EfniTitill

Bókun Flokks fólksins við tillaga að alþjóðastefna Reykjavíkur til 2030, sbr. 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 11. mars 2021:

Alþjóðastefna Reykjavíkurborgar til 2030  í erlendum samskiptum endurspeglar vart þróun síðustu ára með sístækkandi hlutverki borga á alþjóðavettvangi.  Margt er gott í stefnunni en áhyggjur eru af því sem fram kemur t.d. að „sérstaka starfsmenn þarf til að sinna alþjóðlegu samstarfi.“ Auka þjónustu við kjörna fulltrúa – t.d. vegna ferðalaga og móttaka og til að setja þá inn í ýmis alþjóðamál. Hér vill fulltrúi Flokks fólksins minna á að huga þarf að kostnaði eins og í svo mörgu öðru en farið hefur verið offari í sóun þegar kemur að ferðalögum meirihlutans og embættismanna erlendis, fram að COVID. Samskipti eiga að vera í gegnum fjarfundi nema í undantekningartilfellum. Annað sem vekur áhyggjur er að sagt er að nota eigi  „skilvirkar snjalllausnir og ráða fleira starfsfólk“. Hér hræða sporin og mikilvægt er að opna ekki enn á ný á stjórnlaus útgjöld eins og nú þegar hefur verið gert á sviði þjónustu og upplýsingatækni í verkefni sem hafa hvorki verið skilgreind til hlítar né hafa sýnileg markmið. Þekkingarmiðlun er í ójafnvægi – miklu er miðlað en minna sótt. Fulltrúi Flokks fólksins vill benda á að hægt er að sækja meiri þekkingu til annarra borga og taka til fyrirmyndar borgir sem viðhafa góða og ábyrga stjórnsýslu.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins styður tillögu um snjallvæðingu í grunnskólastarfi í Reykjavík en setja þarf verkefnið í hendur ábyrgra aðila og þeirra sem hafa þekkingu og skilning á snjallvæðingu sem snýr beint að börnunum og námi þeirra. Skilgreind markmið og mælanlegir verkferlar verða að vera til staðar þegar verið er að sýsla með fjármuni borgarinnar. Skynsamlegast væri að færa hluta þessara 10 milljarða sem þjónustu- og nýsköpunarsvið hefur fengið nánast frítt spil með yfir á skóla- og frístundasvið sem myndi halda utan um Fab Lab og snjallvæðingu skólanna. Það er aldrei að vita nema að hugmyndaauðgi grunn- og framhaldsskólanema (Fab Lab) myndu skila fyrr af sér lausnum og draga þar með úr milljarða ráðgjafakaupum til einkafyrirtækja. Þrátt fyrir að miklum fjármunum hafi nú þegar verið veitt í stafræna umbreytingu og snjalllausnir er ekki að finna mikið af lausnum. Benda má á þetta fræga gróðurhús en í það hafa farið milljónir ef ekki milljarðar þrátt fyrir að vera aðeins „jarðvegur“ eins og meirihlutafulltrúi lýsir því, eða „prósess þar sem útkoman skiptir engu máli“. Einnig mætti nýta þær lausnir sem til eru nú þegar og hafa virkað vel, t.d. í skólakerfum annarra landa eins og raunin virðist vera með Fab Lab (sköpunarsmiðja).

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að nýju deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 ásamt fylgiskjölum, sbr. 5. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars 2021:

Nýtt deiliskipulag fyrir Skerjafjörð Þ5 er til afgreiðslu og hefur verið samþykkt af meirihlutanum. Með því að samþykkja tillöguna er stoppað í hvert gat í kringum  flugvöllinn. Skerjafjörðurinn og málefni hans hafa verið lengi á dagskrá í borgarstjórn og þá ekki síst vegna fyrirhugaðra landfyllinga og auðvitað vegna flugvallarins. Þótt ákvörðun um landfyllingu sé ekki hluti af þessari afgreiðslu þá eru áform um landfyllingar á þessum stað óásættanlegar enda skerðing á fjöru. Skerjafjörðurinn og uppbygging hans hefur margar hliðar. Umferðarmálin er einn flötur sem dæmi og einnig hvort flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni til langs tíma eða verði fluttur annað eftir 10-20 ár. Ekki er hægt að segja til um hvað verður á þessu stigi máls. Fulltrúi Flokks flokksins hafnar ekki alfarið að einhver uppbygging eigi sér stað í Skerjafirði en í raun er erfitt að fullgera nokkuð skipulag á meðan framtíð flugvallarins er óljós. Það væri þroskamerki hjá þessum meirihluta að ákveða ekki neitt með Skerjafjörðinn nú þegar aðeins eitt ár er eftir af valdatíð hans. Fari flugvöllurinn þá verður allt annað landrými undir til skipulagningar fyrir húsabyggð. Eðlilegt væri að meirihlutinn leyfði þeim næsta að taka þennan bolta. Skerjafjörðurinn er verðmætt svæði með blómlega náttúru og hefur tilfinningagildi fyrir fjölmarga.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Allar tillögur sem styðja við bakið á fátæku fólki eru tillögur sem Flokkur fólksins styður. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt mýmargar sambærilegar tillögur fram í borgarstjórn en þær ýmist felldar eða vísað frá. Ljóst er að grípa þarf til sértækra aðgerða ef vinna á að jöfnuði. Hvort sem ákveðið er að hafa þjónustu gjaldfrjálsa eð tekjutengda þá liggur fyrir að það þarf að gera meira fyrir foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði til að létta af þeim álagi sem fylgir því að vera fátækur. Eðlilegt er í samfélagi eins og okkar að lágtekjufólk sem oft eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og námsmenn sem eru undir lánsviðmiðunarmörkum borgi minna eða ekkert fyrir þjónustu eins og leikskóla og frístund og þeir efnaðri borgi meira. Jöfnuður er ein mikilvægasta forsenda þess að öll börn nái að vaxa og dafna í samfélaginu. Dæmi um ójöfnuð er að börn tekjulágra foreldra stunda síður skipulagðar íþróttir og annað tómstundastarf. Foreldrar hafa þurft að grípa til frístundakorts barna sinna til að greiða frístundaheimili og þar með nýtist kortið ekki fyrir barnið til að velja sér tómstund eða íþrótt. Útbúa þarf tekjuviðmið til að hægt verði að styðja við tekjulágar fjölskyldur með viðbótarniðurgreiðslu á t.d. gjöldum frístundaheimila. Samfylkingin í borginni ætti að styðja þessa tillögu vilji hún vera samkvæm þeirri stefnu sem Samfylkingin boðar sem er jú að auka jöfnuð.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Tillögu Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að hjúkrunarheimili starfi eftir Eden hugmyndafræði hefur verið vísað í velferðarráð. Það boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú. Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar tækifæri til að að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignastofnanir fengju hvatningu til að gera það saman. Í andmælum meirihlutans fær borgarfulltrúinn tvö valmöguleika, að samþykkja að vísa henni í velferðarráð eða draga hana til baka. Fulltrúi Flokks fólksins vill aftur leggja áherslu á að Eden hugmyndafræðin er einstök. Allmörg heimili vinna eftir Eden hugmyndafræðinni og hafa sum gert lengi við mikla ánægju heimilisfólks, aðstandenda og starfsfólks. Ástæðan fyrir því að Eden er svo vinsæl er að hún felur í sér áhersluna á hlýju, nánd, sjálfstæði og valdi yfir eigin lífi. Rúsínan í hugmyndafræðinni er áherslan á samneytið við lífríkið, börn og dýr.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Eden-hugmyndafræðin er áhugaverð og byggir á fjölbreytileika til að auðga daglegt líf hvers íbúa. Meirihluti borgarstjórnar lagði til að tillögunni yrði vísað til velferðarráðs til umfjöllunar og samráðs. Ákvörðun um að innleiða hugmyndafræði þarf alltaf að taka í nánu samráði við stjórnendur, starfsfólk og íbúa hjúkrunarheimila.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það hefði verið meirihlutanum að meinalausu að samþykkja þessa tillögu og verið sómi af. Þá hefðu hjúkrunarheimili borgarinnar fengið tækifæri til að skoða hana fyrir alvöru og hin heimilin sem eru sjálfseignarstofnanir fengið hvatningu til að gera það saman. Að vísa tillögunni í velferðarráð boðar ekki gott því að í öll þau skipti sem tillögum Flokks fólksins hefur verið vísað til velferðarráðs beint úr borgarstjórnarsal þá eru þær felldar eða vísað frá á einhverjum næstu funda ráðsins. Hér er meirihlutinn að kaupa sér tíma því málið er viðkvæmt og treystir meirihlutinn sér ljóslega ekki til að fella tillöguna eða vísa henni frá hér og nú.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 18. og 25. mars og 15. apríl undir 11. lið fundargerðar borgarráðs frá 25. mars:

Borgarráð samþykkti nýlega að heimila þjónustu- og nýsköpunarsviði að hefja verkefnaklasa í stafrænum umbreytingum. Sjálfsagt er að veita fé í stafræna umbreytingu enda er borgin eftir á með flest í þeim efnum enn sem komið er. Eins og komið hefur fram í fjölda bókana Flokks fólksins telur borgarfulltrúinn að afar frjálslega sé farið með það fé sem veitt hefur verið í málaflokkinn. Ekki er gætt aðhalds og ráðvendni. Starfsfólk var rekið og verkefnum útvistað. Ráðgjafakaup eru óeðlilega mikil í þessum málaflokki, fram úr öllu hófi. Sett er fé í tilraunastarfsemi á stafrænum verkefnum án þess að skilgreina hvert það leiðir. Minnt er á að til eru þessar lausnir nú þegar hjá flestum fyrirtækjum, stórum og smáum. Að verja milljörðum í hugmyndasmiðjur og nýsköpunarverkefni sem óvíst er að eitthvað komi út úr, er óverjandi. Með fagurgala og háfleygum lýsingum sem sjá má í svörum við fyrirspurnum, er reynt að fá fólk til að kaupa þá ímynd að verið sé að gera hér einhverja tímamótahluti sem leiði borgina á toppinn í stafrænni umbreytingu svo aldrei hafi sést annað eins. Allt er þetta undir merkjum græna plansins. Grænt eða ekki grænt, þá er þetta sóun og bruðl. Illa er farið með fjármuni borgarinnar sem ekki er hægt að horfa upp á.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Mikill undirbúningur liggur til grundvallar stafrænni umbreytingu borgarinnar. Að sjálfsögðu er ráðvendni gætt og er fullyrðingum um annað vísað á bug. Verið er að hraða stafrænni umbreytingu í þjónustu borgarinnar um fjöldamörg ár með það að markmiði að bæta þjónustu við borgarbúa. Liggur fyrir að þessi stafræna vegferð mun kalla á um 60-80 ársverk sem mun skiptast í aðkeypta þjónustu og tímabundin stöðugildi eftir því hvað hagkvæmast er hverju sinni. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er skynsamlegt. Hér er um að ræða fjárfestingu sem mun spara mikið til lengri tíma eins og verkefni sem þegar hafa verið unnin hafa sýnt. Þjónustuþörfin er stanslaust að aukast og til að fletja út kúrvuna á aukinni þörf á fjölgun starfa er hægt að mæta aðstæðunum með nútímavæðingu þjónustu og stafrænni umbreytingu um leið og þetta leiðir til betri þjónustu sem er aðgengilegri, hagkvæmari og umhverfisvænni. Það gengur ekki að fullyrða að það þurfi nauðsynlega að ráðast í stafræna umbreytingu en halda því svo fram að það sé algjör vitleysa að fjárfesta í nákvæmlega þessu.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það fjáraustur og ábyrgðarleysi þjónustu- og nýsköpunarsviðs undir verndarvæng formanns mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs og borgarstjóra sem fulltrúi Flokks fólksins hefur marglýst í bókunum sínum er með eindæmum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur fengið það óþvegið fyrir að gagnrýna þetta, sökuð um vanþekkingu og fleira hálfu verra. Fulltrúi Flokks fólksins ætlar ekki að fara niður á þetta plan en biðlar þess í stað til formannsins að axla ábyrgð og spyrna við fótum. Spyrna átti við fótum þegar hópur kerfisfræðinga var rekinn og verkefnum þeirra útvistað. Ekki hefur verð sýnt fram á hagkvæmni með þeirri aðgerð. Einnig átti að spyrna við fótum þegar milljarðar streymdu til ráðgjafafyrirtækja greiðslur sem eru sumar ekki sundurliðaðar í opnu bókhaldi á vef borgarinnar. Spyrna átti við fótum þegar sérstakar skrifstofur voru settar á laggirnar í kringum ákveðin tilraunaverkefni sem jafnvel er hægt að fá fullbúin annars staðar eða hefði mátt setja í hendur nemenda grunn- og framhaldsskólanna (Fab Lab) til að þróa frekar. Reykjavík er sveitarfélag en ekki hugbúnaðarfyrirtæki eða hönnunar- og nýsköpunarfyrirtæki á heimsmælikvarða. Hér er ekki um að ræða milljónir heldur milljarða, vel á annan tuga milljarða þegar allt er tiltekið. Og hvað svo? Er þetta botnlaus brunnur sem halda á áfram að hella í?

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Meirihluti borgarstjórnar er metnaðarfullur þegar kemur að þjónustu við fólk. Þess vegna er verið að endurhanna þjónustuna á forsendum notandans. Tilbúnar lausnir eru keyptar þar sem það er hagkvæmt. Verkefnum er ýmist útvistað eða unnin innanhús byggt á því hvað er hagkvæmt fyrir útsvarsgreiðendur Reykjavíkurborgar og byggt á því hvaða þekking er til staðar innan kerfis. Öll stór fyrirtæki og stofnanir sem veita mikilvæga þjónustu og taka sig alvarlega eru að vinna að stafrænni umbreytingu. Einfaldlega vegna þess að nútíminn krefst þess í takt við væntingar íbúa. Þessi fjárfesting kostar en sparar gríðarmikið til lengri tíma. Talið er að hagræðið af þessari stafrænu umbreytingu muni skapast á þremur til fimm árum eða jafnvel hraðar. Verkefni sem hefur verið lokið sýna mikinn ábata.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins biðlar aftur til meirihlutans um að sýna hér ábyrgð, viðhafa gagnrýna hugsun og almenna heilbrigða skynsemi. Meirihlutanum sem völdin hafa er skylt að gæta þess ávallt að farið sé vel með fjármuni borgarinnar og gæta að hagræðingu og hagkvæmni. Standa þarf einnig vörð um störfin, ekki síst á þeim erfiðu tímum sem nú ríkja vegna kórónuveirufaraldursins. Minnt er á stöðu mála á biðlistum borgarinnar í hina ýmsu þjónustu. Á velferðarsviði og skóla- og frístundasviði vantar sárlega fjármagn. Rík ástæða er því að horfa í hverja krónu og finna ávallt hagkvæmustu leiðirnar að markmiðunum. Hér er um gríðarlega fjármuni að ræða.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir undir 9. og 10. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs frá 23. mars og 7. og 8. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs 13. apríl:

Liður 9. og 10. í fundargerð 23. mars: Tillögur Flokks fólksins um hagsmuni barna af erlendum uppruna í leik- og grunnskóla voru felldar í skóla- og frístundaráði. Sláandi er hversu mörg þessara barna, sem hafa alist upp í Reykjavík eru illa stödd í íslensku. Skortur er á fjölbreyttari bjargráðum fyrir tvítyngd börn. Fulltrúi Flokks fólksins hefur einnig gagnrýnt vöntun á samræmdum árangursmælingum í sérkennslu og öðrum úrræðum. Liðir 7. og 8. í fundargerð 13. apríl: Fulltrúi Flokks fólksins lagði til breytingar á niðurgreiðslum vegna þjónustu við dagforeldra. Ekki gengur upp að fólki sé refsað fyrir hvenær árs þau eignast börn og þurfi að greiða meira vegna dagvistunar barna því þau komast ekki í leikskóla. Tekið er undir með áheyrnarfulltrúa foreldra leikskólabarna að fagna beri endurskoðun gjaldskrár. Hvatt er til samræmingar skólastiga í gjaldtöku og að forráðafólk beri ekki aukinn kostnað þegar skortur er á leikskólaplássum. Einnig var tillaga að gjald skólamáltíða í leik- og grunnskólum verði lækkað hjá þeim verst settu felld með þeim rökum að „lækkun á gjaldi kæmi niður á gæðum máltíða.“ Fulltrúi Flokks fólksins er ósammála. Lækkun gjalds þýðir vissulega að hækka þarf framlag til sviðsins en ekki að dregið verði úr gæðum máltíða. Skárra væri það nú.

Borgarstjórn 20. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 4. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á auglýsingu á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi stefnu um íbúðabyggð og tengsl húsnæðisuppbyggingar og fyrirhugaðrar borgarlínu:

Af mörgu er að taka í þessum gögnum enda málið viðamikið. Fulltrúi Flokks fólksins vill fókusera á fyrirhugaðan 3. áfanga Arnarnesvegar. Erindi Vegagerðarinnar um að fá framkvæmdaleyfi strax var ákveðið áfall því þegar framkvæmdir eru hafnar er ekki aftur snúið. Fara á í verkútboð áður en heildarmyndin er skoðuð og áhrifin sem framkvæmdin veldur ekki fullljós. Margsinnis hefur verið beðið um nýtt umhverfismat á Vatnsendahvarfinu. Greinilega er mikill þrýstingur frá Kópavogi að fá þennan veg. Ef úrskurður skipulagsnefndar er sá að ekki sé þörf á nýju umhverfismati bíða kærur, enda 18 ár liðin frá síðasta mati. Í aðalskipulagi er stefna um einstök ný gatnamót oft sett fram með fyrirvara um niðurstöðu umhverfismats. Það gæti átt við um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar. Ef niðurstaða Skipulagsstofnunar er sú að fara þurfi fram nýtt umhverfismat, þýðir það að setja þarf fram skýran fyrirvara við umrædda hönnun. Ef hins vegar niðurstaðan verður að ekki þurfi nýtt umhverfismat er hægt að setja umrædda tillögu um gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar fram án fyrirvara (samkvæmt upplýsingum sem fulltrúi Flokks fólksins hefur aflað). Í bréfi Vegagerðarinnar er ekki minnst á neina fyrirvara, greinilega í trausti þess að eldra umhverfismatið gildi. Greinilega er ekki reiknað með nýju umhverfismati.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 5. febrúar 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 3. febrúar 2021 á tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 varðandi sértæk búsetuúrræði og landnotkun:

Ein af aðaláherslum Flokks fólksins er að berjast fyrir því að allir hafi öruggt húsaskjól. Skylda samfélagsins er að sjá til þess að allir hafi þak yfir höfuð sitt, stað sem þeir geta kallað heimili sitt. Heimili er ekki einungis skjól fyrir kulda og vosbúð. Tengslin við heimilið eru líka háð því að viðkomandi finni að hann er velkominn í hverfið. Reynslan sýnir að oft getur reynst erfitt að skapa sátt um staðsetningu mismunandi búsetuúrræða innan gróinna hverfa, einkum vegna andmæla íbúasamfélagsins en einnig vegna þess að land eða hentugt húsnæði liggur ekki á lausu. Þörf er á að skilgreina svæði sem hægt er að setja upp skammtímahúsnæði og skýra betur heimildir um mögulega staðsetningu þessara húsnæðislausna (sértæk búsetuúrræði) innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins. Sveigjanleiki þarf að vera til að koma fyrir fjölbreyttum húsnæðisúrræðum eftir því sem þörf krefur. Við staðarval húsnæðis af þessu tagi þarf að hafa í huga sérþarfir þeirra sem þar eiga að búa en markmiðið er þeir geti notið sömu umhverfisgæða og nærþjónustu og þeir sem búa í hefðbundnu íbúðarhúsnæði innan hefðbundinnar íbúðarbyggðar. Fyrsti kostur í staðsetningu þessara úrræða hlýtur að verða að vera innan íbúðarhverfa eða blandaðrar byggðar til að geta verið nálægt þjónustu og almenningssamgöngum.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 9. febrúar 2021, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili framlengingu lóðarvilyrðis vegna Veðurstofuhæðar:

Fulltrúi Flokks fólksins er ávallt skeptískur þegar meirihlutinn ræðir um „hagkvæmt húsnæði“. Sennilega hefur aldrei verið eins mikið til af litlum íbúðum á óhagkvæmu verði en á góðum og eftirsóttum stöðum í borginni. Þessar litlu íbúðir eru á uppsprengdu verði, sennilega aðeins vegna staðsetningu þeirra. Vissulega er markaður fyrir litlar íbúðir og hefur hann farið vaxandi sem er vel. Vandinn er að þær eru hlutfallslega dýrar eignir og því ekki á færi efnalítils fólks að kaupa. Mörgum fylgir auk þess ekki bílastæði. Fulltrúi Flokks fólksins styður fjölbreytni m.a. í hverfum og vill að þörfum allra verði mætt sem best. Ef allt er eðlilegt eru smærri íbúðir ódýrari en stærri íbúðir. Hér er verið að tala um að minnstu íbúðirnar eru ekki mikið stærri en 35 fermetrar sem geta kostað allt að 30 milljónir á dýrustu stöðunum. Hér er því varla verið að höfða til fólks sem hefur lítið fé milli handanna. Nú eru um 900 manns á biðlista eftir félagslegu húsnæði.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð samþykki að hefja samstarf við Betri samgöngur ohf. um þróun skipulags á Keldnalandi, sbr. hjálagt erindi frá Betri samgöngum ohf., dags. 29. janúar 2021, ásamt svarbréfi borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021.

Keldnalandið er sennilega það óbyggða svæði í borginni þar sem mestir möguleikar eru á að búa til gott hverfi. Samningur við ríkið um að öll sala byggingarreita renni í samgöngur er gott veganesti. Flokkur fólksins telur að svæðið eigi að mestu að vera íbúðarsvæði og að atvinnuhúsnæði verði ætlað litlum fyrirtækjum sem þó geta verið mannmörg. Það er tímabært, þótt fyrr hefði verið, að huga nú þegar að uppbyggingunni, með tilliti til samgangna og hvernig íbúasamsetning á að vera. Flokkur fólksins mælir með því að sérstaklega verið reynt að skipuleggja svæðið þannig að aldurshópar blandist saman, stærð íbúða verði mismunandi, allt frá litlum íbúðum til einbýlishúsa, að uppbygging stuðli að félagslegri blöndun og að góður hluti af húsnæði sem þarna verði byggt verði hagkvæmt.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, um framlengingu á tímabundnum breytingum á innheimtureglum Reykjavíkurborgar:

Í þessum viðauka er m.a. verið að leggja til kjarabætur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla vegna áhrifa kjarasamningshækkana á greiðslur til sjálfstætt starfandi tónlistarskóla. Fulltrúi Flokks fólksins styður það vissulega en vill að sama skapi koma því að að tónlistarskólar eru aðeins fyrir börn efnameiri foreldra vegna þess að tónlistarnám í einkareknum tónlistarskólum er dýrt. Börnin eiga að hafa sömu tækifæri til að stunda tónlistarnám og á borgin að reyna að gera allt til að svo megi verða. Í nýlegri skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík var ekki fjallað um uppbyggingu tónlistarkennslu í grunnskólum og því voru ekki skoðaðar samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms. Ójöfnuðurinn mun því halda áfram. Ef horft er til skólahljómsveita þá gætu þær, væru þær í öllum hverfum, verið mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Í skólahljómsveit fengju börnin tækifæri til að læra á hin ýmsu hljóðfæri. Með því er dregið úr mismunun á grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifærum til að velja sér hljóðfæri til að læra á. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram slíka tillögu um skólahljómsveitir í öll hverfi fyrir einu og hálfu ári en hefur ekki fengið nein viðbrögð.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra að borgarráð samþykki hjálagða beiðni Félagsbústaða um einfalda ábyrgð Reykjavíkurborgar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021, dags. 29. janúar 2021:

Enn á ný biður stjórn Félagsbústaða um einfalda ábyrgð borgarinnar vegna útgáfu skuldabréfa Félagsbústaða 2021. Þetta er endurtekið efni hvert ár og stundum tvisvar á ári. Endurfjármögnun félagsins er frekar ruglingsleg. Skuldir eru komnar yfir 50 ma.kr. Félagsbústaðir og rekstrarform þeirra er vissulega ekki hafið yfir gagnrýni frekar en nokkuð annað. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af hvað þetta fyrirtæki er gríðarlega skuldsett orðið. Ástand sumra íbúða sem fólki er boðið að leigja er slæmt og enn berast þær fréttir að erfitt sé að fá viðgerðir og jafnvel hlustun á vandanum frá yfirstjórn Félagsbústaða. Spurning er hvort hægt er að setja meira fé í viðhald þar sem verið er að taka stór lán til að tryggja að öllum líði vel í leiguíbúðum hjá Félagsbústöðum. Í kuldatímanum sem nú hefur staðið yfir hefur ekki verið nægjanlegur hiti hjá öllum leigjendum og skortur hefur verið á heitu vatni. Víða eru ofnar allt of litlir.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Um er að ræða endurfjármögnun upp á 4,1 ma.kr. og lántöku vegna fjárfestinga fyrir 3,9 ma.kr. Hlutverk Félagsbústaða er að kaupa og reka íbúðir fyrir tekjulágt fólk í Reykjavík. Uppbygging íbúða og kaup Félagsbústaða á félagslegum íbúðum hefur verið gríðarleg á undanförnum árum og kallað á auknar lántökur líkt og venja er við fasteignakaup. Á árunum 2014-2020 fjölgaði íbúðum í eignasafni Félagsbústaða um 637. Athygli vekur að fulltrúar minnihlutans virðast bæði gagnrýna lántökur til kaupa á félagslegum íbúðum en á sama tíma vilja lækka leigu á íbúðunum, stórauka viðhald á þeim, útrýma biðlistum eftir félagslegu húsnæði og hækka húsnæðisbætur til muna.

 

Gagnbókun Flokks fólksins við bókun meirihlutans um ábyrgð á láni Félagsbústaða:

Ef Félagsbústaðir ætla að leiga íbúðir til fólks hljóta þær að þurfa að vera í lagi. Það er ekkert vit í að kaupa og kaupa íbúðir, rukka háa leigu en bjóða síðan fólki upp á íbúðir sem leka, eru myglaðar eða næst ekki að kynda á vetrardögum.

Bókun Flokks fólksins við tillaga borgarstjóra, dags. 9. febrúar 2021, ásamt fylgiskjölum er varðar húsnæðisstuðning:

Lagt er til að borgarráð staðfesti samþykkt velferðarráðs frá 20. janúar um hækkun tekju- og eignaviðmiða vegna sérstaks húsnæðisstuðnings í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir í leiðbeiningum félags- og barnamálaráðherra til sveitarfélaga 21. desember 2020 en í tillögunni felst að tekjumörk hækka um 3,6% og eignamörk um 7,23%. Jafnframt er lagt til að borgarráð hækki fyrrgreind tekjumörk um 8% umfram tekjumörk í leiðbeiningum til sveitarfélaga vegna sérstaks húsnæðisstuðnings til jafns við hækkun ríkisins á frítekjumarki vegna almennra húsnæðisbóta til að ekki komi til skerðinga hjá þeim sem jafnframt eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi. Heildarhækkun tekjumarka verður 11,9% eftir breytingu eða frá og með 1. janúar 2021. Kostnaður vegna umframhækkunar tekju- og eignaviðmiða er áætlaður um 50 m.kr. og er fjármála- og áhættustýringarsviði falið að útfæra viðauka við fjárhagsáætlun 2021 vegna þessa.

Samþykkt.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Sérstakar húsnæðisbætur skipta sköpum fyrir þá sem minnst hafa á milli handanna og búa í leiguhúsnæði. Reglur Reykjavíkurborgar um viðmið fjárhæða fyrir sérstakan húsnæðisstuðning hafa almennt tekið mið af leiðbeiningum félagsmálaráðuneytisins fyrir sveitarfélög. Í ljósi aðstæðna er hér tekin ákvörðun um að rýmka þau viðmið sem stuðst er við þannig að fleiri tekjulágir Reykvíkingar fái sérstakan húsnæðisstuðning á þessu ári. Þær 50 milljónir sem ráðstafað er hér eru því að fara beint til þess hóps sem minnst hefur á milli handanna og því mikilvæg jöfnunaraðgerð.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Að hækka sérstakan húsnæðisstuðning upp að því marki að grunnlífeyrir öryrkja hjá TR verði ekki skertur myndi kosta aðeins um 40-50 m.kr. á ári. Það var gerður samanburður á því að hækka samkvæmt tillögu velferðasviðs og svo að hækka enn frekar. Á árinu 2021 var framfærsluviðmið lífeyrisþega almannatrygginga hjá einstaklingi sem býr einn og er með fullar bætur hækkað úr 345.732 kr. á mánuði í 366.178 kr. Hækkunin felur í sér að tekjur af útsvari hækka um 2.850 kr. á mánuði. Til að koma í veg fyrir skerðingu sérstaks húsnæðisstuðnings hjá þessum hópi þarf að hækka tekjuviðmið sérstaks húsnæðisstuðnings um 9,3% að lágmarki eða 5,5% umfram leiðbeiningar félagsmálaráðuneytis. Niðurstaðan var: Kostnaðarmat vegna hækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings um 3,6% og eignamarka um 7,23% (hópur A) er áætlaður 49,6 m.kr. og rúmast innan fjárhagsáætlunar. En samkvæmt fjárhagsmati myndi viðbótarkostnaður vegna hækkunar tekjumarka sérstaks húsnæðisstuðnings í hópi B verða 45-50 m.kr. á ári umfram hóp A en hærri tekjuviðmið húsnæðisbóta hafa lítil sem engin áhrif á kostnað Reykjavíkurborgar en öryrkjar og tekjulægri hópar njóta góðs af. Miðað við niðurstöðu greiningarinnar þá eru allir kostir fyrir því að auka frekar tekjumörkin til að draga úr skerðingum gagnvart öryrkjum.

 

Bókun Flokks fólksins við greinargerð starfshóps um Sundabraut, dags. í janúar 2021:

Kynnt hefur verið skýrsla starfshóps Vegagerðarinnar um kosti Sundabrautar. Þar er mælt með að byggð verði brú frekar en göng, enda sé það mun ódýrari kostur. Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir það að Sundabraut þarf að vera hluti af samgöngukerfi borgarinnar og að gangandi og hjólandi geti notað hana. Ef vel tekst til með hönnun brúa sem byggja þarf getur Sundabraut með glæsilegum brúarmannvirkjum orðið prýði í borginni.


Bókun Flokks fólksins við fundarger aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 4. febrúar 2021 undir 6. lið fundargerðarinnar:

Í lið 6 í fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks er lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs við fyrirspurn Öryrkjabandalags Íslands um merkingar við göngugötur. Málinu er frestað á fundinum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað kallað eftir að gengið verði í að merkja göngugötur þannig að skýrt sé öllum að heimilt er í lögum að fatlaður einstaklingur hefur rétt til að aka á göngugötu og leggja í sérmerkt stæði. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur hefur orðið fyrir aðkasti þegar hann ekur þessar götur sem hann hefur fulla heimild til þar sem fólk hefur ekki verið upplýst um lagaheimildina og merkingar skortir. Í þeim svörum sem hafa borist við fyrirspurnum Flokks fólksins um þessi mál má finna ýmsar afsakanir. Skipulagsyfirvöld hafa jafnvel borið fyrir sig að svona umferðarskilti séu ekki til en það er, að mati Flokks fólksins, aðeins fyrirsláttur. Ekki liggur fyrir hvenær og með hvaða hætti merkingar og upplýsingar um þessi réttindi verði sett upp og fram. Fulltrúi Flokks fólksins vill hér með ýta við því máli og óskað er eftir að gengið verði í það hið fyrsta. Ef eitthvað er að í skipulagi sem skapar hættur eða óþægindi fyrir vegfarendur þarf að laga það.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 1. febrúar 2021 undir 2. lið fundargerðarinnar:

Bókun við 2. lið í fundargerð íbúaráðs Breiðholts, kynning á tómstundastarfi í Breiðholti og samtal forsvarsmanna tómstundastarfs við íbúaráð Breiðholts. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessari bókun nefna að ekki stendur öllum börnum í Breiðholti til boða að læra á það hljóðfæri sem þau óska. Tónlistarnám barna í tónlistarskólum er háð efnahag foreldra þeirra því námið er dýrt. Fulltrúa Flokks fólksins er annt um að börn hafi jöfn tækifæri til tónlistarnáms. Í tvígang hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt til að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum hverfum borgarinnar sem eru 10, en hljómsveitir eru aðeins í 4 hverfum, til að geta boðið börnum að læra að spila á þau hljóðfæri sem þau óska. Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær að einhverju leyti mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á kennslu nema á einstaka hljóðfæri þá mun áfram ríkja ójöfnuður á þessu sviði nema eitthvað annað og meira komi til. Tónlistarnám í einkareknum skólum er aðeins fyrir börn efnameiri foreldra. Finna þarf leiðir til að auka jöfnuð og er það á ábyrgð borgarinnar að gera allt sem hægt er til að börn geta setið við sama borð í þessu sem öðru.


Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 10. febrúar 2021 undir 1. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins leggur til að hætt verði alfarið við landfyllingar í borginni þegar á að gera eitthvað á ströndinni. Hér á eftir eru dæmi úr umsögnum sem sýna að fjölmargir eru á sama máli: „Fjaran er hvorki einkamál né einkaeign okkar mannanna, heldur er hún er búsvæði dýra um aldur og ævi.“ „Að mati Náttúrufræðistofnunar er það ekki ásættanlegt að landfylling í Skerjafirði sé eini valkosturinn fyrir þéttingu byggðar eða losun á efni. Það er því mat Náttúrufræðistofnunar að vel megi þétta byggð þó ekki sé um leið gengið enn frekar á fjörur og lífríki þeirra í Reykjavík. Ef markmið um þéttingu byggðar, Nýja Skerjafjarðar, er eyðilegging núverandi Skerjafjarðar þá þarf að hugsa skipulagmál á svæðinu upp á nýtt. Að mati Náttúrufræðistofnunar er landfylling vestan við flugvöllinn óþörf með öllu þegar og ef flugvöllurinn verður lagður niður.“ „Umhverfisstofnun gerir verulegar athugasemdir við áformaða landfyllingu. Raska á sem minnst náttúrulegri strandlengju. Minnt er á að Skerjafjörður er skilgreint sem alþjóðlega mikilvægt fuglasvæði.“ Umhverfisskýrslan: Hugtakið líffræðileg fjölbreytni er misnotað í skýrslunni. Líf í einstökum beðum eða „grænum trefli“ hefur ekkert með líffræðilega fjölbreytni að gera. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr áhrifum af stórfelldum landfyllingum við ósa Elliðaánna.

 

Bókun Flokks fólksins við yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði undir 3. lið yfirlitsins:

Varðandi tillögu fulltrúa Félags eldri borgara um heilsueflingu aldraðra. Þetta er málefni sem varðar okkur öll og tengist tillaga Flokks fólksins um sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir fólk á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum til að fyrirbyggja eða draga úr notkun geðlyfja þessari umræðu beint. Tillögunni var vísað til velferðarráðs til frekari skoðunar. Staðan í dag er sú að ekkert sálfélagslegt úrræði er fyrir íbúa á reykvískum hjúkrunarheimilum og þeim sem búa heima stendur ekki slíkt til boða heldur. Gripið er til geðlyfja þegar ekkert annað úrræði býðst, oft án þess að greining liggi fyrir. Aldraðir eru viðkvæmari fyrir aukaverkunum geðlyfja ef þeir eru samtímis að taka önnur lyf. Ótal ástæður verða til þess að andlegri heilsu getur hrakað með hækkandi aldri. Félagsleg hlutverk breytast og geta til athafna daglegs lífs minnkar. Tímabært er að velferðaryfirvöld borgarinnar stofni með formlegum hætti sitt eigið úrræði byggt á skipulagðri samtalsmeðferð með það að markmiði að hjálpa eldri borgurum að auka andlegan styrk og fá það mesta út úr lífinu. Farsóttin hefur þess utan bitnað illa á eldri borgunum sem hafa einangrast enn frekar. Hvað sem tæknilausnum líður þá geta þær ekki komið í staðinn fyrir tengsl fólks þegar það talar saman, maður við mann.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kanni hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kanni hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Allt frá því fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa bæði stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Það skiptir miklu máli að tryggja gæði jafnréttisfræðslu og að börn sitji við sama borð þegar kemur að jafnréttisfræðslu, þ.e. að það sé ekki mikið misræmi á slíkri fræðslu milli skóla/hverfa. Undanfarið hefur komið fram sú skoðun hjá börnum og ungmennum að þau vilja meiri jafnréttisfræðslu. Þess vegna er brýnt að kortleggja fræðsluna og hvernig hún er lögð upp í skólunum. Einnig er þörf á að athuga stöðu jafnréttisfræðslu með tilliti til óska nemenda um frekari jafnréttisfræðslu og hvort tilefni sé til að gera breytingar til úrbóta almennt eða í einstökum skólum.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillögunni um að gerð verði fagleg úttekt á jafnréttisfræðslu í skólum Reykjavíkur og kannað hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd hefur verið vísað frá og sagt að sambærileg tillaga Flokks fólksins liggi fyrir í mannréttinda-, nýsköpunar og lýðræðisráði. Það sem þessi tillaga hefur umfram þá tillögu er að lagt er til að kannað verði hvort og þá að hvað miklu leyti jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum borgarinnar er samræmd. Fulltrúi Flokks fólksins mun því leggja fram aftur þessa tillögu enda mikilvægt að skoða samræmingu á jafnréttisfræðslu í skólum.

 

 

Borgarráð 11. febrúar 2021

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar 2021, um hækkun á tekju- og eignaviðmiðum sérstaks húsnæðisstuðnings:

Þessi hækkun minnkar aðeins líkur á skerðingum sem er gott.  Tekjumörkin eru hækkuð um 3,6%. Fleiri aðgerða er þörf til að koma til móts við neyð fátæks fólks, ekki síst vegna COVID. Búið er að klípa af þessu fólki nóg. Eignamörkin eru hækkuð um ríflega 7%. Réttast væri að hækka tekjumörkin um sömu prósentu. Hér er aðeins verið að fylgja lágmarkinu, þ.e. tekju- og eignamörkin eru í lágmarki miðað við leiðbeiningar ráðuneytisins. Er ekki tilefni til að gera aðeins meira en lágmarksbreytingar í ljósi efnahagsástandsins? Í desember lagði Flokkur fólksins fram tillögu um bráðabirgðaákvæði í reglugerð um húsnæðisstuðning þess efnis að eingreiðslur vegna desemberuppbótar til örorku- og ellilífeyrisþega myndu ekki leiða til skerðinga. Margir fengu að upplifa afleiðingar slíkra skerðinga þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra. Það er nauðsynlegt að gera breytingar á reglugerðum borgarinnar til að tryggja að sértækar aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja leiði ekki til óvæntra skerðinga hjá fátæku fólki sem hefur ekkert fjárhagslegt svigrúm.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, sbr. 12. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. febrúar 2020 um endurskoðun á gjaldskrá ferðaþjónustu fatlaðra, ásamt umsögn frá Strætó, dags. 3. desember 2020. Málinu er frestað.

Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg endurskoði gjaldskrá fyrir ferðaþjónustu fatlaðra með það að markmiði að fólk geti keypt árskort fyrir aðgang að ferðaþjónustu fatlaðra og þarf þá ekki að greiða fyrir hverja ferð.
Árskort fyrir ferðaþjónustu fatlaðra gildi þá einnig til að ferðast með Strætó bs. á höfuðborgarsvæðinu. Tillögunni er frestað sem vísar vonandi á gott. Ferðaþjónusta fatlaðra er á vegum Reykjavíkur, ekki Strætó og því gilda ólíkar verðskrár. Vegna þess gildir árskort fyrir öryrkja aðeins í strætó en ekki fyrir ferðaþjónustu fatlaðra, sem þó er á vegum Strætó bs. Í svari kemur fram að stjórnin telji ekki tímabært að hægt sé að nota kort sem gildir sem greiðsla á milli þessara aðskildu verkefna. Akstursþjónusta fatlaðra er hugsuð sem ígildi almenningssamgangna og á að fylgja þjónustutíma og gjaldskrá Strætó. Margir notendur gætu notað strætó við ákveðnar aðstæður. Sameina ætti kerfin eins og hægt er. Mismunun felst í að greiða þarf fyrir hverja ferð á meðan notendur strætó geta keypt afsláttarkort. Ef notendur akstursþjónustunnar kjósa að taka strætó inn á milli verða þeir því í flestum tilfellum að kaupa sér staka miða á óhagstæðu verði. Því er mikilvægt að þeim bjóðist afsláttarkort sem gildi bæði fyrir aksturþjónustuna og í strætó.

Frestað

Bókun Flokks fólksins við við  kynning um styttingu vinnuvikunnar og áhrif á velferðarsvið:

Tillagan að breyttri vinnutilhögun mátti ekki fela í sér aukinn kostnað eða skerðingu á þjónustu eins og meirihlutinn lagði hana upp. Það er ámælisvert að fullnægjandi fjármagn skuli ekki fylgja styttingu vinnuvikunnar þar sem líklegt er að álag verði eitthvað meira á starfsfólk jafnvel þótt reynt verði að finna leiðir til að finna betri nýtingu á vinnutíma. Það er svolítið talað eins og nýting vinnutímans hafi ekki áður verið góð. Þó er vitað að mikið álag hefur verið á starfsfólkinu.  Þessi meirihluti hefur oft talað um að vilja ekki ofgera starfsfólki og því hefði verið eðlilegt að láta fylgja með verkefninu eitthvað fjármagn. Stytting vinnuvikunnar er kjarabót og því mikilvægt að afleiðan verði ekki neikvæð. Flokkur fólksins hefur lagt til að áhrifin verði skoðuð áfram þótt tilraunaverkefnið hafi gengið vel. Eftir þessu hefur lengi verið beðið en ekki var reiknað með að styttingin mætti ekki kosta neitt. Það er ekki hægt að stóla á og vonast til að foreldrar sæki börn sín fyrr enda er stytting á vinnuviku ekki alls staðar og þar sem hún er, er útfærslan ólík milli stétta og stofnana.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á tilkynningarhnappi vegna barna í Reykjavík:

Í kjölfar COVID-19 hefur komið í ljós að tilkynningum til barnaverndarnefnda hefur fjölgað og hafa aldrei verið fleiri en 2020. Um er að ræða aukningu tilkynninga þar sem börn eru beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili sínu. Af þessu hljótum við öll að hafa miklar áhyggjur. Börnin sjálf eru oft ekki að ræða um þessi erfiðu mál út á við. Barn í aðstæðum sem þessum verður að vita að það er leið út. Tilkynningarhnappur ætlaður þeim sérstaklega gæti skipt sköpum, „hnappur sem kallar á börnin“. Fulltrúa Flokks fólksins var sagt að slíkur hnappur, ætlaður börnum væri nú þegar á heimasíðu borgarinnar. Einhver áhöld eru víst um það. Alla vega er nú til fordæmi fyrir hnappi á heimasíðu annarra sveitarfélaga sem er fyrir börnin sjálf. Slíkur hnappur þarf auðvitað fyrst að vera til í Reykjavík áður en hægt er að byrja að kynna hann börnum. Í þeirri trú að síkur hnappur væri til, hnappur sem kallar á börn sérstaklega, lagði fulltrúi Flokks fólksins það til að átak verði gert í að kynna hann börnum. Sú tillaga liggur fyrir þessum sama fundi og hefur verið vísað til Barnaverndarnefndar.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 10. lið fundargerðar velferðarráðs þann 16. desember 2020 um átak í að kynna tilkynningarhnapp ætlaðan börnum í Reykjavík:

Tillaga Flokks fólksins um að átak verði gert í að auglýsa sérstakan tilkynningarhnapp ætlaðan börnum ef þeim finnst eitthvað að hjá sér, heima hjá sér eða hjá vinum sínum hefur verið vísað til Barnaverndarnefndar. Tillagan var lögð fram í þeirri trú að slíkur hnappur væri nú þegar  á vef Reykjavíkurborgar en þyrfti betri og fjölbreyttari kynningu. Hvort slíkur hnappur er yfir höfuð í notkun hjá borginni leikur nú einhver vafi á samkvæmt kynningu frá Barnaverndarnefnd. Góð reynsla er af svona „barnahnappi“ á Akureyri. Tilkynningum um aukið ofbeldi gagnvart börnum hefur fjölgað með komu COVID-19. Fáein dæmi eru um að börn tilkynni sín eigin mál. Mikilvægt er að finna skýra leið  fyrir þau að tilkynna sín eigin mál. Börn verða að vita að það er leið út. Tilkynningahnappur sérhannaður fyrir börn gæti skipt þar sköpum. Sé slíkur hnappur ekki nú þegar á leið á vef borgarinnar þarf að drífa í því og í framhaldi kynna hann rækilega. Þess er vænst að þessi tillaga virki sem hvatning í því sambandi. Það er mikilvægt að hnappurinn sem ætlaður er fyrir börn til að tilkynna mál sín höfði til þeirra, viðmótið sé barnvinsamlegt, kalli á börnin ef svo má að orði komast og sé á nokkrum tungumálum.
 

Bókun Flokks fólksins við kynningu á nemendaverkefni um kynjaða fjárhagsáætlunargerð á velferðarsviði:

Það er vont til þess að vita að konur fái minni þjónustu en karlar eins og fram kemur í niðurstöðum greiningar nemendanna sem hér er lögð fram. Fram kemur að konur lýsi meiri þörfum en eru metnar með minni þörf en karlar. Þetta er kynslóð kvenna sem tilheyrir hópi aldraðra í dag sem upplifðu mikið vinnuálag í sínu lífi fyrir minni umbun en karlar eins og segir í skýrslunni. Í lokaorðum segir að vinnubrögð Reykjavíkurborgar og forsætisráðuneytis hvað varðar kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og segir að „óskandi sé að fleiri sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðafræði.
Hér vill fulltrúi Flokks fólksins staldra við og spyr hvað nákvæmlega taka á til fyrirmyndar? Hvernig eru kynjuð fjármál borgarinnar að bæta þennan mismun, í verki? Ekki bara að efnið sé til fyrirmyndar. Hér er spurt um aðgerðir en ekki orð á blaði, stefnur sem eru örugglega fínar. Er verið að bæta konum þennan mismun með fjárhagslegum hætti? Er meiri dreifing á fjármagni til kvenna en karla í þessu samhengi? Vissulega er áætlun og stefna til alls fyrst. Síðan koma framkvæmdir og aðgerðir. Fulltrúi Flokks fólksins vildi gjarnan sjá lista yfir aðgerðir,  áþreifanleg verkefni og fjárfestingar sem ætlaðar eru til að jafna rétt kynjanna.

Bókun Flokks fólksins við tillögur  Velferðarvaktarinnar til ríkis og sveitarfélaga í mótvægisaðgerðum vegna COVID-19:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir allar tillögur Velferðarvaktarinnar.  Stóra spurningin er hvort velferðar- og skólayfirvöld ætla að taka mark á þessum tillögum en nú þegar hefur borgarstjórn hent út nokkrum þeirra með því að vísa frá eða fella. Ein af tillögum Velferðarvaktarinnar er að tryggja ókeypis skólamáltíðir. Skemmst er að minnast tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir, lögð fram í tvígang en sem var hafnað jafn oft. Eða tillaga um fjölgun sálfræðinga til að stytta biðlista skólabarna einnig lögð fram í tvígang en hafnað jafn oft. Meðal tillagna Velferðarvaktarinnar var að unnið verði að stefnumótun og aðgerðaáætlun gegn fátækt efnalítilla barnafjölskyldna, þ.e. afleiðingar faraldursins verði sem minnstar á börn og ungmenni. Staðreyndin er að fátækt fólk í borginni er stækkandi hópur. Flokkur fólksins tekur undir tillögur Velferðarvaktarinnar að bæta þurfi aðgengi fólks að upplýsingagjöf um réttindi þeirra í velferðarþjónustu en upplýsingagjöf er ábótavant eins og sjá má í nýföllnum úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í máli fatlaðs ungs manns sem beðið hefur árum saman á biðlista eftir húsnæði og sem sagt hefur verið lengi að hann sé efstur á lista þótt ítrekað séu aðrir teknir fram fyrir hann.

 

Bókun Flokks fólksins við við stöðuskýrslu teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19:

Lögð er fram enn ein stöðuskýrsla teymis um uppbyggingu félags- og atvinnumála í kjölfar COVID-19. Þetta er fínasta skýrsla og ljóst er að margt gott er í gangi. Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá hvað stærsta sveitarfélagið, Reykjavík er rýrt í skýrslunni. „Reykjavík“ kemur aðeins fyrir einu sinn. Kannski væri nær að Reykjavík hefði sína eigin stöðuskýrslu um hvað hún hefur gert í uppbyggingarferli í kjölfar COVID -19 og hvað hún hefur ekki gert. Reykjavíkurborg hefur mætt veiruvandanum með margvíslegum hætti og ber því að fagna. Mótvægisaðgerðir hafa verið nokkrar og vissulega má deila um hvort sumar þeirra hefðu átt að ganga lengra. Það sem hún hefur ekki gert er að taka á biðlistavanda barna eftir þjónustu fagfólks í skólum. Sá listi bara lengist og er nú í sögulegu hámarki.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 25. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála:

Kjarni málsins er þessi: fatlað fólk er á ábyrgð borgarinnar! Ábyrgð foreldra rennur út þegar barn verður fullorðið þ.e. 18 ára. Borgin biður foreldra ekki góðfúslega að taka að sér þjónustu við fatlaðan einstakling í sjálfboðavinnu. Það er upplifun fulltrúa Flokks fólksins að borgin lætur sem ábyrgðin sé foreldra, biðlistar séu lögmál og verið sé að gera stórkostleg góðverk þegar mál eru plástruð. Það er ekki ofsögum sagt að borgarmeirihlutinn til margra ára hefur brugðist ábyrgð sinni og skyldum gagnart fötluðum. Umsækjendur bíða í mörg ár eftir húsnæði. Hér er um lögbundnar skyldur að ræða. Upplýsingagjöf er jafnframt ábótavant. Ef fólk er ekki sífellt að hringja og djöflast í þessu kerfi er ekkert að frétta. Umsækjendum hefur verið sagt að þeir séu efstir á lista en næsta sem fréttist er að þeir eru það ekki. Aðrir teknir fram yfir. Þessi leikur er leikinn ítrekað. Hvernig halda velferðaryfirvöld borgarinnar að svona skilaboð fari með fólk sem lifað hefur í óvissu um búsetu árum saman?

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 20. janúar, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 23. lið fundargerðar velferðarráðs þann 18. nóvember, um aukna næringu í máltíðum til eldri borgara:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig velferðarsvið er að bregðast við kröfu um aukna næringu til eldri borgara en margir hafa verið innilokaðir vegna COVID. Hvorki eru sendir næringardrykkir né fær fólk mikið val. Í svari kemur fram að óháður  aðili vinnur nú úr niðurstöðum á úttekt á næringarinnihaldi heimsends matar á velferðarsviði. Fulltrúi Flokks fólksins fékk upplýsingar hjá aðila sem býr heima að hann hafi ekki fengið neinn spurningarlista þótt könnunin hafi verið í nóvember. Fá eldri borgarar í heimahúsi ekki að taka þátt? Það er nauðsynlegt að endurskoða næringargildið í mat ætluðum eldri borgurum. Mikið er um súpur, grauta og búðinga. Stundum má segja að það vanti natni við eldamennskuna eins og að krydda með lauk eða lárviðalaufi.  Þessi kynslóð sem býr heima eða er á dvalarheimilum hefur alist upp við íslenskan heimilismat, ekki nýtísku mat, sem á rætur að rekja til vegan. Í gamla daga voru kartöflur undirstaða matar, en í dag er það óþarfi að hlaða matinn með kartöflum, eða öðrum kolvetnaríkum afurðum, allt of mikið kolvetni fyrir fólk sem hreyfir sig lítið sem ekkert, veldur uppþembu. Ítrekað er að sendur sé  næringardrykkur með matnum og að ávöxtur fylgi með.
https://www.landlaeknir.is/heilsa-og-lidan/naering/eldra-folk/

 

Bókun Flokks fólksins við svari Félagsbústaða, dags. 8. janúar 2021, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 2. desember um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum:

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um leigu og viðhald hjá Félagsbústöðum en nokkrir leigjendur hafi komið með ábendingar um að Félagsbústaðir hafi ekki brugðist við erindum um að loftræstitúður spúi ryki og viðhaldi á glugga sem ekki var hægt að loka vegna myglu og raka. Þá eru nefnd gjöld eins og húsgjald, þjónustugjald og greiðslugjald sem innheimt eru samhliða húsaleigu og spurt um hvaða gjöld sé um að ræða og hvort þau hækki jafnt og þétt. Í svari kemur fram að ábendingar séu rýndar áður en tekin er ákvörðun um viðhald. Heilt svið, eigna og viðhaldssvið vegur og metur  þörf á framkvæmd. Við lestur svars vaknar upp sú spurning hvort boðleiðir séu of langar og of flóknar. Ef litið er til gjalda sem innheimt eru þá kennir þar ýmissa grasa. Rukkað er fyrir allt mögulegt, ofan á leigu. Auk hússjóðsgjalda sem fela í sér þrifgjöld eru seðilgjöld
Svo eru einhver önnur gjöld  innheimt fyrir velferðarsvið, gjald fyrir svona „alls konar“ gjald sem Félagsbústaðir skila til velferðarsviðs. Dæmi um slíkt gjald fyrir t.d. hjón er 17.275 pr. mánuð. Svo er það öryggishnappur pr. mánuð 1.940, en varla þurfa allir slíkan hnapp? Þetta eru engar smá upphæðir þegar allt er tekið til.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum. Þetta er lagt til í ljósi þess að  einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um. Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið.

Frestað.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvaða aðgerðir liggja fyrir af hálfu Reykjavíkurborgar til að jafna stöðu kynjanna á grundvelli kynjaðrar fjárhagsáætlunar:

Í greiningu nemanda sem lögð er fram á fundi velferðarráðs kemur fram að konur lýsi meiri þörfum en eru metnar með minni þörf en karlar. Í lokaorðum segir að vinnubrögð Reykjavíkurborgar og forsætisráðuneytis hvað varðar kynjuð fjármál séu til fyrirmyndar og segir að „óskandi sé að fleiri sveitarfélög tileinki sér „þessa aðferðarfræði.  Hér vill fulltrúi Flokks fólksins staldra við og spyr hvað nákvæmlega taka á til fyrirmyndar? Hvernig eru kynjuð fjármál borgarinnar að bæta þennan mismun, í verki? Ekki bara að efnið sé til fyrirmyndar. Hér er spurt um aðgerðir en ekki orð á blaði, stefnur sem eru örugglega fínar. Er verið að bæta konum þennan mismun með fjárhagslegum hætti?  Er meiri dreifing á fjármagni til kvenna en karla í þessu samhengi? Vissulega er áætlun og stefna til alls fyrst. Síðan koma framkvæmdir og aðgerðir. Fulltrúi Flokks fólksins vildi gjarnan sjá lista yfir aðgerðir, áþreifanleg verkefni og fjárfestingar sem ætlaðar eru til að jafna rétt kynjanna.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um af hverjum þeim hefur fækkað sem fá sérstakan húsnæðisstuðning:

Á vefsíðu lykiltalna velferðarsviðs má sjá að í október var fjöldi þeirra sem þáðu sérstakan húsnæðisstuðning 3.384 en í desember 2020 var hann 2.441. Hér munar um nærri 1000 manns. Fulltrúi Flokks fólksins óskar að fá upplýsingar um af hverju þessi gríðarlega fækkun hefur orðið á þeim sem fá sérstakan húsnæðisstuðning? Hversu margir af þeim sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi í Reykjavík hafa sótt um hann?
Ef þær upplýsingar liggja ekki fyrir, er hægt að áætla hversu margir það eru sem kunna að eiga rétt á sérstökum húnsæðisstuðningi en hafa ekki sótt um?

Velferðarráð 20. janúar 2021

Framlagðar tillögur Flokks fólksins

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, afnám hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Tillaga um að afnema hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að afnema hagræðingarkröfu 0.50% á  skóla- og frístundarsvið og velferðarsvið árið 2021 vegna slæmra afkomu þessara sviða á tímum COVID-19.

Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 235.196 þ.kr. og fjárheimildir velferðarsviðs verði hækkaðar um 142.385 þ.kr. Samanlagt felur tillagan í sér aukin útgjöld sem nemur 377.581 þ.kr. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum Ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Tillaga um hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku.

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 43.800 þ.kr. sem felur í sér að úthlutað verði sem nemur 130 þ.kr. vegna barna sem falla undir rautt og gult viðmið skv. Milli mála málkönnunarprófi. Kostnaðarauki verði fjármagnaður af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Fjármagni er sérstaklega úthlutað til skólanna vegna kennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku. Milli mála málkönnunarprófinu er ætlað að greina þörf fyrir stuðning við nám á íslensku. Niðurstöður eru flokkaðar í þrjá flokka, grænan, gulan og rauðan, og metið er að þau börn sem fá gula eða rauða niðurstöðu úr prófinu þurfi aðstoð.
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu. Báðir hópar eru illa staddir. Börn með gula niðurstöðu geta fengið rauða ári seinna.
Árið 2018 tóku málkönnunarprófið  2.294 nemendur. Rauða niðurstöðu fengu 1.997 og  gula  327. Niðurstöður fyrir 2020 liggja ekki fyrir. Um  45% af börnunum sem fengu rauða niðurstöðu 2018 eru fædd á Íslandi af erlendum foreldrum. Ef tekin eru með börnin sem fengu gula niðurstöðu er líklegt að milli 50 og 60% barnanna séu fædd á Íslandi.

Greinargerð

Tillaga sú sem hér er lögð fram gengur lengra en tillagan sem Flokkur fólksins lagði til í  borgarstjórn 3. nóvember. Þá var lagt til hækkun úthlutunar í 130 þús. kr. fyrir hvert barn með rauða niðurstöðu og að börn með gula niðurstöður fengju  hlutfall þeirrar fjárhæðar eins og skóla- og frístundasvið hafði sjálft lagt til 2019.

Sú tillaga sem hér er lögð fram gengur út frá því að úthlutað verði að lágmarki 130 þús.kr. fyrir hvert barn sem fær rauða og gula niðurstöðu á Milli mála málkönnunarprófi. Báðir þessir hópar, börn með rauða og gula niðurstöðu er illa sett í íslensku jafnvel þótt meira en helmingur þeirra sem þreyttu málkönnunarprófið séu fædd á Íslandi. Segja má að þau standa á krossgötum. Tryggja þarf með vissu að þeim fari fram en staðni ekki eða fari aftur.

Reykjavíkurborg fær ekki úthlutað úr Jöfnunarsjóði jöfnunarframlag vegna nemenda sem hafa íslensku sem annað tungumál. Ástæður eru flókin deila ríkis og borgar. Á meðan niðurstaða er ekki fengin í málið þarf Reykjavíkurborg engu að síður að sinna með fullnægjandi hætti nemendum af erlendum uppruna sem standa illa að vígi í íslensku. Börn eiga ekki að þurfa að líða fyrir deilumál milli ríkis og borgar. Hér er því um að ræða fjármagn sem verður að koma úr borgarsjóði.

Fram kom í svari borgarstjóra við óundirbúinni fyrirspurn um málið á fundi borgarstjórna 3. nóvember að til standi að undirbúa nýtt úthlutunarlíkan fyrir grunnskóla. Hér er augsýnilega um einhverja framtíðarmúsík að ræða sem skilar sér varla til barnanna næstu mánuði eða misseri. Hver dagur er dýrmætur þegar kemur að því að tileinka sér tungumálið.

Ef litið er enn lengra til baka eða til ársins 2017- 2018 var 190,7 m.kr. úthlutað til þessa verkefnis og því skipt milli skóla. Nokkur þúsund króna hækkun varð á framlagi til sérhvers barna  2018-2019 sem náði þó ekki 10 þús. krónu. Þetta er einfaldlega ekki nóg til að hægt sé að koma þessum börnum til hjálpar með íslenskuna.

Á vorönn 2018 voru töluð 63 tungumál í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Börn af erlendu bergi brotin eiga oft erfitt uppdráttar á Íslandi. Þau kunna íslenskuna ekki nógu vel og þurfa meiri aðstoð við námið heldur en íslenskir bekkjarfélagar þeirra en fá jafnvel ekki næga aðstoð vegna fjárskorts skólans.

Börnin sem hér um ræðir eru bæði börn kvótaflóttamanna og hælisleitenda. Þetta eru börn sem hafa oftast upplifað erfiða hluti í heimalandinu og leggja síðan í erfitt ferðalag til framandi lands. Það er að mörgu leyti haldið vel utan um þessi börn fyrsta árið. Þau fá þjónustu sálfræðinga og heilbrigðisstarfsmanna sem kostuð er af ríkissjóði. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá stuðning greiddan af ríkinu þann tíma þar til mál þeirra hafa verið afgreidd, en kvótaflóttamenn hafa fengið greiddan stuðning fyrsta árið eftir komu. Eftir það falla þau í sama flokk og önnur börn af erlendu bergi brotin í skólunum. Úthlutað er fjármagni úr potti vegna nemenda af erlendum uppruna.

Staðreyndin er sú að börn af erlendu bergi brotin fá ekki næga aðstoð í íslensku vegna fjárskorts skóla. Það þarf meira fjármagn til að hægt sé að hjálpa þeim börnum sem eru verst sett. Margir skólar eru verulega fjárþurfi, hafa glímt við fjárskorts árum saman eins og sjá má í skýrslu Innri endurskoðunar 2019.
Það eru allir sammála um að gera þarf betur í móttöku barna af erlendum uppruna og í leik- og grunnskólastarfi. Það er ekki nóg að taka við fólki, bjóða því að dvelja til langframa á Íslandi en sinna því síðan ekki sem skyldi.  Það hlýtur að vera markmiðið að þau standi ekki hallari fæti en önnur börn þegar kemur að námi eða öðru sem þau kunna að vilja taka sér fyrir hendur. Til að draumar þeirra geta ræst eins og annarra barna á Íslandi þarf margt að koma til svo sem faglegur stuðningur við starfsfólk og viðeigandi fjárveitingar.

 

Lögð fram tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, dags. 27. nóvember 2020, að breytingu á fjárhagsáætlun Reykjavíkur 2021, um afnám tekjutengingar við húsnæðisstuðning

Tillaga Flokks fólksins um afnám tekjutengingar húsnæðisstuðnings

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg setji inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning þess efnis að tekjur vegna eingreiðslu til örorku- og endurhæfingalífeyrisþega í desember 2020, desemberuppbótar TR til örorku- og ellilífeyrisþega og desemberuppbótar Vinnumálastofnunar til atvinnulausra leiði ekki til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Launafólk fær greidda desemberuppbót og sú greiðsla er endanleg og hjálpar fólki að halda jólin án þess að hafa áhyggjur af auknum útgjöldum. Seinna meir kemur þetta síðan í “hausinn” á fólki. Þegar framtöl liggja fyrir á næsta ári þá klípur borgin þetta af fólki.  Lífeyrisþegar og atvinnulausir fá einnig greidda desemberuppbót. Það sem skilur að er að lífeyrisþegar og atvinnulausir þurfa ekki aðeins að greiða skatta af sinni uppbót heldur getur hún einnig leitt til skerðinga á réttindum. Þeir sem eiga rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Reykjavíkurborg og jafnframt rétt á desemberuppbót mega því búast við því að sú eingreiðsla leiði til þess að Reykjavíkurborg skerði sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra síðar á næsta ári.

Þetta fengu margir að upplifa þegar lögum um félagslega aðstoð var breytt árið 2019. Þá fengu öryrkjar loksins nauðsynlega kjarabót. Sú kjarabót leiddi þá til víxlverkunar vegna reglna Reykjavíkurborgar sem leiddi til lækkunar á sérstökum húsnæðisstuðningi til þeirra.

Greinargerð

Fulltrúi Flokks fólksins var með fyrirspurn um málið 2019 og síðar tillögu um að Reykjavíkurborg aðlagaði viðmið sín til þess að leiga hækkaði ekki hjá Félagsbústöðum. Það var mörgum leigjendum Félagsbústaða áfall þegar velferðarráð brást ekki við breyttum lögum um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar. Tillögu Flokks fólksins var hafnað og var leiga hjá rúmlega 1.100 manns hækkuð umtalsvert. Þá kom ekki til greina að endurskoða reglurnar. Stærstu áhyggjur velferðarráðs er að breytingar á reglunum séu útfærðar þannig að þær komi þeim til góða sem á þarf að halda en opni ekki fyrir nýja hópa. Þar sem ekki hefur verið vilji til að ráðast í reglugerðarbreytingar þá halda þeir sem verst eru settir áfram að líða fyrir þessa ósanngjörnu reglu.

Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilaði örorkulífeyrisþegum þurrkuðust út hjá þessum hópi. Það hefði aðeins kostað Reykjavíkurborg 18 milljónir að horfa fram hjá þessu, varla dropi í hafið, en mikil búbót hjá yfir 1.100 manns. Þetta hefði Reykjavíkurborg ekki þurft að gera enda aðeins bundin af lágmarkskröfum laganna og leiðbeiningum ráðuneytisins varðandi það hvernig reglur Reykjavíkur um sérstakan húsnæðisstuðning eigi að vera. Þær reglur og þær leiðbeiningar koma ekki í veg fyrir að Reykjavík gangi lengra en almennt gerist og kveði á um að desemberuppbót lífeyrisþega skuli ekki leiða til skerðinga á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Það ætti því ekki að þurfa að breyta lögum til þess að tillaga verði samþykkt um að breyta reglugerðinni þannig að desemberuppbót skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Nú er þetta að gerast aftur þegar öryrkjar fá smávægilega uppbót í desember. Þá á að skerða húsaleigubætur þeirra. Við verðum að koma í veg fyrir slíkar víxlverkanir í kerfinu.  Það er verkefni Alþingis að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki lífeyrisgreiðslur, atvinnuleysisbætur eða húsnæðisbætur. Það er verkefni Reykjavíkur að sjá til þess að desemberuppbótin skerði ekki sérstakan húsnæðisstuðning. Hér er um einskiptisaðgerð að ræða sem gagnast mest þeim sem fátækastir eru. Þessi tillaga felur í sér tiltölulega lítinn kostnað en myndi skila margföldum ábata til þeirra íbúa Reykjavíkurborgar sem þurfa mest á aðstoð að halda. Ef þetta er réttlæti þessa meirihluta, hvernig er þá ranglætið!

Bókun við afgreiðslu meirihlutans á ofangreindum tillögum:

Flokkur fólksins lagði til breytingatillögur sem hafa verið felldar, þær eru: Að afnema skuli hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021. Sviðin eru nú þegar að sligast fjárhagslega. Kostn.: 377.581 þ.kr. Að sett verði inn bráðabirgðaákvæði í reglugerð um sérstakan húsnæðisstuðning til að sporna við að eingreiðslur til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega leiði ekki til skerðingar á sérstökum húsnæðisstuðningi og þar með hækkun húsaleigu hjá Félagsbústöðum. Kost: 15.000 þ.kr. Að vannýttar fjárhæðir Frístundakortsins vegna COVID færist yfir á næsta ár, 2021, vegna niðurfellingar/skerðingar frístundastarfs. Kostn. 16.000 þ.kr. milljónir. Að stöðugildum talmeinafræðinga hjá borginni verði fjölgað um tvö en 210 börn eru á biðlista eftir þjónustu þeirra. Kostn.: 28.100 þ.kr. Að stöðugildum sálfræðinga hjá borginni verði fjölgað um þrjú en um 800 börn eru á biðlista eftir skólaþjónustu, flest sálfræðiþjónustu. Kostn.: 42.000 þ.kr. Að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15% en dagforeldrar berjast fyrir lífi stéttar sinnar. Kostn.: 61,4 m.kr. Að hækka skuli úthlutun fjárhæðar í 130 þ.kr. á barn af erlendum uppruna, en yfir 2000 grunnskólabörn af erlendum uppruna fædd á Íslandi eru afar illa stödd í íslensku samkvæmt mælingum. Kostn.: 43.800 þ.kr. Tillagan felld en samskonar tillaga lögð fram af meirihlutanum.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu frumvarps að fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025, sbr. 2. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Ekkert í fimm ára áætlun sýnir að taka eigi á biðlistavanda barna sem fá þjónustu á vegum borgarinnar t.d. hjá talmeinafræðingum  eða sálfræðingunum. Biðlistar eru í sögulegu hámarki og hafa lengst í tengslum við COVID. Samfylkingin sem segist jafnaðarflokkur hefur stjórnað  borginni í mörg ár. Formaður Samfylkingarinnar sýndi það í auglýsingu  þegar hann fer inn úr kuldanum og fær sér heitan drykk að hann hefur áttað sig á því að slíkur munaður stendur ekki öllum til boða. Engu að síður, á vakt Samfylkingarinnar, eru um 5000 börn sem búa við fátækt í Reykjavík og sum við sára fátækt. Foreldrar þeirra eiga ekki fyrir mat. Borgarstjóri er í Samfylkingunni en hann studdi ekki tillögu Flokks fólksins um fríar skólamáltíðir í leik-og grunnskólum Reykjavíkur og var einnig gegn tekjutengingu gjalda vegna skólamáltíða og frístundaheimila. Endurskoða á viðmiðunarfjárhæðir í reglum fjárhagsaðstoðar og er það gott. Hækkun á grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar Reykjavíkurborgar er hins vegar skammarlega lág. Allir vita að enginn lifir sómasamlegu lífi á þessum fjárhæðum. Til dæmis hækka grunnfjárhæðir fjárhagsaðstoðar til framfærslu vegna barna í 16 gr. a úr 16.671 kr. á mánuði í 17.071 kr. á mánuði. Þessi hækkun nær ekki þúsund krónum. Hér má gera betur ef vilji væri til.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að græna planinu – sóknaráætlun Reykjavíkurborgar til 2030 sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Fulltrúi Flokks fólksins situr hjá við afgreiðslu græna plansins af þeirri einföldu ástæðu að borgarstjórnarmeirihlutinn notar hugtakið „grænt“ of frjálslega. Orð og athæfi fara ekki saman. Sagt er að standa eigi vörð um störf en á sama tíma er fólk rekið úr störfum. Það samræmist ekki hinni svokölluðu „samfélagslegu vídd græna plansins“. Sagt er að útvista eigi verkum í hagræðingarskyni. Það fær varla staðist. Verktakakaup borgarinnar eru löngu komin út yfir eðlileg mörk sem er alvarlegt mál og efni í aðra bókun. Fulltrúar borgarmeirihlutans segjast vera náttúruunnendur en hafa engu að síður samþykkt að leggja þriðja áfanga Arnarnesvegar þannig að vegurinn mun kljúfa Vatnsendahvarfið eftir endilöngu og takmarka framtíðarmöguleika væntanlegs Vetrargarðs. Ekki liggur fyrir hvernig mengunarmál verða leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik- og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum. Miklir möguleikar eru á að byggja þarna upp gott útivistarsvæði enda hæsti punktur borgarinnar. Fleira mætti telja til sem ekki er í neinu samræmi við græna planið sem er í grunninn hin ágætasta hugmynd. Ef grænt plan á að vera trúverðugt og sannfærandi nálgun þurfa að felast í því samkvæmni og heilindi.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu tillögu að fjármála- og fjárfestingastefnu Reykjavíkurborgar, sbr. 4. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 1. desember.

Óvenjulegar aðstæður ríkja nú. Áhersla borgarstjórnar ætti að vera á að fólkið komi fyrst. Ef fólk heldur ekki heilsu, líkamlegri og andlegri, getur það ekki stundað vinnu eða notið lífsins að neinu leyti. Í þeirri fjárhagsáætlun sem nú er lögð fram er talað um endurreisn og græna planið. Atvinnuleysi er meira en 10% í Reykjavík og fer vaxandi. Nú ríður á að taka skynsamleg skref, tryggja fullnægjandi grunnþjónustu og leggja alla áherslu á að sinna þeim verst settu svo fólk geti komið út úr veirukreppunni með von í hjarta. Tryggja þarf störf við skynsamlegar fjárfestingar. Ekki allir eiga heilt og gott heimili sem er hvorki heilsuspillandi né óleyfishúsnæði. Byggja þarf fleiri hagkvæmar íbúðir, hjúkrunarheimili, húsnæði fyrir fatlað fólk og gera átak í viðhaldi á rakaskemmdu húsnæði borgarinnar, ekki síst skólabyggingum. Fleira spilar inn í sem gera málin flóknari. Ávöxtunarkrafa á nýjum grænum skuldabréfaflokki borgarinnar er 4,5%. Þetta eru verri kjör en borgin fékk í útboði í maí en þá var tilboð að nafnvirði 2.6 milljarðar króna með ávöxtunarkröfunni 2,99%. Álag á skuldir borgarinnar hefur því hækkað á þessu ári og vaxtakjör versnað um meira en 50%. Fjármögnun hins svokallaða græna plans á næsta ári er orðin dýr.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi SORPU bs., dags. 27. nóvember 2020, þar sem óskað er eftir að borgarstjórn veiti samþykki fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar 2021-2025

Erindi frá SORPU hefur borist þar sem óskað er samþykkis fyrir lántökum vegna rekstraráætlunar samlagsins fram til 2025. SORPA er það byggðasamlag sem farið hefur verst með Reykjavík af öllum byggðasamlögum. Gjaldskrá SORPU hækkar nú um 24% að jafnaði og grundvallast á þeirri reglu að sá sem afhendir SORPU úrgang greiðir fyrir meðhöndlun hans. Loksins er einhver hreyfing á metansölu sem þakka má öflugum markaðsstjóra. Aldrei datt stjórn áður í hug að reyna að gera eitthvað í markaðssetningu metans. Nú á að framlengja yfirdráttarheimild að upphæð 1.100 m.kr. og jafnframt að fá nýtt lán allt að 300 m.kr. til 10 ára. Bs. kerfið er í eðli sínu stórgallað kerfi og það ætti að stefna að því að leggja slíkt kerfi niður. Til að bæta það þarf að auka áhrif kjósenda og minnihlutaflokka, ekki aðeins með því að bjóða þeim meiri aðkomu, það þurfa að vera alvöru áhrif. Leiðir sem mætti skoða eru: Fulltrúafjöldi í samræmi við íbúafjölda í þeim sveitarfélögum sem eiga félagið. Fulltrúar í samræmi við styrk flokka í sveitarstjórnum. Í stað byggðasamlagskerfis gætu komið samningar um einstök verkefni, ef það er hagkvæmt.

 

Bókun Flokks fólksins undir 1. lið fundargerðarinnar frá 3. desember og 10. lið fundargerðarinnar frá 10. desember:

Fulltrúi Flokks fólksins styður viðauka sem lúta að aukinni og bættri þjónustu við borgarbúa og vegna COVID. Ekki er hægt að samþykkja deiliskipulag Elliðaárdalsins enda sumt fyrirkomulag þar ekki í nógu mikilli almennri sátt. Elliðaárdalurinn er mörgum afar kær jafnvel þótt varla sé hægt að tala um hann sem ósnortna náttúru lengur. Hann er manngerð náttúra. Þar með er þó ekki sagt að gildi hans sé ekki mikið, þvert á móti. Skort hefur á samráð við borgarbúa varðandi deiliskipulagið. Það hefði verið hægt að vinna þessa borgarperlu miklu meira með fólkinu, með notendum dalsins og aðdáendum hans.

 

Bókun Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið og 10. lið fundargerðar umhverfis- og heilbrigðisráðs:

Umsögn vegna Arnarnesvegar: Þessi umsögn tekur ekki á einum mikilvægasta þættinum í tengslum við lagningu 3. áfanga Arnarnesvegar. Með framkvæmdinni er lokað fyrir frekari nýtingu svæðisins, lokað fyrir framtíðarmöguleika! Þegar er komin hugmynd um Vetrargarð, en hægt er að gera miklu meira í kringum hann ef rými er til staðar. Þetta er hæsti punktur borgarinnar. Þarna má setja upp lágan útsýnispall sem hefur afþreyingargildi. Ef Vetrargarðurinn verður vinsæll þarf hann einhverja möguleika á þróun, stækkun, útisvæði, gönguleiðir o.fl. Vegagerð þarna mun hindra annað sem hefði mun meira jákvætt í för með sér, en að fólk úr austurhluta Kópavogs geti ekið hratt frá Kópavoginum.

Bókun við fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs:
Listi yfir samþykkt hundaleyfi: Það er afar undarlegt að sjá svona lista lagðan fram í ljósi tillögu stýrihóps um endurskoðun gæludýrareglna að fella niður hundaleyfisskyldu. Ef leggja á niður hundaleyfisskyldu er ekkert sem réttlætir lengur hundaeftirlitsgjald. Samt á að halda áfram að innheimta eftirlitsgjald þ.e. af þeim  sem láta skrá hunda sína hjá Reykjavíkurborg sem eru í mesta lagi eigendur 2.000 hunda af áætluðum 9.000 hundum í borginni. Loksins voru vinnuskýrslur birtar sem staðfesta að hundaeftirlitið hafði nánast ekkert að gera. Allt árið í fyrra voru málin aðeins 21 fyrir utan desember, þetta er ein eftirlitsferð á viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann.

Borgarstjórn 15. desember seinni umræða fjárhagsáætlunar

Bókun Flokks fólksins við kynningu á aðgerðaáætlun stýrihóps um aðgerðir gegn sárafátækt barna og fjölskyldna þeirra:

Mörg hundruð fjölskyldur búa við fátækt og þar á meðal eru mörg hundruð börn. Skýrslan er fín en koma þarf öllum tillögum í gagnið sem fyrst. Mjög líklegt er að þessi hópur fátækra stækki enn meir vegna aukins atvinnuleysis. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar mörgu sem þarna er og þá ekki hvað síst tillögu 3 í skýrslunni sem er tillaga Flokks fólksins um að  „Reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að ekki þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildagreiðslum skv. gr. 16. A né þjónustugreiðslum“. Þessi tillaga var lögð fram 1. okt. 2019 og var þá reyndar felld. En nú virðist hún ætla að verða að veruleika, sbr. aðgerðaráætlun um aðgerðir gegn sárafátækt.

Það er með ólíkindum að í  reglum um fjárhagsaðstoð skuli það hafa verið sett sem skilyrði að það þurfi að fullnýta frístundakort til að eiga rétt á heimildargreiðslum skv. gr. 16. A eða þjónustugreiðslum og þannig er það búið að vera í langan tíma.

Enn er langt í land að frístundakortið fái sinn upprunalega tilgang þ.e. að jafna stöðu barna til íþrótta- og tómstundastarfs. Tilraunaverkefni sem er í gangi, hækkun frístundastyrks á aðeins við um eitt hverfi borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um aukna fjárheimild til fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar að fjárheimildir fjárhagsaðstoðar velferðarsviðs verði hækkuð um 655.3 m.kr. árinu 2020. Þetta er mjög nauðsynlegt enda mun staðan eiga eftir að versna eða þar til  bóluefni við veirunni finnst. Skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð velferðarsviðs eru einnig of ströng. Þau þarf að endurskoða og endurmeta í ljósi nýs veruleika. Velferðarsvið/ráð verður að taka á ástandinu fulla ábyrgð. Ljóst er að stefnt er í U sviðsmynd í fjárhagsaðstoðinni, slík er fjölgun atvinnulausra.  Hópur þeirra sem þarfnast aðstoðar nú hefur breyst samhliða auknu atvinnuleysi. Samsetning hópsins er allt önnur nú. Allir geta í raun fundið sig í þessum sporum nú á þessum sérkennilegu og erfiðu tímum. Ekkert skiptir máli meira að tryggja aðstæður fólks svo það geti haldið heilsu og þreki. Í langan tíma hefur þessi málaflokkur hvergi nær fengið næga athygli meirihlutans. Reglur um fjárhagsaðstoð hafa verið hlaðnar skilyrðum og almennt séð ekki verið nógu sveigjanlegar. Ástandið var slæmt fyrir COVID.

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október 2020, um breytingu á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis:

Það bíða 137 einstaklingar eftir sértæku húsnæði. Tillaga sviðsstjóra um breytingu á uppbyggingaráætlun sértækra húsnæðisúrræða er þannig að lagt er til að breyting verði gerð á uppbyggingaráætlun sértæks húsnæðis þannig að íbúðakjarni fyrir geðfatlaða verði gerður að íbúðakjarna fyrir einstaklinga með þroskahömlun. Breytingin kostar 41 m.kr. Rökin eru að þörf eftir húsnæði er mun ríkari hjá einstaklingum með þroskahömlun en hjá geðfötluðum. Þetta eru náttúrulega ekki ný tíðindi. þ.e. að meiri hreyfing sé á búsetu geðfatlaðra heldur en þroskahamlaðra? Breytingar á húsnæði eru dýrar. Skiljanlega þarf að bregðast við óvæntum sveiflum.

Fulltrúi Flokks fólksins vill nota þessa bókun líka til að orða þau vonbrigði sem langur biðlisti árum saman hefur valdið fólki með fötlun og fjölskyldum þeirra. Árið 2019 biðu 162 fatlaðir einstaklingar eftir húsnæði  og munar aðeins um 10 frá árinu þar áður. Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur sé kominn langt á fertugsaldur þegar hann fær loksins húsnæði. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru til um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu.

 

Bókun Flokks fólksins við drög að fjárhagsáætlun velferðarsviðs 2020. Bókun færð í trúnaðarbók.

Bókun Flokks fólksins við  framlagningu draga að gjaldskrám velferðarsviðs 2020 fyrir þjónustu á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Trúnaðarmál.

 1. Gjaldskrá fyrir veitingar og fæði
 2. Gjaldskrá í félagsstarfi
 3. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í íbúðum aldraðra
 4. Gjaldskrá í heimaþjónustu
 5. Gjaldskrá fyrir þjónustugjöld í Foldabæ
 6. Gjaldskrá fyrir húsnæði og fæðisgjald í búsetuúrræðum
 7. Gjaldskrá um akstursþjónustu eldri borgara
 8. Gjaldskrá vegna greiðslna til stuðningsfjölskyldna
 9. Gjaldskrá vegna ferðaþjónustu fatlaðs fólks

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram bókun sem færð er í trúnaðarbók.

Bókun Flokks fólksins við  við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 24. júní 2020 um vinnureglu starfsmanna ásamt umsögn velferðarsviðs, dags. 21. okt. 2020.

Felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata, gegn einu atkvæði fulltrúa Flokks fólksins. Fulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði til að sett yrði á laggirnar vinnuregla um að starfsmenn fari ekki heim í lok dags fyrr en þeir eru búnir að svara innkomnum erindum með einum eða öðrum hætti. Tillagan er felld.
Reyndar er það sérkennilegt að fella tillögu sem þessa sem er svona meira í formi tilmæla. Með því að fella er eins og það sé ekki vilji velferðarráðs að póstum starfsmanna sé sinnt samdægurs?

Í umsögn sviðsstjóra er talað um að þegar skeyti er sent þá berist sjálfvirkt svar um að erindið sé móttekið.  Sjálfvirkt svar er ekki það sama og að svara. Allir vita það sem fá sjálfvirkt svar um leið og póstur er sendur að það gefur  ekki til kynna að móttakandi lesi endilega póstinn þann daginn eða þá næstu ef því er að skipta. Sjálfvirkni almennt séð er einfaldlega oft mjög ópersónuleg svörun. Kannski þarf að ætla starfsmönnum meiri tíma í að skoða póstinn sinn í lok dags og bregðast við. Margir starfsmenn eru undir miklu álagi. Það er á ábyrgð stjórnanda að skipuleggja þessa hluti með starfsmönnum sínum.

Samkvæmt svari velferðarsviðs má þó ætla að reynt hafi verið að bæta svörun og skilvirkni almennt séð í þeim efnum.
 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 16. september 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 30. lið fundargerðar velferðarráðs þann 19. ágúst 2020 um ástandið á vinnumarkaði Reykjavíkurborgar:

Segir í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ástandið á vinnumarkaði í Reykjavík að vel hafi gengið að manna stöður og einungis 11 séu ómannaðar. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta þýði að nú sé hægt að veita fulla þjónustu alls staðar sem ekki var áður hægt vegna manneklu? Eru allir sem þurfa, að fá t.d. heimaþjónustu?

Fulltrúi Flokks fólksins vildi vita hvað borgin væri sjálf að gera ein og sér í þessum málum. Talað er um að skapa störf og er þá reiknað með að það þýði að verið sé að búa til störf sem voru ekki áður til staðar. Samkvæmt svari ætti alla vega að vera hægt að manna allar stöður sem fyrir voru og mannekla að vera þar með úr sögunni. Það ætti að eyða biðlistum sem eru ekki síst tilkomnir vegna þess að ekki hefur tekist að  manna stöður.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 21. október, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. fundargerð borgarráðs þann 5. október, um fjölda greininga á þjónustumiðstöðvum árið 2019.

Spurt var um hver væri biðlistinn eftir greiningu og sundurliðun eftir þjónustumiðstöðvum. Fjöldi tilvísana alls eru 2.165 og þar af hafa um 1000 börn fengið þjónustu. Flestar tilvísanir koma frá Vesturbæ, Miðborg og Hlíðum og Breiðholti. Rúmlega þúsund eru á bið. Flestir bíða eftir sálfræðiþjónustu, greiningum og eða viðtölum. Fulltrúi Flokks fólksins hefur alvarlegar áhyggjur af þeim sem eru á biðlista. Á  meðan barn bíður heldur vandinn oft áfram að vaxa og hafa neikvæð áhrif. Fulltrúi Flokks fólksins var að vonast til að staðan væri betri en þetta. Foreldrar sem hafa til þess ráð fara margir með börn sín til sjálfstætt starfandi sálfræðinga. En svo heppnar eru ekki allar fjölskyldur. Margir foreldrar hafa stigið fram og lýst baráttunni við kerfið í Reykjavík þegar kemur að aðgengi til skólasálfræðinga. Fátækar og efnaminni fjölskyldur sem eiga börn sem bíða aðstoðar sökkva mörg hver æ dýpra í vanlíðan og fá ekki rönd við reist.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu biðlista í ýmis úrræði á vegum borgarinnar:

Hér að neðan má sjá samantekt á þeim úrræðum/þjónustu sem er ekki sameiginleg öllum þjónustumiðstöðvunum eða Barnavernd Reykjavíkur.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að vita hverjir eru biðlistar í eftirfarandi úrræði:

„Mér finnst ég ekki lengur ein“

„Lesum saman“ (Lestrarátaksverkefni)

„Hjólakraftur“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs)

„Lotta“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega).

„Klókir litlir krakkar“ (Kvíðameðferðarnámskeið fyrir forráðamenn barna yngri en 8 ára)

„Fjörkálfar“ (Námskeið fyrir börn á aldrinum 8−12 ára með reiðivanda)

Frístund plús: samstarf við Frístundamiðstöðina Miðberg til að styðja frístundastarf í hverfinu fyrir þau börn sem þurfa auka stuðning á frístundaheimilunum

„TINNA“ (Stuðningur til fjölskyldna sem standa illa félags- og fjárhagslega)

Talmeinafræðingar

Verkefni þar sem unnið er að því að taka á mætingarvanda barna í 5. og 9. bekk

Heimanámsaðstoð

Samstarf við Gufunesbæ — styrkja félagslega einangruð ungmenni í 9. bekk

ÁTAK (Tímabundin þjónusta við börn og foreldra þar sem mætingarvandi er til staðar).

ÁFRAM (Sértæk þjónusta við nemendur sem eru að ljúka grunnskóla og þurfa stuðning í framhaldsskólanum).

Núvitundarnámskeið fyrir börn, unglinga og forráðamenn

„Gaman saman“ (Persónuleg ráðgjöf í formi hópastarfs)

„HAM“-námskeið (Hugræn athyglismeðferð í anda námskeiðsins: „Mér líður eins og ég hugsa“)

Sálfræðiþjónusta fyrir börn hjá SÁÁ

 

 

Velferðarráð 21. október 2020

Óundirbúnar fyrirspurnir. Beint til borgarstjóra:

Áformað er að leggja Arnarnesveg vestan í Vatnsendahvarfi, sem yrði 1.3 km. langur þjóðvegur í þéttbýli. Hann var samþykktur á samgönguáætlun fyrir 2021 og áætlaður kostnaður skv. samgönguáætlun er 1.6 miljarðar. Áætlanir fyrir veginn byggja á umhverfismati frá 2003, en síðan þá hafa forsendur breyst verulega. Meðals annars þá er byggð í kringum veginn mun þéttari, umferð hefur aukist og áherslur í umhverfismálum hafa breyst. Þessi hluti Arnarnesvegar, sem upphaflega var hugsaður sem ofanbyggðavegur þegar hann var settur á skipulag fyrir 40 árum, mun koma til með að skera í tvennt náttúrulegt útivistar- og útsýnissvæði, sem mikið er nýtt af íbúum borgar og nágrennis. Vegurinn mun koma til með að breyta ásýnd og notagildi þessa dýrmæta græna svæðis til frambúðar
 

Spurning: 

Liður 1

Nýjustu áætlanir af veginum sýna að kostnaður við veginn hefur þegar nær tvöfaldast í tæpa 3 milljarða og hann mun skerða fyrirhugaðan Vetrargarð sem er á nýju hverfisskipulagi fyrir Breiðholt. Ef tekið er mið af þeim náttúruspjöllum sem vegurinn mun valda, þessum aukakostnaði og breyttra áherslna í umhverfis- og samgöngumálum er spurt hvernig er það siðferðislega verjandi fyrir borgina sem framkvæmdaleyfishafa að fara ekki fram á nýtt umhverfismat?

Liður 2

Breiðholtsbrautin er þegar sprungin umferðaræð og nú á að bæta við (eða færa til) umferð allt að 20.000 bíla inn á Breiðholtsbrautina í gegnum þenna nýja kafla af Arnarnesvegi. Formaður skipulagsráðs sagði nýlega “að það sé löngu kominn tími á það að meta kolefnislosun af öllum framkvæmdum á samgönguáætlun og forgangsraða þeim sem draga mest úr losun fyrst.” Spurt er hvaða rök eru fyrir því að Arnarnesvegur eigi að vera í forgangi á undan öðrum samgönguverkefnum borgarinnar, eins og t.d. tvöföldun Breiðholtsbrautar, og á hvaða skýrslum byggja þessi rök? 

 

Tillaga Flokks fólksins um að börn fái sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.
Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt í gegn greiðslu þátttökugjalds. Til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög.
Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16.6.2020 þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Þeirri tillögu var hafnað.  Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð

Á bilinu 18-35 þúsund einstaklingar búa við fátækt hverju sinni eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund einstaklingar í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og fólk af erlendum uppruna, hælisleitendur, flóttafólk og innflytjendur.

Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 kr. á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neita börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum á vegum skóla- og frístundar vegna fjárskorts. Fátækt fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur margsinnis spurt hvernig sé háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega?

Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald. Þessi börn fá þar af leiðandi ekki sömu tækifæri til íþrótta og tómstunda og börn foreldra sem eru fjárhagslega sterkari.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað í skólum og frístund og allur gangur er á hvernig síðan tekið er á  málum þegar upp koma tilfelli sem hér er lýst.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum vegna aðgengis á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar fyrir sumarhátíð.

Meirihlutinn í borgarstjórn og skóla- og frístundayfirvöld hafa sagt m.a. í bókun sinni við tillögu Flokks fólksins í júní sl. um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum,  að fyrirkomulagið í þessum málum sé með ýmsum hætti. Fram kemur í bókun þeirra að skólinn greiði oftast fyrir viðburði en fjáröflun er engu að síður í gangi þótt mismunandi sé milli skóla. Stundum er um að ræða samstarf foreldra, nemenda og skóla, með eða án fjáröflun fyrir ferðalög með eða án gistingu. Einnig er það þannig að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins eins og segir í bókun meirihlutans. Í þeim tilfellum sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur þá er reynt að grípa til einhverra annarra ráða til að leysa málin farsællega.

Af þessu má sjá að hér er um  hálfgerðan frumskóg að ræða.

Það er skoðun fulltrúa Flokks fólksins að mikilvægt sé að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar. Kortleggja þarf þetta nánar til að sjá hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

En sú tillaga sem hér er lögð fram fjallar ekki um að gerð verði könnun heldur að borgarmeirihlutinn og skóla- og frístundaráð tryggi að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Þær greiningar sem nú liggja fyrir hjá skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmis konar viðburði innan skólanna í borginni er takmörkuð og gefur ekki fullnægjandi mynd. Taka þarf þessi mál alla leið og sjá til þess að öll börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra í skólatengdum verkefnum.

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

 

Bókun vegna afgreiðslu tillögunnar:

Á vorönn lagði fulltrúi Flokks fólksins fram sambærilega tillögu þ.e. að gerð yrði jafnréttisskimun á hvort börn eru að fá sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum. Þeirri tillögu var líka vísað frá. Öll vitum við að börn sitja ekki við sama borð í þessum máli og er ekki hægt að sætta sig við það. Nóg er að fögrum fyrirheitum hjá þessum meirihluta en minna um aðgerðir og framkvæmdir í þágu barna í borginni. Skóla- og frístundasvið hefur viðurkennt að fyrirkomulag þar sem foreldrar eru krafðir sérstakrar greiðslu vegna viðburða eða ferða sé með ýmsum hætti en málin eru sögð óljós. Einhver óreiða er í þessum málum. Þegar upp koma erfið mál þar sem foreldrar hafa ekki ráð á að greiða aukagjöld er reynt að leysa þau með einhverjum reddingum. Oft þarf að leita í einhverja varasjóði.  Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða í þessum sporum? Fullnægjandi greiningar liggja ekki fyrir hvernig þessu er háttað. Sagt er að skólinn greiði en að fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Hvað er átt við? Svo eiga fjáraflanir að redda málum. Það á ekki að þurfa að treysta á slíkt. Skóla- og velferðarkerfi borgarinnar treystir um og of á að aðrir bjargi málum, hjálparsamtök og safnanir.

Bókun Flokks fólksins við umræðu um Stöðu barna í Reykjavík:

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi. Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um friðlýsingu í Álfsnesi og við Þerneyjarsund til verndar miðaldahafnar í Reykjavík:

Það er sjálfsagt að styðja friðlýsingu. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“.  Lega Sundabrautar hefur ekki einu sinni verið ákveðin. Fleirum finnst þessi rök borgarstjóra ekki halda og er það sjálfur forstöðumaður Minjastofnunar. Í viðtali við forstöðumann Minjastofnunar kemur fram að friðlýsing skerði ekki vegstæði Sundabrautar og að varðveisla minja og lagning brautarinnar geti vel farið saman. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað en fleiri staðir koma án efa til greina ef út í það væri farið. Meirihlutinn í borgarstjórn á að vera þakklátur nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru. Það hefur komið skýrt fram að það megi ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi þar fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu enda hefur verið með sambærilega tillögu í velferðarráði 2019 þar sem henni var synjað. Lagt var til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð. Í tillögunni var vísað í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir það sem stendur þar: „Fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Það segir sig sjálft að þar með eru möguleikar viðkomandi til náms verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli hlýtur viðkomandi að þurfa að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám leiðir til aukinna möguleika á að fá vinnu, aukins stöðugleika og hærri launa en ella.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. september:

Kynning um fyrirhugaðan Arnarnesveg hefur átt sér stað tvisvar en kynningargögnum er haldið leyndum. Farið var yfir 3 útfærslur, allar óásættanlegar, þar sem allar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Útfærsla 1 var sögð ekki koma til greina, væri ekki gerleg og auk þess gríðarlega kostnaðarsöm. Útfærsla 2 er sú sem skipulagsyfirvöld sjarmera greinilega fyrir og leið 3 með mislægu gatnamótin er draumaútfærsla bæjarstjórnar Kópavogs. Allt er þetta byggt á löngu úreltu umhverfismati. Sú staðreynd að skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að taka þátt í þessari eyðileggingu er sérkennilegt því nú er kynnt nýtt skipulag með Vetrargarði einmitt þar sem vegurinn á að liggja. Það þarf að gera nýtt umhverfismat. Annað er ekki siðferðislega verjandi. Augljóslega er hægt að tengja frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf.  Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut  inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi.  Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs.  Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Sjálf Vatnsendahæðin gæfi  þá möguleika á að nýtast enn frekar sem útivistarsvæði. Þar myndi Vetrargarðurinn njóta sín og svæðið vera einstakt og eftirsótt af öllum.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs og 3. og 9. lið í fundargerð velferðarráðs.

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum á þessum tímapunkti  í samfélaginu enda aðstæður afar óvenjulegar. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu hækkun greiðslna til stuðningsfjölskyldna. Með öðrum gjaldskrárhækkunum er höggvið í þá sem minnst mega sín á sama tíma og segir í bréfi borgarstjóra „það er varhugavert við þær aðstæður sem nú eru uppi að fara í niðurskurð  til þess að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi til skamms tíma“.

Hér er um mótsögn að ræða.  Seilst er í vasa þeirra viðkvæmustu. Á sama tíma mælist Samband íslenskra sveitarfélaga til þess með yfirlýsingu dags. 27. mars 2020 að sveitarfélög haldi aftur af sér við gjaldskrárhækkanir í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðfélaginu. Fundargerð skólaráðs. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Þetta er gert þrátt fyrir að nýlegt jafnréttismat sýni neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna. Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

Borgarstjórn 15. september 2020

Tillaga Flokks fólksins um jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að láta gera jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðum á vegum Reykjavíkurborgar. Markmiðið er að athuga hvort börn njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald.

Skólinn, frístundaheimilin og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða upp á fjölbreytt starf þar á meðal að bjóða börnunum upp á að taka þátt í afþreyingu utan húss, heimsækja staði og fara í styttri ferðir. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að skoðað verði með kerfisbundnum hætti hvort börnin eru að fá sömu tækifæri til þátttöku án tillits til efnahags foreldra.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna og eru jafnvel undir fátæktarviðmiði geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum.

Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í Aðalnámskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Greinargerð

Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund í mikilli neyð. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 á mánuði eiga á hættu að búa við fátækt. Foreldrar þessara barna hafa ekkert aukreitis og þurfa því stundum að neyta börnum sínum um þátttöku í félagsviðburðum vegna fjárskorts. Þetta fólk getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Hvernig er háttað með börn sem búa við fátækt þegar skólatengd verkefni, viðburðir eða ferðir kalla á óvænt útgjöld hjá foreldrum sem eiga ekki krónu aukalega? Þessi börn fá ekki sömu tækifæri til íþrótta- og tómstunda. Sé boðið upp á slíkt í tengslum við skólann fyrir gjald er ekki víst að allir foreldrar geti greitt það gjald.

Það er vitað að allur gangur er á hvernig þessum málum er háttað og því óskar fulltrúi Flokks fólksins eftir að borgarstjórn samþykki að gera skimun eða könnun á þessu til að kortleggja hvort börn sitji við sama borð án tillits til efnahags foreldra.

Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau, foreldrar eða skóli. Á fundi borgarráðs 2. maí 2019 kom svar þar sem fram kom að sviðið leitaði eftir svörum frá 36 skólum. Niðurstöður eru að einhverjir skólar greiða yfirleitt kostnað vegna ferðalaga og viðburða. Foreldrar standa hins vegar einir straum af ferðum nemenda í 5 skólum og í 10 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og í þremur tilfellum greiða foreldrar sumarhátíð.

Mikilvægt er að fá upplýsingar um hvernig staðan er nú, hvort þessi mál hafi færst til betri vegar því samkvæmt þessu eru börn ekki að njóta jafnræðis. Þessa þætti þarf að samræma til að auka möguleika barna á jöfnum tækifærum eins og kveður á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Aðalnámskrá og jafnréttisstefnu Reykjavíkurborgar

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar en henni var vísað frá:

Lögð hefur verið fram tillaga um að gerð verði jafnréttisskimum í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum til að athuga jafnrétti til þátttöku í verkefnum og viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillögunni hefur verið vísað frá. Enn og aftur er þessi meirihluti í borgarstjórn ekki í takt við sjálfan sig. Hann setur fram „fína“ mannréttinda- og jafnréttisstefnu sem hann síðan virðir að vettugi. Viðurkennt er að þetta sé með ýmsum hætti sem þó er ekki alveg vitað. Flokkur fólksins vill að þessar upplýsingar liggi skýrt fyrir svo hægt sé að finna leiðir til að engu barni verði mismunað vegna efnahagsþrenginga foreldra né að nokkru öðru leyti að sjálfsögðu. Nú er verið að að reyna að leysa einstaka mál sem upp koma. Í sumum skólum eiga foreldrar að greiða sem dæmi gistingu, sé verið að fara í ferðalag og fleira í þeim dúr og þurfa þá að leita náðar hjá skólanum. Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða? Það segir í mannréttindastefnu meirihlutans, sem hann sjálfur hundsar, að börn eigi að njóta jafnréttis.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Greiningar liggja nú þegar fyrir inn á skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmiskonar viðburði innan skólanna í borginni. Fyrirkomulag slíkra ferða er með ýmsum hætti. Til dæmis greiðir skólinn í nær öllum tilfellum stóran hluta kostnaðar ýmissa viðburða þótt fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Í vissum tilfellum er um samstarf foreldra, nemenda og skóla, með fjáröflunum ef um er að ræða ferðalög með gistingu. Þá er rétt að taka fram að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ef upp koma einstök tilfelli þar sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur, þá er alltaf leitast við að leysa málin farsællega.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans að umferðaröryggisáætlun Reykjavíkur 2019-2023:

Víða í borginni er umferðaröryggi ábótavant og aðstæður hættulegar. Strætisvagnar stoppa á miðri götu til að hleypa farþegum í og úr og dæmi eru um að strætisvagnar stoppa á miðju hringtorgi. Nýlega var grjóti sturtað á miðjan Eiðsgranda sem getur skapað stórhættu. Í borginni eiga ekki að vera neinar dauðagildrur. Fjölgun þeirra sem fer um hjólandi má fagna en meira þarf að gera til að hvetja þá sem fara um á bílum að fjárfesta í rafmagns eða metan bílum, gefið að öllu metani sé þ.e. ekki sóað. Í nýjum vistvænum bílum eru öflugir varúðarskynjarar sem geta dregið úr slysahættu. Ljósamálin eru enn í ólestri. Á 100 stöðum í borginni eru úrelt ljós. Sömuleiðis ætti að byggja göngubrýr alls staðar þar sem það er hægt. Flest slysin verða þegar götur eru þveraðar og þá lang oftast þegar hjólreiðamenn hjóla yfir götu/gangbraut. Segir í skýrslunni að taka þarf tillit til sérþarfa, s.s þeirra sem glíma við líkamlega fötlun. Nú reynir meirihlutinn að fá lagaheimildinni breytt til að hindra að handhafar stæðiskorta geti ekið göngugötur. Þeim er þess í stað ætlað að leggja í hliðargötum þar sem þeirra er víða hætta búin vegna halla og þrengsla.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðiflokks um sveigjanlegan vinnutíma:

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu sem þessa 2. maí 2019 í borgarráði. Tillögunni var vísað frá á sama fundi og hún var lögð fram. Meirihlutinn í borgarráði rökstuddi ekki frávísunina þótt borgarfulltrúi Flokks fólksins hafi óskað eftir því. Í raun er þetta svo sjálfsagt mál og eitthvað sem er einfalt fyrir borgina að huga að og taka frumkvæði í. Meirihlutinn getur hvatt stofnanir að huga að sveigjanleika sem þessum og einnig gert breytingar í þeim stofnunum sem tilheyra borgarkerfinu. Kjarninn í málinu er sá að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir að vinnutími þeirra sem starfa í miðborginni verði enn breytilegri en nú er í þeim tilgangi að lækka umferðartoppa í og úr miðbænum á ákveðnum tíma árdegis og síðdegis. Einnig má huga að því að dreifa stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar víðar um borgina sem myndi draga enn meira úr umferðarálaginu.

 

Bókun Flokks fólksins við við tillögu borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands til að Reykjavíkurborg feli mannauðs- og starfsumhverfissviði að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík:

Það er vel þess virði að eiga það samtal sem hér er lagt til að eigi sér stað milli mannauðssviðs og háskólasamfélagsins um að vinna sameiginlega að því að kanna stöðu þeirra sem starfa innan harkhagkerfisins (e. gig economy) í Reykjavík. Stór hópur fólks vinnur við ýmis störf í lausamennsku eða er með viðkvæman rekstur, svo sem listamenn, hönnuðir, fólk í nýsköpun, iðnaði, garðyrkju og vísinda- og fræðimenn. Allir þessi hópar eru nauðsynlegir samfélaginu og gefa lífinu lit og tilgang. Hér eru einstaklingar sem hafa margir hverjir lifað í töluverðri óvissu, taka áhættu um afkomu sína, en gera það vegna menntunar sinnar, löngunar að gefa af sér og ástríðu við þau viðfangsefni sem þau taka sér fyrir hendur eða eru ráðin í. Þessu fólki má ekki gleyma þegar illa árar, að því þarf að hlúa. Fyrsta skrefið er sannarlega að skoða málið, hvernig launafólk, lausráðið fólk (e. freelancers), einyrkjar og aðrir meta starfsaðstæður sínar með tilliti til aðbúnaðar, ánægju og tekjuöryggis og kortleggja hvernig fólk meti starfsframlag sitt til samfélagsins, hvernig aðrir meta það og hvernig það telur starfsöryggi sitt vera.

 

Bókun Flokks fólksins við við umræðu um bílastæðahús á vegum Reykjavíkurborgar að beiðni Flokks fólksins:

Vill borgarmeirihlutinn fækka bílum á götum eða ekki? Ef svarið er já, af hverju er þá ekkert gert í því sambandi. Af hverju eru bílastæðahús borgarinnar mörg hver hálftóm? Gjalds í bílastæðahúsum er krafist allan opnunartímann en gjald í bílastæðum á götum fylgir nokkurn vegin opnunartíma verslana. Bílastæðahús taka heldur ekki við greiðslum frá snjallkerfum. Bílastæðahús eru lokuð að nóttu, en bílastæði á götum eru alltaf tiltæk. Næturlokun veldur því að sækja þarf bílinn fyrir kl. 24:00 ella bíða til morguns. Sum bílastæðahús eru auk þess illa lýst og kuldaleg. Vísbendingar eru um að fólk sem komið er á og yfir ákveðinn aldur noti ekki bílastæðahús. Þau treysta sér ekki til að eiga við miðakerfi greiðsluvélanna. Bráðaþjónustu er ábótavant lendi fólk í vandræðum. Borgin hefur byggt bílastæðahús væntanlega með það að markmiði að þau verði nýtt sem best. Tillögur Flokks fólksins um betrumbætur hafa farið forgörðum með þeim rökum að tap Bílastæðasjóðs yrði svo mikið. Ef notkun bílastæðahúsa er eins lítil og raun ber vitni þá ætti það ekki að valda miklum kostnaði þótt þau (eitt eða fleiri) verði gjaldfrjáls á nóttunni. Á meðan hagkvæmara er að leggja bílnum úti en inni, leggja að sjálfsögðu fleiri úti en inni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að  áformum um nýja íbúðabyggð í Skerjafirði verði frestað á meðan rannsóknir fara fram:

Flugvöllurinn verður á þessum stað næstu 15 árin samkvæmt borgarstjóra. Flokkur fólksins telur að fresta eigi byggingaráformum í nágrenni flugvallarins þar til hann fer, fari hann þ.e.a.s. Fari flugvöllurinn opnast ólíkir möguleikar á byggðaþróun t.d. er þá hægt að hanna byggingar án takmarkana á hæð. Nú er verið að byggja í sérhverjum útnára flugvallarins. Fari flugvöllurinn verður annað umhverfi í boði og lítil ef nokkur þörf á landfyllingum. Í drögum að aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um skipulag byggðar í Skerjafirði kemur fram að umfang landfyllinga verður minnkað frá fyrri áætlun. En samt þarf landfyllingar fyrir annan áfanga uppbyggingar á svæðinu. Eyðilegging fjöru með landfyllingum er skerðing á náttúrulegu útivistarsvæði. Fá náttúruleg svæði má nýta árið um kring, en fjörur má alltaf nýta. Náttúrulegar fjörur við Reykjavík eru að verða af skornum skammti. Fimmtán ár í sögu Reykjavíkur er brot af sögu borgarinnar og þessi 15 ár mega vel líða án framkvæmda. Flokkur fólksins hefur verið með fyrirspurnir í málinu í skipulags- og samgönguráði sem var vísað frá með þeim rökum að spurt sé um pólitíska afstöðu kjörinna fulltrúa. Svo er auðvitað ekki. Skipulagsyfirvöld vilja einfaldlega ekki svara. Umhverfi flugvallarins er fyrst og fremst skipulagsmál en umræðan er vissulega á pólitískum vettvangi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins  að Reykjavíkurborg verði leiðandi þátttakandi í undirbúningi að stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs í umhverfis- og úrgangsstjórnunarmálum:

Flokkur fólksins er fylgjandi nýsköpun og vill styðja alla þá sem hana stunda. Umfang sem hér er boðað virkar all nokkuð og verður kannski varla alveg án útgjalda enda þótt stefnt sé að því að svo verði. Samkvæmt tillögunni á að hafa samstarf við fjölda aðila. Mikilvægt er að hér sé aðeins verið að tala um að bjóða upp á vettvang enda vill engin stækka báknið sem er nóg fyrir.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð borgarráðs 11. júní, þriggja mánaða uppgjör:

Ef litið er yfir árið 2019 þá vantar mikið upp á að rekstrarniðurstaða A-hluta sé eins jákvæð og áætlun gerði ráð fyrir sem skýrist af því að sala byggingarréttar var mun minni eða 2.302 m.kr. undir áætlun. Ekki tókst að halda áætlun 2019 og ekki gekk heldur að greiða niður skuldir, en samt var góðæri! Á þessum tíma var ekkert COVID-19 áfall og ástand. Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið við að sjá þriggja mánaðaruppgjör A- hluta, janúar til mars 2020. Borgin safnaði skuldum 2019 og hafa skuldir hækkað um fjóra milljarða á þremur mánuðum. Flokkur fólksins hefur áhyggjur af afkomu borgarinnar þegar fer að reyna á áhrif COVID-19 fyrir alvöru. Ekki er annað hægt en að vera uggandi fyrir næstu tveimur árum seinnihluta þessa kjörtímabils. Fyrri hluti þessa kjörtímabils hefur sannarlega ekki verið án áfalla, braggamálið, fleiri framúrkeyrsluverkefni, SORPA svo fátt sé nefnt. Ef ekki var hægt að áætla með nákvæmari hætti fyrir 2019 hvernig verða þá áætlanir fyrir þetta ár?

 

Bókun Flokks fólksins undi 17. lið fundargerðar mannréttindaráðs frá 11. júní og 14. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 3. júní er varða heimild handhafa stæðiskorta að leggja í göngugötur:

Skipulagyfirvöld borgarinnar gera nú hvað þau geta til að taka heimild af handhöfum stæðiskorta að aka göngugötur og leggja í sérmerkt stæði. Verið er að reyna að fá löggjafann til að breyta ákvæði 10. gr. umferðalaga sem kveður á um þessa heimild. Skipulagsyfirvöld óttast að stór hluti handhafa stæðiskorta muni fjölmenna á göngugötur en þeir eru um 8000 í borginni. Flokkur fólksins hefur einnig verið með málið í mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði enda mannréttindamál. Ef tillaga borgarinnar verður samþykkt af löggjafanum munu skipulagsyfirvöld loka fyrir þennan möguleika. Með því að setja fötluðu fólki skorður að það geti ekki komist inn í göngugötur á bíl sínum er verið að jaðarsetja fatlað fólk. Hreyfihamlaðir hafa barist fyrir þessari heimild í fjölmörg ár. Skipulagsyfirvöld hafa ekki haft samráð við hreyfihamlaða um þetta mál og miður er að skipulagsyfirvöld vilji ekki láta reyna á þetta. Það er firra skipulagsyfirvalda að halda að göngugötur fyllist af handhöfum stæðiskorta. Löggjafinn hefur veit handhöfum stæðiskorta heimild til að aka í göngugötur og leggja þar í merkt stæði. Margar hliðargötur koma ekki til greina fyrir stæði hreyfihamlaðra vegna halla og þrengsla. Skipulagsyfirvöldum ber að virða markmið Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tekið á aðgengismálum.

Borgarstjórn 15. júní 2020

Bókun Flokks fólksins við svari samgöngustjóra er lagt fram við fyrirspurn Flokks fólksins  um  hvort borgin ætli ekki að ð virða 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019:

Svar samgöngustjóra er lagt fram við fyrirspurn Flokks fólksins  um  hvort borgin ætli ekki að ð virða 1. mgr. 10. gr. umferðarlaga nr. 77/2019, með síðari breytingum, þar sem tiltekið er að umferð vélknúinna ökutækja er heimil um göngugötur, þ.á m. akstursþjónustu fatlaðra og handhafa stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða og  mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Segir í svari að göngugötur í Reykjavík séu merktar með áberandi umferðarmerkjum en ekki lokaðar að öðru leyti.  Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort það þýði að P merktir bílar geti ekið göngugötur og lagt í merkt stæði? Fram kemur einnig í svari að 3. apríl sl. sendi umhverfis- og skipulagssvið minnisblað til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, þar sem lýst var yfir áhyggjum af framkvæmd undanþáguákvæðis 1. mgr. 10. gr. laganna sem felur í sér að  handhöfum stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða, er heimilað að keyra um göngugötur. Óttast er um neikvæð áhrif þessa ákvæðis.
Deila má um neikvæð áhrif en fyrir liggur að  tryggja þarf jafnt aðgengi allra. Skipulagsyfirvöld eigi ekki að reyna að breyta orðalagi þessara lagagreinar. Það er ástæða fyrir því að löggjafinn setur þessa heimild og ætla má að mikil vinna liggi þarna að baki. Tryggja þarf hreyfihömluðum fullnægjandi aðgengi.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn í tengslum við tillögu  Flokksins um úrræði vegna barna sem sýna árásargirni og ofbeld. 

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið við fyrirspurn í tengslum við tillögu  Flokksins um úrræði vegna barna sem sýna árásargirni og ofbeld. Tillögunni var  hafnað af Ofbeldisvarnarnefnd á þeim forsendum að verið væri ,,að setja á fót stofnun um miðlæga þjónustu sem mætti þessari þörf‘‘. Þessu ber að fagna. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður draga fram þá staðreynd að við kortlagningu úrræða í tengslum við aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2018-2020 kom í ljós að ofbeldi barna í borginni hefur farið vaxandi en 40% aukning hefur orðið á tilkynningum þar sem tilkynnt er um barn sem beitir ofbeldi milli áranna 2016 (145 tilkynningar) og 2018 (204 tilkynningar). Það sem veldur áhyggjum er að í öll úrræði eru biðlistar, Eitt er að setja á laggirnar úrræði en þau ná stundum skammt ef ekki fylgir nægjanlegt fjármagn til að halda úti úrræðinu þannig að börn og foreldrar hafi auðvelt aðgengi að því og þurfi ekki að bíða mánuðum saman eftir aðstoð. Málum er forgangsraðað eftir alvarleika sem þýðir að mörg börn bíða lengi eftir aðstoð. Það hlýtur að teljast til mannréttindabrota að láta börn bíða lengi eftir nauðsynlegri aðstoð.

 

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að bæta réttindi barna  sem hefur verið vísað frá í mannréttindaráði.

Fyrir liggur að ekki allir foreldrar geta greitt aukalega fyrir þátttöku barna sinna í ferðum eða viðburðum. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun í garð barna á grundvelli efnahags foreldra þeirra samrýmist ekki Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um  banni við mismunun af nokkru tagi. Í aðalnámskrá grunnskólanna segir að ekki skuli mismuna börnum eftir  aðstæðum þeirra. Þegar kemur að skólanum, skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar eiga öll börn að sitja við sama borð.

Á bilinu 18- 35 þúsund búa við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru 7-10 þúsund sem eru í mikilli neyð er stærsti hluti þeirra einstæðir foreldrar, öryrkjar og innflytjendur. Þeir sem eru með ráðstöfunartekjur undir 239.000 á mánuði eig á hættu að búa við fátækt. Árið 2019 lagði borgarfulltrúi  fram fyrirspurn um þátttökugjöld í grunnskólum og hverjir væru að greiða þau. Í 5 skólum standa foreldrar straum af ferðum barna sinna  og í 13 skólum standa þeir straum að aðgengi á árshátíð og sumarhátíðum. Samkvæmt þessu eru vísbendingar um að  börn njóti ekki jafnræðis.

Mannréttinda- lýðræðis og nýsköpunarráð 11. júní 2020

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert til að m.a. stytta biðlista

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfinu er börnum hlíft við lengri bið á biðlista eftir sérfræðiþjónustu. Samstarfið myndi helst snúa að málum þar sem skimun hefur leitt í ljós sterkar vísbendingar um ADHD. Í samstarfinu fælist að sálfræðingur skóla og sérfræðingar ÞHS færu saman yfir málin og afgreiddu þau með viðeigandi hætti. Þessi hópur barna fengju þar með greiningu og viðeigandi meðferðarúrlausn fyrr. Með samstarfi þessara tveggja þjónustustofnana myndu biðlistar styttast og jafnframt stytta bið þeirra barna sem glíma við önnur þroska-, tilfinninga-, félags- og hegðunarfrávik, með eða án hamlandi einkenna ADHD.

Eitthvað verður að gera. Á biðlista eftir fyrstu og frekari þjónustu 1.2. 2020 voru 674 börn, 429 biðu eftir fyrstu þjónustu og 245 eftir frekari þjónustu. Mörg þessara barna hafa verið lengi á biðlista eftir fyrstu aðstoð. Þau börn sem þurfa frekari þjónustu fara aftur á biðlista. Eftir að hafa fengið aðstoð hjá skólaþjónustunni gæti niðurstaðan verið sú að vísa þarf máli þeirra til stofnanna á vegum ríkisins þ.m.t. ÞHS þar sem aðkoma barnalæknis er talin nauðsynleg að máli þeirra. Þá hefst enn á ný bið á biðlista.

Greinargerð með tillögunni má sjá hér

Samþykkt að vísa tillögunni til starfsfhóps með öllum greiddum atkvæðum

Bókanir í málinu:

Bókun Flokks fólksins við tillögu Flokks fólksins að skóla- og velferðaryfirvöld leiti eftir formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg.

 

Flokkur fólksins hefur lagt ýmislegt til sem borgarfulltrúi til að draga megi úr bið barna eftir sérfræðiþjónustu. Hér hefur verið lögð fram ein tillagan enn og hún er sú að skólaþjónustan komi á formlegu samstarfi við Þroska- og hegðunarstöð (ÞHS) í þeim tilgangi að vinna saman að málum barna þar sem t.d. aðkoma barnalæknis er nauðsynleg. Með samstarfi sem þessu myndi létta mjög á biðlistum á öllum stigum þjónustunnar. Flokkur fólksins hefur lagt m.a. til fjölgun á stöðugildum sálfræðinga. Sú tillaga var felld. Til að uppræta biðlista eða stytta þá, þarf m.a. að fjölga stöðugildum sálfræðinga enda hefur málum einnig fjölgað. Í dag er hver sálfræðingur/stöðugildi að þjónusta 1000 börn. Flokkur fólksins fagnar því að tillögunni er ekki vísað frá eða hún felld heldur fari hún í stýrihóp. Borgarfulltrúi býður stýrihópnum það að leita ráða hjá borgarfulltrúa Flokks fólksins sem hefur 30 ára reynslu sem sálfræðingur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar þess mjög að sjá þessa hluti lagaða fyri börnin í borginni og það verður að gerast sem fyrst. Ein af ástæðum þess að borgarfulltrúi bauð sig fram í borginni var einmitt til að hlutast til um að koma málum af þessu tagi í betra horf.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Leiðarljós þjónustu við börn eru forvarnir og snemmtæk þjónusta á vettvangi barnanna og fjölskyldu þeirra. Í því felst að veita börnum og fjölskyldum þeirra viðeigandi stuðning þar sem börnin eru á grundvelli þeirra þarfa og óska til að gera þeim kleift að nýta styrkleika sína og láta drauma sína rætast. Reykjavíkurborg býður nú þegar fjölbreytta þjónustu fyrir börn með sérþarfir og er í miklu þróunarstarfi með þá þjónustu meðal annars með framkvæmdaáætlun í barnavernd, Keðjunni og verkefninu Betri borg fyrir börn svo eitthvað sé nefnt. Að störfum er stýrihópur um heildstæða þjónustu við börn með sérþarfir, og er þessari tillögu vísað inn í þann stýrihóp þar sem hún mun fá meðferð en þar er einmitt verið að skoða samstarf við heilsugæslu og þroska- og hegðunarstöð.

 

Bókun Flokks fólksins bókar við tillögu um tímabundin frávik frá reglum um að heimilt sé að nota fjarfundabúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða:

Lagt er nú til á fundi borgarstjórnar að framlengja heimild til notkunar á fjarfundabúnaði og samþykkir Flokkur fólksins það. Fjarfundir og fjarfundabúnaður er fyrirkomulag sem er komið til að vera. Með möguleikum á að hafa fjarfundi skapast hagræðing og sparnaður. Hægt verður t.d. að draga að mestu leyti úr öllum utanlandsferðum á vegum borgarinnar og einnig mun með fjarfundafyrirkomulaginu vera hægt að draga úr útköllum vegna veikinda. Þetta býður upp á alveg ný tækifæri. Þær fréttir að fjarfundabúnaður sé mögulega ekki tryggur er bakslag. Upp hafa komið öryggisgallar í fjarfundabúnaði hjá einstaka fyrirtækjum. Óvelkomnir aðilar hafa ráðist inn í kerfið og komast inn á fundi. Flokkur fólksins vill nota þetta tækifæri og spyrja hversu vel borgin er búin að tryggja sig? Hversu vel eru fundarstjórar þjálfaðir nú þegar ljóst er að fjarfundabúnaður er kominn til að vera? Hvernig er öryggið í aðgangsstýringu? Hafa fundarstjórar fengið námskeið í lausnum? Er búið að greina þarfir borgarinnar í þessum efnum? Þessum spurningum er varpað fram hér í bókun en vænst er að þessi atriði verði öll könnuð til hins ýtrasta.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um neyðarstig almannavarna vegna COVID-19:

Borgarstjóri hefur farið yfir áhrifin af COVID-19. Það eru nokkrir hópar sem nauðsynlegt er að huga sérstaklega að í þessum aðstæðunum og sem segja má að hafi jafnvel orðið útundan. Þessir hópar þurfa svör m.a. til að eyða óvissu. Leigjendur Félagsbústaða hafa ekki fengið svör við hvort leiga verði felld niður í 2-3 mánuði eins og fordæmi er nú fyrir annars staðar. Boð um greiðsludreifingu er ekki nóg fyrir þennan hóp sem margir hafa átt um sárt að binda lengi. Eins er ekki vitað hvort dagforeldrar haldi óskertum tekjum sínum ef þurft hefur að loka vegna sóttkvíar. Eldri borgarar og öryrkjar telja sig margir hafa orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna áhrifa kórónuveirunnar. Horfa þarf til afleiðinganna á börn og ungmenni eftir langvarandi tímabil takmarkaðra félagstengsla sem fylgir skertu skóla, íþrótta- og tómstundastarfi. Okkur hefur verið send tillaga um að lengja tímabil vinnuskólans þannig að hann nái yfir allt sumarið. Þetta er bara eitt af mörgu sem þarf að huga að í þessu sambandi. Skorað er á borgarstjóra að vinna með minnihlutanum að raunhæfum lausnum fyrir alla. Fordæmi eru allt um kring ekki síst í löndunum sem hafa staðið sig hvað best í þessu fordæmalausa ástandi.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu Sjálfstæðisflokksins um að dýpka möguleika á snalllausnum:

Tæknilausnir á borð við fjarfundi eru í fullri þróun og voru innleiddar af brýnni nauðsyn og er vonandi eitt af því góða sem mun koma út úr þessum skelfilega faraldri. Fjarfundir munu eiga eftir að spara mikla peninga. Nú er t.d. hægt að nota þær tugir milljóna sem farið hefur í ferðir á vegum borgarinnar til að t.d. greiða niður skólamáltíðir. Sú tillaga sem hér er lögð fram er hvatning til að skoða frekari möguleika með fjarfundi. Nefnt er að nota reynsluna í skólakerfinu. Flokkur fólksins vill setja varann á þegar kemur að börnunum og grunnskólunum. Fjarkennsla má aldrei verða til þess að tækifæri verði tekið af börnum að koma saman. Börn eru nú þegar mikið í snjalltækjum. Snjalltæki koma aldrei í stað mannlegra tengsla. Nú þarf einmitt að stuðla að stöðugum og viðvarandi félagslegum tengslum. Ef horft er til verklegra greina þá er fjarkennsla erfið og í mörgum greinum ógjörningur. Loks vill Flokkur fólksins nefna að ganga skal hægt um gleðinnar dyr. Gæta þarf að öryggi þegar kemur að snjalllausnum enda hafa fréttir borist að því að óprúttnir aðilar hafi ráðist inn á fundi hjá einstaka fjarfundafyrirtækjum.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu íþróttastefnu til samþykktar:

Flokkur fólksins fagnar að í íþróttastefnunni er þó alla vega minnst á að endurskoða eigi reglur um frístundakort. Borgarfulltrúi Flokks fólksins getur ekki samþykkt þessa íþróttastefnu á meðan svo miklir annmarkar eru á reglum um frístundakort sem raun ber vitni. Í borgarráði 2. maí 2019 lagði Flokkur fólksins til rýmkun á reglum um frístundakort m.a. til að heimila notkun kortsins í stutt tómstundaverkefni. Tillagan var felld. Að skilyrða notkun frístundastyrksins í námskeið sem eru 10 vikur að lágmarki nær ekki nokkurri átt. Þetta skilyrði lokar fyrir alla nýtingu þess í sumar- og vetrarnámskeið sem vara skemur en 10 vikur. Sumarnámskeiðin eru flest stutt, allt niður í 4 daga. Í hverfi 111 þar sem flestir innflytjendur búa og fátækt er mest nær nýting ekki 70%. Með því að afnema skilyrði um tímalengd námskeiða þannig að hægt verði að nota frístundakortið á öll námskeið á vegum Reykjavíkurborgar aukast líkurnar á að fleiri börn geti og muni nýta frístundakortið. Vonandi er sá hópur sem vinnur að endurskoðun kortsins að vinna með þær tillögur um lagfæringar á reglum frístundakortsins sem Flokkur fólksins hefur lagt til.

Bókun Flokks fólksins við tillögu Miðflokksins að borgarstjórn samþykki að hefja nú þegar viðræður við ríkið til að hefja stórfellda uppbyggingu hjúkrunarrýma í borginni:

Mikil þörf er á að byggja íverustaði fyrir aldraða svo sem hjúkrunarrými og tryggja aðstoð við umönnun. Í alla þjónustu hafa verið biðlistar og eldri borgarar mátt bíða mánuðum saman á sjúkrahúsi þar sem ekki er húsnæði fyrir þá eða skortur er á heimaþjónustu. Eftir þjónustuíbúðum fyrir aldraða bíða nú um 140 manns. Reykjavíkurborg  hefur skipulagsvaldið og getur haft mun meira og markvissara frumkvæði í að byggja upp hjúkrunarrými í samvinnu við ríkið. Borgin stýrir þessum verkefnum. Flokkur fólksins leggur áherslu á skyldu meirihlutans að hefja viðræður við stjórnvöld séu þær þá ekki þegar í gangi. Borgin fjármagnar 15% af stofnkostnaði. Í framkvæmdasjóð aldraðra greiða allir í til 70 ára aldurs.  Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land og skal fé úr honum varið til byggingar stofnana fyrir aldraða, þjónustumiðstöðva og dagdvala. Það er ekkert sem bannar borginni að mynda meiri þrýsting en gert hefur verið undanfarin ár t.d. með enn ríkara framboði á lóðum á hentugum stöðum. Góð rök eru fyrir því að hefja framkvæmdir þegar framboð er á vinnuafli og atvinnuleysi með mesta móti.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir borgarráðs frá 19. og 26. mars og 2. og 16. apríl. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 6. og 23. lið í fundargerðinni frá 16. apríl:

Liður 23 í fundargerð borgarráðs frá 16 apríl, undir þessum lið vill Flokkur fólksins ræða um börn og ungmenni en áhrif og afleiðingar COVID-19 eiga eftir að birtast í mörgum myndum. Hvað börnin varða þarf að huga að þeim til skemmri og lengri tíma. Lengja þarf vinnuskóla Reykjavíkur þannig að það dekki tímabilið frá skólalokum til skólabyrjunar. Mikilvægt er að börn komist á sumarnámskeið. Breyta þarf reglum um frístundakort þannig að hægt sé a nota það á öll námskeið á vegum borgarinnar. Læknar og fagfólk m.a. á BUGL eru uggandi yfir stöðu barna sem glímdu við vanda fyrir. Gera þarf allt sem í okkar valdi stendur til að hindra að neikvæð áhrif og afleiðingar fylgi börnum okkar inn í framtíðina. Liður 6 í fundargerð borgarráðs frá 16. apríl; borgarfulltrúi vill taka undir þá skoðun og upplifun Landssambands eldri borgara (LEB) að þau hafi orðið útundan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Mun meirihlutinn sem dæmi taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingu heim til sín. Fjárhagsáhyggjur hrjá marga í Reykjavík, öryrkja sem dæmi, og var staða stórs hóps fólks slæm áður en veiran kom til.

 

Bókun Flokks fólksins undir 10 lið í fundargerð velferðarráðs og fundargerð menningar- íþrótta- og tómstundaráðs:

Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að umsækjandi um fjárhagsaðstoð verði fyrst að nýta réttinn til frístundakorts til að fá aðstoð fyrir barn sitt er óásættanlegt þar sem ákveðið var að gera nákvæmlega það sem tillagan kveður á um. Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn árið 2019. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði þegar tillaga var flutt í borgarstjórn. Formaður velferðarráðs veit vel að það væri ekki búið að ákveða að fella úr gildi þetta ákvæði í drögunum þ.e. að skilyrða aðstoð við að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti nema vegna tillögu borgarfulltrúa Flokks fólksins sem lagði þetta til, tillaga sem búin er að fara í gegnum borgarkerfið og kemur til afgreiðslu í velferðarráð. Fundargerð menningar- íþrótta og tómstundaráðs frá 6. apríl. Flokkur fólksins spyr, eru engin skoðanaskipti í þessu ráði? Fyrir Flokk fólksins sem ekki á fulltrúa í ráðinu er treyst á að fundargerðin gefi einhverja mynd af þeirri vinnu sem fram fer í ráðinu. Fundir eru lokaðir svo það sem þar fer fram kemur ekki til eyrna annarra. Óskað er því eftir að skoðanaskipti komist í bókanir svo hægt sé að fá nasaþef af hvað fram fer í ráðinu.

Bókanir í málinu:

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Engar breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð hafa verið samþykktar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Eins og kom fram í bókun Flokks fólksins um þessi undarlegu vinnubrögð að vísa tillögu frá sem er á sama fundi í raun samþykkt að framfylgja þá hefur ávallt verið talað um að um drög sé að ræða. Drögin hafa nú farið í umsagnarferil. Engin talaði um að komin væri endanleg samþykkt en líklegt þykir að þar sem tillagan er komin í drögin, þ.e. að fella á út þetta skilyrði eins og Flokkur fólksins lagði til að þá séu miklar líkur á að það verði samþykkt. Annað væri auðvitað stórfurðulegt.

Borgarstjórn 21. apríl 2020

Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 2. apríl:

Flokki fólksins finnst sérkennilegt að umsagnarbeiðni mannréttindaskrifstofu til aðgengis- og samráðsnefndar um fyrirspurn Flokks fólksins hafi verið afturkölluð. Fyrirspurnin var um hvort borgin ætli ekki að virða ákvæði nýrra umferðarlaga um að P-merktir bílar megi aka og leggja í stæði á göngugötum. Afturköllunin er sögð vera vegna þess verkefnið snúi að verksviði umhverfis- og skipulagssviðs. Það liggur í augum uppi að stundum eiga mál heima á fleiri en einum stað í borgarkerfinu. Í þessu máli ætti mannréttindaráð og aðgengisnefndin að vinna saman. Sjái mannréttindaráð að annað ráð/svið fer mögulega á svig við mannréttindi í verkum sínum á ráðið að grípa inn í en ekki verða meðvirkt í mistökunum. Flokkur fólksins hefur áður orðið var við að mannréttindaráð losar sig við mál yfir til annars ráðs án þess að skoða hvort mögulegt brot á reglum eigi sér stað. Skemmst er að minnast máls Flokks fólksins um mögulegt jafnréttisbrot vegna fyrirkomulags búningsklefa í Sundhöllinni. Það er skylda mannréttindaráðs að vera vakin og sofin yfir að reglur um mannréttindi og jafnrétti kynjanna séu virtar. Að öðrum kosti er ráðið varla að sinna því hlutverki sem því er ætlað.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 15. apríl:

Stækkun Hlemmtorgs og nýtt umferðarskipulag hefur verið auglýst. Talsvert hefur verið um athugasemdir bæði frá íbúum og hagsmunaaðilum. Meðal þeirra sem hafa gert athugasemdir er lögreglan. Athugasemdir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er á þá leið að deiliskipulagstillagan skapi vandkvæði fyrir þjónustu lögreglunnar og neyðarakstur til og frá lögreglustöð. Aðkoma að stöðinni sé verulega torvelduð og mikil slysahætta geti skapast því að sérrein fyrir hjólandi á að liggja næst útaksturhliði lögreglustöðvarinnar. Flokkur fólksins hefur ekki getað séð að þær lausnir sem skipulagsyfirvöld bjóða í þessu efni dugi til en reyna á að rýma sjónása til og frá porthliðinu með flutningi þess sem og að koma fyrir blikkljósum sem virkja á við neyðarútköll. Flokkur fólksins vill að viðbrögð lögreglu við þessum lausnartillögum skipulagsyfirvalda liggi fyrir með formlegum hætti áður en lengra er haldið.

Bókun Flokks fólksins við fundargerð velferðarráðs frá 1. apríl:

Meirihlutinn vísar frá tillögu en samþykkir hana samt. Að vísa frá tillögu Flokks fólksins um að afnema skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð fyrir barn, en á sama tíma taka ákvörðun að gera einmitt það sem lagt er til í tillögunni eru undarleg vinnubrögð. 1. október 2019 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að frístundakortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang og að þar með verði afnumið skilyrðið um að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð í tengslum við barn. Tillögunni var vísað til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og þaðan til velferðarráðs þar sem henni var vísað frá á fundi 1. apríl. Á þeim fundi voru breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð á dagskrá þar sem samþykkt var nákvæmlega það sem Flokkur fólksins leggur til í tillögu sinni, þ.e. að fella burt í 16. gr A. og B. ákvæði um að skilyrði fyrir aðstoð sé að umsækjandi nýti sér fyrst rétt sinn samkvæmt frístundakorti. Tvískinningurinn er algjör, að vísa frá tillögu sem samþykkt er að nota engu að síður. Þegar færi gefst á samstöðu, eðlilegri og faglegri meðferð, taka pólitískir fimleikar sviðið yfir. Er tilgangurinn að ala á sundrungu?

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ekki er þörf á að taka fyrir tillögur um það sem þegar hefur verið lagt til og margrætt. Nýjar reglur um fjárhagsaðstoð hafa ekki verið samþykktar en hafa verið í vinnslu mánuðum saman og hefur marg oft komið fram að í þeirri vinnu væri meðal annars verið að skoða hvernig styðja megi betur við börn sem búa við fátækt og þ.m.t samspil við frístundakortið.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er óskiljanlegt af hverju velferðarráð leggur þunga sinn í að sjá til þess að minnihlutafulltrúi fái að njóta sín eða geta mögulega sagt að hann hafi náð nokkuð af sínum málum í gegn. Hér var beinlínis rangt að vísa þessari tillögu frá sem er síðan samþykkt engu að síður að taka inn í reglur um fjárhagsaðstoð. Allt gerist þetta á sama fundi. Af tugum tillagna Flokks fólksins, má virkilega segja að þessi hafi verið samþykkt en samt er henni vísað frá. Hvernig á að skilja þetta? Flokkur fólksins bar þessa tillögu upp í borgarstjórn 2019 og hefur reynt að halda henni á lofti æ síðan sem og fleirum sem varða frístundakortið. Borgarfulltrúi minnist þess að hafa orðið fyrir háði og spotti þegar tillaga var flutt í borgarstjórn, spurt var af meirihlutanum „hvað borgarfulltrúi ætti við með henni, og þarna væri nú einhver misskilningur“ og eins kom athugasemd um að tillaga væri óljós. Flokki fólksins finnst það beinlínis sársaukafullt að horfa upp á varnir velferðarráðsfulltrúa meirihlutans að geta virkilega ekki samþykkt tillöguna og þakkað fyrir hana, enda er hún komin inn í drög af reglum um fjárhagsaðstoð. Þetta er góð tillaga og tímabært að byrja á því að laga afbökun sem orðið hefur á frístundakortinu í gegnum árin.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Embættisafgreiðslur:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ályktun Landssamband eldri borgara, LEB. Það er áberandi hvað eldri borgarar hafa orðið út undan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Hvar eru aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins? Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættri þjónustu við eldri borgara bæði á Alþingi og í Reykjavík en ekki haft árangur sem erfiði. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek og í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað. Flokkur fólksins tekur undir áskorun stjórnar Landsambands eldri borgara að sveitarfélögin taki upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín og lækki fasteignagjöld. Það er margt fleira sem velferðaryfirvöld borgarinnar geta gert til að létta undir með þessum hópi. Margir eldri borgarar hafa þurft að loka sig af og þar með einangra sig vegna hættu á smiti. Fjárhagsáhyggjum er ekki á slíkt bætandi.

Bókun Flokks fólksins liðnum Grænt bókhald Reykjavíkurborgar:

Sjá má í græna bókhaldi Reykjavíkur að notkun metans fer, ef eitthvað er, minnkandi, en framleiðsla mun stóraukast með nýju gas- og jarðgerðarstöðinni. Enn og aftur vekur það furðu að metan sé ekki nýtt til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fyrirtæki borgarinnar, SORPA bs. og Strætó bs., virðast ekki ráða við að nýta það metan sem er safnað á urðunarstöð í Álfsnesi og seinna í komandi gas- og jarðgerðarstöð. Ef það metan yrði t.d. notað til að knýja strætisvagna minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Nú er metaninu brennt á báli og á sama tíma keypt jarðefnaeldsneyti frá útlöndum. Hvað þetta atriði varðar er því voða lítið „grænt“.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Fyrstu aðgerðir Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna Covid-19:

Fram kemur undir þessum lið að hópur fólks hefur skyndilega þurft á húsnæði að halda. Eins og ekkert sé hefur borgin getað útvegað fólki þak yfir höfuðið. Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni. Ekki hefur verið hægt að leysa húsnæðismálin fyrir fjöldann allan af fólki í mörg ár eins og biðlistatölur hafa sýnt. Nú hefur Reykjavíkurborg tekið að sér það hlutverk að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Flokkur fólksins fagnar mjög þessu samstarfi við ríkið sem er því miður aðeins tímabundið og aðeins fyrir þröngt skilgreindan hóp. Flokki fólksins finnst hins vegar vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn næði saman við félagsmálaráðherra um að koma fólki sem þess þurfa undir þak. Á öllum tímum hefði þessi og síðasti meirihluti getað haft frumkvæði að því að gera sambærilegt samkomulag við ríkið um lausn eins og þessa fyrir þá sem þurfa.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Tryggvagata endurgerð:

Sú endurgerð sem hér um ræðir mun þýða það að út þurrkast fjölda bílastæða. Tryggvagata verður einstefna til vestur og engin almenn bílastæði verða eftir framkvæmdirnar en stæði. Með því að fjarlægja öll bílastæði er aðgengi almennings að þeim stofnunum og öðrum þjónustuaðilum við götuna, þá sérstaklega eldri borgara skert. Aðeins er gert ráð fyrir örfáum bílastæðum fyrir fatlað fólk. Sífellt er talað um að bílastæðakjallarar leysi öll bílastæðamál. Bílastæðakjallarar eru vissulega nauðsynlegir en staðreyndin er sú að ekki allir vilja fara með bíl sinn í bílastæðakjallara. Flokkur fólksins hefur verið með tillögur sem lúta að því að hvetja fólk til að nota bílastæðahús t.d. með því að hafa frítt í þau um helgar og jafnvel að nóttu enda er nýting þeirra slæm. Þeim tillögum hefur öllum verið vísað frá eða felldar. Flokki fólksins finnst að oft gleymist þegar kemur að skipulagsmálum í Reykjavík að hafa samráð við borgarbúa og gæta að því að aðgengi á svæðið sem um ræðir sé auðvelt öllum.

Bókun Flokks fólksins við kynningu á sviðsmyndagreinngu vegna fyrstu aðgerða Reykjavíkurborgar til viðspyrnu vegna Covid-19:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram nokkrar viðspyrnutillögur og ekki er alveg ljóst hvernig afgreiðslu sumar þeirra muni fá. Ein af þessum tillögum var að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar hafa starfað sem framlínustarfsfólk og hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kæmi mögulega smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Fram kemur að ákveðin vinna sé í gang hvað varðar dagforeldra og muni sveitarfélög verða samferða í þessum aðgerðum. Ekki er vitað meira um hvað verður um málefni dagforeldra. Dagforeldrar geta ekki beðið mikið lengur eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið. Aðrar áhyggjur Flokks fólksins eru hversu út undan leigjendur hjá Félagsbústöðum hafa orðið í öllu þessu ástandi. Ekki hafa borist svör við tillögu Flokks fólksins um niðurfellingu leigu í 2-3 mánuði eins og Flokkur fólksins lagði til strax í upphafi COVID-faraldursins. Boð Félagsbústaða um greiðsludreifingu nær allt of skammt. Ganga þarf lengra og fyrir því er nú þegar fordæmi hjá öðru leigufélagi.

 

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvað meirihlutinn hyggist gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra áhrifa af Covid-19

Flokkur fólksins spyr hvað hyggst borgarmeirihlutinn gera fyrir eldri borgara vegna neikvæðra COVID-19 áhrifa á samfélagið. Hvað af þeim aðgerðum sem borgin hyggst grípa til snerta hagsmuni eldri borgara Reykjavíkur nákvæmlega? Mun borgin koma á móts við eldri borgara er varðar þjónustu vegna mötuneyta, verslana, apóteka og leigubíla? Mun borgin taka upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín? Hvað annað ætlar borgin að gera til að hjálpa eldri borgurum í þessum aðstæðum. Miklar áhyggjur eru af mörgum eldri borgurum núna. Sumir hafa einangrast. Hafa skal í huga að 10 þúsund eldri borgarar búa einir. R20040100


Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð endurskoðunarnefndar við ummælum Einars S Hálfdánarsonar að skýrsla um braggan hafi verið stungið undir stól

Haft er eftir Einari S. Hálfdánarsyni í Fréttablaðinu 14. apríl að braggaskýrslunni hafi verið stungið undir stól og að „það sé ekki nefndinni til sóma að hafa ekki fylgt braggaskýrslunni eftir eins og endurskoðunarnefndum ber að gera þegar vart verður við mögulega sviksemi í stofnunum sem undir þær heyra“ (haft eftir Einari í Fréttablaðinu). Flokkur fólksins óskar eftir að fá viðbrögð hinna tveggja nefndarmannanna við orðum Einars. Flokkur fólksins óskar jafnframt eftir að fá upplýsingar um hvað hefur verið rætt um í nefndinni er varðar braggaskýrsluna og að sum brotin sem þar er lýst hafi mögulega varðað við ákvæði hegningarlaga um umboðssvik. Hér er kallað eftir gegnsæi og hreinskilni og að allt sem endurskoðunarnefndin hefur rætt um í þessu sambandi komi fram í dagsljósið. Endurskoðendur bera mikla ábyrgð og á þá er treyst. Það má lesa úr orðum Einars að nefndin var ekki sammála um hvort rannsaka ætti braggamálið af þar til bærum yfirvöldum. Nefndin kom fyrir borgarráð þegar braggamálið var í algleymingi. Nefndin var spurð um þetta atriði ítrekað m.a. af fulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins og var svarið ávallt það sama að ekki væri talið að misferli ætti sér stað og þar að leiðandi ekki þörf á frekari rannsókn.

Fyrirspurn Flokks fólksins um hvort endurskoðunarnefnd leggi til að breyting verði gerði á reikningsskilaaðferðum Félagsbústaða í kjöfar þess að Einar Hálfdánason hefur sagt sig úr nefndinni vegna þeirra:

Einar S. Hálfdánarson endurskoðandi hefur sagt sig úr endurskoðunarnefnd Reykjavíkurborgar m.a. vegna þeirrar reikningsskilaaðferða sem notaðar er hjá Félagsbústöðum. Félagsbústaðir eru gerðir upp samkvæmt IFRS-staðli. En þar sem félagið er óhagnaðardrifið ætti ekki að nota þennan staðal samkvæmt Einari og vísar hann í minnisblað KPMG frá árinu 2012 þar sem hann segist efast um að fyrirkomulagið standist íslensk lög. Félagið á nú tæpar 2000 íbúðir. Þær eru gerðar upp á gangverði en ekki afskrifuðu kostnaðarverði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort endurskoðunarnefndin, það sem eftir er af henni, hyggist leggja til breytingar á reikningsskilaaferðum sem notaðar eru þannig að íbúðirnar verði afskrifaðar á kostnaðarverði en ekki gerðar upp á gangvirði? Borgarfulltrúi Flokks fólksins kom inn á þetta í tillögu sinni um að gerð yrði rekstrarúttekt á Félagsbústöðum í borgarstjórn árið 2018 m.a. í ljósi misvísandi upplýsinga um annars vegar hagnað og hins vegar ríka fjárþörf. Í greinargerð með tillögunni var óskað eftir svörum um hvernig hinn mikli hagnaður félagsins er myndaður og hvernig þessir liðir eru færðir í bókhaldi félagsins.

Fyrirspurn Flokks fólksins um af hverju borgaryfirvöld hafa ekki gripið til sömu ráða og nú við að koma öllum þeim sem ekki eiga heimili undir þak

Árum saman hefur ákveðinn hópur verið heimilislaus, barnafjölskyldur, öryrkjar og eldri borgarar sem ekki hefur verið hægt að útskrifa af sjúkrastofnunum vegna húsnæðisleysis. Fjölmörg dæmi eru um að fólk með geðraskanir hafi nánast verið á götunni, gistandi hér og þar og fengið að halla höfði hjá vinum og ættingjum nótt og nótt. Af hverju hefur þessu fólki ekki verið útvegað þak yfir höfuðið í öll þessi ár? Nú ætlar Reykjavíkurborg að taka það hlutverk að sér að setja upp sérstaka neyðarmóttöku sem byggir á því að allir þeir sem eru í húsnæðisvanda geta leitað beint þangað og þeim verði skaffað húsnæði til næstu mánaða. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst vont til þess að vita að farald þurfti til, til að borgarmeirihlutinn ætti samtal við félagsmálaráðherra um að koma öllum undir þak. Á öllum tímum hefði borgarstjóri getað haft frumkvæði að því að gera samkomulag við ríkið um lausn sem þessa en gerði ekki. Flokkur fólksins óskar svars við spurningunni, af hverju var ekki gripið til þessa ráðs fyrir löngu á sama tíma og andvara- og sinnuleysi borgaryfirvalda gagnvart heimilislausum og fátæku fólki er gagnrýnt þegar kemur að húsnæðismálum. Ljóst er að vel hefði verið hægt að hjálpa öllum heimilislausum á landsvísu óháð lögheimili hefði áhugi verið fyrir hendi.

Tillaga Flokks fólksins að oddvitar og formenn ræði formlega saman um með hvaða hætti meiri- og minnihluti geti lagt drög að breyttu vinnulagi sem stuðlar að samvinnu frekar en sundrungu

Flokkur fólksins leggur til að oddvitar flokkanna og formenn fagráða ræði formlega saman um með hvaða hætti meiri- og minnihluti geti lagt drög að breyttu vinnulagi til að stuðla að samvinnu frekar en sundrung. Þessi tillaga er lögð fram í kjölfar reynslu borgarfulltrúa Flokks fólksins í velferðarráði, að hafa lagt fram tillögu sem ákveðið er að framfylgja á sama fundi og tillögunni sjálfri er vísað frá. Borgarfulltrúi kom í borgarstjórn til að láta gott af sér leiða og finna leiðir og lausnir til að bæta þjónustu við borgarbúa. Það eru því vonbrigði að horfa á fjölda mála, hugmynda í formi tillagna ýmist vísað frá eða felld án þess að fá nokkra skoðun. Steininn tók úr þegar tillaga Flokks fólksins um að „afnema skilyrðið að nýta verði rétt til frístundakorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð“ var vísað frá en á sama fundi ákvað meirihlutinn að gera breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð í samræmi við tillöguna. Hér hefði farið vel á því að samþykkja tillögu Flokks fólksins enda varð ákveðið að framfylgja henni. Að horfa á vinnubrögð sem þessi vekur upp spurningu um hvað liggi að baki, hvort hér sé verið að leika leiki eða skjóta pólitískar keilur. eða hvort það sé meginmarkmið þessa meirihluta að gæta þess umfram allt að enginn minnihlutafulltrúi fái nokkurn tímann að njóta sín í borgarstjórn eða geta sagt að hann hafi náð nokkur í gegn?

Tillaga Flokks fólksins að umsækjendur um starf borgarritara komi inn á fund borgarráðs til þess að fulltrúar geti kynnst þeim og spurt spurninga

Tillaga um þeir umsækjendur sem koma til greina í starf borgarritara komi inn á fund borgarráðs. Flokkur fólksins ítrekar beiðni um samtal við þá sem koma til greina í starf borgarritari. Lagt er til að þeir sem komi til greina komi á fund borgarráðs og gefi fulltrúum tækifæri til að eiga samtal og spyrja umsækjendur spurningar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst brýnt að kjörnir fulltrúar fái að taka einhvern þátt í vali á nýjum borgarritara. Fulltrúa Flokks fólksins finnst ekki duga að fá upplýsingar um þá sem koma til greina í starfið með skriflegum hætti. Minna skal á að borgarritari er embættismaður minnihlutafulltrúa jafnt og meirihlutafulltrúa. Fulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að fá tækifæri með beinum hætti til að m.a. fullvissa sig um að viðkomandi hafi hvergi borið niður fæti opinberlega í stjórnmálum eða verið tengdur stjórnmálaflokkum og að hann/hún sé eins hlutlaus og manneskja getur mögulega verið. Aðeins þannig mun viðkomandi geta starfað fyrir og með öllum borgarfulltrúum jafnt. Athuga skal að borgarfulltrúar minnihlutans höfðu enga aðkomu að gerð reglna um ráðningarferil sem fylgt er í þessu sambandi. Þær reglur voru samdar og ákveðnar einhliða í það minnsta án aðkomu minnihlutafulltrúa. R20030119

 

Tillaga Flokks fólksins um að velferðaryfirvöld stofnsetju stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda í svipaðri mynd og rekin hefur verið hjá SÁÁ

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill gera aðra tilraun að leggja fram tillögu um að velferðaryfirvöld stofni stuðningsþjónustu á vegum Reykjavíkurborgar fyrir börn alkóhólista í svipaðri mynd og rekin hefur verið á vegum SÁÁ. Tillagan er lögð fram aftur vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ sem m.a. sinntu þjónustu við börn alkóhólista og vímuefnaneytenda. Tillagan var áður lögð fram 16. nóvember en vísað frá. Börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda hefur aðallega verið sinnt af sálfræðingum SÁÁ og hefur ávallt verið langur biðlisti eftir þjónustunni. Nú er engin sértæk þjónusta lengur í boði fyrir börn alkóhólista og vímuefnaneytenda vegna uppsagna sálfræðinga hjá SÁÁ. Úrræði af þessu tagi þarf að vera til og standa öllum börnum alkóhólista og vímuefnaneytenda til boða án tillits til hvort barn búi hjá foreldrinu sem glímir við sjúkdóminn eða hefur umgengni við það, einnig án tillits til þess hvort þau eru sjálf metin í áhættuhópi eða ekki. Ekki ætti að vera þörf á tilvísun í úrræðið. Stuðningsþjónustunni yrði jafnframt ætlað að styðja við foreldrana með ráðgjöf og fræðslu eftir atvikum. R19110180

Borgarráð 16. apríl 2020

Tillaga áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar hvort sem er að völdum þeirra sjálfra, foreldra barnanna, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar starfa nú sem framlínustarfsmenn en ennþá hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kemur smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Dagforeldrar eru því óvissir um sína stöðu og óöruggir um starfsöryggi sitt. Dagforeldra er farið að lengja eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum um hvernig málum skuli háttað, hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið og hvernig verður með endurgreiðslur til foreldra ef dagforeldrið verður veikt og/eða verður að loka daggæslunni vegna sóttkvíar. Hver verður launatrygging dagforeldra? Margir dagforeldrar sem starfa tveir saman eru hjón. Ef fjölskylda eins barns er smitað eða grunur leikur á að sé mögulega smitað verða allir að fara í sóttkví. Það hefur eðli málsins samkvæmt áhrif á alla, dagforeldra, foreldra barnanna og börnin. R20040019

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar aukalegur innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda mars með eindaga 1. apríl.

Flokkur fólksins og Miðflokkurinn leggja til að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða annar aukalegur innheimtukostnaður vegna greiðslufalls fasteignagjalda mars með eindaga 1. apríl. Ljóst er að margir rekstraraðilar, sérstaklega í miðbænum, þar sem meðal annars er mikið af veitingastöðum, kaffihúsum og gististöðum, hafa orðið illa úti í því samgöngubanni og fækkun ferðamanna vegna COVID-19 veirunnar. Auk þess hefur greiðslukeðjan rofnað þar sem greiðslur til rekstraraðila hafa ekki borist frá greiðslumiðlunarfyrirtækjum. Þess vegna er því beint til borgaryfirvalda að reikna ekki dráttarvexti eða annan innheimtukostnað vegna greiðslufalls fasteigngjalda mars 2020 með eindaga 1. apríl. Nú hefur samgöngubannið verið framlengt og víst að margir munu berjast í bökkum meira en nokkru sinni. Flestir rekstraraðilar eiga i vandræðum núna. Þeir leita eftir þeim lausnum sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á í samstarfi við sinn viðskiptabanka. Úrræði Reykjavíkurborgar um að létta af rekstraraðilum fasteignagjöldum frá og með gjalddaga í apríl nýtist ekki eins vel og halda mætti því greiðslufallið er staðreynd. Flokkur fólksins og Miðflokkurinn beina því til Reykjavíkurborgar að ekki verði reiknaðir dráttarvextir eða innheimtukostnaður vegna fasteignagjalda er gjaldfalla frá og með gjalddaga mars 2020 með eindaga 1. apríl 2020. R20040012

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öðruvísi upplegg en það sem kynnt hefur verið til að vinna úr þeim COVID-19 viðspyrnutillögum sem lagðar hafa verið fram af borgarfulltrúum/flokkum:

Tillaga Flokks fólksins um öðruvísi upplegg en það sem kynnt hefur verið til að vinna úr þeim COVID-19 viðspyrnutillögum sem lagðar hafa verið fram af borgarfulltrúum/flokkum. Borgarfulltrúi leggur til að það upplegg sem notað verður til að vinna úr tillögum verði með þeim hætti að unnið verði í smærri hópum sem dregið verði í og að dregið verður einnig hvaða tillögur hóparnir vinna með. Með þessum hætti verður hægt að tryggja aðkomu minnihlutans að málum og möguleikum þeirra að hafa eitthvað um þau að segja og yfir höfuð hafa einhver áhrif á viðspyrnuna og mótvægisaðgerðir. Markmiðið er að ná sem breiðustu sátt til að mæta þörfum fólksins í þessum aðstæðum. Hér er tækifæri til að leggja völd og allt valdabrölt til hliðar og prófa nýjar leiðir, leiðir það sem unnið er saman og aðra leið en að minnihlutinn leggi fram tillögur sínar sem flestum er síðan vísað frá eða þær felldar. Við svoleiðis aðstæður er ekki von á að borgarfulltrúar minnihlutans upplifi að þeir séu að taka alvöru þátt í vinnunni. R20040014

Frestað.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu (M) um kaup Strætó bs á metanvögnum:

Tillaga um kaup Stætó á metanvögnum er vísað frá. Hér er við hæfi að rekja tilraunir Flokks fólksins að benda á vanhugsun meirihlutans og SORPU að koma ekki metani í notkun og velja frekar að sóa því. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögur, fyrirspurnir og fjölda bókana í þessu sambandi. Hinn 18. juní 2019 lagði Flokkur fólksins til að SORPA hætti brennslu á metani og það yrði nýtt sem eldsneyti á metanvagna Strætó bs. Viðbrögð meirihlutans voru að „stjórn Strætó meti hvaða leiðir eru hagkvæmastar til að nýta vistvæna orkugjafa”. Í júlí 2019 lagði Flokkur fólksins fram fyrirspurn um hvort Strætó hyggðist skoða metan sem orkugjafa í vagnanna. Í svari segir að „til stæði að fá ráðgjafa til að greina mismunandi orkugjafa”. Í september 2019 lagði Flokkur fólkisns fram fyrirspurn um hvað eigi að gera við metan þegar offramboð verði með nýrri stöð í Álfsnesi. Í svari segir „að SORPA hafi innt sveitarfélögin eftir áætlunum um nýtingu á metani.” Á fundi 3. mars lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að selja ætti metan á kostnaðarverði. Í bókun meirihlutans var sagt að „tillagan væri vanhugsuð og myndi setja samkeppni í uppnám”. Hinn 12. mars var lögð fram fyrirspurn um hvort ekki eigi að kaupa fleiri metanvagna til að nýta allt það metan sem Sorpa framleiðir.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu (M) um að Laugavegur og Skólavörðustígur verði opnaðir að nýju fyrir umferð:

Í ljósi þess ástands sem þjóðin er nú að fara í gegnum er allt breytt þ.m.t. aðstæður á Laugavegi og Skólavörðustíg. Spurning er hvernig þróunin verður og má ætla að langt verði þar til sjá má til lands hvað verður um þessar gömlu, grónu götur. Það sem lifir nú helst í hugum fólks er hversu harkalega var gengið gegn óskum og vilja rekstraraðila sem þrábáðu um að haft yrði samráð við sig. Það var hunsað. Staðreyndin er sú að við lokun þessara gatna fyrir umferð allt árið um kring hrundi verslun hjá stórum hluta verslunareiganda. Aðeins þær sem höfða til ferðamanna lifðu. Nú eru ekki ferðamenn lengur og verða sennilega ekki meira þetta árið. Umræðan um lokun gatna hefur því tekið á sig aðra mynd enda hvorki gangandi né akandi fólk lengur á ferð, alla vega ekki um sinn. Hreyfihamlaðir hafa einnig látið í sér heyra. Þeim hefur ekki bara fundist erfitt að komast að búðarhurð heldur að komast í bæinn og finna sér stæði nálægt þeim stað sem þeir eiga erindi. Kolaportið var einn þeirra staða sem barðist orðið í bökkum, markaður sem áður var fullur af fólki og lífi. Með því að þverkallast með þessu hætti við að hlusta á borgarbúa var staðan orðin slæma áður en veiruváin skall á.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að fundargerðir verði birtar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið:

Flokkur fólksins lagði til að fundargerðir nefnda og ráða borgarinnar verði komnar á vefi borgarinnar eigi síðar en sólarhring eftir að fundi er slitið. Það er mikilvægt að koma fundargerð í hendur borgarfulltrúa sem fyrst eftir fund hvernig svo sem það verði gert og fyrir borgarbúa er sjálfsagður réttur þeirra að geta lesið fundargerðir á vef borgarinnar sem fyrst eftir að fundi lýkur. Tillagan er lögð fram að gefnu tilefni þar sem borgarfulltrúi hefur a.m.k. í tvígang kallað eftir fundargerð tæpri viku eftir fund. Tölfræðin sem birt er í svari segir að langflestar fundargerðir séu birtar samdægurs eða næsta dag eftir að fundargerð berst skrifstofunni. En hvenær berast þá fundargerðir skrifstofunni? Sú tölfræði er ekki birt i svari. Það er alveg ljóst að tafir hafa verið í að senda fundargerðir til skrifstofunnar. Borgarfulltrúi skal ekki taka óþarfa tíma starfsmanna í að safna saman þeirri tölfræði. Staðreyndin er sú að það hefur verið einhver losaragangur á þessu t.d. hjá mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráði. Verði tafir á að senda út fundargerð af einhverjum orsökum væri gott að fá að vita það. Sé ekki hægt að fullklára fundargerðina væri líka í lagi að fá send drög í netpósti

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu íþrótta- og tómstundasviðs um að gera samning við Farfugla vegna langtímastæðisins í Laugardal:

Nú hefur fulltrúi Flokks fólksins ekki fengið upplýsingar lengi um hvernig þetta hefur gengið í Laugardalnum með stæði fyrir húsbíla og hvernig fólkinu þar líður. En fram kemur að þetta hafi gengið vel. Nú er lagt til að haldið verður áfram með sama fyrirkomulag. Þetta er skammtímalausn. Best væri að finna aðstöðu fyrir húsbíla í langtímastæði sem fyrst og hefur verið bent á ýmsa staði í borginni. Þetta þarf að vinnast vel með þessum hópi og í breiðri og góðri sátt. Vissulega kostar meira að setja upp nýtt svæði. Í því ástandi sem nú ríkir er ekki að vænta að Laugardalurinn verður mikið nýttur enda engir ferðamenn. Í því ljósi er e.t.v. ekki skynsamlegt að byrja á að byggja eitthvað nýtt.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um tímabundna breytingu á innheimtureglum Reykjavíkurborgar vegna C-19:

Flokkur fólksins þakkar kynningu fjármálastjóra og vill bæta við mikilvægi þess að komið verði á móts við alla, heimilin og fyrirtæki. Flokkur fólksins sér fyrir sér að bæði þurfi almennar- og sértækar reglur/aðgerðir. Þróun mála er ekki ljós á öllum sviðum, rennt er blint í sjóinn með sumt. Borgarfulltrúi telur að sumar tilslakanir megi vera afturvirkar um mánuð enda er Covid ekki að byrja núna. Sértækar reglur eru í gildi inn á sviðum. Það er ásættanlegt. Flokkur fólksins fagnar því að innheimta eigi ekki gjöld fyrir skóla- eða frístundavist eða nokkuð annað sem börn hafa ekki getað mætt í að fullu vegna komu Covdi-19. Þetta var ein af Covid-tillögum Flokks fólksins. Að öðru leyti hljóma breytingarnar vel sem fjármálaskrifstofan hefur kynnt. Þegar litið er til borgarstjórnar leggur borgarfulltrúi Flokks fólksins áherslu á að allir fái að vera með í þeirri vinnu sem framundan er og þegar rætt er við sviðin þá sé rætt líka við fulltrúa minnihlutans. Markmið borgarstjórnar ætti ávallt að vera að ná sem breiðustu sátt til að mæta þörfum fólksins í þessum sem öðrum aðstæðum. Allir borgarfulltrúar eiga að fá að vera með enda erum við öll saman í þessu og kosin til að sinna þessu hlutverki sem og öðru í þágu borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs vegna samþykktar skipulags- og samgönguráðs á umsókn um breytingu á deiliskipulagi Esjumela vegna lóða 6-8 við Koprarsléttu:

Við lestur á athugasemdum húsfélagsins telur fulltrúi Flokks fólksins að hér sé um að ræða réttmæta gagnrýni íbúanna. Um er að ræða að nýta Koparsléttu 6-8, Reykjavík, undir malbikunarstöð. Húsfélagið Koparslétta 10 er hins vegar ekki skilgreint sem atvinnuhúsnæði en eigendur að húsnæðinu eru fjölskyldufólk sem notar eignina sem geymslu fyrir húsbifreiðar, fellihýsi og sambærilegt, bifreiðar og fleiri muni. Hér er um málefnalega gagnrýni að ræða sem hlusta þarf á. Íbúum þykja mótvægisaðgerðir ófullnægjandi og illa skilgreindar. Hér telur Flokks fólksins mikilvægt að staldra við og hlusta á íbúanna. Flokkur fólksins hefur oft tjáð sig í bókunum um að viðleitni Reykjavíkurborgar til að veita hagsmunaaðilum andmælarétt sé stundum meira í orði en á borði.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs umhverfis- og skipulagssviðs á umsókn um breytingu á deiliskipulagi reits á Frakkastíg vegna lóða við Laugaveg og Vatnsstíg:

Hér er um stóra aðgerð að ræða, breyting á deiliskipulagi reits 1.172.1, Frakkastígsreits, vegna nokkra lóða við Laugaveg og 4 við Vatnsstíg. Mikil röskun myndi fylgja þessari aðgerð. Spurningin er hvort íbúðir standi undir þessu, þetta eru jú bara venjulegar gistiíbúðir. Í ljósi COVID-19 má einnig spyrja hvort fólk vilji fara út í að byggja íbúðahótel. Staðan er viðkvæm og ekki ætti að veita framkvæmdarleyfi fyrr en ljóst er að framkvæmdin er fjármögnuð að fullu. Flokkur fólksins hefur lengi haft áhyggjur af miðbænum eins og hann stefndi í áður en COVID-19 skall á. Eftir COVID-19 er ekki gott að sjá hver þróunin verður, hvernig verslun sem dæmi eigi eftir að þróast. Tugir verslunareigenda höfðu þá þegar flúið miðbæinn áður en faraldurinn skall á. Íbúasamtök miðborgarinnar vara jafnframt við fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi svæðisins. Stefna borgarinnar er aukið íbúalýðræði og því hvetur Flokkur fólksins skipulagsyfirvöld til að vanda sig í samskiptum við fólk og minnir á að í meirihlutasáttmála stendur að vinna á með fólkinu í borginni en ekki á móti því.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu synjunar skipulags- og samgönguráðs á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Breiðholts 1 um flutning grenndargáma:

Fram kemur í gögnum málsins að í ljósi athugasemda sem komu fram við auglýstri tillögu þá sé lagt til að skipulagstillagan um færslu á núverandi grenndarstöð verði felld niður. Þessu ber sannarlega að fagna enda var hugmyndin slök og olli fólki í hverfinu miklu uppnámi, svo miklu að 60 manns skrifuðu undir í mótmælaskyni. Kannski hjálpaði umsögn íbúaráðsins til hér en þar kemur fram að tillagan hafi verið illa unnin og í henni hafi verið rangar upplýsingar varðandi staðhætti og þær breytingar á deiliskipulagi sem voru fyrirhugaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir framlagningu kjarasamninga, Eflíngar, Rafiðnaðarsambandsins, Sambands stjórnendafélaga og Sameykis Stéttarfélags til samþykktar:

Kjarasamningar Reykjavíkurborgar og Eflingar stéttarfélags sem og fleiri samningar eru hér lagðir fram til afgreiðslu. Eftir langan og strembinn leiðangur tókst að landa samningum. Mest um vert var að lægstlaunaði hópurinn og Efling stéttarfélag sem og hin stéttarfélögin voru sátt með samningana. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að þetta samningsferli hafi verið lengra en það þurfti að vera. Ekkert ferli sem þetta er svo sem auðvelt, en þarna var gengið óþarflega langt í að halda að sér höndum svo stundum virtist jaðra við stífni og ósveigjanleika af hálfu borgarinnar. Borgin var einfaldlega lengst af ekki að bjóða nógu vel. Um þetta hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins tjáð sig áður. Áhrif verkfallsins voru víðtæk og þeir sem fundu mest fyrir þeim voru án efa leikskólabörn og foreldrar en einnig margir fleiri. Árangri má fyrst og fremst þakka þrautseigu og heiðarleika stéttarfélagana eins og Eflingarfólks, sem aldrei kvikuðu frá sannfæringu sinni um að kröfur þeirra voru réttmætar og eðlilegar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Embættisafgreiðslur liður 10 og 11:

Hér er verið að vísa tveimur COVID-19 viðspyrnutillögum áfram til afgreiðslu. Nú reynir á að Félagsbústaðir geri það eina rétta sem er að fella niður leigu í t.d. 3 mánuði og frysta skuldir fólks. Það síðasta sem fólk þarf nú á að halda eru fjárhagsáhyggjur og leigjendur hjá Félagsbústöðum eru afar viðkvæmur hópur. Nú senda Félagsbústaðir allar skuldir í innheimtu hjá lögfræðingum. Flokkur fólksins hefur áður lagt til að Félagsbústaðir falli frá þessu og gefi fólki aftur tækifæri til að semja um skuldir sína á skrifstofunni. Sú ákvörðun að beina öllum ógreiddum leigugjöldum til innheimtufyrirtækis var vond og sársaukafull fyrir marga. Vitað er að þegar skuld er komin í innheimtu hjá lögfræðingum þá leggjast innheimtugjöld ofan á skuldina. Nú ríkir erfitt ástand hjá mörgum vegna COVID-19 og sýnt þykir að einhverjir missa vinnu sína eða mæta öðrum erfiðleikum sem veiruváin veldur fólki og samfélaginu. Margir leigjendur eru öryrkjar. Síðustu vikur hafa reynt á og það myndi hjálpa mikið að fella niður leigu í 2-3 mánuði. Mikilvægt er að fyrirtæki eins og Félagsbústaðir sýni sveigjanleika, lipurð og mannlegheit og umfram allt taki mið af þessum erfiðu aðstæðum sem nú ríkja.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð Sorpu frá 23. mars, undir lið 1:

Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort þetta eigi að kallast fundargerðir og hvort enginn í stjórn hafi skoðanir á málum sem rædd eru á stjórnarfundum? Það vantar efni í fundargerðirnar annað en upptalningu á málum. Stjórnarmenn eru á launum og þess er vænst að þeir vinni fyrir launum sínum. Í lið 1 í fundargerð 23. mars er sagt frá því að Þröstur Guðmundsson hafi gefið álit sitt á stöðu verkefna í Álfsnesi og á móttökustöð. Hvert var sem dæmi álit Þrastar? Einnig kemur fram að farið er yfir tilllögur stjórnenda SORPU til hagræðingar og málið sé rætt. Borgarfulltrúi spyr hvaða tillögur eru það? Til hvers er að leggja fram fundargerðir þegar ekkert efnislegt kemur fram í þeim er spurning borgarfulltrúa Flokks fólksins?

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skóla- og frístundaráðs, undir lið 2:

Flokkur fólksins leggur áherslu á að auka þjónustu leikskólanna þannig að foreldrar hafi fullt val þegar kemur að leikskólavist barna þeirra á sumrin. Nú verða aðeins 6 leikskólar opnir í ákveðnar vikur í sumar á meðan allir aðrir loka. Einhver börn þurfa að færast á milli leikskóla. Sum börn eru viðkvæm fyrir slíku raski. Sumarlokanir leikskóla eru að verða barn síns tíma. Að loka leikskólum í ákveðnar vikur á sumrin samræmist ekki því þjónustustigi sem væntingar standa til í dag. Lokanir sem þessar koma illa við sumar fjölskyldur og kannski helst einstæða foreldra sem ekki allir fá frí frá vinnu sinni á sama tíma og leikskóli barns lokar. Það sumar sem nú gengur í garð verður án efa óvenjulegt vegna aðstæðna COVID-19 og einnig vegna nýafstaðinna verkfalla. Mikilvægt er að taka sérstaklega mið af ólíkum þörfum íbúa borgarinnar á komandi sumri. Flokkur fólksins leggur til að gerðar verði grundvallarbreytingar á þessu fyrirkomulagi fyrir sumarið 2020. Þá ætti markmiðið að vera að bjóða fjölskyldum borgarinnar upp á fulla þjónustu og sveigjanleika og að foreldrar hafi þá val um hvenær þeir taka sumarleyfi með börnum sínum. Samhliða verður mannekluvandi leikskólanna vissulega að vera leystur.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 1. apríl, undir lið 37:

Fulltrúi Flokks fólksins í skipulags- og samgönguráði óskaði eftir á fundi ráðsins 1. apríl að fyrirspurnir sem höfðu verið lagðar fram í framhaldi af bókun meirihlutans í borgarstjórn þann 3. mars við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverði yrðu dregnar til baka. Við því var ekki orðið. Ástæða beiðninnar er að á fundi ráðsins 11. mars breytti meirihlutinn í skipulags- og samgönguráði orðalagi þeirra í inngangi í trássi við fulltrúa Flokks fólksins þannig að efni fyrirspurnanna slitnaði úr samhengi. Hér hefur gróflega verið brotið á minnihlutafulltrúa í skipulags- og samgönguráði. Flokkur fólksins líður ekki vinnubrögð sem þessi eða framkomu gagnvart áheyrnarfulltrúa og telur að það stríði gegn samþykktum að fikta í eða breyta framlögðum málum án samþykkis þess sem leggur þau fram. Hér er freklega gengið fram með aðgerðum sem eru til þess fallnar að skerða tjáningarfrelsi minnihlutafulltrúa. Borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarráði sá þann eina kost að leggja fyrirspurnirnar aftur fram ásamt inngangi þeirra í borgarráði 12. mars og hefur þeim þannig verið vísað til stjórnar SORPU.

 

Gagnbókun meirihlutans:
Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Framsetning þessara fyrirspurna í fundargerð skipulags- og samgönguráðs var í fullu samráði við áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins i ráðinu. Áheyrnarfulltrúinn lagði hvorki fram athugasemdir né bókun vegna málsins né er nokkuð að finna í fundargerðinni sem rennir stoðum undir fullyrðingar um skerðingu tjáningarfrelsis.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð mannréttinda- nýsköpunar- og lýðræðisráðs, undir 3. lið fundargerðarinnar:

Tillagan fjallaði um að gerðar yrðu viðeigandi breytingar á fyrirhuguðu deiliskipulagi við Laugaveg og nærliggjandi götur til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks þegar kemur að aðgengi. Tillögunni var vísað frá og ekki sögð vera á verksviði mannréttindaráðs. Enda þótt breyting á deiliskipulagi er ekki á verksviði mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs er það engin afsökun fyrir ráðið að líta fram hjá mögulegum mannréttindabrotum sem kunna að koma upp við gerð skipulags. Með því að hunsa þetta er sjálft mannréttindaráð ekki að axla ábyrgð. Öryrkjar og eldri borgarar hafa upp til hópa tjáð sig um erfitt aðgengi og þær hindranir sem þau mæta þegar kemur að miðborginni. Auka þarf möguleika bæði hreyfihamlaðra og eldri borgara á að njóta umræddra gatna og gera þeim kleift að sækja sér þá þjónustu sem þar er í boði án vandkvæða þegar lífið kemst í sinn vanagang eftir COVID-19. Ekkert bolar á að meirihlutinn virði ákvæði nýrra umferðarlaga sem tekið hafa gildi. Í þeim kveður á um að ökumenn P-merktra bíla geti ekið göngugötur og lagt á þeim. Til þess þarf að fjarlægja hindranir sem loka göngugötum fyrir umferð. Með áætlun meirihlutans að loka fyrir umferð ökutækja um Laugaveg, Skólavörðustíg og Vegamótastíg er verið að brjóta á réttindum fatlaðra.

Borgarráð 2. apríl 2020

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinar sl. 2 ár:

Í svari kemur fram að ferðir erlendis á vegum borgarinnar sl. 2 ár eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda.  Kostnaður var á þessum árum 10,6 milljónir, eða 7.1 milljónir árið 2018 og 3.5 milljónir árið 2019. Spurt var um fjarfundi  en ekki liggja fyrir upplýsingar um hvers vegna ekki var notast við fjarfundarbúnað í stað ferðar eða mat á því hvort slíkt hefði verið mögulegt.  Galli er á verklagi Reykjavíkur að ekki liggi fyrir hvort mögulega hefði verið hægt að sækja fundi með fjarfundabúnaði. Það ætti því að vera áhersluatriði í þeim samstarfsverkefnum sem Reykjavík tekur þátt í á alþjóðavettvangi að reynt sé að takmarka fjölda flugferða og óþarfa flugferðir, vegna sparnaðar og umhverfissjónarmiða. Sagt er að Erasmus -ferðir séu ,,kostnaðarlausar“ en það kemur ekki fram á yfirlitinu. þar er getið um einn styrk. Verulegur kostnaður vegna ferða eru dagpeningar, þrátt fyrir ,,kostnaðarlausar“ ferðir. Meginhluti ferðakostnaðar er yfirleitt dagpeningar. Flokkur fólksins hefur lagt fram tillögu um að notast verði við fyrirtækja-greiðslukort með skilgreindu hámarki, eins og nú er víða algengt.  Þá er raunkostnaður greiddur og ekkert umfram það. Þeirri tillögu var hafnað.

Fyrirspurnir í framhaldi af svari við fyrirspurn um fjölda utanlandsferða á vegum borgarinnar

Í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um ferðir erlendis sl. tvö ár kemur fram að þær eru 517, þar af 54 ferðir vegna funda. Ferðirnar voru farnar af alls 34 starfsmönnum, 8 embættismönnum og 10 borgarfulltrúum. Nokkrir fóru fleiri en eina ferð vegna funda. Borgarfulltrúa finnst hlutfall fundaferða ansi lágt og vill því leggja fram framhaldsfyrirspurn.
Flokkur fólksins óskar eftir að fá  sundurliðun á 463 ferðum sem voru farnar vegna annarra ástæðna en fundahalds. Hversu margar ferðir voru námsferðir og í þeim tilfellum, var ekki mögulegt að stunda fjarnám?

Tillaga Flokks fólksins að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að komið verði á a.m.k. tímabundið sérstakri símsvörun hjá Reykjavíkurborg. Borið hefur á því að fólk nái ekki sambandi við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Á þessum óvissutímum er fólk með alls kyns spurningar meðal annars um þjónustu á vegum borgarinnar. Fréttir hafa auk þess borist af fólki í neyð, fólki sem treystir sér ekki út og á ekki mat.  Ákveðinn hópur fólks er ekki með tölvur og/eða netið og því þarf að tryggja að þessi hópur geti kallað eftir hjálp án vandræða og fengið nauðsynlegar upplýsingar um þjónustuna sem það þiggur eða annað sem tengist borginni án þess að ýmist þurfa á bíða á línunni eða ná ekki í gegn. Álagið er án efa mikið á þjónustumiðstöðvunum og hafa því ekki allir sem telja sig þurfa náð sambandi við félagsráðgjafa. Einnig getur fólk þurft á annars konar aðstoð að halda og vantar upplýsingar um hvert það geti leitað. Í rauninni er ómögulegt að vita allt um það sem mögulega gæti bjátað að hjá fólki á þessum tímapunkti.  Því er lagt til að gripið verði til frekari ráðstafana til að mynda örugga samskiptaleið og það er m.a. gert með því að koma á laggirnar tryggri og öruggri símsvörun.

 

Tillaga Flokks fólksins um að að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að skóla- og frístundaráð sem og velferðaryfirvöld beini þeim tilmælum til starfsmanna skóla og skólaþjónustu að huga sérstaklega að andlegri líðan barna í því ástandi sem nú ríkir vegna Covid-19. Mestar áhyggjur þarf að hafa af þeim börnum sem eru “lokuð”, og eiga erfitt með að tjá hugsanir og líðan. Þau kunna að hafa dregið rangar og skaðlegar ályktanir af umræðu um veiruna sem brýnt er að leiðrétta hið fyrsta til að þau geti fundið til öryggis og vissu um að ekkert slæmt muni koma fyrir þau eða þeirra nánustu. Auk aldurs og þroska hafa fjölmargar aðrar breytur ytri sem innri breytur áhrif á hvernig börn vinna úr upplýsingum. Orðræðan um faraldinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft afar tilfinningaþrungin. Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum þennan vágest. Börn eru misviðkvæm að eðlisfari. Sum hugsa meira um hættur, sjúkdóma og slys á meðan önnur eru upptekin við annað. Börn með kvíðaröskun eru, í aðstæðum sem þessum, útsettari fyrir öðrum vandamálum t.d. ofsakvíða. Þessum börnum þarf því að veita sérstaka athygli. Börn sem eru lokuð, fámál um líðan sína og hugsanir geta auðveldlega falið vandamál sín það vel að fullorðnir verði þeirra ekki auðveldlega varir.

 

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg taki upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem ekki eru á leikskóla eða hjá dagforeldri. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað þetta eru mörg börn. Fáist hvorki dagforeldri eða leikskólapláss liggur það fyrir að foreldri eða ættingi þarf að annast um barnið á daginn. Þá er sjálfsagt að það foreldri fái einhverjar greiðslur. Nýlega var tekin svipuð ákvörðun hjá sveitarfélaginu Ölfusi. Reykjavík getur ekki verið eftirbátur smærri sveitarfélaga. Heimagreiðslur hafa oft komið til tals og þetta er ein leið til lausnar á vonandi tímabundnu ástandi. Mikill skortur er á dagforeldrum á vissum tímum árs. Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Reykjavíkurborg hefur ekki stutt við bakið á dagforeldrum og hafa margir hætt störfum, enda starfsöryggi þeirra ótryggt. Haustin eru sérlega slæm fyrir dagforeldrana og vorin fyrir foreldrana. Flokkur fólksins hefur lagt til að stutt verði fjárhagslega við bakið á dagforeldrum en þeim tillögum hefur verið hafnað. Reykjavíkurborg á að þjónusta foreldra sem best og tryggja að þau geti sótt vinnu að loknu fæðingarorlofi og þess vegna er sú tillaga lögð hér á borð að teknar verði upp heimagreiðslur fyrir foreldra þeirra barna sem hvorki fá dagforeldri eða leikskólapláss eftir að fæðingarorlofi líkur.

 

Bókun Flokks fólksins við Hlemm – deiliskipulagi:

Vel skipulögð almenningsrými þurfa að taka tillit til þarfa allra borgarbúa, ekki aðeins þeirra sem búa í næsta nágrenni við svæðið. Þær breytingar sem verða á Hlemmi eru m.a. annars þær að allri umferð verður beint frá svæðinu en hjólandi boðið að koma meðfram svæðinu þar sem hjólastígur tengir Hverfisgötu og Laugaveg upp að Bríetartúni. Aðgengi að Hlemmi hefur svo sem aldrei verið gott en Flokkur fólksins óttast að með breytingunni verði það enn verra. Borgarlínan verður ekki komin fyrr en eftir 10 til 15 ár og verður að huga vel að aðgengismálum fram að því. Ellegar er hætta á því að Hlemmur og nýja torgið gagnist aðeins þeim sem búa og vinna í næsta nágrenni, gangandi og hjólandi. Samkvæmt talningu í október 2019 kom fram að 70%, eða 17 þúsund manns, af heild­ar­fjölda veg­far­enda á Hlemmsvæðinu voru gang­andi. Nákvæm lýsing á svæðinu væri því ekki almenningsrými heldur frekar hverfisrými og kannski biðstöðvarrými. Ef við ætlum að kalla svæðið almenningsrými megum við ekki útiloka aðkomu bíla eða loka á aðgengi fyrir fatlaða. Því þarf að gera ráð fyrir einhverri umferð um Rauðarárstíg en sú gata er  þröng.

 

Bókun Flokks fólksins við umræðu um stöðu efnahags- og fjármála vegna áhrifa Covid-19:

Í útvarpsviðtali við Jón Ólaf Halldórsson, formann SVÞ og Ásdísi Kristjánsdóttur, hagfræðing SA, 19.3 þar sem þau ræddu aðgerðir yfirvalda, kom fram að það væri sérstakt að ekkert heyrðist í sveitarfélögum hvað varðar aðgerðir vegna Covid-19. Sögðu þau að það heyrðist í ríkisstjórninni og fleirum en ekki sveitarfélögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr af hverju Reykjavík hefur ekki rakið aðgerðir, brýnar aðgerðir og lengri tíma aðgerðir? Hvernig á að hjálpa fólkinu í borginni núna? Hvernig á að koma á móts við fólk sem getur ekki greitt skuldir sínar við borgina? Sumt fólk er í mik­illi neyð, fólk sem var í neyð er í enn meiri neyð núna. Ástandið bitn­ar á öllum og þeir sem eru viðkvæmastir fyrir eiga erfiðast, fólk sem er veikt, öryrkjar og eldri borgarar. Huga þarf að öllu og öllum og tímabært að meirihlutinn leggi fram víðtækt aðgerðarplan í samráði við minnihlutann. Nákvæmlega núna er mikið af fólki sem er aflokað og einangrað vegna veirunnar, fólk sem er ekki endilega í sóttkví heldur loka sig inni vegna kvíða. Sumir eiga ekki mat og eiga ekki fyrir mat. Hjálp­ar­stofn­an­ir hafa þurft að loka. Það kem­ur hart niður á þess­um hópi og velferðarkerfið hefur ekki undan.

Bókun Flokks fólksins vegna tímabundinna heimildar Fjármála- og áhættustýringarsviðs til gerðar leigusamninga vegna COVID-19 veirunnar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að nauðsynlegt er að hafa slíka heimild ef grípa þarf til skyndiákvörðunar á ögurstundum. Þessi heimildarbeiðni hefði þó mátt vera skýrari og skilgreindari. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að borgarráð eigi að fá upplýsingar um hvert skref sem tekið er innan heimildarinnar. Sjálfsagt er að boða borgarráð til fundar með örskömmum fyrirvara og mun ekki standa á borgarfulltrúa Flokks fólksins að mæta eins oft og þörf er talið á.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  um að reglum um fyrningartíma á ýmsum búnaði við útreikning innri leigu verði endurreiknaðar:

Flokkur fólksins þakkar svarið. Tillagan hefur verið felld.  Borgarfulltrúi vill engu að síður leggja áherslu á að búnaður eigi að endast eins lengi og hægt er. Þetta er spurning um að farið sé vel með hluti og þá verður færi á að breyta reglum um fyrningartíma, lengja hann. Nota má hluti lengur en 3 ár sem dæmi. Á okkar tímum skiptir máli viðhorf okkar til nýtinga hluta og að við nýtum allt eins lengi og hægt er, nóg er samt af sóun. Endurreiknað viðmið ætti að taka mið af að húsbúnaður og tæki “lifi” almennt lengur. Reikna má með að rafmagnsvörur hafi allt að 8 ára líftíma og húsgögn geta verið í góðu lagi í allt að 15 ár nema auðvitað að um sé að ræða lélega framleiðslu eða sérlega slæm umgengni.

Bókun Flokks fólksins vegna framlagningu bréfs Innri endurskoðunar um breytingu á verkefnaáætlun:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst mikilvægt að viðhafa stöðugleika á þessum erfiðum og einmitt óútreiknanlegum tímum. Deildir og skrifstofur sem eru kjölfesta þurfa að halda sínu striki og vera áfram sama kjölfestan. Næg er óreiðan samt sem myndast vegna skyndiárásar Covid-19. Vissulega gæti þurft að endurforgangsraða einhverjum verkefnum. Nú vill innri endurskoðun sem er sjálfstæð eining og óháð setja verkefni sem eru á endurskoðunaráætlun 2020 í biðstöðu, hægja á verkefnum í vinnslu og jafnvel stöðva verkefnavinnu. Allt er gert í samráði við formann borgarráðs? Fyrir sjálfstæða einingu eins og Innri endurskoðun hljómar þetta sérstakt.  Að sjálfsögðu má reikna með að innri endurskoðun taki á sig ný eftirlitsverkefni eftir því hvernig framvindur. Nú var verið að samþykkja nýja heimild um húsaleigu og fleiri samningar verða gerðir sem fylgjast þarf með eftir atvikum og veita ráðgjöf með.  Á sama tíma er mikilvægt að skrifstofa IE haldi sínu striki, sinni helstu verkefnum sem mest ótruflað. Það sem borgarbúar þurfa nú er að upplifa að innviðum sé ekki hleypt í uppnám með grundvallarbreytingum og á sama skapi þarf fólk að vera fullvisst um að skrifstofa eins og innri endurskoðun sinni nýjum hlutverkum eftir því sem nauðsyn krefur.

Borgarráð 19. mars 2020

Bókun Flokks fólksins við kynningu á  húsnæðismálum fólks með fjölþættan vanda:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Fulltrúi Flokks fólksins þakkar hana. Á biðlista eftir húsnæði eru 61. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvar þessi aðilar eru og hver sé staða þeirra nú sem og hvort það geti verið fleiri þarna sem ekki hafa sett sig í samband við þjónustumiðstöðvar. Hugmyndafræðin Húsnæði fyrst (Housing First) er góð. Húsnæði fyrst snýst um að allt fólk eigi rétt á húsnæði og geti haldið því með einstaklingsbundinni nærþjónustu undir formerkjum skaðaminnkunar.  Til langs tíma hefur þessi hópur fólks verið jaðarsettur í samfélaginu og of hægt í of langan tíma hefur gengið að finna bestu lausnirnar fyrir þennan hóp. Þróunin hér á landi er í rétta átt.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um þá 61 einstakling á biðlista eftir húsnæði sem eru með miklar og flóknar þjónustuþarfir:

Kynnt er húsnæði fyrir heimilislaust fólk með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Flokkur fólksins hefur spurningar í því sambandi. Á biðlista eru 61. Hver er staðan þeirra í dag? Spurt er hvort geti verið að það séu fleiri þarna úti sem ekki er vitað um, t.d. einhverjir sem ekki hafa getað sett sig i samband við þjónustumiðstöðvar og Vorteymið? Liggur fyrir hvenær þessir 61 aðili fái tryggt og varanlegt húsaskjól?

Bókun Flokks fólksins við tillögu sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, um breytingu á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning:

Velferðarráð leggur til að samþykktar verða breytingar frá 1. jan. 2020 í kjölfarið á breytingum á reglugerð nr. 1200/2016 um húsnæðisbætur. Þetta er eðlilegt framhald þar sem ráðherra breytti frítekjumörkum vegna húsnæðisbóta þá er Reykjavík að breyta frítekjumörkum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings svo að samræmi sé á milli flokkanna. Þó það sé ákveðin skynsemi fólgin í því að láta frítekjumark vegna sérstaks húsnæðisstuðnings hækka um sömu prósentu og frítekjumark vegna húsnæðisbóta þá þarf að athuga hvort ef til vill sé tilefni til að borgin gangi lengra í þessum efnum en leiðbeiningar ráðherra gera. Það má kannski tala samhliða þessu um annað sem þarf að bæta í málaflokknum, kannski mætti hækka fjárhæð stuðningsins(hann er núna 1.000 kr. fyrir hverjar 1.000 kr. sem viðkomandi fær í húsnæðisbætur), bæta umsóknarferlið eða endurskoða matsviðmið fyrir þörf á sérstökum húsnæðisstuðningi.

Bókun Flokks fólksins við tillögu um menningarkort til öryrkja og breytingatillögu velferðarráðs um að öryrkjar geti fengið menningarkort á sölustöðum þess gjaldfrjálst framvísi þeir staðfestingu á örorku,  svokölluðu örorkuskírteini frá Tryggingastofnun ríkisins:

Flokkur fólksins styður að Reykjavíkurborg komi menningarkorti í hendur þeirra borgarbúa sem jafnframt eru öryrkjar þeim að kostnaðarlausu. Það er mikilvægt fyrir þá að hafa kortið til að framvísa á söfnum, á bókasöfnum og annars staðar þar sem kortið gildir án þess að þurfa að framvísa staðfestingu frá TR. Það er mikilvægt að borgaryfirvöld eigi frumkvæði að ná til öryrkja t.d. með auglýsingum, með því að senda skeyti, póst, hringja eða nota tengilið ef þess er kostur eins og hagsmunasamtök. Umfram allt þarf borgin að eiga frumkvæði að því að finna leiðir til að koma kortinu í þeirra hendur þeim að kostnaðarlausu en bíði ekki eftir að fólk uppgötvi rétt sinn og leiti eftir honum.

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra velferðarsviðs, dags. 5. febrúar 2020, við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18 lið fundargerðar velferðarráðs þann 13. nóvember 2019 um greiningu á tilvísunum sem bíða afgreiðslu í skjólaþjónustu:

Fulltrúi í velferðarráði óskaði eftir greiningu á 452 börnum sem bíða eftir fyrstu sérfræðiþjónustu skólaþjónustunnar  og 307 börnum  sem bíða eftir framhaldsþjónustu. Af þessum börnum eru mest sláandi tölur barna sem bíða eftir þjónustu sálfræðings en þau eru 224  í grunnskóla og 111 leikskólabörn bíða eftir þjónustu talmeinafræðings. Miklar áhyggjur eru af börnum sem bíða eftir talmeinafræðingi því fái þau ekki þjónustu fljótt er hætta á að vandinn fylgi þeim áfram. Börnin (307) sem bíða eftir “frekari” þjónustu hafa fengið  “skimun” en þurfa meiri þjónustu.   Þetta fyrirkomulag er erfitt því börn fara af einum biðlista yfir á annan innan skólakerfisins. Þegar biðlista grunnskóla líkur tekur við hjá sumum börnum biðlisti inn á aðrar stofnanir. Efla mætti samvinnu milli  yfirstjórnar skólaþjónustunnar í borginni og  annarra stofnanna og einnig  yfirstjórnar og heilsugæslu og þá sérstaklega samvinnu við heilsugæslulækna. Sum þessara mála þurfa aðkomu bæði sálfræðinga og lækna. Það er orðið knýjandi að meirihlutinn í borginni taki betur utan um þennan málaflokk. Fjölgun hefur aukist um 23% á milli ára og fjölgun kemur ekki til af engu. Bak við hverja tilvísun eru börn sem glíma við vanda og líður illa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna janúar – nóvember 2019:

Lagðar eru fram lykiltölur fyrir jan-nóv 2019. Einhverjar tölur hafa lækkað en aðrar hafa hækkað. Nánast allir liðir undir fjárhagsaðstoð hafa hækkað og sumt um rúmlega 40%. Hvað segir þetta? Þetta segir að þeir sem ekki geta framfleytt sér og sínum fer fjölgandi. Fleiri þurfa fjárhagsaðstoð. Biðlistatölur sem ekki hafa lækkað er t.d.: bið eftir húsnæði fyrir fatlað fólk; félagsleg heimaþjónusta; liðveisla og tilsjón. Lengsti biðlistinn er bið barna eftir skólaþjónustu, þ.e. sérfræðiþjónustu skóla. Hér eru um margra mánaða bið að ræða. Það þarf ekki ríkt hugmyndaflug til að láta sér detta í hug hversu illa þetta fer með börn og foreldra þeirra. Vandi barns hverfur oftast ekki  á meðan beðið er. Foreldrar í þessari stöðu kljást oft við kvíða og streitu og þeir foreldrar sem eru efnalitlir og geta ekki leitað til fagfólks utan skólaþjónustu upplifa iðulega jafnvel  vanmátt.  Snúist málið um náms- og/eða hegðunarvanda getur barnið dregist aftur úr í námi og mörg hver ná aldrei að vinna upp forskot jafnaldra. Félagsleg staða barnsins getur hríðversnað og sjálfsmynd þess skaðast.

Velferðrráð 5. febrúar 2020

Tillaga Flokks fólksins að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva.

Flokkur fólksins leggur til að sett verði á laggirnar teymi sem bregst við ef upp kemur erfitt ástand/tilvik meðal leigjenda Félagsbústaða utan hefðbundins opnunartíma þjónustumiðstöðva. Mörg dæmi, m.a. nú um jól og áramót, koma upp utan opnunartíma þjónustumiðstöðva sem leigjendur vita ekki hvernig bregðast á við. Hér getur verið um erfið tilvik í stigagöngum, erjur milli leigjenda og jafnvel alvarlegar uppákomur sem tengjast einum eða fleiri leigjendum. Um er að ræða stigaganga/hús þar sem Félagsbústaðir eiga íbúðir að stórum hluta eða öllu leyti. Sambærilegar kringumstæður komu upp um síðustu jól. Í þessum aðstæðum sem eiga sér stað utan hefðbundins opnunartíma eiga leigjendur enga möguleika á að fá aðstoð. Það dugar ekki að segja við fólk að það verði bara að bíða þar til þjónustumiðstöð opni. Sum þessara mála eru að koma upp ítrekað og sem þjónustumiðstöð hefur ekki getað leyst jafnvel þótt hún hafi unnið að því. Stundum eru aðstæður þannig að mál þola ekki neina bið og því ekki viðeigandi að segja viðkomandi að leita til síns ráðgjafa þegar stofnun opnar næst. Ef mörg vandamál koma upp af því tagi sem hér er vísað í er alveg ljóst að verkferlar, virka ekki sem skyldi. Eitthvað annað þarf því að koma til.

Greinargerð

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af þessum málum og finnst sem meirihlutinn í borginni sé ekki að taka þau nógu alvarlega. Finna þarf nýjar leiðir til að mæta vanda af þessu tagi. Vissulega mun það kosta aukafjármagn nema hægt sé að hagræða og skipuleggja með þeim hætti að sparnaður hljótist af án þess að skerða skilvirkni og þjónustu. Hér er um að ræða tillögu um teymi e.t.v. þriggja aðila sem taka það að sér að svara kalli leigjenda utan opnunartíma þjónustumiðstöðva. Þetta mætti að minnsta kosti prófa til reynslu í ákveðinn tíma. Gert er ráð fyrir að teymið mæti á staðinn og reyni að milda aðstæður, róa aðila, ræða við leigjendur eða annað sem þarf að gera eftir því hvernig málum er háttað. Þurfi aðstoð lögreglu muni umrætt teymi hafa milligöngu um það ef óskað er. Eins og staðan er í dag geta leigjendur hvergi leitað ráðgjafar eða stuðnings ef upp koma mál sem varða aðra leigjendur og þurfa þeir þá að bíða jafnvel dögum saman eins og um hátíðir við óviðunandi aðstæður þar til þjónustumiðstöð opnar. Allur gangur er þá á hvort þeir þá fái lausn mála sinna yfir höfuð. Í mörgum tilfellum myndi nægja að veita ráðgjöf og róa leigjendur t.d. ef hræðsla hefur gripið um sig. Í sumum tilfellum þarf að ganga lengra. Flokkur Fólksins telur að þetta sé eitt af þeim hlutverkum sem rekstraraðili leiguhúsnæðis eins og Félagsbústaðir þurfa að sinna. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar og til þess verður að taka tillit.

Fyrirspurn Flokks fólksins  um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um leigubílanotkun starfsmanna sviðsins og ráðsins sundurliðað eftir erindum, deildum og starfstitli á árunum 2019 og 2018. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar starfsreglur eða einhver viðmið gildi um leigubílanotkun á vegum borgarinnar sem veiti leiðsögn um hvenær eigi að kaupa leigubifreiðaakstur og hvenær ekki. Leigubílar eru nýttir í miklum mæli af starfssviðum Reykjavíkurborgar og allra mest af velferðarsviði. Það er því mikilvægt að borgarbúar geti treyst því að ekki sé verið að bruðla með almannafé og að leigubílar séu aðeins nýttir sem úrræði þegar önnur ódýrari úrræði koma ekki til greina. Því biður fulltrúi Flokks Fólksins um aðgang að upplýsingum um leigubílanotkun velferðarsviðs.

Bókun Flokks fólksins vegna samþykkis að vísa drögum að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra í umsögn  helstu hagsmunaaðila og fulltrúum notenda:

Fulltrúi Flokks fólksins í velferðarráði samþykkir að drög að þjónustulýsingu um akstursþjónustu fatlaðra fari í umsögn. Fulltrúi Flokks fólksins vill í þessu sambandi leggja áherslu á að jafnræði verði ávallt haft að leiðarljósi. Einnig er mikilvægt að boðið verði upp á sem mesta valið í þessu sambandi. Það er fólkið sjálft sem segir til um hverjar þarfir þeirra eru og óskir enda ekki stjórnavalda að segja til hvernig lífsstíll annarra á að vera. Muna þarf að enginn ákveður upplifun annarra eða getur sagt til hvað öðrum hentar.

Bókun Flokks fólksins ram umsókn um styrk úr jöfnunarsjóði til að gera könnun á framlagi sjóðsins til Reykjavíkurborgar til málaflokks fatlaðs fólks:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér til að vekja athygli á því hve lítið Reykvíkingar fá úr sjóðnum miðað við framlög. Sjóðurinn var í rauninni stofnaður til þess að nýta stærðarhagkvæmni höfuðborgarsvæðisins til að greiða niður þjónustu á svæðum þar sem smæð samfélaga leiðir til minni tekna + dýrari þjónustu. Það er náttúrulega gagnrýnisvert hversu oft hefur verið staðið illa að framkvæmd sjóðsins og reglugerðum og lagagrundvelli að baki honum, en flest dómsmálin hafa snúið að því að sjóðurinn væri ekki að greiða nógu mikið til smærri sveitarfélaga. Í rauninni þyrfti að breyta lögunum til að jafna hlut Reykjavíkur. Reykjavík getur náttúrulega ályktað að sjóðurinn styðji ekki nóg höfuðborgina og að það þurfi að breyta lögum til.

Velferðarráð 15. janúar 2020

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald:

Flokkur fólksins leggur til að hundagjald hundaeiganda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður og að þessir hópar þurfi ekki að greiða slíkt gjald. Ekki fást upplýsingar frá borginni um hvað margir eru eldri borgarar sem eru skráðir hundaeigendur í Reykjavík. Sagt var að tölvukerfið byði ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri eða stöðu þeirra í samfélaginu. Þessi tillaga hefur það markmið að auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að halda hund og á sama tíma hvetja þá sem gælt hafa við möguleikann að eiga hund til að fá sér hund. Árlegt eftirlitsgjald er 19.850 kr. Afsláttur er veittur hafi eigandi sótt hundahlýðninámskeið og er upphæðin þá 9.925 kr. Skráning eftir að frestur er útrunninn er 31.700 kr. Skráningargjald er 20.800. Þetta eru umtalsverðar upphæðir þegar annar kostnaður við að halda hund er talinn með, fóður, dýralæknisgjöld o.fl. Flokkur fólksins leggur til að hundaeigendur sem eru eldri borgarar og hundaeigendur sem eru öryrkjar verði leystir undan því að greiða árlegt hundagjald vegna hundsins síns. Það er sérstakt að á Íslandi þurfi fólk að greiða árlegt hundaleyfisgjald og þekkist það ekki annars staðar. Þetta er eitt af óþarfa skilyrðum og reglum sem borgin leggur á borgarbúa að mati Flokks fólksins.

Greinargerð

Það þykir flestum sjálfsagt að greiða skráningargjald fyrst þegar hundur er skráður og er það algengt í nágrannalöndum. Sú upphæð er reyndar mun lægra en hér á landi. Hvað varðar árlegt gjald, eftirlitsgjald er annað mál. Það tíðkast ekki í öðrum löndum.

Þetta gjald er 18.900 kr á hverju ári – per hund. Margir velta því fyrir sér í hvað þessir peningar eru notaðir, í þágu hverra? Í nágrannalöndum okkar er þessi peningur gjarnan notaður sem dæmi til að halda uppi gagnagrunni sem dýralæknar hafa aðgang að. Fyrir þann sem á t.d. tvo hunda á Íslandi sem lifa í 15 ár þá gæti hann þurft að greiða um 600.000 kr. í hundaleyfisgjöld. Ef borið saman við Danmörku myndi sambærilegt vera um 5.000 krónur.
Gæludýr hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Á síðustu áratugum hefur áhugi á áhrifum dýra á líðan fólks aukist. Margar rannsóknir hafa bent á að gæludýr auka lífsgæði fólks og hafa jákvæð áhrif á andlega, líkamlega og félagslega líðan eigenda sinna. Gæludýr draga úr einangrun.
Áhugi á áhrifum dýra á fólk hefur aukist mikið hin síðari ár og ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar á áhrifum sem dýr geta haft á manneskjur. Að minnsta kosti tvær rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi á áhrifum gæludýra á líðan fólks þar með talið eldri borgara. Ein rannsókn kannaði áhrif heimsóknarhunda og eigenda þeirra á líðan heilabilaðra sjúklinga á öldrunarsviði Landspítala-háskólasjúkrahúss. Í rannsókninni kom fram að samskipti sjúklinga við hundana létti á einangrun þeirra og þeir tjáðu sig við hundana og aðra sem í kringum þá voru og í flestum tilfellum náðist gott samband á milli fólks og hunds.

Félagsskapurinn er helsti ávinningurinn sem dýrin gefa eigendum sínum og í fjölmörgum tilfellum er hundurinn eini vinurinn. Tengsl manneskju og hunds geta verið mjög sterk jafnvel jafn sterk og þau ættu við annað fólk. Hundar gefa eigendum sínum oft hlutverk,  það þarf að sjá um þá, fæða þá, hreyfa og gæla við þá. Dýr virðast því uppfylla þörf fólks til að annast annan aðila. Það eru sterk tilfinningaleg bönd milli fólks og dýra sinna. Dýrin sýna eigendum sínum hlýju, traust og umhyggju án skilyrða. Þessi hlýja, traust og umhyggja fullnægir þörfum eigenda þeirra fyrir nálægð við aðra. Flokkur fólksins vill með þessari tillögu auðvelda öryrkjum og eldri borgurum sem þess óska að eiga og halda hund enda ávinningurinn mikill.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að lagfæringar verði gerðar á hundsvæðinu í Geirsnefi við Elliðaárvog og sá peningur sem innheimtur er með hundaskatti verði nýttur til þess:

Flokkur fólksins leggur til. Hér er um að ræða útileikvang sem hundaeigendum er ætlaður í Reykjavík. Geirsnefið er til skammar fyrir borgina vegna hirðuleysis. Það er ekkert gert til að betrumbæta þetta svæði. Þarna er vaðandi drulla og engin aðstaða fyrir fólk sem er að viðra hundana sína, svo sem bekkir og annað, til að tilla sér á, og göngustígar sem í rigningatíð eru eitt forarsvað. Hundaeigendur eru upp til hópa mjög ósáttir við að vera rukkaðir um tæp 19 þúsund á ári, fé sem rennur beint í borgarsjóð. Innheimta þessa gjalds er einsdæmi og þekkist ekki í nágrannalöndum. Það er því lágmark að gjaldið sé notað í þágu dýranna og notað m.a. til að betrumbæta aðstöðu hundaeigenda. Gjaldið er notað að stóru leyti í yfirbyggingu og rekstur hundaeftireftirlitsins. Fjölmargir telja að árlegt hundaleyfisgjald sé barn síns tíma og það eigi að fella niður með öllu. Sagt er að gjaldið sé notað til að þjónusta alla borgarbúa en engu að síður eru hundaeigendur aðeins rukkaðir. Í þessu er engin sanngirni. Reykjavík er ekki hundavinsamleg borg og tímabært að færa dýrahald borgarinnar til nútímans og í þeim efnum taka þá mið af hvernig málum er háttað í nágrannalöndum okkar. R20010132

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Fyrirspurnir er varða hundaeftirlitið og hundaeftirlitsmenn, hundagjaldið og fleira sem tengist þessum málaflokki í Reykjavíkurborg.
Fyrirspurnirnar eru unnar í samstarfi við Hundasamfélagið á fb

Fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar. Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er eftirfarandi upplýsinga um hundaeftirlitið, hundaeftirlitsmann og verkefni hans: Beðið er um að fá tímaskýrslur hundaeftirlitsmanna fyrir árið 2018 og 2019. Spurt er hvort aukin rafræn samskipti hafi dregið úr og breytt umfangi starfs hundaeftirlitsmanns. Ef svo er hvernig þá, með hvaða hætti og í hvað miklum mæli? Ástæða spurningarinnar er sú að með tilkomu netsins hefur almenningur tekið við mörgum verkefnum eins og að koma týndum/fundnum hundum til síns heima. Hefur verið gerð óháð úttekt á fjármálum hundaeftirlitsins t.d. af innri endurskoðanda? Hvar er hundaeftirlitið til húsa, hver á húsnæðið og hver er leigan? Í ljósi þess að kvartað hefur verið yfir hundaleyfisgjaldi Reykjavíkurborgar og það jafnvel talið vera hærra en nemi þeim kostnaði sem borgin hefur af hundahaldi er spurt um hér í hvað hundaeftirlitsgjöldin fara. Óskað er eftir sundurliðun fyrir árið 2018 og 2019. hundaeftirlitið hefur fræðsluskyldu. Hvernig er þeirri fræðslu háttað til hundaeigenda? R20010132

Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Með hvaða hætti hefur hundaeftirlitið beitt sér til að fækka óskráðum hundum í borginni? Hversu oft hefur hundaeftirlitinu verið tilkynnt um lausagöngu hunda sl. 2 ár? Hversu oft og hversu margir hundar sl. 2 ár verið færðir í geymslu vegna óþæginda sem þeir valda, vegna óþrifnaðar eða vegna þess að þeir hafa raskað ró manna? Komið hefur fram að það taki mörg ár að leysa sum mál sem koma inn á borð hundaeftirlitsins. Hvernig mál eru það sem tekur fleiri ár að leiða til lykta? Ef hundaeftirlitið er með hund í geymslu getur eigandinn leyst út hund sinn og fengið reikninginn í heimabanka? Ef ekki, hverjar eru ástæðurnar? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru ekki skráðir? Hversu margir af þeim hundum sem hundaeftirlitið hefur haft afskipti af með einhverjum hætti eru skráðir en hafa farið á hundanámskeið? R20010132

Framhald á fyrirspurnum er varða hundamál í borginni

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Óskað er upplýsinga um önnur verkefni hundaeftirlits svo sem: Hver er kostnaðurinn við að framleiða og senda ártalsmerki út á hverju ári til allra skráðra hundaeigenda og hver er raunverulegur tilgangurinn með þeim? Hver er fjöldi innkominna erinda, þ.m.t. kvartanir, á ári hverju sl. 2 ár? Hvernig eru verklagsreglur hundaeftirlitsins við vinnslu kvartana? Hver er fjöldi símtala varðandi hundamál í gegnum þjónustuver? Hver er fjöldi símtala í farsíma hundaeftirlitsmanna? Hvers vegna auglýsir hundaeftirlitið ekki fundna hunda á netinu? Hvernig er eftirlitsferðum háttað? Samkvæmt ársskýrslu heilbrigðiseftirlitsins voru kvartanir 79 árið 2018 og fer fækkandi samkvæmt skýrslunni og 84 árið 2019. Það kemur því á óvart að í fjárhagsáætlun sem lögð var fram í desember 2019 má sjá að árið 2019 var fjöldi kvartana 1300 og reiknað er með að árið 2020 verði þær 1400. Óskað er útskýringar á þessu. R20010132

Frekari fyrirspurnir Flokks fólksins um hundaeftirlitið og störf hundaeftirlitsmanna. Hundaeftirlit er eitt af þeim verkefnum sem Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur ber ábyrgð á og felst það í framfylgd ákvæða hundsamþykktarinnar.

Óskað er upplýsinga um umfang, fjölda einstakra verkefna sem hundaeftirlitið sinnti árið 2018 og 2019. Fyrirspurnir er varða hundaeigendur: Hversu margir eiga fleiri en einn hund? Hvernig er aldursdreifing hundaeigenda og hversu margir eru í hópi eldri borgara?Svar frá hundaeftirlitinu í janúar 2020: Tölvukerfið býður ekki upp á að greina hundeigendur eftir aldri. Flokkur fólksins er ekki tilbúinn að sætta sig við að ekki sé hægt að greina hundaeigendur eftir aldri og spyr því aftur um aldursdreifingu? Hversu margir eigendur hafa farið á hundahlýðninámskeið með hund sinn og fá þ.a.l. helmings afslátt af árlegu hundaeftirlitsgjaldi? Samkvæmt gildandi gjaldskrá og hundaeftirlitssamþykkt miðar afslátturinn við hvort leyfishafi hafi sótt hundahlýðninámskeið. Þess vegna er spurt af hverju þarf eigandi að fara á námskeið með hvern hund til að fá afslátt vegna þeirra allra? Eru heimilisföng og skráningar hundaeigenda með hundaleyfi uppfærðar reglulega? Ef svo er hversu tíð er sú uppfærsla? R20010132

Öllum fyrirspurnum er varða hundamál er vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis?

Leið til læsis er stuðningskerfi sem er unnið af sérfræðingum á sviði læsis. Eins og sjá má á niðurstöðum úr nýrri PISA-könnun þá fer íslenskum börnum enn aftur hvað varðar lestur og lesskilning. Slök lestrarkunnátta og lesskilningur hefur áhrif á árangur í öðrum greinum og því er grundvallaratriði að bæta lesskilning meðal íslenskra barna.
Óskað er eftir upplýsingum frá skóla- og frístundasviði um hvað margir skólar í Reykjavík nýta sér Leið til læsis, úrræðin í handbókinni og skimunarprófin sem námsefninu fylgja, sér í lagi þegar grípa þarf til snemmtækrar íhlutunar vegna sýnilegs vanda barns með lestur og lesskilning? Leið til læsis, handbókin og skimunarprófin er gagnreynt námsefni. Rannsóknir sýna að með réttum aðferðum er hægt að draga úr eða jafnvel koma í veg fyrir námsörðugleika. Námsefnið er úrræði fyrir nemendur sem eru í áhættu í málskilningi, orðaforða, hljóðkerfisvitund, hljóðvitund og stafaþekkingu. Leið til læsis er í eigu Menntamálastofnunar sem setti prófið inn sem hluta af Lesferli sem er samheiti yfir próf sem stofnunin hefur gefið út. Með þetta gagnreynda verkfæri er hægt að bæta lestur og lesskilning íslenskra barna fái kennarar stuðning og svigrúm til að nýta það í kennslustofunni í samvinnu við fullnægjandi sérfræðiþjónustu og teymisvinnu. R20010129

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um samstarf skóla og heilsugæslu vegna skimunar barna hjá heilsugæslu?

Fyrirspurnir um samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í tilfellum barna sem skimast með vísbendingar um lesvanda. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistarnir Brigance og spurningalistinn PEDS. Í niðurstöðum kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda með lestur og lesskilning. Hægt er að hefja íhlutun með þessi börn strax á þessu tímaskeiði. Á Íslandi er til gagnreynt námsefni s.s. Leið til læsis, ásamt handbók og skimunarprófum. Til að hægt sé að setja íhlutun í gang þurfa upplýsingar úr skimun heilsugæslu að berast skóla og skólinn að grípa til viðeigandi aðgerða/íhlutunar. Fyrirspurnir:
1. Eru skólar í Reykjavík í formlegu samstarfi við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þegar og ef í ljós kemur í þroskamati vísbendingar um að barn komi til með að glíma við les- og lesskilningsvanda?
2. Ef svo er, hvernig er því samstarfi háttað hvað þetta atriði varðar nákvæmlega?
3. Hvernig er stuðningur og eftirfylgni við þessa nemendur tryggður í skólum Reykjavíkur? R20010131

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 5. desember 2019 til að minna á ný umferðarlög er varðar akstur P merktra bíla á göngugötum:

Flokkur fólksins vill nota tækifærið hér og minna aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks á að nú hafa ný umferðarlög tekið gildi. Meðal nýmæla er undantekning frá akstursbanni um göngugötur sem felur í sér að bílar merktir með stæðiskorti fyrir hreyfihamlaða og bílar sem sinna akstursþjónustu fatlaðra mega nú nýta sér göngugötur og mega jafnframt leggja þar í merkt stæði. Flokkur fólksins spyr hvort borgin sé ekki að öllu leyti að virða þessi lög þegar vika er liðin síðan þau tóku gildi og hvort til standi að opna lokaðar göngugötur fyrir þeim bílum sem hafa nú heimild til að aka þar?

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við fundargerð fjölmenningarráðs frá 5. desember 2019 til að minna á að hatursorðræða beinist einnig gegn öryrjum og eldri borgurum:

Hatursorðræða birtist með margskonar hætti og beinist að ólíkum hópum. Hatursorðræða og fordómar birtast nú hvað helst með rafrænum leiðum á síðum undir fölskum prófílum. Einhverjir taka þátt og dreifa og þannig berst hatur og fordómar hratt út. Það sem gerir rafræna hatursorðræðu erfiðari er að ekki er oft vitað hver stendur á bak við hana. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af börnunum í þessu sambandi sem sjá og heyra hatursumræðu á netinu. Eitt af meginmarkmiðum ætti því að vera að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu til að vara og vernda börn og ungmenni. Við þurfum að kenna þeim mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu og utan þess og auka almenna vitund gegn hatursáróðri á netinu. Hatursorðræða beinist einnig gagnvart hópum eins og öryrkjum (fólk með fötlun) og eldri borgurum sem og öðrum minnihlutahópum. Þegar rætt er um þessi mál er mikilvægt að hafa alla þessa hópa í huga.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 17. lið fundargerðarinnar frá 11. desember sem viðbrögð við bókun meirihlutans sem fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðrmálum miði að því að auka umferð:

Það er augljóst á gagnbókun meirihlutans við þessum lið sem er afgreiðsla tillögu Flokks fólksins um umbætur á svæði Geirsgötu og Kalkofnsvegar móts við Hörpu að meirihlutinn leggur allt í sölurnar til að strípa miðbæinn af bílum og þar með því fólki sem kemur akandi á þetta svæði. Tillagan var felld. Segir í gagnbókun þeirra að til að skapa mannvæna borg verður að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill nefna að það er engin bær ef ekki er þar fólk, nema þá bara draugabær. Gera þarf öllum jafn hátt undir höfði og sjá til þess að draga úr töfum allra sama hvaða ferðamáta þeir nota. Tryggja þarf einnig öryggi allra eins og hægt er án tillits til ferðamáta. Meirihlutinn og skipulagsyfirvöld hans virðast hins vegar gera í því að viðhalda umferðarteppu og gera akandi eins erfitt fyrir og mögulegt er til að halda þeim frá bænum. Halda mætti að það væri ásetningur meirihlutans að útiloka akandi fólk, fólk sem býr í efri byggðum, er utan af landi og verður að nota bíl sinn til að komast langar leiðir þar með til að sinna erindum eða vinnu í bænum. Þetta er upplifun borgarfulltrúa Flokks fólksins.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Til þess að skapa mannvæna borg og styrkja fjölbreytta ferðamáta er grundvallaratriði að gera gangandi og hjólandi hátt undir höfði. Tillögur Flokks fólksins miða flestar að því sama, að auka „flæði“ bílaumferðar á kostnað gangandi og hjólandi. Við erum ósammála þeirri hugmyndafræði.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun til að leiðrétta misskilning meirihlutans og minna á að til að kallast bær þarf að vilja koma í hann fólk:

Borgarfulltrúa Flokks fólksins er knúinn til að segja það sama því meirihlutinn í borgarstjórn leitast stöðugt við að misskilja og snúa út úr skrifum flokka í minnihlutanum. Hér er vísað í bókun í borgarráði 9. janúar undir lið 16 þar sem meirihlutinn fullyrðir að tillögur Flokks fólksins í umferðarmálum miði að því að auka bílaumferð á kostnað gangandi og hjólandi. Þetta er ekki rétt. Fólk í Flokki fólksins gengur líka og hjólar og sumir eru hreyfihamlaðir og í hjólastól. Allir þurfa að komast leiðar sinnar og hver og einn ákveður sjálfur eftir þörfum og vilja hvernig hann ferðast um. Allar tillögur Flokks fólksins miðast að því að minnka tafir fyrir alla og vill að meirihlutinn sýnir öllu fólki sömu virðingu óháð því hvernig það velur að ferðast eða þarf að ferðast. Umferðartafir eru slæmar fyrir fjölmargar sakir, ekki bara vegna tafa heldur einnig vegna mengunar sem umferðarteppur valda. Allir líða fyrir stjórnleysi meirihlutans á umferðarmálum borgarinnar. Af hverju vill meirihlutinn ekki auka flæði umferðar t.d. með því að bæta ljósastýringar. Fjölmargt er hægt að gera og hefur Flokkur fólksins lagt fram margar hugmyndir en þeim er jafnhraðan fleygt.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs þrótta- og tómstundasviðs, dags. 9. desember 2019, þar sem óskað er eftir að borgarráð samþykki drög að samningi um tónleikahald í Laugardal í júní 2020. 

Á fundi borgarráðs 5. september 2019 var samþykkt að tónleikar Secret Solstice verði haldnir í Laugardal dagana 26.-28. júní 2020 með sambærilegu sniði og 2019 ef samningar nást um tónleikahaldið eins og segir í framlagningu málsins. Borgarfulltrúi vill minna á ályktun íbúasamtaka Laugardals um að gerð verði viðhorfskönnun meðal íbúa um hvort halda eigi hátíðina aftur í dalnum. Eftir þeim niðurstöðum þarf að bíða og heyra þarf einnig í öllum foreldrafélögum á svæðinu. Allir voru sammála um að betur gekk 2019 en 2018 enda mun meiri fyrirbyggjandi vinna viðhöfð. Engu að síður komu upp 40 fíkniefnamál og umsögn barst frá Þrótti að tónleikahald á grassvæðinu undanfarin ár hafi skemmt völlinn og var sagt að svæðið væri í raun ekki hæft undir keppni í knattspyrnu í kjölfar hátíðarinnar. Flokkur Fólksins lagði til á fundi borgarráðs fyrir hátíðina í fyrra styttingu á vínveitingaleyfi um hálftíma, 23 í stað 23:30 en tillagan var felld af meirihlutanum. Borgarfulltrúi hefur ekki atkvæðisrétt í borgarráði en vill í þessari bókun viðra þá skoðun að betra væri að fundinn yrði hentugri staður fyrir tónleikahátíð af þessari stærðargráðu heldur enn inn í miðju íbúahverfa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við framlagningu bréfs skóla- og frístundasviðs, dags. 28. nóvember 2019, sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 26. nóvember 2019 á tillögum starfshóps um snjalltækjanotkun og skjátíma í skóla- og frístundastarfi:

Fram kemur í bókun kennara og skólastjóra í framlögðum gögnum að í starfshópnum hafi ekki setið fulltrúar kennara í Reykjavík þótt þeir séu lykilaðilar þegar kemur að þessum þætti skólastarfs sem öðrum. Það er óskiljanlegt að lykilaðilum sé ekki boðið til samstarfs í hópi sem þessum. Hér er reyndar komin skýr staðfesting á því sem fram kemur í skýrslu innri endurskoðanda sem fram kom í júlí 2019 að ekki sé nægjanlega hlustað á skólastjórnendur og kennara. Af reglum í þessu sambandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins segja að leiðbeinandi reglur verði að sjálfsögðu að vera án miðstýringar. Það er einmitt það sem felst í því að vera „leiðbeinandi“ . Leiðbeinandi reglur eru ávallt af hinu góða.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari við framhaldsfyrirspurn Flokks fólksins um heildarkostnað við blað um uppbyggingu íbúða í borginni sbr. 44. lið fundarg. borgarráðs 5. des. 2019:

Svarið er áhugavert fyrir margar sakir en mest vegna þess að í því segir að allar þessar upplýsingar séu einfaldlega að finna á netinu. Flokkur fólksins spyr því, til hvers var þessi bæklingur gefin út ef allar upplýsingar í honum er að finna á netinu? Segir einnig að „viðbótin -flokkunin- sem er í bæklingnum hefði einnig mátt fara á netið“ . Í svarinu segir því að 9 milljóna bæklingur var óþarfur. Flokkur fólksins veltir fyrir sér hvað varð um yfirlýst sjónarmið meirihlutans um að draga úr sóun og óþarfa eyðslu, gæta að kolefnissporum o.s.frv. Með útgáfu þessa bæklings virðist sem þau sjónarmið hafi gleymst. Þessi bæklingur er ekkert annað en „montblað“ borgarstjóra sem vill sýna með þessu að loksins er nú farið að byggja eftir margra ára lognmollu. Vandinn er hins vegar sá, alla vega enn sem komið er, að allt of mikið er af rándýru húsnæði sem ekki selst. Þess vegna þarf borgarstjóri og meirihlutinn að bregða sér í hlutverk fasteignasala og gefa út bækling sem þennan. En borgarfulltrúi Flokks fólksins vill þakka þeim sem svaraði og gerir sér grein fyrir að það hlýtur að vera erfitt að vera starfsmaður borgarinnar og þurfa að verja svona lagað.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá Strætó bs. dags. 28. ágúst 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvort Strætó muni hugsanlega nota metan sem orkugjafa, sbr. 57. lið fundargerðar borgarráðs frá 18. júlí 2019:

Borgarfulltrúi þakkar svarið sem er frekar rýrt. Að vera aðeins með tvo metanvagna í umferð er sérstakt, þegar umfram metani er brennt í stórum stíl, engum til gagns. En eins og framkvæmdarstjóri veit þurfa þessi tvö fyrirtæki borgarinnar Strætó og SORPA að fara að tala meira saman og svsvo virðist sem það í farvatninu og það fljótt. Vandinn með allar framkvæmdir liggur í rekstrarformi fyrirtækis eins og Strætó bs. sem er þetta byggðarsamlagsform. Reykjavík ræður náttúrulega litlu ef tekið er mið af því að sveitarfélagið Reykjavík er langstærsti eigandinn. En það er ekki við framkvæmdarstjórann að sakast í þeim efnum heldur núverandi og fyrrverandi meirihluta sem ekki hafa treyst sér að skoða breytingar á þessu kerfi. Ef Reykjavík á að geta áorkað einhverju í byggðasamlögum sem borgin er jafnframt aðili að og stærsti eigandi þarf að tryggja ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari frá trætó bs., dags. 12. september 2019, við fyrirspurn Flokks fólksins um rafmagnsstrætisvagna, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019.

Rafmagnsstrætisvagnar eru nú 14 talsins í dag. Athyglisvert er að í svari segir að fyrstu vagnarnir komu 2018 og einnig þeir síðustu. Þýðir þetta að ekki komi fleiri slíkir vagnar? Ef svarið er já og það þýði að í framhaldinu komi aðeins vagnar í flotann sem verða metanvagnar þá er það gott. Setning í svarinu: „áfram verður haldið við að gera flotann umhverfisvænan eins og fjárveiting leyfir“ er afar óljós. Hvað er verið að segja hér? Það er nefnilega hægt að vera umhverfisvænn með ýmsum hætti og hægt er að vera mis- umhverfisvænn. Vonandi velur Strætó umhverfisvænstu og hagkvæmustu leiðina til að gera flotann eins umhverfisvænan og kostur er. Ekki veitir af til að bæta upp fyrir slaka nýtingu á almenningsvögnum og á þeim vanda hafa ekki enn fundist lausnir.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við savri frá Sorpu bs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vindvél sem aðskilur plast frá öðru sorpi, sbr. 42. lið fundargerðar borgarráðs frá 28. nóvember 2019:

Enn og aftur kemur í ljós hversu undarlegt og erfitt þetta „byggðarsamlagsform“ er. Það er alltaf að taka á sig sérkennilegri myndir. Nú virðist, ef svarið er skilið rétt, að það sé í alvöru þannig að sérhvert sveitarfélag geti komið með ,,séróskir“. Vindvélin er keypt jafnvel þótt vitað er að tvö sveitarfélög vilja hana ekki en öll sveitarfélög þurfa samt að borga. Þetta virkar eins og sveitarfélag þótt stærst sé, sé haldið í gíslingu meirihluta byggðarsamlagsins sem samanstendur af litlu sveitarfélögunum. Stærsta sveitarfélagið segir nei en verður engu að síður að borga hlutfallslega mest. Flokkur fólksins hefur margrætt ókosti byggðarsamlagakerfis í borgarstjórn. Heyrast raddir minnihluta í borgarstjórn einhvern tíma í Sorpu? Ef allt væri rétt og eðlilegt í þessu máli þá ættu þau sveitarfélög sem vildu þessa vél að greiða hana sjálf en ekki hin sem ekki vildu hana. Skemmst er að minnast 1.6 milljarða bakreiknings vegna mistaka hjá Sorpu sem Reykjavík þurfti að bera hitann og þungann af. Reykjavík greiddi það möglunarlaust eins og ekkert væri eðlilegra. Flokkur fólksins vill minna á hvaðan peningarnir koma þ.e. úr vasa borgarbúa.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við svari borgarstjóra, dags. 6. janúar 2020, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins og Miðflokksins um greiðslur úr miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til Miðborgarinnar okkar, sbr. 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 17. október 2019:

Bókun Flokks fólksins við svari um greiðslur úr Miðborgarsjóði Reykjavíkurborgar til samtakanna Miðborgarinnar okkar. Þessi samtök hafa fengið 50 milljónir sl. 3 ár. Þetta eru háir styrkir. Flokkur fólksins vill fá að sjá umsóknir sem liggja að baki þessum styrkveitingum til að sjá hvaða forsendur liggja að baki því að veita þessum samtökum 11 milljónir þetta ár og 50 milljónir s.l. 3 ár. Óskað er eftir að sjá umsóknir til að hægt sé að átta sig á hvaða skilyrði þessi samtök uppfylla umfram aðra sem mögulega sóttu um í þessum sjóði. Hér er verið að greiða úr sameiginlegu sjóðum borgarinnar. Bara Miðborgin okkar eru að fá 11 milljónir sem er kannski helmingur af öllum sjóðnum? Óskað er eftir að fá að vita hverjir fengu styrki sl. 3 ár, sundurliðun og ástæður fyrir þessum styrkveitingum. Óskir þessar eru settar fram í formlegri fyrirspurn.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um að upplýsingar um atkvæðaskiptingu fylgi fréttatilkynningum um afgreiðslur úr borgarráði og borgarstjórn, sbr. 41. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. júní 2019.

Tillögunni er vísað frá.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Það kemur ekki á óvart að meirihlutinn hafi vísað tillögunni frá þar sem kappsmál er lagt á að sem oftast haldi borgarbúar að allir séu sammála og að vel fari á með meiri- og minnihluta borgarstjórnar. Flokkur fólksins er í raun ekki að leggja annað til en að það að upplýsa borgarbúa með sem nákvæmasta hætti og í þessu tilfelli að þeir fái að vita hvernig atkvæðagreiðsla skiptist í hverju máli. Flokki fólksins finnst alltaf sérstakt þegar stjórnvald spyrnir fótum við að veita nákvæmar upplýsingar og vill frekar leggja það á almenning að þurfa sérstaklega að hafa fyrir því að fá sem mestar og bestar upplýsingarnar. Upplýsingar sem eru í óhag meirihlutans vill hann ekki að sé flíkað. Upplýsingar sem henta og eru í hag meirihlutans eru hins vegar kyrfilega auglýstar og kynntar af upplýsingafulltrúa borgarstjóra.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Upplýsingar um það sem gerist á fundum kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg liggja fyrir í opinberum fundargerðum ásamt því hvernig atkvæði falla um einstaka mál. Þetta er í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar en þar kemur fram að ferar við ákvarðanatöku eigi að vera ,,gagnsæir og rekjanlegir“. Hver sem er getur kynnt sér þær upplýsingar.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar kvartanir Félags leikskólakennara yfir starfsaðstæðum og hvað borgin hyggst gera í þeim málum í kjarasamningu:

Félag leikskólakennara hefur kvartað yfir starfsaðstæðum leikskólakennara. Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver sé stefna borgarinnar í kjaramálum leikskólakennara og hvernig kjarasamninganefnd borgarinnar hefur útfært stefnuna í samningaviðræðum hvað varðar eftirfarandi þætti: 1. Skilgreina kjarasamning leikskólakennara starfs- og vinnutíma og samræma að fullu við grunnskólann. 2. Skilgreina og búa til betri ramma um kennsluskyldu leikskólakennara og ramma inn tíma fyrir faglegt starf fyrri part dags í kjarasamningi. 3. Útfæra vinnutímaskipulag leikskólakennara í kjarasamning með sama hætti og grunnskólakennara þannig að á skólaári leikskóla séu leikskólakennarar búnir að vinna sér inn rétt á sömu fríum og í grunnskólum. Sárlega skortir betri ramma um faglegt starf í leikskólum. R20010127

9. janúar 2020

Tillaga um að velferðarráð bregðist við breyttum lögum með því að aðlaga viðmið sín til þess að leiga hækki ekki hjá Félagsbústöðum

Lagt er til að velferðarráð bregðist við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar, með því að breyta viðmiðum sínum til þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert og hefur leitt til þess að leiga fjölmargra öryrkja hefur hækkað umtalsvert.

65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa þurrkast út í mörgum tilfellum vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna. Við þessu hefur borgarmeirihlutinn og velferðarráð ekki brugðist. Það hefur því gerst að Félagsbústaðir hafa lækkað sérstakan húsnæðisstuðning hjá öryrkjum sem fengu þessa leiðréttingu bóta og er því fólk að borga mun hærri leigu.

Bókun Flokks fólksins við 2. lið fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 6. nóvember 2019 er varðar áæltun borgarlínu:

Hér er verið að tala um áætlun til 15 ára sem minnir á að mörg ár eru í borgarlínu. Sjálfssagt er að gera áætlanir en það þýðir ekki að hunsa megi núverandi umferðarvanda sem þyngist með hverjum degi. Segja má að skipulagsyfirvöld hafi misst sig dálítið of langt inn í framtíðina og samhliða gleymt hver staðan er í dag og verður a.m.k. næstu árin. Núna er umferðaröngþveiti mikið á þessu svæði. Skipulagsyfirvöld hafa ekkert reynt að leysa þær. Fjölmargt er hægt að gera strax með því að koma t.d. upp snjallstýringu ljósa. Þetta er ólíðandi aðstæður fyrir alla, ekki síst fyrir þá sem vinna á svæðinu og eru ekki búsettir í nágrenninu. Umferðarteppur menga. Erfitt er að taka afstöðu til fjölmargra hluta tengt þessu máli, samkeppni um deiliskipulag og þróun samgöngumiðstöðvar enda liggur engin útfærsla fyrir á þessu stigi. Það er sérstakt að þetta vandamál sé ekki ávarpað í umsögn umhverfis- og skipulagssviðs og samgöngustjóra um fimmtán ára samgönguáætlun og fimm ára aðgerðaáætlun 2020-2024 borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Stekkjarbakki Þ73 – breyting á deiliskipulagi til afgreiðslu:

Það er vont til þess að vita að búið sé að auglýsa og samþykkja þessar framkvæmdir áður en búið er að bregðast við athugasemdum Skipulagsstofnunar. Er meiningin kannski bara að hunsa þessar athugasemdir? Við lestur bréfs frá Skipulagsstofnun fer ekki á milli mála að heilmiklar efasemdir eru í gangi, sem dæmi er varðar ljósmagn frá væntanlegri gróðurhvelfingu. Hér eru áhyggjur af ljósmengun. Stofnunin mælir með að leitað verði afstöðu Heilbrigðiseftirlits um viðmiðunarmörk vegna umferðarhávaða fyrir þjónustuíbúðir, fyrirkomulag á fráveitulögnum og önnur atriði. Svo margt annað er óljóst í þessu stóra verkefni og má þar nefna hina umdeildu gróðurhvelfingu Aldin Biodome sem byggja á í Elliðaárdalnum á skipulagsreit. Hverjar eru fyrirætlanir með hana er ekki vitað. Hér er óttast enn eina ferðina enn að borgin sé að taka á sig óheyrilegar skuldbindingar. Borgin ætlar að taka á sig 80% kostnaðar en framkvæmdaraðili 20%? Eins vantar að fá staðfest hvað verður um Gilsbakka sem Minjastofnun leggur til að verði verndað en í deiliskipulagi er talað um að íbúðarhúsið sé víkjandi. Flokkur fólksins vill að haft verði raunverulegt samráð við íbúana en ekki látið duga að hafa 1-2 gervisamráðsfundi. Það verður aldrei sátt um nýtt þróunarsvæði á Stekkjarbakka nema það fari í íbúakosningu.

Bókun Flokks fólksins við reglum um bílastæði fyrir visthæfar bifreiðar í Reykjavík til afgreiðslu:

Flokkur fólksins fagnar allri rýmkun á reglum um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þó ekki sáttur við öll þessi skilyrði sem umvefja þessar reglur, til dæmis að frítt stæði býðst ekki visthæfum bílum ef þeir eru á nagladekkjum. Stundum er það þannig að fólk verður að setja nagladekk undir bíla sína, til dæmis þeir sem búa í efri byggðum þar sem ófærð er oft meiri og einnig þeir sem eru mikið á faraldsfæti út á landsbyggðinni. Bílaleigubílar verða án efa að vera á nagldekkjum. Hér skipta líf og limir öllu máli. Flokkur fólksins lagði fram tillögu þann 6. júní á þessu ári að Reykjavíkurborg rýmki aftur reglur um hvaða bílar teljist vistvænir og þeir sem það teljast geti lagt frítt í gjaldskyld bílastæði í allt að 90 mín. Skipulagsyfirvöld hafa verið allt of lengi að taka við sér í þessum efnum. Sú var tíðin að sparneytnir bílar (bensínbílar) höfðu þessa umbun en hún var síðan tekin af. Það kom á óvart og telur Flokkur fólksins það hafi verið mistök. Hvetja átti fólk fyrir löngu að hugsa í þessa átt þ.e. fyrst að aka vistvænum, sparneytnum bílum og nú visthæfum bílum (metan og rafmagn) og þannig flýta fyrir orkuskiptum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ekki er verið að rýmka reglur um heimild til að leggja bifreiðum sem skilgreindar eru visthæfar gjaldfrjálst í 90 mín í gjaldskyld stæði. Verið er að herða þær reglur verulega. Eftir gildistöku þessara nýju reglna eru færri bifreiðar sem hafa heimild að leggja gjaldfrjálst í 90 mín en áður voru. Samanburður við aðrar borgir sýnir raunar að slíkar ívilnanir eru heldur fátíðar. Um sinn var þó talið réttast að halda ívilnunum áfram en einskorða þær við þá bíla undir 5 metrum sem ganga að fullu fyrir rafmagni eða vetni. Sá kostnaður sem fellur á samfélagið vegna þeirra sem aka á nagladekkjum er óásættanlegur. Notkun nagladekkja er í langflestum tilvikum óþörf innan þéttbýlis og eykur verulega slit á götum og hefur slæm áhrif á loftgæði. Það þarf að vera sameiginlegt markmið okkar allra að bæta loftgæði í þéttbýli þar sem þau hafa áhrif á lífsgæði allra, sérstaklega aldraða, börn og þau sem eru með undirliggjandi öndunarfæra- og/eða hjartasjúkdóma.
 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Nýr borgarfulltrúi, formaður skipulags- og samgönguráðs, man ef til vill ekki eftir því þegar í gangi voru reglur um að sparneytnir bensnínbílar fengu að leggja frítt í stæði í smá tíma í Reykjavík. Borgarfulltrúi Flokks fólksins átti slíkan bíl og gat náð í klukku til að setja í framrúðuna. Síðan gerðist það að þessar reglur voru lagðar af. Í gangi hafa verið reglur er varða einungis rafbíla en engar sem snúa að sparneytnum bensínbílum. Svo hér er nú um einhverja rýmkun að ræða sem vissulega hefði mátt vera mikið meiri enda viljum við að bíleigendur geti ekið bíl sínum niðri í bæ og lagt þar með auðveldum og aðgengilegum hætti. Ef borgarmeirihlutanum er í alvöru annt um lungu fólks ætti að byrja á að losa um umferðarhnúta víðsvegar í borginni, til dæmis með því að snjallvæða ljósastýringar svo flæði verði betra. Þá þurfa bílar ekki að hökta í hægagangi með tilheyrandi útblæstri.

Bókun Flokks fólksins við svar fyrir fyrirspurn Flokks fólksins um LEAN straumlínustjórnun lögð fram 29. ágúst:

Áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins finnst þetta svar koma mjög seint. Fyrirspurnin var lögð fram í ágúst. Flokkur fólksins fagnar því að Lean hafi ekki verið innleitt formlega hjá borginni í heild og engar ákvarðanir teknar um það. Ekki er þar með sagt að Lean kunni ekki að henta einstaka starfsstöðvum en umrædd aðferðaræði er mjög dýr og og hentar engan vegin alls staðar eins og gengur. Borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst eins og hér sé um ákveðna tískusveiflu að ræða að mörgu leyti. Borgin þarf að varast að gleypa ekki alla strauma og stefnur sem renna fram hjá jafnvel þótt þær hafi verið rannsakaðar og sýnt að virki vel við ákveðna aðstæður. Mannauður borgarinnar er mikill og sérfræðiþekking að sama skapi. Hægt er að reka deild, svið, skrifstofu farsællega með góðan stjórnanda sem hefur góðan stjórnunarstíl án þess að innleiða milljóna aðferðafræði. Treysta þarf fólki t.d. yfirmönnum til að stýra sínum deildum af fagmennsku og alúð án þess að þurfi að fjárfesta endilega í aðkeyptri aðferðarfræði. Oft þarf einfaldlega ekki að leita langt yfir skammt til að finna réttu verkfærin í verkefnastjórnun borgarinnar.

Bókun Flokks fólksins við tillögu velferðarráðs um breytingar á reglum Reykjavíkurborgar um styrki til náms og verkfærakaupa fatlaðs fólks til afgreiðslu:

Fulltrúa Flokks fólksins finnst að hækka hefði mátt styrkinn um að minnsta kosti 20.000 krónur. Einnig er ítrekað mikilvægi þess sem snýr að 10 gr. að það verði ákveðið hvert verður hámark þess tíma sem áfrýjunarnefndin hefur til að taka ákvörðun og standi þar „Áfrýjunarnefnd velferðarráðs skal fjalla um umsóknina og taka ákvörðun svo fljótt sem unnt er en eigi síðar en 4 vikum eftir að umsókn berst.“

Að segja aðeins „svo fljótt sem unnt er“ finnst fulltrúa Flokks fólksins of opið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af tilhneigingu meirihlutans til ofurregluvæðingar. Óþarfa gagna/upplýsinga er oft aflað sem kemur afgreiðslu umsóknarinnar lítið við. Létta má á umsóknarferlinu til muna. Einnig er sjálfsagt að úthlutun sé tvisvar á ári í stað einu sinni á ári. Borgarmeirihlutinn á sífellt að reyna að létta undir með fólkinu í borginni í stað þess að þyngja spor þeirra sem sækja um aðstoð en nógu þung eru þau spor, að minnsta kosti fyrir marga.

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarmeirihlutans um að samþykkja áframhaldandi aðild að verkefninu Nordic Safe Cities með vísan til hjálagðrar tillögu mannréttindastjóra:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar öllu samstarfi sem Reykjavík getur átt við aðrar borgir. Hér er um að ræða norrænt samstarf – Nordic Safe Cities. Samstarf sem þetta getur verið bæði gefandi og lærdómsríkt. Flokkur fólksins fagnar því að samskipti eigi að fara að mestu í gegnum fjarfundarbúnað þannig að hér sé því ekki verið að auka útgjaldalið þegar kemur að ferðakostnaði og dagpeningaútgjöldum borgarinnar sem nógu stór er nú þegar. Um er að ræða 2 fundi á ári sem fara þarf á og finnst borgarfulltrúa mikilvægt að á þá fundi fari almennur starfsmaður sem hefur verið að sinna verkefnum í tengslum við verkefnið en ekki yfirmenn.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um aðkomu að göngubrú yfir Breiðholtsbraut norðan megin

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins hefur verið með vangaveltur um notkun brúar í Breiðholti og komst að því að ekki er hægt að komast upp á brúna nema nánast á fjórum fótum ef komið er norðan megin við Breiðholtsbrautina. Það er vont að geta ekki gengið beint upp frá Mjóddinni og upp á brúna. Markmiðið með byggingu svona mannvirkis hlýtur að vera að það sé aðgengilegt frá báðum endum þannig að það nýtist fólki, einnig þeim sem eru með skerta hreyfigetu.  Stundum er það þannig að þeir sem fengnir eru til að hanna mannvirki af þessu tagi þekkja ekki nægjanlega vel til aðstæðna og til þess hóps sem á að nota það. Kannski finnst engum það tiltökumál að taka á sig sveigju, komandi frá Mjóddinni og velja leiðina með fram Arnarbakka að norðaustanverður, þvera Arnarbakka á einum stað til að komast inn á stíginn sem liggur upp að göngubrúnni sem hér um ræðir. En þetta er sú leið sem fólk þarf að fara samkvæmt svari til að komast upp á brúna, komi fólk frá Mjóddinni. Það virkar kannski einfalt í orðum en er það reyndin?

Fyrirspurn um notkun brúar yfir Breiðholtsbraut í ljósi þess að taka þarf sveigju inn í Arnarbakkan ef komið er frá Mjódd norðanmegin til að koma að brúnni yfir Breiðholtsbraut

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldinu af þessu svari um hversu mikið þessi brú er notuð? Komandi frá Mjódd þarf að taka sveigju inn í Arnarbakkann og ganga með fram honum og þaðan inn á stíg til að komast að brúnni. Er talning í gangi? Hafa íbúar Breiðholts verið spurðir hvernig brúin nýtist þeim og hvort þeir séu ánægðir með hana? Þetta er mikilvægt því það er ekki góð hugsun að verið sé að setja milljónir í brúarmannvirki sem ekki er notað nema af litlum hópi. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er einnig að reyna að átta sig á hversu vel heppnað mannvirki hin nýja Breiðholtsbrú almennt séð er. Brúin er e.t.v. ekki á réttum stað, ekki nægjanlega vel hugsuð? Vissulega nota einhverjir þessa brú en eru undirgöngin neðar kannski meira?

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögunnar um að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66

Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Borgarmeirihlutinn hefur hvorki kjark né þor til að bera tillöguna upp til atkvæða. Allt er þetta sérkennilegt þar sem formaður velferðarráðs, sem sæti á í borgarráði á einnig sæti í stjórn Félagsbústaða svo hæg ættu nú heimatökin að vera. Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að fulltrúi leigjenda taki sæti í stjórn húsfélagsins á Lindargötu 57-66. Borist hefur umsögn frá Félagsbústöðum. Í svari segir að rétt sé að beina tillögunni til stjórnar húsfélagsins á Lindargötu. Þetta svar kemur reyndar einnig á óvart þar sem á fundi síðasta húsfélags stýrði framkvæmdarstjóri Félagsbústaðar fundi sem borgarfulltrúa finnst hljóti að vera merki um hvar valdið liggur. Minna skal á að Félagsbústaðir eru í eigu borgarinnar. í húsfélögum þar sem langflestar íbúðir eru í eigu Félagsbústaða eða eins og í þessu tilfelli 81 íbúð á meðan aðeins 13 eru í einkaeigu er enginn fulltrúi leigjenda en fulltrúi þeirra 13 sem eiga íbúð í einkaeigu, eiga sinn fulltrúa í stjórn. Það væri eðlilegur ferill og sanngirnismál að Félagsbústaðir tryggi fulltrúa leigjenda 81 íbúða Félagsbústaða setu í stjórn. Það ætti að vera metnaður að sýna leigjendum Félagsbústaða þá virðingu að bjóða þeim sæti í stjórnum húsfélaga.

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu um stofnun húsfélaga í fjölbýlishúsum í eigu Félagsbústaða:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði til að stofnuð verði húsfélög í fjölbýlishúsum í eign Félagsbústaða. Tillögunni hefur verið vísað frá og sagt að þetta sé ekkert á forræði borgarinnar. Í svari eða umsögn segir að verið sé að skoða að auka áhrif og samstarf við og sé það í skoðun hjá undirbúningsnefnd. Það er jákvætt. Með stofnun húsfélags þar sem leigjendur eiga sæti getur sá fulltrúi gætt hagsmuna leigjenda í stjórn húsfélagsins. En fyrsta skrefið er vissulega að stofna húsfélagið. Það er ekki aðeins lýðræðislegt heldur einnig sanngjarnt að stofnuð verði húsfélög og að fulltrúi leigjenda eigi þar sæti til að tryggja enn frekar að rödd leigjenda heyrist. Þetta er ein helsta leiðin til að tryggja aðkomu leigjenda að málefnum íbúðanna s.s. nauðsynlegs viðhalds þeirra og tryggja aðkomu, þátttöku og áhrif þeirra á málefnum sem snúa að íbúðunum og sameigninni almennt séð. Þetta er líka leið til að sýna að Félagsbústaðir sem fyrirtæki borgarinnar sýni leigjendum tilhlýðilega virðingu og traust.

Bókun Flokks fólksins við svari við fyrirspurn um notkun fjarfundabúnaðar til að fækka utanlandsferðum:

Það er mikilvægt að allir fundir, fjarfundir sem og aðrir fundir séu skráðir hjá borginni. Öðruvísi er ekki nokkur leið að hafa heildarsýn á samskiptum borgarstarfsmanna innbyrðis eða út á við ( innanlands eða erlendis) og kostnað í sambandi við það. Borgarfulltrúi Flokks fólksins er að reyna að átta sig á hvort notkun fjarfunda er að aukast og mögulega spara borginni fjölda utanlandsferða. Fram kemur í svari að ekki séu teknar saman upplýsingar um fjölda fjarfunda og því ekki unnt að svara spurningunni. Ef fundir af öllu tagi eru ekki skráðir hvernig á þá að vera hægt að átta sig á hvort fjarfundir eru yfir höfuð að koma í staðin fyrir fundarferðir erlendis? Þar sem svarið er ófullnægjandi vill borgarfulltrúi Flokks fólksins reyna að snúa spurningunni við og spyrja þá frekar um fjölda ferða erlendis, hversu margir, hverjir og í hvaða tilgangi voru farnar ferðir erlendis.

Lögð fram svohljóðandi framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins vegna ófullnægjandi svars borrgarritara er viðkemur fjarfundum og hvort og þá hversu mikið þeir leysa af utanlandsferðir vegna funda og ráðstefna:

Þar sem ekki var hægt að svara fyrirspurninni um fjölda fjarfunda sem mögulega voru að koma í staðinn fyrir ferðir á fundi erlendis er spurt um fjölda ferða erlendis á vegum borgarinnar síðastliðin 2 ár? Hversu margir starfsmenn, embættismenn og borgarfulltrúar hafa sótt fundi erlendis síðastliðin 2 ár og í hvaða tilgangi voru þeir fundir? Fjarfundir eru ekki skráðir en ferðir á fundi erlendis eru vissulega skráðar. Óskað er sundurliðunar eftir störfum (embættismenn, yfirmenn, borgarfulltrúar, aðrir), eftir sviðum, deildum, skrifstofum og eftir tegund og eðli funda, lengd ferðar og fleira sem þessu viðkemur. Gott er að fá upplýsingar um meðaltal ferða og loks sundurliðunar kostnaðar svo og hvers vegna ekki var notast við fjarfundabúnað frekar en að taka ferðina á hendur?

Borgarráð 7. nóvember 2019

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kolefnisjöfnun flugferða í miðlægri stjórnsýslu, sbr. 28. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september 2019.

Tillögunni er vísað frá.

Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins:

Flokkur fólksins lagði til að  borgarfulltrúar, embættismenn og starfsmenn miðlægrar stjórnsýslu borgarinnar sem farið hafa erlendis á kostnað borgarinnar planti trjám til að vega upp á móti flugferðum sínum og birti afrakstur sinn á opinberu vefsvæði og/eða greiði eðlilega upphæð til t.d. Kolviðar eða Skógræktarfélaga. Tillögunni hefur verið vísað frá með þeim rökum að þetta sé nú þegar í gangi. Þá myndi borgarfulltrúi vilja fá að sjá alla skráningu þar um.  Tal meirihlutans um loftlagsmál og mikilvægi þess að draga úr útblæstri er hávært. Hins vegar veltir  borgarfulltrúi því fyrir sér hvort það sé meira í nösum en reynd. Til að setja þetta í samhengi hefur Flokkur fólksins lagt fram fyrirspurn um um fjölda fjarfunda/streyma sem borgarfulltrúar og starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa valið að sitja í stað þess að taka sér ferð á hendur til að sækja fundi. Svar hefur ekki borist. Fjarfundur á að verða meginreglan og flugferð erlendis á fund þá undantekningin. Hér verða kostnaðar- og mengunarsjónarmiðum að vera haldið til haga í mun meira mæli en gert hefur verið. Tillagan fjallaði um að borgarfulltrúi planti trjám til að kolefnisjafna. Slík skráning þarf að vera gegnsæ og tengd nöfnum. Að öðrum kosti getur hver og einn sagt það sem honum sýnist  án þess að nokkuð sé hægt að sannreyna upplýsingarnar.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. október, um yfirlit yfir tillögur og fyrirspurnir í borgarráði 2018-2022:

Það er ánægjulegt að sjá þá aukningu sem orðið hefur á framlagningu mála og sýnir það einfaldlega hvað mikið þarf að laga og breyta í borginni. Af nógu er að taka á flestum sviðum á forræði borgarinnar. Margir málaflokkar, sér í lagi þeir sem snúa beint að grunnþjónustu við fólkið, hafa mætt afgangi hjá þessum og síðasta borgarmeirihluta. Það eru einmitt þessi mál sem borgarfulltrúi er að reyna að vekja athygli meirihlutans á og því ekki að undra að mikið er af framlögðum málum, tillögum og fyrirspurnum. Það dapurlega er hins vegar, að fæst mál minnihlutans hafa náð athygli meirihlutans.  Þessu til áréttingar er að Flokkur fólksins hefur lagt fram, eða verið aðili að, 145 tillögum fyrir borgarstjórn eða borgarráð frá síðustu kosningum. Af þessum 145 tillögum hafa aðeins 6 tillögur verið samþykktar. Það eru rétt rúm 4%. Tillögur Flokks fólksins sem borgarráð hefur synjað snúa lang flestar að því að bæta grunnþjónustu fólksins í borginni. Meðal tillagna sem hefur verið hafnað er tillaga um að borgin svari erindum borgarbúa innan 14 daga, tillaga um ókeypis skólamáltíðir, tillaga um íbúakosningu vegna borgarlínuverkefnisins, tillaga um gjaldfrjáls frístundaheimili, tillaga um að bæta lýsingu við gangbrautir og fjölmargt fleira. Meirihlutinn hefur gert það að venju sinni að kjósa eftir flokkslínum en ekki málefnum.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Fjöldi mála endurspeglar ekki endilega gæði málanna. Það er af og frá að meirihlutinn samþykki mál eingöngu eftir flokkslínum. Þegar góð mál koma fram sem tóna við áherslur meirihlutans þá hefur verið tekið vel í það enda sýnir það sig að meirihlutinn hefur samþykkt ýmis mál sem komið hafa frá minnihlutanum og stundum gert breytingar á hnökrum tillagna minnihlutans til að geta samþykkt þær. Vel er tekið í góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Ekki hefur alltaf verið hægt að samþykkja tillögur þó hugurinn á bak við tillöguna sé í takt við áherslur meirihlutans ef innihaldið er ekki nægilega vel útfært. Ekki er það á ábyrgð meirihlutans að útfæra tillögur minnihlutans þannig að hægt sé að samþykkja þær þó fulltrúar meirihlutans hafi stundum gert það.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er sammála því að fjöldi tillagna er ekki merki um gæði þeirra. Það hefur ítrekað sýnt sig að tillögur meirihlutans eru oft afar rýrar og meira til að skreyta sig með. Dæmi eru einnig um að tillögum minnihlutans er vísað frá en síðan stuttu seinna tekur meirihlutinn þær upp og gerir að sinni tillögu. Halda mætti að meirihlutinn vilji helst ekki una minnihlutanum að góðar tillögur þeirra nái fram að ganga. Taka skal fram að fjölmargar tillögur Flokks fólksins lúta að bættri þjónustu við börn. Það er dapurlegt ef meirihlutanum þykir slíkar tillögur ekki góðar. Það er hending og afar sjaldgæft að mál minnihlutans nái fram að ganga og ítrekað er góðum hugmyndum einnig hent í ruslið sérstaklega ef óttast er að þær skyggi á meirihlutann. Þetta er leiðinlegt því allir borgarfulltrúarnir eru kosnir til vinna fyrir fólkið í borginni. Í því verkefni sem borgarstjórn er ættu borgarfulltrúar því að vera samstíga.

Bókun Flokks fólksins við svari umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um húsnæði fyrir fólk með fötlun, sbr. 33. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Sveitarfélögin eiga að tryggja fólki með fötlun húsnæði þannig að þeim sé gert kleyft að reka eigið heimili og búsetuúrræðin þurfa að vera í samræmi við þarfir einstaklinganna. Húsnæðisúrræðin eiga að vera staðsett nálægt almennri og opinberri þjónustu ef það er hægt. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins. Vel á annað hundrað manns bíða eftir húsnæði og hafa aðeins 52 fengið úthlutað nýju húsnæði sem byggt var á grunni uppbyggingaráætlunar síðastliðin 3 ár. Á þessum biðlista sér varla högg á vatni og hefur hann ekki mikið styst á heilu ári. Í fyrra biðu  173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komnir eru á fertugsaldurinn eru enn heima hjá foreldri/foreldrum sínum sem eru í sumum tilfellum að niðurlotum komin. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi en henni er einfaldlega ekki fylgt. Hér þarf að gera skurk. Í þessum málaflokki á enginn biðlisti að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við svari velferðarsviðs, dags. 11. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úrræði foreldra sem bíða eftir húsnæði fyrir fatlaða einstaklinga, sbr. 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Sveitarfélögin eiga að tryggja fólki með fötlun húsnæði þannig að þeim sé gert kleift að reka eigið heimili og búsetuúrræðin þurfa að vera í samræmi við þarfir einstaklinganna. Húsnæðisúrræðin eiga að vera staðsett nálægt almennri og opinberri þjónustu ef það er hægt. Á þessu hefur verið mikill misbrestur í Reykjavík, stærsta sveitarfélagi landsins. Vel á annað hundrað manns bíða eftir húsnæði og hafa aðeins 52 fengið úthlutað nýju húsnæði sem byggt var á grunni uppbyggingaráætlunar síðastliðin 3 ár. Á þessum biðlista sér varla högg á vatni og hefur hann ekki mikið styst á heilu ári. Í fyrra biðu  173 einstaklingar eftir búsetuúrræði. Vitað er um dæmi þess að einstaklingar með erfiða þroskahömlun sem komnir eru á fertugsaldurinn eru enn heima hjá foreldri/foreldrum sínum sem eru í sumum tilfellum að niðurlotum komin. Ekki þarf að fjölyrða um hversu erfitt þetta er fyrir einstaklinginn sjálfan. Uppbyggingaráætlun er í gangi en henni er einfaldlega ekki fylgt. Hér þarf að gera skurk. Í þessum málaflokki á enginn biðlisti að vera.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um leikjagrind við Öskjuhlíð, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 29. ágúst 2019:

Spurt var um leikjagrind í Öskjuhlíð sem byrjað var að setja upp en var skyndilega tekin niður aftur. Eftir þessu var tekið af vegfarendum. Nú hefur borist svar og segir að farið hafi verið í uppsetningu án grenndarkynningar. Hér má kannski segja að sé enn eitt dæmið um að ekki er hugað nægjanlega að undirbúningi verkefna. Af hverju var ekki talið nauðsynlegt að fara í grenndarkynningu? Það segir sig kannski sjálft að ef ekki er farið í grenndarkynningu má búast við að það komi mótmæli frá einhverjum. Fólk og í þessu tilfelli nágrannar og nærliggjandi fyrirtæki,  vill að það sé haft við það samráð um stór sem smá verkefni. Þarna hefði mátt sjá að t.d.  rekstraraðila Perlunnar  fyndist staðsetningin slæm vegna gosbrunna/ strokksins í suðurhlíð Öskjuhlíðar. Í það minnsta hefði verið betra að eiga við þá orð um þetta áður en ráðist var í verkefnið.  Þarna hefur peningum verið hent á glæ sem hefði mátt koma í veg fyrir ef sýnd hefði verið meiri fyrirhyggja.

 

Bókun Flokks fólksins við svari  skrifstofu borgarstjórnar, dags. 14. október 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um stöðu tillagna og fyrirspurna í borgarráði, sbr. 31. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. júlí 2019, ásamt fylgiskjölum:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins þakkar fyrir  þennan lista og gerir sér grein fyrir að hann hefur kostað talsverða vinnu. Það er mikilvægt að yfirlit eins og þetta sé til og það sé uppfært t.d. á 6 mánaða fresti. Yfirlitið þarf einnig að vera aðgengilegt á vefsvæði borgarfulltrúa á heimasíðu borgarinnar. Þetta er spurning um að hafa vinnu borgarfulltrúa gegnsæja og aðgengilega. Fordæmi fyrir slíku má sjá hjá Alþingi en á heimasíðu Alþingis eru öll  vinna þingmanna skráð með nákvæmum hætti og aðgengileg almenningi.

 

Bókun Flokks fólksins við svari skóla- og frístundasviðs, dags. 25. september 2019, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um viðbrögð við erindum vegna skólahalds í Staðahverfi, sbr. 32. lið fundargerðar borgarráðs frá 15. ágúst 2019:

Það er ljóst að ekkert hefur gerst í þessu máli, skólahald í Staðahverfi. Það svar sem hér er birt staðfestir að málið allt hefur ratað í ómældar ógöngur og hefur tekið á sig óþarflega flókna mynd. Tillögur um 2 eða 3 skóla koma að sjálfsögðu ekki til greina enda engin ástæða. Umræðan um samgöngumálin í tengslum við málið eru orðnar flóknar og ekki sýnilegt að þarna séu alvöru lausnir. Hér virðist blasa við að skóla- og frístundarráð hefur lengi haft þann ásetning að loka Kelduskóla en á þeim veiku rökum að það vanti börn í hann? Alls kyns öðru er farið að blanda inn í málið og látið sem um sé að ræða stóra áhrifaþætti og sýnist borgarfulltrúa sem heildarmyndin hafi tapast í málinu. Það vantar ekki börn í þennan skóla. Það sem þarf að gera er að fá unglingadeildina aftur heim í hverfisskólann og þar með er komin ágætist stærð af skólaeiningu.  Tími er kominn að ljúka þessu máli og losa foreldra og börn undan óþarfa áhyggjum um framtíð skólastarfs í hverfinu. Nóg er komið af óöryggi.  Skólahúsnæði er til staðar, kennaralið og nú vantar bara börnin.

 

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins er varðar Miðborgina okkar og kostnað við að breyta Laugavegi í varanlega göngugötu

Hvað hefur Miðborgin okkar fengið greitt undanfarin ár úr miðbæjarsjóðnum? Svar óskast sundurliðað eftir árum frá árinu 2008.
1. Hefur Bílastæðasjóður greitt til samtakanna og ef svo er er óskað eftir upplýsingum um hversu háar upphæðir það eru frá 2008.
2. Hver er áætlaður kostnaður við að breyta Laugavegi í varanlega göngugötu?
3. Hver er áætlaður kostnaður við að breyta Skólavörðustíg í varanlega göngugötu? 4. Hver er áætlaður framkvæmdatími við að breyta götunum í varanlegar göngugötur? 5. Hvenær er áætlað að byrja framkvæmdirnar og hvenær eru verklok áætluð? R19100355

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og umhverfis- og skipulagsviðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar alþjóðlegan dag gegn einelti:

Nú styttist í alþjóðlegan dag gegn einelti og kynferðisofbeldi, fyrir alla aldurshópa 8. nóv. næstkomandi. Flokkur fólksins gerir það að tillögu sinni að borgarstjórn, borgin öll, ráð og svið og þá ekki síst skóla- og frístundasvið mælist til þess að stofnanir, fyrirtæki þ.m.t. skólar í borginni hugi að samræmdum gjörningi til að vekja athygli og leggja áherslu á baráttuna gegn einelti og öðru ofbeldi. Gjörningurinn færi þannig fram að stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hringi bjöllum af ýmsu tagi eða þeyti flautur á eineltisdaginn 8. nóvember kl. 13:00. Tilmælunum er hægt að koma áleiðis munnlega t.d. á fundum eða í netpósti og myndi hver og ein stofnun útfæra hringinguna eftir eigin hentisemi. Árið 2009, 3. nóvember samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagur gegn einelti var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisofbeldi var haldinn á landsvísu 8. nóvember 2011. Öllum mögulegum klukkum og bjöllum var hringt og flautur þeyttar. Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Að hringja bjöllum er skemmtilegur gjörningur í tilefni þessa mikilvæga dags, gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum og til þess fallinn að vekja athygli á baráttunni.

Vísað til meðferðar mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar neyðarnúmer fyrir viðhaldsþjónustu Félagsbústaða

Flokkur Fólksins leggur til að Félagsbústaðir hafi á heimasíðu sinni neyðarnúmer fyrir viðhaldsþjónustu sem hægt er að hringja í utan hefðbundins opnunartíma skrifstofu. Félagsbústaðir er hlutafélag um eignahald og rekstur félagslegs leiguhúsnæðis á vegum borgarinnar. Félagsbústaðir þurfa sem rekstraraðilar leiguhúsnæðis að sinna ýmsum skyldum gagnvart leigjendum. Ef óvænt atvik koma upp á hjá leigjendum þarf neyðar- og viðbragðsþjónusta að vera til staðar. Ef rafmagn slær út eða lagnir springa verða leigjendur að geta sett sig í samband við Félagsbústaði strax. Þetta kallar á að hafa starfsmann á vakt sem getur brugðist við í slíkum neyðartilfellum á kvöldin og um helgar. Margir leigjendur eru eldra fólk og öryrkjar sem eiga ekki möguleika á að bregðast við að sjálfsdáðum þegar upp koma neyðartilfelli er varðar húsnæðið. Þá þurfa úrræði að vera til staðar. Mörg dæmi eru um að hlutir hafi gerst sem þarf að huga að strax en þá hefur fólk þurft að bíða þar til daginn eftir.  Að hafa neyðarþjónustu er hluti af eðlilegri þjónustu hjá leigufélagi sem vill sinna leigjendum sínum vel. Neyðarþjónusta sem þessi er líkleg til að  fyrirbyggja tjón á eignum félagsins. R19100350

Vísað til meðferðar hjá stjórn Félagsbústaða.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar tímasetningar sundnámskeiða eldri borgara

Flokkur fólksins leggur til að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð skoði tímasetningar sundkennslu eldri borgara. Sumum eldri borgurum finnst tíminn 7.30 miður heppilegur. Í það minnsta mætti skoða að hafa annað sundnámskeið síðar að morgninum. Margt eldra fólk tekur lyf snemma morguns og telur sig ekki tilbúið í sundkennslu eldsnemma morguns. Myrkur er auk þess að morgni yfir vetrartímann. Margt eldra fólk á erfitt með að aka bíl í myrkri. Mestu umferðarvandræðin eru frá kl. 7:30 til 9:30. Þeir sem búa ekki skammt frá Sundhöll Reykjavíkur lenda því iðulega í mikilli umferð á leiðinni heim að loknu sundnámskeiði.  Heppilegur tími fyrir sundkennslu fyrir eldri borgara er frá kl. 10 til 12 eða 11 til 13. Þá er ívið minni umferð. Þessi breyting myndi ríma við umræðuna um að dreifa álagi og umferð. R19100351

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar staðsetningu sundnámskeiða eldri borgara

Flokkur fólksins leggur til að menningar-, íþrótta- og tómstundaráð standi fyrir sundkennslu fyrir eldri borgara í fleiri borgarhlutum en miðbænum. Íþrótta- og tómstundasvið stendur fyrir námskeiðum í sundkennslu í Sundhöll Reykjavíkur klukkan 7:30 á föstudögum. Mikill fjöldi aldraðra býr langt frá Sundhöll Reykjavíkur, í hverfum eins og Breiðholti,  Árbæ og Grafarvogi. Í öllum þessum hverfum búa stórir hópar aldraðra og einnig eru þar sundlaugar. Engu að síður fer sundkennsla aðeins fram í Sundhöll Reykjavíkur. Þetta er bagalegt. Mikilvægt er að gera á þessu breytingar og bjóða upp á sundkennslu fyrir aldraða víðar í Reykjavík. Margir eldri borgarar kvíða einnig akstri inn í miðbæ borgarinnar vegna umferðarálags, slæms aðgengis m.a. vegna byggingaframkvæmda og erfiðleika við að finna aðgengileg bílastæði. R19100351

Vísað til meðferðar menningar- íþrótta og tómstundaráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varðar að borgin komi upp aðstöðu til að koma með húsgögn sem á að gefa

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgin komi upp aðstöðu þar sem hægt er að koma með húsgögn/húsbúnað sem fólk vill gefa til annarra. Þangað býðst þeim að koma sem að sama skapi vantar húsgögn. Með þessu er borgin að leggja sitt af mörkum til umhverfisins, stuðla að endurnýtingu og draga úr sóun. Verslanir Góða hirðisins taka við notuðum húsbúnaði til sölu. Hér er verið að leggja til að borgin skapi aðstæður/vettvang þar sem húsgögn og húsbúnaður fæst gefins. Hægt er að sjá ýmis konar útfærslu hvað varðar framkvæmdina.  Sjá má fyrir sér að starfsmenn/umsjónarmenn á vegum borgarinnar annist umsjón og utanumhald aðstöðunnar og/eða sjálfboðaliðar. Mikilvægt er að hafa þetta sem einfaldast og myndi nytjamarkaðurinn eða lagerinn eftir því hvað fólk kýs að kalla vettvanginn ekki þurfa að vera opinn nema hluta vikunnar til að þjóna tilgangi sínum. Öll vitum við að það er algengt að fólk endurnýi húsgögn og enn aðrir þurfa að losa sig við heilu búslóðirnar vegna flutninga. Flestum finnst ánægjulegt að vita til þess að húsgögn þeirra komist til þeirra sem vantar þau. Tillagan, nái hún fram að ganga, gagnast því, gefendum, þiggjendum og umhverfinu. R19100352

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

 

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varða refi og óhirðu í Elliðaárdal

Sést hefur til refa í Elliðaárdal í kringum Heimahvamm og Skálará. Refur og minkur er kominn í borgarlandið og eru það sennilega ekki ný tíðindi. Þarna er líka mávager, gæsir í hópum og endur. Mikið er um kanínur á þessum stað en einnig er mikið um óhirðu eftir því sem vegfarendur hafa lýst. Sjá má spýtnabrak og trjágreinar víðs vegar og plast hefur verið sett sem skjólgarður yfir steingarða sem eins konar skjól fyrir kanínurnar. Nákvæm staðsetning þar sem þessi lýsing á við er þegar ekið er niður heimkeyrsluna að Heimahvammi frá Stekkjabakka, þá er ekið með fram Skálaráhúsinu á hægri hönd. Neðan við það hús er aragrúi af mávum og kanínunum um allt. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr hvað hyggst borgarmeirihlutinn í umhverfis- og heilbrigðisráði gera við eða fyrir þetta svæði í komandi framtíð? R19100354

Vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs.

Borgarráð 17. október 2019

TILLÖGUR FLOKKS FÓLKSINS FYRIR SÍÐARI UMRÆÐU UM FJÁRHAGSÁÆTLUN REYKJAVÍKURBORGAR 2020-2024

Flokkur fólksins leggur fram eftirfarandi tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2020.

F-1 Biðlistar vegna þjónustu við börn (SFS)

Lagt er til að fjárheimildir skóla- og frístundssviðs verði hækkaðar um 40,5 m.kr. til þess að vinna niður biðlista í þjónustu við börn. Lagt er til að sú leiði verði farin að ráða inn hóp fagfólks tímabundið til að taka niður biðlistann. Ráðnir verði 2 sálfræðingar til viðbótar og einn talmeinafræðingur til eins árs til að byrja með fyrir leik- og grunnskóla. Gert er ráð fyrir að kostnaður fyrir þessi þrjú stöðugildi nemi 40,5 m.kr. sem fjármagnað verði með tilfærslu af liðnum ófyrirséð, kostn.st. 09205.

Greinargerð

Það eru biðlistar alls staðar, börn bíða mánuði og jafnvel ár eftir að fá nauðsynlega þjónustu. Bið eftir skólaþjónustu, fyrstu og frekari þjónustu eru tæp 900 börn samkvæmt nýjum tölum frá velferðarsviði. Hér er m.a. verið að bíða eftir sálfræðiviðtölum og eftir að fá greiningar sem kennarar, fagfólk og foreldrar telja nauðsynlegar fyrir barnið til að hægt sé að skilgreina þjónustuna og miða hana út frá einstaklingsþörfum.  Það er mikilvægt að svo kölluð frumgreining sem veitt er af skólasálfræðingum tefjist ekki enda er slík greining inngöngumiði í aðrar ítarlegri greiningar sem veittar eru af ríkinu í þeim tilfellum sem þess er talið þörf.

Með því að ráð fleira fagfólk inn til skamms tíma til að ná niður biðlistum er hægt að byrja  með hreint borð hvað þennan hóp varðar í það minnsta  Í framhaldi er þess vænst að með hagræðingu og breyttu skipulagi á vinnu og aðsetri sálfræðinga sé hægt að sporna við að biðlistar myndist í þeim mæli sem nú er og hafa verið árum saman. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lengi talað fyrir því að aðsetur skólasálfræðinga sé í skólunum en ekki á þjónustumiðstöðvum. Í skólunum eru sálfræðingarnir í nálægð við börnin og til stuðnings og ráðgjafar við kennara og starfsfólk. Með þeim hætti má telja víst að þeir komist einnig yfir fleiri verkefni enda fer tími í að aka á milli þjónustumiðstöðva og skóla.

Biðlistar eru í alla þjónustu við börn sem borgin veitir enda hafa þarfir barna ekki verið í forgangi hjá þessum né síðasta meirihluta. Bið er slæm fyrir börn og foreldra þeirra og óvissan ekki síður erfið. Börn og aðrir viðkvæmir hópar eiga einfaldlega ekki að þurfa að bíða. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Við eigum að geta gert kröfu um að börn hafi gott  aðgengi að allri þjónustu borgarinnar þar með talið sálfræðiþjónustu skólanna. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða eða þaðan að af enn verra.

F-2 Fríar skólamáltíðir fyrir börn í leik- og grunnskólum (SFS)

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að öll börn í leik- og grunnskóla fái fríar skólamáltíðir. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundssviðs verði hækkaðar um 1.605 m.kr. vegna tekjulækkunar.

Lagt er til að tekjulækkun sviðsins sem áætlað er að nemi um 1.606 m.kr.á ári og þeim kostnaði sviðsins sem tillagan útheimtir verði fjármögnuð af handbæru fé þar sem ljóst þykir að liðurinn ófyrirséður ræður ekki við útgjaldaraukningu af þessar stærðargráðu.  Jafnframt er lagt til að fjárfestingar ársins 2020 verði lækkaðar um sömu fjárhæð eða 1.605 m.kr. og sem felur í sér að sjóðsstaða borgarinnar helst í jafnvægi. Í þeirri áætlun sem nú er verið að leggja fram til síðari umræðu er áætlað að 19,5 milljarðar króna fari í  fjárfestingar en nái tillagan fram að ganga lækki þær í 17,9 milljarða króna. Lagt er til að eignaskrifstofunni verði falið að forgangsraða fjárfestingum upp á nýtt í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið með þetta í huga.

Greinargerð

Eins og vitað er búa mörg börn við mismunandi aðstæður hvað varðar efnahag foreldra. Sum búa við sára fátækt og eru því svöng í skólanum. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að þau fái fríar skólamáltíðir. Flokkur fólksins leggur jafnfram til að leitað verði leiða til að spara í rekstri til að koma á móts við útgjöld sem fríar skólamáltíðir kalla á. Leitað verði leiða til að minnka matarsóun og þar með lækkka kostnað mötuneyta. Í ljós hefur komið í rannsóknum að  mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Daglega eru yfirfullir ruslastampar af matarafgöngum í skólunum. Með átaki gegn matarsóun er hægt að draga kostnað við máltíðir skóla niður á sama tíma og hugað er að umhverfismálum. Einn liður í að draga úr matarsóun er að leyfa börnum um leið  og þau hafa aldur og þroska til, að skammta sér sjálf á diskinn og einnig að börnin skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa. Í að leyfa börnum að taka virkan þátt í að draga úr matarsóun er líklegt til að draga úr matarsóun.  Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir fríum skólamáltíðum eða lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja.

F-3 Styrkir til dagforeldra (SFS)

Flokkur fólksins leggur til að styrkir til dagforeldra verði hækkaðir um 15%. Um er að ræða leigustyrk, styrk vegna ákveðins fjölda barna og aðstöðustyrk. Tillagan felur í sér að fjárheimildir skóla- og frístundasviðs verði hækkaðar um 61,4 m.kr. Viðbótarútgjöld verði fjármögnuð með lækkun á fjárheimildum til menningar- og ferðamálasviðs um sömu fjárhæð, nánar tiltekið verði fjárheimildir til annarrar menningarstarfsemi kostn.st. 03550 lækkaðar um 25 m.kr., til landnámssýningar kostn.st. 03710 lækkaðar um 25 m.kr. og fjárheimildir til listaverka á opnum svæðum kostn.st. 03350 lækkaðar um 12,1 m.kr.

Greinargerð

Bilið sem átti að brúa milli dagforeldra og ungbarnaleikskóla hefur ekki verið brúað. Á meðan verið er að brúa þetta margumrædda bil þarf að styðja við bakið á dagforeldrum ef stéttin á ekki að þurrkast út. Lagt er til að dagforeldrum verði greiddir út þeir styrkir sem nefndir hafa verið að gætu hjálpað dagforeldrum og stutt við bakið á þeim á meðan þetta millibilsástand varir.  Styrkir sem nefndir hafa verið eru:

 1. Dagforeldrar sjálfir hafa nefnt leigustyrk til þeirra sem eru að leigja dýra gæsluvelli á vegum borgarinnar
 2. Einnig að bjóða dagforeldrum sem að ekki eru með 4-5 börn viðbótarniðurgreiðslu til áramóta
 3. Aðstöðustyrk sem  var samþykktur en síðan ákveðið að yrði ekki greiddur í bráð. Þessi styrkur myndi hjálpa þeim dagforeldrum sem ekki hafa náð að fylla í plássin sín.

Haustið sem nú hefur kvatt hefur verið einstaklega erfitt fyrir dagforeldra. Þeir vita ekki endilega hversu mörg börn eru hjá þeim í næsta mánuði. Stundum bjóða leikskólarnir pláss með stuttum fyrirvara.  Dagforeldrar geta því staðið uppi um mánaðamót með einungis hluta af laununum sem þeir gerðu ráð fyrir að hafa. Þeir dagforeldrar sem eru ekki með laus pláss geta síðan ekki tekið við nýjum börnum fyrr en eldri börnin komast inn á leikskóla. Leikskólar Reykjavíkurborgar innrita börn yfirleitt einungis að hausti og því er mjög erfitt að fá laust pláss hjá dagforeldri eða á ungbarnaleikskóla á öðrum tíma ársins en á haustin.

Margir dagforeldrar hafa áratuga starfsreynslu hjá borginni. Sveitarfélagið Reykjavík hefur brugðist þessum hópi að mati margra, stéttinni, foreldrum og börnum sem reiða sig á þjónustuna. Haustið hefur verið sérlega slæmt fyrir dagforeldrana og verður vorið slæmt fyrir foreldrana sem leita nú að dagforeldrum fyrir börn sín. Í vor munu margir foreldrar spyrja „hver á að passa barnið mitt svo ég komist út að vinna“?

F-4 Opnun á göngugötum í miðbænum

Flokkur fólksins leggur til að opna aftur göngugötur fyrir umferð a.m.k. þar til að framkvæmdir hefjast og nota tímann sem framundan er til að ræða við rekstraraðila á svæðinu

Greinargerð

Ákveðið hefur verið að fresta framkvæmdum í tengslum við göngugötur á Laugavegi og nágrenni í um það bil ár. Flokkur fólksins leggur til að götur sem nú hafa verið lokaðar í miðbænum verði opnaðar aftur fyrir bílaumferð að minnsta kosti þar til frekari ákvarðanir hafa verið teknar um framkvæmdir. Á tímanum verði rekstraraðilum á svæðinu og öðrum sem telja sig eiga hagsmuna að gæta boðið upp á alvöru samráð. Kannaðar verða forsendur þeirra sem lúta að rekstri en dregið hefur mikið úr verslun ákveðinna verslana og fyrirtækja eftir að götur voru gerðar að göngugötum og lokaðar alfarið fyrir umferð.

Ekkert er gert ráð fyrir útgjaldarauka vegna þessarar tillögu nema einhverju smáræði sem kostar að  fjarlægja hindranir til þess að bílar geti ekið göturnar á ný.

F-5 Ráðstöfun innri leigu í viðhaldskostnað

Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að tryggja að þeim hluta innri leigu sem innheimtur er vegna áætlaðs viðhaldskostnaðar verði varið til raunverulegs viðhalds og að á hverju þriggja ára tímabili fari fram uppgjör sem sýni fram á að allt innheimt viðhald hafi verið fært út til greiðslu á raunverulegu viðhaldi.

Greinargerð

Bókfærð innri leiga á fasteignum skólanna til eignasjóðs nemur 8,5% af stofnverði viðkomandi fasteignar. Þar af er 1,5% eyrnamerkt til að sinna viðhaldi fasteignarinnar. Sé þeirri fjárhæð sem innheimt er til að standa undir viðhaldi ekki varið til raunverulegs viðhalds má tala um að það safnist upp viðhaldsskuld. Það hefur orðið raunin eftir hrun þar sem viðhald fasteigna borgarinnar hefur verið af skornum skammti. Afleiðingarnar eru að viðhaldsþörf hefur safnast upp í skólunum og er nú svo komið að margar byggingar eru ýmist skemmdar eða þurfa miklar viðgerðir. Nægir jafnframt að nefna ábendingar frá innri endurskoðun um að  ósamræmi sé á milli þess sem fram kemur í forsendum fyrir viðhaldi eigna í útreikningi á innri leigu og þeirri upphæð sem fer í raunverulegt viðhald. Í skýrslum sínum hefur innri endurskoðandi bent á að endurskoða þurfi forsendur fyrir útreikningi á innri leigu miðað við þau markmið sem innri leigu er ætlað að standa undir.

Flokkur fólksins leggur áherslu á að eignasjóður geri skýra grein fyrir því í fjárhagsáætlun í hvað innri leigan fari, hversu stór hluti innri leigu fari í

 1. raunverulegt viðhald og endurbætur og
 2. byggingu nýs húsnæðis.

Þannig verði hægt að lesa út hve stór hluti innri leigunnar fari í raunverulegan húsnæðiskostnað og hvaða hluti fara bara í afborganir af lánum, eða önnur verkefni s.s. bragga í Nauthólsvík og Gröndalshús.

Aðrar bókanir sem lagðar voru fram á fundi borgarstjórnar 3. desember

Fyrri bókun Flokks fólksins við liðnum Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020; síðari umræða.

Allar tillögur Flokks fólksins til breytinga hafa verið felldar. Hvernig á að túlka slíkt? Hér er barist fyrir því að ná niður biðlistum, hvernig getur það ekki hugnast meirihlutanum? Af hverju verða börn, fatlaðir og eldir borgarar að bíða eftir þjónustu, af hverju eru þessir hópar látnir mæta afgangi þegar þeir þurfa sérstaka aðstoð? Stórt er spurt en fátt um svör. Tillögur um gjaldfrjálsar skólamáltíðir og styrkir til dagforeldra var sömuleiðis hent. Hér er aðeins verið að tala um að ráða tvo sálfræðinga til tímabundinna starfa til að stytta biðtíma barna eftir nauðsynlegri þjónustu. Dagforeldrar segja meirihlutann vera að ganga að stéttinni dauðri. Eru það þakkir borgarinnar til þessarar stéttar? Með þessari afgreiðslu finnst Flokki fólksins meirihlutinn í borginni sýna fólki vanvirðingu. Skilaboðin eru, þið getið beðið. Fram kom í botnlausum hrósræðum meirihlutans um sjálfa sig skilaboðin „við vitum betur en þið hvernig gera á þessa borg góða“. Þessi skilaboð kjarnast vel í samskiptum meirihlutans við foreldra og íbúa Staðarhverfis, Miðbæjarfélagið, hagsmunaaðila og vina Elliðarárdalsins, rekstraraðila Hverfisgötu svo fátt sé upp talið. Fram undan er nýtt ár, þriðja ár þessa kjörtímabilsins. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vænti þess að fá hlustun á mál sín sem lögð eru fram með fjölda manns að baki sem vonaði að þeim yrði tekið vel en varð ekki kápan úr því klæði.

Síðari bókun Flokks fólksins við liðnum Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020; síðari umræða.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram ýmsar tillögur sem snúa að því að bæta þjónustu og liðka fyrir aðgengi að borginni svo allir geta notið hennar. Það hugnast þessum meirihluta ekki. Þessi meirihluti sýnir ákveðna fordóma gagnvart fjölskyldufólki í úthverfum sem þarf að nota bíl í sínu daglega lífi. Í þessari fjárhagsáætlun er aftur ítrekað að ekki er tekið nægjanlega tillit þeirra hópa sem minnst mega sín. Það tekur á að svo margir, sem raun ber vitni, eiga um sárt að binda í svo ríkri borg sem Reykjavík er. Flokkur fólksins vill sjá næstu fimm árin í borginni með öðrum hætti en meirihlutinn leggur upp með. Flokkur fólksins vill að börn, öryrkjar og eldri borgarar fái fullan forgang. Minnt er á að nýlega er búið að skrifa undir samning um stuðning félagsmálaráðuneytisins við innleiðingu á verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Ekki hefur verið farið vel með útsvarsfé borgarbúa. Nærtækast er bruðlið með kostnað við borgarstjórnarfundi. Borgin státar af góðu gengi þótt skuldastaða hafi versnað. Þjónustu er víða ábótavant. Væri betur haldið á spilunum fjárhagslega væri hægt að draga úr lántöku og vinna á biðlistum. Vandi skóla- og frístundasviðs er augljós og hvernig óskir skóla hafa verið hunsaðar er óásættanlegt.

Bókun Flokks fólksins við liðnum Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar 2020-2024; síðari umræða

Borgarfulltrúar meirihlutans hafa tjáð sig um skoðanir sínar. Það er dapurt að hlusta á lýsingu á aðferðarfræði sem felur í sér að útiloka einn þjóðfélagshóp, þann sem þarf að nota bíl. Talað er eins og borgarlína sé komin og að almenningssamgöngur séu fullnægjandi. Sagt er að enginn eigi að þurfa bíl til að sækja sér opinbera þjónustu. Allt skuli rafrænt. Flokki fólksins blöskrar þessi rörsýn, meinloka og hvernig farið er í að loka leiðum og möguleikum áður en aðrir valmöguleikar liggja fyrir. Eru börnin send og sótt rafrænt í leikskólann? Hvernig eiga fjölskyldur að koma börnum sínum í og úr leikskóla/skóla/tómstundum, koma sér í og úr vinnu og sinna ýmsum erindum þegar þær geta ekki lengur nota bíl sinn nema á afmörkuðum svæðum. Enn eru mörg ár í borgarlínu og strætókerfið er ófullnægjandi. Þessu fólki er gert ómögulegt að búa í úthverfum, eiga börn og sækja vinnu miðsvæðis sem bráðum verður lokað bílum. Áhersla meirihlutans í þessum málum er röng. Nær væri að setja orku, tíma og fé í beina þjónustu við fólkið í borginni. Tímabært er að setja niður og ræða við fólk sem telur að meirihlutinn hafi brugðist sér, jafnvel svikið sig. Miklu var fórnað hjá sumum flokkum fyrir völdin. Loforð um fögur fyrirheit eru mörg fyrir bí.

Bókun Flokks fólksins við  6. lið fundargerðar skóla- og frístundaráðs vegna afgreiðslu tillögu að tekjutengja frístundargjald til að létta undir með efnalitlum foreldrum.
Tillagan var felld 

Ekki er gott að átta sig á þankagangi meirihlutans í skóla- og frístundarráði þegar tillaga eins og þessi er felld. Hér er um að ræða tillögu sem leiða myndi til þess að hjálpa þeim foreldrum sem verst eru staddir. Öll vitum við að þegar hækka á laun, eða draga úr skerðingum kemur það oft þeim sem eru verst settir minnst til góða. Fólk sem er í góðum efnum vill einnig oft borga meira. Þess vegna er nauðsynlegt að tekjutengja hluti stundum eins og þessi tillaga fjallar um en lagt var til að tekjur foreldra/forsjármanna hafi bein áhrif á gjaldskrá frístundaheimila. Hér er um frístundarheimili að ræða, dvöl sem er börnum nauðsynleg til að foreldrar geti unnið úti. Kostir við að tekjutengja eru að það fólk sem virkilega þarf aðstoðina fá hana en hinir ekki. Séraðgerða er þörf til að hjálpa þeim verst settu. Almenna reglan ætti að vera sú þeir sem eru fátækir eiga ekki að borga eins mikið og þeir efnaðri. Núna er hópur að störfum sem skoðar sárafátækt og mættu tillögur sem lúta að leiðum til að jafna kjör borgarbúa gjarnan vera vísað í hópinn til frekari útfærslu í stað þess að vera felldar.

Borgarstjórn 3. desember 2019

Bókun Flokks fólksins við framlagningu lykiltalna þ.m.t. tölur yfir biðlista:

Fulltrúa Flokks fólksins er brugðið að sjá þessar tölur og þá sérstaklega biðlistatölurnar og það hljóta valdhöfum að vera líka. Flokkur fólksins hefur sagt það áður að það er eins og biðlistar séu orðin föst breyta, inngrónir og innmúraðir í kerfið. Staðan er enn háalvarleg í húsnæðismálum sem er uppsafnaður vandi til margra ára. Þrátt fyrir að Félagsbústaðir (borgin) séu að fjárfesta meira nú en áður bíða enn yfir 1.000 manns eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði og milliflutningi. Það eru biðlistar í alla þjónustu í Reykjavík. Það bíða mörg hundruð börn eftir skólaþjónustu fagfólks, eftir viðtölum við skólasálfræðinga og greiningum. Það bíða vel á annað hundrað eftir stuðningsúrræðum og eftir tilsjón, eftir frekari liðveislu og almennri liðveislu bíða vel á þriðja hundrað. Eftir húsnæði fyrir fatlað fólk bíða 162 og munar aðeins  um 10 frá árinu áður. Það verður að ráðast til atlögu gegn þessum biðlistum og hægt væri sem dæmi að sækja fé í liðinn „ófyrirséð“ til að fjármagna fleiri stöðugildi svo vinna megi niður biðlista. Hér eiga valdhafar að sjá sóma sinn og forgangsraða fjármunum í þágu þjónustu við fólkið. Meirihlutanum í velferðarráði ber skylda til að sækja meira fé í sjóði borgarinnar til að vinna niður alla biðlista í þjónustu sem sviðið veitir.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Biðlistar eru listar yfir fólk sem er í bið eftir tiltekinni þjónustu. Eina leiðin til að engir slíkir væru til staðar væri annað hvort að reka enga þjónustu, eða að svo mikið af umfram úrræðum væru til staðar að aldrei væri nein bið. Erfitt er að sjá fyrir sér hvernig það væri hægt öðruvísi en að eiga mikið af umfram eignum. Þær hlytu að teljast slæm fjárfesting meðan þær væru ekki í notkun. Mikilvægt er að umsóknir séu afgreiddar af biðlistum í samræmi við þörf umsækjenda.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Flokkur fólksins vill bregðast við gagnbókun meirihlutans er varðar biðlista. Óþarfi er að vera með öfgar í þessu og tala um að ein leið til að ekki sé biðlisti sé að veita ekki þjónustuna. Flokkur fólksins skilur vel að bið eftir þjónustu geti verið 2-4 vikur en ætti helst ekki að vera lengri. Hér er ekki verið að tala um að fólk komist samdægurs að þegar umsókn er skilað inn.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins um ýmis atriði varðandi mötuneyti fyrir eldri borgara, sbr. 14. lið fundargerðar velferðarráðs 9. október 2019.

Tillögunni er vísað frá með fjórum atkvæðum Samfylkingarinnar, Vinstri grænna og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins greiða atkvæði á móti. Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá. Fulltrúi Flokks fólksins getur ekki skilið af hverju þessari tillögu er vísað frá. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð. Með því að vísa frá tillögunni er verið að lýsa frati á innihald tillögunnar, hugmyndir sem eiga upptök hjá borgarbúum. Í umsögn kemur fram að margt af því sem lagt er til sé nú þegar í gangi. Þessi skilaboð eru því sérkennileg út í samfélagið. Ef margt er í gangi er bara sjálfsagt að samþykkja þessa tillögu og nota hana sem frekara innlegg eða hvatningu í þann hóp/hópa þar sem unnið er  með þessi mál. Flokki fólksins finnst mikilvægt að meirihlutinn geri ekki lítið úr tillögum frá minnihlutanum sem eru að reyna að vinna fyrir borgarbúa. Fulltrúa Flokks fólksins langar að bregðast við atriði í umsögn og það varðar að fólki sé gert kleift að „taka með mat heim ef það óskar þess hvort sem um er að ræða alla máltíðina eða afgang hennar“. Vandinn er að þetta vita ekki allir. Það er mikilvægt að upplýsingar eins og þessar komist til skila til allra. Ef talað er um heimild þá er hætta á að fólk upplifi það sem undantekningartilvik. Sama gildir um matarílátin. Hvetja þarf fólk til að koma með sín eigin ílát sem oftast.

 

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu við svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 18. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um velferðarsmiðju og velferðartæknismiðju.

Vissulega fleygir tækninni fram í þessum málaflokki eins og öðrum og allt skal gera til að auðvelda fólki að búa á eigin heimili eins lengi og það vill og getur og jafnframt að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Segir í svari að “ Fjölmörg fyrirtæki bjóða upp á tæknilausnir og er það hlutverk starfsmanns að meta þörfina og prófa tæknina eftir atvikum” Hér vill fulltrúi Flokks fólksins benda á mikilvægi þess að notendur meti tæknina og prófi eftir atvikum en ekki starfsmenn. Það eru ekki starfsmenn sem eiga að nota tæknina heldur notendur hennar. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af skjáheimsóknum og myndsamtölum milli notenda og starfsfólks. Er hér verið að hverfa frá persónulegum tengslum þar sem fólk talar saman maður við mann og fara að mestu yfir í hið rafræna? Skjáheimsókn getur aldrei komið í staðin fyrir heimsókn manneskju. Ekkert kemur í staðin fyrir samveru.  Vísað er í reynslu nágrannalandanna í svarinu en það er ekki nóg að vísa í reynslu. Mæla þarf hlutina með því að spyrja fólk markvissra spurninga. Það hefur ekki verið gert hvað varðar velferðartækni.  Hér er því verið að renna blint í sjóinn með alla þessa tækni. Eldri borgarar eru einfaldlega allt of sjaldan spurðir um hluti sem varða þá sjálfa.

 

Bókun Flokks fólksins við svari sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 19. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um húsnæði fyrir fatlaða sem losnar:

Það bíða 162 eftir húsnæði fyrir fatlað fólk 2019, litlu færri en í fyrra og aðrir 34 bíða eftir milliflutningi.  Á þriggja ára tímabili hafa 75 íbúðir eða herbergi skipt um leigjendur.  Það hljómar verulega ömurlegt að ekki sé hægt að byggja nóg fyrir þennan hóp og að bíða þurfi eftir að fólk hreinlega deyi eða fari á hjúkrunarheimili til að næsti á lista fái húsnæði. Í svari við fyrirspurn Flokks fóksins um búsetu fatlaðra einstaklinga sem eru að bíða eftir húsnæði kemur fram að 99 fatlaðir einstaklingar búa hjá foreldrum sínum, fólki sem sumt hvert sjálft glímir við öldrun og veikindi. Þetta er óviðunandi ástand. Dæmi eru um að ekki er hlúð nægjanlega vel að þessum fjölskyldum á meðan beðið er eftir húsnæði fyrir fatlaðan fjölskyldumeðlim. Skoða ætti að veita þessum fjölskyldum sérstakan fjárhagsstuðning. Umönnunargreiðslur eru því miður aðeins í boði ef viðkomandi er ekki veikur og ef fötlun hefur komið skyndilega. Foreldrar fatlaðra fullorðinna einstaklinga hafa stundum þurft að hætta vinnu. Dæmi eru til um að fólk hafi orðið öryrkjar vegna streituálags og langvarandi þreytu. Þessi mál þarf að laga núna!

 

Bókun Flokks fólksins við svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 20. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um hvar fatlaðir einstaklingar sem bíða eftir húsnæði búa á meðan biðinni stendur:

Það kemur fram í svari að langflestir eða 99 búa  hjá foreldrum sínum, fólki sem sumt hvert glímir sjálft við öldrun og veikindi. Þetta fólk er oft alveg  úrvinda og uppgefið.  Dæmi eru um að fatlaður einstaklingur á biðlistanum er kominn yfir þrítugt og jafnvel eldri.  Einnig eru dæmi um að í fjölskyldunum séu yngri systkini á barnsaldri. Í sumum tilvikum er um erfiða fjölþætta fötlun að ræða  sem krefst mikillar umönnunar. Það tekur mikið á hinn fatlaða einstakling og alla fjölskylduna ekki síst börnin í henni ef biðin eftir húsnæði er mörg ár.  Varla græðir velferðarkerfið á því að heil fjölskylda verði sjúk af þreytu og álagi af því ekki er hægt að fylgja sveitastjórnarlögum og bjóðum fötluðum fullorðnum einstaklingi búsetu við hæfi. Starfsmenn gera án efa sitt til að létta undir með þessum fjölskyldum á meðan beðið er. Stuðningur við þessar fjölskyldur ætti einnig að vera meira fjárhagslegur t.d. þegar fólk hefur þurft að minnka við sig vinnu eða hefur einfaldlega brunnið út.

 

Bókun Flokks fólksins við svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 21. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um bið eftir rauðakross vini:

Það er ekki hægt að henda reiður á hvað hér er verið að tala um langan biðtíma eftir Rauðakross vini. Er verið að tala um daga, vikur eða mánuði?  Ekkert meðaltal er heldur gefið upp. Fyrir þann sem íhugar að fá Rauðakross vin í heimsókn hefur öll svona óvissa ákveðin fælingarmátt. Það hefur verið í umræðunni að biðin eftir svona heimsókn sé mjög löng og óttast er að margir hreinlega nenni ekki að standa í þessu. Sá sem óskar eftir þessari heimsókn er e.t.v. búin að mana sig lengi upp í að hafa samband og biðja um hana. Því fylgja ákveðnar væntingar og tilhlökkun. Það er því vont að viðkomandi þarf jafnvel að bíða  mjög lengi eftir heimsókninni. Í raun ætti þetta kannski ekki að vera svo flókið eins og lýst er í svarinu. Pörun sú sem lýst er virkar ansi nákvæm. Kyn, aldur, búseta, áhugamál og margt fleira þarf að passa við viðkomandi. Allir geta hitt alla þannig lagað og spjallað  um daginn og veginn án þess endilega að hafa nákvæmlega sömu áhugamál. Aldur og kyn ætti vissulega ekki að þurfa að vera vandamál en mögulega gæti búseta valdið töfum ef um langar vegalengdir er að ræða.

 

Bókun Flokks fólksins við svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 22. lið fundargerðar velferðarráðs þann 9. október 2019 um kynjahlutföll notenda akstursþjónustu:

Í svari kemur fram að heildarfjöldi Reykvíkinga sem eru 67 ára og eldri er 15.316. Þar af eru 55% konur en 45% karlar. Skilyrði fyrir að fá akstursþjónustu eru þau að viðkomandi eigi lögheimili í Reykjavík, sé 67 ára eða eldri, búi sjálfstætt, sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar og hafi ekki aðgang að eigin bifreið. Velferðarsvið hefur ekki kannað sérstaklega ástæður fyrir mismunandi kynjahlutfalli í akstursþjónustu en það gæti verið áhugavert að jafnréttisskima akstursþjónustuna segir í svari. Þessi kynjamismunur er nokkuð sérstakur. Fulltrúa Flokks fólksins finnst skilyrðin fyrir þessar þjónustu einnig stíf. Sem dæmi er eitt að skilyrðunum að viðkomandi sé ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar. Af hverju er þetta skilyrði nauðsynlegt? Hér er verið að útiloka kannski stóran hóp sem virkilega gæti nýtt sér þetta úrræði.  Hvernig er það að “vera ófær um að nota almenningssamgöngur vegna langvarandi hreyfihömlunar” metið og hvernig er því  fylgt eftir? Skilyrði sem þetta kallar á óþarfa tíma og utanumhald af hálfu starfsmanna sem einnig kostar peninga. Vel mætti létta á þessum skilyrðum.

Bókun Flokks fólksins svar sviðsstjóra við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins, sbr. 16. lið fundargerðar velferðarráðs þann 21. ágúst 2019 um langtímaveikindaleyfi starfsmanna á velferðarsviði árið 2017 og 2018 og samanburð við SFS:

Spurt var um meðalveikindahlutfall velferðarsviðs annars vegar og skóla- og frístundarsviðs hins vegar  fyrir þriggja ára tímabil.  Samtals hafa rúmlega 1200 manns verið veikir samfellt lengur en í 30 daga á sl. þremur árum á þessum tveimur sviðum.  Fulltrúi Flokk fólksins veltir því fyrir sér hvort ástæðan sé mikið til álag og vanlíðan í starfi?  Eins og fram kom í skýrslu innri endurskoðanda þá eru kennarar t.d. undir miklu álagi og hafa kallað eftir að fá fagfólk inn í skólana í meira mæli til að vinna við hlið sér. Við því hefur ekki verið brugðist. Fram kemur í svari að ekki er haldið utan um upplýsingar um eðli veikinda. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það nokkuð kalt. Í þessum tilfellum á borgin sem vinnustaður að halda vel utan um starfsmenn sína sem eru veikir í svo langan tíma og leggja sig fram um að bjóða þeim stuðning eftir þörfum og óskum hvers og eins.

 

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs minnisblað um sérstakan húsnæðisstuðning:

Fulltrúi Flokks fólksins er ósammála því að þetta mál sé ekki á forræði velferðarráðs. Auðvitað þarf velferðarráð að bregðast við hér til að rétta hlut leigjenda við þessar sérstöku aðstæður. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarráði í síðustu viku um að  „velferðarráð bregðist við breyttum lögum frá því í sumar um félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar“. Viðbrögð velferðarráðs þurfa að vera með þeim hætti að viðmiðum verði breytt til  þess að húsnæðisstuðningur Félagsbústaða til örorkulífeyrisþega lækki ekki eins og nú hefur verið gert með þeim afleiðingum að  leiga hefur hækkað umtalsvert. Með breyttum lögum hafa nú 65% af tekjum örorkuþega áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum hafa í raun þurrkast út þar sem Félagsbústaðir hafa skert húsnæðisstuðning í kjölfarið. Velferðarráð þarf að sjá sóma sinn í að gera sérstakar ráðstafanir vegna lækkunar sérstaks húsnæðisstuðnings hjá íbúum vegna umræddra leiðréttinga frá Tryggingastofnun. Þegar svona gerist þarf velferðarráð að geta gripið inn í og séð til þess að leiga fólks haldist óbreytt. Liðurinn „ófyrirséð“ er einmitt liður sem grípa á til undir slíkum kringumstæðum.  Flokkur fólksins hefur lagt fram fyrirspurnir um kostnað í þessu sambandi.

 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn upplýsingar um heildarkostnað Reykjavíkurborgar af því ef ekki yrði tekið mið af auknum tekjum lífeyrisþega sem rekja má til þess að dregið var úr skerðingum á sérstakri uppbót á lífeyri með lagabreytingum í sumar

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um heildarkostnað Reykjavíkurborgar af því ef ekki yrði tekið mið af auknum tekjum lífeyrisþega sem rekja má til þess að dregið var úr skerðingum á sérstakri uppbót á lífeyri með lagabreytingum í sumar. Hér er verið að tala um að Félagsbústaðir geri engar breytingar á upphæð húsnæðisstuðnings þessa hóps heldur héldist hann óbreyttur þann tíma sem um ræðir. Forsaga málsins er sú að í sumar var lögum breytt um  félagslega aðstoð og lögum um almannatryggingar, þar sem dregið var úr tekjutengingu sérstakrar uppbótar. 65% af tekjum örorkuþega hafa nú áhrif á útreikning sérstakrar uppbótar í stað 100 prósenta. Breytingar gilda frá áramótum en voru lögfestar á miðju ári og því fengu öryrkjar leiðréttinguna greidda afturvirkt 1. ágúst síðastliðinn. Afleiðingar urðu þær að leiga fjölmargra öryrkja hækkaði umtalsvert og hafa því þær auknu tekjur sem frumvarpið skilar örorkulífeyrisþegum þurrkast út vegna þess að Félagsbústaðir skerða húsnæðisstuðning til leigjenda vegna aukinna tekna.

Vísað til velferðarsviðs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram fyrirspurn um greiningu á þeim 400 börnum /tilvísunum sem bíða eftir fyrstu þjónustu skólasálfræðinga

 

Flokkur fólksins óskar eftir nákvæmari greiningu á þeim 400 börnum /tilvísunum sem bíða eftir fyrstu þjónustu skólasálfræðinga. Einnig er óskað eftir sundurliðun og nánari upplýsingum um hópinn sem bíður eftir „frekari“ þjónustu. Hvað er verið að vísa í þegar talað er um „frekari“ þjónustu. Er sem dæmi átt við að þá liggi fyrir frumgreining (vitsmunaþrokamat, ADHD og einhverfuskimun sem og mat á líðan) og verið sé þá að bíða eftir nánari úttekt eða fleiri viðtölum? Óskað er eftir upplýsingum um þetta. Ástæðan fyrir fyrirspurninni er sú að borgarfulltrúa Flokks fólksins finnst þessar tölur mjög háar. Á bak við hverja tilvísun er barn sem líður illa og á biðlista er barnið e.t.v. búið að bíða mánuðum saman.

Vísað til velferðarsviðs.

Velferðarráð 13. nóvember 2019

Tillaga Flokks fólksins um að borgarstjórn samþykki að frístundarkortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang og að þar með verði afnumið skilyrði að nýta verði rétt til frístundarkorts áður en sótt er um fjárhagsaðstoð.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að frístundarkortið verði einungis notað í samræmi við skilgreint markmið þess og tilgang. Þar með verði afnumið skilyrði að til þess að geta sótt um aðra fjárhagsaðstoð þ.m.t. þriggja mánaða skuldaskjól eða afskrift vanskila verði foreldri/skuldari fyrst að nýta rétt til frístundakorts skv. greinum 16a og 16b í Reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og Reglum um verklag vegna vanskila foreldra er varðar þjónustu við börn.

Hugmyndafræðin að baki frístundarkorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskisla foreldra við borgina. Þvert á móti er markmið og tilgangur frístundarkortsins að:

Öll börn og unglingar í Reykjavík 6 – 18 ára geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi óháð efnahag eða félagslegum aðstæðum foreldra.

Árið 2009 var samþykkt á fundi borgarráðs að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum. Sú ákvörðun gengur einnig í berhögg við markmið og tilgang frístundarkortsins.

Frístundakortinu er ætlað að auka jöfnuð og fjölbreytni í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi. Að spyrða rétt barns til frístundarkorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól eða nota það sem gjaldmiðil upp í greiðslu vegna nauðsynlegrar dvalar barns á frístundaheimili er brot á rétti barnsins.

Greinargerð

Markmiðið og tilgangurinn með frístundarkortinu var ætíð að auka tækifæri barna til að stunda íþróttir og tómstundir óháð efnahag foreldra. Það markmið hefur nú verið afbakað. Það sætir furðu að síðasti meirihluti í borgarstjórn og sá sem situr nú við völd skuli hafa leyft sér að breyta markmiði frístundarkortsins og tilgangi þannig að réttur til nýtingu kortsins gangi ýmist upp í greiðslu á frístundaheimili eða sé skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð, umsókn um skuldaskjóli eða afskriftir skulda.

Frístundaheimili er fyrst og fremst hugsað til að veita börnum öruggt og þroskavænlegt skjól á meðan foreldrar eru í vinnu. Hér er um nauðsyn að ræða í lang flestum tilfellum. Það gefur auga leið að ef foreldrar vegna fjárhagserfiðleika sinna verða að nota frístundarkortið til að greiða með frístundaheimilið er réttur barnsins til nýtingu þess í íþrótta- og tómstundaiðkun ekki nýttur. Enn frekari afbökun á rétti til frístundarkorts er að gera notkun þess að skilyrði fyrir að sækja um fjárhagsaðstoð.

Hvernig má það vera að eitthvað sem er hugsað til að rjúfa einangrun barns og stuðla að jafnræði sé nú notað sem gjaldmiðill upp í greiðslu skulda foreldrið eða gert að skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð eða skuldaskjóli?

Annað vandamál er upphæð frístundarkortsins sem er kr. 50.000 krónur. Þessi upphæð nær skammt upp í fjölmörg lengri námskeið á sviði íþrótta- og tómstunda. Skilyrði fyrir að nota frístundarkortið er að námskeið sé allt að 10 vikur og kosta slík námskeið án efa mun meira en 50. 000 krónur. Aðeins þeir foreldrar sem geta greitt mismuninn geta leyft börnum sínum að taka þátt í lengri námskeiðum og námi í t.d.  tónlistarskóla, dansskóla, myndlistarskóla, ljósmyndanám eða annað sambærilegt.

Engar undantekningar eða sveigjanleiki er fyrir hendi að nota korti í styttri og þar að leiðandi kostnaðarminni námskeið. Með þessu er börnum efnalítilla og fátækra foreldra útilokuð þar sem foreldrar hafa oft engin ráð á að greiða mismuninn sem gæti allt eins verið tvöföld upphæð frístundarkortsins og jafnvel meira.

Með svo ósveigjanlegum og ósanngjörnum reglum er fátækum foreldrum þrýst til að nýta kortið til að greiða upp í gjald frístundaheimilis? Svo langt er gengið í ósveigjanleika að það er ekki einu sinni hægt að nýta kortið á sumarnámskeið þar sem þau námskeið ná ekki 10 vikna lengd. Fyrir þessu eru engin rök. Styttri námskeið geta vel verið jafn árangursrík í að styrkja félagsfærni barna en löng Fyrir mörg börn henta styttri námskeið betur en lengri. Fyrir barn fátækra foreldrar sem ekki hafa efni á að veita barni sínu mikið getur ein vika, jafnvel einn dagur í félagslegum samskiptum skipt miklu máli. Ef foreldrar hafa ekki ráð á að greiða heildarkostnaðinn fyrir 10 vikna námskeið hvernig samræmist það yfirlýstum markmiðum um frístundakortið. Í hverju felst jöfnuðurinn?

Flokkur fólksins gerir þá kröfu að borgarmeirihlutinn virði tilgang og markmið frístundarkortsins og í stað þess að taka réttinn af barni til að nota kortið í tómstundir séu fundnar aðrar leiðir til að aðstoða foreldra við að greiða fyrir frístundaheimili. Heldur ætti aldrei að setja skilyrði að foreldri nýti rétt frístundarkorts barns síns svo það geti sótt um fjárhagsaðstoð, sótt um skuldaskjól eða afskriftir skulda. Hér er verið að blanda saman tvennum ólíkum hlutum á kostnað hagsmuna barnsins.

Fyrir liggur að nýting frístundarkortsins er lang minnst í hverfi 111. Hverfi 111 er eitt mesta fjölmenningarsamfélagið í borginni. Þar býr mikið af efnalitlum fjölskyldum. Það er sérkennilegt að ekki séu til upplýsingar hjá íþrótta- og tómstundasviði um hlutfall þátttöku barna  af erlendu bergi brotnu. Sterkar vísbendingar eru um að ástæðan fyrir því að nýting frístundarkortsins er mun lægri í þessu hverfi en í öðrum hverfum séu vegna þess að þar hafa foreldrar neyðst til að nota frístundarkortið í öðrum tilgangi.

Flokkur fólksins hefur lagt il að farið verði í sérstakt átak hjá borginni til að auka nýtingu frístundarkortsins í hverfi 111 í þágu barnanna. Liður í því er að afnema skilyrði um nýtingu þess fyrir umsókn um fjárhagsaðstoð og skuldaskjól og bjóða þeim sem ella hefðu notað frístundarkortið til að greiða frístundaheimili þess í stað sérstakan styrk svo barnið geti notað frístundarkortið samkvæmt markmiðum þess.

Vísað til menningar, íþróttar og tómstundaráðs

Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins:

Í gegnum tíðina hefur borgarmeirihlutinn gengisfellt frístundakortið. Opnað hefur verið fyrir að nota það til að greiða nauðsynjar eða sem gjaldmiðil upp í skuld foreldra. T.d. er notkun þess skilyrði til að fá skuldaskjól hjá borginni í þrjá mánuði eða afskrift vanskila.  Hugmyndafræðin að baki frístundakorti tengist ekki á neinn hátt erfiðleikum foreldra að greiða fyrir frístundaheimili, hvað þá greiðslu skulda eða afskriftir vanskila foreldra við borgina. Hvað varð um hugsjónina að baki frístundakortsins og þann göfuga tilgang sem lýst er svo fagurlega í reglum um kortið? Sú tillaga sem VG lagði fram árið 2009 að unnt verði að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakortum gengur í berhögg við markmið og tilgang frístundakortsins. Hvar er hugsunin um jöfnuð? Eða vilji til að freista þess að auka möguleika á að börn sitji við sama borð? Að spyrða rétt barns til frístundakorts við fjárhagserfiðleika og umsókn foreldra um fjárhagsaðstoð eða nota það sem gjaldmiðil upp í frístundaheimili er brot á rétti barnsins. Markmið kortsins hefur verið afbakað. Það sætir furðu að síðasti og núverandi meirihluti í borgarstjórn hafi leyft sér að breyta markmiði frístundakortsins þannig að það er nú notað ekki síður sem bjargir frekar en tækifæri.

 

Bókun Flokks fólksins umræða um samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu til 2033

Fyrir liggur samkomulag ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um borgarlínu. Veg- og flýtigjöld eru nefnd nánast í öðru hvoru orði og liggur fyrir að skattpína á bíleigendur sem aka inn í miðbæinn til að fjármagna borgarlínu að hluta. Hugmyndin um veggjöld er að frumkvæði meirihlutans í borgarstjórn. Ákveðið er að gjöldin verði álögð allan gildistíma samkomulagsins. Andúð meirihlutans í borgarstjórn gegn einkabílnum er augljós. Hér er komið tækifæri til að refsa þeim sem aka bíl sínum inn í borgina. Mörg ár eru í borgarlínu en skattlagning á að byrja sem fyrst. Nota á eftirlitsmyndavélar, aðferð sem er óhemju kostnaðarsöm og samræmist auk þess ekki persónuverndarlögum. Enn eitt samkrullsfélag borgarinnar við önnur sveitarfélög (og ríki) verður stofnað þar sem fjárhagsleg ábyrgð borgarinnar er óljós. Ókostir samkrulls eins og byggðasamlaga komu skýrt í ljós þegar bakreikningur barst vegna mistaka hjá Sorpu. Reykjavík ber hitann og þungan af þeim bakreikningi og öðrum sem kunna að koma í framtíðinni vegna borgarlínu. Smærri sveitarfélögin borga minnst en ráða hlutfallslega mest. Mikilvægt er að breyta þessu fyrirkomulagi áður en lengra er haldið með svokallað „sameiginlegt félag“ í tengslum við borgarlínu. Tryggja þarf ákvarðana- og stjórnunarvægi borgarinnar í samræmi við íbúatölu og tryggja að minnihlutum í sveitarstjórnum sé boðið að borðinu. Öðruvísi virkar ekki lýðræðið.

Málsmeðferðartillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um frestun á að deiliskipulagið fyrir fyrsta áfanga Laugavegar sem göngugötu fari í auglýsingu

Flokkur fólksins leggur til að frestað verði að senda deiliskipulagstillögu og tillögu um göngugötur í auglýsingu um nokkra mánuði. Á þeim tíma verði haft alvöru samráð við hagsmuna- og rekstraraðila sem leiði til sameiginlegrar niðurstöðu sem sátt ríki um. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju er varðar lokanir og þá ákvörðun að opna þær ekki að nýju núna í október eins og ráð var fyrir gert. Verslun hefur hrunið eftir að þessum götubútum var lokað fyrir bílaumferð og verslunareigendur flúið í stórum stíl með verslanir sínar af svæðinu.

Málsmeðferðartillagan er felld með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 9 atkvæðum Eyþórs Laxdal Arnalds, Mörtu Guðjónsdóttur, Valgerðar Sigurðardóttur, Egils Þórs Jónssonar, Jórunnar Pálu Jónasdóttur, Arnar Þórðarsonar og Ragnhildar Öldu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins.

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands sitja hjá við afgreiðslu málsins.

 

Bókun Flokks fólksins um ákvörðun meirihlutans að opna ekki aftur götur fyrir umferð í samræmi við tillögu meirihlutans frá því 1. apríl 2019

Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum. Til stóð samkvæmt tillögu meirihlutans frá 1. apríl að opna aftur þessar götur eftir sumarlokun. Nú hefur verið ákveðið að gera það ekki og hefur málið verið keyrt áfram af miklum hraða þvert á vilja fjölmargra. Verslanir hörfa úr miðbænum enda hafa viðskipti þeirra hrunið vegna sífelldra breytinga og takmarkana á bílaumferð á svæðinu. Flokkur fólksins hefur lagt til að frestað verði að setja skipulagið í auglýsingu og að göturnar sem um ræðir verði opnaðar aftur a.m.k. í vetur. Sú tillaga var felld. Það er ekki umdeilt lengur að almennar verslanir t.d. fataverslanir hafa þrifist illa við göngugötur bæjarins. Það hefur reynsla og kannanir sýnt svo ekki verði um villst. Langflestir sem ganga um þetta svæði eru erlendir ferðamenn og fólk mætir vissulega á svæðið til að stunda skemmtanalíf og fara á veitingastaðina. Aðrir, sem búa lengra frá, eldri borgarar og öryrkjar segja upp til hópa bæinn ekki lengur vera fyrir sig. Þetta sýna niðurstöður Zenter rannsókna í nýlegri könnun. Aðgengi er slæmt, bílastæði fá, bílahús óaðgengileg og sum óaðlaðandi og vegakerfið og akstursstefnur ruglingslegar. Það er leiðinleg þróun að miðbærinn skuli ekki lengur vera okkar allra og að hefðbundin verslun sem verið hefur þar áratugum saman þrífist ekki lengur.

Bókun Flokks fólksins við tillögur minnihlutans að grunnskóli verði rekinn í Staðahverfi til frambúðar í samræmi við gildandi skipulag hverfisins fyrir 1-10 bekk ætlaður öllum börnum á grunnskólaaldri í hverfinu.

Tillagan var felld

Borgarfulltrúi Flokks fólksins sér ekki hvert vandamálið er hjá meirihlutanum í þessu máli. Þess vegna hefur minnihlutinn sameinast um þá tillögu sem hér var til umræðu. Það vantar ekki börn í þetta hverfi til að halda uppi hagkvæmum skólarekstri. Það þarf engan að undra áhyggjur foreldra því yfir þeim lafir sú ógn að loka eigi skólanum vegna fámennis. En þegar talin eru börnin sem eiga lögheimili í hverfinu þá er hér ekki um litla einingu að ræða. Börn sem eiga lögheimili í hverfinu eru um 140 og skólinn rúmar 170. Svo málið er einfalt, öllum börnum í hverfinu á að vera boðið að stunda nám í hverfisskóla sínum! Ávallt hefur verið lögð áhersla á í okkar samfélagi að börn geti sótt skóla í nærumhverfi sínu. Það er mikið lagt á börn, sérstaklega ung börn, og foreldra þeirra sem þurfa að fara langt í skóla og þurfa jafnvel að fara yfir óörugg svæði. Ef niðurstaðan verður sú að loka skólanum í trássi við foreldra og íbúa á þeim rökum að skólinn sé of lítill þá er verið að brjóta á réttindum barna sem eiga lögheimili í Staðahverfi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. og 13. lið fundargerðar borgarráðs frá 26. september: 

Sú staðreynd að verslanir hörfa úr miðbænum er hunsuð af meirihlutanum. Mörg rými eru ekki notkun á þessu svæði og fleiri verslanir hafa tilkynnt um lokun. Á hinu lokaða svæði á Laugavegi eru 11 ekki starfrækt. Fleiri hafa tilkynnt um brottför. Flokkur fólksins vill að haft sé alvöru samráð við rekstraraðila og leitað verði sameiginlegrar niðurstöður. Í því skyni var lögð fram málsmeðferðartillaga um að fresta um nokkra mánuði að senda deiliskipulagið í auglýsingu og á þeim tíma getur meirihlutinn haft samráð við hagsmunaaðila til að ná sameiginlegri niðurstöðu.  Tillagan var felld í borgarstjórn  í dag 1.10. Öllum er kunnugt um hina miklu óánægju sem þessar lokanir hafa valdið og ekki að ástæðulausu þar sem mjög hefur dregið úr verslun og sjá verslunareigendur sé ekki fært að halda áfram rekstri á þessu svæði eftir að lokað hefur verið fyrir bílaumferð.
13. liður. Borgarfulltrúi finnst þessi leiga sem lögð er til að gildi fyrir langtímaleigu á tjaldsvæðinu of há. Rúmlega 40 þúsund krónur er of mikið fyrir þá sem eiga ekki mikið milli handanna.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram  eftirfarandi bókanir undir framlagningu fundargerða:

Fundargerð forsætisnefndar 5 liður:

Borgarfulltrúi telur að mikið skorti á að skóla og frístundaráð hafi gott samráð og samtal við foreldra, íbúa og félagasamtök og að ekki hafi verið haft viðunandi samráð í ýmsum málum þegar tilefni var til og mikið lá undir. Nýjasta dæmið er uppnámið sem ríkir í Staðahverfi þar sem íbúar eru uggandi um framtíð skóla síns. Meirihlutinn býr til vanda úr engu. Í hverfinu eiga um 140 börn lögheimili og skólinn rúmar 170. Engu að síður vofir sú ógn yfir að skellt verði þarna í lás.

Fundargerð skipulags- og samgönguráðs. 25. 9. liður 9:

Ákveðið hefur verið að gera hluta Laugavegs og fleiri götur að varanlegum göngugötum. Þetta er í trássi og án samráðs við hagsmunaaðila. Samráð þýðir á íslensku að um er að ræða sameiginlega ráðagerð og sameiginlega niðurstöðu. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur tekið ákvörðun sem stríðir gegn vilja fjöldans. Í þessu máli hefur verið sýndur ómældur yfirgangur. Meirihluti minnihlutans hefur mótmælt harðlega og krafist þess að haft sé alvöru samráð en á það hefur verið slegið.

Fundargerð velferðarsvið 3. gr.:

Flokkur fólksins er andvígur öllum hækkunum á gjaldskrá velferðarráðs sem notendur þurfa að greiða. Finna þarf aðrar leiðir en að hækka gjöldin til að mæta auknum kostnaði til að veita fullnægjandi þjónustu.

Borgarstjórn 1. október 2019

Tillaga Flokks fólksins að settar verði á laggirnar skipulagðar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum

Flokkur fólksins leggur til að settar verða á laggirnar skipulagðar, reglulegar ferðir frá íbúakjörnum eldri borgara og félagsmiðstöðvum á ýmis söfn og aðra viðburði. Margir eldri borgarar hafa löngun til að sækja sýningar og viðburði en treysta sér ekki til að komast á staðinn eða hafa engan til að fara með. Auk þess er vetrarfærð misjöfn og getur hæglega komið í veg fyrir að fólk treysti sér út úr húsi.

Greinargerð fylgir tillögunni

Finna þarf góða leið til að auglýsa viðburði, til að ná sem flestum í bíl sem áhuga hafa á að sjá sýningu eða fara á viðburð. Margir eldri borgarar hafa einangrast og mikla fyrir sér að taka sér ferð á hendur til að sækja söfn eins og Listasafn Reykjavíkur eða Borgarsögusafnið. Ekki liggja fyrir tölur, hversu margir af þeim,sem sækja ofangreind söfn sem dæmi, eru eldri en 67 ára. Þess vegna er afar mikilvægt, að bjóða eldri borgurum upp á skipulagðar ferðir, á sýningar/viðburði og að það verði gert með reglubundnum hætti, þannig að hægt verði að treysta á, að farið verði örugglega. Ákveðinn hópur eldri borgara eru einmanna og einangraðir en myndu svo gjarnan vilja vera félagslega virkari. Með öruggri akstursþjónustu á sýningar og viðburði er hægt að tryggja að fleiri eldri borgarar njóti félagsskapar og skemmtunar á því sem borgin hefur upp á að bjóða.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að vera sóttir heim og eknir á félagsmiðstöð sína óski þau þess

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg bjóði eldri borgurum að hringja á félagsmiðstöðina sína og biðja um að láta sækja sig í félagsstarfið. Ef þeir af einhverjum ástæðum geta ekki komið sér sjálfir þann daginn væri akstursþjónusta lykillinn að félagslífi þeirra. En til þess að þetta virki vel, þarf þessi þjónusta að vera tiltæk og að ekki sé nauðsynlegt að panta hana fyrirfram. Viðkomandi er síðan ekið heim eftir á, þegar hann óskar. Hægt er að hafa einhverja lágmarksupphæð fyrir hverja ferð. Möguleiki væri að hanna einhvers konar áskrift á akstursþjónustu. Ítrekaður leigubílakostnaður, væri öldruðum ofviða og væri líklegur til að hindra eða draga úr þátttöku í félagslífi sem væri samt brýn þörf fyrir. Félagslíf eykur virkni og vellíðan og minnkar þörf fyrir lyf svo það er nauðsynlegt að ýta undir félagslífið. R19060229

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram  fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins af hverju tillögu um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg var ekki vísað til Vegagerðarinnar 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja af hverju tillögunni um að loka fyrir beygju til vinstri inn á Bústaðaveg hvern virkan dag frá kl 16 til 18 í tilraunaskyni var ekki vísað til Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og á fundi skipulags- samgönguráðs 26. júní. Tillagan fjallaði um að þar yrðu ljósin tekin úr notkun á þessum tíma. Með slíkri framkvæmd má draga verulega úr töfum vegfarenda á leið sinni suður og norður eftir Breiðholtsbrautinni. Það eru fjölmargir sem styðja þessa tillögu enda myndi þetta geta virkilega leyst úr mjög erfiðum flöskuháls sem þarna myndast. Enda þótt mæling hafi einhvern tímann sýnt að þetta sé ekki til bóta er ekki þar með sagt að það myndi ekki gera það núna. Þetta er eitt dæmi þess að borgarmeirihlutinn virðist einfaldlega ekki vilja gera neitt í umferðarmálum og þráast við þegar koma góðar tillögur til bóta. Er það vegna þess að verið er að gera stöðuna eins erfiða og hægt er til að sýna fram á mikilvægi borgarlínu og útrýma bílnum úr miðbænum? En eitt útilokar ekki annað. Borgarlína kemur ekki á morgun og þangað til er sjálfsagt að grípa til aðgerða strax sem leysir helsta vandann. Borgarfulltrúa finnst borgarmeirihlutinn sýna mikið andvaraleysi og áhugaleysi en vill þessi meirihluti lítið gera fyrir bílaeigendur í borginni. Lágmarksviðbrögð væru að vísa þessum tillögum í vinnu Vegagerðarinnar og Samtök sveitarfélagana á höfuðborgarsvæðinu og er spurt hér af hverju það var ekki gert.

Vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum?

Óskað er eftir upplýsingum um hvað margar fjölskyldur í Fella- og Hólahverfi glíma við félagslega einangrun og hvað mörg börn í hverfinu eru undir fátæktarmörkum? Það hefur vissulega verið margt gert og ekki er dregið úr því. Hins vegar má segja að Breiðholti sé einstakt vegna fjölbreytileika. Eins og vitað er hefur félagsleg blöndun mistekist á þessu svæði og þarna búa fjölskyldur og einstaklingar sem hafa einangrast mikið. Þar er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Það væri því eðlilegt og sjálfsagt að borgin sinnti þessu hverfi sérstaklega. Því vill borgarfulltrúi Flokks fólksins fá þessar upplýsingar til að hægt sé að leggja mat á stöðuna og skoða hvað þarf að gera til að bæta hana komi í ljós að hún sé óviðunandi. Ekki er óeðlilegt að Breiðholtið og þá sérstaklega Fella- og Hólahverfi fái sérstaka aðhlynningu enda mesta fjölmenningin þar í allri Reykjavík.

Vísað til meðferðar velferðarráðs.

Lögð fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins er varða Seljaskóla sem fengið hefur að drabbast niður eins og margir aðrir skólar í Reykjavík

Það er almennt til háborinnar skammar hversu lengi skólabyggingar hafa fengið að drabbast niður í Reykjavík. Seljaskóli er þar engin undantekning. Vandamálin eru víðtæk og öll má rekja til vanrækslu á viðhaldi þessa og síðasta meirihluta í borginni. Það hefur „brunnið“ mest á Seljaskóla í heil 15 ár frá skýrslunni 2004 og svo eftir brunann. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill spyrja borgaryfirvöld eftirfarandi spurninga:
1. Fær skólinn bætt þá innanstokksmuni sem skemmdust í brunanum, bækur, tölvur o.s.frv.
2. Verða húsgögn og búnaður almennt uppfærð?
3. Verður smíðastofan áfram í bráðabirgðahúsnæðinu sem hún fór í fyrir 20 árum? Og með búnaði í Miðbæjarskólanum frá 1950?
4. Verður húsnæði skólans áfram sprungið þar sem enn er ekki búið að klára málin gagnvart teikningunni sem fór af stað eftir ofangreinda skýrslu?
5. Hvenær verður hætt að kenna í 60-70 manna bekkjum? Allt þetta er óboðlegt fyrir nemendur sem og kennara – allof stórar einingar. Óskað er skýrra svara við þessum spurningum hið fyrsta

Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um vanrækslu á umhverfi Árbæjarsafns

Flokkur fólksins er með fyrirspurnir er varða umhverfi Árbæjarsafns. Borist hafa ábendingar um að mikil óhirða er í kringum Árbæjarsafn. Grasið er úr sér vaxið og þétt af fíflum. Húsveggir þarfnast viðhalds. Sjá má glöggt að þarna skortir verulega á viðhald og snyrtingu. Óskað er eftir svörum við eftirfarandi spurningum er varða umhirðu á lóð Árbæjarsafns. 1. Hvaða stofnun/ fyrirtæki sér um umhirðu á lóðum eins og í kringum Árbæjarsafn? 2. Hversu oft er farið og kannað ástand umhirðu á slíkum lóðum? 3. Ef einkaaðilar, þá er spurt hefur verk/eftirlit verið boðið út?

Vísað til umsagnar menningar- og ferðamálasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsviði og skóla- og frístundasviði

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um langtímaveikindi starfsmanna sem heyra undir velferðarsvið og skóla- og frístundasvið. Óskað er upplýsinga um hve margir starfa á sviðunum hvoru um sig og hversu margir af þeim hafa veikst til langs tíma, annars vegar þeirra sem starfa undir velferðarsviði og hins vegar skóla- og frístundarsviði, helstu ástæður, gróflega flokkað og tímabil veikindanna. Fram hefur komið í fréttum að á árunum 2009-2017 varði Reykjavíkurborg samtals um 5,3 milljörðum (miðað við verðlag 2018) í langtímaveikindi starfsmanna, aðeins á skóla- og frístundasviði.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um skýringar á háum greiðslum til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða

Flokkur fólksins óskar skýringa á háum greiðslu til fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða á árinu 2018 en samkvæmt ársreikningi 2018 á bls. 12 nema þær 36.9 milljónum. Var gerður starfslokasamningur við fyrrverandi forstjóra Félagsbústaða? Hafi svo verið er óskað allra upplýsinga sem varða þann samning.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um í hvað marga borgara 75 ára og eldri velferðarsvið hefur hringt í til að kanna hvort þeir séu upplýstir um réttindi sín og hvernig þeim líður

Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um í hversu marga borgara sem eru 75 ára og eldri hefur velferðarsvið hringt í til að kanna hvort viðkomandi er upplýstur um réttindi sín og almennt séð hvernig viðkomandi líður. Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019.

Vísað til umsagnar velferðarsviðs.

Lögð fram svohljóðandi tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óskar eftir og leggur til að tölvumaður verði ávallt til staðar í Ráðhúsinu þegar fundir eru í gangi. Sýnt hefur að það getur skapast ófremdarástand ef tæknivandamál koma upp á miðjum fundi og ekki er hægt að ná í tölvumann. Slíkt ástand getur leitt til þess að viðkomandi borgarfulltrúi getur ekki komið frá sér málum sínum og bókunum þar sem ekki er hægt að gera það eftir að fundi er slitið.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Fyrirspurn  Flokks fólksins um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs

Flokkur fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um niðurstöður vinnustaðakönnunar Strætó bs. 2019 þar sem sérstaklega var spurt um einelti, áreitni og ofbeldi og sem minnst er á í fundargerð Strætó bs. frá 4. júní og lögð var fyrir borgarráð 27. júní 2019.

Vísað til umsagnar hjá stjórn Strætó bs.

Bókun Flokks fólksins við svari við tillögu um útgáfu auglýsingabæklings og aukna upplýsingagjöf til borgarbúa um réttindi þeirra

Tillagan er felld. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að ýmislegt er reynt til að koma upplýsingum til borgarbúa. En betur má ef duga skal. Of mikið er treyst á netið og að fólk sé almennt nettengt. Það er ekki alveg raunveruleikinn. Fjölmargir eiga ekki tölvu t.d. elstu borgararnir. Leggja þarf meiri áherslu á símtal til fólks og fylgjast með eldri borgurum og öryrkjum hvort allir hafa örugglega fengið upplýsingar t.d. um réttindi sín. Fram kemur að verið er að uppfæra bækling sem gefinn var út árið 2017 og sendur var öllum eldri borgurum 75 ára og eldri um þá þjónustu sem stendur þeim til boða. Nú er árið 2019. Áhugavert væri að vita í hvað marga í þessum aldurshópi hefur verið haft samband við símleiðis?

Bókun Flokks fólksins og Miðflokksins við svari skrifstofustjóra borgarstjórnar og borgarritara, dags. 24. maí 2019, við fyrirspurn um hvernig tekið er á ósiðlegri umræðu starfsmanna Reykjavíkurborgar á opinberum vettvangi, sbr. 66. lið fundargerðar borgarráðs frá 2. maí 2019

Svarið ber með sér að vísað sé í tiltekna starfsmenn sem vekur furðu þar sem ekkert í fyrirspurninni gefur slíkt til kynna. Það er fullkomlega eðlilegt að kjörnir fulltrúar komi með hinar ýmsu spurningar sem snúa að stjórnsýslunni enda hafa þeir ríkt eftirlitshlutverk. Til að geta rækt það hlutverk sitt verða þeir að geta aflað upplýsinga. Í þessari tilteknu fyrirspurn var verið að spyrja almennt um verkferla ef mál af tilteknum toga kæmu upp. Það er því einkennilegt að breyta almennri fyrirspurn í svar á einstaka starfsmenn. Það er ekki sæmandi þeim sem bera ábyrgð á svarinu að ræða einstök mál starfsmanna þegar verið er að spyrja almennra spurninga. Þá er þess getið í svarinu að starfsmenn á skrifstofum borgarstjórnar, borgarstjóra og borgarritara njóti líkt og aðrir borgarar þeirra grundvallarréttinda sem eru fólgin í tjáningarfrelsinu og þeim er veitt er vernd í Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og alþjóðlegum sáttmálum. Þessi ábending hlýtur þá að eiga við kjörna fulltrúa sömuleiðis þannig að tjáningarfrelsi þeirra sé veitt vernd með sama hætti.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu svars skóla- og frístundasviðs, dags. 20. júní 2019 við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um úttektir í grunnskólum borgarinnar sbr. 38. lið fundargerðar borgarráðs frá 9. maí 2019. 

Þessi úttektarmál á skólum virðast býsna ruglingsleg. Innra og ytra mat er hluti af lögbundinni skyldu og sýnist borgarfulltrúa Flokks fólksins á öllu að skólar eru að vinna sínar innri úttektir vel enda mikil vinna ásamt því að sinna öllum öðrum verkum. Aðeins flóknara virðist vera með ytra mat og það kannski meira háð tilviljunum? Stundum hefur það líka verið þannig að Menntamálastofnun gerir úttekt en ekki er ljóst hvað ákvarðar það eða hverjir taka ákvörðun um slíkt. Til eru alls konar úttektir, úttektir á kennslunni og námsárangri en einnig úttektir heilbrigðiseftirlits, vinnueftirlits, úttekt vegna brunamála og fleira þess háttar. Skilja má að almennt séð er „ytra mat“ framkvæmt af sveitarfélaginu og er það samkvæmt lögum. Borgarfulltrúi Flokks fólksins myndi telja að betra væri að fá óháðan, utanaðkomandi aðila til að annast ytra mat. Til dæmis gæti verið gott að Menntamálstofnun annaðist allar úttektir en ekki bara einstaka.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu viðauka við fjárhagsáætlun 2019 vegna fjárfestingaráætlunar

Borgarfulltrúi Flokks fólksins gerir sér grein fyrir að reyna á að sinna langtímaviðhaldsleysi skólabygginga eitthvað meira en undanfarin ár. Eins og marg sinnis hefur komið fram m.a. frá all mörgum skólastjórnendum og foreldrum þá er ástand skólabygginga hrikalegt sums staðar vegna viðhaldsleysis og langtímamyglu. Nú á að setja 215 milljónir í viðbót í viðhald skólabygginga eftir því sem borgarfulltrúi skilur. Það hlýtur að liggja í augum uppi að það er bara brot af því fjármagni sem þyrfti að leggja í þetta risaverkefni ef ekki á að taka áratug að koma málum í viðunandi horf.

Bókun Flokks fólksins við kynningu Strætó bs á framtíðarsýn fyrirtækisins

Framtíðarsýnin lítur vel út en langt er í að þessi fallega sýn verði að veruleika. Fullt af flottum fyrirætlunum en ekki útskýrt nóg hvernig. Talað er um minnkun gróðurhúsalofttegunda – grænt bókhald, kolefnishlutlaust fyrirtæki. Strætó getur varla orðið kolefnishlutlaust eftir 10 ár nema með því að nýta metan eða rafmagn og þá helst með sítengingu við veiturafmagn, þ.e. að stöðug tenging sé við rafstreng, svo sem eru í sporvögnum í borgum erlendis. Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr. Það á að kolefnisjafna en það er ekki hægt að kolefnisjafna á meðan mikilli olíu er brennt. Áður hefur borgarfulltrúi lagt til notkun metans frá Sorpu en ekki er unnið að því að auka hlut metans sem eldsneyti hjá Strætó. Nýlega bárust upplýsingar um fjölda kvartana sem Strætó fær. Tölur eru sláandi sem getur varla talist eðlilegt. Beðið er eftir upplýsingum um sundurliðun og nánar um eftirfylgni. Gróflega reiknað eru um tífalt fleiri kvartanir hér en í sambærilegu vagnafyrirtæki í London. Borgarfulltrúi fær vikulegar ábendingar frá óánægðum notendum strætó vegna þjónustu strætó. Ekkert er minnst á fjölda kvartana í kynningunni en hér er eitthvað sem vel mætti taka á af krafti og það strax.

Bókun Flokks fólksins við tillögu meirihlutans um endurbætur í Seljaskóla vegna bruna

Þegar alvarlegur atburður gerist eins og bruni í Seljaskóla bætist enn ofan á hið alvarlega ástand sem er í skólanum. Það er einstakt að það brenni tvisvar í sama skóla eins og í Seljaskóla. Miklar áhyggjur eru af því hvort gerðar verði nauðsynlegar lagfæringar ofan á annað sem þarf að laga í Seljaskóla. Nú bíður barnanna mikið rask en börnin hafa lengi búið við mikið rask. Í dag er óljóst hver framkvæmdatími á endurnýjun Seljaskóla verður. Börnum í Seljaskóla hefur lengi verið þeytt fram og til baka. Fram hefur komið hjá foreldrafélagi að það gengur ekki að vera í kirkjunni, í ÍR heimilinu né hjá KSÍ. Alls konar reddingar eru í gangi núna þegar afleiðingar brunans bætast ofan á allt annað. Það er ljóst að Seljaskóli þarf auka fjármagn/mannafla til að fylgja eftir verkefnum og til að tryggja að framkvæmdatími haldist. Fyrri verk í Seljaskóla hafa nærri öll dregist úr hófi fram. Þá þarf fjármagn fyrir þá innanstokksmuni sem töpuðust í brunanum, t.d. tölvur, bækur og annan búnað ef að tryggingafélagið, VÍS, bætir ekki innanstokksmuni. Svona mætti lengi telja og veit borgarfulltrúi Flokks fólksins að starfsfólk, foreldrar og nemendur eru uggandi.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu bréfs menningar- og ferðamálasviðs, dags. 24. júní 2019, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs, dags. 24. júní 2019, á tillögu um afslátt á menningarkorti fyrir eldri borgara. Áður var frítt inn á söfn fyrir eldri borgara

Það er jákvætt að öryrkjar og börn og unglingar fái ókeypis á söfn borgarinnar. Hins vegar á að afnema þau réttindi sem eldri borgarar hafa haft hingað til þannig að þeir muni ekki fá frítt inn á söfn lengur. Það hefur ótvírætt gildi fyrir eldri borgara og þá sem hættir eru að vinna að geta notið menningarlífsins og skoðað t.d. listasöfnin í borginni, heimsótt Árbæjarsafnið og Sjóminjasafnið en það gæti orðið liður í að draga úr félagslegri einangrun og eflt lýðheilsu þessa aldurshóps. Því miður hafa ekki allir í þessum aldurshópi ráð á að fara á söfn eða kaupa menningarkort þó svo það verði á afslætti. Frír aðgangur fyrir eldri borgara er hvati fyrir starfsfólkið að fara á söfn með hópinn eða frá dagvist aldraðra. Mjög margir eldri borgarar geta ekki einu sinni leyft sér að fara á söfn því miður. Ef fara á skipulagða ferð á vegum félagsmiðstöðvar gæti komið í ljós að einhver á ekki kort og fer því ekki með. Til að koma í veg fyrir tekjumissi af ferðamönnum í þessum aldurshópi sem fá þá líka frítt inn mætti hafa þann hátt á að sækja þarf um menningarkortið sem yrði endurgjaldslaust hjá félags- eða þjónustumiðstöðvum. Það er miður að Reykjavíkurborg skuli ganga fram með þeim hætti að rýra kjör eldri borgara enn frekar.

Lögð fram fundargerð velferðarráðs frá 19. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 5. lið fundargerðarinnar:

Borgarfulltrúi vill rifja upp að fyrir ári, á þeim degi sem meirihlutinn kynnti sáttmála sinn gaf borgarstjóri loforð um að taka ætti á biðlistum í heimaþjónustu og hjúkrun. Nú er liðið ár og enn þarf að skerða þjónustu í sumar því ekki hefur tekist að manna stöður þrátt fyrir ítarlega leit að fólki. Það segir sig sjálft að það tekst ekki að manna störfin á meðan greidd eru fyrir þau svo lág laun. Það verður að koma til einhver frekari hvatning ef hægt á að vera að manna þessi mikilvægu krefjandi störf t.d. eins og stytting vinnuviku eða betra fyrirkomulag vakta. Það er borgarmeirihlutans að gera þessi störf meira aðlaðandi svo fólk vilji vinna þau. Þann 1. apríl 2019 voru alls 67 einstaklingar á biðlista eftir félagslegri heimaþjónustu. Af þeim voru 43 eldri en 67. Alls 80 einstaklingar bíða auk þess eftir frekari þjónustu. Af þeim eru 78 eldri en 67. Þetta er stór hópur og margir búnir að bíða lengi. Á biðlista eftir varanlegri vistun biðu í apríl 158 einstaklingar. Það loforð sem gefið var fyrir ári að taka á þessum málum hefur ekki verið efnt. Svona hefur staðan verið í mörg ár eins og mannekla og biðlistar séu orðnir einhvers konar lögmál hjá borgaryfirvöldum.

Lögð fram fundargerð stjórnar Strætó bs. frá 4. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 2. og 8. lið:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tilboð Strætó bs. að bjóða út kaup á vetnisvögnum hefur runnið út í sandinn. Borgarfulltrúi spyr hvort menn séu búnir að gleyma tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000. Ætla borgaryfirvöld að láta plata sig aftur eins og þá, tilraunaverkefni sem kostaði milljarð. Vitað er að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill minna á tillögu sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júni þess efnis að Strætó og Sorpa sem bæði eru fyrirtæki í meirihlutaeigu borgarinnar vinni saman og að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs. Það er sárt að sjá hvernig metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna. Hér er um eðlilegt og sjálfsagt sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ræða.

Undir 8. lið í fundargerðinni kemur fram að rætt er um niðurstöður vinnustaðakönnunar þar sem sérstaklega er spurt um einelti, áreitni og ofbeldi.
Borgarfulltrúi vill minna á ný endurskoðaða stefnu og verkferli í eineltismálum sem stýrihópur sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fór fyrir og hvetja Strætó bs til að tileinka sér hvorutveggja, stefnu og verkferli.

Lögð fram fundargerð skóla- og frístundaráðs frá 11. júní 2019.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 4. lið fundargerðarinnar er varðar heimsmarkmiðin og fræðsla á þeim í leikskólum:

Bókun við afgreiðslu tillögu Flokks fólksins að borgaryfirvöld samþykki að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með áherslu á sérstaka fræðslu um heimsmarkmiðin á leikskólum. Tillagan var felld, Sjálfstæðisflokkur og Sósialistaflokkur sátu hjá. Borgarfulltrúa Flokks fólksins þykir leitt að þessi tillaga skyldi ekki fá náð fyrir augum meirihlutans. Hér er um mikilvægt verkefni að ræða þ.e. innleiðing á Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna þar sem lagt er sérstaklega til að fjallað verði um þau í leikskólum borgarinnar. Þessi tillaga getur auðveldlega fallið að menntastefnunni sem kemur einnig inn á heimsmarkmiðin. Flokkur fólksins er hér að huga að þeim yngstu ekki síður enda geta flestir verið sammála því að með því að byrja snemma og einmitt á leikskólaaldri er líklegt að börnin meðtaki fræðsluna og geti byrjað að taka þátt á eigin forsendum allt eftir aldri, getu og þroska. Mikilvægt er ekki síður að grunnskólar leggi áherslu á Heimsmarkmiðin í sinni almennu kennslu, starfi og leik. Það er því leitt að þessi tillaga fékk ekki brautargengi eins og hún væri ekki þess verð að fá nánari skoðun. Vel hefði mátt leyfa henni að fljóta með samhliða innleiðingu menntastefnu. Borgin á að vera frumkvöðull hvað þetta varðar, draga vagninn og gera það með reisn.

Lögð fram fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 26. júní 2019. 
B-hluti fundargerðarinnar samþykktur.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18. lið fundargerðarinnar vegna frávísunar tillögu um samráð við rekstraraðila vegna lokun Laugavegs og Skólavörðustígs

Tillögu Flokks fólksins um að komið verði á markvissu samráði við rekstrar- og hagsmunaaðila vegna fyrirhugaðrar varanlegrar lokunar verslunargatna í miðborginni hefur verið vísað frá. Með tillögunni fylgdi ítarleg greinargerð. Nú hefur það verið staðfest í viðhorfskönnun sem Zenter rannsóknir framkvæmdi fyrir Miðborgina okkar og SVÞ fjármagnaði að meirihluti rekstraraðila á svæðinu og borgarbúa, utan þeirra sem búa þar eru mjög óánægðir með varanlegar göngugötur. Skemmdarverk hefur verið unnið með þessum breytingum og stefnir í einsleitan miðbæ verði ekki horfið frá þessari stefnu. Þau fyrirtæki sem þjónusta mat, drykki og selja minjagripi munu þrífast og þeir sem heimsækja miðbæinn eru í meirihluta yngra fólk sem sækir skemmtanalífið. Búið er með þessum breytingum án samráðs að hrekja tugi verslana úr bænum og æ færri leggja leið sína á svæðið. Það er kaldhæðnislegt að Miðborgin okkar sem vænti án efa annarrar niðurstöðu skuli nú verða að kyngja blákaldri staðreyndinni. Göngugötur eru samkvæmt þessu að fæla fólk frá. Bærinn er að missa af 4. hverjum viðskiptavini. Þetta blasti við þótt meirihlutinn í borgarstjórn reyndi hvað hann gat að slá ryki í augu fólks. Sérstakt er að skoða kynjamismun í þessu sambandi en 25% karla og 21% kvenna myndu koma sjaldnar ef göngugötur væru varanlegar. Rekstraraðilar hafa ekki efni á því að missa svona stóran viðskiptavinahóp.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Reynslan af göngugötum í miðborg Reykjavíkur er góð og ánægja Reykvíkinga mikil líkt og kannanir staðfesta. Göngugötur skapa rými fyrir fólk og bæta mannlíf. Þá hafa erlendar athuganir sýnt að velta verslana eykst þegar göngugötur eru opnaðar. Við undirbúning varanlegra göngugatna í Reykjavík er víðtækt samráð algjört leiðarstef, svo hefur verið hingað til og verður áfram. Rekstraraðilar í miðbænum hafa beðist vægðar á umræðum sem tala niður rekstur á svæðinu. Miðborgin er í blóma og hefur fjöldi verslana og veitingastaða aldrei verið meiri í sögu Reykjavíkur. Það er mál að ósanngjarnri gagnrýni einstaka borgarfulltrúa á starfsemi í miðbænum linni.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Borgarfulltrúi frábiður sér þöggunartilburði meirihlutans með því að segja við þá sem vilja tjá sig um stöðu miðbæjarins að þeir séu að „tala niður bæinn“. Sá sem leyfir sér að tala um ástandið sem er að skapast í miðbænum og lýsa áhyggjum sínum er snupraður fyrir að vera að „tala miðbæinn niður“, eins og það er orðað. Að snupra fólk sem lýsir áhyggjum sínum af stöðu mála í miðborginni með þessum hætti er ekkert annað en taktík til að þagga niður í fólki. Með þessu er verið að varpa ábyrgðinni á þá sem vilja ræða málin með opinskáum hætti og tjá skoðanir sínar. Það er vissulega handhægt fyrir þá, þar með meirihlutann í borgarstjórn, sem vilja ekki virða lýðræðislega umræðu að beita þessari aðferð. Þöggun er ein birtingarmynd kúgunar

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Ásökunum um þöggunartilburði og kúgun er vísað á bug. Borgarfulltrúa Flokks flokksins er að sjálfsögðu heimilt að tjá skoðun sína á stefnu meirihlutans. Á sama hátt er það réttur okkar að benda á þær afleiðingar sem sú orðræða kann að hafa.

Bókun Flokks fólksins við framlagningu minnisblaðs  sviðstjóra íþrótta- og tómstundasviðs, dags. 24. júní 2019, vegna tónleika Secret Solstice sem fóru fram í Laugardal 21.-23. júní 2019

Borgarfulltrúi Flokks fólksins er þakklátur fyrir að vísbendingar eru um að Secret Solstice hátíðin gekk betur en í fyrra. Beðið er eftir frekari upplýsingum áður en hægt er að leggja endanlegt mat á hversu vel gekk raunverulega. Það er þó mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að ekki skuli halda þessa hátíð aftur á sama stað enda staðsetningin alls ekki hentug inn í miðju íbúðarhverfi.

Tillaga Flokks fólksins um að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn.

Lagt er til að upplýsingafulltrúi borgarinnar tiltaki í tilkynningu sinni til fjölmiðla hvaða flokkar standi að baki þeim málum sem samþykkt eru í borgarráði og borgarstjórn. Markmiðið er að upplýsa almenning um afstöðu einstakra flokka til málsins/málanna. Ávinningurinn af þessu gæti verið að stuðla að upplýstri stjórnmálaumræðu í samfélaginu þar sem þá sést hvaða flokkar styðja mismunandi mál og varpar jafnframt ljósi á stefnu og afstöðu flokka í viðkomandi málum. Það hlýtur að vera gott fyrir lýðræðislega umræðu að vitað sé hverjir stóðu að baki einstaka málum.

Borgarráð 27. júní 2019

Síðari umræða um fjárhagsáætlun

Hér er ræða mín frá borgarstjórnafundi í gær sem sjá má á vefnum borgarstjórn í beinni. Hún hefst kl. 3.55 og varir til 4.40. Önnur andsvör eru kl. 7.23 við ræðu Hjálmars Sveinssonar og kl. 11.21 þegar borgarstjóri hafði slátrað tillögunni okkar Flokkur Fólksins. Ég var ekki sátt. Þrjár bókanir voru gerðar á fundinum, sú fyrsta við tillögu D flokks sem ég greiddi atkvæði með, önnur við fjárhagsáætlun meirihlutans og sú þriðja þar sem ég harma að tillaga okkar um að lækka gjald skólamáltíða er felld en hana má sjá hér neðar.
 
Bókun við tillögu Sjálfstæðisflokksins
Flokkur fólksins vill gera allt til að finna leiðir til að gera eldri borgurum og öryrkjum sem búa við knappan fjárhag léttara að lifa. Tillaga um viðmiðunartekjur til lækkunar fasteignaskatts og fráveitugjalds eldri borgara og öryrkja er því sjálfsagt að styðja. En það er annað sem Flokkur fólksins vill benda á í þessu sambandi sem mikilvægt er að laga og það er að taka úr Reglum um afslátt af fasteingagjöldum ákvæðið að viðkomandi þurfi að eiga rétt á vaxtabótum samkvæmt B.lið 68. gr. laga nr. 90/2003 um tekju – og eignaskatt til að eiga rétt á afslátt á fasteignagjöldum. Á það skal bent að enda þótt eldri borgarar séu e.t.v. sá hópur sem skuldar minnst þá þýðir það ekki að þeir hafi nægt fé milli handanna. Þvert á móti hafa fjölmargir eldri borgarar og öryrkjar lítið milli handanna og geta þar að leiðandi ekki leyft sér mikið. Að öðru leyti styður Flokkur fólksins almennt séð ekki tillögur er lúta að minnkun borgarsjóðs enda margar tillögur Flokks fólksins kostnaðarsamar. Borgarfulltrúi leggur áherslu á að farið verði í kröftugan sparnað á hagræðingu á öllum þeim sviðum sem mun ekki leiða til beinna skerðingar á þjónustu við fólk.
 

Bókun Flokks fólksins við fjárlagaáætlun meirihlutans:

Í þessari fjárhagsáætlun er ekki tekið nægjanlega tillit til barna, eldri borgara og öryrkja. Það tekur á að svo margir, sem raun ber vitni, eiga um sárt að binda í svo ríkri borg sem Reykjavík er. Fólkið er almennt séð ekki sett nægjanleg í forgang í þessari fjárhagsáætlun. Flokkur fólksins vill að útdeiling fjármagns verði sanngjarnari og að fólkið sjálft verði sett efst á blað. Ýmislegt hefur verið reynt til að vekja athygli meirihlutans á stöðu þeirra verst settu. Hér má nefna tillögur um að lækka gjöld skólamáltíða, gjaldfrjáls frístund fyrir börn fátækra foreldra og að þau börn verði heldur ekki krafin um aukagjöld í félagsmiðstöðvum. Finna þarf fé í þessi verkefni. Flokkur fólksins gerir sér grein fyrir að innstreymi í borgarsjóð má ekki minnka en margt er hægt að gera til að auka sparnað og hagræðingu. Sem dæmi má sameina þjónustumiðstöðvar og fleiri verkefni/deildir sem létta myndi á yfirbyggingu. Stjórnsýslan er bákn sem vel mætti byrja að draga saman sér í lagi þann hluta sem ekki snýr beint að þjónustu við fólkið.

Hvað börn varðar þá þrá þau öll það eitt að eiga öruggt húsaskjól og fá tækifæri til að vera í sama grunnskólanum alla grunnskólagöngu sína þar sem þau fá námsefni sem uppfyllir persónulegan metnað þeirra og þar sem þau eru meðal vina og jafningja.

Flokkur fólksins leggur til lækkun gjaldskrár skólamáltíða um þriðjung (33%) og að tekjulækkun sviðsins, sem talin er nema 361 mkr árið 2019, verði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205.

Verði þessi tillaga samþykkt felur það í sér að gjaldskrá máltíða í grunnskólum verður 6.563 á mánuði í stað  9.796 kr eins og nú er.

Greinargerð:

Mikilvægt er að börn sitji við sama borð þegar kemur að grunnþörfum eins og að fá að borða. Efnahagsstaða foreldra er misjöfn. Sumir foreldrar hafa ekki efni á að kaupa skólamáltíðir fyrir börn sín. Eina leiðin til að tryggja að ekkert barn sé svangt í skólanum er að stuðla að því með öllum ráðum að foreldrar þeirra hafi ráð á að kaupa handa þeim skólamáltíðir. Börnum á ekki að vera mismunað vegna fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Fordæmi er nú þegar fyrir lækkun gjalds skólamáltíða í öðrum sveitarfélögum og ætti Reykjavík ekki að láta sitt eftir liggja. Áður hefur Flokkur fólksins lagt fram tillögu um fríar skólamáltíðir en sú tillaga var felld á fundi Skóla- og frístundarráðs í ágúst. Fram hefur komið í svari sviðsstjóra Skóla- og frístundarráðs að þessi aðgerð muni lækka tekjur sviðsins um 361 mkr. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar hér til ábyrgðar borgarstjórnar og gerir því þá tillögu að þessi upphæð verði tekin af liðnum ófyrirséðu.

Tillagan var felld

Bókun Flokks fólksins:

Borgarmeirihlutinn hefur hraðslátrað tillögum minnihlutans í borgarstjórn á fundi sem nú er að ljúka. Áður en til atkvæðagreiðslu kom stóð borgarstjóri upp og tilkynnti ákvörðun meirihlutans um að fella allar þessar tillögur. Atkvæðagreiðsla má segja að var því bara til málamynda. Vitað er að það eru fjölskyldur sem þurfa að neita börnum sínum um skólamáltíðir. Ef þetta hefði varið samþykkt hefðu margar fjölskyldur getað andað rólega og það hefðum við í Flokki fólksins sannarlega getað. Ég verð að segja að ég ól smá von í brjósti að NÚ væri komið að því að fá eina tillögu í þágu barna og fátækra foreldra samþykkta en það var bara draumsýn. Ég furða mig á ábyrgðarleysi VG sem fór um allt í kosningabaráttunni eftir því sem ég man rétt og tilkynntu að gjaldfrjálsar máltíðir væri eitt af þeirra kosningaloforðum. En þessu loforði var fórnað fyrir samstarfið. Þetta eru mikil vonbrigði.

Bókun Flokks fólksins:

Flokkur fólksins þykir leitt að tillagan um að lækka gjald skólamáltíða um þriðjung hafi verið felld. Lagt var til að tekjulækkun sviðsins kr. 361 mkr á ári sem þessi þriðjungs lækkun myndi framkalla yrði mætt með auknum fjárheimildum sem komi af kostnaðarliðnum ófyrirséð 09205. Ef fjárhagsáætlun meirihlutans er skoðuð má sjá að þar er eitt og annað lagt til sem taka á af þessum lið en að lækka gjald skólamáltíða var ekki talið nægjanlega mikilvægt. Hefði þessi tillaga náð fram að ganga hefði það komið sér afskaplega vel fyrir fjölskyldur sem hafa lítið milli handanna. Foreldrar og við öll hefðu getað, ef tillagan hefði náð fram að ganga, andað rólega, fullviss um það að ekkert barn væri svangt í skólanum. Hér hefði getað verið um fyrsta áfangann að ræða í átt að fríum skólamat. Við vitum öll að efnalitlar fjölskyldur og fátækar fjölskyldur hafa þurft að neita sér um þessa þjónustu. Það hlýtur að svíða  að þurfa að horfa upp á það. Hér er um að ræða mikið jafnréttismál og í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um að öll börn sitji við sama borð og hafi í þessu tilfelli tök á því fá heita og næringarríka máltíð

Borgarstjórn 4. desember 2018

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

1. Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum 90 íbúðum. 2. Hvenær hófust viðgerðir? 3. Á hvaða stigi eru þær? 4. Hvenær verður þeim lokið? 5. Af hverju eru svo margar íbúðir óstandsettar? 6. Hverjar eru ástæðurnar? R18080196

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um frekari þjónustu skrifstofu borgarstjórnar við kjörna fulltrúa

Flokkur fólksins óskar eftir að fá aukna aðstoð frá skrifstofu borgarstjórnar svo sem lögfræðiaðstoð og aðstoð með texta og prófarkalestur á tillögum og fleira í þeim dúr. Borgarfulltrúar sérstaklega minni flokkanna í minnihlutanum eru undir miklu álagi að sinna öllum skyldum en einnig að halda úti málatilbúnaði og undirbúningi funda. Á skrifstofu borgarstjórnar eru starfsmenn sem borgarfulltrúum var sagt að myndu vera þeim til aðstoðar en aðstoðin er hvorki næg né nógu víðtæk. Sú aðstoð sem hér er beðið um er ekki þar innifalin. Nauðsynlegt er að útvíkka þessa aðstoð þannig að borgarfulltrúi geti leitað til skrifstofunnar eftir lagalegri ráðgjöf og aðstoð við undirbúning mála, tillagna og fyrirspurna.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um bjölluhringingar og flautur á Eineltisdeginum

Lagt er til að borgaryfirvöld og þá sérstaklega skóla- og frístundarráð mælist til þess að allar stofnanir og fyrirtæki borgarinnar hringi bjöllum af hvers lags tagi eða þeyti flautur á eineltisdaginn 8. nóvember kl. 13:00. Árið 2009, nánar tiltekið 3. nóvember samþykkti Borgarstjórn Reykjavíkur að helga árlega einn dag í baráttunni gegn einelti. Dagur gegn einelti var fyrst haldinn hátíðlegur 17. mars árið 2010. Árlegur dagur gegn einelti og kynferðisáreiti var haldinn á landsvísu 8. nóvember 2011. Öllum mögulegum klukkum og bjöllum var hringt og flautur þeyttar. Í tilefni dagsins var undirritaður þjóðarsáttmáli um jákvæð samskipti. Að hringja bjöllum er skemmtilegur gjörningur í tilefni þessa mikilvæga dags, gegn einelti og kynferðisofbeldi í öllum aldurshópum.

Frestað.

Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um kosningu um Borgarlínu

Flokkur fólksins leggur fram tillögu um að Reykvíkingar kjósi um hvort þeir vilji að farið verði að undirbúa borgarlínu. Borginni ber skylda til að taka upp beint og milliliðalaust lýðræði sérstaklega þegar verið er að taka ákvörðun um að fara í fjárfrekar aðgerðir sem borgarlínan verður. Hér er verið að sýsla með fé borgarbúa og í þessu tilfelli er um milljarða framkvæmdir að ræða. Í borginni eins og staðan er núna skortir mjög á lýðræði þegar kemur að því að ákveða stórframkvæmdir til framtíðar. Fáir eru að taka lokaákvarðanir sem ættu að vera teknar af fólkinu sjálfu. Hægt er að viðhafa rafræna kosningu við að heyra álit borgarbúa á borgarlínu sem dæmi. Flokkur fólksins gerir kröfu um að auka beint og milliliðalaust lýðræði.

Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs, dags. 1. október 2018, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um vináttuverkefni Barnaheilla, frá 13. september 2018

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Svar skrifstofustjóra leikskólamála við fyrirspurn Flokks fólksins um vinnu með vináttuverkefni Barnaheilla er afar ófullkomið og felur engan veginn í sér það sem spurt var um. Áheyrnarfulltrúi mun því leggja hana fyrir aftur til að freista þessa að fá almennilegt svar.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Vináttuverkefni Barnaheilla hefur verið kynnt skólum borgarinnar og hafa nú þegar 17 leikskólar hafið þátttöku. Þátttaka er hverjum skóla í sjálfsvald sett.

Framhaldsfyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um Vináttuverkefni Barnaheilla

Vegna loðinna og óljósra svara vill borgarfulltrúi Flokks fólksins spyrja aftur:
Býður borgin þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að vinna með vináttuverkefni Barnaheilla að greiða kostnað við verkefnið, t.d. námskeið fyrir leikskólakennara og/eða starfsfólk og efni: töskur, bangsa og bækur, að hluta til eða öllu leyti? Ef að hluta til, hversu stór hluti er það?

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda lausra íbúða hjá Félagsbústöðum

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreyfingu á íbúðum hjá Félagsbústöðum

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst furðu sæta að 90 íbúðir séu lausar vegna standsetningar. Hvað er átt við hér? Óskað er eftir sundurliðun á hvers lags viðgerðir eru í gangi á þessum íbúðum og hvenær þær hófust, á hvaða stigi þær eru og hvenær er stefnt að því að viðgerð verði lokið. Fram kemur að jafnaði sé um að ræða 70 íbúðir á hverjum tímapunkti sem standa auðar vegna viðgerðar. Þetta er mikill fjöldi íbúða sem standa auðar að jafnaði á meðan 1000 bíða á biðlista. Ljóst þykir að þetta getur varla talist eðlilegt ef tekið er mið af erfiðum húsnæðismarkaði. Allt kapp ætti að vera lagt á að standsetja íbúðirnar hratt svo hægt sé að leigja þær út aftur.

Fyrirspurn Flokks fólksins um aðkeypta þjónustu sjálfstætt starfandi sálfræðinga vegna eineltismála

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Í ljósi þess að í borginni starfa eineltisteymi á öllum sviðum borgarinnar auk miðlægs eineltisteymis, sem sjá um úrvinnslu flestra tilkynninga um einelti ætti ekki að vera þörf á að leita með þessi mál til sjálfstætt starfandi sálfræðinga nema í mjög sérstökum aðstæðum s.s. ef í ljós kæmi að öll teymi borgarinnar séu vanhæf til að fara með eitthvað ákveðið mál. Sé einhver í teymi vanhæfur skal kalla inn varamann. Sé teymið allt vanhæft er hægt að vísa málinu til annars teymis innan borgarinnar. Það er mjög mikilvægt að þessi mál séu sem mest unnin innan borgarinnar enda eru sjálfstætt starfandi aðilar mjög misjafnir hvað varðar færni jafnvel þótt þeir gefi sig út fyrir að hafa þekkingu og þjálfun í þessum málum. Mörg dæmi eru um að mál sem unnin eru út í bæ hafa sýnst ekki vera nægjanlega faglega unnin og málið jafnvel sett í verri farveg en áður en lagt var af stað. Dæmi eru vissulega um slíkt innan borgarinnar en það setur málið í enn alvarlegri stöðu þegar búið er að greiða háar upphæðir fyrir utanaðkomandi vinnu sem sár óánægja er með vegna ófaglegra vinnubragða og er þá ekki verið að horfa til niðurstaðna sem vissulega hugnast oft ekki báðum aðilum í svo viðkvæmum málum sem hér um ræðir.

Fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda barna sem búa undir fátæktarmörkum

Svar við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um fjölda barna sem búa undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytisins 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Flokki fólksins finnst það æði dapurt að tæp 500 börn búi undir fátæktarmörkum og tæp 800 börn eru börn foreldra sem eru með fjárhagsaðstoð í Reykjavík, í borg sem teljast má rík að flestöllu leyti. Þessar tölur eru með ólíkindum og enn sorglegra er að sjá hversu miklu munar eftir hverfum. Í Breiðholti má sjá hvernig borgarmeirihlutanum hefur mistekist þegar kemur að félagslegri blöndun en í Breiðholti er fjöldi fátækra barna mestur. Í Breiðholti hefur fátækt fólk einangrast. Í Reykjavík ættu engin börn að þurfa að lifa undir fátæktarmörkum. Ástæðan er ekki sú að ekki sé nægt fjármagn til heldur frekar að fjármagni er veitt í aðra hluti og segja má sóað í aðra hluti á meðan láglaunafólk og börn þeirra og öryrkjar ná ekki endum saman. Þessar tölur sýna að forgangsröðunin er verulega skökk í borginni þegar kemur að útdeilingu fjármagns. Um sóun og fjárhagslegt bruðl borgarmeirihlutans eru mörg nýleg dæmi og er skemmst að minnast hundruð milljóna fjárfestingu í hégómleg verkefni eins og uppbyggingu bragga í Nauthólsvík, Mathöll á Hlemmi og fleira mætti telja til.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um aðkeypta sálfræðiþjónustu vegna eineltismála og sundurliðun á hvers vegna beðið var um þjónustuna og hverjir voru fengnir til verksins

Tillaga Flokks fólksins um auknar fjárheimildir skrifstofu borgarstjórnar til að halda úti skrá yfir fyrirspurnir og tillögur

Lagt er til að borgarráð samþykki auknar fjárheimild til skrifstofu borgarstjórnar eða fundar séu aðrar hagræðingaleiðir til þess að borgarskrifstofa borgarstjórnar geti haldið opinbera skrá yfir tillögur, fyrirspurnir og bókanir flokkanna og birti skránna á heimasíðu borgarfulltrúa á  vef Reykjavíkurborgar. Samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar sem lagt var fyrir á fundi forsætisnefndar var gerð lausleg þarfgreining á þessu auka verkefni.

Svar við fyrirspurn Flokks fólksins um hvað mörg börn búa undir fátækarmörkum í Reykjavík

Bókun Flokks fólksins í tillögu um auknar fjárheimildir:

Flokkur fólksins gerir kröfu um allt verði gert til að koma því sem fyrst á koppinn að hægt sé að halda opinbera skrá yfir mál og afdrif mála borgarfulltrúa þannig að þau séu aðgengileg borgarbúum á vef borgarfulltrúa. Þetta auðveldar borgarfulltrúum sjálfum að fylgjast með eigin málum og gerir mál þeirra aðgengileg öllum þeim sem vilja fylgjast með vinnu borgarstjórnar. Hvort heldur þurfi auknar fjárheimildir eins og skrifstofustjóri borgarstjórnar fullyrðir að þurfi eða að önnur hagræðing verði viðhöfð til að framkvæma þetta skiptir borgarfulltrúa Flokks fólksins engu máli, aðeins að þetta hefjist og það hið fyrsta. Hér er um sjálfsagt mál að ræða enda fordæmi fyrir sambærilegu kerfi hjá Alþingi. Borgarbúar eiga rétt á að vita hvað fólkið og flokkarnir sem það kaus eru að gera í starfi sínu sem borgarfulltrúar. Í fundargerðum er ekki vinnandi vegur að finna nokkuð enda eru þær afar óaðgengilegar og tyrfnar aflestrar.

Fyrirspurnir Flokks fólksins um umframkostnað vegna braggans í Nauthólsvík

Hverjir höfðu umsjón með verkefninu? Var verkefnið boðið út, að hluta til eða öllu leyti? Hvaða verktakar unnu verkið? Samþykkti borgarstjóri reikningana áður en greitt var? Óskað er eftir að fá afrit af samstarfssamningi Reykjavíkurborgar við Háskólann í Reykjavík um endurbyggingu braggans í Nauthólsvík. Óskað er eftir að fá afrit af öllum samþykktum þeirra ábyrgðaraðila innan borgarkerfisins sem samþykktu útgjaldaliði af hálfu borgarinnar umfram kostnaðaráætlun. Óskað er eftir að lagðar séu fram hönnunarfundargerðir og verkfundargerðir.

Hverjar voru hönnunarforsendurnar? Hverjar voru forsendurnar að vali ráðgjafa, voru þeir valdir vegna sérþekkingar sinnar á endurbyggingu bragga af þessu tagi eða vegna sérþekkingar þeirra á eldri húsum almennt? Á hvaða grundvelli var samið við þessa ráðgjafa? Hver ber ábyrgð á þessari framúrkeyrslu? Fyrir hönd verkkaupa og skattgreiðenda? Hver breytti forsendum þannig að kostnaðaráætlunin fór svona úr böndum? Hver hafði yfirsýn yfir framvinduna? Hver gaf leyfi til að haldið yrði áfram þegar ljóst var að áætlunin stóðst ekki.

Tillaga Flokks fólksins um jafnræði barna á félagsmiðstöðvum borgarinnar

Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg beiti sér fyrir því að öll börn sem sækja félagsmiðstöðvar eigi þess kost að taka þátt í ferðum eða viðburðum á vegum félagsmiðstöðvarinnar sem þau sækja án tillits til efnahags foreldra þeirra. Flokkur fólksins vill að skerpt sé á reglum um starfsemi félagsmiðstöðva hvað þetta varðar svo það sé ekki á valdi leiðbeinanda hverju sinni hvernig dagskráin er. Kostnaðarsöm dagskrá leiðir án efa oft til þess að börn fátækra foreldra geta ekki tekið þátt. Lagt er til að börnum fátækra foreldra (foreldra sem eru undir framfærsluviðmiði velferðarráðuneytis) verði gert kleift að taka þátt í öllum dagskrárliðum þeim að kostnaðarlausu. Þetta er tryggasta leiðin til að gefa öllum börnum tækifæri til að taka fullan þátt í skipulagðri dagskrá félagsmiðstöðvanna án tillits til kostnaðar.

Greinargerð:

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er kveðið á um að ekki megi mismuna börnum eftir stöðu þeirra og foreldra þeirra. Félagsmiðstöðvar vinna gott starf. Þetta er félagslegt athvarf fjölmargra barna sem njóta þess að koma saman og gera skemmtilega hluti saman. Félagsmiðstöðvar hafa iðulega mikla og metnaðarfulla dagskrá sem útheimtir sjaldnast mikinn ef nokkurn kostnað. Nokkuð hefur borið á því engu að síður að börn eru beðin að koma með pening til að standa straum af kostnaðasamari viðburðum og ferðum. Segir í reglum um félagsmiðstöðvar að reynt sé að dreifa kostnaðinum sem jafnast yfir vetrarmánuðina.

Á tímabilinu janúar-maí 2018 voru börn þeirra sem fá fjárhagsaðstoð til framfærslu samtals 489 eða tæplega 2% af öllum börnum 17 ára og yngri í Reykjavík. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Flokks fólksins um fjölda barna undir framfærsluviðmiðum velferðarráðuneytisins. Langflest eða 153 búa í Breiðholti. Því má við bæta að fjöldi barna eftir þjónustumiðstöðvum og fjöldi barna per foreldra með fjárhagsaðstoð af einhverju tagi hjá velferðarsviði Reykjavíkur er 784, flest í Breiðholti eða 218 og fæst í Grafarvogi og á Kjalarnesi. Af þessu sést að aðstæður barna eru ekki einungis mismunandi almennt séð heldur eru þær einnig mismunandi eftir hverfum.

Lagt er til börnin sem hér um ræðir séu undir engum kringumstæðum krafin um að greiða þátttökugjald af neinu tagi hvort sem um er að ræða viðburði eða ferðir á vegum félagsmiðstöðva. Foreldrar þessara barna eru að berjast í bökkum við að ná endum saman og eiga oft enga möguleika á að reiða fram aukafé sem félagsmiðstöðvar fara fram á börn komi með þegar til standa viðburðir eða ferðir á þeirra vegum.

Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega mikil og alvarleg áhrif á börnin í fjölskyldunni. Fólk sem er með tekjur að upphæð u.þ.b. 250-300.000 kr. á mánuði á þess engan kost að ná endum saman ef leiguverð húsnæðis er einnig innifalið í þeirri upphæð. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra mega ekki bitna á börnum.

Það er skylda okkar sem samfélags að sjá til þess að börnum sé ekki mismunað á grundvelli fjárhagsstöðu foreldra þeirra. Að mismuna börnum vegna fjárhagsstöðu foreldra samræmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði – banni við mismunun af nokkru tagi án tillits til m.a. félagslegra aðstæðna. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Þau fá t.d. ekki sömu tækifæri til tómstunda. Félagsmiðstöðvar eru stundum eina tómstund þessara barna. Börn sem alin eru upp við fátækt og skort af einhverju tagi fá sig oft ekki til að biðja foreldrana um peninga því þau vita að þeir eru ekki til. Það er okkar ábyrgð að gera allt sem við getum til að koma barni ekki í slíkar aðstæður.

Borgarráð 4. október 2018

Tillaga Flokks fólksins um samskiptareglur lögð fyrir fund forsætisnefndar

Lagt er til að forsætisnefnd samþykki samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa sem gilda eiga á öllum fundum, í nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Reglurnar ná einnig til starfsmanna Ráðhússins. Lagt er til að þessar samskiptareglur verði fylgigagn eða viðhengi siðareglna og undirritaðar samtímis þeim. Samskiptareglunum fylgir viðbragðsáætlun gegn einelti sem eineltisteymi borgarinnar styðst við, berist kvörtun um óæskilega hegðun eða einelti. Ástæðan fyrir mikilvægi þess að hafa skýrar samskiptareglur er sú að á vettvangi borgarstjórnar eru heitar umræður, gagnrýni og mótmæli algeng. Í slíkum kringumstæðum er eftir sem áður gerð sú krafa að borgarfulltrúar sýni kurteisi og virðingu og séu ávallt málefnalegir.

Greinargerð fylgir tillögunni

Samþykkt að vísa tillögunni til frekari vinnslu í forsætisnefnd samhliða endurskoðun siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Tillaga Flokk fólksins um stýrihóp í eineltismálum

Endurbætt tillaga áheyrnarfulltrúa Flokk fólksins um stýrihóp um endurskoðun gildandi stefnumótunar gegn einelti og áreitni sem borgarfulltrúi Flokks fólksins fer fyrir.

Lagt er til að borgarráð samþykki að stofna stýrihóp um endurskoðun á gildandi stefnumótun Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum allra flokka í borgarstjórn og formaður hans verður borgarfulltrúi Flokks fólksins. Með hópnum starfar starfsmannastjóri Reykjavíkurborgar og er skrifstofu borgarstjóra og borgarritara falið að vinna erindisbréf stýrihópsins þar sem skilgreind eru helstu verkefni og starfinu sett tímamörk í samræmi við 3. gr. reglna um starfs- og stýrihópa.

Erindisbréfið skal leggja fram á næsta fundi borgarráðs. Greinargerð: Meta þarf umfang vandans, endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar auk þess sem fara þarf yfir verklagsreglur og viðbragðsáætlanir og tryggja að þær nái yfir áreitni og ofbeldi.

Nauðsynlegt er að stýrihópurinn endurskoði gildandi stefnumótun í stefnu Reykjavíkurborgar gegn einelti, áreitni og ofbeldi m.a. með það fyrir augum að kanna starf og hlutverk eineltis- og áreitniteyma sviða Reykjavíkurborgar og leita leiða til að þau geti liðsinnt stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar í forvörnum og verkferlum við vinnslu kvartana sem upp koma á vinnustöðum borgarinnar. Nauðsynlegt er að komið verði á fót hlutlausum vettvangi þar sem hægt er að vísa málum til afgreiðslu sem ekki er hægt að leysa úr innan stofnanna og fyrirtækja borgarinnar.

Samþykkt.
Erindisbréf hefur ekki verið gefð út

Fylgigögn

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli – E-3132 – 2017 gegn Reykjavíkurborg að beiðni borgarráðsfulltrúa D og áheyrnarfulltrúa J, M og F

Tvær bókanir stjórnarandstöðunnar:
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E3132-2017 kallar á sterk viðbrögð af hálfu borgarinnar. Stjórnarandstaðan lítur það grafalvarlegum augum að slík framkoma og hegðun eins og lýst er í dómnum fái þrifist innan Ráðhúss Reykjavíkur. Ljóst er að allir sem komið hafa að málinu með einhverjum hætti eru vanhæfir til að taka frekari ákvarðanir í framhaldi dómsins. Rétt er því að allar ákvarðanir um framhald málsins verða teknar á vettvangi borgarráðs þ. á m. framtíð gerandans í starfi sem einn æðsti stjórnandi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Stjórnarandstöðuflokkarnir Sósíalistaflokkur Íslands og Flokkur fólksins telja að sterkar vísbendingar séu um að í Ráðhúsinu ríki eineltismenning sem jafnvel hefur ríkt lengi. Eins og kunnugt er lét Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, bóka að hafa verið hrakyrtur og svívirtur af þáverandi formanni borgarráðs. Fjallað var um málið í fjölmiðlum 14. október 2016. Nú hefur dómur fallið þar sem felld er úr gildi skrifleg áminning sem skrifstofustjóri borgarinnar veitti þáverandi fjármálastjóra og skal borgin greiða alls um eina og hálfa milljón í skaðabætur og málskostnað. Það er sjaldgæft að sjá dómara fara svo hörðum orðum um athæfi en í dómnum segir orðrétt „Um þá skilyrðislausu hlýðni sem skrifstofustjórinn virðist ætla af stefnanda verður sagt það eitt að þrátt fyrir stjórnunarrétt annars og hlýðniskyldu hins eru undirmenn ekki dýr í hringleikahúsi yfirmanna sinna.“ Teljum við slíkt undirstrika alvarleika málsins.

Á fyrsta borgarstjórnarfundi 19. júní var margt í framkomu borgarfulltrúa sem fór yfir almenn kurteisismörk að mati stjórnarandstöðunnar. Í kjölfarið lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu um samskiptareglur. Sú tillaga var felld í atkvæðagreiðslu á síðasta borgarráðsfundi en mun verða lögð að nýju fyrir á fundi forsætisnefndar 20. júlí í þeirri von að þar verði hún samþykkt enda gagnleg öllum.

Umræða um viðvarandi og vaxandi vanda heimilislausra að beiðni Flokks fólksins

Lögð fram svohljóðandi bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins:

Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili. Jafnframt þurfa að vera til úrræði fyrir utangarðsfólk s.s. fjölgun smáhýsa og þeir sem óska eftir að búa í húsbílum sínum þurfa framtíðarsvæði nálægt grunnþjónustu. Óhætt er að fullyrða að það ríki ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi. Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra Kalkþörungaversmiðjunnar á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir.

Lögð fram tillaga Flokks fólksins um að borgin kaupi timburhús frá Eistlandi:

Lagt er til að borgin skoði fyrir alvöru að flytja inn timburhús frá Eistlandi sambærileg þeim sem flutt voru inn á Bíldudal með að það markmiði að gefa þeim einstaklingum og fjölskyldum sem búið hafa við viðvarandi óstöðugleika í húsnæðismálum tækifæri til að eignast heimili.

Greinargerð:
Heimilislausir hafa verið afgangsstærð borgarinnar árum saman. Heimilislausir eru fjölbreyttur hópur af öllum kynjum, á ólíkum aldri, einstaklingar, öryrkjar, barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og eldri borgarar. Að vera heimilislaus merkir að hafa ekki aðgang að húsnæði að staðaldri á sama stað þar sem viðkomandi getur kallað sitt heimili.
Óhætt er að fullyrða að það ríkir ófremdarástand í þessum málum í borginni, sérstaklega þegar kemur að húsnæði fyrir efnaminna og fátækt fólk. Það er verið að byggja í borginni, fasteignir sem í flestum tilfellum verða seldar fyrir upphæðir sem þessum hópum er fyrirmunað að ráða við að greiða. Félagslega íbúðakerfið er í molum í Reykjavík. Á biðlista bíða hundruð fjölskyldna og einstaklinga eftir félagslegu húsnæði og mörg dæmi eru um að húsnæði á vegum Félagsbústaða sé ekki viðhaldið sem skyldi.
Það er mat Flokks fólksins að hægt er að fara ólíkar leiðir í að auka framboð húsnæðis til að gera húsnæðismarkaðinn heilbrigðari. Má sem dæmi nefna að í viðtali við verkefnastjóra  á Bíldudal á RÚV greindi hann frá innfluttum 50 fermetra timburhúsum frá Eistlandi, sem fullbúin kosta 16 milljónir. Flokkur fólksins leggur til að borgin skoði að flytja inn slík timburhús frá Eistlandi.
Vísað til umsagnar skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Hér má sjá umsögnina

Lögð fram svohljóðandi sameiginleg bókun Flokks fólksins, Sjálfstæðisflokksins,  Sósíalistaflokksins og Miðflokksins

Stjórnarandstaðan vill að það sé bókað að fundur velferðarráðs 10. ágúst er að beiðni stjórnarandstöðunnar til að skoða ítarlega málefni og stöðu heimilislausra. Ósk um sérstakan fund um málefni heimilislausra var send ráðinu í júní en vegna m.a. sumarleyfa var ákveðið að halda fundinn hið fyrsta í ágúst. Nú hefur verið ákveðið að hann verið 10. ágúst. Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistaflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins óska eftir að Kærleikssamtökin komi á fundinn og kynni sín málefni sín, stöðuna og hvað þau hafa verið að gera. Eins teljum við að bjóða ætti öðrum samtökum og fulltrúum heimilislausra að koma og gera slíkt það sama. Markmiðið með þessum fundi er að við kynnum okkur stöðu heimilislausra í samfélaginu og nýta upplýsingarnar til að vinna áfram stefnumótandi vinnu.

Borgarráðsfundur 19. júlí 2018

Tillaga lögð fyrir á fundi borgarráðs að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða

Lagt er til að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða sem skoðar málefni þeirra ofan í kjölinn og heldur utan um hagsmuni þeirra, aðhlynningu og aðbúnað. Hann á að kortleggja hver staðan er í húsnæðismálum, heimahjúkrun, dægradvöl og að heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Með þessum hætti næst betri heildarsýn og staða mála eldri borgara verður skýrari. Hagsmunafulltrúinn fylgir málum vel eftir þannig að þau séu örugglega afgreidd og unnin á fullnægjandi hátt.
Frestað, vísað til Velferðarráðs

Fyrirspurn á fundi borgarráðs endurtekning spurningar um hvað gera á vegna manneklu í heimaþjónustu í sumar

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins vil endurtaka spurningu sem hún spurði í Breiðholti þegar meirihlutinn kynnti sáttmála sinn. Þá fékkst ekki svar en var sagt að þessu yrði svarað. Svar hefur ekki borist.
Spurningin er: Hvað ætlar meirihlutinn að gera varðandi heimaþjónustu eldri borgara sem verður að skerða í sumar vegna manneklu?

„Með þessari spurningu vil ég vísa í frétt sem birtist á visir.is nú í júní þar sem segir: „Alvarleg staða er komin upp í heimahjúkrun í Reykjavík þar sem illa hefur gengið að manna stöður fyrir sumarið. Fólki tilkynnt um minni stuðning. „Þetta er skelfileg aðstaða og ég kvíði mjög sumrinu“ segir Anna Kristine Magnúsdóttir um fyrirsjáanlegan samdrátt í þjónustu við heimahjúkrun og félagslega heimaþjónustu í Reykjavík í sumar.
Á fundi 16. ágúst barst svar Velferðarsviðs sem sjá má hér

Tillaga um úttekt á biðlista Félagsbústaða lögð fyrir á fundi borgarráðs

Lagt er til að gerð verði úttekt á biðlista Félagsbústaða. Í greiningunni komi fram:
1. Hverjir eru á þessum biðlista, hve margar fjölskyldur, einstaklingar, öryrkjar og eldri borgarar. 2. Hverjar eru aðstæður þessara aðila, fjölskylduaðstæður, aldur og ástæður umsóknar 3. hversu langur er biðtíminn. 4. Hvað margir hafa beðið lengst og hversu lengi er það, hverjir hafa beðið styst, hversu stutt er það. 5. Hve margir hafa fengið einhver svör við sinni umsókn og hvernig svör eru það (flokka svörin) og hversu lengi voru þeir búnir að bíða þegar þeir fengu svör. 6. Hafa einhverjir sótt um oftar en einu sinni, ef svo er, hvað margir og hverjir höfðu fengið svör við fyrri umsókn sinni og þá hvers lags svör. 7. Hvað margir hafa fengið synjun síðustu 10 árin og á hvaða forsendum. 8. Hvað margir bíða á listanum sem hafa fengið einhver svör við umsókn sinni en þó ekki synjun. 9. Hvar eru þeir sem bíða nú búsettir og 10. Hvað margir hafa sent ítrekun á umsókn sinni síðustu 3 árin.
Afgreitt
Hér má sjá svör Velferðarráðs

Tillaga um samskiptareglur fyrir borgarfulltrúa

Meðal tillagna sem lagðar voru fyrir borgarráð í gær var tillaga um samskiptareglur borgarfulltrúa. Hún hljóðar svona í stuttri útgáfu:
Lagt er til að settar verði samskiptareglur sem gilda eiga á öllum fundum, nefndum, ráðum og samstarfshópum sem borgarfulltrúar eiga samstarf í. Sömu reglur skulu gilda um starfsfólk skrifstofu borgarstjórnar sem starfa með borgarfulltrúum. Samhliða tillögunni er lögð fram viðbragðsáætlun gegn einelti og annarri óæskilegri hegðun. Í greinargerð er kveðið nánar á um reglurnar og viðbragðsáætlunina.
Frestað

Borgarráð 28. júní 2018