni. Borgin státar sig af hagnaði og þennan hagnað þarf að nota til að bæta þjónustuna sem og hagræða í þágu fólksins. Ekki er dregið úr því að Alþingi stendur ekki við sínar skuldbindingar en það réttlætir ekki að láta fólkið bíða í ólíðandi aðstæðum eins og víða er raunin. Áfram verður að þrýsta á Alþingi af krafti að tryggja fjármögnun í fjármálaáætlun sinni og fulla fjármögnun eins og lög gera ráð fyrir.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Samgöngumál á höfuðborgarsvæðunum, Borgarlína

Hér er um gríðarmikið fé að ræða sem Reykjavík leggur út fyrir borgarlínu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að borgarlína muni líklegast verða byggð. Enn er allt fjármagn frá ríkinu þó ekki fast í hendi. Það væri alveg skemmtilegt að ráðast í þetta verkefni ef staða allra borgarbúa hvað varðar grunnþarfir væri í það minnsta viðunandi. En svo er aldeilis ekki. Í þessari litlu borg sem nú skilar hagnaði samkvæmt ársreikningi 2018 hefur ekki tekist að tryggja öllum borgarbúum grunnþjónustu. Raunveruleikinn er blákaldur og eru honum gerð ágæt skil í umsögn fjármálastjóra um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020 til 2024 til fjárlaganefndar Alþingis. Skóinn kreppir víða og ekki síst í velferðarmálum, heilbrigðis- og öldrunarmálum og skólamálum. Á 9. hundrað umsókna eru eftir félagslegri leiguíbúð í Reykjavíkurborg, tæp 500 börn búa undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem fá fjárhagsaðstoð í Reykjavík. Slæm staða er víða dregin upp sem hefur alvarleg áhrif á líðan fólks með tilheyrandi afleiðingum, ekki síst á börnin í þeim fjölskyldum sem ekki hafa nóg til að getað lifað áhyggjulausu lífi. Allt þetta hlýtur að lita mögulegan spenning sem fylgir komandi borgarlínu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Innkaupareglur Reykjavíkurborgar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar endurskoðun á innkaupareglum Reykjavíkur. Breytingar eru til bóta og greinilega þarfar í ljósi þess að innkaupreglur í braggamálinu og fleiri framkvæmdum voru brotnar. Að sporna við samningagerð við þann sem orðið hefur uppvís af kennitöluflakki er sérstaklega ánægjulegt að sjá í reglunum. Sumt af því sem nefnt er í kynningu hefði maður haldið að væri sjálfsagt eins og að kaupandi skuli ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. En þeim sem unnu þessa endurskoðun hefur engu að síður þótt nauðsynlegt að nefna það sérstaklega. Ekki síst er mikilvægt að lögð er áhersla á aukið eftirlit og að auka upplýsingaflæði til innkauparáðs en á því varð einmitt brestur í braggamálinu. Rúsínan í pylsuendanum er að innkauparáð geti stöðvað framkvæmd tímabundið ef ekki liggur fyrir að samningi hafi verið komið á í samræmi við innkaupareglur og/eða ef fjárheimildir eru ekki fyrir hendi. Löngu tímabært ákvæði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins!

Bókun Flokks fólksins við liðnum Mat Innri endurskoðunar á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar 2019

Í skýrslu IE um mat á eftirlitsumhverfi Reykjavíkurborgar koma fram upplýsingar um hvernig staðið hefur verið að hinum ýmsu verkþáttum í tengslum við framkvæmdir í borginni. Fram kemur í umsögn endurskoðunarnefndar að fyrst í júlí í fyrra var tekið skref í átt að heildstæðri áhættustýringu. Eitt af áhersluatriðum nefndarinnar er að skjótar verði brugðist við ábendingum og er lögð áhersla á að unnið verði hraðar en verið hefur. Til að átta sig betur á hvað er verið að hnýta í segir í skýrslunni að 10% áhættuflokkaðra ábendinga hafa fengið rauða áhættuflokkun sem ber merki um alvarlega veikleika í innra eftirliti. Flestar ábendingar eða 46% hafa gula áhættuflokkun, 26% appelsínugula og 18% græna sem þýðir að eftirlit er viðunandi. Strategía gerði skýrslu um skipurit og kemur þar fram að umboð og hlutverk er ekki í takt við núgildandi skipurit. Gegnsæi vegna stjórnarhátta borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja er ekki gott. Bæta verður rekstur tölvukerfa hjá borginni. Almennt má velta því fyrir sér af hverju svo miklar brotalamir eru í borginni. Æðstu valdhafar hafa setið við völd í mörg ár og enn hafa 37% ábendinga ekki fengið úrlausn, sumar þeirra eru margítrekaðar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tjaldsvæði í Laugardal

Bréf Íþrótta- og tómstundasviðs vegna tjaldsvæðis

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á því að þakka þeim sem haldið hafa utan um þetta mál fyrir góða vinnu og upplýsingagjöf til borgarfulltrúa. Huga þarf að skammtíma- sem og framtíðarlausn. Ákveðinn hópur er í Laugardal og hefur borgarfulltrúi ávallt lagt ríka áherslu á að hlusta á væntingar og þarfir hans. Borgarfulltrúi styður þá lausn sem hér er dregin upp svo fremi sem hún samræmist væntingum einstaklinga sem um ræðir. Hafa verður einnig í huga að þessi hópur gæti bæti breyst og stækkað. Ávallt munu verða einhverjir sem velja að búa í húsbíl og huga þarf að staðsetningu til framtíðar hér í borginni. Þegar hugsað er til framtíðar ætti að vera fleiri en ein svona aðstaða, þetta búsetuform er sveigjanlegt og gætu fleiri viljað koma inn í þetta. Í borgum annars staðar er þetta alla vega þannig. Nýta ætti sveigjanleikann sem þetta húsnæðiskerfi á hjólum býður upp á. Það þurfa ekki að vera stór svæði í borginni, mætti t.d. nota svæði sem eru í biðstöðu en sem eru nálægt allri þjónustu og vissulega yrði stofnkostnaður sem snýr að aðgengi að sturtum, snyrtingum, þvottahúsi, eldhúsi og rafmagni. Vandamálið með sumarið verður að leysa og er borgarfulltrúi með tillögu í því sambandi.

Tillaga Flokks fólksins að borgin greiði helminginn af sumargjaldi fyrir hópinn sem er með húsbíla sína Laugardalnum

Flokkur fólksins leggur til að borgin greiði helminginn af sumargjaldinu fyrir þennan hóp í Laugardalnum. Sumargjaldið er 95 þúsund sem er allt of hátt fyrir þennan hóp sem hefur takmarkaða greiðslugetu og ber borginni að koma til móts við erfiða fjárhagsstöðu þeirra eins og annarra sem ná ekki endum saman. Í þessum hópi kunna að vera aðilar sem eiga ekki heima í Reykjavík og er lagt til að borgin ræði um samræmdar aðgerðir við viðkomandi sveitarfélög eftir atvikum.

Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna Gufunes, lóðarvilyrði til Þorpsins

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það skilyrði fyrir úthlutun lóðar til Þorpsins að Félagsbústaðir hf. skuli eiga rétt til að kaupa einungis 5% íbúða vera lágt. Þetta hlutfall mætti vera 10%. Einnig þykir sérkennilegt að Þorpið velji einslega þær íbúðir sem kauprétturinn nær til. Þótt sagt sé að þetta sé í einhvers konar samkomulagi þá er ekki betur séð en þetta sé alfarið ákvörðun Þorpsins. Þarna væri eðlilegra að Félagsbústaðir hefðu alla vega einhverja aðkomu að vali á þessum íbúðum sem standa þeim til boða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svar Skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um úttekt á framkvæmdum sem fara fram úr kostnaðaráætlun

Flokkur fólksins óskar eftir/leggur til að fengin verði umsögn IE á umsögn SEA frá 4. apríl og 6. maí við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun. Flokkur fólksins lagði fram tillögur um að innri endurskoðandi tæki út þrjár framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðandi hefur staðfest að umrædd umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar kom aldrei inn á hans borð áður en hún var lögð fram. Í framhaldsfyrirspurn var spurt af hverju kom umsögn SEA ekki til skoðunar innri endurskoðanda. Svar SEA er á þá leið að ekki var óskað eftir umsögn innri endurskoðunar og var ekki gerð athugasemd við þá málsmeðferð í borgarráði. Hvort tveggja er gert hér með enda ekki eðlilegt að SEA veiti umsögn um eigið verk sem leiðir til þess að tillaga um úttekt er felld.

Tillaga Flokks fólksins um heimild til dýrahalds í félagslegu leiguhúsnæði borgarinnar hefur verið samþykkt.

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði þann 16. September 2018 um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrðir leyft. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða. Tillagan var tekin fyrir í stjórn Félagsbústaða og óskaði stjórnin eftir að málið yrði skoðað frekar áður en afstaða yrði tekin. Á samráðsfundi fulltrúa Félagsbústaða og Velferðarsviðs var tillagan til umfjöllunar og var það samdóma álit fundarmanna að ekki væri rétt að standa gegn hunda- og kattahaldi. Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þykir að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Þá þykir eðlilegt að útiloka tilteknar tegundir stórra hunda. Á fundi stjórnar félagsbústaða 2. maí sl. var málið á dagskrá að nýju. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin mun kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.

Borgarstjórn
7. maí 2019

Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla

Flokkur fólksins leggur til að byggt verði við Brúarskóla til þess að hann geti stækkað og tekið við fleiri nemendum. Staðsetning Brúarskóla sem er í Vesturhlíð er afar hentug staðsetning fyrir skóla eins og Brúarskóla þar sem staðsetningin er ótengd m.a. íbúðarhverfi og verslunum. Mikil friðsæld er í hverfinu, gott næði til að vinna með börnin en samt stutt í allar áttir. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er. Í dag eru 24 börn í skólanum en lagt er til að skólinn verði stækkaður til að geta að minnsta kosti bætt við 6-8 nemendum í viðbót. Núna eru 19 börn á biðlista. Brúarskóli er einn sinnar tegundar. Í honum stunda nám börn sem eiga við djúpstæðan hegðunarvanda að stríða sem rekja má til ólíkra orsaka og raskana. Skólinn er tímabundið úrræði og ávallt er markmiðið að vinna börnin aftur út í heimaskólann. Meðallengd skólavistar er 15-18 mánuðir. Brúarskóli sinnir fleiri hlutverkum og eitt þeirra er ráðgjafahlutverk við aðra skóla. Sérhæft ráðgjafarteymi fer á vettvang í skóla sé þess óskað. Í Brúarskóla eru tveir þátttökubekkir í tengslum við skólann, annar í Húsaskóla og hinn í Ingunnarskóla, og eru samtals 10 börn í þessum bekkjum. Brúarskóli sinnir auk þess kennslu á Stuðlum og BUGL. Skólinn er rekinn af Reykjavíkurborg með stuðningi úr jöfnunarsjóði.

Greinargerð

Mikilvægt er að hægt verði að fjölga börnum upp í alla vega 30 nemendur. Það sárvantar pláss. Frekari dreifing eins og annar þátttökubekkur er ekki lausn. Mikilvægt að nemendur séu í stærri heild til að geta fengið þá félagslegu þjálfun sem þau þarfnast. Eins og staðan er núna er skólinn í þremur húsum. Borgarfulltrúi leggur mikla áherslu á að Skóla- og frístundarráð setji sig í stellingar þegar kemur að Brúarskóla og hafi beint samband og samstarf við starfsfólkið til að heyra frá fyrstu hendi, frá fólkinu á gólfinu hverjar þarfirnar eru og hvernig er best að mæta þeim. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sérskólar í Reykjavík hafi orðið útundan, jafnvel einhvers konar afgangsstærðir og hafa þar að leiðandi ekki fengið nærri nóga athygli. Eins og áður segir er Brúarskóli  sérskóli, tímabundið úrræði fyrir börn sem eiga í alvarlegum geðrænum-, hegðunar eða félagslegum erfiðleikum. Kennslan fer fram í litlum bekkjum þar sem venjulega eru tveir kennarar saman með lítinn bekk. Brúarskóli hefur fimm starfstöðvar í Reykjavík en engu að síður dugir það ekki til að anna eftirspurn. Fram kemur á heimasíðu að foreldrar geta sótt um skólavist í Brúarskóla fyrir barn sitt, telji þeir, skólastjórnendur, kennarar og aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla. Skólastjóri tekur ákvörðun um samþykki eða synjun umsókna á grundvelli tillagna inntökuteymis enda hafi inntökuteymi tekið mið af fyrirliggjandi greiningum, aðstæðum og fjölmörgu öðru.

Borgarfulltrúi þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota þar sem ýmislegt hefur verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem ekki getur sinnt öllum börnum. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreininga“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skólann sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskóli eins og Klettaskóli er yfirfullur. Lagt hefur verið til af Flokki fólksins að stækka úrræði eins og Klettaskóla en sú tillaga var felld. Nú vill borgarfulltrúi leggja til að úrræði eins og Brúarskóli verði stækkað í ljósi þeirra aðsóknar sem er í skólann. Mikilvægt er að skólinn sé og verði staðsettur á þeim stað sem hann er.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi er ánægður að heyra að tillögunni er tekið vel og að það virðist vera skilningur á þessum málaflokki í það minnsta í orði en síðan á eftir að koma í ljós hvað verður raunverulega gert með þessa tillögu. Það reynir núna á meirihlutann að sýna hvar hann vill forgangsraða þessum viðkvæma málaflokki. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sérskólar í Reykjavík hafi orðið útundan, jafnvel einhvers konar afgangsstærðir í gegnum árin og hafa þar af leiðandi ekki fengið nærri nóga athygli borgaryfirvalda. Þess vegna er vandinn nú svona stór. Borgarfulltrúi þekkir til mála þar sem foreldrar og kennarar eru ráðþrota og fullir örvæntingar þar sem ýmislegt hefur verið reynt til að barni þeirra geti liðið vel í skólakerfinu sem ekki getur sinnt öllum börnum. Enda þótt skólastefna Reykjavíkurborgar kallist „skóli án aðgreiningar“ vantar mikið af þeirri þjónustu í almenna skólann sem þarf til að sinna börnum með ákveðnar sérþarfir. Sum börn passa heldur ekki í þær sérdeildir sem reknar eru í skólunum. Sérskóli eins og Klettaskóli er yfirfullur. Borgarfulltrúi vill ítreka að börn eiga aldrei að þurfa að bíða eftir þjónustu við hæfi. Gleymum ekki að nýlega voru fréttir af barni sem hafði ekkert skólaúrræði hér í borg.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2018

Flokki fólksins finnst sárt að sjá hvað þjónusta við börn, eldri borgara og öryrkja hefur verið sett aftarlega í forgangsröðunina undanfarin ár. Vandinn er uppsafnaður og víða rótgróinn. Ekki dugar að státa af góðum hagnaði í borginni þegar hópi barna líður illa. Ekki hefur verið sett nægt fé í skólakerfið til að hægt sé að mæta þörfum allra barna. Nýlegt dæmi er úr fréttum þar sem barni með djúpstæðan vanda var úthýst úr skólakerfinu. Hvar var hinn svokallaði „skóli án aðgreiningar“ í því máli? Eins má minnast á eldri borgara sem fastir eru á Landspítala vegna þess að þeir ýmist komast ekki heim vegna biðlista í heimaþjónustu eða vegna þess að ekkert hjúkrunarrými er laust. Er Landspítalinn að verða stærsta og dýrasta hjúkrunarheimili í borginni? Við yfirferð skýrslu endurskoðenda nú eru sömu ábendingar nefndar og árið 2015 og 2018. Hefði þessum ábendingum verið fylgt hefði braggamálið sem dæmi aldrei orðið. Það hefur verið staðfest af innri endurskoðanda. Kallað er eftir að valdhafar taki hér ábyrgð. Við fyrstu umræðu ársreiknings hafa hlutir verið ansi mikið fegraðir af hálfu meirihlutans. Vissulega er margt gott í borginni en Flokkur fólksins gerir kröfu um að borgarbúum sé sýnd sú virðing að ræða málefni borgarinnar út frá þeim raunveruleika sem við blasir.

Bókun Flokks fólksins við tillögu stýrihóps um framtíðarskipulag hverfisráða

Flokki fólksins finnst sú vinna sem þarna hefur átt sér stað góð en telur það ekki standast að upp sé komin þreyta hjá fólki um hverfakosningar. Bein kosning íbúa er lýðræðisleg aðferð og fólk sem gæfi kost á sér hefur brennandi áhuga á málinu og er tilbúið að taka verkefnið að sér. Beint lýðræði á að vera meginreglan alls staðar og í hvívetna. Flokkur fólksins telur slembival gott og gilt en myndi einnig vilja sjá beinar kosningar um meira en einn fulltrúa, í það minnsta mætti kannski hafa hvorutveggja. Fækka mætti pólitískt völdum fulltrúum í hverfisráðin á móti. Að öðru leyti styður Flokkur fólksins tillögu stýrihópsins.

Bókun við fundargerð borgarráðs 4. apríl þar sem meirihlutinn fullyrðir að almenn ánægja ríki með lokun göngugatna

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla því sem fram kemur í bókun meirihlutans að kannanir hafi staðfest ánægju Reykvíkinga með göngugötur í miðborginni. Það kann að vera að ánægja sé með lokanir gatna fyrir bílaumferð yfir sumartímann en engar kannanir hafa sýnt að meirihluti Reykvíkinga sé ánægður með varanlega lokun þessara umræddu gatna fyrir allri umferð bíla. Þetta er einmitt dæmi um hvernig meirihluti þessarar borgarstjórnar reynir að slá ryki í augu fólks og sannfæra almenning um eitthvað sem er ekki rétt. Þær skoðanakannanir sem auk þess er verið að vísa í eru mjög takmarkandi og styðst meirihlutinn einungis við hluta úr þeim könnunum í málflutningi sínum. Spurningar í þeim könnunum eru villandi og gefa því heldur ekki raunhæfa mynd af vilja og afstöðu borgarbúa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl vegna tillögu um forgang í leikskóla ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka mikilvægi þessarar tillögu enda mikið réttlætismál. Þessi tillaga hefur ekkert að gera með stofnun ungbarnadeilda sem ekki verða komnar í gagnið fyrr en eftir fáein ár. Þessi tillaga hefur heldur ekki bara að gera með það að „vera einstætt foreldri“ Þessi tillaga hefur að gera með það að vera einstætt foreldri þar sem hitt foreldrið hið forsjárlausa nýtir ekki þriggja mánaða fæðingarorlof sitt. Það veldur því að mun meira álag er á forsjárforeldrinu fyrstu mánuðina sem í sumum tilfellum leiðir til þess að það foreldri þarf að fara fyrr út á vinnumarkaðinn. Hér er ekki endilega um stóran hóp að ræða en mjög vel skilgreindan. Rökin fyrir að hafna þessari tillögu eru hvorki réttlát né skiljanleg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir 6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 24. apríl er varðar verkefnið Vináttu

Borgarfulltrúi Flokks fólksins veit til þess að það eru ekki allir leikskólar ánægðir með hvernig borgin hefur staðið að málum er varða Vináttuverkefnið. Hér hefði borgarmeirihlutinn geta gert miklu betur og sýnt í verki með því að styrkja þá leikskóla sérstaklega sem eftir því sækjast að taka þetta verkefni í stað þess að leikskólar þurfi að klípa þessa upphæð af því litla fjármagni sem þeim er veitt. Deila má um svigrúmið sem er innan þess faglega fjármagns sem vísað er til í svari skóla- og frístundarráðs. Aðeins 23 leikskólar af 62 leikskólum borgarinnar og einn grunnskóli af þeim 33 grunnskólum sem eru með 1.-3. bekk taka þátt í verkefninu Vinátta. Þetta er skelfilega lágt hlutfall og langt í frá að ná helming hvað varðar leikskólana. Þetta verkefni á að styrkja sérstaklega og sá styrkur að vera algerlega utan við það fjármagn sem skólunum er áskipað. Þetta er enn eitt dæmið um forgangsröðun þess meirihluta sem ríkti og þess núverandi þar sem mál sem snúa að börnum virðast sjaldnast sett í forgang.

Forsætisnefnd
3. maí 2019

Bókun flokks fólksins við tillögu um að fundir verði opnir til að auka gegnsæi 
Tillagan hefur verið felld

Það er slæmt að ekki skuli vera hægt að hafa fundi opna. Meginreglan er að fundir séu lokaðir eins og segir í lögum en ef ákveðið er að hafa þá opna þá er ekkert sem bannar að þeim sé streymt. Hugmynd borgarfulltrúa Flokks fólksins með þessari tillögu er að teknar verði hljóðupptökur af fundum með hagkvæmum hætti sem eru síðan aðgengilegar á vef borgarinnar sem sagt að fundir séu opnir. Annar flokkur í minnihluta hefur lagt þetta til af gefnu tilefni.  Séu fundir opnir eru mun meiri líkur á að þeir fari fram með sómasamlegum hætti en eins og allir vita hefur það ekki alltaf verið þannig. Fulltrúar minnihlutans hafa ítrekað kvartað undan fundarofbeldi af hálfu meirihlutans, þar sem þeim er stundum af hörku bannað að tjá sig.  Með því að hafa fundi opna eykst auk þess gegnsæi og gerir almenningi og fjölmiðlum  kleift að fylgjast betur með störfum borgarstjórnar.

Borgarráð
2. maí 2019

Borgarráð 2. maí mál og bókanir sem lagðar voru fram

Átta tillögur Flokks fólksins sem snúa að nemendum sem eru með  ýmisskonar geðraskanir en eins og vitað er er mjög erfitt fyrir þessi börn að fá aðstoð í „venjulegum skóla“

 1. Lagt er til fyrst og síðast að farið sé að lögum. Það er lögbrot að reka börn úr skilaskyldu vegna frávika. Það verður að setja meira fjármagn með hverju barni til að ráða faglegan stuðningsfulltrúa t.d. iðjuþjálfa eða sálfræðing sem hefur eitthvað vægi inn í skólastofunni
 2. Lagt er til að fjármagn sé merkt barni en ekki skóla þannig að það fylgi barninu skipti það um skóla
 3. Lagt er til að unnið verði markvisst að því að fækka nemendum í bekkjum
 4. Lagt er til að í miðjum tíma fái börn tækifæri til að stand upp og fá hreyfingu
 5. Lagt er til að láta af því að afsérþarfavæða börnin til að það aðlagist kerfinu, hinum svo kallaða „skóla án aðgreiningar“. Skóla- og frístundarráð hefur gengið allt of langt að reyna að þagga niður vanda barna til að láta þau passa inn í skólakerfi sem er ekki útbúið til að taka á þörfum allra barna. Erlendis má sjá að í stað þess að reyna sífellt að slökkva elda er börnum leyft að nota stóra bolta í stað stóla, heyrnatól með tónlist til að þau geti haldið athyglinni og þeim leyft að nýta öll þau verkfæri sem virka til að vinna og efla kosti barnanna. Sveigjanleiki og margbreytileiki þarf að koma sterkar inn í hugmyndafræði skólastefnunnar
 6. Lagt er til að Skóli- og frístundarráð auki vægi tækni- og listaverkefna í grunnskólanum. Eins og vitað er eru styrkleikar barna alls konar.
 7.  Lagt er til að Skóla- og frístundarráð fari nú að alvöru að eyða endalausum biðlistum í þjónustu s.s. greiningar. Borgarstjóri hefur nýlega sagt á opinberum vettvangi að verið sé að setja meira fjármagn í skólana. Hvernig væri að sýna að hér eru ekki einungis orðin tóm?
 8. Lagt  er til að aðgengi barna að sálfræðingum og iðjuþjálfurum verði stórbætt og að foreldrar hafi ávallt gott aðgengi að þessum sérfræðingum
  Vísað til meðferðar Skóla- og frístundarráðs.

Bókun vegna fundargerðar Sorpu

Borgarfulltrúa finnst fundargerðir Sorpu frekar rýrar í samanburði við aðrar fundargerðir svo erfitt er að átta sig á innihaldi umræðunnar. Þetta þykir borgarfulltrúa Flokks fólksins mikilvægt í ljósi þeirra upplýsinga um vandamál fyrirtækisins sem fjallað er um í Ársreikningi Reykjavíkurborgar 2018 sem nú hefur verið opinberaður. Þar kemur m.a. fram að Sorpa hefur átt í dómsmálum. Nokkrir rammasamningshafar í akstursþjónustu fatlaðs fólks og fatlaðra skólabarna hafa kært Strætó bs. til Kærunefndar. Niðurstaða er enn ekki komin í þetta mál. Það er því mikilvægt að minnihlutafulltrúar hafi ríkar upplýsingar um hvað fram fer á fundum Strætó bs og þurfa því fundargerðir að vera mun ítarlegri. Strætó er eitt af B hluta fyrirtækjum borgarinnar sem þrátt fyrir að vera byggðasamlag með þeim ókostum sem því fylgir má ekki gleyma hverjir eru aðaleigendur fyrirtækisins, en það eru að sjálfsögðu Reykvíkingar.

Bókun vegna fundargerðar Skipulags- umhverfisráðs, liður er varðar lokanir gatna

Á síðasta fundi Skipulags- og samgönguráðs lagði Flokkur fólksins fram skýlausa kröfu um samráð vegna fyrirhugaðrar lokunar Laugavegarins og nærliggjandi gatna. Þetta samráð hefur ekki verið haft að heitið geti eins og staðfest hefur verið af mörgum og þar á meðal rekstraraðilum sjálfum og öðrum hagsmunasamtökum eins og Öryrkjabandalaginu.  Meirihluti borgarinnar er með þessari ákvörðun sinni að valta yfir á þriðja hundrað rekstraraðila við Laugaveg sem hafa með undirskrift sinni mótmælt þessari ákvörðun og óttast um afkomu sína. Nú hefur borgarmeirihlutinn ákveðið að ganga enn lengra án þess að spyrja kóng eða prest. Til stendur að  loka fyrir umferð bifreiða umhverfis Hlemm og fyrir umferð Rauðarárstígs og Snorrabrautar, sunnan við Hlemm sem og loka fyrir bílaumferð að Hlemmi úr austurátt, á kaflanum frá Fíladelfíu að Hlemmi. Engu breytir hvað fólkið í nærliggjandi umhverfi segja eða þeir sem eiga hagsmuna að gæta. Borgarfulltrúi Flokks fólksins krefst þess að haft verði viðhlítandi samráð við þá sem lengi hafa reynt ná eyrum ráðandi afla í borginni. Ótti Flokks fólksins um að miðbærinn verði einungis fyrir túrista, vellauðuga og borgarmeirihlutinn virðist vera að sanngerast. Þar sem þessi hópar munu aldrei ná einir og sér að halda uppi mannlífi í borginni stefnir hratt í að miðbærinn verði að draugabæ.

Bókun við tillögu Skóla- og frístundarráðs um stofnun stoðdeildar fyrir börn hælisleitenda

Út frá reynslu minni af vinnu með börnum hælisleitenda, sem sálfræðingur, sérfræðingur í klínískri sálfræði, sem og skólasálfræðingur til 10 ára og svo auðvitað sem borgarfulltrúi styð ég þessa tillögu. Í stoðdeild munu þau fá þá þjónustu sem þau þarfnast og fá hana á þeirra forsendum. Mikilvægt er að þetta sé hugsað ávallt sem tímabundið og um leið og þau eru tilbúin fari þau í heimaskóla. Að byrja skólagöngu hér með þessum hætti er mildari aðkoma að nýju tungumáli og nýrri menningu og þeim er ekki hent út i djúpu laugina. Við komu eru mörg börn hrædd, kvíðin og óvissan alger. Þau þurfa sérstaka aðhlynningu, utanumhald, líka í skólanum. Með þessu fá þau meira svigrúm til að aðlagast, melta allt þetta nýja og læra tungumálið á þeim hraða sem hentar hverju barni fyrir sig. MÆTA ÞÖRFUM ALLRA BARNA Á ÞEIRRA FORSENDUM! Þetta er hluti af því. Þetta er fjölbreyttur hópur, sum börn með litla skólagöngu, misbrotinn bakgrunn en eiga það sameiginlegt að allt hér er nýtt fyrir þeim. Börnin búa dreift og það er áhyggjuefni. Hvernig þau komast í og úr skóla er verkefni þarf að leysa.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um samþykkt nýrra reglna um félagslegt húsnæði

Þær breytingar sem hafa verið gerðar er góðar eins langt og þær ná. Flokkur fólksins hefði viljað ganga lengra sbr. tillögu um að fella á brott þá kvöð að viðkomandi hafi þurft að eiga lögheimili í Reykjavík. Sveitarfélag ber að veita þá þjónustu sem viðkomandi þarfnast án skilyrða. Geti viðkomandi ekki einhverra hluta vegna kostað húsnæði yfir höfuð sitt ber borgarkerfinu að koma til hjálpar. 12 mánaða skilyrðið hefur fælingarmátt og veldur fólki í erfiðri stöðu sem þessari einungis meiri erfiðleikum og hugarangri. Almennt má einfalda þessar reglur enn meira eins og aðrar reglur sem snúa að umsókn um fjárhagsaðstoð. Leiðarljósið á að vera að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og átakalaust og hægt er, hafa sveigjanleika og afla einungis þeirra upplýsinga sem rétt nægja til afgreiða umsóknina.

Bókun Flokks fólksins við úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um álagningu vatnsgjalds

Þetta er hið mesta klúðursmál og spurning hvort hægst sé að leiðrétta þetta til baka í tíma. Af þessari oftöku verður að láta og tryggja að gerist aldrei aftur. Seilst hefur verið í vasa borgarbúa með grófum hætti. Þetta er ein staðfestingin enn á því hvernig sum þessara fyrirtækja sem kallast B hluta fyrirtæki virka. Það hefur ekki gengið vel með mörg þeirra. Þar eru stórar ákvarðanir teknar án þessa að eigendur hafi nokkra aðkomu og varla er hægt að kalla það lýðræðislegt. Þetta fyrirtæki sem fleiri fyrirtæki undir svo kölluðum B hluta ættu einfaldlega að heyra beint undir borgarráð og vera þannig í nánari tengslum við borgarbúa. Hér er um fyrirtæki að ræða sem eru eins og ríki í ríkinu. B hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki.

Tillaga Flokks fólksins um að gripið verði til sérstakar aðgerðir til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum

Tekin til afgreiðslu
Lagt er til að Reykjavíkurborg setji það á stefnuskrá sína að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Það eru tæpar 500 fjölskyldur með um 800 börn sem eru með fjárhagsaðstoð. Á annað þúsund barna býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar og í 1.000 barnafjölskyldur fá sérstakan húsnæðisstuðning. Borgin ætti að horfa mun meira til tekna foreldra og forráðamann þegar gjald sem snýr að börnum sem dæmi skólamáltíðir, dvöl á frístundaheimili/félagsmiðstöðvar og tómstundir er ákvarðað. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að ofangreindir þættir séu gjaldfrjálsir fyrir fjölskyldur sem eru undir framfærsluviðmiði. Áður hefur borgarfulltrúi. Flokks fólksins lagt til að gjald skólamáltíða verði lækkað til að tryggja að ekkert barn væri svangt í skólanum en þær tillögur voru felldar. Það er ekki verið að gera nóg fyrir fjölskyldur sem eru í mestri neyð eins og staðan er núna. Börnum fátækra foreldra er mismuna á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar sértækar aðgerðir til að létta byrði þeirra er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman.

Greinargerð fylgir þessari tillögu
Vísað til meðferðar velferðarráðs

Bókun
Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill höfða til þeirra flokka í meirihlutasamstarfinu sem hafa gefið sig út fyrir að vera jafnaðarflokkar. Til að hægt sé að stuðla að jöfnun þarf að beita sértækum aðgerðum til að rétta hlut þeirra verst settu. Það verður aldrei neinn jöfnuður að heitið geti ef hækkanir ganga upp allan skalann án tillits til efnahags og aðstæðna fólks. Hópur efnaminna fólks og fátækra hefur orðið útundan í Reykjavík síðustu ár. Hátt leiguverð og gríðarlega erfiður húsnæðismarkaður étur upp meira og minna allt sem fólk nær að þéna á mánuði. Borgarafulltrúi vill benda á skýrsluna Lífskjör og fátækt barna á Íslandi 2004-2016 sem unnin var fyrir Velferðarvaktina. Þar segir að brýnast er að bæta lífskjör einstæðra foreldra og barna þeirra. Nærri fjögur af hverjum tíu börnum undir lágtekjumörkum eru börn einstæðra foreldra. Þá hefur húsnæðiskostnaður meiri áhrif á fátækt barna einstæðra foreldra en barna sem búa á annarskonar heimilum. Annar hópur sem er vert að huga að eru börn öryrkja. Staða barna þeirra er á pari við stöðu barna einstæðra foreldra. Staðan á húsnæðismarkaði hefur haft mikil áhrif á lífskjör barna. Á þessu ástandi bera borgaryfirvöld mikla ábyrgð og ætti því hiklaust að huga að frekari lausnum fyrir þennan hóp sem um ræðir hér.

Tillaga Flokks fólksins um frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð

Tekin til afgreiðslu
Tillaga um enn frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð: Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda reglur um fjárhagsaðstoða frá Reykjavíkurborg enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins vegna frávísunar tillögunnar

Meirihlutinn hefur vísað tillögunni frá og er það miður í ljósi þess að mörgum þykir flækjustigið heilmikið í borgarkerfinu og ef einhverju er breytt þá er það eitthvað agnarlítið auk þess sem langur tími líður á milli breytinga. Horfa þarf á þessi mál út frá sjónarhorni notandans, hvernig þessi hlutir eru að virka fyrir notendur þjónustunnar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort yfir höfuð sé nokkuð rætt við notendur þjónustunnar um hvað þeim finnst um reglurnar. Hvað finnst notendum eðlilega ferli þegar sótt er um fjárhagsaðstoð sem dæmi? Nú státar borgarmeirihlutinn sig af því að hafa notendasamráð að leiðarljósi og þá hlýtur að vera hægt að krefjast þess að það sé ekki bara í orði heldur einnig á borði??

Tillaga Flokks fólksins um rýmkun á reglum um frístundarkort til að heimila notkun fyrir stutt verkefni


Tekin til afgreiðslu

Lagt er til að reglur um Frístundarkort verði rýmkaðar til að hægt sé að nota það til þátttöku í stuttum verkefnum. Lagt er til að reglur um Frístundarkortið verði víkkaðar þannig að hægt sé að nota það með rýmri hætti en nú er hægt. Reglurnar eru allt of strangar eins og þær eru í dag og niðurnjörfaðar. Eins og reglurnar eru nú „er einungis hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi. Þetta eru allt of strangar reglur. Um þetta þyrfti að losa. Hægt ætti að vera nota kortið til þátttöku í stuttum íþrótta- og félagslega tengdum verkefnum. Í þessu tilfelli skiptir húsnæði ekki miklu máli og mætti t.d. taka út þann þátt. 10 vikur er allt of langur tími og hentar ekki öllum börnum og unglingum. Sjálfsagt ætti að vera að systkini noti sama kortið ef það hentar þeim.

Tillaga er felld

Málsmeðferðartillaga Flokks fólksins að tillögunni verði vísað inn í stefnumótunarvinnu Íþrótta- og tómstundaráðs.


Afgreiðsla meirihlutans:
Í ljósi þess að tillaga er felld kemur málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki til afgreiðslu.

Bókun Flokks fólksins
Tillagan hefur verið felld. Það var ósk borgarfulltrúa Flokks fólksins og eins fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að þessari tillögu verði vísað inn í stefnumótunarvinnu Íþrótta- og tómstundaráðs. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram breytingatillögu þess efnis en þar sem tillaga meirihlutans gekk lengra var greitt atkvæði um hana og þar með var tillaga Flokks fólksins felld.  Svo virðist sem engin leið sé fyrir borgarfulltrúa Flokks fólksins að fá meirihlutann til að skoða þessar reglur með það að leiðarljósi að rýmka þær til að fleiri börn geti nýtt sér Frístundarkortin.  Ein af þessum stífu reglum er að skilyrða  kortið við 10 vikna námskeið í það minnsta. Þetta nær engri átt. Fleiri skilyrði eru afar þröng og algerlega óþörf. Það ætti að vera borgarmeirihlutanum ljúft og skylt að létta á þessum skilyrðum og gefa þannig fleiri börnum rýmra tækifæri að nýta kortið svo nýtingin verði sómasamlega í öllum hverfum.

Fyrirspurnir um aukagjöld sem börn þurfa að greiða vegna ferða og viðburða í skóla

Grunnskólinn er samkvæmt lögum gjaldfrjáls og þarf það að gilda um allt sem tengist skólanum. Engu að síður hefur fregnast að börnin þurfi að greiða ýmis konar gjöld sem börn hafa þurft að greiða vegna ferða og viðburða. Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar frá skólum borgarinnar um gjöld vegna skólaferðalaga, árshátíðar og annarra viðburða síðastliðið ár sem börn hafa þurfa að greiða til að fá að taka þátt.
Það er mikilvægt að fá þessar upplýsingar til að sjá í hvernig þessum málum er hátta. Vitað er að það eiga ekki allir foreldrar aukakrónur til að standa straum af kostnaði sem þessum. Börn efnalítilla og fátækra foreldra þurfa þess vegna stundum einfaldlega að sitja heima og það er sárt. Það má aldrei vera þannig að barn geti ekki tekið þátt í skólatengdum viðburðum vegna þess að foreldri getur ekki greitt uppsett gjald. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Börn fátækra foreldra fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Skólatengdir félagslegir viðburðir og  verkefni eru stundum eina tómstund þessara barna.

Vísað til umsagnar Skóla- og frístundarráðs

Fyrirspurn um fjölda barna sem hefur ekki fengið skóavist vegna hegðunarvanda

Óskað er eftir upplýsingum um hve mörg börn hafa undanfarin fimm ár hafa lent á milli skips og bryggju í skólamálum með þeim afleiðingum að barn fær ekki skólavist vegna þess að það glímir við djúpstæðan hegðunarvanda tengd röskun af einhverju tagi?  Til að tengja þessa fyrirspurn raunveruleikanum er rifjuð upp nýleg frétt þar sem stúlka fékk ekki skólavist sem rekja má til þarfar hennar fyrir umtalsverða sérþjónustu og sértækrar aðstoðar. Það er alvarlegt þegar borgaryfirvöld sem segist reka stefnu „Skóli án aðgreiningar“ geta ekki sinnt börnum með sérþarfir en samt segir í stefnunni að skólinn eigi að vera fyrir alla. Þetta verður að skoða í víðara samhengi. Það hefur lengi verið vitað að það er ákveðinn hópur barna sem líður illa í skólanum vegna þess þau fá ekki þjónustu við hæfi. Hér er það staðfest enn og aftur að þessi metnaðarfulla ímynd um skóla fyrir er ekki að virka fyrir ÖLL börn og ekki nóg með það heldur er börnum sem glíma við mikla erfiðleika tengdum veikindum sínum hreinlega vísað frá.  Flokkur fólksins vill fá að vita hve mörg börn hafa verið sett í ólíðandi aðstæður sem þessar.

Vísað til umsagnar Skóla- og frístundarráðs

Fyrirspurn um kostnað ef grunnskólabörn fá frítt í strætó

Óskað er eftir að það verði reiknað út eða áætlað í ljósi notkunar, hvað það kostar að grunnskólanemendur í Reykjavík fái frítt í strætó?

Vísað til umsagnar stjórnar Strætó bs.

Fyrirspurn áheyrnafulltrúa Flokk fólksins varðandi kvartanir sem væntanlega berast Strætó bs.  

Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um allar kvartanir sem kunna að hafa borist Strætó BS frá notendum þjónustunnar og sem varða þjónustuna síðastliðin þrjú ár.

Óskað er eftir upplýsingum um hvernig Strætó BS hafi afgreitt kvartanir sem kunna að hafa borist. Óskað er upplýsinga um hversu langur tími að meðaltali hefur liðið frá því að kvörtun berst og þar til sá sem kvartar fær svar/afgreiðslu á máli sínu.

Vísað til umsagnar Strætó bs

Tillaga frá Flokki fólksins um að borgin greini stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn

Lagt er til að Reykjavíkurborg láti greina stöðu fatlaðra barna með innflytjenda-bakgrunn til að varpa ljósi á á stöðu þeirra í íslensku samfélagi. Skoða þarf hverjar eru aðstæður þessara barna og þarfir, hvernig er þjónustu við þau háttað og hvað má gera til að tryggja að hún komi sem best til móts við þarfir barnanna?

Tillögur um að fleytitími verði enn meiri sveigjanlegur

Lagt er til að borgin beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að létta á umferðarteppu í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis.
Í sama tilgangi er lagt er til að borgin beiti sér í ríkari mæli en nú er gert  í að atvinnufyrirtæki rísi í úthverfum frekar en í miðborginni. Hér er átt við fyrirtæki/stofnanir sem vegna þjónustunnar sem veitt er þurfi fólk að leita þangað í eigin persónu.
Loks er lagt til að skoðað verði gaumgæfilega hvaða fyrirtæki sem nú eru í miðbænum mætti hugsanlega færa í úthverfin hvorutveggja í þeim tilgangi að létta á umferð í og úr miðborginni.

Frávísun
Tillögunni sem er lögð fram á fundinum er strax vísað frá og neitað er að gefa upp rökstuðning fyrir frávísuninni þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi farið fram á það.

Bókun Flokks fólksins
Meirihlutinn í borgarráði hefur vísað fyrirspurn Flokks fólksins frá og er það í fyrsta skipti sem tekið er upp á því að vísa frá nýlögðum tillögum. Óskað var eftir skriflegum rökstuðningi en því var hafnað. Ástæðan fyrir frávísuninni er því óljós.

Tillaga um að Sorpa taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi

Lagt er til að Reykjavíkurborg/Sorpa taki upp þriggja tunnu kerfi í Reykjavík. Þetta hefði átt að vera löngu búið að gera og í raun hefði Reykjavík átt að vera leiðandi á með slíkt kerfi sem stærsta sveitarfélag landsins. Nú hafa mörg sveitarfélög tekið þetta upp og má segja að Reykjavík sé að verða allt að því gamaldags þegar kemur að flokkun sorps.  Við hvert hús ætti að standa þrjár tunnur, gærn, brún og grá.
Þriggja  flokka sorpflokkunarkerfi er nú þegar við lýði í tólf bæjarfélögum á landinu, þ.e.; Stykkishólmi, Nónhæð í Kópavogi, Hveragerði, Flóahreppi, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Skaftárhreppi, Fljótsdalshéraði (Egilsstöðum), Fljótsdalshreppi, Langanesbyggð, Fjallabyggð, Hvalfjarðarsveit og Fjarðabyggð. Kópavogur er að byrja með þetta kerfi hjá sér. Önnur fimm bæjarfélög nota tveggja tunnu kerfi þ.e. gráu tunnuna og grænu tunnuna þ.e.; Arnarneshreppur, Fjarðarbyggð, Akranes, Borgarbyggð og Skorradalshreppur.

Greinargerð

Þriggja tunnu kerfið gengur í daglegu tali undir heitinu „Stykkishólmsleiðin“ þar sem Stykkishólmur var fyrsta sveitarfélagið til að gera samning við Íslenska gámafélagið um þriggja flokka kerfi. Þriggja flokka kerfið felur í sér að íbúar sveitafélaga taka skrefið til fulls í flokkun sorps og söfnun og moltugerð lífræns úrgangs frá öllum heimilum.

Markmið verkefnisins er að minnka umfang almenns sorps sem fer til urðunar um 70-80%. Þannig sparar sveitarfélagið stórar fjárhæðir og flokkaða efnið fær endurnýjun lífdaga í nýjum framleiðsluvörum sem sparar auðlindir, eða umbreytist í orku t.d. við bruna eða við metanframleiðslu.

Vísað til meðferðar stjórnar Sorpu

Tillaga um að setja hjólreiðarreglur um hámarkshraða

Flokkur fólksins leggur til að settar verði hjólareiðahraðareglur í borginni þar sem þess þarf og það er eflaust víða. Nú með hækkandi sól eykst umferð hjólandi, gangandi og hlaupandi. Fjölmörg dæmi eru um að hjólreiðamenn hjóla allt of hratt þegar þeir fara fram úr öðrum hjólreiðarmönnum og gangandi vegfarendum. Margir gangandi og einnig hjólreiðarmenn eru með hundinn sinn sér við hlið. Dæmi eru um að hjólreiðamenn hafi þotið fram hjá á ca 60 km+. Hvað gerist t.d.  ef 80 kg  hjólreiðamaður lendir á fólki eða dýrum á 60 km hraða. Ástandið er þannig víða að það er ekki spurning um hvort verður slys heldur hvenær. Nefna má staði eins og Víðidal.  Að sunnanverðu er víða mjög blint vegna trjáa. Engu að síður hjóla sumir á ógnarhraða og taka hiklaust fram úr öðrum hjólandi og gangandi stundum á ógnarhraða. Ástandið í Víðidal er alvarlegt hvað þetta varðar og án efa er það víðar í borginni. Hér verður að grípa til aðgerða með því að setja hámarkshraða, hraðahindranir þar sem það á við og að aðskilja keppnishjólreiðar og gangandi vegfarendur þar sem það er nauðsynlegt.

Borgarstjórn
30. apríl 2019

Bókun Flokks fólksins við tillögu fjölmenningarráðs um að kynna aðild að frístundarkortinu á fleiri tungumál

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst mikilvægt að bíða með allar þýðingar á frístundarkortinu þar til afgreiðsla tillögu um rýmkun reglnanna liggur fyrir. Breyta þarf reglum um frístundarkortið. Þær eru of strangar og því mikilvægt að rýmka þær til að fleiri börn geti nýtt sér kortið og þá ekki síst börn innflytjenda. Í sumum hverfum er nýting rétt um 64% og er lang minnst í Fella- og Hólahverfi. Varla er það ásættanlegt. Það er. t.d engin sanngirni í að binda notkun kortsins við félög og samtök sem eru einungis í  Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu svo fremi sem viðkomandi barn á lögheimili í Reykjavik. Það er líka óraunhæft að skilyrða kortið við 10 vikna námskeið hið minnsta. Mörg börn treysta sér ekki til að skuldbinda sig í svo langan tíma en myndu gjarnan taka þátt í styttri námskeiðum. Eins er fráleitt að setja sem kröfu að kennarinn eða leiðbeinandinn þurfi að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu svo fremi sem hann hafi alla sína pappíra  í lagi og sé eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi er að sama skapi óþarfa skilyrði.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fjölmenningarráðs um tilraunaverkefni sem snýr að rafrænni upplýsingagjöf fyrir innflytjendur með vefspjalli 

Rafræna þáttinn þarf að styrkja en hafa verður einnig í huga að sumir nota einfaldlega ekki netið.  Rafræn áhersla er orðin svo í rík í vitund margra að hætta er á að gleyma þeim sem nota sjaldan eða aldrei netið og eru jafnvel einungis með heimasíma og póstkassa. Borgarfulltrúa Flokks fólksins leikur forvitni á að vita hvort einhverjar upplýsingar eru til um algengi tölvu- og netnotkunar íbúa af erlendum uppruna? Hvernig okkur gengur að koma upplýsingum til fólks ætti að vera spurning sem við spyrjum okkur daglega. Mikilvægt er að hafa fjölbreyttar leiðir í boði til að miðla upplýsingum til allra borgarbúa og meðtaka upplýsingar eftir atvikum. Þegar Alþjóðahús var starfrækt var það einmitt eitt af hlutverkum þess að halda úti  fræðslu- og upplýsingadeild og aðstoða fólk hvað varðar íslenskt samfélag. Fyrir suma er skilvirkast að geta mætt á ákveðinn stað og fá tækifæri til að ræða við starfsmann í eigin persónu eins og var hægt þegar Alþjóðhús var starfrækt. Vel kann að vera að skoða ætti að endurvekja Alþjóðahús?

Bókun Flokks fólksins við tillögu fjölmenningarráðs um að átak fari af stað til að kynna og styðja við starfsmenn borgarinnar sem eru af erlendum uppruna

Það er gagnkvæmur hagur að allt starfsfólk af erlendum uppruna njóti menntunar sinnar og hæfni til fulls til að gagnkvæm aðlögun getur átt sér stað og styður því borgarfulltrúi Flokks fólksins þessa tillögu heilshugar. Að fá menntun sína metna og viðurkennda er mikið réttindamál. Þessi tillaga leiðir hugann að íslenskunámi í boði í borginni. Tungumálið er oft talið vera lykillinn að fullri þátttöku í samfélaginu og til að komast dýpra inn í menningu og mannlíf. Það er á ábyrgð stjórnvalda þar á meðal borgarinnar að sjá til þess að nægt framboð sé af íslenskunámskeiðum á öllum stigum. Þannig hefur það ekki alltaf verið þótt oftast hafi framboð verið viðunandi hjá þeim aðilum sem halda námskeið. Um tíma komust færri að en vildu og námskeiðsframboð var einsleit t.d. vantaði á einum tímapunkti námskeið fyrir þá sem voru komnir lengra. Borgin gæti komið sterkar inn hvað varðar að bjóða upp á íslenskunámskeið. Störf á Íslandi gera mismikla kröfu til íslenskukunnáttu. Það eru sum störf sér í lagi þau sem snúa beint að þjónustu við fólk sem gera heilmikla kröfu til þess að starfsmaður skilji og tali íslensku. Stjórnvöld, borgin þarf því að sjá sóma sinn í að sjá til þess að nægt framboð sé af námskeiðum í íslensku á öllum tímum.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fjölmenningarráðs um átak gegn fordómum og hatursorðræðu

Þetta er virkilega þörf tillaga, málefni sem má aldrei gleyma að tala um. Spurning er um útfærslu sem getur verið með margskonar hætti og þarf að koma inn á sem flest svið samfélagsins. Langflestir eru sammála um að vilja eyða hatursorðræðu og fordómum úr samfélaginu. Vissulega hefur árangur náðst en betur má ef duga skal. Hvert tilfelli er einu of mikið. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki sé vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Fullorðnir, foreldrarnir ekki síst þeirra fyrirmyndir. Orðum fylgir ábyrgð. Við þurfum öll að hjálpast að til að stuðla að jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og  styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu.

Velferðarráð
24. apríl 2019

Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð

Lagt er til að reglum um fjárhagsaðstoð hjá Reykjavíkurborg verði breytt þannig að þeir námsmenn sem ekki eiga rétt námsláni (af einhverjum orsökum) jafnvel þótt þeir stundi lánshæft nám geti sótt um fjárhagsaðstoð og fari í kjölfarið í sérstakt mat. Vísað er í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir að „fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Hér er því um réttlætismál að ræða og sem, ef breytt yrði með þessum hætti, er líklegt til að stuðla að frekari jöfnuði.

Bókun Flokks fólksins í máli frá umboðsmanni borgarbúa vegna synjunar umsóknar námsmanns um fjárhagsaðstoð

Þau rök sem eru notuð til að  synja aðila um fjárhagsaðstoð vegna þess að hann stundi lánshæft nám finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki halda. Eigi viðkomandi ekki rétt á láni jafnvel þótt hann sé í lánshæfu námi segir það sig sjálft að möguleikar hans til náms eru verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli verður viðkomandi að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám er eins og hver önnur vinna. Reykjavíkurborg má gæta að sér að vera aldrei letjandi ef áhugi er fyrir námi og í þessu tilfelli þarf að breyta reglum um fjárhagsaðstoð til að mæta þessum hópi sem vísað er í  í bréfi umboðsmanns borgarbúa. Nám leiðir til eins og allir vita aukinna möguleika á að fá vinnu og oftast er það þannig að þeir sem hafa nám að baki leiði til meiri stöðugleika og hærri launa en ella.

Bókun Flokks fólksins vegna skýrslu um úttekt TINNU verkefnisins

Úttektin kemur vel út og er verkefnið einstakt fyrir margar sakir m.a. þær að unnið er á forsendum einstaklinganna og barnanna. Á tveggja ára tímabili var 79 börnum hjálpað og það er frábært. Við skoðunar skýrslunnar um úttekt má hins vega sjá að smávegis óreiða einkenndi verkefni sem ætti að vera hægt að bæta úr með auðveldum hætti. Ákveðnar kröfur voru gerðar til verkefnisins alls 57 og eru aðeins 33 liðir uppfylltir að fullu og 21 að hluta. Þessi útkoma mætti án efa vera betri. Annað sem tekið er eftir er að þær kröfur sem ekki eru uppfylltar varða forvarnir og úrbætur við frávikum í framkvæmd Tinnu, þættir sem telja má vera afar mikilvægir. Notast er við ákveðna matslista við tilvísun og mat á árangri. Spyrja má hvort þeir listar eru þeir hentugustu á markaðinum til að uppfylla það hlutverk sem þeim er ætlað? Fram hefur komið í skýrslunni að einhverjir þátttakendur  hafa átt erfitt með að skilja spurningar matslista. Síðustu ár hafa bæst við fleiri kvarðar af svipuðum toga sem mætti skoða að nota frekar til að meta klínískan vanda.

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu Flokks fólksins um útvíkkun Tinnu verkefnisins (lagt fyrir borgarráð 28. mars)

Tinnu verkefnið er verkefni sem mikilvægt er að opna fyrir fleiri. Nýlega var gerð úttekt á verkefninu í Breiðholti og samkvæmt niðurstöðum þarf að laga eitt og annað og vonandi verður það gert hið fyrsta. Verkefnið hefur hjálpað börnum einstæðra foreldra til betra lífs og tekist að ná upp virkni einstaklinganna sem farið hafa í gegnum það ferli. Borgarfulltrúi leggur mikla áherslu á að veitt verði hið fyrsta fjármagni í að koma þessu verkefni í þeirri mynd sem það er í Breiðholti í gang víðar í borginni þannig að aðgengi að því verði auðveldara fyrir fleiri einstæða foreldra og börn þeirra. Aðstoð  við einstæða foreldra og þá sem eru í efnahagsþrengingum ætti að vera sett í algeran forgang í borginni. Það eru of fá verkefni í borginni sem eru klæðskerasniðin fyrir hvern og einn eins og þetta verkefni er. Þessi nálgun sem einkennir Tinnuverkefnið byggir á manngæsku og mannréttindum og verkefni sem byggð eru á slíkri nálgun mætti fjölga til muna.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins við tillögu Flokks fólksins um einföldun á ferli vegna umsóknar á fjárhagsaðstoð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar allri einföldun á þessu ferli. Hins vegar þegar litið er á ferlið og allar þær upplýsingar sem fólk er krafið um er ekki betur séð en að bæði mætti einfalda ferlið enn frekar og takmarka upplýsingar sem óskað er eftir. Stundum er verið að spyrja um hluti sem í raun kemur kannski umsókn um fjárhagsaðstoð lítið við. Áhersla á þetta rafræna er gott en hafa þarf í huga þann hóp sem ekki notar rafrænar leiðir og hyggst ekki gera. Til þessa hóps þarf að koma upplýsingum og taka á móti upplýsingum í tengslum við umsókn. Rafræn áhersla er orðin svo í rík í vitund margra að hætta er á að gleyma þeim sem eru jafnvel einungis með heimasíma og póstkassa. Í ferlinu þarf að ríkja sveigjanleiki á öllum stigum og sýna þarf fólki í sérstökum aðstæðum umburðarlyndi. Nægja ætti að sýna fram á útborgaðar tekjur og föst útgjöld svo sem leigu, rafmagn, lán, tryggingar og þess háttar. Horfa ætti á það sem eftir stendur þegar búið er að greiða alla reikninga. Tekið er mið af fjölskyldustærð og barnafjölda en miða ætti í öllum tilfellum við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Afgreiðsla umsóknar ætti ekki að taka meira en viku að jafnaði.

Tillögunni vísað frá

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi spurningar vegna Gistiskýlisins:

Í fréttum í síðustu viku kom í ljós að einstaklingar hafi fengið leyfi til að sprauta sig í gistiskýlinu enda þótt það sé bannað og að þar sé ekki rekið formlegt neyslurými sem borgarfulltrúi Flokks fólksins veit að þörf er á. Staðfest hefur verið að í  gistiskýlinu hafa einstaklingar getað sprautað sig á staðnum þótt það sé skýrt í reglugerð um gistiskýlið að öll neysla sé bönnuð. Í  gistiskýlinu hangir á vegg (eða hékk) miði þar sem á stóð: „Í skaðminnkandi tilgangi er horft fram hjá því að einstaklingar sprauti sig í gistiskýlinu“
Hangir þessi miði enn á vegg í gistiskýlinu? Er það enn í boði að einstaklingar sprauti sig í gistiskýlinu þrátt fyrir að það sé bannað að neyta vímuefna þar?
Var haft samráð við allt starfsfólk um leyfa einstaklingum að sprauta sig í gistiskýlinu í skaðaminnkandi tilgangi þrátt fyrir að það væri bannað?
Og ef svo var, var starfsfólk sátt við að vinna undir þessum kringumstæðum?
Hefur verið gerð viðbragðsáætlun í tilfellum ef einstaklingur myndi ofneyta og fara t.d. í hjartastopp sem starfsmenn hafa fengið þjálfun í að fylgja?
Hefur verið gengið frá samkomulagi við heilbrigðisstarfsmann sem hægt er að kalla út ef í neyðartilfelli? Hefur verið rætt um ábyrgð við starfsfólk ef dauðsfall yrði eða verður á staðnum sem tengdist leyfi að sprauta sig án þess að nauðsynleg heilbrigðisþjónusta væri til staðar? Hver hefði borið ábyrgð ef dauðsfall hefði orðið í gistiskýlinu í kjölfar þess að einstaklingur sprautar sig í æð og lætur lífið vegna ofneyslu? Hefur aldrei verið rætt um að breyta reglunum í þá átt að það sé leyft að sprauta sig „í skaðaminnkandi tilgangi“ Ef leyfa á einstaklingum að sprauta sig í gistiskýlinu stendur til að breyta reglum gistiskýlisins í samræmi við það?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir er varða svör formanns velferðarráðs í tengslum við mál Gistiskýlisins í fjölmiðlum:

Fram kom hjá formanni velferðarráðs í fréttum að starfsfólk hafi fundið upp á að leyfa einstaklingum að sprauta sig í skaðaminnkandi tilgangi. Er þetta rétt? Fram kom í máli formannsins að starfsfólk sé búið að krefjast þess að þessu sé hætt í allan vetur. Er það rétt? Er rétt að starfsfólki sé enn gert skylt að annast neysluþjónustu samkvæmt „leiðbeiningablaði“ jafnvel þótt það sé jafnvel ekki sátt við það? Á RUV segir formaðurinn eftirfarandi; „Það eru engin neyslurými í Gistiskýlinu, bara rými til neyslu“ Hvað er átt við hér?

Skóla- og frístundarráð
23. apríl 2019

Fyrir er tekið mál Flokkur fólksins sem leggur til að kössum verði komið upp í miðrými skóla í Reykjavík, þar sem börn, foreldrar/forsjáraðilar og aðrir sem tengjast skólastarfinu geti komið óskum sínum, tillögum, skilaboðum eða ábendingum á framfæri með einföldum hætti er varða skólastarfið. Tillaga þessi er hugsuð til að auðvelda börnum og forráðamönnum að hafa áhrif á skólastarfið og velferð barnanna í skólanum. Greinargerð fylgir

Meirihlutinn lagði fram breytingartillögu á þá vegu að skólar leiti leiða til að allir þeir sem tengjast skólanum komi upplýsingum á framfæri óski þau þess.

Eftirfarandi tillögur voru felldar:

Fyrri: Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt umsögn skóla- og frístundasviðs, dags. 28. febrúar 2019, um tillöguna:
Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof. Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella, þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.
Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Seinni: Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins í borgarráði sem vísað var til meðferðar skóla- og frístundaráðs ásamt minnisblaði sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 10. apríl 2019, um tillöguna:
Flokkur fólksins leggur til að borgin fjármagni að fullu Vináttuverkefni Barnaheilla fyrir þá leik- og grunnskóla sem þess óska. Rökin með þessari tillögu hafa verið reifuð oft áður og skemmst er að nefna að góð reynsla er af verkefninu sem hjálpar börnum að fyrirbyggja og leysa úr ýmsum tilfinningalegum og félagslegum vanda.
Tillagan er felld. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Sjá nánar fundargerð

Borgarráð
11. apríl 2019

Bókun Flokks fólksins við liðnum breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð

Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir þessar reglur enn allt of flóknar og mætti einfalda þær mun meira.  Þau gögn sem umsækjanda ber að reiða fram eru óþarflega ítarlegar t.d. upplýsingar um skráningu í nám og eða upplýsingar um greiðslur t.d. frá sjúkrasjóðnum eru dæmi um upplýsingar sem mættu e.t.v. missa sín. Markmiðið ætti ávallt að vera að kalla eftir sem minnstum upplýsingum og unnt er að komast af með í slíkri umsókn. Sjálfsagt er að fá leyfi hjá viðkomanda að aflað verði upplýsinga t.d. um skráningu hans í nám við lánshæfar menntastofnanir. Hafa skal í huga að mörgum reynist það afar erfitt að þurfa að sækja um fjárhagsaðstoð. Sumir upplifa það  niðurlægjandi og því er óþarfi að flækja þetta ferli meira en þörf er á. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda þetta ferli enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Tillaga í framhaldi af bókun um enn frekari einföldun á reglum um fjárhagsaðstoð:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði í að einfalda reglur um fjárhagsaðstoða frá Reykjavíkurborg enn meira. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Skerjafjörður úthlutunarreglur

Borgarfulltrúi vill minna á sveitarstjórnarlög sem varða innkaupareglur og útboð í þessu sambandi sem öðru. Verðviðmið vegna útboðsskyldu vegna verklegra framkvæmda er 28 mkr og ætlar borgarfulltrúi rétt að vona að þessum reglum verði fylgt í hvívetna í framkvæmdum í Skerjafirði. Borgarfulltrúi vill gera athugasemdir við landuppfyllingu og spyr af hverju mega fjörur ekki fá að vera í friði? Af hverju landfylling. Á það skal minnst að það er óumdeilanlegt að sjávaryfirborð á eftir að hækka og varað hefur verið við að byggja á lágum svæðum. Ætlar borgin að hunsa álit sérfræðinga hér og fara gegn viðvörunum? Flokkur fólksins gerir körfu um að hér sé staldrað við og fengið álit frá sérfróðum aðilum svo sem Vegaverðinni og Veðurstofunni. Tekið er undir áhyggjur af umferðarþunga ekki síst meðan á framkvæmdum stendur. Hafa skal í huga að borgarlína kemur ekki á næstunni og ekki er heldur fyrirsjáanlegt að flugvöllurinn fari næstu árin.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum svör við fyrirspurnir um Nauthólsveg:

Borgarfulltrúi vill byrja á að þakka ítarleg svör. Þessi svör staðfesta enn og aftur hvílíkur skandall Nauthólsvegur 100 er. Í framkvæmdinni allri úir og grúir af óráðsíu, bruðli og vanvirðing  gagnvart fé almennings er átakanlegt. Kunningja – og vinavæðing er áberandi. Hugmyndi arkitekta flæða og gildir þá einu hvað þær kosta. Allt þetta er stjórnlaust, án nokkurs eftirlits. Hér er dæmi: Þegar framkvæmdir síðan hófust var óskað eftir að Efla sæi um alla verkfræðilega hönnun á byggingunum. Strax í upphafi var arkitektastofan Arkibúllan valin til að hanna endurbyggingu húsanna við Nauthólsveg 100. Ekki var farin sú leið sem stundum er valin að hafa samkeppni um hönnunina og sigurvegarinn fái að hanna verkið. Ekki var heldur haft samband við fleiri arkitektastofur til að leita eftir tilboðum í hönnunina. Ástæður fyrir því að þessi arkitektastofa var valin liggja ekki ljósar fyrir. Enn fremur var starfsmaður stofunnar, sem síðar varð verkefnisstjóri, fyrrverandi starfsmaður borgarinnar og því kunnugur fyrrverandi skrifstofustjóra og verkefnastjóra SEA. Í fundargerð verkefnisstjórnarfundar, dagsettri 31. október 2016, kemur fram að landslagsarkitekt hafi verið ráðinn til að hanna lóðina. Mun það hafa verið að tillögu verkefnisstjóra á byggingarstað sem hafði samband við Dagný Land Design (DLD) og óskaði eftir að fyrirtækið tæki að sér þetta verkefni.“

Bókun Flokks fólksins undir liðnum um fyrirspurn um listaverkaeign borgarinnar:

Markmiðið með fyrirspurninni var að fá einhverja hugmynd um þann hluta af listaverkaeign borgarinnar sem ekki er fólki sýnileg vegna þess að hún er lokuð inn í geymslum. Fram kemur að reynt er að hafa safnkost borgarinnar aðgengilegan eins og kostur er og er það gott. Fram kemur að útilistaverk á skrá eru 182. Sú hugsun sló niður í haus borgarfulltrúa hvort borgin ætti t.d. ekki útilistarverk sem er ekki í notkun en sem mætti t.d. skreyta Vogahverfið með? eða önnur hverfi ef því er að skipta.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum um framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins og Miðflokksins um leigubílakostnað:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakka þetta svar sem staðfestir það sem borgarfulltrúi Flokks fólksins taldi að það er ekki stór hluti af leigubílaútgjöldum velferðarsviðs sem fer í að aka með skjólstæðinga borgarinnar. Stærsti hlutinn er vegna starfsmanna, þeirra sem mæta eiga í vinnu þegar almenningsvagnar ganga ekki og er það hluti af kjarasamningum.  Þar segir eins og fram kemur í svari að annað hvort sé starfsmanninum séð fyrir ferð eða greiddur ferðakostnaður. Það er búið að afnema aksturssamninga eins og fram kom í síðasta svari. Spurning er hvort leita eigi að hagkvæmari leiðum hér t.d. að borgin leggi enn meiri áherslu á að leggja til bíla þar sem nauðsyn er s.s. vegna heimahjúkrunar og heilbrigðiseftirlits

Fyrirspurnir vegna stöðu eldri borgara í dag.
Flokkur fólks óskar eftir að fá nýjar upplýsingar um stöðu eldri borgara er varðar bið eftir heimaþjónustu og hjúkrunarrýmum?

Staðan í desember 2018 var sú samkvæmt velferðarsviði að 53 einstaklingar lágu á bráðadeildum LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum á höfuðborgarsvæðinu en höfuðborgarsvæðið myndar eitt heilbrigðisumdæmi, 67 einstaklingar biðu á biðdeildum sem LSH rekur. Á annan tug biðu eftir heimahjúkrun. Borgarfulltrúi er ósáttur við að tillagan um Hagsmunafulltrúa eldri borgara var hafnað. Öldungaráð Reykjavíkur veitti umsögn þar sem segir „að nú þegar sé verið að fjalla um þessi mál auk þess sem starfandi sé umboðsmaður borgarbúa sem fer meðal annars með málefni eldri borgara og taldi ekki þörf á stofnun sérstaks hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða“. Engu að síður berast fréttir af eldri borgurum í neyð. Tillagan um hagsmunafulltrúann fól í sér að hann myndi skoða málefni eldri borgara ofan í kjölinn, halda utan um hagsmuni þeirra og fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hagsmunafulltrúinn átti að kortleggja stöðuna í heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða. Sá „þjónustufulltrúi“ sem meirihlutinn leggur til að verði ráðinn kemur ekki í staðinn fyrir „Hagsmunafulltrúa“ Flokks fólksins enda sinnir sá fyrrnefndi aðeins upplýsingamiðlun.

Tillaga um að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok.

Lagt er til að borgin sem vinnuveitandi  leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum,  menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á  sveigjanleika þegar komið er að starfslokum.  Sumir viljað hætta áður en  „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá.  Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og um það höfum við reynslu af t.d á Droplaugastöðum sem er hjúkrunarheimili. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar stíft og ósveigjanlegt.

Lagt er til að reglur um Frístundarkort verði rýmkaðar til að hægt sé að nota það til þátttöku í stuttum verkefnum

Lagt er til að reglur um Frístundarkortið verði víkkaðar þannig að hægt sé að nota það með rýmri hætti en nú er hægt. Reglurnar eru allt of strangar eins og þær eru í dag og niðurnjörfaðar. Eins og reglurnar eru nú „er einungis hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi. Þetta eru allt of strangar reglur. Um þetta þyrfti að losa. Hægt ætti að vera nota Kortið til þátttöku í stuttum íþrótta- og félagslega tengdum verkefnum. Í þessu tilfelli skiptir húsnæði ekki miklu máli og mætti t.d. taka út þann þátt. 10 vikur er allt of langur tími og hentar ekki öllum börnum og unglingum. Sjálfsagt ætti að vera að systkini noti sama kortið ef það hentar þeim.

Greinargerð:

Tillaga Flokks fólksins um að rýmka reglur Frístundarkortsins til að ná utan um hreyfingu eins og sund (kaup á sundkorti) var nýlega felld í borgarráði. Ekki er heldur hægt að nota frístundakortið í starfi félagsmiðstöðvanna né í niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga. Hafa skal í huga að sumir foreldrar hafa ekki ráð á að senda börn sín á sumarnámskeið jafnvel þótt þau séu niðurgreidd. Það skiptir miklu máli að hvetja börn á allan mögulegan hátt til að stunda útiveru og hreyfingu. Borgin ætti því ekki að linna látum fyrr en fundnar hafa verið leiðir sem stuðla að fullnýtingu Frístundarkortsins. Í þessu sambandi er vert að leiða hugann að áhyggjum af þeim börnum sem hafa fest sig fyrir framan tölvuna. Þetta er hópur barna sem finnst erfitt með að víkja frá tölvunum til að fara í skólann eða til að stunda hreyfingu sem er öllum börnum og unglingum afar mikilvægt. Hvað varðar notkun Frístundarkorts í þessu samhengi vill Flokkur fólksins að Frístundarkortið sé ekki hvað síst notað til að hvetja börn og unglinga til hreyfingar og útiveru af hvers lags tagi, þótt ekki sé nema stuttan tíma í einu.
Leggja þarf niður höft eins og að:
1. Einungis er hægt að nota Kortið hjá félögum og samtökum í Reykjavík
2. Félagið sem er með námskeiðið þarf að vera með samning við Reykjavíkurborg. Námskeið þarf að vera að minnsta kosti 10 vikur
3. Kennarinn eða leiðbeinandinn þarf að vera með menntun í því sem er kennt á námskeiðinu og eldri en 18 ára
4. Húsnæði þar sem námskeið fer fram þarf að vera með rekstrarleyfi.

Allt þetta er bara til að gera börnum og unglingum erfiðara fyrir að nota kortið þar sem mörg hver treysta sér t.d. ekki til að taka þátt í námskeiði sem eru 10 vikur en myndu gjarnan vilja prófa 2-3 vikur. Eins er það allt of stífar kvaðir að kennari þurfi að vera með menntun í því sem kennt er á námskeiðinu. En ómögulegra skilyrði er að húsnæðið verði að hafa rekstrarleyfi. Hér er dæmi um óþarfa flækjustig og ósveigjanleika sem lagt er til að sé afnumið hið fyrsta.

Tillaga um að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok.

Lagt er til að borgin sem vinnuveitandi  leiti leiða til að bjóða upp á að vinnulok verði með sveigjanlegri hætti en nú er, þ.e. að starfslok séu við sjötugsaldur. Fjölmörg störf er hægt að bjóða upp á þar sem sérstakrar líkamlegrar færni er ekki krafist. Aldrað fólk býr yfir umtalsverðum kostum,  menntun og reynslu sem gerir það að góðum starfsmönnum. Borgin ætti að vera fremst í flokki með öllum þeim störfum sem þar bjóðast og bjóða upp á  sveigjanleika þegar komið er að starfslokum.  Sumir viljað hætta áður en  „70 ára“ markinu er náð, en aðrir vilja vinna lengur og þarf að koma til móts við þá.  Sveigjanleikinn er allra hagur og borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að því að hann verði sem mestur. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs í einu. Ekki er vitað hversu auðfengið slík undanþága er. Einnig er hægt að hafa starfsmenn lausráðna í tímavinnu eftir 70 ára og um það höfum við reynslu af t.d á Droplaugastöðum sem er hjúkrunarheimili. En betur má ef duga skal. Hér er hægt að gera svo miklu meira enda það sem nú er í boði afar stíft og ósveigjanlegt.

Lagt er til að borgarmeirihlutinn hugi að börnum efnaminni foreldra og fátækra foreldra með sértækum aðgerðum

Lagt er til að Reykjavíkurborg setji það á stefnuskrá sína að grípa til sértækra aðgerða til að létta undir með fátækum barnafjölskyldum. Það eru tæpar 500 fjölskyldur með um 800 börn sem eru með fjárhagsaðstoð. Á annað þúsund barna býr í félagslegu leiguhúsnæði á vegum Reykjavíkurborgar og í 1.000 barnafjölskyldur fá sérstakan húsnæðisstuðning. Borgin ætti að horfa mun meira til  tekna foreldra og forráðamann þegar gjald sem snýr að börnum sem dæmi skólamáltíðir, dvöl á frístundaheimili/félagsmiðstöðvar og tómstundir er ákvarðað. Framtíðarmarkmiðið ætti að vera að ofangreindir þættir séu gjaldfrjálsir fyrir fjölskyldur sem eru undir framfærsluviðmiði. Áður hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins lagt til að gjald skólamáltíða verði lækkað til að tryggja að ekkert barn væriAðalastræti svangt í skólanum en þær tillögur voru felldar. Það er ekki verið að gera nóg fyrir fjölskyldur sem eru í mestri neyð eins og staðan er núna. Börnum fátækra foreldra er mismuna á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar sértækar aðgerðir til að létta byrði þeirra er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman.

Greinargerð

Flokkur fólksins hefur oft áður með ýmsum hætti stungið upp á leiðum til að létta undir með fátækum foreldrum þegar kemur að ýmsum útgjöldum fyrir börn sína. Sem dæmi var tillaga um að börn foreldra undir tekjuviðmiði þurfi ekki að greiða þátttökugjald á viðburði eða í ferðir á vegum miðstöðvanna felld í Skóla- og frístundarráði. Sömu örlög hlutu tillögur um að lækka gjald skólamáltíða eins og fram kemur í tillögunni. Meirihlutinn verður að fara að horfast í augu við að hópur barna elst upp hjá fátækum foreldrum og að fátækt hindrar sum börn í að taka þátt í viðburðum sem kosta. Hér er e.t.v. ekki um stórar upphæðir að ræða en þúsund krónur er mikill peningur hjá þeim sem ekki á.  Tillaga um að reglur um frístundarkortið yrðu rýmkaðar var einnig felld. Það er afar slæmt að ekki er hægt að greiða fyrir þátttöku í starfi félagsmiðstöðva með Frístundakorti Reykjavíkurborgar og eins ætti að vera hægt að nota Frístundarkortið til að greiða enn frekar niður gjald sumarnámskeiða í þeim tilfellum sem foreldrar óska þess. Margt annað er hægt að gera í þessu sambandi með beinni tekjutengingu og horfa þá eingöngu til þeirra verst settu með það að markmiði að draga úr fátækt.

Tillaga um fjölbreyttar leiðir til að upplýsa borgarbúa um réttindi þeirra þar með talið útgáfa upplýsingabæklings:

Það er staðreynd að ekki tekst að upplýsa allar borgarbúa sem eiga tilkall til sértækra réttinda um réttindi þeirra. Það er skylda borgarmeirihlutans að láta einskis ófreistað til að koma upplýsingum til þessa hóps með eins fjölbreyttum hætti og mögulegt er. Leiðir sem hægt er að fara er að hringja í fólk, senda tölvuskeyti, auglýsa, heimsækja fólk eða senda bréfapóst. Með hverju ári sem líður er borgin að vera æ meira bákn og flækjustig fjölmargra ferla hefur aukist. Nú glittir vissulega í einhverja einföldun á einhverju af þessu og er það gott. Flokkur fólksins leggur til að borgarmeirihlutinn ráðist í að gefa út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar.

Greinargerð

Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um réttindi á aðgengilegan hátt. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar. Oft heyrist talað um að fólk viti ekki hver réttindi sín eru eða hafa frétt af þeim mörgum mánuðum eftir að þau komu til, jafnvel árum. Stundum hafa upplýsingar misfarist vegna þess að það hefur gleymst að segja fólki frá þeim eða talið að fólk sé þá þegar upplýst um þau. Stundum er ástæðan sú að „réttindin“ hafa tekið breytingum vegna breytinga á reglugerðum eða samþykktum borgarinnar og ekki hefur náðst að upplýsa fólk um breytingarnar. Ýmist reynir fólk að hringja til að fá upplýsingar eða leita að þeim á netinu. Það eru ekki allir sem nota netið og stundum næst heldur ekki í starfsmenn í síma. Sé viðkomandi beðin að hringja til baka gerist það ekki alltaf.  Oft er kvartað yfir því að illa gangi að ná í starfsmenn/fagfólk sem eru t.d. mikið á fundum, að skeytum sé ekki svarað og að ekki sé hringt til baka. Gera má því skóna að upplýsingabæklingur sem er skýr og aðgengilegur, jafnvel sendur til þeirra sem talið er að eigi tilkall til þjónustunnar muni leysa að minnsta kosti hluta þess vanda þeim sem hér er lýst.

Fyrirspurnir vegna úttektar annarra verkefna sem farið hafa fram úr kostnaðaráætlun

Flokkur fólksins lagði fyrir stuttu fram tillögur um að Innri endurskoðun tæki út þrjár  framkvæmdir með sambærilegum hætti og braggann, sem farið hafa umtalsvert fram úr fjárhagsáætlun. Þessar framkvæmdir eru Gröndalshús, vitinn við Sæbraut og Aðalstræti 10. Tillaga um úttekt á Gröndalshúsi var felld í borgarráði. Innri endurskoðun hefur upplýst að umsögn SEA kom ekki til skoðunar hans áður en hún var lögð farm.

 1. Spurt er af hverju kom  umsögn SEA sem lögð var til grundvallar þess að tillögunni var synjað ekki til skoðunar Innri endurskoðunar  áður en hún var lögð fram?
 2. Munu tillögur Flokks Fólksins um úttekt á vitanum við Sæbraut og Aðalstræti 10 koma til skoðunar IE áður en þær verða afgreiddar, felldar, vísað frá eða samþykktar?

Fyrirspurn um stöðu mála Hólaborgar og Suðurborgar hvað varðar tillögu meirihlutans um sameiningu þessara tveggja leikskóla.

Óskað er eftir upplýsingum um hvenær niðurstaða þessa máls mun liggja fyrir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að svör berist sem fyrst þar sem málið allt er farið að hafa virkilega mikil áhrif á starfsmenn tilfinningalega og fólk er farið að finna fyrir vonleysi. Málið hefur legið á borði Skóla- og frístundasviðs síðan 8. janúar ásamt umsögnum frá starfsfólki og er því tímabært að starfsfólk og foreldrar fari að fá svör.

Fyrirspurnir um ávinning af  sameiningu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík undanfarin ár?

Spurt er hvort það liggi fyrir upplýsingar um hver ávinningur hefur verið af sameiningu leikskóla og grunnskóla í Reykjavík undanfarin ár. Svar óskast sundurliðað eftir skólum. Bæði er spurt um fjárhagslegan ávinning sem og faglegan ávinning, þ.e. m. v. að ef ekkert hefði verið gert?

Tvær bókanir lagðar fram í borgarráði 11.4 vegna staðfestingar sem fram kemur að unnið er að varanlegri lokun Laugavegar og Skólavörðustígs fyrir bílaumferð:
 
Flokkur fólksins mótmælir því sem fram kemur undir þessum lið en það er að verið sé að vinna að varanlegri lokun og það jafnvel þótt það hafi verið sýnt fram á að kannanir sýni að fólk sé alls ekki sátt nema síður sé. Enn á ný á að reyna að slá ryki í augu fólks með því að segja að kannanir sýni „ánægju“ og keyra af afli áfram eitthvað sem ekki hefur verið unnið í sátt við borgarbúa. Ljóst er að valta á yfir borgarbúa og ekki síst rekstrar- og hagsmunaaðila á þessu svæði. Þetta kallast fátt annað en ofbeldi þegar hunsuð er beiðni um eðlilegt samráð. Laugavegssamtökin hafa sem dæmi fullyrt að aldrei hafi verið talað við þau enda flýja rekstraraðilar nú unnvörpum frá þessu svæði.
Bókun vegna umræðu um lokun Laugavegar og Skólavörðustígs án samráðs við hagsmunaaðila sem fram fór í borgarstjórn 3. apríl

Flokkur fólksins gerir alvarlega athugasemd að hafist verði handa við vinnu og forhönnun á Laugavegi og Skólavörðustig sem var á dagskrá Skipulags- og samgönguráðs 3. apríl 2019. Í ljósi þeirrar umræðu sem fram fór í borgarstjórn 2. apríl s.l. vegna tillögu Flokk fólksins þar sem farið var fram á nánara samráð um framkvæmdir við hagsmunaaðila, eldri borgar, fatlaða og almenna borgarbúa víðs vegar í borginni m.a. með vel útfærðir skoðanakönnun. Áréttað er að í ljós hefur komið að ekki er hægt að hefja undirbúning eða framkvæmdir fyrr en grenndarkynning hefur átt sér stað. Jafnframt þarf að kanna vilja allra Reykvíkinga áður en hafist er handa við svo stórtækar aðgerðir á einu vinsælasta svæði borgarinnar. Það skal jafnframt bent á að ekki stendur til að hreyfihamlaðir né aldraðir hafi aðgang að götunum þegar veður eru válynd, tal um samráð virðist hljómið eitt. Það er með ólíkindum hvernig borgarmeirihlutinn ætlar að keyra áfram þessara lokanir þrátt fyrir mótmæli ýmissa aðila. Hér skortir alla auðmýkt hjá meirihlutanum. Hér er sýndur ótrúlegur ósveigjanleiki og barnaleg þrákelkni borgarfulltrúa meirihlutans. Flokkur fólksins gerir kröfu um fullt samráð við alla borgarbúa. Annað er ólíðandi í lýðræðislegu samfélagi.

Borgarráð
4. apríl 2019

Bókun Flokks fólksins vegna nýrrar skýrslu Innri endurskoðunar m.a. um framúrkeyrslu Mathallarinnar:

Nú liggja fyrir niðurstöður úttektar Innri endurskoðunar (IE) á Mathöll, Sundhöll, hjólastíg v. Grensásveg og Vesturbæjarskóla. Öll verkefni fóru fram úr áætlun. Mathöllin fór 102% fram úr kostnaðaráætlun og útgjöld án heimilda voru 46.9 mkr. Niðurstaða IE er að hugsanlega voru sveitarstjórnarlög brotin. Útboð var verulega ábótavant sem dæmi voru endurbætur utanhúss gerðar á grundvelli innkaupaferlis en trésmíðavinna innanhúss var ekki boðin út. Kostnaðaráætlanir voru ítrekað vanmetnar. Áætlanir um eftirlit reyndust einnig stórum vanmetnar. Segir í skýrslunni að ítrekaðar vanáætlanir skaða ekki bara orðspor heldur vekja upp spurningar um hvort önnur sjónarmið liggi að baki s.s. ,,að fá samþykki á grundvelli vanmetinnar áætlunar í trausti þess að sækja viðbót síðar enda ekki hægt að stöðva framkvæmdir‘‘. Rauð ábending er vegna alvarlegra veikleika í innra eftirliti og rautt áhættustig snýr að gerð kostnaðaráætlana fyrir alla verkþætti sem Umhverfis og skipulagssvið ber ábygð á. Fram hefur komið hjá Endurskoðunarnefnd að allt of langur tími (2-4 ár) líður oft frá því að úttekt er gerð af IE og þar til skrifstofan fylgir eftir eigin ábendingum. Hefði IE fylgt ábendingum skýrslu 2015 eftir, hefði aldrei orðið neinn braggaskandall. Þetta er grafalvarlegt og innihald skýrslunnar allrar er enn eitt áfallið sem dynur yfir borgarbúa

Borgarstjórn
3. apríl 2019.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um auglýsingakostnað borgarinnar:

Auglýsingakostnaður Reykjavíkurborgar frá árinu 2010 og fram til febrúar ársins 2019 er rúmur milljarður króna, eða alls 1.016.520. Sjá má að kostnaður hefur aukist töluvert frá árinu 2010 og hefur aukist undanfarin ár. Eftir því er tekið að Fréttablaðið fékk stærstu sneiðina. Það er ekki óeðlilegt að hugsa um hlutleysi og hlutdrægni í þessu sambandi. Allir vita að í gegnum tíðina hafa fréttablöð verið tengd flokkum og flokkspólitík. Hlutlausir fréttamiðlar er draumur all flestra. Það að geta treyst á að fjölmiðill hampi ekki stefnu eða málflutning ákveðins flokks er það sem við öll viljum. Ef fjölmiðill á fjárhagslega mikið undir því að stjórnmálaflokkur eða flokkar auglýsi hjá þeim fyrir stórfjárhæðir þá telur Flokkur fólksins alveg eðlilega að hafa áhyggjur af hlutleysi þess miðils.

Bókun Flokks fólksins við tillögu D lista um að borgin styðji við íþróttafélög í Reykjavík að koma á fót rafíþróttadeildum innan félaganna.
Flokkur fólksins veit að rafíþróttir eru komnar til að vera og hafa án efa fjölmarga kosti og mikið skemmtanagildi. Engu að síður eru nokkrar áhyggjur af börnum sem eru í áhættu fyrir tölvufíkn og/eða glíma við hreyfingarleysi. Áhyggjur eru af unglingum sem vilja ekki víkja frá tölvunum til að fara í skólann eða til að stunda hreyfingu sem er öllum börnum og unglingum er mikilvægt. Rafíþróttir er jú setuíþrótt. Flokkur fólksins metur það að ætlunin er að styrkja keppendur í íþróttinni með líkamlegum æfingum. Hvað varðar notkun frístundarkorts í þessu samhengi vill Flokkur fólksins að frístundarkortið sé ekki hvað síst notað í til að hvetja börn og unglinga til hreyfingar og útiveru af hvers lags tagi. Til þess þyrfti að útvíkka reglur kortsins umtalsvert. Eins og staðan er nú er t.d. ekki hægt að nota frístundarkortið til kaups á sundkorti því sú tillaga Flokks fólksins hefur verið nýlega felld í borgarráði. Heldur er ekki hægt að nota frístundakortið í niðurgreidd sumarnámskeið á vegum borgarinnar eða félaga. Undanþága er vegna sumarnámskeiða fyrir fatlaða í Reykjadal. Þessu þarf að breyta.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar eigi þess kost að taka þátt í ferðum eða viðburðum  án tillits til efnahags foreldra þeirra.

Reykjavíkurborg verður að fara að horfast í augu við að hópur barna elsta upp hjá fátækum foreldrum. Það er staðreynt að fátækt er hindrun fyrri þessi börn að taka þátt í hinum ýmsu viðburðum m.a. á félagsmiðstöðvum. Það er rétt að hér eru e.t.v. ekki um stórar upphæðir að ræða en þúsundkarlinn er mikill peningur hjá þeim sem eiga hann ekki.  Flokkur fólksins efast ekki um að starfsfólkið gerir sitt allra besta til að öll börn geti tekið þátt og söfnun er liður í því. Mörgum börnum finnst gaman að taka þátt í söfnun sem er félagsleg skemmtun út af fyrri sig. En það má aldrei vera þannig að þátttaka aðeins sumra barna en ekki annarra eiga að vera háð því hvernig til tekst að safna fé. Það er afar slæmt að ekki her hægt að greiða fyrir þátttöku í starfi félagsmiðstöðva með frístundakorti Reykjavíkurborgar. Úr þessu þarf að bæta hið fyrsta. Að sjálfsögðu hafa félagsmiðstöðvar  ekki upplýsingar um hvaða foreldrar eru undir framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytis. Hvað varðar þá sem fengju frítt er vel hægt að finna annað fyrirkomulag en að upplýsa félagsmiðstöðvar beint um erfiða fjárhagsstöðu fólk.

Tillagan var felld

Svar Skóla- og frístundarráðs

Borgarráð
21. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um útvíkkun á notkunarskilyrðum frístundarkort til kaupa á sundkorti

Svar borgarinnar:

Svarið sem finna má í umsögn er vonbrigði. Í fyrsta lagi er verið að snúa út úr með því að tala um að þá ætti kortið allt eins að gilda á leiksýningar og bíó. Hér er verið að tala um sundstaði. Að fara í sund fyrir okkur íslendinga hefur ávallt verið talið mjög jákvætt, sambland af hreyfingu, útivist og vissulega skemmtun. Talað er um að ekki sé tímabært að taka svona skref án frekari umræðu. Borgarfulltrúi er með þessari tillögu að hefja þá umræðu og óskar eftir að hún verði ekki bara tekin heldur tekin áfram. Nýting kortsins til kaupa á sundkorti er tillaga sem á fullan rétt á sér og ætti Menningar-, íþrótta- og tómstundarráð hiklaust að skoða hana aftur.

Fyrirspurn:
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda sem nú eru í gangi hvað varðar kostnaðaráætlanir, innkaup, samninga, eftirlit og aukaverk sem og annað sem máli skiptir í framkvæmdum (mannvirkjagerðum)

Fyrirspurn: Óska eftir upplýsingum (lista yfir) um framkvæmdir (mannvirkjagerð) síðustu  4ra ára sem fóru fram úr kostnaðaráætlun

Fyrirspurn:
Hvernig ætlar Skóla- og frístundarráð að bregðast við  niðurstöðu könnunar Maskínu sem gerð var að beiðni Velferðarvaktarinnar um skólaforðun og tilfinningar- og félagslegrar vanlíðunar grunnskólabarna ?

Það hefur lengi verið vitað að hópur barna líður illa í skólanum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis rætt um vanlíðan barna í skólanum og m.a. tengt það því að „skóli án aðgreiningar“ er ekki nægjanlega útbúinn til að ná utan um öll börn og þarfir þeirra. í landinu er skólaskylda, skólinn á að vera fyrir alla. Niðurstöður þær sem nú liggja fyrir úr könnun Maskínu sem Velferðarvaktin lét gera koma ekki á óvart. Hópur barna bíður eftir sérhæfðri þjónustu ýmist í greiningu, í viðtöl til sálfræðinga skóla, í talþjálfun, til að komast á nauðsynleg námskeið og fleira mætti telja. Börn eru látin bíða mánuðum saman eftir þjónustu. Í ljósi þessa er ekki að undra að sum börn glími við tilfinningalega erfiðleika eða eru félagslega óörugg og treysta sér ekki í skólann. Hvað varðar borgina er orðið tímabært að horfast í augu við þennan vanda sem fengið hefur að vaxa óáreittur árum saman. Eigi „skóli án aðgreiningar“ að vera áfram stefnan verður að fara í að endurskipuleggja hana frá grunni og finna  farveg sem leiðir til þess að öll börn fái þörfum sínum fullnægt í skólanum. Nú verður að bregðast við, það er ekki nóg að fá upplýsingarnar. Fyrst er að horfast í augu við vandann og viðurkenna þá staðreynd að hópur barna líður ekki vel í skólakerfinu eins og það er uppbyggt, þau fá ekki þann stuðning sem þau þurfa og hætta þar að leiðandi að vilja koma í skólanum.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu erindisbréfs um meðhöndlun fjárheimilda fyrir grunnskóla

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bara fagna því að bæta eigi reiknilíkan skólanna. Eftir því sem skilst mun ávinningurinn vera sá að forsendur fyrir fjárhagsáætlun verða gegnsærri og skýrari og að áætlanir verði samræmdari milli skóla.  Allt hlýtur þetta að leiða til jákvæðrar hluta, vonandi.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2019

Niðurstöður er beggja blands í þessari könnun en sýna ákveðinn árangur og ber að fagna því. Einstaka tölur eru ívið betri en í fyrri könnunum. Ekki er þó hægt að horfa fram hjá því að upplýsingar hafa verið að berast um mikla vanlíðan starfsmanna og brotthvarf einhverra þeirra sem rekja má til vanlíðan í vinnunni.  Ef horft er til opinberra upplýsinga sem hafa verið að birtast og varða borgina og stjórnsýslu hennar er ekki að undra ef starfsmönnum mörgum hverjum liði illa á þessum vinnustað. Dómar, skýrsla Innri endurskoðunar og ákvörðun Persónuverndar rekja neikvæða þætti úr innviðum og stjórnsýslu borgarinnar hafa komið með reglulegu millibili frá hausti 2018. Engan þyrfti því að undra að starfsmenn sem starfa undir slíkri stjórnsýslu og þar sem eftirliti er víða ábótavant líði  illa og vilji jafnvel hætta. Það reynir á alla ef vinnustaður þeirra er ítrekað og aftur í neikvæðri opinberri  umræðu.  Eftir því er tekið að svarhlutfall er minna en áður og minnsta ánægja er á Umhverfis og skipulagssviði. Einelti frá samstarfsfólki er einnig hæst á Umhverfis- og skipulagssviði. Starfsmannastöðugleiki er meðal þeirra atriða sem fólk er ósáttast við. Um 400 manns segjast hafa orðið fyrir einelti og áreitni sem er vissulega allt of há tala.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins við kynningu þjónustukönnunar Reykjavíkurborgar 2019.

Það hefði verið gott að sjá samanburð við önnur sveitarfélög og heyra meira um viðhorf og skoðun gagnvart þjónustustofnunum sem vinna með börnum. Spurning er hvort könnun eins og þessi sé of viðamikil og spurningar þess eðlis oft að líklegt er að fólk svari bara einhvern veginn? Þótt margt sé áhugavert er einnig frekar erfitt að lesa úr þessu og koma með afgerandi niðurstöður t.d. þegar svör eru „hvorki né“.

Bókun  undir liðnum  að borgarráð heimili að bjóða út malbikunarframkvæmdir:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ánægð með að malbikunarframkvæmdir eru í eðlilegu fari. Lögð er áhersla á að gæði malbiks séu ávallt þau bestu og ef til vill ætti víðar að notast við sterkari gerð steinefnis í malbikið það sem flutt er inn frá Noregi. Venjulega er notast við sterkara malbik aðeins á mestu umferðargötunum eftir því sem fram kemur í kynningu. Nota ætti sterkara malbikið miklu víðar. Þá verður minna um slit og auknar líkur eru á að dregið verði úr loftmengun af völdum slits. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í mengun sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík.

Borgarstjórn
19. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við 45. lið fundargerðar frá 7. mars; endurskoðuð stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi á vinnustöðum er samþykktur:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill byrja á að þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að stýra þessum hópi sem hafði það hlutverk að endurskoða stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi og endurskoða jafnframt verklag með stefnunni. Sem sálfræðingur í hartnær 30 ár hafa eineltismál verið einn af mínum aðalmálaflokkum og hef ég sinnt þeim, forvörnum jafnt sem úrvinnslu innan skólasamfélagsins, á vinnustöðum í íþrótta- og æskulýðsfélögum jafnframt því að skrifa ótal greinar, pistla auk einnar bókar um þennan málaflokk. Í hópnum voru fulltrúar minni- og meirihlutans og langar mig að þakka þeim öllum samstarfið. Sérstakar þakkir fær starfsmaður hópsins, Lóa Birna Birgisdóttir, verkefnastjóri á mannauðsskrifstofu. Í endurskoðaðri stefnu og verklagi var tekið tillit til ábendinga sem borist hafa frá aðilum mála af þessu tagi sem og til umsagna og ábendinga frá starfsfólki með reynslu af vinnslu þessara mála í borginni. Leiðsögn er varðar persónuverndarmál sótti hópurinn til Persónuverndar. Í nýrri endurskoðaðri stefnu og verklagi eru nokkrar afar góðar breytingar. Ríkari áhersla er lögð á forvarnir en í fyrri stefnu. Skilgreining á einelti er víkkuð, sérstakur kafli er um úrræði og leiðir til lausna. Allt verkferli er gegnsærra og sett eru inn skýr tímamörk rannsóknar. Gerð er skýrari grein fyrir því hvað felst í frumkvæðisathugun og settur er inn texti um óhæði rannsakenda. Það er von okkar að stefna þessi og verklag sem nú hefur fengið samþykki borgarstjórnar eigi eftir að nýtast.

Bókun Flokks fólksins undir 21. lið fundargerðar frá 14. mars er varðar myglu í skólahúsnæði:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill benda á að langvarandi skortur á viðhaldi og að ekki hafi verið sett fjármagn í þennan flokk er nú illilega að koma í bakið á borgaryfirvöldum  með mögulega miklum tilkostnaði og ómældum óþægindum fyrir foreldra og börn sbr. Fossvogsskóla. Útsvarsfé borgarbúa hefur sannarlega ekki verið sett í viðhald á húsnæði þar sem börnin í borginni sækja nám sitt. Hér hefur verið flotið sofandi að feigðarósi. Staðan væri ella ekki svona slæm og þessi vandi varð ekki til í gær heldur er uppsafnaður til margra ára. Lengi var ekki hlustað á kvartanir, ábendingar og upplýsingar og ýmis einkenni hafa verið hunsuð. Hefði viðhaldi verið sinnt og brugðist strax við fyrstu mögulegu vísbendingum hefði vandinn ekki orðið svona djúpstæður. Ljóst er að um­fangs­mik­illa fram­kvæmda er þörf. Hvernig á að bæta börnunum, foreldrum og starfsfólki þetta upp? Fram hefur komið að það er foreldri sem knúði á um út­tekt á skóla­hús­næði Fossvogsskóla. Það þurfti að knýja sérstaklega á um þetta, berjast fyrir að fá almennilega skoðun þegar börnin voru farin að veikjast vegna myglu og raka. Borgaryfirvöldum ber að hlusta á borgarbúa, heyra raddir þeirra þegar koma mikilvægar upplýsingar og ábendingar. Annað sýnir virðingarleysi gagnvart borgarbúum, foreldrum, börnum og starfsfólkinu.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum umræða um Gagnaveitu Reykjavíkur:

Það eru margir samtvinnandi þættir sem valda mengun og þá fyrst og fremst malbikið og síðan útblástur bifreiða. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í menguninni sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til slits á malbiki sem ekki er af bestu gæðum og mengunar sem af því hlýst, en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík. Helstu skaðvaldar eru þungaflutningabílar, rútur og strætó. Fólksbílar slíta malbiki sáralítið í samanburði við þungaflutningsbíla eftir því sem rannsóknir sérfróðra sýna. Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að draga úr mengun af völdum umferðar með því að skoða betur samsetningu malbiks og þá sérstaklega íblöndunarefnin, hvetja bíleigendur til að velja annað en nagladekk geti þeir það vegna aðstæðna sinna og öryggisþátta á ferðaleiðum þeirra. Einnig verður að gæta að tegundum salts og sands sem notað er til hálkuvarna á veturna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur jafnframt til að mynduð verði gróðurskjólbelti barrtrjáa meðfram götum. Barrtré halda ögnum, sem mynda svifryk, kyrrum. Mikilvægt er jafnframt að gera allt til að rafbílar verði gerðir að fýsilegum kosti.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Sósíalista að marka stefnu í launamálum sem kveður á um að hæstu laun þeirra sem starfa fyrir Reykjavíkurborg verði aldrei hætti en þreföld lægstu laun starfsmanna borgarinnar.

Það eru margir samtvinnandi þættir sem valda mengun og þá fyrst og fremst malbikið og síðan útblástur bifreiða. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í menguninni sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til slits á malbiki sem ekki er af bestu gæðum og mengunar sem af því hlýst, en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík. Helstu skaðvaldar eru þungaflutningabílar, rútur og strætó. Fólksbílar slíta malbiki sáralítið í samanburði við þungaflutningsbíla eftir því sem rannsóknir sérfróðra sýna. Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að draga úr mengun af völdum umferðar með því að skoða betur samsetningu malbiks og þá sérstaklega íblöndunarefnin, hvetja bíleigendur til að velja annað en nagladekk geti þeir það vegna aðstæðna sinna og öryggisþátta á ferðaleiðum þeirra. Einnig verður að gæta að tegundum salts og sands sem notað er til hálkuvarna á veturna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur jafnframt til að mynduð verði gróðurskjólbelti barrtrjáa meðfram götum. Barrtré halda ögnum, sem mynda svifryk, kyrrum. Mikilvægt er jafnframt að gera allt til að rafbílar verði gerðir að fýsilegum kosti.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðismann um aðgerðaráætlun í loftlagsmálum:

Það eru margir samtvinnandi þættir sem valda mengun og þá fyrst og fremst malbikið og síðan útblástur bifreiða. Aðrir þættir eins og sandur og salt sem borið er á götur og gangstíga yfir veturinn eiga sinn þátt í menguninni sem og slit á dekkjum. Nauðsynlegt er að horfa til slits á malbiki sem ekki er af bestu gæðum og mengunar sem af því hlýst, en einnig vegna þeirrar hættu sem skapast þegar malbik er orðið illa slitið eins og víða er í Reykjavík. Helstu skaðvaldar eru þungaflutningabílar, rútur og strætó. Fólksbílar slíta malbiki sáralítið í samanburði við þungaflutningsbíla eftir því sem rannsóknir sérfróðra sýna. Flokkur fólksins leggur til að leitað verði leiða til að draga úr mengun af völdum umferðar með því að skoða betur samsetningu malbiks og þá sérstaklega íblöndunarefnin, hvetja bíleigendur til að velja annað en nagladekk geti þeir það vegna aðstæðna sinna og öryggisþátta á ferðaleiðum þeirra. Einnig verður að gæta að tegundum salts og sands sem notað er til hálkuvarna á veturna. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur jafnframt til að mynduð verði gróðurskjólbelti barrtrjáa meðfram götum. Barrtré halda ögnum, sem mynda svifryk, kyrrum. Mikilvægt er jafnframt að gera allt til að rafbílar verði gerðir að fýsilegum kosti.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram reglur Reykjavíkurborgar um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk:

NPA (notendastýrð persónuleg aðstoð) er nú orðin lögbundið þjónustuform. Því ber að fagna að reglur borgarinnar um þá þjónustu hafa verið samþykktar. Ríkissjóður veitir framlag til ákveðinna fjölda NPA samninga á innleiðingartímabilinu frá 2018 til 2022. Það er ótækt að bráðabirgðarákvæði laga um notendastýrða persónulega aðstoð skuli takmarka fjölda samninga á þann hátt sem gert er. Eins og þetta lítur út núna eru nokkrar áhyggjur að einhverjir eigi eftir að þurfa að bíða eftir þjónustu. Til að hægt sé að gæta jafnræðis og alls réttlætis þarf nægjanlegt fjármagn að fylgja inn í málaflokkinn. Annars verður þessi þjónusta ekki fullnægjandi. Miða við reynslu og þær umsóknir sem fyrir liggja er ljóst að sá fjöldi sem áætlaður er muni ekki duga til að koma til móts við þá þörf sem fyrir liggur og þau réttindi sem fólk með sérstakar stuðningsþarfir á samkvæmt lögum 38/2018. Fjölmargir þættir eiga eftir að koma betur í ljós þegar reynsla kemur á reglugerðina og framkvæmdina. Þegar kemur að endurskoðun leggur borgarfulltrúi  Flokks fólksins mikla áherslu á að notendur sjálfir og hagsmunasamtök leiði þá endurskoðun.

Umræða um myglu í húsnæði leik- og grunnskólum:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill benda á að langvarandi skortur á viðhaldi og að ekki hafi verið sett fjármagn í þennan flokk er nú illilega að koma í bakið á borgaryfirvöldum  með mögulega miklum tilkostnaði og ómældum óþægindum fyrir foreldra og börn sbr. Fossvogsskóla. Útsvarsfé borgarbúa hefur sannarlega ekki verið sett í viðhald á húsnæði þar sem börnin í borginni sækja nám sitt. Hér hefur verið flotið sofandi að feigðarósi. Staðan væri ella ekki svona slæm og þessi vandi varð ekki til í gær heldur er uppsafnaður til margra ára. Lengi var ekki hlustað á kvartanir, ábendingar og upplýsingar og ýmis einkenni hafa verið hunsuð. Hefði viðhaldi verið sinnt og brugðist strax við fyrstu mögulegu vísbendingum hefði vandinn ekki orðið svona djúpstæður. Ljóst er að um­fangs­mik­illa fram­kvæmda er þörf. Hvernig á að bæta börnunum, foreldrum og starfsfólki þetta upp? Fram hefur komið að það er foreldri sem knúði á um út­tekt á skóla­hús­næði Fossvogsskóla. Það þurfti að knýja sérstaklega á um þetta, berjast fyrir að fá almennilega skoðun þegar börnin voru farin að veikjast vegna myglu og raka. Borgaryfirvöldum ber að hlusta á borgarbúa, heyra raddir þeirra þegar koma mikilvægar upplýsingar og ábendingar. Annað sýnir virðingarleysi gagnvart borgarbúum, foreldrum, börnum og starfsfólkinu.

Tillögu um talmeinaþjónustu í grunnskólum var vísað frá af meirihlutanum með eins manns meirihluta þeirra. Tillagan hljóðaði svona:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að grunnskólar í Reykjavík sjái börnum fyrir áframhaldandi talmeinaþjónustu í grunnskóla sé það faglegt mat að frekari þjónustu sé þörf

Bókun Flokks fólksins er eftirfarandi:
Með því að vísa þessari tillögu frá finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins borgarmeirihlutinn ekki skilja mikilvægi þess að börn sem þarfnast talmeinaþjónustu fái áframhaldandi þjónustu í grunnskóla þarfnist þau þess að mati fagaðila. Börn sem þarfnast þjónustu eins og þessarar líða fyrir alla bið eftir þjónustu og verði þjónustan endasleppt þegar þau útskrifast úr leikskóla getur skaðinn orðið heilmikill. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bara leggja áherslu á þá vanlíðan sem börn eru oft í sem glíma við vanda af þessu tagi. Þetta er spurning um að geta tjáð sig án erfiðleika, félagslegt öryggi og sjálfsmyndina. Staða barna sem þurfa áframhaldandi þjónustu í grunnskóla en fá hana ekki er grafalvarleg. Er það virkilega niðurstaða borgarmeirihlutans að skilja þessi börn eftir í lausu lofti, sérstaklega börnin sem foreldrar hafa ekki efni á að greiða fyrir talmeinaþjónustu á stofu út í bæ?

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að grunnskólar í Reykjavík sjái börnum fyrir áframhaldandi talmeinaþjónustu í grunnskóla sé það faglegt mat að frekari þjónustu sé þörf

Þegar kemur að frávikum í máli og tali eins og öðrum vanda eða röskun sem börn kunna að glíma við skiptir snemmtæk íhlutun miklu máli. Ekki er síður mikilvægt að barn sem glímir við röskun af einhverju tagi þ.m.t. málþroskaröskun eða ef það stamar eða á í erfiðleikum með framburð að það fái fullnægjandi þjónustu eins lengi og þurfa þykir að mati fagaðila. Málþroski snertir við fjölmörgu í lífi barnsins. Góður málþroski er undirstaða bóklegs náms og hefur áhrif á tjáningu og almenn félagsleg samskipti. Það eru grundvallar mannréttindi að geta tjáð sig og skilið aðra. Málþroskaröskun eða önnur talmein sem ekki fá fullnægjandi meðhöndlun geta haft afar neikvæð áhrif á sjálfsmynd barnsins og dregið úr félagslegu öryggi þess. Undanfarin ár hefur orðið aukning á tilvísunum til talmeinafræðinga og til sérfræðiteyma þjónustumiðstöðvanna. Talið er að um 10% barna á hverjum tíma þurfi aðkomu talmeinafræðings vegna vægari eða alvarlegri vanda. Biðlisti til talmeinafræðinga hefur verið vandamál í Reykjavík eins og í aðra þjónustu á vegum borgarinnar. Annar vandi er að þegar barnið kemur í grunnskóla fær það ekki lengur þjónustu talmeinafræðinga á vegum skólans.
 
Greinargerð
Í dag eru starfandi talmeinafræðingar á þjónustumiðstöðvum borgarinnar. Einnig eru talmeinafræðingar starfandi á Miðgarði og Heyrnar og talmeinastöð Það er sérstakur samningur á milli Velferðarráðuneytis og sveitarfélaga sem gengur út á að hjálpa börnum sem falla undir ákveðin viðmið hvað varðar málþroska og framburð. Börn sem eru með alvarlegri frávik fá þjónustu eftir eðli vandans hjá talmeinafræðingum sem starfa fyrir Sjúkratryggingar Íslands.
 
Í ljósi þess að takmörk eru á hversu marga tíma börn í leikskóla geti fengið hjá talmeinafræðingi frá þjónustumiðstöð viðkomandi hverfis, er ákveðinn fjöldi barna sem ekki næst að hjálpa með fullnægjandi hætti á meðan þau eru í leikskólanum. Þessi hópur þarf bæði fleiri tíma í leikskólanum og síðan áframhaldandi meðferð og eftirfylgd talmeinafræðinga þegar komið er í grunnskóla. Þá þurfa kennarar og foreldrar einnig ráðgjöf og stuðning til að koma megi sem best til móts við barnið.
 
Ef barnið uppfyllir ekki viðmið sjúkratrygginga til þess að fá niðurgreiðslu fyrir þjónustu talmeinafræðings þá þurfa foreldrar eins og staðan er í dag að greiða fullt verð í þeim tilvikum sem barnið þarf frekari þjónustu eftir að komið er í grunnskóla. Til að gæta þess að öll börn fái þá þjónustu sem þau þarfnast og að börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra sinna þurfa grunnskólar í Reykjavík að hafa talmeinafræðinga á sínum vegum eða í það minnsta getað kallað þá til eftir þörfum. Börn sem glíma við slakan málþroska glíma einnig stundum við annars konar vanda sem dæmi ADHD eða einhverfu. Þess vegna skiptir þverfagleg nálgun sköpum. Ef vantar aðkomu talmeinafræðinga þá vantar hlut í þá heildstæðu nálgun sem barnið nauðsynlega þarfnast.
 
Viðmiðin til þess að fá niðurgreiðslu hafa verið þrengd verulega á undanförnum árum þannig að færri börn fá niðurgreiðslu en ella. Þessum grunnskólabörnum er því mismunað eftir því hvort foreldrar þeirra hafa efni á og getu til þess að leita til einkarekinnar stofu með talmeinafræðingum. Þrátt fyrir að nokkrir sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar séu til staðar í Reykjavík er biðlisti víða 400 börn samkvæmt nýlegri könnun FTÍ (Félags talmeinafræðinga á Íslandi) og augljóst að það er ekki þjónustuúrræði sem hægt er að vísa í þegar tími skiptir máli. Það samkomulag sem var gert árið 2014 milli sveitarfélaga og velferðarráðuneytis hefur að mati fjölmargra talmeinafræðinga ekki verið að virka sem skyldi þar sem það þjónar ekki þeim sem þurfa mest á aðstoð að halda. Upphaflega var þetta samkomulag hugsað sem einhvers konar bráðabirgðasamkomulag og vilja margir meina að sé barn síns tíma. Þeim sem þekkja til þessa málaflokks telja að það þurfi endurskoða þetta samkomulag með það í huga að fella það úr gildi þannig að talmeinafræðingar hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum myndu sinna málum eftir þörfum og aðstæðum hvers og eins, óháð því hvaða málþroskatölu hann hefur, heldur í samræmi við heildstæðan vanda, sem er oft mikill og flókinn í tilfellum skjólstæðinga talmeinafræðinga.
Það er mikilvægt að talmeinafræðingar fái svigrúm til að sinna þjálfun og vinnu með börnum og starfsfólki á gólfinu en sinni ekki einungis greiningum. Greiningar eru vissulega grundvallaratriði til að veita barni skilvirka og markvissa einstaklingsþjónustu. Það þarf þó að setja þak á hversu oft má greina barn án þess að þjálfun sé veitt í kjölfarið. Að greina án íhlutunar er siðferðislega rangt. Ekki ætti að greina barn oftar en 1 sinni á ári án þess að markviss íhlutun hafi farið fram. Veita þarf nægju fjármagni til að hægt sé að vinna eftir greiningum með það að markmiði að barnið fá fullnægjandi aðstoð. Auk þess þarf að vinna með börnin eins lengi og þurfa þykir.
Talmeinafræðingar þurfa einnig að hafa svigrúm til að þjálfa starfsfólk og foreldra, veita handleiðslu og ráðgjöf eftir þörfum og þekkingu hverju sinni til að tryggja góða þjónustu. Talmeinafræðingar eru með mikla sérþekkingu á málþroska og læsi og ýmsum þroskafrávikum sem og margtyngi. Talmeinafræðingar þurfa einnig nauðsynlega að koma að vinnu í fjölmenningarlegu umhverfi einkum þar sem sér- og fagþekking er lítil innan skóla en svo er um marga leik – og grunnskóla í Reykjavík.
Verkefnið Okkar mál þar sem málörvun 6 ára barna í Fellaskóla er sinnt hefur gengið mjög vel sem og talþjálfun í leikskólunum Holti og Ösp. Mælingar á læsi eru að koma betur út hjá börnum úr þessum leikskólum heldur en áður. Gerðar voru mælingar á málþroska við upphaf verkefnisins (haust 2017). Þá hlutu foreldrar, starfsfólk og deildarstjóra mikla og markvissa fræðslu um mikilvægi málþroska. Börnin fengu talþjálfun inni á leikskólum og talmeinafræðingar unnu einnig inni á deildum með starfsfólki. Nú í haust var þessum börnum fylgt eftir og hafa þar hlotið einstaklingsmiðaða talþjálfun þar sem svo ber undir. Það er augljóst af þessu verkefni hversu mikla sérfræðiþekkingu, utanumhald og eftirfylgd þarf til að vel takist til hjá hópi sem er í viðkvæmri stöðu, þ.e. með fleiri en eitt mál, veikt félagslegt bakland og/eða með aðrar raskanir, t.d. málþroskaraskanir.
Ákveðinnar tiltektar er þörf í þessum málaflokki og umfram allt ber Reykjavíkurborg að sjá til þess að ekkert barna sem þarfnast áframhaldandi talmeinaþjónustu falli milli skips og bryggju þegar kemur að því að hefja grunnskólanám. Frekari þjálfun má aldrei verða háð því hvort foreldrar hafi efni á því að veita barni sínu hana.

Forsætisnefnd
15. mars 2019

Borgarráð
14. mars. 2019

Bókun Flokks fólksins við svari frá Félagsbústöðum við fyrirspurn um lögfræðikostnað:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar skjótt og skýrt svar frá framkvæmdarstjóra Félagsbústaða um sundurliðun lögfræðikostnaðar. Það er leitt að sjá hvernig Félagsbústaðir hafa eytt tæpum 112 milljónum í lögfræðikostnað undanfarin 6 ár. Stærstu póstarnir eru Málþing ehf, Lögheimtan og Mótus eða um 100 milljónir. Lögfræðikostnaður vegna innheimtumála nam tæpum 65.8 milljónum eða um 12.3 mkr á ári. Borgarfulltrúa finnst miklu fé hafa verið varið í að innheimta af fólki sem margt hvert hefur e.t.v. enga möguleika á að greiða þessar skuldir. Er t.d. kannað hvað liggur að baki því að fólkið geti ekki greitt? Fólk skuldar varla að gamni sínu. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta harkalegar aðgerðir. Það er hægt að innheimta án þess að senda skuldina til lögfræðings. All margar kvartanir bárust borgarfulltrúa á síðasta ári um að Félagsbústaðir sigi á það lögfræðingum í sífellu. Það ætti að vera eðlilegt að bíða í lengstu lög að rukka fólk sem vegna lágra tekna eða erfiðra aðstæðna getur ekki greitt skuld sína. Hér mætti vel nefna þá sem hafa orðið fyrir skaða vegna myglu og raka í húsnæði Félagsbústaða. Ef horft er til sanngirnissjónarmiða má spyrja hvort þeir sem hafa búið í mygluhúsnæði hafi fengið einhverjar skaðabætur frá Félagsbústöðu jafnvel þótt alvarlegt heilsutjón hafi verið staðfest?

Svar Félagsbústaða

Tillaga Flokk fólksins um að umsóknarferli um fjárhagsaðstoð verði einfaldað

Umsóknarferli um fjárhagsaðstoð er óþarflega flókið í Reykjavík. Fyrst skal nefna að ekki eiga allir skilríki með mynd sem framvísa á þegar sótt er um og í þeim tilfellum þyrfti að finna aðra leið til staðfestingar að viðkomandi er sá sem hann segist vera. Þau gögn sem umsækjanda ber að reiða fram eru líka óþarflega ítarlegar t.d. upplýsingar um skráningu í nám og eða upplýsingar um greiðslur t.d. frá sjúkrasjóðnum eru dæmi um upplýsingar sem mættu e.t.v. missa sí.
Markmiðið ætti ávallt að vera að fá minnstu upplýsingar og unnt er að komast af með í slíkri umsókn. Sjálfsagt er að fá leyfi hjá viðkomanda að aflað verði upplýsinga um skráningu hans í nám við lánshæfar menntastofnanir, sbr. ákvæði 15. gr. reglnanna. Hafa skal í huga að mörgum reynist það afar erfitt að þurfa að það að sækja um fjárhagsaðstoð. Sumir upplifa það mjög niðurlægjandi og því er óþarfi að flækja þetta ferli meira en þörf er á. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að farið verði markvisst í að einfalda þetta ferli. Gæta þarf meðalhófs þegar kemur að öflun gagna og upplýsinga og almennt að reyna að gera fólki þetta ferli eins auðvelt og hægt er með því að einfalda það eins og frekast er unnt.

Greinargerð

Liður í að einfalda þetta ferli felst í því að skoða hvort verið er að kalla eftir óþarfa upplýsingum. Það að umsækjandi þurfi að framvísa minnisblaði atvinnurekanda sem staðfestir atvinnuleysi hans gæti t.d reynst erfitt. Þetta er því þáttur sem þarf að vera mjög sveigjanlegur. Vottorð þarf að koma frá Vinnumálastofnun og sérfræðilæknum ef viðkomandi hefur ekki verið fær um að sinna atvinnu. Vel má spyrja hvort að ekki sé farið offari hér í að ætlast til að viðkomandi skili þessu öllu. Að fá vottorð frá sérfræðilækni sem dæmi getur reynst erfitt. Af hverju ætti ekki að láta duga að fá vottorð frá heilsugæslu?  Í umsóknarferli segir að: hafi umsækjandi ekki skráð sig hjá vinnumiðlun, án viðhlítandi skýringa, missir hann hlutfallslega rétt til fjárhagsaðstoðar það tímabil. Þetta finnst borgarfulltrúa helst til of harkalegt. Eins kemur fram að: afgreiðsla umsókna stöðvast ef umsækjandi neitar að veita upplýsingar um fjárhag sinn og / eða maka síns eða aðrar upplýsingar sbr. 2. mgr. 8.gr. og 1.mgr. 9.gr. reglnanna. Sama má segja um þetta, hér er gengið of harkalega fram gagnvart fólki sem sækir um fjárhagsaðstoð. Hér væri nær að kanna af hverju umsækjandi vill ekki veita þessar upplýsingar. Ástæður gætu verið margar og án efa er hægt að vinna með langflestar þeirra.

Fólk á að geta sótt um á öllum tímum. Ef það þarfnast aðstoðar við að fylla út umsókn á það að geta hitt félagsráðgjafa án biðar. Nægjanlegt ætti að vera öllu jafnan að fólk sýni fram á útborgaðar tekjur og svo þau föstu útgjöld sem viðkomandi er að greiða, svo sem leigu, rafmagn, lán, tryggingar og þess háttar. Horfa ætti á það sem eftir stendur þegar búið er að greiða alla reikninga. Að sjálfsögðu er ákveðin viðmiðunartafla eftir fjölskyldustærð og barnafjölda og miða ætti við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara.  Ekki ætti að þurfa lengri tíma en eina viku til að fara yfir umsóknina en auðvitað er það líka matsatriði ef aðstæður eru þannig að viðkomandi getur ekki beðið í viku og hefur kannski aldrei komið áður, þá ætti að reyna að bregðast fyrr við

Framhaldsfyrirspurn vegna vistunarskuldar foreldra fyrir börn sín á frístundarheimili

Hversu mörg börn hafa hætt á frístundaheimili vegna þess að foreldri hefur ekkert aðhafst vegna vangreiddrar vistunarskuldar sinnar við borgina?
Í svari við fyrirspurn sem Flokkur fólksins hefur áður lagt fram um þetta kom fram að það eru þrjár leiðir í boði til að afturkalla uppsögn á vistun í frístundaheimili í þeim tilfellum sem foreldrar/forráðamenn hafa ekki greitt skuld sína.

Einnig kom fram í svari að ef skuldari aðhefst ekkert þá mun barn þurfa að hætta í frístundastarfi. Af þessu hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins miklar áhyggjur og óskar því eftir því að fá upplýsingar um hversu mörg börn hafa hætt á frístundaheimili vegna skuldar sem ekki hefur verið greidd eða samið um. Gott væri að fá þessar upplýsingar sem nær til síðustu 3ja ára.

Borgarráð
8. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við svari við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundaheimili vegna fjárhagsvanda
Svar borgarinnar 

Fram kemur að það eru þrjár leiðir í boði til að afturkalla uppsögn á vistun í frístundarheimili. Í öllum tilfellum er það skuldarans (foreldra/foreldris) að aðhafast eitthvað. Einnig kemur fram að ef skuldari aðhefst ekkert þá mun barn þurfa að hætta í frístundarstarfi. Af þessu hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins miklar áhyggjur. Hvers á barna að gjalda ef foreldri/skuldari aðhefst ekkert? Það hlýtur að vera öllum ljóst að barn á ekki að líða fyrir aðgerðarleysi foreldris sem semja ekki um skuld vegna frístundarheimilis. Hafa skal í huga að gildar ástæður kunna að vera fyrir því að skuldari aðhafist ekkert. Um ástæður er einfaldlega ekki alltaf hægt að vita. Að barn þurfi að gjalda fyrir aðgerðir eða aðgerðarleysi foreldris sem hér er í stöðu skuldara er óásættanlegt. Hugsanlega líður skuldar mjög illa yfir að skulda og skortir kjark til að hafa samband og aðhafast eitthvað. Ástæður geta verið fjölmargar eins og gengur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir þá kröfu til borgaryfirvalda að  undir engum kringumstæðum sé barn rekið úr frístundarstarfi jafnvel þótt foreldri/skuldari aðhafist ekkert vegna skuldar vegna vistunar barns á frístundarheimili.

Tillaga um að Reykjavíkurborg komi upp listamiðstöðvum/vinnurýmum fyrir frumkvöðla, einstaklinga sem vilja vinna að nýsköpun

Lagt er til að Reykjavíkurborg komi upp listamiðstöðvum/vinnurýmum  þar sem einstaklingar geta fengið vinnurými til að sinna listnýsköpun með það að markmiði að framleiða og selja vörur sínar. Einu skilyrðin fyrir að fá aðstöðu er að viðkomandi ætli að vinna að nýsköpun á persónulegu forsendum.

Enda þótt hér sé ekki um að ræða hóp í  „félagslegum vanda“ getur borgin engu að síður útvegað húsnæði og stutt einstaklinga í frumkvöðlavinnu sinni. Framsækið verkefni sem felst í að útvega aðstöðu fyrir fólk í nýsköpun í mörgum tilfellum getur orðið að einhverju miklu stærra í framtíðinni.

Útfærslan í grófum dráttum væri sú að boðið væri upp á opna bása í sameiginlegu rými og einnig lokað rými fyrir aðra sem það kjósa. Hér er tilvalið tækifæri til að nýta húsnæði sem er ekki tímabundið notað í annað sem dæmi. (húsnæði í biðstöðu) Leigu mætti þá stilla í mikið hóf.

Slíkar miðstöðvar hafa víða um heim reynst vera uppspretta mikilla tækifæra í nýsköpun og algengt er að samfélagið (skólar, sveitarfélög) taki þátt í að koma þeim á legg.

Bókun Flokks fólksins við skil og kynningu stýrihóps um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti áreitni og ofbeldi:
Borgarfulltrúi Flokks fólksins sem fór fyrir stýrihópi um endurskoðun á stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi vill þakka hópnum gott samstarf og sérstakar þakkir eru til starfsmanns hópsins, Lóu Birnu Birgisdóttur sem sinnir hlutverki sínu af alúð og fagmennsku.

Endurskoðuð stefna borgarinnar í eineltis- áreitnis- og ofbeldismálum 

Endurskoðun verkferill í eineltis- áreitnis- og ofbeldismálum

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um leigubílakostnað 2011-2018
Svar borgarinnar

Kostnaður sem hér um ræðir er hár að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, bæði notkun leigubíla og akstur á eigin bifreiðum í vinnutengdum verkefnum. Yfirmenn hvers sviðs, skrifstofu eða stofnunar ákveða hvaða starfsmenn hafa heimild til að nota leigubíla. Það er í höndum þeirra að stýra og bera ábyrgð á notkun leigubifreiða. Fram kemur að hluti af leigubílakostnaði er vegna aksturs með skjólstæðinga borgarinnar en hvað er það stór hluti af þessum tölum?
Eftir lestur á þessu svari koma óneitanlega upp spurningar um hvort aðhald kunni að skorta í þetta kerfi eða hvort ekki þyrfti að skoða skipulagið eitthvað nánar? Það er einnig sláandi að sjá hækkun sem hefur orðið t.d. frá 2011 til 2018 á kostnaði við leigubíla jafnvel þótt að skýra megi hækkunin að einhverju leyti vegna þess að árið 2014 var öllum aksturssamningum við starfsmenn borgarinnar sagt upp.  Árið 2011 er kostnaður rúmar 37 milljónir en 69. 5 milljónir árið 2018.

Framhaldsfyrirspurn: Hversu stór er sá hluti leigubílakostnaðar sem ekið er með skjólstæðinga borgarinnar síðust þrjú ár?

Bókun Flokks fólksins svari við fyrirspurn um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð: 

Fram kemur í svari að dómnefndarmenn voru þrír og fengu hver um sig greiddar kr. 150 þúsund fyrir dómnefndarstörfin. Trúnaðarmaður dómnefndar fékk greiddar 765.000. Ekki kemur fram umfang vinnu dómnefndar eða trúnaðarmannsins og eftir því er tekið að trúnaðarmaður dómnefndar fékk fimmfalt hærri laun en dómnefndarmenn fengu. Í ljósi þessa óskar borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir upplýsingum um hvað felst í því að vera trúnaðarmaður dómnefndar og hvert er umfang slíkrar vinnu.

Framhaldsfyrirspurnir í tengslum við svör við fyrirspurnum um launakostnað dómnefndar um listaverk í Vogabyggð

Óskað er upplýsinga um umfang vinnu trúnaðarmanns í dómnefndinni um listaverk í Vogabyggð sem fær 765 þús. fyrir að vera trúnaðarmaður dómnefndar um listaverk í Vogabyggð

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við erindi Hrafnistu um aðkomu að rekstri sundlaugarinnar
Svar borgarinnar

Sundlaugin við Hrafnistu hefur oft verið til umræðu á vettvangi borgarstjórnar enda var bygging hennar samvinnuverkefni Sjómannadagsráðs og Reykjavíkurborgar á sínum tíma. Reykjavíkurborg greiddi tæplega helming byggingarkostnaðar við mannvirkið á sínum tíma og ekki er óeðlilegt að hún komi einnig að viðhaldi þess og endurbótum.  Í heimsókn borgarfulltrúa Flokks fólksins til íbúa þjónustuíbúða við Norðurbrún og þeirra sem sækja þangað dagdvöl og félagsstarf kom fram að langþráð ósk þeirra er að sundlaugin verði opnuð að nýju.

Eins og fram hefur komið í svörum frá borginni við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins  hefur ekki verið veitt fé til viðgerðar hússins. Í upphafi var loftræsting ekki í lagi sem olli myglu og raka. Borgarfulltrúi Flokks fólksins furðar sig á aðgerðar- og andvaraleysi ábyrgðaraðila að leyfa þessari byggingu að fara svo illa sem raun ber vitni. Umrædd bygging er um 1.500 fermetrar að grunnfleti og var hún tekin í notkun árið 1997 eða fyrir 22 árum. Ekki er því hægt að halda því fram að stærð eða aldur byggingarinnar hafi torveldað eðlilegt viðhald hennar nema síður sé.

Fyrirspurnir í framhaldinu af bókun um sundlaugina á Hrafnistu

Óskað er eftir skriflegu svari við eftirfarandi spurningum: Af hverju var ekki hægt að halda umræddu húsnæði við, hafa eðlilegt og reglulegt viðhaldi í stað þess að láta það skemmast með þeim hætti sem raun ber vitni?  Hefur Reykjavíkurborg sem ábyrgðaraðili lært eitthvað af þessum mistökum?

Bókun meirihlutans:
Sjómannadagsráð á og rekur Hrafnistu. Í svari borgarstjóra við erindinu kemur fram að sundlaugin nýtist einkum gestum utan Hrafnistu. Bent er á að í sama borgarhluta rekur Reykjavíkurborg Laugardalslaug. Að auki opnaði á síðasta ári laug í hjúkrunarheimilinu við Mörkina. Báðar þessar laugar ættu að geta annað eftirspurn og þjónustu við þá borgarbúa sem vilja og þurfa að sækja sundlaugarnar í þessum borgarhluta á meðan Hrafnista finnur fjármagn til viðhalds og endurbóta við laugina.

Gagnbókun Flokks fólksins við bókun meirihlutans:
Reykjavíkurborg ber vissulega ábyrgð, Reykjavíkurborg lagði fram fé til byggingar hússins og sundlaugarinnar á sínum tíma. Það hlýtur að fela í sér einhverjar skyldur gagnvart viðhaldinu, a.m.k. siðferðilegar skyldur. Borgin hefur t.d. styrkt byggingu fjölmargra húsa í eigu íþróttafélaga. Borgin hefur einnig styrkt viðhald og endurbætur á þessum húsum enda litið svo á að hún beri ákveðna ábyrgð á þeim þar sem hún stóð straum af byggingu þeirra á sínum tíma. Auðvitað er hægt að togast á um þetta með ábyrgðina og sennilega ber borginni ekki lögbundin skylda til þess að sinna þessu viðhaldi. En eðlilegt að hún veiti fjárstyrk til viðhalds í sama hlutfalli og hún styrkti byggingu hússins á sínum tíma sem dæmi.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrarbraut:
Svar borgarinnar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur fengið svar um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrabraut og er hann áætlaður 270 mkr sem og svör er varða hljóðveggi. Fram kemur að ekki sé talið að steyptur veggur hefði verið ódýrari en hlaðnir grjótveggir né fljótlegri í framkvæmd. Borgarfulltrúi vill leyfa sér að draga orð skrifstofustjóra í efa enda er séð á svarinu að ekki hefur verið gerð sérstök könnun á því hvor tegundin af vegg sé ódýrari og fljótlegri.

Velferðarráð
6. mars 2019

Tillaga Flokk fólksins um að setja á laggirnar vinnuhóp um þróun félagsmiðstöðva aldraðra

Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði aðrar og nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og eflaust þjóna sínum tilgangi vel. Því hefur þó verið fleykt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Getur það verið vegna þess hvernig þær eru skipulagðar og uppbyggðar? Einnig ber að hafa í huga að þeir sem nú eru að hefja sín efri ár eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Menntunarstig þeirra er hærra og lífstíll annars konar en var þegar flestar þeirra félagsmiðstöðva sem nú eru starfræktar voru opnaðar.

Flokkur fólksins leggur til að settur verði í gang vinnuhópur sem beiti aðferðum nýsköpunar til að þróa nýjar þjónustuleiðir og afþreyingu fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.

Greinargerð
Það er mat í það minnsta sumra að tímabært sé að endurbæta starfsemi félagsmiðstöðva eldri borgara. Karlmenn sækja félagsmiðstöðvarnar og þeirra starf miklu minna en konur. Giska má á að hlutfallið sé  65/35 konum í vil, amk. er það tilfellið í sumum félagsmiðstöðvum. Starfsemin er með svipuðu sniði í flestum stöðvunum, eftir því sem hefur heyrst. Alls staðar er handavinna af ýmsu tagi, félagsvist, gömlu dansarnir, sums staðar leikfimi fyrir aldraða, kirkjustarf á vegum þjóðkirkjunnar, söngur, og víða gönguhópar. Hægt er að hugsa ýmislegt í þessu sambandi er varðar alls kyns virkni og tilboð á tómstundum og afþreyingu sem ekki hefur áður sést á félagsmiðstöðvum.

Aðalmálið er að hafa nægt framboð af áhugaverðum tilboðum þannig að fólki hafi ávallt val og eitthvað sé fyrir alla. Eldri borgarar eru eins og aðrir aldurshópar breiður hópur með ólíkar þarfir og áhugamál. Sums staðar er kínversk leikfimi, Boccia, Pútt, gönguhópur sem allt mætti vera víðar sem dæmi. Einnig mætti skoða að nota músik meira í starfinu til dæmis hlusta á gamlar grammófónplötur eða  hljómplötur frá bítlatímanum ofl.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins ræddi við nokkra eldri borgara og eru margir ánægðir en aðrir ekki eins ánægðir. Nokkrir voru sammála um að fátt sé í starfi amk einstakra félagsmiðstöðva sem höfðar til þeirra sem fæddir eru eftir c.a 1943-1950. Fleiri hugmyndir sem Flokkur fólksins vill benda á er að vel kann að vera að einhverjir eldri borgara vildu taka meira þátt í sjálfboðaliðastarfsemi en nú er í boði. Að skapa aðstæður þar sem eldri borgarar og börn geti hist og átt stund saman myndi gagnast öllum. Eldri borgarar hafa svo margt fram að færa, mikla reynslu og sögur frá fyrri árum. Það gleður hjarta þeirra að hitta börn og umgangast gæludýr. Allt svona lagað mætti auka. Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg fari i skoðun á þessu með það í huga hvort hægt er að breyta, bæta og nútímafæra starfið.

Tillagan samþykkt á fundi velferðarráðs 24.4.

Borgarstjórn 
5. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að gera Miðbakkann að almenningsrými:

Þetta er ágæt tillaga svo fremi sem áherslan er á almenning og að aðgengi að svæðinu sé gott einnig fyrir þá sem koma lengra að og koma akandi. Mikilvægt er að við skipulag á svæðinu verði sett inn bílastæði sem fatlaðir og aldraðir borgarar geti nýtt sér án fyrirhafnar og án vandkvæða. Sjá má fyrir sér að Reykjavíkurborg komi t.d. upp listamiðstöðvum/vinnurýmum  á þessum bletti þar sem einstaklingar geta leigt vinnurými til að sinna sinni list- og nýsköpun og þar sem markmiðið er framleiðsla og sala. Það er þó mikilvægt að stilla byggingarmagni í hóf og að engin bygging verði hærri en þrjár hæðir. Flokkur fólksins leggur til að svæðið verði skipulagt með tilliti til þeirra húsa sem eru vestan við Miðbakkann og að ekki verði leyfð hótelbygging á svæðinu. Gott væri að gera ráð fyrir að skip geti lagt að Miðbakkanum t.d. þegar konungur Danmerkur kemur í heimsókn, siglandi.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni um Samstarfsnet meirihlutans:

Eins og Flokkur fólksins hefur áður bókað þá er þetta Samstarfsnet ágætis tillaga að mörgu leyti enda samþykkti Flokkur fólksins hana í velferðarráði. Því er þó ekki að neita að áhyggjur eru af þeim veikleikum sem nefndir eru í gögnum, þá helst mögulegu tengslarofi við starfsmenn þjónustumiðstöðva og aukinnar yfirbyggingar á kostnað fjármagns í grasrótina. Ráða á framkvæmdarstjóra en samt ekki að setja í þetta fjármagn. Hvað verður skorið niður á móti þeim kostnaði? Ekki er ljóst hvernig þessi endurskipulagning kemur heim og saman við  starfsemi þjónustumiðstöðvanna né hvernig þær snerta starfsmennina. Er þetta viðbót sbr. nýr framkvæmdarstjóri eða er þetta upphafið á niðurlagningu  þjónustumiðstöðva eða í það minnsta sameiningu einhverra þeirra. Á þessu þyrfti að skerpa betur. Nú þegar er flækjustigið mikið og báknið stórt. Þarf ekki að tala aðeins skýrar um hvernig þetta á að vera á þessu stigi. Það skiptir öllu að vinna þetta í sátt við notendur þjónustunnar og starfsmenn. Loksins er farið að tala um að bið barna eftir þjónustu sé óásættanleg. Í dag eru börn að bíða mánuðum saman eftir þjónustu. Þegar börn eru annars vegar sem þarfnast hjálpar af einhverju tagi skal aðstoð veitt án biðar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillögur D flokks um kjarapakka Reykjavíkur:

Flokkur fólksins vill að borgin nái beint til þeirra sem verst eru settir þegar kemur að sérstökum aðgerðum til að liðka fyrir kjaraviðræðum. Reykjavíkurborg getur gert fjölmargt í þessum efnum til að létta á þeim hópi sem minnst hefur milli handanna. Borgin getur t.d. tekjutengt ýmsan kostnað sem dæmi skólamáltíðir, frístund, tómstundir og námskeið og aðra nauðsynlega þjónustu. Nú þegar er verið að koma til móts við þennan hóp að einhverju leyti en ganga þarf lengra og freista þess að ná fram meira jafnræði í þáttum sem eru nauðsynlegir og sjálfsagðir enda skal ekki mismuna börnum á grundvelli efnahags foreldra. Með því að einblína sérstaklega á þennan hóp með ákveðnar aðgerðir er ekki einungis verið að létta fjárhagslega á fjölskyldum og einstaklingum heldur er einnig verið að létta á áhyggjum og vanlíðan sem tengist því að ná ekki endum saman. Sé dregið úr streitu og kvíða foreldra mun það skila sér til barnanna. Aðgerðir sem gagnast fátækum jafnt sem efnamiklum leiða ekki til aukins jöfnuðar. Hvað varðar 4. lið tillögunnar sem hér um ræðir og varðar að byggingarréttargjöldum sé stillt í hóf er tekið undir mikilvægi þess almennt séð.

Tillaga Flokks fólksins um að innleið bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi bráðamóttöku og fæðingardeildar

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fela Reykjavíkurborg í  samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús að innleiða bifreiðastæðaklukkur í ákveðin stæði næst inngangi fyrir þá sem þurfa að leggja bíl sínum í skyndi vegna neyðartilfellis. Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu, jafnt í miðborgum sem og við aðstæður eins og hér um ræðir. Þessi möguleiki yrði  í boði við innganga  a.m.k. við  bráðamóttökur og fæðingardeild og aðrar deildir þangað sem fólk kann að þurfa að leita í slíkum flýti að það getur ekki tafið við að finna stæði og greiða stöðugjald. Bílastæðin skulu merkt til umræddra nota. Leyfilegur tími væri tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá. Hér er ekki meiningin að vera með nákvæma útfærslu á fyrirkomulaginu en sem dæmi mætti nálgast bifreiðaklukkuna í afgreiðslu t.d. bráðavaktar eða í móttöku í anddyri spítalans og á bensínstöðum.

Greinargerð

Um hríð hefur verið lagt á stöðugjald vegna lagningar bifreiða á bílastæðum við m.a. bráðamóttöku Landspítala – háskólasjúkrahúss í Fossvogi og við fæðingardeildina við Hringbraut og víðar við deildir sjúkrahússins. Samkvæmt upplýsingum frá Bílastæðasjóði er umrædd gjaldtaka til komin að frumkvæði Landspítala – háskólasjúkrahúss í því skyni að koma í veg fyrir að stæði þessi séu teppt fyrir þeim sem leita þurfa til viðkomandi stofnanir, ekki síst með bílum starfsmanna sjúkrahússins.

Það gefur auga leið að oft stendur svo á að fólk sem kemur á bráða- og neyðarmóttökur í bílum sínum getur ekki tafið við að fara að sjálfsala. Það verður til dæmis ekki með neinni sanngirni til þess ætlast að foreldri sem kemur eitt síns liðs með meitt barn á bráðamóttöku láti greiðslu stöðugjalds seinka hjálp handa barninu.

Viðbúið er hins vegar að þeir sem þannig geta ekki gefið sér tíma til að sinna greiðslu umkrafins stöðugjalds verði fyrir því að Bílastæðasjóður krefji þá um 6.000 kr. aukastöðugjald vegna vanrækslu á greiðslu fyrir not bílastæðisins.

Þeir sem koma að bifreið sinni eftir stundum erfiða reynslu inni á sjúkrahúsinu með áhengdri tilkynningu frá Bílastæðasjóði um álagningu aukastöðugjalds hljóta óhjákvæmilega að upplifa þá sendingu sem æði kaldar kveðjur samfélagsins í þeirri stöðu sem þeir eru.

Sú lausn að vera með gjaldtöku við mikilvæga innganga er ekki  viðhlítandi aðferð til að bregðast við vanda sem fólginn er í ónógum fjölda bílastæða fyrir starfsmenn og eða vangetu til að láta starfsmenn sjúkrahúss fylgja settum reglum um hvar þeir megi leggja bílum sínum. Er því tilefni til að bregðast við og er ofangreindri tillögu m.a. ætlað að bæta úr þessu ástandi.

Forsætisnefnd
1. mars 2019

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Yfirlit yfir móttökur

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áður lagt til að í yfirliti yfir móttökur komi fram sundurliðaður kostnaður við móttökuna og að fram komi hver (hverjir) óskaði eftir að móttakan færi fram og í hvaða tilgangi. Í yfirliti sem nú er birt kemur hvorugt fram. Það er mikilvægt að borgarbúar sem eru með útsvari sínu að greiða þessar móttökur geti fylgst með þeim, kostnaði og séu upplýstir um hver eigi frumkvæði að þeim.

Skipulags- og umhverfisráð
20. febrúar 2019

Tillaga Flokks fólksins um að teknar verði upp bifreiðastæðaklukkur í miðbæ Reykjavíkur

Lagt er til að Reykjavíkurborg innleiði bifreiðastæðaklukkur í þar til gerð merkt stæði í miðbænum og nágrenni hans. Bifreiðaklukkur eða framrúðuskífa eins og oft er kallað gæti komið að gagni ekki einungis í miðbænum heldur líka næst háskólanum og víðar.

Framrúðuskífan er notuð mjög víða á meginlandinu einmitt í borgum á stærð við Reykjavík. Framrúðuskífa hentar sérlega vel ekki bara fyrir borgir af þessari stærðargráðu heldur einnig á svipaðri breiddargráðu og Reykjavík. Misjafnt yrði eftir stæðum hversu lengi má leggja, frá einni upp í tvær klst. eftir því hve nálægt miðbænum stæðið er. Leyfilegur tími er tilgreindur á skiltum við stæðin. Sé bifreið lagt lengur en heimilt er, klukka rangt stillt eða engin klukka sjáanleg í framrúðu er lagt á stöðugjald skv. ákveðinni gjaldskrá.

Greinargerð:

Hér er um að ræða framrúðuskífu í stað gjaldmæla. Þetta fyrirkomulag hefur reynst vel t.d. á Akureyri og ríkir með það almenn ánægja. Hægt er að hafa þann tíma sem fólk leggur frítt breytilegan eftir staðsetningu. Reynslan á Akureyri hefur jafnframt verið sú að tekjur bílastæðasjóðs bæjarins urðu meiri. Sé farið fram yfir tímann hefst gjaldtaka og síðan sekt ef ökutæki er lagt fram yfir leyfilegan tíma. Með þessu fyrirkomulagi nýtast stæðin betur og leiða má sterkar líkur að því að verslun í miðbænum muni taka fjörkipp, verði þessu kerfi komið á. Eins og vitað er, er verslun t.d. á Laugavegi að dala og eru kaupmenn verulega uggandi, hinn almenni borgar leita frekar annað vegna hárra bílastæðisgjalda. Fjölmargar verslanir við Laugaveg eru nú að loka og flytja sig annað. Haldi sem horfi mun Laugavegurinn verða einungis með minjagripaverslanir.

Það er löngu tímabært að skoða til hlítar möguleika á að taka upp bifreiðaklukkur í Reykjavík í stað gjaldmæla og skorar Flokkur fólksins á borgaryfirvöld að koma á samstarfshópi borgarinnar og hagsmunaaðila í miðborginni sem myndu kynna sér betur kosti þessa kerfis með það fyrir augum að innleiða það. Með þessu kerfi eykst sparnaður umtalsvert við gjaldmælakostnað og viðhald á þeim.

Með tilkomu nýrra gjaldmæla hefur reynst auðvelt að taka stæði í gíslingu dögum saman án þess að hægt verði að beita sektarákvæðum. Það hefur borið við að á bifreiðastæðum fyrir framan hótel við Laugaveginn hafi bifreið staðið í sama stæðinu dögum saman, líklega meðan leigjandi/eigandi bifreiðarinnar hefur brugðið sér í nokkurra daga ferð út fyrir borgina. Þetta þarf að hindra að geti gerst og besta leiðin við því er að taka upp bifreiðarklukku. Hagkvæmni hennar er ótvíræð.

Borgarstjórn
19. febrúar 2019

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um tölvupóstsendingar
Svar borgarinnar

Spurningin var hvort reglur og lög leyfa að viðtakandi skeytis bæti öðrum við í samtalsþráð svarskeytis án fengins leyfis þess sem sendi skeytið upphaflega. Á þessu hefur borið í borginni. Í fljótu bragði er erfitt að greina svarið við fyrirspurninni í löngu svari borgarlögmanns. Flokks fólksins ákvað að leita með sömu fyrirspurn til Persónuverndar og fékk eftirfarandi svar:
Það hvort tölvupóstsamskipti megi áframsenda öðrum, s.s. með því að bæta nýjum viðtakendum við slík samskipti, verður að ætla að fari mjög eftir efni samskiptanna. Sé um að ræða samskipti um persónuleg málefni ætti svigrúmið til slíks að vera þrengra en ella. Lúti samskiptin aftur á móti að opinberum málefnum ætti svigrúmið að vera rýmra. Þá ætti eitt af viðmiðunum, sem líta þarf til, að vera það hvort um ræði samskipti sem varði hlutaðeigandi á einhvern hátt. Séu þau þess eðlis að þau falli undir rétt almennings til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2012 gæti krafan um góða stjórnsýsluhætti engu að síður falið í sér að fylgja þyrfti þessu viðmiði, þ.e. að því gefnu að ekki ræði um sendingu samskiptanna til að verða við aðgangsbeiðni á grundvelli laganna.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um svör við bréfasendingum
Svar borgarinnar

Í löngu, lagalegu svari er ljóst að reglur eru til en spurning er hvort farið er eftir þeim þar sem kvartanir eru svo tíðar sem raun ber vitni. Við yfirferð reglnanna er að finna skýringar á af hverju dráttur er á svörum. Í stjórnsýslulögum er nefnilega ekki að finna ákvæði um „fastan afgreiðslutíma“. Afgreiða skal mál „eins hratt og unnt er“ . Þetta er vissulega hægt að teygja og toga á alla kanta. Algengast er sennilega að ekki er svarað vegna mikilla anna og álags. Talað er um að svara erindum „án ástæðulausra tafa“. Hvað þýðir það? Ekki er heldur hægt að skilgreina „eðlilegur afgreiðslutími“ því það er sagt fara eftir málaflokkum. Í raun er þessa vegna hægt að tefja út í hið óendanlega að svara ef því er að skipta. Segir þó í reglunum „að láta skal vita af töfum“. Það er því miður bara oft alls ekki gert. Engar samræmdar reglur eru til um svörun erinda hjá borginni vegna þess að starfsemi er oft „margþætt og ólík“.
Tekið er undir það að kerfi borgarinnar er flókið sem hlýtur að koma niður á stjórnsýsluháttum. Við lestur þessara reglna má sjá að þær geti varla verið loðnari og óljósari sem skýrir af hverju ekkert lát er á kvörtunum frá þjónustuþegum borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um sölu bifreiða í eigu Félagsbústaða:
Svar borgarinnar

Þetta kann að þykja smámál en hafa skal í huga að fæstir myndu láta sér detta í hug að Félagsbústaðir eigi yfir höfuð marga bíla og að þeir séu að selja bíla til starfsmanna. Í ljósi slakrar ímyndar sem þetta fyrirtæki hefur, þótt vonandi horfi það til betri vegar þá vekur svona lagað upp tortryggni.

Við lestur svars framkvæmdarstjórans við fyrirspurninni vakna einnig upp nokkrar spurningar og þá fyrst, af hverju gátu Félagsbústaðir  ekki nota þessa gömlu bíla, ekið þá út eins og sagt er. Nú á fyrirtækið 3 nýja Renault fólksbíla í umsjá framkvæmdardeildar, einn nýjan í umsjá þjónustudeildar og einn Kia Sóul í umsjá fasteginaþróunar. Margir notendur þessa fyrirtækis eru bláfátækt fólk rúmlega 900 eru á biðlista. Því þætti það engum undrum sæta þótt upp komi spurningar þegar fréttist að Félagsbústaðir séu að selja starfsmönnum sínum bíla. Nú hefur verið staðfest að Félagsbústaðir eigi þrjá glænýja bíla. Svona upplýsingar eru einfaldlega ekki til að bæta laskaða ímynd Félagsbústaða. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn leggja til að stjórn Félagsbústaða fari að hugsa sinn gang í þessum efnum og gleymi því ekki að sá hópur sem fyrirtækið þjónar sættir sig ekki við hvað sem er.

Bókun Flokks fólksins við liðinn: Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort börn hafi þurft að hætta á frístundarheimili vegna fjárhagsvanda:
Svar borgarinnar:

Engu barni er vísað frá vegna þess að foreldar hafa ekki efni á að greiða vistunargjald frístundarheimilis segir í svari frá Skóla- og frístundarráði. Þetta svar er mikill léttir. Í svarinu er sagt að þetta svar hafi verið í fyrri umsögnum en ekki minnist borgarfulltrúinn þess. Borgarfulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig það er þá ef skuldin er aldrei greidd og hvort komi þá e.t.v. að skuldadögum einn daginn fyrir foreldrið?

Framhaldsfyrirspurn vegna skulda í frístund:
Í ljósi þessa svars er spurt hvort þá megi álykta sem svo að enda þótt skuldin sé aldrei greidd verði barni örugglega aldrei vísað frá?

Ef skuldin er aldrei greidd á tímabilinu sem barnið er í frístundinni verður hún þá felld niður eða mun koma að skuldadögum síðar og þá jafnvel eftir að barnið er hætt í frístund með öllu?

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um stefnumótun í sérkennslumálum:

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fara þess á leit við skóla- og frístundasvið:
a) að borgin móti sér heildstæða stefnu í sérkennslumálum.
b) að árangur sérkennslu verði mælanlegur á einstaklingsgrunni og milli skóla.
c) að fjármagn sérkennslu til skóla byggist á mælingum (fjölda, þörf o.s.frv.).
d) að sérkennslan verði skilgreind að fullu þannig að skýr greinarmunur verði á stuðningskennslu annars vegar og hins vegar sérkennslu sem kemur alfarið í staðinn fyrir bekkjarnámsefni jafningja sinna (hve margir nemendur eru í hvorum hóp, hvað er á bak við hvern hóp (greiningar, skimanir o.s.frv.
 
Greinargerð:
Í svari skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn Flokks fólksins um greiningar og sérkennsluþörf kemur eftirfarandi fram:
1. Að engin rannsókn eða heildarúttekt hafi verið gerð á framkvæmd sérkennslu í skólum borgarinnar og því sé ekki hægt að vita hvort sérkennslan sé að nýtast börnunum.
2. Kostnaður vegna sérkennslu beggja skólastiga fyrir árið 2017 var um 4,5 milljarðar á síðasta ári.

3. 30% nemenda grunnskólans eru að jafnaði í sérkennslu.

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alvarlegt að ekkert er vitað um hvort og þá hvernig sérkennsla er að nýtast börnunum og hver sé ávinningurinn fyrir börnin sem sum eru í sérkennslu, jafnvel alla grunnskólagönguna.
Skóla- og frístundasvið rennir blint í sjóinn með hvernig þetta fjármagn nýtist börnunum þar sem engar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Það sem rannsóknir hafa hins vegar sýnt og sjá má í tölum sem gefnar hafa verið út af menntamálaráðuneytinu er að um 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla.
 
Enn fremur segir í svari skóla- og frístundasviðs að:
1. Ekki er sótt um sérkennslu fyrir börn nema sterkar líkur séu á að þau þarfnist sértækrar aðstoðar oftast að undangengnum skimunum og mati með viðeigandi matstækjum.
2. Skimun, samræmd próf og námsmat er lagt til grundvallar við skipulag almennar sérkennslu í skólum.
3. Í þeim skólum sem hafa menntaða sérkennara eru námslegar greiningar á einstökum nemendum gerðar.
4. Ekki er vitað hvernig málum er háttað í skólum sem hafa ekki menntaða sérkennara.

Af þessu að dæma er margt í lausu lofti þegar kemur að sérkennslumálum í borginni. Skortur á heildrænni stefnu, yfirsýn og skýrum mælanlegum markmiðum koma fyrst og fremst niður á börnunum sem þarfnast þessarar þjónustu. Sérkennsla getur varað í langan tíma eða verið tímabundin. Sum börn eru í sérkennslu alla skólagöngu sína. Ekki heldur í þeim tilfellum virðist árangur vera mældur en hver skóli ber sjálfur ábyrgð á hvernig hann nýtir fjármuni til sérkennslu.

Hagstofa Íslands mælir að einhverju leyti árangur af sérkennslu og byggir á gögnum sem kallað er eftir frá skólum. Ekki er vitað hve nákvæmlega upplýsingarnar eru greindar eða hversu nákvæmar þær eru. Gera má þó ráð fyrir að upplýsingar séu til um fjölda barna sem eru í sérkennsluveri og/eða inni í bekkjum. Við öflun upplýsinga hlýtur að vera mikilvægt að gera greinarmun á hvort nemendur eru að koma einu sinni í viku til sérkennara eða daglega, og kannski í nokkrar kennslustundir í einu. Stór munur getur verið á því hvort nemandi er að koma einu sinni í viku í eina klukkustund eða einu sinni í viku í fjórar klukkustundir eða er í sérkennslu 10 tíma á viku kannski allt skólaárið og jafnvel með aðstoð inn í bekk að auki og hins vegar nemendur sem koma 2-4 kennslustundir í viku í afmarkaðan tíma, kannski í tvo mánuði eða skemur.

Sé ekki gerður greinarmunur á þessu er ekki skrýtið að hátt hlutfall grunnskólanema flokkist í sérkennslu. Hópur þeirra barna sem þarfnast sérkennslu er fjölbreyttur. Sumum nemendum nægir að fá að vinna í smærri hóp með leiðsögn þar sem þau fylgja engu að síður bekkjarnámsefninu. Aðrir nemendur hafa verið greindir með sértæka námserfiðleika eða annan námslega vanda sem kallar á sérefni, einstaklingsnámskrá og sér námsáætlun. Margir þessara nemenda eru einnig með stuðningsfulltrúa inn í bekk. Það getur verið erfitt fyrir sérkennara að vera með nemendahóp á breiðu getustigi. Við slíkar aðstæður má ávallt velta vöngum yfir hvort börnin séu að fá námslegum þörfum sínum fullnægt á sínum forsendum. Stundum er staðan þannig í skólum að erfitt er að skipta upp hópum vegna plássleysis.

Allt þetta hlýtur að koma til skoðunar þegar rætt er um árangur sérkennslu. Til að mæla árangur þurfa að liggja fyrir grunnmælingar í byrjun sérkennslu; skimanir, sálfræðigreiningar eins og WISC greindarpróf og önnur gögn. Niðurstöður liggja þá fyrir við upphaf sérkennslu og að ákveðnum tíma liðnum eru mælingar endurteknar og þá kemur í ljós hvort markmið er að nást að hluta til eða öllu leyti. Endurmat á sérkennsluþörf yrði síðan byggt á niðurstöðum prófana. Hér er annars vegar verið að ræða um einstaklingsmælingar en síðan skiptir ekki síður máli að mæla samræmt og þá fyrst er hægt að svara þeirri spurningu hvort sérkennsla sú sem verið er að veita börnunum sé að skila tilætluðum árangri.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Flokks fólksins, D og M að sveitarstjórnarráðuneytinu verði falið að skoða aðgerðir Reykjavíkurborgar í tengslum við kosningaþátttöku tiltekinna hópa

Borgin braut lög og það þarf að skoða af þar til bærum yfirvöldum sem er í þessu tilfelli sveitarstjórnarráðuneytið. Þeir sem brutu lög reyna allt hvað þeir geta til að dreifa athygli borgarbúa frá alvarleika málsins. Ákvörðun Persónuverndar er skýr og rakin í fjórum liðum. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd sem er ámælisvert. Í bréfi til unga fólksins var talað um skyldu þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað.  Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar þeirra. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum ella væri það í hættu. Konur yfir áttrætt var hópur sem var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra, heldur virkar það frekar niðurlægjandi. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng. Hér er aðeins eitt orð sem lýsir þessu best, sem er enska orðið „manipulation“, en ekkert íslenskt orð nær nákvæmlega  þeirri merkingu.  Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar gerir fátt annað en að skapa tortryggni, Þetta er réttlætt með því að segja þetta í þágu almannahagsmuna. Ekki er almennur skilningur manna að hér hafi almannahagsmunir verið í húfi.

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillögur um breytingar á skipulagi og stjórnsýslu Reykjavíkurborgar:

Tiltekt í borginni er löngu tímabær og stórtækra breytinga er þörf. Fyrirtækið Strategía segir skipurit borgarinnar flókið og ógegnsætt. Vandamál stjórnsýslunnar hafa ekki farið fram hjá neinum. Sannarlega þarf að skerpa á eftirlitshlutverkinu og framkvæmdarstjórnin þarf að vera sýnileg og ábyrg. Skemmst er að minnast braggamálsins, eftirlitslaust, framkvæmdarstjórnin týnd. Tekið er undir tillöguna um að innri endurskoðun og Umboðsmaður borgarbúa heyri beint undir borgarráð. Það sama ætti að gilda um borgarlögmann og borgarritara en þeir heyra undir borgarstjóra. Þessir embættismenn eiga að vinna fyrir alla borgarfulltrúa og borgarbúa. Meirihlutinn leggur fram 11 tillögur. Borgarfulltrúi vill bóka um 11. tillöguna en hún snýr að skilgreiningu á hlutverki borgarinnar sem eiganda B-hluta fyrirtækja þar með byggðasamlaga á borð við Strætó. Byggðasamlög eru eins og ríki í ríkinu sem eru ekki undir beinu lýðræði. Þar eru sérstjórnir sem ráðast af fjölda kjósenda. Ef þarf að vera með mörg byggðasamlög, væri ekki nær að sveitarfélög einfaldlega sameinist? B hluta fyrirtæki eru orðin svo aftengd borginni að fólk gleymir að þau eru borgarfyrirtæki. Vandi hefur verið með sum þessara fyrirtækja. Skemmst er að minnast Orkuveitunnar og Félagsbústaða en það síðara hefur haft á sér slæma ímynd í langan tíma. Áfram munu B hlutafélög heyra undir einn embættismann, borgarritara. Er það raunhæft?

Forsætisnefnd
15. febrúar 2018

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Tillaga að fá utanaðkomandi sérfræðing vegna endurskoðunar siðareglna. 

Tillaga Flokks fólksins um að fá utanaðkomandi sérfræðing vegna endurskoðunar siðareglna hefur verið vísað frá.  Framundan bíður að endurskoða siðareglur borgarinnar. Sú aðferð sem meirihlutinn vill keyra áfram í óþökk sumra fulltrúa minnihlutans er ekki líkleg til árangur. Hér er um að ræða tjasl og bútasaum sem meirihlutinn boðar og þykir borgarfulltrúa það ekki vænlegt til árangurs. Athuga skal að siðareglur er okkar allra í borgarstjórn og þykir það frekt af meirihlutanum að ætla að ákveða einn og sér með hvaða hætti á að vinna þessa endurskoðun. Mikilvægt er að fá sérfræðing og helst utanaðkomandi aðila sem leiðir þessa vinnu. Ekki er gerð krafa um að viðkomandi sé endilega sértækur sérfræðingur i siðareglum en hafi menntun og reynslu sem nýtist í vinnu sem þessa. Í þessu sambandi þarf einnig að skoða siðareglur embættismanna samhliða en reynslan hefur sýnt að það er nauðsynlegt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á enn og aftur að þær siðareglur sem eru nú í gildi hafa ekki verið virtar sem skyldi eins og dæmi sýna og því er mikilvægt að vanda til verks í þetta sinn.

Borgarráð
14.febrúar 2019

Bókun Flokks fólksins lögð fram að gefnu tilefni á fundi borgarráðs vegna afskipta meirihlutans á efni bókanna hjá minnihlutanum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst fulltrúar meirihlutans oft hafa gengið allt of langt í að reyna að hafa áhrif á bókanir fulltrúa minnihlutans og gert það með alls kyns ráðum, bæði með því að gagnrýna efni bókanna harðlega og sýna hneykslun og jafnvel fyrirlitningu í öllu sínu viðmóti og jafnvel ákveðnu atferli í verstu tilfellum.  Borgarfulltrúi vill minna á að bókunarvald borgarfulltrúa er ríkt.  Bókanir eru alla vegna eins og gengur, vissulega stundum harðorðar enda málin mörg alvarleg eins dæmin hafa sýnt undanfarna mánuði. Upp úr kafinu hafa verið að koma mörg mál sem hafa ekki einungis misboðið minnihlutanum heldur einnig mörgum borgarbúum. Mörg þessara mála hafa verið efni frétta í fjölmiðlum ítrekað, á öllum fjölmiðlum, ríkisfjölmiðlum sem öðrum, á samfélagsmiðlum og í umræðunni almennt séð. Þar hefur málum verið lýst í smáatriðum með upplýsingum um nöfn í þeim tilfellum sem þau eru opinber. Í bókunum sem hér er vísað til er einungis verið að bóka um mál sem eru á dagskrá og í engu tilfelli er verið að upplýsa um neitt nýtt sem ekki hefur verið fjallað um opinberlega. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir kröfu um að meirihlutinn láti af afskiptum sínum hvað varðar efni bókana enda eiga þau þess kost að gagnbóka óski þau þess.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Ákvörðun Persónuverndar varðandi vinnslu persónuupplýsinga úr kjörskrá fyrir sveitarstjórnarkosningar 26. maí 2018

Málið er háalvarlegt. Borgin braut lög. Upplýsingar um veigamikil atriði voru ekki send Persónuvernd er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Persónuverndar.  Í bréfi til unga fólksins var talað um að það væri skylda þeirra að kjósa ella væri lýðræðinu ógnað. Með þessum orðum er verið að leggja óþarfa ábyrgð á herðar ungs fólks. Eins og lýðræðið hvíli á þeirra herðum? Ef þeir mæta ekki til að kjósa er lýðræðinu ógnað? Hér er allt of sterkt tekið til orða og gætu einhverjum þótt sem fælist í  þessu einhvers konar þvingunarívaf. Fram kemur hjá Persónuvernd að rannsóknin var ekki til „að skilja lága og minnkandi kjörsókn ungs fólks“ enda skilaboðin gildishlaðin og röng.
Hópur eldri borgarana var aldrei hluti af þessari rannsókn. Engin rök eru fyrir að upplýsa konur yfir áttrætt um kosningarétt þeirra. Ef borgarfulltrúi reynir að setja sig í þessi spor þá virkar þetta allt að því niðurlægjandi.  Skýrsla Persónuverndar eru afgerandi og spyrja má hvernig snerta þessar niðurstöðu siðareglur og meðalhóf? Aðkoma sveitarfélags að könnun sem þessari rétt fyrir kosningar getur varla skilað trúverðugum niðurstöðum heldur skapar öllu heldur tortryggni. Rökin um almannahagsmuni í þessu sambandi passa illa hér enda ósennilegt að það sé almennur skilningur manna að hér séu almannahagsmunir í húfi.

Bókun Flokks fólksins vegna svars meirihlutans vegna fyrirspurnar Flokks fólksins um reglur og viðbrögð varðand  styrkveitingar

Flokkur fólksins telur að við veitingu verkefnastyrkja færi betur á því að greitt sé út samhliða verkframvindu og að lokagreiðsla sé greidd við verkefnislok. Þetta fyrirkomulag má sjá víða annars staðar t.d. hjá vísindasamfélaginu. Ef fyrirkomulag greiðslu er með þessum hætti eins og núna eru meiri líkur á að vafamál komi upp svo sem í þeim tilfellum þar sem ekki er ljóst hvort að verkefninu var að fullu lokið eða að framlag borgarinnar hafi verið notað í öðru skyni.

Tillaga um að borgin innleiði Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína með formlegum hætti og leggi sérstaklega áherslu á að fjallað verði um þau í leikskóla

Lagt er til að borgaryfirvöld samþykki að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem snúa að borgum og með formlegum hætti. Sérstaklega skal hugað að innleiðingu heimsmarkmiðana í allt leik- og grunnskólastarf borgarinnar. Heimsmarkmiðin eiga erindi til nemenda á öllum skólastigum og ekki síst til leikskólabarna.  Mikilvægt er að borgaryfirvöld samþykki að hefja markvissa vinnu að uppfærða börnin um Heimsmarkmiðin strax í leikskóla. Allt efni er hægt að fá að kostnaðarlausu hjá Félagi Sameinuðu þjóðanna og á netinu.  Grunnskólar eru hvattir til að  nýta sér þetta og að leggja áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Nú þegar ættu að vera komin veggspjöld með Heimsmarkmiðunum í alla skóla landsins, á öllum skólastigum. Hægt er að nýta veggspjöld til að gera markmiðin sýnilegri og þannig verði þau nýtt í auknum mæli til að leggja áherslu á mikilvægi hvers einasta heimsmarkmiðs enda eiga þau  erindi inn í alla okkar tilveru. Það er von Flokks fólksins að skólar finni fyrir hvata úr öllum áttum til að innleiða Heimsmarkmiðin og að sá hvati komi þá allra helst frá Reykjavíkurborg.

Greinargerð
Í þessari tillögu er lagt til að borgarstjórn samþykki að stefna borgarinnar samanstandi af  hlutverki, framtíðarsýn, gildum og yfirmarkmiðum sem eru fengin úr Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að setja starfseminni yfirmarkið og hvetja alla skóla borgarinnar til að innleiða þau í kennslu, starf og leiki með formlegum hætti. Eins og kveðið er á um í Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna á að vera skýrt í  stefnu borgarinnar að hlutverk hennar sé að tryggja lífsgæði íbúanna með góðri og fjölbreyttri þjónustu.  Grunnreglur eiga að miða að því að allir hafi tækifæri til áhrifa. Leggja skal áherslu á gott mannlíf, skilvirkan og ábyrgan rekstur ásamt öflugu atvinnulífi. Í framtíðarsýn felst að veita skal  framúrskarandi þjónustu þar sem hugsað er vel um líðan, heilsu og velferð íbúa á öllum aldri. Í Heimsmarkmiðunum er áhersla á að ákvarðanir skulu vera lýðræðislegar. Tryggja þarf að borgarbúar hafi fullt tækifæri til að hafa áhrif á eigin mál og eigið líf. Gildi og siðferði skal í öndvegi. Til að þessi hugmyndafræði skili sér sem best er mikilvægt að hefja innleiðingu strax í leikskóla. Með þeim hætti geta börnin byrja að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Þau eru framtíðin og koma til með að halda áfram þeim verkefnum sem hafin eru nú.

Borgarráð
7. febrúar 2018

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Samkeppni um listaverk í Vogabyggð:

Flokkur fólksins vill árétta að engin er að mótmæla mikilvægi listar í almenningsrými í sjálfu sér. Við yfirferð á kynningu á ferlinu í borgarráði vakna ýmsar spurningar s.s. eftir hvaða reglum voru þessir átta listamenn valdir af 164 sem sýndu samkeppninni áhuga. Fram hefur komið að ekki var valið eftir stöðluðum reglum að neinu leyti heldur var treyst á listrænan bakgrunn nefndarmanna. Enn og aftur vill áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins benda á margskonar ómöguleika þessa verks í ljósi þess við hvaða aðstæður því er ætlað að standa. Hæð hjúpsins er 10 metrar. Eitt af því sem áheyrnarfulltrúi hefur bent á varðar fugla sem setjast ætla á pálmana með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Alvarlegar athugasemdir eru gerðar við að borgarfulltrúar minnihluta og borgarráðs fá upplýsingar um vinningstillögunina og aðdraganda hennar fyrst í fjölmiðlum. Sýna hefði átt borgarráði hinar átta tillögur áður en tilkynnt var um vinningstillöguna. Þá hefðu borgarfulltrúar í það minnsta fengið tækifæri til að lýsa áliti sínu og umfram allt vitað hvers var að vænta áður en tilkynningin fór í fjölmiðla. Að upplýsa minnihlutann hefði verið sjálfsögð tillitssemi og virðing við hann. Með því er ekki verið að gera neins konar kröfu um að ákvörðunin um vinningstillöguna eigi að vera pólitísk að neinu leyti.

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna dagpeninga í utanlandsferðum

Lagt fram svar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 4. febrúar 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna dagpeninga í utanlandsferðum, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. september 2018.
Svar við fyrirspurn um dagpeninga

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um dagpeninga má sjá að greiðslur til kjörinna fulltrúa og starfsfólks í miðlægri stjórnsýslu á árunum 2016 og 2017 er 25 milljónir. Óskað var eftir upplýsingum um dagpeninga fyrir utan hótelkostnað. Fram kemur í svari að ekki er unnt að greina á milli dagpeninga og gistikostnaðar. Eftir því er tekið að hækkun milli ára hjá starfsmönnum er meira en helmingur frá 4,8 milljónum 2016 í 12 milljónir fyrir árið 2017. Áheyrnarfulltrúi vill í þessu sambandi benda borgaryfirvöldum á að „dagpeningakerfi“ er barn síns tíma. Það vita það allir sem farið hafa í vinnutengdar ferðir á dagpeningum að þessar greiðslur eru oft talsvert umfram það sem fólk þarfnast á ferðum. Þess utan er í mörgum ferðum boðið upp á fæði í það minnsta að hluta til. Dagpeningakerfið er dýrt kerfi. Mörg fyrirtæki hafa vikið frá þessu kerfi og eru komin með kerfi sem felur í sér notkun viðskiptakorts í eigu vinnuveitanda sem notað er í vinnutengdum ferðum. Í þessu felst hagræðing, gagnsæi  á sama tíma og það er tryggt að sá sem ferðast þarf ekki að leggja út neinn kostnað sjálfur í ferðalaginu hvort sem er fæði, ferðir innan borgar/staðar t.d. til og frá ráðstefnu/námskeiði eða annað sem kann að þurfa að greiða fyrir.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Kynning á endurskoðun skipurits og stjórnarhátta Reykjavíkurborgar

Fram kemur hjá sérfræðingum í kynningu á endurskoðun skipurits og stjórnarhátta Reykjavíkurborgar að skipurit borgarinnar sé orðið flókið og ógegnsætt. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur ekki farið varhluta af einmitt þessum vandamálum í stjórnsýslu borgarinnar. Sérfræðingar leggja til að gerðar verði stórtækar breytingar m.a. skerpt á eftirlitshlutverkinu og að framkvæmdarstjórn borgarinnar verði gerð mun sýnilegri. Öllum þessum tillögum ber að fagna enda bráðnauðsynleg tiltekt í borginni og löngu tímabær. Jafnframt kemur fram að vinna þarf betur með mannlega þáttinn og er tekið undir það. Fagna má þeirri tillögu að innri endurskoðun og umboðsmaður borgarbúa heyri beint undir borgarráð en borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst jafnframt að sama ætti að gilda um borgarlögmann og borgarritara en þeir heyra nú undir borgarstjóra. Það myndi gera hlutverk þeirra skarpara hvað varðar vinnu þessara embættismanna í  þágu allra borgarfulltrúa. Áherslan núna er að borgarritari og borgarlögmaður séu  „hægri hönd“ borgarstjóra. Einnig telur áheyrnarfulltrúi að B-hlutafélögin ættu að heyra beint undir borgarráð. Ekki þykir skynsamlegt að B-hlutafélögin með öllu sem þeim fylgir heyri undir einn embættismann, borgarritara. Nú er bara spurningin hvort meirihlutinn ætlar að taka á þessu mark og innleiða hugmyndirnar að fullu og að sjálfsögðu í góðu samráði við starfsmenn eins mikið og hægt er.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um raunhæfismat á útilistaverki í Vogabyggð

Nú hefur borgarstjórn samþykkt að verkefnið Pálmatré fari í raunhæfismat og vill Flokkur fólksins spyrja um nákvæmt yfirlit  yfir það ferli sem tekur við og hvernig það muni fara fram, hverjir taka þátt í því mati, hvernig og hverjir muni velja þá aðila sem koma til að leggja raunhæfismat á verkið og hvað mun ferlið kosta?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

Svar við framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um mötuneyti borgarinnar

Velferðarráð
6. febrúar 2019

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tillaga að útfærslu á nýrri starfsemi um stuðning við börn og fjölskyldur þeirra.

Samstarfsnetið lítur vel út. Meðal þess sem fram kemur er að eigi að leggja áherslu á er snemmtæka íhlutun. Á öllum stundum, áður, nú sem í framtíðinni ætti það ávallt að vera skylda stjórnvalda að bregðast strax við með einhvers konar stuðningsúrræði sýni barn vanlíðunareinkenni eða að það glími við einhvers konar vanda. Í kynningu kemur einnig fram að bið eftir þjónustu er langmest í skólaþjónustunni og hlýtur þá einnig að vera átt við biðlista til sálfræðinga. Skýring biðlista er sögð vera mannekla í hin ýmsu störf en varla er þar átt við sálfræðinga þar sem ekki er vitað til þess að sé skortur á þeim í Reykjavík. Bið eftir þjónustu til skólasálfræðinga er mjög langur þótt eitthvað sé hann mismunandi eftir hverfum.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Kynning á rannsókn á þörfum og væntingum þeirra sem bíða eftir félagslegu leiguhúsnæði

Þetta eru sláandi niðurstöður og sorglegt að aðstæður sumra fjölskyldna með börn séu svona slæmar í Reykjavík. Hér eru lýsingar sem eru á pari við lýsingar sárfátæks fólk i löndum sem eru langt því frá að vera eins rík og vel sett og Ísland og Reykjavík. Vel er hægt að ímynda sér angistina og óöryggið sem börnin í þessum aðstæðum eru að upplifa. Það fer gríðar illa með börn að búa í langvarandi óöryggi og skynja þau flest þegar þroski færist yfir, áhyggjur og jafnvel vonleysi foreldrana sem hefur síðan margföldunaráhrif á slæma líðan barnanna. Börn sem eru viðkvæm ná sér oft illa eftir að hafa þurft að búa við aðstæður sem þessar um jafnvel langan tíma. Nú eru 944 einstaklingar á biðlista eftir félagslegu húsnæði, 26% eru með börn á framfæri. Langflestir bíða eftir eins til tveggja herbergja íbúð en á þeim er skortur á meðan lúxusíbúðir standa auðar í miðbæ Reykjavíkur. Enn og aftur er hér dæmi um skakka forgangsröðun borgaryfirvalda undanfarin ár þar sem ekki hefur verið nægjanlega hugsað um þá borgara sem af fjölmörgum, ólíkum orsökum hafa ekki náð að fóta sig með fjölskyldur.

Kynning á rannsókn á þörfum og væntingum þeirra sem nota þjónustu Félagsbústaði

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Niðurstöður þjónustukönnunar á ánægju/óánægju notenda Félagsbústaða með þjónustu og viðmót.

Flokki fólksins finnst þessar niðurstöður nokkuð fegraðar enda allt spurning um túlkun. Ef rýnt er í niðurstöður ætti að tala frekar um óánægju þegar hlutfall ánægju nær ekki til mikils meirihluta. Allt hlutfall yfir 20% óánægju er óásættanlegt, hvað þá yfir 30% eins og í Breiðholti. Varðandi NPS-skorið þá er ekki svo ýkja mikill munur á hlutfalli þeirra sem myndu mæla með og þeirra sem myndu hallmæla. Það eru ekki góðar niðurstöður þó skorið sé jákvætt í 15% og lýsa vandamáli er varðar traust til kerfisins. Nær væri að túlka kvarðaspurningar með óánægju, segja að 22% þætti húsnæðið EKKI öruggt og að 28% væru ekki ánægðir með húsnæðið. Skynsamlegt væri að orða hlutinn á þeim nótum sem lausnirnar eru mótaðar til að það verði meiri hvatning fyrir aðgerðir frekar en að einblína á tæpan meirihluta sem ánægður. Í kaflanum um Framtíð: 55% er rúmur helmingur, ekki „meirihluti“, það er of sterk túlkun. Í kaflanum um Samskipti ætti að beina athygli að 41% sem þykir EKKI hafa tekist vel til við úrlausn mála sinna hjá FB. Það er mjög hátt hlutfall og ætti fókusinn frekar að vera á neikvæða hlutann, ekki þann jákvæða þegar það neikvæða er svona hátt.

Niðurstöður þjónustuönnunar Félagsbústaða

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Að borgin bjóði upp á  opna móttöku velferðarráðs

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði telja mikilvægt að kjörnir fulltrúar séu í góðum samskiptum við borgarbúa. Að bjóða upp á opna móttöku velferðarráðs væri góður vettvangur fyrir ráðsmenn og þjónustuþega til að ræða stefnu ráðsins og þjónustuna milliliðalaust. Varnagli þyrfti að vera á að einstaka mál þjónustuþega séu ekki tekin fyrir í opinni móttöku velferðarráðs. Beint samtal borgarbúa við ráðsmenn velferðarráðs gæti einnig verið skref í að auka traust á borgarstjórn.

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um upplýsingabækling um réttindi borgarbúa og þjónustu sem borgin veitir.

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg gefi út heildstæðan upplýsingabækling um réttindi borgarbúa á þjónustu sem borgin veitir. Allir borgarar eiga rétt á að vera upplýstir um þá þjónustu sem borgin veitir. Mikilvægt er að réttur þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu borgarinnar sé skýr og afdráttarlaus og að upplýsingar um helstu réttindi séu öllum aðgengilegar. Markmiðið með útgáfu bæklings er að veita þjónustuþegum greinargóðar upplýsingar um mikilvægustu réttindi. Í bæklingi af þessu tagi ættu einnig að vera veittar upplýsingar um ýmis sértækari réttindi og bent á leiðir til að afla ítarlegri vitneskju um margvísleg atriði sem varða réttindi. Í bæklingnum ætti einnig að vera hægt að finna upplýsingar um hvert hægt er að snúa sér ef viðkomandi vill gera athugasemdir eða leggja fram kvartanir vegna þjónustu innan borgarinnar.

Greinargerð:

Oft heyrist talað um að fólk viti ekki hver sín réttindi eru. Stundum vegna þess að það hefur ekki verið upplýst um þau og stundum vegna þessa réttindi hafa tekið breytingum og af einhverjum orsökum er sá sem njóta á réttindanna ekki meðvitaður um það. Ýmist reynir fólk að hringja til að fá upplýsingar eða leita að þeim á netinu. Það eru ekki allir sem nota netið með þessum hætti eða nota það yfir höfuð. Þeir sem reyna að hringja í starfsmann ná ekki alltaf sambandi auðveldlega eða sá sem óskað er eftir að tala við er oft fjarverandi eða upptekinn. Sé viðkomandi beðin að hringja til baka er allur gangur á hvort það verði gert. Oft er kvartað yfir því að illa gangi að ná í starfsmenn/fagfólk sem eru t.d. mikið á fundum, að skeytum sé ekki svarað og að ekki sé hringt til baka. Gera má því skóna að upplýsingabæklingur sem er skýr og aðgengilegur, jafnvel sendur í öll hús borgarinnar og sé einnig fáanlegur á helstu stofnunum borgarinnar muni leysa að minnsta kosti hluta þess vanda þeim sem hér er lýst.

Borgarstjórn
5. febrúar 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun undir liðunum: Lækkun hámarkshraða á í 40 km Hringbraut.

Þeir sem hafa tjáð sig um þessi mál eru ekki á einu máli um hvort lækkun hraða ein og sér dragi úr slysatíðni þar sem hraði á Hringbraut sé mögulega ekki eina vandamálið heldur einnig t.d. gölluð gönguljós. Bent hefur verið á af sérfræðingi að það vanti rauða og græna kallinn í ljósin fyrir gangandi. Gangandi sér ekki þegar ljósin skipta sér, t.d. þegar fleiri en einn ganga yfir þá grípa nemarnir bara annan aðilann. Þessi breyting mun vonandi hafa áhrif á ökumenn á brotlegum hraða til lækkunar á þeirra ökuhraða. Nauðsynlegt er að fara í róttæka úttekt á götunni til að finna leiðir til að auka öryggi gangandi og skoða hvernig megi hanna gönguþverun með tilliti til aukins öryggis gangandi og hjólandi vegfarenda. Allar tillögur eiga að vera lagðar fram í fullu samráði við hagsmunaaðila, íbúasamtök, Samgöngustofu, Strætó og aðra sem fara þarna um og þeim boðið að skila inn umsögn um málið. Einnig þarf að leita álits og umsagnar bæjarstjórnar Seltjarnarness, en þarna er um að ræða þjóðbraut inn og út úr þeirra bæjarfélagi. Það er samt ljóst að umferðaröryggismál á Hringbraut eru ekki í lagi hvað margt varðar. Það er um að gera að prófa þessa breytingu á meðan önnur úrræði eru ekki á teikniborðinu um umferðaröryggi á Hringbraut. Þá þarf að rannsaka í framhaldinu áhrif breytingarinnar á flæði, ökuhraða og öryggi á götunni.

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tillaga Sjálfstæðisflokksins að skoða útfærslu á rekstrarútboði fyrir þau sjö bílastæðahús sem sjóðurinn rekur í miðborg Reykjavíkur.

Í þessari breytingatillögu sem hefur verið samþykkt er enn rætt um rekstrarútboð. Flokki fólksins hugnast mjög að bæta rekstur bílastæðahúsa í Reykjavík en þó ekki með því að bjóða reksturinn út. Ástæðan fyrir því er sú að með því að fela einkaaðilum að sjá um rekstur bílastæðahúsa myndast einokunarstaða og hægt yrði að hækka gjöld á notendur og greiða rekstraraðilum arð. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir eða tryggja að þjónusta batni bara við einkavæðingu. Gjaldið þyrfti að hækka ef bæta á reksturinn eða hagræða með öðru móti og er þá ekki alveg eins gott að Bílastæðasjóður sæi áfram um reksturinn og fengi tekjurnar en gæti jafnframt bætt þjónustuna? Samkvæmt lögum um bílastæðagjöld á einungis að verja bílastæðagjöldum til uppbyggingar almenningsbílastæða. Það má svo vera önnur tillaga að Bílastæðasjóður standi sig betur í rekstrinum og þjónustunni við notendur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Viðbrögð við niðurstöðum átakshóps um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði

Í skýrslunni eru fjölmargar góðar tillögur. Ekki er þó sérstaklega fjallað um félagslega blöndun og mikilvægi þess að í hverfum séu fjölbreyttar gerðir húsnæðis á ólíku verðbili. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar þrátt fyrir að kveðið sé á um það í aðalskipulagi og má í því sambandi nefna Fellahverfið. Þar hefur fólk einangrast félagslega og menningarlega. Að vinda ofan af þeim mistökum gæti reynst þrautin þyngri fyrir borgarmeirihlutann. Mikilvægt er að gera ekki sömu mistökin aftur. Í Reykjavík hefur stéttaskipting vaxið síðustu ár. Bilið milli ríkra og fátækra hefur stóraukist. Þetta er átakanleg staðreynd í borg þar sem allir ættu að hafa nóg ef rétt væri haldið á spilunum. Einn liður í baráttunni gegn stéttaskiptingu er að hanna hverfi með þeim hætti að innan þess séu margar gerðir húsnæðis, misstórt og misdýrt hvort heldur um sé að ræða eign eða leiguhúsnæði. Verð íbúða ræðst einkum af stærð þeirra en einnig landgerðinni, gerð húsnæðis og hvort hægt sé að beita afkastamiklum vinnubrögðum við byggingu húsnæðisins. Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Skólar ættu að vera staðsettir þannig að nemendur komi bæði úr einbýlishúsa-, raðhúsa- og blokkakjarna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum :Lagt er til af Sjálfstæðisflokki að listaverkaeign Listasafns Reykjavíkur verði gerð sýnilegri í skólum borgarinnar í þeim tilgangi að efla áhuga nemenda á menningu og listum

Hugsunin á bak við þessa tillögu er góð og sjálfsagt að flytja þau listaverk sem hægt er og eru auðveld í flutningi út í skóla og stofnanir Reykjavíkurborgar. Í geymslum er sagður mikill fjöldi listaverka af alls kyns toga. Listaverk í geymslum eru engum sýnileg og þar að leiðandi engum til gleði. Sjálfsagt er að flytja eitthvað af þessum listaverkum t.d. í skóla og stofnanir til skreytingar. Einnig mætti skoða að leyfa íbúum úthverfa borgarinnar og hverfafélögum að velja skreytingar til að skreyta hverfin sín. Borgarmeirihlutinn er hvattur til að láta opna geymslurnar og sýna borgarbúum hvað þar er að finna og gefa þannig borgarbúum tækifæri til að gera upp við sig hvort þarna séu listaverk sem þeir vilja að skreyti nærumhverfið. Þegar kemur að skreytingum hafa úthverfin setið á hakanum. Það er ekki mikið um skreytingar í úthverfum og staðsetning þeirra er misgóð.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Meirihlutinn leggur til að listaverkið Pálmar fari í raunhæfnismat

Lagt er til af meirihlutanum að „leggja eigi mat á vinningstillögu um listaverkið í Vogabyggð.“ Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst það hjákátlegt að einungis sé verið að tala um að leggja „mat á raunhæfni“ vinningstillögunnar. Ekki er betur séð en almenningur og fjöldi sérfræðinga hafi nú þegar lagt mat á þetta verk og allt í sambandi við það. Það sem borgarmeirihlutinn þarf að gera er að hverfa frá þessu verkefni/ákvörðun umsvifalaust enda er hugmyndin arfavitlaus í víðum skilningi. Fyrst og fremst eru pálmatré, eins og þau sem sýnd eru á vinningstillögunni, plöntur sem þurfa ljós og nokkuð háan hita allt árið. Þetta eru hitabeltisplöntur þar sem 12 tíma dagur er og 12 tíma nótt. Hér er allt önnur ljóslota sem hitabeltispálmar eru ekki lagaðir að. Pálmi er planta sem á ekki heima hér. Til að aðlaga ljóslotu að þessum plöntum, þarf að lýsa að vetri til og myrkva á sumrin. Með lýsingu og hitun að vetri til myndast móða innan á glerhjúpnum, nema að það sé hindrað með einhverjum kostnaðarsömum aðgerðum svo sem þreföldu gleri og loftblæstri. Annað sem nefna má í þessu sambandi er að þá daga sem glerið er hreint er það lítt sýnilegt fuglum og þeir munu því fljúga á það þegar þeir ætla að setjast í tréð og margir þeirra rotast.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Sósiallistar leggja til að fela velferðarsviði að hefja viðræður við Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum um styrkveitingu utan umsóknartíma.

Flokki fólksins finnst mjög mikilvægt að Félag leigjenda hjá Félagsbústöðum þrífist og dafni. Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnaði mjög tilkomu þess og veit að gleði meðal þessa hóps með tilkomu félagsins var mikil enda þörf á félagi af þessu tagi einnig mikil. Hins vegar er ákveðinn skilningur að velferðarsvið geti ekki tekið þetta félag fram yfir önnur sambærileg hvað varðar sérstakan samstarfssamning við velferðarsvið. Breyta þyrfti reglum ef jafnræði ætti að ríkja gagnvart öðrum sambærilegum félögum sem velferðarsvið myndi þá gera samstarfssamning við. Komi til skoðunar á reglum í þessu sambandi myndi Flokkur fólksins fagna því.

Lögð fram tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fundir borgarstjórnar hefjist klukkan 10:00 í stað 14:00

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að láta vinna breytingar á samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar þannig að fundir borgarstjórnar hefjist kl. 10 fyrir hádegi á 1. og 3. þriðjudegi í mánuði í stað kl. 14. Samhliða þessu þarf að gera aðrar breytingar sem lúta að tímasetningu annarra funda og undirbúningi.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 11 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er nokkuð hissa á að meirihlutinn skuli vilja fella tillögu um að hefja fundi borgarstjórnar fyrr að degi til en þeir byrja kl. 14:00 ekki síst vegna þess að tal um að gera vinnustaðinn Borgarstjórn Reykjavíkur fjölskylduvænan eða fjölskylduvænni er ekki síst komið frá borgarfulltrúum meirihlutans. En sjálfsagt er hér eitthvað á ferðinni sem er meira í orði en á borði hjá meirihlutanum. Borgarstjórnarfundir eru einu fundirnir sem vara ávallt langt fram á kvöld og jafnvel fram yfir miðnætti enda hefur borgarfulltrúum verið fjölgað, eru núna 23 talsins. Flestir borgarfulltrúar mæta snemma til vinnu daginn eftir m.a. á skipulagða fundi. En eins og borgarfulltrúi Flokks fólksins sagði við flutning tillögunnar þá mun hann ekki gráta þótt þessi tillaga fái ekki brautargengi enda á hann ekki ung börn heima. En það eru margir aðrir í borgarstjórn í þannig fjölskylduaðstæðum, með ung börn heima. Talið var að borgarstjórn hefði hugsanlega viljað sammælast um þessa tillögu þannig að starfið og fundirnir verði nær eðlilegum vinnutíma. Allir í borgarstjórn eru atvinnumenn, þetta er þeirra aðalvinna og mikil vinna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum:
Lagt er til af Miðflokki að gerð verði mislæg gatnamót við Bústaðaveg/Reykjanesbraut í tengslum við aðrar framkvæmdir á svæðinu.

Flokkur fólksins styður tillögu um mislæg gatnamót við Bústaðaveg og Reykjanesbraut. Þetta stóð til en verkið hófst aldrei. Umferðarteppa sem þarna myndast er orðin háalvarleg, vissulega verst á ákveðnum tíma að morgni og seinni partinn. En í raun er vandamálið viðloðandi alla daga í mismiklum mæli þó. Borgarfulltrúi Flokks fólksins þekkir þetta vel enda er ein af þeim sem situr föst í umferð akkúrat á þessum stað oft í viku. Þeir sem hins vegar þurfa ekki að búa við þennan veruleika reglulega virðast engan veginn geta sett sig í þessi spor og vilja jafnvel tala niður þennan mikla vanda sem fjöldi borgarbúa sem býr við þetta er orðinn langþreyttur á og jafnvel vonlaus. Um leið og hálka myndast eða snjóar þá margfaldast þessi vandi. Á stuttum kafla við þessi gatnamót getur það tekið allt að 45 mínútum sem bílarnir bifast áfram með tilheyrandi mengun sem hlýst af því þegar stöðugt þarf að hemla og taka af stað aftur jafnvel mörgum sinnum á mínútu. Það gengur ekki lengur að hunsa þennan vanda. Hann hverfur ekki við það.

Umræða að beiðni Flokks fólksins um aðkomu minnihlutans að gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er dapurt að þurfa að sætta sig við að vera borgarfulltrúi í minnihluta sem hefur enga alvöru aðkomu að gerð fjárhagsáætlunar meirihlutans í borgarstjórn. Við í minnihlutanum getum vissulega komið með tillögur en þær hafa allar verið stráfelldar kerfisbundið og markvisst af meirihlutanum. Okkur í minnihlutanum er boðið á ýmsa fundi um fjármál en þá má bara horfa en ekki snerta. Í minnihlutanum eru 11 borgarfulltrúar, hópur sem er með meira atkvæðamagn að baki en meirihlutinn sem er með 12 borgarfulltrúa. Eðlilegt væri að minnihlutinn kæmi að þessu borði þegar fjárhagsáætlun er gerð og það með virkum hætti á öllum stigum fjármálaákvarðana. Hvernig á minnihlutinn að sinna hlutverki sínu ef hann hefur aldrei neina aðkomu að útdeilingu fjármagns, að ákvörðunum um fjármál á fyrstu stigum? Það er ósk borgarfulltrúa Flokks fólksins að á þessu fyrirkomulagi verði breyting. Það er í þágu allra borgarbúa að unnið sé saman. Þannig næst breiðari sýn og meiri sátt í borgarstjórn.

Forsætisnefnd
1. febrúar 2019

Tillaga er varðar endurskoðun siðareglna borgarinnar

Það hefur mikið verið rætt um siðareglur í borginni núna enda er komið að endurskoðun en eins og kunnugt er þá hafa þær verð þverbrotnar t.d. í braggamálinu þar sem ekki var leitað útboða þegar velja átti fólk til vinnu heldur leitað til vina eða kunningja vina sinna. Á fundi forsætisnefndar lagði Flokkur fólksins fram eftirfarandi tillögu:
Flokkur fólksins leggur til að fenginn verði utanaðkomandi sérfræðingur í siðareglum og siðfræði til að leiða endurskoðun siðareglna í borginni. Skoða þarf siðareglur embættismanna samhliða. Þegar talað er um að leiða endurskoðun er átt við að halda utan um þessa vinnu frá upphafi til enda. Eins og vitað er hafa þær siðareglur sem eru í gildi ekki verið að virka sem skyldi, eftir þeim hefur ekki alltaf verið farið eins og dæmi eru nýlega um. Vanda þarf til þessarar vinnu og umfram allt taka allan þann tíma sem þarf til að gera siðareglur þannig úr garði að allir sem eiga að fylgja þeim skilji þær og mikilvægi þess að fylgja þeim. „Brjóti“ einstaklingur siðareglur þarf að vera hægt að vísa málinu til utanaðkomandi siðanefndar til að fjalla um málið. Í þessu tilviki skiptir óhæði máli.

Borgarráð
31. janúar 2019

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Drög að nýjum samningsmarkmiðum Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á nýjum uppbyggingarsvæðum

Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst margt í þessum markmiðum í ágætum farvegi en veltir því þó upp hvort hægt sé að breyta hlutföllum meira í hverfum, t.d. auka vægi félagslegra íbúða eða minnka ef svo ber undir. Einnig mætti auka fjölbreytileika í hverfum. Nú eru smáheimili af öllum gerðum mikið í umræðunni sem og krafa um rými fyrir hjólhýsabyggð. Þegar verið er að ræða um uppbyggingu á nýjum svæðum þarf að horfa til allra átta og taka tillit til þess að þarfir og óskir sem og greiðslugeta borgarbúa er afar misjöfn. Sem dæmi í Vogabyggð er einungis talað um að 5 % íbúða séu félagslegar. Þetta er afar lítil prósenta í svo stóru hverfi og þarna hefði prósentan alveg mátt vera hærri.

Fylgigögn: Bréf borgarstjóra undir liðnum:Drög að nýjum samningsmarkmiðum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Fyrirspurn Flokks fólksins um jólaskreytingar, sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. nóvember 2018

Enda þótt jólaskreytingar séu ávallt skemmtilegt viðfangsefni og sannarlega ekki gaman að vera að agnúast út í þær er hér engu að síður um háa upphæð að ræða. Í þessu sambandi vill áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins minna á að ætíð skal gæta hófs, hagkvæmni og útsjónarsemi þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa. Það stingur einnig nokkuð í augu í þessu svari hversu stórt hlutfall það er sem fer í skreytingar í miðbænum. Í borginni eru fleiri hverfi.

Fylgigögn: Svar umhverfis- og skipulagssviðs

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins undir liðnum: Tækifærisleyfi til lengri opnunartíma til kl. 02.00 vegna árshátíðar Verzlunarskóla Íslands

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hafði samband við skólastjóra Verzlunarskólans til að kanna hvort fyrir liggi umsögn foreldrafélagsins vegna beiðni um að árshátíðin megi standa til 02:00 enda helmingur nemenda væntanlega undir 18 ára. Fram kemur í svari hans að ekki liggi fyrir formleg umsögn en ekki hafi borist neinar athugasemdir frá foreldrafélaginu. Enn fremur segir í svari frá skólastjóra að það sé góð samvinna milli skólans og foreldrafélagsins, t.a.m. kemur alltaf hópur foreldra (ca. 10 manns) sem aðstoða við vakt fyrir utan ballstaðinn við að halda röð og reglu og hjálpa til við að láta allt fara vel fram.

Fylgigögn:
Tækifærisleyfi – lengra leyfi vegna nemendamótsballs nemendafélags Verzlunarskóla Íslands – Hlíðarenda – Origo höllinni

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Yfirlit yfir fundi borgarstjóra með fulltrúum stjórnvalda í nóvember 2018.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi ítreka mikilvægi þess að oddvitar minnihlutans fari með borgarstjóra á fundi  með stjórnvöldum eftir atvikum. Í yfirliti sem hér er lagt fram undir þessum lið eru t.d. fundir með mennta- og menningarmálaráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra, lögreglustjóranum og forsætisráðherra. Með því að bjóða oddvitum minnihlutans að taka þátt í þessum fundum má leiða líkum að breiðari sýn á þau mál sem eru til umræðu hverju sinni svo ekki sé minnst á breiðari sátt í borgarstjórn.

Fylgigögn: Yfirlit yfir fundi borgarstjóra með stjórnvöldum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Tímabundið áfengisveitingaleyfi til kl. 04:30 aðfaranótt 4. febrúar nk. fyrir American Bar, Austurstræti 8-10, vegna Superbowl

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill bóka mótmæli sem honum hefur borist vegna tímabundinna áfengisleyfa í tengslum við Superbowl á American Bar í Austurstræti, aðfararnótt mánudagsins 4. febrúar 2019.
Í þessu sambandi er vísað í 4. grein lögreglusamþykktar frá 19. nóvember 2008: „Bannað er að hafast nokkuð að sem veldur ónæði eða raskar næturró manna. Lögreglustjóri getur bannað notkun hátalara, hljómflutningstækja, hljóðfæra eða annars þess háttar á eða við almannafæri ef ástæða er til að ætla að hún valdi verulegu ónæði eða truflun. Borgarstjórn getur bannað neyslu áfengis á almannafæri á tilteknum tíma á tilteknum svæðum í þéttbýli. Slíka samþykkt skal tilkynna lögreglustjóra og birta almenningi.

Fylgigögn: Tímabundið áfengisleyfi

Tillaga Flokks fólksins um að Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu

BORGARRÁÐ 8. nóvember 2018: Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að
Félagsbústaðir setji sér þjónustustefnu – R18110061
Lagt er til að borgarráð samþykki að leggja það til við stjórn Félagsbústaða að fyrirtækið setji
sér þjónustustefnu með áherslu á notendamiðaða hönnun. Notendamiðuð hönnun felst í því að
þjónustu skal hanna og skipuleggja út frá þörfum og sjónarhorni notenda hennar.

Greinargerð:

Allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar sem og þau sem eru í eigu borgarinnar eiga að hafa
skýra þjónustustefnu. Félagsbústaðir eru engin undantekning. Félagsbústaðir eiga að hafa
skýra þjónustustefnu þar sem finna má upplýsingar um þjónustuna og hvers þjónustuþegar
geta vænst hjá og af fyrirtækinu. Stefnan nýtist einnig starfsfólki við dagleg störf um leið og
hún setur viðmið og mælikvarða um þjónustu Félagsbústaða almennt.
Markmið þjónustustefnu er að uppfylla hlutverk sitt og veita þjónustuþegum góða þjónustu
Til þess að fylgja þessari stefnu eftir eiga stjórnendur og starfsmenn að leggja áherslu á að:
1. Sýna þjónustuþegum jákvætt viðmót, virðingu og kurteislega framkomu
2. Vera vingjarnleg og hjálpfús gagnvart þjónustuþegum Félagsbústaða
3. Þekkja hlutverk, stefnu og gildi Félagsbústaða
4. Sýna drifkraft í störfum sínum með frumkvæði, kjark og þor að leiðarljósi
5. Vinna saman að hagsmunum og framtíðarsýn og mynda þannig sterka liðsheild
5. Skapa traust þjónustuþega Félagsbústaða og sýna áreiðanleika og ábyrgð í verki.
7. Veita þjónustuþegum nauðsynlegar upplýsingar eftir atvikum
Árlega skal taka saman yfirlit yfir stöðu og framvindu þjónustumála.

Tillögunni er vísað frá: Umsögn Félagsbústaða

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að hafinn sé undirbúningur við mótun þjónustustefnu Félagsbústaða. Segir í svari að stefnan muni m.a. taka mið af þjónustustefnu Reykjavíkurborgar og ábendingum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem koma fram í tillögunni. Áheyrnarfulltrúa finnst að greina megi vísbendingar í framlögðu svari nýs framkvæmdarstjóra Félagsbústaða að hún sé vel meðvituð um mikilvægi þess að taka þetta skref og gera það af alvöru. Eins og flestir vita sem fylgst hafa með Félagsbústöðum í hinni almennu umræðu hafa kvartanir af ýmsu tagi borist m.a. vegna óásættanlegrar framkomu, neikvæðs viðmóts og fleira sem varðar samskipti fyrirtækisins við notendur þjónustu Félagsbústaða. Það er von borgarfulltrúa að nú verði gerðar grundvallar breytingar á Félagsbústöðum hvað þetta varðar enda er krafan einfaldlega sú að þjónustan verði framúrskarandi og að notendur hennar mæti aldrei öðru en virðingu, hlýju og skilningi í samskiptum sínum við Félagsbústaði.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að Félagsbústaðir setji sér siðareglur

Tillögunni er vísað frá: Umsögn Félagsbústaða

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins fagnar jákvæðum viðbrögðum sem lesa má í svari frá framkvæmdarstjóra Félagsbústaða við tillögu Flokks fólksins að gerðar verði siðareglur í samskiptum Félagsbústaða við leigutaka. Tillaga var lögð fram að gefnu tilefni en fjölmargar kvartanir af ýmsu tagi hafa borist áheyrnarfulltrúa sem gefa sterkar vísbendinga um að slíkra reglna er þörf. Árið 2017 var samþykkt leiðarljós í 6 liðum fyrir Félagsbústaði þar sem m.a. er kveðið á um starfsskyldur sem og má finna þar siðferðislegar leiðbeiningar. Í ljósi fjölmargra sumra alvarlegra kvartanna virðist sem umrætt „leiðarljós“ væri ekki að lýsa sem best alla vega ekki í öllum tilfellum. Í svari kemur fram að vinna standi yfir við mótun mannauðsstefnu og siðareglna sem vænta má að verði lagðar fyrir stjórn Félagsbústaða í mars. Þetta eru góð tíðindi. Eitt af því sem einkennir allar siðareglur er heiðarleiki. Félagsbústaðir væru ekki til nema vegna allra þeirra sem þarfnast þjónustu þeirra, þ.e. leiguhúsnæðis til að hafa þak yfir höfuðið. Önnur grundvallarlögmál siðareglna eru að starfsfólk forðist alla hagsmunaárekstra og misnoti ekki aðstöðu sína á nein hátt. Upplýsa skal um spillingu sem og ólögmæta eða ótilhlýðilega háttsemi verði hennar vart er meðal fjölmargra atriða sem ávarpa þarf í siðareglum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar reglur um styrki:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um hvaða reglur borgin styðst við  hvað varðar eftirfylgni verkefna sem hún styrkir og til hvaða ráða er gripið ef styrkþegar standa ekki við samninga?

Tillaga Flokks fólksins að reglur um styrkveitingar, sérstaklega skil verkefna séu samræmdar þeim sem gilda sem dæmi hjá vísindasamfélaginu og víðar.

Þar er m.a. almenna reglan að lokagreiðsla kemur ekki fyrr en skýrslu um framvindu verksins hefur verið skilað. Algengt er að við upphaf verkefnis fái  umsækjandi greitt 40% af heildarvilyrði fyrirfram. Lokagreiðsla fer fram þegar borist hefur staðfesting á að verkefni er að fullu lokið. R19010422

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um börn geti nýtt frístundakort borgarinnar til kaupa á sundkorti.

Mikilvægt er að víkka út notkunarmöguleika frístundarkortsins þar sem aðeins 70% til 80% barna er að nýta frístundarkortin sín, þó eitthvað misjafnt eftir hverfum. Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst að kortið eigi ekki einungis að dekka frístund heldur tómstundir og hreyfingu eins og t.d. almennar sundferðir. Markmið borgarinnar ætti að vera að öll börn í Reykjavík nýti frístundarkortið sitt til að iðka íþróttir, tómstundir eða til að sinna almennri hreyfingu í frítíma sínum. Til að þetta megi verða er mikilvægt að víkka út notendaskilyrðin og taka allt sem vitað er að geri börnum gott andlega og líkamlega inn í notkunarskilgreininguna. Þessi tillaga er liður í því.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar innkaup á jólaskreytingum:

Óskað er eftir upplýsingum um hvort jólaskreytingar hafi verið boðnar út.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins varða listaverkaeign í geymslum:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um listaverkaeign borgarinnar sem eru ekki í notkun (eru geymd í geymslum). Óskað er eftir lýsingu á þeim og sundurliðun annars vegar á innanhúslistaverkum og hins vegar verkum sem ætluð eru til skreytinga utanhúss.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lýsing við gangbrautir verði stóraukin og að líftími ljósa á ljósastaurum verði lengdur.

Til að auka öryggi gangandi vegfarenda þarf að stórauka lýsingu við gangbrautir, t.d. með því að auka ljósmagn á ljósastaurum, beina ljósi að gangbrautum sem liggja að brautum yfir vegi og/eða fjölga ljósastaurum. Einnig þarf að lengja líftíma ljósa sem þjóna gangandi vegfarendum.

Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrabraut:

Óskað er eftir upplýsingum um kostnað vegna framkvæmda við Kringlumýrarbraut, veggi og stíga. Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við hlaðna veggi í járngrindarbúrum á milli Miklubrautar og Tunguvegar. Sjá má hluta veggjanna frá horni Tunguvegar og Ásenda, vinna við þetta hefur staðið mánuðum saman. Líkur eru á að lagt hafi verið í óþarfa kostnað við framkvæmdir tengdar gangandi vegfarendum við Miklubraut. Hlaðnir veggir í járngrindarbúrum eru líklega dýrari en veggir úr jarðvegi og steinsteypu. Það þarf að réttlæta það sérstaklega ef farið er í dýrari framkvæmd en nauðsynleg er. Óskað er eftir viðbrögðum við þeirri fullyrðingu að ódýrara og fljótlegra hefði verið að steypa veggina.

Borgarráð
24. janúar 2019

Tillaga frá Flokki fólksins um að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að setja mörg svör/mál minnihlutans í eina og sama skjalið í dagskrá og í fundargerðir

Lagt er til og þess krafist að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að  setja mörg svör/mál, jafnvel frá fleiri en einum flokki minnihlutans í eitt skjal hvort heldur í dagskrá eða í fundargerð. Í titli skjalsins kemur ekki fram hvaða svör eru í skjalinu sem getur verið tugir blaðsíðna.  Sé ætlunin að leita að einu svari eða máli þarf viðkomandi í fyrsta lagi að vita að það er í skjalinu og síðan leita að því í margra blaðsíðna skjali. Þetta er ekki vinnandi vegur. Sé  það ætlun meirihlutans að þvinga þessa breytingu fram er verið að draga úr sýnileik þeirra mála sem minnihlutinn leggur fram í borginni með markvissum og kerfisbundnum hætti og er það gert ekki einungis í óþökk heldur einnig án samþykkis minnihlutans. Hér er einnig verið að brjóta á rétti borgarbúa hvað varðar aðgengi og gegnsæi. Fyrir þá borgarbúa sem fylgjast með afgreiðslu mála í fundargerðum er nánast ókleyft að finna í fljótu bragði eitthvað ákveðið svar í stóru skjali.  Á það skal minnt að nýr flokkur, Viðreisn í borgarstjórn hefur lofað borgarbúum auknum sýnileika og auðveldara aðgengi að málefnum borgarinnar en með þessari einhliða breytingu í óþökk minnihlutans er verið að brjóta það loforð.

Svar: Meirihlutinn taldi hér um misskilning að ræða og var því ákveðið að draga þessa tillögu til baka

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Flokks fólksins um breytingu á reglum um afslátt af fasteignagjöldum eldri borgara

Ekki er alltaf bein tenging við skuldastöðu og þess að geta lifað með reisn.  Margir ellilífeyrisþegar skulda lítið og fá því ekki vaxtabætur  en eru samt með afar lítið fé milli handa. Eignin sem þeir búa í er yfirleitt heimili sem þeir hafa búið í í áraraðir. Það á ekki að þvinga þetta fólk til að flytja í annað  húsnæði. Flutningur og sala/kaup húsnæðis  kosta, sem slíkt mikið og kemur óþarfa róti á aldraða. Það er engra hagur.

Tillagan felld

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga Flokks fólksins um reglulega fundi oddvita með þingmönnum, ráðherrum og nefndum Alþingis

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um reglulega fundi oddvita í borginni með þingmönnum hefur verið felld. Fram hefur komið að venjan er sú að borgarfulltrúar hitti þingmenn í kjördæminu tvisvar á ári og er það gott. Í þessu tilfelli er verið að tala um oddivita flokkanna í borginni en ekki alla borgarfulltrúa. Nú er það þannig að borgarstjóri einn sækir fjölmarga fundi með þingmönnum og ráðherrum vegna ýmissa sameiginlegra mála ríkis og borgar. Þar sem borgarstjóri er fulltrúi meirihlutans finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins ekki óeðlilegt að oddvitar minnihlutans eftir atvikum sæki einstaka fundi með borgarstjóra þegar hann hittir þingnefndir/aðrar nefndir eða hópa þingsins eða ráðherra. Borgarstjóri er ekki fulltrúi borgarstjórnarflokks Flokks fólksins í neinum málum og getur ekki verið talsmaður minnihlutaflokkanna að mati borgarfulltrúa.

Tillagan felld

Bókun Flokks fólksins undir liðum: Göngugötur,  kynning á samráði

Borgarfulltrúi hefur ekkert á móti göngugötum svo það komi skýrt fram en taka þarf alvöru tillit til allra þegar verið er að skipuleggja þær og útfæra. Þetta samráðsferli sem kynnt var í borgarráði var ekki nógu skýrt að mati borgarfulltrúa. Flokkur fólksins veit t.d. að margir í Öryrkjabandalaginu eru ekki nægjanlega sáttir við fjölmargt sem tengist fjölda og þróun göngugatna í miðborginni. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa að tekið hafi verið fullt tillit til hagsmunafélags eins og Öryrkjabandalagsins. Sumum finnst kannski boðið upp á visst „samráð“ en þegar upp er staðið sé ekki hlustað. Í frumvarpi til umferðarlaga er gert ráð fyrir aðgangi hreyfihamlaðs fólks að göngugötum, sem takmarkast við akstursþjónustu fatlaðra. Komið hefur fram hjá Öryrkabandalaginu að þeim finnst það ekki nóg. Fólk sem fer um göngugötur sækir ýmist þangað þjónustu eða vinnu, eru íbúar eða gestir. Það er óviðunandi að ætlast til að sumt hreyfihamlað fólk þurfi að panta sér akstursþjónustu sem aðgangsheimild að ákveðnum stað í miðbænum sem aðeins er fært að með því að fara göngugötur.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Átakshópur um aukið framboð á íbúðum og aðrar aðgerðir til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari skýrslu. Í henni eru margar hugmyndir, gamlar og nýjar. Borgarfulltrúi vill þó nefna þátt sem ekki er fjallað sérstaklega um í skýrslunni m.a. staðsetningu skóla í hverfum. Í aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 segir að hverfin í borginni eigi að vera félagslega blönduð. Blöndun byggðar hefur ekki tekist alls staðar sbr. Fellahverfið. Þar hefur fólks einangrast félagsleg og menningarlega. Mikilvægt er að spyrna fótum við stéttaskiptingu og það má gera með fjölmörgum hætti. Í einu hverfi á að vera margar gerðir húsnæðis og stærðir. Verð íbúða ræðst mest af stærð þeirra en einnig tegund húsnæðis. Huga þarf að staðsetningu skólanna og hvernig skólahverfið sem slíkt er myndað. Hafa má í huga að oft eru fleiri en einn skóli í skilgreindu hverfi. Skólinn ætti að vera staðsettur þannig að hann sækja nemendur frá margskonar heimilum, sum búa í einbýlishúsum, önnur í blokkaríbúðum o.s.frv. Mikilvægt börnum að fá staðfestingu þess að allri séu jafnir og líði aldrei fyrir efnahag foreldra sinna. Liður í því er að gera alla þjónustu grunnskóla ókeypis, frístund og mat.  Einfalt ætti að vera að skipuleggja byggð út frá skóla þar sem horft er á hann sem  félaglega grunneiningu. Í kringum skólann á að vera fjölbreytt  húsnæði á ólíku verðbili hvort heldur um sé að ræða eign eða leigu. Staðsetningu skóla ráða skipulagsvöld í borginni.

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Tillaga að stækkun friðlýsingarsvæðis Víkurgarðs.

Þetta mál  með Víkurgarð og sú ákvörðun Minjastofnunar að skyndifriða þann hluta hans sem er innan byggingarreits félagsins á Landsímareitnum sýnir hvað þetta mál allt er mikið klúður af hálfu borgaryfirvalda. Staðan væri ekki þessi nema af því að fjöldi manns er illilega misboðið. Hér hefur borgin farið offari án þess að huga að fjölmörgum atriðum sem eru mikilvæg sögu okkar og snerta tilfinningastrengi margra. Engu virðist eirt í látunum að koma upp hótelum á öllum mögulegum stöðum í borginni. Það eru margir þakklátir Minjastofnun fyrir þeirra viðbrögð og leiðir þeirra til að stöðva aðgerð sem er í óþökk margra borgarbúa eins og ljóst er nú orðið.

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurnuframvinduna? Hver gaf leyfi til m um Nauthólsveg

Flokkur fólksins mótmælir harðlega að öllum fyrirspurnum flokka minnihlutans um braggamálið sé steypt saman í eitt skjal og vísar í því sambandi einnig í bókun og tillögu sem lögð er fram á sama fundi (sjá neðar). Varðandi þessar fyrirspurnir sem hér um ræður eru svörin ófullnægjandi þar sem þau eru að mestu tómar tilvitnanir í skýrslu Innri endurskoðunar. Þessar fyrirspurnir eru sérstaklega lagðar fram fyrir hóp eldri borgara og þess vegna þurfa svörin að vera skýr. Koma skal svar eftir hverri fyrirspurn en ekki í belg og biðu eftir fyrirspurnirnar. Það er ítrekað að svörin verða að koma fullbúin. Margt fólk sem óskar svara við þessum fyrirspurnum er eins og áður segir eldri borgarar sem treysta sér ekki allir til að lesa skýrsluna í smáatriðum.

Fyrirspurnir vegna braggamálsins, lagðar fyrir aftur þar sem svör voru ófullnægjandi

Fyrirspurnir frá hópi fólks í borginni sem borgarfulltrúi óskar að verði svarað þannig að hvert svar komi í kjölfar sérhverrar fyrirspurnar og að ekki verði vísað í skýrsluna um braggann heldur að svörin komi fullbúin. Margt fólk sem óskar svara eru eldri borgarar og treysta sér ekki til að lesa skýrsluna:

Hverjir höfðu umsjón með endurbyggingu braggans?
Var verkefnið boðið út að hluta til eða öllu leyti?
Hvaða verktakar unnu verkið?
Samþykkti borgarstjóri reikningana áður en greitt var?
Óskað er eftir að fá afrit af samstarfssamningi borgarinnar við HR um endurbyggingu braggans
Óskað er eftir að fá afrit af öllum samþykktum þeirra ábyrgðaraðila innan borgarkerfisins sem samþykktu útgjaldaliði af hálfu borgarinnar umfram kostnaðaráætlun.
Óskað er eftir að lagðar séu fram hönnunarfundargerðir og verkfundargerðir.
Hverjar voru hönnunarforsendur fyrir endurbyggingu braggans?
Hverjar voru forsendurnar að vali ráðgjafa, voru þeir valdir vegna sérþekkingar sinnar á endurbyggingu bragga af þessu tagi eða vegna sérþekkingar þeirra á eldri húsum almennt?
Á hvaða grundvelli var samið við þessa ráðgjafa?
Hver ber ábyrgð á þessari framúrkeyrslu?
Fyrir hönd verkkaupa og skattgreiðenda. Hver breytti forsendum þannig að kostnaðaráætlunin fór úr böndum?
Hver hafði yfirsýn yfir framvinduna?Hver gaf leyfi til að halda áfram þegar ljóst var að áætlunin stóðst ekki?
Er sama fastanúmer á öllum þremur húsum?

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Stjórnarráðsreiturinn, uppbygging

Flokkur fólksins hefur áhyggjur af því að þetta skipulag sem er að mörgu leyti fallegt, skyggi á Hörpuna. Það er þétt byggð þarna í kring og mikið af lágreistum húsum þaðan sem má sjá Hörpuna núna. Þetta þarf að kanna frekar áður en frekari ákvarðanir eru teknar og gefa öllum þeim sem kunna að missa sýn á Hörpuna með þessu skipulagi frá sínu heimili tækifæri til að tjá sig. Harpan er mikil prýði og stolt okkar allra. Nú þegar er farið að þrengja verulega að henni og heldur sem horfi mun hún hverfa sýn vegna gríðarlegra þéttingar allt um kring á þessu svæði

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Athugasemdir við dagskrá

Flokkur fólksins gerir þá kröfu að vikið verði umsvifalaust frá þeirri einhliða ákvörðun meirihlutans að  setja mörg svör/mál frá flokkum minnihlutans í eitt skjal hvort heldur í dagskrá eða í fundargerð. Í titli skjalsins kemur ekki fram hvaða svör eru í skjalinu sem getur verið tugir blaðsíðna.  Sé ætlunin að leita að einu svari eða máli þarf viðkomandi í fyrsta lagi að vita að það er í skjalinu og síðan leita að því í margra blaðsíðna skjali. Þetta er ekki vinnandi vegur. Sé  það ætlun meirihlutans að þvinga þessa breytingu fram er verið að draga úr sýnileik þeirra mála sem minnihlutinn leggur fram í borginni með markvissum og kerfisbundnum hætti og er það gert ekki einungis í óþökk heldur einnig án samþykkis minnihlutans. Hér er einnig verið að brjóta á rétti borgarbúa hvað varðar aðgengi og gegnsæi. Fyrir þá borgarbúa sem fylgjast með afgreiðslu mála í fundargerðum er nánast ókleyft að finna í fljótu bragði eitthvað ákveðið svar í stóru skjali.  Á það skal minnt að nýr flokkur í borgarstjórn hefur lofað borgarbúum auknum sýnileika og auðveldara aðgengi að málefnum borgarinnar en með þessari einhliða breytingu í óþökk minnihlutans er verið að brjóta það loforð.

Velferðarráð
23. janúar 2019

Bókun Flokks fólksins við Kynningu á verkefninu Karlar í skúrum

Þetta er flott verkefni, aðalatriði er að veita aðstöðuna og leggja áherslu á að þetta er fyrir alla karla sem hafa áhuga á að vinna að áhugamálum sínum, verkefnum eða list sinni með öðrum körlum í skúr af hvaða orsökum sem það eru án þess að það þurfi að draga það sérstaklega fram. Borgarfulltrúa finnst mikilvægt að karlarnir sjálfir ákveði sínar reglur fyrir sinn skúr þegar þeir hafa myndað félag í kringum hann. Sjálfbærni og sjálfstæði skiptir miklu máli fyrir einingar sem þessar.

Bókun Flokks fólksins við Kynning á skýrslu átakshóps í húsnæðismálum

Flokkur fólksins fagnar þeirri samstöðu sem náðist við vinnslu þessarar skýrslu um framboð í húsnæðismálum. Í mörg horn er að líta og margt jákvætt er í gangi. Áhyggjur eru engu að síður af þeim sem eru fjárhagslega illa settir og hafa hvorki ráð á að kaupa húsnæði né leigja. Miðborgin er sem dæmi að taka á sig sérkennilega mynd. Eins og staðan er núna eru sum hverfi borgarinnar býsna einsleit.  Miðborgin og nágrenni hennar er að verða hverfi sem einungis stendur ríkara fólki eða ríkum til boða. Eignir miðsvæðis standa ekki láglaunafólki lengur til boða hvað þá fátæku fólki. Túristar njóta vissulega góðs af því lífi sem ríkir í miðbænum. Margt úthverfafólk kemur kannski helst  í bæinn á tyllidögum og margir í úthverfum sækja alla þjónustu í hverfið sitt eða næstu verslunarmiðstöð. Fátæku fólki hefur verið úthýst úr miðborginni að áliti margra og einhverjir velta því sannarlega fyrir sér  hvernig mál eiga  eftir að þróast á þessu svæði í framtíðinni. Leggja þarf allt kapp á að byggja í sem flestum hverfum ólíkar tegundir af húsnæði á ólíku verðbili, allt frá dýrum  eignum til eigna sem eru seldar eða leigðar á „viðráðanlegu“ verði. Ef íbúðir á viðráðanlegu/ódýrari íbúðir eru staðsettar með dýrum og dýrari eignum spyrnum við fótum við frekari stéttaskiptingu.

Skóla og frístundarráð
22. janúar 2019

Tillaga um skilaboða- og ábendingakassa í skólum.

Flokkur fólksins leggur til að kössum verði komið upp í miðrými skóla í Reykjavík, þar sem börn, foreldrar/forsjáraðilar og aðrir sem tengjast skólastarfinu geti komið óskum sínum, tillögum, skilaboðum eða ábendingum á framfæri með einföldum hætti er varða skólastarfið. Tillaga þessi er hugsuð til að auðvelda börnum og forráðamönnum að hafa áhrif á skólastarfið og velferð barnanna í skólanum.

Greinargerð
Með tillögunni er ætlunin að benda á leið sem auðveldar börnum og aðstandendum þeirra að koma skoðunum sínum og ábendingum er varðar skólann, skólastarfið og nemendunum til skólayfirvalda á auðveldan og fljótlegan máta. Slíkur skilaboða- og ábendingakassi í almannarými skóla ætti að auðvelda starfsfólkinu að átta sig á hjartslætti og menningu skólans á hverjum tíma og gera starfsfólkinu um leið auðveldar fyrir að lagfæra ýmis vandamál sem kunna að vera í skólastarfsins en er e.t.v. ekki öllum ljós eða kunn.

Skólinn myndi skoða og meta allar ábendingar og tillögur sem kæmu í kassann. Skilaboð/ábendingar geta verið undir nafni eða nafnlaus. Berist fáar eða enga ábendingar eða tillögur geta skólayfirvöld leitt líkum að því að almenn ánægja ríki innan skólans og með skólann. Berist neikvæðar ábendingar gefur það tækifæri til uppbyggilegra breytinga. Ef að mörgum ábendingum er skilað vegna sama máls eru það sterkar vísbendingar um að eitthvað ákveðið þarfnist lagfæringar. Til þess að fullnýta kassann yrði mikilvægt að benda börnunum (þeim sem hafa aldur og þroska til) á þessa leið og tilganginn með henni.

Barni sem líður illa félagslega eða sem veit um annan nemanda sem á um sárt að binda getur þótt erfitt að tjá sig um málið munnlega. Enda þótt kassanum yrði ekki ætlað að koma í stað samtals að neinu leyti gæti börnum þótt auðveldara  sem fyrsta skref að tjá sig með því að setja miða í kassa þar sem þau benda á eitthvað atriði sem þarf að bæta eða laga. Í framhaldinu myndi þeim e.t.v. reynast auðveldara að ræða málið við viðeigandi starfsmann innan skólans.  Til að kanna menningu og viðhorf myndi aðferð sem þessi vissulega aldrei koma í staðinn fyrir vandaða viðhorfskönnun og áfram eru foreldrar og forráðamenn ávallt hvattir til að hafa persónulega samband við skólann, símleiðis, bréfleiðis eða óska eftir viðtali eftir ástæðum og þörfum hvers og eins.  Hér er einungis verið að leggja til viðbót við þær upplýsinga- og samskiptarásir sem fyrir eru.

Borgarráð
17. janúar 2019

Flokkur fólksins og Miðflokkur bóka eftirfarandi í máli borgarinnar og Ástráðs Eysteinssonar en á honum braut borgin jafnréttislög:

Þetta samkomulag Reykjavíkurborgar, annars vegar og Ástráðs Haraldssonar (ÁH) hins vegar að greiða honum 3 milljónir staðfestir skömmina að borgin skyldi hafa brotið jafnréttislög, borg sem hefur hreykt sér fyrir að jafnrétti sé í heiðri haft.  Þetta var brot á jafnréttislögum, sem er háalvarlegt mál. Hér er dæmi um enn eitt málið sem útsvarsgreiðendur þurfa að standa skil á í arfaslakri stjórnsýslu  í ráðningarmálum í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar á forgangsreglum í leikskóla

Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði breytingar  á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof.  Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun í máli: Breytingar á reglum um leikskólaþjónustu:

Flokki fólksins finnst margar breytingar góðar og nauðsynlegar. Borgarfulltrúi vill ítreka mikilvægi þess að séð sé til þess  að foreldrar fái pláss fyrir barn sitt innan hverfis síns. Fyrir sum börn getur það verið mjög erfitt að skipta um leikskóla á leikskólatímabilinu og jafnvel getur það haft einhverjar afleiðingar er varða tengsl og tengslamyndun fyrir þau allra viðkvæmustu. Það eru fleiri atriði sem huga þarf og vill borgarfulltrúi nefna eitt atriði hér er varðar forgangsmál á leikskóla. Í því sambandi má nefna að Flokkur fólksins telur að gera eigi breytingar  á forgangsreglum í leikskóla þannig að einstætt foreldri sem er með fullt forræði yfir barninu fái forgang í þeim tilfellum sem hitt foreldrið tekur ekki fæðingarorlof.  Í þessum tilfellum þarf hið einstæða foreldri að fara út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum fyrr en ella þ.e. þegar barnið er 6 mánaða. Ef forsjárlaust foreldri tekur ekki fæðingarorlof situr forsjárforeldrið ekki við sama borð og foreldrar sem deila með sér fæðingarorlofi. Borgarfulltrúi hefur lagt fram tillögu þess efnis á fundi borgarráðs 17.1. 2019.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks Fólksins um leigubílakostnað 2011-2018 

1. Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt í leigubílakostnað á árunum 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, og 2011? 2. Hvaða kjörnir fulltrúar hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 3. Hvaða embættismenn hafa heimild til þess að nota leigubíla á kostnað Reykjavíkurborgar? 4. Hver er kostnaður við innkaup, viðhalds og rekstur bíla fyrir starfsmenn borgarinnar ef velferðasvið er frá talið árin 2018, 2017, 2016, 2015,2014, 2013, 2012 og 2011? 5. Er farið í útboð ef Reykjavíkurborg kaupir bíla? 6. Hver var kostnaður Reykjavíkurborgar við flugmiðakaup 2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012 og 2011 sundurliðað eftir kjörnum fulltrúum og starfsmönnum? 7. Er farið í útboð þegar flugmiðar eru keyptir? 8. Falla vildarpunktar við flugmiðakaup í hlut borgarinnar eða þeirra starfsmanna sem ferðast út fyrir landsteinana?

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um greiðslur vegna starfsmannamála

Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til yfirmanna/embættismanna varðandi starfslok/ólöglegar ráðningar/brottrekstur hjá borginni tæmandi talið ásamt dómsmálum 2019,2018, 2017, 2016, 2015, 2014, 2013, 2012, 2011 og 2010?

Tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokks og Flokks fólksins um að fá dómskvaddan matsmann til að meta framkvæmd við Nauthólsveg 100 R19010268

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins

Áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins óska eftir að dómkvaddur matsmaður verði fenginn tafarlaust til að meta virði framkvæmda á Nauthólsvegi 100 (Bragganum)

Frestað.

Svar við tillögu Flokks fólksins er varðar fjölmargar spurningar um mötuneyti borgarinnar:

Flokkur fólksins spurði ýmissa spurninga er varða mötuneyti, nýtingu, næringu, vanskil og matarsóun. Sum svör eru skýr.  Svör um beinan fjölda eru ekki alveg nákvæm og gefa vísbendingu um að ekki sé haldið utan um rekstur allra þessara mötuneyta á einum stað.  Umfangið er nokkuð mikið, má ætla  3,8 milljónir matarskammta á ári, skv. svörunum.  Má þá ætla að heildarkostnaður, þ.e. hráefni, laun og rekstur, gæti verið 2,5 til 3,0 milljarðar á ári í öllum þessum mötuneytum? En hráefniskostnaður er auðvitað aðeins hluti þeirrar upphæðar, t.d. 30 til 50%.   Athygli vekur að ekki er nefnt að starfsfólk leik- og grunnskóla nýti sér mötuneytin.  Það gæti þó auðvitað verið og er líklegt, en er samt ekki nefnt.
Smávægilegt ósamræmi er í svari um fjölda mötuneyta á velferðarsviði, eru þau 14 eða 15 ?
Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?. Hversu margir sem greiða fyrir mat, nýta sér þjónustuna er einnig óljóst. Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár? Einnig eru óljós svör hvað varðar matarsóun í mötuneytum og ekki er vitað hversu mikið er hent af þeim sem nýta þjónustuna.

Fyrirspurnir Í framhaldi af svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins um mötuneyti borgarinnar:

Það sem eftir er tekið er að ekkert er rætt um fjölda máltíða til starfsfólks skólanna, er verið að selja þeim mat?.
Vanskil eru 23 milljónir, er það uppsafnað frá fyrra ári, eða fyrir eitt ár?
Er verið að selja starfsfólki skólanna mat og ef svo er hver er sá fjöldi máltíða?

Bókun Flokks fólksins í málinu: Styrkveitingar mannréttinda- og lýðræðisráðs

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur  það afar brýnt að notaðir séu óháðir staðlar þegar kemur að styrkveitingum mannréttinda- og lýðræðisráðs. Við slíkar ákvarðanir getur alltaf komið upp sú staða í litlu samfélagi eins og okkar að einhverjar tengingar, tengsl, eða kunningsskapur þvælist fyrir þegar velja á úr stórum hópi. Þetta er mjög erfið staða fyrir þá sem vinna að valinu. Það er einnig mat Flokks fólksins að leggja skal áherslu á að veita þeim styrk fyrir verkefni sem ekki tengist fastri vinnu sem viðkomandi er að fá  full laun fyrir. Hér ættir frekar að horfa til þeirra sem hafa lagt á sig sjálfboðavinnu til að koma á koppinn verkefni, fólk sem hefur átt frumkvæði, lagt á sig mikla vinnu oft án nokkurra vissu um hvernig takast muni að fjármagna þau.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Óskað er eftir upplýsingum um brú yfir Breiðholtsbraut. Hver verður kostnaður við byggingu hennar? Hver var aðdragandi að ákvörðun byggingar hennar? Hverjar eru óskir hverfisins? Hver hefur nýtingin verið frá opnun hennar? Þegar komið er frá Seljahverfi yfir brúna þ.e. frá suðvesturs til norðausturs er ekki hægt að fara niður í neðra Breiðholt. Spurt er hvort það sé endanlegt skipulag?

Bókun Flokks fólksins við máli umhverfis og skipulagssviðs – Héðinsreitur – Vesturgata 64 og Seljavegur 2 – deiliskipulag:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur efasemdir um þessa inngarða sem þarna eru sýndir í kynningu Umhverfis og skipulagsráðs hvað varðar birtumagn.  Ætla má að skuggahornin og skuggasvæðin í slíkum görðum verði mörg og spurt er þá hvernig plöntur og gróður eigi þar að þrífast en fram kemur að hver garður en þeir eru þrír talsins eigi að hafa mismunandi plöntuþema.  Minnumst þess að íslensk sumur eru stutt og svöl og flestum plöntum og gróðri veitir ekki af þeirri sól sem þau geta fengið. Sjá má dæmi um slíkan inngarð í vesturbæ og má segja að sá garður, (milli Hringbrautar og Ásvallagötu) getur varla talist sérlega aðlaðandi.

Aðrar áhyggjur eru að þessar íbúðir muni seljast dýrar eins og gjarnan er raunin á þessu svæði. Hér er um mikinn fjölda íbúða 330 íbúðir og hótel með 230 hótelherbergi. Borgarfulltrúi hefur áhyggjur af umferðinni á þessu svæði sem nú þegar er mikil.

Fyrirspurn Flokks fólksins og Miðflokksins:

Fram hefur komið að 70 milljónir fóru í uppgerðum á minjum í tengslum við braggann í Nauthólsvík.  Óskað er eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega þessar 70 milljónir fóru í vegna uppgerðar á minjum. Óskað er eftir nákvæmum lista yfir hvað skilgreint var sem minjar og sundurliðun á uppgerð þeirra.

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins:

Félagsbústaðir seldu hinn 19. september s.l. bifreiðir í eigu félagsins til HBB.
Er það hlutverk Félagsbústaða að selja bíla?
Ef svo er, hverjar eru þá reglurnar?

Varðandi þessa bíla:
Voru bílarnir settir í faglegt söluferli á bílasölu?
Hver er HBB og tengist hann Félagsbústöðum á einhvern hátt?
Hvert var söluverð bílanna OZ – 704, US – 391, AE – 308, VI – J28, allir af gerðinni Honda Jazz og RI – 484, Toyota Yaris?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Óskað er eftir upplýsingum um brú yfir Breiðholtsbraut. Hver verður kostnaður við byggingu hennar? Hver var aðdragandi að ákvörðun byggingar hennar? Hverjar eru óskir hverfisins? Hver hefur nýtingin verið frá opnun hennar? Þegar komið er frá Seljahverfi yfir brúna þ.e. frá suðvesturs til norðausturs er ekki hægt að fara niður í neðra Breiðholt. Spurt er hvort það sé endanlegt skipulag?

Bókun Flokks fólksins við tillögu um breytingu á fjárhagsaðstoð

Flokkur fólksins fagnar öllum hækkunum til þeirra sem búa við fjárhagsörðugleika og þurfa fjárhagsaðstoð. Þessar hækkanir hefðu þó mátt vera meiri en raun ber vitni. Hafa skal í huga að fyrir suma er þetta ekki tímabundið ástand heldur ástand til lengri tíma. Það er einfaldlega staðreynd. Fram kemur í reglunum að gert sé ráð fyrir að húsnæðiskostnaði sé mætt með greiðslu vaxtabóta, húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð. Það eru tilfelli þar sem fólk á ekki rétt á vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi. Sumir búa í ósamþykktu húsnæði sem dæmi eru þar fastir, eiga ekki möguleika á að koma sér úr þeim aðstæður vegna annarra vandamála. Athuga verður að hafa í huga að enginn velur að vera í erfiðri stöðu eins og  hér um ræðir.

Borgarstjórn 
15. janúar 2019

Tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins við tillögu um að vísa
skýrslu um Nauthólsveg 100 til þar til bærra yfirvalda

Greinargerð:

Borgarstjórn samþykkir að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar
Reykjavíkur sem ber heitið Nauthólsvegur 100 til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og
rannsóknar. Jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á
skjalamálum í sama máli áfram þegar að þær liggja fyrir.

Tillagan var felld af meirihlutanum

RÆÐA BORGARFULLTÚRA FLOKKS FÓLKSINS V. TILLÖGU UM AÐ VÍSA SKÝRSLU IE TIL ÞAR TIL BÆRRA YFIRVALDA

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins í málinu:

Tillögu um að vísa skýrslu Innri endurskoðunar um braggann til þar til bærra yfirvalda hefur verið felld af meirihlutanum. Það er ill-skiljanlegt því það er hagur okkar allra að þetta mál verði hafið yfir allan vafa þegar kemur að meintu misferli. Borgarbúar eiga rétt á að þetta mál verði rannsakað til hlítar og að engir lausir endar verði skildir eftir. Við berum ábyrgð sem kjörnir fulltrúar og eftirlitshlutverk okkar með fjárreiðum borgarinnar er ríkt. Þessu eftirlitshlutverki erum við að sinna með tillögu þessari.  Þetta mál hefur misboðið fjölmörgum Reykvíkingum og  landsmönnum einnig. Meirihlutinn hefði átt að taka þessari tillögu fagnandi og sterkast hefði verið ef hann sjálfur hefði átt frumkvæðið af tillögu sem þessari. Þess í stað er brugðist illa við eins og birst hefur á fundi borgarstjórnar og í fjölmiðlum. Viðbrögðin lýsa ótta og vanmætti. Það er mat okkar að eina leiðin til að ljúka þessu máli fyrir alvöru er að fá úrskurð þar til bærra yfirvalda á hvort misferli kunni að hafa átt sér stað. Hvað sem öllu þessu líður stendur eftir að svara því hver ætlar að taka hina pólitísku ábyrgð í þessu máli.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna um mótun íþróttastefnu til ársins 2030

Þessi tillaga um íþróttastefnu til ársins 2030 er góð. Borgarfulltrúi Flokks fólksins saknar þó ákveðinna þátta og telur að taka eigi inn í stefnu þessa einnig tómstundastarfið þannig að talað sé um íþrótta- og tómstundastarf samhliða. Í þessu sambandi má nefna að víða um borgina er aðstaða fyrir tómstundir sem ekki er fullnýtt. Hér má nefna smíðastofur eða aðstöðu til að smíða, tálga og renna. Hvað varðar börnin þarf að gæta þess að raddir þeirra fái ávallt að heyrast þegar talað er um þætti í þeirra lífi og að í stýrihópnum verði fullgildir fulltrúar barna og unglinga. Loks má ekki gleyma að ávarpa brottfall unglinga úr íþróttum en það er vandamál sem kannski fer ekki alltaf hátt. Hvaða leiðir hefur borgin upp á að bjóða til að hjálpa börnum og sérstaklega unglingum að haldast í íþrótta- og tómstundastarfi? Og meira um börnin. Það er afar mikilvægt að börn fái tækifæri, óski þau þess að spreyta sig í ólíkum íþróttagreinum því eins og við vitum þá getur ein íþróttagrein hentað barni á einum tíma en önnur á öðrum tíma. Því fyrr sem barn kynnist ólíkum íþróttagreinum því minni líkur eru á brottfalli að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Þetta hafa einnig fjölmargar rannsóknir sýnt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokks um mikilvægar úrbætur sem lúta að stjórnsýslu

Flokkur fólksins tekur heilshugar undir þessa tillögu Sjálfstæðisflokksins um mikilvægar úrbætur sem lúta m.a. að stjórnsýslu borgarinnar og aukna stjórnendaábyrgð. Í dag, í umræðu um braggamálið hefur það ítarlega verið rakið hvernig æðstu stjórnendur hafa sofið á vakt sinni  eins og komið hefur skýrt fram í skýrslu Innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100. Miklar brotalamir hafa verið í stjórnsýslu borgarinnar eins og það mál ber sannarlega vitni um. Það virðist þurfa að stórbæta stjórnun æðstu yfirmanna í það minnsta og allir yfirmenn verða að taka fulla ábyrgð í störfum sínum. Minna má á hvað einkennir góðan stjórnanda. Góður stjórnandi fylgist grant  með stöðu verkefna og hann gætir þess að farið sé í hvívetna vel með fé borgarbúa. Þessa tillögu hefði því átt að samþykkja strax á fundi borgarstjórnar í stað þess að vísa henni áfram.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósíallista um að Reykjavíkurborg gangi að kröfum
Starfsgreinasambandsins vegna kjarasamningaviðræða

Eins og fram kemur í tillögunni beinast þessar kröfur að almenna vinnumarkaðinum og finnst borgarfulltrúa þess vegna erfitt að samþykkja hana þrátt fyrir góðan vilja. Borgarfulltrúi vonast til að kröfur verkalýðsfélaga verði teknar af mótaðilum með opnum huga. Úrbætur á vinnustöðum er víða svo sannarlega þörf. Það er einnig tekið undir það að Reykjavíkurborg getur gert ýmislegt svo sem bætt aðbúnað og menningu á vinnustöðum þar sem þess er þörf.

Borgarráð
10. janúar 2019

Flokkur fólksins leggur til til Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu, Vitanum og Aðalstrætið

Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100.  Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg.

Greinargerð
Svört skýrsla IE liggur fyrir um braggann þar sem staðfest er að innkaupareglur hafi verið brotnar, sveitarstjórnarlög brotin sem og fjölmargar siðareglur. Sem dæmi var leitað eftir verktökum og starfsmönnum í verkið í gegnum kunningjaskap. Verkið kostaði  425 milljónir króna af skattpeningum borgara Reykjavíkur, langt umfram það sem áætlað var.

Í ljósi þessa er full ástæða til að skoða önnur verkefni sem farið hafa fram úr áætlun með það fyrir augum að rannsaka hvort svipað var viðhaft og við braggaverkefnið. Nefna má að verkefni í tengslum við braggann voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu. Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar og síðast en ekki síst borgarráð fékk rangar og villandi upplýsingar. Það er því full ástæða til að skoða önnur verkefni sem voru í gangi undir stjórn þessara sömu einstaklinga, á svipuðum tíma og sem voru keyrð langt fram úr áætlun. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hlutverk, embættisfærslur, stjórnsýsluhætti og ábyrgð borgarritara og borgarstjóra og umfram allt skoða tölvupósta milli þeirra og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, bæði þá sem vistaðir hafa verið í skjalavörslukerfi borgarinnar sem og þá sem ekki hafa verið færðir þangað.

Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

Bókun í umræðu um braggann á fundi borgarráðs 10. janúar

Nú hefur IE farið yfir ábendingar úr skýrslu sinni og svarað ýmsum spurningum. Það er margt skýrt í skýrslunni um braggann en far hefði mátt dýpra t.d. í embættisfærslur og stjórnsýsluhætti borgarstjóra og borgarritara í tengslum við braggaverkefnið. Sjá má nú og hefur það verið staðfest af IE að þar var um alvarlega brotalöm að ræða. Mikið ábyrgðarleysi er í gangi, samskipti laus í reipunum og í engum tilfellum setjast yfirmenn niður með undirmönnum (skrifstofustjóra SEA) og spyrja um stöðu verkefna af því er virðist. Það er mat Flokks fólksins að IE hefði sjálf átt að skoða tölvupósta borgarstjóra og borgarritara sem og pósta þeirra á milli upp á trúverðugleika. Aðeins voru skoðaðir póstar tveggja starfsmanna og ekki var farið í að endurheimta eydda pósta þar sem það þótti tímafrekt og flókið en engu að síður vel gerlegt. Það er einnig sláandi að það hafi verið alfarið ábyrgð starfsmanna að vista skjöl í tengslum við verkefni i skjalakerfi borgarinnar og geri þeir það ekki þá eru fátt við því að gera. Svona hefur stjórnsýslan verið.  Sjá má af öllu þessu að þarna leika ákveðnir starfsmenn sér að vild og án eftirlits með fé borgaranna. Stór spurning er hvort hér sé ekki um misferli að ræða. Í það minnsta hafa lög verið brotin, sveitarstjórnarlög og lög um skjalavörslu og spurning er með meintar blekkingar.

Svar við tillögu Flokks fólksins um hvers vegna ekki sé heimilt að taka mat í eigin íláti í mötuneytum borgarinnar

Svar meirihlutans

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað við móttökur.

Langur listi fyrirtækja sem skipt er við í tengslum við móttökur er hér birtur í svari. Óumdeilanlegt hlýtur að vera að þetta er mikill kostnaður sem fer í allt mögulegt sem kostar að halda eina veglega veislu. Það er mat borgarfulltrúa að þetta sé eitt af þeim útgjaldaliðum sem þarf að endurskoða með það fyrir augum að draga úr kostnaði. Í þessu sambandi er ekki um nein útboð að ræða þannig að spurt er hvort ekki eigi að fylgja hér innkaupareglum? Í þessu tilfelli er það aðeins einn aðili, móttökufulltrúi borgarinnar sem ákveður við hvaða aðila er skipt varðandi fyrrnefnd kaup og má teljast víst að mörgum þætti það skjóta skökku við.

Svar meirihlutans

Oddvitafundur
10. janúar 2019

Tillögur Flokks fólksins sem snúast um hvernig bæta megi starfið í borginni, t.d. breytingar á fundarfyrirkomulagi borgarráðs

Að  öll USK (Umhverfis- og skipulagsráð), SEA (Skrifstofa eigna og atvinnuþróunar) mál og sérstakar lengri kynningar verði tekin út úr hefðbundnum fundum borgarráða og færð yfir í sérstakan vikulegan afgreiðslufund. Þessi mál hafa oft verið fjölmörg á fundi borgarráðs og tekið mikinn tíma á kostnað mála okkar borgarfulltrúa sem þá hafa oft mætt afgangi. Minnihlutinn hefur engin áhrif á USK og SEA málin hvorki þeir borgarfulltrúar sem hafa atkvæðarétt né þeir sem eru áheyrnarfulltrúar. Gott væri því að hafa þessi mál því alveg á sér á sér fundi þar sem þau geta þá einnig notið sín og fengið fulla athygli.

Tillaga Flokks fólksins er að borgarstjórnarfundir hefjist fyrir hádegi, t.d. kl. 10. Með þeirri breytingu er sannarlega verið að koma á móts við þá sem leggja áherslu á að vinnustaðurinn sé fjölskylduvænn

Tillaga Flokks fólksins er að ræðutími né málafjöldi verði í engu skert enda kemur það arfa illa niður á litlum flokki með einn borgarfulltrúa. Í borgarstjórn eru þrír slíkir flokkar í minnihluta

Tillaga Flokks fólksins er að engar nefndir rekist á. Fyrir flokka með einn borgarfulltrúa er ómögulegt því stundum þarf sá borgarfulltrúi að sitja alla þessa fundi

Velferðarráð
9. janúar 2019

Tillagan um hagsmunafulltrúan var send að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins til umsagnar hjá Öldungaráði Reykjavíkur. Svar Öldunaráðsins var lagt fram á fundinum í dag. Tillögunni var vísað frá.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er nokkuð undrandi yfir umsögn Öldungaráðsins sem segir að ekki sé þörf á skipun hagsmunafulltrúa fyrir aldraða m.a. vegna þess að nú sé starfandi umboðsmaður borgarbúa sem fara eigi með málefni eldri borgara. Mikið álag er á embætti umboðsmanns og neyðist embættið til að forgangsraða verkefnum og málsmeðferð getur verið löng. Ljóst má vera að embættið þarf fjármagn og mannafla til að anna öllum þeim málum sem það fæst við. Ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði að kynna starfsemi embættisins og auðvelda og hvetja hópinn til að leita til þess um hagsmunagæslu og réttarvernd. Í nýrri rannsókn Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kemur fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar og voru sumir einnig vannærðir. Þessar upplýsingar hafa ítrekað komið fram áður. Þess vegna skyldi ætla að velferðarsviðið sem og Öldungaráðið hefðu viljað styðja þessa tillögu heils hugar eða í það minnsta viljað skoða að finna henni farveg. Sífellt er verið að fullvissa borgarana um að fylgst sé vandlega með einstaklingunum en nú hefur verið staðfest að betur má ef duga skal. Vandinn sem snýr að þessum hópi er stór enda uppsafnaður til margra ára.

Flokkur fólksins lagði fram bókun í máli er varðar tillögu sviðsstjóra um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð – hækkun greiðslna:

Flokkur fólksins fagnar öllum hækkunum til þeirra sem búa við fjárhagsörðugleika og þurfa fjárhagsaðstoð. Þessar hækkanir hefðu þó mátt vera meiri en raun ber vitni. Hafa skal í huga að fyrir suma er þetta ekki tímabundið ástand heldur ástand til lengri tíma. Það er einfaldlega staðreynd. Fram kemur í reglunum að gert sé ráð fyrir að að húsnæðiskostnaði sé mætt með greiðslu vaxtabóta, húsnæðisbóta og sérstaks húsnæðisstuðnings en einnig er gert ráð fyrir honum í grunnfjárhæð. Það eru tilfelli þar sem fólk á ekki rétt á vaxtabótum eða húsnæðisstuðningi. Sumir búa í ósamþykktu húsnæði sem dæmi eru þar fastir, eiga ekki möguleika á að koma sér úr þeim aðstæður vegna annarra vandamála. Athuga verður að hafa í huga að enginn velur að vera í erfiðri stöðu eins og hér um ræðir.

Bókun við tillögu Flokks fólksins um að dýpka virkniþjálfun og færnisgetu heilabilunarsjúklinga en tillögunni var vísað frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er nokkuð undrandi yfir umsögn Öldungaráðsins sem segir að ekki sé þörf á skipun hagsmunafulltrúa fyrir aldraða m.a. vegna þess að nú sé starfandi Umboðsmaður borgarbúa sem fara eigi með málefni eldri borgara. Því sé ekki þörf á sérstökum hagsmunafulltrúa í Reykjavík fyrir aldraða. Borgarfulltrúi vill í þessu sambandi koma því á framfæri að á fundi Korpúlfar kom Umboðsmaður borgara í heimsókn og ræddi við fólkið. Fyrir liggur að umboðsmaður borgarbúa nær ekki að anna öllum þeim verkefnum sem honum hefur verið falið að sinna, svo sem fræðslu og kennslu og frumkvæðisathugunum, vegna þess mikla málafjölda sem ratar inn á borð hans. Þá neyðist embættið til að forgangsraða verkefnum og málsmeðferð getur verið löng. Ljóst má vera að embættið þarf fjármagn og mannafla til að anna öllum þeim málum sem það fæst við og ekki hvað síst svo það geti haft frumkvæði að því að nálgast jaðarsetta hópa, svo sem aldraða, með það að markmiði að kynna starfsemi embættisins og auðvelda og hvetja hópinn til að leita til þess um hagsmunagæslu og réttarvernd.  Í ljósi nýrrar rannsóknar Berglindar Blöndal á aðstæðum aldraðra kom ekki einungis fram að þunglyndi og einmanaleiki einkenndi þátttakendur rannsóknarinnar heldur voru sumir einnig vannærðir. Þetta eru ekki fyrstu upplýsingarnar á árstímabili sem berast um vannæringu og einangrun eldri borgara. Þess vegna skyldi ætla að velferðarsviðið sem og Öldungaráðið hefðu viljað styðja þessa tillögu heils hugar eða í það minnsta viljað skoða að finna henni farveg. Sífellt er verið að fullvissa borgarana um að fylgst sé vandlega með einstaklingunum en nú hefur verið staðfest að betur má ef duga skal. Vandinn sem snýr að þessum hópi er stór enda uppsafnaður til margra ára.

 

Hjartans þakkir fyrir dásamlegar kveðjur í kjölfar úrslita kosninga í Reykjavík
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan með nýjum áskorunum.

Það hefur verið lítill sem enginn tími til að sinna skjólstæðingum mínum síðasta mánuðinn þar sem ég er í framboði. Á laugardaginn liggja úrslitin fyrir.
Þetta hefur verið og er gríðarlega krefjandi og spennan magnast nú með hverjum deginum.
Mig langar mjög mikið til að komast að í borginni til að geta gert gagn fyrir heildina.