Borgarstjórn 21. janúar 2025

 

Umræða um hvernig leysa á mál græna “gímaldsins” vöruskemmunnar við  Álfabakka (að beiðni borgarfulltrúa Flokks fólksins).

Greinargerð

Vöruskemma við  Álfabakka hefur verið reist fáeinum metrum frá íbúðablokk. Í skemmunni á meðal annars  að starfrækja kjötvinnslu. Sú starfsemi samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur þar sem lóðin er á Miðsvæði og er gert þar ráð fyrir verslun, skrifstofu, þjónustu og íbúðum. Þegar borgarráð veitti heimildir fyrir uppbyggingunni (15. júní 2023) var skýrt tekið fram að um væri að ræða þjónustu- og verslunarlóð.

Hluti Búsetablokkar sem þarna stendur snýr að vöruskemmunni. Þar blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur við íbúum sem horfa út um glugga sína. Fólk er eðlilega miður sín og spyr sig hvernig svona gat gerst. Engan renndi í grun um að þarna væri verið að byggja svo stórt vöruhús (skemmu) sem lokar fyrir allt útsýni frá þeim íbúðum sem vöruhúsið snýr að.  Stefnt er að því að skipulagsferlið verði tekið sérstaklega út en hvenær niðurstöður liggja fyrir er með óljóst.

Reykjavíkurborg hefur viðurkennt mistök. Eigendur og hönnuðir hafa ekki gerst sekir um brotlega hegðun. Heimildir veittar af borginni voru óvenju ríflegar og rúmast framkvæmdin innan þeirra.  Flestir geta þó tekið undir að vöruskemma af þessari stærðargráðu,  byggð svo nærri íbúðablokk er yfirþyrmandi og andlega íþyngjandi. Málið er grafalvarlegt enda um að ræða eitt mesta skipulagsslys meirihlutans og skipulagsyfirvalda.

Staðsetning vöruskemmunar hefur áhrif á margt annað sem þarna er.  Öll húsin í Árskógum eru byggingar fyrir 60 ára og eldri og sækja margir íbúanna þjónustu og félagsstarf í þjónustumiðstöð í Árskógum 4 en til þess þurfa íbúar að fara yfir götu. Í Árskógum 2 er hjúkrunarheimilið Skógarbær, þar býr fólk með göngugrindur, stuðningsstafi eða í hjólastólum. Í Búsetablokkinni er íbúakjarni fyrir fatlað fólk. Bak við húsin og við vöruskemmuna er íþróttavöllur fyrir börnin í hverfinu. Umferð stórra vöruflutningabíla er beinlínis hættuleg innan um fullorðið fólk með skerta hreyfigetu og þar sem börn eru á ferð.

Lausnir

Óskað er eftir umræðu um lausnir í þessu máli. Hvað stendur til að gera til að leysa þessa erfiðu stöðu? Á að laga græna “gímaldið” með einhvers konar breytingu eða rífa það að hluta til eða allt?

Borgarfulltrúi Flokks fólksins telur að stöðva hefði átt framkvæmdina strax. Borgarstjóri og formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafa sagt að finna þurfi lausn á þessu máli, að skoða eigi hvað hægt er að gera til að milda hin neikvæðu áhrif. Þess vegna er ekkert vit í því að halda áfram með framkvæmdina. Því meira byggingarefni sem sett er í skemmuna því dýrari verða breytingar.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins óttast að svæfa eigi málið, láta tímann líða svo það fenni yfir áfallið. Treysta á að fólk hætti að hugsa um þetta, hætti að gera mál úr þessu og sætti sig bara við þetta. Gefist bara upp.

Sú umræða sem hér er óskað eftir að fari fram þarf að vera lausnamiðuð. Hvaða lausnir eru á borðinu, hvaða lausnir eru í kortunum, hvaða lausnir hafa verið ræddar við íbúa Búsetablokkarinnar, við eigendur, við hönnuði? Hvað á gera í stöðunni? Finna þarf lausn sem íbúar geta unað við.

Bókun Flokks fólksins við umræðunni:

Flokkur fólksins hefur ítrekað rætt og skrifað um skemmuna í Álfabakka sem reis á skömmum tíma í miðju íbúðahverfi, næst við íþróttavöll barna. Í skemmunni á m.a. að starfrækja kjötvinnslu sem samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur. Staðfest hefur verið að lóðin sé þjónustu- og verslunarlóð. Út um glugga hluta Búsetablokkar sem þarna stendur blasir 13 metra hár grænn gluggalaus veggur. Í þessum skrifuðu orðum eru framkvæmdir skemmunnar í fullu gangi. Því meira byggingarefni sem sett er í skemmuna því dýrari verða breytingar. Ef ekki stendur til að rífa skemmuna þarf að gjörbreyta henni, lækka t.d. verulega norðurhlutann sem skyggir á útsýni í Búsetablokkinni. Þar er einnig innkeyrsla með tilheyrandi mengun og slysahættu. Aðrar hugmyndir snúa að umhverfinu og Búsetablokkinni og eru það hugmyndir sem aldrei munu geta talist fullnægjandi. Ákall er um að skemman verði rifin og flutt annað. Örskamman tíma tók að setja húsið saman enda er um forsmíðaðar einingar að ræða. Niðurrif ætti einnig að geta gengið hratt fyrir sig. Borgin ber mestu ábyrgðina á þessari hörmung en þeir sem hönnuðu og settu upp húsið bera einnig mikla ábyrgð. Þeir einir vissu hvernig húsið myndi líta út.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagt fram bréf velferðarsviðs, dags. 15. janúar 2025, sbr. samþykkt velferðarráðs frá 15. janúar 2025, á endurskoðaðri aðgerðaáætlun með stefnu í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir, ásamt fylgiskjölum, sbr. 10. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar 2025.

Stefna í málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir var samþykkt árið 2019 en aðgerðaáætlunin með henni fór síðan tveimur árum síðar í endurskoðun. Margt hefur áunnist svo sannarlega, 29 aðgerðum er lokið. Fimm eru í ferli. Flokkur fólksins vísaði tveimur tillögum til stýrihópsins, annarri um aukinn opnunartíma neyðarskýla. Flokkur fólksins lagði líka til að bæta og efla heilbrigðisþjónustu við þennan hóp. Í kjölfar samtals við ríki samþykkti ráðuneytið að ráðstafa 30 m.kr. til að tryggja heimilislausu fólki betra aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er verkefni að fá önnur sveitarfélög til að sinna þessum málum. Fólk sem er heimilislaust með miklar og flóknar þjónustuþarfir er jaðarsett í okkar samfélagi og er það skylda okkar sem samfélag að hið opinbera ríki og öll sveitarfélög taki höndum saman um að koma í veg fyrir að fólk lendi í þessum aðstæðum og samþykkja viðbragðsáætlun um hvernig bregðast skal við heimilisleysi. Nú þurfa önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að setja fram áætlanir um viðbrögð við heimilisleysi einstaklinga með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem hafa lögheimili utan Reykjavíkur en sækja þjónustu til höfuðborgarinnar. Engar úrbætur hafa verið gerðar af hálfu umræddra sveitarfélaga í kjölfar þessarar vinnu sem bendir til áhugaleysis sveitarfélaganna til úrbóta.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fram fer umræða um flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli.

Umræða um flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli í tengslum við kröfu Isavia um að Reykjavíkurborg felli stóran fjölda hárra trjáa í Öskjuhlíð sem metin eru að ógni flugöryggi. Verði ekki brugðist við muni þurfa að loka annarri flugbrautinni. Flokkur fólksins telur að bregðast þurfi við þessu. Fátt annað er hægt að gera en að fjarlægja þessi háu tré. Setja má niður þess í stað lægri tré og trjágróður eins og t.d. lauftré eða birki, reynivið, selju, hlyn og gullregn. Allar tegundir koma til greina sem ekki vaxa beint upp heldur líka til hliðar sem gerir það að verkum að auðvelt er að hindra hækkun þeirra sem ekki er hægt að gera þegar um sitkagreni er að ræða. Mörgum þykir þetta miður en flugöryggi verður ávallt að ganga fyrir. Fram kemur í erindinu frá Isavia að í undangengnu samkomulagi milli ríkis og borgar um framtíð og hlutverk Reykjavíkurflugvallar hefur verið ákvæði um að fara þurfi í trjáfellingar í Öskjuhlíð en Reykjavíkurborg hefur aðeins framkvæmt lítinn hluta af því verkefni. Nú er svo komið að trjágróður í Öskjuhlíð er farinn að verða raunveruleg öryggisógn gagnvart loftförum í aðflugi að braut 31 og brottflugi frá braut 13 og ekki er hægt að una við það.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2025-2028, ásamt fylgiskjölum, sbr. 2. lið fundargerðar forsætisnefndar frá 17. janúar.

Ef aðgerðaáætlun á að vera skilvirk og árangursrík þarf hún að byggja á góðri og málefnalegri stefnu. Sá málaflokkur sem hér um ræðir er einn sá mikilvægasti í okkar samfélagi nú. Áhyggjur eru af vaxandi ofbeldi, ekki síst meðal ungmenna. Nýlega lagði borgarfulltrúi fram tillögu um að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs og -sviðs að það hefji endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru. Tillagan er lögð fram að gefnu tilefni. Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem börn hafa orðið fyrir aðkasti, áreiti, áreitni og jafnvel grófu ofbeldi, t.d. inni á salernum skóla borgarinnar. Skólar borgarinnar þurfa aukinn stuðning frá borgaryfirvöldum til að takast á við vaxandi ofbeldi innan skóla borgarinnar. Spyrna þarf fótum við þessari vá hið snarasta. Áhyggjur eru einnig af vaxandi ofbeldi meðal eldra fólks. Borgarstjórn getur gert almennt betur í að greina hvað betur má fara og hvar og í framhaldi setja á laggirnar skilvirka aðgerðaáætlun.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Flokkur fólksins hefur alla tíð viljað meira samtal og samráð á milli íbúa og borgaryfirvalda og því styður Flokkur fólksins þessa tillögu að kalla eftir ábendingum frá borgarbúum um hvernig bæta megi þjónustu borgarinnar. Það hlýtur að vera gagnlegt fyrir borgarstjórn að fá ábendingar frá íbúum um hvað betur megi fara í borginni. Undanfarin ár hefur borgarstjórn hunsað gagnrýni borgarbúa sem hafa birst með ýmsum hætti. Það er gagnlegt að koma þessum ábendingum í ákveðinn farveg og vonandi vill borgarstjórn heyra frá borgarbúum.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 9. janúar 2025 og 16. janúar 2025. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 34. lið fundargerðar borgarráðs frá 16. janúar:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill sérstaklega vekja athygli á tillögu sem flokkurinn lagði fram í borgarráði 16. janúar og laut að eineltisstefnu í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Lagt var til að borgarráð samþykki að beina því til skóla- og frístundaráðs að hefja endurskoðun á eineltisstefnu og viðbrögðum grunnskóla Reykjavíkurborgar við einelti og öðru ofbeldi. Í endurskoðuninni skal huga að því að tímabært er að auka eftirlit utan skólastofunnar í grunnskólum borgarinnar, svo sem á göngum, salernum og jafnvel einnig í útiveru. Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem börn hafa orðið fyrir aðkasti, áreiti, áreitni og jafnvel grófu ofbeldi t.d. inni á salernum skóla borgarinnar. Þetta hefur borgarfulltrúi Flokks fólksins fengið upplýsingar um. Skólar borgarinnar þurfa aukinn stuðning frá borgaryfirvöldum til að takast á við vaxandi ofbeldi innan sumra skóla borgarinnar. Spyrna þarf fótum við þessari vá hið snarasta. Kalla þarf eftir upplýsingum frá foreldum og samvinnu við foreldrasamfélagið um þessi mál, þróun og lausnir.

 

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Lögð fram fundargerð forsætisnefndar frá 17. janúar, mannréttinda- og ofbeldisvarnarráðs frá 12. desember 2024, menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 10. janúar, skóla- og frístundaráðs frá 13. janúar, umhverfis- og skipulagsráðs frá 15. janúar og velferðarráðs frá 15. janúar. Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið fundargerðar forsætisnefndar:

Ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins, var kjörin til setu á Alþingi 30. nóvember sl. Undir þessum lið um lausnarbeiðni vil ég nota tækifærið og þakka borgarstjórn, starfsfólki Ráðhússins og Borgartúns samstarfið. Ég vil einnig þakka öllum þeim borgarbúum og öðrum sem ég hef átt samskipti við í þau tæpu sjö ár sem ég hef verið oddviti og borgarfulltrúi í Reykjavík. Starfið hefur verið lærdómsríkt og ríkt af krefjandi verkefnum. Ég hef lagt mig alla fram í starfi mínu sem borgarfulltrúi og vona að verk mín og verkefni hafi nýst borgarbúum og Reykjavíkurborg til góðs. Ég fer frá borði rík af reynslu og þekkingu og er full tilhlökkunar að takast á við nýtt starf á sviði landsmála. Reynsla mín sem borgarfulltrúi mun án efa nýtast mér vel á nýjum vettvangi. Ég vil óska borgarstjórn velfarnaðar í þeim verkefnum sem hún tekst á við um þessar mundir og öðrum sem koma. Sem Reykvíkingur í húð og hár mun ég sem fyrr ávallt bera hag borgarinnar og borgarbúa fyrir brjósti. Ég vil að lokum óska arftaka mínum Helgu Þórðardóttur velfarnaðar í nýju hlutverki hennar sem oddviti Flokks fólksins í Reykjavík.