Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2024 Ræða

  1. löggjafarþing — 5. fundur,  13. feb. 2025.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið 2024.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir (Flf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu Íslandsdeildar EFTA og EES fyrir árið 2024. Umræðan hefur reyndar farið dálítið út fyrir þá ágætu skýrslu frá 2024 því að umræðan hefur kannski verið frekar í núinu og þá um það hvert við erum að stefna. Eins og fram hefur komið á ég sæti í þessari ágætu Íslandsdeild EFTA og EES. Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í alþjóðastarfi og ég hlakka mjög mikið til. Þetta verður virkilega áhugavert og skemmtilegt.

Ég er aðallega komin hingað upp vegna þess að nafn Flokks fólksins hefur hljómað hér af og til, sérstaklega hjá fulltrúum stjórnarandstöðunnar, og þá er svolítið verið að víkja að því hvernig skoðanir okkar í Flokki fólksins hafi umbyltst skyndilega frá því fyrir kosningar. Þetta er reyndar svolítið kjarninn í ræðum fulltrúa stjórnarandstöðunnar sem eru að koma hér upp undir ýmsum málum, að það merkilega sem hafi gerst sé að það hafi orðið einhvers konar umbylting á því sem sagt var fyrir og eftir kosningar. En eins og við vitum og búið er að fara rækilega í og svara þá er farið í málamiðlanir þegar fólk sest við samningaborðið og gert er samkomulag. Þá þurfa auðvitað allir eitthvað pínulítið að tóna sig upp eða niður.

Við erum einhvern veginn öll sammála um gildi og ágæti EES-samningsins. Það er ágætt að heyra að það er alla vega enginn sem vill hann út. En við erum að sjálfsögðu bara hér og nú að stefna að því í þessum meiri hluta að spyrja þjóðina hvað henni finnist um að skoða aftur þann möguleika að sækja um inn í Evrópusambandið. Það er það sem mér finnst skipta öllu máli núna, að heyra í fólkinu, heyra í þjóðinni, heyra hvað fólki finnst. Hvað hefur t.d. breyst síðustu árin? Við erum búin að ræða þessi mál í mörg ár og það getur verið að það sé kominn allt annar tónn núna. Það sem er svo forvitnilegt er að fá upplýsingar út úr svona spurningu til þjóðarinnar. Ég er talsmaður þess að heyra sem mest í fólkinu og hafa sem mest og best samráð við fólk þegar verið er að taka stórar ákvarðanir. Þannig að hvaðeina sem hverjum og einum finnst síðan innst inni í sínu hjarta, hvort sem hann opinberar það eða ekki, um það hvort ganga eigi í Evrópusambandið, það er bara ekki málið nákvæmlega núna heldur er það að afla upplýsinga og heyra ofan í þjóðina. Það er það sem ég bíð spennt eftir. Við erum reyndar ekki alveg að fara í það í hvelli en stefnt er að því að hafa slíka könnun á kjörtímabilinu. Ég held að við verðum bara dálítið að bíða og sjá hvað kemur út úr því og taka eitt skref í einu sem er gott að gera þegar um stórmál er að ræða; gæta þess að öll mál verði vandlega rannsökuð, upplýsinga aflað, heyrt í öllum. Svona ákvörðun er risastór og ég veit svo sem ekki hvað það skiptir miklu máli að við séum einhvern veginn að takast á um það hér í þessum mæli.

Núna ætluðum við reyndar að ræða þessa skýrslu, og það er svo sem búið að gera það vel, en alls ekki að eyða tíma í það hvað Flokkur fólksins sagði fyrir kosningar versus eftir kosningar. Það skiptir akkúrat engu máli í þessu samhengi.