Einelti, ein mesta martröð foreldra

Í starfi sem sálfræðingur hef ég komið að ótal eineltismálum og skrifað bókina EKKI MEIR (bók um eineltismál) auk tugi greina um eineltismál. Engin tvö mál eru eins.

Algengast er að börn séu lögð í einelti í skólanum eða þar sem þau koma saman til að stunda áhugamál sín. Skólar, íþrótta- og tómstundafélög sem leggja áherslu á forvarnir og hafa vel útfærða verkáætlun, auk eineltisteymis ná iðulega árangri við lausn eineltismála. Sjá má allar upplýsingar um viðbrögð við einelti á heimasíðu margra skóla, tilkynningareyðublað og upplýsingar um hverjir skipa eineltisteymi.

Skólar sem eru vanbúnir skortir oft heildarsýn, samfellu og hreinlega úthald í vinnslu eineltismála. Það er tækifæri  til að leysa eineltismál fljótt og vel ef gripið er inn í strax með faglegum hætti. Fái málið að krauma verður það flóknara og erfiðara að leysa. Mikilvægt er að fylgja málum eftir til þess að tryggja að eineltinu ljúki endanlega.

Foreldrar þolenda og gerenda

Það er sársaukafullt þegar barn manns er lagt í einelti. Foreldrar finna til vanmáttar, reiði og sorgar. Flækjustigið verður enn meira þegar gerendur eru margir og ekki eingöngu úr nærumhverfinu (skóla eða íþróttafélagi) heldur einnig krakkar úr öðrum hverfum. Skaðsemi eineltis getur lifað með þolandanum ævilangt. Sumir þolendur ná sér einfaldlega aldrei.  Útilokað er að vita með vissu hversu mörg börn hafa svipt sig lífi vegna óbærilegs lífs sem einkennst hefur af einelti og ofbeldi.

Það er ekki síður áfall fyrir foreldra að fá upplýsingar um að barnið þeirra leggi önnur börn í einelti. Þá hefst glíma við alls konar tilfinningar. Foreldrar vilja vernda barnið fyrir ásökunum en jafnframt vita þau að horfast verði í augu við vandann reynist ásakanir réttar. Einstaka foreldrar bregðast illa við og festast í varnarstöðu. Flestir foreldrar vilja að gengið sé strax í málið og eru tilbúnir að taka fullan þátt í úrvinnslunni.

Börn sýna oft ólíka framkomu og hegðun í skóla en heima. Barn sem er gerandi eineltis og sýnir viðvarandi ofbeldishegðun gagnvart öðrum þarf aðstoð með sína vanlíðan og vandamál til að hægt sé að lágmarka hvöt þess til að leggja í einelti. Foreldrar eru færastir í að grafast fyrir um orsakir þess að barnið finni hjá sér hvata til að meiða önnur börn. Leita þarf orsaka fyrir hegðunina og finna leiðir til hjálpar. Án þátttöku foreldra í úrvinnslunni er ekki hægt að bæta aðstæður barnsins.
Hafa skal það í huga þegar rætt er um einelti að börn geta einn daginn verið í hlutverki geranda og þann næsta í hlutverki þolanda.

Á þessari vakt má aldrei sofna

Sem samfélag eigum við að gera kröfu um að allir staðir þar sem börn koma saman til náms, íþrótta og tómstunda skuli hafa tiltæk verkfæri aðgengileg á heimasíðu: skýra stefnu, viðbragðsáætlun og eineltisteymi. Ganga þarf strax í mál sem upp koma og fylgja því eftir eins lengi og þörf krefst. Reglubundnar forvarnir skipta sköpum ef takast á að lágmarka að mál af þessu tagi komi upp.

Barn á ávallt að njóta vafans. Þegar það segir frá ofbeldi á að trúa því.  Ef ábyrgur aðili segir foreldri að barnið þess sé að leggja annað barn í einelti verður líka að trúa því. Könnun mun leiða í ljós staðreyndir málsins og þá er hægt að gera áætlun um úrlausn og hvernig eftirfylgni skuli háttað.

Ekkert foreldri á að þurfa að standa í þeim sporum að geta ekki verndað barnið sitt.  Á þessari vakt eigum við að standa sem einn maður og aldrei má sofna. Öll börn eiga rétt á að líða vel.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt í Fréttablaðinu á Degi gegn einelti 8. nóvember 2022