Umræða um hvernig leysa á mál græna “gímaldsins” vöruskemmunnar við Álfabakka (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins).
Greinargerð
Vöruskemma við Álfabakka hefur verið reist fáeinum metrum frá íbúðablokk. Í skemmunni á meðal annars að starfrækja kjötvinnslu. Sú starfsemi samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem lóðin er á Miðsvæði og er gert þar ráð fyrir verslun, skrifstofu, þjónustu og íbúðum. Þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni (15. júní 2023) var skýrt tekið fram að um væri að ræða þjónustu- og verslunarlóð.
Hluti Búsetablokkar sem þarna stendur snýr að vöruskemmunni. Þar blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur við íbúum sem horfa út um glugga sína. Fólk er eðlilega miður sín og spyr sig hvernig svona gat gerst. Engan renndi í grun um að þarna væri verið að byggja svo stórt vöruhús (skemmu) sem lokar fyrir allt útsýni frá þeim íbúðum sem vöruhúsið snýr að. Stefnt er að því að skipulagsferlið verði tekið sérstaklega út en hvenær niðurstöður liggja fyrir er með óljóst.
Reykjavíkurborg hefur viðurkennt mistök. Eigendur og hönnuðir hafa ekki gerst sekir um brotlega hegðun. Heimildir veittar af borginni voru óvenju ríflegar og rúmast framkvæmdin innan þeirra. Flestir geta þó tekið undir að vöruskemma af þessari stærðargráðu, byggð svo nærri íbúðablokk er yfirþyrmandi og andlega íþyngjandi. Málið er grafalvarlegt enda um að ræða eitt mesta skipulagsslys meirihlutans og skipulagsyfirvalda.
Staðsetning vöruskemmunar hefur áhrif á margt annað sem þarna er. Öll húsin í Árskógum eru byggingar fyrir 60 ára og eldri og sækja margir íbúanna þjónustu og félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4 en til þess þurfa íbúar að fara yfir götu. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær, þar býr fólk með göngugrindur, stuðningsstafi eða í hjólastólum. Í Búsetablokkinni er íbúakjarni fyrir fatlað fólk. Bak við húsin og við vöruskemmuna er íþróttavöllur fyrir börnin í hverfinu. Umferð stórra vöruflutningabíla er beinlínis hættuleg innan um fullorðið fólk með skerta hreyfigetu og þar sem börn eru á ferð.
Lausnir
Óskað er eftir umræðu um lausnir í þessu máli. Hvað stendur til að gera til að leysa þessa erfiðu stöðu? Á að laga græna “gímaldið” með einhvers konar breytingu eða rífa það að hluta til eða allt?
Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að stöðva hefði átt framkvæmdina strax. Borgarstjóri og formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafa sagt að finna þurfi lausn á þessu máli, að skoða eigi hvað hægt er að gera til að milda hin neikvæðu áhrif. Þess vegna er ekkert vit í því að halda áfram með framkvæmdina. Því meira byggingarefni sem sett er í skemmuna því dýrari verða breytingar.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins óttast að svæfa eigi málið, láta tímann líða svo það fenni yfir áfallið. Treysta á að fólk hætti að hugsa um þetta, hætti að gera mál úr þessu og sætti sig bara við þetta. Gefist bara upp.
Sú umræða sem hér er óskað eftir að fari fram þarf að vera lausnamiðuð. Hvaða lausnir eru á borðinu, hvaða lausnir eru í kortunum, hvaða lausnir hafa verið ræddar við íbúa Búsetablokkarinnar, við eigendur, við hönnuði? Hvað á gera í stöðunni? Finna þarf lausn sem íbúar geta unað við.
Bókun Flokks fólksins við umræðunni: