Kolbrún Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022. Hér birtast fréttir af Kolbrúnu á pólitískum vettvangi borgarmálanna.

Greinasafn eftir Kolbrúnu á visi.is

Hér munu birtast helstu mál Flokks fólksins sem lögð verða fram í borgarstjórn árið 2020

 

Borgarráð 
26. mars 2020

Tillaga Flokks fólksins að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið

Flokkur fólksins leggur til að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á innri og ytri vef Reykjavíkurborgar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið. Dragist það af einhverjum orsökum sé nefndarmönnum og öðrum borgarfulltrúum send drög í pósti innan sólarhrings frá fundarslitum. Borið hefur á því að það dragist von úr viti að fundargerðir birtist á netinu. Þetta hefur skapað mikil óþægindi fyrir nefndarmenn og aðra borgarfulltrúa sem þurfa að yfirfara fundarefni af ýmsum ástæðum. Þessi seinkun eða töf á að fundargerðir birtist opinerlega  er engum boðleg. Dæmi eru um að líði 2 vikur og jafnvel meira að fundargerð komi inn á vefinn.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir skoði að veita aukna greiðslufresti og jafnvel fella niður leigu í tvo til þrjá mánuð vegna Covid- 19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir skoði að veita aukna greiðslufresti og jafnvel fella niður leigu í tvo til þrjá mánuð vegna Covid- 19.
Fordæmi um aðgerðir af þessu tagi eru nú þegar til hjá öðru leigufélagi. Reikna má með að fjölmargir eigi eftir að verða fyrir barðinu af veiruvánni og þá ekki síst fjárhagslega. Fólk verður fyrir tekjumissi á næstu vikum og mánuðum vegna ástandsins. Hjá Félagsbústöðum leigir viðkvæmur hópur og margir berjast í bökkum fjárhagslega. Í þeim aðstæðum sem nú ríkja er mikilvægt að létt verði áhyggjum af fólki eins og hægt er.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundaráð taki ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu kórónaveirunnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð taki ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu kórónaveirunnar. Borgarfulltrúi telur að skóla- og frístundayfirvöld borgarinnar eigi að taka sjálfstæða ákvörðun um að innheimta ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist án tillits til hvað álit eða skoðun Samtök Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hefur á því eða önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ef því er að skipta. Reykjavíkurborg er stærsta sveitarfélagið og eiga yfirvöld að hafa kjark til að ríða á vaðið með ákvörðun eins og þessa og gefa þar með gott fordæmi. Börn eru ekki að fullnýta pláss sín vegna samkomubanns. Í leikskólum er tekið á móti helming barna á hverri deild daglega og barn kemur í leikskólann tvo daga aðra vikuna og þrjá daga hina. Hér á að taka af skarið í stað þess að vera að skoða málið eða bíða eftir áliti Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Borgarfulltrúa finnst Reykjavík oft vera ansi háð áliti og handleiðslu Samtakanna þegar kemur að mikilvægum málum sem varða borgarbúa. Vel kann að vera að málið sé flókið í útfærslu en það á varla að hindra yfirvöld að gera það eina sem rétt er í þessum efnum.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir falli alfarið frá því að senda leiguskuldir leigjenda, stórar eða smáar til lögfræðinga í innheimtu og frysti þær sem nú eru komnar í innheimtuferli um ókominn tíma.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Félagsbústaðir falli alfarið frá því að senda leiguskuldir leigjenda, stórar eða smáar til lögfræðinga í innheimtu og frysti þær sem nú eru komnar í innheimtuferli um ókominn tíma. Sú aðgerð stjórnar Félagsbústaða að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond ákvörðun og sársaukafull fyrir marga. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í kjölfar þess að ákvörðunin var kynnt á fundi velferðarráðs að fallið yrði frá þessari ákvörðun hið snarasta og að Félagsbústaðir haldi sjálfir utan um greiðsludreifingu leiguskulda hjá leigjendum sínum og semdi sjálft við þá sem komnir eru í skuld eins og áður var gert. Það skýtur skökku við að borga innheimtufyrirtæki fyrir að innheimta skuld af fólki sem berst í bökkum fjárhagslega og margir ná engan vegin endum saman um mánaðamót. Öll vitum við að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast frekari innheimtugjöld ofan á skuldina. Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna Covid-19 og sýnt þykir að einhverjir munu missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Nú þurfa allir, einstaklingar og fyrirtæki að sýna sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt að taka mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja.

Tillaga Flokks fólksins að þegar mældar eru  fjarlægðir frá upphafspunkti að stoppistöð séu þær mældar út frá gönguleiðum en ekki loftlínu.

Flokkur fólksins leggur til að þegar mældar eru  fjarlægðir frá upphafspunkti að stoppistöð séu þær mældar út frá  gönguleiðum en ekki loftlínu. Sú hugmynd kemur fram í nýju leiðarkerfi strætó sem er í mótun að mæla skuli fjarlægðir út frá loftlínu. Fjarlægðir frá heimili eftir stígum og götum að biðstöð eru alltaf talsvert lengri en loftlína. Bein loftlína á milli tveggja staða er ekki raunhæf mæling á fjarlægðum, t.d. þegar talað er um fjarlægðir á milli stoppustöðva strætó þar sem engar hindranir eru þá teknar með eðli málsins samkvæmt. Meðal markmiða þessa nýja leiðarkerfis er gera almenningssamgöngur aðgengilegar og mæta þörfum fólks með hreyfihömlun. Það er mikilvægt að viðmið um ásættanlega göngufjarlægð frá almenningssamgöngum sé ákveðið í samráði og sátt við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra. Almennt er viðmið á bilinu 300-500m. Hér á viðmiðið að vera  400m og mæling á að miða við loftlínu. Raunveruleg göngufjarlægð er vissulega lengri  þar sem hún fer eftir tengingum við göngustíga og götur hverju sinni. Fyrir hreyfihamlaða er mikilvægt að mælingar séu eins nálægt þeim raunveruleika sem við blasir á jörðu niðri. Loftlínumælingar geta varla talist heppilegar enda er þar ávallt um beina línu milli tveggja punkta að ræða.

Tillaga Flokks fólksins að að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar  til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum

Flokkur fólksins leggur til að innheimtu árlegs hundeftirlitsgjalds verði frestað þar  til stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald hefur lokið störfum. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur ítrekað spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest að verkefni eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra. Fyrirsjáanlegt er að þær fáist ekki framlagðar. Ef litið er nánar á tölur frá HER  sést glöggt að verkefnum hefur fækkað mjög. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum hefur einnig fækkað. Frá 2010 var fjöldi hunda í hundageymslum 89 en árið 2016 11. Árið 2010 voru lausagöngumál 209 en árið 2016 vor lausagöngumál aðeins 62.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs mannréttindaráðs á tillögu um lýðræðisgáttir Reykjavíkurborgar:

Flokkur fólksins er sammála þeim tillögum er lagðar voru fram á fundi Mannréttindar-, nýsköpunar og lýðræðisráðs þann 27. febrúar s.l. sem snýr að auknu lýðræði til borgaranna m.a. hvað varðar vægi hverfaráða. Tekur fulltrúi Flokks fólksins undir þær tillögur hvað varðar breytingar á fyrirkomulagi verkefnisins Hverfið mitt. Það eru breytingar til batnaðar. Jafnframt vill Flokkur fólksins benda á að ávallt verði haft í huga lýðræðislegur réttur borgaranna í öllum hverfum borgarinnar. Nú er einnig verið að vinna að gerð lýðræðisstefnu. Í allri þessari vinnu vill Flokkur fólksins árétta að ávallt sé gætt að réttindum fatlaðs fólks í hverju því verkefni sem fer í framkæmd og haft í huga samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur samþykkt. Leita þarf að þeim hópum sem sýnt er að taki minni þátt og hjálpa þeim að koma inn sem fullir þátttakendur.

 

Bókun Flokks fólksins um sumarlokanir leikskóla:

Flokkur fólksins leggur áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka. Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Það að fyrirskipað skuli að loka leikskólum samfellt í ákveðnar 4 vikur á sumrin samræmist e.t.v. ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag. Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí í vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar. Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna Covid-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar á komandi sumri. Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2021. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.

 

Bókun Flokks fólksins við samþykki á inngöngu 4ra barna í Arnarskóla og að ekki verði fleiri umsóknir samþykktar:

Það sem skipti máli er að öll börn séu í skólaúrræðum þar sem þeim líður vel, finna sig meðal jafningja og fá náms- félags- tilfinningalegum þörfum sínum mætt. Samþykkja á inngöngu fjögurra barna núna í Arnarskóla  en segir að ekki verði opnað á umsóknir vegna fleiri nemenda fyrr en ytra mat skólans liggur fyrir en um það hefur borgin ekkert að segja. Margir myndu túlka þetta sem fyrirslátt.  Arnarskóli býður upp á heildstæða skólaþjónustu sem er úrræði sem hentar sumum börnum betur en fyrirkomulag sem kallar á meiri þvæling milli staða. Það er tímabært að leysa sérskólamál öðruvísi en með skammtímalausnum. Langur biðlisti er í skólaúrræði eins og Klettaskóla og Brúarskóla. Báðir eru fullir og sá fyrri yfirsetinn.  Bregðast þarf við með varanlegum lausnum og ef vel ætti að vera ætti borgin að reka sjálf skóla eins og Arnarskóla. Flokkur fólksins hefur lagt til að fjölga þátttökubekkjum Klettaskóla, rýmka inntökureglur og stækka Brúarskóla. Í svörum og umsögnum við tillögu um stækkun Brúarskóla var beinlínis sagt að  ekki væri þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma. Samt eru 19 börn á biðlista þar.  Á meðan borgin leysir ekki vandann heildstætt skiptir máli að loka ekki fyrir umsóknir í Arnarskóla.

Bókun Flokks fólksins vegna svara við fyrirspurn um Grensásveg 12:

Í þessu máli, Grensásvegur 12, tapaði borgin milli milli 40 og 50 milljónum í samningum þegar riftunin var gerð. Mál af þessu tagi minnir alla á hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir. Málið hefði í raun átt að vera fyrir löngu komið inn á borð hjá innri endurskoðanda.

 

Borgarstjórn
24. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Lagt er til að borgarstjórn samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr.  Sveitastjórnarlaga. Borgarráð fer þannig með sömu heimildir og borgarstjórn hefur fram að næsta reglulega fundi borgarstjórnar þann 21. apríl með sömu skilyrðum og í sumarleyfi borgarstjórnar samkvæmt 48. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur tjáð sig í ræðu og riti um óskir þess að borgarstjórn, meiri- og minnihluti, vinni saman að tillögum, aðgerðarplani og ákvörðunum í þessum fordæmalausu aðstæðum enda sterkari saman en sundruð. Hins vegar finnst borgarfulltrúa það ekki mikilvægt að ákveða fjölgun borgarstjórnarfunda hér og nú næsta mánuðinn heldur myndi frekar sjá fyrir sér að oddvitar flokkanna hittust á fjarfundum reglulega samhliða öðrum fundum sem haldnir eru til að ræða um tillögur, aðgerðir og framvindu aðstæðna. Hvað varðar borgarstjórn Reykjavíkur telur borgarfulltrúi Flokks fólksins hins vegar að nú þegar sá möguleiki hefur skapast að geta haldið fjarfundi þá sé ekkert að vanbúnað að boða til aukafunda oftar en sjaldnar og skapist eitthvað vafamál um hvort rétt eða nauðsynlegt sé að kalla saman fund þá skuli það hiklaust gert bæði þann mánuð sem heimildin nær til og í framtíðinni.

 

Borgarráð
19. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinar sl. 2 ár:

Í svari kemur fram að ferðir erlendis á vegum borgarinnar sl. 2 ár eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda.  Kostnaður var á þessum árum 10,6 milljónir, eða 7.1 milljónir árið 2018 og 3.5 milljónir árið 2019. Spurt var um fjarfundi  en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvers vegna ekki var notast við fjarfundarbúnað í stað ferðar eða mat á því hvort slíkt hefði verið mögulegt.  Galli er á verklagi Reykjavíkur að ekki liggi fyrir hvort mögulega hefði verið hægt að sækja fundi með fjarfundabúnaði. Það ætti því að vera áhersluatriði í þeim samstarfsverkefnum sem Reykjavík tekur þátt í á alþjóðavettvangi að reynt sé að takmarka fjölda flugferða og óþarfa flugferðir, vegna sparnaðar og umhverfissjónarmiða. Sagt er að Erasmus -ferðir séu ,,kostnaðarlausar“ en það kemur ekki fram á yfirlitinu. þar er getið um einn styrk. Verulegur kostnaður vegna ferða eru dagpeningar, þrátt fyrir ,,kostnaðarlausar“ ferðir. Meginhluti ferðakostnaðar er yfirleitt dagpeningar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að notast verði við fyrirtækja-greiðslukort með skilgreindu hámarki, eins og nú er víða algengt.  Þá er raunkostnaður greiddur og ekkert umfram það. Þeirri tillögu var hafnað.

Fyrirspurnir í framhaldi af svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinnar

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir erlendis sl. tvö ár kemur fram að þær eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda. Ferðirnar voru farnar af alls 34 starfsmönnum, 8 embættismönnum og 10 borgarfulltrúum. Nokkrir fóru fleiri en eina ferð vegna funda. Borgarfulltrúa finnst hlutfall fundaferða ansi lágt og vill því leggja fram framhaldsfyrirspurn.
Flokkur fólksins óskar eftir að fá  sundurliðun á 463 ferðum sem voru farnar vegna annarra ástæðna en fundahalds. Hversu margar ferðir voru námsferðir og í þeim tilfellum, var ekki mögulegt að stunda fjarnám?

Tillaga Flokks fólksins að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg. Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat.  Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða netið og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti.  Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun.

 

Tillaga Flokks fólksins um að að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19. Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru “lokuð”, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur ytri sem innri breytur áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir.

 

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þetta eru mörg börn. Fáist hvorki dagforeldri eða leikskólapláss liggur það fyrir að foreldri eða ættingi þarf að annast um barnið á daginn. Þá er sjálfsagt að það foreldri fái einhverjar greiðslur. Nýlega var tekin svipuð ákvörðun hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Reykjavík getur ekki verið eftirbátur smærri sveitarfélaga. Heimagreiðslur hafa oft komið til tals og þetta er ein leið til lausnar á vonandi tímabundnu ástandi. Mikill skortur er á dagforeldrum á vissum tímum árs. Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Reykjavíkurborg hefur ekki stutt við bakið á dagforeldrum og hafa margir hætt störfum, enda starfsöryggi þeirra ótryggt. Haustin eru sérlega slæm fyrir dagforeldrana og vorin fyrir foreldrana. Flokkur fólksins hefur lagt til að stutt verði fjárhagslega við bakið á dagforeldrum en þeim tillögum hefur verið hafnað. Reykjavíkurborg á að þjónusta foreldra sem best og tryggja að þau geti sótt vinnu að loknu fæðingarorlofi og þess vegna er sú tillaga lögð hér á borð að teknar verði upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem hvorki fá dagforeldri eða leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi líkur.

 

Bókun Flokks fólksins við Hlemm – deiliskipulagi:

Vel skipulögð almenningsrými þurfa að taka tillit til þarfa allra borgarbúa, ekki aðeins þeirra sem búa í næsta nágrenni við svæðið. Þær breytingar sem verða á Hlemmi eru m.a. annars þær að allri umferð verður beint frá svæðinu en hjólandi boðið að koma meðfram svæðinu þar sem hjólastígur tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni. Aðgengi að Hlemmi hefur svo sem aldrei verið gott en Flokkur fólksins óttast að með breytingunni verði það enn verra. Borgarlínan verður ekki komin fyrr en eftir 10 til 15 ár og verður að huga vel að aðgengismálum fram að því. Ellegar er hætta á því að Hlemmur og nýja torgið gagnist aðeins þeim sem búa og vinna í næsta nágrenni, gangandi og hjólandi. Samkvæmt talningu í október 2019 kom fram að 70%, eða 17 þúsund manns, af heild­ar­fjölda veg­far­enda á Hlemmsvæðinu voru gang­andi. Nákvæm lýsing á svæðinu væri því ekki almenningsrými heldur frekar hverfisrými og kannski biðstöðvarrými. Ef við ætlum að kalla svæðið almenningsrými megum við ekki útiloka aðkomu bíla eða loka á aðgengi fyrir fatlaða. Því þarf að gera ráð fyrir einhverri umferð um Rauðarárstíg en sú gata er  þröng.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um stöðu efnahags- og fjármála vegna áhrifa Covid-19:

Í útvarpsviðtali við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing SA, 19.3 þar sem þau ræddu aðgerðir yfirvalda, kom fram að það væri sérstakt að ekkert heyrðist í sveitarfélögum hvað varðar aðgerðir vegna Covid-19. Sögðu þau að það heyrðist í ríkisstjórninni og fleirum en ekki sveitarfélögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju Reykjavík hefur ekki rakið aðgerðir, brýnar aðgerðir og lengri tíma aðgerðir? Hvernig á að hjálpa fólkinu í borginni núna? Hvernig á að koma á móts við fólk sem getur ekki greitt skuldir sínar við borgina? Sumt fólk er í mik­illi neyð, fólk sem var í neyð er í enn meiri neyð núna. Ástandið bitn­ar á öllum og þeir sem eru viðkvæmastir fyrir eiga erfiðast, fólk sem er veikt, öryrkjar og eldri borgarar. Huga þarf að öllu og öllum og tímabært að meirihlutinn leggi fram víðtækt aðgerðarplan í samráði við minnihlutann. Nákvæmlega núna er mikið af fólki sem er aflokað og einangrað vegna veirunnar, fólk sem er ekki endilega í sóttkví heldur loka sig inni vegna kvíða. Sumir eiga ekki mat og eiga ekki fyrir mat. Hjálp­ar­stofn­an­ir hafa þurft að loka. Það kem­ur hart niður á þess­um hópi og velferðarkerfið hefur ekki undan.

Bókun Flokks fólksins vegna tímabundinna heimildar Fjármála- og áhættustýringarsviðs til gerðar leigusamninga vegna COVID-19 veirunnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er að hafa slíka heimild ef grípa þarf til skyndiákvörðunar á ögurstundum. Þessi heimildarbeiðni hefði þó mátt vera skýrari og skilgreindari. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgarráð eigi að fá upplýsingar um hvert skref sem tekið er innan heimildarinnar. Sjálfsagt er að boða borgarráð til fundar með örskömmum fyrirvara og mun ekki standa á borgarfulltrúa Flokks fólksins að mæta eins oft og þörf er talið á.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  um að reglum um fyrningartíma á ýmsum búnaði við útreikning innri leigu verði endurreiknaðar:

Flokkur fólksins þakkar svarið. Tillagan hefur verið felld.  Borgarfulltrúi vill engu að síður leggja áherslu á að búnaður eigi að endast eins lengi og hægt er. Þetta er spurning um að farið sé vel með hluti og þá verður færi á að breyta reglum um fyrningartíma, lengja hann. Nota má hluti lengur en 3 ár sem dæmi. Á okkar tímum skiptir máli viðhorf okkar til nýtinga hluta og að við nýtum allt eins lengi og hægt er, nóg er samt af sóun. Endurreiknað viðmið ætti að taka mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” almennt lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæm umgengni.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu bréfs Innri endurskoðunar um breytingu á verkefnaáætlun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að viðhafa stöðugleika á þessum erfiðum og einmitt óútreiknanlegum tímum. Deildir og skrifstofur sem eru kjölfesta þurfa að halda sínu striki og vera áfram sama kjölfestan. Næg er óreiðan samt sem myndast vegna skyndiárásar Covid-19. Vissulega gæti þurft að endurforgangsraða einhverjum verkefnum. Nú vill innri endurskoðun sem er sjálfstæð eining og óháð setja verkefni sem eru á endurskoðunaráætlun 2020 í biðstöðu, hægja á verkefnum í vinnslu og jafnvel stöðva verkefnavinnu. Allt er gert í samráði við formann borgarráðs? Fyrir sjálfstæða einingu eins og Innri endurskoðun hljómar þetta sérstakt.  Að sjálfsögðu má reikna með að innri endurskoðun taki á sig ný eftirlitsverkefni eftir því hvernig framvindur. Nú var verið að samþykkja nýja heimild um húsaleigu og fleiri samningar verða gerðir sem fylgjast þarf með eftir atvikum og veita ráðgjöf með.  Á sama tíma er mikilvægt að skrifstofa IE haldi sínu striki, sinni helstu verkefnum sem mest ótruflað. Það sem borgarbúar þurfa nú er að upplifa að innviðum sé ekki hleypt í uppnám með grundvallarbreytingum og á sama skapi þarf fólk að vera fullvisst um að skrifstofa eins og innri endurskoðun sinni nýjum hlutverkum eftir því sem nauðsyn krefur.

 

Borgarstjórn
17. mars 2020

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert til að stytta biðlista

GREINARGERÐ MEÐ TILlögu  FLOKKS FÓLKSINS LÖGÐ FRAM Í BORGARSTJÓRN 17.3 UM SAMSTARF SKÓLAÞJÓNUSTU OG ÞROSKA OG HEGÐUNARMIÐSTÖÐVAR  

Bókun Flokks fólksins við umræðuna um Covid-19

Aðstæður í samfélaginu eru fordæmalausar. Váin skall á eins og stormsveipur, án mikils fyrirvara. COVID-19 er áfall sem verður að glíma við og vinna úr af yfirvegun og skynsemi. Öll vonumst við til að viðbrögð sóttvarnaryfirvalda, almannavarna og sveitarfélaga og annarra, atvinnulífsins, fyrirtækja og fjölmiðla verði til þess að það takist að hemja útbreiðslu vírussins eins og hægt er. Margt er á huldu en annað er vitað. Óvissa er alltaf það allra versta. Íslendingar hafa áður sýnt að við erfiðar aðstæður verðum við ein stór fjölskylda. Líf og heilsa koma fyrst en einnig þarf að halda lífi í atvinnulífinu. Flokki fólksins er umhugað um viðkvæmustu hópanna. Ef horft er til borgarinnar hafa starfsmenn sýnt áberandi æðruleysi og yfirvegun. Að púsla saman hlutunum hefur verið flókið og vandasamt. Mest um vert er að þjónusta velferðarsviðs hefur verið órofin. Þar er um að ræða alla heimaþjónustu, heimahjúkrun, stuðningsþjónustu á hjúkrunarheimilum, í íbúðakjörnum og sambýlum sem og í gisti- og neyðarskýlum. Flokkur fólksins vill þakka öllu þessu fólki og einnig þeim sem skráð hafa sig í bakvarðasveit til tímabundinnar aðstoðar í heilbrigðiskerfinu. Allt þetta er ómetanlegt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 10. lið fundargerðarinnar frá 12. mars um sjóðsstreymi Sorpu:

Minnihlutinn í Kópavogi, Samfylking og Píratar, hafa tjáð sig um alvarlegan fjárhagsvanda SORPU og kallað eftir skýringum. Í yfirlýsingu þeirra er stjórn gagnrýnd fyrir þátt sinn í því að félagið þarf nú að fá ábyrgð sveitarfélaganna á 600 milljóna króna viðbótarláni við 1.400 milljóna króna lán sem fyrir var. Segir í yfirlýsingu þeirra „framkvæmdarstjóri hefur verið látinn taka pokann sinn en ekkert fararsnið er á stjórninni“. Hér eru sömu orð og Flokkur fólksins hefur ítrekað viðhaft í bókunum. Þessi yfirlýsing er áhugaverð fyrir þær sakir að fulltrúar minnihlutans í Kópavogi eru samflokksfólk meirihlutans í Reykjavík. Eins er formaður stjórnar skipaður af bæjarstjórn Kópavogs. Meirihlutinn í Reykjavík hefur hins vegar varið hvernig komið er fyrir SORPU og telja að nægi að framkvæmdastjóri axli alla ábyrgð. Á það skal minnt að í skýrslu innri endurskoðunar fær stjórn einnig áfellisdóm, ekki einungis framkvæmdastjóri. Það er ánægjulegt að sjá að Píratar og Samfylking í Kópavogi skilja að stjórn er ábyrgðaraðili fyrir fyrirtæki enda fær stjórn greitt fyrir að fylgjast með öllum þráðum, vera vakandi yfir hverri krónu og bókhaldsfærslu. Við blasir nú að borgarbúar munu taka stærsta skellinn sem meirihlutaeigendur og gjaldskrá SORPU mun hækka.

 

Bókun Flokks fólksins undir 14. lið fundargerðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, um umræðu á íþróttastefnu borgarinnar.

Frístundakortið er víða á dagskrá sem vonandi er merki þess að brátt verði tekið á göllum þess. Það kom til umræðu þegar rætt var um nýja íþróttastefnu í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að heiðarlegast væri ef meirihlutinn og íþrótta- og tómstundasvið viðurkenndi að það er ekki sanngjarnt gagnvart barninu að efnalitlir foreldrar verði að velja að nota kortið til að greiða frístundaheimili í stað þess að barnið fái það til að nota upp í íþróttir eða tómstundir. Nú er verið að kanna ánægju fólks með kortið, sjálfsagt í þeirri von að einskærri ánægju með það verði lýst. Margir átta sig ekki á hvernig er í pottinn búið. Væri allt eðlilegt ættu þeir sem hafa þurft að nota frístundakortið í frístundaheimili sem dæmi, að fá sérstakan styrk til þess með þeim orðum að frístundakortið væri fyrir barnið til að velja sér íþrótt. Efnalitlir foreldrar verða að nota öll bjargráð og frístundakort barnsins er eitt þeirra ef ekki önnur bjargráð bjóðast. Flokkur fólksins óttast að ekki verði endilega mikið að marka þessa könnun þar sem ekki fylgi henni viðeigandi skýringar og spurningar verði jafnvel leiðandi. Hugsa á kortið eins og einkaeign barnanna og aðeins þeirra að nota það fyrir sig eins og upphaflegu tilgangur þess segir til um.

 

Forsætisnefnd
12. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við svar skrifstofu borgarstjórnar, dags. 5. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fundaumsjónakerfi í borgarstjórnarsal, sbr. 12. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 27. febrúar 2020. R20020293:

Flokkur fólksins spurði um ástæðu þess að fundaumsjónarkerfið komst aldrei í gagnið. Einnig hvort hægt er að skila kerfinu og fá það endurgreitt. Í svari segir að ráðist var í breytingar á Ráðhússalnum vegna fjölgunar borgarfulltrúa. Hluti breytinganna var kaup á fundaumsjónarkerfi. Að loknu útboði á evrópska efnahagssvæðinu var gengið til samninga við Exton ehf. um kaup á búnaðinum, tilboðsfjárhæðin var kr. 22.300.567. Exton gat ekki uppfyllt kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum. Samkomulag náðist um riftun. Í samkomulaginu um riftun kemur m.a. fram að Reykjavíkurborg haldi eftir hörðum búnaði. Við lestur umsagnar er erfitt að sjá hversu miklum skaða borgin situr uppi með? Fram hefur komið í munnlegum upplýsingum að borgin bar skaða af þessum viðskiptum að upphæð ca. 5. milljónir. Nú segir í umsögn að nýja fyrirtækið eigi eftir að leggja mat á hvort hægt sé að nota búnaðinn?

Bókun Flokks fólksins afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt:

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt og því skilað ef mögulegt er hefur verið felld. Ferlið er rakið í umsögn þar sem borgin í gegnum útboð keypti fundarumsjónarkerfi fyrir um 22 milljónir. Fyrirtækið skilaði ekki verkinu samkvæmt útboðsgögnum. Samningnum var rift og náðust samningar um að borgin fengi m.a. að halda eftir 23 hljóðnemum sem metnir eru á 4.6 milljónir. Því er ekki til umræðu að skila kerfinu. Ljóst er að það er með öllu óljóst hvort hægt er að nota þessa hljóðnema. Það á nýtt fyrirtæki eftir að meta. Nú eru þeir á borðum eins og ljótt skraut og sennilega flestum til ama. Þess utan má segja að svona kerfi sé óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir og það gengið ágætlega. Ekkert mælir heldur gegn því að greiða atkvæði með handaruppréttingu. Að rétta upp hönd endrum og sinnum á fundi borgarstjórnar er bara góð og holl hreyfing.

 

Fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um tillögu Flokks fólksins sem lögð var fyrir á fundi borgarstjórnar 3. sept. 2019 um að samþykkt yrði að  borgarstjórnarfundir verði túlkaðir á táknmáli:

Tillögunni var vísað til forsætisnefndar og þaðan til hagsmunaaðila og Aðgengisnefndar. Engin tíðindi hafa borist um að hagsmunaaðilar hafi fengið tillöguna til umsagnar.
Eins og sjá má á síðustu dögum hefur færst í vöxt að fréttir og fundir ýmis konar séu táknmálstúlkaðar enda tíðindi válynd um þessar mundir og margt að gerast sem allir verða að fá upplýsingar um.  Ekkert hefur frést af framvindu tillögunnar og óskar borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir að fá upplýsingar um hvar málið er statt. Hér er um mannréttindamál að ræða og með því að táknmálstúlka fundi borgarstjórnar er borgarstjórn að framfylgja lögum. Tillagan er liður í að rjúfa enn frekar einangrun heyrnarskertra og heyrnarlausra einstaklinga. Þessi hópur á rétt á því að fá upplýsingar úr samfélaginu og þ.m.t. að geta fylgst með umræðu á sviði stjórnmálanna og annað er snýr að störfum þeirra. Í 5. grein laganna um íslenska táknmálið sem fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra segir: Notendur íslenska táknmálsins eiga rétt á að upplýsingar sem birtar eru opinberlega samkv. Samning Sameinuðu þjóðanna sem brátt verður lögfestur.

 

Mannréttinda- lýðræðis- og nýsköpunarráð
12. mars 2020

Tillaga  Flokks fólksins um að mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð skoði hvort farið hafi verið á svig við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og jafnréttisreglur mögulega brotnar við endurgerð búningsklefa Sundhallar Reykjavíkur

Flokkur fólksins leggur til að mannréttinda, lýðræðis- og nýsköpunarráð skoði hvort farið hafi verið á svig við stefnu borgarinnar í jafnréttismálum og jafnréttisreglur mögulega brotnar við endurgerð búningsklefa Sundhallar Reykjavíkur. Konum hefur verið úthýst úr klefum sínum á meðan á viðgerð stóð og einnig til frambúðar en körlum ekki. Karlar fengu eldri kvennaklefanna til afnota á meðan viðgerð stóð yfir á karlaklefunum og fá áfram aðgang að eldri klefunum til frambúðar. Ekki lítur út fyrir að konur fái aðgang að gömlu klefunum aftur þegar endurgerð er lokið sem verður á þessu ári. Margar konur hafa lýst óánægju sinni með þá ákvörðun borgaryfirvalda að henda þeim úr sínum gömlu klefum á meðan karlar hafa áfram aðgang að sínum. Konum hefur verið vísað í nýbyggingu. Mörgum þeirra finnst staðsetning búningsklefa þar bagaleg þar sem þær verða að ganga langa leið utandyra, í blautum sundfötum til að komast frá klefa í laugina. Í lagi var að þola ástandið um tíma meðan á viðgerð kvennaklefa stæði en sá tími er að verða liðinn. Körlum hefur hins vegar ekki verið vísað úr eldri byggingunni ekki heldur meðan á endurgerð stóð.

Frestað.

 

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu um að að gerðar verði breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins bendir á að með áætlun meirihlutans að loka alfarið fyrir umferð ökutækja um Laugaveg, Skólavörðustíg og Vegamótastíg er verið að brjóta á réttindum fatlaðra. Með því að neita fötluðu fólki og jafnframt eldri borgurum sem eiga erfitt með hreyfingar að koma á ökutækjum sínum inn á lokaðar göngugötur miðborgarinnar er verið að brjóta nýsett lög í landinu og samþykktum Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðra um aðgengi til jafns við aðra borgarbúa. Þetta varðar mannréttindi þessara hópa sem Flokkur fólksins óskar að meirihlutinn virði.

Samþykkt með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins, að vísa tillögunni frá.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Sósíalistaflokks sitja hjá.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks leggja fram svohljóðandi bókun:

Breyting á deiliskipulagi er ekki á verksviði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs heldur á verksviði skipulags- og samgönguráðs samkvæmt skipulagslögum og samþykktum ráðanna. Því er tillögunni vísað frá. Bent er á að fulltrúi Flokks fólksins er með áheyrnarfulltrúa í því ráði og getur því lagt þar fram tillögur. Allir flokkar hafa fulltrúa á þeim vettvangi og því ber að beina málum sem falla undir þann málaflokk þangað.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sjálfstæðisflokks tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni um að auka þurfi möguleika bæði hreyfihamlaðra og eldri borgara á að njóta umræddra gatna og gera þeim kleift að sækja sér þá þjónustu sem þar er í boði án vandkvæða. Þó tillagan heyri ekki beint undir verksvið Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs, enda fer ráðið ekki með skipulagsmál, er það eðlilegt og rétt að taka jákvætt undir þau sjónarmið sem þar eru sett fram, um jafnt aðgengi allra borgarbúa að þessum verðmætu svæðum borgarinnar.

 

Borgarráð
12. mars 2020

Lögð fram fyrirspurnir  Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverð vöknuðu nokkrar spurningar sem Flokkur fólksins vill fá svör við.:

Í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverð vöknuðu nokkrar spurningar sem Flokkur fólksins vill fá svör við.

Í bókun meirihlutans segir að tillaga Flokks fólksins hafi verið vanhugsuð og að með henni hafi borgarfulltrúi Flokks fólksins verið að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Segir í bókun „að það sé engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni“.

Vegna ofangreindar bókunar vill Flokkur fólksins leggja fram eftirfarandi fyrirspurnir.
1.Hver er kostnaður við að ,,framleiða metan og geyma“ og leiða það að brennslustað?
2. Hver er kostnaður við ,,viðeigandi yfirbyggingu“ við að safna metani á urðunarstað, geyma og brenna síðan á báli?
3. Hve mörgum kg af metani er brennt árlega á báli? (nota má aðrar einingar svo sem lítra undir ákveðnum þrýstingi, eða rúmmetra undir ákveðnum þrýstingi) 4. Hefur stjórn Sorpu kannað hvort það brjóti í bága við samkeppnislög að selja metan fyrir þeim kostnaði sem fylgir því að koma því til neytenda? R20030116

Vísað til umsagnar stjórnar SORPU bs.

 

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsum bílaflota Reykjavíkurborgar að borgin eigi alls 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000.:

Reykjavíkurborg á 105 bíla og þar af 56 fólksbíla sem metnir eru á 36.365.000. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hverjir nota þessa bíla og í hvaða tilgangi. Leigubílar eru einnig nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest á velferðarsviði. Fulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna velferðarsviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Svör hafa ekki borist enn við þessum fyrirspurnum. R20030117
Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavík fari að fyrirmynd Kópavogs og breyti reglum um sérstakan húsnæðisstuðning þannig að allir þeir sem fái greiddar húsnæðisbætur á grundvelli laga um um húsnæðisbætur, nr. 75/2016, fái einnig greiddan sérstakan húsnæðisstuðning.:

Greinargerð

Nýlega fjallaði sjónvarpsþátturinn Kveikur um fátækt á Íslandi. Þar kom fram hve alvarlegur vandinn er og hve mikilvægt það er að kjörnir fulltrúar bregðist við strax til að hjálpa þeim sem lifa við fátækt. Einnig kom þar fram að í Reykjavík væru strangari skilyrði fyrir úthlutun húsnæðisstuðnings en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Kópavogi. Í Reykjavík þarf einstaklingur ekki aðeins að vera undir ákveðnum tekjuviðmiðum til að eiga rétt á húsnæðisstuðning heldur þarf hann einnig að skora að minnsta kosti sex stig í matsviðmiði fyrir sérstakan húsnæðisstuðning, þar af tvö vegna félagslegra aðstæðna. Reykjavík veitir því ekki húsnæðisstuðning til þeirra sem hafa lágar tekjur nema að þeir glími einnig við önnur vandamál. Í þætti Kveiks var rætt við konu sem nýlega komst í stöðugt leiguhúsnæði en missti um leið rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Þarna er verið að kippa undan fótum þeirra sem reyna að stíga upp úr fátæktargildrunni. Þessu þurfum við að breyta strax og getum í því fylgt fyrirmynd nágranna okkar í Kópavogi.
Frestað.

 

Lögð fram  tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsað kjörnir fulltrúar, þeir sem vilja, fái að eiga viðtal/samtal við alla þá sem koma til greina í starf borgarritara

Tillaga Flokks fólksins að kjörnir fulltrúar, þeir sem vilja, fái að eiga viðtal/samtal við alla þá sem koma til greina í starf borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka virkan þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti heldur fái jafnframt aðgang að viðkomandi umsækjendum til að ræða við þá einslega óski þeir þess. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. R20030119

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Við byrjun árs 2019 voru nýjar reglur staðfestar um ráðningar borgarráðs í æðstu stjórnunarstöður hjá Reykjavíkurborg. Tilgangur þessara reglna er að stuðla að því að val á æðstu stjórnendum Reykjavíkurborgar ráðist af hæfni umsækjenda og grundvallist á ráðningarferli þar sem gagnsæi og jafnræði eru höfð að leiðarljósi og einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á stjórnendum. Reglurnar gera ráð fyrir formlegu ráðningaferli sem skal samþykkt af borgarráði við upphaf þess, sem hér er verið að gera. Hæfnisnefnd skal halda utan um ráðninguna og í henni skal vera í það minnsta einn utanaðkomandi aðili til þess að tryggja óhæði nefndarinnar. Í tillögu áheyrnarfulltrúans er gert ráð fyrir því að borgarráð stígi inn í þetta nýsamþykkta ferli og taki umsækjendur í viðtal sem væri á skjön við áðurnefndar reglur. Reglurnar tryggja að gagnsæi og jafnræði ríki um ráðningar æðstu stjórnenda borgarinnar enda gríðarmikilvægt mál að fagleg vinnubrögð séu viðhöfð.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Tillögu Flokks fólksins að borgarfulltrúar, þeir sem vilja fái tækifæri til að eiga samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritara hefur verið vísað frá með vísan í nýjar reglur um ráðningar í æðstu stöður borgarinnar frá 2019. Ekki er séð að þessar reglur útiloki þennan möguleika og telur Flokkur fólksins það eigi ekki að vera í höndum meirihlutans að hindra aðgengi borgarfulltrúa að umsækjendum. Hér er um hagsmuni okkar allra að ræða og mikilvægt í ljósi reynslu að vel takist til við ráðninguna og að allir geti upplifað traust gagnvart verðandi borgarritara.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki sé rétt að kaupa fleiri metanvagna og þá að undangengnu útboði :

Í fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 21. mars er rætt um útboð á rafmagnsvögnunum. Flokkur fólksins spyr: Er ekki rétt að stefna að því að kaupa fleiri metanvagna og þá að undangengnu útboði að sjálfsögðu? R20030120
Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins heimildar til að nota fjármagn til að ráða sérfræðinga í hugbúnaðarteymi:

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir vegna heimildar til að nota fjármagn til að ráða sérfræðinga í hugbúnaðarteymi. Talað er um að útboðið hafi verið sniðið að fyrirtækinu Kolibri ehf. og að fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun. Flokkur fólksins spyr hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun?

Lagt fram svohljóðandi svar borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna:

Fullyrt er að útboðið hafi á sínum tíma verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki sem er alrangt. Útboðið var unnið með innkaupadeild og braut blað hvað varðar framkvæmd með nýrri innkaupaleið. Í gögnum máls koma fram þáverandi kröfur til bjóðanda og ekki fæst séð hvað af þeim kröfum ættu að hafa verið sniðnar að einu fyrirtæki enda augljóst að innkaupadeild myndi aldrei samþykkja slíkt. Spurt er um hver hafi lofað fyrirtækið og hvaða verðlaun það hafi fengið. Í gögnum máls kemur hvergi fram að fyrirtækið eða verkefnið um rafvæðingu fjárhagsaðstoðar hafi fengið verðlaun, né heldur neitt um lof fyrirtækisins þó svo að fyrirtækið sem vann að rafvæðingu fjárhagsaðstoðar sé vissulega mjög þekkt fyrirtæki bæði hér og erlendis. Það kemur hinsvegar fram í gögnum máls að verkefnið sjálft hafi fengið lof og verið tilnefnt til nokkurra verðlauna sem er rétt. Verkefnið er t.d. tilnefnt til tveggja verðlauna á Íslensku vefverðlaununum. Einnig má nefna að það hefur vakið athygli aðila á borð við Harvard háskóla í Bandaríkjunum sem í samstarfi við Bloomberg Philantropies hefur óskað hefur eftir að borgin kynni verkefnið á vettvangi 21 borga sem eru í fararbroddi í stafrænni umbreytingu. R20030071

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 6. mars 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um ástand Fossvogsskóla, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. febrúar 2020. R20020201:

Flokkur fólksins hefur fengið svar við fyrirspurn um ástand Fossvogsskóla og heilsu skólabarna en dæmi eru um að börn hafi veikst aftur vegna myglu í byggingu þrátt fyrir að mikið viðhald liggi að baki. Í svarinu kemur fram að ný mygla hafi orsakast af leka í þakglugga. Fulltrúi Flokks fólksins veltir fyrir sér hvernig þetta má vera og hvort hér sé um handvömm að ræða eða mistök í útboði? Í það minnsta hlýtur það að þykja sérstakt að hús leki áfram eftir viðgerð.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundaráðs við fyrirspurn um kerfisbundna upplýsingamiðlun milli heilsugæslu og skóla í málum barna sem greinast með lesskilningsvanda: 

Lagt er fram svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um upplýsingamiðlun frá heilsugæslu til skólanna vegna barna sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi þeirra sem glíma munu við erfiðleika í lestri og lesskilningi. Í svari segir að ekkert slíkt samstarf sé formgert að vitað sé og að þær upplýsingar sem berist skóla komi þá frá foreldrum. Flokki fólksins finnst þetta afar sérkennilegt þar sem skóla- og velferðaryfirvöld státa sig af „snemmtækri íhlutun” en getur hins vegar ekki haft frumkvæði að því að nálgast þessar upplýsingar, með samþykki foreldra að sjálfsögðu, til að geta einmitt gripið til snemmtækra íhlutunar? Þarna liggja miklar og gagnlegar upplýsingar sér í lagi ef barn mælist með vísbendingar um vanda. Íhlutun í máli þess barns gæti byrjað á 1. skóladegi Eina sem þarf að gera er að kalla þessar upplýsingar markvisst yfir til skólans. Hvernig á að túlka það þegar skólayfirvöld sýna slíkt andvara- og frumkvæðaleysi þegar börn eru annars vegar? Flokki fólksins finnst þetta skýrt dæmi um að helsti vandi þessa meirihluta er tengsla- og frumkvæðaleysi. Áður hafði Flokkur fólksins spurt um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Sama svar var gefið „ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert”.

 

Bókun Flokks fólksins við svari mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 26. febrúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar, sbr. 70. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:

Í svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stefnu borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og vinnu kjarasamninganefndar borgarinnar segir að Samband íslenskra sveitarfélaga fari með samningsumboð borgarinnar gagnvart stéttarfélögum innan Kennarasambands Íslands, þar með talið Félagi leikskólakennara. Segir jafnframt að ljóst sé að niðurstöður annarra samninga hafa áhrif á kjaraviðræður við Félag leikskólakennara. Stytting vinnuviku er eitt af þeim meginatriðum sem rætt hefur verið við þá viðsemjendur Reykjavíkurborgar sem hafa verið með lausa kjarasamninga frá 1. apríl 2019. Þá má reikna með að viðræður við Félag leikskólakennara munu m.a. fjalla um vinnutímaskipulag leikskólakennara og undirbúningstíma fyrir fagleg störf þeirra eins og segir í svari. Flokkur fólksins vonar að nú þegar verkföllum er lokið þá verði settur fullur kraftur í viðræðurnar. Félagsmenn Kennarasambands Íslands eru eðlilega farnir verulega að ókyrrast.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 6. febrúar 2020. R20020060:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið og veltir upp spurningunni hvort skipulags- og velferðaryfirvöld borgarinnar átti sig nægjanlega vel á að bak við hvern einstakling standa margir? Erfiðast af öllu er þetta fyrir einstaklinginn sjálfan að fá ekki tækifæri til að vera sjálfstæður þegar hann getur það og vill. Spyrja má hversu margir fjölskyldumeðlimir séu yfirkomnir af álagi og þreytu, sumir jafnvel komnir á bætur og búnir að tapa heilsunni. Foreldrar fatlaðra sem komnir eru á fullorðins ár fá ekki tækifæri til að búa einir ættu að vera á launum hjá borginni. Þær biðlistatölur sem koma fram í svarinu eru geigvænlegar og sýna svart á hvítu að þessi málaflokkur hefur lengi verið í ruslflokki. Það bíða 142 einstaklingar eftir sérstöku húsnæði og 43 hafa beðið lengur en 5 ár. Ekki kemur fram hvað þeir sem beðið hafa lengst hafa beðið í mörg ár. Flestir búa heima hjá foreldrum. Það tekur tíma fyrir fatlað fólk að aðlagast því að flytja að heiman. Dragist í mörg ár að fá húsnæði nær viðkomandi e.t.v. ekki að koma sér fyrir, búa sér til eigið heimili með góðu tengslaneti áður en foreldrar eldast. Foreldrar kvarta yfir að fá engin svör, gögn né upplýsingar um stöðu mála.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu stýrihóps vegna frístundakorts, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 13. febrúar 2020. R20020124

Flokkur fólksins spurði um vinnu stýrihóps vegna frístundarkorts og hvort vænta megi áfangaskýrslu. Segir í svari að engin áfangaskýrsla verði gerð en vinnu muni ljúka fyrir sumarið. Flokkur fólksins gerir þá ráð fyrir að fá skýrslu þegar vinnu lýkur og að fá hana fyrir sumarið. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að stýrihópurinn haldi í heiðri og sjái til þess að aðeins börnin geti notað kortið að eigin vali til að velja sér íþrótt eða tómstund eins og upphaflegt markmið kortsins kvað á um og að kortunum verði ekki ætlað til annarra hluta eins og að greiða frístundaheimili sem barnið er á af nauðsyn eða tungumálaskóla. Með því að tengja frístundarkortið við fjárhagsstöðu foreldra er verið að brjóta á rétti barnsins til að nota það. Rjúfa þarf tengsl kortsins við 16. grein um sérstaka fjárhagsaðstoð þannig að án tillits til efnahags foreldra fái barnið alltaf tækifæri til að nota kortið til þess að velja sér íþrótt eða tómstund og foreldrar fái þann styrk/fjárhagsaðstoð sem þau þurfa hvort heldur fyrir frístundaheimili, tungumálaskóla eða annað.

 

Bókun Flokks fólksins kynningu á stefnu í íþróttamálum til ársins 2030:

Margt er gott í þessari íþróttastefnu og trúir Flokkur fólksins að hópurinn hafi lagt sig fram. Flokki fólksins finnst þó að nokkuð skorti á að jafnréttissjónarmið séu virt. Það er eins með íþróttir og annað í lífinu að þær eiga að standa öllum til boða. Einstaklingar velja svo hvað þeim hentar. Ekki allar íþróttir standa fötluðum börnum til boða og er það ekki vegna þess að þau geti ekki stundað þær. Íþróttir sem standa fötluðum börnum til boða eru auk þess ekki nógu sýnilegar í Reykjavík. Fram kemur að Reykjavíkurborg styrkir börn til þátttöku í íþróttum með frístundakortinu. Reglur kortsins mismuna börnum, þau fátæku fá ekki sömu tækifæri að nota það og börn efnaðri foreldra. Margir efnaminni foreldrar átta sig kannski ekki á hvernig þetta virkar og eru jafnvel þakklátir fyrir að geta nota kortið til að greiða með t.d. frístundaheimili. En á meðan er barnið ekki að nota það að eigin vali. Það er mikilvægt að ekki sé reynt að slá ryki í augu foreldra og ef kanna á viðhorf þeirra um kortið að ekki séu spurðar leiðandi spurningar. Styrkja á efnaminni foreldra sem þurfa aðstoð með frístundarheimili og tungumálaskóla með öðrum hætti en að nota frístundarkort barnsins til að greiða gjöldin.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra þar sem erindisbréf starfshóps um sérstök húsnæðisúrræði er sent borgarráði til kynningar:

Fram kemur að verið sé að setja á laggirnar starfshóp vegna sérstaks húsnæðisúrræða. Hlutverk starfshópsins er að hafa yfirumsjón með uppbyggingaráætlun sérstakra húsnæðisúrræða í Reykjavík og gera tillögur að aðgerðum borgarinnar til að mæta markmiðum hennar um fjölgun sérstakra húsnæðisúrræða fyrir fatlað fólk. Enda þótt þessi hópur sé ekki pólitískur væri ekki úr vegi að hafa einn kjörinn fulltrúa með í hópinum. Þessi mál eru i miklum ólestri. Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um upplýsingar um þá sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk kemur fram að á biðlista eru 142 fatlaðir einstaklingar og 45 þeirra hafa beðið í meira en 5 ár. 11 einstaklingar eru 50 ára og eldri og flestir búa hjá foreldrum sínum. Foreldrar fatlaðra einstaklinga kvarta yfir að fá engin svör, fá engin gögn og fá ekki upplýsingar. Hér verður að fara að taka til hendi. Í það minnsta sýna fólki tilhlýðilega virðingu og svara því. Spurning Flokks fólksins er hvernig ætlar þessi starfshópur að taka á þessum málum. Vandinn er rótgróinn og uppsafnaður.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Félagsbústaða vegna óskar um að Reykjavík gangi í ábyrgð fyrir útgáfu skulabréfa að upphæð 9. m.kr.:

Enn á ný óskar stjórn Félagsbústaða eftir að ný skuldabréf verða gefin út og er óskað eftir einfaldri ábyrg Reykjavíkurborgar vegna útgáfu bréfanna. Nú er upphæðin 9. 000 m.kr. sem um ræðir að þessu sinni. Þessu mælir fjármála- og áhættustýringasvið með að borgarráð samþykki. Félagsbústaðir skulda fyrir 45 ma.kr og faraskuldir vaxandi. Hér er verið að biðja um lán til að endurfjármagna óhagstæð eldri lán en einnig til að gera eitthvað meira, „mæta fjárfestingarþörf” segir í umsögn fjármála- og áhættustýringarsvið. Spurningar vakna um rekstrarform Félagsbústaða sem er hlutafélag í eigu borgarinnar. Er þetta sem bíður, að óskað sé eftir að borgin gangi í einfalda ábyrgð fyrir lán Félagsbústaða jafnvel árlega ef ekki tvisvar á ári, næstu árin? Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand íbúða fjölmargrar sem fólki er boðið að leiga er í slæmu ástandi og enn berast fréttir að erfitt er að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandann frá yfirstjórn Félagsbústaða.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þjónustu- og nýsköpunarsviðs til ráðningar á sérfræðingum í hugbúnaðarteymi:

Flokkur fólksins hefur nokkrar athugasemdir við rökstuðning í þessu máli enda þótt hægt sé að vera sammála um að betra sé að ráða starfsmann i verkið frekar en að fá fyrirtæki til að vinna verkið. Hins vegar í forsögunni kemur fram að útboðið hafi verið sniðið að ákveðnu fyrirtæki. Sagt er að vinna þess fyrirtækis hafi hlotið lof bæði heima og að heiman og fengið verðlaun og þá má spyrja hverjir lofuðu fyrirtækið og hvaðan komu þessi verðlaun. Sagt er í greinargerðinni að val á aðila í gegnum opinber innkaup séu ekki heppileg. Er hér verið að tala um að betra sé að hafa samband við vin?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu samþykktar að auglýsa tillögu á deiliskipulagi Vesturbæjarlaugar vegna loðar nr. 54 við Hofsvallagötu. Hundagerði:

Það er með eindæmum sorglegt af hverju skipulagsyfirvöld skulu sí og æ þverskallast við að hlusta á raddir hagsmunaaðila og sérfræðinga en þess í stað keyra málin áfram nánast eins og af þrjósku og stífni. Þetta má sjá í hnotskurn við hönnun og gerð hundagerðis við Vesturbæjarlaug. Flokkur fólksins hefur ítrekað bókað athugasemdir og hvað það er sem þarf að breyta til að gerðið verði fullnægjandi. Málið er framlagt í borgarráði og sjá má að allar athugasemdir hafa verið hunsaðar. Lögð er á borðið sama teikning og stendur 400m2 undir teikningunni. Ef gerðið rís í þeirri stærð, þá er það ónothæft og aðeins verið að sóa peningum. Þetta er leiðinlegt því hugmyndin var samþykkt í kosningu um Mitt hverfi en skipulagsyfirvöld vilja eyðileggja hana með því að gera gerðið ónothæft. Í upphaflegri hugmynd átti gerðið að vera ca. 2000 m2 samkvæmt mynd. Ekki aðeins er mikil seinkun á verkinu. Hundagerðið sem teiknað var inn í nóvember i fyrr var 700 fm. að stærð. 26. feb. var hins vegar samþykkt á fundi skipulagsráðs að minnka það í 400 fm. sem er allt of lítið. Fleiri annmarkar eru. Eins er girðing ekki fullnægjandi þar sem hún nær ekki niður á jörð og geta litlir hundar smeygt sér undir.

 

Bókun Flokks fólksins vegna deiliskipulags BYKÓ reitar vegna lóðanna nr. 77 við Sólvallagötu og nr. 116 við Hringbraut:

Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á BYKÓ reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugt að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbraut mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs  sbr. samþykkt á breytingu deiliskipulags Skefina-Fenin vegna lóðar nr. 1:

Samkvæmt breyttu deiliskipulagi við Grensásveg 1 stendur til að byggja umtalsvert upp af íbúðar og verslunarhúsnæði. Nokkrir aðilar eru eigendur lóða og þess húsnæðis sem þar standa nú. Þessir aðilar kvarta undan engu samráði sem kemur ekki á óvart miðað við fyrri áætlanir og framkvæmdir hjá borgarmeirhlutanum. Þó virðist að nú hafi verið hlustað á þá með einhverjum hætti. Ef af verður má vænta málaferla af hálfu lóðareigenda sem gæti kostað borgina umtalsvert fé. Vonandi verður ekki úr því þar sem gerðar hafa verið breytingar á fyrri áætlun. Það stingur í augu að ekki kemur fram að gert sé ráð fyrir skóla eða skólasókn þeirra barna sem væntanlega munu búa á þessu húsnæði. Hvernig eiga börnin að sækja sinn skóla yfir stórar umferðaræðar í borginni, Grensásveg og Suðurlandsbraut? Kannski með gönguljósum sem þá stöðva umferð enn frekar með tilheyrandi mengun á svæðinu. Eða að foreldrar aki börnum sínum í skólann. Varla dugar einn deilibíll fyrir allan þann fjölda eins og mælt er með í nýja skipulaginu. Flokkur fólksins leggur til að haft verði samráð við hagsmunaaðila til að koma í veg fyrir deilur og hugsanleg málaferli.

 

Fundargerð Sorpu: Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 7. lið fundargerð:

Flokkur fólksins hefur ítrekað kvartað yfir rýrum fundagerðum SORPU. Halda mætti að það sé markmið stjórnar að sem fæstir fái innsýn í verkefni og vinnubrögð fyrirtækisins. Í þessum fundargerðum kemur hreinlega ekkert fram sem hald er í. Um er að ræða allt að því stikkorðastíl. Til dæmis má nefna lið 7, um niðurstöður húsasorpsrannsóknar. Hverjar eru niðurstöðurnar og hvar er þær að finna? Í hvaða niðurstöður er verið að vísa? Fulltrúi Flokks fólksins fletti upp upplýsingum um hússorpsrannsóknirnar og fann aðeins 6 ára gamla rannsókn þar sem fram kemur að 192 milljónum er hent í ruslatunnur. Er verið að vísa í þessa athugun eða aðra? Hvað varðar SORPU að öðru leyti er löngu tímabært að SORPA nútímavæðist og taki upp þriggja tunnu flokkunarkerfi. Reykjavík er að verða eftirbátur í sorpmálum ef tekið er mið af öðrum sveitarfélögum.

 

Fundargerð Strætó bs. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Í þessum lið í fundargerð Strætó bs er verið að tala um orkugjafa og reynsluna af nýju metanvögnum. Flokki fólksins finnst sérkennilegt að tala um reynslu af nýjum vögnum, varla er komin mikil reynsla á eitthvað sem er nýtt. Hversu lengi skyldu vagnar teljast nýjir og hvað þarf að aka þeim lengi til að hægt geti verið að tala um að komin sé reynsla á „nýju“ vagnana? Svona upplýsingar vantar í fundargerð. Í lið 4 er rætt um útboð á rafmagnsvögnum. Flokkur fólksins veltir fyrir sér í þessu sambandi hvort til standi að fjölga metanvögnum enn meira og minnir á að offramboð er af metani og mun það aukast við nýju jarðgerðarstöðina. Hvernig væri nú að Strætó talaði við SORPU eða SORPA við Strætó og fengi metanið hjá þeim á kostnaðarverði. Það yrði hagur allra.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hlemmur, nýtt deiliskipulag:

Vegna nýs deiliskipulags fyrir Hlemm, Snorrabraut og nærliggjandi umhverfi lýsir Flokkur fólksins yfir áhyggjum þegar skipulagsyfirvöld borgarinnar vinna að deiliskipulagi og senda án samráðs við fólk í auglýsingu. Hlemmur er okkar allra, eitt af þeim svæðum sem flestir borgarbúa þekkja, því er ánægjulegt að það hafi verið skoðað í heild sinni. Það vekur athygli að gengið er út frá drauminum um borgarlínu, þannig að nýja skipulagið gerir aðeins ráð fyrir að borgalínan fari um svæði. Ekki er fullljóst með stoppistöðvar Strætó, en bent á Snorrabraut. Það er varhugavert því stöðvar við þá götu hefðu veruleg áhrif á umferð sem þegar verður illa teppt vegna lokunnar Rauðarárstígs. Aldar gamalli hefð leigubílastands á Hlemmi verður fórnað og óljóst hvar verður, frekar á að flytja til baka Norðurpólinn. Sumt úr sögunni á að undirstrika, en annað sem enn lifir þarf að hverfa eins og leigubílastaurinn, sem þjónar þó fólkinu í nánasta umhverfi. Útiloka á öll ökutæki af svæðinu og þar með aðgengi fatlaðra og eldri borgara. Engin aðkoma bíla leyfð, ekki einu sinni P merkt stæði? Ljóst að borgarbúar munu hafa lítið um skipulagið að segja. Flokki fólksins finnst að borgarbúar eigi að koma meira að hönnun og skipulagi á fyrstu stigum skipulags. Forðumst vondar endurtekningar.

 

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu bréfs um tilnefningu tveggja fulltrúa í starfshóp vegna rannsókna á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur nokkrar áhyggjur af því hversu miklu fé á að verja í að rannsaka möguleika á flugvelli í Hvassahrauni. Hversu marga starfshópa á eftir að stofna? Vissulega er þetta ekki einungis málefni borgarinnar. Flokkur fólks vill nota tækifærið og nefna nokkur atriði hér í sambandi við Hvassahraunið. Verðurskilyrði þar voru mæld fyrir um 2-3 árum en engar tilraunir í flugi s.s. mælingar á kviku eða skýjahæð hafa verið gerðar. Í skýrslu frá 1970 eftir Leif Magnússon er strax komin vísbending um að þessi staðsetning verði líklega ekki vænleg fyrir flugvöll. Hvassahraun sem möguleg staðsetning fyrir nýjan innanlandsflugvöll hefur verið lengi í umræðunni. Eins og málið horfir við í dag er óvissan um þennan stað því mikil. Ef mælingar og tilraunir reynast ekki hagstæðar þá er málið á núllreit. Það mun ekki koma í ljós fyrr en eftir nokkur ár þegar niðurstöður mælinga og flugtilrauna liggja fyrir og þá sennilega milljónir ef ekki milljarðar farnir út um gluggann. Ef til kemur að Hvassahraun stenst skoðun er ekki sanngjarnt að borgin greiði helming af hönnunarkostnaði flugvallar í Hvassahrauni. Sá flugvöllur verður ekki innan borgarmarka Reykjavíkur. Ef til kæmi þá er nær að þau sveitarfélög þar sem flugvöllurinn verður tækju þátt í hönnunarkostnaðinum.

 

Skipulags- og samgönguráð
11. mars 2020

Fyrirspurnir áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna búningsklefa Sundhallarinnar.
Mál nr. US200074

Sundhöll Reykjavíkur hefur verið í endurgerð og endurbyggingu og var nýr kvennaklefi byggður vegna þess að sá eldri þótt ekki viðunandi. Mörgum kvengestum Sundhallarinnar finnst staðsetning nýrra búningsklefa bagaleg þar sem ganga þarf frá klefum langa leið utandyra til að komast inn í Sundhöllina. Karlar hafa nú fengið klefa sína aftur endurgerða. Klefar kvenna eru enn í endurbyggingu sem lýkur á þessu ári en munu ekki vera ætlaðir konum til frambúðar heldur viðbót ef með þarf. Margir kvengestir vilja fá aftur aðgang að eldri búningsklefum þegar endurbótum þeirra er lokið. Þær sætta sig ekki við að hafa verið úthýst og að þurfa að ganga langar leiðir á blautum sundfötum, frá klefa að laug. Það stóð aldrei annað til en að karlar fengju sína gömlu klefa aftur. Flokkur fólksins veltir einnig fyrir sér hvort jafnréttisjónarmið kunni að hafa verið fótum troðið hér og hvort farið hafi verið á sveig við jafnréttislög? Fulltrúi Flokks Fólksins óskar eftir skýringu, af hverju kvennabúningsklefinn í Sundhöll Reykjavíkur var tekinn af konunum bæði á meðan klefarnir voru endurgerðir, en einnig til frambúðar? Af hverju konum var vísað úr sínum gömlu klefum en ekki körlum? Hvað hindrar það að konur fái aftur aðgang að klefunum, tilbúnum?

Tillaga Flokks fólksins um að metanbílar verði aftur teknir á lista yfir visthæfa bíla

Með nýjum reglum sem tóku gildi 1. janúar 2020 voru metanbílar teknir af lista vistvænna bíla og geta ökumenn ekki lagt gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þetta er bagalegt og ekki til þess fallið að hvetja til orkuskipta. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur. Rök formanns skipulagsráðs voru að ekki væri hægt að tryggja að eigendur metanbíla aki á vistvæna orkugjafanum þegar þeir koma í bæinn og leggja í gjaldskyld stæði. Með þessum orðum er verið að gera lítið úr eigendum metanbíla. Það blasir við að sá sem kaupir sér metanbíl noti einungis bensín sem varaafl. Flokki fólksins finnst mikilvægt að allt sé gert til að flýta orkuskiptum og því fleiri sem sjái hag í að kaupa metanbíl því betra. Offramboð er á metani sem brennt er á báli í stórum stíl á söfnunarstað því Sorpu hefur mistekist að koma því á markað. Metan ætti að gefa eða selja á kostnaðarverði. Allt er betra en að sóa því. Væri metan selt á kostnaðarverði mundi hópur metanbíleigenda stækka hratt. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi orkuskipta. Það voru regin mistök að fjarlægja metanbíla af þessum lista.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, borgarlína, breyting á aðalskipulagi milli Ártúnshöfða og Hamraborgar:

Nú stendur til að hefja fyrstu áætlun um byggingu borgarlínu um Reykjavík og yfir í Kópavog. Flokkur fólksins er í sjálfum sér ekki á móti borgarlínu, en lýsir efasemdum um ágæti hennar vegna ört vaxandi tæknibreytinga sem gætu gert borgalínuna óþarfa þá loks hún verður tilbúin, því er beint þeim tilmælum að aðrir og ódýrar samgöngukostir verði skoðaðir af borginni en þessi rándýra framkvæmd. Hverjir eiga svo að not borgarlínuna? Við lestur umræddrar skýrslu virðist eins og aðeins sé gert ráð fyrir að hjólandi og gangandi borgarbúar noti borgarlínuna samt er litið til þess að bílum fækki. Lítum á dæmi: Gert er ráð fyrir að við stöðvar borgarlínu verði hjólastæði fyrir hjólreiðamenn sem vilja nýta borgarlínuna. Ekki er gert ráð fyrir bílastæðum svo bíleigendur geti nýtt sér borgarlínuna. Hvers vegna á ekki einmitt að höfða til þeirra sem vilja nota einkabílinn nánast í allar sínar ferðir? Það er alþekkt erlendis að við endastöðvar almenningslesta eru bílastæði fyrir bifreiðareigendur svo þeir sleppi að aka alla leið til vinnu, heldur nýti sér almennings samgöngur líkt og aðrir. Hvað varðar kolefnisjöfnuð þá má gera ráð fyrir að meirihluti bílaflotans verð knúinn vistvænni orku 2040. Verður því fækkun einkabílsins eins mikil og til er ætlast?

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hádegismóar, nýtt skipulag:

Til stendur að Bandalag íslenskra skáta fái til afnota reit í Hádegismóum til að reisa sínar bækistöðvar. Um er að ræða lítt snortna náttúru sunnan við Morgunblaðshöllina. Skátar á Íslandi eru þekktir fyrir jákvæða umgengni við náttúru landsins og eru víða með bækistöðvar sem eru bæði til prýði og hafa gefið mörgu ungmenninu tækifæri til að kynnast náttúru svæðanna betur, svo ekki sé minnst á þá jákvæðu starfsemi sem skátahreyfingin iðkar. Ef af verður að Skátahreyfingin reisi sínar bækistöðvar á Hádegismóum mælist Flokkur fólksins til að hönnuðir húsakynnanna taki tillit til náttúrunnar og geri þau þannig úr garði að allt falli vel að umhverfinu. Jafnframt má ætla að starfsemi Skátanna, svona rétt við Rauðavatn styrki þetta fallega útivistarsvæði í jaðri höfuðborgarinnar og gæði það enn meira lífi.

 

Skipulags- og samgönguráð
4. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Hringbraut 116, Bykoreitur, breyting á deiliskipulagi:

Fram kemur í kynningu að ekki sé verið að auka byggingarmagn og ekki eigi að hækka byggingar á Byko reitnum. Þær athugasemdir sem hafa borist eru margar mjög verðugar að skoða og snúa m.a. að öryggi og vindmælingum. Flokkur fólksins fagnar því að skoða á nánar áhrif af formi húsa við endurgerð þessa svæðis með tilliti til vindsveipa. Mikilvægt er að prófa mismunandi gerðir bygginga í líkantilraunum í vindgöngum enda skipta form húsa miklu máli þegar spurning er hversu mikinn vind þau draga niður að jörðu. Öll vitum við að ekki tókst nógu vel til með Höfðatorgið en þar eru vindsveipir stundum hættulega sterkir líklega vegna þess að lögun bygginga dregur vind niður að jörðu. Hvað varðar öryggisþáttinn þá hefur Hringbrautin mjög lengi verið ein af þeim götum þar sem gangandi og hjólandi vegfarendum er hætta búinn. Flokkur fólksins vonar að öryggisþátturinn á þessu svæði verði skoðaður ofan í smæstu öreindir.

 

Bókun Flokks fólksins við fyrirspurn um Óðinstorg:

Í svari við fyrirspurn um Óðinstorg eru nokkur atriði sem fulltrúi Flokks fólksins rekur augun í. Það er kannski erfitt að gagnrýna verkferilinn og vel kann að vera að allt sé í góðu samræmi við samþykktir. Kostnaðurinn við þessar framkvæmdir er gríðarmikill, hér er verið að tala um alla vega 331 milljón, upphæð sem nær hátt í kostnað við endurgerð braggans. Flokkur fólksins vill setja stórt spurningarmerki við forgangsröðun hér og finnst hún mjög röng. Varla er það vel ígrundað að setja slíka upphæð í að snyrta eitt torg í bænum þegar hefði verð hægt að nota þetta fjármagn til að fjölga stöðugildum sálfræðinga sem dæmi en um 700 börn bíða eftir ýmis konar þjónustu sérfræðinga skóla. Vissulega eru þau mál ekki á borði skipulags- og samgönguráðs en hér finnst fulltrúa Flokks fólksins að meirihlutinn í borginni raði fólkinu sjálfu og börnunum ekki mjög ofarlega á forgagnslista heldur setja skreytingar gatna og torga í efstu sætin. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr: Af hverju var svo nauðsynlegt að endurnýja þetta svæði umfram annað?

 

Bókun Flokks fólksins við svari og afgreiðslu tillögu um frí bílastæði í bílastæðahúsum á næturnar:

Flokkur fólksins lagði til að gjaldfrjálst verði að leggja í bílastæðahús á næturnar þar sem bílastæðaskortur er vaxandi vandamál í miðborg Reykjavíkur en tillagan hefur verið felld í skipulags- og samgönguráði. Íbúar borgarinnar finna fyrir þeim skorti en lítið bólar á úrræðum til úrlausnar á vandanum. Á sama tíma rekur Reykjavíkurborg 6 bílastæðahús með yfir þúsund bílastæðum. Í svari er það staðfest að nýting á nóttinni er lítil og önnur rök eru að ef tillagan verði að veruleika þá muni bílastæðasjóður verða fyrir tekjutapi. Þetta eru sérkennileg rök, „nýting er lítil og óttast er að bílastæðasjóður verði fyrir tekjutapi“. Flokkur fólksins spyr hvernig þetta tvennt fari saman? Spyrja má í framhaldinu, hvað græðir bílastæðasjóður á að hafa nánast tóm bílastæðishús að nóttu til?
Hér er verið að tala um að hafa frítt yfir nóttu og koma þannig á móts við bílastæðavanda. Mörgum íbúðum sem verið er að selja í borginni fylgja ekki bílastæði. Það hefur ákveðinn fælingarmátt. Að bjóða upp á gjaldfrjáls stæði að nóttu er hagur íbúa á svæðinu, það myndi einnig laða fólk frekar að skoða að fjárfesta í íbúðum á svæðinu og breyttir sennilega mjög litlu fyrir bílastæðasjóð. Í svari er tala um vaktþjónustu. Vaktþjónusta er óþarfi, bílastæðahúsunum þarf ekki að læsa yfir nóttu.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf um Laugavegur sem göngugötur

Í sáttmála sínum ákvað meirihlutinn sem er með minnihlutaatkvæði að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið. Þessi ákvörðun hefur komið verulega illa við fjölda rekstraraðila og rekstur þeirra á Laugavegi og Skólavörðustíg. Að viðskipti svo fjölmargar ólíkra verslana skyldi hrynja eins og raun bar vitni þegar götum var lokað fyrir umferð var kannski ekki hægt að vita að gerðist með svo afgerandi hætti. Þegar í ljós kom hvert stefndi hefði meirihlutinn átt að staldra við, hlusta á þennan hóp og endurskoða ákvörðun sína í kjölfarið. En í stað þess að staldra við er haldið áfram nánast af þvermóðsku. Það hefði ekki sakað að fara hægar í sakirnar hér þegar í ljós koma hvaða áhrif þessar lokanir höfðu. Að fara á móti straumnum veitir ekki á gott. Það er engin ákvörðun svo heilög að ekki megi endurskoða hana, aðlaga eða breyta tímasetningu hennar. Þetta er spurning um tillitssemi og skilning. Það er barnalegt af meirihlutanum að sveifla rökum eins og „já en þetta stendur í sáttmálanum“ og loka þar með á alla möguleika á að ræða málið með það í huga að mæta betur þörfum og væntingum rekstraraðila.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, í tengslum við endurnýjun Óðinstorgs, Mál nr. US200064

Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju var svo nauðsynlegt að endurnýja þetta Óðinstorg umfram annað torg/svæði í Reykjavík en rúmlega 300 milljónum hefur verið varið í að endurgera Óðinstorg?
Flokkur fólksins óskar eftir að fá yfirlit yfir svæði sem þarf að endurnýja á næstu árum.
Frestað.

Borgarstjórn
3. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að selja metan á kostnaðarverði:

Tillögunni var vísað frá

Tillagan um að söluverð metans verði lækkað og miðist við flutningsverð hefur verið felld. Ofgnótt er af metani, á því er offramleiðsla. Hvað varðar þennan orkugjafa hefur borgarmeirihlutinn þessi og síðasti haldið einstaklega illa á málum. Í stað þess að finna leiðir til að nýta metan hefur því verið brennt á báli til að menga ekki andrúmsloftið. Hvar er forsjálni og fyrirhyggja þeirra sem stýrt hefur borginni og Sorpu. Í engu tilliti hefur verið reynt að markaðssetja metan nema síður sé. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins að það sé selt á flutningsverði í þeirri von að það leiði til fjölgunar metanbíla á götum. Með þessari aðgerð er vel hugsanlegt að stórt stökk verði tekið í orkuskiptaferlinu. Nú blasir við að Sorpa er í slæmum fjárhagsvanda sem leiða má til lélegrar stjórnunar. Hvorki metan né molta mun bjarga Sorpu sem skuldar. 4.1 milljarð. Það yrði en ein vond ákvörðunin að ætla að fara að verðleggja metan hátt, það mun enfaldlega þýða að engin mun kaupa það. Betra er að nánast gefa það en sóa því á báli. Hugsa þarf út fyrir boxið og muna að Sorpa er í eigu borgarinnar að stórum hluta og það er Strætó bs líka sem gæti haft einungis metanvagna og nýtt metnið frá Sorpu.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að vísa skýrslum vegna Nauthólsvegar 100 og Skýrslu Borgarskjalavarðar í opinbera rannsókn (héraðssaksóknara og/eða lögreglu eftir atvikum).

Tillögunni var vísað frá. Sjálfstæðismenn og Sósialistar sátu hjá:

Flokkur fólksins telur það sérstakt að borgarstjórn hafi ekki áhuga á að fá lúkningu í braggamálið en til þess að svo megi verða þarf að vísa því til héraðssaksóknara og lögreglu eftir atvikum. Málinu er vísað frá. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn lögðu fram sambærilega tillögu árið 2019 og var sú tillaga þá felld. Þá lá skýrsla borgarskjalavarðar ekki fyrir. Sú skýrsla kom út nýlega og segir í niðurstöðum að eftir að Innri endurskoðun hefði fjallað um málið í fyrra, hefðu starfsmenn Reykjavíkurborgar gerst sekir um að brjóta lög um skjalavörslu. Með tilkomu seinni skýrslunnar er enn ríkari ástæða til að fá málið í heild sinni fullrannsakað og fullupplýst. Óumdeilt er að málið allt er klúður og illa hefur verið farið með fé skattgreiðenda. Á þessu vill meirihlutinn ekki axla ábyrgð. Það er mjög mikilvægt að báðar þessar skýrslur fari í opinbera rannsókn annars vegar til héraðssaksókna og hins vegar lögreglu til að rannsaka hvort framið hefur verið embættisbrot og/eða brot í opinberu starfi. Það er eins og borgarstjóri og skipulagsyfirvöld vilji helst að þetta mál gleymist sem fyrst, segja það einstakt tilvik. En er það einstakt tilvik? Borgarstjóri vill að borgarlögmaður rannsaki málið en sú rannsókn og niðurstöður munu aldrei geta orðið trúverðugar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósilista um stofnun matarbanka:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst alltaf eðlilegast að fólk sem þarfnast aðstoðar til að kaupa mat fái einfaldlega viðskiptakort með þeirri upphæð sem það fær til ráðstöfunar og getur kortið gilt í helstu matvöruverslunum. Þá þarf viðkomandi ekki að koma á einhvern stað til að fá mat hvort sem það er hjálparsamtök eða matarbanki ef því er að skipta til að fá mat heldur getur viðkomandi haft sjálfdæmi um hvar hann vill versla og hvað. Matarbanki eins og hér er lagt til þarfnast yfirbyggingu og utanumhald. Afhending matarkorts er einfaldara fyrirkomulag og tíðkast í mörgum löndum sem við berum okkur saman við.  Flokkur fólksins vill styðja þessa tillögu því hún er lögð fram að hug sem samræmist stefnu Flokks fólksins. Ef framhaldið verður að fólk fái kort til að kaupa sér sjálft mat þá væri það það allra besta.

 

Bókanir Flokks fólksins við liðum er varða verkfall Eflingar og afleiðingar þess:

Borgarstjóri og samninganefndin í hans umboði bera ábyrgð á verkfallinu og hvernig komið er nú þegar afleiðingar þess eru farnar að hafa áhrif á öryggi. Er borgarmeirihlutinn bíða eftir að öryggisstigið nái slíkum hæðum að setta verði lög á verkfallið? Það er tvískinnungsháttur í orðræðu borgarmeirihlutans þegar hann segist hafa áhyggjur af öryggi vegna þess að ekki er þrifið þar sem rekin er þjónusta fyrir þá viðkvæmustu. Ganga á að kröfum Eflingar enda eru þær hóflegar og sanngjarnar. Verkfallið hefur staðið á þriðju viku og spurt er í hvað mikla hættu ætlar borgarstjóri að stefna borgarbúum í þegar kemur að öryggisatriðum vegna umönnun þeirra viðkvæmustu og sorphirðu? Í bókun borgarráðs 2.3. má lesa að borgarstjóri vill kenna starfsfólki um, gera Eflingu að sökudólgi um hvernig komið er, fólki sem nær ekki

Mánudaginn 2.3  var haldinn sérstakur fundur í borgarráði þar sem rætt var um Covit 19 en daglega berast upplýsingar um málið frá sérfræðingum sem halda samfélaginu eins vel upplýstum og hægt er. Borgarfulltrúi vill nefna þá bókun sem gerð var í borgarráði í gær en til fundarins var sérstaklega boðað til að ræða Covit 19. Í bókun samin af meirihlutanum var upphafið um Covit 19,  eitthvað sem allir geta tekið undir. Síðari hluti bókunarinnar var hins vegar um afleiðingar verkfallsins. Í þann hluta bókunarinnar var laumað inn ásökunum í garð Eflingar eins og það sé þeim, láglaunafólkinu í borginni  að kenna að öryggi vegna sorpmála sé ógnað. Borgarfulltrúi Flokks fólksins harmar að varaborgarfulltrúi sem sótti fundinn hafi sett nafn sitt við slíka bókun, þann hluta sem snýr að orðræðu meirihlutans um verkfallið. Það er borgarstjóri sem ber ábyrgð á slakri stöðu sorpmála í borginni og öllum þeim alvarlegu afleiðingum sem orðin eru af verkfallinu. Þetta verkfall er á hans ábyrgð en hann reynir samt að gera Eflingu að sökudólgi, fólki sem óskar eftir að fá laun sem möguleiki er að lifa af.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir, annars vegar vegna óforskammaðrar ályktunar meirihluta  og Sósialistaflokks gagnvart starfsmanni sundlaugar og hins vegar vegna óþarfa ógegnsæi og seinkunar á fundargerðum:

Liður 7 fundargerð menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs 24. febrúar

Flokkur fólksins tekur undir bókun Miðflokksins að draga eigi umrædda álytkun meirihlutans til baka vegna atviks í sundlaug Grafarvogs sem sagt var frá í fréttum.  Það má teljast dómgreindarbrestur að meirihlutinn í mannréttindaráði sameinist í að ráðast á starfsmann borgarinnar þegar aðeins hefur verið birt  önnur hliðin á málinu og það í einum fjölmiðli. Flokkur fólksins í mannréttinaráði reyndi að vara við þessu og benti á að skortur væri á staðfestum upplýsingum en náði ekki eyrum formanns mannréttindaráðs.

Liður 15 fundargerð mannréttinda, lýðræðis og nýsköpunarráðs 13. febrúar:
Umræða um meðferð trúnaðargagna. Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir því að kynningar og skýrslur sem ekki hafa að gera með persónugreinarleg gögn eða viðkvæmar fjárhagslegar upplýsingar  séu skráð sem trúnaðarmál á fundi mannréttindaráðs. Það er mat Flokks fólksins að þetta sé gert í þeim tilgangi að fela óþægilegar upplýsingar og staðreyndir fyrir borgarbúum. Flokkur fólksins gerir einnig athugasemd við hvað fundargerðir mannréttinda, lýðræðis og nýsköðunarráðs berast seinnt, jafnvel allt að viku eftir fund. Þetta gerir þeim sem sátu fundinn erfitt fyrir að yfirfara afgreiðslu mála að loknum fundi ef rifja þarf upp afgeiðslur og bókanir þ.m.t. hvaða mál voru mögulega trúnaðarmál.

 

Tillaga Flokks fólksins um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað

Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.
Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því að  ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum eins og segir í rökum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þessar reglur hvetja ekki fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í virkni. Til að selja metan á hinn almenna bílaflota í Reykjavík þarf það að vera samkeppnishæft við aðra örkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Það er betra að fá lítið fyrir það en ekki neitt og þurfa að brenna því.  Að nota metan sparar auk þess innflutning á jarðefnaeldsneyti.

Greinargerð

Offramboð er af metani og þess vegna er því brennt á söfnunarstað. Mikilvægt er að koma því út fyrir lágt verð. Að öðrum kosti mun það ekki seljast. Nú er ljóst að Sorpa er á hvínandi kúpunni. Einhver umræða  er komin í gang um að hefja sölu á metani og selja það dýrt, „til að bjarga Sorpu“. Ef reyna á að selja metan dýrt mun það hafa  letjandi áhrif á fjárfestingu fólks á metanbílum. Það mun þá einfaldlega ekki seljast.  Metansala mun að sjálfsögðu ekki bjarga Sorpu sem skuldar 4.1 milljarð. Ef hækka á verð á metani er það einfaldlega ávísun á að það mun ekki seljast og enn meira af því verður brennt á báli í Álfsnesi. Hver græðir á því? Flokkur fólksins vill að borgarbúar fái metan á bíla sína á eins ódýran hátt og hægt er og jafnvel gefins til að flýta fyrir orkuskiptum.

Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun metans. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Að metanbílar skyldu verða undanskildir frá vistvænum flokki bíla í nýjum reglum er með óllíkindum enda líklegt að bíll sem er metanbíll aki að mestu á metani þótt hann sé einnig bensínbíll og að bensínið á metanbílunum sé fyrst og fremst notað sem varaafl.

Það sem hér um ræðir er að borgin er að sóa orkugjafa sem væri þess í stað hægt að nýta öllum til góðs. Borgarfulltrúi Flokk fólksins hefur áður bent á að skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Hér getur borgarstjórn beitt sér og á að gera það með því að hvetja þessi fyrirtæki til samtals og samvinnu og tryggja þannig að orkugjafi sem nóg er til af nýtist. til að tryggja hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki hafa reynt að markaðssetja metanið meira og einfaldlega fundið leiðir til að borgarbúar geti notið góðs af því á bíla sína sem lið í orkuskiptum og með umhverfssjónarmið að leiðarljósi.

 

Tillaga Flokks fólksins og Miðflokksins um að leggja það til að borgarstjórn samþykki að vísa skýrslu innri endurskoðunar vegna Nauthólsvegar 100 – Bragginn og Skýrslu borgarskjalavarðar um sama efni til héraðssaksóknara og lögreglu annars vegar til að rannsaka hvort embættisbrot hafi verið framið (héraðssaksóknari) og hins vegar hvort brot í opinberu starf hafi verið framið (lögregla).

 

Greinargerð

Tillaga þessi er lögð fram á grunni skýrslu Innri endurskoðanda, Nauthólsvegur 100 frá 17. desember 2018 og skýrslu borgarskjalavarðar, Frumkvæðisathugun á skjalastjórn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar í tengslum við Nauthólsveg 100 frá 20. desember 2019 og niðurstöðuköflum þeirra.

 

Skýrsla Innri endurskoðanda. https://reykjavik.is/sites/default/files/skjol_borgarstjornarfundur/2_skyrsla_innri_endurskodunar.pdf

Heildarniðurstöður

 • Á árinu 2015 gerði Innri endurskoðun úttekt á skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og skilaði skýrslu þar sem settar voru fram ábendingar um atriði sem betur mættu fara. Enn hafa ekki verið gerðar fullnægjandi úrbætur vegna ábendinganna. Innri endurskoðun telur að ef úrbætur hefðu verið gerðar og verklag lagfært í samræmi við ábendingarnar hefði verkefnið að Nauthólsvegi 100 ekki farið í þann farveg sem það gerði. Nánari umfjöllun um þetta er í viðauka

 

 • Skipulag skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hefur frá upphafi verið býsna laust í reipum, skrifstofunni var ætlað að vinna hratt að því að afla borginni tekjutækifæra og það hefur komið niður á skipulagi og innra eftirliti. Jafnvel hefur það orðið til þess að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar hefur ekki farið að settum leikreglum, til dæmis hvað varðar innkaup.

 

 • Fyrrum skrifstofustjóri hafði þann stjórnunarstíl að úthluta verkefnum til starfsmanna sem síðan lögðu metnað í að leysa þau sjálfstætt og hann hvorki hafði eftirlit með framvindu verkefnanna né kallaði eftir upplýsingum um stöðu þeirra. Samkvæmt skipuriti er borgarritari næsti yfirmaður skrifstofu eigna og atvinnuþróunar en þó hafa mál skrifstofunnar ekki verið á hans borði heldur farið beint til borgarstjóra og því hefur ekki verið unnið samkvæmt réttri umboðskeðju. Mikil samskipti hafa verið milli fyrrum skrifstofustjóra og borgarstjóra allt frá stofnun skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, en þeim ber saman um að borgarstjóra hafi ekki verið kunnugt um framvindu framkvæmda að Nauthólsvegi 100. Engar skriflegar heimildir liggja fyrir um upplýsingagjöf frá skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til borgarstjóra varðandi framkvæmdirnar.

 

 • Hugmyndin um nýsköpunar- og frumkvöðlasetur að Nauthólsvegi 100 er í samræmi við atvinnustefnu Reykjavíkurborgar sem meðal annars leggur áherslu á uppbyggingu nýsköpunarsetra svo og gildandi deiliskipulag sem gerir ráð fyrir veitingarekstri að Nauthólsvegi 100. Reykjavíkurborg og Háskólinn í Reykjavík hafa undanfarin ár átt samvinnu um uppbyggingu á svæðinu og frumkvöðlasetrið er í samræmi við það. Við framkvæmdirnar að Nauthólsvegi 100 var ekki farið eftir reglum og samþykktarferli vegna mannvirkjagerðar og ákvæðum þjónustusamnings milli skrifstofu eigna og atvinnuþróunar og Umhverfis- og skipulagssviðs en hann kveður skýrt á um ábyrgð og hlutverk hvors aðila og þar segir meðal annars að Umhverfis- og skipulagssvið skuli annast verklegar framkvæmdir.
 • Samstarf var haft við Borgarsögusafn og Minjastofnun en þessar stofnanir gerðu ekki kröfu um að húsin yrðu varðveitt óbreytt, enda eru þau hverfisvernduð í deiliskipulagi en ekki friðuð í skilningi laga. Í uppbyggingunni var haldið fast í eldra útlit að sumu leyti, en að öðru leyti ekki, að því er virðist eftir hugmyndum arkitekta. Ekki var sótt um leyfi til að rífa náðhúsið þrátt fyrir að fagaðilar teldu það hagkvæmara og mun það hafa verið hugmynd arkitekta að halda upp á það.

 

 • Frumkostnaðaráætlun fyrir endurbyggingu að Nauthólsvegi 100 var gerð sumarið 2015 en það var einungis mat byggt á lauslegri ástandsskoðun, eins og almennt er gert þegar frumkostnaðaráætlanir eru gerðar. Síðan þegar útfærsla og hönnun liggur fyrir á að gera kostnaðaráætlanir I og II samkvæmt reglum um mannvirkjagerð og eins og almennt er gert við stórar framkvæmdir. Það var ekki gert í þessu tilviki en það hefði verið ennþá frekar nauðsynlegt en ella, þar eð mikil óvissa er í verkefnum við endurbyggingu gamalla húsa. Meiri tíma hefði þurft að nota til að undirbúa verkið betur, til dæmis fullvinna hugmyndir og gera kostnaðaráætlanir miðað við þær. Lagt var upp með lágstemmda hugmynd sem þróaðist í fullbúinn veitingastað með mun meiri kostnaði en gert var ráð fyrir í upphafi. Einnig varð lóðin talsvert kostnaðarsamari en gert hafði verið ráð fyrir. Frumkostnaðaráætlunin 158 m.kr. hefur verið borin saman við raunkostnaðinn 425 m.kr. og talað um það sem framúrkeyrslu. Það er þó ekki alls kostar rétt því þegar frumkostnaðaráætlunin var gerð lá ekki fyrir sú útfærsla sem nú er á byggingunum.

 

 • Metið hefur verið að breytingar á upphaflegum hugmyndum sem lagðar voru fyrir borgarráð í júlí 2015 ásamt frumkostnaðaráætluninni hafi kostað 94 m.kr. Auk þess var kostnaður vegna verndunarsjónarmiða sem ekki var gert ráð fyrir í frumkostnaðaráætlun 71 m.kr. og síðan bætast við 21 m.kr. vegna hreinsunar út úr húsunum og umsýslukostnaðar innan borgarkerfisins. Frumkostnaðaráætlunin að viðbættum ofantöldum liðum gerir samtals 344 m.kr. Samningur var gerður við Grunnstoð, dótturfélag Háskólans í Reykjavík, um leigu á fasteignunum. Samningurinn er skýr og tekur á öllum nauðsynlegum atriðum slíks samnings, en í honum er kveðið á um afhendingu húsnæðisins tæpu ári eftir undirritun. Innheimta húsaleigu hófst í júlí 2018 og er hún í samræmi við samninginn eða 670.125 kr. á mánuði. Við afgreiðslu málsins í borgarráði var leigufjárhæð samþykkt og gert ráð fyrir því að meðgjöf borgarinnar með samningnum yrði 41 m.kr. á 40 ára leigutíma. Miðað við þær forsendur sem skrifstofa eigna og atvinnuþróunar gaf sér 2015 og raunkostnað framkvæmdanna verður meðgjöf Reykjavíkurborgar til Háskólans í Reykjavík/Grunnstoðar 257 m.kr. en leigugreiðslur þyrftu að vera um 1.697 þús. kr. á mánuði til að núvirði verkefnisins verði jákvætt.

 

 • Engir skriflegir samningar voru gerðir varðandi verkefnið, að undanskildum leigusamningi við Háskólann í Reykjavík. Ráðgjafar innkaupadeildar var ekki leitað varðandi innkaup til framkvæmdanna og ekki var farið að innkaupareglum borgarinnar. Lög um opinber innkaup voru brotin. Verktakar og aðrir sem unnu verkið voru almennt ráðnir af því þeir voru kunnugir þeim sem stóðu að framkvæmdunum, allflestir handvaldir. Ekki var farið í innkaupaferli né leitað undanþágu frá innkauparáði varðandi það. Einn af arkitektum bygginganna var ráðinn sem verkefnisstjóri á byggingarstað en það er ekki talin heppileg ráðstöfun með tilliti til hagsmunaárekstra. Meðal hlutverka verkefnisstjóra var að hafa eftirlit með verktökum og staðfesta reikninga þeirra, en þar sem viðvera hennar á byggingarstað var takmörkuð er óvíst að eftirlitið hafi verið jafnmikið og það hefði þurft að vera. Þrátt fyrir að hægt sé að útvista verkefnisstjórahlutverkinu til utanaðkomandi aðila er ekki hægt að útvista ábyrgðinni og hún er á herðum skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Samt virðist verkefnastjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar hafa haft lítið eftirlit með framkvæmdunum sem hann þó bar ábyrgð á gagnvart sínum yfirmanni. Farið var fram úr samþykktum fjárheimildum og þess var ekki gætt að sækja um viðbótarfjármagn áður en stofnað var til kostnaðar en það er brot á sveitarstjórnarlögum og reglum borgarinnar. Heildarkostnaður nú í desember er kominn í 425 m.kr. en úthlutað hefur verið heimildum að fjárhæð 352 m.kr. Svo virðist sem hvergi hafi verið fylgst með því að verkefnið væri innan fjárheimilda. Upplýsingar til borgarráðs voru ekki ásættanlegar, dæmi eru um að villandi og jafnvel rangar upplýsingar varðandi þetta verkefni hafi farið til borgarráðs, auk þess sem borgarráð var ekki nægilega upplýst um framvindu mála.

 

 • Óásættanlegt er að upplýsingagjöf til borgarráðs sé þannig háttað því á upplýsingum byggir ráðið ákvarðanir sínar. Upplýsingastreymi vegna verkefnisins var ófullnægjandi á allflestum stigum. Svo virðist sem verkefnastjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem hafði umsjón með verkefninu hafi ekki upplýst sinn yfirmann um stöðu mála. Þeim ber þó ekki saman um það atriði og sama máli gegnir um ákvarðanatöku í tengslum við verkefnið, til dæmis varðandi breytingar á hugmyndum um útfærslu. Til dæmis má nefna breytingu á kaffistofu í vínveitingastað og breytingu á einföldum trépalli í hönnunarlóð. Verkefnastjóri kveðst hafa borið allar stærri ákvarðanir undir fyrrum skrifstofustjórann en hann segist lítið hafa verið inni í þessum málum.

 

 • Fyrrverandi skrifstofustjóri skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sinnti ekki sinni stjórnendaábyrgð með því að fylgjast með verkefnum skrifstofunnar og upplýsa sína yfirmenn svo og borgarráð. Svo virðist vera sem verkefnið hafi einhvern veginn „gleymst“ og týnst meðal stærri og meira áberandi verkefna. Farið var að reglum varðandi samþykkt kostnaðarreikninga hvað varðar fjölda samþykkjenda svo og fjárhæðarmörk vegna þriðja og fjórða samþykkjanda. Samþykkjendur virðast þó ekki hafa fylgst með því hvort útgjöld væru innan fjárheimilda.

 

 • Eftirlit með verkefninu var að flestu leyti ófullnægjandi og svo virðist sem verkefnið hafi lifað sjálfstæðu lífi án aðkomu annarra en þess þrönga hóps sem annaðist það. Skjölun vegna verkefnisins var ófullnægjandi, nánast engin skjöl um það fundust í skjalavörslukerfi borgarinnar og það er brot á lögum um opinber skjalasöfn svo og skjalastefnu borgarinnar. Almennt eykst misferlisáhætta í beinu hlutfalli við minnkandi eftirlit, minna gagnsæi, minna aðhald stjórnenda og þegar reglum er ekki framfylgt. Niðurstöður Innri endurskoðunar benda eindregið til þess að kostnaðareftirliti hafi verið ábótavant og hlítni við lög, innkaupareglur, starfslýsingar, verkferla, ábyrgð og forsvar hafi ekki verið nægjanleg.

 

Forsætisnefnd
27. febrúar 2020

Tillaga Flokks fólksins um að fundaumsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt og því skilað ef mögulegt er.

Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning fundaumsjónarkerfis sem var ætlað til aðgera fulltrúum kleift að tala úr sæti en í 20 grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að borgarfulltrúar skulu að jafnaði veita andsvör og gera stuttar athugasemdir úr sæti sínu. Fundarumsjónarkerfið kostaði 34 milljónir. Í rúmt ára hefur fundarumsjónarkerfi (hljóðnemar) verið á borðum hvers borgarfulltrúa í þessum tilgangi en þeir hafa ekki verið virkir. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að mistök hafi verið gerð við að fjárfesta í slíku kerfi enda kerfið ekki í notkun og kemur varla til með að vera tekið í notkun. Þess utan er svona kerfi óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir. Ekki mælir gegn því að þeir geri það áfram. R20020292

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort af hverju fundarumsjónarkerfið komst aldrei í gagnið og hvort hægt sé að skila því og fá endurgreitt?

Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Áætlaður kostnaður var í heildina 84 milljónum krónum.Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning fundaumsjónarkerfis sem voru ætlaðir til að tala úr sæti. Kostnaður við það eitt var 34 milljónir. Kerfið er komið og standa hljóðnemar á hverju borði með tilheyrandi tengingum. Þeir hafa hins vegar aldrei komist í gagnið.
Flokkur fólksins óskar að vita ástæðu þess að kerfið komst aldrei í gagnið? Einnig hvort hægt er að skila kerfinu og fá það endurgreitt? R20020293

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum: Bókun íbúaráðs Grafarvogs um orðræðu kjörinna fulltrúa
Gagnbókun meirihlutans
Gagnbókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins finnst leitt ef kjörnir fulltrúar meirihlutans sem hér er vísað til séu með hnýtingar í fulltrúa íbúaráða og vinnubrögð þeirra. Íbúaráðin eru sjálfstæð og geta bókað um menn og málefni eins og þau óska og telja að þurfi. Í þessari bókun íbúaráðsins er verið að vísa í opinber ummæli sem tveir kjörnir fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um íbúðahverfi sem þeim þótti ekki vel heppnuð og þar sem væri alger einangrun eins og sagt var orðrétt. Kjörnir fulltrúar sögðu jafnframt að í tveimur hverfum „keyrði helst einn á hverjum bíl og fólk byggi í risastórum einbýlishúsum – laus við félagsleg samskipti“ eins og segir orðrétt. Þetta eru niðrandi ummæli og tóku íbúar þetta nærri sér og þóttu særandi. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ekki atkvæðarétt í forsætisnefnd til að taka afstöðu til þess hvort ályktunin verði lesin upp í borgarstjórn eins og íbúaráð Grafarvogs óskar eftir. Forseti borgarstjórnar hefur valdið og ræður því hvort ályktun íbúaráðsins verði lesin upp í borgarstjórn.

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:

Það er miður að áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í forsætisnefnd velji að túlka ummæli einstakra borgarfulltrúa, sem ekki geta svarað fyrir sig þar sem þeira eiga ekki sæti í nefndinni, sem niðrandi. Það eru langsótttar túlkanir og ummæli borgarfulltrúanna tekin úr öllu samhengi til þess eins að fella pólitískar keilur og halda áfram að ala á misskilningi og snúa út úr fyrir borgarfulltrúunum sem eiga að gæta sannmælis.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Þetta er sérkennileg bókun en sú tegundar sem meirihlutinn kemur gjarnan með þegar hann er kominn í málefnalegt þrot. Ekki gátu íbúar þessara hverfa svarað mikið fyrir sig þegar kjörnu fulltrúarnir tveir úr meirihlutanum viðhöfðu þessi sérkennilegu ummæli um hverfi og íbúa þeirra, annar þeirri í borgarstjórn og hinn í útvarpi. Flokki fólksins finnst þessi meirihluti verja orðið hvað sem er í stað þess að horfast í augu við þegar gerð eru mistök. Það vantar mikið upp á hógværð og lítillæti og jafnvel færni þeirra að geta stundum sett sig í spor borgarbúa. Margir myndu túlka þessi ummæli jafnvel sem ákveðna fordóma í garð þeirra hverfa sem þarna um ræðir. Ef það er upplifun einhverra þýðir ekki mikið að tala um „langsóttar túlkanir“ eins og fulltrúi meirihlutans í forsætisnefnd orðar það.

 

Mannréttinda,- lýðræðis- og nýsköpunarráð
27. febrúar 2020

 

Lagðar fram fundargerðir ofbeldisvarnarnefndar frá 3. febrúar, aðgengis og samráðsnefndar fatlaðs fólks í Reykjavík frá 6.febrúar og öldungaráðs frá 10. febrúar 2020.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 3. lið fundargerðar aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. febrúar s.l.:

Þessi fyrirspurn var um hvort borgin sé ekki örugglega að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1.1.2020. Flokkur fólksins spurði hvort ekki standi til að opna göngugötur fyrir bílum sem hafa heimildarákvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum, sem eru nýmæli og undantekning frá akstursbanni um göngugötur. Allir bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Í raun eiga þeir sem aka P merktum bílum að hafa heimild til að aka og leggja í allar göngugötur borgarinnar samkvæmt nýjum lögum.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við 6. lið fundargerðar öldungaráðs frá 10. febrúar s.l.:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn og feli í sér fordóma. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi? Hér er verið að leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og ef svo er þá lagfæra það. Borgin á að vera fyrirmynd. Flokkur fólksins hefur séð gildishlaðinn bækling í félagsmiðstöð aldraðra. Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að sjálfsögðu að vera boðið að gera.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu íþrótta- og tómstundasviðs á notkun frístundakorts út frá mannréttindastefnu:

Kortið á að vera alfarið tengt barninu og óskum þess til frístundaiðkunar og því eingöngu nýtanlegt til að greiða fyrir tómstundir sem barnið velur sjálft að stunda eins og upphaflegt markmið þess var. Kortinu á ekki að vera ætlað til annarra hluta eins og að greiða frístundaheimili sem barnið er á af nauðsyn eða tungumálaskóla. Tenging frístundarkorts við fjárhagserfiðleika foreldra er óeðlilegt. Þetta sést glöggt í hverfi 111 þar sem fátækt er hlutfallslega mest og hæsta hlutfall innflytjenda, þar er einnig minnsta notkun kortsins í íþróttir barna. Rjúfa þarf tengsl kortsins við 16. grein.a um sérstaka fjárhagsaðstoð þannig að án tillits til efnahags foreldra fái barnið alltaf tækifæri til að nota kortið til að velja sér íþrótt eða tómstund. Aftur á móti verði foreldrum veittur nauðsynleg aðstoð samkvæmt 16. gr.a reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg, fyrir greiðslur á frístundaheimilum óháð notkun á frístundakortinu. Frístundakortið er í þágu tómstundariðkunar barns og jafnframt barna þeirra sem fá aðstoð. Það þarf með öllu að koma í veg fyrir skerðingu á frístundakortinu njóti foreldrar annarrar fjárhagsaðstoðar eða fyrirgreiðslna vegna barns eða barna frá Reykjavíkurborg. Þannig ætti aldrei að skerða þann rétt barnsins að nota kortið til tómstunda eða íþróttaiðkunar, enda er það í anda íþróttaáætlunar borgarinnar.

 

Bókun Flokks fólksins við kynningu mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu á jafnréttisúttekt á íþróttafélögum:

Við væntanlega úttekt á jafnrétti innan starfsemi íþróttafélaga vill Flokkur fólksins árétta að hugað verði að jafnrétti í sem víðustum skilningi. Hér skal benda sérstaklega á fötluð börn og skýran rétt þeirra til að stunda íþróttir sem og börn efnalítilla foreldrar, en komið hefur ljóslega fram að þessir hópar stunda íþróttir síður en önnur börn í borginni. Má í því samhengi nefna frístundakortið sem efnalitlir foreldrar neyðast til að nota til að greiða fyrir frístundaheimili fyrir börn sín. Þar þarf annar stuðningur að koma til. Kynningastarf þarf að vera betra þá sérstaklega hvað varðar erlenda borgara sem jafnvel eru nýflutt til landsins. Hvað varðar kynjajafnrétti þá ber klárlega að hafa í huga launajafnrétti, en nýlega hefur komið í ljós að þar er mikill mismunur m.a. laun dómara í kvennaboltanum v.s. karlaboltanum. Því má ætla að svipað sé upp á teningnum hvað varðar þjálfaragreiðslur innan íþróttafélaga. Menntun þjálfara ber jafnframt að hafa í huga hvað allt jafnrétti áhrærir og að opnaður sér skilningur á mismun einstaklinga og getu þeirra til íþróttaiðkunar, en íþróttaiðkun er öllum holl hvernig sem einstaklingurinn er í laginu bæði að innan og/eða utan.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblað mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 7. febrúar 2020, um úttekt á klefa- og salernisaðstæðum í húsnæði sem Reykjavíkurborg veitir þjónustu:

Flokkur fólksins hefur mótað sér skýra afstöðu í þessu máli. Flokkur fólksins tekur undir mikilvægi þess að gera úttekt á búningsklefum enda eru sumir komnir á tíma og mætti bæði endurhanna og endurbyggja. Sjálfsagt er að gera úttekt á salernum en breytingar á merkingu þannig að öll salerni verði ókyngreind hefur flokkurinn haft ákveðna efasemdir, þær snúa fyrst og fremst viðhorf almennings. Flokkur fólksins vill ekki að farið verði í framkvæmdir sem þessar m.a. vegna kostnaðar án þess að fólkið í borginni telji þetta brýna nauðsyn. Flokki fólksins finnst þessi kyngreiningarmál salerna meira svona áherslumál meirihlutans í borginni á þörf fyrir að setja mál af þessu tagi á stall. Flokkur fólksins styður jafnrétti í einu og öllu og leggur mikla áherslu á að öllum líði vel í samfélaginu. Varðandi salernismálin og kyngreiningu þeirra þá hafa heyrst fjöldi radda sem vilja gjarnan halda aðskildum klósettum, vegna þeirra sem setjast á klósettsetuna og hinn sem standandi við postulínið. Skoðanir allra þarf að virða gagnvart þessu sem öðru og hlusta þarf á raddir allra hópa. Flokkur fólksins skilur að málið getur verið flókið og vonandi finnst viðunandi lausn sem flestir geta sætt sig við. En fyrst er að fá lögin á hreint.

 

Borgarráð
27. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals:

Flokki fólksins finnst leitt ef kjörnir fulltrúar meirihlutans sem hér er vísað til séu með hnýtingar í fulltrúa íbúaráða og vinnubrögð þeirra. Íbúaráðin eru sjálfstæð og geta bókað um menn og málefni eins og þau óska og telja að þurfi. Í þessari bókun íbúaráðsins er verið að vísa í opinber ummæli sem tveir kjörnir fulltrúar meirihlutans viðhöfðu um íbúðahverfi sem þeim þótti ekki vel heppnuð og þar sem væri alger einangrun eins og sagt var orðrétt. Kjörnir fulltrúar sögðu jafnframt að í tveimur hverfum sem hinir kjörnu fulltrúar vísuðu til „keyrði helst einn á hverjum bíl og fólk byggi í risastórum einbýlishúsum – laus við félagsleg samskipti“. Þetta eru niðrandi ummæli og tóku íbúar þetta nærri sér og þóttu særandi. Hér lýsa kjörnir fulltrúar ótrúlega neikvæðu viðhorfi í garð hverfa og íbúa þess. Þetta er að sjálfsögðu ekki sæmandi kjörnum fulltrúum um að viðhafa slík ummæli opinberlega.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs liðir 2 og 17, fyrri liður er bókun við gerð hundargerðis í vesturbæ en sú síðari vegna íbúakosningar deiliskipulags Stekkjabakka:

Ekki hefur verið haft samráð við hundaeigendur eða Félag ábyrgra hundaeigenda við hönnun þessa hundagerðis. Ekki er heldur neinn fulltrúi hundaeigenda í stýrihópi sem endurskoðar reglur um dýrahald. Hönnun þessa hundagerðis sem hér um ræðir hefur marga galla. Það er of lítið og fullnægir því ekki hreyfiþörf hunda, girðing er of lág og öryggisþættir ófullnægjandi eins og hlið er ekki tvöfalt og bil milli rimla er of breitt og girðing nær ekki vel niður ofan í jarðveginn.

Liður 7 um deiliskipulag Stekkjabakka
Þessi úrskurður er stefnumarkandi fyrir íbúa Reykjavíkur. Ef íbúar eiga ekki lögvarða hagsmuni og geta ekki fengið úrskurð um hvort deiliskipulagið við Stekkjarbakka sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag, eins og haldið er fram, þá sér Flokkur fólksins lítinn tilgang með þeim lögum og reglum sem um þetta gilda. Borgaryfirvöld geta að því er virðist farið sínu fram að geðþótta. Fram kemur að málinu er vísað frá án þess að Reykjavíkurborg geri kröfu um frávísun. Í stað þess að vísa málinu frá með þessum hætti, hefði úrskurðarnefndin átt að taka málið fyrir og kveða upp úrskurð þar sem efnislega væri tekið á kröfugerð íbúanna, sérstaklega að því er varðar hvort deiliskipulagið sé í andstöðu við gildandi aðalskipulag. Flokkur fólksins harmar málsmeðferðina sem þarna er viðhöfð hjá úrskurðarnefndinni gagnvart íbúunum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Styrkumsóknir til borgarráðs

Styrkumsóknir, árleg úthlutun var samþykkt í borgarráði. Um er að ræða styrkjapott um 25 milljónir. Verið er að styrkja mörg þörf og góð málefni. Sum verkefni sem verið er að styrkja hafa þó einungis skemmtanagildi. Flokkur fólksins hefur þá skoðun að kannski síst ætti að nota styrkjapottinn til að styrkja verkefni sem hafa einungis skemmtanagildi.

 

Bókun Flokks fólksins vegna erindis Sorpu bs. ósk um samþykki fyrir tímabundna lántöku:

Þær ógöngur sem stjórn SORPU hefur komið fyrirtækinu í eru óásættanlegar. Reykjavíkurborg er stærsti eigandi SORPU og mun bera hitann og þungann af greiðslu þess láns sem nú er sótt um samþykki fyrir sem og fyrri lánum. Það blasir við að til að fyrirtækið haldist á floti mun verða seilst í vasa borgarbúa og sorphirðugjald hækkað. Talað eru um að selja metan en metan ætti helst að gefa til að hvetja til orkuskipta. Stjórn situr og er allt um kring þrátt fyrir að hafa sýnt vítavert andvaraleysi. Stjórn og fjármálastjóra rann ekki í grun að Sorpa væri á leið á hvínandi kúpuna. Allt er framkvæmdarstjóranum að kenna en þó sagt að sé ekkert saknæmt. Hefði stjórn fylgst grannt með þá hefði ekkert af þessu komið þeim í opna skjöldu í það minnsta. Nú er beðið um 600 milljóna skammtíma lán til viðbótar við 500 millj. sem þegar er heimild fyrir. Hér sést óreiðan í hnotskurn sem er afleiðing af eindæma lélegri stjórnun. Sumir þeirra sem boðið er að koma að borðinu nú til að skoða hvað gerðist og hvað verður gert til að bjarga eru vanhæfir. Hér má t.d. nefna stjórnarformann Félagsbústaða og fyrrverandi fjármálastjóra.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um hvort hundaeftirlitið borgi leigu fyrir aðstöðu fyrir hundageymslur:

Hundaleyfisgjöldin fara í að standa undir rekstri hundaeftirlitsins eins og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur tekur fram. En af hverju er rekstrarkostnaður hundaeftirlitsins eins hár og raun ber vitni? Stærsti hluti rekstrarkostnaðar fer í launakostnað starfsmanna, sem sagt laun fyrir tvo hundaeftirlitsmenn í fullu starfi og ritara í fullu starfi og 30% af launum framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur. Verkefnum hundaeftirlits hefur fækkað margfalt undanfarin ár, en starfsgildin breytast ekkert í samræmi við það. Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að eltast við einn lausan hund á viku? Þarf tvo hundaeftirlitsmenn til að sinna hundi í geymslu einn sólarhring í mánuði? Þarf ritara í fullu starfi til að taka á móti einni kvörtun á viku og einni nýskráningu á viku? Ef Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur getur ekki sýnt fram á að þessir starfsmenn sinni hundaeftirliti í fullu starfi, þá er bókhald hundaeftirlitsins ekkert annað en leikur að tölum, og gera má ráð fyrir að þessir starfsmenn sinni öðrum verkefnum fyrir Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur meðfram verkefnum hundaeftirlits. Það stenst ekki lög. Ef starfsemi hundaeftirlits felst öðrum verkefnum en það sem talið er upp hér að ofan, hvaða verkefni eru það þá og hversu mikill tími fer í þau verkefni? Öll verkefni tengd dýravernd fóru yfir til MAST 1.janúar 2014, en starfshlutfall breyttist ekkert hjá hundaeftirlitinu.

 

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn Flokks fólksins um samstarf Reykjavíkurborgar við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna:

Flokkur fólksins spurði um samstarf Reykjavíkur við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna lesvanda barna. Í svari kemur fram að ekkert slíkt samstarf hefur verið formgert en starfsmenn nokkurra heilsugæslustöðva hafa þá vinnureglu að hafa, með samþykki foreldra, samband við leikskóla eftir heimsókn barns í þroskamat. Sagt er að einhverjar heilsugæslustöðvar hafa samband ef grunur leikur á um að barn glími við þroskavanda en aðrar ekki. Það hljóta allir að sjá að svona hipsum haps vinnubrögð eru ekki af hinu góða. Skólaráð og velferðarráð eftir atvikum þurfa að eiga frumkvæði að sambandi við Heilsugæsluna og koma á formlegum samstarfssamning. Þegar um er að ræða óreiðukennd vinnubrögð er auðvelt að sjá fyrir sér að mikilvægar upplýsingar um barn sem nauðsynlegar eru fyrir skólann að fá til að geta stutt við bakið á barninu berist einfaldlega ekki skólanum. Ekki þarf að hafa áhyggjur af samþykki foreldra fyrir samstarfi þessara tveggja stofnana enda vilja foreldrar allt það besta fyrir börn sín. Berist ekki niðurstöður úr skimun heilsugæslu þar sem fram kemur vísbendingar um vanda til skólans segir það sig sjálft að minni líkur eru á að barnið fái snemmtæka sérhæfða einstaklingsþjónustu. Flokkur fólksins hvetur skóla- og frístundarráð til að taka af skarið og kalla eftir formlegu samtali og samstarfi við heilsugæslu.

 

Skipulags- og samgönguráð
26. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Grensásvegur 1, breyting á deiliskipulagi:

Samkvæmt breyttu deiliskipulagi við Grensásveg 1 stendur til að byggja umtalsvert upp af íbúðar og verslunarhúsnæði. Nokkrir aðilar eru eigendur lóða og þess húsnæðis sem þar standa nú. Þessir aðilar kvarta undan engu samráði sem kemur ekki á óvart miðað við fyrri áætlanir og framkvæmdir hjá borgarmeirhlutanum. Þó virðist að nú hafi verið hlustað á þá með einhverjum hætti. Ef af verður má vænta málaferla af hálfu lóðareigenda sem gæti kostað borgina upptalsvert fé. Vonandi verður ekki úr því þar sem gerðar hafa verið breytingar á fyrri áætlun. Það stingur í augu að ekki kemur fram að gert sé ráð fyrir skóla eða skólasókn þeirra barna sem væntanlega munu búa á þessu húsnæði. Hvernig eiga börnin að sækja sinn skóla yfir stórar umferðaræðar í borginni, Grensásveg og Suðurlandsbraut? Kannski með gönguljósum sem þá stöðvar umferð enn frekar með tilheyrandi mengun á svæðinu. Eða að foreldrar aki börnum sínum í skólann. Varla dugar einn deilibíll fyrir allan þann fjölda eins og mælt er með í nýja skipulaginu. Flokkur fólksins leggur til að haft verði samráð við hagsmunaaðila til að koma í veg fyrir deilur og hugsanleg málaferli.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Vesturbæjarlaug-Hofsvallagata, hönnun hundagerðir:

Vegna fyrirhugaðs hundagerðis við Vesturbæjarlaug gerir Flokkur fólksins nokkar athugasemdir þar sem girðingin virðist ekki í samræmi við það sem hundaeigendum þykir æskilegt. Hundaeigendur benda á að væntanlegt hundagerði sé allt of lítið, en 700 m2 sé algert lágmark. 600-700m2 hundagerði henta í raun aðeins fyrir smáhunda, því mæla þeir með að hundagerði verði á bilinu 1000-1400 m2. Þar sem hundagerðið er nálægt bílastæði og mögulega leikvelli, er lykilatriði að hundar geti ekki hoppað yfir því er 1,5 metrar lágmark sem er mælt með fyrir hundagerði víða um heim. Bil milli rimla í hliði verður að vera afar mjótt svo hundar geti ekki smeygt sér í gegn. Girðing verður að ná vel niður ofan í eða þétt við jarðveginn, svo engin hætta sé á að hundur geti smeygt sér undir. Sama gildir um hliðið. Það er alls ekki nauðsynlegt að hafa hundagerði rétthyrnt, það má hanna það í skemmtilegri lögun svo það sé meira augnayndi og jarðvegur þarf ekki að vera sléttur. Flokkur fólksins óskar þess að við hönnun hundagerðis verði haft gott samráð við hundaeigendur svo verkefnið megi takast sem best.

Tillaga Flokks fólkins vegna endurskipulagningu í leiðarkerfi Strætó bs. hvað varðar Grafarvog, Grafarholt og Úlfarsárdal

Lögð fram af Þór Elís Pálssyni
Vegna fyrirhugaðs hundagerðis við Vesturbæjarlaug gerir Flokkur fólksins nokkar athugasemdir þar sem girðingin virðist ekki í samræmi við það sem hundaeigendum þykir æskilegt. Hundaeigendur benda á að væntanlegt hundagerði sé allt of lítið, en 700 m2 sé algert lágmark. 600-700m2 hundagerði henta í raun aðeins fyrir smáhunda, því mæla þeir með að hundagerði verði á bilinu 1000-1400 m2. Þar sem hundagerðið er nálægt bílastæði og mögulega leikvelli, er lykilatriði að hundar geti ekki hoppað yfir því er 1,5 metrar lágmark sem er mælt með fyrir hundagerði víða um heim. Bil milli rimla í hliði verður að vera afar mjótt svo hundar geti ekki smeygt sér í gegn. Girðing verður að ná vel niður ofan í eða þétt við jarðveginn, svo engin hætta sé á að hundur geti smeygt sér undir. Sama gildir um hliðið. Það er alls ekki nauðsynlegt að hafa hundagerði rétthyrnt, það má hanna það í skemmtilegri lögun svo það sé meira augnayndi og jarðvegur þarf ekki að vera sléttur. Flokkur fólksins óskar þess að við hönnun hundagerðis verði haft gott samráð við hundaeigendur svo verkefnið megi takast sem best.

 

Skóla- og frístundarráð
25. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Viðbrögð og áhrif vegna verkfalla félagsmanna Eflingar hjá Reykjavíkurborg:

Það verkfall sem nú er í gangi er með öllu óviðunandi og getur borgarstjóri farið í að leysa það umsvifalaust sé til þess vilji. Verkfallið hefur áhrif á rúmlega 3.500 leikskólabörn og 1.650 notendur velferðarþjónustu. Fram hefur komið að samninganefnd borgarinnar hefur ítrekað slegið á sáttartilboð frá Eflingu. Borgin verður að fara að koma betur til móts við Eflingarfélaga. Flokkur fólksins telur að skóla- og frístundaráð eigi að beita sér með ríkari hætti t.d. með því að taka stöðu með þeim sem berjast fyrir að fá mannsæmandi laun. Leggjast þarf á eitt til að höggva á hnútinn enda kominn tími til að lyfta þessum láglaunabotni með séraðgerð. Allir vita að útilokað er að lifa með mannsæmandi hætti á þeim launum sem Eflingarfólki er boðið. Allt tal um lífskjör og lífskjarasamninga hlýtur að hljóma eins og öskur í eyru þeirra sem fátt geta veitt sér eftir að hafa greitt leigu, lán og reikninga. Hér er um að ræða hópa fólks sem á kannski eftir örfáa þúsundkalla til að lifa af þegar búið er að greiða leigu og reikninga. Verkfall kemur illa niður á börnunum sem bíða í óvissu um hvenær rútína kemst aftur á líf þeirra.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staðfesting skóladagatals grunnskóla í Reykjavík:

Flokkur fólksins styður þá skoðun sem fram hefur komið á fundi skóla- og frístundaráðs í umræðunni um staðfestingu á skóladagatali þar sem fram kemur að um sé að ræða of mikla miðstýringu. Sjálfsagt er að setja ramma en innan þess ramma eigi skólum að vera treyst til að skipulegga dagatal sitt eins og hentar, og í samráði við kennara og jafnvel foreldra.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla:

Tillaga Flokks fólksins um að skóla- og frístundaráð styrki tengsl sín og samskipti við
skólastjórnendur og almennt starfsfólk í ljósi nýútkominnar skýrslu Innri endurskoðunar um úthlutun fjárhagsramma til skóla. Lagt er til af Flokki fólksins að skóla- og frístundaráð fundi með skólastjórnendum í Reykjavík. Markmiðið er að skóla- og frístundaráð komist í betri tengsl við skólastjórnendur og fólkið á gólfinu og fái að heyra frá fyrstu hendi óskir þeirra og ábendingar um hvað betur má fara. Skýrsla Innri endurskoðunar gefur sterkar vísbendingar um að skóla- og frístundaráð sé ekki og hafi ekki verið lengi í tengslum við skólanna. Of margir milliliðir eru milli skólastjórnenda, kennara, foreldra og barnanna annars vegar og stjórnvalds borgarinnar í skólamálum hins vegar. Brúa þarf þetta bil og verður það aðeins gert ef skóla- og frístundaráð fer í skólana með opnum huga og ræðir beint við stjórnendur, kennara og nemendur. Enda þótt fulltrúar allra skólahópa sitji fundi ráðsins er það ekki það sama og þau tengsl og tengingar sem hér eru lagðar til.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna:

Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafningja. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Betri borg fyrir börn, verkefni í Breiðholti:

Betri borg verkefninu er ætlað stórt hlutverk. Flokkur fólksins leggur áherslu á að Betri borg skoði vel árangursmælingar og samstarf. Stundum er nauðsynlegt að fá utanaðkomandi aðila til að mæla árangur til að gæta hlutleysis. Árangursmælingar skipta miklu máli fyrir öll verkefni og má í þessu sambandi nefna mælingar á sérkennslu, stuðningi og skólaþjónustu til að auka gæði og virkni þjónustunnar fyrir börnin. Skóla- og frístundasvið hefur alla tíð rennt blint í sjóinn með það hvernig fjármagn, um 5 milljarðar, sem veitt er í sérkennslu nýtist börnunum þar sem litlar samræmdar árangursmælingar hafa verið gerðar. Þetta tengist niðurstöðum PISA sem sýna að íslensk börn standa illa að vígi í lesskilningi samanborið við önnur lönd og 30% drengja og um 12% stúlkna geti hvorki lesið sér til gagns né til gamans við lok grunnskóla. Flokkur fólksins leggur áherslu á að samstarf sé aukið við heilsugæsluna í formi ráðgjafar frá læknum og sálfræðingum Þroska- og hegðunarmiðstöðvar með það að markmiði að saxa á biðlistana. Hér þarf skóla- og frístundaráð að eiga frumkvæði en Betri borg verkefnið getur leikið stórt hlutverk. Minna má á í þessu sambandi að mörg hundruð börn bíða eftir fyrstu og frekari þjónustu hjá sérfræðingum skólaþjónustu.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staða húsnæðismála í Fossvogsskóla:

Flokkur fólksins þakkar kynningu á stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Miklar framkvæmdir eru að baki en engu að síður eru vísbendingar um að vandinn kraumi enn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið þær upplýsingar að í nóvember hafi aftur komið upp leki þar sem yngstu börnin eru og aftur séu komin upp veikindi. Óskað hefur verið eftir frekari mælingum. Margir foreldrar eru uggandi og finnst þeir ekki fá nægja hlustun á málið núna. Mygluvandi í Fossvogsskóla á sér langa sögu og hefur verið fyrir skólastjórnendur, foreldra og börn mikil þrautarganga. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að gerð verði ítarlegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins hefur einnig lagt til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag sem allir sem að málinu koma geti verið sáttir við. Í einhverjum tilfellum gæti þurft að að leita til utanaðkomandi fagaðila sem eru e.t.v með fullkomnari tækni til að mæla myglu en Heilbrigðiseftirlitið hefur yfir að ráða.

Bókun Flokks fólksins (og Sjálfstæðisflokks) við liðnum Svar við fyrirspurn um opnun mötuneytis í Dalskóla:

Óskað var upplýsinga um mötuneyti Dalskóla, hvenær það kemst í notkun. Fram kemur að það verði nú í mars. Þetta er því miður eitt af þeim verkum sem hefur tafist mikið. Í maí í fyrra bókaði Flokkur fólksins að mikilvægt væri að finna lausn á þessum málum fyrir skólabyrjun haustið 2019. Fram til þessa hefur Dalskóli því ekki getað uppfyllt þær lagalegu kröfur sem gerðar eru til skóla um sbr. einkum 1. mgr. 23. gr. grunnskólalaga nr. 91/2008 þar sem segir að í grunnskóla skuli nemendur eiga kost á málsverði á skólatíma í samræmi við opinber manneldismarkmið

 

Borgaráð
20. febrúar 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum Fossvogsskóla

Lagt er til að gerð verði faglegri úttekt á loftgæðum í Fossvogsskóla. Foreldrar hafa ítrekað reynt að komast í samband við embættismenn borgarinnar en það gengur illa. Það hefur aldrei verið gerð alvöru úttekt eftir að sagt var að „verki“ væri lokið. Heilbrigðiseftirlitið hefur komið þarna gengið í gegn en slík heimsókn hefur aldrei skilað sér segja foreldrar barna í Fossvogsskóla. Flokkur fólksins vill að skóla- og frístundarráð taki málið alvarlega og bregðist við með öðru en þögn. Eftir að hafa rætt við foreldra er það upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins að margir treysti heilbrigðiseftirlitinu ekki lengur og ekki heldur mælitækjum þeirra. Ef ekki er eitthvað sýnilegt er hreinlega metið að ekkert sé að. Slík vinnubrögð eru með eindæmum ófagleg ef rétt reynast. Nú eru börn að veikjast aftur. Málið þolir því enga bið. R20020201. Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksinsað borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum:

Flokkur fólksins leggur til að borgin komi sér upp verkferlum þegar myglumál koma upp í skólum. Fram til þessa er aðeins verið að sjá toppinn á ísjakanum. Eftir að meirihlutinn í borginni hefur vanrækt að halda við skólahúsnæði árum saman er komið að skuldadögum. Fleiri myglumál eiga örugglega eftir að koma fram í dagsljósið næstu árin og þá þarf að vera til faglega samþykkt verklag. Í þessum málum ríkir óreiða. Í húsnæði eins og Fossvogsskóla þar sem áratuga vanræksla verður til þess að húsið nánast eyðileggst er enn vandi þótt farið hafi verið í endurbætur. Nú eru börn aftur farin að veikjast. Hefjast verður handa að nýju með því að gera almennilegar mælingar og í framhaldi fara í þær framkvæmdir sem mælingar sýna að þurfi að gera. En þar sem enginn verkferill er til þegar mál af þessu tagi koma upp gerist ekki mikið og mörgum finnst að sópa eigi vandanum undir teppi. Borgarfulltrúi skynjar að lítið er eftir af trausti í garð meirihlutans í borgarstjórn, skóla- og frístundaráðs og heilbrigðiseftirlitsins. Allir eru orðnir þreyttir á ástandinu og ekki síst hvað kerfið er seint að taka við sér og hvað langan tíma það tekur að bregðast við. R20020203. Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla:

Flokkur fólksins óskar eftir að spyrja um stöðu húsnæðismála í Fossvogsskóla. Þar kom aftur upp leki í nóvember þar sem yngstu börnin eru og aftur eru komin upp alvarleg veikindi. Börn eru ítrekað að veikjast og ekki næst samband við heilbrigðiseftirlitið til að gera alvöru mælingar. Er þetta komið út í það að borgin axli ekki lengur ábyrgð og að foreldrar og foreldrafélag verði að taka málið í eigin hendur og kaupa mælingar sjálft. Foreldrar eru ekki tilbúnir að fórna heilsu barna sinna degi lengur á meðan borgarmeirihlutinn stingur hausnum í sandinn og lætur sem ekkert sé. Að minnsta kosti 7 börn sýna einkenni nú og einhverjir foreldrar og kennarar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ástandinu þarna og hvað skóla- og frístundaráð og Heilbrigðiseftirlitið er lengi að taka við sér og lætur eins og vandinn sé jafnvel bara léttvægur. Þetta er í það minnsta upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. R20020201

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar frá 6. febrúar 2020:

Í fundargerð segir að fyrirspurn Flokks fólksins um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni sem vísað var til umsagnar aðgengis- og samráðsnefndar sé afturkallað. Hvað þýðir að vera afturkallað? Þessi fyrirspurn sem hér um ræðir var lögð fram 9. janúar 2020 og var á þá leið hvort borgin sé ekki örugglega að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar þau hafa tekið gildi. Spurt er hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa heimildarákvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum? Flokkur fólksins vill minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á þessi nýmæli sem er undantekning frá akstursbanni um göngugötur. Allir bílar sem eru merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Í raun eiga þeir sem aka P merktum bílum að hafa heimild til að aka og leggja í allar göngugötur borgarinnar núna.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 10. febrúar 2020:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi. Flokkur fólksins spyr af hverju má þá ekki bara samþykkja hana? Hér er verið að leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og samþykktum sem fjalla um eldri borgara og þjónustu við þá. Borgin er fyrirmynd og þarf að hafa hlutina á hreinu sín megin. Flokkur fólksins hefur séð gildishlaðinn bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra. Hann ætti að fjarlægja hið fyrsta að mati borgarfulltrúa en sagt er að hann verði ekki endurútgefinn. Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að vera boðið að gera. Tillögu um að gerð yrði könnun meðal eldri borgara um afstöðu þeirra til þessara hluta var líka hafnað. Af hverju má ekki spyrja eldri borgara sjálfa um hvað þeim finnst um þessa hluti? Það hlýtur að vera metnaður hjá öldungaráðinu og mannréttindaskrifstofu að hvergi sé að finna gildishlaðinn texta neins staðar í regluverki borgarinnar eða upplýsingabæklingum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 12. febrúar 2020:

Flokkur fólksins leggur áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu. Minnt er á gagnrýni Umhverfisstofnunar og Skipulagsstofnunar sem skipulagsyfirvöld verða að taka til greina. Fleiri félög eru uggandi. Landvernd, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa öll gert athugasemdir við skipulagið. Óttast er að hér sé upphafið að fleiri byggingum sem verða ef til vill ekki síður í óþökk borgarbúa. Sú bygging sem ákveðið er að rísi þarna er engin smásmíði. Hún er 9 metra há og 4.500 fm. að flatarmáli. Ekki er komin endanleg lausn á mögulegri ljósmengun sem varað hefur verið við að stafi af mannvirki sem þessu. Fyrirsjáanlegt er að umferðarþungi aukist verulega og er það ekki á bætandi þar sem umferðartafir á þessum stað eru miklar nú þegar. Nú er verið að safna undirskriftum til að fá íbúakosningu. Það er erfitt þar sem safna þarf 18 þúsund undirskriftum kosningabærra Reykvíkinga til að íbúakosning geti farið fram og þessu þarf að safna á afar stuttum tíma.

Bókun Flokks fólksins við framlagðar fundargerðir Sorpu frá janúar og febrúar 2020:

Flokkur fólksins hefur áður kvartað yfir fundargerðum SORPU og hversu rýrar þær eru og segja lítið. Fyrir eigendur SORPU, borgarbúa, er erfitt að sjá hvað er í gangi á þessum fundum SORPU. Kjörnir fulltrúar ættu að eiga rétt á meiri aðkomu að þessu félagi. Ljóst er að hefði félagið ekki verið svo aflokað og einangrað hefði mátt forða því frá miklu tjóni. Þessu þarf að breyta og það er gert með því að breyta fyrirkomulagi byggðarsamlaga. Málefni SORPU er ekki einkamál fárra útvaldra.

Bókun Flokks fólksins við embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði:

Tillaga Flokks fólksins um að kallað verði eftir upplýsingum frá foreldrum í tengslum við skóla án aðgreiningar hefur verið felld. Flokki fólksins finnst sem raddir foreldra heyrist ekki nægjanlega vel enda þótt sagt sé í svari að sífellt sé verið að spyrja foreldra um eitt og annað er varða börn sín og skólastarf. Það sést hins vegar hvergi samantekið hver séu viðhorf foreldra til skóla án aðgreininga og hvernig þeim finnst það fyrirkomulag sem er í gangi vera að mæta þörfum barna sinna. Það skiptir líka máli hvernig er spurt. Í þessu sambandi vill borgarfulltrúi minna á aðra tillögu sem einnig var felld en hún laut að því sama, að kalla fram skoðanir og viðhorf foreldra. Það var tillaga um skilaboða- og ábendingakassa í öllum skólum. Einhverjir skólar eru e.t.v. með slíkt fyrirkomulag. Þetta er ein leið til að auðvelda foreldrum að koma skoðunum sínum og ábendingum er varðar skólann og skólastarfið til skólayfirvalda á auðveldan og fljótlegan máta. Hugsun borgarfulltrúa er að leita allra leiða til að fá að heyra í foreldrum og í raun eiga engar stórar ákvarðanir að vera teknar án aðkomu foreldra. Spurning er t.d. hversu mikið foreldrar komu að tiltölulegri nýrri menntastefnu borgarinnar?

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs formanns borgarráðs um fyrirkomulag funda borgrráð:

Formaður borgarráðs hefur ákveðið að taka ekki lengur tillögur og fyrirspurnir borgarráðsmanna inn í fundargerð borgarráðs sem varða málaflokka sem heyra til annarra fastanefnda að undanskildum málum þeirra flokka sem ekki eiga fulltrúa í viðkomandi fagráði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er ósáttur við þetta og finnst rökin, að þessi breyting leiði til minni álags á borgarráð, ekki trúverðug. Með þessari ákvörðun er dregið úr gagnsæi. Ef einhver skyldi vera að fylgjast með hvaða mál eru framlögð í borgarráð þá er ekki hægt að sjá þessi mál fari þau ekki í fundargerðina. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem sífellt sé verið að reyna að klípa af og þrengja réttindi minnihlutafulltrúa til að tjá sig og í þessu tilfelli er verið að reyna að fela tillögur og fyrirspurnir þeirra sem lagðar eru fram skriflega. Er þetta liður í að reyna að fela mál minnihlutans fyrir almenningi? Fyrir fulltrúa flokks sem situr einn á fundi skiptir máli að öll framlögð mál á fundinum komi inn í fundargerð. Borgarfulltrúa finnst sérkennilegt að ekki sé hægt að setja framlögð mál í fundargerð án þess að það þurfi að þýða mikið auka álag fyrir skrifstofu borgarstjórnar. Vissulega kallar það á að fundargerðin verði einni blaðsíðu lengri.

 

Bókun Flokks fólksins við samþykkt skipulags- og samgönguráðs á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal:

Elliðaárdalurinn er einstakt svæði. Stekkjarbakki er þar ekki undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og að í framhaldinu hefði verið unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er. Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita af. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að bjóða út framkvæmdir við endurbætur á 7 leikskólum vegna nýrra ungbarnadeilda:

Flokkur fólksins fagnar að loksins eigi að fara í að byggja nýjar leikskóladeildir. Það er vissulega ekki við umhverfis- og skipulagssvið að sakast hversu illa hefur verið komið fram við dagforeldra á meðan verið er að „brúa bilið“. Verkefnið er ekki á áætlun. Farið var of geist í að skella hurðinni á dagforeldra. Á meðan bilið er ekki brúað þurfa önnur úrræði að vera áfram í fullri virkni. Síðastliðið haust gátu dagforeldrar ekki fyllt pláss sín fyrr en nær dró jólum. Frá júní og fram að jólum taka þeir því á sig heilmikla tekjuskerðingu. Flokkur fólksins hefur lagt til að borgin styrki dagforeldra t.d. með því að greiða þeim sem samsvarar gæslu 5. barnsins nái þeir ekki að fylla öll pláss. Enn er talsverður tími þangað til ungbarnaleikskólar verði nógu margir til að geta annað eftirspurn. Skynsamlegt hefði því verið ef borgarmeirihlutinn hefði reynt að finna leiðir í samvinnu við dagforeldra til að styrkja dagforeldrastéttina og sporna við flótta úr stéttinni á meðan verið er að „brúa bilið”. Foreldrar verða að geta verið öruggir með að fá pláss fyrir barn sitt hjá dagforeldri óháð því hvenær á árinu barnið fæddist og dagforeldrum verður að vera boðið viðunandi starfsöryggi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs velferðarsviðs á tillögu að samþykkt sameiginlegra reglna um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuborgarsvæðinu: 

Flokkur fólksins styður tillöguna og fagnar öllum góðum breytingum. Eftirfarandi atriði þyrftu þó að vera lagfærð: Þjónustutíminn verði ekki styttur frá kl. 01:00 til 24:00 á virkum dögum eins og áætlað er. Sú breyting mun þýða að fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fer í bíó, leikhús eða annað út á kvöldin á virkum dögum. Það þyrfti helst að vera einhver varnagli til, því leigubílastöðvarnar tryggja ekki að lyftubílar séu í akstri eftir miðnætti. Hafa mætti t.d. útkallsmöguleika. Akstursþjónustan býðst ekki utan við mörk sveitarfélaganna sem reka hana. Það er bagalegt því landsbyggðarstrætó er alveg óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, sem og flugrútan. Það væri æskilegt að akstursþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á akstur til og frá flugstöðinni í Keflavík sem fyrsta skref. Akstursþjónustan er enn of ósveigjanleg í nýjum reglum. Miðað er við að pantað sé með a.m.k. tveggja klukkustunda fyrirvara. Hægt ætti að vera að óska eftir bíl með styttri fyrirvara. Ef bíll er laus þá getur þjónustan boðist fljótt. Lipurð og sveigjanleiki skiptir öllum máli án tillits hvað reglur segja. Reyna skal ávallt að koma til móts við notendur. Koma mætti fram í skilmálum að ekki sé hægt að tryggja lausan bíl fyrr en eftir ákveðinn tíma frá pöntun.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Flokks fólksins við fyrirspurn um fyrirhugaðar framkvæmdir í samgöngum:

Hér var m.a. spurt um þrengingar vegna framkvæmda. Það er erfitt fyrir fólk að búa við þetta ástand víðs vegar um borgina og ekki síst vegna þess að engar áætlanir standast tímaáætlun. Reynslan sýnir að tímaáætlanir standast ekki, verktími fer sífellt langt fram úr áætlun. Tillaga Flokks fólksins um snjallstýringu ljósa var vísað frá. Það mál þarf kannski að taka aftur upp og fá skýran rökstuðning frá skipulagsyfirvöldum af hverju snjallstýring ljósa er ekki komið á.

 

Bókun Flokks fólksins við svari Flokks fólksins við fyrirspurn um áæltanir um að setja Miklubraut í stokk:

Vitað er að með því að setja umferðaræð í stokk má minnka helgunarsvæði vega og þar með að auka möguleika á byggingum og svæðum til ýmissa nota. Þar liggja jákvæðir möguleikar. En það kostar mikið í þessu tilfelli, eða um 22 milljarða. Vandséð er að með því að leggja veg í stokk muni umferðarhraði aukast. Ef ekki eru gerðar ráðstafanir við báða enda stokksins mun umferðarflæði ekki aukast heldur munu biðraðir aðeins færast til. Inni í stokknum munu hundruð bíla bíða, annað hvort við austur- eða vesturenda. Bílvélar í hægagangi mynda mengað loft sem einhvers staðar mun þurfa að vera, en bílarnir komast á sama tíma ekkert áfram. Biðraðir bíla eru stór mengunarþáttur sem ekki er hægt að líta fram hjá. Í svarinu frá umhverfis- og skipulagssviði er hugmynd sett fram; að hreinsunarbúnaður verði við útflæðisstrompa. Þetta hefur ekki heyrst áður. Er ætlunin að setja upp síur til að sía útstreymisloftið? Ef síur virka stíflast þær. Þá þarf að skipta þeim út, eða hreinsa. Einnig er mögulegt að koma menguðum lofttegundum í vatn og leiða brott. Hefur kostnaður við þetta verið kannaður? Er ekki líklegast að mengaða loftið verði látið flæða um einhver svæði og vonað að vindar munu dreifa því?

 

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagsráðs við fyrirspurn Flokks fólksins um orkuskipti og fjöldatakmarkanir leigubíla:

Í svari við fyrirspurn um orkuskipti og fjöldatakmörkun leigubíla segir að fjöldatakmarkanir eru ekki á forræði sveitarfélagsins. Borgin getur gert kröfu að leigubílar verði búnir hreinum orkugjöfum. Flokkur fólksins telur að borgin geti í öllum útboðum tekið fram að bílar aki ekki á jarðefnaeldsneyti heldur bara rafmagni eða metan. Þetta er allt í höndum borgarinnar, þ.e. í útboði ákveður borgin sín skilyrði um t.d. að einungis verði rafmagns eða metanbílar notaðir.

 

Bókun Flokks fólksins við svari er varðar LED auglýsingaskilti (fyrirspurn Sjálfstæðisflokks):

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að ræða almenna lýsingu í borginni þótt svarið sé um LED auglýsingaskilti sem verið er að setja upp í borginni. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að LED lýsing er stórmál og sennilega mjög kostnaðarsöm breyting. En þetta er framtíðin, og óhjákvæmilegt að komi. Reykjavík er eftir á með alla svona hluti, er orðin gamaldags hvað varðar lýsingu í borginni. Skipulagsyfirvöld hafa verið lengi að taka við sér. Af hverju er ekki LED lýsing t.d. komin í Mjódd eða á Hlemmi?

 

Bókun Flokks fólksins við svari um skilgreiningu á hringtorgi (fyrirspurn Miðflokks): 

Fram kemur í svari að borgin telur sig þurfa að fara að lögum þegar kemur að hringtorgum. Svo virðist sem borgin vilji virða sum lög en ekki önnur. Gott að heyra það, en þarf ekki líka að fylgja nýjum umferðarlögum sem kveða á um að P merktir bílar hafi heimild til að aka og leggja í göngugötu? Þau lög tóku gildi 1. janúar 2020 og ekki er séð að farið sé að virða þetta ákvæði. Varðandi hringtorg þá hafa skipulagsyfirvöld sett strætóstoppistöð í mitt hringtorgið á Hagamel. Samræmist það lögum? Um daginn þegar veður var válynt þurfti að færa biðstöðina af torginu og inn á Birkimel og er það ekki í fyrsta sinn. Í nóvember þurfti Reykjavíkurborg að færa strætóbiðstöðvar bæði við Hagatorg og Hádegismóa út fyrir hringtorgin sem biðstöðvarnar voru við. Biðstöðvunum tveimur var lokað vegna óvissu um lögmæti þeirra, en samkvæmt umferðarlögum er óheimilt að stöðva ökutæki í hringtorgum.

 

 

Borgarstjórn
18. febrúar 2020

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins að fjölga stöðugildum hjá Leikni um eitt og hálft til að geta haldið úti öflugu starfi í hverfi 111 en þar býr hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð

Flokkur fólksins leggur til að borgarráð samþykki að þjónustusamningur sem til stendur að endurnýja við Leikni feli í sér fjölgun stöðugilda um eitt og hálft. Leiknir er með aðeins eina deild og því ekki skilgreint sem hverfisfélag. Félagið hefur ekki fjárhagslega burði til að fjölga íþróttagreinum til að geta kallast hverfisfélag. Eini starfsmaður Leiknis gengur í öll störf. Sérstaða Leiknis er að félagið er í hverfi 111 en það hverfi er með hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Æfingagjöld Leiknis eru lág og eru að upphæð kr. 50.000/ári fyrir yngstu iðkendurna. Forsenda þess að hægt sé að efla starfið  er að fjölga stöðugildum og að öll börn án tillits til efnahags foreldra geti notað rétt sinn til Frístundakortsins samkvæmt upphaflegum tilgangi þess.  Ein af ástæðum fyrir fáum iðkendum hjá Leikni er að Frístundakortið nýtist illa í hverfi 111. Fátækir foreldrar hafa þurft að nota Frístundakortið til að t.d. greiða fyrir frístundaheimili, tungumálakennslu auk þess sem það er sett sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól og afskriftir skulda. Börn þessara foreldra hafa því ekki sömu tækifæri og önnur börn að nota rétt sinn til Frístundakortsins til að niðurgreiða íþróttaiðkun.

GREINARGERÐ

Flokkur fólksins er hér að horfa til hagsmuna barna í Efra-Breiðholti. Sérstaða Leiknis er mikil. Til að Leiknir geti haldið lágum æfingagjöldum, haldið úti öflugu starfi, hlúð að iðkendum sínum og fundið leiðir til að stækka og vaxa þarf að bæta við einu og hálfu stöðugildi. Leiknir er ekki  félag sem getur treyst á það að æfingagjöld borgi launakostnað þjálfara yngri flokka. Æfingagjöldin dekka ekki launakostnað. Hækki gjöldin eru líkur á að færri börn stunda íþróttir í Efra-Breiðholti. Leiknir er einfaldlega í allt öðru umhverfi en öll önnur félög.

Leiknir er ekki hverfisfélag samkvæmt skilgreiningu borgarinnar, þótt það sé einungis eitt félag í Efra-Breiðholti. Ef Reykjavíkurborg vill að Leiknir verði hverfisfélag samkvæmt skilgreiningu borgarinnar er félagið tilbúið til þess. Leiknir er sem dæmi tilbúið til að stofna blakdeild.

Félagsgjöld Leiknis eru 50.000 kr. fyrir þau yngstu og upp í 70.000 kr. fyrir þau elstu. Gjöldin eru ekki lotuskipt.  Ávallt eru einnig einhver börn sem mæta en geta ekki greitt félagsgjald. Í hverfinu búa mörg börn sem langar að taka þátt í starfi Leiknis en geta það ekki vegna bágs efnahags foreldra. Oft koma krakkar inn sem ekki tala neina íslensku og vita að hjá Leikni hitta þau önnur börn sem eru í sömu sporum. Engum er vísað frá og reynt er að taka alla með í starfið þótt þeir séu ekki formlega skráðir í félagið.

Samningur sem nú er í gildi milli borgarinnar og Leiknis tók gildi 22. janúar 2008. Drög að nýjum samningi liggja á borðinu frá ÍTR sem býður félaginu hækkun upp á 56.000 kr. á mánuði. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að þetta sé ekki í neinum takti við þá launaþróun sem hefur átt sér stað á síðasta áratug. Þetta er heldur ekki í neinu samræmi við þær kröfur og lágmarksskyldur sem félaginu er gert að sinna. Í drögum að nýjum samningi er auk þess gerðar nýjar kröfur til félagsins. Þar segir:
„Leiknir skal kaupa ábyrgðartryggingu vegna starfsmanna hússins og ber ábyrgð á því skaðabótaskyldu tjóni sem gestir kunna að verða fyrir og rekja má til vanrækslu á viðhaldi, sem er á ábyrgð félagsins, eða umsjón félagsins á mannvirkjum.

Slík trygging sem hér um ræðir kostar mikið. Í raun má því segja að ekki sé verið að hækka þennan samning um 56.000 kr. á mánuði, þar sem skuldbindingar koma á móti. Sífellt er verið að setja meiri skuldbindingar á Leikni án þess að nokkuð komi á móti. Sem dæmi bættust sorpgjöld á Félagið árið 2018. Sjálfsagt er að Félagið greiði slíkt en það þarf þá að fylgja því fjármagn. Að öðrum kosti kemur það niður á starfinu. Vegna þess að Leiknir berst í bökkum fjárhagslega eru laun þjálfara lægri en gengur og gerist hjá öðrum íþróttafélögum.

Það er orðið alveg ljóst að Leiknir getur ekki rekið félag með einungis einn starfsmann og getur heldur ekki haldið úti starfi í því fjárhagslega umhverfi sem Reykjavíkurborg býður upp á. Til að geta sinnt lágmarksskyldu þarf Leiknir að bæta við að lágmarki einu og hálfu starfsgildi hjá félaginu svo það geti sinnt lágmarksskyldu.

Með hagsmuni barna í hverfinu að leiðarljósi sem mörg eru börn efnaminni foreldra  er mikilvægt að styðja og styrkja Leikni sérstaklega. Mest um vert er að fjölga stöðugildum. Með öðrum starfsmanni er ekki öll viðvera á herðum eins starfsmanns og hægt er að skipta með sér þrifum og annarri ábyrgð. Með fleiri stöðugildum er hægt að bjóða upp á meiri sveigjanleika og vinna markvisst að því að fjölga iðkendum en halda áfram lágum iðgjöldum. Svo virðist sem Leiknir eigi engan talsmann í stjórnkerfi borgarinnar og það er mat borgarfulltrúa að enginn sé þar að berjast fyrir lífi þessa félags. Tími er kominn að gera betur fyrir lítið félag sem er með lægstu æfingagjöldin og er í hverfi þar sem ríkir mest fátækt af öllum hverfum borgarinnar, þar sem hæsta hlutfall erlendra borgara býr og þar sem félagsleg blöndun þeirra hefur með öllu mistekist.

Um Frístundakortið og afbökun upphaflegs tilgangs þess

Flokkur fólksins vill nota tækifæri hér og ræða um málefni Frístundakortsins enn einu sinni enda um réttlætismál að ræða fyrir börnin ekki síst börnin í hverfi 111 þar sem hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð býr. Komið hefur fram í fyrri svörum borgarinnar við fyrirspurnum Flokks fólksins að fjöldi þeirra sem sækja um fjárhagsaðstoð er mestur hverfi 111 en þar er einnig Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum. Fulltrúi Flokks fólksins telur líklegt að það sé vegna þess að Frístundakortið er skilyrði þess að foreldrar geti sótt um fjárhagsaðstoð. Notkun Frístundakortsins í hverfi 111 er innan við 70% og notkun þess er minnst í íþróttir  í samanburði við önnur hverfi ( 21% stúlkna og 43% drengja). Í hverfinu er 35% barna eru af erlendu bergi brotin.

Upphaflegt markmið Frístundakortsins var að  öll börn gætu tekið þátt í tómstundaiðkun óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum. Kortið átti að auka  jöfnuð og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Árið 2009 var af tilstuðlan VG reglum breytt fyrst þannig að hægt var að nota það til að greiða frístundaheimili.  Nú er kortinu ætlað að dekka fleira s.s. tungumálakennslu og er einnig notað sem gjaldmiðill upp í skuldir, skuldaskjól og sem aðgangsmiði til að sækja um fjárhagsaðstoð. Hægt er að fara aðrar leiðir og hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins bent á styrki á grundvelli 16. gr. A. Það er ábyrgð velferðarsviðs að upplýsa foreldra sem þess þurfa um möguleika á styrk á grundvelli 16. gr. t.d. til að greiða Frístundarheimili. Börn eru á Frístundarheimili til þess að foreldrar geti unnið úti.  Það er óeðlilegt að taka réttinn til Frístundarkortsins af foreldrum sæki þeir um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir. Hér er verið að brjóta á börnum, gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

Leiknir berst fyrir að fá fleiri iðkendur og vilja þess vegna halda æfingagjöldum sem lægstum. Verði reglum um Frístundarkort breytt til upphaflegs tilgangs þess myndi nýting þess verða betri. Fleiri börn fengju tækifæri til að skrá sig ef þau gætu nýtt  Frístundarkortið til að niðurgreiða félagsgjöldin. Það myndi breyta miklu fyrir börnin í hverfinu ef þau gætu nýtt Frístundarkortið sitt til að skrá sig hjá Leikni. Með fjölgun iðkenda mun Leiknir eflast og geta stækkað.

Í gangi er starfshópur „um Frístundarkort“ en ekki er vitað um framvindu þeirrar vinnu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins skorar á stýrihópinn að breyta reglum um Frístundarkortið þannig að það hafi aðeins sitt upphaflega markmið sem er „að  öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum.“

Munum að Frístundakortinu var ætlað að auka jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Til að aðstoða efnalitla foreldra með gjöld á frístundaheimili og í málanám er aftur minnt á styrk á grundvelli 16. gr. a.  Afnema á alfarið allt sem tengir Frístundarkortið við fjárhagsaðstoð, skuldaskjól eða afskriftir foreldra enda er með því verið að ganga á rétt barna til að hafa jafna stöðu að stunda íþróttir- og tómstundir.

Afgreiðsla

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gen 3 atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um að fjölga stöðugildum Leiknis hefur verið felld. Það er ljóst að þetta litla íþróttafélag sem nú berst í bökkum á sér engan talsmann í borginni. Sérstaða félagsins er mikil enda mitt í hverfi þar sem félagsleg blöndun hefur mistekist. Í hverfi 111 býr hæsta hlutfall fjölskyldna með fjárhagsaðstoð og hæsta hlutfall borgara af erlendum uppruna. Þar er einnig lægsta hlutfall barna sem stunda íþróttir en í þessu hverfi er jafnframt Frístundakortið minnst nýtt af öllum hverfum eða innan við 70%. Leiknir er ekki félag sem getur treyst á að æfingagjöld borgi launakostnað þjálfara yngri flokka. Hækki gjöldin eru líkur á að færri börn stundi íþróttir í Efra-Breiðholti. Ávallt eru einnig einhver börn sem mæta en geta ekki greitt félagsgjald. Til stendur að endurnýja 12 ára samning en í nýjum drögum eru viðbótin aðeins 56. þús. á mánuði. Það er ekki í samræmi við kröfur um lágmarksskyldur félags sem nú er einnig gert að kaupa ábyrgðartryggingu og greiða sorpgjöld. Sjálfsagt er að félög greiði slíkt en það þarf þá að fylgja því fjármagn. Mannauður Leiknis, sem er einn starfsmaður er þurrmjólkaður og haldi sem horfi með óbreyttar reglur um frístundakortið verður gengið að félaginu endanlega dauðu.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Elliðaárdalinn:

Málefni Elliðaárdalsins er viðkvæmt enda um einstakt svæði að ræða. Sá hluti hans Stekkjabakki er ekki þar undanskilinn. Verndun svæðisins alls hefði verið besta ákvörðunin og í framhaldinu unnið með Reykvíkingum að mögulegu framtíðarskipulagi á svæðinu. Nú er nýtt hverfi, Vogabyggð, að byggjast upp með 3200 íbúðum. Einnig er fyrirséð að Ártúnshöfðinn muni byggjast upp sem íbúðabyggð með 3-4000 nýjum íbúðum. Gera má ráð fyrir að íbúar þessara nýju hverfa og annarra hverfa í Reykjavík njóti þess að stunda útivist í dalnum. Þeir sem láta sér annt um þetta svæði eru uggandi um að bygging þessa Aldin Biodome sé aðeins upphafið að fleiru sem á eftir að gera þetta svæði að allt öðru en það er? Samkvæmt aðalskipulagi eru nokkrir aðrir þróunarreitir í dalnum sem til stendur að byggja á. Hvað fleira er í bígerð hjá skipulagsyfirvöldum á þessu svæði er ómögulegt að segja til um. Það er erfitt fyrir fólkið í borginni að hafa áhrif á þetta þar sem um 18 þúsund undirskriftir þarf til að fá íbúakosningu. Nú er í gangi undirskriftasöfnun sem kannski aðeins brot af Reykvíkingum vita um. Enn er dágóður hópur í Reykjavík sem ekki notar tölvur til að greiða atkvæði og getur vel verið að hluti þessa hóps sé ekki kunnugt um þessa undirskriftasöfnun.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að stofna heimavist í Reykjavík:

Það er sérkennilegt af meirihlutanum að koma með tillögu um heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðinu. Það er ekkert sem leggur skyldu á Reykjavík til að koma á fót svona heimavist en það er ekki heldur neitt sem bannar Reykjavík að gera það. Alla vega er ekki séð að þessi umræða eigi heima í borgarstjórn. Flokkur fólksins hefur sannarlega ekkert á móti heimavist og finnst miður að borgarstjórn hafi eytt tíma í að þrasa um þetta mál á fundi borgarstjórnar. Segir í tillögunni að „mögulegar staðsetningar verði í nálægð við framhaldsskóla og góðar almenningssamgöngur“. Hvaða framhaldsskóla? Á borgarstjórn að fara að ræða um það líka? Lög um framhaldsskóla gera ráð fyrir því að ríki og sveitarfélag geti staðið saman að stofnun skóla, m.a. með því að ríkið greiði hluta stofnkostnaðar. Flokkur fólksins hvetur ríki og sveitarfélög endilega til að gera það. Ákvæðin í lögum um framhaldsskóla fjalla ekki beint um hvort þau taki einnig til þegar sveitarfélag vill byggja heimavist án þess að það tengist stofnun skóla en þar sem ákvæðin gera ráð fyrir samkomulagi milli ráðherra og sveitarfélags getur ráðherra án efa gert samning um aðkomu ríkisins að rekstri slíkrar heimavistar?

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu borgarskjalavarðar:

Það er nú staðfest að skjalastjórnun var ekki samkvæmt lögum í braggamálinu. Við lestur skýrslna Innri endurskoðunar og Borgarskjalavarðar er ekki erfitt að fá það á tilfinninguna að lög hafi verið brotin af ásettu ráði í braggaverkefninu. Þetta er áfellisdómur yfir borgarstjóra og borgarritara ekki síst vegna þess að engin skjöl fundust um upplýsingar og samskipti milli þeirra og SEA. Einnig hafi það ekki verið í samræmi við 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga að færa ekki inn munnlegan samning við Arkitektabúlluna. Þetta hefði þurft óháða rannsókn og því hefði verið réttast að samþykkja tillögu Flokks fólksins og Miðflokksins frá því 15. janúar 2019 „um að fela embætti borgarlögmanns að vísa skýrslu innri endurskoðunar til þar til bærra yfirvalda til yfirferðar og rannsóknar.“ Segir í tillögunni að jafnframt verði sama embætti falið að senda niðurstöður Borgarskjalasafns á skjalamálum í sama máli áfram þegar þær liggja fyrir. Að vísa málinu til borgarlögmanns er galin hugmynd. Að sjálfsögðu getur engin í Ráðhúsinu rannsakað þetta mál. Það væri eins og borgarstjóri væri að rannsaka það sjálfur. Allt gerist þetta á vakt hans og borgarritara. Hans niðurstöðum væri því erfitt að treysta í ljósi tengsla, nálægðar og hvernig ráðning hans bar að en þar voru jafnréttislög brotin.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um kjaramál og verkfall í Reykjavík:

Borgarstjóri getur á einu augabragði ákveðið að leysa þessa kjaradeilu. Hann neitar að gera það þrátt fyrir vandræðaástand í borginni. Velta má fyrir sér í þessu sambandi hvort borgarstjóri sé með nægjanlega hæfa ráðgjafa sér til handa? Nú er hafinn sá tími sem fólk er farið að nota leyfin sín, sumarleyfi til að vera heima hjá börnum sínum vegna verkfallsins sem þýðir að sumir munu ekki eiga neitt frí eftir í sumar og/eða þurfa að taka frí án launa. Það eiga ekki allir foreldrar varasjóði til að geta gert það. Það væri óskandi að borgarstjóri hlustaði á mann eins og Stefán Ólafsson, prófessor. Fáir eru eins miklir sérfræðingar og hann í þessum málum. Fólk er farið að gera sér grein fyrir að lyfta þarf botninum enda útilokað að lifa á þeim launum sem ófaglærðu starfsfólki Eflingar er ætlað að lifa á. Endurmeta þarf sérstaklega störf er snúast um umönnun barna, aldraðra og sjúkra og hækka laun þessara stétta sérstaklega. Það er öllum ljóst að séraðgerða þarf til ef bæta á jöfnuð. Samfylkingin kynnti sig sem flokkur jöfnunar en fátt minnir á jöfnun við þann Flokk lengur. Flokkur fólksins styður kröfur Eflingar heilshugar. Lyfta þarf botninum með séraðgerð.

Bókun Flokks fólksins við umræðu Sósíalista um lág laun: 

Samfylkingin hefur ávallt gefið sig út fyrir að vera jafnaðarmannaflokkur en er nú sá flokkur sem stendur í vegi fyrir að laun þeirra lægstu hækki. Hér er um að ræða störf sem snúast um ummönnun barna, aldraðra og sjúkra. Ef á að auka jöfnuð þá verður að hækka laun þessara stétta sérstaklega. Auðvitað getur borgarstjóri ákveðið að þetta gerist án þess að launahækkanirnar hlaupi upp launastigann í svokölluðu höfrungahlaupi, enda væri um sérstaka aðgerð að ræða, þar sem þetta fólk hefur dregist aftur úr. Þessar stéttir sem hér um ræðir hafa litla möguleika á aukatekjum eins og aðrar stéttir hafa möguleika á. Það er útilokað að lifa á þessum lægstu launum hjá borginni. Stefán Ólafsson prófessor hefur bent á að ef ófaglærður starfsmaður sem færi að vinna á kassa í Bónus fengi hann 130.000 krónum meira á mánuði og ef hann færi í sorphreinsun þá fengi hann 201.000 krónum meira á mánuði. Þegar fólk er búið að greiða leigu eða lán og helstu reikninga er ekki mikið eftir. Ef fólk á ekki fyrir mat dugar skammt að ræða um lífskjarasamninga. Hér vill Flokkur fólksins einnig minna á samstarfssáttmála meirihlutans en í honum stendur að það „eigi að leiðrétta laun kvennastétta“.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu fundargerða, 29. lið fundargerðarinnar frá 13. febrúar:

Niðurstaða frumkvæðisathugunar Borgarskjalasafnsins á skjalavörslu og skjalastjórn SEA er að skjalavarsla skrifstofunnar hafi ekki verið í samræmi við lög og reglur um skjalavörslu og skjalastjórn og að margvíslegir vankantar hafi verið á framkvæmd hennar. Málið er ekki búið í hugum borgarbúa þótt allir þeir sem þarna komu að séu hættir. Þannig ganga hlutir ekki fyrir sig í siðmenntuðu samfélagi. Alvarleikinn felst í mörgu, að skjöl skyldu hafi verið vistuð löngu eftir að þau voru mynduð, m.a. var mikill fjöldi skjala vistaður í skjalavistunarkerfi eftir að Borgarskjalasafn hóf athugun sína, segir að eftiráreddingar hafi verið í gangi. Langur listinn er yfir hvaða reglur voru brotnar (farið á sveig við lög. 77/2014 um opinber skjalasöfn). Engir póstar fundust í pósthólfi borgarstjóra og borgarritara varðandi Nauthólsveg 100. Hvernig var þá upplýsingum komið til yfirmanna, ábyrgðarmannanna? Munnlega, bara svona spjall yfir kaffibolla? Bragginn var kannski ekki milljarða verkefni en er eitt alvarlegasta mál sem upp hefur komið hjá þessum og síðasta meirihluta. Samt mun engin axla ábyrgð. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í frekari rannsókn til óháðra aðila eins og tillaga frá í jan. 2019 Flokks fólksins og Miðflokksins gekk út á. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er óþolandi.

Bókun Flokks fólksins undir 6. og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 28. janúar og 4. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. febrúar:

Tillaga um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Samt bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt bíða 19 börn eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Tillögur Flokks fólksins um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir er einnig felldar án skýringa. Samt eru dæmi um að börn séu sett í óviðunandi skólaaðstæður þar sem þeim líður illa þar sem öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli hefur ekki pláss. Einnig að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari. Í annarri tillögu Flokks fólksins um að hafa foreldra meira í ráðum segir í svari borgarinnar að alltaf sé verið að spyrja foreldra. Hvar eru þau svör? Hvar eru viðhorf og skoðanir foreldra þegar verið er að taka stórar ákvarðanir er varða börn þeirra? Það verður að taka meira mark á foreldrum ekki síst í ljósi skýrslna landlæknis og annarra um aukna vanlíðan barna og sjálfskaða.

Velferðarráð
19. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  stöðumati aðgerðaráætlunar um atvinnumál fatlaðs fólks:

Staða uppbyggingaráætlunar húsnæðis fyrir fatlað fólk hefur gengið hægt.  Þessi málaflokkur hefur ekki verið í nægjanlega miklum forgangi árum saman en nú virðist sem hlutir gangi ögn hraðar. Fjöldi á biðlista Í febrúar 2020 er engu að síður 142 einstaklingar á bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk hjá velferðarsviði til samanburðar við 190 einstaklinga í desember 2017. Það er einfaldlega mjög erfitt ástand hjá mörgum þeim sem bíða eftir húsnæði, margir hafa beðið mjög lengi eftir húsnæði og eiga eftir að bíða jafnvel í mörg ár enn.  Þetta er óviðunandi ástand. Dæmi eru um að ekki er hlúð nægjanlega vel að þessum fjölskyldum á meðan beðið er eftir húsnæði fyrir fatlaðan fjölskyldumeðlim. Skoða ætti að veita þessum fjölskyldum sérstakan fjárhagsstuðning á meðan beðið er, vissulega að undangengnu mati á þörf.  Hafa ætti samband við alla reglulega og kanna stöðuna. Það er oft gríðarálag á þeim sem bíða eftir húsnæðinu og fjölskyldum þeirra ekki síst ef um flókna fötlun er að ræða. Hér er verið að tala um fullorðna einstaklinga sem eiga að fá húsnæði við sitt hæfi til að geta lifað sínu persónulega lífi. Álag á foreldra fullorðinna fatlaðra einstaklinga sem hafa beðið lengi er oft gríðarlegt.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á stöðumati um atvinnumál fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins bókar við stöðumat varðandi atvinnumál fatlaðs fólks. Aðgerðaráætlun er komin til aldurs og kannski úrelt að einhverju leyti? Margar tillögur eru góðar en ekki mjög útfærðar. Þetta hefur gengið hægt. Kannski ekki forgangsmál hjá þessum og síðasta meirihluta? Eða ástæðan er að boðleiðir borgarkerfisins eru flóknar? Hér er reyndar ekki verið að tala um launaða vinnu heldur frekar afþreyingu? Það vantar að tengja við atvinnulífið. Flokkur fólksins myndi vilja sjá borgina setja á laggirnar alvöru vinnustað fyrir fatlað fólk þar sem það getur komið saman og  sinnt fjölhæfum verkefnum fyrir mannsæmandi laun. Slíkir vinnustaðir eru e.t.v. mest nú á vegum ríkis eða eru sjálfseignarstofnanir. Það vantar staði, vinnustaði, vinnustofur þar sem fólk sem er með skerta starfsorku getur unnið á sínum forsendum. Farsælast er að vinnustaðir geti ráðið fjölbreyttan hóp með eða á örorku enda er eftirspurn eftir störfum mikil. Það hefur lengi loðað við okkar samfélag að skortur hefur verið á vinnustofu fyrir öryrkja, fólk sem hefur átt í erfiðleikum með að fá störf við hæfi t.d. eftir endurhæfingu. Langflestum langar til að komast út meðal fólk og sinna störfum við hæfi og fá fyrir það greitt. Fatlað fólk er ekkert öðruvísi en aðrir með hvað varðar að vilja leggja sitt af mörkum til samfélagsins

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu öldungaráðs á tillögu Flokks fólksins um aldursfordóma:

Afstaða öldungaráðs er að ekki eigi að styðja tillögu Flokks fólksins um að rýna í regluverk borgarinnar með gagnrýnisgleraugum til að skoða hvort textinn sé gildishlaðinn. Engu að síður vill öldungaráðið hafa tillöguna að leiðarljósi. Flokkur fólksins spyr af hverju má þá ekki bara samþykkja hana?  Hér er verið að  leggja til að skoða hvort borgin sjálf sé með gildishlaðinn texta í sínu regluverki og samþykktum sem fjalla um eldri borgara og  þjónustu við þá.  Borgin er fyrirmynd og þarf að hafa hlutina á hreinu hjá sér. Flokkur fólksins hefur séð bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra sem var mjög gildishlaðin. Í svari um málið var sagt að ekki ætti að endurútgefa hann en hann hefði átt að fjarlæga að mati borgarfulltrúa.  Athuga ber að eldri borgarar hafa ekki beina aðkomu að samningu texta í reglum og samþykktum sem þeim ætti að vera boðið að gera. Tillögu um að gerð yrði könnun meðal eldri borgara um afstöðu þeirra til þessara hluta var líka hafnað. Mikilvægt er að spyrja eldri borgara hvernig það er að upplifa viðmót borgarkerfisins í sinn garð eins og kemur fram í reglum og samþykktum. Það hlýtur að vera metnaður hjá öldungaráðinu og mannréttindaskrifstofu að hafa svona hluti í lagi þ.e. að hvergi sé að finna gildishlaðinn texta neins staðar í regluverki borgarinnar eða upplýsingabæklingum.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð.

Lagt er til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þurfi ekki að greiða fyrir hverja ferð. Lagt er til að Reykjavík beiti sér fyrir því að árskort fyrir ferðaþjónustu fatlaðra gildi einnig til að ferðast með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Vegna þess gildir árskort fyrir öryrkja aðeins í strætó en ekki fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem þó er á vegum Strætó bs. Verð fyrir stakar ferðir er það sama en gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra bíður ekki uppá magnafslátt fyrir alla, svo sem með því að kaupa kort. Það er að vísu boðið upp á nemakort fyrir fatlaða nemendur í framhalds- og háskólum, en það kostar 22.600 á ári fyrir 16-17 ára og 52.900 á ári fyrir eldri.
Vísað til umsagnar Strætó bs.

Tillaga Flokks fólksins að Félagsbústaðir uppfæri heimasíðu sína hvað varðar leyfi til gæludýrahalds í samræmi við samþykkta tillögu Flokks fólksins um að leyfa hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík.

Flokkur fólksins leggur til að Félagsbústaðir uppfæri heimasíðu sína hvað varðar leyfi til gæludýrahalds í samræmi við samþykkta tillögu Flokks fólksins um að leyfa hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík. Á það hefur verið bent að þrátt fyrir að nú sé ár síðan tillagan var samþykkt hefur vefur Félagsbústaða ekki verið uppfærður í samræmi við hana og enn stendur þar að dýrahald sé bannað í íbúðum Félagsbústaða. Á þetta var sérstaklega bent á þingi Félags ábyrgra hundaeigenda s.l. laugardag. Til upprifjunar: 7. maí 2019 var samþykkt tillaga Flokks fólksins um heimild til dýrahalds í húsnæði Félagsbústaða. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði þann 16. september 2018 um að hunda- og kattahald í félagslegum leiguíbúðum yrði leyft. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða þar sem hún var tekin fyrir.  Óskað var álits og umsagnar stjórnar samtaka leigjenda á tillögunni. Stjórnin tók málið upp á félagsfundi og þar kom fram að eðlilegt þyki að fylgt sé ákvæðum laga um fjöleignarhús um m.a. að afla þurfi samþykkis annarra íbúa. Samþykkt var að leyfa hunda- og kattahald samkvæmt almennum reglum og samþykktum íbúa. Samþykktin hefur verið  kynnt íbúum í fjölbýlishúsum Félagsbústaða og henni framfylgt í samræmi við lög um fjöleignarhús og samþykktir Reykjavíkurborgar um katta- og hundahald.
Vísað til Félagbústaða.

 

Forsætisnefnd
14. febrúar 2020
Frestað vegna veðurs

Tillaga Flokks fólksins um að funda-umsjónarkerfi sem ekki er í notkun í borgarstjórnarsalnum verði fjarlægt og því skilað ef mögulegt er.

Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning funda-umsjónarkerfis sem var ætlað til aðgera fulltrúum kleift að tala úr sæti en í  20 grein samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar kemur fram að borgarfulltrúar skulu að jafnaði veita andsvör og gera stuttar athugasemdir úr sæti sínu. Fundarumsjónarkerfið kostaði 34 milljónir.

Í rúmt ára hefur fundarumsjónarkerfi (hljóðnemar) verið á borðum hvers borgarfulltrúa í þessum tilgangi en þeir hafa ekki verið virkir. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að mistök hafi verið gerð við að fjárfesta í slíku kerfi enda kerfið ekki í notkun og kemur varla til með að vera tekið í notkun. Þess utan er svona kerfi óþarft þar sem hingað til hafa borgarfulltrúar gengið í pontu til að veita andsvör og gera stuttar athugasemdir. Ekki mælir gegn því að þeir geri það áfram.

 

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um fundarstjórnunarkerfi sem aldrei komst í gagnið:

Í kjölfar fjölgunar borgarfulltrúa Reykjavíkur úr 15 í 23 við síðustu borgarstjórnarkosningar var farið í umfangsmiklar breytingar á fundarsal borgarstjórnar í Ráðhúsi Reykjavíkur. Áætlaður kostnaður var í  heildina 84 milljónum krónum.

Hluti af þeirri framkvæmd var uppsetning fundaumsjónarkerfis sem voru ætlaðir til að tala úr sæti. Kostnaður við það eitt var 34 milljónir. Kerfið er komið og standa hljóðnemar á hverju borði með tilheyrandi tengingum. Þeir hafa hins vegar aldrei komist í gagnið. Flokkur fólksins óskar að vita ástæðu þess að kerfið komst aldrei í gagnið?

Einnig hvort hægt er að skila kerfinu og fá það endurgreitt?

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð
13. febrúar 2020

Tillaga Flokks fólksins um að gerðar verði breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks

Flokkur fólksins leggur til að Laugavegur, Skólavörðu- og Vegamótastígur sem stendur til að gera að varanlegum göngu götum verði breytt í vistgötur sem opnar fyrir þann möguleika að bæði hreyfihamlaðir og eldri borgarar sem erfitt eiga með hreyfingu fái tækifæri til að njóta gatnanna og sækja sér þá þjónusta sem þar er í boði án vandkvæða. Fyrirkomulagið væri þannig að gangandi vegfarendur hafa allan forgang, en samt er leyfður akstur á hraða þeirra gangandi. Fá ökutæki munu sækja inn á slíkar götur nema ef nauðsyn krefur. Reyndin þar sem slíkt fyrirkomulag hefur verið viðhaft, er að fá ökutæki fara um göturnar. Það eru skýr mannréttindi fatlaðs fólks og aldraðrar að hafa jafnan rétt til aðgengis á við aðra. Í 9. gr. samþykktum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks á aðgengi segir: Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum. Á Alþingi voru samþykkt ný umferðalög sem kveða á um það sama og til stendur að gera samþykktir SÞ að lögum þann 13. desember n.k. Frestað.

Fyrirspurnir frá Flokki fólksins um stöðu fatlaðra barna í íþróttastarfi:

Þegar fjallað er um stöðu fatlaðra barna í íþróttastarfi er almennt talið mikilvægt að þjálfarar fái aðstoð við að taka á móti einstaklingum með sérþarfir/fatlanir. Hver ber kostnaðinn af slíkri aðstoð? Hyggst mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð að bregðast við þessu ákalli, að hjálpa til við tengingar og úthluta auknu fjármagni til málaflokksins? Frestað.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um aðgengi fatlaðra að íþróttamannvirkjum á vegum borgarinnar:

Hvernig er aðgengi fyrir fatlaða í íþróttasölum/aðstæðum sem ætlaðar eru fyrir íþróttaiðkun sem rekin eru af borginni? Hér er átt við aðgengi að byggingum, aðgengi inn í byggingar og aðgengi innan bygginganna/svæðisins. Óskað er yfirlits og upplýsinga um hvar þessir hlutir eru í lagi og hvar þeim er ábótavant. Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Fyrirspurn frá Flokki fólksins um innleiðingu samþykktar Sameinuðu þjóðanna með tilliti til aðgengis fatlaðra á allri þjónustu sem veitt er í borginni:

Ísland er aðili að samþykktum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ber því að framfylgja þeim samþykktum, enda stendur til að Alþingi geri samþykktirnar að lögum þann 13. desember n.k. Ljóst er að margt í þessum samþykktum snýr beint að sveitarfélögum í landinu og því nauðsynlegt að þau framfylgi undirrituðum samþykktum og geri viðeigandi ráðstafanir varðandi alla liði samþykktarinnar. Það hvílir því á Mannréttinda- nýsköpunar og lýðræðisráði að fylgjast grannt með að samþykktunum sé fylgt eftir á öllum sviðum borgarinnar.
Er mannréttindaráð og mannréttindastofa tilbúin að skoðað til hlítar það deiliskipulag meirihlutans að gera Laugaveg, Skólavörðu- og Vegamótastíg að varanlegum göngugötum með tilliti til samþykkta Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra? Deiliskipulagið hefur nú þegar verið lagt fram í Skipulags- og samgönguráði og samþykkt 5. febrúar síðast liðinn. Í deiliskipulaginu er aðeins gert ráð fyrir að stæði verið fyrir fatlað fólk í þvergötum sem allar eru í halla sem reynist fólki í hjólastól erfitt. Hreyfihamlaðir þurfa því að ganga talsverða vegalengdir til þjónustuaðila, en margir hverjir eiga erfitt með gang. Frestað.

Fyrirspurn frá Flokkis fólksins um biðlista í námskeið fyrir börn og foreldra á vegum Keðjunnar/Þjónustumiðstöðvar:

Í framhaldi af tillögu Flokks fólksins um úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi vill Flokkur fólksins setja fram nokkrar fyrirspurnir. Tillögunni var hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á fundi 16. desember 2019 á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnun um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Flokkur fólksins vill vekja athygli á löngum biðlista eftir þjónustu við foreldra sem þurfa ráðgjöf verið óheyrilega langur. Foreldrar sem þurfa aðstoð við uppeldis barna sinna eiga aldrei að þurfa að bíða. Námskeið í PMTO er það sem hjálpar foreldrum hvað mest en margir hafa þurft að bíða svo vikum skipti. Biðlistarvandinn virðist vera viðvarandi vandi í borginni þegar kemur að börnum. Börn þurfa að bíða í langan tíma, allt að ár eftir margs konar þjónustu. Vitað er til að það er biðlisti einnig í ýmis konar önnur námskeið á vegum þjónustumiðstöðva. Óskað er eftir að fá ítarlega stöðu biðlista sundurliðaðan eftir hverfum í þau námskeið sem þjónustumiðstöðvar bjóða börnum og foreldrum þeirra upp á: 1. PMTO foreldranámskeið. 2. Fjörkálfar. 3. Mér líður eins og ég hugsa – unglingar. 4. Klókir krakkar. 5. Klókir litlir krakkar. Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir lið. 3 og lið 6. í fundargerð öldungaráðs frá 20. janúar:

Það sem borgarfulltrúi var að leggja til hér er að samþykktir borgarinnar sem fjalla um eldri borgara og regluverk verði lesnar með fordómagleraugum. Með því að rýna í textana er hægt að sjá hvort og þá hvernig orðalag er gildishlaðið. Borgin er fyrirmynd og þetta varðar hvernig skrifað og talað er um hlutina. Flokkur fólksins hefur séð bækling sem borgin lætur liggja frammi í félagsmiðstöð aldraðra sem var mjög gildishlaðin. Í svari um málið var sagt að ekki ætti að endurútgefa hann. Flokkur fólksins vill að gerð verði könnun meðal eldri borgara og þeir spurðir hvað þeim finnst um samþykktir/reglur. Finnst þeim þau skynja, upplifa eða verða fyrir fordómum?
Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar skýrslu um heimilisofbeldi og aldraða og vill í því sambandi nefna einelti meðal eldri borgara. Borgarfulltrúa hafa borist fregnir frá fólki sem segja frá reynslu af því tagi. Nauðsynlegt er að ákveðnar siðareglur gildi fyrir notendur félagsmiðstöðva. Á þetta við um að baktal og rógur sé ekki liðinn. Viðbrögð í samræmi við stefnu og verklag borgarinnar sem samþykkt var í mars í fyrra þarf að vera á öllum stöðum. Þeir sem vinna með eldri borgurum eða umgangast þá frá degi til dags þurfa að vera meðvitaðir um að einelti er vandi sem getur skotið upp kollinum án tillits til t.d. aldurs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við liðnum Jafnrétti í íþróttum:

Flokkur fólksins fagnar því að staða fatlaðra barna sé rædd í mannréttinda, nýsköpunar og lýðræðisráið og þakkar kynninguna á stöðu fatlaðra barna í íþróttastarfi. Það er eins með íþróttir og allt annað sem býðst í lífinu að þær eiga að vera fyrir alla. Allar íþróttir fyrir alla og síðan velur fólk það sem það hentar þeim. Ekki allar íþróttir standa þó fötluðum börnum á höfuðborgarsvæðinu til boða og við það er auðvitað ekki búið. Flokki fólksins finnst að þær íþróttir sem standa fötluðum börnum til boða, líkamlega, vitsmunalega eða hvorutveggja séu ekki nógu sýnilegar í Reykjavík. Einnig veltir Flokkur fólksins fyrir sér hvernig upplýsingamálum er háttað í þessum efnum. Er t.d. til bæklingur þar sem fram koma upplýsingar um íþróttir fyrir fatlaða og eru upplýsingar vel aðgengilegar á netinu? Það er mikilvægt að borgin og ÍTR hafi þétt samband við íþróttafélög sem ætluð eru fötluðu fólki. Þar er mikil þekking og reynsla sem borgaryfirvöld/ÍTR geta tileinkað er. Þetta er allt spurning um samtal, tengingar, miðlun og tengsl. Samtal og upplýsingar kosta ekkert. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að mannréttinda, nýsköpunar og lýðræðisráð eigi að svara kalli íþróttamanna um að koma á tengslum og samtölum og vinna að því að ná í frekara fjármagn fyrir málaflokkinn þar sem það sárlega vantar.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við liðnum:
Kynning á niðurstöðum Rannsóknar og greiningar á líðan og högum barna og ungmenna og þátttöku barna af erlendum uppruna í íþróttastarfi
-Við umræðu um jafnrétti barna og unglinga í íþróttum – Ráðstefna íþróttabandalags Reykjavíkur sem fram fór 23. janúar 2020
-Við framlagningu: Drög að umsögn Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu um Íþróttastefnu Reykjavíkurborgar:

 

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar grein 9.3.1 segir „Allt uppeldis-, fræðslu-, tómstunda- og menningarstarf á vegum borgarinnar tekur mið af þörfum barna af erlendum uppruna. Flokki fólksins finnst þetta ekki vera rétt og vill í þessu sambandi vísa í stöðuna hjá Leikni sem er lítið íþróttafélag með eina deild í hverfi 111. Í þessu hverfi er lang hæsta hlutfall fjölskyldna af erlendum uppruna og hæsta hlutfall fjölskyldna á fjárhagsaðstoð. Félagið berst nú í bökkum við að halda æfingagjöldum lágum sem eru þau lægstu sem finnast í borginni. Ein af ástæðum fyrir því að fjölgun iðkenda er ekki mikil er að Frístundakortið nýtist illa í hverfi 111. Efnaminni foreldrar hafa neyðst til að nota Frístundarkortið til að t.d. greiða frístundaheimili, tungumálakennslu auk þess sem það er sett sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól og afskriftir skulda. Börn þessara foreldra, en 35% af íbúum eru af erlendu bergi brotin hafa því ekki sömu tækifæri og önnur börn til íþróttaiðkunar. Minnt er á upphaflegan tilgang Kortsins sem var að auka jöfnuð en nú hafa reglurnar verið afbakaðar þannig að fátækir foreldrar eru tilneyddir til að nota Kortið sem gjaldmiðil í nauðsynjar. Hér er verið að brjóta á börnum, gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

Lögð fram svohljóðandi ályktunartillaga Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Sósíalistaflokks:

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð ítrekar mikilvægi þess að íbúar njóti þjónustu borgarinnar án þess að eiga hættu á fordómum og mismunun. Það er andstætt mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og óásættanlegt að starfsfólk borgarinnar beri fordómafull skilaboð til gesta sundlauga eins og átti sé stað í Grafarvogslaug í febrúar 2020. Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð lítur svo á að tækifæri sé til að bæta þjónustu borgarinnar í takti við mannréttindastefnuna og hvetur menningar-, íþrótta- og tómstundaráð til að bregðast skjótt við.

Flokkur fólksins situr hjá við afgreiðslu vegna  þess að hann telur að börn sitji ekki við sama borð þegar kemur að því að njóta mannréttinda án tillits til kynhneigðar, uppruna, þjóðernis, stéttar, tungumáls, litarháttar, trúarbragða, lífs-, stjórnmálaskoðana, trúleysis, kyns, kynvitundar, kyntjáningar, kyneinkenna, aldurs, fötlunar, holdafars, líkamsgerðar, heilsufars, atgervis eða annarrar stöðu.

Vísað er í ofangreinda bókun þar sem fram kemur:

Efnaminni foreldrar hafa neyðst til að nota Frístundarkortið til að t.d. greiða frístundaheimili, tungumálakennslu auk þess sem það er sett sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð, skuldaskjól og afskriftir skulda. Börn þessara foreldra, en 35% af íbúum eru af erlendu bergi brotin hafa því ekki sömu tækifæri og önnur börn til íþróttaiðkunar. Minnt er á upphaflegan tilgang Kortsins sem var að auka jöfnuð en nú hafa reglurnar verið afbakaðar þannig að fátækir foreldrar eru tilneyddir til að nota Kortið sem gjaldmiðil í nauðsynjar. Hér er verið að brjóta á börnum, gefa þeim tækifæri með hægri hendi en hrifsa það til baka með þeirri vinstri.

Í reglum um fjáhagsaðstoð kemur fram að:

Heimilt er að veita sérstaka fjárhagsaðstoð til foreldra í þeim mánuði sem þeir fá greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum. Um er að ræða börn sem eiga lögheimili hjá viðkomandi foreldri. Um er að ræða aðstoð til að greiða áfallandi greiðslur fyrir daggæslu barns í heimahúsum, leikskóla, skólamáltíðir, frístundaheimili, sumardvöl og/eða þátttöku barns í þroskandi félags- og tómstundastarfi. Ætíð skal vera um tímabundna aðstoð að ræða sem sætir endurskoðun á sex mánaða fresti. Viðmiðunarmörk aðstoðar með hverju barni eru að hámarki 14.042 kr. á mánuði.
Skilyrði fyrir aðstoð samkvæmt þessum lið er að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti og þjónustutryggingu leikskóla.

Á meðan börnum er mismunað á grundvelli efnahags foreldra sinna að nýta Frístundakortið í þeim tilgangi sem því var upphaflega getur Flokkur fólksins ekki tekið þátt í samþykkja Íþróttastefnuna.

 

Borgarráð
13. febrúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hverju líður vinnu starfshóps um frístundarkort:

Eins og margsinnis hefur komið fram hefur frístundakortið tapað sínu upphaflega markmiði þ.e. að gefa börnum tækifæri til að stunda íþróttir. Nú er seilst í það til að láta efnaminni og fátækt fólk nota það upp í greiðslu frístundaheimilis, (frá 2009), greiða fyrir tungumálaskóla sem skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð og fyrir skuldadreifingu hjá borginmi. Nú hefur verið myndaður stýrihópur um frístundakortið og vill Flokkur fólksins vita um framvindu vinnu hans og gjarnan fá áfangaskýrslu. Í þessu máli þarf að hafa hraðar hendur því verið er að beita börn órétti með því að taka af þeim möguleikann á að nota frístundakortið til þess sem því var ætlað. Skýrasta dæmið er hverfi 111 en þar er minnsta notkun kortsins í samræmi við tilgang þess. Í þessu hverfi er hæsta hlutafall barna af erlendum uppruna og þar eru einnig flestir með fjárhagsaðstoð í samanburði við önnur hverfi sem skýrir m.a. að nýtingin skuli ekki vera meiri eða ámóta og í öðrum hverfum borgarinnar. Þessu þarf að breyta og horft er til stýrihóps um frístundarkortið að leiðrétta þetta hið fyrsta.
Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framvindu vinnu starfshóps sem endurskoða á þjónustu við gæludýraeigendur:

Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarleg óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla eins og tölur hafa sýnt. Engu að síður eru eigendur krafnir um gjald sem síðan er sagt að eigi að nota til að þjónusta alla. Flokkur fólksins hefur lagt fram fjölda fyrirspurna en einnig tillögur um hunda og hundahald. Tillögurnar voru ýmist felldar eða vísað frá í umhverfis- og heilbrigðisráði en eftir því sem borgarfulltrúi Flokks fólksins skilur þá á starfshópurinn um endurskoðun þjónustu við gæludýraeigendur að taka þær til umræðu/meðferðar. Þessar tillögur eru: Að aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað. Að reglur um gæludýr í strætisvögnum verði rýmkaðar. Að heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum. Að hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður. Að innheimta hundagjalds fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um framvindu vinnu stýrihópsins og upplýsingar um meðferð tillagnanna.
Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um reglur um styrkveitingar m.a. hvort allir sem fengið hafa styrki hafa skilað inn skilagreinum:

Nú stendur til að afgreiða árlega styrkúthlutun borgarráðs. Flokkur fólksins hefur nokkrar spurningar í þessu sambandi. Í 9. gr. um reglur um styrkveitingar segir að hafi umsækjendur áður fengið styrki skulu liggja fyrir skilagreinar um nýtingu fyrri styrkja. Spurt er hvort allir þeir sem hlotið hafa styrk t.d. síðustu fimm ár hafi skilað inn skilagreinum? Hvernig er brugðist við ef styrkþegi skilar ekki inn skilagrein? Þarf viðkomandi þá að endurgreiða styrkinn?
Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjórnar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að lengja fyrningartíma á búnaði, áhöldum og tækjum við útreikning innri leigu:

Tillaga Flokks fólksins að fyrningartími á búnaði, áhöldum og tækjum við útreikning innri leigu verði endurreiknaður með það að markmiði að lengja hann. Í svari um starfshóp um endurskoðun innri leigu tekur borgarfullrúi Flokks fólksins eftir að fyrningartími á húsbúnaði og tækjabúnaði er óvenju stuttur. Segir jafnframt í svari að miðað sé við að afskriftir sem mynda stofn til innri leigu búnaðar, áhalda og tækja sé fastur hundraðshluti miðað við áætlaðan nýtingartíma rekstrarfjármuna. Í 3. grein reglna um eignaskráningu rekstrarfjármuna borgarinnar er fyrningartími einstakra flokka stofnbúnaðar ákveðinn. Flokki fólksins finnst þessi tími allt of stuttur. Tillaga Flokks fólksins er að þegar kemur að húsbúnaði, tölvubúnaði og öðrum tækjabúnaði verði reglum um viðmið afskrifta til útreiknings innri leigu breytt þannig að fyrningartíminn verði lengri. Endurreiknað viðmið taki mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæma umgengni. Frestað.

 

Bókun Flokks fólksins við svari um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavík skal skila gögnum til mebættisins:

Í svari við fyrirspurn um skýrslu borgarskjalavarðar varðandi hvernig Reykjavíkurborg skal skila gögnum og skýrslum til embættisins kennir margra grasa. Ef litið er til skýrslu innri endurskoðunar um Nauthólsveg 100 kom alveg skýrt fram að tölvupóstum hafði verið eytt. Því miður náðist aldrei að koma þessu máli í rannsókn til þar til bærra yfirvalda. Enn liggur því í loftinu að þarna hafi verið um mögulegt misferli að ræða og slík staða er erfið öllum.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Starf borgarritara:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fulltrúar borgarráðs fái að vera með í ráðningarferli á nýjum borgarritara frá allra fyrstu stigum. Minna skal á að borgarritari er borgarritari minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Gera verður kröfu um framúrskarandi færni í samskiptum og mikilvægt er að sá sem ráðinn verður hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum. Að hann sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillagna á breytingum um sérstakan húsnæðisstuðning:

Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins (hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu um breytingu á reglum þjónustu við börn og barnafjölskyldur:

Flokkur fólksins telur að þessar reglur séu til bóta enda leggja þær grunn að frekari styrkingu og stoðum til handa barna og fjölskyldna þeirra. Góður vilji og falleg orð eru til alls fyrst. Í nútíma samfélagi þar sem virða á lýðræði eiga þeir sem þjónustuna þiggja ávallt að segja til um hvers lags þjónustu þeir þurfa og vilja. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér enga grein fyrir hvort þeir sem sitja að samningu reglugerðar séu komnir með þessa nálgun inn að beini. Reynslan á eftir að sýna það en í því sambandi skiptir máli að hlusta á þjónustuþegann. Taka þarf allar athugasemdir alvarlega og láta þær verða að hvata til að horfa gagnrýnum augum á reglur og regluverk. Í þessum reglum er strax gert ráð fyrir löngum biðlista. Það eitt og sér vekur ugg. Margra mánaða biðlista á ekki að samþykkja sem gefinn. Að það skuli yfir höfuð minnst á biðlista í glænýju regluverki eru vísbendingar um að sú þjónusta sem reyna á að veita er undirfjármögnuð.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur – göngugata – deiliskipulag

Borgaryfirvöld eru ekki enn farin að virða ný umferðarlög sem tóku gildi 1. janúar 2020. Í þeim kveður á um að heimilt er fyrir P-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Vegna hindrana komast ekki bílar á göngugöturnar. Í sumar verður Laugaveginum umturnað. Þetta svæði sem kallast hefur miðbærinn hefur á hálfri öld verið alla vega og alls konar, allt frá því að vera galtómur og kuldalegur yfir í að vera um tíma hlýlegur og fullur af lífi fólks, líka Íslendinga. Undanfarið ár hefur sigið á ógæfuhliðina og það fyrst og fremst vegna lokana gatna og breytinga á þeim yfir í að vera alfarið göngugötur. Þessi ákvörðun hefur haft skaðleg áhrif á fjölda ólíkra verslana. Þær hafa ekki þrifist eftir að lokað var alfarið fyrir bílaumferð. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar og sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum á Laugavegi. Bíður rekstraaðila Laugavegar það sama og rekstraaðila Hverfisgötunnar? Þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum. Í það minnsta er það nokkuð víst að þegar framkvæmdir hefjast verður aðgengi að Laugavegi sennilega mjög erfitt líka fyrir gangandi og hjólandi.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum deiliskipulag – Sjómannareitur og  Veðurstofuhæð, breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur til afgreiðslu

Það er eins með Sjómannaskólareitinn og Stekkjabakkareitinn. Deiliskipulagið hefur fengið óhemju viðbrögð og því miður mörg neikvæð. Einhverjir telja klárlega að ekki hafi verið haft nægjanlegt samráð. Flokkur fólksins fagnar að dregið hafi úr byggingarmagni og að Vatnshóllinn og Saltfiskmóinn fái nú að njóta sín betur. Það er hins vegar mat Flokks fólksins að almennt séð megi endurskoða það samráðsferli sem er við lýði þannig að það virki betur. Sú reiði og pirringur borgarbúa gagnvart deiliskipulagi og ekki einvörðungu á þessum reit heldur víða er ekki einleikið. Flokkur fólksins hefur ávallt sagt að bjóða þarf borgarbúum að borðinu á fyrstu stigum. Þétting byggðar er það sem þessi meirihluti setur á oddinn eins og ekkert annað skipti máli. Þétta skal byggð núna sama hvað hver segir og þótt það fari jafnvel gegn vilja fjölda manns, íbúa svæðisins. Þegar börn almennt séð tjá sig um hvernig þau vilja hafa umhverfi er einmitt mikilvægt að hlusta. Það var gert í þessu tilfelli sem hér um ræðir og fagnar borgarfulltrúi því. Börnin eiga að hafa mikið um þessi mál að segja ekki síður en fullorðnir enda er framtíðin þeirra.

Velferðarráð
12. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu um sameiginlegar reglur um akstursþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu ásamt drögum að þjónustulýsingu:

Flokkur fólksins styður tillöguna og fagnar öllum góðum breytingum. Eftirfarandi atriði þyrftu þó að vera lagfærð:
Þjónustutíminn verði ekki styttur frá kl. 01:00 til 24:00 á virkum dögum eins og áætlað er. Sú breyting mun þýða að fólk þarf að hugsa sig tvisvar um áður en það fer í bíó, leikhús eða annað út á kvöldin á virkum dögum. Það þyrfti helst að vera einhver varnagli til, því leigubílsstöðvarnar tryggja ekki að lyftubílar séu í akstri eftir miðnætti. Hafa mætti t.d. útkallsmöguleika.
Akstursþjónustan býðst ekki utan við mörk sveitarfélaganna sem reka hana. Það er bagalegt því landsbyggðarstrætó er alveg óaðgengilegur hreyfihömluðu fólki, sem og flugrútan. Það væri æskilegt að akstursþjónusta fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á akstur til og frá flugstöðinni í Keflavík sem fyrsta skref. Akstursþjónustan er enn of ósveigjanleg í nýjum reglum. Miðað er við að pantað sé með a.m.k. tveggja klst. fyrirvara. Hægt ætti vera að óska eftir bíl með styttri fyrirvara. Ef bíll er laus þá getur þjónustan boðist fljótt. Lipurð og sveigjanleiki skiptir öllum máli án tillits hvað reglur segja. Reyna skal ávallt að koma á  móts við notendur. Koma mætti fram í skilmálum að ekki sé hægt að tryggja lausan bíl fyrr en eftir ákveðinn tíma frá pöntun.

Borgarráð
6. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins vegna tillögu um að  sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs, sbr. 43. lið fundargerðar borgarráðs frá 30. janúar 2020:

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að sálfræðiþjónusta í skólum færist frá velferðarsviði til skóla- og frístundasviðs hefur verið felld. Það er miður því það fyrirkomulag sem nú ríkir virðist ekki vera nægjanlega skilvirkt kannski vegna þess að skóla- og frístundarráð hefur ekki yfirsýn. Samstarf tveggja sviða er einnig oftast vandkvæðum háð eins og oft hefur sést í borginni. Á fimmta hundrað börn eru á biðlista eftir fyrstu skólaþjónustu Reykjavíkurborgar og er stór hluti þeirra að bíða eftir sálfræðingi. Í ljósi stöðunnar þarf að grípa til margs konar aðgerða. Ein gæti verið sú að færa sálfræðinga nær börnunum og kennurum. Hvernig á skólaráð að geta haga málum sem best ef ráðið hefur ekkert um þessa stétt að segja? Skólastjórnendur kvarta sáran yfir að fagfólk sé fjarri skólanum sbr. skýrslu innri endurskoðunar frá því í júlí. Gjá hefur myndast á milli barna og sálfræðiþjónustu og hana þarf að brúa. Að færa skólasálfræðinga undir það ráð sem þeir eiga heima gæti verið eitt af fleiri skrefum. Næsta skref væri að fjölga sálfræðingum og setja alla orku borgarinnar í að taka á biðlistavanda sem nú er í hæstu hæðum. Flokkur fólksins kallar eftir aðgerðum strax. Þegar börn fá ekki þjónustu þá eykst vanlíðan þeirra með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um stækkun Brúarskóla:

Tillaga um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Nú bíða 111 börn eftir þjónustu talmeinafræðinga í leikskóla og aðeins brot af þeim fá lausn sinna mála fyrir grunnskóla. Einnig er áhugavert þegar menntastefnan er nefnd í þessu sambandi en það er eins og hún ein og sér, þ.e. stefnan, eigi að leysa einhver mál, en orð eru vissulega til alls fyrst. Sagt er að stækkun skólans sé ekki tímabær. Samt eru 19 börn á biðlista eftir plássi í Brúarskóla. Á fimmta hundrað barna eru á biðlista eftir skólaþjónustu. Börn sem mörg hver fá ekki aðstoð fyrr en seint og um síðir. Einnig í embættisafgreiðslum má sjá að tillaga um aukna og bætta þjónustu fyrir börn með geðraskanir með tilheyrandi auknu fjármagni er felld án skýringa. Dæmi erum um að börn séu tilneydd að stunda nám í almennum skóla þrátt fyrir að líða þar illa vegna þess að öll sértæk skólaúrræði þ.m.t. Klettaskóli, eru sprunginn. Dæmi er einnig um að barni sé vikið úr skóla vegna hegðunarfrávika enda þótt annað sé fullyrt í svari.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu  barna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla.

Fyrirspurn um stöðu barnanna sem bíða eftir plássi í Brúarskóla. Tillaga Flokks fólksins um stækkun Brúarskóla hefur verið felld. Í bókun meirihlutans er gefið i skyn að ekki sé lengur þörf fyrir úrræði eins og Brúarskóla vegna m.a. stofnun farteyma og aukna þjónustu talmeinafræðinga. Engu að síður bíða 19 börn eftir plássi. Flokkur fólksins vill vita hvar þessi börn eru nú að stunda nám og hver er staða þeirra félags- og námslega? Hvaða aðstoð eru þau að fá núna? Hvenær komast þau inn í Brúarskóla? R19050072
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margir grunnskólar í Reykjavík nýta sér stuðningskerfið Leið til læsis í lestrarkennslu, sbr. 71. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:

Það er gott að heyra hjá sviðsstjóra að langflestir skólar borgarinnar nota kennsluefnið Leið til læsis. Hér er um gagnreynt efni að ræða. Mikilvægt er að nota allt efnið sem tengist Leið til læsis, s.s. skimunarprófin og handbókina. Að skima eftir framförum með reglubundnum hætti skiptir miklu máli. Spurning er hvort kennurum finnist þeir fái nægan stuðning og rými til að nota efnið í tímum, t.d. efni handbókarinnar og fylgja nemendum vel eftir. Hægt væri um vik fyrir skóla- og frístundaráð að kanna nánar hvernig þessum málum er háttað í skólum án mikils fyrirhafnar. Senda má spurningar út í skólanna til að safna upplýsingum. Enginn þörf er á ítarlegri eftirfylgni eins og lýst er í svari sviðsstjóra. Markmiðið er að auka lestrafærni og lesskilning barna og því er yfirsýn skólastjórnenda og skólaráðs borgarinnar mikilvæg. Ýmis konar annað kennsluefni stendur til boða í lestri en borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst að sú aðferð til lestrarkennslu og kennsluefni sem er þaulreynd yfir langan tíma eigi að nota skilyrðislaust. Ekki er hægt að líta fram hjá mælingum PISA þar sem ítrekað hefur komið fram að íslenskri nemendur standa sig marktækt verr í lesskilningi í samanburði við nágrannaþjóðir.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fækkun nemenda í bekkjum, hvað mörg börn fá kennslu í heimahúsi og hvert sé vægi listverkefna í grunnskólum

1. Hvað er skóla- og frístundarráð að gera til að fækka nemendum í bekkjum? 2. Hvað eru mörg börn sem fá kennslu í heimahúsi? 3. Hvað er ca. vægi tækni- og listverkefna í grunnskólum borgarinnar? R20020057
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins stöðu 144 sem bíða eftir sérstöku húsnæði:

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir um stöðu þeirra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlað fólk en þeir eru alls núna 144. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um þá sem bíða eftir sérstöku húsnæði í flokki I til IV. Hver er aldur þeirra sem bíða?
Hvað hafa aðilar beðið lengi eftir húsnæði? Hvað búa þessir einstaklingar núna? Hverjar eru aðstæður þeirra, fjárhagslega og félagslega? R20020060
Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð endurskoðunarnefndar frá 27. janúar 2020.

Í 5. lið fundargerðar Sorpu má sjá að skýrsla innri endurskoðunar er nefnd og má ætla að endurskoðunarnefndin hafi eitthvað fjallað um innihald skýrslunnar. Flokki fólksins leikur forvitni á að vita hvaða mat endurskoðunarnefndin leggur á málefni Sorpu og skýrsluna í heild og hvort lagt hefur verið fram eitthvað skriflegt í þeim efnum af hálfu endurskoðunarnefndar. Sé svo, væri vel þegið að fá það framlagt til að borgarfulltrúar geti kynnt sér það. R20010018

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs vegna lokana gatna í miðbænum

Flokkur fólksins vill að miðbærinn sé fyrir alla borgarbúa og að utanbæjarfólki sé boðið velkomið að heimsækja hann. Sú þróun sem á sér stað er varðar göngugötur hefur orðið til þess að færri koma í miðbæinn. Hér er ekki verið að vísa í búendur svæðisins eða ferðamenn sem eru á hótelum staðsettum í bænum. Um fækkun Íslendinga í bæinn verður varla deilt. Flokkur fólksins er stofnaður til að gæta m.a. hagsmuna öryrkja og eldri borgara og er því fókusinn á aðgengi þeirra sem eiga erfitt um gang að miðbænum og þjónustu. Borgin er ekki enn farin að virða ný umferðarlög en í þeim kveður á um að heimilt er fyrir p-merkta bíla að aka og leggja á göngugötu. Flokkur fólksins vill einnig hugsa um eldra fólk í þessu sambandi. Enginn hefur farið varhluta af flótta verslana úr bænum sem einmitt gerði hann fjölbreyttan og litríkan. Eftir sitja einsleitar verslanir, veitinga- og skemmtistaðir og auðvitað nokkrar aðrar verslanir, misvel settar, sumar sem rétt svo skrimta. Nú standa framkvæmdir fyrir dyrum að breyta Laugavegi í göngugötu. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort það bíði Laugavegar þá það sama og Hverfisgötunnar en þar töfðust framkvæmdir út í hið óendanlega með tilheyrandi afleiðingum fyrir rekstraraðila.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs  ússtjórnar fjölbýlishúss við Álftamýri 46-52, dags. 23. september 2019, þar sem óskað er eftir að framkvæmd við hleðslustæði fyrir rafbíla við fjölbýlishúsið verði metin styrkhæf hjá styrktarsjóði Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar en beiðni um endurskoðun hafnað með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs:

Það er mat Flokks fólksins að það sé ósanngjarnt að þeir sem þegar hafa farið í að framkvæma það að koma sér upp hleðslustöð fyrir bíla skuli ekki fá styrk eins og þeir sem byrja seinna. Við höfum lengi viljað orkuskipti og það sem fyrst. Þeim sem hafa sýnt fyrirhyggju á að umbuna. Hér er ljóst að aðlaga þarf reglur og láta breytingu ná afturvirkt. Sem dæmi væri hægt að setja mörkin 5 ár aftur í tímann. Flokki fólksins finnst því rétt og sanngjarnt að samþykkja styrkumsóknina. Hér er ekki um neinar stórfjárhæðir að ræða.

Bókun Flokks fólksins færð úr trúnaðarbók tillaga meirihlutans að borgarráð samþykki drög að samkomulagi Reykjavíkurborgar við Leiguafl hf. um riftun og uppgjör vegna kaupsamnings, dags. 11. október 2017, um Grensásveg 12, fastanúmer 225-7260 í samræmi við hjálagt minnisblað borgarlögmanns. 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þetta bitur niðurstaða fyrir Reykjavíkurborg enda um tjón að ræða milli 40 og 50 milljónir. En sennilega er það rétt mat að fjárhagslegum hagsmunum Reykjavíkurborgar sé best borgið með gerð samkomulags þessa úr því sem komið er. Hér er um neyðarsamkomulag að ræða og sýnir vel hvaða vanda þarf val á verktökum og að hafa ávallt allan undirbúning samkvæmt bókinni m.a. hvað varðar tryggingar þegar borgin hyggst fara í framkvæmdir.

Velferðrráð
5. febrúar 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  húsnæðismálum fólks með fjölþættan vanda:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar hana. Á biðlista eftir húsnæði eru 61. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvar þessi aðilar eru og hver sé staða þeirra nú sem og hvort það geti verið fleiri þarna sem ekki hafa sett sig í samband við þjónustumiðstöðvar. Hugmyndafræðin Húsnæði fyrst (Housing First) er góð. Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar.  Til langs tíma hefur þessi hópur fólks verið jaðarsettur í samfélaginu og of hægt í of langan tíma hefur gengið að finna bestu lausnirnar fyrir þennan hóp. Þróunin hér á landi er í rétta átt.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um þá 61 einstakling á biðlista eftir húsnæði sem eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins hefur spurningar í því sambandi. Á biðlista eru 61. Hver er staðan þeirra í dag? Spurt er hvort geti verið að það séu fleiri þarna úti sem ekki er vitað um, t.d. einhverjir sem ekki hafa getað sett sig i samband við þjónustumiðstöðvar og Vorteymið? Liggur fyrir hvenær þessir 61 aðili fái tryggt og varanlegt húsaskjól?

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, um breytingu á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning:

Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins(hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um menningarkort til öryrkja og breytingatillögu velferðarráðs um að öryrkjar geti fengið menningarkort á sölustöðum þess gjaldfrjálst framvísi þeir staðfestingu á örorku,  svokölluðu örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins:

Flokkur fólksins styður að Reykjavíkurborg komi menningarkorti í hendur þeirra borgarbúa sem jafnframt eru öryrkjar þeim að kostnaðarlausu. Það er mikilvægt fyrir þá að hafa kortið til að framvísa á söfnum, á bókasöfnum og annars staðar þar sem kortið gildir án þess að þurfa að framvísa staðfestingu frá TR. Það er mikilvægt að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að ná til öryrkja t.d. með auglýsingum, með því að senda skeyti, póst, hringja eða nota tengilið ef þess er kostur eins og hagsmunasamtök. Umfram allt þarf borgin að eiga frumkvæði að því að finna leiðir til að koma kortinu í þeirra hendur þeim að kostnaðarlausu en bíði ekki eftir að fólk uppgötvi rétt sinn og leiti eftir honum.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18 lið fundargerðar velferðarráðs þann 13. nóvember 2019 um greiningu á tilvísunum sem bíða afgreiðslu í skjólaþjónustu:

Fulltrúi í velferðarráði óskaði eftir greiningu á 452 börnum sem bíða eftir fyrstu sérfræðiþjónustu skólaþjónustunnar  og 307 börnum  sem bíða eftir framhaldsþjónustu. Af þessum börnum eru mest sláandi tölur barna sem bíða eftir þjónustu sálfræðings en þau eru 224  í grunnskóla og 111 leikskólabörn bíða eftir þjónustu talmeinafræðings. Miklar áhyggjur eru af börnum sem bíða eftir talmeinafræðingi því fái þau ekki þjónustu fljótt er hætta á að vandinn fylgi þeim áfram. Börnin (307) sem bíða eftir “frekari” þjónustu hafa fengið  “skimun” en þurfa meiri þjónustu.   Þetta fyrirkomulag er erfitt því börn fara af einum biðlista yfir á annan innan skólakerfisins. Þegar biðlista grunnskóla líkur tekur við hjá sumum börnum biðlisti inn á aðrar stofnanir. Efla mætti samvinnu milli  yfirstjórnar skólaþjónustunnar í borginni og  annarra stofnanna og einnig  yfirstjórnar og heilsugæslu og þá sérstaklega samvinnu við heilsugæslulækna. Sum þessara mála þurfa aðkomu bæði sálfræðinga og lækna. Það er orðið knýjandi að meirihlutinn í borginni taki betur utan um þennan málaflokk. Fjölgun hefur aukist um 23% á milli ára og fjölgun kemur ekki til af engu. Bak við hverja tilvísun eru börn sem glíma við vanda og líður illa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna janúar – nóvember 2019:

Lagðar eru fram lykiltölur fyrir jan-nóv 2019. Einhverjar tölur hafa lækkað en aðrar hafa hækkað. Nánast allir liðir undir fjárhagsaðstoð hafa hækkað og sumt um rúmlega 40%. Hvað segir þetta? Þetta segir að þeir sem ekki geta framfleytt sér og sínum fer fjölgandi. Fleiri þurfa fjárhagsaðstoð. Biðlistatölur sem ekki hafa lækkað er t.d.: bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk; félagsleg heimaþjónusta; liðveisla og tilsjón. Lengsti biðlistinn er bið barna eftir skólaþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu skóla. Hér eru um margra mánaða bið að ræða. Það þarf ekki ríkt hugmyndaflug til að láta sér detta í hug hversu illa þetta fer með börn og foreldra þeirra. Vandi barns hverfur oftast ekki  á meðan beðið er. Foreldrar í þessari stöðu kljást oft við kvíða og streitu og þeir foreldrar sem eru efnalitlir og geta ekki leitað til fagfólks utan skólaþjónustu upplifa iðulega jafnvel  vanmátt.  Snúist málið um náms- og/eða hegðunarvanda getur barnið dregist aftur úr í námi og mörg hver ná aldrei að vinna upp forskot jafnaldra. Félagsleg staða barnsins getur hríðversnað og sjálfsmynd þess skaðast.

Skipulags- og samgönguráð
4. febrúar 2020

Fundinn sat Þór Elís Pálsson varaborgarfulltrúi

 

Bókun Flokks fólksins við svari vegna framlagningu lista yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur liður 34. liður fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 8. janúar sl.:

Eins og oft áður eru svör við fyrirspurnum ótæmandi og almennar. Hvernig á almenningur að átta sig á hvort eitt tilboð er betra en annað ef litlar sem engar upplýsingar fylgja tilboðum fyrirtækja, eða ásett verð þeirra á tiltekna framkvæmd sem ekki þarf að fara í útboð? Hvort er afsláttur eða ekki og hvaða listaverð miðar eitt fyrir tæki við og hvað hitt fyrirtækið? Það vaknar sú spurning þegar skoðaðar eru framkvæmdir á vegum borgarinnar þá eru oftast sömu fyrirtækin sem hljóta verkefnin. Hvernig má það þá vera að önnur fyrirtæki geti nokkur tímann öðlist þá reynslu, þekkingu og hæfni sem „viðkomandi“ fyrirtæki þurfa að búa yfir ef þau hljóta ekki náð hjá skipulagsyfirvöldum? Ergo, öðlast aldrei það sem krafist er af þeim af hálfu borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Týsgata við Lokastíg, kæra 119/2019, umsögn, úrskurður:

Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 28. nóvember 2019 ásamt kæru dags. 28. nóvember 2019 þar sem kærð er samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 30. október 2019 um stæði fyrir vöruafgreiðslu að Týsgötu við Lokastíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 10. janúar 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 31. janúar 2020. Úrskurðarorð: Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag:

Í greinargerð í nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn kemur berlega í ljós að athugasemdir ýmissa aðila er málið varðar hafa verið hunsaðar og gott betur. Ber helst að nefna hagsmunaaðila er halda Laugavegi og Skólavörðustíg gangandi með rekstri verslunar og þjónustu. Það er ljóst að ekkert samráð hefur verið við þessa aðila, nema í örmynd og greinilega ekkert á þá hlustað: ,,Aldrei hefur undirritaður verið spurður um eitt, eða neitt um fyrirhugaða lokun götunnar, eða t.d. hvort lokanir götunnar á sumrin hafi haft einhver áhrif á rekstur í húsnæðinu.‘‘ Flestir rekstraraðilar hafa sömu sögu að segja, samanber undirskriftarlisti afhendur borgarstjóra 2 apríl 2019 þar sem um 90% þeirra skrifuðu undir áskorun að breyta áætluninni. Ekkert hlustað á hreyfihamlaða sem ítrekað hafa beðið um bílastæði í göngugötunni sjálfri því ill mögulegt er að leggja í hallandi þvergötur. Í greinargerð er það staðfest ,,Bílastæðum fyrir hreyfihamlaða verður fjölgað í hliðargötum við göngugötuna.“ Sama gildir um aldraða. Meirihlutinn styðst við skoðanakannanir sem má lesa úr á marga vegu. Menntað stjórnvald nútímans ætti að sýna ábyrgari vinnubrögð og byggja sínar niðurstöður á haldgóðum rannsóknum, heldur en skoðanakönnunum sem geta sveiflast ótrúlega. Hvernig er þá hægt að réttlæta framkvæmdir sem kosta hundruð milljóna og klárlega fara fram úr áætlun?

Bókun Flokks fólksins við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Sjómannaskólareitur og Veðurstofuhæð., breyting á aðalskipulagi Reykjavíkur, breytt landnotkun og fjölgun íbúða:

Íbúar Háteigshverfis hafa unnið mjög ítarlega skýrslu varðandi áform meirihlutans um að auka byggingarmagn og er strax ljóst við lestur skýrslunnar að lítið sem ekkert samráð hefur verið haft við íbúa hverfisins þar segir m.a.: Þrátt fyrir að 6. kafli aðalskipulagsbreytingarinnar beri yfirskriftina ,,Samráð og kynningar‘‘ er augljós á öllu skipulagsferlinu sem hófs vorið 2018 að samráð við íbúa hverfisins er í reynd ekkert heldur aðeins sýndarmennska, enda hafa málefnalegar ábendingar íbúa algerlega verið hunsaðar fram til þessa. Hér eins og í nánast öllum öðrum framkvæmdum borgarinnar lokar hver einasti borgarfulltrúi meirihlutans eyrunum og veður áfram í blindum ásetningi sínum í að þétta borgina. Þeim þykir í lagi þó troðið sé á rétti fólks sem er á annarri skoðun. Framkvæmdirnar þrengja að börnum hverfisins og engin lausn í sjónmáli hvað varðar stækkun Háteigsskóla sem þegar er sprunginn. Hvernig á að leysa þann aukna umferðarþunga þegar þessi byggð rís? Sjómannaskólinn er ein fallegasta bygging borgarinnar og trónir hátt á holtinu, nú stefnir meirihlutinn enn einu sinn í að kæfa og króa af byggingar sem ættu að vera stolt borgarinnar. Í ljóðinu stendur: Húsameistari ríkisins ekki meir, ekki meir. Hvernig væri að ljóðelskir borgarfulltrúar meirihlutans reyndu einu sinna að skilja orð annarra en sinna viðhlæjenda.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, rykbinding gatna í borginni í skipulags og samgönguráði:

Það er ljóst að öðru hvor koma dagar í Reykjavík þar sem mikið ryk fyllir andrúmsloftið og reynist íbúum borgarinnar hættulegt. Samkvæmt því svari sem nú liggur fyrir þá lýsir áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins efasemdum um að það fyrirkomulag sem nú er viðhaft skili tilteknum árangri og stuðli að betri heilsu borgarbúa. Ýmislegt annað væri hægt að gera eins og að takmarka notkun nagladekkja sem spæna upp götur borgarinnar og sést glögglega um þessar mundir. Það eru til annars konar vistvæn dekk sem jafnvel eru enn öruggari. Jafnframt eru til ýmsar leiðir til rykbindingar sem vert er að athuga. Þá má einnig athuga takmörkun á umferð þungaflutningsbíla t.d. á háannatímum. Ljóst er að eitthvað þarf til bragðs að taka og einblína ekki endalaust útrýmingu bílsins úr miðborginni og þar með út á umferðargötur borgarinnar sem er ill viðhaldið.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Laugavegur, í skrefum, Kynning á verklýsingu fyrir Laugaveg:

Í greinargerð í nýju deiliskipulagi fyrir Laugaveginn kemur berlega í ljós að athugasemdir ýmissa aðila er málið varðar hafa verið hunsaðar og gott betur. Ber helst að nefna hagsmunaaðila er halda Laugavegi og Skólavörðustíg gangandi með rekstri verslunar og þjónustu. Það er ljóst að ekkert samráð hefur verið við þessa aðila, nema í örmynd og greinilega ekkert á þá hlustað: ,,Aldrei hefur undirritaður verið spurður um eitt, eða neitt um fyrirhugaða lokun götunnar, eða t.d. hvort lokanir götunnar á sumrin hafi haft einhver áhrif á rekstur í húsnæðinu.‘‘ Flestir rekstraraðilar hafa sömu sögu að segja, samanber undirskriftarlisti afhentur borgarstjóra 2 apríl 2019 þar sem um 90% þeirra skrifuðu undir áskorun að breyta áætluninni. Bent er á að nú er verið að innleiða samþykktir Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra. Reykjavíkurborg mun brjóta þessa samþykkt illilega og jafnframt nýsett lög á Alþingi ef ekki verður tekið tillit til fatlaðs fólks og eldri borgara sem eiga erfitt um hreyfingu. Menntað stjórnvald nútímans ætti að sýna ábyrgari vinnubrögð og byggja sínar niðurstöður á haldgóðum rannsóknum, heldur en skoðanakönnunum sem geta sveiflast ótrúlega. Hvernig er þá hægt að réttlæta framkvæmdir sem kosta hundruð milljóna og klárlega fari fram úr áætlun?

Borgarstjórn
4. febrúar 2020

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Skýrslu innri endurskoðunar um Sorpu:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína úr borgarráði að stjórnarmaður borgarinnar axli ábyrgð og víki og helst á öll stjórnin að gera það einnig. Niðurstöður skýrslunnar eru afgerandi, stjórnunarhættir eru ámælisverðir, segir í skýrslunni. Skuld er skellt á framkvæmdarstjórann. Hann hefur vissulega mikla ábyrgð en hún er fyrst og fremst að halda utan um daglegan rekstur og vissulega að halda stjórn upplýstri um málefni sem tengjast Sorpu. En stjórnarmenn bera stærstu ábyrgðina. Stjórnarmenn skulu, eins og segir í skýrslu innri endurskoðunar, óska eftir og kynna sér öll þau gögn og allar þær upplýsingar sem stjórn telur sig þurfa til að stýra fyrirtækinu. Byggðasamlagskerfið er gallað kerfi eins og það er núna ef stjórn stendur sig ekki þá er varla von á góðu. Ekki er langt síða að á fundi borgarstjórnar var leitað samþykkis fyrir ábyrgð á láni til að mæta framúrkeyrslu Sorpu. Nú neyðist meirihlutinn til að skoða málið og treystir sér aðeins til að gera það undir verndarvæng SSH. Það hefði þurft að grípa fyrr í taumanna. Ef borgin ætlar að taka þátt í byggðasamlagi þá þarf hún sem stærsti eigandinn að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við ábyrgð og eignarhald og skipa þarf stjórn sem hefur einhverjar þekkingu á málefnum Sorpu.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og breytingatillögu meirihlutans:

Tillaga Sjálfstæðisflokksins er út af borðinu enda náði hún ekki nógu langt. Að því leyti er tillaga meirihlutans sem nú er lögð fram skárri enda meira í takt við tillögu Flokks fólksins frá í september 2019 þess efnis að „borgarstjórn samþykki að aðild borgarinnar að byggðasamlögum verði skoðað með tilliti til þess að auka lýðræðislega aðkomu borgarbúa að þeim“. Flokkur fólksins hefur ítrekað sagt allt frá upphafi kjörtímabils að byggðasamlög eins og þau starfa nú eru ólýðræðisleg og fjarlæg hinum almenna borgara. Tillaga Flokks fólksins var felld í september og Sjálfstæðisflokkur sat þá hjá. Sá hluti breytingartillögu meirihlutans sem er ásættanlegur er: „að farið verði yfir skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna til að tryggja hagsmuni eigenda þeirra“. En það sem hugnast ekki Flokki fólksins er samkrull með utanaðkomandi ráðgjöfum og Samtökum Sveitarfélaga. Flokkur fólksins getur því ekki stutt þessa tillögu meirihlutans. Flokkur fólksins telur borgarmeirihlutann of háðan Samtökum sveitarfélga á höfuðborgarsvæðinu með hin ýmsu mál. Reykjavík er sjálfstætt sveitarfélag, lang stærst og að á gæta fyrst og fremst hagsmuna borgarbúa. Ef byggðasamlag á að vera lýðræðislegt þurfa stjórnunarheimildir að vera í samræmi við ábyrgð en svo eru byggðasamlög náttúrulega ekkert lögmál.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósialistaflokks um að gera könnun á viðhaldsþörf íbúða Félagsbústaða:

Flokkur fólksins hefur margítrekað að Félagsbústaðir haldi betur utan um leigjendahópinn. Það er áríðandi að reyna að ná til leigjenda, þeir hafa reynt að ná eyrum yfirstjórnar en ekki gengið nógu vel. Leigjendur hafa leitað m.a. til Flokks fólksins og beðið um aðstoð að ná til yfirstjórnar Félagsbústaða. Það segir sig sjálft þegar svo er komið þá er eitthvað ekki að virka. Ákall um hlustun er vegna ólíkra þátta, verið er að láta vita af vandamáli með húsnæði eins og myglu og leka. Dæmi eru um að fólk sé orðið fársjúkt og jafnvel enn ekki búið að leysa málið. Dæmi er líka um að ýmis erfið tilvik komi upp t.d. í stigagöngum sem leigjendur sjálfir geta ekki leyst utan opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur verið með ýmsar tillögur til að vekja stjórn Félagsbústaða til vitundar um þessi mál. Lagt hefur t.d. verið til að símatímum verði fjölgað í tvisvar á dag, milli kl. 11 og 12 og 15 til 16. Einnig að neyðarnúmer sé fyrir viðhaldsþjónustu utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Flokkur fólksins hefur lagt til að sett verði á laggirnar teymi til að taka á óvæntum tilvikum/tilfellum sem upp koma utan opnunartíma, eitthvað sem ekki getur beðið. Margt hefur sem sagt verið reynt.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs frá 23. janúar og fundargerð borgarráðs frá 30. janúar:

Flokkur fólksins óskaði eftir að umræða um áhrif og afleiðingar verkfalls ef úr verður yrði tekin á dagskrá borgarstjórnar en því var synjað. Samninganefnd starfar í umboði borgarstjóra. Sem fulltrúi í velferðarráði vill borgarfulltrúi bóka um hvernig landslagið verður hjá þeim sem þiggja þjónustu velferðarsviðs komi til verkfalls. Um 700 starfsmenn í 450 stöðugildum leggja niður störf á velferðarsviði í næstu viku komi til verkfalls. Annars vegar hálfan dag og hins vegar í sólarhring. Í vikunni þar á eftir eru það annars vegar tveir sólarhringar og hins vegar hálfur dagur. Um 2000 notendur munu fá skerta þjónustu. Verkfallið nær til félagslegrar heimaþjónustu og öryggis innlits, gistiskýla, heimili fyrir tvígreinda einstaklinga, hjúkrunarheimilin, búsetu fyrir geðfatlaða og félagsmiðstöðvar. Tillögu Flokks fólksins um að borgin komi upp aðstöðu þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins hefur verið felld með þeim rökum að ekki sé þörf á slíkri aðstöðu og sé hætta á að ef ný verði sett á laggirnar þá ógni það þeim sem fyrir eru. Flokkur fólksins undrast úrtölur skrifstofu umhverfisgæða Þessu er auk þess mótmælt enda talið að nákvæmlega svona aðstaða sé einmitt ekki til. Sú aðstaða sem er til selur húsgögn og húsbúnað gegn vægu gjaldi. Þessi gengur hins vegar út á að fá húsgögn gefins.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 29. janúar og fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 22. janúar:

Flokkur fólksins hefur lagt fram eftirfarandi tillögur er varða dýrahald í borginni og þar með hunda. Tillögurnar eru að: aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda verði endurskoðað, vísað frá; rýmri reglur fyrir gæludýr verði í strætisvögnum, vísað frá; heimilt verði að halda hunda- og kattasýningar í íþróttamannvirkjum, vísað frá; hundagjald öryrkja og eldri borgarara verði fellt niður, vísað frá; innheimta hundagjald fari í uppbyggingu á hundasvæðinu á Geirsnefi, vísað frá; innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirliti hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, felld. Fram hefur komið að þeim hefur verið vísað til stýrihóps um málaflokksins utan einnar þótt það komi ekki fram í fundargerð. Þess er vænst að þær fái faglega meðhöndun stýrihópsins og haft verði þétt samráð við hagsmunaaðila. Best hefði verð ef aðili frá hagsmunasamtökum hefði átt sæti í hópnum. Meðal hundaeigenda í borginni er gríðarlega óánægja og vantraust til hundaeftirlits. Verkefnum þeirra hefur snarfækkað vegna samfélagsmiðla og er hvorki fugl né fiskur frá því áður var. Engu að síður er þessi hópur krafinn um gjald sem síðan er sagt að skuli þjónusta alla. Þessu þarf m.a. að breyta.

Tillaga Flokks fólksins um að víkka út Jafningafræðsluna og jafningjafræðslu almennt séð

Tillaga Flokks fólksins um að fjölga stöðugildum Jafningjafræðara um tvö stöðugildi, að fræðslan nái til fleiri sviða og skoðað verði hvort betur henti að ráða yngri þjálfara sem hefðu það hlutverk að miðla/þjálfa tómstundum/leikjum og list.  Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að  Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“

Flokkur fólksins leggur jafnframt til að  aldursbil „fræðara“ færist neðar og kallist þeir þá jafningjaþjálfarar. Þjálfun yngri jafningjaþjálfara er annars eðlis en fræðara Jafningjafræðslunnar enda um að ræða önnur svið. Þeirra hlutverk væri aðeins að þjálfa/miðla svo sem tómstundum, leikjum, (spila á spil, hljóðfæri, syngja), leiklist, hönnun, saumi , teikun, málun, leirun, dansi (Street dans, Fortnite, Zumba, Hiphop), jóga, skapandi hreyfingu eða annað sem barn telur sig hafa færni í og langar til að miðla.
Þjálfun gæti t.d. átt heima í félagsmiðstöðvum og SFS/tómstundastarfi grunnskólanna. Ávallt skal þess þó gætt að því að ungmenni verði aldrei sett í  aðstæður sem þau ráða ekki við.

Greinargerð

Markmið Jafningjafræðslunnar er metnaðarfullt og nær yfir mörg svið m.a  að skemmta sér saman og byggja upp vináttutengsl. Fræðslan einskorðast núna að mestu við að fræðslu sem miðar að því að styrkja sjálfsmynd og byggja upp sjálfstraust og öryggi. Sá þáttur getur aðeins verið í höndum eldri fræðara sem hafa gengið í gegnum strangt ráðningarferli og þriggja vikna undirbúningsnámskeið.

Meðal grunnskólanema býr mikil færni á ýmsum sviðum og finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins það eftirsóknavert að skoða hvort þau hafi áhuga á að miðla til annarra barna sem vilja meðtaka og læra. Þjálfun yngri þjálfara gæti tengst sérstökum tómstundadögum í skólum/félagsmiðstöðvum eða á þemadögum, sem dæmi um nálgun. Slíkir dagar krefjast skipulagningar og samvinnu þeirra sem að koma (nemendur, kennarar, starfsmenn félagsmiðstöðva). Á slíkum dögum þyrftu allir að fá tækifæri.
Flokkur fólksins leggur til að fulltrúar Hins Hússins hitti fulltrúa SFS og félagsmiðstöðva til að fara yfir hvaða möguleikar eru í stöðunni.

Jafningjafræðarar fræða ungmenni í Vinnuskólanum á sumrin. Flestir fræðarar Jafningjafræðslunnar eru í námi á vetrum.  Á veturna þegar þau eru byrjuð í skólanum hafa þau þurft að fá frí úr tímum. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fræðslan geti verið jafnari allt árið og þannig í meira samræmi við reglur Jafningjafræðslunnar. Eftirspurn eftir fræðurum er mikil. Starfsemin eins og hún er í dag er langt því frá fullnýtt ef tekið er mið af reglum um Jafningjafræðsluna.

Flokkur fólksins leggur til að reyna að semja um að fræðarar Jafningjafræðslunnar fái einingar/punkta sem hluta af áföngum t.d. í íþróttum og/eða félagsfræði. Mælst er til að ÍTR eigi frumkvæði að slíku samtali við framhaldsskólana/menntayfirvöld.

Fleiri stöðugildi gætu auðveldað Jafningjafræðslunni að sinna þessu mikilvæga hlutverki sínu því þá myndi fræðslan dreifast á fleiri fræðara. Í þessu samhengi má geta þess að vetrarfræðslan er fjármögnuð með styrk frá Lýðheilsusjóði þar sem fræðararnir fá greitt fyrir hverja fræðslu.

Hugmyndafræði Jafningjafræðslunnar er gulls ígildi. Það er löngum þekkt að börn og unglingar meðtaka oft betur og skýrar fræðslu, kennslu og leiðbeiningar frá jafningjum sínum frekar en fullorðnum. Fræðsla Jafningjafræðslunnar er gagnvirk og unnin á jafnréttisgrundvelli. Grundvöllur jafningjafræðslu er að sá sem kennir og sá sem meðtekur  hafi svipaðan reynsluheim. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur mikinn áhuga á að fleiri geti notað góðs af, bæði sem miðlarar og einnig sem meðtakendur.

Tillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 2 atkvæðum borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu málsins:

Það er vissulega alltaf tregafullt þegar góðri tillögu sem hefur verið vandleg undirbúin er kastað á glæ. Borgarfulltrúi Flokks fólksins finnst þessi afgreiðsla meirihlutans bera vott um þröngsýni og ótta að færa út kvíar í þessum málaflokki. Ein ástæðan fyrir tillögunni er að Jafningjafræðslan getur ekki sinnt sínu hlutverki samkvæmt reglum um Jafningjafræðslu. Fræðarar eru nú 11 og fræða ungmenni um það sem endurspeglar unglinga- og ungmennamenningu hvers tíma. Nú anna fræðarar ekki eftirspurn og skortur er á fræðurum yfir vetrartímann. Markmiðið með fjölgun er að Jafningjafræðslan geti unnið meira í samræmi við reglur um Jafningjafræðslu sem er „að starfa allt árið um kring og heimsækja félagsmiðstöðvar, grunn-, framhalds- og vinnuskóla og fræðslan snúi að margvíslegum málefnum og hópeflisleikjum“ Samkvæmt upplýsingum frá fjármálastjóra eru laun og launakostnaður vegna 1 stöðugildis 375 þúsund krónur á mánuði. Þennan kostnað mætti taka af liðnum ófyrirséðu. Hér væri hægt um vik, alla vega hefði verið alveg óhætt að vísa tillögunni til íþrótta- og tómstundasviðs til að moða úr. Tillagan gekk einnig út á að skoða hvort hægt er að virkja eldri grunnskólanema til að miðla tómstundum/leikjum, listum og verklegum greinum. Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegt fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft.

Forsætisnefnd
31. janúar 2020

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um framsetningu lista fyrir móttökur, sbr. 21. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 30. ágúst 2019.
Samþykkt.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar jákvæða umsögn um tillöguna. Markmið Flokks fólksins með fyrirspurnum sínum og tillögu eins og þessari er að auka gegnsæi við móttökur. Með auknu gegnsæi aukast líkurnar á frekari hagræðingu og sparnaði á þessu sviði. Hagræðing og sparnaður á þó aldrei að verða til þess að fólk fái færri tækifæri til að koma saman og fagna. Það sem slíkt kostar oftast ekki neitt og sé um vettvang/staðsetningu í eigu borgarinnar sem ella stendur jafnvel autt þá er hægt um vik að fagna sem mest og oftast. Oft er ekkert um að vera í Höfða sem dæmi og því sjálfsagt að nota það hús sem mest og eins borgarstjórnarsalinn. Kostnaður er mestur í veitingum og þar er mikilvægt að skoða hagræðingu og sparnað. Flokkur fólks hefur beðið um að sjá sundurliðaðan kostnað yfir móttökur og væntir þess að sundurliðaðar kostnaðarupplýsingar verði lagðar fram næst þegar yfirlit yfir móttöku/viðburði verður lagt fyrir forsætisnefnd.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um að ferðakostnaður og kolefnisfótspor kjörinna fulltrúa verði birtur opinberlega:

Borgarfulltrúar meirihlutans, borgarstjóri og embættismenn fara mikið til útlanda. Kostnaður skiptir milljónum á ári. Flokkur fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega sér í lagi þegar hópur fólks fer frá sama sviði, ráði/flokki. Það væri mikill ávinningur að draga verulega úr ferðum erlendis. Fjárhagslegur ávinningur væri mikill og einnig umhverfisávinningur. Þær ferðir sem farnar eru og allur kostnaður í sambandi við þær er sjálfsagt að setja á vef borgarinnar. Samkvæmt umsögn er því lýst að mikill kostnaður verði við að sundurliða þessar upplýsingar og koma þeim á vefinn. Halda mætti að hægt væri að yfirstíga hindranir í þessu sambandi bæði tæknilega og aðrar án mikillar fyrirhafnar eða stórkostlegs kostnaðar.  Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að gegnsæi eigi að vera í öllu sem borgin er að gera, stjórnsýslunni og starfsfólki í samræmi við reglur um persónuvernd að sjálfsögðu. Það er ekki einungis launin sem þurfa að vera opinber heldur annað sem tengist starfi borgarfulltrúa. Ferðir og dagpeningar er hluti af þeim upplýsingum sem á að vera aðgengilegar á vef Reykjavíkurborgar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar til útlanda og skráningar í því sambandi verði einnig á vef borgarinnar. Sú tillaga var reyndar felld.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tilmæla forsætisnefndar, dags. 31. janúar 2020, vegna borgarstjórnarfunda:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur margar af þessum reglum óþarflega stífar. Talað eru um að láta ritara vita hitt og þetta í tölvupósti t.d. frekar en að ganga að borðinu en upplifun er stundum sú að t.d. forseti fylgist ekki stöðugt með tölvupóstum. Einnig nægir vel að ávarpa aðra borgarfulltrúa með titli og eiginnafni. Einn helsti vandi á fundum borgarstjórnar að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins er stundum hvísl forseta borgarstjórnar við ritara á meðan fluttar eru ræður. Þetta er reyndar mis slæmt en afar truflandi fyrir þann sem flytur ræðuna. Eins er oft erfitt að ná athygli forseta borgarstjórnar til að fá sig setta á mælendalista. Forseti borgarstjórnar þarf að líta oftar yfir salinn. Þá þurfa borgarfulltrúar ekki að berja í borð eða slá í tölvur til að ná athygli hans. Eins þarf forseti borgarstjórnar að tala skýrar en hann gerir og hægar. Flokkur fólksins vill að fólk sem kemur á pallana  finni sig velkomið. Borgarstjórn ætti að finna leiðir til að bjóða fólki að koma sem oftast. Einnig á gestum að vera sjálfsagt að klappa, finni einhver þörf og löngun til þess.

Borgarráð
30. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki eigi að afgreiða tæplega ársgamla kvörtun um framkomu borgarritara við borgarfulltrúa minnihlutans þegar hann kallaði þá tudda á skólalóð?:

Borgaritari er að kveðja Ráðhúsið. Í skúffu borgarstjóra liggur óafgreidd kvörtun frá borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna meiðandi umæla borgarritara um borgarfulltrúa minnihlutans. Borgarfulltrúi spyr hvort ekki eigi að hnýta lausa enda áður en borgarritari hverfur á braut frá borginni og afgreiða kvörtunina? Kvörtunin er dags. tíunda apríl 2019 og móttekin af mannauðsdeild tólfta apríl 2019. Eftir þó nokkrar vangaveltur mannauðsdeildar sem einkenndust að mestu af spurningum hvað gera ætti við kvörtun af þessu tagi stóð til boða að vísa henni til borgarstjóra með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna hana samkvæmt þeim verkferlum, ekki heldur bráðbirgðaverkferil sem meirihlutinn hefur samþykkt. Skrif borgarritara var fyrst sett inn á sameiginlegt vinnusvæði starfsmanna. Um 80 starfsmenn þ.m.t. yfirmenn tóku þátt í illu umtali um borgarfulltrúa minnihlutans. Spurt er hvort ekki eigi að ljúka að afgreiða kvörtunina sem hér um ræðir með formlegum hætti áður en sá sem kvartað er yfir, borgarritari, hverfur til annarra starfa? Ekki er vænlegt að skilja eftir ókláruð mál af þessu tagi. Hér er laus endi sem þarf að hnýta. R20010392

Bókun Flokks fólksins við svör Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 16. janúar 2020, við fyrirspurnum áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hundahald og hundaeftirlit, sbr. 75., 76., 77. og 78. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. janúar 2020:

Borist hafa svör við fyrirspurnum  sem tengjast hundaeftirlitinu. Svörin vekja furðu og kalla á fleiri spurningar. Fyrstu viðbrögð Flokks fólksins snúa að svari Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að innstimplanir starfsmanna í Vinnustund séu persónugreinanleg gögn og að Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi ekki heimild til að birta þær. Um þetta er efast. Spurt var um rafræn samskipti og áhrif þeirra á umfang verkefna eftirlitsins. Segir í svari Heilbrigðiseftirlitsins að  „kröfur um svörun og vandaða stjórnsýslu hafi aukist mikið gegnum árin og að fullyrðing  um að almenningur hafi tekið við mörgum verkefnum hundaeftirlits sé óskiljanleg og i besta falli misskilningur.“ Hér skal  áréttað af Flokki fólksins að Hundasamfélagið og Félag ábyrgra hundaeigenda hafa gert samanburð á tölfræði verkefna sem færst hafa frá hundaeftirlitinu til almennings. Á 4 árum fækkaði kvörtunum úr 273 í 79 á ári. Á 6 árum fækkaði lausum hundum úr 209 í 62 á ári. Á 8 árum fækkaði hundum í geymslu úr 89 í 8 á ári. Þegar þessi tölfræði er skoðuð má því spyrja hvernig getur það verið að rekstrarkostnaður hundaeftirlits eykst með hverju árinu? Síðan Hundasamfélagið var sett á laggirnar birtast að jafnaði 1200 færslur á ári, þar sem verið er að auglýsa týndan eða fundinn hund. Það er því alveg borðliggjandi að  almenningur hefur að mestu tekið við verkefnum hundaeftirlits.

Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að stjórn SORPU segi af sér vegna framkvæmdakostnaðar byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi, sbr. 55. lið fundargerðar borgarráðs frá 23. janúar 2020.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Lagt var til að stjórnarmaður Reykjavíkur í SORPU víki úr stjórn og að stjórn SORPU segði af sér vegna framúrkeyrslu framkvæmdakostnaðar byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi. Sú tillaga hugnast ekki meirihlutanum enda telur hann að sú staða sem nú er komin upp í SORPU komi stjórn lítið við og alls ekki stjórnarmanni borgarinnar í SORPU heldur sé vandinn öðrum að kenna og sá hefur verið sendur í leyfi.  Það er ótrúlegt að stjórn, sem fengið hefur greiðslur fyrir að sinna stjórnastörfum telur sig hafin yfir þennan skandal og að hún sé fullfær að vinna áfram. Hún telur sig hafa traust borgarbúa og bæjarfélaganna. Skýrsla innri endurskoðunar er afgerandi. Í skýrslunni koma fram  ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar SORPU hafði lagt til að tæpum 1,4 milljörðum króna yrði bætt við fjárhagsáætlun fyrirtækisins vegna næstu fjögurra ára.  Innri endurskoðun Reykjavíkurborgar gerði jafnframt úttekt á stjórnarháttum félagsins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Það sem er ekki síst sláandi er að framkvæmdastjóri segir að hvorki  höfðu stjórnarformaður né aðrir stjórnarmenn frumkvæði að því að afla upp¬lýsinga um heildarkostnað á hverjum tíma til að gera viðeigandi samanburð við áætlanir. Engu að síður á að þráast við. Völdin skipta máli.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á skýrslu innri endurskoðunar á framkvæmdum við gas- og jarðgerðarstöð SORPU bs. á Álfsnesi:

Enn ein skýrslan hefur verið birt sem sýnir að víða er pottur brotinn í borgarkerfinu. Nú eru það málefni SORPU og þá staðreynd að 1,4 milljarð vantar inn í fjárfestingaráætlun fyrirtækisins, en kostnaður  vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar og tækjakaup fór sem því nemur fram yfir kostnaðaráætlanir. Þetta er ekki fyrsta skýrslan sem sýnir vandamál af þessu tagi í borginni. Búið er að senda framkvæmdarstjórann heim en það er eins og stjórn ætli að hvítþvo sig af því að hún bað um skýrsluna. Það er mat Flokks fólksins að stjórnin öll eigi að axla ábyrgð en ekki setja alla sök á einn aðila, en um hann vill stjórn að umræðan snúist aðallega. Þegar svona stór skandall kemur upp á stjórn einfaldlega að víkja og gildir einu hvort akkúrat þessi stjórn var við völd þegar skandallinn átti sér stað. Borgarfulltrúa finnst eins og þessi meirihluti í borgarstjórn eigi erfitt með að lesa umhverfið með siðferðisgleraugum. Það er eins og ekkert bíti á sama hversu alvarlegir hlutirnir eru. Skýrsla innri endurskoðunar er kýrskýr og er stjórn og hennar vinnubrögð ekki síður gagnrýnd. Borgarfulltrúi Flokks fólksins ítrekar mikilvægi þess að stjórnin öll stígi til hliðar.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að sálfræðingar í skólum færist undir skóla- og frístundarsvið.

Flokkur fólksins leggur til að sálfræðingar í skólum og sálfræðiþjónustan færist undir skóla- og frístundasvið. Í dag er hún undir velferðarsviði. Það er mat borgarfulltrúa að með því að færa sálfræðinga skóla undir skóla- og frístundasvið komist þeir í betri tengingu við skólana, börnin og kennara. Skólasálfræðingar heyra undir þjónustumiðstöðvar borgarinnar þar sem þeir hafa aðsetur. Í skýrslu innri endurskoðunar sem kom út í júlí 2019, kom fram skýrt ákall skólastjórnenda að sálfræðingar kæmu meira inn í skólanna. Nærvera þeirra myndi létta álagi á kennara. Það hefur lengi legið fyrir að of mikil fjarlægð er milli barna/kennara og fagfólks. Þessi tillaga miðar af því að styrkja formlegar stoðir og innviði skólakerfisins til að hægt sé að sinna börnum og kennurum betur og ekki síst til að eiga betri möguleika á að minnka biðlista. Í raun má segja að það sé engin haldbær rök fyrir því að skólaþjónusta tilheyri ekki því sviði sem rekur skólanna. Með þessari breytingu aukast líkur á meiri skilvirkni, skipulagi og framkvæmd á stuðningi við börn og ungmenni í skólastarfi enda allt utanumhald þá undir sama þaki ef svo má segja. Með því að sálfræðingar heyri undir skóla- og frístundasvið yrði hlutverk skólaþjónustu gagnvart skólum og starfsfólki þeirra eflt. R20010379
Frestað.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar rýmri reglur fyrir gæludýr í strætisvögnum:

Fyrirspurn um afgreiðslu á tillögu Flokks fólksins um rýmri reglur fyrir gæludýr í strætisvögnum, einnig um tillögu um aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda sem og tillögu um að innheimta hundagjald fari í uppbyggingu á hundasvæði á Geirsnefi. Afgreiðsla þessara þriggja tillagna er óljós eða öllu heldur skorti haldbær rök. Flokkur fólksins spyr: Af hverju tillaga um rýmri reglur var ekki send til umsagnar hjá stjórn Strætó bs? Spurt er af hverju tillögunum um a) aðgengi hunda og aðstöðu hundaeigenda sem og b) tillögu um að eftirlitsgjald sé notað í uppbyggingu á hundasvæði á Geirsnefi var ekki vísað til skoðunar hjá starfshópi um endurskoðun þjónustu við gæludýraeigendur eins og Heilbrigðiseftirlitið leggur til í sinni umsögn? Hver eru rökin fyrir því að umhverfis- og heilbrigðisráð leyfir sér að hundsa tillögu Heilbrigðiseftirlits um að þessar þrjár tillögur fari til skoðunar hjá umræddum stýrihópi? R20010132.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi svar:

Borgarráð vísaði tillögum Flokks fólksins til fullnaðarafgreiðslu umhverfis- og heilbrigðisráðs sem hefur nú afgreitt þær á fundi sínum. Ekki er fallist á að afgreiðslurnar hafi verið óljósar né að rök hafi skort fyrir afgreiðslu ráðsins. Málunum er því lokið og fyrirspurnin verður ekki send til frekari vinnslu.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að íbúaráðin hlutist til um að stofnanir í hverfinu tengist meira en nú er raunin og að íbúar hverfisins eigi þá mögulega ríkari samskipti:

Tillaga Flokks fólksins að íbúaráðin hlutist til um að stofnanir í hverfinu tengist meira en nú er raunin og að íbúar hverfisins eigi þá mögulega ríkari samskipti. Flokkur fólksins leggur til að eitt af hlutverkum íbúaráða sé að finna leiðir til að auka og dýpka bæði fagleg og persónuleg tengsl íbúa hverfa í gegnum stofnanir borgarinnar í hverfinu. Sjá má íbúaráðin sem eins konar lím milli skóla, leikskóla, félagsmiðstöðva og menningarstaða hverfisins. Með aukinni samvinnu tengjast einstaklingar meira og börn og fullorðnir hverfisins geta sameinast í auknum mæli í leik og starfi. Flokkur fólksins leggur til að þessi tillaga verði send til íbúaráðanna til skoðunar. Hér er sett fram hugmynd sem gæti verið hluti af hugmyndafræði íbúaráða sem borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að mætti útfæra nánar í íbúaráðunum.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti. Grenndarstöð sem er núna á stór bílastæði við Arnarbakka til móts við Maríubakka verður færð til og verður framvegis staðsett á núverandi snúningshaus við Leirubakka:

Borgarráð hefur samþykkt deiliskipulag fyrir grenndarstöðvar við Arnarbakka í Breiðholti. Grenndarstöð sem er núna á stór bílastæði við Arnarbakka til móts við Maríubakka verður færð til og verður framvegis staðsett á núverandi snúningshaus við Leirubakka. Flokkur fólksins óskar að vita hvers vegna er verið að flytja gámana? Þar sem fyrirhugað er að setja gámana fýkur ruslið yfir blokkirnar í sunnan og suðaustan átt. Þarna er mikill strengur. Þeir sem leggja þetta til þekkja ekki til veðurs á þessu svæði. Skárri kostur væri að setja gámana í suðausturhorn bílastæðis við Leikskólann Arnarborg. Þar er skjól og það er miðsvæðis. Flokkur fólksins telur að þessi stæði séu ekki nýtt.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hundagjald og hvort rétt sé að aðeins hundaeigendur greiði það ef það eigi að þjónusta alla:

Í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu segir að hundeigendum beri að sinna skyldu sinni að finna sinn hund hafi hann týnst skv ákvæðum dýraverndunarlöggjafar og samþykkt um hundahald á hverjum stað. Þá er spurt ef sveitarfélögum er skylt að hafa athvarf, hvers vegna borga ekki allir útsvarsgreiðendur fyrir það eins og aðrar skyldur sveitarfélaga? Eins og staðan er núna, borga hundaeigendur sem skrá hundana sína, fyrir athvarf sem geymir óskráða hunda. Því það eru jú langoftast óskráðir hundar sem þurfa að gista yfir nótt, hinir skráðu komast til síns heima samdægurs. Flokkur fólksins vill að innri endurskoðun gerir úttekt á fjármálum hundaeftirlits enda velta margir því fyrir sér í hvað hundagjöld eru notuð þegar staðfest hefur verið að öllum verkefnum hundaeftirlitsins hefur snarfækkað. Hundaeftirlitið sér ekki ástæðu til þess að innri endurskoðun taki út reksturinn og segir að allt standist skoðun. Um þetta eru hundaeigendur einfaldlega ekki sammála. Á heimasíðu Reykjavíkur um opin fjármál kemur fram að laun og launatengd gjöld árið 2018 hafi verið 15.762.638 kr. Inni á heimasíðu Hundaeftirlits Reykjavíkur kemur fram að laun árið 2018 hafi verið 27.774.463 kr. Hver er ástæðan fyrir þessum mismun upp á 12.011.825 kr.? Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leigumál hundaeftirlitsins:

Fram kemur í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu að öll starfsemi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er staðsett í Borgartúni 12 eins og fram kemur á heimasíðu, á bréfsefnum og í undirskriftum starfsmanna. Þá er spurt: Er Hundaeftirlitið að borga leigu fyrir aðstöðu fyrir hundageymslur? Ef svo er, hver er sú upphæð á ári? Í svari frá Heilbrigðiseftirlitinu segir að „innri leiga er greidd til eignasjóðs Reykjavíkurborgar sem er reiknuð eftir sömu reglum og aðrar einingar Heilbrigðiseftirlitsins hjá umhverfis- og skipulagssviði greiða og miðast við fjölda starfsmanna hverrar einingar. Tveir starfsmenn gera 1% af starfsmönnum sviðsins í húsinu og er leigan um 3,7 milljónir á ári.“ Spurt er þá hvort þetta þýði þá að umhverfis- og skipulagssvið sé að greiða 30 milljónir á mánuði í húsaleigu, fyrir 200 starfsmenn? Kvartað hefur verið undan að hundaleyfisgjald sé jafnvel talið hærra en nemi kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi, spurt er í hvað hundagjöldin fara. Heilbrigðiseftirlitið kannast ekki við slíkar kvartanir enda sé „reksturinn gagnsær. Í þessu sambandi vill Flokkur fólksins spyrja hvort kvörtun Hundarræktarfélag Íslands til Umboðsmanns Alþingis árið 1994 sé gleymd? https://www.umbodsmadur.is/alit-og-bref/mal/nr/180/skoda/reifun Því miður krafðist Umboðsmaður Alþingis ekki rannsóknar á fjármálum eftirlitsins á þeim tíma. R20010132
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort ekki eigi að afgreiða tæplega ársgamla kvörtun um framkomu borgarritara við borgarfulltrúa minnihlutans þegar hann kallaði þá tudda á skólalóð?:

Borgaritari er að kveðja Ráðhúsið. Í skúffu borgarstjóra liggur óafgreidd kvörtun frá borgarfulltrúa Flokks fólksins vegna meiðandi umæla borgarritara um borgarfulltrúa minnihlutans. Borgarfulltrúi spyr hvort ekki eigi að hnýta lausa enda áður en borgarritari hverfur á braut frá borginni og afgreiða kvörtunina? Kvörtunin er dags. tíunda apríl 2019 og móttekin af mannauðsdeild tólfta apríl 2019. Eftir þó nokkrar vangaveltur mannauðsdeildar sem einkenndust að mestu af spurningum hvað gera ætti við kvörtun af þessu tagi stóð til boða að vísa henni til borgarstjóra með þeim orðum að ekki væri hægt að vinna hana samkvæmt þeim verkferlum, ekki heldur bráðbirgðaverkferil sem meirihlutinn hefur samþykkt. Skrif borgarritara var fyrst sett inn á sameiginlegt vinnusvæði starfsmanna. Um 80 starfsmenn þ.m.t. yfirmenn tóku þátt í illu umtali um borgarfulltrúa minnihlutans. Spurt er hvort ekki eigi að ljúka að afgreiða kvörtunina sem hér um ræðir með formlegum hætti áður en sá sem kvartað er yfir, borgarritari, hverfur til annarra starfa? Ekki er vænlegt að skilja eftir ókláruð mál af þessu tagi. Hér er laus endi sem þarf að hnýta. R20010392.

Flokkur fólksins bókar við framlagðar íbúaráða:

Íbúaráðin eru komin í fulla virkni með sitt skilgreinda hlutverk. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort víkka megi út skilgreiningu ráðanna. Sjá má fyrir sér að íbúaráðin hafi það hlutverk að tengja saman íbúa hverfisins og stofnanir þess. Með aukinni samvinnu og samstarfi kynnast íbúar hverfisins, mynda nánari tengsl og geta börn og fullorðnir þá sameinast í auknum mæli í leik og starfi.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Nýr lýðræðisvettvangur hverfanna, íbúaráðin, fara vel af stað, sem er gleðiefni. Meðal verkefna íbúaráða sem samþykkt voru af borgarstjórn vorið 2019 eru ,,a. Samtal milli íbúa og stjórnsýslunnar“ sem felur í sér að ,,styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa og styrkja möguleika íbúa til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri hvað varðar pólitíska ákvarðanatöku“ og ,,b. Samvinna innan hverfanna“ sem felur í sér að íbúaráðin skuli ,,leggja sig fram við að vera lifandi samstarfsvettvangur innan svæðisins í samstarfi við bakhóp sem skipaður er af fjölbreyttum hagsmunaaðilum hverfisins“. Ekki er því talin þörf á að útvíkka skilgreiningu ráðanna til að koma til móts við þessi atriði þar sem að núverandi fyrirkomulag tekur vel á þeim.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Sorpu 2. lið:

Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað. Í skýrslunni koma fram ástæður framúrkeyrslu sem varð á áætluðum framkvæmdakostnaði vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill ítreka þá tillögu sína að skipta um fólk í brúnni þar sem engum þeirra hefur dottið til hugar að fylgjast nógu grant með málum SORPU sem leitt hefur til þessarar stöðu sem nú er uppi. Engin í stjórn virðist heldur hafa haft nægjanlega þekkingu á rekstri fyrirtækis sem SORPA er, né hefur stjórn sýnt sjálfstæð vinnubrögð, t.d. frumkvæðið að kalla eftir gögnum með reglubundnum hætti. Það er einnig með ólíkindum að stjórnarformaðurinn sé að koma núna fram og spyrja um hluti og að hann sé að biðja um skýrslu nú fyrst.  Af hverju hefur stjórnin ekki fylgst betur með? Fyrir hvað eru stjórnarmenn að fá laun? Hvernig og hvenær komst stjórn að því að eitthvað var í ólagi? Hinn vandinn er sá að byggðasamlagskerfi er óhentugt borginni bæði fjárhagslega og ekki síður stjórnunarlega. Minnihlutinn í borginni hefur engan aðgang þarna að og fær aldrei tækifæri til að hafa nein áhrif.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð öldungaráðs frá 20. janúar 2020  6. lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar skýrslu um heimilisofbeldi og aldraða og vill í því sambandi nota tækifærið og nefna vandamál sem oft er ekki í umræðunni og það er einelti meðal eldri borgara. Borgarfulltrúa hafa borist fregnir frá fólki sem segja að þegar þeir heimsóttu félagsmiðstöðvar í fyrsta skipti, hafi þeir misst löngun til að koma þangað aftur vegna reynslu sem þeir hafa orðið fyrir. Þeir tala um að þeim sé ekki alltaf vel tekið af öllum og eiga þeir þá við aðra gesti en ekki starfsfólk. Því miður er þetta nokkuð víða. Nauðsynlegt er að ákveðnar siðareglur gildi fyrir notendur félagsmiðstöðva, um framkomu, og að þær siðareglur gildi án undantekninga. Á þetta við um framkomu, og að baktal og rógur sé ekki liðinn. Siðareglur og viðeigandi viðbrögð í samræmi við stefnu og verklag borgarinnar sem samþykkt var í mars í fyrra þarf að vera á öllum stöðum þar sem fólk kemur saman. Þeir sem vinna með eldri borgurum eða umgangast þá frá degi til dags þurfa að vera meðvitaðir um að einelti er vandi sem getur skotið upp kollinum hvar sem er og hvenær sem er án tillits til t.d. aldurs. Verði vart við eineltishegðun þarf að grípa inn í fljótt og markvisst.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun við bókun Flokks fólksins:

Stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, ofbeldi og áreitni á vinnustöðum er undirstefna mannauðsstefnu Reykjavíkurborgar og gildir um allt starfsfólk Reykjavíkurborgar en ekki almenna borgara. Almennar samskiptareglur gilda á félagsmiðstöðvum fyrir fullorðið fólk á velferðarsviði eins og annars staðar í samfélaginu og hingað til hefur ekki verið talin ástæða til að búa til sérstakar samræmdar reglur fyrir allar 17 félagsmiðstöðvar velferðarsviðs. Notendur á hverri félagsmiðstöð setja sér sínar samskiptareglur og nefna má að í Borgum, sem er stærsta félagsmiðstöðin með mesta virkni, er reglan „Öllum á að líða vel og að það sé gaman“. Þegar upp koma einstök ágreiningsmál er tekið á málinu með einstaklingsmiðaðri nálgun eða samtali.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins vill bregðast við þessari bókun meirihlutans. Borgarfulltrúi er ekki að nefna þessa hluti til að karpa um stefnur og verkferla heldur mikilvægi þess að á öllum stöðum sem fólk kemur saman á séu siða- og samskiptareglur og að þær séu lifandi reglur. Þá er átt við að rætt sé um góða samskiptahætti við þá sem koma til að njóta þjónustunnar og að rætt sé um að neikvæð hegðun og framkoma sé ekki liðin. Ekki á að gera lítið úr kvörtunum fólks og á hver og einn rétt á sinni upplifun. Engin ákveður upplifun annarra. Finnist einhverjum að hann hafi orðið fyrir ónotum eða dónaskap eða hvað eina þá þarf að vera farvegur fyrir það og slíkur farvegur þarf ekki aðeins að vera skilgreindur heldur einnig gagnsær. Ef fólk veit ekki um slíkan farveg/ferli gagnast hann vissulega ekki mikið.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir skipulags- og umhverfisráðs 29. janúar  21. lið:

Það sætir ekki undrun að áhyggjur séu af því risa glermannvirki sem ætlað er að rísi við Stekkjarbakka. Nú hafa borist kærur þar sem kærð er samþykkt borgarstjórnar frá 19. nóvember 2019 á breytingu á deiliskipulagi fyrir Stekkjarbakka. Flokkur fólksins vill að unnið sé með borgarbúum en ekki gegn þeim í þessu máli sem og öðrum. Íbúakosning stendur fyrir dyrum en hún er aðeins leiðbeinandi. Sú bygging sem hér um ræðir er engin smásmíði. Hún er 9 metra há og 4.500 fm. að flatarmáli. Ekki er komin lausn á mögulegri ljósmengun sem varað hefur verið við af mannvirki sem þessu. Jafnframt kallar staðsetningin á aukin umferðarþunga sem gatnakerfið að svæðinu getur ekki tekið við.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Embættisafgreiðslur

Sjá má afgreiðslu tillagna Flokks fólksins í embættisafgreiðslum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill mótmæla afgreiðslu Heilbrigðiseftirlits og umhverfisráðs á tillögum Flokks fólksins um gæludýr/hundamál í Reykjavík en allar hafa verið felldar eða vísað frá. Í a.m.k. tveimur málum hefur Heilbrigðiseftirlitið þó lagt til að þeim verði vísað til stýrihópsins sem skoða á þessi mál en það hefur umhverfis- og heilbrigðisráð látið sem vind um eyru þjóta og ýmist vísar þeim frá eða fellir þær. Hér er allt að því fornaldarhugsunarháttur þegar kemur að því að færa dýrahald borgarinnar til nútímans. Ýmist er vísað í að þurfi lagabreytingu, eða reglubreytingar, sem þó eiga að vera aðeins leiðbeinandi, og síðast en ekki síst er afsökunin að nú sé stýrihópur að störfum sem skoðar þessi mál. Það er alvarlegt að engin úr hagsmunasamtökum dýra og dýraeigenda sitja í hópnum. Enn og aftur eru samráð við borgarbúa og notendur þjónustu hundsað. Hér má einfaldlega helst engu breyta og reynt er að vinna þessi mál bak við tjöldin. Hvaða skýringar eru á því að Reykjavíkurborg getur ekki haft þessi mál eins og tíðkast í borgum sem við berum okkur saman við? Afturhaldssemi og þröngsýni gætir hjá þeim sem fara með völdin. Það hlýtur að vera skýringin.

 

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð
23. janúar 2020

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að bæta réttindi barna á Íslandi var lögð fram 10. október 2019. Hún var aftur lögð fram 23. janúar og þá frestað.

Tillaga Flokks fólksins um að mannréttindaráð beiti sér með formlegum hætti í að bæta réttindi barna á Íslandi og hafi til hliðsjónar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Til að afmarka þessa tillögu frekar vill fulltrúi Flokks fólksins benda á þann ójöfnuð sem ríkir þegar kemur að greiðslu þátttökugjalda á ýmsum viðburðum sem tengjast skólum borgarinnar. Borgarfulltrúi hefur undir höndum svör frá 36 skólum (fengið frá skóla- og frístundasviði) þar sem spurt var um hver greiðir viðburði og ferðir barnanna sem eru í tengslum við skólann. Niðurstöður eru að skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburði. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar sumarhátíð. Samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Foreldrar með lítið milli handanna geta kannski ekki greitt aðgang að árshátíð, ferðir og sumarhátíð. Ef um systkini er að ræða getur verið óvinnandi vegur fyrir foreldra að greiða sem eru e.t.v. að fá innan við 100 þús. krónur í vasann til að lifa á mánuði eftir leigu. Þessa þætti þarf að samræma og finnst Flokki fólksins að mannréttindaráð eigi að taka þátt í því í samvinnu við aðra sem málið varðar.


Borgarráð

23. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér.

Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt. Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum Sorpu. Í skýrslunni koma fram  ástæður fram­úr­keyrslu sem varð á áætl­uðum fram­kvæmda­kostn­aði vegna bygg­ingar gas- og jarð­gerð­ar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­á­ætlun fyr­ir­tæk­is­ins vegna næstu fjög­urra ára.  Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar gerði jafn­framt úttekt á stjórn­ar­háttum félags­ins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Í kjölfari áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.

Greinargerð

Í skýrslunni eru marg­hátt­aðar athuga­semdir. Á meðal þess sem fram kemur í skýrsl­unni að stýri­hópur eig­enda­vett­vangs og rýni­hópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eft­ir­lit með verk­efn­inu, hafi reynst lítt virk­ir. Þá hafi fram­vindu­skýrslur fram­kvæmda­stjóra til stjórnar vegna bygg­ingar GAJA verið ómark­vissar og stundum með röngum upp­lýs­ing­um, auk þess sem skýrslu­gjöf hefði átt að vera reglu­bundn­ari. Í skýyrslu innri endurskoðunar segir m.a.: „Full­nægj­andi upp­lýs­inga­gjöf og mis­vísandi orða­notkun í skýrslum til stjórnar var sér­stak­lega óheppi­leg þar sem stjórn Sorpu var að meiri­hluta skipuð nýjum full­trúum eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018 auk þess sem nýr for­maður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn.“

Varla er búið að gleyma því að stjórn Sorpu óskaði nýlega eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt var um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Engar haldbærar skýringar voru gefnar fyrir því að það vantaði rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Stjórnarmeðlimur borgarinnar í Sorpu var bara pirruð á minnihlutanum að samþykkja þetta ekki möglunarlaust í borgarstjórn. Meirihlutinn í borginni spurði einskis, gekk bara þegjandi í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í ítrekuðu klúðri Sorpu kristallast þetta. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórnarmaður borgarinnar þarf einnig að vera manneskja sem er laus við meðvirkni og er tilbúin að spyrna við fótum sé eitthvað rugl sýnilega í gangi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að veita Main Course ehf vegna Food og Fun 5 milljóna króna styrk:

Reykjavík vill styrkja Food and Fun til tveggja ára um fimm milljónir. Samkomulag þetta gildir fyrir árin 2020 og 2021 og greiðir Reykjavíkurborg Main Course ehf. 2.500.000 kr. í styrk á ári til að standa straum af kostnaði vegna kynningar hátíðarinnar. Flokkur fólksins heldur að það sé engin þörf á að borgin setji þetta fé í hátíðina þar sem hún mun án efa vera bæði metnaðarfull og glæsileg án þessa framlags borgarinnar. Hátíðina sækja auk þess kannski bara afmarkaðir hópar, efnameira fólk þ.e. þeir sem hafa efni á að fara á þessa veitingastaði. Vel má vera einnig að hátíðin sé að miklu leyti hugsuð til að laða að ferðamenn.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs vegna breytingar sem nær eftir Tryggvagötu frá gatnamótum Grófar og Pósthússtrætis:

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni á að í nýju skipulagi við Tryggvagötu á að þurrka út 40 til 50 bílastæði og með því skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Aðeins er gert ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er bent á bílastæðakjallara sem Reginn rekur. Það hefur ekki verið mikið auglýst. Meirihlutinn neitar að horfast í augu við þá staðreynd að það treysta sér ekki allir í bílastæðakjallara jafnvel þótt þeir séu vel hannaðir. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa frá að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Það er verulega leiðinlegt hvað íslendingar sem koma lengra frá og fatlað fólk er gert erfitt fyrir með aðgengi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þar sem óskað er eftir að heimila útboð vegna mötuneyta:

Fyrir liggur beiðni um útboð vegna endurnýjunar mötuneyta og taka á mið af aðstæðum í skólum. Þetta er hið besta mál enda eru aðstæður í sumum skólum slæmar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi ólík rekstrarform sem eru í gildi í mötuneytum skólanna. Sennilega eru einar 3-4 útfærslur á rekstrarformi/fyrirkomulagi mötuneyta og þar að leiðandi lítið um samræmi. Fram hefur komið í athugunum að matarsóun er víða mikil í skólum. Það er mat Flokks fólksins að skilgreina þurfi þjónustusamninga upp á nýtt og bjóða rekstur skólaeldhúss og mötuneytisreksturs þeirra út. Það mun auka gæði mötuneytisfæðis og líkur eru á að það fyrirkomulag sem verður ofan á verði það sem er hagkvæmast.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að útvíkka starfsemi Afleysingastofu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi hugmynd um Afleysingastofu góð. Einkennilegt er engu að síður hvað há upphæð er áætluð í veikindi og þjálfun afleysingafólks eða samtals 4.5 m.kr. Stærsti hluti upphæðarinnar eru víst þjálfunarkostnaður. Í þessu sambandi hefði maður haldið að eðlilegrar væri að gera verktakasamninga við afleysingafólkið. Vissulega á fólk sinn veikindarétt sé það ráðið sem launþegar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Fulltrúi Flokks fólksins taldi það víst þegar umræðan um Afleysingastofu hófst að afleysingafólk yrði ráðið sem verktakar. Slíkt fyrirkomulag á betur við í þessu tilliti. Hér um að ræða afleysingarfólk sem leysir öllu jafnan af í stuttan tíma og því alls ekkert óeðlilegt við að verktakafyrirkomulagið sé haft þar á. Í verktakasamningi má skilgreina og skýra allt sem skýra þarf í tengslum við starfið. Gera ætti verktakasamninga við afleysingafólkið án milligöngu einhvers fyrirtækis enda myndi slíkur milliliður aðeins flækja málið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að gera jafnréttismat vegna ákvörðunar um styttingu opnunartíma leikskóla:

Það er ámælisvert að enginn fulltrúi foreldra sat í hópnum og enginn fulltrúi foreldra sat á þeim fundi sem ákvörðunin var tekin. Nú skyndilega á að gera jafnréttismat. Hefði ekki verið eðlilegt að byrja á því? Nú er talað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við þá foreldra sem þetta kemur illa við. Hvernig mótvægisaðgerðir eru það. Á að finna millivistun? Er það gott fyrir barn að fara af leikskóla sínum í aðra vistun áður en það kemst heim til sín? Grunnvandinn er mannekla/undirmönnun og þá er gripið til þess ráðs að stytta opnunartíma. Á sama kannski að gilda um dagvistun aldraðra, þar er líka mannekla og álag. Nú var verið að samþykkja að útvíkka Afleysingastofu. Samt er ekki gert ráð fyrir að það fólk geti komið inn nema í langtímaveikindum starfsfólks. Hér var ekki hugsað um afleiðingar fyrir þá foreldra sem eru fastir í vinnu samkvæmt ráðningarsamningi til kl. 16.30. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi. Foreldrar vinna kannski sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og margir sitja einmitt á þessum tíma fastir í umferðarteppum. Í öllu þessu máli finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins einnig vera gert lítið úr foreldrum. Foreldrar þekkja börn sín, líðan þeirra og þarfir og bregðast við þörfum þeirra t.d. ef í ljós kemur að níundi tíminn á leikskóla sé barninu erfiður.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu erindisbréfs starfshóps um viðbrögð við bótakröfum á hendur Reykjavíkurborg:

Starfshópur um meðferð bótakrafna á að taka til starfa. Borgin hefur undanfarin ár þurft að greiða fjárfúlgur í bótakröfur af alls kyns orsökum, sumar tilkomnar vegna brota starfsmanna í starfi eða gagnvart öðrum starfsmönnum. Dæmi hafa komið upp þar sem mætti halda að borgaryfirvöld vilji bara greiða bæturnar og gleyma svo málinu, láta sem ekkert sé og viðkomandi starfsmaður heldur áfram sinni vinnu eins og ekkert hafi í skorist. Þetta hefur í það minnsta stundum verið upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Í tilfellum sem þessum mætti spyrja hvort sá sem skapi bótakröfu á borgina ætti ekki að axla einhverja ábyrgð, hvort ekki ættu að vera einhverjar afleiðingar t.d. að viðkomandi starfsmaður greiðir sjálfur bæturnar, alla vega hluta þeirra. En þessi vinkill er svo sem ekki hluti af verkefnum þessa starfshóps sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar.

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundarráðs við fyrirspurn um sérskólaúrræði fyrir börn í vanda:

Fulltrúi Flokks fólksins veit að í ýmsum skjölum borgarinnar, minnisblöðum og stefnum eru fögur fyrirheit um að laga stöðu barna í borginni sem glíma við vanda og vanlíðan. Enn einn stýrihópurinn er að taka til starfa til að skoða m.a. þessi mál. Vandinn er kannski sá að of mikið er talað og of lítið er framkvæmt. Hvorki skrif né tal um áætlanir og aðgerðir skilar barni bættri líðan og/eða aðstæðum. Staðreyndir tala sínu máli og þær hafa komið fram í viðtölum við foreldra sem segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við skólayfirvöld í borginni. Borgarfulltrúi hefur auk þess rætt við marga foreldra sem segja að börn sín séu í aðstæðum þar sem styrkleiki þeirra fá engan vegin notið sín og þar sem þeim líður illa. Kennarar í þessum tilfellum er settir í ólíðandi aðstæður enda brenna margir hreinlega út. Það mæðir mest á kennurum þegar ótal margir foreldrar spyrja um hvenær barn fái aðstoð sem e.t.v. er búið að bíða eftir sérfræðiþjónustu eða öðru skólaúrræði í á annað ár. Ráðgjafarteymi- og svið Brúarskóla eru sannarlega að bjarga miklu en ná kannski aðeins að sinna alvarlegustu tilfellunum.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um greiðslur til EFLU sem nema á 4. milljarð á 10 árum:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt að borgin hafi greitt á 10 árum tæpa 3.7 milljarðar til eins fyrirtækis, EFLU. Þetta gerir að meðaltal 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga. Fulltrúi Flokks fólksins stóð í þeirri meiningu að í borginni starfi hópur af sérfræðingum sem gætu sinnt eitthvað af þessum verkum sem EFLU er falið að sinna. Er vandamálið það að það skorti sérfræðinga hjá borginni? Ef svarið við því er nei þá læðist að sú hugsun hvort þetta sé merki um slaka og jafnvel vanhæfa stjórnsýslu. Það væri klárlega mun ódýrar að einfaldlega ráða hæfa verkfræðinga til borgarinnar sem sinnt gætu þessum verkum sem keypt er af EFLU eða alla vega stórum hluta þeirra.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn er varðar skilamat vegna framúrkeyrsluverkefna:

Flokkur fólksins vill bóka við svar borgarinnar við fyrirspurn um skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggans, Hlemm, Mathallar og fleiri framúrtökuverkefni. Fram kemur að ekki á að gera skilamöt vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Hvað er verið að fela? Það nægir ekki að vísa einungis til úttekta innri endurskoðunar. Í þessum málum sem voru háalvarleg er mikilvægt að upplýsa um allt sem óskað er eftir að verði upplýst og þar með talið að gera skilamat. Sífellt er talað um að auka gegnsæi og skýrleika en þegar á reynir er því einmitt hafnað. Nú er liðinn talsverður tími síðan braggamálið kom upp og mikilvægt að leggja öll spil á borðið sem tengjast því vandræðamáli og hinum málunum einnig.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarsvið í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að auka notkun endurskinsmerkja þar sem öryggi barna er ábótarvant í umferðinni m.a. vegna umferðaröngþveitis

Flokkur fólksins var nýlega með tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg gefi grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf væri borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Einstaklingur með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr þegar það lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskinsmerki. Tillagan var felld. Flokkur fólksins leggur til í framhaldinu að skóla- og frístundarráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Öryggi barna í umferðinni er víða ábótavant í borginni og kemur m.a. til vegna þess að skipulagsyfirvöld vilja ekki lagfæra umferðaragnúa þar sem þeir eru verstir og skapa mögulega slysahættu. Sem dæmi mætti öryggi með bættari ljósastýringu og fjölgun göngubrúa þar sem þeim verður við komið. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engan vegin verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar umferðar ásamt fjölgun íbúa. Það þolir enga bið að hugað verði að velferð gangandi vegfarenda. Börnin eru í sérstakri hættu, þau sjást verr og skynjun þeirra á umhverfinu ekki fullmótuð. R19110131

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins til stýrihóps sem lagði til að stytta opnunartíma leikskóla og til skóla- og frístundarsviðs m.a. vegna jafnræðismats og vinnu stýrihópins:

Flokkur fólksins sér margar mótsagnir í málflutningi um opnunartíma leikskólanna. Grundvallarvandinn er mannekla og undirmönnum sem meirihlutinn hefur ekki viljað leysa málið. Til að leysa málið þarf að setja fjármagn í málaflokkinn svo hægt sé að ráða fólk. Talað er um álag og að það minnki mikið álag að stytta tímann en samt sagt að aðeins örfá börn séu fyrsta og síðasta hálftímann? Hér slær nokkuð úr og í og eru ekki allir leikskólakennarar á sama máli. Af hverju má ekki nota Afleysingastofu til að dekka þennan tíma? Verið var að samþykkja að víkka út Afleysingastofuna og er því vel hægt að fá afleysingu á dag basis eftir þörfum en ekki að afleysing sé aðeins notuð til að leysa af í veikindum. Sagt að þeir foreldrar sem þetta kemur illa við fái aðlögunartíma, en hvað gerist eftir að sá tími er liðinn? Sumir leikskólar eru með styttri opnunartíma, hvað gera foreldrar þar sem þurfa lengri tíma? Talað er um mótvægisaðgerðir, hvernig eiga þær að vera? Á að finna millivistun fyrir barnið, ætlar félagsþjónustan að reyna að semja við atvinnurekanda fyrir þessa foreldra sem lenda í vanda? R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. vinnu stýrihóps um styttingu opnunartíma leikskóla

Það er mat Flokks fólksins að stýrihópurinn hefur verið leiddur í gildru. Spurt er hvort þeim hafi ekki fundist vanta að heyra rödd foreldra, hafa þá með í ráðum? Gerði hópurinn ekki athugasemdir við það? Treystir meirihlutinn og skóla- og frístund ekki foreldrum til að mæta þörfum barna sinna t.d. ef barni líður illa síðasta klukkutímann? Margir foreldra biðja t.d. ömmur og afa að grípa inn í séu þau til staðar til að sækja barn sem er leitt og þreytt á leikskólanum síðasta klukkutímann? Ætlar meirihlutinn að leysa mannekluvandann og undirmönnun á leikskólum með því að ráðast að rót vandans en rót mannekluvanda eru lág laun í leikskólum? Þetta er allt spurning um launin og starfsmenn leikskóla eru á launum sem ekki er hægt að lifa af enda á leið í verkfall. R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. jafnréttismat:

Gera á jafnréttismat í tengslum við ákvörðun um styttingu opnunartíma leikskólanna. Það er afar mikilvægt í öllum málum þar sem það á við að gera jafnréttismat. Flokkur fólksins hefur áhuga á að fræðast meira um slíkt mat og spyr eftirfarandi: hver verður kostnaður við þetta jafnréttismat? Hefði það ekki átt að vera gert áður en þessi ákvörðun var tekin? Hvernig mun jafnréttismat fara fram? Eftir að jafnréttismati er lokið, hvað á að gera fyrir þá foreldra sem geta alls ekki sótt börn sín á leikskólann fyrr en kl. 17? R20010252.
Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins er varðar skil upplýsinga um niðurstöður skoðunar heilsugæslu til skóla í þeim tilfellum sem niðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að barn muni eiga við lestrar- og lesskilningsvanda:

Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig skilum á upplýsingum um niðurstöður skoðunar heilsugæslu er háttað til skólanna í Reykjavík um börn sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi barna sem munu eiga í erfiðleikum með lestur- og lesskilning. Það er mikilvægt að skólar fái strax þessar upplýsingar, með leyfi foreldra að sjálfsögðu, til að hægt sé að veita börnunum snemmtæka þjónustu. Sé það ekki gert eiga þau á hættu að þróa með sér djúpstæðan vanda í lestri og lesskilningi með tilheyrandi vanlíðan. Eins og allir vita þá er ekki nóg að kunna tæknilega að lesa ef lesskilningur fylgir ekki með. Að þessu þarf sérstaklega að huga að ef í ljós kemur að barn á í vanda með lestur. Þau börn þarf að halda sérstaklega utan um. Spurt er einnig: 1. Fá kennarar tækifæri til að sinna þessum börnum sérstaklega? 2. Fá þessi börn forgang í sérkennslu? 3.Hvernig er árangur mældur? 4. Fá foreldrar verkfæri til þess að styðja við börnin sem metin hafa verið í áhættu af heilsugæslunni á að vera með lesvanda? R20010302

 

Borgarstjórn
21. janúar 2020

Umræða um niðurstöður PISA 2018 og frammistöðu íslenskra nemenda í lesskilningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

Grein lögð til grundvallar málflutningi:

Leshraði á kostnað lesskilnings?

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitin spurning er hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum? Hvað er verið að gera rangt?

Lesfimi/hraði

Lestrarferlið er byggt á mörgum samverkandi þáttum þ.m.t. tungumálinu. Vitað er að ef börn sem byrjuð eru að lesa, þjálfa ekki lestur reglulega er hætta á að þau tapi lestrartækni. Kanna þarf með reglubundnum hætti hvort árangur sé ekki ávallt að batna. Slíkar mælingar þurfa ekki að vera miðstýrðar. Markmiðið er að börn verði læs og skilji,  til að hafa gagn og gaman af lestri.

Nú leggur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mikla áherslu á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Frá því í september 2017 hefur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mælt með að skólar mæli leshraða hjá börnum í 1. til 10. bekk. Rökin eru þau að nemendur með góðan leshraða hafi yfirleitt góðan lesskilning. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt því árangur á hraðlestrarprófi segir ekkert til um lesskilning einstaklings. Niðurstöður sýna aðeins hversu hratt lesandinn getur bunað út orðum. Leshraði er til lítils ef barn skilur ekki efnið sem það les. Barnið sem ekki skilur efnið er verr sett en barn sem les hægt en hefur ágætan lesskilning. Hjá stofnuninni (MMS) var einnig byrjað að vinna lesskilningspróf en þeirri vinnu var víst aldrei lokið.

Lesskilningur

Lesskilningur byggir á samspili fjölda ólíkra vitsmunaþátta og er samtengdur tungumálinu. En það gefur augaleið að til að skilja lesefni þarf að geta lesið það. Fyrst er því að ná tökum á umskráningu. Umskráning er færni til að breyta bókstöfum orða í viðeigandi málhljóð og tengja þau saman til að mynda orð. Án umskráningar verður enginn lestur. Ekki ber öllum saman um hvenær nákvæmlega í lestrarferlinu sé best að leggja áherslu á lesskilning. Einhverjir tala um að lesskilningur sé  lokatakmark þess sem les sem er afar sérkennilegt. Lesskilningur er auðvitað ekkert lokatakmark heldur má segja að lesskilningur hefjist um leið og barnið fæðist enda byggir hann á tungumálinu.

Eins mikið og búið er að rannsaka lestur finnast ekki margar rannsóknir á  undirstöðuþáttum lesskilnings og hvaða þættir vega þar þyngst. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki  eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Í það minnsta er ekki verið að semja lesskilningspróf um þessar mundir að vitað sé.  Því má spyrja hvort áherslan sé meira á mæla lesfimi á kostnað áherslu og mælinga á lesskilningi? Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur „bara komi“ hjá börnum þegar þau ná auknum hraða.

Hraðlestrarpróf valda sumum börnum kvíða og álagi

Menntamálastofnun hefur sett ákveðin lesfimiviðmið sem sýna  fjölda rétt les­inna orða á mín­útu. Ung­ling­ur sem hef­ur lokið 10. bekk hef­ur farið í gegn­um 30 mæl­ing­ar á les­hraða á 10 ára skóla­göngu. Spyrja má hvaða áhrif slík­ar end­ur­tekn­ar mæl­ing­ar hafi á lestraráhuga. Enda þótt lesefnisviðmiðin séu e.t.v. almennt ekki ósanngjörn eru þau of há fyrir mjög mörg börn. Í hópi barna er lestrarfærni þeirra mismikil. Sum börn ná einfaldlega ekki miklum hraða í lestri og ná ekki hraðaviðmiðunum Menntamálastofnunar. Vandamál með lestur geta átt rætur að rekja til ótal þátta þ.m.t. undirliggjandi leshömlunar eða annarra frávika.

Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða íhlutun/þjónustu þar sem þess er þörf. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau  ekki að bæta sig frekar.

Eggið eða hænan

Hægt er að vera sammála um að til að læra að lesa þarf þjálfun og til að lestur gagnist þarf skilning. Reynsla mín af þessum málum er að það verður að byrja að þjálfa lesskilning um leið og umskráningartækni er náð án tillits til hraða eða lestrarlags. Því fyrr sem barnið skilur lesefnið því meiri áhuga hefur það á lestri og mun lesa meira sem eykur enn frekar hraða og skilning. Barn finnur síðan þann hraða sem passar fyrir það.  Þegar barn byrjar að læra að lesa þarf að hefja tengingu við skilning. Lesi barnið orðið sól þá þarf að spyrja: hvaða orð varstu að lesa og hvað merkir það? Og svona gengur þetta koll af kolli. Barn hljóðar sig í gegnum orð og setningar og athygli þess er strax beint að inntaki textans.

Hvað skiptir máli þegar upp er staðið?

Hvað þarf að gera til að auka lesskilning íslenskra barna? Svarið er að leggja meiri áherslu á lesskilning og að Menntamálastofnun vinni lesskilningspróf. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er óásættanlegt ekki síst vegna þess að á Íslandi getum við státað okkur af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni eins og Leið til Læsis með tilheyrandi skimunarprófum. Það gæti hins vegar verið vöntun á enn frekara kennsluefni með mismunandi erfiðleikastig. En ráðandi öfl eru einfaldlega ekki á réttri leið. Auðvitað má velta fyrir sér hvort hlustað sé á rétta fólkið?

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins
Greinin var birt í Fréttablaðinu 17. janúar 2020

Umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokks, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins):

Bókun Flokks fólksins við umræðu um niðurstöður PISA:

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkv. niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega. Í nýrri menntastefnu til 2030 eru lausnir á þessum vanda ekki ávarpaðar. Augsýnilega hefur eitthvað brugðist í les- og lesskilningsstefnu og framkvæmdum í því sambandi hjá ríki og borg. Skóla- og frístundarsvið veit að lesskilningur er ekki ófrávíkjanlegt framhald af leshraða. Í hópi barna er lestrarfærni mismikil. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða þjónustu við börn sem þess þurfa. Mæla þarf árangur með reglulegum hætti. Samvinna skólasviðsins við heilsugæslu liggur ekki fyrir. Leggja þarf meiri áherslu á lesskilning og slaka á með áherslu á hraða og í því sambandi þarf skólasvið borgarinnar að leggja skýrar línur. Þjálfun er vissulega forsenda alls þessa en hvert barn finnur sér sinn hraða. Veita þarf kennurum svigrúm, sveigjanleika og næði til að nýta það efni sem þó er til og fylgja nemendum sínum eftir.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokks um fallið verði frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla og opnunartími settur í hendur leikskólanna sjálfra:

Tillaga Sjálfstæðismanna um að opnunartími leikskólanna verði á ábyrgð leikskólann með þarfir foreldra í huga er erfið í framkvæmd. Flokkur fólksins sat því hjá við málsmeðferðartillögu meirihlutans um frávísun. Flokkur fólksins var með breytingartillögu þess efnis að fresta skuli ákvörðun sem þessari og nota tímann til að leysa mannekluvandann með því að bjóða starfsmönnum betri kjör. Aðstæður eru ólíkar hjá foreldrum og hætta á mismunun nema öllum standi til boða sami opnunartíminn. Rót vandans er mannekla vegna þess að launin eru lág og álagið mikið. Væri launin hækkuð og störfin t.d. vaktaskipt myndi álagið minnka. Fleiri myndu sækja um og mannekluvandi væri úr sögunni. Þá fyrst gætu leikskólar sinnt sínu hlutverki í þágu barna og foreldra og hagað mönnun þess vegna þannig að opnunartími haldist eins þrátt fyrir styttingu á vinnuviku, t.d. með því að hluti starfsmanna mætti fyrr og hætti snemma og hluti mæti seint og hætti við lokun. Eins og breytingartillaga Flokks fólksins fjallar um þá er leiðin ekki að setja þetta á herðar leikskólanna heldur fresta ákvörðun sem þessari þar til stytting vinnuviku liggur fyrir. Nota á tímann til að vinna í launamálum, vaktamálum og gera störf leikskóla enn meira aðlaðandi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingartillögu sem miðast að því að fresta ákvörðun skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör:

Að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fresta ákvörðun um skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör. Vitað er að það eru hagsmunir barna og foreldra að vera sem mest saman. Hópur foreldra, ekki síst einstæðra, munu lenda í vandræðum þegar opnunartími leikskólanna styttist um hálftíma. Ekki allir geta unnið vinnu sína með sveigjanlegum hætti. Líkur eru því að með þessari ákvörðun munu einhverjar foreldrar missa vinnu sína eða lækka í launum. Ekki dugar að setja ábyrgðina um sveigjanleika á herðar leikskólanna eins og Sjálfstæðisflokkur leggur til heldur þarf borgin fyrst að vinna þessa tillögu í samvinnu við atvinnulífið t.d. samhliða ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar. Rót vanda leikskólanna er mannekla og rót mannekluvandans eru kjör leikskólakennara. Lítið pláss og mannekla einkennir leikskóla og það hefur neikvæð áhrif á börn og starfsfólk. Það ætti að vera áherslan að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei til staðar í leikskólastarfi. Þetta þarf að vinnast í frekari sátt við foreldra. Safna þarf meiri gögnum og vinna undirbúningsvinnuna betur. Ríkuleg gæðasamvera barna og foreldra er mikilvæg en það þýðir ekki að fjarvera barns frá foreldrum sé slæm. R20010279

Breytingatillagan kom ekki til afgreiðslu þar sem málsmeðferðartillaga meirihlutans var að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins frá.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um styttingu opnunartíma leikskóla að beiðni allra flokka í minnihluta:

Er meirihlutinn að guggna á þessari ákvörðun sinni? Það væri óskandi enda ákvörðun sem tekin er undir fölsku flaggi. Börnunum og samverustund þeirra með foreldrum sínum er beitt til að fela vangetu og skort á vilja meirihlutans að leysa mannekluvanda leikskólanna. Meirihlutinn vill ekki fjármagna bætt laun og aðstæður leikskólakennara. Foreldrana átti bara að hunsa. Svona breyting þarf að vera tekin í takt við atvinnulífið og umræðuna um styttingu vinnuvikunnar sem nú er eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir. Rökin fyrir ákvörðunni er sett í tilfinningalegan búning, hvað sé barninu fyrir bestu. Um það er einfaldlega enginn ágreiningur. Sjái foreldrið að 9 tímar eru erfiðir barninu bregðast margir foreldrar við því með því að sækja það fyrr alltaf þegar þau geta. Skóla- og frístundarráð á ekki að ala upp foreldra. Aðstæður foreldra eru mismunandi. Þess vegna er rúmt val nauðsynleg. Þessar kerfisbreytingar munu leiða til aukins ójafnvægis og álags ekki síst hjá einstæðum foreldrum sem þurfa að leita annarra leiða ef daglegur vinnutími fellur ekki nákvæmlega að opnunartíma leikskólans.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar:

Þétting byggðar er aðaláhersla meirihlutans í miðju umferðaröngþveiti miðbæjarins. Er ekki nær að byrja á umferðarmálunum áður en byggð eru síldartunnuhverfi, hverfi sem fólk kemst varla inn eða út úr. Fólk lokast af á sama bletti, kemst orðið illa inn og út úr miðbænum því ekki eru allir svo heppnir að vinna við hliðina á heimili sínu. Fólk hefur ólíkar þarfir og væntingar. Enn eru þeir til sem ala þá von í brjósti að fá lóð til að byggja sitt eigið hús. Er það liðin tíð? Einnig er ómögulegt að fá iðnaðarhúsnæði í Reykjavík annars staðar en á Esjumelum. Í dag er ekki til húsnæði fyrir alla. Síðastliðinn október voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarými á höfuðborgarsvæðinu, 560 bíða eftir hvíldarinnlögn. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða enn 162. Aðeins er um 99 rými að ræða við Sléttuveg fyrir eldri borgara og á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar bara ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými rétt taka biðlistann sem nú er. Sama gildir um húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða yfir 160 manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins um helminginn af því sem þarf.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum:

Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engann vegin verið tekið tillit til þeirra auknu umferðar á öllum sviðum ásamt fjölgun íbúa. Meirihlutinn sýnir í þessum málum fullmikinn hroka. Flokkur fólksins leggur til að stórátak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum. Hjá því verður ekki litið að bifreiðafloti borgarbúa hefur aukist til muna og hjólreiðar að sama skapi. Meirihluti borgarinnar hefur ekki séð neina ástæðu til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda með því að bæta umferðarmannvirki um helstu þveranir stærstu umferðaræða borgarinnar. Enn fremur eykur það slysahættu og mengun í borginni að meirihlutinn vill ekki greiða fyrir umferðinni með bættri ljósastýringu á helstu umferðartoppum. Það þolir enga bið að hugað sé að velferð gangandi vegfarenda. Þar á meðal eru sérhvern dag fjöldi barna og eldri borgara. Er það raunverulega stefna meirihlutans í borginni að hunsa þennan vanda sem og hunsa jafnan rétt fólks til að komast á milli staða af öryggi og án óþarfa tafa?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósialistaflokksins um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfis:

Flokkur fólksins styður tillögu um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfisins. Það er mikilvægt að vita um mögulegar hættur. Könnun sem þessi gæti varpað ljósi á hagnað útgerðar og hvert arðurinn fer? Það þarf ekki alltaf að bíða eftir að teikn séu á lofti heldur þarf að vera alltaf á tánum og vel vakandi þegar mikið er undir eins og í þessum málum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðum borgarráðs þ.m.t. ábyrgð á lántöku Félagsbústaða:

Meirihlutanum í borginni finnst ekkert tiltökumál að fljúga til útlanda á kostnað borgarbúa. Dæmi eru um að hópur embættismanna og borgarfulltrúa allt frá sama ráði/sviði og jafnvel að forseti borgarráðs og formaður úr öðru ráði skelli sér með til gamans í margra daga skoðunarferð. Hvernig væri að fara að sýna samfélagslega ábyrgð og það að þessu sinni í verki? Sambærileg tillaga liggur fyrir þinginu og býður fjármálaskrifstofa þingsins þingmönnum aðstoð sína við kolefnisjöfnuð. Kostnaður við kolefnisjöfnuð nemur um 1000 krónur per ferð. Auðvitað eiga borgarfulltrúar að greiða þetta úr eigin vasa og sýna með því viðhorf sitt í verki til mikilvægis umhverfisverndar. Ekki hefur heyrst í einum einasta þingmanni kvarta. Með þessari lántöku eru skuldir Félagsbústaða komnar í 44.5 ma.kr. Árum saman var trassað að kaupa íbúðir og lengi voru um 1000 fjölskyldur á biðlista. Á sama tíma og lítið var keypt var íbúðum heldur ekki haldið við nema til bráðabirgðar. Nú er sannarlega keypt og hefur biðlistinn eitthvað styst en leigan hefur hins vegar hækkað. En er viðhald ábótavant og kvörtunum vegna heilsuspillandi húsnæðis hefur ekki fækkað. Stjórn Félagsbústaða og velferðarsvið verður að fara að horfast í augu við ímyndavanda fyrirtækisins og almennt séð taka betur utan um leigjendahópinn.

Bókun Flokks fólksins við ýmsa liði hinna ýmsu fundargerða sem lagðar eru fram í borgarstjórn:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. desember, 19. lið fundargerðar skipulags og samgönguráðs frá 11. desember og 16. lið frá 15. janúar og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 14. janúar:

Tillaga um endurskinsmerki felld. Flokkur fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að leita leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Flokkur fólksins fagnar stýrihópi um frístundarkort sem vonandi tekur á agnúum kortsins þannig að það fái aftur sinn upphaflega tilgang en sé ekki notað sem gjaldmiðill fyrir pláss eða skuld við frístundaheimili. Af hverju skyldu skipulagsyfirvöld ekki vilja bæta ljósastýringu og auka flæði umferðar? Hér er um öryggi allra borgarbúa að ræða auk þess sem stórlega myndi draga úr mengun. Ljósastýring er víða í borginni í miklum ólestri. Er aðgerðarleysið af ásetningi, til að fæla þá frá sem hyggjast koma akandi í bæinn? Sú tillaga sem hér um ræðir var unnin í samvinnu við framkvæmdastjórn Kolaportsins sem saknar íslendinga sem fjölmenntu áður í Kolaportið. Hugsunin með tillögunni var að laða að fólk sem öllu jafna treystir sér ekki til að fara með bíl sinn í bílastæðahús og fá þá e.t.v. leiðsögn um greiðslukerfið. Rök skipulagsyfirvalda gegn tillögunni eru að bílastæðasjóður yrði fyrir tekjutapi. Halda þau virkilega að með því að samþykkja þessa tillögu myndu eldri borgarar fjölmenna í bæinn um helgar í slíkum mæli að rekstrargrundvelli bílastæðasjóðs væri ógnað?

Forsætisnefnd
17. janúar 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda viðburða, sbr. 11. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019:

Spurt var hvort það væri rétt mat að móttökum hafi fækkað. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir að Flokkur fólksins hóf að gera ítrekaðar athugasemdir og spyrja áleitinna spurninga er varða kostnað í tengslum við viðburði á vegum borgarinnar var þess vænst að farið yrði í að kafa ofan í fjölda viðburða sér í lagi þeirra sem kostnaður fylgir. Í umsögn má sjá að móttökum hefur fækkað um 9 frá 2018 ef sama tímabil er borið saman 2019. Lengi hefur verið bruðlað á allt of mörgum sviðum í borginni enda þótt eitthvað minna sé um eyðslu og sóun síðustu ár, ef borið er saman við árin fyrir hrun.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu meirihlutans á tillög um lækkun kostnaðar við útsendingu af fundum borgarstjórnar , sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019. Einnig lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2020. Samþykkt að vísa tillögunni frá:

Flokkur fólksins fagnar því að loksins eigi að leita tilboða í tæknilega þjónustu við opna fundi borgarstjórnar. Tillögu Flokks fólksins er vísað frá á þeim rökum að nú þegar hefur verið ákveðið að bjóða þjónustuna út og útboð stendur yfir. Á það skal minnst að 14. júní sl. lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurnir og tillögu um að leita leiða til að draga úr kostnaði á tækni- og upptökum m.a. vegna opinna funda borgarstjóra. Víst má telja að í kjölfar þeirrar vinnu hafi borgarstjóri og hans fólk talið sig knúin til að skoða þessi mál fyrir alvöru. Í bókun meirihlutans frá 14. júní við tillögu Flokks fólksins, sem var felld segir „að ávallt sé reynt að halda kostnaði vegna opinna funda og funda borgarstjóra í lágmarki. Flokkur fólksins bendir á að á þessu svari fyrir ári var greinilega ekkert í gangi með að lækka þennan kostnað og stóð ekki til að gera. Enda þótt þessi tillaga Flokks fólksins sé einnig felld nú er augljós tenging milli fyrri tillögu 2019 og að nú skuli loks eiga að leita tilboða. Vinna Flokks fólksins er vonandi að skila sér eitthvað þótt flest mál hans séu ýmist felld eða vísað frá.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu yfirlits yfir opinberar móttökur:

Í mars 2019 lagði Flokkur fólksins fram bókun þess efnis að ávallt komi fram í yfirliti sundurliðaður kostnaður við móttökur og að fram komi hver (hverjir) óskuðu eftir að móttakan færi fram og í hvaða tilgangi. Í yfirliti sem nú er birt kemur fram hvaða móttaka um er að ræða, hvar og hvenær og tengiliður hennar, sem væntanlega er þá sá sem biður um móttökuna? Tíu móttökur eru samþykktar og tveimur synjað. Kostnaður kemur fram en ekki sundurliðaður. Hvað varðar fjórar móttökur sem allar eru afstaðnar er aðeins birtur áætlaður kostnaður. Tvær af 10 móttökum kostuðu yfir 800.000. Flokki fólksins finnst þetta mikill peningur og vill enn og aftur gera kröfu um að fá að sjá allan kostnað sundurliðaðan.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Hverjir sóttu kvöldverð sem útsvarsgreiðendur greiddu fyrir rúma hálfa milljón þann 1. nóvember sl. í Höfða í tilefni af samgöngusáttmála? Hver tók ákvörðun um þessa móttöku? Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu forsætisnefndar að almenningur geti leigt út herbergin Turn og Tjarnarbúð fyrir athafnir á borð við hjónavígslur á föstum tímum 2-3 svar í viku:

Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að allir borgarbúar eiga Ráðhúsið og hvað varðar umræðu um aðstöðu vegna athafnar-, trúar- og lífsskoðunarfélaga í Ráðhúsinu er mikilvægt að fólk fái rúmt val um hvar í húsinu athöfnin sjálf fer fram. Borgarstjórnarsalurinn á að vera meðal möguleika enda gætu margir viljað velja hann. Enda þótt athöfn fari fram í borgarstjórnarsalnum er engin þörf á að tæma hann sem er eðli málsins samkvæmt mjög erfitt. Einhverjir gætu engu að síður viljað velja þann sal fyrir athöfn sem þessa.

Borgarráð
15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana:

Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfallt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda. R20010132

Vísað til umhverfis- og heilbrigðissviðs

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Í svari má sjá að þetta er svipað milli ára. Ekki er hjá því litið að þetta eru mikil veikindi. Einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni velti því aldrei fyrir sér hvort margir séu undir ómanneskjulegu álagi og ekki þarf að hafa mörg orð um launin sem eru þessleg í mörgum störfum að ekki er hægt að lifa af þeim. Langtímaálag er víst til að veikja ónæmiskerfið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gæta varna í svarinu með því að segja „að athuga þarf að ofangreindar hlutfallstölur tilgreina hlutfall starfsfólks í langtímaveikindum af heildar fjölda starfsmanna“. Þetta breytir því ekki að einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá einhverja hugmynd um hvort þarna að baki kunni að vera eitthvað sem rekja má til vinnuaðstæðna og vinnumenningar og sem vinnustaðurinn geti þá lagað til að starfsmenn eigi bestu möguleika á að halda heilsu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að samþykkja erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga:

Borgarstjóri og meirihlutinn brýtur odd af oflæti sínu og samþykkir erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Hér er um matskennda ákvörðun að ræða sem sveitarstjórn hefur í höndum sér að ákveða samkv. 3 gr. þar sem segir að “sveitarstjórn skal innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið”. Reykjavíkurborg hefði því getað synjað beiðninni og látið slag standa hvort kærur bærust sem í þessu máli hefðu klárlega borist. Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál enda ákvörðun sem snertir marga. Kannski skipti það máli að þessi ákvörðun var tekin að umboðsmaður borgarbúa bættist í hóp þeirra í minnihlutanum sem reyndu að koma vitinu fyrir þennan meirihluta. Umboðsmaðurinn sendi frá sér tilmæli um að ekki yrðu keyrðar áfram framkvæmdir í óþökk íbúa. Eins og vitað er hefur hvert málið rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af meirihlutanum í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Félagsbústaða, dags 5. desember 2019 þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurbor veiti einfalda ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða:

Aftur er verið að biðja um að Reykjavíkurborg veiti ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða að þessu sinni fyrir 3.500 m.kr. Á þetta að ganga svona áfram? Segir í erindi að óskað er eftir að eigandinn sem er Reykjavíkurborg veiti ábyrgð til tryggingar á endurgreiðslu bréfanna vegna útgáfu á árinu 2020. Þetta er sum sé í þriðja sinn sem farið er fram á slíka ábyrgð sem þessa. Með þessari lántöku fara skuldir frá 41. ma.kr upp í 44.5 ma.kr. Þótt eitt og annað hafi batnað hjá fyrirtækinu eftir að farið var að veita meira aðhald m.a. af hálfu Flokks fólksins þá er ímyndarvandi enn mikill og varla líður sá dagur að ekki berast kvartanir frá leigjendum. Sami vandi er með ástand eigna. Leigjendur segja að seint og um síðir koma viðgerðarmenn og oft aðeins plástra þann vanda sem kvartað er yfir. Fólk er enn að láta vita af veikindum vegna myglu. Félagsbústaðir kaupa eignir eins og enginn sé morgundagurinn en geta að sama skapi ekki sinnt viðhaldi né halda þau nægjanlega vel utan um leigjendurnar sem er afar viðkvæmur hópur. Meirihlutinn í borginni þarf að taka á málum Félagsbústaða í heild sinni. Leigan hækkar einnig reglulega.

 

Velferðarráð
15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva.

Flokkur fólksins leggur til að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Mörg dæmi, m.a. nú um jól og áramót, koma upp utan opnunartíma þjónustumiðstöðva sem leigjendur vita ekki hvernig bregðast á við. Hér getur verið um erfið tilvik í stigagöngum, erjur milli leigjenda og jafnvel alvarlegar uppákomur sem tengjast einum eða fleiri leigjendum. Um er að ræða stigaganga/hús þar sem Félagsbústaðir eiga íbúðir að stórum hluta eða öllu leyti. Sambærilegar kringumstæður komu upp um síðustu jól. Í þessum aðstæðum sem eiga sér stað utan hefðbundins opnunartíma eiga leigjendur enga möguleika á að fá aðstoð. Það dugar ekki að segja við fólk að það verði bara að bíða þar til þjónustumiðstöð opni. Sum þessara mála eru að koma upp ítrekað og sem þjónustumiðstöð hefur ekki getað leyst jafnvel þótt hún hafi unnið að því. Stundum eru aðstæður þannig að mál þola ekki neina bið og því ekki viðeigandi að segja viðkomandi að leita til síns ráðgjafa þegar stofnun opnar næst. Ef mörg vandamál koma upp af því tagi sem hér er vísað í er alveg ljóst að verkferlar, virka ekki sem skyldi. Eitthvað annað þarf því að koma til.

Greinargerð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum málum og finnst sem meirihlutinn í borginni sé ekki að taka þau nógu alvarlega. Finna þarf nýjar leiðir til að mæta vanda af þessu tagi. Vissulega mun það kosta aukafjármagn nema hægt sé að hagræða og skipuleggja með þeim hætti að sparnaður hljótist af án þess að skerða skilvirkni og þjónustu. Hér er um að ræða tillögu um teymi e.t.v. þriggja aðila sem taka það að sér að svara kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Gert er ráð fyrir að teymið mæti á staðinn og reyni að milda aðstæður, róa aðila, ræða við leigjendur eða annað sem þarf að gera eftir því hvernig málum er háttað. Þurfi aðstoð lögreglu muni umrætt teymi hafa milligöngu um það ef óskað er. Eins og staðan er í dag geta leigjendur hvergi leitað ráðgjafar eða stuðnings ef upp koma mál sem varða aðra leigjendur og þurfa þeir þá að bíða jafnvel dögum saman eins og um hátíðir við óviðunandi aðstæður þar til þjónustumiðstöð opnar. Allur gangur er þá á hvort þeir þá fái lausn mála sinna yfir höfuð. Í mörgum tilfellum myndi nægja að veita ráðgjöf og róa leigjendur t.d. ef hræðsla hefur gripið um sig. Í sumum tilfellum þarf að ganga lengra. Flokkur Fólksins telur að þetta sé eitt af þeim hlutverkum sem rekstraraðili leiguhúsnæðis eins og Félagsbústaðir þurfa að sinna. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit.

Fyrirspurn Flokks fólksins  um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðarsviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna samþykkis að vísa drögum að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra í umsögn  helstu hagsmunaaðila og fulltrúum notenda:

Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði samþykkir að drög að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra fari í umsögn. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á að jafnræði verði ávallt haft að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að boðið verði upp á sem mesta valið í þessu sambandi. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir enda ekki stjórnavalda að segja til hvernig lífsstíll annarra á að vera. Muna þarf að enginn ákveður upplifun annarra eða getur sagt til hvað öðrum hentar.

Bókun Flokks fólksins ram umsókn um styrk úr jöfnunarsjóði til að gera könnun á framlagi sjóðsins til Reykjavíkurborgar til málaflokks fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að vekja athygli á því hve lítið Reykvíkingar fá úr sjóðnum miðað við framlög. Sjóðurinn var í rauninni stofnaður til þess að nýta stærðarhagkvæmni höfuðborgarsvæðisins til að greiða niður þjónustu á svæðum þar sem smæð samfélaga leiðir til minni tekna + dýrari þjónustu. Það er náttúrulega gagnrýnisvert hversu oft hefur verið staðið illa að framkvæmd sjóðsins og reglugerðum og lagagrundvelli að baki honum, en flest dómsmálin hafa snúið að því að sjóðurinn væri ekki að greiða nógu mikið til smærri sveitarfélaga. Í rauninni þyrfti að breyta lögunum til að jafna hlut Reykjavíkur. Reykjavík getur náttúrulega ályktað að sjóðurinn styðji ekki nóg höfuðborgina og að það þurfi að breyta lögum til.

 

Skipulags- og samgönguráð
15. janúar 2020

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu Flokks fólksins um flutning biðstöðvar Strætó bs. frá Hagatorgi til Birkimels
Vísað að frá með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúa sjálfstæðisflokksins sitja hjá

Hringtorg eru hönnuð fyrir umferð í borgum þá aðallega í tvennum tilgangi, til að minnka slysahættu og til að greiða fyrir umferð. Vel hönnuð hringtorg eru oft borgarprýði, það má sjá í mörgum evrópskum borgum, stolt margra borga. Það má með sanni segja að Hagatorg sé borgarprýði og er eitt af glæsilegustu hringtorgum borgarinnar, m.a. standa við torgið merkar og fallegar byggingar. Að staðsetja stoppistöð strætó inn á mitt torgið og hraðahindranir er ótrúlegur misskilningur hjá öllum þeim sem að verkefninu hafa komið. Til viðbótar skapar staðsetning á stoppistöð inni í miðju hringtorgi auka slysahættu og hindrar flæði umferðar um það sem einmitt var tilgangur hönnunar þess, þ.e. hringtogsins.

Bókun Flokks fólksins (lögð fram í borgarráði 16.1) við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar, n.t.t.. frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 00:00 aðfararnótt mánudags:

Meirihlutinn í skipulagsráði hefur fellt tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum um helgar. Rökin eru að tillagan kalli á tekjutap bílastæðasjóðs. Hér má benda á að bærinn hefur tæmst af Íslendingum og þ.m.t. eldri borgurum. Þeim finnst aðgengi flókið, erfitt að fá stæði og eiga erfitt með að átta sig á nýjum stöðumælum. Það er sorglegt að sjá hvernig miðbærinn er orðinn að draugabæ nema á tyllidögum. Kannski fáeinir eldri borgarar hefðu nýtt sér frí stæði í bílastæðahús bæjarins hefði þessi tillaga orðið að veruleika og því enginn ástæða fyrir meirihlutann að óttast að bílastæðasjóður beri stóran skaða af þótt þessi tillaga hefði verið samþykkt.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun vegna málsins í borgarráði:

Miðborgin hefur aldrei verið eins lifandi og nú. Fjöldi verslana og þjónustu hefur aldrei verið eins mikill og viðskipti blómstra sem aldrei fyrr. Áherslur meirihlutans á gott aðgengi gangandi og hjólandi að miðborginni bera árangur en rannsóknir sýna að slíkar aðgerðir draga að meiri verslun og meiri viðskipti. Mikill fjöldi eldri borgara býr í miðborginni og komast þeir leiðar sinnar með ýmsum hætti. Bílastæðahúsin í borginni eru fjölmörg og bílastæðagjöld eru hófleg. Eldri borgarar sem vilja koma í miðborgina geta gert það með því að leggja í bílastæðahúsin, taka strætó eða ganga – allt eftir aðstæðum viðkomandi. Sjálfsagt er að leita leiða til að auka nýtingu í bílastæðahúsum en ekki er hægt að styðja tillögu um að gefa fólki ókeypis aðgang að bílastæðum, óháð staðsetningu stæðanna eða aldri vegfarenda. Hópurinn sem hér um ræðir er þó nokkuð stór og myndi tillagan líklega kalla á umtalsvert tekjutap bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Í þessari bókun meirihlutans gegn bókun Flokks fólksins um að eldri borgurum verði boðið að leggja frítt í fáeina klukkutíma um helgar í ákveðnu bílastæðahúsi í miðbænum er aftur komið inn á meint fjárhagstjón bílastæðasjóðs ef þessi tillaga yrði að veruleika. Áhyggjur meirihlutans ganga allar út á krónu og aura en snúa að engu leiti að eldri borgurum í þessu sambandi. Væri ekki nær ef meirihlutinn er svona upptekinn af miklum skaða bílastæðahúss í þessu sambandi að reyna að minnka yfirbyggingu bílastæðasjóðs, skipuleggja starfsemina þar kannski með öðrum hætti eða reyna að finna leiðir til að hagræða? Þessi tillaga er hugsuð sem hvati til að fá þennan hóp í bæinn, en eldri borgarar hafa mikið til yfirgefið þetta svæði og það ekki af ástæðulausu. Sjá hefði mátt fyrir sér að vel yrði tekið á móti þessum hópi og að hann fengi kannski kynningu á bílastæðahúsinu og þar með greiðslukerfi þess. Það er óþarfa hræðsla hjá meirihlutanum að halda að eldri borgarar kæmu í slíku fjölmenni þessar fáu klukkustundir um helgar að rekstrargrundvöllur bílastæðahússins sem um ræddi væri kannski bara brostinn.

Bókun  Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar úr eigin vasa:

Tillaga um kolefnisjöfnuð úr eigin vasa hefur verið vísað frá af meirihlutanum í skipulags- og samgönguráði á þeim rökum að fagráð setji ekki reglur um hvernig fólk ráðstafi launum sínum. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutanum finnist borgarfulltrúar merkilegri en alþingismenn? Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á þingi af forseta Alþingis. Meirihlutinn ferðast á kostnað borgarbúa á sama tíma og hann kvartar yfir mengun frá bílum. Það er ekki nóg að setjast á hjólið og telja sig þá vera búinn að leggja sitt af mörkun til umhverfismála.

Bókun meirihlutans:
Ekki gengur að borgarstjórn eða fagráð borgarinnar setji reglur um það hvernig fólk eigi að ráðstafa launum sínum, sama hvert fólkið er eða sama hve göfugur tilgangur útgjaldanna kunni að vera.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulagi Tryggvagötu

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni að í nýju skipulagi við Tryggvagötu þar sem öll bílastæði verð þurrkuð út og þannig skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Einnig mun það gera vissri starfsemi Listasafn Reykjavíkur erfiðar um vik, þá sérstaklega þeirra listamanna og annarra sem koma að og sinna starfsemi þeirrar stofnunnar. Smátt og smátt virðist stefna meirihlutans að þurrka út einkabílinn í miðborg Reykjavíkur og stæðum fyrir þá, en felur svo einkaaðilum að starfrækja bílastæðageymslur sem staðsettar eru á svæðinu. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.

Fyrirspurn Flokk fólksins um ný umferðalög um aðgengi um göngugötur þess efnis að veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang sama aðgengi og fötluðum er veitt í nýjum umferðarlögum

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi varðandi aðgengi fatlaðra um göngugötur sb. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní. Þar segir m.a. að borgaryfirvöldum ber að veita fötluðu fólki aðgengi svo það get sótt í þá þjónustu sem veitt er í göngugötum. Flokkur fólksins spyr hvort borgaryfirvöld vilji ganga enn þá lengra en lagasetningin segir til og veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang og hreyfingar sama aðgengi og fötluðum er veitt í þessum lögum. Frestað

 

9. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald:

Flokkur fólksins leggur til að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald. Ekki fást upplýsingar frá borginni um hvað margir eru eldri borgarar sem eru skráðir hundaeigendur í Reykjavík. Sagt var að tölvukerfið byði ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri eða stöðu þeirra í samfélaginu. Þessi tillaga hefur það markmið að auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að halda hund og á sama tíma hvetja þá sem gælt hafa við möguleikann að eiga hund til að fá sér hund. Árlegt eftirlitsgjald er 19.850 kr. Afsláttur er veittur hafi eigandi sótt hundahlýðninámskeið og er upphæðin þá 9.925 kr. Skráning eftir að frestur er útrunninn er 31.700 kr. Skráningargjald er 20.800. Þetta eru umtalsverðar upphæðir þegar annar kostnaður við að halda hund er talinn með, fóður, dýralæknisgjöld o.fl. Flokkur fólksins leggur til að hundaeigendur sem eru eldri borgarar og hundaeigendur sem eru öryrkjar verði leystir undan því að greiða árlegt hundagjald vegna hundsins síns. Það er sérstakt að á Íslandi þurfi fólk að greiða árlegt hundaleyfisgjald og þekkist það ekki annars staðar. Þetta er eitt af óþarfa skilyrðum og reglum sem borgin leggur á borgarbúa að mati Flokks fólksins.

Greinargerð

Það þykir flestum sjálfsagt að greiða skráningargjald fyrst þegar hundur er skráður og er það algengt í nágrannalöndum. Sú upphæð er reyndar mun lægra en hér á landi. Hvað varðar árlegt gjald, eftirlitsgjald er annað mál. Það tíðkast ekki í öðrum löndum.

Þetta gjald er 18.900 kr á hverju ári – per hund. Margir velta því fyrir sér í hvað þessir peningar eru notaðir, í þágu hverra? Í nágrannalöndum okkar er þessi peningur gjarnan notaður sem dæmi til að halda uppi gagnagrunni sem dýralæknar hafa aðgang að. Fyrir þann sem á t.d. tvo hunda á Íslandi sem lifa í 15 ár þá gæti hann þurft að greiða um 600.000 kr. í hundaleyfisgjöld. Ef borið saman við Danmörku myndi sambærilegt vera um 5.000 krónur.
Gæludýr hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Á síðustu áratugum hefur áhugi á áhrifum dýra á líðan fólks aukist. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun.
Áhugi á áhrifum dýra á fólk hefur aukist mikið hin síðari ár og ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum sem dýr geta haft á manneskjur. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks þar með talið eldri borgara. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds.

Félagsskapurinn er helsti ávinningurinn sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk jafnvel jafn sterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk,  það þarf að sjá um þá, fæða þá, hreyfa og gæla við þá. Dýr virðast því uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Það eru sterk tilfinningaleg bönd milli fólks og dýra sinna. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust og umhyggju án skilyrða. Þessi hlýja, traust og umhyggja fullnægir þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að eiga og halda hund enda ávinningurinn mikill.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lagfæringar verði gerðar á hundsvæðinu í Geirsnefi við Elliðaárvog og sá peningur sem innheimtur er með hundaskatti verði nýttur til þess:

Flokkur fólksins leggur til. Hér er um að ræða útileikvang sem hundaeigendum er ætlaður í Reykjavík. Geirsnefið er til skammar fyrir borgina vegna hirðuleysis. Það er ekkert gert til að betrumbæta þetta svæði. Þarna er vaðandi drulla og engin aðstaða fyrir fólk sem er að viðra hundana sína, svo sem bekkir og annað, til að tilla sér á, og göngustígar sem í rigningatíð eru eitt forarsvað. Hundaeigendur eru upp til hópa mjög ósáttir við að vera rukkaðir um tæp 19 þúsund á ári, fé sem rennur beint í borgarsjóð. Innheimta þessa gjalds er einsdæmi og þekkist ekki í nágrannalöndum. Það er því lágmark að gjaldið sé notað í þágu dýranna og notað m.a. til að betrumbæta aðstöðu hundaeigenda. Gjaldið er notað að stóru leyti í yfirbyggingu og rekstur hundaeftireftirlitsins. Fjölmargir telja að árlegt hundaleyfisgjald sé barn síns tíma og það eigi að fella niður með öllu. Sagt er að gjaldið sé notað til að þjónusta alla borgarbúa en engu að síður eru hundaeigendur aðeins rukkaðir. Í þessu er engin sanngirni. Reykjavík er ekki hundavinsamleg borg og tímabært að færa dýrahald borgarinnar til nútímans og í þeim efnum taka þá mið af hvernig málum er háttað í nágrannalöndum okkar. R20010132

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Fyrirspurnir er varða hundaeftirlitið og hundaeftirlitsmenn, hundagjaldið og fleira sem tengist þessum málaflokki í Reykjavíkurborg.
Fyrirspurnirnar eru unnar í samstarfi við Hundasamfélagið á fb

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar. Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er eftirfarandi upplýsinga um hundaeftirlitið, hundaeftirlitsmann og verkefni hans: Beðið er um að fá tímaskýrslur hundaeftirlitsmanna fyrir árið 2018 og 2019. Spurt er hvort aukin rafræn samskipti hafi dregið úr og breytt umfangi starfs hundaeftirlitsmanns. Ef svo er hvernig þá, með hvaða hætti og í hvað miklum mæli? Ástæða spurningarinnar er sú að með tilkomu netsins hefur almenningur tekið við mörgum verkefnum eins og að koma týndum/fundnum hundum til síns heima. Hefur verið gerð óháð úttekt á fjármálum hundaeftirlitsins t.d. af innri endurskoðanda? Hvar er hundaeftirlitið til húsa, hver á húsnæðið og hver er leigan? Í ljósi þess að kvartað hefur verið yfir hundaleyfisgjaldi Reykjavíkurborgar og það jafnvel talið vera hærra en nemi þeim kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi er spurt um hér í hvað hundaeftirlitsgjöldin fara. Óskað er eftir sundurliðun fyrir árið 2018 og 2019. hundaeftirlitið hefur fræðsluskyldu. Hvernig er þeirri fræðslu háttað til hundaeigenda? R20010132

Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Með hvaða hætti hefur hundaeftirlitið beitt sér til að fækka óskráðum hundum í borginni? Hversu oft hefur hundaeftirlitinu verið tilkynnt um lausagöngu hunda sl. 2 ár? Hversu oft og hversu margir hundar sl. 2 ár verið færðir í geymslu vegna óþæginda sem þeir valda, vegna óþrifnaðar eða vegna þess að þeir hafa raskað ró manna? Komið hefur fram að það taki mörg ár að leysa sum mál sem koma inn á borð hundaeftirlitsins. Hvernig mál eru það sem tekur fleiri ár að leiða til lykta? Ef hundaeftirlitið er með hund í geymslu getur eigandinn leyst út hund sinn og fengið reikninginn í heimabanka? Ef ekki, hverjar eru ástæðurnar? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru ekki skráðir? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru skráðir en hafa farið á hundanámskeið? R20010132

Framhald á fyrirspurnum er varða hundamál í borginni

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er upplýsinga um önnur verkefni hundaeftirlits svo sem: Hver er kostnaðurinn við að framleiða og senda ártalsmerki út á hverju ári til allra skráðra hundaeigenda og hver er raunverulegur tilgangurinn með þeim? Hver er fjöldi innkominna erinda, þ.m.t. kvartanir, á ári hverju sl. 2 ár? Hvernig eru verklagsreglur hundaeftirlitsins við vinnslu kvartana? Hver er fjöldi símtala varðandi hundamál í gegnum þjónustuver? Hver er fjöldi símtala í farsíma hundaeftirlitsmanna? Hvers vegna auglýsir hundaeftirlitið ekki fundna hunda á netinu? Hvernig er eftirlitsferðum háttað? Samkvæmt ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins voru kvartanir 79 árið 2018 og fer fækkandi samkvæmt skýrslunni og 84 árið 2019. Það kemur því á óvart að í fjárhagsáætlun sem lögð var fram í desember 2019 má sjá að árið 2019 var fjöldi kvartana 1300 og reiknað er með að árið 2020 verði þær 1400. Óskað er útskýringar á þessu. R20010132

Frekari fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Fyrirspurnir er varða hundaeigendur: Hversu margir eiga fleiri en einn hund? Hvernig er aldursdreifing hundaeigenda og hversu margir eru í hópi eldri borgara?Svar frá hundaeftirlitinu í janúar 2020: Tölvukerfið býður ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að sætta sig við að ekki sé hægt að greina hundaeigendur eftir aldri og spyr því aftur um aldursdreifingu? Hversu margir eigendur hafa farið á hundahlýðninámskeið með hund sinn og fá þ.a.l. helmings afslátt af árlegu hundaeftirlitsgjaldi? Samkvæmt gildandi gjaldskrá og hundaeftirlitssamþykkt miðar afslátturinn við hvort leyfishafi hafi sótt hundahlýðninámskeið. Þess vegna er spurt af hverju þarf eigandi að fara á námskeið með hvern hund til að fá afslátt vegna þeirra allra? Eru heimilisföng og skráningar hundaeigenda með hundaleyfi uppfærðar reglulega? Ef svo er hversu tíð er sú uppfærsla? R20010132

Öllum fyrirspurnum er varða hundamál er vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis?

Leið til læsis er stuðningskerfi sem er unnið af sérfræðingum á sviði læsis. Eins og sjá má á niðurstöðum úr nýrri PISA-könnun þá fer íslenskum börnum enn aftur hvað varðar lestur og lesskilning. Slök lestrarkunnátta og lesskilningur hefur áhrif á árangur í öðrum greinum og því er grundvallaratriði að bæta lesskilning meðal íslenskra barna.
Óskað er eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði um hvað margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis, úrræðin í handbókinni og skimunarprófin sem námsefninu fylgja, sér í lagi þegar grípa þarf til snemmtækrar íhlutunar vegna sýnilegs vanda barns með lestur og lesskilning? Leið til læsis, handbókin og skimunarprófin er gagnreynt námsefni. Rannsóknir sýna að með réttum aðferðum er hægt að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Námsefnið er úrræði fyrir nemendur sem eru í áhættu í málskilningi, orðaforða, hljóðkerfisvitund, hljóðvitund og stafaþekkingu. Leið til læsis er í eigu Menntamálastofnunar sem setti prófið inn sem hluta af Lesferli sem er samheiti yfir próf sem stofnunin hefur gefið út. Með þetta gagnreynda verkfæri er hægt að bæta lestur og lesskilning íslenskra barna fái kennarar stuðning og svigrúm til að nýta það í kennslustofunni í samvinnu við fullnægjandi sérfræðiþjónustu og teymisvinnu. R20010129

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf skóla og heilsugæslu vegna skimunar barna hjá heilsugæslu?

Fyrirspurnir um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilfellum barna sem skimast með vísbendingar um lesvanda. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistarnir Brigance og spurningalistinn PEDS. Í niðurstöðum kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Hægt er að hefja íhlutun með þessi börn strax á þessu tímaskeiði. Á Íslandi er til gagnreynt námsefni s.s. Leið til læsis, ásamt handbók og skimunarprófum. Til að hægt sé að setja íhlutun í gang þurfa upplýsingar úr skimun heilsugæslu að berast skóla og skólinn að grípa til viðeigandi aðgerða/íhlutunar. Fyrirspurnir:
1. Eru skólar í Reykjavík í formlegu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar og ef í ljós kemur í þroskamati vísbendingar um að barn komi til með að glíma við les- og lesskilningsvanda?
2. Ef svo er, hvernig er því samstarfi háttað hvað þetta atriði varðar nákvæmlega?
3. Hvernig er stuðningur og eftirfylgni við þessa nemendur tryggður í skólum Reykjavíkur? R20010131

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. desember 2019 til að minna á ný umferðarlög er varðar akstur P merktra bíla á göngugötum:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. desember 2019 til að minna á að hatursorðræða beinist einnig gegn öryrjum og eldri borgurum:

Hatursorðræða birtist með margskonar hætti og beinist að ólíkum hópum. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki er oft vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu. Hatursorðræða beinist einnig gagnvart hópum eins og öryrkjum (fólk með fötlun) og eldri borgurum sem og öðrum minnihlutahópum. Þegar rætt er um þessi mál er mikilvægt að hafa alla þessa hópa í huga.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 11. desember sem viðbrögð við bókun meirihlutans sem fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðrmálum miði að því að auka umferð:

Það er augljóst á gagnbókun meirihlutans við þessum lið sem er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um umbætur á svæði Geirsgötu og Kalkofnsvegar móts við Hörpu að meirihlutinn leggur allt í sölurnar til að strípa miðbæinn af bílum og þar með því fólki sem kemur akandi á þetta svæði. Tillagan var felld. Segir í gagnbókun þeirra að til að skapa mannvæna borg verður að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er engin bær ef ekki er þar fólk, nema þá bara draugabær. Gera þarf öllum jafn hátt undir höfði og sjá til þess að draga úr töfum allra sama hvaða ferðamáta þeir nota. Tryggja þarf einnig öryggi allra eins og hægt er án tillits til ferðamáta. Meirihlutinn og skipulagsyfirvöld hans virðast hins vegar gera í því að viðhalda umferðarteppu og gera akandi eins erfitt fyrir og mögulegt er til að halda þeim frá bænum. Halda mætti að það væri ásetningur meirihlutans að útiloka akandi fólk, fólk sem býr í efri byggðum, er utan af landi og verður að nota bíl sinn til að komast langar leiðir þar með til að sinna erindum eða vinnu í bænum. Þetta er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Til þess að skapa mannvæna borg og styrkja fjölbreytta ferðamáta er grundvallaratriði að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Tillögur Flokks fólksins miða flestar að því sama, að auka „flæði“ bílaumferðar á kostnað gangandi og hjólandi. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun til að leiðrétta misskilning meirihlutans og minna á að til að kallast bær þarf að vilja koma í hann fólk:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins er knúinn til að segja það sama því meirihlutinn í borgarstjórn leitast stöðugt við að misskilja og snúa út úr skrifum flokka í minnihlutanum. Hér er vísað í bókun í borgarráði 9. janúar undir lið 16 þar sem meirihlutinn fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum miði að því að auka bílaumferð á kostnað gangandi og hjólandi. Þetta er ekki rétt. Fólk í Flokki fólksins gengur líka og hjólar og sumir eru hreyfihamlaðir og í hjólastól. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og hver og einn ákveður sjálfur eftir þörfum og vilja hvernig hann ferðast um. Allar tillögur Flokks fólksins miðast að því að minnka tafir fyrir alla og vill að meirihlutinn sýnir öllu fólki sömu virðingu óháð því hvernig það velur að ferðast eða þarf að ferðast. Umferðartafir eru slæmar fyrir fjölmargar sakir, ekki bara vegna tafa heldur einnig vegna mengunar sem umferðarteppur valda. Allir líða fyrir stjórnleysi meirihlutans á umferðarmálum borgarinnar. Af hverju vill meirihlutinn ekki auka flæði umferðar t.d. með því að bæta ljósastýringar. Fjölmargt er hægt að gera og hefur Flokkur fólksins lagt fram margar hugmyndir en þeim er jafnhraðan fleygt.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs þrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. desember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samningi um tónleikahald í Laugardal í júní 2020. 

Á fundi borgarráðs 5. september 2019 var samþykkt að tónleikar Secret Solstice verði haldnir í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020 með sambærilegu sniði og 2019 ef samningar nást um tónleikahaldið eins og segir í framlagningu málsins. Borgarfulltrúi vill minna á ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í dalnum. Eftir þeim niðurstöðum þarf að bíða og heyra þarf einnig í öllum foreldrafélögum á svæðinu. Allir voru sammála um að betur gekk 2019 en 2018 enda mun meiri fyrirbyggjandi vinna viðhöfð. Engu að síður komu upp 40 fíkniefnamál og umsögn barst frá Þrótti að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hafi skemmt völlinn og var sagt að svæðið væri í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu í kjölfar hátíðarinnar. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs fyrir hátíðina í fyrra styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði en vill í þessari bókun viðra þá skoðun að betra væri að fundinn yrði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessari stærðargráðu heldur enn inn í miðju íbúahverfa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. nóvember 2019 á tillögum starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi:

Fram kemur í bókun kennara og skólastjóra í framlögðum gögnum að í starfshópnum hafi ekki setið fulltrúar kennara í Reykjavík þótt þeir séu lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem öðrum. Það er óskiljanlegt að lykilaðilum sé ekki boðið til samstarfs í hópi sem þessum. Hér er reyndar komin skýr staðfesting á því sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda sem fram kom í júlí 2019 að ekki sé nægjanlega hlustað á skólastjórnendur og kennara. Af reglum í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins segja að leiðbeinandi reglur verði að sjálfsögðu að vera án miðstýringar. Það er einmitt það sem felst í því að vera „leiðbeinandi“ . Leiðbeinandi reglur eru ávallt af hinu góða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað við blað um uppbyggingu íbúða í borginni sbr. 44. lið fundarg. borgarráðs 5. des. 2019:

Svarið er áhugavert fyrir margar sakir en mest vegna þess að í því segir að allar þessar upplýsingar séu einfaldlega að finna á netinu. Flokkur fólksins spyr því, til hvers var þessi bæklingur gefin út ef allar upplýsingar í honum er að finna á netinu? Segir einnig að „viðbótin -flokkunin- sem er í bæklingnum hefði einnig mátt fara á netið“ . Í svarinu segir því að 9 milljóna bæklingur var óþarfur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvað varð um yfirlýst sjónarmið meirihlutans um að draga úr sóun og óþarfa eyðslu, gæta að kolefnissporum o.s.frv. Með útgáfu þessa bæklings virðist sem þau sjónarmið hafi gleymst. Þessi bæklingur er ekkert annað en „montblað“ borgarstjóra sem vill sýna með þessu að loksins er nú farið að byggja eftir margra ára lognmollu. Vandinn er hins vegar sá, alla vega enn sem komið er, að allt of mikið er af rándýru húsnæði sem ekki selst. Þess vegna þarf borgarstjóri og meirihlutinn að bregða sér í hlutverk fasteignasala og gefa út bækling sem þennan. En borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka þeim sem svaraði og gerir sér grein fyrir að það hlýtur að vera erfitt að vera starfsmaður borgarinnar og þurfa að verja svona lagað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá Strætó bs. dags. 28. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort Strætó muni hugsanlega nota metan sem orkugjafa, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019:

Borgarfulltrúi þakkar svarið sem er frekar rýrt. Að vera aðeins með tvo metanvagna í umferð er sérstakt, þegar umfram metani er brennt í stórum stíl, engum til gagns. En eins og framkvæmdarstjóri veit þurfa þessi tvö fyrirtæki borgarinnar Strætó og SORPA að fara að tala meira saman og svsvo virðist sem það í farvatninu og það fljótt. Vandinn með allar framkvæmdir liggur í rekstrarformi fyrirtækis eins og Strætó bs. sem er þetta byggðarsamlagsform. Reykjavík ræður náttúrulega litlu ef tekið er mið af því að sveitarfélagið Reykjavík er langstærsti eigandinn. En það er ekki við framkvæmdarstjórann að sakast í þeim efnum heldur núverandi og fyrrverandi meirihluta sem ekki hafa treyst sér að skoða breytingar á þessu kerfi. Ef Reykjavík á að geta áorkað einhverju í byggðasamlögum sem borgin er jafnframt aðili að og stærsti eigandi þarf að tryggja ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá trætó bs., dags. 12. september 2019, við fyrirspurn Flokks fólksins um rafmagnsstrætisvagna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019.

Rafmagnsstrætisvagnar eru nú 14 talsins í dag. Athyglisvert er að í svari segir að fyrstu vagnarnir komu 2018 og einnig þeir síðustu. Þýðir þetta að ekki komi fleiri slíkir vagnar? Ef svarið er já og það þýði að í framhaldinu komi aðeins vagnar í flotann sem verða metanvagnar þá er það gott. Setning í svarinu: „áfram verður haldið við að gera flotann umhverfisvænan eins og fjárveiting leyfir“ er afar óljós. Hvað er verið að segja hér? Það er nefnilega hægt að vera umhverfisvænn með ýmsum hætti og hægt er að vera mis- umhverfisvænn. Vonandi velur Strætó umhverfisvænstu og hagkvæmustu leiðina til að gera flotann eins umhverfisvænan og kostur er. Ekki veitir af til að bæta upp fyrir slaka nýtingu á almenningsvögnum og á þeim vanda hafa ekki enn fundist lausnir.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við savri frá Sorpu bs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vindvél sem aðskilur plast frá öðru sorpi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019:

Enn og aftur kemur í ljós hversu undarlegt og erfitt þetta „byggðarsamlagsform“ er. Það er alltaf að taka á sig sérkennilegri myndir. Nú virðist, ef svarið er skilið rétt, að það sé í alvöru þannig að sérhvert sveitarfélag geti komið með ,,séróskir“. Vindvélin er keypt jafnvel þótt vitað er að tvö sveitarfélög vilja hana ekki en öll sveitarfélög þurfa samt að borga. Þetta virkar eins og sveitarfélag þótt stærst sé, sé haldið í gíslingu meirihluta byggðarsamlagsins sem samanstendur af litlu sveitarfélögunum. Stærsta sveitarfélagið segir nei en verður engu að síður að borga hlutfallslega mest. Flokkur fólksins hefur margrætt ókosti byggðarsamlagakerfis í borgarstjórn. Heyrast raddir minnihluta í borgarstjórn einhvern tíma í Sorpu? Ef allt væri rétt og eðlilegt í þessu máli þá ættu þau sveitarfélög sem vildu þessa vél að greiða hana sjálf en ekki hin sem ekki vildu hana. Skemmst er að minnast 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka hjá Sorpu sem Reykjavík þurfti að bera hitann og þungann af. Reykjavík greiddi það möglunarlaust eins og ekkert væri eðlilegra. Flokkur fólksins vill minna á hvaðan peningarnir koma þ.e. úr vasa borgarbúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari borgarstjóra, dags. 6. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins um greiðslur úr miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til Miðborgarinnar okkar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2019:

Bókun Flokks fólksins við svari um greiðslur úr Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar. Þessi samtök hafa fengið 50 milljónir sl. 3 ár. Þetta eru háir styrkir. Flokkur fólksins vill fá að sjá umsóknir sem liggja að baki þessum styrkveitingum til að sjá hvaða forsendur liggja að baki því að veita þessum samtökum 11 milljónir þetta ár og 50 milljónir s.l. 3 ár. Óskað er eftir að sjá umsóknir til að hægt sé að átta sig á hvaða skilyrði þessi samtök uppfylla umfram aðra sem mögulega sóttu um í þessum sjóði. Hér er verið að greiða úr sameiginlegu sjóðum borgarinnar. Bara Miðborgin okkar eru að fá 11 milljónir sem er kannski helmingur af öllum sjóðnum? Óskað er eftir að fá að vita hverjir fengu styrki sl. 3 ár, sundurliðun og ástæður fyrir þessum styrkveitingum. Óskir þessar eru settar fram í formlegri fyrirspurn.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að upplýsingar um atkvæðaskiptingu fylgi fréttatilkynningum um afgreiðslur úr borgarráði og borgarstjórn, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019.

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Það kemur ekki á óvart að meirihlutinn hafi vísað tillögunni frá þar sem kappsmál er lagt á að sem oftast haldi borgarbúar að allir séu sammála og að vel fari á með meiri- og minnihluta borgarstjórnar. Flokkur fólksins er í raun ekki að leggja annað til en að það að upplýsa borgarbúa með sem nákvæmasta hætti og í þessu tilfelli að þeir fái að vita hvernig atkvæðagreiðsla skiptist í hverju máli. Flokki fólksins finnst alltaf sérstakt þegar stjórnvald spyrnir fótum við að veita nákvæmar upplýsingar og vill frekar leggja það á almenning að þurfa sérstaklega að hafa fyrir því að fá sem mestar og bestar upplýsingarnar. Upplýsingar sem eru í óhag meirihlutans vill hann ekki að sé flíkað. Upplýsingar sem henta og eru í hag meirihlutans eru hins vegar kyrfilega auglýstar og kynntar af upplýsingafulltrúa borgarstjóra.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Upplýsingar um það sem gerist á fundum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg liggja fyrir í opinberum fundargerðum ásamt því hvernig atkvæði falla um einstaka mál. Þetta er í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar en þar kemur fram að ferar við ákvarðanatöku eigi að vera ,,gagnsæir og rekjanlegir“. Hver sem er getur kynnt sér þær upplýsingar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar kvartanir Félags leikskólakennara yfir starfsaðstæðum og hvað borgin hyggst gera í þeim málum í kjarasamningu:

Félag leikskólakennara hefur kvartað yfir starfsaðstæðum leikskólakennara. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver sé stefna borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og hvernig kjarasamninganefnd borgarinnar hefur útfært stefnuna í samningaviðræðum hvað varðar eftirfarandi þætti: 1. Skilgreina kjarasamning leikskólakennara starfs- og vinnutíma og samræma að fullu við grunnskólann. 2. Skilgreina og búa til betri ramma um kennsluskyldu leikskólakennara og ramma inn tíma fyrir faglegt starf fyrri part dags í kjarasamningi. 3. Útfæra vinnutímaskipulag leikskólakennara í kjarasamning með sama hætti og grunnskólakennara þannig að á skólaári leikskóla séu leikskólakennarar búnir að vinna sér inn rétt á sömu fríum og í grunnskólum. Sárlega skortir betri ramma um faglegt starf í leikskólum. R20010127

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
9. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna Aðgengis- og samráðsefnd í málefnum fatlaðs fólks að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi sb. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimildarkvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 16. desember 2019:

Tillögu Flokk fólksins um úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi var hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á fundi 16. desember 2019 á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnu um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Spurt er hvernig staðan er á þeirri framkvæmd og hvenær búast viðkomandi aðilar að stofnunin taki til starfa?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við umræðu um erindi Reykjavíkurakademíu dags. 5. desember um samstarf vegna málþings um jaðarsetta hópa:

Flokkur fólksins styður að farið verði í samstarf við Reykjavíkur Akademíuna varðandi málþing sem til stendur að halda 11. júní n.k. um skapandi og valdeflandi aðferðir í vinnu með jaðarsettum hópum í samfélaginu. Ljóst er að vinna í listum og ástundun þeirra getur hjálpað einstaklingum umtalsvert sem eiga um sárt að binda af ýmsum ástæðum. Það skiptir máli að slíkt málþing verði sótt af fólki sem bæði vinnur við listir og kennslu, sem og þekkja vel til umönnunar sem tengist vinnu af því tagi sem málþingið hyggst setja á dagskrá.  Þannig að það sé tryggt að upplýsingar um væntanlegt þing verð vel kynnt.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  íbúaráðum Reykjavíkurborgar:

Fokkur fólksins fagnar því að íbúaráðin sé öll komin til starfa og gerir sér mikilar væntingar um lýðræðislega árangur varðandi starfsemi þeirra. Flokkur fólksins leggur áherslu á varðandi starfsemi ráðanna og styrkveitingar þeirra sé haft í huga réttindi fatlaðra og eldri borgara. Bendum einnig á að tillit sé tekið til barna frá efnalitlum heimilum og þannig gætt jafnræðis á meðal íbúa.
Skipulags- og samgönguráð
8. janúar 2020

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar við framlagningu yfirlits yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs á verkum yfir milljón í aðalsjóði og eignarsjóði frá janúar til september 2019:

Í þessu yfirliti vekur athygli hversu háar upphæðir um er að ræða og hvað sum fyrirtæki eru að fá háar greiðslur. Sem dæmi fær Landslag ehf. greiðslu upp á 7.575.284 m.kr. Á þessu yfirliti fylgja engar skýringar. Hæstu greiðslur eru t.d. til Matís, rúmar 12 milljónir. Aðeins brot eru með útboði og má þar sjá að sum verk sem fara í útboð eru undir viðmiði útboðsreglna sem er ánægjulegt. Útboðsreglur gera kröfu um útboð ef verk vegna verklegra framkvæmda er yfir kr. 30.000.000 á Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vsk. og vegna kaupa á vöru og þjónustu yfir kr. 15.500.00 án vsk. Þetta yfirlit vekur upp margar spurningar sem dæmi hvað ræður því að ákveðið er að fara í útboð með eitt verk en ekki annað þegar upphæð nær ekki viðmiði útboðsreglna? Meginreglan ætti að vera sú að fara í útboð jafnvel þótt upphæð sé langt undir viðmiði útboðsreglna ef ekkert annað hindrar. Hvað varðar samningskaup, innkaup byggð á verðfyrirspurnum, bein innkaup i samræmi við innkaupareglur og fleira þess háttar þá vantar sárlega að ferlið sé að fullu gegnsætt þannig að hægt sé að sjá hvað fyrirtæki voru borin saman o.s.frv. Hér er verið að greiða milljónir í sérfræðiráðgjöf en á sama tíma starfa fjölmargir sérfræðingar hjá borginni. Er ekki nein leið að nýta þá sérfræðiþekkingu betur til að draga úr aðkeyptri þjónustu?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar við framlagningu á yfirliti yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið júlí til september 2019:

Flokkur fólksins hefur áður verið með athugasemdir yfir hvað skipulagsyfirvöld og aðrir sem skipa meirihlutann í borgarstjórn leyfir sér að ferðast oft til útlanda í alls kyns erindum, allt frá því að sækja ráðstefnur, fundi eða fara í kynningar- og skoðunarferðir. Dæmi eru um að margir kjörnir fulltrúar og embættismenn sem tengjast sama sviðinu fari í sömu ferð. Hér er slíkt dæmi. Um er að ræða 6 embættismenn, sviðsstjóri, samgöngustjóri, skipulagsfulltrúi, skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstýru, skrifstofustjóri umhverfisgæða og byggingarfulltrúi ásamt kjörnum fulltrúum ráðsins. Hefði ekki dugað hér að 1-2 færu á þessa ráðstefnu sem myndu svo fræða hina þegar heim væri komið um það helsta? Í þessu eina yfirliti yfir ferð á ráðstefnu er upphæðin 1.2 milljón. Hér má enn og aftur minna á tal meirihlutans um að bæta loftlagsgæði og minnka kolefnisspor. Tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri er hávært en ekki þegar kemur að ferðum þeirra sjálfra erlendis. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga.

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, hvaða aðgerðir stjórn Strætó bs hyggst grípa til til að bæta nýtingu vagnanna. Mál nr. US200007

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hvaða aðgerðir stjórn Strætó bs. og skipulagsyfirvöld borgarinnar hyggjast grípa til til að bæta nýtingu vagnanna. Fyrir liggur að sæta- og stæðisnýting hjá almenningsvögnum Strætó er slök, sennilega rétt um fimmtungur að meðaltali árið 2018. Þetta hefur verið margsinnis rætt og svar Strætó bs felur ávallt í sér upplýsingar um fjölda innstiga í Strætó en ekki fjölda farþega. Fjöldi innstiga á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 var 11.405.700. Fjöldi ferða sem farnar voru árið 2018: 642.865. Fundin er meðaltalstala með því að taka fjölda farþega og deila með fjölda ferða. Að meðaltali komast að mestu 85 manns í strætisvagn á höfuðborgarsvæðinu, sitjandi og standandi. Að meðaltali er því um að ræða innan við 18 farþega. Það segir sig sjálft að þetta er nýting sem ekki er hægt að sætta sig við. Vagnarnir eru illa nýttir . Ein stök ferð með strætó kostar tæp 500 krónur. Þótt keypt sé 10 miða kort munar litlu á einni ferð. Kerfið er því afar óhentugt fyrir þá sem gætu viljað grípa til notkunar lmenningssamgangna endrum og sinnum. Rekstrarfyrirkomulagið er einnig vont en Strætó bs. er byggðasamlag. Sex sveitarfélög eiga það og Reykjavík á stærsta hlutann en hefur engu að síður aðeins einn fulltrúa í stjórn. Stjórnunarvægi er því í engu hlutfalli við stærð.

Hvað ætlar skipulagsyfirvöld/stjórn Strætó bs. að gera í þessu?
Hvernig á að bregðast við?
Á ekki að taka mið af lélegri nýtingu t.d. með því að grípa til einhverra aðgerða?

Hugmyndir Flokks fólksins í þessu sambandi eru:

Reyna að fá fólk til að nota strætisvagna t.d. bjóða upp á ódýr kynningarkort til að fólk kynnist kerfinu, fleiri möguleika í fargjöldum, jafnvel fríar ferðir utan álagstíma.
Finna fjölbreyttar leiðir til að bæta ímyndina, virkja þjónustustefnu?
Leyfa ávallt að hundar komi um borð í vagnanna?

Vísað til umsagnar Strætó bs.

Tillaga Flokks fólksins um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar úr eigin vasa og upplýsingar um kolefnisjöfnunin verði aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.

Flokkur fólksins leggur til að borgarfulltrúar, borgarstjóri og aðstoðarmaður borgarstjóra kolefnisjafni flugferðir sínar til og frá útlöndum úr eigin vasa. Með þessu sýna borgarfulltrúar félagslega ábyrgð. Þær þrjár leiðir sem hægt er að kolefnisjafna er hjá Kolviði, Votlendissjóði og Icelandair. Borgarfulltrúar og sérstaklega borgarstjóri og aðstoðarmaður hans fara í margar flugferðir á ári erlendis sem skipta hundruð þúsunda. Ferðalangurinn sjálfur á að bera kostnaðinn og með því sýnir hann í verki viðhorf sitt til mikilvægis umhverfisverndar. Að kolefnisjafna er í dag viðurkennd aðgerð til að vega upp á móti útblæstri og því er ekkert að vanbúnaði að kjörnir fulltrúar kolefnisjafni og axli sjálfir ábyrgð á kostnaðinum. Lagt er til að á heimasvæði komi fram upplýsingar um kolefnisjöfnuð hvers og eins og hjá hvaða aðila það var gert.
Frestað.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, undantekningu frá akstursbanni um göngugötur. Mál nr. US200009

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?
Frestað. 

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna framlagningu lista yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Mál nr. US200010

Í framhaldi að framlagningu lista yfir innkaup umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir nánari upplýsingum:
Hvað ræður því að farið er í útboð í stað þess að láta verðsamanburð nægja þegar upphæð er undir viðmiði útboðsreglna?
Ferli verðsamanburðar er ekki nægjanlega gegnsætt til að almenningur geti fylgst með. Sem dæmi er EFLA fyrirtæki sem verið er að greiða háar upphæðir. Er t.d. EFLA ódýrasta fyrirtækið og hjá hvaða öðrum fyrirtækjum var verð athugað þegar verið var að leita að fyrirtæki til að sinna verkefnum sem EFLA var síðan ráðið í. Á lista um innkaup þarf að koma fram forsendur fyrir þeirri ákvörðun sem tekin er með hver innkaup, hvaða forsendur eru fyrir því að þau fyrirtæki sem hér eru valin fá verkefnið? Á hvaða grundvelli eru þau ráðin?
Eins vantar upplýsingar um afslætti, magnafslætti t.d. hjá þeim fyrirtækjum sem eru að fá flestu og dýrustu verkefnin. Veitir sem dæmi EFLA borginni afslátt?

Vísað til umhverfis- og skipulagssvið, fjármálaskrifstofu

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsókn Plúsarkitekta ehf. dags. 11. desember 2019 ásamt skipulagslýsingu dags. 9. desember 2019 vegna gerð nýs deiliskipulags fyrir Nesvík á Kjalarnesi sem felst í uppbyggingu allt að 100 herbergja hótels auk 12 stakstæðra húsa sem leigð verða út sem gistirými og þjónustuð af hótelinu.

Hér er um lýsingu að ræða og er íbúum í nágrenninu því ekki kunnugt um þessar hugmyndir sem nú liggja á borðinu. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að hafa íbúa með í ráðum á fyrstu stigum og ætti því sem fyrst að boða til fundar (íbúafundar/íbúaráðsfundar) og bjóða íbúum sömu kynningu og lögð er nú fyrir skipulags –og samgönguráð. Með því að gera þetta strax á fyrstu stigum er dregið úr líkum þess að óánægja skapist síðar og kvartanir og að fólki finnist sem ekki hafi verið haft við sig viðhlítandi samráð. Þetta verklag ætti að vera meginreglan.