Ár hvert er 8. nóvember helgaður baráttunni gegn einelti hér á landi. Þessum degi ber að fagna en þó skal ávallt hafa í huga að umræða um góða samskiptahætti á að vera í gangi allt árið. Öðruvísi skilar hún sér ekki til lengri tíma. Sé aðeins um átak að ræða má ætla að hlutirnir falli fljótt í sama farið aftur.
> ATH! Skoðaðu líka greinina Hvernig stöndum við í eineltismálunum? eftir Kolbrúnu Baldursdóttur
Hvað er hægt að gera 8. nóvember til að brjóta upp daginn og heiðra góða samskiptahætti? Til dæmis að vera með stutta fræðslu fyrir krakkana og aðlaga hana eftir aldri og þroska eða bjóða foreldrum upp á fræðslu þar sem sérstaklega er farið í þeirra hlutverk og ábyrgð. Hægt er að láta börnin vinna í hópum og þá umfram allt telja í hópana af handahófi. Verkefnið er að þau komi sjálf með innlegg, hugmyndir og tillögur. Dæmi:
- Ræða hvað er hópandi í þeirra huga og þeirra upplifun á hópanda (móral, menningu)
- Hvað telja þau að hægt sé að gera til að byggja upp góðan hópanda og viðhalda honum?
Eins má para börnin saman og gera verkefni tvö og tvö, t.d. skiptast á vera spyrlar, tala um hvað séu góð samskipti og ekki góð samskipti. Einhver hópur gæti samið leikþátt, annar gæti búið til látbragðsleik
Minna þarf á að það er krafa um góða framkomu þótt viðkomandi séu ekki vinir, það geta ekki allir verið vinir/bestu vinir en það eru engir óvinir og góð framkoma er skilyrði án tillits hvernig þau hugsa um hvert annað eða hvernig þeim kann að líka við hvert annað.
Lesa sögur, vinasögur, klípusögur um hegðun og framkomu, nýta dæmisögur sem til eru
Eins má lesa úr EKKI MEIR, kaflana Ttalað til geranda og þolanda, láta þau lesa í litlum hópum
Fara saman yfir bekkjareglurnar, vilja þau bæta við reglu, finnst þeim einhver regla asnaleg o.s.frv.?
Sýna myndir úr EKKI MEIR í skjávarpa, skoða andlitssvipina og ræða út frá þeim. Þetta hentar vel fyrir þau yngslu. Láta þau segja sér hvað andlit barnanna á teikningunum eru að segja.
Nota öll þau mýmörgu myndbönd sem til eru í þessum málaflokki.