Fleiri lán – nú erlent lán

Afkoma A-hluta Reykjavíkurborgar á árinu 2023 er ennþá óásættanleg þó hún hafi aðeins skánað. Rekstrarreikningur er með 5.0 milljarða halla. Lausaskuldir hafa hækkað um 6,5 milljarða milli ára eða um 20%. Langtímaskuldir A-hluta hækka á milli ára um nær 15 milljarða eða um rúm 15% milli ára. Borgin hefur á undanförnum árum þurft að taka lán fyrir hluta rekstrarútgjalda, öllum afborgunum lána og síðan öllum fjárfestingum.

Taka á erlent lán

Áfram heldur lántakan, nú á að taka erlent lán. Reykjavíkurborg hyggst taka evrulán hjá Þróunarbanka Evrópu CEB, The Council of Europe Development Bank. Lánsupphæðina á að nota í viðhald og endurbætur í skólum vegna raka- og mygluskemmda.

Flokki fólksins finnst það nokkuð undarlegt að CEB sé að veita lán í almennt viðhald og endurbætur á skólum í Reykjavík. Markmið þessa banka er eftir því sem næst kemst að fjárfesta í fólki og styrkja mannauð og styrkja og efla lifandi umhverfi í samfélögum sem eiga undir högg að sækja. Það er spurning hvernig Reykjavíkurborg hefur skilgreint sig til að fá aðgengi að láni hjá bankanum til að fjármagna viðhald vegna myglu. Markmið bankans virðast því ekki að neinu leyti hafa snertiflöt við almennar viðhaldsframkvæmdir mannvirkja hjá sveitarfélögum. Viðhald er skilgreint sem venjubundið verkefni sveitarfélaga sem bera ábyrgð á mannvirkjum sínum.

Það hefur lengi verið viðtekin almenn þumalfingurregla að það eigi ekki að taka lán í öðrum gjaldmiðli en lántakinn fær tekjur sínar í. Sveitarfélög eigi því almennt ekki að taka erlend lán. Reynslan hefur sýnt að þetta getur verið tvíbent. Stundum hefur reynst hafa verið hagfellt að taka erlend lán, en í öðrum tilfellum hefur það reynst mjög dýrt. Hafnarfjörður var t.d. kominn með stærstan hluta lána sinna í erlend lán fyrir hrunið og það reyndist þeim afar erfitt.

Vandanum rúllað á undan sér

Það segir sína sögu um stöðu viðhalds framkvæmda og fjármála hjá borginni að það skuli þurfa að fara í svo mikla lántöku til að fjármagna almennt viðhald. Almennt viðhald á að fjármagna úr almennum rekstri. Ef það er ekki hægt þá er eitthvað að í rekstrinum. Málið er að viðhald á eignum borgarinnar hefur verið vanrækt árum saman. Sú lántaka sem hér um ræðir þýðir ekkert annað en að verið að færa fjárhagslegar byrðar inn í framtíðina.
Þessi lántaka mun þýða að afborganir lána munu hækka enn frekar á komandi árum og er þá hæpið að veltufé frá rekstri muni nægja til að standa undir afborgunum lána.

Hér er um skýrt merki þess hversu slæm fjárhagsstaða borgin er í að hún skuli þurfa að leita til Þróunarbanka Evrópu til að fjármagna almennt viðhald mannvirkja í sveitarfélaginu. Borgin hefur ekki lengur lánstraust hér, hún vekur ekki áhuga þeirra sem eru á markaðnum.

Það sem er kannski stóra málið í þessu öllu saman er að ef heldur sem horfir þá verður að skera hressilega niður og spara hvort sem menn vilja eða ekki. Flokkur fólksins óttast mest að niðurskurðarhnífnum verði helst beitt á þjónustu við þá sem minnst mega sín, okkar viðkvæmustu hópa. Það höfum við séð oft áður hjá þessum og síðasta meirihluta.