Hlakka ég til?

Jólin eru sá tími sem djúpar tilfinningar, gleði, sorg, tilhlökkun og væntumþykja verða jafnvel enn sterkari en á öðrum tíma árs. Börn upp til hópa geta vart beðið eftir jólunum, slíkur er spenningurinn. Hinir fullorðnu eru mismikil „jólabörn“. Sumir nærast á öllu sem snýr að jólum en aðrir fara í gegnum þennan tíma meira vegna þess að þeir eiga engan annan kost. Þessi tími er jú kominn – jólamánuðurinn. Þau sem eru ekki spennt fyrir jólahátíðinni og finnst jólin jafnvel vera hálfgert vesen njóta þess kannski samt að geta hvílt sig frá daglegu amstri í nokkra daga.

Þak yfir höfuðið og mat á diskinn er meðal grunnþarfa

Í Reykjavík þar sem stór hluti Íslendinga býr er hópur fólks þ.m.t. barnafjölskyldur sem búa við erfiðar aðstæður af ýmsum orsökum. Í raun þykir mörgum þetta skjóta skökku við þegar litið er yfir allsnægtirnar sem eru á boðstólum. En það sitja einfaldlega ekki allir við sama borð. Ef horft er til barna þá er gæðum þeirra af ýmsum ástæðum misskipt. Öruggt húsaskjól og matur á diskinn er meðal grunnþarfa og því miður er þeim grunnþörfum ekki mætt hjá hópi barna. Foreldrar þessara barna berjast í bökkum hvern dag við að láta enda ná saman. Há húsaleiga tekur oft stærsta bitann af kökunni og þá er lítið afgangs til að kaupa nauðsynjar hvað þá annað. Langt er í að nægt framboð af húsnæði verði í boði og ekki stendur til að hemja leiguverð.

Fátækt er í mörgum tilfellum fylgifiskur eða afleiðing annarra vandamála t.d. veikinda, þar með talið geðrænna veikinda eða fíknivanda. Börn foreldra sem glíma við langvinn veikindi, líkamleg eða geðræn eiga oft erfiða daga. Veikindi af hvers lags toga spyrja einfaldlega hvorki um félagslega stöðu eða efnahagslega afkomu og sannarlega ekki hvaða tími ársins er. Annar hópur barna sem líða þjáningar eru þau sem börn sem búa á ofbeldisheimilum. Heimilisofbeldi finnst í öllum tegundum fjölskyldna, óháð efnahag og félagslegri stöðu. Rannsóknir hafa lengi sýnt að heimilisofbeldi eykst í kringum stórhátíðir. Börnin á þessum heimilum sem hér hefur verið lýst hlakka oft ekkert til jólanna né annarra hátíða nema síður sé. Kvíði, ótti og áhyggjur varna því að þau geti hlakkað til nokkurs.

Fyrir hin sem eru heppnari bíður skemmtilegur tími, glens og gaman.  Úrvalið í okkar samfélagi fyrir þá sem hafa fjárhagslega burði og búa við góðar aðstæður hefur aldrei verið meira. Börn sem geta notið jólanna til fulls safna um hver jól nýrri dásamlegu minningu sem jafnvel lifir með þeim um aldur og ævi.

Hvað er hægt að gera?

Þegar hugsað er um einstaklinga og fjölskyldur sem eru verst settar fjárhagslega og eru jafnvel sárfátæk þá langar manni til að geta gert svo margt til að hjálpa, laga og breyta. Auðvitað geta allir látið að sér kveða með einhverjum hætti og fjölmargir gera það. Í okkar þjóðarsál er ótrúlega góðmennsku að finna. Það höfum við oft séð þegar fréttir berast af erfiðleikum hvort sem er hjá einstaklingum, fjölskyldum eða bæjarfélagi ef því er að skipta, og nú síðast þegar erfiðleikar steðja að Grindvíkingum. Öll getum við staðið vörð um þjóðarsálina t.d. með því að leggja okkar að mörkum þegar ákall berst um hjálp, eða láta í okkur heyra þegar okkur er ofboðið. En það er ekki nóg að einstaklingar hafa stórt hjarta og skilning. Það er þetta sameiginlega átak sem skiptir hvað mestu til að hægt sé að hrinda af stað stórum breytingum. Þeir sem hafa völdin geta tekið stærstu skrefin í að breyta til góðs því þeir halda utan um stóru budduna, ríkissjóð og borgarsjóð, sem geyma skattfé landsmanna og aðrar tekjur. Stórar breytingar til langs tíma kosta fjármagn.

Það er mat okkar í Flokki fólksins að hægt sé að forgangsraða meira í þágu fólksins og þjónustu við fólkið. Forgangsraða þarf með þarfir fólks,  barnanna og viðkvæmra hópa að leiðarljósi. Þrátt fyrir hin ýmsu stuðningsúrræði í samfélaginu, þökk sé hjálparsamtökum þá dugar það ekki til. Stærri breytinga er þörf og þær kosta. Allt of margir sem glíma við alvarleg veikindi eru ekki að fá tilheyrandi meðferð og ráðgjöf. Þeir eru hugsanlega á biðlista eða rétta úrræðið fyrir þá er jafnvel ekki til. Nauðsynlegar breytingar ganga því miður allt of hægt. Fátækt og ójöfnuður hefur aukist verulega síðustu misserin. En þessu er hægt að breyta ef vilji er fyrir hendi. Við sem erum í Flokki fólksins erum óþreytandi í baráttunni við að bæta kjör fólks og benda á leiðir og lausnir til að auka jöfnuð og draga úr fátækt. Það munum við halda áfram að gera af fullum krafti á komandi ári.

Birt í Morgunblaðinu