Borgarstjórn 4. apríl 2023

Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Fundargerð borgarráðs frá 30. mars sl.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 31. lið fundargerðarinnar:

Flokkur fólksins telur það brýnt að starfsmenn sem eru í beinum samskiptum við borgarbúa hafi grundvallarfærni í íslensku, nauðsynlegan grunnskilning og talkunnáttu. Árið 2017 var samþykkt í borgarstjórn heildstæð málstefna fyrir Reykjavíkurborg. Í stefnunni segir að starfsfólk, sem er í beinum samskiptum við borgarbúa, skuli hafa grundvallarfærni í íslensku. Jafnframt segir í málstefnunni að starfsfólk borgarinnar, með annað móðurmál en íslensku, skuli eiga kost á hagnýtum íslensku námskeiðum og einnig skulu símenntunarnámskeið í íslensku vera í boði fyrir alla starfsmenn. Samkvæmt lið 9.2 í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar vill borgin koma í veg fyrir hvers konar mismunun varðandi starfsaðstæður, starfsþróun og símenntun fólks af erlendum uppruna. Flokkur fólksins vonar sannarlega að verið sé að fylgja þessum stefnum til hins ýtrasta. Flokkur fólksins hefur fengið margar ábendingar um samskiptavandamál um borð í strætisvögnum, sem rekja má til tungumálaörðugleika eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins kemst næst. Minnt er á þjónustustefnu Strætó en í henni er lögð áhersla á að Strætó skuli veita framúrskarandi þjónustu. Flokkur fólksins telur afar mikilvægt að strætóbílstjórar fái viðeigandi undirbúning og sé gefinn kostur á starfstengdu íslenskunámi eins og hver og einn þarf til að geta liðið vel í starfi sínu sem strætóbílstjóri.

 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Því skal haldið til haga að Strætó bs. er með virka fræðslustefnu og hefur síðastliðin ár verið í samvinnu við Retor fræðslu um íslenskukennslu starfsmanna. Flestir starfsmannanna hafa nú lokið einu til þremur stigum í íslenskunámi.

 

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun

Flokkur fólksins lagði fram þessa tillögu vegna þess að margir hafa haft samband og kvartað. Því eru efasemdir um að Strætó sé að fylgja fræðslustefnu sinni til hins ýtrasta. Gera þarf betur í þessu málum og jafnvel að endurskoða fræðslustefnuna þannig að starfsmönnum sé tryggð meiri þjálfun í íslensku.

 

Bókun Flokks fólksins leggur fram bókun undir liðnum: Lagðar fram fundargerðir, 9. liður, fundargerð skóla og frístundaráðs frá 27. mars 2023:

Flokkur fólksins lagði hér til að Reykjavíkurborg tæki Hafnarfjarðarbæ sér til fyrirmyndar hvað varðar kjör leikskólakennara. Hafnarfjarðarbær er fyrst sveitarfélaga að samræma starfstíma í leik- og grunnskólum. Þessi breyting var unnin í samvinnu Hafnarfjarðarbæjar, leikskólakennara bæjarins og Félags leikskólakennara. Kosið var um fulla styttingu, eða 36 stundir á viku. Svo virðist sem aðgerðir sveitarfélagsins um styttingu vinnutímans og samstillingu skólastiganna séu þegar farnar að skila sér með fjölgun leikskólakennara. Vegna  mikillar manneklu og skorti á fagfólki í leikskólum borgarinnar telur Flokkur fólksins ríka ástæða til að Reykjavíkurborg taki upp samtal við félag leikskólakennara og kennara í leikskólum borgarinnar líkt og Hafnarfjarðarbær gerði. 1. liður; um er að ræða tilraunaverkefni um ágústfrístund fyrir börn sem eru að ljúka leikskóla og hefja grunnskólagöngu. Það kemur fram í umsögn framkvæmdastjóra frístundamiðstöðva að mannekla hái starfseminni og m.a. af þeim ástæðum eru settar fram efasemdir um þetta tilraunaverkefni. Flokkur fólksins telur að þegar farið er af stað með stórar breytingar eins og ágústfrístund þá sé mikilvægt að vinna undirbúningsvinnuna í góðu samráði og samstarfi við hagsmunaaðila. Það virðist ekki hafa verið gert og hvetur Flokkur fólksins aðila að bæta úr því.