Hlutverk umsjónarkennara í eineltismálum

Ef gluggað er í eldri bækur/skrif sem fjalla um einelti í skólum má víða lesa að kennurum er ætlaður stór þáttur, ekki bara í úrvinnslu eineltismála, heldur einnig forvörnum og eftirliti. Þegar bera fór á umræðunni um einelti hér á Íslandi var ábyrgðin á málaflokknum að mestu sett á herðar umsjónarkennara. Í þessari stuttu grein langar mig að færa rök fyrir því af hverju ábyrgð á úrvinnslu eineltismála ættu ekki að vera á herðum umsjónarkennara.

Enda þótt flestir kennarar hafi víðtæka þekkingu á eineltismálum er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að þeir beri meginábyrgð á úrvinnslu þeirra. Verksvið kennara er í grunninn viðamikið og er hlutverk þeirra fjölþætt. Ásamt því að halda utan um bekki, oft stóra, og gæta þess að sérhvert barn sé að njóta sín í skólastofunni er hlutverk þeirra einnig að vera í og viðhalda góðu sambandi við foreldra frá einu ári til annars. Það eru fyrst og fremst hagsmunir barnanna að skóli og heimili séu í nánu og reglubundnu sambandi bæði í gegnum mentorkerfið en einnig með því að ræða saman svo best sé hægt að uppfylla þarfir og væntingar barnanna í skólanum á hverjum tíma. Gott samstarf og samvinna er lykillinn að farsælli skólagöngu sérhvers barns.

Úrvinnsla eineltismála ætti ekki að vera á herðum umsjónarkennara.

Eineltisteymi grunnskóla

Í flestum skólum eru eineltisteymi sem taka við tilkynningum um einelti og sinna úrvinnslu mála eftir ákveðnu aðgerðarplani enda hefur það fyrirkomuleg reynst vel.

Kostir þess að hafa teymi eru:

  • Erfitt er fyrir einn aðila að bera alla ábyrgð á vinnslu erfiðs eineltismáls
  • Auðveldara er að varðveita reynslu og þekkingu milli ára
  • Teymið fær tækifæri til að sérhæfast og aðilar handleiða hvern annan innbyrðis

Dæmi um það hverjir sitja í eineltisteymi skóla:

  • Námsráðgjafi
  • Skólasálfræðingur
  • Deildarstjórar yngri/eldri deildar eftir því sem við á eða deildarstjóri sérkennslu
  • Aðstoðarskólastjóri
  • Sérkennari

Skólastjóri ber vissulega höfuðábyrgð og fylgist með málum sem teymið fær til úrvinnslu. Bakland teymisins er oftar en ekki Nemendaverndarráð.

Margir kostir eru við það að stilla ekki umsjónarkennara í fremstu röð þeirra sem vinna við úrlausn erfiðra eineltismála. Þetta á sérstaklega við í kvörtunarmálum sem fyrirsjáanlegt er að halda þurfi fundi og hafa viðtöl við marga sem koma að málinu. Fyrst skal nefna að aðilar máls eru í mörgum tilvikum í sama bekk og getur það því verið erfitt fyrir umsjónarkennarann að þurfa að sitja fundi og viðtöl vegna flókins eða alvarlegs eineltismáls. Á sama tíma þarf hann að sinna kennslu barnanna og viðhalda jákvæðu sambandi og tengslum við foreldra nemenda sinna. Enda þótt umsjónarkennari eigi ekki sæti í eineltisteymi skóla er ávallt hægt að kalla eftir upplýsingum frá honum og þegar kemur að eftirfylgni er hlutverk umsjónarkennara hvað ábyrgðarmest. Ef umsjónarkennari finnur innra með sér að honum líður ekki vel með að vera sá sem dregur vagninn í þungu eineltismáli þar sem aðilar eru nemendur hans er mikilvægt að virða það.

Hlutverk kennara

Hvað varðar eineltismál er hlutverk kennara þríþætt. Þeir sinna ásamt námsráðgjafa og skólasálfræðingi forvörnum, kenna lífsleikni, og annast eftirlit og eftirfylgni með samskiptum barnanna inn í skólastofunni. Ef horft er sérstaklega til forvarna og lífsleikni liggur í hlutarins eðli að umsjónarkennarar ræði oft og iðulega um hegðun og framkomu við börnin. Umsjónarkennarar ræða gjarnan almennt um góða samskiptahætti, birtingarmyndir eineltis og ítreka við börnin að taka ekki þátt í eineltishegðun eða vera þögul vitni slíkrar hegðunnar. Það kemur einnig til kasta umsjónarkennara að fylgjast með hegðun og framkomu barnanna inn í skólastofunni og sjá til þess að sérhvert barn upplifi sig öruggt. Hafi kvörtun borist um einelti barna í sama bekk er auga umsjónakennarans enn vökulla. Komi upp vandamál hjá börnunum í skólanum hvort sem það er eineltisvandi eða annar eru það oftast umsjónarkennararnir sem hafa heildstæðustu sýnina af aðstæðum, aðdraganda og eftirmála. Umsjónarkennarinn þekkir sinn bekk best, þekkir persónugerð barnanna, hegðun þeirra og framkomu og samspil þeirra á milli. Það eru þess vegna kennararnir sem geta gefið nákvæmustu upplýsingarnar sem nýtast við úrvinnslu mála eins og eineltismála.

Mál sem upp koma í skólum af þessum toga eru afar mismunandi og eins misjöfn og þau eru mörg. Útilokað er að gefa úrvinnsluuppskrift sem hentar við lausn allra mögulegra afbrigða eineltismála sem upp kunna að koma. Við lausn mála þarf þess vegna að taka mið af fjölmörgum þáttum, s.s.:

  • Börnunum sem hlut eiga að máli, aldri og kynnum af þeim í skólanum
  • Foreldrunum, kynnum af þeim, áhuga þeirra á skólagöngu barna sinna og tengslum þeirra við skólann
  • Alvarleika eineltishegðunarinnar
  • Hvort um sé að ræða nýtt mál eða endurtekna hegðun
  • Á hvaða stigi (í ferlinu) mál er
  • Margt fleira

Í sumum málum eru aðstæður þannig að það nægir að grípa inn í með óformlegum hætti. Til dæmis gæti dugað að kennari skerpi sérstaklega á samskiptareglum við börnin og minni þau á hvaða framkoma er ekki liðin. Stundum dugar að að námsráðgjafi ræði við aðila og foreldra eða að boða foreldra á fund t.d. ef vísbendingar eru um að eldra mál sé að taka sig upp að nýju. Í öðrum tilvikum gæti átt betur við að skólastjóri veiti barni/börnum tiltal, áminni þau um að gæta að hegðun sinni og framkomu og svona mætti lengi telja. Meðalhóf gildir í þessum málum eins og öðrum og óþarfi er að fara offari í máli ef hvorki efni né ástæður eru til.