Í kjölfar eldgossins í Heimaey í Vestmannaeyjum 1973 flúðu nær allir íbúar eyjunnar upp á land. Þetta eldgos átti síðar eftir að hafa það í för með sér að hluti íbúa eyjarinnar snéru ekki aftur en fundu sér ný heimkynni til framtíðar. Eitt af því sem Íslendingar gerðu þá til að mæta bráðum húsnæðisvanda Eyjamanna var að fá Viðlagasjóð til að kaupa til landsins 550 timbureiningahús í skandínavískum stíl sem smíðuð voru á Norðurlöndum og í Kanada og voru reist á um 20 stöðum á landinu. Byggt var m.a. í Breiðholti, nánar tiltekið við Keilufell, þar sem reist voru 40 sænsk hús. Í dag er þetta hverfi rómantískt og skemmtilegt hverfi lítilla einbýlishúsa sem sómi er af í borgarlandinu.
Grindavík
Nú bregður svo við að vegna jarðhræringa og eldgosavá á Reykjanesi hefur þurft að rýma alla Grindavík og ekki er vitað hvenær og þá yfir höfuð hvort hægt sé að snúa til baka. Grindvíkingar eru því í bráðri þörf fyrir nýtt heimili hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma og það sem allra fyrst.
Flokkur fólksins leggur til að meirihlutinn í borgarstjórn sýni frumkvæði í því að finna Grindvíkingum sem þess óska ný heimkynni í Reykjavík m.a. með því að reisa einingahús sambærileg þeim sem reist voru í kjölfar eldgossins í Heimaey 1973. Reykjavíkurborg hefur skipulagsvaldið. Lagt er til að fundnar verði lóðir til að reisa viðlagasjóðshús í hverfum þar sem innviðir eru fyrir hendi og sem þola fólksfjölgun.
Flokkur fólksins sér fyrir sér að fólk sem átti lögheimili í Grindavík við upphaf rýmingar bæjarins þann 14. nóvember 2023 muni eiga forkaupsrétt á þessum húsum. Hér er þó um útfærsluatriði að ræða. Ekki er í þessari tillögu farið nánar út í gerð húsanna að öðru leiti en að til verkefnisins yrðu valin hús sem smíðuð yrðu eftir útlitsteikningum sem nú þegar eru til hjá erlendum framleiðendum slíkra einingahúsa svo ekki færi of langur tími eða kostnaður í hönnun og teiknivinnu.
Með því að hugsa hratt og framkvæma í kjölfarið getur borgarstjórn lyft Grettistaki í húsnæðismálum fyrir Grindvíkinga og auðvitað aðra sem eru í húsnæðisvanda.
Borgarstjórn getur með því að samþykkja þessa tillögu Flokks fólksins sýnt að hægt er að vinna saman og láta hendur standa fram úr ermum þegar á móti blæs. Borgarfulltrúi Flokks fólksins trúir því að um þetta geti skapast þverpólitísk samstaða. Nú er svo sannarlega þörf á því.
Rúnar Sigurjónsson skipar 5. sæti á lista Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur
Birt í Morgunblaðinu 13. febrúar 2024