Gerum þetta saman

Á dagskrá Alþingis 25. júní sl. var 2. umræða um frumvarp til laga um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Inga Sæland  félags- og húsnæðismálaráðherramælti fyrir í upphafi vorþings. Með frumvarpinu er lagt til að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur í heild sinni.

Samningurinn , sem samþykktur var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 13. desember 2006, var undirritaður fyrir Íslands hönd hinn 30. mars 2007 og fullgiltur hinn 23. september 2016. Lengi hefur því staðið til að lögfesta samninginn.

Með fullgildingunni 2016 skuldbatt íslenska ríkið sig gagnvart öðrum aðildarríkjum til að uppfylla skyldur gagnvart fólki með fötlun og tryggja þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum. Með  löggildingu hér á landi er leitast við að auka réttaráhrif samningsins og styrkja mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi.

Mikilvæg lagastoð

Lögfestingin sem slík kallar ekki á auknar aðgerðir, svo sem þróun þjónustuúrræða, þar sem  hún felur ekki í sér ný efnisleg réttindi en skýtur lagastoð undir þau réttindi sem kveðið er á um í samningnum.  Í framhaldinu er mikilvægt að vinna áfram að fullri innleiðingu samningsins. Mikið verk er fyrir höndum sem snýr að fjölmörgum málaflokkum, s.s. persónulegri þjónustu, aðgengi, húsnæðismálum, menntun og atvinnu.

Málið fékk ítarlega umfjöllun í velferðarnefnd Alþingis . Nefndinni bárust sextán  umsagnir og fjöldi gesta kom fyrir nefndina og reifaði sjónarmið sín. Hér er um mikilvægt mál að ræða sem varðar okkur öll.

Réttindi fyrir alla en ekki bara suma

Í ræðu  við 2. umræðu lagði ég m.a. út frá væntingum mínum um að allir þingmenn gætu sameinast um þetta mál enda snertir það okkur öll með einum eða öðrum hætti. Enginn vill þurfa að glíma við fötlun. Sumir er fatlaðir frá fæðingu aðrir af orsökum veikinda eða slysa sem ekki gera boð á undan sér.

Standi þingmenn saman sem einn maður um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk eru þeir að senda sterk skilaboð til þjóðarinnar um að mannréttindi eru ekki bara sumra heldur allra. Með lögfestingu samningsins má gera ráð fyrir að vitund og þekking á réttindum fatlaðs fólk aukist meðal almennings, fatlaðs fólks sjálfs og opinberara aðila.

Lögfesting samningsins er ekki pólitískt mál og ekkert í því kallar á pólitískt karp. Með lögfestingunni vill ríkisstjórnin innleiða hugmyndafræðina um að fólk með fötlun er jafn mikilvægt  í samfélaginu og aðrir. Það eigi að  horfa á þeirra mál eins og annarra hópa.

Gerum þetta saman.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, þingmaður Flokks fólksins