Borgarráð 29. apríl 2021

Bókun Flokks fólksins við ársskýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 26. apríl 2021, varðandi framkvæmd styrkjareglna 2020:

Lögð er fram skýrsla um framkvæmd styrkjareglna 2020. Við skoðun á útdeilingu fyrra árs sjást nokkur mál sem við fyrstu sýn vekja spurningar. Til dæmis fá sambærilegar stofnanir ólíkar upphæðir og munar jafnvel um eina milljón. Hvergi er Barnaheill að sjá og þykir ólíklegt að Barnaheill á Íslandi hafi ekki sótt um. Almennt eru fáir styrkir sem fara í að sinna börnum beint. Eftir því er tekið að Hannes Hólmsteinn Gissurarson fær styrk á 2,585 milljónir og sker sig úr meðal einstaklinga. Ljóst er að eitthvað þarf að skoða þessi mál, hverjir eru að fá styrki, út á hvað og upphæðirnar.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 29. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021 á tillögu um að framlengja tímabundnar göngugötur þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi:

Skipulagsráð vill framlengja göngugötur þar til deiliskipulag 2. áfanga hefur tekið gildi og þá eiga þessar götur að vera varanlegar göngugötur og er málið lagt fram í borgarráði. Eins og fram kom á fundi skipulags- og samgönguráðs 28. apríl þá er tillagan ótímabundin í reynd. Tillagan reyndist síðan ekki tæk hjá meirihlutanum og semja þurfti nýja í hasti. Málið er því allt frekar klúðurslegt. Enn hefur ekkert samráð verið haft við hagaðila um ákvörðunina. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hversu mikil óánægja er með framkomu borgarinnar í þessu máli sem hefur verið í algleymingi undanfarin tvö ár. Í ljósi samráðsleysis við hagaðila og aðra óttast fulltrúi Flokks fólksins að hér sé verið að hella olíu á eld. Taktískara hefði verið að hreinlega opna nú fyrir umferð og sjá áhrifin af því, þótt ekki væri nema tímabundið. Vel kann að vera að viðskipti myndu þá glæðast í miðbænum.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 15. apríl 2021, sbr. samþykkt skipulags- og samgönguráðs frá 14. apríl 2021 á tillögu að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar:

Mikilvægt er að hafa 30 km/klst. hraða á svæðum þar sem börn fara um, s.s. í nágrenni við skóla. Víða hefur hraði í íbúðagötum verið lækkaður og er það mjög af hinu góða. Þegar horft er til hraðalækkunar og hraðahindrana almennt séð togast á tveir þættir sem stundum er erfitt að samræma, annars vegar að því minni hraði því færri óhöpp en hins vegar að því hægar sem er ekið því minni er afkastageta gatnakerfisins og meiri umferðartafir og mengun eins og sjá má víða í borginni. Umferðartafir og teppur í borginni er stórt vandamál sem ekki hefur tekist að leysa þrátt fyrir að framlagðar hafi verið margar nothæfar tillögur. Þessi mál eru ekki einföld. Það dugar því skammt að segja að þeir sem benda á að lækkun hraða þýði verra umferðarflæði og skapi tafir sé byggt á einhverjum misskilningi. Enginn er að halda því fram að hærri hraði leiði alltaf til meiri afkastagetu götu. Margt annað í aðstæðum hverju sinni þarf að taka inn í myndina. Hér þarf því að finna einhvern milliveg og reyna að mæta þörfum sem flestra til að komast sem öruggast og best á milli staða í borginni.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi borgarstjóra, dags. 27. apríl 2021, þar sem drög að erindisbréfi starfshóps um skipulagningu Keldnalands eru send borgarráði til kynningar:

Hér er lagt fram erindisbréf starfshóps um skipulagningu Keldnalands. Starfshópurinn getur leitað til sérfræðinga innan og utan borgarkerfisins. Fulltrúa Flokks fólksins finnst sem það sé orðið eitt af meginatriðum erindisbréfa starfshópa að hvetja þá til að leita utanaðkomandi ráðgjafar. Væri ekki hægt að segja að fyrst ætti að leita ráðgjafa innan borgarkerfis? Sé nauðsynlegt að leita ráðgjafar utanaðkomandi sérfræðinga er eðlilegt að sett sé þak þar á ,enda aðkeypt þjónusta dýr og mörg dæmi eru um að hún hafi farið úr böndum, sbr. dönsku stráin frægu. Það var keypt ráðgjöf.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að forgangsröðun framkvæmda og endurgerð gatna sem teljast skulu borgargötur til næstu fimm og tíu ára:

Fjallað er um borgargötur í skýrslu sem lögð er fram með málinu. Í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030 eru notuð hugtökin aðalgata og borgargata um þær götur sem taldar eru lykilgötur í hverju hverfi. Á þessum hugtökum er þó skilgreindur munur; aðalgata tekur til starfsemi við götuna á meðan borgargata tekur til hönnunar og útlits götunnar. Í skýrslunni segir að útlit skipti miklu máli fyrir borgargötu, fallegt umhverfi, (hlýleiki og skreytingar) til að þeim sem ekki eru á bíl líði vel að ferðast um götuna. Birtar eru fallegar myndir af mannvænum götum. Í myndskreytingar vantar hins vegar rokið, snjóinn og regnið, en til þeirra þátta þarf einnig að taka tillit. Fram kemur að Reykjavíkurborg hafi stefnu um líffræðilega fjölbreytni. Um hvað snýst sú stefna? Er þetta ekki bara eitthvað sem er sagt en ekkert er á bak við? Fjölbreytt ræktun í einstökum beðum er ekki líffræðileg fjölbreytni.

 

Bókun Flokks fólksins við tillögu að borgarráð heimili leigu 100-110 eininga af færanlegu húsnæði til að geta boðið ný leikskólapláss á næsta skólaári:

Fulltrúi Flokks fólksins skilur að finna þarf lausnir á vandamálum sem blasa við, alvarlegum skorti á leikskólaplássum. Það vantar 555 pláss fyrir 12 mánaða börn og fjölmörg pláss fyrir 18 mánaða börn. Ljóst er að áætlanir hafa engan veginn staðist. Nú þarf að finna lausnir með hraði. Kannski er kominn tími til að horfast í augu við að verkefnið Brúum bilið gekk ekki upp og er ástæðan fyrst og fremst sú að í þetta metnaðarfulla verkefni var ekki sett nægt fjármagn til að það gengi upp eins og lagt var upp með. Gert var ráð fyrir 700-750 nýjum leikskólaplássum fram til 2023 en nú kemur í ljós að 400 ný pláss vantar til viðbótar. Ekki gekk að spá nákvæmar en það um fjölgun barna. Meirihlutinn leggur til að fundin verði tímabundin lausn með því að notast annars vegar við færanlegt húsnæði og hins vegar við rútur. Færa þarf elstu börnin utandyra til að rýma fyrir yngstu börnunum. Í tilfellum „yfirflots“ eins og þetta er orðað þá á að taka kúfinn og fara með börnin í rútu á útisvæði þar sem þau dvelja yfir daginn. Að leika utandyra, úti í náttúrunni er vissulega heillandi hugmynd og mun mörgum börnum líka það vel. Hins vegar er gripið til þessara lausna vegna þess að leikskólakerfið er sprungið.

 

Bókun Flokks fólksins við minnisblaði mannauðs- og starfsumhverfissviðs, dags. 26. apríl 2021, varðandi viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar 2021:

Ekki er mikið að marka þessa könnun að því leyti að niðurstöður hennar eru í engu tilliti samanburðarhæfar við fyrri ár vegna þess að margir hafa verið að vinna heima vegna COVID. Fulltrúi Flokks fólksins veit til þess að fjölmargir sem ekki starfa í beinni þjónustu við fólk hafa ekki mætt á vinnustaðinn mánuðum saman síðasta ár. Hvernig á að bera þessar niðurstöður saman við niðurstöður sömu könnunar frá í fyrra og árin þar áður? Ef tekið er dæmi af manneskju sem líður illa á vinnustaðnum þá hefur hún starfað heima í öruggu umhverfi án þess að mæta því áreiti sem skapar henni vanlíðunina. Þessari könnun hefði átt að sleppa í ár. Annað sem vekur athygli er hvað svarhlutfall velferðarsviðs og skóla- og frístundasviðs er lágt, eða innan við 60%, á meðan svarhlutfall mannauðssvið er 95%. Hvernig er þetta túlkað? Fyrir umhverfis- og skipulagssvið og fjármálasvið vekur athygli hvað sviðin koma illa út þegar horft er t.d. til árangursríkra stjórnunarhátta. Ef horft er til þjónustu- og nýsköpunarsviðs hafa tölur lagast. Það kemur kannski ekki á óvart því á síðasta ári var hópur starfsmanna rekinn og verkum útvistað til verktaka/einkafyrirtækja. Eru breytingar sem þessar teknar með þegar tölur eru túlkaðar?

 

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

COVID hefur aukið álag á starfsfólk Reykjavíkur og því hefði ekki komið á óvart ef tölur hefðu dalað í ár, en þær stóðu að mesta í stað sem er ánægjulegt. Það að niðurstöður viðhorfskönnunar henti ekki málflutningi einstaka fulltrúa eru ekki rök fyrir því að sleppa könnuninni, hundsa eða véfengja hana.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Fulltrúi Flokks fólksins gleðst ávallt þegar vel gengur hjá fólki í vinnu og því líður vel í vinnunni. Hins vegar þegar búið er að reka marga úr starfi og útvista verkefnum þeirra er það ávísun á að eitthvað sé að stjórnunarlega séð ekki síst. Eins og gefur að skilja svara verktakar og ráðgjafafyrirtæki ekki könnun af þessu tagi þannig að skiljanlega hafa tölur þjónustu- og nýsköpunarsviðs lagast. Almennt er það síðan mat fulltrúa Flokks fólksins að könnun þessari átti að sleppa fyrst og fremst vegna þess að hún er engan vegin samanburðarhæf við sambærilegar kannanir síðustu ár, enda árið 2020 fordæmalaust.

 

Bókun Flokks fólksins við bréfi velferðarsviðs, dags. 26. apríl 2021, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 21. apríl 2021 á tillögu um breytingar á reglum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn á tekjulágum heimilum:

Lögð er fram í borgarráði tillaga að breytingu á reglum um íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn frá tekjulágum heimilum, fjármagn sem kemur frá ríkinu. Styrkþegi þarf að leggja út fyrir styrknum sem gæti verið hindrun þar sem fátækt fólk á einfaldlega stundum ekki krónu. Um er að ræða 45.000 sem er há upphæð fyrir þann sem ekki á kannski fyrir mat. Að öðru leyti eru reglurnar sveigjanlegar. Hægt er að nota styrkinn frá ríkinu á leikjanámskeið, sumarnámskeið og sumarbúðir. Öðru máli gegnir um sambærilegan styrk, frístundastyrkinn/kort íþrótta- og tómstundasviðs. Reglur um notkun frístundastyrksins eru það stífar að mörg börn geta ekki notið góðs af honum. Þetta er dapurt þar sem frístundakortið átti einmitt að hafa þann tilgang að auka jöfnuð og styðja sérstaklega við börn á tekjulágum heimilum til að stunda íþróttir sem liður í forvörnum. Nýting á frístundakortinu mætti vera betri og ætti að vera nærri 100% ef allt væri eðlilegt en er aðeins tæplega 80% í þeim hverfum þar sem nýting er mest.

 

Bókun Flokks fólksins við svari borgarlögmanns, dags. 26. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um yfirlit yfir dómsmál borgarinnar frá 2018, sbr. 52. lið fundargerðar borgarráðs frá 7. janúar 2021:

Fulltrúi Flokks fólksins þakkar svarið. Almennt á litið má ætla að málarekstur og varnir borgarinnar kunni að vera innan þeirra marka sem við má búast í sveitarfélagi af þessari stærð. Reykjavíkurborg á eða hefur átt aðild að 43 dómsmálum (hefðbundin einkamál) og 6 matsmálum á þessum tímabili sem spurt var um eða frá 2018. Af þeim 24 dómsmálum sem er lokið voru tíu mál felld niður að undangengnu samkomulagi. Þá má spyrja hefði ekki verið hægt að gera samkomulag fyrr þannig að ekki hefði þurft að koma til dómsmáls? Skiljanlega vill borgin ekki tapa máli.

 

Bókun Flokks fólksins við svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 15. apríl 2021, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Miðflokksins um greiðslur til verktaka og fjölda þeirra hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi, sbr. 35. lið fundargerðar borgarráðs frá 4. febrúar 2021:

Í svari við fyrirspurn frá Miðflokknum um fjölda verktaka hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi og greiðslur til þeirra kemur fram að verktakar eru víða ráðnir. Eitt svið sker sig úr og ræður ekki verktaka. Fram kemur að „Á þjónustu- og nýsköpunarsviði eru engir starfandi verktakar. Eingöngu eru gerðir samningar við fyrirtæki“. Sú spurning vaknar hjá fulltrúa Flokks fólksins hver sé munurinn á að semja við fyrirtæki eða verktaka? Geta fyrirtæki ekki verið verktakar og geta verktakar ekki verið fyrirtæki? Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að hér sé um orðaleiki að ræða eða hreinlega útúrsnúninga. Hér er verið að „fegra“ og láta hluti líta út einhvern veginn öðruvísi en þeir í rauninni eru. Ekki er séð að munur sé á að semja um aðkeypta þjónustu frá verktaka eða frá fyrirtæki. Greiðsla fyrir reikninga frá verktaka eða fyrirtæki kemur frá sama stað, úr vasa borgarbúa.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 15. apríl 2021.

Fulltrúi Flokks fólksins saknar þess að sjá ekki umræðu um stóru mál Breiðholts í íbúaráði Breiðholts, t.d. nýja hverfisskipulagið, Mjóddina og fyrirhugaða lagningu Arnarnesvegar. Þetta eru umdeild og viðkvæm mál sem munu hafa áhrif til langrar framtíðar. Það er hlutverk ráðsins að rýna þessi mál, hlusta á raddir og sjónarmið Breiðhyltinga og koma þeim áleiðis til valdhafa.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerðir íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 6. og 19. apríl 2021.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur bæði bókað um umferðaröryggi í Grafarholti og verið með fjölda fyrirspurna um merkingar gangbrauta og lýsingu sem og umhirðu á byggingarlóðum. Borist hafa margar góðar ábendingar frá hverfisbúum en lengi vel gerðist lítið hjá yfirvöldum. Nú á að gera umbætur enda öryggi gangandi vegfarenda ábótavant. Samkvæmt umferðarlögum eiga allar gangbrautir að vera merktar og upplýstar, æskilegast væri að um málaðar sebrabrautir væri að ræða, sér í lagi þar sem umferð er mikil og umferðarhraði töluverður. Enn er mörgum spurningum ósvarað, s.s. hvenær verður lokið við að lýsa upp alla gangstíga við gangbrautir að Dalskóla? Hvenær verður lokið við að gera gangstíga að leikskóla og Dalskóla manngenga? Hvenær verða ruslagámar fjarlægðir af göngustígum? Alltof margar kærur hafa borist frá þessu hverfi m.a. vegna þess að uppbygging sumra lóða hefur tafist og eru þær lóðir jafnvel notaðar fyrir byggingarúrgang.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð skipulags- og samgönguráðs frá 28. apríl 2021.
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. og 4. lið fundargerðarinnar:

Þétting byggðar er að ganga of langt og farin að taka of mikinn toll af náttúru. Þetta má sjá á Geirsnefi og bökkum Elliðaáa, austan- og vestanverð ósasvæði hennar. Sagt er að „þörf“ sé á landfyllingu til norðurs. Auðvitað er engin „þörf“ á landfyllingu. Þetta er allt spurning um hugmyndafræði, stefnu og hvort virða eigi grænar áherslur. Sífellt er verið að fikta í einstakri náttúrunni, pota í hana og mikil tilhneiging er að móta og manngera og þar með búa til gerviveröld. Ekkert fær að vera ósnortið, ekki einu sinni fáir fjörubútar, en ósnortnar fjörur eru fáar í Reykjavík. Með þessu er gengið á lífríkið. Bakkarnir til sjávar meðfram Sævarhöfða eru þegar manngerðir og varað við að sækja lengra í þá átt. Best væri ef þessir bakkar fengju að vera sem mest í friði og setja þar ekki stór mannvirki. Hætta ætti við áfanga 2-3 í landfyllingu. Geirsnef gæti orðið borgargarður, en þar á borgarlína að skera Geirsnef í tvennt. Eins og með Vatnsendahvarfið sem kljúfa á með hraðbraut á borgarlína að skera Geirsnefið. Skipulagsyfirvöld láta aðeins of mikið glepjast af rómantískum tölvumyndum arkitekta að mati fulltrúa Flokks fólksins.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerði stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur frá 25. febrúar og 9., 12. og 22. mars 2021. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar frá 9. mars:

Undir þessum lið kemur fram að gengið hefur verið frá launahækkun forstjórans og er þar með ákveðið að laun hans hækki um 370 þúsund krónur á mánuði og eru þau nú orðin nærri 2,9 milljónir króna. Rök stjórnar eru m.a. að aðrir forstjórar orkufyrirtækja séu með há laun og þessi forstjóri hafi staðið sig svo vel, eins og það sé ekki beinlínis sjálfgefið að forstjóri geri. Forstjórar orkufyrirtækja eru sárafáir en þeir eru í höfrungahlaupi hver við annan og hækka á víxl í launum. Bókun liður 3, 22. mars: Starfskjaranefnd leggur til að stjórnarlaun hækki þannig að launin verði kr. 182.319- á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 51.047- á fund. Jafnframt verði heimilt að greiða upp í laun ársins 2021 kr. 182.319- á mánuði fyrir aðalmann og tvöföld sú fjárhæð fyrir formann. Greiðslur til varamanna verði kr. 51.047- á fund. Þetta eru miklir peningar fyrir að sitja fund. Um þetta hefur borgarstjórn ekkert að segja jafnvel þótt Orkuveita Reykjavíkur sé að stærstum hluta í eigu borgarinnar. Svona vinnubrögð eru ekki til eftirbreytni og stuðla að óeiningu og enn eitt dæmið um að bs.-kerfið er ekki lýðræðislegt.

 

Bókun Flokks fólksins við fundargerð stjórnar SORPU bs. frá 12. mars 2021. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 3. lið fundargerðarinnar:

Undir þessum lið í fundargerð SORPU um auknar gjaldtökuheimildir endurvinnslustöðva er lagt fram minnisblað um aukna flokkun og gjaldtökuheimildir. Ekki er meira sagt um það. Sennilega var of fljótt farið að hrósa stjórn SORPU fyrir ögn skárri fundargerðir en áður. Þær eru komnar aftur í stikkorðastíl. En talandi um aukna flokkun vill fulltrúi Flokks fólksins nefna að ef nýta á úrgang sem hráefni í aðra vinnslu þarf að flokka sem mest þar sem úrgangurinn verður til, á heimilum og í fyrirtækjum. Þeir sem búa til úrganginn ættu að hafa mikið um flokkunina að segja. Kalla ætti eftir hugmyndum frá heimilum og fyrirtækjum.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hversu miklum fjármunum hefur hvert svið og skrifstofur sem staðsettar eru í Borgartúni 12-14 eytt í uppfærslur á húsgögnum og öðrum aðbúnaði undanfarin 4 ár:

Reykjavíkurborg leigir heila byggingu í Borgartúni 12-14 þar sem flest svið og skrifstofur borgarinnar eru til húsa. Þarna er því um að ræða annað stjórnsýsluhús Reykjavíkurborgar fyrir utan Ráðhúsið. Borgarfulltrúi Flokks fólksins spyr í framhaldi af því, hversu miklum fjármunum hefur hvert svið og skrifstofur sem staðsettar eru í þessu leiguhúsnæði, eytt í uppfærslur á húsgögnum og öðrum aðbúnaði undanfarin 4 ár. Inn í þennan kostnað á að telja allan annan kostnað af t.d. hljóðeinangruðum fundar- og símaklefum sem og allan kostnað við aðkeypta verktakavinnu í uppsetningum á því sem spurt er um, ásamt afleiddum kostnaði eins og við rafmagns- og netlagnir og annað sem þurft hefur að leggja vegna þessa.

 

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um hver sé munurinn á að semja við fyrirtæki eða verktaka um þjónustu (aðkeypta þjónustu)?:

Í svari við fyrirspurn Miðflokksins um fjölda verktaka hjá sviðum borgarinnar og Ráðhúsi og greiðslur til þeirra kemur fram að verktakar eru víða ráðnir. Eitt svið sker sig úr og ræður ekki verktaka: „Á þjónustu- og nýsköpunarsviði eru engir starfandi verktakar. Eingöngu eru gerðir samningar við fyrirtæki.“ Fulltrúi Flokks fólksins leggur fram eftirfarandi spurningar: Hver er munurinn á að semja við fyrirtæki eða verktaka um þjónustu (aðkeypta þjónustu)? Geta fyrirtæki ekki verið verktakar og geta verktakar ekki verið fyrirtæki? Í huga borgarinnar og þjónustu- og nýsköpunarsviðs, hver er munurinn á, þegar horft er á með „viðskiptafræðigleraugum“ að ráða verktaka sem er einstaklingur eða ráða fyrirtæki? Er ekki þarna um að ræða viðskipti á hvorn veginn sem litið er sem borgin greiðir fyrir?

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.