Með vindinn í seglin

Í nýafstöðnum kosningum varð ég frekar óvænt þingmaður á Alþingi og er nú hluti af hópi þingmanna Flokks fólksins. Eftir að hafa haldið úti málstaðnum og barist fyrir réttlæti og bættum hag þeirra sem verst hafa það í borginni í 7 ár bíður nú að hella sér út í landsmálin hvað þessi málefni varðar. Þingmenn Flokks fólksins eru með mikla reynslu, ekki hvað síst lífsins reynslu sem spannar breytt svið. Þetta gerir okkur sterk, opin og sveigjanleg. Við eigum það sameiginlegt að eiga auðvelt með að hlusta, meðtaka, framkvæma og fylgja eftir – kraftar sem verða nýttir til hins ýtrasta á komandi kjörtímabili.

Allt gerðist þetta hratt þar sem ríkisstjórnin féll, kosningabaráttan hófst og við í Flokki fólksins vorum klár í bátana. Flokkur fólksins er einstakur flokkur fyrir ótal sakir en fyrst og síðast þrautseigju og trúna á að það er hægt að gera allt ef viljinn er fyrir hendi. Þrátt fyrir áralangan mótbyr og jafnvel hunsun hefur Flokkur fólksins nú uppskorið eins og hann hefur sáð. Þetta bera nýafstaðnar kosningar vott um. Vindáttin hefur greinilega breyst. Það sem Flokkur fólksins á Alþingi er einnig ákveðinn í að gera er að gleyma ekki af hverju hann var yfirhöfuð stofnaður. Flokkur fólksins var stofnaður til að útrýma fátækt, taka utan um börnin og fjölskyldur þeirra, öryrkja og eldra fólk sem á um sárt að binda. Í okkur er óbilandi þrek og við munum nota hvert tækifæri til að hrekja á brott vágesti eins og fátækt, ójöfnuð og óréttlæti.

Á þessari stundu er okkur þakklæti efst í huga. Þakklæti fyrir allt það traust sem okkur hefur verið sýnt og fyrir að fá tækifæri til að halda áfram að reyna að koma baráttumálum okkar í framkvæmd. Málefnin eru okkur allt og að fólkið og þarfir þess verði settar í forgang. Flokkur fólksins vill gera allt sem hann getur á komandi kjörtímabili til að endurvekja drauminn um öruggt heimili fyrir alla til að geta lifað öruggu lífi. Heimilið er aðalgrunnstoðin og án heimilis þrífst enginn sama á hvaða aldri einstaklingurinn er. Þetta er bara brot af því sem þingmenn Flokks fólksins munu leggja áherslu á að verði lagfært. Tilhlökkunin er mikil að takast á við öll þau krefjandi verkefni sem eru framundan, finna leiðir til lausna og fá tækifæri til að fylgja þeim eftir og koma í framkvæmd. Nú eru þrír flokkar að tala saman eins og kunnugt er og verða næstu dagar spennandi. Þeir munu leiða í ljós árangur samtalsins. Umfram allt er að gera nauðsynlegar úrbætur á efnahagsmálum og að samheldni myndist í að gera gæði þeirrar þjónustu sem ríkið veitir eins góð og kostur er miðað við efni og aðstæður í samfélaginu hverju sinni. Flokkur fólksins á Alþingi mun gera allt sitt til að svo megi verða.

Birt í Morgunblaðinu 12. desember 2024