You are currently viewing ADHD greiningar fyrir fullorðna

ADHD greiningar fyrir fullorðna

Meðal verkefna Sálfræðistofunnar er að greina ADHD hjá fullorðnum
Kolbrún hefur 25 ára starfsreynslu sem sálfræðingur og fékk sérfræðiviðurkenningu Landlæknis í klínískri sálfræði 2007. Kolbrún hefur verið sjálfstætt starfandi sálfræðingur frá 1992, veitt meðferð og ráðgjöf og gert greiningar af ýmsu tagi þar á meðal ADHD greiningar á börnum og fullorðnum. Annar starfsvettvangur er á sviði unglinga-, skóla-, og barnaverndarmála og nú síðustu ár einnig heilsugæslu. Kolbrún hefur sótt hagnýtt námskeið og vinnustofu um greiningu ADHD hjá fullorðnum á vegum Sálfræðingafélags Íslands. Leiðbeinendur voru sálfræðingar og geðlæknir ADHD Teymis Landspítala. Ferilskrá undirritaðrar má finna á heimasíðunni.
NÁNAR Sjá nánar ferilskrá Kolbrúnar og ítarlegri ferilskrá og ferilskrá á ensku

Ferlið frá skimun til greiningar

Í greiningu er stuðst við klínískar leiðbeiningar Landlæknisembættisins.  Unnið er á kerfisbundin hátt við að afla upplýsinganna með kvörðum sem eru gagnreyndir. Miðað er við að mörg einkenni þurfi að hafa verið komin fram fyrir 12 ára aldur. Þegar um er að ræða skjólstæðinga 17 ára og eldri þurfa einungis fimm af níu einkennum úr öðrum hvorum eða báðum einkennaflokkum að vera til staðar. Skimun felur í sér skoðun upplýsinga um viðkomandi sem fengnar eru m.a. í viðtölum, úr fylgigögnum og frá aðstandanda um ADHD einkenni þess sem verið er að greina bæði í bernsku og á fullorðinsárum. Á þar til gerðum gagnreyndum hegðunarmatslistum er spurt um einkenni ADHD í bernsku og á fullorðinsárum. Listarnir eru lagðir fyrir skjólstæðinginn og a.m.k einn aðstandanda. Aflað er grunnupplýsinga frá skjólstæðingi m.a. með því að hann fyllir út átta síðna eyðublað um þroska- sjúkra- og félagssögu sína. Þar sem einkenni og vandamál þroskafrávika og/eða sértækra námsraskanna geta farið saman með ADHD og einnig verið lík einkennum ADHD er ávallt spurt um skólagöngu skjólstæðingsins og fengnar upplýsingar um hegðun og frammistöðu í grunnskóla. Einnig er leitað eftir upplýsingum um fyrri greiningu og meðferð við ADHD liggi slík gögn fyrir. Kannað er hvort eitthvað bendi til misnotkunar ávísaðra lyfja, áfengis eða vímuefna.

Sé skimun jákvæð heldur könnunin áfram í greiningu sem felur í sér enn ítarlegri athugun á sögu viðkomanda. Notast er við K-SADS greiningarviðtal fyrir ADHD hjá fullorðnum. Einnig er gert mat á fylgikvillum með öðrum viðeigandi kvörðum og prófunum eftir atvikum. Leitast er við að svara hvort einkenni hafi verið komin fram í æsku og séu hamlandi í dag í fleiri en tveimur aðstæðum (fimm eða fleiri í öðrum eða báðum einkennaflokkum) og loks hvort einhver grunur sé um að einkennin skýrist betur af öðrum þroska- eða geðröskunum.

Frekari upplýsingar um ferli og kostnað ADHD greiningar hjá fullorðnum má fá með því að senda póst á kolbrunbald@simnet.is .


LESTU MEIRA um þjónustuna sem Sálfræðistofa Kolbrúnar veitir