Forsætisnefnd 13. sept. 2024

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar yfir tímasetningar og mönnun kjörinna fulltrúa í skólaheimsóknir í Ráðhús Reykjavíkur árið 2024 og 2025. MSS24040172

Fulltrúi Flokks fólksins mun að sjálfsögðu spila með í þessari tillögu meirihlutans og hlakkar til að hitta krakka í Ráðhúsinu samkvæmt því plani sem lagt er hér fram. Hins vegar útilokar ekki eitt annað og minnt er á tillögu Flokks fólksins um að hafa opið hús í Ráðhúsið fyrir börn og aðra áhugasama. Sú tillaga sem hér um ræðir af hálfu meirihlutans hefur takmarkanir. Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem einungis 9. bekk er boðið að koma í Ráðhúsið og þiggja þar fræðslu um borgarstjórn. Útfærsla Flokks fólksins sem var lögð fram í borgarstjórn 12. desember 2023 var að marka árlegan heimsóknardag fyrir börn að heimsækja Ráðhúsið og hafa eins konar opið hús. Þessi tillaga er einföld í útfærslu og útilokar engan.Hugsunin er sú að borgarfulltrúar og starfsfólk muni taka á móti börnum, sýna þeim húsið og segja frá starfinu í Ráðhúsinu. Foreldrar og kennarar eru vissulega velkomnir líka. Þessi tillaga mun ekki leiða af sér háan kostnað. Markmiðið er að dýpka þekkingu barna á hlutverki borgarstjórnar og gefa þeim tækifæri til að ganga um húsið, skoða rýmin og máta sig í sæti í sal borgarstjórnar. Flækjustig tillögu meirihlutans er meira en í tillögu Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 5. september 2024, varðandi samþykkt borgarráðs á að fela forsætisnefnd að endurskoða gildandi lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg í samráði við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins.

Afar brýnt er að breyta lögreglusamþykkt Reykjavíkur og þá helst gr. 12. Fleira mætti skoða að uppfæra. Grein 12 hljóðar þannig í gildandi lögreglusamþykkt “Meðferð skotvopna í þéttbýli og á almannafæri er bönnuð nema með sérstakri undanþágu frá lögreglustjóra.“ Breyta skal henni þannig að mati fulltrúa Flokks fólksins: “Meðferð skot- eggvopna í þéttbýli og á almannafæri er bönnuð nema með sérstakri undanþágu frá lögreglustjóra. Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum. Hvað varðar viðurlög er vísað í 30 gr. Brot gegn samþykkt þessari varða sektum sbr. 6. gr. laga nr. 36 18. maí 1988 um lögreglusamþykktir nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum eða reglugerðum. Mál sem varða brot gegn ákvæðum samþykktar þessarar skal fara með að hætti laga um meðferð opinberra mála.”

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2024, varðandi meðferð skóla- og frístundaráðs á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Laugardals, Bústaða og Háaleitis um að lengja opnunartíma í félagsmiðstöðvum og aukið samráð við ungmenni.

Á fundi borgarstjórnar með ungmennum 8. apríl 2024 var lögð fram tillaga um að lengja opnunartíma í félagsmiðstöðvum og aukið samráð við ungmenni. Tillagan var felld í skóla- og frístundaráði með fjórum atkvæðum skóla- og frístundaráðsfulltrúa. Fulltrúi Flokks fólksins hefur haft áhyggjur af skerðingum á starfsemi félagsmiðstöðva og bókað um það nokkrum sinnum áður. Hagræðing meirihlutans hefur komið allt of mikið niður á börnum og öðrum viðkvæmum hópum en einnig almennri þjónustu í þágu fjöldans. Ekki hefur verið haft samráð við ungmennin þegar ákvörðun er tekin um að stytta opnunartíma eða hætta að hafa opið einstaka kvöld. Ekkert samráð var heldur haft við ungmennin þegar meirihlutinn ákveður að skella félagsmiðstöð í lás. Félagsmiðstöðvar eru gríðarlega mikilvægar fyrir þennan aldurshóp. Þetta er sá staður sem þau geta hist og átt samverustund með öruggum hætti í stað þess að mæla göturnar. Flokkur fólksins vill að meirihlutinn láti þjónustu við börn, ungmenni og aðra viðkvæma hópa í friði þegar hugmyndir um sparnað koma upp enda er þjónusta við börn rýr og víða brotakennd.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 10. september 2024, varðandi meðferð skóla- og frístundaráðs á tillögu fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða um að tyggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar.

Fulltrúa í ungmennaráði Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða leggja til að borgarstjórn samþykki nægjanlegt fjármagn til að tryggja starfsemi Hinsegin félagsmiðstöðvar þannig að hún verði föst félagsmiðstöð í stað þess að vera sértækt verkefni sem fær styrki til að starfa. Tillögunni er vísað frá af meirihlutanum og er það miður. Ábyrgðinni er vísað á ríkið og önnur sveitarfélög sem er einnig fráleitt. Hér er aðeins verið að tala um að efla starfsemina. Hinsegin félagsmiðstöðin hefur gengið sérlega vel og verið mjög vinsæl. Festa þarf hana í sessi til lengri tíma. Öll óvissa um framhaldið og framtíð félagsmiðstöðvarinnar er óþolandi. Samverustaður fyrir öll ungmenni er gríðarlega mikilvægur. Ungmennin þurfa að geta komið saman á öruggum stað til þess að kynnast og tengjast. Fulltrúi Flokks fólksins vill að börn og ungmenni verði sett í meiri forgang þegar kemur að þjónustu við þau en gert hefur verið á þessu og síðasta kjörtímabili. Eins og segir í greinargerð með tillögunni er “mikilvægt að þekkja einhvern eins og mann sjálfan til að finna ekki fyrir einmanaleika eins og mörg upplifa og þangað koma margir krakkar í hverri viku.”

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundaráðs, dags 10. september 2024, varðandi afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu ungmennaráðs Laugardals, Bústaða og Háaleitis um tvær kvöldopnanir á viku í sértæku félagsmiðstöðinni Öskju. MSS24020130

Ungmennaráð Laugardals, Bústaða og Háaleitis lagði til breytingu á á opnunartíma félagsmiðstöðvarinnar Öskju þannig að hægt sé að vera með tvær kvöldopnanir vikulega frá og með hausti 2024.Tillagan er felld af meirihlutanum og er fulltrúi Flokks fólksins ósáttur við það. Hér er um að ræða félagsmiðstöð fyrir nemendur á unglingastigi í Klettaskóla og hún er með kvöldopnun einu sinni í viku á miðvikudögum kl. 19:00 til 21:00. Meðaltalsmæting ungmenna á kvöldopnanir á síðasta ári var um 50% sem sýnir mikinn áhuga. Í dag sé fjármagn fyrir kvöldopnanir í Öskju dregið frá úthlutaðri yfirvinnu starfsfólks og því í raun ekki úthlutað sérstöku fjármagni fyrir kvöldopnanir. Þetta þarf að endurskoða þannig að félagsmiðstöðin Askja geti haft kvöldopnanir tvisvar í viku kl. 19:00 til 21:00 og að fjármagn sem úthlutað er nú þegar verði hækkað í ljósi mætingarhlutfalls og áhuga. Þessi hópur barna á það til að einangrast heima. Þetta er e.t.v. eini staður sumra til að koma og hitta aðra, kynnast og mynda tengsl. Mikilvægt er að komið verði til móts við börn sem sækja félagsmiðstöðina Öskju þannig að þau sitji við sama borð og önnur börn í borginni. Hagræðingarkröfur eiga ekki að bitna á börnum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skóla- og frístundaráðs, dags. 10. september 2024, varðandi afgreiðslu skóla- og frístundaráðs á tillögu áheyrnarfulltrúa ungmennaráðs Breiðholts um aukna áherslu á nútíma samfélagsfræði í grunnskólum. MSS24020128

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessari tillögu frá fulltrúa í ungmennaráði Breiðholts, sbr. 3. lið fundargerðar borgarstjórnar dags. 27. febrúar 2024, að lögð verði meiri áhersla á nútíma samfélagsfræði í grunnskólum frá og með hausti 2024. Meirihlutinn leggur til að tillögunni verði breytt með því að bæta einni setningu við hana sem er “og þar með umfjöllun um það sem er að gerast í samfélaginu hverju sinni.“ Fulltrúi Flokks fólksins sér í raun ekki að ástæða hafi verið til að breyta þessari tillögu neitt frekar. Hún var skiljanleg eins og hún var og sjálfsagt að leggja hana í hendur skóla og kennara til frekari útfærslu. Tekið er undir með áheyrnarfulltrúa kennara sem bókar að faglegt sjálfstæði kennara er mikilvægt en það er öllum til hagsbóta að eiga uppbyggilegt samtal um fjölbreytta kennsluhætti og leiðir til úrbóta sem hvetja til aukins áhuga nemenda.