Fjölgun neyslurýma – Ræða

 

  1. löggjafarþing — 13. fundur,  11. mars 2025.

Ávana- og fíkniefni – fjölgun neyslurýma

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. heilbrigðisráðherra, Ölmu D. Möller, fyrir þetta góða frumvarp. Í tilefni þess fór ég að rifja upp að fyrir nokkrum árum kom þetta hugtak, neyslurými, fyrst inn í okkar samfélag. Maður þurfti svona aðeins að hugsa út á hvað þetta gekk og auðvitað voru ýmsir sem fannst þetta algerlega út í hött og skildu ekki að það ætti að vera að búa til eitthvert rými fyrir fólk til þess að skaða sig. En sem betur fer þá höfum við öll séð hversu ótrúlega gott úrræði þetta er, enda sennilega búið að bjarga mörgum mannslífum og jafnvel hjálpa fólki til að komast til heilbrigðara lífernis þó svo að við séum kannski ekki með neinar tölur um það. En hér er um að ræða frumvarp sem lýtur annars vegar að því að heilbrigðisstofnunum og frjálsum félagasamtökum verði veitt sama heimild og sveitarfélög hafa nú til að stofna og reka neyslurými og hins vegar að heimila 18 ára og eldri að nota vímuefni í neyslurýmum óháð neysluaðferð. Þetta tvennt er bara gríðarlega mikilvægt.

Við vinnslu frumvarpsins var síðan tekin ákvörðun um að leggja til að heimilt væri að nota efni með hverjum þeim hætti sem talinn væri skaðaminni en það að sprauta þeim í æð. Og það mætti segja: Skárra væri það nú því að þarna er um tvær ólíkar aðferðir að ræða og þessi aðferð að sprauta efni í æð er náttúrlega mun hættulegri heldur en nokkurn tímann það að reykja, myndi ég halda. Í núgildandi lögum er aðeins gert ráð fyrir einni notkunarheimild vímuefna sem er að sprauta efnum í æð svo að það var afar brýnt að losa um þetta. Það sem mér þykir líka gott við þetta er að þarna eru teknar til greina ábendingar frá fulltrúum frjálsra félagasamtaka sem hafa gríðarlega mikla þekkingu og reynslu af þessum málum, um að heimilt verði að nota vímuefni í neyslurými án þess að notkunaraðferð sé tilgreind, enda er það líka bara mjög erfitt að ætla að fara að fetta fingur nákvæmlega út í þetta í hvert sinn.

Þessi breyting er í samræmi við ábendingar frá félagasamtökum eins og Afstöðu, félagi fanga, og Rauða krossinum á Íslandi. Á grundvelli reynslu skaðaminnkunarúrræðanna Ylju og Frú Ragnheiðar, sem við þekkjum vel nú orðið, hefur komið í ljós þetta breytta neyslumynstur fólks. Fólk velur m.a. núna að reykja tiltekin efni fremur en að sprauta þeim í æð og sagt er að það sé í sjálfu sér skaðaminnkandi af því að það er talið draga úr hættu á sýkingum. Það er þetta með sprautunálarnar, það er alveg aukaáhætta vegna sýkingarhættu.

Markmiðið er að mæta þörfum jaðarsettra einstaklinga um allt land og draga úr líkum á skaða sem þeir verða auðveldlega fyrir þegar efni eru notuð, eins og segir í frumvarpinu. Við erum búin að sjá það í gegnum tíðina, þó að það sé ekki kannski margra ára reynsla þá er samt sem áður búið að sýna fram á að aðgangur fólks að öruggu rými til fíkniefnanotkunar dregur úr líkum á ofskömmtunum og öðrum skaða.

Þar sem heimild til að reka neyslurými er lögbundin er ekki unnt að gera breytingar með öðrum hætti en lagabreytingum og því kemur ekki til greina að breyta framkvæmdinni t.d. með reglugerðarsetningu. Þannig að verði ekkert aðhafst getur það leitt til þess að færri neyslurými verði opnuð en ella í ljósi þess að sveitarfélög ein hafa heimild til þess. Og þarna eru félagasamtökin að koma sterkt inn.

Ef við horfum á sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins þá gætu þau mögulega veigrað sér við að opna neyslurými þrátt fyrir þörf vegna smæðar sinnar, en heilbrigðisstofnanir gætu hins vegar vel nýtt bæði húsnæði og mannauð sem þær hafa nú þegar yfir að ráða. Þá eru vísbendingar um að skaðaminnkandi inngrip virki best þegar þau eru aðgengileg í nærumhverfi fólks. Margir einstaklingar með langvarandi vímuefnavanda eru í eftirfylgd hjá heilbrigðisstofnunum og væri því ákjósanlegt að stofnununum væri heimilt að opna neyslurými sem gæti nýst sem einn þáttur í heildrænu þjónustuframboði til að mæta betur fjölþættum þörfum einstaklinganna. Þannig má sjá hvað heilbrigðisstofnunin út af fyrir sig getur í rauninni gert mikið bara í krafti stöðu sinnar. Þess utan getur það verið skaðlegra ef jaðarsettur hópur sem sækir í neyslurými getur ekki notað vímuefni með öðrum notkunaraðferðum en að sprauta þeim í æð. Þannig að hvernig svo sem litið er á þetta frumvarp, eins og þetta er samt sem áður erfiður málaflokkur, þá er þetta allt jákvætt.

Ef maður bara horfir á það sem skiptir í rauninni öllu máli í þessu þá er það spurningin um aðgengi og það að reyna að mæta fólki, auðvitað ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur úti á landsbyggðinni og að stjórnvöld leiti leiða til að auka þjónustu við það fólk sem notar vímuefni og telur þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu þannig til bóta fyrir þennan hóp. Með þessu frumvarpi eykst aðgangur fólks að öruggu rými til að nota vímuefni en sýnt hefur verið fram á að neyslurými draga úr ofskömmtunum. Og nú erum við ekki að tala bara um höfuðborgarsvæðið heldur mögulega úti um allt land eftir því hvar heilbrigðisstofnanir eru staðsettar og síðan hvar frjáls félagasamtök eru með sínar grunnstöðvar.

Ég tel að með þessum lögum sé tekið skref í átt að bættri skaðaminnkun og þjónustu fyrir einstaklinga sem eiga við alvarlegan fíkniefnavanda að stríða. Við erum komin á þann stað að vilja taka utan um þetta fólk. Það er liðin tíð eins og var á árum áður, alla vega man ég eftir að þegar ég var alast upp og var unglingur þá var auðvitað horft á þessi mál með allt öðrum augum, en sem betur fer erum við komin langt frá öllu svona neikvæðu viðhorfi. Þarna er um sjúkdóm að ræða og það þarf að gera allt til að hjálpa fólki til að eiga góða stund og lifa lífinu eins vel og það getur þrátt fyrir gríðarlega erfiða stöðu hjá mörgum fíkniefnaneytendum. En eins og hefur komið fram þá þyrfti auðvitað að móta heildstæða stefnu um fíknivanda til að neyslurými verði hluti af samræmdri nálgun við skaðaminnkun og það er spurning um meðferðarúrræði, meðferð, viðtalsmeðferð og samfélagslega vernd fyrir þennan svo mjög viðkvæma hóp einstaklinga.