Kolbrún Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022. Hér birtast fréttir af Kolbrúnu á pólitískum vettvangi bogarmálanna.


Velferðarráð
10. ágúst 2018

Tillögur og bókanir Flokks fólksins á fundi Velferðarráðs 10. ágúst 2018

Velferðarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Heimilisleysi er mannréttindabrot. Í stefnu borgarinnar kemur fram að allir borgarbúar eigi að hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki“. Við þetta hefur ekki verið staðið. Borginni ber skylda til að aðstoða þá sem hafa af einhverjum orsökum misst heimili sín eða eru húsnæðislausir. Að allir eigi þak yfir höfuð sitt og barna sinna er mannréttindamál.
Um árabil hafa borist fréttir af fjölgun fólks sem er heimilislaust. Vandinn hefur verið að stigmagnast síðustu ár. Jafnvel þótt markmið borgaryfirvalda séu skýr hafa þau hunsað upplýsingar um þessa alvarlegu þróun og því má segja að flotið hafi verið vakandi að feigðarósi. Flokkur fólksins telur að hér sé um neyðarástand að ræða. Tæplega 1000 manns eru nú á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Stjórnarandstaðan hefur á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá kosningum rifið upp þennan málaflokk. Flokkur fólksins fagnar því að borgin ætli nú loksins að fara að girða sig í brók og taka til hendinni. Nú gengur ekki lengur að tala bara heldur þarf að fara að framkvæma markvisst og með skýran tímaramma. Fjölga þarf úrræðum fyrir þá sem eru heimilislausir og sum úrræði þurfa að koma strax áður en vetur skellur á.

Borgarráð vísaði eftirfarandi tillögum í Velferðarráð:

Tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotað húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk sem er húsnæðislaust eða býr við óstöðugleika í húsnæðismálum og tillaga um að borgin tilgreini framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu fyrir hjólhýsa- og húsbílabyggð.

Lagt til að báðum tillögunum sé vísað til stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við utangarðsfólk.
Samþykkt

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins í Velferðarráði um að borgarstjórn leggi allt kapp á að útrýma heimilisleysi í Reykjavík með öllu á kjörtímabilinu.

Frestað.

Tillaga fulltrúa Flokks fólksins í Velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar.

Hugtakið er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins neikvætt og er ef til vill barn síns tíma. Lagt er til að í stað hugtaksins utangarðsfólk sé talað um heimilislausa eða fólk í húsnæðisvanda. Heimilislaust fólk er afar fjölbreyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að hafa ekki aðgang að hefðbundnu húsnæði, hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað.

Frestað.

Borgarráð
31. júlí 2018

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að útvega lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.
Afgreiðsla: Vísað til fjármálaskrifstofu

Greinargerð:

Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrisjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innansem utanlandssvo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.

Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til umsagnar fjármálaskrifstofu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum yfir að borgarráð hafi ákveðið að fresta tillögunni um að borgin leiti eftir samvinnu við lífeyrissjóði um að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk, í því skyni að fá umsögn fjármálaskrifstofu. Hér er einungis verið að leggja til að borgin eigi frumkvæði að samtali við lífeyrissjóðina og ætti því að vera borgarráði að meinalausu að samþykkja þessa tillögu án aðkomu fjármálaskrifstofu fyrst. Hér er um að ræða tillögu að málefni sem hefur komið til tals í samfélaginu og var eitt af megin kosningamálum Flokks fólksins. Það er vissulega verið að feta ótroðnar slóðir, skoða nýja möguleika, þar sem lífeyrissjóðir hafa ekki áður komið að uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis. Upphaf alls nýs hlýtur ávallt að byrja á samtali aðila og í þessu tilfelli er lagt til að borgin eigi frumkvæði að því að ræða við lífeyrissjóði með eða án aðkomu ríkisins.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:

Það er brýnt að Reykjavíkurborg skapi þessum hópi fullnægjandi aðstæður til að vera með sín hjólhýsi eða húsbíla á stað þar sem þau geta verið örugg til framtíðar. Eins og staðan er núna er mikill húsnæðisvandi í borginni sem er tilkominn vegna langvarandi skorts á hagkvæmu húsnæði hvort heldur er til kaups eða leigu. Með því að vanda til verka við val og umgjörð hjólhýsagarðs þar sem slík byggð getur risið er komið varanlegt og öruggt heimilisúrræði fyrir þá sem kjósa að búa í aðstæðum sem þessum. Í löndum sem við berum okkur saman við eru tjaldstæði fyrir húsbíla og hjólhýsi þar sem fólk býr árið um kring og lætur vel að því. Nútíma hjólhýsi eru ódýr og húsnæði með öllum þægindum. Ný hjólhýsi fyrir t.d. tvær manneskjur kosta um 3 milljónir á Íslandi og 10 ára gamalt hjólhýsi í góðu standi um 1,.5 milljónir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fyrir einhverja kann þetta að vera raunhæfur kostur fáist framtíðarstaðsetning sem hentar hjólhýsi sem hugsað er sem heimili í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur sem upplifir meira frelsi við að búa í hjólhýsi en að búa í fjölbýlishúsi. Sumum hentar það vel og segjast njóta þess að geta einungis opnað einar dyr hurð og stigið út. Þeir sem hafa reynslu af þessu búsetuformi og líkar það hafa sagt þetta sé ekkert öðruvísi en að búa í litlu einbýlishúsi. Mikilvægt er að leiga sé lág fyrir hjólhýsi eða húsbíl í hjólhýsagarðinum enda eru margir þeir sem kjósa að búa í hjólhýsi efnaminna fólk. Leiga verður að vera í takt við greiðslugetu. Þjónusta Í hjólhýsagarði þarf að vera aðgangur fyrir hjólhýsi/húsbíl að tengjast heitu og köldu vatni og rafmagni. Fullnægjandi hreinlætisaðstaða þarf að vera til staður og möguleiki á aðgangi að eldhúsi og matsal. Í hjólhýsagarði þurfaarf að gilda fastmótaðar umgengnisreglur og eftirlit. Gæta þarf þess að þar ríki friður og ró og að enginn setjist þar að sem gerir öðrum ónæði, skapi óróa eða ógn af neinu tagi hvort heldur með hegðun, framkomu eða neikvæðum lífsstíl. Á meðan verið er finna staðsetningu og undirbúa hjólhýsagarð er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring eða allt þar til staðsetning hjólhýsagarðs hefur verið ákveðin í Reykjavík og hjólhýsabyggð geti byrjað að rísa. Staðan í dag Staðan í þessum málum er óviðunandi eins og hún er í dag. Hjólhýsabúendur hafa margir verið í Laugardalnum í óþökk rekstraraðila og borgarinnar. Leiga þar hefur verið hækkuð óheyrilega sem hefur hrakið suma á brott. Sumir hafa sagt þá sögu að þeim hafi verið ráðlagt að fara á tjaldstæði á Laugarvatni. En hængur á því er að þetta fólk er sumt hvert í vinnu í Reykjavík. Öðrum segist hafa verið ráðlagt að leigja rándýrt rúmpláss á gistiheimili sem er með öllu óraunhæft. Enn aðrir segja að þeim hafi verið bent á að búa í tjaldi og þeim jafnvel sagt að sækja síðan um rúmpláss í Víðinesi. Í Víðinesi býr hópur með fjölbreytt vandamál sem kemur og fer auk þess sem þar eru engar almenningssamgöngur. Ekkert af þessum ráðum hentar hópnum sem hér um ræðir, fólki sem vill stöðugleika og næði til að lifa sínu lífi. Þessi hópur vill búa í sínum eigin húsbíl /eða hjólhýsi sem sjálfstæðir einstaklingar. Grunnatriðið í þessu sambandi er að vera á Reykjavíkursvæðinu eða mjög nálægt því og það verður að vera hægt að komast þangað með almenningssamgöngum.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Nú hafa allar tillögur Flokks fólksins verið lagðar fyrir og ýmist verið frestað, vísað í ráð og ein felld. Væntingar Flokks fólksins fyrir þennan neyðarfund sem stjórnarandstaðan óskaði eftir voru þær að meirihlutinn myndi taka tillögum stjórnarandstöðunnar með mun opnari huga en raun bar vitni. Vonir stóðu til að teknar yrðu ákvarðanir um að framkvæma. Ganga til aðgerða! Hvað varðar tillögur meirihlutans voru flestar þeirra með einhvers konar fyrirvara eða skuldbindingum um sameiginlega ábyrgð sveitarfélaga eða háðar viðræðum við ríkið. Flokkur fólksins vill benda á að þeir sem eru húsnæðislausir hafa ekki endalausan tíma til að bíða eftir úrræðum. Vandinn er núna og við honum þarf að bregðast hratt og örugglega. Upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins er að borgarmeirihlutinn hafi verið ansi mikið á bremsunni á þessum fundi og frekar fátt bendir til þess að bretta eigi upp ermarnar af krafti fyrir veturinn til að laga stöðu þessa viðkvæma hóps.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotuðu húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk sem er húsnæðislaust eða býr við óstöðugleika í húsnæðismálum

Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.
Afgreiðsla: Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:

Í borginni er víða ónotað húsnæði sem er til sölu. Til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir á húsnæðismarkaði vegna langvarandi skorts á húsnæði er áhersla lögð á að innrétta íbúðir í húsnæði sem stendur autt og hefur e.t.v. gert lengi en er til sölu. Í einhverjum tilfellum kann að vera ódýrara og betra að rífa húsnæðið og byggja nýjar íbúðir og þarf að meta slíkt í hverju tilfelli fyrir sig. Þessi tillaga er ein af fleiri tillögum sem Flokkur fólksins vill leggja fram til að bregðast við neyðarvanda í húsnæðismálum sem bitnað hefur oft mest á þeim sem minnst mega sín, ekki hvað síst börnum fjölskyldna sem hafa verið á vergangi og fólki sem glímir við veikindi af ýmsum toga. Fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem jafnvel ná ekki 300.000 krónum í tekjur á mánuði er útilokað að leigja á almennum markaði þar sem leiga er iðulega mun meira en helmingur af þessari upphæð. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að gera hinn neikvæða húsnæðismarkað heilbrigðari sem allra fyrst.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks sem er í húsnæðisvanda

Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðraBreiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið.
Tillagan felld

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum að þessi tillaga um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks í húsnæðisvanda hefi verið felld af meirihlutanum. Hér hefur verið varið gríðarlegu fjármagni í þessa tvo reiti en ekkert er um það að þarna verði húsnæði fyrir þá sem eiga litla möguleika á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag eða festa kaup á fasteign á verði sem samræmist greiðslugetu þeirra efnaminni. Ljóst er að nægt fjármagn er til hjá borginni og ætti því enginn að þurfa að vera heimilislaus. Hér var um að ræða tillögu Flokks fólksins, ein af fleirum sem lögð var fram með það markmiði að mæta þörfum fólks í heimilisvanda en sá hópur er mjög fjölbreyttur

Borgarráðsfundur

20. júlí 2018

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samskiptareglur lögð fyrir fund forsætisnefndar

Lagt er til að forsætisnefnd samþykki samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa sem gilda eiga á öllum fundum, í nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Reglurnar ná einnig til starfsmanna Ráðhússins. Lagt er til að þessar samskiptareglur verði fylgigagn eða viðhengi siðareglna og undirritaðar samtímis þeim. Samskiptareglunum fylgir viðbragðsáætlun gegn einelti sem eineltisteymi borgarinnar styðst við, berist kvörtun um óæskilega hegðun eða einelti. Ástæðan fyrir mikilvægi þess að hafa skýrar samskiptareglur er sú að á vettvangi borgarstjórnar eru heitar umræður, gagnrýni og mótmæli algeng. Í slíkum kringumstæðum er eftir sem áður gerð sú krafa að borgarfulltrúar sýni kurteisi og virðingu og séu ávallt málefnalegir.

Greinargerð fylgir tillögunni

Samþykkt að vísa tillögunni til frekari vinnslu við endurskoðun siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.

19. júlí 2018

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um stýrihóp í eineltismálum

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir – R18060221

Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna stýrihóp um endurskoðun á gildandi stefnumótun Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn og formaður hans verður borgarfulltrúi Flokks fólksins. Með hópnum starfar starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að vinna erindisbréf stýrihópsins þar sem skilgreind eru helstu verkefni og starfinu sett tímamörk í samræmi við 3. gr. reglna um starfs- og stýrihópa.

Erindisbréfið skal leggja fram á næsta fundi borgarráðs. Greinargerð: Meta þarf umfang vandans, endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar auk þess sem fara þarf yfir verklagsreglur og viðbragðsáætlanir og tryggja að þær nái yfir áreitni og ofbeldi.

Nauðsynlegt er að stýrihópurinn endurskoði gildandi stefnumótun í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að komið verði á fót hlutlausum vettvangi þar sem hægt er að vísa málum til afgreiðslu sem ekki er hægt að leysa úr innan stofnanna og fyrirtækja borgarinnar.

Samþykkt.

Fylgigögn

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli – E-3132 – 2017 gegn Reykjavíkurborg að beiðni borgarráðsfulltrúa D og áheyrnarfulltrúa J, M og F

Tvær bókanir stjórnarandstöðunnar:
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017 kallar á sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar. Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016. Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins.

Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar. Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um samskiptareglur. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu á síðasta borgarráðsfundi en mun verða lögð að nýju fyrir á fundi forsætisnefndar 20. júlí í þeirri von að þar verði hún samþykkt enda gagnleg öllum.

Umræða um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra að beiðni áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að eignast heimili.

Lögð fram svohljóðandi bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins:

Stjórnarandstaðan vill að það sé bókað að fundur velferðarráðs 10. ágúst er að beiðni stjórnarandstöðunnar til að skoða ítarlega málefni og stöðu heimilislausra. Ósk um sérstakan fund um málefni heimilislausra var send ráðinu í júní en vegna m.a. sumarleyfa var ákveðið að halda fundinn hið fyrsta í ágúst. Nú hefur verið ákveðið að hann verið 10. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins óska eftir að Kærleikssamtökin komi á fundinn og kynni sín málefni sín, stöðuna og hvað þau hafa verið að gera. Eins teljum við að bjóða ætti öðrum samtökum og fulltrúum heimilislausra að koma og gera slíkt það sama. Markmiðið með þessum fundi er að við kynnum okkur stöðu heimilislausra í samfélaginu og nýta upplýsingarnar til að vinna áfram stefnumótandi vinnu.

5. júlí 2018

Tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra lögð fram í borgarráði 5. júlí

Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls.

Greinargerð:
Í þeim tilgangi að styðja enn betur við efnaminni fjölskyldur er lagt til að foreldrar sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Sumar fjölskyldur eru enn að glíma við fjárhagserfiðleika vegna afleiðinga hrunsins og sjá ekki fyrir sér að geta rétt úr kútnum næstu árin ef nokkurn tíman. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef húsnæðiskostnaður er einnig innifalinn í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Það er skylda
okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Börnum sem er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Með þessari tillögu er verið að freista þess að tryggja að börn efnaminni foreldra missi hvorki pláss á frístundaheimilum né verði svikin um tækifæri til að sækja frístundaheimili vegna bágra félags- og fjárhagslegra stöðu foreldra.
Vísað til Skóla- og frístundarráðs

Tillaga um göngubrýr í stað gönguljósa lögð fram í Skipulags- og samgönguráði 27. júní

Lagt er til að í stað tveggja gönguljósa, annað á móts við Klambratún og hitt á móts við 365 miðla verði lagðar göngubrýr. Þessi ljós valda umferðarteppum á þessum leiðum meiri hluta dags.

Greinargerð:
Með göngubrúm er flæði umferðar milli umferðarljósa óhindrað. Fólksumferð yfir götuna er mikil og í hvert sinn sem ýtt er á gönguljósahnpp stöðvast umferðin dágóðan tíma.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur

28. júní 2018

Tillaga lögð fyrir á fundi borgarráðs 28. júní

Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt.
Frestað, vísað til Velferðarráðs

Fyrirspurn á fundi borgarráðs 28. júní

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vil endurtaka spurningu sem hún spurði í Breiðholti þegar meirihlutinn kynnti sáttmála sinn. Þá fékkst ekki svar en var sagt að þessu yrði svarað. Svar hefur ekki borist.
Spurningin er: Hvað ætlar meirihlutinn að gera varðandi heimaþjónustu eldri borgara sem verður að skerða í sumar vegna manneklu?

Með þessari spurningu vil ég vísa í frétt sem birtist á visir.is nú í júní þar sem segir: „Alvarleg staða er komin upp í heimahjúkrun í Reykjavík þar sem illa hefur gengið að manna stöður fyrir sumarið. Fólki tilkynnt um minni stuðning. „Þetta er skelfileg aðstaða og ég kvíði mjög sumrinu“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir um fyrirsjáanlegan samdrátt í þjónustu við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í Reykjavík í sumar.
Frestað

Frá kynningu meirihlutans á sáttmála sínum

Tillaga um úttekt á biðlista Félagsbústaða lögð fyrir á fundi borgarráðs 28. júní

Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:
1. Hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar. 2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar 3. hversu langur er biðtíminn. 4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það. 5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör. 6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör. 7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum. 8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun. 9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir og 10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin.
Frestað og vísað til vinnslu

Skólasálfræðing í hvern skóla og fríar skólamáltíðir, tillögur lagðar fyrir á fundi Skóla- og frístundarráði

Á fundi Skóla- og frístundarráðs í júní voru eftirfarandi tillögur lagðar fram
Að skólar verði valdefldir með þeim hætti að þeir ráði sjálfir til sín skólasálfræðinga sem hafa skulu aðsetur í skólum og taka við verkbeiðnum frá nemendaverndarráðum.

Lagt er til að öll börn fái fríar skólamáltíðir. Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir.
Bæði málin eru enn í vinnslu hjá Skóla- og frístundarráði

Starfshópur í eineltismálum

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um starfshóp í eineltismálum
Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:
Lagt er til að settur sé á laggirnar starfshópur í eineltismálum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins sem jafnframt er sérfræðingur í forvörnum og úrvinnslu eineltismála fer fyrir.
Í hópnum skulu vera þeir starfsmenn borgarinnar sem öllu jafna koma að þessum málum. Hlutverk hópsins verður að kynna og móta skilvirkar leiðir til að eineltisteymið geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu einelti/ofbeldiskvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar.

Frekara hlutverk er að gera eineltisteymið enn hæfara og aðgengilegra við: 1. Að koma að og ljúka þeim kvörtunarmálum sem borgarfyrirtækjum hefur ekki tekist að leysa á vettvangi. 2. Að taka á móti málum sem starfsmenn sem kvartað hafa yfir einelti telja að hafa ekki fengið sanngjarna og faglega málsmeðferð á starfstöð þeirra. 3. Að taka á móti og ljúka málum sem yfirstjórn vinnustaða hafa ekki geta sinnt eða ráðið við. 4. Að taka á móti málum ef kvörtun varðar yfirmann.

Borgarfulltrúinn sem sérfræðingur í eineltismálum mun aldrei koma að einstaklingsmálum vegna stöðu sinnar sem borgarfulltrúi heldur fer fyrir hópnum sem sérfræðingur. Forvarnir og úrvinnsla málanna eru á höndum eineltis- og áreitniteymis borgarinnar. Lagt er til að öll mál nema í algerum undantekningartilvikum verði unnin eineltisteyminu sjálfu.
Aðkeypt þjónusta við lausn eineltismáls er tímafrek og dýr.
Frestað

Samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa

Meðal tillagna sem lagðar voru fyrir borgarráð í gær var tillaga um samskiptareglur borgarfulltrúa. Hún hljóðar svona í stuttri útgáfu:
Lagt er til að settar verði samskiptareglur sem gilda eiga á öllum fundum, nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Sömu reglur skulu gilda um starfsfólk skrifstofu borgarstjórnar sem starfa með borgarfulltrúum. Samhliða tillögunni er lögð fram viðbragðsáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun. Í greinargerð er kveðið nánar á um reglurnar og viðbragðsáætlunina.
Frestað

19. júní 2018

Tillaga um að gerð verði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum af óháðum aðila. Lögð fram á borgarstjórnarfundi 19. júní

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Að borgarstjórn samþykkir að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Úttektin skal liggja fyrir eigi síðar en á fyrsta borgarstjórnarfundi í september.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18060131
Vísað í borgarráð
Tekið fyrir þar og ákveðið að leita umsagnar fjármálastjóra og innri endurskoðanda
Málið var aftur á dagsrká 5. júlí en þá frestað. Málið fór aftur á dagskrá 19. júlí og var aftur frestað

Hjartans þakkir fyrir dásamlegar kveðjur í kjölfar úrslita kosninga í Reykjavík
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan með nýjum áskorunum.

Það hefur verið lítill sem enginn tími til að sinna skjólstæðingum mínum síðasta mánuðinn þar sem ég er í framboði. Á laugardaginn liggja úrslitin fyrir.
Þetta hefur verið og er gríðarlega krefjandi og spennan magnast nú með hverjum deginum.
Mig langar mjög mikið til að komast að í borginni til að geta gert gagn fyrir heildina.