Að hafa val um starfslok

Heilbrigðisráðherra vill nú leggja fram frumvarp um að hækka hámarksaldur opinberra heilbrigðisstarfsmanna í 75 ár til samræmis við þá sem eru sjálfstætt starfandi. Frumvarpið er lagt fram af neyð, vegna alvarlegs ástands í heilbrigðismálum. Þetta hefur verið umdeilt og hefur ýmsum sjónarmiðum verið haldið á lofti.

Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn árið 2019 um sveigjanleg starfslok. Eldra fólk og öryrkjar sem treysta sér til að vera á vinnumarkaði eiga að geta það án skerðinga. Flokkur fólksins lagði aftur fram tillögu nú á nýju kjörtímabili um að leitað verði leiða til að bjóða eldri borgurum upp á sveigjanlegri vinnulok. Tillagan nær til allra eldri borgara sem starfa á vegum Reykjavíkurborgar en nú er fólki gert að hætta störfum við sjötugsaldur hvort sem því líkar það betur eða verr.

Lengi hefur það gilt að opinberir starfsmenn láti af störfum sjötugir að aldri, sama á hvaða sviði þeir eru. Reykjavíkurborg getur tekið ákvörðun um sveigjanleg starfslok sé áhugi fyrir því. Hér er um pólitíska ákvörðun að ræða. Ýmist gæti viðkomandi haldið áfram vinnu á starfssamning sínum eða gert nýjan og að sjálfsögðu njóta  sömu kjara og áður.

Við í Flokki fólksins fögnum vissulega hverju skrefi í átt til réttlætis svo sem að eldra fólk ráði því sjálft hvenær það fari af vinnumarkaði og geti það án skerðinga. Sveitarfélagi er ekki skylt að fylgja almannatryggingalögum þegar kemur að skerðingum og getur því bætt kjör þessa hóps með því að taka sjálfstæða ákvörðun í þeim efnum.  Borgaryfirvöld geta með virkum hætti stuðlað að sveigjanleika.  Árið 2016 kom út skýrsla í tengslum við aldursvænar borgir og þá voru lagðar til ýmsar leiðir að sveigjanlegum starfslokum. Ein tillagan var um  atvinnuþátttöku eldri borgara þ.m.t. að skoða leiðir til að Reykjavíkurborg bjóði upp á meiri sveigjanleika í starfslokum starfmanna sinna. Vegferð sem hófst fyrir meira en 6 árum er enn á byrjunarreit hjá síðasta og núverandi borgarmeirihluta.  Vel kann að vera að eitthvað sé í farvatninu en engar upplýsingar fást.

Burt með girðingar

Það eru mannréttindi að geta tekið ákvarðanir um atvinnumál sín eins og annað í lífinu. Mannekla í ákveðnum störfum á ekki að stýra því hvort fólki sé leyft að vinna eins lengi og því langar og getur.  Það er missir fyrir samfélagið að sjá á eftir fólki af vinnumarkaði fyrir þær einar sakir að ná sjötugsaldri. Um er að ræða dýrmætan mannauð. Reykjavíkurborg hefur verið óvenju þversum að mati Flokks fólksins þegar kemur að sveigjanlegum vinnulokum. Í stað þess að sjá ávinninginn svo ekki sé talað um réttlætið í frelsi einstaklings til að vinna eins lengi og hann vill og getur, hefur borgin sett skorður og girðingar. Það helsta sem boðið er upp á nú er heimild til að óska eftir undanþágu til eins árs hverju sinni. Ekki er vitað hversu auðfengin slík undanþága er. Sérstakt leyfi þarf frá borgarstjóra.

Flokkur fólksins segir burt með girðingar og hindranir þegar kemur að aldri og atvinnumálum. Borgin sem stærst sveitarfélaga á að vera leiðandi í að afnema eldgömul og úrelt ákvæði. Þvinguð starfslok eru ekki til góðs, valda oft kvíða og þunglyndi meðal eldra fólks. Um er að ræða jafnréttis- og mannréttindamál og frelsi til að velja.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Greinin er birt í Fréttablaðinu 27. júlí 2022