Borgarstjórn 17. des. 2024

Óskað er eftir að tillaga um umræðu um Álfabakkamálið verði tekin inn með afbrigðum á dagskrá borgarstjórnar í dag að beiðni Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins

 

Tillaga að umræða um Álfabakkamálið svokallaða

Borgarstjórn samþykkir að tekin verði á dagskrá umræða um Álfabakkamálið svokallaða með vísan til þess að málið er brýnt og borgarstjórn á leið í jólafrí.

 

Tillaga með afbrigðum

Tillaga um stjórnsýsluúttekt á Álfabakkamálinu

Lagt er til að innri endurskoðun borgarinnar verði falið að gera ítarlega stjórnsýsluúttekt á skipulagsferlinu er varðar Álfabakka 2a, Suður-Mjódd.

Í úttektinni verði meðal annars tekið tillit til:

  1. Ákvarðanatökuferlisins í málinu.
  2. Tímalínu málsins, frá upphafi til loka.
  3. Regluverksins og framkvæmd þess, með áherslu á hvort farið hafi verið eftir gildandi lögum og reglum.
  4. Eftirlitsferla, með sérstakri áherslu á hvernig staðið var að eftirliti við byggingu skemmunnar.
  5. Athugsemda íbúa og hvernig unnið var úr þeim athugasemdum
  6. Voru umferðarmál skoðuð í kringum byggingu vöruhússins, t.d. hvernig flutningum að og frá húsinu yrði háttað?

Jafnframt er lagt til að innri endurskoðun fylgi úttektinni eftir með virku eftirliti, sem byggir á niðurstöðum hennar, til að stuðla að nauðsynlegum umbótum og auknu trausti á skipulagsferlum borgarinnar. Mikilvægt er að öllum steinum verði velt við til að greina veikleika í stjórnsýslunni og tryggja að slík mistök endurtaki sig ekki í framtíðinni.

 

Mál Flokks fólksins í borgarstjórn

Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um aukna áherslu á umhverfismál í skóla- og frístundastarfi
Flokkur fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að í skóla- og frístundastarfi sé lögð meiri áhersla á umhverfismál, bæði með símenntun og starfsþróun starfsfólks og svo þátttöku allra stofnana í formlegum umhverfisverkefnum eins og Grænum skrefum og Grænfánaverkefni Landverndar.

Greinargerð

Gildi umhverfisverndar og þekkingar á umhverfismálum er óumdeilanlegt. Í Aðalnámskrá er kveðið á um, í kaflanum Náttúruvísindi í samfélaginu, að gera megi ráð fyrir að athygli nemenda beinist í vaxandi mæli að málefnum er varða nýtingu auðlinda og náttúruvernd. Nemendur þurfa að geta fjallað um og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra þátta sem tengjast umhverfisvernd og skilja hvað felst í hugtakinu sjálfbær.

Þá birtast markmið í umhverfismennt undir yfirheitinu „Að búa á jörðinni“ og er sérstök áhersla lögð á umhverfismál og sjálfbæra þróun í 8.–10. bekk. Nemendur eru hvattir til að sýna áhuga og ábyrgð á nánasta umhverfi og velferð lífvera gera sér grein fyrir að maðurinn er hluti af náttúrunni og lífsafkoma hans byggist á samspilinu við hana, kunna að flokka úrgang sem fellur til á heimilum og skilja tilganginn með flokkuninni eins og segir í Aðalnámskrá.
Tvö græn verkefni hafa verið í gangi í skólum borgarinnar á liðnum árum. Grænafánaverkefni og svo Græn skref. Fjölmargir skólar og leikskólar eru Grænfánaskólar og einnig tilheyrir fjöldi grunnskóla, leikskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar Grænum skrefum sem fela í sér fjögur skref. Sumir skólar hafa kosið að feta Grænu skrefin frekar en grænfána út af kostnaði við verkefnisstjórn (greiða þarf þátttökugjald til Landverndar vegna kostnaðar). Umhverfismál eru mál sem varða okkur öll. Börn eru almennt áhugasöm og því mikilvægt að þau fái góðan grunn og tækifæri til að vera sjálf frumkvöðlar á þessu sviði.

Bókun Flokks fólksins við málinu:

Flokkur fólksins lagði til í borgarstjórn að í skóla- og frístundastarfi sé lögð meiri áhersla á umhverfismál, bæði með símenntun og starfsþróun starfsfólks og svo þátttöku allra stofnana í formlegum umhverfisverkefnum eins og Græn skref og Grænfánaverkefni Landverndar. Gildi umhverfisverndar og þekkingar á umhverfismálum er óumdeilanlegt. Í Aðalnámskrá er kveðið á um gera megi ráð fyrir að athygli nemenda beinist í vaxandi mæli að málefnum er varða nýtingu auðlinda og náttúruvernd. Það er mikilvægt að ungt fólk geti  fjallað um og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra þátta sem tengjast umhverfisvernd og skilja hvað felst í hugtakinu sjálfbær. Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á að börn og ungt fólk fái aukinn áhuga á sínu nánasta umhverfi og finni löngun og þörf til að taka ábyrgð ekki aðeins á umhverfinu heldur einnig velferð lífvera. Hluti af þessu er að vilja og kunna að flokka  úrgang sem fellur til á heimilum og skilja tilganginn með flokkuninni. Fjölmargir skólar og leikskólar eru Grænfánaskólar og einnig fjöldi grunnskóla, leikskóla,  frístundaheimili og félagsmiðstöðvar tilheyra Grænum skrefum  sem fela í sér 4 skref. Börn eru almennt áhugasöm og því mikilvægt að þau fái góðan grunn og tækifæri til að vera sjálf frumkvöðlar á þessu sviði.