Byrjað að telja niður til næstu borgarstjórnarkosninga!

Hálft ár er til næstu borgarstjórnarkosninga. Ef litið er á meirihlutasáttmála Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna kemur í ljós að margt sem þar er nefnt hefur ekki verið gert á kjörtímabilinu. Síst ber þó að vanmeta það sem gert hefur verið  af góðum hug svo því sé haldið til haga. En þjónusta við fólkið sjálft hefur ekki verið í forgangi. Þarfir fólksins og hvernig þeim er mætt á að vera fyrst í forgangsröðinni og síðan allt hitt eins og við í Flokki fólksins segjum.

Íbúðaskortur og biðlistar

Borgin er í vexti en samt hafa ekki verið færri íbúðir á markaði í Reykjavík frá 2017 og sölutími fasteigna er í sögulegu lágmarki. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á lóðaframboði hjá Reykjavíkurborg. Slegist er um hverja eign. Sérstaklega er skortur er á hagkvæmu húsnæði og sérbýlum. Lóðaskorturinn kemur í veg fyrir hagkvæma húsnæðisuppbyggingu og hagkvæm hús verða ekki byggð á þéttingarreitum. Langur biðlisti er eftir félagslegri leiguíbúð og sértæku húsnæði fyrir fatlaða.

Fátækt er vandamál í Reykjavík. Lágtekjufólk, sem oft er öryrkjar og einstæðir foreldrar á leigumarkaði, á iðulega ekki eftir krónu þegar búið er að borga leiguna. Þetta fólk er nauðbeygt til að setja allt sitt traust á hjálparstofnanir.

Þjónustu við börn er ábótavant og biðlistar eftir sálfræðingum og talmeinafræðingum eru t.d. í sögulegu hámarki. Á þremur árum hefur biðlisti eftir fagfólki í skólaþjónustu nærri þrefaldast og nú bíða 1448 börn eftir fagþjónustu Skólaþjónustunnar.

Ef horft er til eldri borgara þá hafa hugmyndir um sveigjanleg starfslok og loforð um virka þátttöku þeirra sem hafa verið utan vinnumarkaðar ekki verið efnd. Atvinnutækifæri fatlaðs fólks og fólks með skerta starfsgetu eru sárafá.

Grænum áherslum hampað meðan metan er brennt á báli!

Meirihlutinn talar um hjól sem samgöngutæki en innviðum er ábótavant. Hleðslustöðvar hafa ekki verið settar nógu víða þrátt fyrir ríka áherslu um að flýta orkuskiptum. Ekki hefur dregið úr svifryki og umferðarteppur með tilheyrandi mengun og ljósastýringarvandamál hafa aldrei verið í eins miklum ólestri og einmitt nú.

Talað er um grænar áherslur, en á sama tíma og sagt er að stefna skuli að því að Reykjavík verði kolefnishlutlaus borg fyrir árið 2040, er verið að brenna metani á báli í stórum stíl!

Hvar er „Hlaðan“?

Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Vinstri græn spyrja ekki um kostnað við innleiðingu á stafrænni tækni. Peningaupphæðin sem þjónustu- og nýsköpunarsvið fær á þremur árum er 10 milljarðar króna! Fá af þeim stafrænum stórverkefnum sem koma átti í virkni á tímabilinu hafa litið dagsins ljós. Þar má nefna „Hlöðuna“ og „Gagnsjá“.

Ævintýralegar upphæðir hafa streymt í alls konar tilraunarverkefni. Enn er beðið eftir „Hlöðunni“, nýju upplýsingastjórnunarkerfi borgarinnar, sem líta átti dagsins ljós 2019 en hefur ekki enn tekist að innleiða m.a. vegna meintra öryggisvandamála. Annað stórverkefni sem ekki hefur klárast en sem stórar fjárhæðir hafa farið í er „Gagnsjáin“, nýtt skjala- og upplýsingakerfi og endurhönnun svokallaðra „Minna síðna“. Gagnsjánni er lýst þannig að með henni taki borgin frumkvæði að enn ítarlegri upplýsingamiðlun til íbúa sinna.
„Taka frumkvæð!“? Hvernig er hægt að vera frumkvöðull í einhverju sem er nú þegar er til og í notkun nánast hvert sem litið er? Allt of miklum tíma og fjármagni hefur verið eytt í að finna upp hjólið í gegnum ómarkvissar tilraunasmiðjur sem hafa ekki skilað neinu sem ekki er nú þegar til. En mjög hefur verið gumað af ímynduðum árangri.

Ævintýramennska og oflátungsháttur blinda sýn

Stafrænar lausnir eru framtíðin, um það er ekki deilt, en meirihlutinn hefur látið plata sig í þessum málum. Stafræn ævintýramennska hefur blindað þeim sýn. Í stað þess að útvista hugbúnaðarþróun og halda eftir innri tölvuþjónustu við notendur sem og annarri grunnþjónustu er farin þveröfug leið. Búið er að eyða  hundruðum milljóna í erlenda og innlenda ráðgjöf sem hvergi er hægt að sjá að hafi skilað sér beint til borgarbúa. Þetta á sér vart hliðstæðu í opinberri stjórnsýslu. Ráðnir hafa verið tugir sérfræðinga á ýmsum sviðum, stærra húsnæði tekið á leigu og stórum upphæðum eytt í uppfærslur á búnaði og aðstöðu eins sviðs.

Þannig er með ýmis önnur stafræn verkefni sem virðast föst á tilraunastigi þótt að tilbúnar lausnir sé að finna allt um kring, hjá bæði einkafyrirtækjum og hinu opinbera. Hér má nefna „Stafrænt Ísland“ sem bíður sveitarfélögum upp á samvinnu og samstarf. Á island.is eru 240 Mínar síður. Fulltrúi Flokks fólksins hefur lengi gagnrýnt verklag borgarinnar og þessa aðferðarfræði. Fleiri aðilar eins og Samtök iðnaðarins hafa stigið fram með sambærilega gagnrýni.

Kannski er ekki að undra að einhverjir séu farnir að telja niður þetta kjörtímabil í þeirri von að nýr meirihluti breyti forgangsröðun verkefna í þágu þjónustu við fólk, börn, öryrkja og eldri borgara. Miklu fjármagni hefur verið eytt í óþarfa og hreina vitleysu. Sumum óheillavænlegum ákvörðunum meirihlutans verður ekki snúið við.
Greinin er birt í Morgunblaðinum 7. október 2021