Forvarnardagurinn var í ár haldinn í nítjánda sinn og hefur hann verið útvíkkaður í forvarnarmánuðinn október. Forvarnir eru alltaf jafn mikilvægar sama hver árstíminn er. Í hugtakinu felst að sýna fyrirhyggju, hugsa fram í tímann og gera ráðstafanir til að sporna við óvæntri vá. Ef horft er til barna og ungmenna er það markmið okkar flestra að stuðla að því að börn geti upplifað öryggi og vellíðan í samfélaginu og séu örugg. Við viljum byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann. Ytri vá getur leynst víða og komið úr ýmsum áttum oft þegar síst skyldi.
Stundum kemur ógnin úr óvæntri átt og skyndilega er erfitt að bregðast við. Þetta hafa nokkrir nýlegir hörmulegir atburðir sýnt okkur og skemmst er að minnast alvarlegs ofbeldistilviks á Menningarnótt þar sem ung stúlka var stungin til bana af aðila sem enn er á barnsaldri. Þetta og fleira hefur vakið samfélagið hressilega til meðvitundar um að endurskoða þurfi viðhorf okkar, forvarnarstefnur og áætlanir.
Teikn voru á lofti strax árið 2022 um að ákveðin ofbeldismenning var að þróast meðal barna og ungmenna þar sem vopn, þ.á m. eggvopn, komu við sögu. Flokkur fólksins lagði fram tillögu 2022 um að þau þrjú svið Reykjavíkurborgar sem snúa að þjónustu við börn taki sig saman og leggi fram áætlun um fyrirbyggjandi aðgerðir. Ljóst mátti vera að setja þurfti aukinn kraft í þessa vinnu.
Fram til þessa hefur vantað skilvirkni og snerpu í vinnu við fyrirbyggjandi aðgerðir. Kerfið hefur verið svifaseint með fjölmörg mál sem snúa að þjónustu við börn. Biðlistar þar sem börn þurfa þjónustu hafa lengst svo um munar síðustu árin. Flokki fólksins fannst mikilvægt að lítill en kjarnyrtur hópur fengi umboð til að setja saman endurskoðaða fyrirbyggjandi aðgerðaáætlun og tímalínu hennar og að unnið verði að verkefninu hratt og fumlaust. Ekki síður er brýnt að greina meinið, orsakir aukins ofbeldis og ekki síst af hverju börn velja að vopnast hnífum og jafnvel beita þeim.
Þegar besti vinurinn er aðeins á netinu
Andlegri líðan barna hefur hrakað og svefntími þeirra minnkað, m.a. vegna mikillar skjánotkunar. Óhófleg skjánotkun, jafnvel á annan tug klukkutíma á sólarhring, hefur eðlilega áhrif á námsáhuga og -ástundun. Snjalltækið og netið er orðin stór þáttur í lífi okkar allra og barna allt niður í 8 ára. Fullorðið fólk vegna þroska og reynslu á vissulega betur með að setja sér takmörk og hafa sjálfsstjórn þegar kemur að skjánotkun og efnisvali á netinu en börn og unglingar. Börn eru óvarin gegn þeirri vá sem steðjar að þegar þau vafra um netið og eru jafnvel í samskiptum við ókunnuga. Ekki allir foreldrar fylgjast með tölvu- og netnotkun barna sinna, hvort skjátími sé við hæfi eða hvort efnið sé í samræmi við aldur og þroska.
Ákveðinn hópur barna upplifir símann sinn og netið sem besta vin sinn. Mikil símanotkun og samskipti á netinu geta aldrei komið í staðinn fyrir vin, persónuleg samskipti eða nánd. Börnum finnst þau eigi marga góða vini á netinu en engu að síður eru þau ef til vill einmana. Barn sem sér símann sinn sem besta vin sinn er í hættu með að þróa með sér kvíða og einmanaleika. Undanfarin misseri hafa kvartanir unglinga yfir kvíða aukist. Þegar leitað er orsaka kemur oft í ljós að tölvu/síma- og netnotkun er stór áhættuþáttur. Börn sem fá ekki nægan svefn eru verr í stakk búin til að mæta verkefnum og kröfum daglegs lífs. Tölvuleikir og skjánotkun hafa oft mikið aðdráttarafl og þegar barnið er ekki með símann við hönd eða við tölvuna myndast stundum óþreyja og pirringur. Aðrir hlutir daglegs lífs verða grámyglulegir í augum barns sem upplifir mestu skemmtunina vera í tölvunni. Óhófleg og stundum stjórnlaus tölvunotkun er mjög líkleg til að draga úr áhuga barns á námi og tómstundum auk þess sem samvera með fjölskyldu og vinum minnkar. Talið er að hóflegur tími í tölvu, sem dæmi einn tími á dag, hafi hins vegar lítil sem engin áhrif á líðan barns samkvæmt rannsóknarniðurstöðum. Um leið og tíminn lengist aukast líkur á vanlíðan.
Það á ekki eitthvað hræðilegt að þurfa að gerast
Forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir eiga ekki að vera spariframkvæmd heldur viðvarandi verkefni í hugum okkar hvern dag allt árið um kring. Fræðsla er grundvallaratriði í forvarnarvinnu. Mikið er til af gagnreyndri fræðslu og upplýsingum sem geta nýst vel fyrir þá sem vinna með börnum og þegar kemur að líðan þeirra og forvörnum. Einnig eru til ágæt styttri og lengri fræðslunámskeið sem sveitarfélög geta notað í fræðslu til foreldra. Sannarlega er ekki nauðsynlegt að finna upp hjólið því mikið af ágætu efni er til.
Af hverju þarf alltaf einhvers konar áfall til? Við höfum sofið á verðinum hvað viðkemur að teygja sig út til skólanna, barnanna og foreldranna. Nú er spurning hvort við lærum af mistökunum; ætlum við að reyna að fyrirbyggja eða ætlum við að vakna til lífsins þegar skaðinn er skeður?
Birt í Morgunblaðinu 4.11. 2024