You are currently viewing Þolendur eineltis

Þolendur eineltis

Þolendur eineltis og kynferðislegs áreitis eru á öllum aldri. Ef litið er til barna eru þó nokkur einkenni sem algengt er að finna hjá þolendum eineltis. Oft er um að ræða börn sem eru dugleg og samviskusöm, góðir námsmenn og ljúfir og prúðir í framkomu. Þetta eru oft börn sem koma frá góðum heimilum og hafa fengið gott atlæti. Sama gildir um fullorðna þolendur. Þetta er fólk sem oft er með allt sitt á hreinu, njóta aðdáunar/athygli ákveðins hóps á staðnum, eru vandvirkir og geta vel unað án þess að vera miðpunktur hópsins. Það er einmitt vegna þessara eiginleika sem þeir vekja öfund hjá þeim sem af einhverjum ástæðum eru verr settir andlega og finnst lífið hafa meðhöndlað sig á ósanngjarnan hátt.

Þolendur eineltis geta þó líka verið þeir sem eru á einhvern hátt lítilsmegnandi í lífinu, hafa ekki góða stjórn á sínu lífi, eru daufir, afsakandi í háttum, vilja þóknast og virðast ávallt búast við hinu versta. Hér er um að ræða „fyrirgefðu að ég skuli vera til“ líðan. Þetta er fólk sem oft er með allt sitt á hreinu, njóta aðdáunar/athygli ákveðins hóps á staðnum, eru vandvirkir og geta vel unað án þess að vera miðpunktur hópsins.

Fullorðnir þolendur eineltis eru oft einstaklingar sem vilja öðrum yfirleitt vel, eru ekki vanir að troða sér upp á aðra, eru ekki dómharðir eða gagnrýnir að eðlisfari. Sumir vilja meina að finna megi í fullorðnum þolendum eineltis barnalegt traust til umhverfisins og segja jafnvel að þeir séu „einfaldir“ eða barnslega einlægir í framkomu. Þeir vænta þess oft að annað fólk sé í eðli sínu gott og skynja því ekki strax þegar komið er fram við þá af hæðni eða þeir lítillækkaðir. Eftir því sem reynslan kennir þeim að ekki er víst að hægt sé að treysta öllum breytist þetta vissulega og snýst jafnvel alveg við þegar afleiðingar langvarandi eineltis eru farnar að segja til sín.

Hvort heldur barn eða fullorðinn eru þeir sem hafa eftirfarandi einkenni oft í áhættuhópi þeirra sem lagðir eru í einelti:

 • Þeir sem eru með áberandi séreinkenni
 • Sérstakir í háttum, tali, hegðun og framkomu
 • Hafa sérstök áhugamál, venjur eða siði
 • Skera sig úr að einhverju öðru leyti
 • Eiga við veikindi eða fötlun að stríða
 • Hafa lent í áföllum í lífinu og bera þess merki
 • Viðkvæmir, litlir í sér
 • Eru með hjálpartæki
 • Glíma við offituvanda
 • Eru brenndir af fyrri reynslu eineltis og eru þar af leiðandi fljótir í sjálfsvörn
 • Hafa vegna fyrri reynslu tilhneigingu til að sýna ofurviðbrögð, oftúlka tjáskipti og eiga auðvelt með að misskilja

Fordómar eru enn í samfélaginu í garð þeirra sem segjast hafa verið lagðir í einelti. Þeir lýsa sér t.d. þannig að fólk sem jafnvel þekkir lítið eða ekkert til málsatvika hefur tilhneigingu til að álykta að sökin sé að hluta til, jafnvel heilmikið þolandans sjálfs. Þolandinn endurspeglar fordómana með því að upplifa skömm og sektarkennd. Fordómar í garð þolandans skýra að einhverju leyti af hverju vandamál af þessu tagi hefur tilhneigingu til að vera falið. Þolandinn álítur sem svo að það kunni að stríða gegn hagsmunum hans ef eineltið fréttist. Sjálfur er hann stundum farinn að líta á sig sem ómögulega manneskju, leiðinlega og óspennandi. Þolandinn reynir stundum sjálfur að afneita eineltinu og telja sér trú um að þetta sé nú ekki svo slæmt, að gerandinn (gerendurnir) séu í raun ágætis fólk o.s.frv. Þolandinn óttast oft að komist eineltið í hámæli verði hann álitinn vandræðaseggur og með því kunni möguleikar á seinni tíma ráðningu eða öðrum samskiptum að skerðast.

Ef ástandið er viðvarandi og ekki útlit fyrir að tekið verði á málum sannfærist þolandinn enn frekar í að hann beri einhverja ábyrgð á að svona sé komið fram við hann. Sjálfsmat hans skaðast æ meir og óöryggi eykst. Þolandi eineltis til langs tíma er oft orðinn mjög brotinn andlega, hann er auðsæranlegur og tapar niður færni sinni að meta umhverfið og viðbrögð fólks í sinn garð. Einstaklingur sem á orðið erfitt með að skynja og lesa umhverfi sitt vegna langvarandi niðurbrots hefur frekar tilhneigingu til að misskilja eða oftúlka skilaboð. Þetta nýtir gerandinn (gerendurnir) sér stundum og bendir á að ,,þolandinn eigi nú líka einhverja sök eða sé í það minnsta samábyrgur”.
Afleiðingar eineltis eru flestum kunnar. Ef þolandinn er látinn fara úr vinnu eða telur sig knúinn til að yfirgefa vinnustaðinn er bataferillinn lengri. Hann er fullur efasemdar um sjálfan sig auk þess sem hann hefur misst atvinnu sína. Í raun velta örlög þolandans hvað mest á persónustyrk hans, stuðning fjölskyldu og þeirri trú að honum sé ekki alls varnað.