Borgarráð 26. janúar 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dags. 17. janúar 2023, þar sem sex mánaða skýrsla Betri samgangna ohf. um stöðu og framgang verkefna er sent borgarráði til kynningar:

Fyrstu lotu borgarlínu seinkar verulega þar sem niðurstaða í mörkun samgöngusáttmálans hefur dregist. Uppfæra þarf tímalínu framkvæmda. Það segir sig sjálft að áhrifin verða mikil. Fyrstu framkvæmdir lotunnar vegna fyllingar undir nýja Fossvogsbrú voru áætlaðar á seinni helmingi 2022, en þar sem ekki er hægt að bjóða verkið út fyrr en kostnaðarskipting og fjármögnun liggur fyrir tefjast útboð um sinn. Þetta er bagalegt því eins og allir vita eru samgöngumál borgarinnar í lamasessi. Bílum hefur fjölgað mikið enda eini valkostur fjölmargra. Eftir að Strætó bs. dró úr þjónustu og vegna erfiðleika Klapps greiðslukerfisins þá hefur fækkað í vögnunum. Því fer ekki mikið fyrir „betri samgöngum“ í borginni og óvissa ríkir um framhaldið. Hefja á framkvæmdir með þriðja áfanga Arnarnesvegar í óþökk fjölmargra enda framkvæmd byggð á eldgömlu umhverfismati. Því miður verður Arnarnesvegurinn eins og sár á viðkvæmum stað í borgarlandinu og mun hafa neikvæð áhrif á framtíðarmöguleika Vatnsendahvarfs. Nú er loksins viðurkennt að breikkun Breiðholtsbrautar sé nauðsynleg, en hér er ekki nóg gert. Hana þarf að tvöfalda frá Jafnaseli og alveg að Rauðavatni.

 

Lagt fram bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 6. október 2022, þar sem tillögu skóla- og frístundaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að leggja af stimpilklukku er vísað til meðferðar borgarráðs sbr. samþykkt skóla- og frístundaráðs frá 3. október 2022. Einnig er lögð fram umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 18. janúar 2023:

Flokkur fólksins er með sambærilega tillögu og þessa sem einnig er afgreidd á fundi borgarráðs. Umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs liggur til grundvallar afgreiðslu þessarar tillögu sem og tillögu Flokks fólksins. Misskilnings gætir í umsögn frá mannauðs- og starfsumhverfissviði. Ekki er gerður greinarmunur á stimpilklukku og Vinnustund sem sýnir að sá sem semur umsögnina þekki málið ekki nógu vel. Umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs fjallar mest um hversu Vinnustund sé mikilvægt tæki til að hafa yfirlit yfir vinnuframlag kennara til að laun séu rétt greidd, til að halda utan um fjarvistir og til að fylgjast með hvort starfsfólk uppfylli vinnuskyldu eins og segir í umsögninni. Því sé ekki hægt að hætta með stimpilklukkur/tímaskráningarkerfi/viðverukerfi í grunnskólum. Þetta eru einmitt rökin sem Flokkur fólksins leggur til grundvallar því að mikilvægt er að leggja stimpilklukkuna af. Með stimpilklukkunni eru fjölmargir grunnskólakennarar að upplifa sig þvingaða og að þeim sé ekki treyst. Það hlýtur að vera hægt að halda utan um vinnuframlag grunnskólakennara eins og annarra kennara á annan hátt en gert er í dag.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um að hætta með stimpilklukkur í grunnskólum Reykjavíkur, sbr. 5. lið fundargerðar borgarstjórnar frá 6. september 2022.

Samþykkt með fjórum atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar gegn þremur atkvæðum borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands að vísa tillögunni frá. MSS22090028

Tillaga Flokks fólksins um að hætta að notast við stimpilklukku í grunnskólum í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur var lögð fram í borgarstjórn og vísað til borgarráðs. Tillagan er felld í borgarráði. Umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs liggur til grundvallar afgreiðslunni. Nokkurs misskilnings gætir í umsögninni. Ekki er gerður greinarmunur á stimpilklukku og Vinnustund sem sýnir að sá sem semur umsögnina þekki málið ekki nógu vel. Fulltrúi Flokks fólksins lagði aldrei til að Vinnustund yrði lokað heldur að hætt yrði daglegri stimplun í kerfið og að það yrði gert í samráði við Kennarafélag Reykjavíkur. Umsögn mannauðs- og starfsumhverfissviðs fjallar mest um hversu Vinnustund sé mikilvægt eftirlitstæki t.d. til að halda utan um fjarvistir og hvort starfsfólk uppfylli vinnuskyldu eins og segir í umsögninni. Því sé ekki hægt að hætta með stimpilklukkur/tímaskráningarkerfi/viðverukerfi í grunnskólum. Þetta eru einmitt sömu rökin og Flokkur fólksins leggur til grundvallar því að mikilvægt er að leggja stimpilklukkuna af. Grunnskólakennarar upplifa að þeim sé ekki treyst og finna sig þvingaða af stimpilklukkunni en ekki af Vinnustund. Það hlýtur að vera hægt að halda utan um vinnuframlag grunnskólakennara eins og annarra starfsmanna í öðrum sérfræðistéttum. Vísað er í kjarasamninga í umsögn. Kjarasamningar eru ekki meitlaðir í stein og samninganefnd borgarinnar starfar í umboði meirihlutans.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram svar mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 25. janúar 2023, við fyrirspurn borgarráðsfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um störf innan Reykjavíkurborgar, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. júní 2022.:

Svarið lýtur að störfum í Ráðhúsinu sem eru um hundrað. Spurt var hversu margir hreyfihamlaðir störfuðu í Ráðhúsinu en fram kemur að ekki er haldið utan um þær upplýsingar. Svarið við fyrirspurninni er annars nokkuð sérkennilegt. Talað er um að ekki sé haldið utan um hvað margir eru hreyfihamlaðir til að þeir verði ekki „aðgreindir“. Einnig segir að ekki megi merkja í launakerfi að viðkomandi glími við fötlun eins og fram kemur í svari. Hverjum dettur í hug að merkja slíkt í launakerfið? Það eru aðgengismálin sem skipta máli eins og augljóst er af þessari fyrirspurn og að fatlaðir sem ófatlaðir sitji við sama borð. Í kerfið vantar sveigjanleika í störfum að mati fulltrúa Flokks fólksins, bæði gagnvart fötluðu fólki en einnig eldra fólki sem óskar eftir að vinna fram yfir sjötugt. Með þessu er ekki verið að segja að Reykjavíkurborg hafi staðnað heldur má einfaldlega gera betur, miklu betur.

 

Bókun Flokks fólksins undir lið nr. 9 Beiðni frá Alþingi að Reykjavíkurborg svari spurningarlista: Lagt fram yfirlit skrifstofu borgarstjórnar, dags. í dag, yfir embættisafgreiðslur erinda sem borist hafa borgarráði, alls 12 mál.

Mennta- og barnamálaráðuneyti hefur borist beiðni frá Alþingi um skýrslu um tjón af völdum rakaskemmda og myglusvepps í leik- og grunnskólum og áhrif þeirra á starfsemi og heilsu. Óskað er eftir því að Reykjavíkurborg taki þátt í gagnaöflun með því að svara spurningalista. Fulltrúi Flokks fólksins fagnar þessu frumkvæði Alþingis. Myglumálin í Reykjavík eru orðin fjölmörg og óljóst er hversu langur tími líður frá því að upplýsingar berast um myglu áður en farið er í aðgerðir. Einnig liggur ekki fyrir hvort  sérstaklega sé hlúð að börnum og starfsfólki vegna heilsufars. Meta þarf heilsufar vegna myglunnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessu eru með öllu óljós.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram umsögn skrifstofu borgarstjórnar, dags. 16. janúar 2023, vegna tímabundins áfengisveitingaleyfis til kl. 04:00 aðfaranótt 13. febrúar nk. fyrir veitingastaðinn Lebowski bar, Laugavegi 20, vegna beinnar sjónvarpsútsendingar á Superbowl 2023 í Bandaríkjunum:

Tímabundið áfengisleyfi er veitt í tilefni útsendingar á Superbowl (Ofurskálarinnar) 13. febrúar á Lebowski bar. Í ljósi umræðunnar um hávaðann í miðbæ og vinnu við að koma böndum á hann koma upp í hugann margar spurningar sem almennt tengjast leyfi af þessu tagi. Fulltrúi Flokks fólksins er aðdáandi Superbowl en leggur jafnframt mikla áherslu á góðan svefn til að geta mætt ferskur til starfa sérhvern dag.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: 6., 21. og 22. lið: fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs frá 25. janúar 2023:

Liður 6:
Fyrirliggjandi tillaga felur í sér að mörk nokkurra einkalóða eru færð út um allt að 3,1 metra og að Sundlaugartúnið, sem er borgarland, minnki sem því nemur. Það er óásættanlegt enda gengið á græn svæði í vesturbænum. Sundlaugartúnið er vinsælt leiksvæði. Flokkur fólksins telur að þarna sé verið að minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug. Gengið er á hverfisstíg með þessari breytingu með neikvæðum afleiðingum. Hér er um dýrmætt svæði að ræða og verðmæti sennilega það hæsta á öllu landinu.

Liður 21 og 22
Fyrirspurnum Flokks fólksins er vísað frá án nokkurs fyrirvara. Önnur varðar undirbúning stórviðburða í Reykjavík sem tengist m.a. aðgengismálum. Spurt var í því sambandi hvort gátlistar sem höfðu verið gefnir út um aðgengismál hafi verið tilbúnir og ef svo var, voru þeir nýttir og var framkvæmd síðan fylgt eftir. Þessir þættir eru á ábyrgð borgarinnar. Hin fyrirspurnin laut að Svansvottun. Spurt var um hver annast Svansvottun og hver sé kostnaður af slíkri vottun á byggingu. Fyrirspurnunum var vísað frá án skýringa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun fyrirspurn um undirbúning á viðburði t.d. hvort farið er eftir gátlista um hvað þarf að vera í lagi:

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort gefnir hafi verið út gátlistar um aðgengismál að viðburðum sbr. aðgerð 3.2. í aðgengisstefnu sem kveður á um að gefnir séu út slíkir listar um aðgengismál á viðburðum sem berist sviðum og starfsstöðum borgarinnar. Hafi svo verið er spurt hvort þeir hafi verið nýttir. Einnig er spurt hvort viðburði hafi verið fylgt eftir með könnun á framkvæmd sbr. 3.2. í aðgengisstefnu sem kveður á um að markmiðið sé að 10-15 viðburðum verði fylgt eftir með könnunum á framkvæmd og að 75-90% viðburða hafi nýtt gátlista. Óskað er eftir að borgarráð kalli eftir svörum frá mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu í samstarfi við velferðarsvið, umhverfis- og skipulagssvið og þjónustu- og nýsköpunarsvið en það eru þau svið sem bera ábyrgð á þessum atriðum. MSS23010253

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um biðlista barna og hvað mörg börn bíða aðstoðar vegna skólaforðunar:

Á biðlista eftir fagþjónustu skólaþjónustu bíða nú 2048 börn, langflest eftir aðstoð sálfræðings þ.e. skimun, greining, viðtöl vegna kvíða og annarra tilfinningalegra og félagslegra erfiðleika. Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hversu mörg börn á þessum lista glíma við skólaforðun á einhverju stigi. Kvíði og þunglyndi eru helstu áhættuþættir þegar kemur að skólaforðun auk tilfinningavanda og hegðunarörðugleika. Það er því grafalvarlegt mál ef börn sem glíma við slíka vanlíðan eru látin bíða eftir aðstoð á biðlista lon og don. Rannsókn sýnir að 2,2% íslenskra barna treysta sér ekki til að mæta í skólann. Kvíði og þunglyndi eru helstu áhættuþættir samkvæmt nýlegri umfjöllun í Fréttablaðinu. Um þúsund íslensk börn glíma við skólaforðun og treysta sér ekki til að mæta í skólann samkvæmt rannsóknum. MSS22020237

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um stöðu móttökudeildarinnar Birtu eftir að tilraunaverkefninu lauk og móttökudeildin flutti:

Alls bíða nú 55 börn sem eru umsækjendur um alþjóðlega vernd eftir að hefja grunnskólagöngu. Nokkur barnanna eru í Reykjavík. Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver staða þeirra barna er sem bíða eftir að hefja skólagöngu í Reykjavík og þá er helst spurt hvort fjölskyldur þeirra séu að fá sérstaka aðstoð á meðan beðið er og hvort börnin eru að fá einhverja heimkennslu. MSS23010254