Aðgerðarleysi getur haft alvarlegar afleiðingar

Alvarleg ofbeldistilvik áttu sér stað í miðborginni á menningarnótt þar sem eggvopnum var beitt með alvarlegum afleiðingum. Unglingadrykkja og neysla vímuefna var mikil sem og hópamyndanir. Það var einnig áberandi að unglingar voru án fylgdar fullorðinna.

Menningarnótt var upphaflega hugsuð sem fjölskylduhátíð en í tímans rás hefur eðli hennar breyst, sérstaklega þegar líður á kvöld og nóttu. Þá eru fjölskyldur farnar heim en í bæinn kemur annar hópur, yngra fólk.

Skýr merki eru um að ákveðin ofbeldismenning sé að þróast meðal jaðarsettra ungmenna hérlendis þar sem eggvopnum er beitt. Þróunin er áhyggjuefni sem þarf að bregðast við strax með samþættum aðgerðum. Fyrirbyggjandi aðgerða er þörf í stað þess að bregðast aðeins við þegar atburðurinn verður.

Kallað eftir viðbrögðum

Í upphafi kjörtímabilsins 2022 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og lagði til aukið samráð þriggja ráða sem koma hvað mest að þjónustu við börn. Þá þegar voru ýmis teikn á lofti um að ofbeldi meðal barna og ungmenna hefði aukist. Fulltrúa Flokks fólksins fannst því mikilvægt að bregðast fljótt við og sporna við þessari þróun með samstilltu átaki. Tillagan fékk ekki brautargengi. Sem mótsvar við tillögu Flokks fólksins lagði mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð fram tillögu um samráðsvettvang stórs hóps hagsmunaaðila og stofnana um börn og ungmenni í tengslum við ofbeldið. Tillagan þvældist lengi um í kerfinu en var loks samþykkt. Ekki er vitað hvenær er að vænta niðurstöðu frá hópnum og tímasetta aðgerðaráætlun.

Á meðan engar aðgerðir hafa verið settar í gang þá heldur ofbeldið áfram með öllum þeim hræðilegu afleiðingum sem það hefur á þá sem fyrir því verða og fjölskyldur þeirra. Kallað er eftir frekari hugmyndum í þessu sambandi ekki síst frá mannréttinda- og ofbeldisvarnaráði og einnig hugmyndum um hvernig megi breyta fyrirkomulagi Menningarnætur til að koma í veg fyrir ofbeldi. Mikilvægt er að vinna hratt og með skilvirkum hætti því engan tíma má missa.

Birt í Morgunblaðinu 31. ágúst 2024