You are currently viewing Fátækt er ógn við íslensk börn

Fátækt er ógn við íslensk börn

Þar er smánarblettur á okkar auðuga samfélagi hve margir búa hér við sára fátækt. Þeirra á meðal eru aldraðir sem er nauðugur einn kostur velja á milli þess hvort þeir kaupa sér mat eða lífsnauðsynleg lyf, einstæðir foreldrar sem verða að gera upp við sig hvort þeir hafa efni á því að greiða orkureikninginn eða fara til tannlæknis og veikt fólk sem verður smám saman úrkula vonar í því fúafeni fátæktarinnar sem íslenska kerfið er. Fórnarlömb fátæktar eru ekki síst börn sem vegna fjárskorts foreldra geta ekki stundað þær íþróttir sem þeim langar að stunda eða sinna öðrum áhugamálum. Áætlað er að um eða yfir 10% íslenskra barna búi á heimilum þar sem tekjur eru undir lágtekjumörkum.

Sláandi skýrsla Barnaheilla

Í nýlegri skýrslu Barnaheilla um fátækt meðal barna er dregin um dökk mynd af vaxandi barnafátækt í Evrópu. Ísland er þar ekki undanskilið. Bent er á að auka þurfi hér jöfnuð innan menntakerfisins og tryggja börnum húsnæðisöryggi svo dæmi séu nefnd. Þá þurfi að móta opinbera áætlun um hvernig eigi að uppræta fátækt meðal barna hér á landi. Slík stefna er nefnilega ekki til þó að ótrúlegt megi virðast. Ógn fátæktarinnar leggst mismunandi á fjölskyldur en verst á börn einstæðra foreldra, börn foreldra sem eru á örorkubótum, börn með fötlun, börn innflytjenda og börn sem tilheyra fjölskyldum með erfiðar félagslegar og efnahagslegar  aðstæður.

Ójöfnuður hefur aukist vegna atvinnuleysis foreldra í COVID og framtíðarhorfur eru óljósar. Ástandið hefur tekið toll af andlegri heilsu margra barna. Tilkynningar um vanrækslu hafa aukist um 20%, ofbeldi um og yfir 23% sem og áhættuhegðun barna um 23%. Um 22% foreldra segjast ekki geta greitt skólamat fyrir börnin sín og um 19% segjast ekki geta greitt fyrir íþróttir eða tómstundir barna sinna. Húsnæðisaðstæður margar barna eru ótryggar. Húsaleiga er einn stærsti útgjaldaliður fjölskyldunnar eða um 70% af ráðstöfunartekjum. Þetta leiðir til þess að fátækir foreldrar leita skjóls í húsnæði sem er óviðunandi og jafnvel hættulegt.

Aðgerðir strax!

Flokkur fólksins vill að gripið verði tafarlaust til sértækra og  markvissra aðgerða í þágu barna. Efla þarf félagslegan stuðning við börn og unglinga sem eru jaðarsett, félagslega útskúfuð. Til að ná þessu þarf að setja fram skýra stefnu í samræmi við ákvæði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þar er m.a. kveðið á um hvernig uppræta eigi vítahring fátæktar, þannig að öll börn fái notið þjónustu til að rækta hæfileika sína. Þetta er stærsta verkefni borgarstjórnar og Alþingis. Öll börn eiga að fá notið stuðnings,  hvatningar og þjónustu til að þroskast og njóta sín í lífinu og að fá sjálf tækifæri til að taka þátt í að leggja grunn að menntun sinni og farsæld sinni til framtíðar eins og kostur er.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur

Birt í Fréttablaðinu 24.11. 2021