Velferðarráð 7. október 2020

Bókun Flokks fólksins við liðnum Staða mála á velferðarsviði vegna COVID-19:

Nú er hart í ári vegna COVID. Mörg þúsund manns þarfnast aðstoðar og þörfin eykst með hverri viku. Staðan var þegar slæm fyrir COVID og má því segja að borgin hafi ekki verið nógu vel undirbúin fyrir áfall af þessu tagi. Forgangsröðun hefur verið skökk að mati Flokks fólksins, fólk ekki sett í forgang. Talið er að um 500 börn búi við sára fátækt.  Staðan mun versna eða þar til bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð hafa verið  of ströng sem rekið hefur stóran hóp til að leita á náðir hjálparsamtaka.  Velferðaryfirvöld hafa árum saman treyst of mikið á hjálparsamtök. Fleiri þurfa nú aðstoð en nokkurn tímann áður. Hópurinn er breiðari en áður. Það eru þeir sem hafa misst vinnuna vegna efnahagslegra áhrifa COVID. Margir eru að ljúka uppsagnarfresti og mun því atvinnuleysi aukast enn frekar. Ef allt væri eðlilegt væri velferðarkerfi Reykjavíkur að sjá betur um grunnþarfirnar. Hjálparsamtök væru eftir sem áður að dreifa lagerum sem birgjar gefa. Sjálfsagt hefur verið að styrkja þau til að reka yfirbyggingu í þeim tilgangi að dreifa gjöfum frá birgjum til fólks. Síðasta ár fengu 1700 umsækjendur efnislega aðstoð frá einum hjálparsamtökum í Reykjavík. Annar eins fjöldi, ef ekki meiri, hefur fengið aðstoð frá öðrum hjálparsamtökum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu formanns velferðarráðs, dags. 7. október 2020, um úthlutun styrkja velferðarráðs:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu. Hjálparsamtök hafa sögulega séð verið kerfi sem dreifir mat og fatnaði til fólks sem birgjar vilja gefa. Hjálparsamtök þurfa mögulega aðstoð við að reka einhvers konar yfirbyggingu, húsnæði til að þau geti tekið við lagerum frá birgjum og dreift. Þetta er góð leið til að tryggja að það sem birgjar vilja gefa, mat, fatnað eða aðrar nauðsynjar komist til þeirra sem þarfnast.

Öllum öðrum málum var frestað vegna COVID-19 ástandsins