Tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra í ljósi manneklu á leikskólum
Borgarstjórn Reykjavíkur 7. febrúar 2023
Tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir leikskólaplássi í ljósi manneklu á leikskólum
Lagt er til að á meðan Reykjavíkurborg getur ekki veitt yngstu börnunum leikskólapláss sé foreldrum boðnar heimgreiðslur þ.e. mánaðarlegan styrk á meðan að beðið er eftir leikskólaplássi. Þetta úrræði væri val fyrir foreldra fyrstu tvö ár barnsins. Einhverjir foreldrar hafa tækifæri til að vera heima hjá barni sínu fyrstu misserin og geta vel hugsað sér að þiggja mánaðarlegar greiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta á biðlistum leikskólanna sem eru í sögulegu hámarki vegna manneklu, myglu í leikskólahúsnæði og seinkun á verkefninu Brúum bilið.
Greinargerð með umræðunni
Mikil fjölgun hefur verið á umsóknum og má helst rekja vandann til húsnæðisskorts og manneklu. Mannekla er vandi við uppbyggingu leikskólakerfisins í Reykjavík og hefur loðað við leikskóla borgarinnar árum saman. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll til borgarfulltrúa vegna ástandsins í leikskólum borgarinnar. Heyrst hefur að leikskólar sendi börn heim vikulega eða jafnvel oftar vegna manneklu. Þjónusta við foreldra barna í leikskóla hefur farið hríðversnandi undanfarin misseri. Opnunartímar hafa verið skertir og sérhvern dag eru foreldrar í óvissu með hvort barnið þeirra fái að vera út daginn á leikskólanum eða hvort það geti sótt leikskólann alla virka daga vikunnar.
Mannekla er einna helst vegna mikils álags, slæmrar starfsaðstöðu og lágra launa. Það er ábyrgð meirihlutans að leysa þennan vanda og ætti það að vera auðsótt sé vilji fyrir hendi. Mannekla í leikskólum og öðrum sambærilegum störfum er mannanna verk en ekki eitthvað lögmál.
Störf í leikskóla eru ekki eftirsótt og er ljóst að hugsa þarf út fyrir boxið til að finna leiðir til að laða fært fólk til starfa. Ekki gengur til lengdar að foreldrar ungra barna gangi stöðugt um með kvíðahnút í maganum og að starfsfólk leikskólanna sé að bugast vegna mikils álags í starfi. Mörg hundruð börn bíða eftir leikskólaplássi.
Margir foreldrar búa við mikla óvissu og mikilvægt er að sveitarfélög komi til móts við þá með öllum ráðum. Flokkur fólksins telur að heimgreiðslur til foreldra geti verið hluti af mótvægisaðgerðum á meðan ástandið er svo slæmt í leikskólamálum borgarinnar sem raun ber vitni. Framsóknarflokkurinn hefur sagst viljað skoða heimgreiðsluúrræðið og tjáði sig um þann vilja sinn í aðdraganda kosninga. Flokkur fólksins vill hvetja Framsóknarmenn til að fylgja eftir orðum sínum og skoða þetta úrræði fyrir alvöru.
Sveitarfélög víða um land eru komin fram úr Reykjavík, bæði við að eyða biðlistum og bæta þjónustu við börnin og foreldrana. Dæmi eru um leikskóla með gjaldfrjálsan mat og jafnvel einstök sveitarfélög hafa fellt niður leikskólagjöld. Ýmis sveitarfélög hafa nú þegar hafið heimgreiðslur til foreldra t.d. Rangárþing Ytra og Ölfus. Nú hefur Hafnarfjörður bæst í hópinn en frá og með 1. janúar 2023 geta foreldrar barna í Hafnarfirði sem náð hafa 12 mánaða aldri sótt um heimgreiðslur sem nema sömu upphæð og almenn niðurgreiðsla með börnum hjá dagforeldri. Reykjavík getur varla verið eftirbátur Hafnarfjarðar.
Með heimgreiðslukerfi eins og hér er lýst er komið til móts við óskir foreldra um fleiri leiðir til að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær pláss í leikskóla. Mikil seinkun hefur orðið á verkefninu Brúum bilið og því þarf að brúa það með öðrum hætti.
Góð og gagnleg umræða hefur verið í samfélaginu um mikilvægi tengsla og samveru barns og foreldra fyrstu árin. Þessi tillaga Flokks fólksins um heimgreiðslur rímar afar vel við þá umræðu. Eftir að fæðingarorlofi foreldra lýkur er mikilvægt að foreldrar hafi val um fjölbreyttar leiðir fyrir börn sín sem hentar hverjum og einum þar til barnið hefur fengið boð um leikskólapláss.
Sú staða sem er uppi í Reykjavík veldur streitu og kvíða hjá foreldrum. Óvissan er að sliga marga foreldra og er einnig óbærileg fyrir starfsmenn leikskólanna. Bregðast þarf við þessari neyð strax og tína til öll úrræði sem finnast í verkfærakistunni. Þetta ástand kemur sérlega illa niður á foreldrum með lágar tekjur og sem eru ekki með stuðning fjölskyldu. Ungir foreldrar eru ekki allir með foreldra sína og stórfjölskyldu í Reykjavík til að hlaupa undir bagga. Fjölmargar fjölskyldur eru búnar að nýta öll úrræði sem þeim býðst og hafa engin frekari ráð til að fá pössun fyrir börn sín. Hvernig eiga foreldrar að geta stundað vinnu sína? Í ljósi þessara þátta er mikilvægt að skoða með opnum huga tillögu Flokks fólksins um heimgreiðslur. Því fjármagni sem úrræðið krefst er vel varið og hefur jákvæð áhrif á fjölmargt annað þessu tengt.
Bókun Flokks fólksins við afgreiðslu málsins.
Kostur gafst á tveimur bókunum þar sem tillagan var tekin með tillögu Sjálfstæðisflokks:
Bókun 1
Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til í borgarstjórn að foreldrar yngstu barnanna hafi val um að þiggja heimgreiðslur meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Fyrsta tillaga þess efnis var snemma á síðasta kjörtímabili og var kosningaloforð Flokks fólksins 2018 og 2022. Þá fékk þessi tillaga litla áheyrn en hefur nú öðlast vinsældir hjá öðrum flokkum.. Flokkur fólksins vill sjá þetta úrræði sem val fyrir foreldra sem hafa tök á að vera heima með barn sitt lengur eftir fæðingarorlof. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta álagi vegna manneklu og stytta biðlista leikskólanna. Allt of fátt hefur staðist sem lofað var í leikskólamálum. Hvorki voru ný leikskólapláss tilbúin sem lofað hafði verið, né hefur meirihlutinn ráðið við að leysa mannekluna. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Leikskólar senda börn heim vikulega eða jafnvel oftar vegna manneklu. Þjónusta við foreldra barna í leikskóla hefur farið hríðversnandi undanfarin misseri. Opnunartímar hafa verið skertir og sérhvern dag eru foreldrar í óvissu með hvort barnið þeirra fái að vera heilan dag á leikskólanum. Með heimgreiðslukerfi er komið til móts við óskir foreldra um fleiri leiðir til að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær pláss í leikskóla.
Bókun 2
Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til í borgarstjórn að foreldrar yngstu barnanna hafi val um að þiggja heimgreiðslur meðan beðið er eftir leikskólaplássi. Fyrsta tillaga þess efnis var snemma á síðasta kjörtímabili og var kosningaloforð Flokks fólksins 2018 og 2022. Þá fékk þessi tillaga litla áheyrn en hefur nú öðlast vinsældir hjá öðrum flokkum.. Flokkur fólksins vill sjá þetta úrræði sem val fyrir foreldra sem hafa tök á að vera heima með barn sitt lengur eftir fæðingarorlof. Heimgreiðsluúrræðið myndi létta álagi vegna manneklu og stytta biðlista leikskólanna. Allt of fátt hefur staðist sem lofað var í leikskólamálum. Hvorki voru ný leikskólapláss tilbúin sem lofað hafði verið, né hefur meirihlutinn ráðið við að leysa mannekluna. Foreldrar, starfsfólk leikskóla og leikskólastjórar senda ítrekuð áköll en hafa ekki haft erindi sem erfiði. Leikskólar senda börn heim vikulega eða jafnvel oftar vegna manneklu. Þjónusta við foreldra barna í leikskóla hefur farið hríðversnandi undanfarin misseri. Opnunartímar hafa verið skertir og sérhvern dag eru foreldrar í óvissu með hvort barnið þeirra fái að vera heilan dag á leikskólanum. Með heimgreiðslukerfi er komið til móts við óskir foreldra um fleiri leiðir til að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur þar til barn fær pláss í leikskóla.
Bókun Flokks fólksins undir liðnum: Umræða um samkeppnishæfni borga (að beiðni borgarfulltrúa Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar):
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: Reykjavík getur varla orðin samkeppnishæf borg nema farið verður að sinna börnum borgarinnar almennilega og sjá til þess að öll börn fái þörfum sínum mætt. Það er alveg sama hvað gera á flottar byggingar og torg eða setja háleit markmið í stafrænum lausnum þá situr sú borg ávallt með þeim neðstu á meðan mörg hundruð börn í vanda fá ekki hjálp. Reykjavík stendur ekki jafnfætis öðrum borgum þegar kemur að almenningssamgöngum. Þjónusta Strætó er skert og því ekki valkostur nema fyrir takmarkaðan hóp. Sífellt er kvartað yfir stappinu með Klapp greiðslukerfið en erlendir ferðamenn eiga einmitt í mesta basli með það.
Til að Reykjavíkurborg geti laðað til sín ungt fólk þá þarf að auka framboð á ódýru húsnæði. Eins og staðan er í dag þá flýja ungar fjölskyldur í nærliggjandi sveitarfélög.
Auðvitað er margt gott í Reykjavík, allavega fyrir þá sem eiga öruggt heimili og fyrir þá sem komast á milli staða innan borgarinnar án vandkvæða. Nauðsynlegt er að einfalda kerfið, rekstrarumhverfi og minnka flækjustig til að verktakar vilji byggja í borginni.
Ójöfnuður hefur aldrei verið meiri. Þessu þarf að breyta ef borgin ætla að “tikka” í öll box. Flokkur fólksins vill standa vörð um íslenskuna sem samskiptamál og sem fyrsta mál
Bókun Flokks fólksins undir liðunum: Fundargerð borgarráðs 2. feb.
Liður 5 Vesturbæjarlaug
Færa á lóðarmörk við Einimel 18-26 sem nemur 3,1 m og minnkar lóð Vesturbæjarlaugar sem því nemur. Leyfa á stækkun lóða sem gengur á almennt grænt svæði og minnka möguleikana á að skapa fjölbreytt útivistarsvæði við Vesturbæjarlaug.
Liður 1 fundargerð heilbrigðisnefndar:
Reykjavíkurborg hefur gefið aftur út starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur og skotvöll Skotreynar á Álfsnesi þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála eftir kærur tveggja hópa íbúa frá 24. september 2021 þar sem starfsleyfið var fellt úr gildi. Kjalnesingar töldu að þeir væru endanlega búnir að fá úrlausn málsins með birtingu úrskurðar kærendum í hag. Íbúar hafa sent samtals 7 kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og hafa allir úrskurðir fallið kærendum í hag.
Liður 2 embættisafgreiðslur:
Foreldrum var synjað um systkinaafslátt fyrir skólamáltíð. Um er að ræða foreldra með sameiginlegt forræði þriggja barna sem eru með skipta búsetu og skipta því kostnaði samkvæmt lögum. Lögheimili er hjá báðum foreldrum. Erindið var lengi hunsað en síðan hafnað með þeim rökum að börn sem eiga tvö heimili sé ekki með sama “fjölskyldunúmer”. Nú þegar liggur fyrir að skóla- og frístundasvið þarf að lúta lögum eins og aðrir er mikilvægt að afslátturinn sé afturvirkur frá því lögin tóku gildi.
Bókun Flokks fólksins undir fundargerð Stafræns ráðs 6. liðar:
Eins mikið og þjónustu- og nýsköpunarsvið langar að ná hæstu hæðum á erlendri grund þá er það undarlegt að ekki enn er komið á koppinn almennilegt innskráningarferli í leikskóla. Skýringin er sögð að “stafræna umbreytingarverkefnið” er unnið út frá notendamiðaðri hönnun þar sem ferlar eru greindir og rætt við foreldra og starfsfólk til að skilja betur þeirra upplifun af ferlinu”. Af svari að dæma mætti halda að foreldrar og starfsfólk séu eitthvað öðruvísi en foreldrar og starfsfólk í öðrum sveitarfélögum þar sem rafrænt innskráningarferli í leikskóla er fyrir löngu komið í virkni. Það er ekki annað en hægt að draga þá ályktun í ljósi þessa að tæknilega hliðin sé eitthvað að vefjast fyrir ÞON, eða að búið er að flækja sig í einhverjum smáatriðum. Það þarf ekki að fara fjallabaksleið að öllum hlutum. Hér erum við að tala um hjól sem er fyrir löngu búið að finna upp og sem hefur rúllað víðast annars staðar í nokkurn tíma. Flokkur fólksins hvetur ÞON að horfa á markmiðið, hafa heildarsýn og reyna að vinna með skilvirkum hætti. Tími kostar peninga. Notendamiðaðar rannsóknir/hönnun eru sjálfsagðar þar sem þær eiga við.