You are currently viewing Áhrif og afleiðingar myglu í skólum er á ábyrgð borgarinnar

Áhrif og afleiðingar myglu í skólum er á ábyrgð borgarinnar

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins, að þeim sem veikst hafa vegna myglu og raka í skólum borgarinnar verði veittar skaðabætur, verður lögð fram í borgarstjórn á morgun 5. september. Þess er vænst að meirihlutinn taki henni vel og staðfesti í orði og verki að áhrif og afleiðingar myglu í skólum er á ábyrgð borgarinnar. Þolendur hafa ekkert val þegar kemur að skólabyggingum. Börnunum er gert að mæta í skólann samkvæmt lögum og starfsfólki að sinna starfi sínu.

Nú er staðan þannig að hópur barna og starfsfólks hefur orðið illa úti vegna myglu og raka í skólabyggingum borgarinnar. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu og dæmi eru um að börn séu orðin langveik. Borgarfulltrúi Flokks fólksins kallar eftir að meirihlutinn setji sig í spor þessara einstaklinga og sýni ekki aðeins samkennd og alúð heldur taki ábyrgð. Það er skylda yfirvalda að teygja sig út til þessa hóps og taka stöðuna hjá þolendum. Þeir sem hafa þurft á mikilli og kostnaðarsamari læknisaðstoð að halda ættu að fá styrk til að mæta þeim kostnaði. Og þeir sem sitja eftir með andleg sár sem rekja má beint til starfa sinna í heilsuspillandi húsnæði á vegum borgarinnar ættu að fá  aðstoð ráðgjafa og sálfræðinga, þeim að kostnaðarlausu.

Er þetta sagan endalausa?

Mygla og raki er orðin sagan endalausa. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í fyrra haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka.

Nýtt viðbragðsferli

Vissulega er fyrsta skrefið hjá Reykjavíkurborg að bregðast hratt við þegar í ljós kemur að í skólabyggingu á vegum borgarinnar er komin mygla. Allt of mörg dæmi eru um að ekki var hlustað á starfsmenn og foreldra sem upplýstu um miklu og áköll jafnvel hunsuð. Nú er komið nýtt verkferli sem verður virkt þegar grunur er um léleg loftgæði og slæma innivist. Á þetta ferli á eftir að koma betri reynsla en ætla má að það lofi góðu.

 

Samhliða viðhaldi og lagfæringum á húsnæðinu þarf að huga að heilsu þolenda myglu bæði til skemmri og lengri tíma. Langtímaskaði er farinn að sýna sig skýrar og hefur starfsfólk sem veikst hefur þurft sumt að hætta störfum og börn, veik vegna myglu, að skipta um skóla. Langtímaskaðsemi og önnur áhrif af þessum vágesti sem mygla er hefur ekki verið rannsökuð af Reykjavíkurborg og þeir sem hafa glímt við langtímaveikindi hafa ekki fengið viðhlítandi athygli frá meirihlutanum þ.m.t. skaðabætur.

Ein útfærsla þeirrar tillögu sem hér um ræðir gæti verið að setja saman teymi með t.d. aðilum frá mannauðsdeild og Heilbrigðiseftirliti sem síðan mynduðu samskiptalínu við þá sem verst hafa orðið úti vegna afleiðinga og áhrifa myglu og raka í skólabyggingu borgarinnar.
Huga þarf að þolendum þessara aðstæðna. Lækniskostnaður og kostnaður vegna vinnutaps og annarra afleiðinga þarf að meta og bæta upp með einhverjum hætti. Reykjavíkurborg má ekki fría sig þessari ábyrgð.