Heimgreiðslur og fyrirtækjaráðgjöf

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir að gefa mér, þingmanni Flokks fólksins, tækifæri til að bregðast við þessum mikilvægu spurningum. Varðandi heimgreiðslur þá reyndi Flokkur fólksins á mínu tímabili í borgarstjórn ítrekað að leggja til tillögu um heimgreiðslur. Ég held að Flokkur fólksins hafi verið jafnvel sá fyrsti sem bara yfir höfuð nefndi heimgreiðslur, en aldrei komu nein viðbrögð frá síðasta meiri hluta og þáverandi borgarstjóra, oddvita Framsóknarmanna, og tillagan var ítrekað felld.

Flokkur fólksins sá heimgreiðslur fyrir sér þannig að ef foreldrar væru með virka umsókn eftir leikskólaplássi en fengju ekki pláss strax þá gætu heimgreiðslur mögulega verið eitt úrræði. Síðan átti auðvitað algerlega eftir að útfæra þetta. Þetta er stórt mál því að það er hægt að gera þetta á ýmsa vegu. En sá meiri hluti sem núna ríkir í borginni hefur einungis örfáa mánuði til stefnu og það yrði algerlega galið fyrir þann meirihluta að ætla að fara að hefja undirbúning á þessu nákvæmlega núna. Þannig að ég skil vel að þetta bíði mögulega nýs meiri hluta eftir næstu kosningar.

Varðandi svokallaða fyrirtækjaleikskóla, sem einnig kom fram hjá hv. þingmanni, þá er hætta á að fyrirtækjaleikskólar innleiði mismun og stéttaskiptingu í menntakerfi og þetta er í rauninni bara mjög umdeild framkvæmd. Framkvæmdin í svona löguðu er með öllu óljós og hvernig þetta mun líka virka fyrir sveitarfélögin. Maður veltir því fyrir sér hvar stjórnsýslan verði og hver fari með eftirlitið sem er í lögum um leikskóla. Á endanum bera sveitarfélögin vissulega fulla ábyrgð á leikskólanámi barna. En að þessu sögðu langar mig bara að enda mitt mál á að segja að ég styð að sjálfsögðu lengingu fæðingarorlofs.