Er verið að bíða eftir barnamálaráðherra?

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt inn fyrirspurnir til skóla- og frístundaráðs hvort verið sé að bíða eftir hvaða skref ráðherra barnamála taki í lestrarkennslumálum eða hvort borgin hyggist leggja fram sínar hugmyndir um frekari stuðning við lestrarnám barna með það að markmiði að auka lesskilning? Niðurstöður um slakan árangur liggja fyrir og hafa gert lengi. Óttast er að næsta útkoma mælinga verði jafnvel verri. Eitthvað þarf að gera strax.

Fyrir liggur að Mennta- og barnamálaráðherra hefur ekki enn kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við niðurstöðum PISA-könnunarinnar, níu mánuðum eftir að þær voru birtar. Niðurstöður voru sláandi en 40% fimmtán ára nemenda á Íslandi búa ekki yfir grunnfærni í lesskilningi. Í samanburði við aðrar þjóðir sem við berum okkur saman við kemur Ísland illa út. Eini samræmdi mælikvarðinn sem er í notkun núna er lesfimipróf sem sýnir fram á sífellt verri lestrarfærni barna. Samræmdi mælikvarðinn, samræmd próf, var lagður af 2019 og hefur ekkert annað komið í staðinn.

Ráðherra fylgir ekki lögum

Skýrsla um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum árin 2017 til 2021 hefur ekki verið skilað. Rúm tvö ár eru liðin frá því ráðherra lofaði að skila skýrslunni eða fyrir árslok 2022. Lögum samkvæmt átti að leggja skýrsluna fram í byrjun þess sama árs. Er skóla- frístundasvið að bíða eftir skýrslu um framkvæmd skólastarfs til að geta tekið næstu skref í þessum málum í grunnskólum borgarinnar? Hér má engan tíma missa. Börn þurfa að búa yfir vissri lesfimi til að geta lesið texta og skilið hann. Lesfimi byggist upp fyrstu 2 árin í skóla. Hafi börn ekki náð nægjanlegri færni til að skilja texta og muna það sem þau lesa í 3ja bekk næst hún sjaldnast. Fyrsta lesfimiprófið er lagt fyrir í janúar í 1 bekk. Þá strax eru komnar vísbendingar um ef vandi er í uppsiglingu. Dæmi eru um börn sem lesa aðeins 6 orð á mínútu í fyrsta lesfimiprófinu. Þessi börn hafa ekki náð grunnfærni og við því þarf að bregðast.

Mistök voru að hætta með samræmdu prófin án þess að nokkuð annað kæmi í staðinn. Með þessu er borgarfulltrúi Flokks fólksins ekki að segja að samræmdu prófin væru gallalaus en þau voru eina samræmda mælitækið. Framhaldsskólar einblíndu nánast eingöngu á einkunnir sem er vissulega ekki nógu breiður mælikvarði á getu barns eða sanngjarn mælikvarði ef því er að skipta. Samræmt mat er nauðsynleg forsenda þess að við getum tekið ábyrgð á útkomu kennslunnar. Við ættum að horfa meira til Svíþjóðar í þessum efnum en þar er samræmt skyldumat í 1. bekk og í Danmörk er samræmt námsmat gert nærri árlega.

Kveikjum neistann er alvöru mælikvarði

Umfram allt eigum við að taka upp verkefnið Kveikjum neistann í Reykjavík. Það hefur allt að bera til að koma okkur aftur á rétta braut í þessum málum. Kveikjum neistann er rannsóknar og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Þau Hermundur Sigmundsson prófessor og Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari og læsisfræðingur eiga veg og vanda af verkefninu sem er í umsjá Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar við HÍ.

Markmið Kveikjum neistans er metnaðarfullt. Eitt af þeim er að 80-90% barna teljist læs við lok 2. bekkjar og er árangur mældur út frá einföldu stöðumati sem nefnist LÆS. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni, eftirfylgni er góð og einstakir þjálfunartímar þar sem öll börnin fá réttar áskoranir. Frábær árangur hefur hlotist af verkefninu í Vestmannaeyjum. Óþarfi er að finna upp hjólið þegar við erum nú þegar með tæki sem virkar.

Í september 2023 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að skólayfirvöld boði til fundar með skólasamfélaginu í Reykjavík til að ræða þróunarverkefnið Kveikjum Neistann og hvort áhugi sé á að innleiða það í einhverja skóla Reykjavíkur t.d. í tilraunaskyni. Jafnframt var lagt til að forsvarsmönnum verkefnisins verði boðið á fundinn til að kynna verkefnið og þróun þess. Skólar í Reykjavík hafa almennt séð ekki lýst yfir áhuga á verkefninu. Það kom fram í svari sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um hversu margir grunnskólar í Reykjavík hafi sýnt verkefninu áhuga og spurst fyrir um það. Kannski þekkja skólar í Reykjavík ekki verkefnið nógu vel og væri því vert að halda kynningarfund fyrir kennara og skólastjórnendur þar sem forsvarsmenn Kveikjum Neistans gætu kynnt verkefnið, þróun þess og svarað spurningum.

Birt i Morgunblaðinu 11. september 2024