You are currently viewing EKKI MEIR – bók um einelti

EKKI MEIR – bók um einelti

Bókin EKKI MEIR, eftir Kolbrúnu Baldursdóttur sálfræðing, er handbók og leiðarvísir um einelti, en einnig verkfæri til að nota í fyrirbyggjandi vinnu gegn einelti eða til að grípa til í úrvinnslu mála. Bókin hefur að geyma ráðgjöf fyrir skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn. Í bókinni er umfjöllun um hinar mörgu tegundir forvarna og tengsl þeirra við uppbyggingu jákvæðs starfsanda í skóla- og frístundaumhverfi. Jákvæður staðarbragur og almenn vellíðan kennara, leiðbeinenda og annars starfsfólks skilar sér til barna og foreldra þeirra eftir ýmsum leiðum.

EKKI MEIR er ekki eingöngu hugsuð fyrir fullorðna, því bókin hefur einnig að geyma leiðbeiningar til barna um hvað einkennir jákvæða samskiptahætti ásamt skilaboðum til þeirra barna sem eru annars vegar þolendur eineltis og hins vegar gerendur. Hægt er að miðla efni bókarinnar til barna með ýmsum hætti. Ein leið er að lesa úr bókinni fyrir barnið sitt eða bekkinn. Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir hefur sem sálfræðingur komið að málefnum barna og unglinga með fjölbreyttum hætti, svo sem fræðslu, ráðgjöf og meðferð.

Það var snemma árs 2012 að forsvarsmenn Skólavefjarins leituðu til Kolbrúnar og óskuðu eftir því að hún skrifaði handbók um eineltismál. Kolbrún varð við þeirri beiðni og kom bókin EKKI MEIR út í ágúst 2012.

Í júlí sama ár hafði Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) einnig samband og óskað eftir samstarfi um verkefnið EKKI MEIR. ÆV eru heildarsamtök UMFÍ, Skátanna, Landsbjargar og KFUM og KFUK.

Í samstarfinu fólst m.a. að aðstoða aðildarfélög ÆV við gerð upplýsingabæklings um eineltismál og viðbragðsáætlunar fyrir aðildarfélögin. Farið hefur verið á 12 staði um landið á vegum ÆV og haldnir opnir fræðslufundir um hugmyndafræði og verklag EKKI MEIR. Fræðsluerindin eru nú orðin alls tuttugu talsins. Einnig hafa verið haldnir fundir víða á Stór-Reykjavíkursvæðinu, í skólum, í boði foreldrafélaga og annarra félagasamtaka sem láta sig þessi mál varða.


SKOÐA LÍKA: Lesa um fyrirlestra sem Kolbrún heldur um efni bókarinnar EKKI MEIR