Borgarráð 22. september 2022

Bókun Flokks fólksins undir liðnum Reynimelur 66:

Flokkur fólksins vill undirstrika að með þessari breytingu verði byggingarmagn á lóðinni ekki aukið. Áhyggjur eru af því. Fínt er að húsið Reynimelur 66 fái að standa áfram. Íbúar þurfa að fá að vera með í þessum ákvörðunum og fá að sjá gögn í tíma og með skýrum hætti. Öðruvísi er ekki hægt að mynda sér skoðun á málinu.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum tillaga um samkeppni um þróun Keldna og Keldnaholts:

Hér er rætt um samkeppni um þróun Keldnalands og Keldnaholts. Samkeppni er af hinu góða enda eykur hún valkosti. Huga þarf að blandaðri byggð og fjölbreytni. Einnig að því að auka hlutfall af hagkvæmu húsnæði en hagkvæmt húsnæði hefur sárvantað. Auka þarf hressilega framboð af ódýru, vönduðu húsnæði í Reykjavík og á Keldnalandi og Keldnaholti er tækifæri til þess. Keldnaland og Keldnaholt eru stórir reitir sem hafa verið í umræðunni lengi. Málið er mörgum hugleikið.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerð aðgengis- og samráðsnefndar í málefnum fatlaðs fólks frá 15. september 2022, liður 6:

Fulltrúi Flokks fólksins tekur undir bókun þar sem áhersla er lögð á að unnar verði úrbætur sem gera fötluðu fólki kleift að nálgast persónuleg gögn á borð við upplýsingar í Heilsuveru, netbanka, mínum síðum Reykjavíkurborgar, Tryggingastofnunar og fleiri stöðum. Fulltrúi Flokks fólksins telur að leita þurfi lausnar á stafrænum aðgengishindrunum sem fyrst því þær eru brot á fullgildum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Aðgengishindrun hefur valdið mörgum fötluðum miklu álagi.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerð  heilbrigðisnefndar frá 8. september 2022, liður 7.

Sótt er um undanþágu fyrir heimsóknir hunda í skólastofu í Fossvogsskóla. Fulltrúi Flokks fólksins telur orðið brýnt að breyta reglugerð um hollustuhætti. Flækjustig og skriffinnska sem fylgir umsókn af þessu tagi er út í hött. Sama gildir sé óskað eftir heimsókn hunda á hjúkrunarheimili ef því er að skipta. Hér er um að ræða heimsókn hundar tvisvar í viku í fáeinar klukkustundir í senn og skilyrðin sem sett eru eru með ólíkindum. Meðal skilyrða er t.d. sérstök leið fyrir hundinn út og inn, stofan sótthreinsuð eftir heimsókn hundsins og sérstakar ráðstafanir vegna öryggismála. Reglugerð sem þessi er aftan úr fornöld og ekki borginni til sóma. Kominn er tími á að nútímavæðast þegar kemur að samskiptum við gæludýr í opinberum byggingum. 15. liður: Í svari Heilbrigðiseftirlitsins við fyrirspurn Flokks fólksins um samráð við íbúa í nágrenni við svæðið vegna veitingu starfsleyfis fyrir skotvöll í Álfsnesi segir að „starfsleyfistillagan hafi verið auglýst á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og tilkynning send til íbúa. Á auglýsingatímabilinu var heimilt að gera skriflegar athugasemdir.“ Telja má víst að að skriflegar athugasemdir hafi borist og þær ófáar enda íbúar langþreyttir á starfsemi skotvallarins en óskir íbúa hafa með öllu verið hunsaðar.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerð íbúaráðs Laugardals frá 14. september 2022:

Fulltrúi Flokks fólksins fagnar því að foreldrar eigi sterka rödd í íbúaráðinu. Því miður hafa borgaryfirvöld brugðist foreldrum og börnum þessa hverfis í mörg ár. Fulltrúi Flokks fólksins væri ekki hissa þótt djúpstæður trúnaðarbrestur væri orðinn eftir samskipta- og afskiptaleysi sem skóla- og frístundasvið hefur sýnt íbúum hverfisins. Beðið er nú staðfestingar á að sviðsmynd 1 sem langflestir aðhyllast verði valin en hún felur í sér að stækka hvern skóla fyrir sig og vernda þannig skólagerð þeirra, skólahverfin og hverfamenningu. Það vantar einnig tímalinu framkvæmda, forgagnsröðun, um kostnað, um rekstrarkostnað, hvernig á að bæta íþróttaaðstöðu og fleira. Laugalækjarskóli er eini grunnskólinn í borginni með 7.-10. bekk. Nemendum Laugarnesskóla hefur fjölgað um 167 frá 2008 og stefnir í fjölgun 115 út áratuginn. Ástandið er slæmt. Húsnæðisskortur hefur verið frá 2013. Íþróttahúsið er barn síns tíma. Nú eru 7 færanlegar stofur og eiga 2 að bætast við. Allt annað er löngu sprungið, mötuneyti, smíða-, myndmennta- og tónmenntaaðstaða og aðstaða fyrir kennara og starfsfólk. Skólahljómsveitinni hefur verið úthýst. Hljóðvist er erfið og loftræstingu vantar í gamla skólahúsinu. Úttekt á rakaskemmdum stendur yfir. Frístund er fjarri.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 21. september 2022, liður 7:

Flokkur fólksins tekur undir erindi íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um umferðaröryggi í miðborginni. Í miðborginni er 30 km hámarkshraði. Hópur ökumanna virðir ekki þennan hraða og það skapar hættu. Grípa þarf til markvissra aðgerða til að sporna við hraðakstri á þessum götum sem nefndar eru í erindinu. Í þessu sambandi langar fulltrúa Flokks fólksins að nefna götu sem áður hefur komið til tals þegar talað er um umferðaröryggisaðgerðir og er það Laugarásvegurinn sem er sérstök gata fyrir þær sakir að hún er löng, breið og tengir saman hverfi. Nauðsynlegt er að skoða aðrar leiðir sem virka til að minnka hraðakstur á þessu götum. Íbúar vita best hvaða úrræði virka helst. Þeir hafa nefnt að setja þarf upp fleiri hraðahindranir og laga þær sem fyrir eru. Einnig að bæta við hraðamyndavélum. Í umsögn kemur hins vegar fram að ekki sé talið tilefni til þess að forgangsraða aðgerðum á þeim stöðum sem nefndir eru í erindi íbúaráðsins. Ef þetta er niðurstaða skipulagsyfirvalda er ekki verið að hlusta á íbúa að mati fulltrúa Flokks fólksins. Hvað varð um samráðið?

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum fndargerð öldungaráðs frá 14. september 2022:

Árið 2020 var skipaður stýrihópur um stefnumótun í þróun félagsmiðstöðva fyrir fullorðið fólk. Fulltrúi Flokks fólksins átti sæti í þeim hópi sem var um það bil að skila af sér þegar einn fulltrúi meirihlutans stöðvaði ferlið. Verið er að mynda nýjan hóp nú. Fulltrúa Flokks fólksins þótti þetta miður og var aldrei upplýstur um ástæðu þess að hópurinn fékk ekki að kynna niðurstöður sínar. Hópurinn 2020 var byggður á tillögu Flokks fólksins frá 2019, sennilega þeirri einu sem fékk hlustun að heitið geti á síðasta kjörtímabili. Tillagan hljóðaði svo: „Lagt er til að Reykjavíkurborg skoði nýjar leiðir með því að beita nýsköpun við uppsetningu og þróun félagsmiðstöðva í þjónustu við aldraða. Flestar þær félagsmiðstöðvar sem nú eru starfræktar í borginni eru með svipuðu sniði og þjóna sínum tilgangi. Því hefur þó verið fleygt fram að karlmenn sæki þær síður en konur. Hafa ber í huga að þeir sem nú eru aldraðir eru með annars konar reynslu en eldri borgarar fyrir 20-30 árum. Flokkur fólksins leggur til að settur verði á laggirnar stýrihópur sem skoði að beita aðferðum nýsköpunar við þróun nýrra þjónustuleiða og afþreyingar fyrir eldri borgara Reykjavíkur og leiti leiða til að veita notendum meiri lífsfyllingu og ánægju á efri árum.“

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum  yfirlit yfir  embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 8 mál, bókun við lið 8:

Fulltrúi Flokks fólksins vill beina athygli að bréfi umboðsmanns barna um gjaldtöku í strætisvögnum fyrir börn þar sem hann kallar eftir svörum við bréfum sínum. Bréfið er sent til framkvæmdastjóra og stjórnar Strætó bs., þar sem óskað var skýringa vegna nýrrar gjaldskrár, en samkvæmt henni hækkaði gjald fyrir árskort ungmenna verulega, eða úr 25.000 kr. í 40.000 kr., en hækkunin er um 60%. Segir í bréfinu að í janúar hafi umboðsmaður barna sent bréf til borgarstjóra Reykjavíkur þar sem óskað var svara við því hvernig umrædd hækkun samræmist bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hafa borist svör átta mánuðum eftir að það var sent. Fulltrúi Flokks fólksins furðar sig á þessu enda er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. Einnig hefur spurningu umboðsmanns ekki verið svarað um hvort mat hafi verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar á þau börn sem ljóst er að hækkunin snerti hvað mest, þ.e. börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður.

 

Bókun Flokks fólksins við Fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar:

Lagt er fram milliuppgjör sem ekki má birta og sem mun aldrei fá birtingu. Flokkur fólksins mótmælir þessu og fer fram á að reglum verði breytt. Kominn er tími á gagnsæi og heiðarleg vinnubrögð. Eins og sjá mátti á 6 mánaða uppgjörinu sem birt var fyrir þremur mánuðum er fjármálastaða borgarinnar skelfileg og hljóta allir að vera mjög uggandi. Það er löngu komið í ljós að ekki verður gengið lengra á braut hallarreksturs og skuldasöfnunar. Hætta verður t.d. þeim skollaleik að nota hækkanir á matsvirði íbúða Félagsbústaða til að breiða yfir raunverulega fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.
Flokkur fólksins mun axla ábyrgð í þessum efnum og styður allar skynsamlegar aðgerðir sem munu leiða til bóta. Setja þarf beina þjónustu við fólk, börnin og aðra viðkvæma hópa í forgang. Forgangsraða þarf verkefnum upp á nýtt og hætta að fleygja milljörðum í stafræna lausnir eins og mælaborð og dagatöl og annan leikaraskap og þenslu á því sviði sem viðgengist hefur á þriðja ár. Fulltrúi Flokks fólksins ætlast til að meirihlutinn fari að sjá ljósið í þessum efnum.

 

Nýtt mál, tillaga

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu að láta fara fram könnun hjá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á ánægju þeirra með störf aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkur í málefnum fatlaðs fólks:

Lagt er til að borgarráð samþykki að láta fara fram könnun hjá hagsmunasamtökum fatlaðs fólks á ánægju þeirra með störf aðgengis- og samráðsnefndar Reykjavíkur í málefnum fatlaðs fólks.Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið aðeins hugsi yfir Aðgengis- og ferlinefndinni þá helst hvernig hún er að að ,,virka”. Áður var bara  ferlinefnd, en með breyttum lögum var búin til samráðsnefnd í málefnum fatlaðra hjá sveitarfélögum. Það var ákveðið að gera eina nefnd úr þessu tveimur sem fengi fjármagn ferlinefndarinnar.
Samráðsnefnd er lögbundin nefnd en aðgengisþátturinn er auðvitað  með fókusinn á  þjónusta við fatlað fólk. Ekki er víst að þessir tveir vinklar eigi heima undir sama hatti auk þess sem nefndin er nú orðin frekar stór.

Vel kann að vera að margt gangi mjög vel í nefndinni t.d. eru allar umsagnir unnar af  fulltrúum hagsmunasamtaka. En það sem fulltrúa Flokks fólksins finnst ábótavant er að fulltrúar hagaðila hafa ekkert dagskrárvald í nefndinni. Enda þótt samráð sé þannig að hlustað sé á alla þá er fulltrúi Flokks fólksins ekki viss um hvort það samráð nái að hafa áhrif á ákvarðanatöku. Dreifa þarf valdi í nefndinni ef vel ætti að vera. Þess vegna er lagt til að kannað verði með viðhorf og ánægju með nefndina og fyrirkomulag hennar.

Frestað.