You are currently viewing EKKI MEIR – fræðsluerindi um eineltismál

EKKI MEIR – fræðsluerindi um eineltismál

Hér má lesa um fræðsluerindi sem Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir flytur og byggð eru á hugmyndafræði bókarinnar EKKI MEIR. Bókin er leiðarvísir í aðgerðum gegn einelti og úrvinnslu eineltismála. Útgefandi er Skólavefurinn.


ATH! Pöntun fræðslufyrirlesturs, viðtals á stofu eða símaviðtal er með tölvupósti til kolbrunbald@simnet.is eða í síma 899 6783.


EKKI MEIR fræðsluerindi

> FYRIR KENNARA OG STARFSFÓLK GRUNNSKÓLA, LEIÐBEINENDUR OG ÞJÁLFARA

Fjallað er um hvernig jákvæður staðarbragur og almenn vellíðan skilar sér til barnanna. Forvarnir og helstu birtingamyndir eineltis eru reifaðar. Sjónum er beint að þolendum og gerendum, helstu persónueinkennum og aðstæðum. Megináherslan er á úrvinnslu eineltismála, viðbrögð og viðbragðsáætlun í eineltismálum. Ferlið er rakið frá tilkynningu til málaloka. Loks eru algengustu mistök sem gerð eru við upphaf og vinnslu mála af þessu tagi reifuð.

EKKI MEIR fræðsluerindi

> FYRIR KENNARA OG STARFSFÓLK FRAMHALDSSKÓLA

Farið er yfir hvernig forvörnum og úrvinnslu eineltismála er best háttað í framhaldsskólum þar sem þeir hafa ákveðna sérstöðu enda helmingur nemenda undir 18 ára aldri. Raktar eru helstu birtingamyndir eineltis á þessu aldursskeiði og hverju huga þarf sérstaklega að við vinnslu mála ef aðili/aðilar eru undir sjálfræðisaldri.

EKKI MEIR fræðsluerindi

> FYRIR FORELDRA

Fjallað er m.a. um reynslu þess að vera í sporum foreldra þolenda eineltis annars vegar og gerenda hins vegar. Einnig hlutverk og ábyrgð foreldra í forvarnarvinnu, mikilvægi samstarfs og samvinnu við skóla/íþrótta- og æskulýðsfélög. Farið er yfir viðbrögð og verkferla sem snúa að foreldrum þegar greiða þarf úr eineltismálum sem upp koma og varða börn þeirra.

EKKI MEIR – talað við börnin beint

> FYRIR BÖRN

Boðið er upp á stutta fræðslu fyrir börnin þar sem farið er í hvað einkennir góða framkomu og hegðun og helstu birtingamyndir eineltis. Rætt er um mikilvægi þess að taka ekki þátt í einelti, vera ekki þögult vitni af slíku og láta fullorðinn strax vita ef vart er við neikvæða eða meiðandi hegðun. Talað er út frá myndum við yngstu börnin og myndum og texta við eldri börnin.

EKKI MEIR fræðsluerindi

> FYRIR VINNUSTAÐI

Beint er sjónum að forvarnarvinnu á vinnustað og farið yfir helstu birtingamyndir eineltis og kynbundins ofbeldis. Varpað er ljósi á algengar orsakir neikvæðrar framkomu fullorðinna í garð annars aðila. Raktir eru verkferlar og verklagi miðlað sem einkennir fagleg vinnubrögð við úrvinnslu eineltismála á vinnustað. Boðið er upp á aðstoð við gerð viðbragðsáætlunar. Aðstoð er einnig veitt við að setja saman almennar samskipta-, og siðareglur og við gerð starfsreglna eineltisteymis eða ráðgjafahóps sem ætlað er að taki á þessum málum komi þau upp.


Önnur fræðsla í boði fyrir skóla, félagasamtök og aðra sem vilja stuðla að fræðslu og upplýstri umræðu til verndar börnum

Hvernig eflum við innra varnarkerfi barna gegn kynferðisofbeldi?

Farið er í birtingamyndir kynferðisofbeldis gagnvart börnum og hvaða hópar barna eru helst í áhættuhópi? Í erindinu er foreldrum leiðbeint með hvernig þeir geta frætt börn sín með viðeigandi hætti. Beint er sjónum að hvernig fullorðnir skulu bregðast við segi barn frá kynferðisofbeldi. Loks er varpað ljósi á mögulegar vísbendingar um að barn hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun.

Fræðsla í samskiptum sérsniðin að þjálfurum, leiðbeinendum og sjálfboðaliðum

Rætt er um þjálfara- og leiðbeinendastarfið, hvaða kröfur eru gerðar til þessara starfshópa. Einnig kynntar aðferðir til að styrkja sjálfsaga og persónulegan metnað þátttakenda. Sjónum er beint að mikilvægi forvarnarsamstarfs félaga og foreldra í þeim tilfellum þar sem þátttakendur eru undir 18 ára aldri. Farið er yfir viðbrögð ef grunur leikur á um að iðkandi glími við vandamál/vanlíðan. Í erindinu er farið í almenn samskipti þjálfara/leiðbeinenda og þátttakenda, hvar mörkin liggja og hvernig bregðast skuli við agavandamálum sem upp kunna að koma.

Fyrstu ár grunnskólagöngunnar, fræðsla fyrir foreldra yngstu barnanna í foreldrafærni

Í þessu erindi er farið yfir það sem einna helst einkennir þroska og þarfir þessa aldurskeiðs. Foreldrum er veitt ákveðin verkfæri sem auka færni þeirra í samskiptum við börn sín þ.á.m. í þeim tilfellum þar sem um aga- og hegðunarvanda er að ræða. Sérstök áhersla er lögð á að kenna foreldrum hvernig þeir geta með markvissum hætti lagt grunn að sterkri sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna sinna. Varpað er ljósi á hvað einkennir jákvæð samskipti, skýr fyrirmæli og mikilvægi þess að foreldrar séu samstilltir og samkvæmir sjálfum sér í samskiptum við börn sín.

Unglingastigið: Samskipti á heimili, tölvunotkun og netið

Farið er yfir helstu þroskabreytingar unglingsáranna og hvað gjarnan einkennir þetta aldursskeið. Ýmsir samfélagslegir áhrifaþættir og kynjamismunur er meðal efnisþátta þessa erindis. Rætt er um mikilvægi jákvæðrar samskipta á heimili, samspil aga og aðhalds annars vegar og viðeigandi sveigjanleika hins vegar. Rætt er um tölvunotkun unglinga, Netið og mikilvægi þess að setja reglur í því sambandi. Farið er yfir hlutverk og ábyrgð foreldra þegar kemur að því kenna unglingunum sínum jákvæða framkomu og hegðun og forvarnir gegn einelti.