Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer kynning á framfylgd Aðalskipulags Reykjavíkur 2015-2040, mælikvörðum og vöktun:
Þetta er ágætt yfirlit, en þarna kemur fram að „þéttingarstefnan“ hefur enn sem komið er lítið þétt byggðina. Íbúum á hektara hefur aðeins fjölgað um tæpa fimm á síðasta áratug, eða um hálfan mann á ári. Frá 2014-2024 úr 23,96 í 28,27 á hektara. Eftir alla umræðuna er þetta ekki mikil íbúaþétting sem samt sem áður hefur skapað vandamál í samgöngum en bílum hefur fjölgað mikið, eða um 60 á viku. Flokkur fólksins fagnar því að íbúðum á vegum óhagnaðardrifinna félaga er að fjölga. Þar erum við á réttri leið. Ef horft er til umferðar þá kemur fram að það er fækkun bílferða á íbúa. Hvað sem því líður þá sýna kannanir að bílum fjölgar jafnt og þétt. Samhliða eru vaxandi vandræði með hvar fólk á að leggja bílum sínum. Kvartanir berast vegna þrengsla, aðgengisvanda og birtuskerðingar.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram tillaga borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, um endurskoðun á skipulagi Menningarnætur og Reykjavíkurmaraþons 2025:
Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að lagt er til að formlegri dagskrá Menningarnætur ljúki klukkustund fyrr en áður, eða klukkan 22:00 í stað klukkan 23:00. Áfram á þó að bjóða upp á flugeldasýningu. Stýrihópurinn lagði til að auka framboð á viðburðum sem hefjast fyrr um daginn til að gera dagskrána enn fjölskylduvænni. Reyndar hefur verið mikið af viðburðum yfir daginn, nánast eitthvað að ske á hverju horni. Vandinn við Menningarnótt er að þegar líður á kvöldið streyma unglingar og ungt fólk í bæinn og í þeim hópi eru alltof mörg eftirlitslaus börn. Fram kemur að efla eigi forvarnir og styrkja, en ekki eru lagðar frekari línur í þeim efnum. Brýnt er að ná til foreldra og hefja fyrirbyggjandi aðgerðir í formi forvarna, fræðslu og samtals í samvinnu við skóla- og íþróttasamfélagið. Öryggismál og eftirlit er það sem skiptir mestu máli til að hægt sé að stemma stigu við neyslu áfengis- og vímuefna, grípa þá sem eru orðnir ofurölvi og koma þeim í skjól. Þetta þarf að skoða strax en ekki setja inn í framtíðarskipulag. Flokkur fólksins hefði viljað sjá hópinn ganga lengra. Þessar breytingar duga skammt til að byrgja brunninn fyrir næstu Menningarnótt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 12. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 11. desember 2024, á tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Veðurstofureit:
Hér er mikið byggingarmagn, allt að 300 íbúðir. Fækka á bílastæðum. Fjöldi athugasemda hefur borist, þar með talið frá Heilbrigðiseftirliti. Áhyggjur eru af aðgengi og þrengslum, þarna eru nú þegar mikil þrengsl. Hvað með skuggavarp, liggur ljóst fyrir að þarna leynist ekki einhver íbúð sem er myrkrakompa? Gleðjast má yfir að þriðjungur byggingarmagns fari til Bjargs íbúðafélags. Fram kemur í kynningu skipulagsyfirvalda að búið sé að vinna málið vel og því megi treysta að ekkert eigi eftir að koma á óvart. Flokkur fólksins vonar að það sé rétt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra og borgarritara, dags. 17. desember 2024, þar sem staða húsnæðisáætlunar við lok þriðja ársfjórðungs er lögð fram til kynningar:
Þetta yfirlit dregur fram að allt of lítið er byggt í Reykjavík þótt talsvert hafi verið byggt. Ekki er hægt að kenna háu vaxtastigi um þetta því að verktakar eiga auðvelt með að velta þeim kostnaði yfir á kaupendur þegar skortur er á húsnæði. Skýringa er frekar að leita í skipulagi og lóðaúthlutun. Einstaklingar eru t.d nærri hættir að reyna að byggja yfir sig og sína. En sú aðferð var algeng fyrir nokkrum árum. Breyta þarf um taktík. Ekki gengur að einblína aðeins á þéttingu. Brjóta þarf land undir byggð og viðurkenna að borgin stækkar og íbúum fjölgar. Sú þróun hefur verið lengi í gangi og verður fyrirsjáanlega áfram. Gera þarf fólki auðveldar fyrir og slaka þarf á skortstefnu lóða sem lengi hefur ríkt í Reykjavík. Flokkur fólksins vill undirbúa að brjóta land undir byggð og viðurkenna að borgin stækkar og íbúum fjölgar.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf borgarstjóra, dags. 16. desember 2024, þar sem áfangaskýrsla græna plansins fyrir janúar-júní 2024 er lögð fram til kynningar,
Margt áhugavert er að finna í þessu almenna yfirliti hvort sem það er grænt eða ekki grænt. Ef horft er til barna og menntamála er leitt að skólar með stóran hóp nýkominna nemenda hafi átt í erfiðleikum við innleiðingu vegna tímaskorts, húsnæðismála og forfalla kennara. Þetta ætti að vera forgangsmál. Fulltrúi Flokks fólksins er ánægður að sjá að endurnýja á stefnu í forvarnamálum fyrir Reykjavíkurborg. Stefnan verði unnin í þverfaglegu samstarfi við þá aðila innan borgarinnar sem koma að þjónustu við börn og unglinga. Þetta samrýmist vel tillögu Flokks fólksins sem lögð var fram íÍ upphafi kjörtímabilsins 2022 um stofnun stýrihóps sem myndi kortleggja aukinn vopnaburð meðal ungmenna í Reykjavík og lagði til aukið samráð þriggja sviða sem koma mest að þjónustu við börn. Þá þegar voru ýmis teikn á lofti um aukið ofbeldi meðal barna og ungmenna. Tillagan fékk ekki brautargengi heldur var ákveðið frekar að setja á stofn stóran samráðsvettvang um forvarnir gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Frekar lítið er að frétta af afrakstri þess hóps.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf menningar- og íþróttasviðs, dags. 13. desember, sbr. samþykkt menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs sama dag á samningum við félög og samtök um samskiptamál:
Hvergi er minnst á Leikni í þessum gögnum. Á ekki að gera almennilegan samning við Leikni? Á fundi íbúaráðs Breiðholts lagði Sjálfstæðisflokkurinn til að íbúaráð Breiðholts óski eftir því við borgarráð að gerður verði samningur við íþróttafélagið Leikni um stuðning borgaryfirvalda við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins. Málinu var vísað til umsagnar menningar- og íþróttasviðs. Svar barst eitthvað á þá leið að Leikni fengi einhvern stuðning og er látið þar við sitja. Fulltrúi Flokks fólksins telur þetta afar mikilvægt mál og löngu tímabært að Leiknir fái meira fjármagn m.a. til að styðja við starf íþróttafulltrúa á vegum félagsins. Leiknir sem er að skila ómetanlegu starfi við einstakar aðstæður á að fá samning eins og önnur félög sem verið er að gera samninga við. Leiknir er félag sem hefur lengi verið undir í baráttunni um krónuna og aurinn. Þrátt fyrir það hefur félagið haldið úti metnaðarfullu íþróttastarfi með þau spil sem félagið hefur á hendi.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt er til að borgarráð samþykki tillögu eigendavettvangs Sorpu bs. um uppbyggingu nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg á grundvelli sviðsmyndar 1 og að framkvæmdin verði fjármögnuð með töku verðtryggðs láns til 30 ára að fjárhæð 1.332 m.kr. hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Fjármögnun komi til endanlegrar samþykktar borgarstjórnar þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um fyrirhugaða lántöku ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs.
Meirihlutinn leggur til að borgarráð samþykki tillögu eigendavettvangs Sorpu bs. um uppbyggingu nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg á grundvelli sviðsmyndar 1 og að framkvæmdin verði fjármögnuð með töku verðtryggðs láns til 30 ára að fjárhæð 1.332 m.kr. hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Fjármögnun komi til endanlegrar samþykktar borgarstjórnar þegar nánari upplýsingar liggja fyrir um fyrirhugaða lántöku ásamt umsögn fjármála- og áhættustýringarsviðs. Í gögnum er ítarlegt yfirlit sem er gott fóður fyrir framtíðar sagnfræðinga. En þetta er áætlun sem vonandi fer ekki úr skorðum. Nóg komið af slíku hjá Sorpu í gegnum tíðina.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð heilbrigðisnefndar frá 12. desember 2024. MSS24010007. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:
Lögð fram deiliskipulagslýsing fyrir Elliðaárvog, Geirsnef, vegna breytinga á deiliskipulagi, dags. nóvember 2024, þar sem farið er fram á umsagnarbeiðni í Skipulagsgátt, mál nr. 1382/2024. Breytingar á deiliskipulagi Elliðaárvogs fyrir Geirsnef. Hér er verið að skerða útivistar- og athafnasvæði hunda. Hér vantar samráð. Tekið er undir að Geirsnef er sífellt að verða mikilvægara útivistarsvæði fyrir íbúa nágrennisins. Gert er ráð fyrir að Geirsnef verði borgargarður. Styrkja á náttúru, landslag og útivistarsvæði í borginni. En óþarfi er að klípa af athafnasvæði hunda. Það er nóg pláss fyrir alla.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 11. nóvember 2024. MSS24010015. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðarinnar:
Fulltrúi Flokks fólksins vill draga fram eitt atriði í yfirliti yfir ábendingar um umhverfismál í Laugardal. Öll atriði í yfirlitinu eru þó afar mikilvæg. En skoða þarf lausnir til að auka öryggi gangandi vegfaranda við leikskólann Sunnuás. Flokkur fólksins hefur áður bókað um þetta mál. Við núverandi aðstæður hafa bílastæði leikskólans verið tekin undir bráðabirgðahúsnæði og foreldrar að koma og fara með börn sín eru oft að leggja nálægt enda Laugarásvegar beggja vegna, eins og segir í yfirlitinu. Ökumenn sem koma frá Langholtsvegi til vesturs hafa takmarkaða yfirsýn vegna legu vegarins í sveig til suðurs/vesturs. Hugmynd er að loka 1-2 stæðum beint fyrir framan leikskólann til að bæta yfirsýn bílstjóra yfir svæðið. Áhyggjurnar snúa að stöðunni þegar aðstæður verða erfiðari í vetur vegna veðurs sérstaklega. Fulltrúi Flokks fólksins bókaði í nóvember sl. „í dag eru engin stæði, ekki einu sinni sleppistæði, við innganginn að leikskólanum við Laugarásveg. Þess vegna myndast alltaf umferðarteppur þegar foreldrar reyna að leggja annað hvort á Laugarásvegi sjálfum eða hálf uppi á gangstéttinni við Laugarásveg.“
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram undargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. desember. 8. liður fundargerðarinnar er samþykktur. MSS24010031. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 24. lið fundargerðarinnar:
Stórt vöruhús hefur nú verið reist steinsnar frá fjölbýlishúsi í Breiðholti við Álfabakka 2a. Íbúar í húsinu eru eðlilega miður sín með nýbygginguna því við þeim blasir 13 metra hár stálveggur vöruhúss sé horft út um stofuglugga íbúa blokkarinnar. Margt hefur skýrst í þessu máli síðustu daga og liggur ljóst fyrir að skipulagsyfirvöld vissu nákvæmlega hvernig vöruskemman liti út fullbyggð og þau neikvæðu áhrif sem hún hefur á nærliggjandi blokk. Reykjavíkurborg ber fulla ábyrgð á að hafa veitt svo rúmar byggingarheimildir. Hins vegar má einnig hneykslast á hönnuðum og eigendum að geta ekki sett sig í spor íbúa blokkar sem tapa öllu útsýni. Það er með öllu óskiljanlegt. Stöðva verður framkvæmdina strax og hefja samtal um lausn á þessum vanda sem íbúar verða sáttir við. Þess má geta að þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni þann 15. júní 2023 lá skýrt fyrir í gögnum málsins að um þjónustu- og verslunarlóð væri að ræða. En eins og hendi er veifað rís á á lóðinni stærðarinnar vöruhús sem varla er hægt að segja að eigi þarna heima. Starfseminni munu fylgja hávaðasamir vöruflutningar jafnvel allan sólarhringinn. Ekkert af þessu var kynnt umhverfis- og skipulagsráði eða borgarráði. Varla er hægt að finna fordæmi fyrir öðru eins.