„Ég er bara að djóka“ eða “grín” heyrist býsna oft, einkum meðal barna og unglinga en einnig stundum hjá fullorðnum. Þessi setning er gjarnan sögð í kjölfarið á einhverri athugasemd í þeim tilgangi að draga úr mögulega neikvæðum áhrifum sem athugasemdin gæti haft á viðkomandi aðila. Þegar á eftir fylgir „ég er bara að djóka“ eða “ég er bara að grínast” er stundum eins og eitthvað neikvætt sé undirliggjandi. Það sem sagt er með djók, eða grínívafi er náttúrulega stundum fátt annað en „smá skot“, og getur virkað á hinn aðilan sem móðgandi eða særandi athugasemd(ir).
Hvatar að baki þess að segja „ég er bara að djóka“ geta verið allt frá því að vera kaldhæðinn húmor, biturleiki, kvikindisskapur, hatursfullar hugsanir eða bara afbrýðisemi. Stundum er viðkomandi að reyna að vera fyndinn í augum félaganna og gerir það með þessum hætti, en þá á kostnað einhvers annars. Sá sem bætir við „ég var bara að djóka“ vill nefnilega ekki fá neinn bakreikning, t.d. að verða ásakaður um að hafa viðhaft neikvæða eða særandi framkomu. Verði hann krafinn skýringa segir hann einfaldlega „já en ég var bara að djóka“. Skilaboðin eru „ekki taka það sem ég var að segja OF alvarlega en ég meinti það kannki samt“.
Sennilega er þetta ekki svo háalvarlegt nema ef ekki sætu oft eftir blendnar tilfinningar hjá „hinum aðilanum“.
Sennilega er þetta ekki svo háalvarlegt nema ef ekki sætu oft eftir blendnar tilfinningar hjá „hinum aðilanum“. Hugsunin og tilfinningin um að kannski hafi verið heilmikil meining og alvara að baki orðunum sem sögð voru situr eftir og vangaveltur um hvort eigi að taka athugasemdinni sem gríni eða alvöru. Hver svo sem niðurstaðan verður í huga viðkomandi skilja tjáskipti af þessu tagi oft eftir sig slæma tilfinningu. Öllu gríni fylgir jú oft einhver alvara.
En auðvitað verður að vera hægt að gantast eða spauga og sannarlega er gott að temja sér að taka sig ekki of hátíðlega. En börn eru börn og þau hafa ekki alltaf þroska til að vinna úr því sem sagt er í “djóki” eða “gríni”. Orð bera alltaf einhverja ábyrgð. Ef neikvæð, jafnvel þótt sett fram í gríni, eiga þau það til að lifa lengur en þægilegt er, gera usla og raska sálarró.
Foreldrar og kennarar sem heyra börn nota þetta mikið, ættu að benda þeim á að þau gætu verið að særa þann sem þau tala við og að „djókinu“ sé ekki endilega tekið sem slíku. Hægt er að hvetja þau til hugsa hvað þau eru að segja og spyrja sig hvort þau myndu vilja láta “djóka” svona með sig. Hreinskiptin samskipti eru auðvitað það sem hlýtur að vera eftirsóknaverðast að tileinka sér ef horft er til almennra samskipta manna á milli. Hæfni til að greina á milli þess hvað hægt er að segja án þess að særa og hvað best er að láta kyrrt liggja kemur með þroska og er einnig liður í almennu grunnuppeldi.
Kennum börnum okkar að hafa aðgát í nærveru sálar að leiðarljósi. Börn og fullorðnir hafa gott af því að rifja upp tvennt í þessu sambandi:
Hugsa áður en talað er og prófa sem oftast að setja sig í spor annarra.