Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð 14. september 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um umsagnir persónuverndarfulltrúa Reykjavíkurborgar dags. 11. maí s.l. og mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 22. maí s.l., um samkomulag um forgangsröðun og uppsetningu öryggismyndavéla:

Flokkur fólksins er hlynntur notkun öryggismyndavéla til að tryggja öryggi borgaranna. Flokkur fólksins hefur viljað sjá slíkar myndavélar þar sem börn stunda nám og leik, t.d. á skilgreindum leiksvæðum barna. Vissulega koma myndavélar ekki í veg fyrir að glæpur sé framinn en myndavélar hafa ákveðinn fælingarmátt. Öryggismyndavélar auka almennt öryggistilfinningu fólks. Í umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu um samkomulag er lýtur að öryggismyndavélum í borginni segir: Það er mat mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að samkomulagið um öryggismyndavélar samræmist mannréttinda stefnunni en einungis ef að vel útfærðar og nákvæmar verklagsreglur fylgja því. Flokki fólksins líst vel á þær verklagsreglur sem mannréttinda- og lýðræðisskrifstofan hefur sett og treystir því að farið verði eftir þessu verklagi. Öryggis- og eftirlitsmyndavélar eru að verða eðlilegur hlutur í öruggum borgum.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um innleiðingu barnasáttmála sameinuðu þjóðanna, sbr. 10. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 8. júní 2023. MSS23060047

Vísað til umsagnar mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn fulltrúa Flokks fólksins um biðlista, sbr. 9. lið fundargerðar mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 24. ágúst 2023:

Vísað frá.

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir upplýsingum frá mannréttinda- og ofbeldisvarnarráði Reykjavíkurborgar hvort ráðið ætli að bregðast við með einhverjum hætti vegna vanrækslu meirihlutans á málefnum barna sem enn eru föst á biðlistum eftir fagþjónustu í skólum borgarinnar? Spurt var vegna þess að fulltrúi Flokks fólksins telur að sú vanræksla sem fólgin er í því að láta biðlista lengjast ár frá ári án þess að gripið sé inn í með raunhæfum hætti, megi í raun túlka sem ákveðna tegund af ofbeldi.Fyrirspurninni er vísað frá. Á nýafstöðnu farsældarþingi voru kynntar niðurstöður íslensku æskulýðsrannsóknarinnar sem lögð var fyrir grunnskólanemendur í vor. Sjötta hver stúlka í 10. bekk grunnskóla hefur orðið fyrir alvarlegri kynferðislegri áreitni af hálfu fullorðins. Innan við helmingur þeirra sagði öðrum frá. Einnig kom fram að 30-44% barna eru döpur og allt að 56% með kvíða. Í ljósi langs biðlista eftir fagfólki hjá skólaþjónustu, nú um 2.550 börn, mun Flokkur fólksins ekki linna látum fyrr en meirihlutinn í borginni: þau ráð og svið sem standa eiga vörð um velferð barna og mannréttindi þeirra hafa tekið við sér og sýnt fram á hvernig taka á á málum.

 

Lögð fram svohljóðandi tillaga fulltrúa Flokks fólksins um að Reykjavíkurborg sendi bréf til foreldra vegna aukins hnífaburðar barna:

Flokkur fólksins leggur til að Reykjavíkurborg sendi bréf til foreldra og forráðamanna vegna aukins hnífaburðar barna og ungmenna líkt og það sem Menntasvið Kópavogsbæjar sendi foreldrum grunnskólabarna í upphafi skólaárs. Dæmi um hnífaburð barna í skólum eru til í Reykjavík og því full ástæða til að upplýsa foreldra og forráðamenn um þær reglur sem eru í gildi um að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi borgarinnar. Í bréfinu myndu foreldrar vera hvattir til að eiga samtal við börnin um að það sé stranglega bannað að bera hníf á sér í skóla- og félagsmiðstöðvastarfi og öðrum stofnunum. MSS23090085