Borgarráð 11. ágúst 2022

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra dags. 9. ágúst 2022 um að borgarráð samþykki endurskoðaða uppbyggingaráætlun til viðbótar gildandi áætlun frá 2017. Um er að ræða áframhald af því uppbyggingarátaki sem staðið hefur undanfarin ár:

Flokkur fólksins fagnar því að endurskoða eigi uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk. Biðlistinn hefur verið langur í áraraðir. Enn er hætta á að hann nái of skammt því einhvern veginn hefur fjölgun alltaf verið gróflega vanmetin. Horfa þarf til reynslunnar þegar framtíðaráætlun um uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk er endurskoðuð. Þessi málaflokkur hefur aldrei verið í neinum forgangi hjá stjórnvöldum og hefur þjónusta við fatlað fólk einnig liðið fyrir að ekki hafa legið fyrir nógu góðar upplýsingar um stöðu mála. Nú er heildarbiðlistinn um 486 manns samkvæmt því sem fram kom í kynningu á fundi SSH um skýrslu um endurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Í Reykjavík er biðlistinn um 135 manns.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra við tillögu um að borgarráð samþykki niðurstöður dómnefndar um að hefja viðræður við Þorpið um lóðarvilyrði á grundvelli tillögu þeirra en að teknu tilliti til þeirra ábendinga sem koma fram í niðurstöðu dómnefndar:

Reykjavík hefur verið þátttakandi í Reinventing Cities verkefninu undanfarin ár. Nú liggja fyrir nokkrar lóðir í borginni sem eiga eftir að komast til framkvæmda t.d. til að byggja á leikskóla í Gufunesi. Það er kannski það brýnasta í ljósi alvarlegrar stöðu í leikskólamálum í borginni. Sennilega hefur staðan aldrei verið svo slæm sem raun ber vitni og þarf að huga að þeim vanda víða í borginni. Flokkur fólksins vill ekki að verið sé að hygla ákveðnum hópi eða hópum heldur þarf að huga að jöfnuði í borginni þegar kemur að lífsins gæðum. Rétt er að byrja á að lagfæra og bæta nauðsynlega þjónustu áður en farið er í að byggja sánu og heilsulindir hvort heldur er ofan- eða neðansjávar.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra tillögu meirihlutans um erindisbréf stýrihóps um Evrópusamstarf um kolefnishlutlausar og snjallar borgir árið 2030:

Flokkur fólksins bendir á að huga þarf að öllum hópum í samfélaginu þegar horft er til aðgerða í loftslagsmálum. Efnaminna fólk hefur sem dæmi ekki efni á að borga tolla og gjöld, s.s. veggjöld. Í þessum málum sem öðrum þarf að ríkja sanngirni.

Vegtollar eru dýr og ósanngjöfn leið til að hafa tekjur af umferðinni. Kostnaður við þá felst m.a. í tækjabúnaði, tengingum, hugbúnaði, viðhaldi, endurnýjun og almennum rekstri. Þetta má m.a. sjá skrifað í riti Félags Íslenskra bifreiðaeigenda. Segir þar einnig að því minni sem umferðin er, því hærri er hlutfallstala kostnaðar. Í Hvalfjarðargöngum nam kostnaður við rekstur þriðjungi af tekjum. Að auki leggst virðisaukaskattur á innheimtu vegtolla. Vegtollar þýða aukna skattbyrði, þeir bætast við þær greiðslur sem umferðin skilar nú þegar. Engin áform hafa verið kynnt um að lækkka aðra skattheimtu af bílum og umferð. Vegtollar mismuna vegfarendum eftir búsetu og feratilgangi og leggjast þyngst á þá sem hafa minna flögu. Þetta segir Runólfur Ólafsson framkvæmdarstjóri FÍB. Sami vegtollur er af ódýrum fólksbíl sem vegur undir einu tonni og af allt að 3,5 tonna bíl sem kostar tugi milljóna króna. Ávinningur af búsetu á ódýrari svæðum fer fyrir lítið. Með þessu er verið að gera rekstur fjölskyldubílsins svo dýran að hann verður aðeins valkostur fyrir efnafólk (FÍB BLAÐIÐ 2022).
Fram kemur á fundi að borginni sé gert að rukka tafa- og flýtigjöld en það eigi eftir að útfæra það. Sagt að hafa eigi samráð við sem flesta. Flokkur fólksins leggur áherslu á að haft verði samráð við Félag Íslenskra bifreiðaeigenda. Einhverjar greiningar verða lagðar til grundvallar að sögn Betri samgangna. Á að jafnréttismeta framkvæmdina? Hvernig áhrif hefur þetta á tekjuhópa, kyn og fleira? Hverjir munu greiða og hvar er gjald krafist. Ekki hafa farið fram jafnréttisframkvæmdir á Samgöngusáttmálanum.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra vegna uppbyggingar þjóðarhallar í innanhúsíþróttum. Gert er ráð fyrir að hluti Reykjavíkurborgar í þeim kostnaði verði 50% á móti ríkinu:

Flokkur fólksins harmar hvað málefni þjóðarleikvanga í Laugardal hafa verið tafin. Endalausir hópar skipaðir og annað sem flækist fyrir framgangi málsins. Á meðan bíða börn í Laugardal eftir almennilegri íþróttaaðstöðu en þau hafa lengi verið á vergangi þar sem bæði skólar og íþróttaaðstaða eru löngu sprungin.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu borgarstjóra um samþykki rammasamnings ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, dags. 12. júlí 2022:

Reykjavíkurborg er eitt af sveitarfélögunum sem á aðild að þessu samkomulagi sem er jákvætt í sjálfu sér. Nokkur atriði eru þó umhugsunarverð að mati Flokks fólksins. Hagkvæmt húsnæði er húsnæði sem samfélagið niðurgreiðir svo sem með niðurgreiddum lánum eða ódýrum lóðum. Ekki síður er mikilvægt að byggja með sem hagkvæmustum hætti. Þar kunna að koma til atriði í byggingarreglugerðum sem og hönnun og útfærsla húsnæðis. Fram kemur að semja þurfti við sérhvert sveitarfélag en tekið er fram að húsnæðismál, skipulagsmál, byggðamál og samgöngumál séu öll komin undir sama ráðuneyti, ásamt sveitarstjórnarmálum. Þetta ráðuneyti þarf síðan að semja við öll sveitarfélögin svo hægt sé að skapa nýja umgjörð um húsnæðisuppbyggingu á Íslandi. Sameining sveitarfélaga myndi spara kostnað í þessu sambandi. Komið er inn á samningsmarkmið. Flokkur fólksins telur að breyta megi samningsmarkmiðum borgarinnar þannig að uppbygging óhagnaðardrifins húsnæðis gangi mun hraðar. Óhagnaðardrifin félög þýða að ekkert er greitt út úr félaginu.

 

Bókun Flokks fólksins við 48. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs frá 10. ágúst 2022:

Flokkur fólksins hefur enn á ný og nú á nýju kjörtímabili lagt fram tillögu um gerð nýs umhverfismats vegna 3. áfanga Arnarnesvegar þar sem fyrra umhverfismat er frá 2003 og því úrelt. Tillagan var lögð fram með von og trú að leiðarljósi þar sem frambjóðandi Framsóknarflokksins gaf út loforð, skömmu fyrir kosningar, að Framsóknarflokkurinn, kæmist hann til valda, myndi láta gera nýtt umhverfismat. Tillögunni var vísað frá. Vinir Vatnsendahvarfs og Vinir Kópavogs sem og Elliðaárdalsins hafa kært málið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kærðar voru ákvarðanir umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur um að samþykkja deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og Elliðaárdals 29.  júní 2022, sem og staðfesting borgarráðs frá 1. júlí 2022 á nefndum skipulagsáætlunum. Þess er krafist að deiliskipulag fyrir 3. kafla Arnarnesvegar og deiliskipulag Elliðaárdals frá 1. júlí 2022 verði felld úr gildi. Þess er einnig krafist að engin framkvæmdaleyfi fyrir 3. kafla Arnarnesvegar eða Elliðaárdals verði gefin út á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Flestir íbúar í nágrenni við framkvæmdina telja að framkvæmdin muni hafa verulega neikvæð áhrif á umhverfi, hljóðvist og útivist á svæðinu og koma í veg fyrir að svæðið verði miðstöð útivistar og afþreyingar.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um skort á rafrænni þjónustu þegar kemur að þjónustu borgarinnar við foreldra vegna leikskólamála:

Svo virðist sem stafræn umbreyting borgarinnar gangi stundum meira inn á þætti sem ekki snúa beint að bættu aðgengi borgarbúa að þeirri rafrænu þjónustu sem þeim ætti að standa til boða. Dæmi um þetta er þegar foreldri þarf að segja upp dvalarsamningi barns í leikskóla. Þá þarf viðkomandi að taka á móti útprentuðu A4 blaði frá leikskólanum sem þarf að fylla út skriflega með öllum viðeigandi upplýsingum og skila því aftur til baka í leikskólann. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þess vegna hvenær stafræn umbreyting Reykjavíkurborgar nái að skila sér að fullu, alla leið til leikskólanna í borginni.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hvað margir foreldrar sem hafa fengið staðfestingu um leikskólapláss eru ekki búnir að fá senda dagsetningu til að hefja aðlögun barns þeirra á leikskóla:

Leikskólamálin hafa verið mikið í umræðunni síðustu vikur því alvarlegur skortur er á leikskólaplássum þrátt fyrir loforð um annað hjá þessum og síðasta meirihluta. Foreldrar eru ekki aðeins óánægðir heldur einnig í angist yfir hvernig þeir eigi að komast í vinnuna sína. Flokkur fólksins óskar eftir upplýsingum um hversu margir foreldrar sem nú þegar eru búnir að fá pláss fyrir börn sín á leikskóla, hafa ekki fengið upplýsingar um hvaða dag barn þeirra getur hafið aðlögun. Í reglum segir að foreldrar eigi að fá þessar upplýsingar eigi síðar en fjórum vikum áður en leikskóladvöl hefst, miðað við 1. eða 15. hvers mánaðar.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn varðandi framgang vinnu svokallaðs Spretthóps sem finna á lausnir varðandi hávaða og skrílsláta í miðbænum í kringum næturklúbba:

Fulltrúi Flokks fólksins sat tvo fundi í sumar vegna kvartana íbúa varðandi hávaða og skrílsláta í miðbænum. Fundina sátu einnig lykilaðilar úr borgarkerfinu, lögregla og fulltrúar íbúa. Í kjölfarið var settur á laggirnar spretthópur sem vinna átti málið áfram. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fá upplýsingar um hvernig starfið gengur hjá hópnum. Spurt er hvernig þessari vinnu miðar og hvert stefnir. Hafa allir útihátalarar t.d. verið fjarlægðir eins og talað var um að gera, enda ólöglegir? Hefur verið velt upp möguleikum á frekari hljóðvörnum t.d. eins og í gömlum húsum sem vitað er að bergmála vegna slakrar einangrunar? Eru kvartanir nú allar færðar til bókar? Flokkur fólksins hefur verið með tillögur til lausnar þessa vanda. Sú fyrsta var lögð fram 2018 þar sem lagt var til að reglugerð um hávaðamengun yrði fylgt, og nú síðast að farið yrði í fjölþættar aðgerðir til að leysa vanda m.a. með ráðningu miðbæjarstjóra og skoða að flytja klúbba sem eru opnir fram eftir nóttu úr miðbænum til dæmis út á Granda. MSS22080058

Vísað til umsagnar skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn varðandi frétta um gagnaleka í vefþjónustu:

Í kjölfar frétta um gagnaleka í vefþjónustu sem starfsmenn Reykjavíkurborgar hafa notað í einhverjum mæli, hefur fulltrúi Flokks fólksins áhuga á að vita hvort ekki sé lengur skannað eftir því hvaða hugbúnaður er notaður á tölvum Reykjavíkurborgar. Einnig vill fulltrúinn fá að vita hvort vitað sé hversu margir starfsmenn borgarinnar eru með stjórnandaréttindi á sínum tölvum og hvernig staðið er að því að úthluta þessum réttindum til að geta sett upp hvaða hugbúnað sem er á tölvum borgarinnar.

Vísað til umsagnar þjónustu- og nýsköpunarsviðs.

Einar Sveinbjörn Guðmundsson sem skipar 3. ja sæti á lista Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur sat fundinn.