Velferðarráð 6. maí 2020

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðstjóra um tilslakanir velferðarsviðs vegna aðgerða í tengslum við  Covid-19 veirufaraldursins:

Það er ánægjulegt að sjá að Reykjavík ætlar að koma til móts við fólk sem lendir í ófyrirséðum erfiðleikum vegna heimsfaraldursins. Það er þó fullljóst að 20.000 króna eingreiðsla dugar skammt. Ef við eigum að koma til móts við fátækasta hóp borgarinnar þá dugir ekki að tjalda til einnar nætur. Flokkur fólksins vill sjá fjárhagsaðstoð Reykjavíkur hækka varanlega um 20.000 krónur. Ef það þykir ómögulegt þá þarf að minnsta kosti að framlengja eingreiðsluúrræðið þannig að fólk fái 20.000 króna viðbót við fjárhagsaðstoð í 3 mánuði. Það er mat Flokks fólksins að almennt séð eru borgaryfirvöld ekki að koma nægilega á móts við ellilífeyrisþega og öryrkja og það er jafnframt mat margra þeirra líka eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Sumir eiga einfaldlega ekki til hnífs og skeiðar og glíma auk þess sumir einnig við húsnæðisvanda. Margir áttu afar erfitt áður en Covid-faraldurinn skall á og staðan eftir að Covid-19 skall á hefur versnað hjá þessu fólki til muna.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblað um NPA:

Í dag eru 24 einstaklingar með þjónustu í formi NPA, 19 eiga samþykkta umsókn. Miðað við fjárheimildir velferðarsviðs er ekki unnt að gera fleiri samninga á árinu 2019 og 2020 nema einhver hætti með þjónustu í formi NPA eða fjárheimildir verði auknar. Ekki er tryggt að mótframlag komi frá ríkinu ef gerðir verða fleiri samningar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort velferðarráð og svið ætli ekki að ganga í þessi mál af krafti og linna ekki látum fyrr en eitthvað fer að hreyfast? Það segir sig sjálft að ekkert gerist af sjálfu sér. Þetta getur bara ekki verið svona. Auka þarf fjárheimildir og eiga samtal við ríkið um mótframlag. Þetta eru lög og ekki er hægt að sitja og bíða.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu við ársuppgjör velferðarsviðs 2019:

Hægt er að skilja einstaka frávik á sviði eins og velferðarsviði. Frávik hafa sínar ástæður og orsakir, þau koma til vegna þess að það hefur verið vanáætlað, eða eitthvað óvænt hefur komið upp á eða verið er að reka einingu/stofnun með óskynsamlegum hætti. Frávik eru vegna heimaþjónustu því ekki hefur tekist að manna. Það er dýrt að geta ekki mannað. Ef launin væru mannsæmandi væri mögulega hægt að manna. Það vekur athygli að frávik eru í kostnaði við framleiðslueldhús upp á 26 m.kr. eða 19% umfram fjárheimildir sem skýrist að hluta vegna langtímaveikinda en 2 starfsmenn voru í langtímaveikindum á tímabilinu. Sama má segja um félagsmiðstöðvar, þar eru einnig frávik. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að liðir eins og þessir ættu að geta verið í betra lagi. Skoða þarf áætlanagerð betur og deila fé í samræmi við þörf. Frávik væri helst skiljanlegt hjá barnavernd en þar geta komið upp skyndilegar óvæntar aðstæður. Engu að síður ætti að vera hægt að áætla nákvæmar. Árið 2019 var hefðbundið góðærisár og ef einhvern tíma hefði verið hægt að spá nákvæmt þá er það sennilega það ár. Öðru máli gegnir um 2020. Árið 2020 verður vissulega allt öðruvísi vegna hins óvænta vágests Covid-19.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu yfirlits yfir innkaup yfir milljón 2019:

Birt er yfirlit yfir innkaup velferðarráðs yfir milljón. Það sem tekið er eftir í þessu yfirliti um innkaup yfir milljón árið 2019 er uppsetning á öryggiskerfi í nýrri þjónustumiðstöð Breiðholts. Kostnaður er 28 milljónir. Borgin er með miðlægan samning við Öryggismiðstöðina um öryggisvörslu almennt en þessi þjónusta var keypt af Securitas þar sem þeir höfðu áður þjónustað þetta tiltekna húsnæði. Þetta þarfnast að mati Flokks fólksins nánari útskýringar. Eins má spyrja hvort það sé ekki óhentugt að borgin skipti við annað fyrirtæki en það sem hún hefur miðlægan samning við? Eins vantar að skýra af hverju uppsetningu öryggisbúnaðar er svona dýr á þessari ákveðnu þjónustumiðstöð.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  frá Blokkinni, félagi leigjenda hjá Félagsbústöðum, dags. 10. apríl 2020:

Nú liggur fyrir að ekki á að fella niður leigu hjá Félagsbústöðum í einn einasta mánuð vegna Covid-19 aðstæðna eins og tillaga fulltrúa Flokks fólksins fól í sér. Einnig var lagt til að Félagsbústaðir falli frá innheimtu á leiguskuldum leigjenda og frysti þær sem eru í innheimtuferli vegna Covid-19. Því er einnig hafnað. Félagsbústaðir hafa skyldur og ábyrgð gagnvart leigjendum sem er einn viðkvæmasti hópurinn sem velferðarsvið þjónustar. Fram hefur komið að niðurfelling leigu í einn mánuð nemi tæpum 310 m.kr. og myndi leiða til þess að handbært fé yrði neikvætt um tæpar 200 m.kr. á árinu 2020. Öðru eins fé er nú varið í alla mögulega hluti, sum verkefni sem vel mættu bíða að mati fulltrúa Flokks fólksins. Staða sumra í þessum hópi er einfaldlega mjög slæm og dugar ekki greiðsluaðlögun. Að hægja á málum sem snúa að greiðsluáskorunum eins og boðið er upp á er skammgóður vermir. Fulltrúi Flokks fólksins fer fram á að stjórn Félagsbústaða endurskoði þessa ákvörðun sína.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi  frá Hjálparstarfi kirkjunnar, dags. 20. apríl 2020:

Flokki fólksins hugnast vel sú aðferð sem þarna er beitt, þ.e. að Hjálparstarfið veitir aðstoð fyrst og fremst í inneignakortum í matvöruverslunum þannig að fólk getur sjálft valið að sem það hefur þörf fyrir. Einnig er aðstoð veitt með lífsnauðsynleg lyf og greitt fyrir tómstundir barna. Hjálparstarfið er í raun að gera það sem velferðarráð á að gera. Þegar kerfið er ekki að sinna sínu hlutverki spretta upp alls konar hjálparfyrirtæki. Samfélagið vísar vandamálunum á alls kyns félög í stað þess að takast á við verkefnið sjálft. Aðferðafræðin sem er að veita aðstoðina í inneignakortum er eina rétta og besta leiðin. Þegar fólk fær inneignakort þarf það ekki að standa í biðröð fyrir utan hjálparstofnanir eftir mat sem mörgum finnst afar niðurlægjandi og erfitt. Sem samfélag ber okkur að gæta að því að fólk geti haldið sjálfsvirðingu sinni þótt það sé fátækt. Hjálparstarf kirkjunnar á heiður skilið fyrir þessa framkvæmd. Þegar kerfið hefur brugðist hefur starfið haldið velli. Skrifstofan hefur verið opin í gegnum allan faraldurinn og hefur ekki orðið skerðing á þjónustunni. Eðlilega biður starfið um fjárstuðning enda lifir „hjálparstarf“ aðeins ef styrkir koma einhvers staðar frá.