Kolbrún Baldursdóttir er borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur kjörtímabilið 2018-2022. Hér birtast fréttir af Kolbrúnu á pólitískum vettvangi bogarmálanna.


Borgarstjórn
16. október 2018

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að heimila handhöfum stæðiskorts fyrir hreyfihamlaða að keyra á göngugötum.

Lagt er til að borgarstjórn samþykki að heimila akstur bifreiða með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða (P-kort) um göngugötur í miðborg Reykjavíkur og að bifreiðum með slíkt stæðiskort verði heimilt að leggja á bílastæðum í öllum göngugötum borgarinnar.
Jafnframt er lagt til að borgarstjórn samþykki að leggja það til við Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins að hann ákveði hraðamörk á göngugötum borgarinnar við 10 km/klst. og á það bæði við um bifreiðar fatlaðra sem og bifreiðar sem keyra um göngugötur með aðföng.

Greinargerð:
Allir eiga rétt á að komast ferða sinna og það gildir jafnt um miðbæ Reykjavíkur eins og aðra staði borgarinnar. Borgarstjórnarmeirihlutinn hefur samþykkt að fjölga göngugötum og að allur Laugavegurinn verði gerður að göngugötu.

Eins skemmtilegar og göngugötur eru þá eiga margir sem eru hreyfihamlaðir ekki auðvelt aðgengi að þeim. Það er ekki nema lítill hluti hreyfihamlaðs fólks sem notast við hjólastól eða göngugrind og getur því nýtt sér göngugötur (svo framarlega sem bílastæði eru nálægt). Fyrir stóran hluta hreyfihamlaðs fólks (sem nota hvorki hjólastól né göngugrind) mun lokuð göngugata verða veruleg hindrun á aðgengi og þýða að þessir einstaklingar sem eiga erfitt með gang (hreyfihamlaðir) munu alfarið forðast fyrirtæki eða stofnanir sem eru við slíkar götur. Á sama tíma þarf að skerpa vel á fyrirkomulagi útgáfu og utanum haldi P-merkinga bifreiða til að þetta fyrirkomulag virki sem best.

Ekki liggur fyrir hversu mikið borgarmeirihlutinn hefur haft samráð við hagsmunasamtök hreyfihamlaðra og fatlaðra um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Í Reykjavík hefur verð þrengt verulega að ferðafrelsi hreyfihamlaðra síðustu ár og þá sérstaklega í miðbænum, með sumarlokun gatna sem og vegna framkvæmda. Þannig var t.d. Laugaveginum lokað með þverslá (með reiðhjólum á) á gatnamótum Laugavegar og Vatnsstígs, annað á mótum Laugavegar og Klapparstígs, þriðja á mótum Laugavegar og Smiðjustígs og fjórða þversláin lokar fyrir bílaumferð er á mótum Skólavörðustígs og Bergstaðastrætis og að lokum er enn ein þversláin á mótum Ingólfsstrætis og Bankastrætis.
Þessar lokanir voru fyrst hugsaðar einungis yfir sumartímann, þegar flestir geta verið á ferli, hreyfihamlaðir jafnt sem ófatlaðir. Nú stendur til að lengja lokunartíma fyrrnefndra gatna og jafnvel fleiri. Þó hugmyndin þurfi ekki að vera slæm sem slík, er svona algjörar lokanir að brjóta á réttindum fatlaðra.

Á það skal minnt að á vefsíðu Reykjavíkurborgar stendur skýrt og skorinort:
“ÓHEIMILT ER AÐ MISMUNA FÓLKI VEGNA FÖTLUNAR”. Enn fremur: “ALLIR EIGA RÉTT Á VIRKRI ÞÁTTTÖKU Í REYKVÍSKU BORGARSAMFÉLAGI”. Og enn: “FATLAÐIR EIGI JAFNAN AÐGANG AÐ ÞJÓNUSTU OG ÓFATLAÐIR”.

Eins og þróunin hefur orðið má segja að Reykjavíkurborg virðir ekki eigin reglur (lög) hvað þetta varðar í það minnsta.

Það hefur verið ríkjandi hugsunarháttur að huga bara að aðgengi fyrir fólk í hjólastólum og fólki sem notast við göngugrindur og það má vissulega bæta aðgengi þeirra víða í borginni. En þessi hópur er aðeins lítið brot af hreyfihömluðum einstaklingum, einstaklingum ungum sem öldnum sem eiga erfitt með gang af ýmsum ástæðum og ganga aðeins stuttar vegalengdir ekki síst í íslenskri veðráttu. Þannig munu þessir einstaklingar alls ekki sækja neina þjónustu sem veitt er í þessum lokuðu götum.
Margir hreyfihamlaðir spyrja:
Hvað er til ráða ? Eiga hreyfihamlaðir að stofna þrýstihóp ?
Eiga hreyfihamlaðir að fara í kröfugöngu ? Skrifa bréf til umboðsmanns Alþingis ?

Hreyfihamlaðir upplifa gjarnan að ekki er hlustað á þá og vita ekki til hvaða ráða hægt er að grípa til að fá hlustun borgaryfirvalda. Fyrir marga hreyfihamlaða er einfaldlega verið að loka borginni fyrir þeim. Í þessu sem öðru þarf að vera eitthvað eðlilegt jafnvægi. Huga þarf að margbreytileikanum og mannréttindum í þessum sem öðru.

Flokkur fólksins setur sig ekki upp á móti hraðatakmörkun. Það er hið besta mál og mætti draga úr hraða víðar í borginni. En að meina hreyfihömluðu fólki að komast sinna ferða (aka) um miðborgina er mannréttindabrot.

Nú er það svo, að þegar ekið er niður Laugaveg frá “Hlemmi” að Lækjargötu, þá eru einungis örfá bílastæði sem merkt eru fötluðum, þar af eru tvö fyrir viðskiptavini Tryggingarstofnunar Ríkisins (sem reyndar er að flytja en vonandi standa stæði fyrir fatlaða þar áfram). Þegar loka þarf götum fyrir bílaumferð í nágrannalöndum okkar vegna verkefna, þá er fötluðum yfirleitt tryggður aðgangur í umferðinni eins og hægt er. Á Akureyri er farin sú leið að leyfa mjög hæga bílaumferð um göngugötu bæjarins.

Góð er sú hugmynd að taka niður þverslárnar (reiðhjólin) sem loka Laugaveginum, Pósthússtræti og Skólavörðustígnum og setja í staðinn umferðarmerki sem bannar alla umferð ökutækja um þessar götur, nema þeirra sem eru með merki “fatlaðra” í framrúðunni. Þessi lausn á “vandamálinu” ætti að vera öllum þóknanleg og ekki valda neinum vandræðum.
Leyfum hreyfihömluðu fólki að njóta þess sama og hinna sem eru með fulla hreyfigetu. Það eru fjölmargir hreyfihamlaðir sem vilja fara um Laugaveginn, Pósthússtrætið og Skólavörðustíginn, en geta það ekki vegna þess að göturnar eru lokaðar og ekki aðgengilegar fyrir hreyfihamlaða, nema hugsanlega þeirra sem eru í hjólastól eða notast við göngugrind, en þá þurfa að vera sérmerkt bílastæði nálægt sem er lítið af í dag. Göngugötur eru vissulega skemmtilegar og lífga upp á mannlífið, en þá má alls ekki verða á kostnað hreyfihamlaðs fólks.

Forsætisnefnd
12. október 2018

Umsögn skrifstofu borgarstjórnar með tillögu um bílastæði

Bókun Flokks fólksins við tillögunni um frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk Ráðhússins

Í umræðunni um kostnað við frí bílastæði fyrir borgarfulltrúa og starfsfólks Ráðhúss, en tillaga þess efnis hefur nú verið felld, vill borgarfulltrúi minna á margs konar óráðsíu í fjármálum borgarinnar t.d. við rekstur skrifstofu borgarstjóra sem kostar um 800 milljónir á ári. Eins virðist vera hægt að henda fé í alls kyns hégómleg verkefni eins og bragga sem frægt er orðið og mathöll.  En þegar kemur að gjaldfrjálsum bílastæðum fyrir borgarfulltrúa og starfsfólk borgarinnar  er ekki til fjármagn.

Hvað varðar starfskostnað sem notaður eru sem rök til að fella tillöguna, sem sagður er eigi að dekka bílastæðagjöld eigi að vera sá sami án tillits til búsetu finnst borgarfulltrúa ekki réttlátt að starfskostnaður sé sá sami fyrir þann sem t.d.  býr í efri byggðum borgarinnar og þann sem býr í miðbæ eða vesturbæ. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir þann sem kemur langt til starfa sinna  að greiða allt að 1500 krónur og jafnvel meira fyrir langan vinnudag að ekki sé minnst á tímann sem tekur að komast til vinnu í þeirri umferðarteppu sem einkennir Reykjavík. Hvað varðar borgarfulltrúana má minna  á að Alþingismenn hafa frí bílastæði þótt það skipti vissulega engu í þessu sambandi

Borgarráð
11. október 2018

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að Innri endurskoðun geri heildarúttekt á endurbyggingu braggans.

Því er mótmælt að Innri endurskoðun verði falið að ráðast í heildarúttekt á öllu því ferli sem endurgerð braggans fól í sér. Innri endurskoðun hér eftir vísað í sem IE getur varla talist óháð í þetta verkefni vegna ákveðinna „tengsla“ og þeirra upplýsinga sem hún hefur haft allan tímann um framvindu endurbyggingar braggans. Í því ljósi munu niðurstöður heildarúttektar IE, þegar þær liggja fyrir varla álitnar áreiðanlegar. Hér er ekki verið að vísa í neina persónulega né faglega þætti starfsmanna IE heldur einungis að IE hefur fylgst með þessu máli frá upphafi í hlutverki eftirlitsaðila og getur því varla talist óháð. Annar þáttur sem gerir IE ótrúverðuga sem rannsakanda er að hún sá ekki ástæðu til að koma með ábendingar í ferlinu jafnvel þótt framúrkeyrslan blasti við. Sem eftirlitsaðili og ráðgjafi borgarstjóra hefði IE átt að benda á þessa óheillaþróun og skoða strax hvort verið væri að fara á svig við vandaða stjórnsýsluhætti. Að IE ætli nú að setja upp rannsóknargleraugun og skoða ferlið með hlutlausum hætti er þar að leiðandi óraunhæft að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og mun varla leiða til trúverðugra rannsóknarniðurstaðna.

Bókun vegna ákvörðunar Minjastofnunar að hefja undirbúning friðlýsingar Víkurgarðs

Flokkur fólksins fagnar því að Minjastofnun hefur ákveðið að hefja undirbúning tillögu til mennta- og menningarmálaráðherra að friðlýsingu Víkurkirkjugarðs við Aðalstræti. Flokkur fólksins fordæmir aðgerðir borgarinnar að ætla að byggja þarna hótel. Mátti ekki þessi litli blettur sem er mörgum borgurum kær fá að vera í friði fyrir hótelbyggingar-æðinu í Reykjavík? Sannarlega er hér um gróðravon og stundarhagsmuni að ræða en ekki síður virðingarleysi fyrir stað sem er helgur og hefur tilfinningalegt gildi fyrir marga. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst víða mikill skaði skeður í borginni nú þegar, en að eira ekki litlum gömlum kirkjugarði er með ólíkindum. Það er lagt hafi verið í það verk að grafa upp bein til að rýmka fyrir hóteli er ótrúlegt. Þarna voru 20 heillegar kistur með heillegum beinagrindum . Flokkur fólksins tekur undir og styður áskorun frú Vigdísar Finnbogadóttur og þriggja heiðursborgara sem mótmæla þessari framkvæmd og skora á borgina og byggingaraðila að láta af áformum um byggingu hótels á þessum bletti.

Velferðarráð
10. október 2018

Bókun Flokks fólksins vegna kynningar um málefni fatlaðs fólks

Ljóst er að verið er að vinna gott starf á skrifstofu málefna fatlaðs fólks en borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur verulegar áhyggjur af gríðarlega löngum biðlista eftir sértæku húsnæði fyrir fatlað fólk. Nú bíða 173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Þetta er sérstaklega áhyggjuefni í ljósi þess að ný stuðningsþjónusta er að fara af stað vegna nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Gera má ráð fyrir að það hafi áhrif á þennan biðlista, hvernig áhrif, er ekki ljóst. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komin er nær þrítugt eru enn heima hjá foreldrum sínum. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir alla fjölskylduna og einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi, en er hún nægjanlega metnaðarfull? Einstaklingar hátt í þrítugt og rúmlega það hafa sumir beðið í nokkur ár. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að það sé mjög brýnt að flýta uppbyggingaráætluninni þannig að þessir 173 einstaklingar komist í sjálfstæða búsetu með þann stuðning sem þeir þurfa. Í þessum málflokki á enginn biðlisti að vera.

Svar Velferðrráðs

Bókun við svari fyrirspurnar um skólagöngu barna sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur upplýsingar um að það líði oft langur tími þar til að barn umsækjenda um alþjóðlega vernd komist í leik- og grunnskóla. Þessi mál eru kannski ekki mörg og eru á vegum Útlendingastofnunar. Enda þótt þetta sé kannski ekki á ábyrgð borgarinnar heldur ríkisins er það ábyrg okkar allra að grípa hér inn í. Í þessum dæmum eru foreldrar og börn kannski búin að vera lengi einangruð og einmana. Borgarfulltrúi vill að borgin/teymið hafa frumkvæði að fundi við Útlendingastofnun til að ræða þetta. Hér þarf að hafa hagsmuni barnanna í huga án tilllits til hvort það er líklegt að þau fái dvalarleyfi eða ekki. Dæmi eru um hvorutveggja, þe. fjölskyldan sem er hjá borginni fái synjun þegar upp er staðið og fjölskylda hjá Útlendingastofnun fá samþykki.
Öll börn umsækjenda eiga að fá skólagöngu hér á Íslandi á meðan mál þeirra eru í vinnslu. Mikilvægt er að þau geti hafið skólagöngu sem fyrst. Annað stríðir gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Eins og við öll vitum eru flestir umsækjendur um alþjólega vernd að koma úr skelfilegum aðstæðum. Því fyrr sem börnin komast í rútinu þar sem þau geta dreift huga sínum, hitt önnur börn og byrjað að upplifa barnæsku, jafnvel í fyrsta sinn, því betra.

Bókun við svari við tillögu Flokks fólksins um aðgengi barna að sálfræðingum, sem vísað var til velferðarráðs á fundi borgarstjórnar 18. september 2018.

Eins og staðan er í dag er langur biðlisti eftir þjónustu skólasálfræðings bæði í forgang 2 og 3. Um er að ræða allt frá 3 mánuðum upp í 9 mánuði, misjafnt eftir hverfum. Borgarfulltrúi veit það fyrir víst vegna starfa hans sem sálfræðingur að fjölmargir foreldrar eru afar ósáttir með slakt aðgengi að skólasálfræðingi fyrir barn sitt. Börnin líða fyrir biðina. Jafnvel þegar búið er að ákveða að nánari greiningar er þörf þá þarf barn að bíða í allt að ár. Vissulega er einhver íhlutun í gangi en það dugar ekki til í öllum tilfellum þegar ekki er nákvæmlega vitað hverjar orsakir eru fyrir vanda og vanlíðan barns sem um ræðir.
Færst hefur í vöxt að foreldrar hafa orðið að leita á stofu út í bæ með barn sitt sem stundum er komið í 8. og 9. bekk. Þá fyrst hefur komið í ljós að barnið á í sumum tilfellum við vitsmunaþroskafrávik t.d. í vinnsluminni. Þegar hér er komið sögu er barnið oft búið að tapa sjálfstrausti og sjálfsöryggi sínu.
Það er skoðun borgarfulltrúans að þjónustumiðstöðvar séu óþarfa millistykki í þessu tilliti og hamli en frekar aðgengi barnanna að sálfræðingunum. Sálfræðingar með aðsetur í skólum að öllu leyti geta vel haldið áfram að vera í þverfaglegu starfi með þjónustumiðstöðvum að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Málinu frestað. Leita á upplýsinga hvað Skóla- og frístundarráð ætlar að gera í málinu.

Borgarráð
4. október 2018

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum. 2. Hvenær hófust viðgerðir? 3. Á hvaða stigi eru þær? 4. Hvenær verður þeim lokið? 5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar? 6. Hverjar eru ástæðurnar? R18080196

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari þjónustu skrifstofu borgarstjórnar við kjörna fulltrúa

Flokkur fólksins óskar eftir að fá aukna aðstoð frá skrifstofu borgarstjórnar svo sem lögfræðiaðstoð og aðstoð með texta og prófarkalestur á tillögum og fleira í þeim dúr. Borgarfulltrúar sérstaklega minni flokkanna í minnihlutanum eru undir miklu álagi að sinna öllum skyldum en einnig að halda úti málatilbúnaði og undirbúningi funda. Á skrifstofu borgarstjórnar eru starfsmenn sem borgarfulltrúum var sagt að myndu vera þeim til aðstoðar en aðstoðin er hvorki næg né nógu víðtæk. Sú aðstoð sem hér er beðið um er ekki þar innifalin. Nauðsynlegt er að útvíkka þessa aðstoð þannig að borgarfulltrúi geti leitað til skrifstofunnar eftir lagalegri ráðgjöf og aðstoð við undirbúning mála, tillagna og fyrirspurna.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bjölluhringingar og flautur á Eineltisdeginum

Lagt er til að borgaryfirvöld og þá sérstaklega skóla- og frístundarráð mælist til þess að allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hringi bjöllum af hvers lags tagi eða þeyti flautur á eineltisdaginn 8. nóvember kl. 13:00. Árið 2009, nánar tiltekið 3. nóvember samþykkti Borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagur gegn einelti var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisáreiti var haldinn á landsvísu 8. nóvember 2011. Öllum mögulegum klukkum og bjöllum var hringt og flautur þeyttar. Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Að hringja bjöllum er skemmtilegur gjörningur í tilefni þessa mikilvæga dags, gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kosningu um Borgarlínu

Flokkur fólksins leggur fram tillögu um að Reykvíkingar kjósi um hvort þeir vilji að farið verði að undirbúa borgarlínu. Borginni ber skylda til að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði sérstaklega þegar verið er að taka ákvörðun um að fara í fjárfrekar aðgerðir sem borgarlínan verður. Hér er verið að sýsla með fé borgarbúa og í þessu tilfelli er um milljarða framkvæmdir að ræða. Í borginni eins og staðan er núna skortir mjög á lýðræði þegar kemur að því að ákveða stórframkvæmdir til framtíðar. Fáir eru að taka lokaákvarðanir sem ættu að vera teknar af fólkinu sjálfu. Hægt er að viðhafa rafræna kosningu við að heyra álit borgarbúa á borgarlínu sem dæmi. Flokkur fólksins gerir kröfu um að auka beint og milliliðalaust lýðræði. R18100125

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Svar skrifstofustjóra leikskólamála við fyrirspurn Flokks fólksins um vinnu með vináttuverkefni Barnaheilla er afar ófullkomið og felur engan veginn í sér það sem spurt var um. Áheyrnarfulltrúi mun því leggja hana fyrir aftur til að freista þessa að fá almennilegt svar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vináttuverkefni Barnaheilla hefur verið kynnt skólum borgarinnar og hafa nú þegar 17 leikskólar hafið þátttöku. Þátttaka er hverjum skóla í sjálfsvald sett.

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla

Vegna loðinna og óljósra svara vill borgarfulltrúi Flokks fólksins spyrja aftur:
Býður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með vináttuverkefni Barnaheilla að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti? Ef að hluta til, hversu stór hluti er það? R18090078

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir séu lausar vegna standsetningar. Hvað er átt við hér? Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum íbúðum og hvenær þær hófust, á hvaða stigi þær eru og hvenær er stefnt að því að viðgerð verði lokið. Fram kemur að að jafnaði sé um að ræða 70 íbúðir á hverjum tímapunkti sem standa auðar vegna viðgerðar. Þetta er mikill fjöldi íbúða sem standa auðar að jafnaði á meðan 1000 bíða á biðlista. Ljóst þykir að þetta getur varla talist eðlilegt ef tekið er mið af erfiðum húsnæðismarkaði. Allt kapp ætti að vera lagt á að standsetja íbúðirnar hratt svo hægt sé að leigja þær út aftur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í ljósi þess að í borginni starfa eineltisteymi á öllum sviðum borgarinnar auk miðlægs eineltisteymis, sem sjá um úrvinnslu flestra tilkynninga um einelti ætti ekki að vera þörf á að leita með þessi mál til sjálfstætt starfandi sálfræðinga nema í mjög sérstökum aðstæðum s.s. ef í ljós kæmi að öll teymi borgarinnar séu vanhæf til að fara með eitthvað ákveðið mál. Sé einhver í teymi vanhæfur skal kalla inn varamann. Sé teymið allt vanhæft er hægt að vísa málinu til annars teymis innan borgarinnar. Það er mjög mikilvægt að þessi mál séu sem mest unnin innan borgarinnar enda eru sjálfstætt starfandi aðilar mjög misjafnir hvað varðar færni jafnvel þótt þeir gefi sig út fyrir að hafa þekkingu og þjálfun í þessum málum. Mörg dæmi eru um að mál sem unnin eru út í bæ hafa sýnst ekki vera nægjanlega faglega unnin og málið jafnvel sett í verri farveg en áður en lagt var af stað. Dæmi eru vissulega um slíkt innan borgarinnar en það setur málið í enn alvarlegri stöðu þegar búið er að greiða háar upphæðir fyrir utanaðkomandi vinnu sem sár óánægja er með vegna ófaglegra vinnubragða og er þá ekki verið að horfa til niðurstaðna sem vissulega hugnast oft ekki báðum aðilum í svo viðkvæmum málum sem hér um ræðir.

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um fjölda barna sem búa undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um aðkeypta sálfræðiþjónustu vegna eineltismála og sundurliðun á hvers vegna beðið var um þjónustuna og hverjir voru fengnir til verksins

Tillaga Flokks fólksins um auknar fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar til að halda úti skrá yfir fyrirspurnir og tillögur

Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimild til skrifstofu borgarstjórnar eða fundar séu aðrar hagræðingaleiðir til þess að borgarskrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birti skránna á heimasíðu borgarfulltrúa á  vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn búa undir fátækrarmörkum í Reykjavík

Bókun Flokks fólksins í tillögu um auknar fjárheimildir:

Flokkur fólksins gerir kröfu um allt verði gert til að koma því sem fyrst á koppinn að hægt sé að halda opinbera skrá yfir mál og afdrif mála borgarfulltrúa þannig að þau séu aðgengileg borgarbúum á vef borgarfulltrúa. Þetta auðveldar borgarfulltrúum sjálfum að fylgjast með eigin málum og gerir mál þeirra aðgengileg öllum þeim sem vilja fylgjast með vinnu borgarstjórnar. Hvort heldur þurfi auknar fjárheimildir eins og skrifstofustjóri borgarstjórnar fullyrðir að þurfi eða að önnur hagræðing verði viðhöfð til að framkvæma þetta skiptir borgarfulltrúa Flokks fólksins engu máli, aðeins að þetta hefjist og það hið fyrsta. Hér er um sjálfsagt mál að ræða enda fordæmi fyrir sambærilegu kerfi hjá Alþingi. Borgarbúar eiga rétt á að vita hvað fólkið og flokkarnir sem það kaus eru að gera í starfi sínu sem borgarfulltrúar. Í fundargerðum er ekki vinnandi vegur að finna nokkuð enda eru þær afar óaðgengilegar og tyrfnar aflestrar.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um umframkostnað vegna braggans í Nauthólsvík

Hverjir höfðu umsjón með verkefninu? Var verkefnið boðið út, að hluta til eða öllu leyti? Hvaða verktakar unnu verkið? Samþykkti borgarstjóri reikningana áður en greitt var? Óskað er eftir að fá afrit af samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við Háskólann í Reykjavík um endurbyggingu braggans í Nauthólsvík. Óskað er eftir að fá afrit af öllum samþykktum þeirra ábyrgðaraðila innan borgarkerfisins sem samþykktu útgjaldaliði af hálfu borgarinnar umfram kostnaðaráætlun. Óskað er eftir að lagðar séu fram hönnunarfundargerðir og verkfundargerðir.

Hverjar voru hönnunarforsendurnar? Hverjar voru forsendurnar að vali ráðgjafa, voru þeir valdir vegna sérþekkingar sinnar á endurbyggingu bragga af þessu tagi eða vegna sérþekkingar þeirra á eldri húsum almennt? Á hvaða grundvelli var samið við þessa ráðgjafa? Hver ber ábyrgð á þessari framúrkeyrslu? Fyrir hönd verkkaupa og skattgreiðenda? Hver breytti forsendum þannig að kostnaðaráætlunin fór svona úr böndum? Hver hafði yfirsýn yfir framvinduna? Hver gaf leyfi til að haldið yrði áfram þegar ljóst var að áætlunin stóðst ekki.

Tillaga Flokks fólksins um jafnræði barna á félagsmiðstöðvum borgarinnar

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar eigi þess kost að taka þátt í ferðum eða viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar sem þau sækja án tillits til efnahags foreldra þeirra. Flokkur fólksins vill að skerpt sé á reglum um starfsemi félagsmiðstöðva hvað þetta varðar svo það sé ekki á valdi leiðbeinanda hverju sinni hvernig dagskráin er. Kostnaðarsöm dagskrá leiðir án efa oft til þess að börn fátækra foreldra geta ekki tekið þátt. Lagt er til að börnum fátækra foreldra (foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis) verði gert kleift að taka þátt í öllum dagskrárliðum þeim að kostnaðarlausu. Þetta er tryggasta leiðin til að gefa öllum börnum tækifæri til að taka fullan þátt í skipulagðri dagskrá félagsmiðstöðvanna án tillits til kostnaðar.

Greinargerð:

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að ekki megi mismuna börnum eftir stöðu þeirra og foreldra þeirra. Félagsmiðstöðvar vinna gott starf. Þetta er félagslegt athvarf fjölmargra barna sem njóta þess að koma saman og gera skemmtilega hluti saman. Félagsmiðstöðvar hafa iðulega mikla og metnaðarfulla dagskrá sem útheimtir sjaldnast mikinn ef nokkurn kostnað. Nokkuð hefur borið á því engu að síður að börn eru beðin að koma með pening til að standa straum af kostnaðasamari viðburðum og ferðum. Segir í reglum um félagsmiðstöðvar að reynt sé að dreifa kostnaðinum sem jafnast yfir vetrarmánuðina.

Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda barna undir framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Því má við bæta að fjöldi barna eftir þjónustumiðstöðvum og fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur er 784, flest í Breiðholti eða 218 og fæst í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Af þessu sést að aðstæður barna eru ekki einungis mismunandi almennt séð heldur eru þær einnig mismunandi eftir hverfum.

Lagt er til börnin sem hér um ræðir séu undir engum kringumstæðum krafin um að greiða þátttökugjald af neinu tagi hvort sem um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum félagsmiðstöðva. Foreldrar þessara barna eru að berjast í bökkum við að ná endum saman og eiga oft enga möguleika á að reiða fram aukafé sem félagsmiðstöðvar fara fram á börn komi með þegar til standa viðburðir eða ferðir á þeirra vegum.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250-300.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef leiguverð húsnæðis er einnig innifalið í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum.

Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Félagsmiðstöðvar eru stundum eina tómstund þessara barna. Börn sem alin eru upp við fátækt og skort af einhverju tagi fá sig oft ekki til að biðja foreldrana um peninga því þau vita að þeir eru ekki til. Það er okkar ábyrgð að gera allt sem við getum til að koma barni ekki í slíkar aðstæður.

Borgarstjórn
2. október 2018

Bókun í máli/tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um eineltiskönnun meðal fyrrverandi
starfsmanna borgarinnar

Ískaldar kveðjur frá borgarmeirihlutanum til þeirra sem telja að hafi verið brotið á sér á starfsstöðvum borgarinnar og ekki fengið faglega úrvinnslu mála sinna.
Bókunin hér segir allt sem segja þarf um þetta:
Flokkur fólksins og Miðflokkurinn vilja gera bókun vegna viðbragða meirihlutans við tillögu Flokks fólksins þess efnis að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/ upplýsingum frá núverandi/fyrrverandi starfsmönnum sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar. Lagt var til að skimað yrði eftir hvort þolendur kunni að telja að mál þeirra hafi ekki fengið fullnægjandi og /eða faglega meðferð mála sinna hjá Reykjavíkurborg og ef ekki yrði þeim boðið að fara, í sumum tilfellum aftur, yfir mál sín með mannauðsdeild. 
Þessi tillaga féll ekki vel í kramið hjá meirihlutanum sem vísaði henni frá þrátt fyrir að fullyrða að þau láti sig þessi mál varða fyrir alvöru. Borgarfulltrúum Flokks fólksins og Miðflokksins þykja þetta kaldar kveðjur til þeirra sem mögulega eru í stöðunni sem hér hefur verið lýst og líklegt til að auka enn frekar á sársauka þeirra og vonbrigði.

Braggabókun Flokks fólksins á fundi borgarstjórnar 4. október:

Braggamálið er einn stór skandall. Rúmar fjögur hundruð milljónir í verkefni sem átti að kosta 155 milljónir. Engar spurninga spurðar, alla vega hefur almenningur ekki vitneskju um þær. Svo virðist sem borgarmeirihlutinn hafi bara borgað og brosað? Mikil óvissa var í þessu máli segir borgarstjóri. Þegar verið er að sýsla með fé borgarbúa er óvissa ekki í boði. Borgarstjóri hefur komið með alls konar skýringar sem nú eftir á breytir ekki þessari alvarlegu niðurstöðu. Borgarfulltrúi Flokks fólksins segir að þennan bragga átti bara að rífa. Ekki nema einhver fjársterkur aðili hefði viljað gera eitthvað við hann. Borgarbúar eru bálreiðir og krefjast skýringa og það strax.
Á meðan verið er að fella tillögur minnihlutans er varða að veita börnum í Reykjavík betri þjónustu er stórum upphæðum sóað í hégómleg verkefni eins og þessu og fleirum. Mörgum finnst hér næg ástæða komin fyrir að borgarstjóri segi af sér. Á fundi borgarráðs í síðustu viku var það gefið í skyn að Minjastofnun væri allt eins ábyrg fyrir þessari framúrkeyrslu en nú hefur komið í ljós að Minjastofnun  sver alla ábyrgð af sér, segist ekki hafa komið nálægt ákvörðunum sem leiddu til þessara framúrkeyrslu á áætluðum kostnaði. Það er ólíðandi að svona sé farið með útsvarsfé borgarinnar. Fram hefur komið að fela á Innri endurskoðun (IE) að rannsaka málið? Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst sem IE geti varla verið „nógu“ óháður enda hefur endurskoðunin fylgst með þessu máli allan tímann og séð hvernig það hefur þróast. Hvernig á IE að allt í einu núna að geta komið að rannsókn þessari sem óháður aðili?

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um nýja starfsemi fyrir stuðningsþjónustu í ljósi nýrra laga 

Þessi tillaga meirihlutans lítur vel út á blaði en væri án efa ekki lögð fram hér nema vegna tilkomu nýrra laga um NPA sem við öll fögnum. Flokkur fólksins vill minna á þann kalda veruleika sem ríkir í borginni sem er langvarandi, rótgróin mannekla í flest þjónustustörf sem borgarmeirihlutinn hefur ekki getað eða viljað taka á. Það lofar ekki góðu að þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið reynt til að laða að starfsmenn að þeirra sögn, þá hefur það ekki tekist. Það er langur biðlisti eftir stuðningsþjónustu sem annarri heima- og aðhlynningarþjónustu í Reykjavík. Eins og margoft hefur verið bent á eru laun fyrir þessi störf skammarlega lág og útilokað fyrir fólk að lifa af þeim. Sum þessara starfa eru álagsstörf og ætti sérstaklega að vera horft til þess þegar verið er að ákvarða launin. Hvernig á þessa metnaðarfulla tillaga að verða útfærð án starfsfólks til að sinna henni? Setjum okkur sem snöggvast í spor notenda þjónustunnar sem e.t.v. þurfa að lifa í þeirri óvissu hvern dag eða viku að starfsmaður verði kannski ekki tiltækur til að veita þjónustuna.

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um eineltiskönnun meðal fyrrverandi starfsmanna borgarinnar

Lagt er til að borgarstjórn kalli eftir ábendingum/upplýsingum frá núverandi/fyrrverandi starfsmönnum borgarinnar sem telja sig hafa orðið fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða kynbundnu ofbeldi á starfsstöðvum borgarinnar.

Lagt er til að skimað verði hvort þolendur telji að kvörtun/tilkynning hafi fengið faglega meðferð. Lagt er til að hvert þeirra mála sem kunna að koma fram verði skoðuð að nýju í samráði við tilkynnanda og ákvörðun tekin í framhaldi af því hvort og þá hvernig skuli halda áfram með málið. Lagt er til að mannauðsdeild verði falið að taka saman upplýsingar um fjölda starfsmanna (tímarammi ákveðinn árafjöldi aftur í tímann) sem telja sig hafa orðið fyrir einelti/kynferðislegri áreitni/kynbundnu ofbeldi í störfum sínum hjá Reykjavíkurborg.  Fram komi hversu mörg mál hafi leitt til starfsloka þolanda,
hvernig tekið hafi verið á málum, hvort og hvernig gerendum í þeim málum sem einelti hafi verið staðfest hafi verið gert að taka ábyrgð.

Lagt er til að metið verði til fjár hver fjárhagslegur kostnaður/skaði borgarinnar er vegna eineltis/kynferðislegrar áreitni/kynbundins ofbeldis á starfsstöðvum borgarinnar. Hafa skal í huga að hvert mál er einstakt og að ástæða sé til að skoða hvert mál fyrir sig. Lagt er til að mannauðsdeild borgarinnar verði falið að yfirfara málin með fyrirvara um hugsanlegt vanhæfi að mati tilkynnanda/þolanda.

Greinargerð:

Vitað er að ákveðinn hópur (ekki vitað hversu stór) sem starfað hefur eða starfar enn hjá Reykjavíkurborg upplifir að kvörtun um einelti og eða kynferðislega áreitni hafi ekki verið fagleg eða sé ekki lokið vegna þess að málsmeðferð hefur verið ófagleg og óréttlát eða að málsmeðferð hefur ekki átt sér stað þrátt fyrir að upplýst hafi verið um ofbeldið, áreitni eða einelti.

Í ljósi þeirrar umræðu sem #metoo byltingin hefur flett ofan af varðandi óviðeigandi hegðun á starfsstöðvum borgarinnar telur borgarfulltrúi Flokks fólksins mikilvægt að bjóða þeim sem kunna að telja sig þolendur/brotaþola í málum af þessu tagi eða telja að mál þeirra hafi ekki fengið fullnægjandi og/eða faglega meðferð hjá Reykjavíkurborg að fara yfir mál sitt í sumum tilfellum „aftur“ með það að markmiði að tryggja sanngjarna málsmeðferð.

Það er með öllu óásættanlegt ef starfsmaður situr uppi með þann sársauka og skaða sem fylgir því að hafa ekki fengið faglega lausn á máli af þessu tagi. Enginn á að vera skilinn eftir í slíkri stöðu. Í það minnsta er það tilraunarinnar virði að bjóða þeim sem þannig statt er með að koma og fara að nýju yfir mál sín. Í sambandi við þetta vill borgarfulltrúi vitna í aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020 en þar segir um kynbundna og kynferðislega áreitni í starfsumhverfi borgarinnar:

„#Metoo byltingin sýndi fram á mikilvægi þess að allt samfélagið bregðist við og vinni gegn kynferðislegri og kynbundinni áreitni og ofbeldi. Niðurstöður viðhorfskannana meðal starfsfólks borgarinnar hafa einnig sýnt fram á nauðsyn þess að taka á þessum málum í starfsumhverfi borgarinnar. Einnig þarf að endurskoða siðareglur bæði starfsfólks og kjörinna fulltrúa og efla kynningu á þeim.“

Þessu til viðbótar vill borgarfulltrúi Flokks fólksins vitna í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi þar sem segir að kynferðislegt ofbeldi, misnotkun eða áreitni er litið alvarlegum augum hjá Reykjavíkurborg. Grunnstefið í stefnu Reykjavíkurborgar er að einelti, áreitni eða ofbeldi af öðrum toga er ekki liðið og hart verður tekið á öllum slíkum atvikum. Jafnframt segir í stefnunni að þolendur fái aðstoð og leiðbeiningu við að leita sér stuðnings eftir þörfum. Kynferðislegt ofbeldi eða áreitni er ekki liðin hjá Reykjavíkurborg. Reykjavíkurborg er til staðar og styður þolendur kynferðislegs ofbeldis og áreitni.

Tillaga Flokks fólksins um að allir leik- og grunnskólar í Reykjavík verði grænfánaskólar

Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann.

Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur örnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum.

Lögð fyrir aftur þar sem henni var frestað á síðasta fundi borgarstjórnar, sjá greinargerð neðar, Borgarstjórn 18. september
Felld

Skóla- og frístundarráð
19. september 2018

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. 1. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis: „Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Þetta eru ósanngjörn inntökuskilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og sett til að fæla þá foreldra barna frá sem eru með þroskahömlun á miðlungs eða vægara stigi. Sömu inntökuviðmið hafa gilt um skólavist í þátttökubekknum og í Klettaskóla sjálfum. Foreldrar barna sem ná ekki þessum viðmiðum eða naumlega (jafnvel þótt ekki muni nema einu stigi í greindarvísitölu) reyna ekki að sækja um því þau vita að það þýðir ekki. Á meðan eru kannski mörg börn með þroskahömlun á einhverju stigi að berjast í bökkum inn í almennum bekk, líður illa, finnast þau vera ómöguleg, eru einangruð, er strítt og eru á engan hátt meðal jafningja. Í ljósi vaxandi vanlíðunar barna, aukins sjálfsskaða og hækkaðri tíðni sjálfsvígshugsana samkvæmt skýrslu Embættis landlæknis er hér um alvarlegan hlut að ræða í skólakerfinu í Reykjavík. Eins og fyrirkomulagið er núna fá sum börn ekki tækifæri til að stunda nám meðal jafningja og þess í stað er þeim gert að stunda nám í „skóla án aðgreiningar“ sem er vissulega falleg hugmynd en ekki alltaf raunhæf enda hefur ekki fylgt þessu fyrirkomulagi nægt fjármagn árum saman. Skóli án aðgreiningar eins og hann er í dag er ekki að mæta þörfum allra barna.

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði.

Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum: 1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar- og félagslegra vandamála) 2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar ósammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

 Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fram kemur að kannað hafi verið meðal foreldra (eða kannað sé reglulega) hvernig barni vegni í skólanum sínum og þá spurt um líðan barns, stuðning frá kennara og framfarir í námi. Það kemur ekki fram hverjar niðurstöður hafi verið úr þessum könnunum. Hverju svara foreldrar? Hverju svara foreldrar fatlaðra barna? Það vekur eftirtekt hve lítið er gert úr því þegar foreldrar gera sérstakar athugasemdir í könnunum, enda séu þær ekki vísbendingar um vilja foreldra almennt. Það eru höfð mörg orð um að ekki sé til fjármagn né mannafli til að kanna vilja/skoðun foreldra. En er til fjármagn til að gera þær kannanir sem sagt er að hafi verið gerðar? Til þess að draga úr kostnaði og þörf fyrir mannafla væri hægt að einfalda könnunina. Það er hópur fatlaðra barna í skólum borgarinnar, (börn með misalvarlegar fatlanir) sem líður illa vegna einangrunar og einmanaleika og finna sig ekki í aðstæðum þar sem þau geta ekki það sama og önnur börn, finnst þau vera öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrunni. Foreldrar þessara barna bera kvíðboga fyrir fötluðum börnum sínum og svíður að hafa ekkert val um úrræði sem hentar þeim betur.

Flokkur fólksins leggur til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn.

Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Tillagan er felld með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn einu atkvæði skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins. Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins harmar afgreiðslu þessarar tillögu og hinna tveggja sem Flokkur fólksins hefur lagt fram og sem fjalla einnig um skóla- og félagslegar þarfir fatlaðra barna í skólum í Reykjavík. Í svari við tillögunni er bent á að ekki séu biðlistar en staðreyndin er sú að Klettaskóli er mjög eftirsóttur og foreldrum barna sem óska inngöngu er vísað frá áður en til umsóknar kemur. Foreldrum sem óska eftir skólavist í Klettaskóla fyrir börn sín er tjáð strax í upphafi að barnið muni ekki fá inngöngu sé það ekki „nógu“ fatlað til að mæta skilyrðunum. Auk þess er Klettaskóli löngu sprunginn og tekur ekki við fleiri börnum sem segir kannski allt sem segja þarf í þessum efnum. Nauðsynlegt er að hafa skólaúrræði sem mætir ólíkum þörfum barna. Ein tegund úrræðis ætti ekki að útiloka annað. Málið snýst um að hafa val. Börn með þroskahömlun eru nefnilega ekki öll eins og þeim hentar ekki öllum það sama. Það þrífast ekki öll börn í þeim úrræðum sem eru í boði. Það vantar annan skóla eins og Klettaskóla og það vantar einnig úrræði fyrir börn með væga og miðlungs þroskahömlun, börnum sem líður illa í almennum bekk, námslega eða félagslega. Barn sem líður illa lærir lítið. Það væri óskandi að borgin/borgarmeirihlutinn myndi vilja horfast í augu við þessa staðreynd ekki síst í ljósi vaxandi vanlíðan barna eins og skýrsla Embættis landlæknis hefur fjallað um.

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökureglum í þátttökubekki Klettaskóla.

Flokkur fólksins vill leggja til að inntökureglur í svokallaðan þátttökubekk verði rýmkaðar til muna. Til stóð að bekkirnir yrðu 4 í borginni. Fjölgi umsóknum í „þátttökubekk“ er lagt til að þeim verði fjölgað eftir þörfum. Eins og staðan er í dag eru inntökuskilyrði í þátttökubekkina þau sömu og í Klettaskóla. Þetta eru of ströng og stíf skilyrði að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og fælir mögulega foreldra frá að sækja um fyrir börn sín sem gætu notið góðs af því að stunda nám í þátttökubekk. Fram hefur komið að nú fyrst er sá eini þátttökubekkur sem er rekinn fullur en lengi vel var aðsókn ekki mikil. Ástæðan gæti verið sú að inntökuskilyrðin eru of ströng og að foreldrar barna sem ekki ná þessum viðmiðunum sækja þar að leiðandi ekki um. Vitað er að hópur barna (ekki vitað hve mörg) eru að berjast í bökkum í almennum bekk með eða án stuðnings eða sérkennslu. Það er skylda okkar að gera allt sem við getum til að sjá til þess að hverju einasta barni líði vel í skólanum og finni sig meðal jafningja. Að rýmka inntökuskilyrðin í þátttökubekk og fjölga þeim eftir þörfum gæti verið byrjun á að mæta enn frekar ólíkum náms- og félagslegum þörfum barna.

Velferðarráð
19. september 2018

Fyrirspurnir Flokks fólksins í Velferðarráði er varða umsækjendur um alþjóðlega vernd

Hversu fljótt fá umsækjendur um alþjóðlega vernd boð eða tækifæri til að sækja íslenskunámskeið eftir að þeir koma til landsins?
Hversu langur tími líður frá því að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd geta hafið leik- eða grunnskólagöngu eftir að þau koma til landsins?

Svar Velferðarráðs við fyrirspurnunum

Borgarráð 20. september 2018

Flokkur fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir liðnum: Dómsmál – E-3132/2017 gegn Reykjavíkurborg:

Á fundi borgarráðs 13. september lét borgarfulltrúi Flokks fólksins bóka undir liðnum: Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um dómsmál E-3132-2017 gegn Reykjavíkurborg að sér fyndist „stjórnsýsla borgarinnar vera komin á hálan ís að ætla að ákveða að einhver sé aðili í máli án þess að hann hafi tilkynnt um einelti og það að fara ítrekað fram á þátttöku hans í „rannsókn“ mætti jafnvel  túlka sem áreitni“. Í bókuninni segir enn fremur að áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins „finnist vísbending vera um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda þar sem allt kapp virtist lagt á að verða við kröfu hennar um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hafi margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi.“ Daginn eftir bárust oddvitum minnihlutans upplýsingar frá kjarafélaginu um að fjármálastjóra Ráðhúss hafi borist svar þar sem því er lýst yfir af settum mannauðsstjóra, að „eineltisrannsókn sú sem skrifstofustjóri borgarstjóra og borgarritara óskaði eftir í apríl sl. og borgarritari varð við, henni sé nú lokið enda séu ekki til staðar forsendur til að fram fari rannsókn á meintu einelti”. Þessari niðurstöðu stjórnsýslunnar vill áheyrnarfulltrúinn fagna.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um Nauthólsveg 100

Lagt fram svar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, dags. 19. september 2018, við fyrirspurn borgarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna bragga að Nauthólsvegi 100 og fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins um yfirlit yfir framkvæmdir við braggann í Nauthólsvík, sbr. 5. og 36 lið fundargerðar borgarráðs frá 6. september 2018.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Braggaverkefnið óx stjórnlaust, frá 155 milljónum sem var áætlun í 404 milljónir. Þetta er óásættanlegt. Hér hafa verð gerð stór mistök og eins og þetta lítur út núna mun þetta koma verulega við pyngju borgarbúa á meðan enn er húsnæðisvandi og biðlistar í flesta þjónustu s.s. heimaþjónustu aldraðra og sálfræðiþjónustu barna. Rétt er að nefna að um 200 manns með heilabilun hafa ekki hjúkrunarrými. Áheyrnarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins hafa fundið það á fjölmörgum að mikil óánægja er með þessa framkvæmd, mörgum finnst þetta ekki vera  í neinu samhengi við dapran raunveruleika sem margir búa við hér í Reykjavík. Fjölmargt í þessu ferli ber keim af fljótræði og vanhugsun auk þess sem borgin tók ákvörðun um að opna krana án þess að blikna. Bara rétt til að almenningur átti sig á því bruðli sem hér átti sér stað kostaði náðhúsið eitt kr. 46 milljónir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna umræðu um OR

Á heimasíðu OR eru engar upplýsingar um forvarnaráætlun hjá fyrirtækinu né er að finna viðbragðsáætlun eða upplýsingar um úrvinnsluferli eineltis- og ofbeldismála eða hvernig skuli fara með kvörtun um kynferðisáreitni. Allir vinnustaðir ættu að hafa viðbragðsáætlun og slík áætlun ætti að vera aðgengileg á heimasíðu fyrirtækis sem og tilkynningareyðublað. Þau fyrirtæki sem hafa þessi mál í góðu lagi eru einnig með á heimasíðum skilgreiningar á hegðun og framkomu og þar með hvaða hegðun er ekki liðin í fyrirtækinu. Ábyrgð stjórnenda er mikil. Starfsmenn eiga allt undir yfirmanni bæði þegar kemur að forvörnum og réttum viðbrögðum. Áheyrnarfulltrúinn fagnar röskleg inngripi stjórnar inn í þetta mál og að nú sé að hefjast óháð úttekt innri endurskoðanda á vinnustaðarmenningu sem og að forstjóri hafi vikið tímabundið. Vanda þarf vel við val á öðrum fagaðilum sem kunna að vera fengnir til verksins og að það sé tryggt að þeir aðilar fylgi persónuverndarlögum og að meintur brotaþoli (-þolar) hafi aðgang að ferli máls síns og er upplýstur um hvert skref vinnslunnar. Áheyrnarfulltrúi Flokk fólksins hefði viljað sjá að gengið hefði verið jafn rösklega fram í viðbrögðum við því ástandi sem ríkt hefur í Ráðhúsinu undanfarin misseri og lesa má um í dómi E-3132/2017.

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað vegna dagpeninga í utanlandsferðum

Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að vísa í hótel- og flugkostnað heldur annan kostað sem veittir eru dagpeningar í og ætlaðir fyrir fæði og annan kostnað sem lítur að uppihaldi á ferðum erlendis. Í mörgum ferðum er boðið upp á fæði að hluta til og jafnvel öllu leyti en engu að síður er fólk að fá fulla dagpeninga. Dagpeningakerfið er dýrt kerfi og barn síns tíma að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á er ákveðið eðlilegt hámark. Í þessu er mikil hagræðing,  gagnsæi og á sama tíma er tryggt að sá sem ferðast þarf ekki að leggja út kostnað fyrir nauðsynjahlutum á ferðalaginu hvort heldur sem það er matur eða ferðir innan borgar/staðar t.d. til og frá ráðstefnu/námskeiði. Spurt er hver var dagpeningakostnaður (ekki hótel- eða flugkostnaður) árið 2016 og 2017 hjá borgarfulltrúum og starfsmönnum skrifstofu borgarstjóra og borgarstjórnar? Einnig er óskað upplýsinga um dagpeninga á ferðum innanlands fyrir sama hóp að frátöldum hótel- og flugkostnaði.

Tillaga Flokks fólksins um auknar fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar til að halda úti skrá yfir fyrirspurnir og tillögur

Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimildir til skrifstofu borgarstjórnar  eða fundnar séu aðrar hagræðingarleiðir til þess að skrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birt skrána á heimasíðu borgarfulltrúa á vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að sinnti. Segir í minnisblaði skrifstofustjóra sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar eftirfarandi: „Við upphaflega þarfagreiningu voru teknar saman allar fyrirspurnir og tillögur eins flokks á kjörtímabilinu, ásamt greinargerðum og afgreiðslum og settar upp með samræmdu sniði í eitt skjal. Það skjal reyndist vera 21.190 orð á 54 blaðsíðum.“ Vísað er að öðru leyti í umrætt minnisblað. Yrði sambærileg vinna gerð fyrir hina flokkana er ljóst að frekara fjármagn þarf eða finna þarf aðrar leiðir til að gera skrifstofunni kleift að sinna þessu verkefni sem er mikilvægt fyrir margar sakir m.a. að auka gagnsæi og gera borgarbúum auðveldara að fylgjast með málum sem lögð eru fram í borginni.

Frestað.

Borgarstjórn
18. september 2018

Bókanir:

Umræða um tillögu meirihlutans um borgarlínu tók á 4. klukkustund í borgarstjórn. Bókanir Flokks fólksins við tillögu meirihlutans er eftirfarandi:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður frávísunartillöguna á þeim grundvelli að eðlilegt og réttlátt er að gefa borgarbúum tækifæri til að taka afstöðu til borgarlínu með sérstakri kosningu enda er málið umdeilt.

Hvað felst í þessari risavöxnu framkvæmd og útfærslu hennar er ekki öllum ljóst. Ekki er hægt að segja að það liggi fyrir nægjanlega skýr vilji borgarbúa um að hefja eigi þessa dýru framkvæmd sem borgarlína er. Í tillögu borgarmeirihlutans sem nú hefur verið lögð fram í borgarstjórn er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í verkefninu. Skýr vilji borgarbúa þarf að koma fram hvað varðar þessa dýru ákvörðun enda mun bygging borgarlínu koma við pyngju þeirra og hafa það af leiðandi mögulega áhrif á aðra veitta þjónustu í borginni?

Frávísunartillaga var síðan felld og tillaga meirihlutans var samþykkt með þeirra meirihlutaatkvæðum. Flokkur Folksins greiddi atkvæði á móti og lagði fram aðra bókun til skýringar: Hún er eftirfarandi:

Það er ljóst að borgarmeirihlutinn ætlar að hefja uppbyggingu borgarlínu þrátt fyrir að mörg önnur brýn verkefni sem varða grunnþarfir borgarbúa hafa ekki verið leyst. Er ekki nær að byrja á fæði, klæði og húsnæði fyrir alla áður en ráðist er í slíkt mannvirki sem borgarlína er? Að koma þaki yfir höfuð allra í Reykjavík og eyða biðlistum svo börn fái þá þjónustu sem þau þurfa. Að setja þarfir borgarbúa í fyrsta sæti. Fólkið fyrst!

Í tillögu meirihlutans er ekki stafkrókur um kostnað, skiptingu hans milli ríkis og borgar og hlutfall annarra sveitarfélaga í þessari risaframkvæmd. Og enn skal þenja báknið með ráðningu nokkurra verkefnastjóra. Það er virðingarvert að ætla að efla almenningssamgöngur í borginni en Flokkur fólksins vill vita hvar á að taka þessa. Hvað segja borgarbúar? Vita þeir út á hvað þetta verkefni gengur, hvernig það muni koma við pyngju þeirra og hvaða áhrif það kann að hafa á aðra þjónustu í borginni?

Áður en ráðist verður í þetta verkefni er það lágmarksvirðing við borgarbúa að þeir verði upplýstir af óháðum aðilum um hvert einasta smáatriði þessu tengdu og í kjölfarið gefist þeim kostur á að kjósa um hvort hefjast eigi handa við þetta verkefni í samræmi við tillögu bogarmeirihlutans.

Bókun vegna afgreiðslu meirihlutans við tillögu Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi barna að skólasálfræðingum

Viðbrögð meirihlutans við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi að skólaþjónustu og að sálfræðingar hafi aðsetur í skóla er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins veikburða málflutningur með útúrsnúningaívafi. Það er ekki verið að biðja um mikið með þessari tillögu, aðeins að sálfræðingar skóla sæki vinnu sína í skólana þar sem þeirra rétti staður er, við hliðina á börnunum og starfsfólkinu. Tillögunni er vísað til velferðarráðs þar sem borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins vona að fulltrúar í ráðinu, allir sem einn, láti verkin tala í þágu barnanna með því að gera þær breytingar sem tillagan gengur út á.

Umræða lögð fram af borgarmeirihlutanum um stöðu mönnunar á starfsstöðvum skóla- og frístundasviðs. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Vetrarstarfið er nú hafið í leik- og grunnskólum og enn vantar í margar stöður. Eftir er að ráða í 38 stöðugildi í leikskólum, í frístundinni vantar í rúmlega 64 stöðugildi. Á biðlista eftir leikskólaplássi eru 186 börn. Þessi staða er enn með öllu óásættanleg. Mannekla í leikskólum er ekki nýtt vandamál og því sætir það furðu að borgin hafi ekki getað tekið á því með mannsæmandi hætti fyrir löngu. Álagið sem þessu fylgir hefur ekki verið og er ekki boðlegt börnunum og foreldrum þeirra hvað þá starfsfólki leikskólanna. Allt of lengi hefur borgin hunsað þetta vandamál eða í það minnsta ekki tekið það nægjanlega föstum tökum. Veigamestu atriðin sem skipta máli hér eru launamálin sem eru óviðunandi. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Allt spilar þetta saman. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau á borgin að setja í forgang þegar kemur að úthlutun fjármagns. Hækka þarf launin enn frekar og breyta vinnutímafyrirkomulagi til að létta á og jafna álag á starfsmönnum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun vegna tillögu um að valdefla skólana þannig að þeir ráði sjálfir til sín sálfræðinga 

Í minnisblaði skóla- og frístundaráðs sem fylgir rökstuðningi meirihlutans fyrir að fella þessa tillögu kemur fram að hún hafi verið óljós. Borgarfulltrúa þykir þetta útúrsnúningur þar sem hringt var í hann þegar tillagan var í vinnslu til að fá nánari útskýringar sem voru veittar með fullnægjandi hætti eftir því sem best var skilið. Í tillögunni felst að þeir sálfræðingar sem fyrir eru dreifist til skólanna í 40% stöðugildi og til að það næðist myndi án efa þurfa að ráða fleiri sálfræðinga. Enn og aftur vill Flokkur fólksins leggja áherslu mikilvægi þess að sálfræðingar séu sýnilegir á göngum skólanna og að börnin og foreldrar þeirra viti hverjir þeir eru.

Tillaga Flokks fólksins um að allir leik- og grunnskólar í Reykjavík verði grænfánaskólar

Lagt er til að öllum leik- og grunnskólum borgarinnar verði gert kleift m.a. fjárhagslega sem og hvattir til að taka þátt í verkefninu skólar á grænni grein (grænfáninn). Vissulega geta skólar verið grænir, heilsueflandi og í miklu umhverfisstarfi þótt þeir séu ekki grænfánaskólar. Fáninn er engu að síður góður og skýr mælikvarði og merki um að skóli hafi náð ákveðnu viðmiði í umhverfismálum. Borgin ætti því hiklaust að nota þennan mælikvarða sem nú þegar hefur verið búinn til og þróaður og styðja og styrkja alla skóla til að taka upp græna fánann.

Eitt af markmiðum skóla á grænni grein er að fræða börnin um matarsóun og mikilvægi þess að hætta notkun einnota plasts s.s. plastpoka. Að vera skóli á grænni grein gefur örnunum tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttum verkefnum sem vekur þau til vitundar um umhverfið og hvernig þau geta hlúð að því. Verkefnin hjálpa börnunum að skynja mikilvægi þess að sporna gegn matarsóun í nærumhverfinu og setja sér skýr markmið í umhverfismálum.

Greinargerð:

Að gerast grænn skóli er ferli. Áhuga barna og foreldra þarf að glæða og viðhalda. Mikilvægt er að gera eitthvað sem er áþreifanlegt og sem börnin geta fundið strax áhrifin af. Dæmi eru um verkefni er að skólar kanni matarsóun í mötuneyti skóla sinna t.d. með því að nemendur vigti mat sem er hent í hverjum árgangi í heila viku. Niðurstöður má nota til að reikna út hversu miklum mat er hent á heilu skólaári. Með því að fá upplýsingar hjá matráði hvað einn matarskammtur kostar er hægt að reikna út hversu miklum verðmætum er hent á einu skólaári.

Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera. Að gefa öllum börnum í Reykjavík tækifæri til að vinna í umhverfismálum í enn ríkari mæli en nú er er skylda okkar og ábyrgð. Þessi mál varða framtíðina og framtíðin er barnanna. Ef börn fá tækifæri til að snerta sjálf á málum, koma með tillögur og leiðir er líklegt að þau muni beita sér enn frekar fyrir málstaðinn. Þátttaka í verkefni um matarsóun er hvetjandi á marga vegu. Barnið finnur að hér er um áskorun að ræða, það er að taka þátt í keppni um að lágmarka matarsóun. Barni sem þykir maturinn góður, fær að skammta sér sjálft, fær nægan tíma og næði til að borða er afar líklegt til að klára af disknum sínum.

Í Reykjavík eru 43 grunnskólar (34 almennir grunnskólar, 2 sérskólar og 6 sjálfstætt starfandi grunnskólar) og 79 leikskólar (62 borgarreknir leikskólar og 17 sjálfstætt starfandi leikskólar). Fjöldi grænfánaskóla eru 14 grunnskólar og 23 leikskólar eftir því sem næst er komist. Kostnaður við að gerast grænfánaskóli er 135 krónur á hvern nemanda skólans en þó að lágmarki 25.000 kr. á skóla og að hámarki 75.000 kr. Ef skólar eru á fleiri en einni starfsstöð, eru greiddar 10.000 krónur fyrir hverja starfsstöð en hámarksgreiðslan aðeins greidd einu sinni.

Tillaga Flokks fólksins um biðlistalaust aðgengi barna að sálfræðingum borgarinnar

Flokkur fólksins leggur til að borgin tryggi öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Ástandið hefur lengi verið slæmt í þessum efnum. Í nýrri skýrslu Embættis landlæknis kemur fram að almenn vanlíðan barna hefur aukist og aukning hefur orðið á tíðni sjálfskaða og sjálfsvígshugsana stúlkna. Borginni ber skylda til að tryggja öllum börnum biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Borgin getur axlað ábyrgð hér í mun ríkari mæli, annars vegar með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum í stað þjónustumiðstöðva og hins vegar með því að fjölga sálfræðingum í skólum.

Greinargerð:

Biðlistar eftir viðtölum og greiningum hjá skólasálfræðingum í borginni eru allt frá nokkrum vikum upp í marga mánuði. Það er aðallega tvennt sem hefur áhrif á aðgengi og að biðlistar myndist, annars vegar að aðsetur sálfræðinga er ekki í skólunum sjálfum heldur á þjónustumiðstöðvum og hins vegar að sálfræðingar skóla eru ekki nógu margir. Slakt aðgengi og biðlistar eru því ekki sálfræðingunum sjálfum að kenna. Nýlegar voru birtar niðurstöður skýrslu Embættis landlæknis um sjálfsvígshugsanir og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna. Fram kemur að sjálfskaði stúlkna hefur aukist og tengsl milli sjálfskaða og sjálfsvígshugsana og sjálfsvígs eru óyggjandi. Rúmlega 9% ungmenna á Íslandi hafa gert tilraun til sjálfsvígs.

Í dag eru fleiri stúlkur en drengir sem segjast hafa hugleitt sjálfsvíg og er aukning frá árinu 2010. Fleiri drengir en stúlkur eru á skrá yfir dauðsföll vegna sjálfsvíga á aldrinum 16-20 ár. Hlutfall drengja sem gera tilraun til sjálfsvígs er stöðugt á meðan hlutfall stúlkna hefur aukist úr 9% árið 2000 í 12% árið 2016 eins og fram kemur í ofannefndri skýrslu. Þetta er kjaftshögg fyrir okkur öll. Í ljósi þessara upplýsinga er ljóst að staða margra barna er ekki góð hvað varðar andlega líðan. Orsakir geta verið fjölmargar og margslungnar og verða ekki reifaðar hér. Til að ná utan um svo viðamikið vandamál þarf ríki og borg að vinna saman. En á vettvangi borgarinnar er hægt að gera betur bæði á sviði forvarna og aðgengi barna að sálfræðingum þarf að vera miklu betra.

Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi biðlistalaust aðgengi að sálfræðingum á vegum borgarinnar. Aðsetur sálfræðinga ætti skilyrðislaust að vera í skólunum sjálfum eins og áður var til að auðvelda aðgengi barnanna að þeim. Enda þótt sálfræðingar séu hluti af þverfaglegu teymi skólaþjónustunnar ættu þeir engu að síður að geta haft aðsetur í skólunum. Hlutverk þjónustumiðstöðva er mikilvægt t.d. til að tryggja jafnræði ýmissa verkefna milli hverfa. Milliganga þeirra milli skóla og skólasálfræðinga hefur hins vegar gert það að verkum að aðgengi að sálfræðingunum er lakara og líkur á að biðlistar myndist þar af leiðandi meiri. Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim mestu máli.

Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn, vita hvar hann er að finna og vita að þau geti leitað til hans með skömmum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust. Með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum geta þeir unnið þéttar með námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi. Saman geta þessi fagaðilar myndað öflugt teymi sem sinnir forvarnarstarfi og verið til taks fyrir börnin, starfsfólkið og foreldrana allt eftir atvikum og þörfum. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfskaða og jafnvel sjálfsvígstilraunar. Slakt aðgengi að fagþjónustu getur kostað líf.

Borgarráð
13. september 2018

Svona lítur eineltisstýrihópur borgarinnar út:
Kolbrún Baldursdóttir, formaður hópsins. Þorsteinn Einarsson, Geir Finnsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Alexandra Briem, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Ragnhildur Alda
Vilhjálmsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.

Erindisbréfið:
Inngangur:
Stefna Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi var samþykkt í borgarráði þann 22. desember 2016. Á fundi borgarráðs þann 19. júlí 2018 var samþykkt að skipa stýrihóp í þeim tilgangi að endurskoða stefnuna sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir og er jafnframt formaður hópsins.

Hlutverk stýrihóps:
Hlutverk stýrihópsins er að leggja fram drög að endurskoðaðri stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar.

Markmið:
Að styrkja og styðja stofnanir og fyrirtæki borgarinnar í að vera sem mest sjálfbær í forvarnarmálum og úrvinnslu þeirra kvartana um einelti eða áreitni sem kunna að berast og í að
tryggja öryggi starfsmanna.

Helstu verkefni:
Að yfirfara núverandi stefnu Reykjavíkurborgar og leggja fram drög að endurskoðaðri stefnu. Gera tillögu að úrbótum á verkferlum Reykjavíkurborgar í eineltis- og áreitnimálum og á starfi og hlutverki eineltis- og áreitniteyma (t.d. aukið gagnsæi, andmælarétt og
jafnræði). Að ræða annað það sem hópurinn telur mikilvægt að skoða hvað varðar hlutverk og ferla eineltis- og áreitniteyma.

Með hópnum starfar ritari frá skrifstofu mannauðsdeildar.
Hópurinn hefur samráð við
ofbeldisvarnarnefnd, eineltis- og áreitni teymi, stéttarfélög og fleiri ef þurfa þykir.

Starfstímabil:
Stýrihópurinn skili ábyrgðarmanni niðurstöðum fyrir lok janúar 2019.

 

Bókun Flokks fólksins vegna umræðu undir lið fyrirspurnar Miðflokksins um dómsmál- E3132/2017

Flokkur fólksins mótmælir því að stjórnsýsla borgarinnar geti tekið punkta úr umræddum dómsskjölum og litið á það sem kveikju, að kröfu meints geranda, til að gera rannsókn eða einhvers konar forathugun á meintu einelti skrifstofustjóra gegn fjármálastjóra. Meintur þolandi er ekki aðili þessa máls, hann hefur ekki lagt fram eineltiskvörtun og frábýður sér nokkra þátttöku í forathugun, rannsókn eða hvað á að kalla það. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst stjórnsýsla borgarinnar hér vera komin á hálan ís. Að ákveða að einhver sé aðili í máli af þessu tagi án þess að tilkynning eða kvörtun liggur fyrir frá viðkomandi og fara ítrekað fram á þátttöku hans má jafnvel túlka sem áreitni.

Borgarfulltrúa finnst vísbending um meðvirkni af hálfu stjórnsýslunnar með hinum meinta geranda. Allt kapp virðist lagt á að verða við kröfu hans um einhvers konar vinnslu þrátt fyrir að meintur þolandi hefur margsinnis hafnað því að vilja koma nálægt nokkru slíku enda lauk málinu, að hans mati, með fullnægjandi hætti í dómsalnum með umræddum dómi. Stjórnsýslan er hvött til að virða að fullu afstöðu fjármálastjórans og horfast í augu við þá staðreynd að ekki verði um frekari vinnslu í þessum máli.

Tillaga Flokks fólksins um að hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum í Reykjavík verði leyft

Lagt er til að borgarráð samþykki að leyfa hunda- og kattahald í félagslegu húsnæði í eigu borgarinnar. Leyfið er háð þeim skilyrðum að ef um sameiginlegan inngang eða stigagang er að ræða er hunda- og kattahald háð samþykki 2/3 hluta eigenda. Ef um sérinngang er að ræða er gæludýrahaldið leyfilegt. Þetta er í samræmi við Samþykkt um hundahald í Reykjavík dags. 16. maí 2012.

Greinargerð:

Ekkert getur komið í stað tengsla við aðra manneskju en gæludýr getur uppfyllt þörf fyrir vináttu og snertingu. Gæludýr þar með talið hundar og kettir eru hluti að lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einir og einmanna. Átakanleg eru þau fjölmörgu tilvik þar sem fólk hefur orðið að láta frá sér hundana sína vegna þess að þeir eru ekki leyfðir í félagslegum íbúðum á vegum borgarinnar.
Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýnir áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrsins síns getur verið djúpstæð. Hundar og kettir sem dæmu eru oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nýstir þegar gæludýr fellur frá eða aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra. Að banna gæludýr eins og hunda og ketti í félagslegu húsnæði borgarinnar er ómanneskjulegt og ástæðulaust.

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins að gjald sem greitt er fyrir skólamáltíðir verði lækkað um þriðjung frá 1. janúar 2019

Greinargerð:

Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að legga til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna.

Tillaga Flokks fólksins að borgin skilgreini þjónustusamninga mötuneyta borgarinnar og bjóði rekstur þeirra út.

Greinargerð

Markmiðið með þessari tillögu er að skilgreina gæði mötuneytisfæðis betur og auka gæðin. Auk þess eru vísbendingar um að þetta fyrirkomulag er hagstæðara en það sem nú ríkir sbr. niðurstöður útboða.

Fyrirspurnir er varða mötuneyti borgarinnar, matarsóun og stefnu til að sporna við matarsóun

Það er stefna Flokks fólksins að skólamatur verði helst gjaldfrjáls í Reykjavík. Þess vegna finnst Flokk i fólksins mikilvægt að vita heildar-umfangið og vanskilin og hvernig brugðist er við vanskilum á fæðisgjaldi skólamáltíða, og leikskólamáltíða.

Hér eru eftirfarandi fyrirspurnir:.

 1. Hversu mörg mötuneyti rekur Reykjavíkurborg, t.d. fyrir leik- og grunnskólanemendur, eldri borgara eða starfsfólk Reykjavíkurborgar ? og hversu mörgum stendur til boða að nýta sér þessa þjónustu
 2. Hversu margir greiða að jafnaði fyrir mat í mötuneytum borgarinnar á hverjum degi ?
 3. Hversu margir af þeim sem greiða fyrir mat nýta sér að jafnaði þjónustuna á hverjum degi ?
 4. Hver eru vanskil á fæðisgjaldi mötuneyta Reykjavíkurborgar ? og hvernig er innheimtu háttað ? og hvaða úrræði standa þeim sem ekki greiða fæðisgjald til boða ?
 5. Eru til næringaútreikningar fyrir mat í mötuneytum borgarinnar?
 6. Ef já, er einhver sem fylgist með þeim útreikningum?
 7. Er starfandi næringarfræðingur sem þjónustar mötuneyti borgarinnar og ef svo er hvernig er störfum hans háttað?
 8. Er vitað hver matarsóun í mötuneytum borgarinnar er?
 9. Er vitað hversu miklum mat er hent í mötuneytum borgarinnar?
 10. Er til stefna hjá borginni eða leiðir til að nýta matarafganga?

Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vinnu með Vináttuverkefni Barnaheilla

Fjölmargir leikskólar vinna með Vináttuverkefni Barnaheilla í starfi sínu. Einn grunnskóli vinnur með Vináttuverkefnið sem tilraunaverkefni. Spurt er:
Bíður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með verkefnið að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti?
Ef að hluta til, hversu stór hluti er það?

Greinargerð:

Upplýsingar um Vináttu tekið af vef Barnaheilla: Vinátta er forvarnarverkefni Barnaheilla gegn einelti ætlað leikskólum og fyrstu bekkjum grunnskóla. Verkefnið felst í útgáfu námsefnis sem ætlað er börnum á leik- og grunnskólaaldri og foreldrum þeirra sem og námskeiðum fyrir kennara. Efnið er danskt að uppruna og heitir á frummálinu Fri for mobberi. Það er þýtt, staðfært og gefið út í samstarfi við Red barnet – Save the Children og Mary Fonden í Danmörku. Frá árinu 2014 hefur Vinátta staðið leikskólum á Íslandi til boða. Mikil ánægja er með verkefnið þar sem það er notað og hefur Vinátta breiðst hratt út hér á landi og var í byrjun árs 2018 notað í um 40% íslenskra leikskóla. Rannsóknir í Danmörku hafa leitt í ljós mjög góðan árangur af notkun Vináttu og þau börn sem eru í skólum þar sem unnið er með efnið sýna meiri samhygð gagnvart hvert öðru. Nú hafa Barnaheill einnig gefið út efni fyrir 1.–3. bekk grunnskóla og verður unnið með það í tilraunaskyni í 15 grunnskólum í sex sveitarfélögum veturinn 2017–2018. Í framhaldi af þeirri vinnu mun það efni standa öllum grunnskólum til boða. Haustið 2018 er gert ráð fyrir að efni verði einnig í boði fyrir 0–3ja ára börn í leikskólum og hjá dagforeldrum. Auk Íslands og Danmörku er námsefnið einnig í notkun í Eistlandi, Færeyjum og á Grænlandi.

Fyrirspurnir er varðar sundlaugarbyggingu á  Hrafnistu og Norðurbrún

Flokkur fólksins vill spyrast fyrir um
1) hvort og með hvaða hætti borgin hafi komið að sundlaugarbyggingunni á Hrafnistu og Norðurbrún á sínum tíma .
2) Gaf borgin lóðina, styrkti hún byggingu mannvirkisins, bæði sundlaugar og búningsklefa?
3) Hvernig var notkuninni á sundlauginni háttað á meðan hún var í lagi, var samið sérstaklega um afnot borgarinnar af henni eða fengu þjónustuþegarnir við Norðurbrún að nota hana ókeypis í ljósi góðra samskipta borgarinnar og Hrafnistu?
4) Hefur Hrafnista í hyggju að opna laugina að nýju og hvað stendur í vegi fyrir því ef svo er ekki?

Tillaga frá Flokki fólksins að gerð verði könnun meðal íbúa úthverfa Reykjavíkur.

Tillaga er um að kanna hversu oft þeir sækja miðbæinn 101 og í hvaða tilgangi s.s. til að sækja þangað vinnu eða sækja þangað í öðrum tilgangi en vinnu t.d. til skemmtunnar/nýta veitingastaði

Borgarstjórn
4. september 2018

Bókanir Flokks fólksins lagðar fram á fundi borgarstjórnar 4. september 2018

Dagskrárliður: Lagður fram meirihlutasáttmáli borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna, sbr. 18. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. júní.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Sáttmálinn er falleg orð á blaði, birtir fallegar myndir sem vissulega væri hægt að kvitta undir ef í höfði borgarfulltrúa Flokks fólksins væru ekki aðrar myndir, myndir af örvæntingarfullum andlitum fólks þar með barna sem ýmist búa við húsnæðislegt óöryggi eða líður illa í aðstæðum sínum, sem dæmi skólaaðstæðum. Í sáttmálanum er hinn raunverulegi vandi borgarinnar ekki ávarpaður nema lauslega. Nefna má einnig biðlistavandann og mannekluvandann. Á biðlista í leikskóla eru 128 börn og enn á eftir að ráða í 60 stöðugildi leikskóla og 22 afleysingarstörf. Börn bíða einnig eftir sálfræðiþjónustu. Á biðlista eftir félagslegu húsnæði eru um 1000 manns og börnin eru rúmlega 400. Enn eru eldri borgarar vistaðir á LSH vegna skorts á hjúkrunarrýmum og/eða manneklu í heimaþjónustu. Í sáttmálanum hefði meirihlutinn átt að viðurkenna að ekki hefur verið tekið á þessum þáttum með skeleggum hætti og lofa að forgangsraða í þágu fólksins og barnanna. Það er sárt að sjá sem dæmi að borgin ákvað að endurnýja bragga fyrir 415 milljónir í stað þess að fjármagna í þágu þeirra sem minna mega sín og barnanna í borginni. Nýlega hefur borgin fellt tillögu Flokks fólksins um að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Fyrir 400 milljónir hefði mátt metta marga munna. Nú er sagt að taka eigi til hendinni í húsnæðismálum en engu að síður er ekki fyrirsjáanlegt að takist að koma heimilislausum í öruggt skjól fyrir veturinn. Staðan í þessum málum er ekki góð.

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað borgarinnar af veislum og öðrum viðburðum tengdum borginni

Hver er kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum hátíðarviðburðum tengdum borginni?  Borgarfulltrúi Flokks fólksins leikur forvitni á að vita heildarútgjöld borgarinnar vegna viðburða af þessu tagi og nægir að upplýsa um árið 2017 og það sem af er 2018

Dagskrárliður: Borgarstjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið, ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir ofangreindum dagskrálið:
Göngugötur eru vissulega skemmtilegar og lífga upp á mannlífið en að gera allan Laugaveg að göngugötu eins og komið hefur fram hjá borgarfulltrúa meirihlutans að gæti staðið til er kannski fullbratt að mati Flokks fólksins þar sem ekki liggur fyrir skýr afstaða borgarbúa hvað þá hugmynd varðar. Borgarfulltrúi vill vera alveg viss um að það að gera allan Laugaveginn að göngugötu, samræmist óskum, vilja og væntingum borgarbúa, kaupmanna við Laugaveg og annarra hagsmunaðila áður en slík aðgerð kemur til greina.

Dagskrárliður: Umræða undir þessum lið, tillögu Miðflokksins um óháða úttekt á starfsemi æðstu stjórnar Reykjavíkur.

Bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins undir þessum lið varðar afmarkaðan þátt umræðunnar og er eftirfarandi:
Borgarfulltrúinn biður borgarstjóra að setja endapunkt á þetta mál sem hér hefur verið reifað í þremur skeytum frá framkvæmdastjóra KVH til oddvita minnihlutans, hafi sá endurpunktur ekki þá þegar verið settur. Með þessari beiðni vonar borgarfulltrúi Flokks fólksins að ekki muni berast fleiri skeyti frá kjarafélaginu til oddvita minnihlutans um að meint eineltisrannsókn sé mögulega enn í gangi eða talin vera enn í gangi. Á þetta mál þarf að binda endahnút og vill borgarfulltrúinn treysta borgarstjóra til að binda þann hnút. Til að skýra nánar ofangreint er vísað í bréf framkvæmdarstjóra KVH en þar kemur fram að „enn sé verið að reyna að knýja fjármálastjórann til þátttöku í svonefndri eineltisrannsókn, þrátt fyrir ótvíræða niðurstöðu dómsmálsins, sem Reykjavíkurborg tapaði og ákvað að áfrýja ekki.“ Lögmaður fjármálastjóra hefur sett fram andmæli gegn þessari „áframhaldandi aðför og skorað á Reykjavíkurborg að fella stjórnsýslumál þetta niður eins og fram kemur í bréfi lögmannsins sem einnig var sent oddvitum minnihlutans.“ Þessu máli þarf að ljúka og biður borgarfulltrúi Flokks fólksins borgarstjóra að ganga í það verk svo yfir allan vafa sé hafið.

Dagsrkárliður: Tillaga Miðflokksins. Farið verði tafarlaust í að skilgreina lögbundið hlutverk Reykjavíkur og fjármagni forgangsraðað í grunnþjónustu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir þessum lið:
Borgarstjórn er treyst til að sýsla með útsvar borgarbúa og dreifa þeim til samfélagsins með sanngjörnum hætti. Það á að vera siðferðisleg skylda okkar að fara vel með fjármuni borgarbúa og gæta þess í hvívetna að hverri krónu sé ráðstafað fyrst og fremst í beina þágu borgarbúa t.d. með því að auka og betrumbæta þjónustu við borgarbúa. Áleitnar spurningar hafa leitað á borgarfulltrúa Flokks fólksins er varðar hvort nægjanlega sé gætt að sparnaði í borginni. Fyrst má nefna aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga sem borgarfulltrúi telur að fagfólk borgarinnar eigi að geta sinnt öllu jöfnu með einfaldara og skilvirkara skipulagi. Borgarfulltrúi vill  spyrja um kostnað við ferðir erlendis og er hér ekki verið að tala um hótel- og flugkostnað heldur dagpeningakostnað sem oft er umfram það sem þörf reynist. Mörg fyrirtæki eru komin með svokölluð viðskiptakort sem á eru ákveðið eðlilegt hámark. Annar kostnaður sem kanna þarf er árlegur kostnaður borgarinnar af hinum ýmsu móttökum og öðrum viðburðum tengdum borginni. Stærsti liðurinn sem vekur þó athygli er hár rekstrarkostnaður skrifstofu borgarstjóra. Velta þarf við hverjum steini með það að markmiði að nýta peninga borgarbúa sem allra best í þeirra þágu. Þjónustu á aldrei að skerða, þjónusta á heldur ekki að vera viðunandi heldur fullnægjandi.

Tillaga Flokks fólksins um að lækka gjald fyrir skólamáltíðir um þriðjung

Það er mikilvægt að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir.
Frestað

Greinargerð

Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að aðgerð af þessu tagi mun lækka tekjur skóla- og frístundasviðs um meira en 1 milljarð kr. á ári sem er vissulega stór biti af öllum tekjum sviðsins. Í stað þess að fara í sparnaðaraðgerðir innan sviðsins er það ábyrgð borgarinnar að forgangsraða í fjárreiðum borgarinnar og í þessari tillögu er Flokkur fólksins að legga til að borgin forgangsraði fjármunum í þágu barnanna.
Frestað

Aðrar tillögur sem lagðar eru fyrir borgarstjórnarfund 4. september:

Tillaga Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar nýtt sérskólaúrræði í Reykjavík

Öllum þremur vísað á Skóla- og frístundarsviðs

Tillaga Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða

Tillaga Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum.

Báðum vísað til stjórnar Félagsbústaða

Sjá nánar greinargerðir með þessum tillögum neðar en þær hafa áður verið á dagskrá borgarráðs en ekki komist til umræðu.

Borgarfulltrúar Flokks fólksins og Miðflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins og borgarfulltrúi Miðflokksins hafna því alfarið að vísa tillögum um mat á viðhaldsþörf Félagsbústaða og könnun á þjónustu Félagsbústaða til stjórnar Félagsbústaða. Hér er um að ræða ótrúlega ákvörðun borgarmeirihlutans, það er að setja það í hendur fyrirtækisins sjálfs að rannsaka fjölmargar alvarlegar ávirðingar og kvartanir sem borist hafa á hendur þess. Það ætti að vera flestum ljóst að ekki gengur að ætla fyrirtæki að rannsaka sjálft sig, rannasaka hvort alvarlegar ávirðingar á hendur þess eigi við rök að styðjast. Verið er að leggja til að fá óháðan aðila til að meta viðhaldsþörf í kvörtunarmálum og gera könnun á viðmóti meðal annars vegna kvartana um dónaskap, fordóma, hunsunar svo fátt eitt sé nefnt. Að ætla fyrirtækinu að rannsaka þetta sjálft er fordæmalaust. Er reiknað með að niðurstöður slíkrar rannsóknar verði trúverðugar? Þessi ákvörðun meirihlutans er vond ákvörðun og mun gera fátt annað en valda áframhaldandi vonbrigðum og reiði þeirra sem telja sig þolendur í þessum málum.

Borgarráð
30. ágúst 2018

Fyrirspurn Flokks fólksins um þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda

Hver er núverandi staða í Reykjavík er varðar þjónustu við börn með tal- og málþroskavanda? Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í leikskólum borgarinnar? Hvað mörg börn eru á biðlista eftir þjónustu talmeinafræðings í grunnskólum? R18080195

Fyrirspurn Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

a)Hversu margar íbúðir losnuðu hjá Félagsbúðstöðum á síðasta ári?
b) Hver er ástæðan fyrir því að þær losna.
c)Hversu langur tími líður að meðaltali frá því að íbúð losnar og þar til að hún er leigð út aftur?
d)Hve margar íbúðir eru lausar núna (ágúst/september) hjá Félagsbústöðum
e) Hvenær fara þær íbúðir sem eru lausar núna í útleigu?

Borgarráð
23. ágúst 2018

Tillaga Flokks fólksins um kaup á 25 smáhýsum

Lagt er til að borgarráð samþykki að fela skrifstofu eigna og atvinnuþróunar að nnast innkaup á 25 smáhýsum sem uppfylla þau skilyrði að vera færanleg, vel einangruð og bjóða upp á lágmarksþjónustu eins og salerni, sturtu og eldunaraðstöðu.

Greinargerð
Á aukafundi borgarráðs sem haldinn var 31. júlí sl. var samþykkt að fela umhverfis- og skipulagssviði að útvega fimm lóðir fyrir allt að fimm smáhýsi á hverri lóð á árinu 2018 eða samtals 25 einingar. Kaup á slíkum smáhýsum eru aðeins hluti þeirra aðgerða sem borgin þarf að grípa til í málefnum heimilislausra og er í eðli sínu alltaf skammtímalausn.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skrifstofa eigna og atvinnuþróunar kanni og framkvæmi kaup á smáhýsum á hagstæðu verði sem uppfylla öll skilyrði til skammtímabúsetu, geta verið tilbúin til notkunar fyrir veturinn og eru í reynd heilsárshús. Eigi að bregðast við fyrir veturinn þarf að taka ákvörðun sem fyrst. Eins og staðan er núna er afgreiðslutími slíkra húsa skammur. Smáhýsi eins og þetta virkar í alla staði betur en t.d. gámar sem hafa verið notaðir í þessum sama tilgangi. Sem dæmi má nefna smáhýsi sem eru framleidd í Lettlandi og eru ca. 3*5 m að stærð eða 15m2 og hafa verið seld víða um Evrópu í sambærilegum tilgangi. Hægt er að panta aðrar stærðir. Þau eru vel einangruð með salerni, vaski og sturtu auk eldunaraðstöðu. Hægt er að afhenda 4 smáhýsi á viku og því mögulegt að bregðast við bráðavanda áður en vetur gengur í garð. Verð á hverju smáhýsi með öllu er 3,4 m.kr. + vsk. en samsetning, uppsetning og frágangur er einfaldur.
Vísað til skrifstofu eigna og atvinnuþróunar

Fyrirspurn Flokks fólksins um lögfræðikostnað Félagsbústaða

Hver er lögfræðikostnaður Félagsbústaða síðastliðin fimm ár sem fyrirtækið hefur greitt lögfræðingum í málum eins og viðhaldsmálum og öðrum kvörtunar- eða dómsmálum sem hafa að gera með myglu eða aðra galla í eigum Félagsbústaða?
Vísað til Félagsbústaða

Tillaga Flokks fólksins um að fenginn verði óháður aðili til að meta viðhaldsþörf hjá Félagsbústöðum

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að meta eignir Félagsbústaða þar sem kvartanir hafa borist vegna myglu eða annarra galla þegar ágreiningur er uppi á milli leigjanda og Félagsbústaða. Í matinu skal jafnframt koma fram hvers lags viðgerða sé þörf og hvort viðgerðir hafi verið framkvæmdar með fullnægjandi hætti.

Greinargerð
Fjölmargar kvartanir hafa borist frá leigjendum Félagsbústaða sem hafa leitað eftir viðgerð vegna myglu og öðru viðhaldi. Leigendur segjast ýmist ekki fá nein svör eða sein og þá ófullnægjandi viðbrögð. Beiðni um viðgerð er einfaldlega oft ekki sinnt og gildir þá oft einu hvort íbúar leggi fram læknisvottorð vegna heilsubrests, myndir af skemmdum vegna myglu og jafnvel vottorð frá öðrum sérfræðingum sem skoðað hafa húsnæðið. Kvartað hefur verið undan myglu og rakaskemmdum í íbúðum og fullyrt að um sé að ræða heilsuspillandi húsnæði. Veikindi hafa verið tengd við myglu og raka í húsnæði sem Félagsbústaðir leigja út.

Fjölskyldur hafa stundum þurft að flýja húsnæðið. Þetta fólk hefur sumt hvert ítrekað kvartað en ekki fengið lausn sinna mála hjá Félagsbústöðum sem hafa hunsað málið eða brugðist við seint og illa. Margir kvarta yfir að hafa verið sýnd vanvirðing og dónaskapur í samskiptum sínum við Félagsbústaði. Oft er skeytum einfaldlega ekki svarað. Þeir sem hafa kvartað yfir samskiptum sínum við Félagsbústaði segja að starfsfólk hafi sagt þeim bara að fara í mál. Hér um að ræða hóp fólks sem leigir í félagslega húsnæðiskerfinu vegna þess að það er láglaunafólk, efnalítið og fátækt fólk. Þetta fólk hefur ekki ráð á að fara í mál við Félagsbústaði. Sumir hafa neyðst til þess og eru í kjölfarið skuldsettir umfram greiðslugetu.

Það fólk sem stigið hefur fram með kvörtun af þessu tagi segir að Félagsbústaðir hafi ýmist neitað að þessi vandi sé til staðar eða hunsað hann. Í öðrum tilfellum hafa komið viðgerðarmenn og gert eitthvað smávegis en ekki ráðist að grunnvandanum. Mygla og annað sem fólk hefur verið að kvarta yfir hefur því haldið áfram að aukast og haft alvarleg áhrif á heilsu íbúa. Reynslusögur fólks sem leigt hefur hjá Félagsbústöðum eru orðnar margar. Í einni slíkri segir kona frá að í íbúð á vegum Félagsbústaða hafi verið mygla og hafði hún ítrekað kvartað. Múrari hafi komið frá Félagsbústöðum til að athuga með leka og hafi sagt sér að ekki mætti fara í miklar aðgerðir sem kosta mikið. Því var bara settur „plástur“ á skemmdirnar sem dugði í ár. Það sem hefði þurft að gera var að rífa klæðningar inn að steypu og leyfa henni þorna. Þess í stað var farið í að múra upp í og loka.

Hér má einnig lesa um sambærilega sögu mæðgna sem ítrekað þurftu að flýja heilsuspillandi húsnæði á vegum Félagsbústaða:
http://www.visir.is/g/2018180529713.

Haldnir hafa verið fjölmargir fundir vegna sambærilegra mála bæði með otendum/leigjendum og Félagsbústöðum m.a. hjá umboðsmanni borgarbúa. Svo virðist sem Félagsbústaðir séu ekki að greina nægjanlega vel hver viðhaldsþörfin er þegar kvörtun berst og þá til hvaða viðhaldsverka þarf að grípa til að leysa vanda með fullnægjandi hætti. Almennu viðhaldi virðist vera ábótavant á mörgum eignum Félagsbústaða. Þegar kvörtun berst vísa Félagsbústaðir til heilbrigðisyfirvalda. Heilbrigðisyfirvöld styðjast við sjónpróf og lyktarpróf sem duga oft ekki til að finna hver grunnvandinn er. Iðulega er sagt við notendur „loftaðu bara betur út“.

Af þessu að dæma er líklegt að endurskoða þurfi aðferðir sem heilbrigðiseftirlitið notar í málum af þessu tagi. Í mörgum tilvikum þarf ítarlegar greiningar til að komast að vandanum. Önnur fyrirtæki, einkafyrirtæki, bjóða upp á nánari greiningu og kostnaðinn þurfa leigendur iðulega sjálfir að bera en hafa eðli málsins samkvæmt enga fjárhagslega burði til. Í mörgum þessara tilvika er um lekavanda að ræða, vanda sem hefur e.t.v. verið mörg ár að þróast. Af frásögnum að dæma hjá mörgum virðist vera einhver mótþrói hjá Félagsbústöðum í að horfast í augu við að það þarf að setja fjármagn í fullnægjandi viðhald og bregðast við kvörtunum með fullnægjandi hætti. Ekki dugir að senda sífellt lögfræðinga á notendur Félagsbústaða. Nú er svo komið að taka þarf á þessu ástandi fyrir fullt og allt. Horfast þarf í augu við að Félagsbústaðir hafa víðtækum skyldum að gegna gagnvart öllum skjólstæðingum sínum. Hér er ekki um að ræða einkafyrirtæki eða banka. Félagsbústaðir geta ekki alltaf sett þessi mál bara í átakaferli. Hafa skal í huga að fólk er einnig misviðkvæmt fyrir myglu. Mikilvægt er því að horfa á hvert tilvik fyrir sig í stað þess að setja alla undir sama hatt. Endurskoða þyrfti alla verkferla Félagsbústaða af óháðum aðila og gera þá gagnsæja. Eftirlit með hvort Félagsbústaðir séu að fylgja verkferlum virðist verulega ábótavant. Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaði með einum eða öðrum hætti.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Fyrsti borgarstjórnafundurinn 19. júní

Tillaga  Flokks fólksins um könnun á þjónustu Félagsbústaða

Lagt er til að borgarráð samþykki að fá óháðan aðila til að gera könnun á þjónustumenningu Félagsbústaða í tengslum við samskipti starfsmanna fyrirtækisins við leigjendur. Við framkvæmd könnunarinnar skal leita til núverandi og fyrrverandi leigjenda og þeirra sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði í dag og óska eftir að þeir taki þátt í könnuninni og veiti upplýsingar um álit sitt á viðmóti, viðhorfi og framkomu starfsmanna Félagsbústaða í þeirra garð.

Greinargerð
Í langan tíma hafa notendur Félagsbústaða kvartað yfir neikvæðri framkomu starfsmanna í sinn garð. Kvartað er yfir neikvæðu og jafnvel meiðandi viðmóti, að þeim séu sýndir fordómar og dónaleg framkoma. Kvartað er yfir stjórnsýsluháttum Félagsbústaða, að notendur fái ekki svör við spurningum fyrr en seint og síðar meir og sumum erindum sé einfaldlega aldrei svarað. Notendur þjónustu Félagsbústaða kvarta yfir að þeir þurfi oft að hafa mikið fyrir hlutunum og að mikið vanti upp á að þeim sé sýnd virðing og tillitssemi. Sumir hafa jafnvel talað um að þeim hafi verið hótað af starfsfólki Félagsbústaða, ógnað og þeir lítillægðir.

Sumir notendur hafa sagst ekki þora að koma fram með kvörtun sína undir nafni af ótta við að verða með einhverjum hætti refsað. Margir hafa leitað til umboðsmanns borgarbúa með mál sín. Fjölmargir notendur Félagsbústaða hafa auk þess kvartað yfir að þeir séu ekki upplýstir um réttarstöðu sína í þessum málum. Hafi þeir samband við Félagsbústaði með kvörtun sína er þeim vísað á lögfræðinga fyrirtækisins. Á það skal bent að markmið Félagsbústaða er að þjónusta sem best fólk sem nýtir þjónustu þess. Félagsbústaðir ættu að hafa sín gildi á hreinu. Af þeim fjölmörgu kvörtunum skráðum og óskráðum sem notendur Félagsbústaða hafa borið á borð, má líkja ástandinu við stríð, eins og Félagsbústaðir séu í stríði við notendur þjónustunnar í stað þess að sinna því þjónustuhlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt reglum. Upplýsingar í þessari greinargerð eru komnar frá notendum og leigjendum Félagsbústaða og fleirum sem komið hafa að málum í tengslum við Félagsbústaði með einum eða öðrum hætti.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga  Flokks fólksins um breytingu á skilyrðum fyrir félagslegt leiguhúsnæði

Lagt er til að gerðar verði eftirfarandi breytingar á skilyrðum þess að hægt sé að sækja um félagslegt leiguhúsnæði í Reykjavík. Í stað þess að umsækjandi þurfi að hafa átt lögheimili í Reykjavík síðastliðin 2 ár nægir að hafi átt lögheimili á Íslandi síðastliðin 2. ár. Þessi breyting á skilyrðum er nauðsynleg fyrir margar sakir. Á meðan fólk bíður eftir félagslegu húsnæði á það oft ekki í önnur hús að venda á biðtímanum í Reykjavík. Sumir eiga þess kost að búa tímabundið í öðru sveitarfélaga á meðan það bíður en til þess að falla ekki útaf biðlistanum
leggja það á sig að hírast við óviðunandi húsnæðisaðstæður, fá að liggja inni hjá vinum og ættingjum um tíma eða búa í ósamþykktu húsnæði. Með því að afnema þetta skilyrði getur fólk fundið sér tímabundið húsnæði annars staðar á landinu á meðan það bíður eftir að röðin komi að sér í félagslega íbúðakerfinu í Reykjavík. Þessi breyting opnar fyrir meiri sveigjanleika og möguleika á að fá viðunandi húsnæði á biðtímanum enda þótt um sé að ræða tímabundið. Þessi breyting gerir skilyrðin auk þess mun manneskjulegri en þau eru nú. Þetta skilyrði hefur óþarfa fælingarmátt og enda þótt fólk geti sótt um undanþágu þá veit fólk oft ekki um þann rétt sinn, er jafnvel ekki upplýst um hann.
Vísað í Velferðarráð

Tillaga Flokks fólksins um að stýrihópur um þjónustustefnu á velferðarsviði hafi samráð við önnur svið sem málið varðar

Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og
átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

Þessa tillögu var ég beðin að draga til baka þar sem fram kom í erindisbréfi fyrir þennan stýrihóp að haft yrði samstarf við önnur svið. 

Tillaga Flokks fólksins um að sett verði á laggirnar nýtt sérskólaúrræði í Reykjavík

Lagt er til að fleiri sérskólaúrræði verði sett á laggirnar í Reykjavík enda er Klettaskóli sprunginn. Klettaskóli er eini sérskólinn í Reykjavík af sinni gerð en í honum stunda börn með sérþarfir vegna þroskahömlunar nám. Flokkur fólksins telur að fleiri slík úrræði þurfi enda mörg börn nú á biðlista sem Klettaskóli getur ekki tekið inn. Í sérskólaúrræði eins og Klettaskóla og öðrum sambærilegum skólaúrræðum er mikilvægt að inntökuskilyrðin séu með þeim hætti að hver umsókn sé metin í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi
upplýsinga um nemandann. Í þessum efnum eiga foreldrar ávallt að hafa val enda þekkja foreldrar börn sín best og vita þess vegna hvað hentar barni þeirra námslega og félagslega. Ekki má bíða lengur með að horfa til þessara mála og fjölga úrræðum. Það er réttur hvers barns að fá skólaúrræði við hæfi þar sem því líður vel, þar sem námsefni er við hæfi og þar sem félagslegum þörfum þess er mætt, þar sem það er meðal jafningja.

Greinargerð
Brýn þörf er á að setja á laggirnar annan sérskóla sambærilegan Klettaskóla þar sem myndast hefur biðlisti barna í hann sem óska eftir að stunda nám í skólanum. Þegar kemur að uppbyggingu innviða sérskóla fyrir börn með þroskahömlun eru nokkur atriði sem skipta sérstaklega miklu máli. Bjóða þarf upp á mikinn sveigjanleika og fjölbreytni enda þarfir barnanna afar ólíkar. Til staðar þarf að vera fullnægjandi sérþekking á málefnum barna með
þroskahömlun. Heildstæður skóli er fyrirkomulag sem hentar börnum með þroskahömlun vel. Allt fyrirkomulag sem tryggir stöðugleika og öryggi skiptir börn með þroskahömlun sérstaklega miklu máli. Með heildstæðum skóla er átt við að starfi skóla, frístundar og sumarfrístundar er fléttað saman í eina heild. Arnarskóli í Kópavogi er sem dæmi með þetta fyrirkomulag og hefur það sýnt sig að henti börnunum vel. Með þessu er hægt að tryggja samfellu sem eykur líkur á þroska og betri líðan. Með heildstæðum skóla skapast meiri sveigjanleiki og auðveldar að koma á móts við ólíkar þarfir nemenda.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga Flokks fólksins um að gerð verði könnun á þörf fyrir fleiri sérskólaúrræði

Lagt er til að foreldrar/aðstandendur grunnskólabarna verði spurðir hvort þeir telji þörf á fleiri sérskólaúrræðum, frekari úrræðum innan núverandi skóla eða blöndu af hvoru tveggja. Spurningin gæti verið með fimm svarmöguleikum með miðju og jafnmörgum neikvæðum og jákvæðum svörum:
1. Átt þú barn sem þarf á sérstökum stuðningi að halda í skóla (vegna vísbendinga/greiningar um lesblindu, sértæka námserfiðleika eða frávika í vitsmunaþroska; raskana t.d. ADHD, asperger eða einhverfuróf og/eða annarra tilfinninga-, hegðunar og félagslegra vandamála)
2. Ég tel að fjölga þurfi sérskólaúrræðum (t.a.m. fyrir börn með þroskahamlanir sbr. úrræði eins og Klettaskóla og sérdeildir með sérhæft hlutverk vegna barna með miklar sérþarfir í námi, meðal annars vegna geðraskana og annarra alvarlegra hegðunarvandamála) mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. 3. Ég tel að fjölga þurfi úrræðum innan núverandi skóla til að styrkja stefnuna um skóla án aðgreiningar. Mjög ósammála; frekar sammála; hvorki sammála né ósammála; frekar sammála; mjög sammála. Mikilvægt er að skoðanir barnanna sjálfra nái fram í umræðuna. Þar væru viðtöl og vettvangsheimsóknir gagnleg leið til að safna upplýsingum.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Tillaga Flokks fólksins um að færa Félagsbústaði aftur undir A-hluta

Félagsbústaðir eru fyrirtæki undir B-hluta borgarinnar. Vandi Félagsbústaða er mikill og fyrir liggur tillaga Flokks fólksins að óháður aðili geri fjölþætta úttekt á fyrirtækinu. Fjölmargar kvartanir liggja fyrir um m.a. skort á viðhaldi eigna, ofurhárrar leigu og margt fleira sem snýr að stjórnun, rekstri og launamálum. Það er mat Flokks fólksins að það sé eitthvað mikið að hjá Félagsbústöðum og er lagt til að borgin hefji þá vinnu að skoða með raunhæfum hætti hvort færa eigi þetta fyrirtæki aftur undir A-hluta borgarinnar undir skrifstofu eigna og atvinnuþróunar til að reyna að gera borgina heildstætt kerfi í stað sundurlausra eininga sem jafnvel stríða innbyrðis.
Frestað á fundi borgarráðs 23. ágúst

Tillaga  Flokks fólksins um að breyta inntökuskilyrðum í Klettaskóla

Lagt er til að inntökuskilyrði í Klettaskóla verði endurskoðuð og í stað greina 1 og 2 þar sem segir: „Innritun í Klettaskóla. Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendur með þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með: • miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana • væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun“ skal koma einungis:„Klettaskóli er sérskóli sem ætlaður er börnum með sérþarfir vegna þroskahömlunar. Umsóknir eru metnar í samvinnu við foreldra á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga um nemandann.“

Greinargerð:
Ef foreldrar óska eftir skólavist fyrir barn sitt í Klettaskóla er lagt til að fyrirkomulagið verði þannig að foreldrar senda skólanum grunnupplýsingar um barnið og myndi þá það vera hlutverk skólans að fara yfir umsóknina í samvinnu við foreldra og sveitarfélagið Reykjavík og meta hvort Klettaskóli sé hentugur fyrir nemandann. Við viljum gjarnan vera framarlega í jafnréttismálum, fordómaleysi og umburðarlyndi. En metnaður okkar má aldrei verða skaðlegur börnum okkar.
Árið 2011 voru sett ströng inntökuskilyrði í Öskjuhlíðarskóla, eina skóla landsins sem ætlaður var börnum með þroskahömlun. Börn með væga þroskahömlun (IQ 69-50) fengu ekki lengur aðgang að skólanum. Þetta var m.a. gert í þeim tilgangi og þeirri von um að hugmyndin um skóla án aðgreiningar færi að virka. Það er, ef sérskólinn lokaði á þennan hóp barna, myndi almenni skólinn taka við sér og standa sig betur í að koma til móts við börn með sérþarfir.
Það er mat Flokks fólksins að þarna hafi verið byrjað á vitlausum enda og ákvörðunin tekin án umræðu við þá sem málið varðaði. Þessu mótmæltu margir foreldrar fatlaðra barna. Nú eru börn með væga þroskahömlun ekki velkomin í skólann sem nú hefur fengið nafnið Klettaskóli. Umsóknir um skólavist þar hafa þó sjaldan ef nokkurn tímann verið fleiri. Lítil sem engin rök hafa verið færð fyrir þessu annað en það að gott sé fyrir ófötluð börn að kynnast fötluðum börnum. Önnur rök eru þau að á Íslandi sé skóli án aðgreiningar og að ófötluð börn séu góðar fyrirmyndir fyrir fötluð börn. Þessi rök hljóma vel á blaði og einnig ef til vill í eyrum einhverra. Það er ekki talað um það hvernig sumum fötluðu börnunum líður í skóla þar sem þau finna vanmátt sinn, eru öðruvísi og eignast ekki vini á jafningjagrundvelli.
Það er öllum mikilvægt að finna sig i samfélagi meðal jafningja og þess vegna er það mörgum börnum með þroskahömlun afar mikilvægt að fá að stunda nám með öðrum börnum með þroskahömlun og hafa þannig aðgang að jafningjasamfélagi.
Börn með þroskafrávik, hverju nafni sem þau nefnast, eiga að fá menntun og þjónustu við hæfi og hafa aðgang að þeim skóla og því samfélagi þar sem þau þrífast best andlega og félagslega. Öll börn með þroskahömlun eiga að hafa aðgang að sérskóla sé það talið besta mögulega úrræðið fyrir þau og á það undir öllum kringumstæðum að vera val foreldra hvort sótt er um fyrir barn með þroskahömlun í almennum skóla eða sérskóla.

Lagt fyrir í borgarráði 23. ágúst og aftur fyrir borgarstjórnarfund 4 september

Fyrirspurn Flokks fólksins er varðar félags- og menningarlega einangrun innflytjenda í Fellahverfi

Nú er svo komið að stór hópur innflytjenda í Reykjavík hefur einangrast félagslega og menningarlega. Komið hefur fram að 70% af Fellaskóla eru börn innflytjenda og að aðeins 5 börn með íslensku að móðurmáli hefji skólagöngu í Fellaskóla í haust. Gera má því skóna að fjölmargir innflytjendur hafi þar af leiðandi ekki náð að tengjast borgarsamfélaginu og blandast því með eðlilegum hætti. Ekki er að sjá að borgin hafi undanfarin ár mótað skýra stefnu um hvernig forða skuli innflytjendum frá því að einangrast eins og nú hefur gerst. Það er ljóst að þessi staða hefur verið að þróast í mörg ár og hefur borgarmeirihlutinn flotið sofandi að feigðarósi og ekki gætt þess að innflytjendur hafi blandast samfélaginu í Reykjavík nægjanlega
vel, hvorki menningarlega né félagslega.

1. Hvernig ætlar borgin að rjúfa einangrun
innflytjenda í Fellahverfi?
2. Hvernig ætlar borgin að bregðast við menningarlegri og félagslegri
einangrun þeirra sem þar búa, bæði til skemmri og lengri tíma?
3. Hvernig hyggst borgin ætla að standa að fræðslu og hvatningu til að innflytjendur geti með eðlilegum hætti blandast og samlagast íslensku samfélagi í framtíðinni?
Vísað í Velferðarráð

Beiðni Flokks fólksins um að umræða um manneklu á leikskólum verði tekin á dagskrá borgarráðs

Fokkur fólksins óskar eftir að umræða um manneklu á leikskólum verði tekin á dagskrá í borgarráði 16. ágúst. Um er að ræða langvarandi og stigvaxandi vandamál. Ýmsar tillögur um lausn eru án efa á borðinu en ekki er séð að þær séu komnar í framkvæmd að heitið geti.
Skammt er í að vetrarstarf hefjist að nýju og það er, að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins, ekki í boði að hefja vetrarstarf með marga leikskóla sem ekki eru fullmannaðir enda ekki hægt að leggja slíkt álag frekar á börnin, foreldra þeirra og starfsfólk leikskólanna. Flokkur fólksins vill sjá borgina girða sig í brók í þessu máli og leysa það með fullnægjandi hætti. Ljóst er að einkum tvennt skiptir máli þegar rætt er um leiðir til lausna; launin annars vegar og álag hins vegar. Alltof lengi hefur borgin sýnt stétt leikskólakennara og starfsmönnum leikskólanna lítilsvirðingu að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins þegar kemur að launamálum. Inn í þetta spilar starfsálag sem hefur verið enn frekar íþyngjandi vegna langvarandi manneklu. Það er ekkert sem skiptir meira máli en börnin okkar og allt sem varðar þau skal borgin setja í forgang.

Borgarráð
16. ágúst 2018

Flokkur fólksins var með 7 mál á dagsrká 16. ágúst en sem komust ekki að þar sem fundi var slitið þegar fjallað hafði verið um 31 mál af 62. Eftirfarandi bókun var gerð:

Lögð fram svohljóðandi sameiginleg bókun Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins

Á útsendri dagskrá borgarráðs eru 62 mál. og sætir það furðu að ákveðið hefur verið að slíta fundi kl. 14:30 þegar ekki hefur tekist að ljúka yfirferð þeirra mála sem eru á dagskránni. Minnt er á að borgarráð fer með heimildir borgarstjórnar á sumarleyfistíma og því óviðunandi að mál séu ekki afgreidd og þeim frestað milli funda. Farið er fram á að haldinn verði aukafundur í borgarráði svo ljúka megi þeim málum sem liggja fyrir þessum fundi sem fyrst.

Tillaga Flokks fólksins um að stýrihópur um þjónustustefnu á velferðarsviði hafi samráð við önnur svið sem málið varðar

Lögð er til aukin og þéttari samvinna og samstarf milli sviða. Nýlega var stofnaður stýrihópur sem hefur það markmið að móta heildstæða stefnu um þjónustu sem velferðarsvið veitir þeim hópi sem vegna veikinda eða annarra orsaka þarfnast fjölþættrar aðstoðar, þ. á m. þaks yfir höfuðið. Fjölmargir einstaklingar hafa lengi verið í húsnæðisvanda og enn öðrum bíður gatan eða vergangur næstu mánuði. Á þessu þarf að finna lausn hið fyrsta. Í stýrihópinn hefur nú þegar verið vísað tillögum að húsnæðisúrræðum sem kalla á lóðarstaðsetningu eða ákvörðun um að kaupa íbúðir/eignir. Það er þess vegna lagt til að strax frá upphafi komi til náins samstarfs og samvinnu við þau svið sem nauðsynlega þurfa að koma að þessum málum svo sem skrifstofu eigna og atvinnuþróunar sem annast kaup á sértæku húsnæði og átaksverkefnum og umhverfis- og skipulagssvið sem útvegar lóðir og sér um skipulag (smáhýsi, búsetukjarnar). Takist viðkomandi sviðum að vinna að lausn húsnæðisvandans í Reykjavík í sameiningu má gera því skóna að framkvæmdir taki skemmri tíma en ella.

Tillaga Flokks fólksins er varðar málsmeðferð, fyrirkomulag mála og fleira því tengt

 1. Lagt er til að öllum erindum frá borgarbúum sem berast sviðum, ráðum, borgarfulltrúum og starfsmönnum Ráðhússins verði svarað innan 14 daga, ýmist með stuttu svari um móttöku eða efnislega. Í svari um að skeytið hefur verið móttekið komi fram að efnislegt svar berist eins fljótt og auðið er.
 2. Lagt er til að fyrirspurnum sem borgarfulltrúar leggja fram á fundum ráða eða nefnda sé svarað innan 20 daga.
 3. Lagt er til að mál (tillögur) borgarfulltrúa séu afgreidd innan mánaðar frá því að málið er lagt fram og komi þá aftur á dagskrá. 4.

Lagt er til að skrifstofa borgarstjórnar haldi yfirlit yfir mál eftir því hverjir eru málshefjendur þeirra til að auka gagnsæi og rakningu mála. Um er að ræða yfirlit yfir tillögur, fyrirspurnir og önnur mál sem borgarfulltrúar leggja fram í borgarráði, borgarstjórn eða á nefndarfundum. Í yfirlitinu skal tiltekið á hvaða stigi málið er eða hvernig afgreiðslu það hefur fengið. Yfirlitið skal uppfært mánaðarlega og birt á heimasíðum borgarfulltrúa á ytri vef borgarinnar.

Velferðarráð
10. ágúst 2018

Tillögur og bókanir Flokks fólksins á fundi Velferðarráðs 10. ágúst 2018

Velferðarráðsfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Heimilisleysi er mannréttindabrot. Í stefnu borgarinnar kemur fram að allir borgarbúar eigi að hafi öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði, hvort sem fólk þarfnast stuðnings með sín húsnæðismál eða ekki“. Við þetta hefur ekki verið staðið. Borginni ber skylda til að aðstoða þá sem hafa af einhverjum orsökum misst heimili sín eða eru húsnæðislausir. Að allir eigi þak yfir höfuð sitt og barna sinna er mannréttindamál.
Um árabil hafa borist fréttir af fjölgun fólks sem er heimilislaust. Vandinn hefur verið að stigmagnast síðustu ár. Jafnvel þótt markmið borgaryfirvalda séu skýr hafa þau hunsað upplýsingar um þessa alvarlegu þróun og því má segja að flotið hafi verið vakandi að feigðarósi. Flokkur fólksins telur að hér sé um neyðarástand að ræða. Tæplega 1000 manns eru nú á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Stjórnarandstaðan hefur á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru frá kosningum rifið upp þennan málaflokk. Flokkur fólksins fagnar því að borgin ætli nú loksins að fara að girða sig í brók og taka til hendinni. Nú gengur ekki lengur að tala bara heldur þarf að fara að framkvæma markvisst og með skýran tímaramma. Fjölga þarf úrræðum fyrir þá sem eru heimilislausir og sum úrræði þurfa að koma strax áður en vetur skellur á.

Borgarráð vísaði eftirfarandi tillögum í Velferðarráð:

Tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotað húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk

Tillaga um að borgin tilgreini framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu fyrir hjólhýsa- og húsbílabyggð.

Lagt til að báðum tillögunum sé vísað til stýrihóps um mótun stefnu í þjónustu velferðarsviðs við utangarðsfólk.
Samþykkt

Tillaga Flokks fólksins í Velferðarráði um að borgarstjórn leggi allt kapp á að útrýma heimilisleysi í Reykjavík með öllu á kjörtímabilinu.

Frestað.

Tillaga Flokks fólksins í Velferðarráði að hugtakið utangarðsfólk verði ekki notað frekar hjá velferðarsviði og velferðarráði borgarinnar.

Hugtakið er að mati borgarfulltrúa Flokks fólksins neikvætt og er ef til vill barn síns tíma. Lagt er til að í stað hugtaksins utangarðsfólk sé talað um heimilislausa eða fólk í húsnæðisvanda. Heimilislaust fólk er afar fjölbreyttur hópur fólks sem á það sameiginlegt að hafa ekki aðgang að hefðbundnu húsnæði, hefur ekki húsaskjól að staðaldri á sama stað.

Frestað.

Borgarráð
31. júlí 2018

Tillaga Flokks fólksins um samvinnu við ríki og lífeyrissjóði til að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að umræðu við ríkið til að kanna hvort veita þurfi lífeyrissjóðum sérstaka lagaheimild til að setja á laggirnar leigufélög. Samhliða er lagt er til að Reykjavíkurborg hafi frumkvæði að því að leita eftir samvinnu og samstarfi við lífeyrissjóðina um að koma á laggirnar leigufélögum og muni borgina skuldbinda sig til að útvega lóðir í verkefnið. Hugsunin er að hér sé ekki um gróðafyrirtæki að ræða heldur munu sanngjarnar leigutekjur standa undir rekstri og viðhaldi eigna sem fjármagnið hefur verið bundið í. Hér er einnig verið að vísa til lífeyrissjóða sem skila jákvæðri ávöxtun á fé sjóðanna. Um er að ræða langtíma fjárfestingu fyrir sjóðina enda sýnt að það borgi sig að fjárfesta í steinsteypu eins og hefur svo oft sannast á Íslandi.
Afgreiðsla: Vísað til fjármálaskrifstofu

Greinargerð:
Hjá lífeyrissjóðunum liggur mikið fé sem skoða mætti að nota til bygginga íbúða fyrir efnaminni einstaklinga sem eru og hafa verið í húsnæðisvanda eins og fram kemur í tillögunni Segja má að félagslega íbúðarkerfið sé í molum. Biðlistar þeirra sem sótt hafa um félaglegt húsnæði eru lengri en fyrir fjórum árum og sífellt berast kvartanir um að íbúðum sé ekki viðhaldið sem skyldi og að leiga hafi hækkað það mikið að hún er að sliga marga leigendur. Húsnæðisvandinn hefur tekið á sig æ alvarlegri myndir og þarf stórátak til að koma honum í eðlilegt horf. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að mæta þörfum þeirra sem eru heimilislausir eða búa við óviðundandi aðstæður og þeirra sem eru að greiða leigu langt umfram greiðslugetu. Lífeyrisjóðirnir eru sjóðir sem flestir ef ekki allir hafa nægt fjármagn til að koma inn í samfélagsverkefni sem þetta. Margir eru nú þegar að taka þátt í annars konar verkefnum innansem utanlandssvo sem hótelbyggingum. Hvað þetta verkefni varðar væru þeir að taka þátt í að þróa heilbrigðari húsnæðismarkað í Reykjavík fyrir fólkið sem greiðir í sjóðina. Þetta mun koma vel út fyrir allt samfélagið.

Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að vísa tillögunni til umsagnar fjármálaskrifstofu.

Borgarafulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum yfir að borgarráð hafi ákveðið að fresta tillögunni um að borgin leiti eftir samvinnu við lífeyrissjóði um að koma á fót öflugu félagslegu húsnæðiskerfi fyrir efnaminna fólk, í því skyni að fá umsögn fjármálaskrifstofu. Hér er einungis verið að leggja til að borgin eigi frumkvæði að samtali við lífeyrissjóðina og ætti því að vera borgarráði að meinalausu að samþykkja þessa tillögu án aðkomu fjármálaskrifstofu fyrst. Hér er um að ræða tillögu að málefni sem hefur komið til tals í samfélaginu og var eitt af megin kosningamálum Flokks fólksins. Það er vissulega verið að feta ótroðnar slóðir, skoða nýja möguleika, þar sem lífeyrissjóðir hafa ekki áður komið að uppbyggingu félagslegs húsnæðiskerfis. Upphaf alls nýs hlýtur ávallt að byrja á samtali aðila og í þessu tilfelli er lagt til að borgin eigi frumkvæði að því að ræða við lífeyrissjóði með eða án aðkomu ríkisins.

Umsögn fjármálaskrifstofu má sjá í fundargerð á vef borgarinnar.

Tillaga Flokks fólksins um hjólhýsa- og húsbílabyggð

Lagt er til að borgin tilgreini svæði fyrir hjólhýsi og húsbíla til framtíðar í nálægð við alla helstu grunnþjónustu í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur í Reykjavík sem óskar eftir því að búa í hjólhýsunum sínum og það ber að virða. Sem dæmi má nefna að það líður ekki öllum vel að búa í sambýli eins og í fjölbýlishúsum og finnst líka frelsi sem búseta í hjólhýsi eða húsbíl veitir henta sér. Sumir í þessum hópi sem hér um ræðir hafa átt hjólhýsi í mörg ár og hafa verið á flækingi með þau. Veturnir hafa verið sérlega erfiðir því þá loka flest tjaldstæði á landsbyggðinni. Á meðan verið er að undirbúa fullnægjandi hjólhýsa- og húsbýlagarð þar sem hjólhýsabyggð getur risið er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring þar til fundinn er hentug staðsetning þar hjólhýsabyggð getur risið í Reykjavík. Á það skal bent að í Laugardalnum er mikið og stórt autt svæði sem er ónotað. Þar er þjónustumiðstöð og sundlaug og stutt í alla aðra þjónustu.
Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:
Það er brýnt að Reykjavíkurborg skapi þessum hópi fullnægjandi aðstæður til að vera með sín hjólhýsi eða húsbíla á stað þar sem þau geta verið örugg til framtíðar. Eins og staðan er núna er mikill húsnæðisvandi í borginni sem er tilkominn vegna langvarandi skorts á hagkvæmu húsnæði hvort heldur er til kaups eða leigu. Með því að vanda til verka við val og umgjörð hjólhýsagarðs þar sem slík byggð getur risið er komið varanlegt og öruggt heimilisúrræði fyrir þá sem kjósa að búa í aðstæðum sem þessum. Í löndum sem við berum okkur saman við eru tjaldstæði fyrir húsbíla og hjólhýsi þar sem fólk býr árið um kring og lætur vel að því. Nútíma hjólhýsi eru ódýr og húsnæði með öllum þægindum. Ný hjólhýsi fyrir t.d. tvær manneskjur kosta um 3 milljónir á Íslandi og 10 ára gamalt hjólhýsi í góðu standi um 1,.5 milljónir. Það þarf því ekki að koma á óvart að fyrir einhverja kann þetta að vera raunhæfur kostur fáist framtíðarstaðsetning sem hentar hjólhýsi sem hugsað er sem heimili í Reykjavík. Það er ákveðinn hópur sem upplifir meira frelsi við að búa í hjólhýsi en að búa í fjölbýlishúsi. Sumum hentar það vel og segjast njóta þess að geta einungis opnað einar dyr hurð og stigið út. Þeir sem hafa reynslu af þessu búsetuformi og líkar það hafa sagt þetta sé ekkert öðruvísi en að búa í litlu einbýlishúsi. Mikilvægt er að leiga sé lág fyrir hjólhýsi eða húsbíl í hjólhýsagarðinum enda eru margir þeir sem kjósa að búa í hjólhýsi efnaminna fólk. Leiga verður að vera í takt við greiðslugetu. Þjónusta Í hjólhýsagarði þarf að vera aðgangur fyrir hjólhýsi/húsbíl að tengjast heitu og köldu vatni og rafmagni. Fullnægjandi hreinlætisaðstaða þarf að vera til staður og möguleiki á aðgangi að eldhúsi og matsal. Í hjólhýsagarði þurfaarf að gilda fastmótaðar umgengnisreglur og eftirlit. Gæta þarf þess að þar ríki friður og ró og að enginn setjist þar að sem gerir öðrum ónæði, skapi óróa eða ógn af neinu tagi hvort heldur með hegðun, framkomu eða neikvæðum lífsstíl. Á meðan verið er finna staðsetningu og undirbúa hjólhýsagarð er lagt til að Laugardalurinn bjóði þennan hóp velkominn allt árið um kring eða allt þar til staðsetning hjólhýsagarðs hefur verið ákveðin í Reykjavík og hjólhýsabyggð geti byrjað að rísa. Staðan í dag Staðan í þessum málum er óviðunandi eins og hún er í dag.

Hjólhýsabúendur hafa margir verið í Laugardalnum í óþökk rekstraraðila og borgarinnar. Leiga þar hefur verið hækkuð óheyrilega sem hefur hrakið suma á brott. Sumir hafa sagt þá sögu að þeim hafi verið ráðlagt að fara á tjaldstæði á Laugarvatni. En hængur á því er að þetta fólk er sumt hvert í vinnu í Reykjavík. Öðrum segist hafa verið ráðlagt að leigja rándýrt rúmpláss á gistiheimili sem er með öllu óraunhæft. Enn aðrir segja að þeim hafi verið bent á að búa í tjaldi og þeim jafnvel sagt að sækja síðan um rúmpláss í Víðinesi. Í Víðinesi býr hópur með fjölbreytt vandamál sem kemur og fer auk þess sem þar eru engar almenningssamgöngur. Ekkert af þessum ráðum hentar hópnum sem hér um ræðir, fólki sem vill stöðugleika og næði til að lifa sínu lífi. Þessi hópur vill búa í sínum eigin húsbíl /eða hjólhýsi sem sjálfstæðir einstaklingar. Grunnatriðið í þessu sambandi er að vera á Reykjavíkursvæðinu eða mjög nálægt því og það verður að vera hægt að komast þangað með almenningssamgöngum.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Nú hafa allar tillögur Flokks fólksins verið lagðar fyrir og ýmist verið frestað, vísað í ráð og ein felld. Væntingar Flokks fólksins fyrir þennan neyðarfund sem stjórnarandstaðan óskaði eftir voru þær að meirihlutinn myndi taka tillögum stjórnarandstöðunnar með mun opnari huga en raun bar vitni. Vonir stóðu til að teknar yrðu ákvarðanir um að framkvæma. Ganga til aðgerða! Hvað varðar tillögur meirihlutans voru flestar þeirra með einhvers konar fyrirvara eða skuldbindingum um sameiginlega ábyrgð sveitarfélaga eða háðar viðræðum við ríkið. Flokkur fólksins vill benda á að þeir sem eru húsnæðislausir hafa ekki endalausan tíma til að bíða eftir úrræðum. Vandinn er núna og við honum þarf að bregðast hratt og örugglega. Upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins er að borgarmeirihlutinn hafi verið ansi mikið á bremsunni á þessum fundi og frekar fátt bendir til þess að bretta eigi upp ermarnar af krafti fyrir veturinn til að laga stöðu þessa viðkvæma hóps.

Tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi ónotuðu húsnæði og innrétti íbúðir fyrir efnaminna fólk

Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði frekari kaup á ónotuðu húsnæði í Reykjavík. Um gæti verið að ræða skrifstofuhúsnæði og í einhverjum tilfellum iðnaðarhúsnæði með það að markmiði að innrétta íbúðir sem ætlaðar eru þeim sem búið hafa við langvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum og eru jafnvel enn á vergangi. Áhersla er lögð á að borgin sé ábyrgðaraðili þessa húsnæðis til að ávallt sé tryggt að það sé að öllu leyti fullnægjandi íbúðarhúsnæði. Tryggja þarf einnig að leiga verði ávallt sanngjörn og í samræmi við greiðslugetu leigjenda en hér er verið að tala um húsnæði fyrir fátækt fólk og aðra sem hafa engin tök á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag.
Afgreiðsla: Vísað til Velferðarráðs

Greinargerð:
Í borginni er víða ónotað húsnæði sem er til sölu. Til að bregðast við því ástandi sem nú ríkir á húsnæðismarkaði vegna langvarandi skorts á húsnæði er áhersla lögð á að innrétta íbúðir í húsnæði sem stendur autt og hefur e.t.v. gert lengi en er til sölu. Í einhverjum tilfellum kann að vera ódýrara og betra að rífa húsnæðið og byggja nýjar íbúðir og þarf að meta slíkt í hverju tilfelli fyrir sig. Þessi tillaga er ein af fleiri tillögum sem Flokkur fólksins vill leggja fram til að bregðast við neyðarvanda í húsnæðismálum sem bitnað hefur oft mest á þeim sem minnst mega sín, ekki hvað síst börnum fjölskyldna sem hafa verið á vergangi og fólki sem glímir við veikindi af ýmsum toga. Fyrir einstaklinga og fjölskyldur sem jafnvel ná ekki 300.000 krónum í tekjur á mánuði er útilokað að leigja á almennum markaði þar sem leiga er iðulega mun meira en helmingur af þessari upphæð. Grípa þarf til fjölbreyttra aðgerða til að gera hinn neikvæða húsnæðismarkað heilbrigðari sem allra fyrst.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.
Umsögn skrifstofu eigna og atvinnuþróunar má sjá hér

Tillaga Flokks fólksins um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks sem er í húsnæðisvanda

Lagt er til að borgin noti þá reiti sem hún hefur nýlega fest kaup á í Arnarbakki 2-6 í neðraBreiðholti og Völvufell 11 og 13-21 til að byggja íbúðir fyrir fjölskyldur sem hafa verið í húsnæðisvanda lengi og eiga í dag ekki fastan samastað. Fyrir þessa kjarna hefur borgin greitt rúmlega 752 milljónir króna og vel við hæfi þegar farið er að skipuleggja þessa reiti að forgangshópurinn verði þeir sem hafa verið á hrakhólum húsnæðislega, fjölskyldur jafnt sem einstaklingar. Fólk í húsnæðisvanda og heimilislausir og hópur þeirra sem ekki eiga fastan samastað sem þeir geta kallað heimili sitt hefur aukist síðustu árin. Biðlisti eftir félagslegu húsnæði hefur lengst sem sýnir að vandinn fer vaxandi með hverju ári. Nú þegar borgin hefur fest kaup á þessum tveimur kjörnum leggur Flokkur fólksins til að þeir verði nýttir að hluta til eða öllu leyti til uppbyggingar fyrir þá sem eru í og hafa lengi verið í húsnæðisvanda. Ýmist má hugsa sér að leiga íbúðirnar hjá leigufélögum sem eru óhagnaðardrifin eða selja þær á hagkvæmu verði sem efnaminna fólk ræður við að greiða án þess að skuldsetja sig langt umfram greiðslugetu. Mestu skiptir að gróðasjónarmið fái hér ekki ráðið.
Tillagan felld

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
Flokkur fólksins lýsir vonbrigðum sínum að þessi tillaga um að nýkeyptir reitir í Breiðholti verði byggðir og leigðir út til fólks í húsnæðisvanda hefi verið felld af meirihlutanum. Hér hefur verið varið gríðarlegu fjármagni í þessa tvo reiti en ekkert er um það að þarna verði húsnæði fyrir þá sem eiga litla möguleika á að leigja á húsnæðismarkaðinum eins og hann er í dag eða festa kaup á fasteign á verði sem samræmist greiðslugetu þeirra efnaminni. Ljóst er að nægt fjármagn er til hjá borginni og ætti því enginn að þurfa að vera heimilislaus. Hér var um að ræða tillögu Flokks fólksins, ein af fleirum sem lögð var fram með það markmiði að mæta þörfum fólks í heimilisvanda en sá hópur er mjög fjölbreyttur

Borgarráðsfundur
19. júlí 2018

Tillaga Flokks fólksins um samskiptareglur lögð fyrir fund forsætisnefndar

Lagt er til að forsætisnefnd samþykki samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa sem gilda eiga á öllum fundum, í nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Reglurnar ná einnig til starfsmanna Ráðhússins. Lagt er til að þessar samskiptareglur verði fylgigagn eða viðhengi siðareglna og undirritaðar samtímis þeim. Samskiptareglunum fylgir viðbragðsáætlun gegn einelti sem eineltisteymi borgarinnar styðst við, berist kvörtun um óæskilega hegðun eða einelti. Ástæðan fyrir mikilvægi þess að hafa skýrar samskiptareglur er sú að á vettvangi borgarstjórnar eru heitar umræður, gagnrýni og mótmæli algeng. Í slíkum kringumstæðum er eftir sem áður gerð sú krafa að borgarfulltrúar sýni kurteisi og virðingu og séu ávallt málefnalegir.

Greinargerð fylgir tillögunni

Samþykkt að vísa tillögunni til frekari vinnslu í forsætisnefnd samhliða endurskoðun siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Tillaga Flokk fólksins um stýrihóp í eineltismálum

Endurbætt tillaga áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir.

Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna stýrihóp um endurskoðun á gildandi stefnumótun Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn og formaður hans verður borgarfulltrúi Flokks fólksins. Með hópnum starfar starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að vinna erindisbréf stýrihópsins þar sem skilgreind eru helstu verkefni og starfinu sett tímamörk í samræmi við 3. gr. reglna um starfs- og stýrihópa.

Erindisbréfið skal leggja fram á næsta fundi borgarráðs. Greinargerð: Meta þarf umfang vandans, endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar auk þess sem fara þarf yfir verklagsreglur og viðbragðsáætlanir og tryggja að þær nái yfir áreitni og ofbeldi.

Nauðsynlegt er að stýrihópurinn endurskoði gildandi stefnumótun í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að komið verði á fót hlutlausum vettvangi þar sem hægt er að vísa málum til afgreiðslu sem ekki er hægt að leysa úr innan stofnanna og fyrirtækja borgarinnar.

Samþykkt.
Erindisbréf hefur ekki verið gefð út

Fylgigögn

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli – E-3132 – 2017 gegn Reykjavíkurborg að beiðni borgarráðsfulltrúa D og áheyrnarfulltrúa J, M og F

Tvær bókanir stjórnarandstöðunnar:
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017 kallar á sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar. Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016. Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins.

Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar. Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um samskiptareglur. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu á síðasta borgarráðsfundi en mun verða lögð að nýju fyrir á fundi forsætisnefndar 20. júlí í þeirri von að þar verði hún samþykkt enda gagnleg öllum.

Umræða um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra að beiðni Flokks fólksins

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi timburhús frá Eistlandi:

Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að eignast heimili.

Greinargerð:
Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili.
Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna og einstaklinga eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi.
Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra  á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir. Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði að flytja inn slík timburhús frá Eistlandi.
Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Hér má sjá umsögnina

Lögð fram svohljóðandi sameiginleg bókun Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins,  Sósíalistaflokksins og Miðflokksins

Stjórnarandstaðan vill að það sé bókað að fundur velferðarráðs 10. ágúst er að beiðni stjórnarandstöðunnar til að skoða ítarlega málefni og stöðu heimilislausra. Ósk um sérstakan fund um málefni heimilislausra var send ráðinu í júní en vegna m.a. sumarleyfa var ákveðið að halda fundinn hið fyrsta í ágúst. Nú hefur verið ákveðið að hann verið 10. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins óska eftir að Kærleikssamtökin komi á fundinn og kynni sín málefni sín, stöðuna og hvað þau hafa verið að gera. Eins teljum við að bjóða ætti öðrum samtökum og fulltrúum heimilislausra að koma og gera slíkt það sama. Markmiðið með þessum fundi er að við kynnum okkur stöðu heimilislausra í samfélaginu og nýta upplýsingarnar til að vinna áfram stefnumótandi vinnu.

Borgarráð
5. júlí 2018

Tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn efnaminni foreldra lögð fram í borgarráði 5. júlí

Lagt er til að frístundaheimili fyrir börn foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins verði gjaldfrjáls.

Greinargerð:
Í þeim tilgangi að styðja enn betur við efnaminni fjölskyldur er lagt til að foreldrar sem eru undir fátæktarmörkum fái gjaldfrjáls frístundaheimili fyrir börn sín. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Sumar fjölskyldur eru enn að glíma við fjárhagserfiðleika vegna afleiðinga hrunsins og sjá ekki fyrir sér að geta rétt úr kútnum næstu árin ef nokkurn tíman. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef húsnæðiskostnaður er einnig innifalinn í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum. Það er skylda
okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Börnum sem er mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Með þessari tillögu er verið að freista þess að tryggja að börn efnaminni foreldra missi hvorki pláss á frístundaheimilum né verði svikin um tækifæri til að sækja frístundaheimili vegna bágra félags- og fjárhagslegra stöðu foreldra.
Vísað til Skóla- og frístundarráðs

Tillaga um göngubrýr í stað gönguljósa lögð fram í Skipulags- og samgönguráði 27. júní

Lagt er til að í stað tveggja gönguljósa, annað á móts við Klambratún og hitt á móts við 365 miðla verði lagðar göngubrýr. Þessi ljós valda umferðarteppum á þessum leiðum meiri hluta dags.

Greinargerð:
Með göngubrúm er flæði umferðar milli umferðarljósa óhindrað. Fólksumferð yfir götuna er mikil og í hvert sinn sem ýtt er á gönguljósahnpp stöðvast umferðin dágóðan tíma.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, samgöngur

Fyrirspurn Flokks fólksins um kostnað vegna bílstjóra borgarstjóra

Hver er árlegur kostnaður þess að borgarstjóri haldi úti einkabílstjóra?

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kostnað vegna bílstjóra

Borgarráð
28. júní

Tillaga lögð fyrir á fundi borgarráðs að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða

Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt.
Frestað, vísað til Velferðarráðs

Fyrirspurn á fundi borgarráðs endurtekning spurningar um hvað gera á vegna manneklu í heimaþjónustu í sumar

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vil endurtaka spurningu sem hún spurði í Breiðholti þegar meirihlutinn kynnti sáttmála sinn. Þá fékkst ekki svar en var sagt að þessu yrði svarað. Svar hefur ekki borist.
Spurningin er: Hvað ætlar meirihlutinn að gera varðandi heimaþjónustu eldri borgara sem verður að skerða í sumar vegna manneklu?

„Með þessari spurningu vil ég vísa í frétt sem birtist á visir.is nú í júní þar sem segir: „Alvarleg staða er komin upp í heimahjúkrun í Reykjavík þar sem illa hefur gengið að manna stöður fyrir sumarið. Fólki tilkynnt um minni stuðning. „Þetta er skelfileg aðstaða og ég kvíði mjög sumrinu“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir um fyrirsjáanlegan samdrátt í þjónustu við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í Reykjavík í sumar.
Á fundi 16. ágúst barst svar Velferðarsviðs sem sjá má hér

Frá kynningu meirihlutans á sáttmála sínum

Tillaga um úttekt á biðlista Félagsbústaða lögð fyrir á fundi borgarráðs

Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:
1. Hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar. 2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar 3. hversu langur er biðtíminn. 4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það. 5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör. 6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör. 7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum. 8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun. 9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir og 10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin.
Afgreitt
Hér má sjá svör Velferðarráðs

Tillaga um samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa

Meðal tillagna sem lagðar voru fyrir borgarráð í gær var tillaga um samskiptareglur borgarfulltrúa. Hún hljóðar svona í stuttri útgáfu:
Lagt er til að settar verði samskiptareglur sem gilda eiga á öllum fundum, nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Sömu reglur skulu gilda um starfsfólk skrifstofu borgarstjórnar sem starfa með borgarfulltrúum. Samhliða tillögunni er lögð fram viðbragðsáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun. Í greinargerð er kveðið nánar á um reglurnar og viðbragðsáætlunina.
Frestað

Skóla- og frístundarráð
27. júní 2018

Tillaga um skólasálfræðing í hvern skóla

Tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins um skólasálfræðing í hvern skóla í Reykjavík

Lagt er til að skólar verði valdefldir með þeim hætti að þeir ráði sjálfir til sín skólasálfræðinga sem hafa skulu aðsetur í skólum og taka við verkbeiðnum frá nemendaverndarráðum. Í lögum segir að hver skólasálfræðingur skuli vera í hverjum grunnskóla og að börn skuli hafa aðgang að sérfræðiþjónustu þar á meðal sálfræðiþjónustu. Gert skal ráð fyrir því að hver skóli fái nægjanlegt fjármagn til að hafa í það minnsta sálfræðing í 40% starfshlutfalli.

Greinargerð

Með þessum hætti geta skólasálfræðingar verið meira aðgengilegir börnum, foreldrum og kennurum, sinnt handleiðslu og fræðslu eftir þörfum. Eins og vitað er eru biðlistar eftir þjónustu sálfræðinga langir í Reykjavík. Í fjölmörgum tilfellum hafa börn sem nauðsynlega hafa þurft sálfræðiþjónustu eða greiningu sem aðeins sálfræðingar mega framkvæma ekki fengið slíka þjónustu á grunnskólaárum sínum. Foreldrar sem gefist hafa upp á að fá aðstoð fyrir barn sitt hjá skólasálfræðingi hafa stundum þurft að kaupa sálfræðiþjónustu þar með talda greiningu frá sálfræðingi úti í bæ. Eins og skilja má eiga ekki allir foreldrar þess kost að fjármagna slíkt og því sitja börnin ekki við sama borð hvað kemur að tækifærum til að fá þá þjónustu sem þau þarfnast frá skólasálfræðingi. Sálfræðiþjónusta þar með taldar greiningar barna á aldrei að vera háð efnahagi foreldra. Eins og einnig er vitað hefur kvíði barna farið vaxandi, sjálfsskaði og þunglyndi. Orsakir fyrir þessu eru margar og flóknar en segir enn frekar til um hversu mikilvægt það er að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að skólasálfræðingi sínum.

Tillaga um fríar skólamáltíðir

Lögð fram svohljóðandi tillaga skóla- og frístundaráðsfulltrúa Flokks fólksins sem frestað var á fundi skóla- og frístundaráðs 27. júní 2018

Lagt er til að öll börn fái fríar skólamáltíðir. Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir.

Tillagan er felld 21. ágúst 2018

Forsætisnefnd
25. júní 2018

Lögð fram svohljóðandi tillaga Flokks fólksins er varðar bílastæði og kostnað borgarstjóra að halda úti bílstjóra

Lagt er til að kjörnir fulltrúar og starfsmenn Ráðhússins fái frí bílastæði hér í borginni, með bílastæðakorti sem dæmi eða öðru kerfi. Það eru einhverjir sem bæði vilja og þurfa að nota einkabílinn sinn til vinnu og eiga að geta gert það án þess að nýta þá upphæð sem hugsað er að fari í eitt og annað aukreitis í starfinu. Hafa skal í huga að margir koma langt að og eiga þess ekki kost að nota almenningsamgöngur eða hjól enda á þetta að vera val hvers og eins. Ef hugsað er um hvernig þetta skuli fjármagnað legg ég til að sá siður leggist af að borgarstjóri hafi bílstjóra. Ég óskaði fyrir nokkrum dögum eftir upplýsingum um kostnað er varðar að halda úti bílstjóra fyrir borgarstjóra með öllu því sem því fylgir en hef ekki fengið það sent enn.

Greinargerð fylgir tillögunni.
Frestað

Borgarstjórn
19. júní 2018

Tillaga um að gerð verði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum af óháðum aðila. Lögð fram á borgarstjórnarfundi 19. júní

Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:
Að borgarstjórn samþykkir að fela óháðum aðila að gera rekstrarúttekt á Félagsbústöðum. Einnig úttekt á öryggi leigutaka og formi leigusamninga með tilliti til stöðu leigutaka. Úttektin skal liggja fyrir eigi síðar en á fyrsta borgarstjórnarfundi í september.
Greinargerð fylgir tillögunni. R18060131
Vísað í borgarráð
Tekið fyrir þar og ákveðið að leita umsagnar fjármálastjóra og innri endurskoðanda
Málið var aftur á dagsrká 5. júlí en þá frestað. Málið fór aftur á dagskrá 19. júlí og var aftur frestað
Umsagnir fjármálastjóra og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar lá fyrir og má sjá hér

 

Hjartans þakkir fyrir dásamlegar kveðjur í kjölfar úrslita kosninga í Reykjavík
Það eru svo sannarlega spennandi tímar framundan með nýjum áskorunum.

Það hefur verið lítill sem enginn tími til að sinna skjólstæðingum mínum síðasta mánuðinn þar sem ég er í framboði. Á laugardaginn liggja úrslitin fyrir.
Þetta hefur verið og er gríðarlega krefjandi og spennan magnast nú með hverjum deginum.
Mig langar mjög mikið til að komast að í borginni til að geta gert gagn fyrir heildina.