Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram kynning umhverfis- og skipulagssviðs dags. 9. janúar 2025 á þróunaráætlun háskólasvæðis Háskóla Íslands:
Fulltrúi Flokks fólksins telur að aðgengi virkra ferðamáta (gangandi og hjólandi) verði klárlega betra á svæðinu eftir því sem fram kemur í gögnum. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvernig almenningssamgöngur muni virka. Fulltrúi Flokks fólksins er einnig mjög óviss um hvernig deilifararmátum á eftir að vegna í íslensku samfélagi. Fram kemur að núverandi fjöldi bílastæða sé í hámarki. Fulltrúa Flokks fólksins finnst að gengið hafi verið of harkalega á bílastæði á sama tíma og bílum fer fjölgandi. Skortur á bílastæðum er víða áþreifanlegur og hefur skapað mikil vandamál. Fram kemur að bílastæðahús verði byggð úr vistvænum efnum til að lágmarka kolefnisspor og með stöðluðum einingum sem geta þannig verið stækkuð eða minnkuð eftir því sem eftirspurn þróast. Það er jákvætt, sveigjanleiki eykur hagkvæmni og notagildi húsanna og lengir líftíma þeirra.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 19. desember 2024, sbr. samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs frá 18. nóvember 2024 á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 61 við Njarðargötu, ásamt fylgiskjölum.
Í ljósi þessa alvarlega máls í Álfabakka þar sem heimildir voru allt of rúmar, mál sem við flest erum í miklu uppnámi yfir, er það mat Flokks fólksins að það er oft sama hvað fólk gerir athugasemdir við, jafnvel sendir inn alvarlega kvörtun um að verið sé að skerða eignir þeirra, birtumagn, aðgengi, þrengja að bílastæðum og svo framvegis, þá er bara bent á gildandi deiliskipulag og þar við látið sitja. Svoleiðis er einmitt í þessu máli, varðandi athugasemdir sem eiga við fyrirliggjandi erindi að Njarðargötu 61 þá er viðkvæðið að þetta sé í gildandi deiliskipulagi og fyrir þessu séu heimildir. Eitthvað hlýtur að vera hægt að gera í málum af þessu tagi, s.s. bæta í skilmálana. Fulltrúi Flokks fólksins vill að hlustað verði á þá sem fyrir eru á svæðinu, það er óboðlegt að gera breytingar og/eða viðbætur sem draga úr gæðum eigna sem fyrir eru.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf þjónustu- og nýsköpunarsviðs, dags. 7. janúar 2025, þar sem óskað er eftir að borgarráð heimili sviðinu að fara í innkaup á umsjónarkerfi fyrir Vinnuskóla Reykjavíkur á umhverfis- og skipulagssviði:
Verið er að biðja borgarráð að samþykkja heimild til að fara í innkaup á umsjónarkerfi fyrir Vinnuskóla Reykjavíkur. Kaupa á kerfi sem er til, hefur verið notað í öðru sveitarfélagi. Flokkur fólksins fagnar að þjónustu- og nýsköpunarsvið ætlar ekki að hefja þróunar-, uppgötvunar- og tilraunavinnu í þessu tilfelli sem er dýrt ferðalag. Mikilvægt er að nýta það sem til er og eiga góða samvinnu við önnur sveitarfélög og Stafrænt Ísland þegar finna á stafræna lausn sem ekki er þegar til í Reykjavík. Vonandi verður þetta kerfi vel nýtilegt og notendavænt.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf fjármála- og áhættustýringarsviðs, dags. 6. janúar 2025, þar sem óskað er eftir samþykki borgarráðs fyrir framlengingu leigusamnings um afnot af hluta 1. hæðar að Tryggvagötu 19. Einnig er óskað eftir að eignaskrifstofu verði heimilað að gera tímabundinn húsaleigu- og rekstrarsamning um tímabundinn rekstur á almenningsmarkaði í Tryggvagötu 19 út janúarmánuð með heimild til framlengingar um allt að sex mánuði.
Flokki fólksins finnst mjög mikilvægt að það sé markaður eins og Kolaportið í Reykjavík, einn og kannski tveir, annar miðsvæðis og annar utan miðborgar. Kolaportið á sér farsæla sögu, þangað leggur fjöldi fólks leið sína bæði til að skoða varning, versla og hitta annað fólk. Tímabundinn húsaleigusamningur á milli Reykjavíkurborgar og FSRE um 1. hæð í Tryggvagötu 19, rann út 31. desember 2024 sl. Mikilvægt er að gefa aðilum svigrúm, tíma og rými til að ganga frá og rýma, helst nokkra mánuði.
Ný mál
Tillaga um að borgarráð taki til umfjöllunar mál fyrirhugaða uppbyggingu unglingaskóla í Laugardalnum og fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um byggingu safnskóla á svæði sem Þróttur hefur ótímabundin og samningsbundin afnot af:
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að ekki verði beðið lengur með að borgarráð taki til umfjöllunar mál fyrirhugaða uppbyggingu unglingaskóla í Laugardalnum og fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um byggingu safnskóla á svæði sem Þróttur hefur ótímabundin og samningsbundin afnot af, svokölluðum Þríhyrningi. Fram hefur komið að Þróttur er ósáttur við þau vinnubrögð sem hafa einkennt ákvarðanatöku í þessu máli og skort á samráði við félagið.
Greinargerð
Þróttur telur ákvörðunin, eins og hún liggur fyrir, ganga gegn samkomulagi félagsins við borgina. Þróttur hefur farið fram á að málið verði tekið til umfjöllunar nú þegar en af því hefur ekki orðið. Einnig er þess krafist að borgin komi málinu í faglegra ferli en það hefur verið í fram að þessu. Þess er vænst að Reykjavíkurborg sýni betri vinnubrögð í máli þessu. Þróttur veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið en svo virðist sem Reykjavíkurborg sé að díla og víla með svæði sem Þróttur hefur ótímabundin og samningsbundin afnot af og allt án nokkurs samráðs við félagið.
Svar meirihlutans í borgarráði:
– erindi Þróttar barst borgarráði sl. þriðjudag og var strax sett á dagskrá fundar i næstu viku. Dagskrá borgarráðs er lokað á mánudögum.
Tillaga um að fá upplýsingar um hvað fór úrskeiðis hjá Ferðaþjónustu fatlaðs fólks þegar fötluð kona með þroskahömlun var keyrð á rangan áfangastað og skilin eftir þar á aðfangadagskvöld
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: Óskað er upplýsinga um hvað fór úrskeiðis hjá Ferðaþjónustu fatlaðs fólks þegar fötluð kona með þroskahömlun var keyrð á rangan áfangastað og skilin eftir þar á aðfangadagskvöld.
Greinargerð
Þetta atvik er ekki einsdæmi. Í þessu tilfelli var hinn fatlaði einstaklingur skilin eftir á ókunnugum stað þar sem hann var einn og ráðvilltur við hús sem hann þekkti ekki. Ferðaþjónusta fatlaðs fólks átti að skila henni heim í Skálatún í Mosfellsbæ en flutti hana þess í stað í ókunnugri blokk um 11 leytið síðastliðið aðfangadagskvöld. Bíllinn kom þess utan of seint. Viðkomandi gat ekki gert sig skiljanlegan vegna fötlunar sinnar. Hér er um háalvarlegt mál að ræða sem hefði getað farið illa. Fleiri tilvik sambærileg hafa gerst og má minnast á mál í febrúar 2024 þar sem bílstjóri skildi eftir fatlaðan dreng eftir við Víkingsheimilið í stað þess að aka honum heim. Ferðaþjónusta fatlaðra er rekin af Strætó bs. sem hefur ekki gert grein fyrir þessu máli né því sem átti sér stað nú í desember.
Fyrirspurn um að stöðu Kolaportsins og aðdraganda:
Fyrirspurn frá fulltrúa Flokks fólksins í tengslum við málefni Kolaportsins, aðdraganda að þeirri stöðu sem nú er uppi og hvernig Reykjavíkurborg hefur staðið að lausn málsins með fyrrverandi rekstraraðila?
Er meirihlutinn í Reykjavík, borgarstjóri búinn að hafa samband við fyrri rekstraraðila og eiga við hann samtal um hvernig hægt er að leysa mál Kolaportsins? Í öllum deilumálum eru tvær hliðar.
Einnig er óskað upplýsinga um hvort og þá hvað er búið að gera í samvinnu við fyrri rekstraraðila til að leysa og lenda þeirri fjárhagsstöðu sem Kolaportið er í?
Hversu margir starfsmenn eru í því verkefni, hversu margir fundir hafa verið haldnir?
Greinargerð
Reykjavíkurborg í aðgerðum sínum og ákvarðanatöku þarf að gæta þess að mati Flokks fólksins að tala við alla hlutaðeigendur í þessu máli sem öðrum málum. Allir þurfa að vera upplýstir og séu sviptingar af einhverju tagi í gangi þarf að tala saman. Það eru ítrekað að koma upp mál þar sem svo virðist sem Reykjavíkurborg loki á samskipti við fólk sem ýmist eru viðskiptavinir eða rekstraraðilar á borgartengdum einingum/fyrirtækjum. Flokkur fólksins hefur ítrekað heyrt fólk lýsa því að fá ekki fundi við skipulagsyfirvöld og/eða borgarstjóra, að það sé hunsað og á það sé lokað jafnvel í málum þar sem einmitt mikilvægt er að setjast niður og leita lausna sem eru hagkvæmastar hvort heldur fyrir borgina eða einstaklinga og fyrirtæki sem um ræðir eftir atvikum. Svo virðist sem borgin geri nokkuð að því að keyra mál í þrot og stefna þeim beint í dómstólaferli án þess að reyna aðrar leiðir. Vel gæti verið um að ræða mál sem hægt er að finna lausnir á og lenda í sátt og samkomulagi. Eitt af þessum málum sem hér er vísað til er málefni Kolaportsins. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ofurtrú á “samtalinu” sem slíku og að gott samtal geti leitt til lausnar sem gagnast báðum aðilum.