Umhverfis- og skipulagsráð 19. apríl 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Að lokinni auglýsingu er lögð fram að nýju tillaga Trípólí arkitekta, dags 8. desember 2022, um breytingu á deiliskipulagi fyrir Spöngina, einingu H, vegna hjúkrunarheimilis við Mosaveg.

Flokkur fólksins fagnar því að hjúkrunarheimili rísi við Mosaveg í Reykjavík og ítrekar mikilvægi þess að ekki verði frekari tafir á því verkefni. Miðað við þann fjölda sem bíður á Landspítalanum eftir að komast á hjúkrunarheimili með samþykkt færni- og heilsumat, er mikilvægt að nýtt hjúkrunarheimili rísi í Reykjavík. Lýsing á breytingunni er skilgreind í gögnum. Heimildum til uppbyggingar á svæðinu er breytt þannig að í stað íþróttahús og sundlaugar verði heimilt að byggja 3-5 hæða hjúkrunarheimili með allt að 145 rýmum og tengdri þjónustu. Möguleg tenging inn á lóð Borgarholtsskóla úr norðri er færð til samhliða skilgreiningu lóða. Settir eru sérskilmálar fyrir uppbygginguna. Í þessu sambandi er vert að draga hér fram erindi íbúaráðs hverfisins þar sem vakin er athygli á nauðsyn þess að borgin tryggi til framtíðar eina framhaldsskóla Grafarvogs, nægt byggingarland. Sí aukin aðsókn er á námsbrautir skólanum í verk- og listnám sem um leið kallar á mikið sérútbúið kennslurými.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, sbr. 7. liður fundargerðar 12. apríl 2023. Þar er lagt til að við Háskóla Íslands er lagt til að tímabundin endastöð fyrir leiðir 2 og 6 sé á bílastæðum innan lóðar HÍ við Stapa:

Skipulagsyfirvöld telja að vegna fyrirhugaðra breytinga á Hlemmi sé nauðsynlegt að útbúa tvær tímabundnar endastöðvar fyrir Strætó sem verða notaðar meðan á framkvæmdunum við Hlemm stendur. Áætlað er að framkvæmdirnar taki fjögur ár. Þetta kann að vera nauðsynlegt, en hins vegar má deila um hvort þessi framkvæmd öll eigi ekki að bíða um sinn. Flokkur fólksins hefur bent á að sum stór og fjárfrek verkefni þurfi að fara á bið og kannski er þessi framkvæmd einmitt ein af þeim. Vissulega er mikilvægt að skilja ekki við framkvæmdina í óreiðu ef gera á hlé vegna þess að draga þarf saman seglin í ljósi efnahagsvanda. Finna þarf besta mögulega tímapunktinn í verkinu þar sem hagkvæmast er að setja verkefnið á bið. Það er ekki góð staða en eitthvað verður undan að láta í þeirri efnahagslegu óvissu sem nú ríkir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram að nýju erindi Félags atvinnurekanda um samstarfsverkefni um nýtingu rafbíla við vörudreifingu í miðborg Reykjavíkur sbr. 10 liður fundar umhverfis- og skipulagsráðs þann 25. janúar 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra dagsett 12. apríl 2023:

Flokkur fólksins fagnar öllu samstarfi af þessu tagi. Samstarf við hagsmunafélög eru ávallt af hinu góða og leiða til betri og sanngjarnari útkomu. Fulltrúi Flokks fólksins hefði viljað sjá meirihlutann í borginni vera t.d. í meira samstarfi við Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), en þar liggur reynslan og sérþekkingin sem meirihlutinn gæti nýtt sér mun betur gert hefur hingað til.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um stoppistöð Strætó við Esjuna, sbr. 28. lið fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Einnig lögð fram umsögn skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 12. apríl 2023.

Lagt er til að hafa biðstöð Strætó við Esjuna. Fulltrúa Flokks fólksins telur það vera mjög gott mál. Það kemur fram í gögnum að “Landsbyggðarstrætó er rekinn af Vegagerðinni en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er ekki á áætlun að gera biðstöð við Esjuna. Áður en biðstöð yrði opnuð þyrfti að bæta aðstæður verulega, bæði við stöðina sjálfa sem og við Vesturlandsveg”. Þetta snýr því að Vegagerðinni en fulltrúi Flokks fólksins telur að mjög líklega þyrfti borgin einnig að koma að málinu varðandi það að bæta aðstæður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna um stýrihóp fyrir aðgerðir til að bregðast við loftmengun á gulum og gráum dögum, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 18. janúar 2023:

Umsögn liggur fyrir um tillögu fulltrúa Vinstri grænna um stýrihóp fyrir aðgerðir til að bregðast við loftmengun á gulum og gráum dögum. Auðvitað þarf að vinna að því að minnka loftmengun og sennilega eru fáir á móti því. Fulltrúa Flokks fólksins finnst hæpið að það þurfi sérstakan stýrihóp til þess. Loftslagsmál er rædd út um allt en kannski minna gert til að draga úr mengun. Það þarf því fyrst og fremst að koma þessu verkefni í réttan farveg innan borgarinnar og nýta þá þekkingu og þau úrræði sem þar eru væntanlega að finna.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um eflingu almenningssamgangna, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 1. mars 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 12. apríl 2023:

Spurt var um eflingu almenningssamgangna í tengslum við fækkun bílastæða. Nú þegar hefur bílastæðum verið fækkað mikið í borginni. Þess vegna er fulltrúi Flokks fólksins sammála því að brýnt sé að efla einmitt almenningssamgöngur þegar þrengt hefur verið með þessum hætti að einkabílnum. Í svari kemur fram að ekki eigi að efla Strætó í tengslum við breytingarnar í Brautarholti því staðurinn sé vel tengdur við aðrar strætóleiðir. Engin afstaða virðist hafa verið tekin um það hvort efla eigi strætó almennt í kjölfar fækkunar bílastæða í borginni. Þess vegna þarf að huga enn betur að öðrum lausnum þegar gengið er á þær sem fyrir eru með þessum hætti.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um það af hverju SORPA eða einstök sveitarfélög eru ekki búin að skipuleggja eða semja um að flytja út sorp til brennslu, sbr. 16. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 8. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar frá Sorpu bs. dags. 11. apríl 2023:

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um af hverju SORPA eða einstök sveitarfélög eru ekki búin að skipuleggja eða semja um að flytja út sorp til brennslu. Álfsnes er að verða fullnýtt sem urðunarstaður en er áfram er verið að nýta þann fullnýtta kost. Í Evrópu vantar orku og eftirspurn er orðin töluverð eftir úrgangi til brennslu. Félög eins og ÍGF og Terra geta auðveldlega bætt á sig því verkefni að flytja út sorp til brennslu. Svar liggur fyrir og segir að Sorpa ætli að bjóða út útflutning á sorpi til brennslu. Gert er ráð fyrir að opna þau tilboð sem berast þann 25. apríl næstkomandi. Á þeim grundvelli hyggst SORPA hefja útflutning á brennanlegum úrgangi eins fljótt og auðið er. Þetta hefur tekið allt of langan tíma að mati Flokks fólksins og mörgum spurningum er ósvarað t.d. hvenær var tekin ákvörðun um að bjóða þetta út og hversu langan tíma tók það ferli. Fulltrúi Flokks fólksins mun senda inn sér fyrirspurnir um þessi atriði.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um strætóstoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði, sbr. 15. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 21. september 2022. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 12. apríl 2023:

Fyrirspurn varðandi stoppistöðina fyrir strætó númer 57 við Esjurætur í Kollafirði um hvenær biðstöðin verði opnuð aftur, var lögð fram í september 2022. Nú fyrst kemur svar. „Stoppistöðinni var lokað í vor því bílstjórunum þótti svo erfitt að komast aftur inn á Vesturlandsveginn. Næsta stöð er uppi á Esjumelum í 700-1000 metra fjarlægð.“ Fram kemur í svari að “Landsbyggðarleiðir Strætó líkt og leið nr. 57 eru reknar af Vegagerðinni sem og stoppistöðvar á þjóðveginum. Það var ákvörðun Vegagerðarinnar að loka stoppistöðinni með tilliti til umferðaröryggis. Það er því ekki á forræði Reykjavíkurborgar að ákveða hvort og þá hvenær stoppistöðin opnar aftur. Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að hér beri Reykjavíkurborg að grípa inn í með því að bæta þarna allar aðstæður með tilliti til umferðaröryggis.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum:  Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um öryggismál á Laugarásvegi, sbr. 23. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. febrúar 2023. Einnig er lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 13. apríl 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvenær bæta á úr hraðamerkingum á Laugarásvegi? Hámarkshraði á Laugarásvegi var lækkaður í 30 km./klst. fyrir nokkru síðan. Það eru hins vegar engar merkingar um það, hvorki á skiltum né götu. Þrátt fyrir að hámarkshraði er merktur þar sem að 30 km svæði byrjar eða á mörkum þess, þá er algjörlega nauðsynlegt að hafa sýnilegar aukamerkingar á Laugarásvegi. Það þyrftu því bæði að vera hraða skilti og málað á götuna. Þetta er ein lengsta íbúðargata í hverfinu sem veldur því að bílar keyra iðulega mjög hratt og langt umfram leyfilegan hámarkshraða í götunni. Tímaspursmál er hvenær þarna verður alvarlegt slys. Fulltrúi Flokks fólksins hefur ítrekað bent á þetta enda berast ábendingar reglulega frá íbúum sem eru mjög áhyggjufullir. Fram kemur í svari að merkingar hafa verið málaðar í götu um 30 km/klst hámarkshraða. Viðurkennt er að merkingar eru orðnar máðar en samt á ekki að grípa til aðgerða fyrr en fara á í annað almennt viðhald. Er verið að bíða eftir að slys verði? Svarið ber með sér ákveðna viðurkenningu á því að merkingar um hámarkshraða eru ekki nægilega góðar. Merkingar þarf að bæta hið fyrsta áður en slys verður.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um umferðamál, sbr. 40. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 11. janúar 2023. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 12. apríl 2023:

Flokkur fólksins spurði um umferðarmál. Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til undanfarin 4 ár, að farið verði yfir allar ljósastýringar í borginni og erfiðustu gatnamótin verði löguð með ýmsum þeim leiðum sem margoft hefur verið bent á undanfarin ár. Fulltrúi Flokks fólksins spyr hvort skipulagsyfirvöld séu með einhverjar hugmyndir varðandi ljósastýringar sem létt gætu á umferðarþunga? Hvaða aðgerðir eru í gangi hjá borginni til að draga úr umferðarteppu? Í svari segir að sífellt sé verið að leita leiða til að auka umferðaröryggi og bæta flæði umferðar. Þegar hefur verið farið í nokkrar aðgerðir og má þar nefna að beygjuvasar hafa verið stækkaðir og lengdir. Minnst er á úttekt Sweco og samstarfshópi í ljósastýringum sem gerðu aðgerðaráætlun. Vonandi er það vísbending um að eitthvað sé farið að gerast. Fyrir akandi borgarbúa lítur hins vegar út sem ekkert sé verið að gera. Það eru alltaf sama umferðarteppa og sömu kvartanirnar og ábendingarnar sem fólk sendir inn. Hvernig má það vera að enginn verði var við þær úrbætur sem lýst er í svari? Það vantar ákveðinn kraft í þessa vinnu – bið og seinagangur er aldrei til góðs.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um nagladekk, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 9. nóvember 2022. Einnig lagt fram svar skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dagsett 12. apríl 2023:

Rétt er sem kemur fram í svari að ný ónegld dekk eru góður kostur þegar velja á dekk undir bílinn. Þau eru góð á meðan þau eru ný. En hér þarf að miða við aðstæður í Reykjavík. Negld dekk komu betur út á ís en ónegld dekk í þeim prófunum sem vísað er til í svari – og það eru einmitt hættulegustu aðstæðurnar í umferðinni í Reykjavík. Svo er sagt að ,,Nagladekk hafa umtalsvert verri áhrif á heilsu fólks en ónegld vetrardekk”. Þessi fullyrðing hefur verið dregin í efa. Engar vísbendingar eru um að áhrifin séu mikil hér á landi. FÍB hefur ekkert á móti nagladekkjum. Þeir benda á að nagladekk eru öruggari í hálku, árekstrum fækkar og þeir sem eru á ferðinni um landið en eru búsettir í Reykjavík geti oft með engu móti verið án nagladekkja.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram að nýju tillaga áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands um að hækka samgöngustyrk, sbr. 20. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 12. apríl 2023:

Flokkur fólksins tekur undir þá tillögu að handhafar stæðiskorta verði hvattir til að senda inn kvittanir svo þau fái endurgreiðslu vegna gjalda sem þeir hafa greitt í bílastæðahús. Árið 2019 voru ný umferðarlög samþykkt þar sem skýrt er kveðið á um að handhöfum stæðiskorta sé heimilt að leggja ökutæki í gjaldskylt bifreiðastæði án greiðslu. Nú hefur verið staðfest að slík innheimta var ólögleg. Borgarlögmaður telur Bílastæðasjóð Reykjavíkur hafa gerst brotlegan við umferðarlög, og þar með á réttindi fatlaðra með því að rukka handhafa stæðiskorta fyrir notkun bílastæða í bílastæðahúsum. Fallið hefur verið frá þessari gjaldheimtu. Ljós er að brotið hefur verið á þessum hópi árum saman og er því bæði sanngjarnt og eðlilegt að endurgreiða þeim sem rukkaðir voru að ósekju. Öryrkjabandalag Íslands hefur haldið málinu á lofti og meðal annars farið fram á að aðgengis og samráðsnefnd Reykjavíkurborgar álykti um að handhafar stæðiskorta fyrir hreyfihamlaða skuli undanskildir gjaldskyldu í borgarlandinu, hvort sem er í bílastæðahúsum, bílskýlum eða undir beru lofti.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um fjarlægingu hringtorgs við JL húsið, sbr. 25. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. mars 2023.
Vísað til umsagnar skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um hreinsun í Gufunesi sbr. 28. liður fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 22. mars 2023.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu stjórnsýslu og gæða.

 

Lögð fram að nýju fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins um GAJU, sbr. 26. fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 15. mars 2023.
Vísað til umsagnar skrifstofu umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu umhverfisgæða.

 

Nýtt mál

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn um útflutning á sorpi:

Sorpa hefur nú tekið við sér og ætlar að bjóða út útflutningi á sorpi til brennslu. Gert er ráð fyrir að opna þau boð sem berast þann 25. apríl næstkomandi eins og fram kemur í svari við fyrirspurn frá Flokki fólksins um þessi mál. Sorpa hyggst hefja útflutning á brennanlegum úrgangi eins fljótt og auðið er. Þetta hefur tekið allt of langan tíma. Borið er fyrir sig reglur um opinber innkaup og kröfu um evrópska efnahagssvæðið. Fulltrúi Flokks fólksins spyr, hvenær var tekin ákvörðun um að bjóða þetta út og hversu langan tíma þetta ferli tók? Einnig er spurt hversu mikið magn er enn urðað í Álfsnesi? Hvert er heildar magn sorps sem væri hægt að flytja út til brennslu og hversu mikið magn var boðið út til brennslu? USK23040147