Flestir vita hvaða ástand hefur ríkt á Alþingi síðustu vikur og mánuði. Þetta er alvarleg staða og hefur farið stigversnandi síðustu tvær til þrjár vikur. Ástandið tók á sig nýja birtingarmynd þegar þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og einn af sex varaforsetum Alþingis sleit þingfundi án umboðs forseta á miðvikudagskvöld. Mér sem nýkjörnum þingmanni og einum af varaforsetum þingsins var brugðið við þessi tíðindi. Það setti að mér ugg og ég hugsaði: Hvert erum við eiginlega komin? Þegar við varaforsetar lærðum til verka í upphafi þings fengum við alveg skýr skilaboð um hvaða leikreglur gilda um embætti forseta Alþingis. Ein af þessum reglum er að stjórnarmeirihlutinn fer með dagskrárvaldið og ákveður tímalengd þingfunda og efni þeirra. Varaforsetar fá fyrirmæli frá forseta um hvenær forseti vill að þingfundi ljúki. Fari fundur inn í nóttina hafa fyrirmælin stundum verið á þá leið að slíta skuli fundi á ákveðnu tímabili, milli tvö til þrjú eftir miðnætti svo dæmi sé tekið. Að einn af varaforsetum stjórnarandstöðunnar skuli slíta fundi án umboðs er eðlilega sett í samhengi við annað sem á sér stað á Alþingi. Öll gerum við mistök og öllum getur orðið á. Þá er hreinlegast að fólk gangist við mistökunum og biðjist velvirðingar á þeim sem hefur verið gert í þessu tilfelli.
Stjórnarandstaðan hefur svifist einskis til að trufla framgang þingstarfa og hefur beitt ýmsum leiðum til að tefja framgang margra mála svo sem með lengsta málþófi í sögu Alþingis. Yfirlýst markmið málþófsins er að löglega kjörinn meirihluti á Alþingi dragi frumvarp sitt til baka. Formenn og þingflokksformenn stjórnarflokkanna hafa teygt sig mjög langt í margra vikna viðræðum við forystufólk stjórnarandstöðunnar um þinglok. Allt það hefur stjórnarandstaðan túlkað sem veikleika og stöðugt gengið á lagið. Meira að segja gengið svo langt að afhenda ríkisstjórninni frumvarp frá stjórnarandstöðunni sem ríkisstjórnin gæti náðarsamlega flutt í stað veiðigjaldafrumvarps meirihlutans. Hér er um háalvarlega hluti að ræða. Stjórnarandstaðan hefur snúið öllu á hvolf, rangtúlkað eða þóst misskilja, ýkt eða fært óspart í stílinn. Þetta gæti ekki verið fjær raunveruleikanum.
Það er augljóst að þeir flokkar sem hafa verið við völd áratugum saman þola illa breytta stöðu sína. En fullorðið fólk þarf að kunna að taka tapi í kosningum og una öðrum að fara með völdin sem eru þeim svo kær. Framkoma stjórnarandstöðunnar einkennist af heift, reiði og biturleika. Fullorðið fólk verður sýna meiri þroska en þetta. Ekkert í þingræðinu og lýðræðinu segir að minnihluti þurfi og verði að vera sáttur við niðurstöður í atkvæðagreiðslu. Þannig er gangverk lýðræðisins.
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins
Birt í Morgunblaðinu 11. júlí 2025