Skipulags- og samgönguráð 3. júní 2020

Skipulags- og samgönguráð
3. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum:  Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030. Nýi  Skerjafjörður:

Í breytingunni er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði felst m.a. að umfang landfyllinga er minnkað. Fram kemur í gögnum engu  að síður að seinni áfangi er háður stærð landfyllinga.  Að eyðileggja íslenskar fjörur með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Það eru fá náttúruleg svæði sem er hægt að nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Í langflestum tillögum meirihlutans sem fjalla um landnýtingu við ströndina er farið fram á landfyllingu. Fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti.  Talað hefur verið um að sjávaryfirborð  eigi eftir að hækka. Fram kemur að matið sem byggt er á, er frá  2013. Í því segir að hætta á hækkun sjávaryfirborðs sé um 4.5 m. til 6 m. á 100 ára tímabili og eina leiðin til að tryggja öryggi er með landfyllingu.
Óvissa er með flugvöllinn. Borgarstjóri segir að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni a.m.k. í 15 ár og allsendis óvíst hvort hann fari yfir höfuð enda langt í land með að ljúka mælingum (veður- og flugmælingum) í Hvassahrauni. Fresta ætti sem mest byggingaráformum í nágrenni flugvallarins að mati fulltrúa Flokks fólksins. Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum.

Bókun Flokks fólksins við  Nauthólsvík, breyting á deiliskipulagi og Reykjavíkurflugvöllur:         

Skipulagsyfirvöld leggja fram tillögu að breytingu á deiliskipulagi í Nauthólsvík og Reykjavíkurflugvallar. Færa á flugvallargirðingu til austurs til móts við Nauthólsvík vegna aðkomutengingar við Fossvogsbrú. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur minna hér á fyrirhugaðar skemmdir á fjörum sem allt þetta ætlar að hafa í för með sér. Til að geta lagt umferðartengingu milli Nauthóls og Fossvogsbrúar þarf landfyllingu. Veitur gera athugasemd og segja að fyrirhuguð landfylling sem kynnt er í  breytingunni á deiliskipulagi raski útrásarenda fyrir regnvatn vestan við Nauthólsvík. Er ekki hægt að skipuleggja þetta öðruvísi? Flugvöllurinn er ekki á förum. Breytingartillagan ber  með sér óvissuna sem felst í því hvort flugvöllurinn verður eða fer. Uppbygging með flugvöllinn á staðnum er bara allt önnur en uppbygging sem yrði, fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni. Hér eru lagðar fram ábendingar frá Ísavia og íbúaráði  Miðborgar og Hlíða, báðar afar mikilvægar. Sú síðari lýtur að aðgengismálum og að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir eins og segir í athugasemdinni/ábendingunni. Það vantar alveg að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur og Reykjavíkurflugvallar. Eftir því sem fulltrúa Flokks fólksins skilst á að bregðast við þessum athugasemdum.
 

Bókun Flokks fólksins við  Umferðarljósastýringar í Reykjavík,  yfirlitskynning á fyrirkomulagi umferðarljósastýringa í Reykjavík:

Samkvæmt kynningu á ljósastýringu er miðlæg stýring og búið að vinna að samtengingu undanfarin ár að hluta til.  Á 113 stöðum  er ný útfærsla en á 100 stöðum er eldri útfærsla. Eldri útfærslan hlýtur að vera á þeim stöðum þar sem mesta  álagið er því slíkar eru umferðartafirnar og umferðarflæði slakt?  Það er vont að enn eigi eftir að nútímavæða ljósabúnað á 100 stöðum. Umferðaröngþveiti er víða í borginni og á hverjum morgni bíða röð bíla eftir  grænu ljósi og leiðin löngu orðin greið. Gamaldags umferðarljósastýringarkerfi  er ein stærsta ástæða þess að umferðin er í svo miklum ólestri sem raun ber vitni. Af hverju hefur þetta skref ekki verið tekið til fulls? Leiðrétta þarf einnig gangbrautarljós. Sú staðreynd að rauð ljós loga á gangbraut þótt enginn sé að fara yfir er ekki til að bæta útblástursvanda. Til að draga úr mengun hafa skipulagsyfirvöld viljað draga verulega úr bílaumferð í bæinn í stað þess að vinna með markvissum hætti að flýtingu orkuskipta. Öll vitum við metani sem ofgnótt er af er brennt á báli  í stað þess að brenna þessari vistvænu, innlendu grænu orku á bílum. Þessum málum þarf að koma í lag og umfram allt finna leiðir til að hvetja til orkuskipta.

Bókun Flokks fólksins við  Grafarvogur norður, samgöngubætur:               

Kynntar eru fyrirhugaðar samgöngubætur í norðurhluta Grafarvogshverfis. Þetta eru meðal atriða sem íbúum var lofað þegar ráðist var í að leggja af skólahald í einu húsi þverrt gegn vilja foreldar barna skólans. Þau óttuðust um öryggi barna sinna á leið í og úr skólann. Er hér búið að tryggja að fullu, eins og hægt er, trausta og örugga samgönguleið á milli Staðahverfis og Víkurhverfis? Fram kemur í kynningu að þetta hafi verið kynnt foreldrum en fulltrúi Flokks fólksins veit ekki hvort foreldrar séu sáttir upp til hópa og hvort þeir upplifi að börn þeirra séu örugg á leið úr og í skóla.

 

Bókun Flokks fólksins við  Umsögn Reykjavíkurborgar um, Frumvarp til laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir:

Veggjöld í Reykjavík gætu falið í sér tugþúsunda kostnaðarauka á mánuði vegna ferða borgarbúa. Vegtollar eru aðför að borgurunum að mati fulltrúa Flokks fólksins. Nú vilja skipulagsyfirvöld leggja sérstaka áherslu á að rukka þá sem aka um á ákveðnum tímum, á álagstímum, á þeim tíma sem þeim er ætlað að mæta í vinnu. Það er vissulega fagnaðarefni að bæta eigi samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefur verið brugðist við fólksfjölgun og auknum umferðarþunga. Gert er ráð fyrir að vegtollar á notendur fjölskyldubíla standi undir helmingi kostnaðar. Vegtollahugmyndirnar hafa verið gagnrýndar harkalega. FÍB hefur bent á að setja þyrfti upp myndavélar á 160 gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu til að innheimta vegtolla á helstu stofnbrautum.  Vegtollar eru mjög dýr leið til að hafa tekjur af umferðinni. Kostnaður við vegtolla felst m.a. í dýrum tækjabúnaði, hugbúnaði, tengingum, innheimtukostnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri.  Að auki greiða vegfarendum 11% virðisaukaskatt af veggjöldum. Veggjöld leggjast með mestum þunga á lágtekjufólk, sem þarf að nota bíl til að sækja vinnu og koma börnum á leikskóla og í frístundastarfsemi. Láglaunafólk sem flytur í úthverfi til að komast í ódýrara húsnæði tapar þeim ávinningi komi til innheimtu veggjalda. Veggjöld eru flöt krónutala og mun hærra hlutfall launa láglaunafólks samanborið við laun hálaunafólks.

Bókun Flokks fólksins við 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 um göngugötur, minnisblað Umhvefissviðs:

Lagt er fram minnisblað umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingi og Samgöngu- og Sveitarstjórnaráðuneytisins dags. 3. apríl 2020. Fulltrúi Flokks fólksins finnst að skipulagsyfirvöld eigi að leyfa þessu að standa eins og þetta er og ekki að vera að skipta sér frekar að þessu orðalagi að sinni. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn orða hlutina með þessum hætti í nýjum umferðarlögum og má ætla að mikil vinna liggi þarna að baki. Hér er mikilvægt að huga að þeim sem eiga við hreyfivanda að stríða og að tryggja þeim sem þurfa aðgengi upp að dyrum að þeir komist greiðlega. Flokkur fólksins vill leggja áherslu á að bílastæði séu í göngugötum í neyðartilvikum fyrir þann sem þarf akstur upp að dyrum og greið leið þarf að vera fyrir fatlaða að fara inn á göngugötur t.d. í hjólastólum.

 

Bókun Flokks fólksins við svari/umsögn er varðar aðgengi eldri borgara um göngugötur:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um aðgengi fatlaðra um göngugötur sbr. 10. gr. 2019 nr.77 25. júní í nýjum umferðarlögum og hvort borgaryfirvöld vilji ganga enn þá lengra en lagasetningin segir til og veita eldri borgurum sem erfitt eiga með gang og hreyfingar sama aðgengi og fötluðum er veitt í þessum lögum. Einnig kemur fram að sviðið hafi þann 3. apríl sl. sendi umhverfis- og skipulagssvið minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, „þar sem lýst var yfir áhyggjum af framkvæmd undanþáguákvæðis 1. mgr. 10. gr. laganna. Undanþágan felur í raun í sér að stórum hópi fólks, þ.e. um 8.000 handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, er heimilað að keyra um göngugötur með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á öryggi annarra vegfarenda.“ Vissulega getur Reykjavíkurborg sem veghaldari séð til þess að aldraðir hafi gott aðgengi þótt ekki sé kveðið á um það sérstaklega í lögunum. Af þessu má sjá viðhorf skipulagsyfirvalda til aðgengismála fatlaðra og aldraðra. Varla eru áhyggjur af því að 8000 handhöfum stæðiskorta mæti allir í bæinn  íeinu og aki á göngugötum. Vissulega getur Reykjavíkurborg sem veghaldari séð til þess að aldraðir hafi gott aðgengi þótt ekki sé kveðið á um það sérstaklega í lögunum.

 

Ný mál lögð fram á fundinum:

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn  um hvort ekki sé ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer?  

Fram hefur komið í drögum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er varðar skipulag byggðar í Skerjafirði að umfang landfyllinga er minnkað. Samt eru forsendur landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu eftir því sem fram kemur í drögum.  Fyrir liggur að flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt því sem borgarstjóri segir.
Fulltrúi Flokks fólksins spyr eftirfarandi:
Er ekki ástæða til að fresta öllum byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer? Þá verður hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð,  öryggissvæðis og margt fleira.  Við brotthvarf flugvallarins verður einfaldlega allt annað umhverfi í boði, og lítil ef nokkur þörf verður þá á landfyllingum.

Frestað.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn hvað séu mörg  verslunarrými við göngugötur í miðbænum, sem losnað hafa sl. eitt og hálft ár?   

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvað séu mörg  verslunarrými við göngugötur í miðbænum, sem losnað hafa sl. eitt og hálft ár. Spurt er um rými sem hafa losnað við bæði varanlegar göngugötur og tímabundnar? Spurt er vegna þess að fjölmargir rekstraraðilar sem ráku verslanir við þessar götur hafa flutt verslanir sínar annað eða lagt niður rekstur sinn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhuga á að vita hvað mörg rými þar sem áður voru verslanir á þessu tímabili standa nú auð.

Frestað.

 

Eftirfarandi málum Flokks fólksins lögð fram á síðasta fundi var aftur frestað vegna tímaskorts:

Áheyrnarfulltrúið Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um fjölda upplýsingum um fjölda stæða og sleppistæða við leikskóla og grunnskóla borgarinnar og hvað mörg eru yfirbyggð?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi fyrirspurn um hvort það sé reglulega borinn saman kostnaður við að nota sterk steinefni t.d. frá Noregi eða veikari íslenska steinablöndu í malbik í Reykjavík?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um verkefni EFLU, hvort starfsmenn borgarinnar geti ekki sinnt einhverjum þeirra?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram  fyrirspurnir um mælingar áhrifa á lokun gatna á verslun og viðskipt, hvort umferð um göngugötur hefur verið mæld og hvort til séu einhver töluleg gögn sem styðja þá fullyrðingu um að mannlíf og verslun aukist með fleiri göngugötum?

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur  fram svohljóðandi tillögu að meirihlutinn endurskoði þéttingarstefnu sína með það í huga að hlífa grænum svæðum, skólalóðum og útivistarsvæðum