Aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum 2025-2029.

Aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum 2025–2029.

löggjafarþing 156— 4. fundur,  12. feb. 2025

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að segja nokkur orð um brjóstaskimun, sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ræddi svo vel um áðan. Það er fleira í þessu með brjóstaskimunina og hvers vegna svo stór hópur kvenna er ekki að fara í skimun heldur en kostnaður og erfiðleikar með að bóka. Mig langar að nefna að það er mín upplifun, svona í kringum mig, og er nú kannski komin á þann aldur að hafa hitt margar konur í gegnum tíðina, auðvitað bara mínar nánustu vinkonur og aðrar, að svo oft hefur það einfaldlega komið fram að konur eru almennt séð oft ekkert að spá í þetta. Sú hugsun fer einhvern veginn ekki í gegn: Ég þarf kannski að fara í skimun, á að fara í skimun og stendur það til boða. Ég vildi bara nefna að við konur, og auðvitað bara allir, getum sjálfar gert svo margt. Við getum rætt þetta, við getum hvatt konur í okkar nágrenni, við getum að sjálfsögðu talað við dætur okkar ef við eigum uppkomnar dætur og almennt séð breitt það út í samfélagið við okkar nánustu vini og aðra hversu mikilvægt þetta er. Það er alveg ótrúlegt að það er hópur kvenna í ákveðinni afneitun. Ég hef heyrt konur segja: Þetta er einhver sjúkdómur sem ég mun aldrei fá. Trúa þessu einhvern veginn: Þetta er ekki sjúkdómur sem mun herja á mig, ég mun kannski fá eitthvað allt annað. Það er einhvern veginn mjög sérkennilegt. Ég veit það ekki, við erum bara misjafnar og það er alls konar hugsun í gangi. Það er alveg rétt eins og fram kom hjá hæstv. heilbrigðisráðherra áðan, að það eru líka annir, konur eru uppteknar. Þær eru náttúrlega í ótrúlega miklum erindum og störfum allan daginn og alveg rétt að mjög oft er það svona afsökun að hafa ekki tíma.

En svo er það fleira. Opnunartímarnir myndu sannarlega hjálpa til en líka aðgengi og ég tala nú ekki um bílastæði. Í hugum margra sem eru að koma inn í miðja borg er hugsunin: Þetta verður vesen, ég mun hvergi finna bílastæði og aðgengi er erfitt. Það einhvern veginn hjálpar allt til að fólk fresti þessu og svo kannski líða bara árin.

Ég vildi bara rétt nefna þetta vegna þess að það er svo margt sem kemur inn í þetta. En við þurfum bara að vera duglegar að tala um þetta líka og hvetja konur í kringum okkur til að mæta í skimunina.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Ölmu D. Möller fyrir þessa tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum 2025–2029. Ég fagna þessari áætlun og þeim málum yfir höfuð sem hæstv. heilbrigðisráðherra hefur nú þegar lagt fram. Þau eru öll nauðsynleg og tímabær. Meira gott á eftir að koma úr þeim ranni, enda erum við nú með að mínu mati einn hæfasta einstakling í embætti ráðherra heilbrigðismála; lækni með langa reynslu í sinni grein og fyrrverandi landlækni.

Með leyfi forseta langar mig að bera niður í viðtal frá því í morgun sem ég heyrði á Bylgjunni við læknana Sigurdísi Haraldsdóttur og Agnesi Smáradóttur sem fóru yfir þessa stöðu mála, yfir krabbameinssjúkdóma í okkar landi. Eins og fram hefur komið hér fyrr hjá hæstv. heilbrigðisráðherra er yfir 50% aukningu tilfella spáð á næstu 15 árum. Þetta gerist smám saman og er meiri aukning en spáð er í Evrópu. Fram kom í þessu viðtali að tvennt hefur verið að gerast í þessum málum og það er öldrun þjóðar og sú staðreynd að okkur fer fjölgandi. Krabbamein er flókinn sjúkdómur og fer nýgengi sumra tegunda lækkandi en aukning er í öðrum tegundum. Nýgengi t.d. lungnakrabba er sem dæmi á niðurleið, minni reykingar, en nýgengið er á uppleið í brjóstakrabbameini. Aukning er í húðkrabbameini vegna sólarskemmda og það finnst mér sérstakt því að í því sambandi hafa verið heilmiklar forvarnir í gangi. Sem dæmi má nefna að ljósalampar held ég að heyri að mestu sögunni til og auglýsingar á sólarvörnum hafa sennilega aldrei verið meiri en núna.

En hvaða áhættuþætti er um að ræða? Það eru erfðir, eins og með BRCA-genið, og síðan lífsstíll. Þetta eru hvort tveggja áhættuþættir og auðvitað eru þarna fleiri, má þá kannski bara nefna álag og andlega þætti. Árlega greinast um 2.000 manns með krabbamein en árið 2040 er búist við sem sagt 50% aukningu eins og áður sagði. En svo margt er hægt að gera til að koma í veg fyrir að fá þennan sjúkdóm og það var það sem mér þótti svo áhugavert í þessu viðtali sem ég er að vísa til. Hver og einn getur skoðað hjá sér hvort og hvaða áhættuþáttur er helst til staðar, ef einhver, og hvað getum við gert sjálf til þess að mögulega sporna við líkum á að fá þennan óhuggulega sjúkdóm? Jú, við getum nýtt kerfið betur og aðgerðir eru á borði heilbrigðisráðherra einmitt um það hvernig er hægt að nýta kerfið betur og beita skilvirkari vinnubrögðum. Mörg dæmi eru um að fólk hafi kannski farið milli lækna og verið sent heim með alls konar aðrar greiningar heldur en þessa raunverulegu greiningu um krabbamein. Ég þekki dæmi um það. En það sem sló mig kannski einna mest að heyra frá þessum sérfræðingum í morgun er að það væri hægt að koma í veg fyrir 40% krabbameina ef allir fylgdu heilbrigðum lífsstíl og leiðbeiningum. Ég varð nokkuð hugsi yfir þessu og þetta er ekkert smáræði, 40%. Hér skipta forvarnir og fræðsla að sjálfsögðu miklu máli en það er svo ótal margt fleira sem kemur þarna inn í.

Í tillögu að aðgerðaáætlun til fimm ára, undir kaflanum um fækkun krabbameina til framtíðar, kemur fram, með leyfi forseta, og langar mig rétt að ljúka ræðunni með því að bera þar niður:

„Þótt stöðugar framfarir séu í greiningu og meðferð krabbameina er mest um vert að koma í veg fyrir þau. Að stunda hreyfingu, borða hollan mat, vera í kjörþyngd, taka þátt í HPV-bólusetningum, forðast notkun áfengis og tóbaks og vernda sig fyrir sólbruna eru þættir sem draga úr líkum á krabbameinum. Sömu þættir draga einnig úr líkum á fleiri sjúkdómum.“

Það er akkúrat þetta sem ég veit að ríkisstjórnin mun eiga eftir að koma inn á ítrekað á næstu misserum, þ.e. að við þurfum að skoða, hvort sem okkur líkar betur eða verr, hvort það sé eitthvað sem við sjálf erum að gera sem getur aukið þessar líkur. Hugsandi líka um þessa miklu fjölgun sem við eigum í vændum og að það sé sagt við fólkið hér að nú verði hver og einn að skoða sig og spyrja sig: Er eitthvað sem ég get mögulega gert til þess að auka líkurnar á því að ég geti lifað heilbrigðu lífi um langan aldur?

 

löggjafarþing 156— 4. fundur,  12. feb. 2025

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að segja nokkur orð um brjóstaskimun, sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir ræddi svo vel um áðan. Það er fleira í þessu með brjóstaskimunina og hvers vegna svo stór hópur kvenna er ekki að fara í skimun heldur en kostnaður og erfiðleikar með að bóka. Mig langar að nefna að það er mín upplifun, svona í kringum mig, og er nú kannski komin á þann aldur að hafa hitt margar konur í gegnum tíðina, auðvitað bara mínar nánustu vinkonur og aðrar, að svo oft hefur það einfaldlega komið fram að konur eru almennt séð oft ekkert að spá í þetta. Sú hugsun fer einhvern veginn ekki í gegn: Ég þarf kannski að fara í skimun, á að fara í skimun og stendur það til boða. Ég vildi bara nefna að við konur, og auðvitað bara allir, getum sjálfar gert svo margt. Við getum rætt þetta, við getum hvatt konur í okkar nágrenni, við getum að sjálfsögðu talað við dætur okkar ef við eigum uppkomnar dætur og almennt séð breitt það út í samfélagið við okkar nánustu vini og aðra hversu mikilvægt þetta er. Það er alveg ótrúlegt að það er hópur kvenna í ákveðinni afneitun. Ég hef heyrt konur segja: Þetta er einhver sjúkdómur sem ég mun aldrei fá. Trúa þessu einhvern veginn: Þetta er ekki sjúkdómur sem mun herja á mig, ég mun kannski fá eitthvað allt annað. Það er einhvern veginn mjög sérkennilegt. Ég veit það ekki, við erum bara misjafnar og það er alls konar hugsun í gangi. Það er alveg rétt eins og fram kom hjá hæstv. heilbrigðisráðherra áðan, að það eru líka annir, konur eru uppteknar. Þær eru náttúrlega í ótrúlega miklum erindum og störfum allan daginn og alveg rétt að mjög oft er það svona afsökun að hafa ekki tíma.

En svo er það fleira. Opnunartímarnir myndu sannarlega hjálpa til en líka aðgengi og ég tala nú ekki um bílastæði. Í hugum margra sem eru að koma inn í miðja borg er hugsunin: Þetta verður vesen, ég mun hvergi finna bílastæði og aðgengi er erfitt. Það einhvern veginn hjálpar allt til að fólk fresti þessu og svo kannski líða bara árin.

Ég vildi bara rétt nefna þetta vegna þess að það er svo margt sem kemur inn í þetta. En við þurfum bara að vera duglegar að tala um þetta líka og hvetja konur í kringum okkur til að mæta í skimunina.