Kolbrún Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022. Hér birtast fréttir af Kolbrúnu á pólitískum vettvangi borgarmálanna.

Greinasafn eftir Kolbrúnu á visi.is

Hér munu birtast helstu mál Flokks fólksins sem lögð verða fram í borgarstjórn árið 2020.

Mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráð
23. janúar 2020

 

Borgarráð
23. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér.

Flokkur fólksins leggur til að stjórnarmaður Reykjavíkur í Sorpu víki sæti úr stjórn og ætti í raun öll stjórnin að segja af sér. Henni hefur mistekist hlutverk sitt. Enn ein svört skýrsla innri endurskoðunar hefur birst á þessu kjörtímabili sem varla er hálfnað og snýr nú að stjórnarháttum Sorpu. Í skýrslunni koma fram  ástæður fram­úr­keyrslu sem varð á áætl­uðum fram­kvæmda­kostn­aði vegna bygg­ingar gas- og jarð­gerð­ar­stöðvar í Álfs­nesi og mót­töku­stöðvar í Gufu­nesi. Framkvæmdarstjórn, undir stjórn stjórnar Sorpu hafði lagt til að tæpum 1,4 millj­örðum króna yrði bætt við fjár­hags­á­ætlun fyr­ir­tæk­is­ins vegna næstu fjög­urra ára.  Innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borgar gerði jafn­framt úttekt á stjórn­ar­háttum félags­ins og fann þar margt athugavert og jafnvel ámælisvert. Að sögn fram­kvæmda­stjóra höfðu hvorki stjórn­ar­for­maður né aðrir stjórn­ar­menn frum­kvæði að því að afla upp­lýs­inga um heild­ar­kostnað á hverjum tíma til að gera við­eig­andi sam­an­burð við áætl­an­ir. Í kjölfari áfellisdóms sem stjórnin fær hlýtur stjórnarmaður Sorpu að víkja úr stjórn? Það er varla hægt að henda allri ábyrgðinni á framkvæmdarstjórann? Ábyrgðin hlýtur fyrst og fremst að vera stjórnarinnar í þessu máli. Stjórn Sorpu reynir að fría sig ábyrgð m.a. með því að segja að hún hafi kallað eftir úttekt innri endurskoðunar.

Greinargerð

Í skýrslunni eru marg­hátt­aðar athuga­semdir. Á meðal þess sem fram kemur í skýrsl­unni að stýri­hópur eig­enda­vett­vangs og rýni­hópur stjórnar Sorpu, sem áttu að hafa eft­ir­lit með verk­efn­inu, hafi reynst lítt virk­ir. Þá hafi fram­vindu­skýrslur fram­kvæmda­stjóra til stjórnar vegna bygg­ingar GAJA verið ómark­vissar og stundum með röngum upp­lýs­ing­um, auk þess sem skýrslu­gjöf hefði átt að vera reglu­bundn­ari. Í skýyrslu innri endurskoðunar segir m.a.: „Full­nægj­andi upp­lýs­inga­gjöf og mis­vísandi orða­notkun í skýrslum til stjórnar var sér­stak­lega óheppi­leg þar sem stjórn Sorpu var að meiri­hluta skipuð nýjum full­trúum eftir sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­arnar 2018 auk þess sem nýr for­maður stjórnar hafði ekki verið áður í stjórn.“

Varla er búið að gleyma því að stjórn Sorpu óskaði nýlega eftir að Reykjavík veiti samþykki sitt fyrir lántöku vegna mistaka sem gerð voru hjá Sorpu. Sótt var um 990 milljóna króna lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Engar haldbærar skýringar voru gefnar fyrir því að það vantaði rúman 1.6 milljarð inn í rekstur Sorpu. Stjórnarmeðlimur borgarinnar í Sorpu var bara pirruð á minnihlutanum að samþykkja þetta ekki möglunarlaust í borgarstjórn. Meirihlutinn í borginni spurði einskis, gekk bara þegjandi í ábyrgð fyrir láni af þessari stærðargráðu. Reykjavík sem meirihlutaeigandi situr í súpunni þegar kemur að þessum byggðasamlögum. Borgin tekur mesta skellinn á meðan hin sveitarfélögin sigla lygnari sjó. Flokkur fólksins bar fram tillögu um að borgin skoði fyrirkomulag byggðasamlaga með tilliti til lýðræðislegra aðkomu borgarbúa að þeim. Hún var ekki samþykkt. Í ítrekuðu klúðri Sorpu kristallast þetta. Ef borgin ætlar að halda áfram að vera „mamman“ þarf fjárhagsleg ábyrgð Reykjavíkur á rekstri byggðasamlaga að vera meiri en ábyrgð annarra sveitarfélaga þá á Reykjavík jafnframt að hafa stjórnunarheimildir í samræmi við þá ábyrgð. Stjórnarmaður borgarinnar þarf einnig að vera manneskja sem er laus við meðvirkni og er tilbúin að spyrna við fótum sé eitthvað rugl sýnilega í gangi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að veita Main Course ehf vegna Food og Fun 5 milljóna króna styrk:

Reykjavík vill styrkja Food and Fun til tveggja ára um fimm milljónir. Samkomulag þetta gildir fyrir árin 2020 og 2021 og greiðir Reykjavíkurborg Main Course ehf. 2.500.000 kr. í styrk á ári til að standa straum af kostnaði vegna kynningar hátíðarinnar. Flokkur fólksins heldur að það sé engin þörf á að borgin setji þetta fé í hátíðina þar sem hún mun án efa vera bæði metnaðarfull og glæsileg án þessa framlags borgarinnar. Hátíðina sækja auk þess kannski bara afmarkaðir hópar, efnameira fólk þ.e. þeir sem hafa efni á að fara á þessa veitingastaði. Vel má vera einnig að hátíðin sé að miklu leyti hugsuð til að laða að ferðamenn.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs vegna breytingar sem nær eftir Tryggvagötu frá gatnamótum Grófar og Pósthússtrætis:

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni á að í nýju skipulagi við Tryggvagötu á að þurrka út 40 til 50 bílastæði og með því skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Aðeins er gert ráð fyrir þremur bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er bent á bílastæðakjallara sem Reginn rekur. Það hefur ekki verið mikið auglýst. Meirihlutinn neitar að horfast í augu við þá staðreynd að það treysta sér ekki allir í bílastæðakjallara jafnvel þótt þeir séu vel hannaðir. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa frá að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði. Það er verulega leiðinlegt hvað íslendingar sem koma lengra frá og fatlað fólk er gert erfitt fyrir með aðgengi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs þar sem óskað er eftir að heimila útboð vegna mötuneyta:

Fyrir liggur beiðni um útboð vegna endurnýjunar mötuneyta og taka á mið af aðstæðum í skólum. Þetta er hið besta mál enda eru aðstæður í sumum skólum slæmar. Flokkur fólksins vill nefna í þessu sambandi ólík rekstrarform sem eru í gildi í mötuneytum skólanna. Sennilega eru einar 3-4 útfærslur á rekstrarformi/fyrirkomulagi mötuneyta og þar að leiðandi lítið um samræmi. Fram hefur komið í athugunum að matarsóun er víða mikil í skólum. Það er mat Flokks fólksins að skilgreina þurfi þjónustusamninga upp á nýtt og bjóða rekstur skólaeldhúss og mötuneytisreksturs þeirra út. Það mun auka gæði mötuneytisfæðis og líkur eru á að það fyrirkomulag sem verður ofan á verði það sem er hagkvæmast.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að útvíkka starfsemi Afleysingastofu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi hugmynd um Afleysingastofu góð. Einkennilegt er engu að síður hvað há upphæð er áætluð í veikindi og þjálfun afleysingafólks eða samtals 4.5 m.kr. Stærsti hluti upphæðarinnar eru víst þjálfunarkostnaður. Í þessu sambandi hefði maður haldið að eðlilegrar væri að gera verktakasamninga við afleysingafólkið. Vissulega á fólk sinn veikindarétt sé það ráðið sem launþegar samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um veikindarétt. Fulltrúi Flokks fólksins taldi það víst þegar umræðan um Afleysingastofu hófst að afleysingafólk yrði ráðið sem verktakar. Slíkt fyrirkomulag á betur við í þessu tilliti. Hér um að ræða afleysingarfólk sem leysir öllu jafnan af í stuttan tíma og því alls ekkert óeðlilegt við að verktakafyrirkomulagið sé haft þar á. Í verktakasamningi má skilgreina og skýra allt sem skýra þarf í tengslum við starfið. Gera ætti verktakasamninga við afleysingafólkið án milligöngu einhvers fyrirtækis enda myndi slíkur milliliður aðeins flækja málið.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að gera jafnréttismat vegna ákvörðunar um styttingu opnunartíma leikskóla:

Það er ámælisvert að enginn fulltrúi foreldra sat í hópnum og enginn fulltrúi foreldra sat á þeim fundi sem ákvörðunin var tekin. Nú skyndilega á að gera jafnréttismat. Hefði ekki verið eðlilegt að byrja á því? Nú er talað um mótvægisaðgerðir til að koma til móts við þá foreldra sem þetta kemur illa við. Hvernig mótvægisaðgerðir eru það. Á að finna millivistun? Er það gott fyrir barn að fara af leikskóla sínum í aðra vistun áður en það kemst heim til sín? Grunnvandinn er mannekla/undirmönnun og þá er gripið til þess ráðs að stytta opnunartíma. Á sama kannski að gilda um dagvistun aldraðra, þar er líka mannekla og álag. Nú var verið að samþykkja að útvíkka Afleysingastofu. Samt er ekki gert ráð fyrir að það fólk geti komið inn nema í langtímaveikindum starfsfólks. Hér var ekki hugsað um afleiðingar fyrir þá foreldra sem eru fastir í vinnu samkvæmt ráðningarsamningi til kl. 16.30. Almennt eru börn í leikskóla í sínu hverfi. Foreldrar vinna kannski sjaldnast í sínu hverfi heldur jafnvel langt frá og margir sitja einmitt á þessum tíma fastir í umferðarteppum. Í öllu þessu máli finnst borgarfulltrúa Flokks fólksins einnig vera gert lítið úr foreldrum. Foreldrar þekkja börn sín, líðan þeirra og þarfir og bregðast við þörfum þeirra t.d. ef í ljós kemur að níundi tíminn á leikskóla sé barninu erfiður.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu erindisbréfs starfshóps um viðbrögð við bótakröfum á hendur Reykjavíkurborg:

Starfshópur um meðferð bótakrafna á að taka til starfa. Borgin hefur undanfarin ár þurft að greiða fjárfúlgur í bótakröfur af alls kyns orsökum, sumar tilkomnar vegna brota starfsmanna í starfi eða gagnvart öðrum starfsmönnum. Dæmi hafa komið upp þar sem mætti halda að borgaryfirvöld vilji bara greiða bæturnar og gleyma svo málinu, láta sem ekkert sé og viðkomandi starfsmaður heldur áfram sinni vinnu eins og ekkert hafi í skorist. Þetta hefur í það minnsta stundum verið upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Í tilfellum sem þessum mætti spyrja hvort sá sem skapi bótakröfu á borgina ætti ekki að axla einhverja ábyrgð, hvort ekki ættu að vera einhverjar afleiðingar t.d. að viðkomandi starfsmaður greiðir sjálfur bæturnar, alla vega hluta þeirra. En þessi vinkill er svo sem ekki hluti af verkefnum þessa starfshóps sem hér er lagt til að verði settur á laggirnar.

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundarráðs við fyrirspurn um sérskólaúrræði fyrir börn í vanda:

Fulltrúi Flokks fólksins veit að í ýmsum skjölum borgarinnar, minnisblöðum og stefnum eru fögur fyrirheit um að laga stöðu barna í borginni sem glíma við vanda og vanlíðan. Enn einn stýrihópurinn er að taka til starfa til að skoða m.a. þessi mál. Vandinn er kannski sá að of mikið er talað og of lítið er framkvæmt. Hvorki skrif né tal um áætlanir og aðgerðir skilar barni bættri líðan og/eða aðstæðum. Staðreyndir tala sínu máli og þær hafa komið fram í viðtölum við foreldra sem segja farir sínar ekki sléttar í samskiptum sínum við skólayfirvöld í borginni. Borgarfulltrúi hefur auk þess rætt við marga foreldra sem segja að börn sín séu í aðstæðum þar sem styrkleiki þeirra fá engan vegin notið sín og þar sem þeim líður illa. Kennarar í þessum tilfellum er settir í ólíðandi aðstæður enda brenna margir hreinlega út. Það mæðir mest á kennurum þegar ótal margir foreldrar spyrja um hvenær barn fái aðstoð sem e.t.v. er búið að bíða eftir sérfræðiþjónustu eða öðru skólaúrræði í á annað ár. Ráðgjafarteymi- og svið Brúarskóla eru sannarlega að bjarga miklu en ná kannski aðeins að sinna alvarlegustu tilfellunum.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um greiðslur til EFLU sem nema á 4. milljarð á 10 árum:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst sérstakt að borgin hafi greitt á 10 árum tæpa 3.7 milljarðar til eins fyrirtækis, EFLU. Þetta gerir að meðaltal 300 milljónir á ári sem samsvarar árslaunum 6-10 sérfræðinga. Fulltrúi Flokks fólksins stóð í þeirri meiningu að í borginni starfi hópur af sérfræðingum sem gætu sinnt eitthvað af þessum verkum sem EFLU er falið að sinna. Er vandamálið það að það skorti sérfræðinga hjá borginni? Ef svarið við því er nei þá læðist að sú hugsun hvort þetta sé merki um slaka og jafnvel vanhæfa stjórnsýslu. Það væri klárlega mun ódýrar að einfaldlega ráða hæfa verkfræðinga til borgarinnar sem sinnt gætu þessum verkum sem keypt er af EFLU eða alla vega stórum hluta þeirra.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn er varðar skilamat vegna framúrkeyrsluverkefna:

Flokkur fólksins vill bóka við svar borgarinnar við fyrirspurn um skilamat vegna framkvæmda við Gröndalshús, Braggans, Hlemm, Mathallar og fleiri framúrtökuverkefni. Fram kemur að ekki á að gera skilamöt vegna þeirra verkefna sem tilgreind eru í fyrirspurninni. Fulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju ekki? Hvað er verið að fela? Það nægir ekki að vísa einungis til úttekta innri endurskoðunar. Í þessum málum sem voru háalvarleg er mikilvægt að upplýsa um allt sem óskað er eftir að verði upplýst og þar með talið að gera skilamat. Sífellt er talað um að auka gegnsæi og skýrleika en þegar á reynir er því einmitt hafnað. Nú er liðinn talsverður tími síðan braggamálið kom upp og mikilvægt að leggja öll spil á borðið sem tengjast því vandræðamáli og hinum málunum einnig.

Tillaga Flokks fólksins að skóla- og frístundarsvið í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að auka notkun endurskinsmerkja þar sem öryggi barna er ábótarvant í umferðinni m.a. vegna umferðaröngþveitis

Flokkur fólksins var nýlega með tillögu þess efnis að Reykjavíkurborg gefi grunnskólabörnum í Reykjavík endurskinsmerki. Með slíkri gjöf væri borgin að stuðla að auknu öryggi barna í umferðinni. Einstaklingur með endurskinsmerki sést fimm sinnum fyrr þegar það lendir í ljósgeisla bíls miðað við þann sem er ekki með endurskinsmerki. Tillagan var felld. Flokkur fólksins leggur til í framhaldinu að skóla- og frístundarráð í samvinnu við skólasamfélagið leiti leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Öryggi barna í umferðinni er víða ábótavant í borginni og kemur m.a. til vegna þess að skipulagsyfirvöld vilja ekki lagfæra umferðaragnúa þar sem þeir eru verstir og skapa mögulega slysahættu. Sem dæmi mætti öryggi með bættari ljósastýringu og fjölgun göngubrúa þar sem þeim verður við komið. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engan vegin verið tekið nægjanlegt tillit til aukinnar umferðar ásamt fjölgun íbúa. Það þolir enga bið að hugað verði að velferð gangandi vegfarenda. Börnin eru í sérstakri hættu, þau sjást verr og skynjun þeirra á umhverfinu ekki fullmótuð. R19110131

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins til stýrihóps sem lagði til að stytta opnunartíma leikskóla og til skóla- og frístundarsviðs m.a. vegna jafnræðismats og vinnu stýrihópins:

Flokkur fólksins sér margar mótsagnir í málflutningi um opnunartíma leikskólanna. Grundvallarvandinn er mannekla og undirmönnum sem meirihlutinn hefur ekki viljað leysa málið. Til að leysa málið þarf að setja fjármagn í málaflokkinn svo hægt sé að ráða fólk. Talað er um álag og að það minnki mikið álag að stytta tímann en samt sagt að aðeins örfá börn séu fyrsta og síðasta hálftímann? Hér slær nokkuð úr og í og eru ekki allir leikskólakennarar á sama máli. Af hverju má ekki nota Afleysingastofu til að dekka þennan tíma? Verið var að samþykkja að víkka út Afleysingastofuna og er því vel hægt að fá afleysingu á dag basis eftir þörfum en ekki að afleysing sé aðeins notuð til að leysa af í veikindum. Sagt að þeir foreldrar sem þetta kemur illa við fái aðlögunartíma, en hvað gerist eftir að sá tími er liðinn? Sumir leikskólar eru með styttri opnunartíma, hvað gera foreldrar þar sem þurfa lengri tíma? Talað er um mótvægisaðgerðir, hvernig eiga þær að vera? Á að finna millivistun fyrir barnið, ætlar félagsþjónustan að reyna að semja við atvinnurekanda fyrir þessa foreldra sem lenda í vanda? R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. vinnu stýrihóps um styttingu opnunartíma leikskóla

Það er mat Flokks fólksins að stýrihópurinn hefur verið leiddur í gildru. Spurt er hvort þeim hafi ekki fundist vanta að heyra rödd foreldra, hafa þá með í ráðum? Gerði hópurinn ekki athugasemdir við það? Treystir meirihlutinn og skóla- og frístund ekki foreldrum til að mæta þörfum barna sinna t.d. ef barni líður illa síðasta klukkutímann? Margir foreldra biðja t.d. ömmur og afa að grípa inn í séu þau til staðar til að sækja barn sem er leitt og þreytt á leikskólanum síðasta klukkutímann? Ætlar meirihlutinn að leysa mannekluvandann og undirmönnun á leikskólum með því að ráðast að rót vandans en rót mannekluvanda eru lág laun í leikskólum? Þetta er allt spurning um launin og starfsmenn leikskóla eru á launum sem ekki er hægt að lifa af enda á leið í verkfall. R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar m.a. jafnréttismat:

Gera á jafnréttismat í tengslum við ákvörðun um styttingu opnunartíma leikskólanna. Það er afar mikilvægt í öllum málum þar sem það á við að gera jafnréttismat. Flokkur fólksins hefur áhuga á að fræðast meira um slíkt mat og spyr eftirfarandi: hver verður kostnaður við þetta jafnréttismat? Hefði það ekki átt að vera gert áður en þessi ákvörðun var tekin? Hvernig mun jafnréttismat fara fram? Eftir að jafnréttismati er lokið, hvað á að gera fyrir þá foreldra sem geta alls ekki sótt börn sín á leikskólann fyrr en kl. 17? R20010252

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fyrirspurnir Flokks fólksins er varðar skil upplýsinga um niðurstöður skoðunar heilsugæslu til skóla í þeim tilfellum sem niðurstöður gefa sterkar vísbendingar um að barn muni eiga við lestrar- og lesskilningsvanda:

Fulltrúi Flokks fólksins fýsir að vita hvernig skilum á upplýsingum um niðurstöður skoðunar heilsugæslu er háttað til skólanna í Reykjavík um börn sem við skoðun á heilsugæslu greinast í áhættuhópi barna sem munu eiga í erfiðleikum með lestur- og lesskilning. Það er mikilvægt að skólar fái strax þessar upplýsingar, með leyfi foreldra að sjálfsögðu, til að hægt sé að veita börnunum snemmtæka þjónustu. Sé það ekki gert eiga þau á hættu að þróa með sér djúpstæðan vanda í lestri og lesskilningi með tilheyrandi vanlíðan. Eins og allir vita þá er ekki nóg að kunna tæknilega að lesa ef lesskilningur fylgir ekki með. Að þessu þarf sérstaklega að huga að ef í ljós kemur að barn á í vanda með lestur. Þau börn þarf að halda sérstaklega utan um. Spurt er einnig: 1. Fá kennarar tækifæri til að sinna þessum börnum sérstaklega? 2. Fá þessi börn forgang í sérkennslu? 3.Hvernig er árangur mældur? 4. Fá foreldrar verkfæri til þess að styðja við börnin sem metin hafa verið í áhættu af heilsugæslunni á að vera með lesvanda? R20010302

 

Borgarstjórn
21. janúar 2020

Umræða um niðurstöður PISA 2018 og frammistöðu íslenskra nemenda í lesskilningi (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins)

Grein lögð til grundvallar málflutningi:

Leshraði á kostnað lesskilnings?

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkvæmt niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA árið 2015 en þó hefur nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings fjölgað hlutfallslega. Þriðji hver drengur og fimmta hver stúlka mælast ekki vera með grunnhæfni í lesskilningi. Áleitin spurning er hvort læsisstefna stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga og metnaðarfullar áætlanir séu byggðar á réttum forsendum og áherslum? Hvað er verið að gera rangt?

Lesfimi/hraði

Lestrarferlið er byggt á mörgum samverkandi þáttum þ.m.t. tungumálinu. Vitað er að ef börn sem byrjuð eru að lesa, þjálfa ekki lestur reglulega er hætta á að þau tapi lestrartækni. Kanna þarf með reglubundnum hætti hvort árangur sé ekki ávallt að batna. Slíkar mælingar þurfa ekki að vera miðstýrðar. Markmiðið er að börn verði læs og skilji,  til að hafa gagn og gaman af lestri.

Nú leggur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mikla áherslu á leshraða (lesfimi) og mælingar á honum. Frá því í september 2017 hefur Mennta­mála­stofn­un (MMS) mælt með að skólar mæli leshraða hjá börnum í 1. til 10. bekk. Rökin eru þau að nemendur með góðan leshraða hafi yfirleitt góðan lesskilning. En þetta er kannski ekki alveg svo einfalt því árangur á hraðlestrarprófi segir ekkert til um lesskilning einstaklings. Niðurstöður sýna aðeins hversu hratt lesandinn getur bunað út orðum. Leshraði er til lítils ef barn skilur ekki efnið sem það les. Barnið sem ekki skilur efnið er verr sett en barn sem les hægt en hefur ágætan lesskilning. Hjá stofnuninni (MMS) var einnig byrjað að vinna lesskilningspróf en þeirri vinnu var víst aldrei lokið.

Lesskilningur

Lesskilningur byggir á samspili fjölda ólíkra vitsmunaþátta og er samtengdur tungumálinu. En það gefur augaleið að til að skilja lesefni þarf að geta lesið það. Fyrst er því að ná tökum á umskráningu. Umskráning er færni til að breyta bókstöfum orða í viðeigandi málhljóð og tengja þau saman til að mynda orð. Án umskráningar verður enginn lestur. Ekki ber öllum saman um hvenær nákvæmlega í lestrarferlinu sé best að leggja áherslu á lesskilning. Einhverjir tala um að lesskilningur sé  lokatakmark þess sem les sem er afar sérkennilegt. Lesskilningur er auðvitað ekkert lokatakmark heldur má segja að lesskilningur hefjist um leið og barnið fæðist enda byggir hann á tungumálinu.

Eins mikið og búið er að rannsaka lestur finnast ekki margar rannsóknir á  undirstöðuþáttum lesskilnings og hvaða þættir vega þar þyngst. Á meðan hvatt er til að skólar mæli leshraða er e.t.v. ekki  eins mikil áhersla á samræmdar mælingar á orðaforða, stafsetningu og lestur á sjónrænum orðaforða. Í það minnsta er ekki verið að semja lesskilningspróf um þessar mundir að vitað sé.  Því má spyrja hvort áherslan sé meira á mæla lesfimi á kostnað áherslu og mælinga á lesskilningi? Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir að lesskilningur „bara komi“ hjá börnum þegar þau ná auknum hraða.

Hraðlestrarpróf valda sumum börnum kvíða og álagi

Menntamálastofnun hefur sett ákveðin lesfimiviðmið sem sýna  fjölda rétt les­inna orða á mín­útu. Ung­ling­ur sem hef­ur lokið 10. bekk hef­ur farið í gegn­um 30 mæl­ing­ar á les­hraða á 10 ára skóla­göngu. Spyrja má hvaða áhrif slík­ar end­ur­tekn­ar mæl­ing­ar hafi á lestraráhuga. Enda þótt lesefnisviðmiðin séu e.t.v. almennt ekki ósanngjörn eru þau of há fyrir mjög mörg börn. Í hópi barna er lestrarfærni þeirra mismikil. Sum börn ná einfaldlega ekki miklum hraða í lestri og ná ekki hraðaviðmiðunum Menntamálastofnunar. Vandamál með lestur geta átt rætur að rekja til ótal þátta þ.m.t. undirliggjandi leshömlunar eða annarra frávika.

Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða íhlutun/þjónustu þar sem þess er þörf. Hraðlestrarsamanburður getur almennt séð verið vafasamur, ekki einungis fyrir börn sem standa höllum fæti heldur einnig þá sem ná viðmiðum. Börn sem standa höllum fæti fá sífellt þau skilaboð að frammistaðan sé ekki nægilega góð jafnvel þótt hún batni. Að sama skapi getur verið að börn sem standa vel að vígi upplifi að þar sem þau séu búin að ná markmiðum þurfi þau  ekki að bæta sig frekar.

Eggið eða hænan

Hægt er að vera sammála um að til að læra að lesa þarf þjálfun og til að lestur gagnist þarf skilning. Reynsla mín af þessum málum er að það verður að byrja að þjálfa lesskilning um leið og umskráningartækni er náð án tillits til hraða eða lestrarlags. Því fyrr sem barnið skilur lesefnið því meiri áhuga hefur það á lestri og mun lesa meira sem eykur enn frekar hraða og skilning. Barn finnur síðan þann hraða sem passar fyrir það.  Þegar barn byrjar að læra að lesa þarf að hefja tengingu við skilning. Lesi barnið orðið sól þá þarf að spyrja: hvaða orð varstu að lesa og hvað merkir það? Og svona gengur þetta koll af kolli. Barn hljóðar sig í gegnum orð og setningar og athygli þess er strax beint að inntaki textans.

Hvað skiptir máli þegar upp er staðið?

Hvað þarf að gera til að auka lesskilning íslenskra barna? Svarið er að leggja meiri áherslu á lesskilning og að Menntamálastofnun vinni lesskilningspróf. Þessi mál væru ekki í umræðunni nema vegna þess að íslensk börn eru að koma ítrekað illa út úr PISA. Þetta er óásættanlegt ekki síst vegna þess að á Íslandi getum við státað okkur af stórkostlegu kennaraliði auk þess sem við eigum gagnreynt kennsluefni eins og Leið til Læsis með tilheyrandi skimunarprófum. Það gæti hins vegar verið vöntun á enn frekara kennsluefni með mismunandi erfiðleikastig. En ráðandi öfl eru einfaldlega ekki á réttri leið. Auðvitað má velta fyrir sér hvort hlustað sé á rétta fólkið?

Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur og borgarfulltrúi Flokks fólksins
Greinin var birt í Fréttablaðinu 17. janúar 2020

Umræða um styttingu á opnunartíma leikskóla (að beiðni borgarfulltrúa Miðflokks, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins):

Bókun Flokks fólksins við umræðu um niðurstöður PISA:

Frammistaða íslenskra nemenda í lesskilningi samkv. niðurstöðum PISA hefur ekki breyst marktækt frá síðustu könnun PISA. Nemendum sem ekki ná grunnhæfniviðmiðum lesskilnings hefur fjölgað hlutfallslega. Í nýrri menntastefnu til 2030 eru lausnir á þessum vanda ekki ávarpaðar. Augsýnilega hefur eitthvað brugðist í les- og lesskilningsstefnu og framkvæmdum í því sambandi hjá ríki og borg. Skóla- og frístundarsvið veit að lesskilningur er ekki ófrávíkjanlegt framhald af leshraða. Í hópi barna er lestrarfærni mismikil. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Strax og börnin hefja skólagöngu er því hægt að hefja einstaklingsmiðaða þjónustu við börn sem þess þurfa. Mæla þarf árangur með reglulegum hætti. Samvinna skólasviðsins við heilsugæslu liggur ekki fyrir. Leggja þarf meiri áherslu á lesskilning og slaka á með áherslu á hraða og í því sambandi þarf skólasvið borgarinnar að leggja skýrar línur. Þjálfun er vissulega forsenda alls þessa en hvert barn finnur sér sinn hraða. Veita þarf kennurum svigrúm, sveigjanleika og næði til að nýta það efni sem þó er til og fylgja nemendum sínum eftir.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokks um fallið verði frá skerðingu á þjónustutíma leikskóla og opnunartími settur í hendur leikskólanna sjálfra:

Tillaga Sjálfstæðismanna um að opnunartími leikskólanna verði á ábyrgð leikskólann með þarfir foreldra í huga er erfið í framkvæmd. Flokkur fólksins sat því hjá við málsmeðferðartillögu meirihlutans um frávísun. Flokkur fólksins var með breytingartillögu þess efnis að fresta skuli ákvörðun sem þessari og nota tímann til að leysa mannekluvandann með því að bjóða starfsmönnum betri kjör. Aðstæður eru ólíkar hjá foreldrum og hætta á mismunun nema öllum standi til boða sami opnunartíminn. Rót vandans er mannekla vegna þess að launin eru lág og álagið mikið. Væri launin hækkuð og störfin t.d. vaktaskipt myndi álagið minnka. Fleiri myndu sækja um og mannekluvandi væri úr sögunni. Þá fyrst gætu leikskólar sinnt sínu hlutverki í þágu barna og foreldra og hagað mönnun þess vegna þannig að opnunartími haldist eins þrátt fyrir styttingu á vinnuviku, t.d. með því að hluti starfsmanna mætti fyrr og hætti snemma og hluti mæti seint og hætti við lokun. Eins og breytingartillaga Flokks fólksins fjallar um þá er leiðin ekki að setja þetta á herðar leikskólanna heldur fresta ákvörðun sem þessari þar til stytting vinnuviku liggur fyrir. Nota á tímann til að vinna í launamálum, vaktamálum og gera störf leikskóla enn meira aðlaðandi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi breytingartillögu sem miðast að því að fresta ákvörðun skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör:

Að borgarstjórn Reykjavíkur samþykki að fresta ákvörðun um skerðingu á þjónustutíma leikskóla Reykjavíkur þar til ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar liggur fyrir og leggi þess í stað áherslu á að leysa mannekluvanda leikskólanna með því að bjóða starfsmönnum þar betri launakjör. Vitað er að það eru hagsmunir barna og foreldra að vera sem mest saman. Hópur foreldra, ekki síst einstæðra, munu lenda í vandræðum þegar opnunartími leikskólanna styttist um hálftíma. Ekki allir geta unnið vinnu sína með sveigjanlegum hætti. Líkur eru því að með þessari ákvörðun munu einhverjar foreldrar missa vinnu sína eða lækka í launum. Ekki dugar að setja ábyrgðina um sveigjanleika á herðar leikskólanna eins og Sjálfstæðisflokkur leggur til heldur þarf borgin fyrst að vinna þessa tillögu í samvinnu við atvinnulífið t.d. samhliða ákvörðun um styttingu vinnuvikunnar. Rót vanda leikskólanna er mannekla og rót mannekluvandans eru kjör leikskólakennara. Lítið pláss og mannekla einkennir leikskóla og það hefur neikvæð áhrif á börn og starfsfólk. Það ætti að vera áherslan að tryggja að slíkar aðstæður séu aldrei til staðar í leikskólastarfi. Þetta þarf að vinnast í frekari sátt við foreldra. Safna þarf meiri gögnum og vinna undirbúningsvinnuna betur. Ríkuleg gæðasamvera barna og foreldra er mikilvæg en það þýðir ekki að fjarvera barns frá foreldrum sé slæm. R20010279

Breytingatillagan kom ekki til afgreiðslu þar sem málsmeðferðartillaga meirihlutans var að vísa tillögu Sjálfstæðisflokksins frá.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um styttingu opnunartíma leikskóla að beiðni allra flokka í minnihluta:

Er meirihlutinn að guggna á þessari ákvörðun sinni? Það væri óskandi enda ákvörðun sem tekin er undir fölsku flaggi. Börnunum og samverustund þeirra með foreldrum sínum er beitt til að fela vangetu og skort á vilja meirihlutans að leysa mannekluvanda leikskólanna. Meirihlutinn vill ekki fjármagna bætt laun og aðstæður leikskólakennara. Foreldrana átti bara að hunsa. Svona breyting þarf að vera tekin í takt við atvinnulífið og umræðuna um styttingu vinnuvikunnar sem nú er eitt helsta baráttumál verkalýðshreyfingarinnar í þeim kjarasamningaviðræðum sem nú standa yfir. Rökin fyrir ákvörðunni er sett í tilfinningalegan búning, hvað sé barninu fyrir bestu. Um það er einfaldlega enginn ágreiningur. Sjái foreldrið að 9 tímar eru erfiðir barninu bregðast margir foreldrar við því með því að sækja það fyrr alltaf þegar þau geta. Skóla- og frístundarráð á ekki að ala upp foreldra. Aðstæður foreldra eru mismunandi. Þess vegna er rúmt val nauðsynleg. Þessar kerfisbreytingar munu leiða til aukins ójafnvægis og álags ekki síst hjá einstæðum foreldrum sem þurfa að leita annarra leiða ef daglegur vinnutími fellur ekki nákvæmlega að opnunartíma leikskólans.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar:

Þétting byggðar er aðaláhersla meirihlutans í miðju umferðaröngþveiti miðbæjarins. Er ekki nær að byrja á umferðarmálunum áður en byggð eru síldartunnuhverfi, hverfi sem fólk kemst varla inn eða út úr. Fólk lokast af á sama bletti, kemst orðið illa inn og út úr miðbænum því ekki eru allir svo heppnir að vinna við hliðina á heimili sínu. Fólk hefur ólíkar þarfir og væntingar. Enn eru þeir til sem ala þá von í brjósti að fá lóð til að byggja sitt eigið hús. Er það liðin tíð? Einnig er ómögulegt að fá iðnaðarhúsnæði í Reykjavík annars staðar en á Esjumelum. Í dag er ekki til húsnæði fyrir alla. Síðastliðinn október voru 267 á biðlista eftir hjúkrunarými á höfuðborgarsvæðinu, 560 bíða eftir hvíldarinnlögn. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða enn 162. Aðeins er um 99 rými að ræða við Sléttuveg fyrir eldri borgara og á áætlun er að byggja 450 íbúðir fyrir eldri borgara. Þetta dugar bara ekki til. Þjóðin er að eldast og þessi rými rétt taka biðlistann sem nú er. Sama gildir um húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða yfir 160 manns eftir slíku húsnæði en á áætlun er að byggja aðeins um helminginn af því sem þarf.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins um að bæta umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum:

Flokkur fólksins styður þessa tillögu. Umferðarmannvirki í borginni hafa tekið litlum sem engum breytingum um árabil og engann vegin verið tekið tillit til þeirra auknu umferðar á öllum sviðum ásamt fjölgun íbúa. Meirihlutinn sýnir í þessum málum fullmikinn hroka. Flokkur fólksins leggur til að stórátak verði gert í að tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á stofnbrautum. Hjá því verður ekki litið að bifreiðafloti borgarbúa hefur aukist til muna og hjólreiðar að sama skapi. Meirihluti borgarinnar hefur ekki séð neina ástæðu til að tryggja öryggi gangandi vegfarenda með því að bæta umferðarmannvirki um helstu þveranir stærstu umferðaræða borgarinnar. Enn fremur eykur það slysahættu og mengun í borginni að meirihlutinn vill ekki greiða fyrir umferðinni með bættri ljósastýringu á helstu umferðartoppum. Það þolir enga bið að hugað sé að velferð gangandi vegfarenda. Þar á meðal eru sérhvern dag fjöldi barna og eldri borgara. Er það raunverulega stefna meirihlutans í borginni að hunsa þennan vanda sem og hunsa jafnan rétt fólks til að komast á milli staða af öryggi og án óþarfa tafa?

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sósialistaflokksins um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfis:

Flokkur fólksins styður tillögu um könnun á kerfislegri áhættu vegna kvótakerfisins. Það er mikilvægt að vita um mögulegar hættur. Könnun sem þessi gæti varpað ljósi á hagnað útgerðar og hvert arðurinn fer? Það þarf ekki alltaf að bíða eftir að teikn séu á lofti heldur þarf að vera alltaf á tánum og vel vakandi þegar mikið er undir eins og í þessum málum.

Bókun Flokks fólksins við fundargerðum borgarráðs þ.m.t. ábyrgð á lántöku Félagsbústaða:

Meirihlutanum í borginni finnst ekkert tiltökumál að fljúga til útlanda á kostnað borgarbúa. Dæmi eru um að hópur embættismanna og borgarfulltrúa allt frá sama ráði/sviði og jafnvel að forseti borgarráðs og formaður úr öðru ráði skelli sér með til gamans í margra daga skoðunarferð. Hvernig væri að fara að sýna samfélagslega ábyrgð og það að þessu sinni í verki? Sambærileg tillaga liggur fyrir þinginu og býður fjármálaskrifstofa þingsins þingmönnum aðstoð sína við kolefnisjöfnuð. Kostnaður við kolefnisjöfnuð nemur um 1000 krónur per ferð. Auðvitað eiga borgarfulltrúar að greiða þetta úr eigin vasa og sýna með því viðhorf sitt í verki til mikilvægis umhverfisverndar. Ekki hefur heyrst í einum einasta þingmanni kvarta. Með þessari lántöku eru skuldir Félagsbústaða komnar í 44.5 ma.kr. Árum saman var trassað að kaupa íbúðir og lengi voru um 1000 fjölskyldur á biðlista. Á sama tíma og lítið var keypt var íbúðum heldur ekki haldið við nema til bráðabirgðar. Nú er sannarlega keypt og hefur biðlistinn eitthvað styst en leigan hefur hins vegar hækkað. En er viðhald ábótavant og kvörtunum vegna heilsuspillandi húsnæðis hefur ekki fækkað. Stjórn Félagsbústaða og velferðarsvið verður að fara að horfast í augu við ímyndavanda fyrirtækisins og almennt séð taka betur utan um leigjendahópinn.

Bókun Flokks fólksins við ýmsa liði hinna ýmsu fundargerða sem lagðar eru fram í borgarstjórn:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs frá 16. desember, 19. lið fundargerðar skipulags og samgönguráðs frá 11. desember og 16. lið frá 15. janúar og 7. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 14. janúar:

Tillaga um endurskinsmerki felld. Flokkur fólksins leggur áherslu á mikilvægi þess að leita leiða til að hvetja til aukinnar notkunar endurskinsmerkja og auka fræðslu til að tryggja enn frekari umferðaröryggi barna. Flokkur fólksins fagnar stýrihópi um frístundarkort sem vonandi tekur á agnúum kortsins þannig að það fái aftur sinn upphaflega tilgang en sé ekki notað sem gjaldmiðill fyrir pláss eða skuld við frístundaheimili. Af hverju skyldu skipulagsyfirvöld ekki vilja bæta ljósastýringu og auka flæði umferðar? Hér er um öryggi allra borgarbúa að ræða auk þess sem stórlega myndi draga úr mengun. Ljósastýring er víða í borginni í miklum ólestri. Er aðgerðarleysið af ásetningi, til að fæla þá frá sem hyggjast koma akandi í bæinn? Sú tillaga sem hér um ræðir var unnin í samvinnu við framkvæmdastjórn Kolaportsins sem saknar íslendinga sem fjölmenntu áður í Kolaportið. Hugsunin með tillögunni var að laða að fólk sem öllu jafna treystir sér ekki til að fara með bíl sinn í bílastæðahús og fá þá e.t.v. leiðsögn um greiðslukerfið. Rök skipulagsyfirvalda gegn tillögunni eru að bílastæðasjóður yrði fyrir tekjutapi. Halda þau virkilega að með því að samþykkja þessa tillögu myndu eldri borgarar fjölmenna í bæinn um helgar í slíkum mæli að rekstrargrundvelli bílastæðasjóðs væri ógnað?

Forsætisnefnd
17. janúar 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjölda viðburða, sbr. 11. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019:

Spurt var hvort það væri rétt mat að móttökum hafi fækkað. Ástæða fyrirspurnarinnar er að eftir að Flokkur fólksins hóf að gera ítrekaðar athugasemdir og spyrja áleitinna spurninga er varða kostnað í tengslum við viðburði á vegum borgarinnar var þess vænst að farið yrði í að kafa ofan í fjölda viðburða sér í lagi þeirra sem kostnaður fylgir. Í umsögn má sjá að móttökum hefur fækkað um 9 frá 2018 ef sama tímabil er borið saman 2019. Lengi hefur verið bruðlað á allt of mörgum sviðum í borginni enda þótt eitthvað minna sé um eyðslu og sóun síðustu ár, ef borið er saman við árin fyrir hrun.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu meirihlutans á tillöguum lækkun kostnaðar við útsendingu af fundum borgarstjórnar , sbr. 10. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 13. desember 2019. Einnig lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 14. janúar 2020. Samþykkt að vísa tillögunni frá:

Flokkur fólksins fagnar því að loksins eigi að leita tilboða í tæknilega þjónustu við opna fundi borgarstjórnar. Tillögu Flokks fólksins er vísað frá á þeim rökum að nú þegar hefur verið ákveðið að bjóða þjónustuna út og útboð stendur yfir. Á það skal minnst að 14. júní sl. lagði fulltrúi Flokks fólksins fram fyrirspurnir og tillögu um að leita leiða til að draga úr kostnaði á tækni- og upptökum m.a. vegna opinna funda borgarstjóra. Víst má telja að í kjölfar þeirrar vinnu hafi borgarstjóri og hans fólk talið sig knúin til að skoða þessi mál fyrir alvöru. Í bókun meirihlutans frá 14. júní við tillögu Flokks fólksins, sem var felld segir „að ávallt sé reynt að halda kostnaði vegna opinna funda og funda borgarstjóra í lágmarki. Flokkur fólksins bendir á að á þessu svari fyrir ári var greinilega ekkert í gangi með að lækka þennan kostnað og stóð ekki til að gera. Enda þótt þessi tillaga Flokks fólksins sé einnig felld nú er augljós tenging milli fyrri tillögu 2019 og að nú skuli loks eiga að leita tilboða. Vinna Flokks fólksins er vonandi að skila sér eitthvað þótt flest mál hans séu ýmist felld eða vísað frá.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu yfirlits yfir opinberar móttökur:

Í mars 2019 lagði Flokkur fólksins fram bókun þess efnis að ávallt komi fram í yfirliti sundurliðaður kostnaður við móttökur og að fram komi hver (hverjir) óskuðu eftir að móttakan færi fram og í hvaða tilgangi. Í yfirliti sem nú er birt kemur fram hvaða móttaka um er að ræða, hvar og hvenær og tengiliður hennar, sem væntanlega er þá sá sem biður um móttökuna? Tíu móttökur eru samþykktar og tveimur synjað. Kostnaður kemur fram en ekki sundurliðaður. Hvað varðar fjórar móttökur sem allar eru afstaðnar er aðeins birtur áætlaður kostnaður. Tvær af 10 móttökum kostuðu yfir 800.000. Flokki fólksins finnst þetta mikill peningur og vill enn og aftur gera kröfu um að fá að sjá allan kostnað sundurliðaðan.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins ásamt fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Hverjir sóttu kvöldverð sem útsvarsgreiðendur greiddu fyrir rúma hálfa milljón þann 1. nóvember sl. í Höfða í tilefni af samgöngusáttmála? Hver tók ákvörðun um þessa móttöku? Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra- og borgarritara.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu forsætisnefndar að almenningur geti leigt út herbergin Turn og Tjarnarbúð fyrir athafnir á borð við hjónavígslur á föstum tímum 2-3 svar í viku:

Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að allir borgarbúar eiga Ráðhúsið og hvað varðar umræðu um aðstöðu vegna athafnar-, trúar- og lífsskoðunarfélaga í Ráðhúsinu er mikilvægt að fólk fái rúmt val um hvar í húsinu athöfnin sjálf fer fram. Borgarstjórnarsalurinn á að vera meðal möguleika enda gætu margir viljað velja hann. Enda þótt athöfn fari fram í borgarstjórnarsalnum er engin þörf á að tæma hann sem er eðli málsins samkvæmt mjög erfitt. Einhverjir gætu engu að síður viljað velja þann sal fyrir athöfn sem þessa.

Borgarráð
15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana:

Flokkur fólksins leggur til að innri endurskoðun geri úttekt á hundaeftirlitinu en hlutverk innri endurskoðunar er að stuðla að hagkvæmari og skilvirkari nýtingu á fjármunum stofnana. Í ljósi megnrar óánægju með hundaeftirlit borgarinnar m.a. það árlega gjald sem hundaeigendum er gert að greiða og sem talið er að fari að mestu leyti í yfirbyggingu og laun er nauðsynlegt að innri endurskoðun fari í úttekt á hundaeftirlitinu. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld til að halda uppi hundaeftirlitinu. Hundaeftirlitsgjaldið er ekki notað í þágu hunda t.d. til að lagfæra svæðið á Geirsnefi og gera ný hundagerði. Margir hundaeigendur telja að það kunni að vera brotin lög gagnvart hundaeigendum með því að nota hundagjöld til annarra útgjaldaliða en kveðið er á um í lögum. Engar vinnuskýrslur liggja fyrir t.d. í hvað þetta fjármagn fer í. Allir vita að umfang eftirlitsins hefur minnkað og verkefnum hundaeftirlitsins hefur fækkað verulega á undanförnum árum. Árið 2019 voru kvartanir 84 en fyrir fáeinum árum margfallt fleiri. Fjöldi lausagönguhunda er varla teljandi enda sér hundasamfélagið á samfélagsmiðlum um að finna eigendur lausagönguhunda. Því er tilefni til að athuga hvort úrbóta sé þörf á starfsemi hundaeftirlitsins eða hvort tilgangur þess og hlutverk hafi ekki runnið sitt skeið á enda. R20010132

Vísað til umhverfis- og heilbrigðissviðs

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars við  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði, sbr. 48. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Í svari má sjá að þetta er svipað milli ára. Ekki er hjá því litið að þetta eru mikil veikindi. Einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Ekki liggur fyrir nein marktæk skoðun á ástæðum eða hvort þetta sé í takt við það sem gengur og gerist annars staðar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvort meirihlutinn í borginni velti því aldrei fyrir sér hvort margir séu undir ómanneskjulegu álagi og ekki þarf að hafa mörg orð um launin sem eru þessleg í mörgum störfum að ekki er hægt að lifa af þeim. Langtímaálag er víst til að veikja ónæmiskerfið. Fulltrúa Flokks fólksins finnst gæta varna í svarinu með því að segja „að athuga þarf að ofangreindar hlutfallstölur tilgreina hlutfall starfsfólks í langtímaveikindum af heildar fjölda starfsmanna“. Þetta breytir því ekki að einn af hverjum 20 er langtímaveikur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvort ekki væri skynsamlegt að fá einhverja hugmynd um hvort þarna að baki kunni að vera eitthvað sem rekja má til vinnuaðstæðna og vinnumenningar og sem vinnustaðurinn geti þá lagað til að starfsmenn eigi bestu möguleika á að halda heilsu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu um að samþykkja erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga:

Borgarstjóri og meirihlutinn brýtur odd af oflæti sínu og samþykkir erindi Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins um fyrirhugaða undirskriftasöfnun samkvæmt 3. mgr. 108. gr. sveitarstjórnarlaga. Hér er um matskennda ákvörðun að ræða sem sveitarstjórn hefur í höndum sér að ákveða samkv. 3 gr. þar sem segir að “sveitarstjórn skal innan fjögurra vikna meta hvort ákvæði 3. mgr. 108 gr. sveitarstjórnarlaga hamli því að unnt sé að krefjast almennrar atkvæðagreiðslu um málið”. Reykjavíkurborg hefði því getað synjað beiðninni og látið slag standa hvort kærur bærust sem í þessu máli hefðu klárlega borist. Þetta er auðvitað svo sjálfsagt mál enda ákvörðun sem snertir marga. Kannski skipti það máli að þessi ákvörðun var tekin að umboðsmaður borgarbúa bættist í hóp þeirra í minnihlutanum sem reyndu að koma vitinu fyrir þennan meirihluta. Umboðsmaðurinn sendi frá sér tilmæli um að ekki yrðu keyrðar áfram framkvæmdir í óþökk íbúa. Eins og vitað er hefur hvert málið rekið annað þar sem farið er í framkvæmdir þrátt fyrir hávær mótmæli og ákall um hlustun. Eiga erindin það sammerkt að lýsa neikvæðri upplifun aðilanna af meirihlutanum í tengslum við þær framkvæmdir. Snúa umkvörtunarefnin helst að skorti á árangursríku samráði og nægu upplýsingaflæði í aðdraganda framkvæmda og á verktíma eins og segir í tilmælum umboðsmanns borgarbúa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréf Félagsbústaða, dags 5. desember 2019 þar sem óskað er eftir að Reykjavíkurbor veiti einfalda ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða:

Aftur er verið að biðja um að Reykjavíkurborg veiti ábyrgð vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða að þessu sinni fyrir 3.500 m.kr. Á þetta að ganga svona áfram? Segir í erindi að óskað er eftir að eigandinn sem er Reykjavíkurborg veiti ábyrgð til tryggingar á endurgreiðslu bréfanna vegna útgáfu á árinu 2020. Þetta er sum sé í þriðja sinn sem farið er fram á slíka ábyrgð sem þessa. Með þessari lántöku fara skuldir frá 41. ma.kr upp í 44.5 ma.kr. Þótt eitt og annað hafi batnað hjá fyrirtækinu eftir að farið var að veita meira aðhald m.a. af hálfu Flokks fólksins þá er ímyndarvandi enn mikill og varla líður sá dagur að ekki berast kvartanir frá leigjendum. Sami vandi er með ástand eigna. Leigjendur segja að seint og um síðir koma viðgerðarmenn og oft aðeins plástra þann vanda sem kvartað er yfir. Fólk er enn að láta vita af veikindum vegna myglu. Félagsbústaðir kaupa eignir eins og enginn sé morgundagurinn en geta að sama skapi ekki sinnt viðhaldi né halda þau nægjanlega vel utan um leigjendurnar sem er afar viðkvæmur hópur. Meirihlutinn í borginni þarf að taka á málum Félagsbústaða í heild sinni. Leigan hækkar einnig reglulega.

 

Velferðarráð
15. janúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva.

Flokkur fólksins leggur til að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Mörg dæmi, m.a. nú um jól og áramót, koma upp utan opnunartíma þjónustumiðstöðva sem leigjendur vita ekki hvernig bregðast á við. Hér getur verið um erfið tilvik í stigagöngum, erjur milli leigjenda og jafnvel alvarlegar uppákomur sem tengjast einum eða fleiri leigjendum. Um er að ræða stigaganga/hús þar sem Félagsbústaðir eiga íbúðir að stórum hluta eða öllu leyti. Sambærilegar kringumstæður komu upp um síðustu jól. Í þessum aðstæðum sem eiga sér stað utan hefðbundins opnunartíma eiga leigjendur enga möguleika á að fá aðstoð. Það dugar ekki að segja við fólk að það verði bara að bíða þar til þjónustumiðstöð opni. Sum þessara mála eru að koma upp ítrekað og sem þjónustumiðstöð hefur ekki getað leyst jafnvel þótt hún hafi unnið að því. Stundum eru aðstæður þannig að mál þola ekki neina bið og því ekki viðeigandi að segja viðkomandi að leita til síns ráðgjafa þegar stofnun opnar næst. Ef mörg vandamál koma upp af því tagi sem hér er vísað í er alveg ljóst að verkferlar, virka ekki sem skyldi. Eitthvað annað þarf því að koma til.

Greinargerð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum málum og finnst sem meirihlutinn í borginni sé ekki að taka þau nógu alvarlega. Finna þarf nýjar leiðir til að mæta vanda af þessu tagi. Vissulega mun það kosta aukafjármagn nema hægt sé að hagræða og skipuleggja með þeim hætti að sparnaður hljótist af án þess að skerða skilvirkni og þjónustu. Hér er um að ræða tillögu um teymi e.t.v. þriggja aðila sem taka það að sér að svara kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Gert er ráð fyrir að teymið mæti á staðinn og reyni að milda aðstæður, róa aðila, ræða við leigjendur eða annað sem þarf að gera eftir því hvernig málum er háttað. Þurfi aðstoð lögreglu muni umrætt teymi hafa milligöngu um það ef óskað er. Eins og staðan er í dag geta leigjendur hvergi leitað ráðgjafar eða stuðnings ef upp koma mál sem varða aðra leigjendur og þurfa þeir þá að bíða jafnvel dögum saman eins og um hátíðir við óviðunandi aðstæður þar til þjónustumiðstöð opnar. Allur gangur er þá á hvort þeir þá fái lausn mála sinna yfir höfuð. Í mörgum tilfellum myndi nægja að veita ráðgjöf og róa leigjendur t.d. ef hræðsla hefur gripið um sig. Í sumum tilfellum þarf að ganga lengra. Flokkur Fólksins telur að þetta sé eitt af þeim hlutverkum sem rekstraraðili leiguhúsnæðis eins og Félagsbústaðir þurfa að sinna. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit.

Fyrirspurn Flokks fólksins  um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðarsviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna samþykkis að vísa drögum að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra í umsögn  helstu hagsmunaaðila og fulltrúum notenda:

Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði samþykkir að drög að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra fari í umsögn. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á að jafnræði verði ávallt haft að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að boðið verði upp á sem mesta valið í þessu sambandi. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir enda ekki stjórnavalda að segja til hvernig lífsstíll annarra á að vera. Muna þarf að enginn ákveður upplifun annarra eða getur sagt til hvað öðrum hentar.

Bókun Flokks fólksins ram umsókn um styrk úr jöfnunarsjóði til að gera könnun á framlagi sjóðsins til Reykjavíkurborgar til málaflokks fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að vekja athygli á því hve lítið Reykvíkingar fá úr sjóðnum miðað við framlög. Sjóðurinn var í rauninni stofnaður til þess að nýta stærðarhagkvæmni höfuðborgarsvæðisins til að greiða niður þjónustu á svæðum þar sem smæð samfélaga leiðir til minni tekna + dýrari þjónustu. Það er náttúrulega gagnrýnisvert hversu oft hefur verið staðið illa að framkvæmd sjóðsins og reglugerðum og lagagrundvelli að baki honum, en flest dómsmálin hafa snúið að því að sjóðurinn væri ekki að greiða nógu mikið til smærri sveitarfélaga. Í rauninni þyrfti að breyta lögunum til að jafna hlut Reykjavíkur. Reykjavík getur náttúrulega ályktað að sjóðurinn styðji ekki nóg höfuðborgina og að það þurfi að breyta lögum til.

 

Skipulags- og samgönguráð
15. janúar 2020

Bókun Flokks fólksins við frávísun tillögu Flokks fólksins um flutning biðstöðvar Strætó bs. frá Hagatorgi til Birkimels
Vísað að frá með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúa sjálfstæðisflokksins sitja hjá

Hringtorg eru hönnuð fyrir umferð í borgum þá aðallega í tvennum tilgangi, til að minnka slysahættu og til að greiða fyrir umferð. Vel hönnuð hringtorg eru oft borgarprýði, það má sjá í mörgum evrópskum borgum, stolt margra borga. Það má með sanni segja að Hagatorg sé borgarprýði og er eitt af glæsilegustu hringtorgum borgarinnar, m.a. standa við torgið merkar og fallegar byggingar. Að staðsetja stoppistöð strætó inn á mitt torgið og hraðahindranir er ótrúlegur misskilningur hjá öllum þeim sem að verkefninu hafa komið. Til viðbótar skapar staðsetning á stoppistöð inni í miðju hringtorgi auka slysahættu og hindrar flæði umferðar um það sem einmitt var tilgangur hönnunar þess, þ.e. hringtogsins.

Bókun Flokks fólksins (lögð fram í borgarráði 16.1) við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum borgarinnar um helgar, n.t.t.. frá kl. 17:00 á föstudegi til kl. 00:00 aðfararnótt mánudags:

Meirihlutinn í skipulagsráði hefur fellt tillögu Flokks fólksins um að eldri borgarar fái að leggja frítt í bílastæðahúsum um helgar. Rökin eru að tillagan kalli á tekjutap bílastæðasjóðs. Hér má benda á að bærinn hefur tæmst af Íslendingum og þ.m.t. eldri borgurum. Þeim finnst aðgengi flókið, erfitt að fá stæði og eiga erfitt með að átta sig á nýjum stöðumælum. Það er sorglegt að sjá hvernig miðbærinn er orðinn að draugabæ nema á tyllidögum. Kannski fáeinir eldri borgarar hefðu nýtt sér frí stæði í bílastæðahús bæjarins hefði þessi tillaga orðið að veruleika og því enginn ástæða fyrir meirihlutann að óttast að bílastæðasjóður beri stóran skaða af þótt þessi tillaga hefði verið samþykkt.

Tillaga felld með fjórum atkvæðum: fulltrúa Pírata, fulltrúa Samfylkingarinnar og fulltrúa Viðreisnar. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun vegna málsins í borgarráði:

Miðborgin hefur aldrei verið eins lifandi og nú. Fjöldi verslana og þjónustu hefur aldrei verið eins mikill og viðskipti blómstra sem aldrei fyrr. Áherslur meirihlutans á gott aðgengi gangandi og hjólandi að miðborginni bera árangur en rannsóknir sýna að slíkar aðgerðir draga að meiri verslun og meiri viðskipti. Mikill fjöldi eldri borgara býr í miðborginni og komast þeir leiðar sinnar með ýmsum hætti. Bílastæðahúsin í borginni eru fjölmörg og bílastæðagjöld eru hófleg. Eldri borgarar sem vilja koma í miðborgina geta gert það með því að leggja í bílastæðahúsin, taka strætó eða ganga – allt eftir aðstæðum viðkomandi. Sjálfsagt er að leita leiða til að auka nýtingu í bílastæðahúsum en ekki er hægt að styðja tillögu um að gefa fólki ókeypis aðgang að bílastæðum, óháð staðsetningu stæðanna eða aldri vegfarenda. Hópurinn sem hér um ræðir er þó nokkuð stór og myndi tillagan líklega kalla á umtalsvert tekjutap bílastæðasjóðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Í þessari bókun meirihlutans gegn bókun Flokks fólksins um að eldri borgurum verði boðið að leggja frítt í fáeina klukkutíma um helgar í ákveðnu bílastæðahúsi í miðbænum er aftur komið inn á meint fjárhagstjón bílastæðasjóðs ef þessi tillaga yrði að veruleika. Áhyggjur meirihlutans ganga allar út á krónu og aura en snúa að engu leiti að eldri borgurum í þessu sambandi. Væri ekki nær ef meirihlutinn er svona upptekinn af miklum skaða bílastæðahúss í þessu sambandi að reyna að minnka yfirbyggingu bílastæðasjóðs, skipuleggja starfsemina þar kannski með öðrum hætti eða reyna að finna leiðir til að hagræða? Þessi tillaga er hugsuð sem hvati til að fá þennan hóp í bæinn, en eldri borgarar hafa mikið til yfirgefið þetta svæði og það ekki af ástæðulausu. Sjá hefði mátt fyrir sér að vel yrði tekið á móti þessum hópi og að hann fengi kannski kynningu á bílastæðahúsinu og þar með greiðslukerfi þess. Það er óþarfa hræðsla hjá meirihlutanum að halda að eldri borgarar kæmu í slíku fjölmenni þessar fáu klukkustundir um helgar að rekstrargrundvöllur bílastæðahússins sem um ræddi væri kannski bara brostinn.

Bókun  Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar úr eigin vasa:

Tillaga um kolefnisjöfnuð úr eigin vasa hefur verið vísað frá af meirihlutanum í skipulags- og samgönguráði á þeim rökum að fagráð setji ekki reglur um hvernig fólk ráðstafi launum sínum. Flokkur fólksins spyr hvort meirihlutanum finnist borgarfulltrúar merkilegri en alþingismenn? Sambærileg tillaga hefur verið lögð fram á þingi af forseta Alþingis. Meirihlutinn ferðast á kostnað borgarbúa á sama tíma og hann kvartar yfir mengun frá bílum. Það er ekki nóg að setjast á hjólið og telja sig þá vera búinn að leggja sitt af mörkun til umhverfismála.

Bókun meirihlutans:
Ekki gengur að borgarstjórn eða fagráð borgarinnar setji reglur um það hvernig fólk eigi að ráðstafa launum sínum, sama hvert fólkið er eða sama hve göfugur tilgangur útgjaldanna kunni að vera.

Tillögunni vísað frá

Bókun Flokks fólksins við deiliskipulagi Tryggvagötu

Flokkur fólksins lýsir furðu sinni að í nýju skipulagi við Tryggvagötu þar sem öll bílastæði verð þurrkuð út og þannig skerða aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum sem eru við götuna, þá sérstaklega eldri borgara. Einnig mun það gera vissri starfsemi Listasafn Reykjavíkur erfiðar um vik, þá sérstaklega þeirra listamanna og annarra sem koma að og sinna starfsemi þeirrar stofnunnar. Smátt og smátt virðist stefna meirihlutans að þurrka út einkabílinn í miðborg Reykjavíkur og stæðum fyrir þá, en felur svo einkaaðilum að starfrækja bílastæðageymslur sem staðsettar eru á svæðinu. Bent skal á að stæðaleiga í þessum bílastæðageymslum er há og fælir borgara annarra hverfa að sækja í miðbæinn hvað þá að nýta sér þá þjónustu sem þar er í boði.

Fyrirspurn Flokk fólksins um ný umferðalög um aðgengi um göngugötur þess efnis að veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang sama aðgengi og fötluðum er veitt í nýjum umferðarlögum

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi varðandi aðgengi fatlaðra um göngugötur sb. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní. Þar segir m.a. að borgaryfirvöldum ber að veita fötluðu fólki aðgengi svo það get sótt í þá þjónustu sem veitt er í göngugötum. Flokkur fólksins spyr hvort borgaryfirvöld vilji ganga enn þá lengra en lagasetningin segir til og veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang og hreyfingar sama aðgengi og fötluðum er veitt í þessum lögum. Frestað

 

9. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald:

Flokkur fólksins leggur til að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald. Ekki fást upplýsingar frá borginni um hvað margir eru eldri borgarar sem eru skráðir hundaeigendur í Reykjavík. Sagt var að tölvukerfið byði ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri eða stöðu þeirra í samfélaginu. Þessi tillaga hefur það markmið að auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að halda hund og á sama tíma hvetja þá sem gælt hafa við möguleikann að eiga hund til að fá sér hund. Árlegt eftirlitsgjald er 19.850 kr. Afsláttur er veittur hafi eigandi sótt hundahlýðninámskeið og er upphæðin þá 9.925 kr. Skráning eftir að frestur er útrunninn er 31.700 kr. Skráningargjald er 20.800. Þetta eru umtalsverðar upphæðir þegar annar kostnaður við að halda hund er talinn með, fóður, dýralæknisgjöld o.fl. Flokkur fólksins leggur til að hundaeigendur sem eru eldri borgarar og hundaeigendur sem eru öryrkjar verði leystir undan því að greiða árlegt hundagjald vegna hundsins síns. Það er sérstakt að á Íslandi þurfi fólk að greiða árlegt hundaleyfisgjald og þekkist það ekki annars staðar. Þetta er eitt af óþarfa skilyrðum og reglum sem borgin leggur á borgarbúa að mati Flokks fólksins.

Greinargerð

Það þykir flestum sjálfsagt að greiða skráningargjald fyrst þegar hundur er skráður og er það algengt í nágrannalöndum. Sú upphæð er reyndar mun lægra en hér á landi. Hvað varðar árlegt gjald, eftirlitsgjald er annað mál. Það tíðkast ekki í öðrum löndum.

Þetta gjald er 18.900 kr á hverju ári – per hund. Margir velta því fyrir sér í hvað þessir peningar eru notaðir, í þágu hverra? Í nágrannalöndum okkar er þessi peningur gjarnan notaður sem dæmi til að halda uppi gagnagrunni sem dýralæknar hafa aðgang að. Fyrir þann sem á t.d. tvo hunda á Íslandi sem lifa í 15 ár þá gæti hann þurft að greiða um 600.000 kr. í hundaleyfisgjöld. Ef borið saman við Danmörku myndi sambærilegt vera um 5.000 krónur.
Gæludýr hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Á síðustu áratugum hefur áhugi á áhrifum dýra á líðan fólks aukist. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun.
Áhugi á áhrifum dýra á fólk hefur aukist mikið hin síðari ár og ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum sem dýr geta haft á manneskjur. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks þar með talið eldri borgara. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds.

Félagsskapurinn er helsti ávinningurinn sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk jafnvel jafn sterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk,  það þarf að sjá um þá, fæða þá, hreyfa og gæla við þá. Dýr virðast því uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Það eru sterk tilfinningaleg bönd milli fólks og dýra sinna. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust og umhyggju án skilyrða. Þessi hlýja, traust og umhyggja fullnægir þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að eiga og halda hund enda ávinningurinn mikill.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lagfæringar verði gerðar á hundsvæðinu í Geirsnefi við Elliðaárvog og sá peningur sem innheimtur er með hundaskatti verði nýttur til þess:

Flokkur fólksins leggur til. Hér er um að ræða útileikvang sem hundaeigendum er ætlaður í Reykjavík. Geirsnefið er til skammar fyrir borgina vegna hirðuleysis. Það er ekkert gert til að betrumbæta þetta svæði. Þarna er vaðandi drulla og engin aðstaða fyrir fólk sem er að viðra hundana sína, svo sem bekkir og annað, til að tilla sér á, og göngustígar sem í rigningatíð eru eitt forarsvað. Hundaeigendur eru upp til hópa mjög ósáttir við að vera rukkaðir um tæp 19 þúsund á ári, fé sem rennur beint í borgarsjóð. Innheimta þessa gjalds er einsdæmi og þekkist ekki í nágrannalöndum. Það er því lágmark að gjaldið sé notað í þágu dýranna og notað m.a. til að betrumbæta aðstöðu hundaeigenda. Gjaldið er notað að stóru leyti í yfirbyggingu og rekstur hundaeftireftirlitsins. Fjölmargir telja að árlegt hundaleyfisgjald sé barn síns tíma og það eigi að fella niður með öllu. Sagt er að gjaldið sé notað til að þjónusta alla borgarbúa en engu að síður eru hundaeigendur aðeins rukkaðir. Í þessu er engin sanngirni. Reykjavík er ekki hundavinsamleg borg og tímabært að færa dýrahald borgarinnar til nútímans og í þeim efnum taka þá mið af hvernig málum er háttað í nágrannalöndum okkar. R20010132

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Fyrirspurnir er varða hundaeftirlitið og hundaeftirlitsmenn, hundagjaldið og fleira sem tengist þessum málaflokki í Reykjavíkurborg.
Fyrirspurnirnar eru unnar í samstarfi við Hundasamfélagið á fb

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar. Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er eftirfarandi upplýsinga um hundaeftirlitið, hundaeftirlitsmann og verkefni hans: Beðið er um að fá tímaskýrslur hundaeftirlitsmanna fyrir árið 2018 og 2019. Spurt er hvort aukin rafræn samskipti hafi dregið úr og breytt umfangi starfs hundaeftirlitsmanns. Ef svo er hvernig þá, með hvaða hætti og í hvað miklum mæli? Ástæða spurningarinnar er sú að með tilkomu netsins hefur almenningur tekið við mörgum verkefnum eins og að koma týndum/fundnum hundum til síns heima. Hefur verið gerð óháð úttekt á fjármálum hundaeftirlitsins t.d. af innri endurskoðanda? Hvar er hundaeftirlitið til húsa, hver á húsnæðið og hver er leigan? Í ljósi þess að kvartað hefur verið yfir hundaleyfisgjaldi Reykjavíkurborgar og það jafnvel talið vera hærra en nemi þeim kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi er spurt um hér í hvað hundaeftirlitsgjöldin fara. Óskað er eftir sundurliðun fyrir árið 2018 og 2019. hundaeftirlitið hefur fræðsluskyldu. Hvernig er þeirri fræðslu háttað til hundaeigenda? R20010132

Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Með hvaða hætti hefur hundaeftirlitið beitt sér til að fækka óskráðum hundum í borginni? Hversu oft hefur hundaeftirlitinu verið tilkynnt um lausagöngu hunda sl. 2 ár? Hversu oft og hversu margir hundar sl. 2 ár verið færðir í geymslu vegna óþæginda sem þeir valda, vegna óþrifnaðar eða vegna þess að þeir hafa raskað ró manna? Komið hefur fram að það taki mörg ár að leysa sum mál sem koma inn á borð hundaeftirlitsins. Hvernig mál eru það sem tekur fleiri ár að leiða til lykta? Ef hundaeftirlitið er með hund í geymslu getur eigandinn leyst út hund sinn og fengið reikninginn í heimabanka? Ef ekki, hverjar eru ástæðurnar? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru ekki skráðir? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru skráðir en hafa farið á hundanámskeið? R20010132

Framhald á fyrirspurnum er varða hundamál í borginni

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er upplýsinga um önnur verkefni hundaeftirlits svo sem: Hver er kostnaðurinn við að framleiða og senda ártalsmerki út á hverju ári til allra skráðra hundaeigenda og hver er raunverulegur tilgangurinn með þeim? Hver er fjöldi innkominna erinda, þ.m.t. kvartanir, á ári hverju sl. 2 ár? Hvernig eru verklagsreglur hundaeftirlitsins við vinnslu kvartana? Hver er fjöldi símtala varðandi hundamál í gegnum þjónustuver? Hver er fjöldi símtala í farsíma hundaeftirlitsmanna? Hvers vegna auglýsir hundaeftirlitið ekki fundna hunda á netinu? Hvernig er eftirlitsferðum háttað? Samkvæmt ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins voru kvartanir 79 árið 2018 og fer fækkandi samkvæmt skýrslunni og 84 árið 2019. Það kemur því á óvart að í fjárhagsáætlun sem lögð var fram í desember 2019 má sjá að árið 2019 var fjöldi kvartana 1300 og reiknað er með að árið 2020 verði þær 1400. Óskað er útskýringar á þessu. R20010132

Frekari fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Fyrirspurnir er varða hundaeigendur: Hversu margir eiga fleiri en einn hund? Hvernig er aldursdreifing hundaeigenda og hversu margir eru í hópi eldri borgara?Svar frá hundaeftirlitinu í janúar 2020: Tölvukerfið býður ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að sætta sig við að ekki sé hægt að greina hundaeigendur eftir aldri og spyr því aftur um aldursdreifingu? Hversu margir eigendur hafa farið á hundahlýðninámskeið með hund sinn og fá þ.a.l. helmings afslátt af árlegu hundaeftirlitsgjaldi? Samkvæmt gildandi gjaldskrá og hundaeftirlitssamþykkt miðar afslátturinn við hvort leyfishafi hafi sótt hundahlýðninámskeið. Þess vegna er spurt af hverju þarf eigandi að fara á námskeið með hvern hund til að fá afslátt vegna þeirra allra? Eru heimilisföng og skráningar hundaeigenda með hundaleyfi uppfærðar reglulega? Ef svo er hversu tíð er sú uppfærsla? R20010132

Öllum fyrirspurnum er varða hundamál er vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis?

Leið til læsis er stuðningskerfi sem er unnið af sérfræðingum á sviði læsis. Eins og sjá má á niðurstöðum úr nýrri PISA-könnun þá fer íslenskum börnum enn aftur hvað varðar lestur og lesskilning. Slök lestrarkunnátta og lesskilningur hefur áhrif á árangur í öðrum greinum og því er grundvallaratriði að bæta lesskilning meðal íslenskra barna.
Óskað er eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði um hvað margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis, úrræðin í handbókinni og skimunarprófin sem námsefninu fylgja, sér í lagi þegar grípa þarf til snemmtækrar íhlutunar vegna sýnilegs vanda barns með lestur og lesskilning? Leið til læsis, handbókin og skimunarprófin er gagnreynt námsefni. Rannsóknir sýna að með réttum aðferðum er hægt að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Námsefnið er úrræði fyrir nemendur sem eru í áhættu í málskilningi, orðaforða, hljóðkerfisvitund, hljóðvitund og stafaþekkingu. Leið til læsis er í eigu Menntamálastofnunar sem setti prófið inn sem hluta af Lesferli sem er samheiti yfir próf sem stofnunin hefur gefið út. Með þetta gagnreynda verkfæri er hægt að bæta lestur og lesskilning íslenskra barna fái kennarar stuðning og svigrúm til að nýta það í kennslustofunni í samvinnu við fullnægjandi sérfræðiþjónustu og teymisvinnu. R20010129

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf skóla og heilsugæslu vegna skimunar barna hjá heilsugæslu?

Fyrirspurnir um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilfellum barna sem skimast með vísbendingar um lesvanda. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistarnir Brigance og spurningalistinn PEDS. Í niðurstöðum kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Hægt er að hefja íhlutun með þessi börn strax á þessu tímaskeiði. Á Íslandi er til gagnreynt námsefni s.s. Leið til læsis, ásamt handbók og skimunarprófum. Til að hægt sé að setja íhlutun í gang þurfa upplýsingar úr skimun heilsugæslu að berast skóla og skólinn að grípa til viðeigandi aðgerða/íhlutunar. Fyrirspurnir:
1. Eru skólar í Reykjavík í formlegu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar og ef í ljós kemur í þroskamati vísbendingar um að barn komi til með að glíma við les- og lesskilningsvanda?
2. Ef svo er, hvernig er því samstarfi háttað hvað þetta atriði varðar nákvæmlega?
3. Hvernig er stuðningur og eftirfylgni við þessa nemendur tryggður í skólum Reykjavíkur? R20010131

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. desember 2019 til að minna á ný umferðarlög er varðar akstur P merktra bíla á göngugötum:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. desember 2019 til að minna á að hatursorðræða beinist einnig gegn öryrjum og eldri borgurum:

Hatursorðræða birtist með margskonar hætti og beinist að ólíkum hópum. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki er oft vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu. Hatursorðræða beinist einnig gagnvart hópum eins og öryrkjum (fólk með fötlun) og eldri borgurum sem og öðrum minnihlutahópum. Þegar rætt er um þessi mál er mikilvægt að hafa alla þessa hópa í huga.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 11. desember sem viðbrögð við bókun meirihlutans sem fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðrmálum miði að því að auka umferð:

Það er augljóst á gagnbókun meirihlutans við þessum lið sem er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um umbætur á svæði Geirsgötu og Kalkofnsvegar móts við Hörpu að meirihlutinn leggur allt í sölurnar til að strípa miðbæinn af bílum og þar með því fólki sem kemur akandi á þetta svæði. Tillagan var felld. Segir í gagnbókun þeirra að til að skapa mannvæna borg verður að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er engin bær ef ekki er þar fólk, nema þá bara draugabær. Gera þarf öllum jafn hátt undir höfði og sjá til þess að draga úr töfum allra sama hvaða ferðamáta þeir nota. Tryggja þarf einnig öryggi allra eins og hægt er án tillits til ferðamáta. Meirihlutinn og skipulagsyfirvöld hans virðast hins vegar gera í því að viðhalda umferðarteppu og gera akandi eins erfitt fyrir og mögulegt er til að halda þeim frá bænum. Halda mætti að það væri ásetningur meirihlutans að útiloka akandi fólk, fólk sem býr í efri byggðum, er utan af landi og verður að nota bíl sinn til að komast langar leiðir þar með til að sinna erindum eða vinnu í bænum. Þetta er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Til þess að skapa mannvæna borg og styrkja fjölbreytta ferðamáta er grundvallaratriði að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Tillögur Flokks fólksins miða flestar að því sama, að auka „flæði“ bílaumferðar á kostnað gangandi og hjólandi. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun til að leiðrétta misskilning meirihlutans og minna á að til að kallast bær þarf að vilja koma í hann fólk:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins er knúinn til að segja það sama því meirihlutinn í borgarstjórn leitast stöðugt við að misskilja og snúa út úr skrifum flokka í minnihlutanum. Hér er vísað í bókun í borgarráði 9. janúar undir lið 16 þar sem meirihlutinn fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum miði að því að auka bílaumferð á kostnað gangandi og hjólandi. Þetta er ekki rétt. Fólk í Flokki fólksins gengur líka og hjólar og sumir eru hreyfihamlaðir og í hjólastól. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og hver og einn ákveður sjálfur eftir þörfum og vilja hvernig hann ferðast um. Allar tillögur Flokks fólksins miðast að því að minnka tafir fyrir alla og vill að meirihlutinn sýnir öllu fólki sömu virðingu óháð því hvernig það velur að ferðast eða þarf að ferðast. Umferðartafir eru slæmar fyrir fjölmargar sakir, ekki bara vegna tafa heldur einnig vegna mengunar sem umferðarteppur valda. Allir líða fyrir stjórnleysi meirihlutans á umferðarmálum borgarinnar. Af hverju vill meirihlutinn ekki auka flæði umferðar t.d. með því að bæta ljósastýringar. Fjölmargt er hægt að gera og hefur Flokkur fólksins lagt fram margar hugmyndir en þeim er jafnhraðan fleygt.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs þrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. desember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samningi um tónleikahald í Laugardal í júní 2020. 

Á fundi borgarráðs 5. september 2019 var samþykkt að tónleikar Secret Solstice verði haldnir í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020 með sambærilegu sniði og 2019 ef samningar nást um tónleikahaldið eins og segir í framlagningu málsins. Borgarfulltrúi vill minna á ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í dalnum. Eftir þeim niðurstöðum þarf að bíða og heyra þarf einnig í öllum foreldrafélögum á svæðinu. Allir voru sammála um að betur gekk 2019 en 2018 enda mun meiri fyrirbyggjandi vinna viðhöfð. Engu að síður komu upp 40 fíkniefnamál og umsögn barst frá Þrótti að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hafi skemmt völlinn og var sagt að svæðið væri í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu í kjölfar hátíðarinnar. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs fyrir hátíðina í fyrra styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði en vill í þessari bókun viðra þá skoðun að betra væri að fundinn yrði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessari stærðargráðu heldur enn inn í miðju íbúahverfa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. nóvember 2019 á tillögum starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi:

Fram kemur í bókun kennara og skólastjóra í framlögðum gögnum að í starfshópnum hafi ekki setið fulltrúar kennara í Reykjavík þótt þeir séu lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem öðrum. Það er óskiljanlegt að lykilaðilum sé ekki boðið til samstarfs í hópi sem þessum. Hér er reyndar komin skýr staðfesting á því sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda sem fram kom í júlí 2019 að ekki sé nægjanlega hlustað á skólastjórnendur og kennara. Af reglum í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins segja að leiðbeinandi reglur verði að sjálfsögðu að vera án miðstýringar. Það er einmitt það sem felst í því að vera „leiðbeinandi“ . Leiðbeinandi reglur eru ávallt af hinu góða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað við blað um uppbyggingu íbúða í borginni sbr. 44. lið fundarg. borgarráðs 5. des. 2019:

Svarið er áhugavert fyrir margar sakir en mest vegna þess að í því segir að allar þessar upplýsingar séu einfaldlega að finna á netinu. Flokkur fólksins spyr því, til hvers var þessi bæklingur gefin út ef allar upplýsingar í honum er að finna á netinu? Segir einnig að „viðbótin -flokkunin- sem er í bæklingnum hefði einnig mátt fara á netið“ . Í svarinu segir því að 9 milljóna bæklingur var óþarfur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvað varð um yfirlýst sjónarmið meirihlutans um að draga úr sóun og óþarfa eyðslu, gæta að kolefnissporum o.s.frv. Með útgáfu þessa bæklings virðist sem þau sjónarmið hafi gleymst. Þessi bæklingur er ekkert annað en „montblað“ borgarstjóra sem vill sýna með þessu að loksins er nú farið að byggja eftir margra ára lognmollu. Vandinn er hins vegar sá, alla vega enn sem komið er, að allt of mikið er af rándýru húsnæði sem ekki selst. Þess vegna þarf borgarstjóri og meirihlutinn að bregða sér í hlutverk fasteignasala og gefa út bækling sem þennan. En borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka þeim sem svaraði og gerir sér grein fyrir að það hlýtur að vera erfitt að vera starfsmaður borgarinnar og þurfa að verja svona lagað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá Strætó bs. dags. 28. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort Strætó muni hugsanlega nota metan sem orkugjafa, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019:

Borgarfulltrúi þakkar svarið sem er frekar rýrt. Að vera aðeins með tvo metanvagna í umferð er sérstakt, þegar umfram metani er brennt í stórum stíl, engum til gagns. En eins og framkvæmdarstjóri veit þurfa þessi tvö fyrirtæki borgarinnar Strætó og SORPA að fara að tala meira saman og svsvo virðist sem það í farvatninu og það fljótt. Vandinn með allar framkvæmdir liggur í rekstrarformi fyrirtækis eins og Strætó bs. sem er þetta byggðarsamlagsform. Reykjavík ræður náttúrulega litlu ef tekið er mið af því að sveitarfélagið Reykjavík er langstærsti eigandinn. En það er ekki við framkvæmdarstjórann að sakast í þeim efnum heldur núverandi og fyrrverandi meirihluta sem ekki hafa treyst sér að skoða breytingar á þessu kerfi. Ef Reykjavík á að geta áorkað einhverju í byggðasamlögum sem borgin er jafnframt aðili að og stærsti eigandi þarf að tryggja ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá trætó bs., dags. 12. september 2019, við fyrirspurn Flokks fólksins um rafmagnsstrætisvagna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019.

Rafmagnsstrætisvagnar eru nú 14 talsins í dag. Athyglisvert er að í svari segir að fyrstu vagnarnir komu 2018 og einnig þeir síðustu. Þýðir þetta að ekki komi fleiri slíkir vagnar? Ef svarið er já og það þýði að í framhaldinu komi aðeins vagnar í flotann sem verða metanvagnar þá er það gott. Setning í svarinu: „áfram verður haldið við að gera flotann umhverfisvænan eins og fjárveiting leyfir“ er afar óljós. Hvað er verið að segja hér? Það er nefnilega hægt að vera umhverfisvænn með ýmsum hætti og hægt er að vera mis- umhverfisvænn. Vonandi velur Strætó umhverfisvænstu og hagkvæmustu leiðina til að gera flotann eins umhverfisvænan og kostur er. Ekki veitir af til að bæta upp fyrir slaka nýtingu á almenningsvögnum og á þeim vanda hafa ekki enn fundist lausnir.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við savri frá Sorpu bs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vindvél sem aðskilur plast frá öðru sorpi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019:

Enn og aftur kemur í ljós hversu undarlegt og erfitt þetta „byggðarsamlagsform“ er. Það er alltaf að taka á sig sérkennilegri myndir. Nú virðist, ef svarið er skilið rétt, að það sé í alvöru þannig að sérhvert sveitarfélag geti komið með ,,séróskir“. Vindvélin er keypt jafnvel þótt vitað er að tvö sveitarfélög vilja hana ekki en öll sveitarfélög þurfa samt að borga. Þetta virkar eins og sveitarfélag þótt stærst sé, sé haldið í gíslingu meirihluta byggðarsamlagsins sem samanstendur af litlu sveitarfélögunum. Stærsta sveitarfélagið segir nei en verður engu að síður að borga hlutfallslega mest. Flokkur fólksins hefur margrætt ókosti byggðarsamlagakerfis í borgarstjórn. Heyrast raddir minnihluta í borgarstjórn einhvern tíma í Sorpu? Ef allt væri rétt og eðlilegt í þessu máli þá ættu þau sveitarfélög sem vildu þessa vél að greiða hana sjálf en ekki hin sem ekki vildu hana. Skemmst er að minnast 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka hjá Sorpu sem Reykjavík þurfti að bera hitann og þungann af. Reykjavík greiddi það möglunarlaust eins og ekkert væri eðlilegra. Flokkur fólksins vill minna á hvaðan peningarnir koma þ.e. úr vasa borgarbúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari borgarstjóra, dags. 6. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins um greiðslur úr miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til Miðborgarinnar okkar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2019:

Bókun Flokks fólksins við svari um greiðslur úr Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar. Þessi samtök hafa fengið 50 milljónir sl. 3 ár. Þetta eru háir styrkir. Flokkur fólksins vill fá að sjá umsóknir sem liggja að baki þessum styrkveitingum til að sjá hvaða forsendur liggja að baki því að veita þessum samtökum 11 milljónir þetta ár og 50 milljónir s.l. 3 ár. Óskað er eftir að sjá umsóknir til að hægt sé að átta sig á hvaða skilyrði þessi samtök uppfylla umfram aðra sem mögulega sóttu um í þessum sjóði. Hér er verið að greiða úr sameiginlegu sjóðum borgarinnar. Bara Miðborgin okkar eru að fá 11 milljónir sem er kannski helmingur af öllum sjóðnum? Óskað er eftir að fá að vita hverjir fengu styrki sl. 3 ár, sundurliðun og ástæður fyrir þessum styrkveitingum. Óskir þessar eru settar fram í formlegri fyrirspurn.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að upplýsingar um atkvæðaskiptingu fylgi fréttatilkynningum um afgreiðslur úr borgarráði og borgarstjórn, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019.

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Það kemur ekki á óvart að meirihlutinn hafi vísað tillögunni frá þar sem kappsmál er lagt á að sem oftast haldi borgarbúar að allir séu sammála og að vel fari á með meiri- og minnihluta borgarstjórnar. Flokkur fólksins er í raun ekki að leggja annað til en að það að upplýsa borgarbúa með sem nákvæmasta hætti og í þessu tilfelli að þeir fái að vita hvernig atkvæðagreiðsla skiptist í hverju máli. Flokki fólksins finnst alltaf sérstakt þegar stjórnvald spyrnir fótum við að veita nákvæmar upplýsingar og vill frekar leggja það á almenning að þurfa sérstaklega að hafa fyrir því að fá sem mestar og bestar upplýsingarnar. Upplýsingar sem eru í óhag meirihlutans vill hann ekki að sé flíkað. Upplýsingar sem henta og eru í hag meirihlutans eru hins vegar kyrfilega auglýstar og kynntar af upplýsingafulltrúa borgarstjóra.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Upplýsingar um það sem gerist á fundum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg liggja fyrir í opinberum fundargerðum ásamt því hvernig atkvæði falla um einstaka mál. Þetta er í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar en þar kemur fram að ferar við ákvarðanatöku eigi að vera ,,gagnsæir og rekjanlegir“. Hver sem er getur kynnt sér þær upplýsingar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar kvartanir Félags leikskólakennara yfir starfsaðstæðum og hvað borgin hyggst gera í þeim málum í kjarasamningu:

Félag leikskólakennara hefur kvartað yfir starfsaðstæðum leikskólakennara. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver sé stefna borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og hvernig kjarasamninganefnd borgarinnar hefur útfært stefnuna í samningaviðræðum hvað varðar eftirfarandi þætti: 1. Skilgreina kjarasamning leikskólakennara starfs- og vinnutíma og samræma að fullu við grunnskólann. 2. Skilgreina og búa til betri ramma um kennsluskyldu leikskólakennara og ramma inn tíma fyrir faglegt starf fyrri part dags í kjarasamningi. 3. Útfæra vinnutímaskipulag leikskólakennara í kjarasamning með sama hætti og grunnskólakennara þannig að á skólaári leikskóla séu leikskólakennarar búnir að vinna sér inn rétt á sömu fríum og í grunnskólum. Sárlega skortir betri ramma um faglegt starf í leikskólum. R20010127

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð
9. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um óhindrað aðgengi fatlaðs fólks um göngugötur í miðborginni:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna Aðgengis- og samráðsefnd í málefnum fatlaðs fólks að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi sb. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimildarkvæði samkvæmt nýjum umferðarlögum?

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um fundargerð ofbeldisvarnarnefndar frá 16. desember 2019:

Tillögu Flokk fólksins um úrræði fyrir foreldra barna sem sýna árásargirni og ofbeldi var hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á fundi 16. desember 2019 á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnu um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Spurt er hvernig staðan er á þeirri framkvæmd og hvenær búast viðkomandi aðilar að stofnunin taki til starfa?

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við umræðu um erindi Reykjavíkurakademíu dags. 5. desember um samstarf vegna málþings um jaðarsetta hópa:

Flokkur fólksins styður að farið verði í samstarf við Reykjavíkur Akademíuna varðandi málþing sem til stendur að halda 11. júní n.k. um skapandi og valdeflandi aðferðir í vinnu með jaðarsettum hópum í samfélaginu. Ljóst er að vinna í listum og ástundun þeirra getur hjálpað einstaklingum umtalsvert sem eiga um sárt að binda af ýmsum ástæðum. Það skiptir máli að slíkt málþing verði sótt af fólki sem bæði vinnur við listir og kennslu, sem og þekkja vel til umönnunar sem tengist vinnu af því tagi sem málþingið hyggst setja á dagskrá.  Þannig að það sé tryggt að upplýsingar um væntanlegt þing verð vel kynnt.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  íbúaráðum Reykjavíkurborgar:

Fokkur fólksins fagnar því að íbúaráðin sé öll komin til starfa og gerir sér mikilar væntingar um lýðræðislega árangur varðandi starfsemi þeirra. Flokkur fólksins leggur áherslu á varðandi starfsemi ráðanna og styrkveitingar þeirra sé haft í huga réttindi fatlaðra og eldri borgara. Bendum einnig á að tillit sé tekið til barna frá efnalitlum heimilum og þannig gætt jafnræðis á meðal íbúa.
Skipulags- og samgönguráð
8. janúar 2020

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar við framlagningu yfirlits yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs á verkum yfir milljón í aðalsjóði og eignarsjóði frá janúar til september 2019:

Í þessu yfirliti vekur athygli hversu háar upphæðir um er að ræða og hvað sum fyrirtæki eru að fá háar greiðslur. Sem dæmi fær Landslag ehf. greiðslu upp á 7.575.284 m.kr. Á þessu yfirliti fylgja engar skýringar. Hæstu greiðslur eru t.d. til Matís, rúmar 12 milljónir. Aðeins brot eru með útboði og má þar sjá að sum verk sem fara í útboð eru undir viðmiði útboðsreglna sem er ánægjulegt. Útboðsreglur gera kröfu um útboð ef verk vegna verklegra framkvæmda er yfir kr. 30.000.000 á Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vsk. og vegna kaupa á vöru og þjónustu yfir kr. 15.500.00 án vsk. Þetta yfirlit vekur upp margar spurningar sem dæmi hvað ræður því að ákveðið er að fara í útboð með eitt verk en ekki annað þegar upphæð nær ekki viðmiði útboðsreglna? Meginreglan ætti að vera sú að fara í útboð jafnvel þótt upphæð sé langt undir viðmiði útboðsreglna ef ekkert annað hindrar. Hvað varðar samningskaup, innkaup byggð á verðfyrirspurnum, bein innkaup i samræmi við innkaupareglur og fleira þess háttar þá vantar sárlega að ferlið sé að fullu gegnsætt þannig að hægt sé að sjá hvað fyrirtæki voru borin saman o.s.frv. Hér er verið að greiða milljónir í sérfræðiráðgjöf en á sama tíma starfa fjölmargir sérfræðingar hjá borginni. Er ekki nein leið að nýta þá sérfræðiþekkingu betur til að draga úr aðkeyptri þjónustu?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins bókar við framlagningu á yfirliti yfir ferðakostnað umhverfis- og skipulagssviðs fyrir tímabilið júlí til september 2019:

Flokkur fólksins hefur áður verið með athugasemdir yfir hvað skipulagsyfirvöld og aðrir sem skipa meirihlutann í borgarstjórn leyfir sér að ferðast oft til útlanda í alls kyns erindum, allt frá því að sækja ráðstefnur, fundi eða fara í kynningar- og skoðunarferðir. Dæmi eru um að margir kjörnir fulltrúar og embættismenn sem tengjast sama sviðinu fari í sömu ferð. Hér er slíkt dæmi. Um er að ræða 6 embættismenn, sviðsstjóri, samgöngustjóri, skipulagsfulltrúi, skrifstofustjóri skrifstofu sviðsstýru, skrifstofustjóri umhverfisgæða og byggingarfulltrúi ásamt kjörnum fulltrúum ráðsins. Hefði ekki dugað hér að 1-2 færu á þessa ráðstefnu sem myndu svo fræða hina þegar heim væri komið um það helsta? Í þessu eina yfirliti yfir ferð á ráðstefnu er upphæðin 1.2 milljón. Hér má enn og aftur minna á tal meirihlutans um að bæta loftlagsgæði og minnka kolefnisspor. Tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri er hávært en ekki þegar kemur að ferðum þeirra sjálfra erlendis. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga.

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, hvaða aðgerðir stjórn Strætó bs hyggst grípa til til að bæta nýtingu vagnanna. Mál nr. US200007

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hvaða aðgerðir stjórn Strætó bs. og skipulagsyfirvöld borgarinnar hyggjast grípa til til að bæta nýtingu vagnanna. Fyrir liggur að sæta- og stæðisnýting hjá almenningsvögnum Strætó er slök, sennilega rétt um fimmtungur að meðaltali árið 2018. Þetta hefur verið margsinnis rætt og svar Strætó bs felur ávallt í sér upplýsingar um fjölda innstiga í Strætó en ekki fjölda farþega. Fjöldi innstiga á höfuðborgarsvæðinu árið 2018 var 11.405.700. Fjöldi ferða sem farnar voru árið 2018: 642.865. Fundin er meðaltalstala með því að taka fjölda farþega og deila með fjölda ferða. Að meðaltali komast að mestu 85 manns í strætisvagn á höfuðborgarsvæðinu, sitjandi og standandi. Að meðaltali er því um að ræða innan við 18 farþega. Það segir sig sjálft að þetta er nýting sem ekki er hægt að sætta sig við. Vagnarnir eru illa nýttir . Ein stök ferð með strætó kostar tæp 500 krónur. Þótt keypt sé 10 miða kort munar litlu á einni ferð. Kerfið er því afar óhentugt fyrir þá sem gætu viljað grípa til notkunar lmenningssamgangna endrum og sinnum. Rekstrarfyrirkomulagið er einnig vont en Strætó bs. er byggðasamlag. Sex sveitarfélög eiga það og Reykjavík á stærsta hlutann en hefur engu að síður aðeins einn fulltrúa í stjórn. Stjórnunarvægi er því í engu hlutfalli við stærð.

Hvað ætlar skipulagsyfirvöld/stjórn Strætó bs. að gera í þessu?
Hvernig á að bregðast við?
Á ekki að taka mið af lélegri nýtingu t.d. með því að grípa til einhverra aðgerða?

Hugmyndir Flokks fólksins í þessu sambandi eru:

Reyna að fá fólk til að nota strætisvagna t.d. bjóða upp á ódýr kynningarkort til að fólk kynnist kerfinu, fleiri möguleika í fargjöldum, jafnvel fríar ferðir utan álagstíma.
Finna fjölbreyttar leiðir til að bæta ímyndina, virkja þjónustustefnu?
Leyfa ávallt að hundar komi um borð í vagnanna?

Vísað til umsagnar Strætó bs.

Tillaga Flokks fólksins um að borgarfulltrúar kolefnisjafni ferðir sínar úr eigin vasa og upplýsingar um kolefnisjöfnunin verði aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar.

Flokkur fólksins leggur til að borgarfulltrúar, borgarstjóri og aðstoðarmaður borgarstjóra kolefnisjafni flugferðir sínar til og frá útlöndum úr eigin vasa. Með þessu sýna borgarfulltrúar félagslega ábyrgð. Þær þrjár leiðir sem hægt er að kolefnisjafna er hjá Kolviði, Votlendissjóði og Icelandair. Borgarfulltrúar og sérstaklega borgarstjóri og aðstoðarmaður hans fara í margar flugferðir á ári erlendis sem skipta hundruð þúsunda. Ferðalangurinn sjálfur á að bera kostnaðinn og með því sýnir hann í verki viðhorf sitt til mikilvægis umhverfisverndar. Að kolefnisjafna er í dag viðurkennd aðgerð til að vega upp á móti útblæstri og því er ekkert að vanbúnaði að kjörnir fulltrúar kolefnisjafni og axli sjálfir ábyrgð á kostnaðinum. Lagt er til að á heimasvæði komi fram upplýsingar um kolefnisjöfnuð hvers og eins og hjá hvaða aðila það var gert.
Frestað.

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, undantekningu frá akstursbanni um göngugötur. Mál nr. US200009

Nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög nú þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?
Frestað. 

Fyrirspurn frá áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, vegna framlagningu lista yfir innkaup umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkur. Mál nr. US200010

Í framhaldi að framlagningu lista yfir innkaup umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir nánari upplýsingum:
Hvað ræður því að farið er í útboð í stað þess að láta verðsamanburð nægja þegar upphæð er undir viðmiði útboðsreglna?
Ferli verðsamanburðar er ekki nægjanlega gegnsætt til að almenningur geti fylgst með. Sem dæmi er EFLA fyrirtæki sem verið er að greiða háar upphæðir. Er t.d. Efla ódýrasta fyrirtækið og hjá hvaða öðrum fyrirtækjum var verð athugað þegar verið var að leita að fyrirtæki til að sinna verkefnum sem Efla var síðan ráðið í. Á lista um innkaup þarf að koma fram forsendur fyrir þeirri ákvörðun sem tekin er með hver innkaup, hvaða forsendur eru fyrir því að þau fyrirtæki sem hér eru valin fá verkefnið? Á hvaða grundvelli eru þau ráðin?
Eins vantar upplýsingar um afslætti, magnafslætti t.d. hjá þeim fyrirtækjum sem eru að fá flestu og dýrustu verkefnin. Veitir sem dæmi Efla borginni afslátt?

Vísað til umhverfis- og skipulagssvið, fjármálaskrifstofu

Bókun Flokks fólksins við framlagningu umsókn Plúsarkitekta ehf. dags. 11. desember 2019 ásamt skipulagslýsingu dags. 9. desember 2019 vegna gerð nýs deiliskipulags fyrir Nesvík á Kjalarnesi sem felst í uppbyggingu allt að 100 herbergja hótels auk 12 stakstæðra húsa sem leigð verða út sem gistirými og þjónustuð af hótelinu.

Hér er um lýsingu að ræða og er íbúum í nágrenninu því ekki kunnugt um þessar hugmyndir sem nú liggja á borðinu. Flokkur fólksins hvetur skipulagsyfirvöld til að hafa íbúa með í ráðum á fyrstu stigum og ætti því sem fyrst að boða til fundar (íbúafundar/íbúaráðsfundar) og bjóða íbúum sömu kynningu og lögð er nú fyrir skipulags –og samgönguráð. Með því að gera þetta strax á fyrstu stigum er dregið úr líkum þess að óánægja skapist síðar og kvartanir og að fólki finnist sem ekki hafi verið haft við sig viðhlítandi samráð. Þetta verklag ætti að vera meginreglan.