Brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð

Fulltrúi Flokks fólksins rakti helstu vanefndir þessa meirihluta á fundi borgarstjórnar 5. október sl. með því að fara í gegnum meirihlutasáttmála þeirra.
Íbúðaskortur og biðlistar er kjarninn í vanefndum þessa meirihluta sem er þvert á það sem stendur í meirihlutasáttmálanum þar sem segir að byggja eigi sem aldrei fyrr. Samt hafa aldrei verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017. Ástæðan er skortur á lóðaframboði. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu á þéttingarreitum. Margir sérfræðingar hafa stigið fram og bent á þetta, t.d. Samtök iðnaðarins sem og seðlabankastjóri sem nefndi að brjóta þyrfti land í Reykjavík undir byggð. Nú eru eingöngu um 3400 íbúðir í byggingu en byggja þarf árlega 3000-3500 nýjar íbúðir ef vel ætti að vera.

Aðrar vanefndir
Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða.
Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk á ekki mikið eftir milli handanna þegar búið er að borga leiguna. Hópurinn sem leitar til hjálparstofnana hefur stækkað. Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu þrefaldast og nú bíða 1448 börn á listanum. Á sama tíma sýna kannanir að andleg líðan barna fer versnandi.

Ekki voru efnd loforð um sveigjanleg starfslok eldra fólks. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá. Grænum áherslum hefur verið hampað á meðan metan er brennt á báli í stórum stíl. Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í alls konar stafræn tilraunaverkefni til að borgin geti verið stærst og mest á heimsmælikvarða. Fátt er um afurðir, hvar er t.d. „Hlaðan“ og Gagnsjáin, nýtt skjala- og upplýsingakerfi sem átti að koma í notkun fyrir 2 árum.
Ekki skal undra ef einhverjir eru farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.
www.kolbrunbaldurs.is

Birt í Fréttablaðinu 7. október 2021